Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. október 2009.  Útgáfa 137.  Prenta í tveimur dálkum.


Hafnalög

2003 nr. 61 27. mars


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. júlí 2003. Breytt með l. 11/2006 (tóku gildi 28. mars 2006), l. 28/2007 (tóku gildi 29. mars 2007) og l. 145/2007 (tóku gildi 29. des. 2007).


I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Gildissvið.
Lög þessi taka til allra hafna sem notaðar eru til afgreiðslu og þjónustu skipa, afgreiðslu á vörum, ökutækjum og farþegum og við löndun á fiski.
2. gr. Yfirstjórn.
Samgönguráðherra fer með yfirstjórn hafnamála, nema annað sé ákveðið í öðrum lögum. Siglingastofnun Íslands annast þátt ríkisins samkvæmt lögunum og hefur eftirlit með framkvæmd þeirra.
3. gr. Orðskýringar.

    1. Höfn táknar í lögum þessum svæði á landi og sjó með mannvirkjum og tækjum til móttöku skipa, losunar og lestunar þeirra, geymslu vöru, móttöku og afgreiðslu þessarar vöru til áframhaldandi sjó- eða landflutninga og til móttöku og brottfarar farþega.
    2. Hafnarmannvirki eru í lögum þessum varnargarðar, viðlegumannvirki og innsiglingar, leiðarmerki og skipalægi.
    3. Skjólgarðar eru í lögum þessum varnarmannvirki sem ætlað er að veita viðlegumannvirkjum og innsiglingum skjól fyrir öldum, straumum og sandburði.
    4. Viðlegumannvirki eru í lögum þessum bryggjur og önnur mannvirki innan hafnar sem ætluð eru til viðlegu fyrir fljótandi för.
    5. Rekstur hafnar í lögum þessum táknar að byggja, reka, viðhalda og endurnýja hafnarmannvirki sem og rekstur hafntengdrar atvinnuaðstöðu, þ.e. leigu á landi, vöruhúsum, tækjum og þess háttar, upptökumannvirkjum hvers konar í því skyni að þjóna skipum eða fyrirtækjum á hafnarsvæðum sem sinna þjónustu við skip, farþega og farm, og jafnframt rekstur hafntengdrar þjónustu, þ.e. hafnsöguþjónustu, festarþjónustu, vigtarþjónustu, sorphirðu, sölu vatns og rafmagns og sambærilega þjónustu er lýtur að skipum. Undir rekstur hafna fellur einnig rekstur vöruhúsa og þjónustumiðstöðva á hafnarsvæðum.
    6. Hafnarstjórn merkir í lögum þessum að sveitarfélög eða aðrir eigendur hafnar kjósi sérstaka hafnarstjórn og feli henni stjórnunarlega ábyrgð á höfninni.
    7. Málaflokkur merkir í lögum þessum afmarkaða rekstrareiningu í bókhaldi sveitarfélags þar sem tekjum og gjöldum er haldið aðskildum frá öðrum rekstri þess.
4. gr. Hafnarreglugerð.
Öllum höfnum sem falla undir lög þessi skv. 1. gr. skal sett reglugerð 1) er tilgreinir mörk hafnar auk annarra nauðsynlegra ákvæða er varða öryggi og stjórnun hennar. Ráðherra setur samkvæmt lögum þessum, að fengnum tillögum eigenda hafna og umsögn Siglingastofnunar Íslands, reglugerð fyrir hverja höfn. Í reglugerðinni skulu m.a. vera ákvæði um:
    1. Stærð og takmörk hafnarsvæðis á sjó og landi.
    2. Starfsheimildir, starfsemi og umferð á hafnarsvæði.
    3. Öryggi við flutninga og varnir gegn mengun.
    4. Viðurlög við brotum.
    5. Kosningu og starfs- og valdsvið hafnarstjórnar.
Siglingastofnun hefur eftirlit með því að höfn uppfylli skyldur sínar samkvæmt hafnarreglugerð.
    1)Um reglugerðir settar samkvæmt heimild í eldri hafnalögum vísast til Lagasafns 1990, d. 1911. Rg. 380/1985 (Seyðisfjörður), sbr. 729/2002. Rg. 463/1991 (Búðardalur). Rg. 290/2005 (Þorlákshöfn), sbr. 1182/2006. Rg. 287/2005 (Hafnasamlag Norðurlands), sbr. 1183/2006. Rg. 290/2005 (Þorlákshöfn). Rg. 292/2005 (Djúpivogur). Rg. 294/2005 (Grindavík). Rg. 295/2005 (Borgarfjörður). Rg. 425/2005 (Hafnarsjóður Skagafjarðar). Rg. 442/2005 (Hafnarfjörður). Rg. 583/2005 (Breiðdalsvík). Rg. 584/2005 (Hornafjörður). Rg. 633/2005 (Stykkishólmur). Rg. 671/2005 (Vestmannaeyjar). Rg. 713/2005 (Bakkafjörður). Rg. 788/2005 (Súðavík). Rg. 798/2005 (Sandgerði). Rg. 981/2005 (Vopnafjörður). Rg. 982/2005 (Reykjanes). Rg. 983/2005 (Kópavogur). Rg. 989/2005 (Vesturbyggð). Rg. 992/2005 (Kópasker). Rg. 1073/2005 (Húsavík). Rg. 1190/2005 (Ísafjarðarbær). Rg. 1191/2005 (Þórshöfn). Rg. 34/2006 (Skagaströnd). Rg. 275/2006 (Seyðisfjörður), sbr. 499/2007. Rg. 283/2006 (Hvammstangi). Rg. 308/2006 (Vogar í Vatnsleysustrandarhreppi). Rg. 498/2007 (Blönduós), 561/2007 (Fjarðabyggð). Rg. 882/2007 (Grundarfjörður). Rg. 908/2007 (Litli-Sandur, Hvalfjarðarsveit). Rg. 244/2008 (Dalvík). Rg. 1111/2008 (Miðsandur, Hvalfjarðarsveit). Rg. 512/2009 (Fjallabyggð). Rg. 798/2009 (Faxaflóahafnir sf.).

II. kafli. Skipulag hafnarsvæða og hafnarmannvirki.
5. gr. Skipulag hafnarsvæðis og leyfi til mannvirkjagerðar.
[Skipulag hafnarsvæðis skal miðast við þarfir hafnar. Hafnarstjórn gerir tillögu um skipulag hafnarsvæðis til skipulagsnefndar eða sveitarstjórnar að höfðu samráði við Siglingastofnun Íslands um gerð þess. Viðkomandi sveitarstjórn veitir framkvæmdaleyfi fyrir nýjum hafnarmannvirkjum.] 1)
Engin mannvirkjagerð má fara fram á hafnarsvæði nema með samþykki viðkomandi hafnarstjórnar. Ef leyfi til mannvirkjagerðar er eigi notað innan tveggja ára frá veitingu þess fellur það úr gildi.
    1)L. 28/2007, 1. gr.
6. gr. Lágmarkskröfur um hafnarmannvirki, slysavarnir og staðfesting á fjármögnun.
Öll mannvirkjagerð í höfnum skal vera í samræmi við gildandi skipulag fyrir viðkomandi sveitarfélag. Siglingastofnun Íslands skal fylgjast með að við hönnun og byggingu hafnarmannvirkja sé fylgt að minnsta kosti lágmarkskröfum um styrkleika mannvirkja og öryggi notenda hafnanna. Hafnir skulu tilkynna Siglingastofnun Íslands um fyrirhugaðar framkvæmdir og leggja fyrir stofnunina gögn um gerð mannvirkjanna til samþykktar áður en framkvæmdir eru hafnar. Siglingastofnun Íslands er heimilt að veita einstökum höfnum undanþágu frá þessu byggingareftirliti, enda geti þær sýnt fram á að starfsmenn þeirra hafi yfir nægri tækniþekkingu að ráða og fyrir hendi sé vel skilgreint innra eftirlit. Hafnir sem njóta opinberra framlaga til framkvæmda skulu að auki leggja fram staðfesta fjármögnun fyrirhugaðra framkvæmda til samþykktar Siglingastofnunar Íslands. Samgönguráðherra getur sett reglugerð 1) er kveður á um lágmarkskröfur um hafnarmannvirki að fenginni tillögu Siglingastofnunar Íslands.
Ráðherra skal setja reglur um slysavarnir í höfnum.
    1)Rg. 326/2004.
7. gr. Ábyrgð eiganda hafnarmannvirkja.
Eigandi hafnar er ábyrgur fyrir því að mannvirki, búnaður og rekstur hafnarinnar sé ætíð í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Hafnarstjórn er heimilt að nema brott á kostnað eiganda bryggjur eða önnur mannvirki í sjó fram sem hætta stafar af ef eigandi sinnir ekki tilmælum um úrbætur innan eðlilegs tímafrests.

III. kafli. Rekstrarform og upplýsingaskylda hafna.
8. gr. Rekstrarform hafna.
Höfn má reka sem:
    1. Höfn án sérstakrar hafnarstjórnar í eigu sveitarfélags.
    2. Höfn með hafnarstjórn í eigu sveitarfélags.
    3. Hlutafélag, hvort sem það er í eigu opinberra aðila eða ekki, einkahlutafélag, sameignarfélag eða sem einkaaðila í sjálfstæðum rekstri. Hafnir sem reknar eru samkvæmt þessum tölulið teljast ekki til opinbers rekstrar.
9. gr. Upplýsingar um hafnir.
Hafnir skulu á hverjum tíma miðla upplýsingum um lengd, breidd og djúpristu þeirra skipa sem þær geta tekið á móti. Siglingastofnun Íslands skal starfrækja gagnagrunn á heimasíðu sinni þar sem þessar upplýsingar koma fram.
Höfn sem nýtur ríkisstyrks er skylt að senda endurskoðaða ársreikninga sína árlega til Siglingastofnunar sem og aðrar upplýsingar sem Siglingastofnun kann að óska eftir og snerta rekstur hafnarinnar. Öðrum höfnum er skylt að veita Siglingastofnun þær upplýsingar sem hún óskar eftir og snerta rekstur hafnanna, enda séu þær nauðsynlegar vegna eftirlitshlutverks Siglingastofnunar samkvæmt lögunum. Þá er höfn skylt að veita Siglingastofnun upplýsingar um farþega og vörumagn sem um höfnina fer.
[Hafnir skulu birta gjaldskrár sínar með skýrum og aðgengilegum hætti, svo sem á netinu. Höfnum sem reknar eru skv. 1. og 2. tölul. 8. gr. er heimilt að birta gjaldskrár sínar í B-deild Stjórnartíðinda.] 1)
    1)L. 28/2007, 2. gr.

IV. kafli. Höfn án sérstakrar hafnarstjórnar í eigu sveitarfélags.
10. gr. Stjórnun, rekstur og starfsheimildir.
Höfn samkvæmt kafla þessum skal rekin sem sérstakur málaflokkur undir stjórn sveitarstjórnar í því sveitarfélagi þar sem höfnin er. Sveitarstjórn fer með stjórn hafnarinnar. Sveitarstjórn er heimilt að kjósa sérstaka hafnarnefnd.
Hafnir samkvæmt þessum kafla hafa starfsheimildir í samræmi við 5. tölul. 3. gr.
11. gr. Gjöld.
Höfn samkvæmt kafla þessum er heimilt að innheimta gjöld skv. 17. gr. [Notendur hafnar geta krafið hafnarstjórn upplýsinga um kostnað sem almennt hlýst af að veita viðkomandi þjónustu og eðlilega sundurliðun gjalda.] 1)
    1)L. 28/2007, 3. gr.
12. gr. Breyting á rekstrarformi.
Sveitarstjórn getur ákveðið að breyta skuli rekstrarformi hafnar í höfn með hafnarstjórn í eigu sveitarfélags, sbr. 2. tölul. 8. gr., eða í félag, sbr. 3. tölul. 8. gr., og skal þá taka mið af hagrænu verðmæti hafnarmannvirkja, sbr. 1. mgr. 18. gr.

V. kafli. Höfn með hafnarstjórn í eigu sveitarfélags.
13. gr. Stjórnun og rekstur.
Höfn samkvæmt kafla þessum skal rekin sem opinbert fyrirtæki með hafnarstjórn í eigu sveitarfélags. Sérstakar hafnarstjórnir, sem kosnar eru af sveitarstjórnum, skulu hafa á hendi stjórn hafna og hafnarsjóða í samræmi við reglugerð skv. 4. gr. Séu eigendur fleiri en einn fer um kosningu samkvæmt reglugerð og stofnsamningi hafnar. Hafnarstjórn ræður hafnarstjóra og ákveður verksvið hans.
Hafnarstjórn skal innan valdsviðs síns gæta hagsmuna hafnar. Hafnarstjórn ber ábyrgð gagnvart sveitarstjórn á rekstri og viðhaldi hafnar.
14. gr. Hafnasamlög.
Eigendur hafna geta myndað hafnasamlög um rekstur þeirra. Leggja skal fyrir ráðherra tillögur að stofnsamningi, skipulagi og nýtingu landsvæða og mannvirkja og rökstuðning fyrir að hafnasamlagið hafi rekstrarhagræði í för með sér. Ráðherra setur samkvæmt lögum þessum, að fengnum tillögum eigenda þeirra hafna sem vilja mynda hafnasamlag, reglugerð fyrir það, sbr. ákvæði 4. gr. Að öðru leyti gilda ákvæði þessa kafla um hafnasamlög þar sem við á. Hafnir á byggðasvæðum sem rétt eiga á ríkisstyrk samkvæmt viðmiðunum 24. gr. halda þeim rétti sínum í fimm ár frá því að sameining tekur gildi þrátt fyrir að hafnirnar falli undir hafnasamlag sem er yfir þessum sömu viðmiðunarmörkum. Þetta gildir einnig um sömu hafnir ef þær verða hluti af öðrum hafnarsjóði við sameiningu sveitarfélaga. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um þetta atriði.
15. gr. Starfsheimildir.
Höfn samkvæmt kafla þessum hefur starfsheimildir í samræmi við 5. tölul. 3. gr.
16. gr. Skattskylda, rekstur og endurskoðun.
Tekjum og eignum hafnar sem rekin er skv. 1. og 2. tölul. 8. gr. má einungis verja í þágu hafnarinnar. Hafnarsjóðir skulu undanþegnir hvers konar sköttum af hafnarmannvirkjum. Eigendur hafnar bera ábyrgð á skuldbindingum hafnarsjóðs.
17. gr. Gjöld.
[Höfnum er heimilt samkvæmt kafla þessum að innheimta eftirtalin gjöld sem renna til hvers kyns uppbyggingar hafna og reksturs þeirra, sbr. 5. tölul. 3. gr.:

    1. Hafnargjald sem nánar sundurliðast á eftirfarandi hátt:
    a. Skipagjöld sem skiptast í bryggjugjöld og lestargjöld og eru lögð á skip og báta er nota viðkomandi höfn og miðast við stærð skipa, dvalartíma á hafnarsvæðinu og veitta aðstöðu.
    b. Vörugjöld, þ.m.t. aflagjald, af vörum sem umskipað er, lestaðar eru eða losaðar í höfn.
    c. Hafnsögugjöld og gjöld fyrir þjónustu hafnarbáta.
    d. Leigugjald fyrir svæði til lestunar og losunar á vöru.
Hafnargjald samkvæmt þessum tölulið skal standa undir kostnaði við að byggja, reka, viðhalda og endurnýja viðlegumannvirki, dýpkanir og legu í höfn, aðstöðu við bryggjur og á hafnarbakka, hafnarbáta og hafnsögu þar sem það á við. Skipstjóra, útgerðarmanni og eiganda skips ber að greiða til hafnar gjöld skv. a-, c- og d-lið en móttakandi vöru sem kemur til hafnar og sendandi vöru sem flutt er úr höfn greiða gjöld skv. b-lið. Ef margir eiga vörur sem fluttar eru með sama skipi skal farmflytjandi sjá um innheimtu á gjöldum skv. b-lið hjá sendanda og móttakanda, eftir því sem við á, og standa höfn skil á þeim.
    2. Farþegagjald og gjald fyrir bifreiðar sem ekið er um borð eða frá borði í ferju og skal gjald þetta standa straum af kostnaði við uppbyggingu á aðstöðu og búnaði fyrir farþega og bifreiðar, sem og kostnaði við rekstur og viðhald.
    3. [Geymslugjald fyrir geymslu vöru og gáma á hafnarsvæði, hvort sem er innan húss eða utan, og skal gjald þetta standa straum af kostnaði við uppbyggingu, viðhald, endurnýjun og rekstur á geymsluaðstöðunni.] 1)
    4. Leigugjald fyrir afnot af mannvirkjum eða tækjum hafnarinnar, þ.m.t. upptökumannvirkjum og löndunarkrönum. Gjaldið skal standa undir kostnaði við uppbyggingu, rekstur, viðhald og endurnýjun mannvirkjanna.
    5. Leyfisgjald fyrir bryggjur og önnur mannvirki sem gerð hafa verið skv. 5. gr. Gjaldið skal standa straum af undirbúningskostnaði veittra leyfa.
    6. Lóðargjald og lóðarleigu fyrir leigu á svæðum innan hafnarinnar.
    7. Festargjald sem nota skal til að greiða kostnað við festarþjónustu sem höfnin veitir.
    8. Gjöld fyrir endursölu á vatni og rafmagni og kostnaði er því fylgir.
    9. Sorpgjöld sem skulu standa straum af kostnaði við sorphirðu frá skipum og fyrirtækjum á hafnarsvæði, sem og eyðingu sorpsins.
    10. Vigtar- og skráningargjald sem skal standa straum af kostnaði við rekstur, viðhald og endurnýjun hafnarvogar.
    11. Umsýslugjald til þess að standa straum af kostnaði við umsýslu og yfirstjórn, t.d. laun og skrifstofuhald. Heimilt er að láta umsýslugjaldið samkvæmt þessum tölulið vera innifalið í gjaldtöku skv. 1.–10. tölul. með sérstöku álagi á viðkomandi gjald.] 2)
Gjaldtaka hafnar skal miðuð við að hún standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er.
Nú á annar aðili en hafnarsjóður viðlegumannvirki innan hafnarsvæðis og skal þá semja um hversu hátt gjald skal greiða til hafnar til þess að standa straum af sameiginlegum rekstri hennar.
Höfn er heimilt að gera langtímasamning við notendur um gjöld skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. fyrir afnot af bryggjum.
[Notendur hafnar geta krafið hafnarstjórn upplýsinga um kostnað sem almennt hlýst af að veita viðkomandi þjónustu og eðlilega sundurliðum gjalda.] 2)
    1)L. 145/2007, 1. gr. 2)L. 28/2007, 4. gr.
18. gr. Breyting á rekstrarformi.
Sveitarstjórn getur ákveðið að breyta skuli rekstrarformi hafnar í félag skv. 3. tölul. 8. gr. og skal þá taka mið af hagrænu verðmæti hafnarmannvirkja við eignfærslu þeirra í efnahagsreikning félagsins. Hafi viðkomandi mannvirki notið ríkisframlags skal leita samþykkis ráðherra fyrir framsali þeirra.
Höfn getur samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar orðið að höfn án sérstakrar hafnarstjórnar í eigu sveitarfélags, sbr. 1. tölul. 8. gr.
Rekstrarformi hafnar skal breytt í höfn í eigu sveitarfélags án sérstakrar hafnarstjórnar þegar hún hefur haft neikvæðan rekstrarafgang í þrjú ár í röð að teknu tilliti til vaxta, en fyrir afskriftir. Sveitarstjórn er þó heimilt með samþykki samgönguráðherra að veita aukið fjármagn til hafnar til þess að bæta eiginfjárstöðu hennar.

VI. kafli. Höfn sem telst ekki til opinbers reksturs.
19. gr. Stjórn og rekstur.
Rekstrarform hafnar samkvæmt þessum kafla fer eftir ákvæðum 3. tölul. 8. gr. Stjórnir hlutafélaga og einkahlutafélaga fara með valdsvið hafnarstjórna. Höfn sem rekin er skv. 3. tölul. 8. gr. er aðeins heimilt að greiða arð til eigenda sinna eftir að fé hefur verið lagt til hliðar í fullnægjandi viðhald og endurnýjun hafnarinnar samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð hennar sem sett er skv. 4. gr.
20. gr. Starfsheimildir og gjöld vegna reksturs hafnar.
Höfn sem rekin er skv. 3. tölul. 8. gr. hefur starfsheimildir án takmarkana.
[Gjaldtaka hafnar samkvæmt þessum kafla skal miðuð við að hún standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er ásamt hlutdeild í sameiginlegum rekstri hafnarinnar, stofnkostnaði og kostnaði við viðhald hennar, auk þess sem heimilt er að taka tillit til arðsemi á endurmetnu eigin fé. Notendur hafnar geta krafið hafnarstjórn upplýsinga um kostnað sem almennt hlýst af að veita viðkomandi þjónustu og eðlilega sundurliðun gjalda.] 1)
    1)L. 28/2007, 5. gr.

VII. kafli. Móttökuskylda hafnar.
21. gr. Móttökuskylda og ábyrgð eigenda skipa.
[Skylt er að taka á móti skipum í höfn eftir því sem rými og aðstaða leyfir. Hafnarstjórn er þó heimilt að synja skipi um aðgang að höfn ef mönnum og umhverfi er talin stafa hætta af komu þess til hafnar. Höfn, sem telst neyðarhöfn í samræmi við áætlun um að liðsinna nauðstöddum skipum á hafsvæðum í lögsögu Íslands, sem Siglingastofnun Íslands gerir að höfðu samráði við viðkomandi höfn, Landhelgisgæslu Íslands og Umhverfisstofnun, er skylt að taka á móti skipum í sjávarháska eftir því sem nánar er kveðið á um í áætluninni. Ráðherra getur sett nánari ákvæði um áætlunina og neyðarhafnir í reglugerð.
Skipagjöld eru tryggð með lögveði í viðkomandi skipi eða vátryggingarfé. Gengur það veð í tvö ár fyrir samningsveðskuldum. Heimilt er að krefjast nauðungarsölu á skipum vegna vanefnda á skipagjöldum án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms og án þess að þörf sé á undangenginni áskorun til eiganda.
Höfn er heimilt að krefjast frekari trygginga fyrir greiðslu skipagjalda og fyrir kostnaði við að fjarlægja og/eða farga skipi séu taldar verulegar líkur á að það lendi í reiðileysi innan hafnar.
Eigandi eða umráðamaður skips, báts, flutningstækja á landi eða annars búnaðar á hafnarsvæði ber ábyrgð á að viðkomandi eign sé ávallt í lagi og valdi ekki óþrifnaði og/eða hættu á hafnarsvæðinu. Verði um slíkt að ræða, að mati hafnar, getur hún fyrirskipað að úrbætur skuli gerðar innan ákveðins frests. Sinni eigandi eða umráðamaður ekki slíkum fyrirmælum er höfn heimilt að láta fjarlægja hlutinn á kostnað og ábyrgð eiganda eða umráðamanns og færa hann í vörslur viðkomandi eða selja hlut á nauðungaruppboði án þess að þörf sé á undangenginni áskorun til eiganda eða umráðamanns.
Höfn skal birta auglýsingu um uppboð skv. 4. mgr. með mest fjögurra vikna og minnst viku fyrirvara í dagblaði eða á annan samsvarandi hátt. Jafnframt skal höfn tilkynna eiganda eða umráðamanni bréflega um fyrirhugað uppboð og hvar og hvenær það fer fram. Það stendur ekki í vegi fyrir nauðungarsölu þótt tilkynningu verði ekki við komið vegna þess að eigandi eða umráðamaður er ekki þekktur eða finnst ekki. Skipagjöld sem njóta lögveðsréttar greiðast af söluandvirði með forgangsrétti næst á eftir kostnaði við nauðungarsölu. Um úthlutun söluandvirðis og framkvæmd uppboðs fer að öðru leyti eftir ákvæðum laga um nauðungarsölu eftir því sem við á.
Vitji eigandi eða umráðamaður ekki þess sem afgangs er við nauðungarsölu skv. 4. mgr. eða ráðstöfun skv. 5. mgr. innan árs frá sölu eða ráðstöfunardegi rennur andvirðið í ríkissjóð.] 1)
    1)L. 28/2007, 6. gr.

VIII. kafli. Framlög ríkisins til hafnamála og framkvæmdir í höfnum.
22. gr. Frumrannsóknir.
Ríkissjóður greiðir allt að fullu kostnað við frumrannsóknir samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. 1) Siglingastofnun Íslands skal hafa umsjón með frumrannsóknum sem kostaðar eru af ríkissjóði og hafa samráð við viðkomandi hafnarstjórn þar sem við á.
    1)Rg. 326/2004.
23. gr. Samgönguáætlun.
Siglingastofnun Íslands vinnur tillögu að áætlun um hafnarframkvæmdir með kostnaðarþátttöku ríkissjóðs, sbr. lög nr. 71/2002, um samgönguáætlun.
Við undirbúning þessarar tillögugerðar ber Siglingastofnun að hafa samráð og samstarf við viðkomandi hafnarstjórn og hafnaráð.
Við tillögugerðina og forgangsröðun framkvæmda skal leggja til grundvallar mat er taki mið af hagkvæmni framkvæmdar, þörf fyrir hana og þýðingu fyrir byggðarlagið.
24. gr. Ríkisstyrktar framkvæmdir.
Heimilt er að veita framlög úr ríkissjóði til eftirfarandi verkefna á sviði hafnargerðar á vegum hafnarsjóða þegar um er að ræða hafnir sem reknar eru skv. 1. og 2. tölul. 8. gr.
Ríkissjóði er heimilt að styrkja:
    a. Endurbyggingu, endurbætur og lagfæringar á skjólgörðum í höfnum þar sem erfiðar náttúrulegar aðstæður valda því að lítið skjól er fyrir úthafsöldu og dýpkun í innsiglingu þar sem reglulegrar viðhaldsdýpkunar er þörf á minnst fimm ára fresti. Stofnkostnað við hafnsögubáta á stöðum þar sem aðstæður í höfn og nágrenni hennar kalla á slíkt öryggistæki. Greiðsluþátttaka ríkisins getur þó aldrei orðið hærri en 75% og er ákvörðuð hverju sinni í samgönguáætlun.
    b. Framkvæmdir á vegum lítils hafnarsjóðs innan skilgreinds byggðasvæðis samkvæmt ákvörðunum Eftirlitsstofnunar EFTA með tekjur undir 20 millj. kr. og þar sem verðmæti meðalafla síðustu þriggja ára er undir 600 millj. kr. Ríkissjóði er heimilt að víkja frá þessum viðmiðunarmörkum við sérstakar aðstæður, m.a. þegar aflaverðmæti viðkomandi hafnar gefur sannanlega ekki rétta mynd af eðlilegum tekjum hennar miðað við aðrar hafnir. Ríkisstyrktar framkvæmdir skulu takmarkast við merkingu innsiglingar, dýpi, varnarmannvirki og viðlegu. Greiðsluþátttaka ríkisins samkvæmt þessum lið skal vera allt að 90% og er ákvörðuð hverju sinni í samgönguáætlun sem samþykkt er af Alþingi.
    c. Framkvæmdir á vegum hafnarsjóðs innan skilgreinds byggðasvæðis samkvæmt ákvörðunum Eftirlitsstofnunar EFTA með heildartekjur undir 40 millj. kr. og þar sem verðmæti meðalafla síðustu þriggja ára er undir 1.500 millj. kr. og vöruflutningar sem um höfnina fara eru undir 50 þús. tonnum. Ríkissjóði er heimilt að víkja frá þessum viðmiðunarmörkum við sérstakar aðstæður, enda liggi fyrir staðfesting frá Samkeppnisstofnun um að styrkurinn skekki ekki samkeppnisstöðu hafna. Greiðsluþátttaka ríkisins samkvæmt þessum lið getur aldrei orðið meiri en 60% vegna dýpkana og 40% vegna viðlegumannvirkja sem unnið er við árið 2007 eða síðar.
Samgönguráðherra er heimilt í stað þess að veita styrki skv. a–c-lið 2. mgr. að stofna þróunardeild Hafnabótasjóðs, sbr. 26. gr., sem yrði fjármögnuð með framlagi af fjárlögum samkvæmt ákvörðun Alþingis. Þróunardeild Hafnabótasjóðs er heimilt að veita styrki til hafnarsjóða óháð rekstrarformi vegna framkvæmda við dýpkanir, skjólgarða, viðlegumannvirki og merkingu innsiglingar sem nema allt að 50% kostnaðar. Þó geta litlar byggðahafnir, sbr. b-lið 2. mgr., sótt um styrk sem nemur allt að 90% kostnaðar við framkvæmdir. Hafnir skulu senda inn umsóknir um styrki þar sem lögð er fram viðskiptaáætlun hafnar, upplýsingar um viðkomandi framkvæmdir, fjármögnun framkvæmda og aðrar þær upplýsingar sem stjórn sjóðsins ákveður að leggja skuli fram. Ákveði ráðherra að nýta þetta ákvæði er ekki skylt að sundurliða framkvæmdir í samgönguáætlun.
25. gr. Umsóknir um ríkisframlög.
Umsóknir um framlög úr ríkissjóði skulu sendar Siglingastofnun Íslands. Stofnunin vinnur úr umsóknum og tekur þær fyrir við endurskoðun samgönguáætlunar, sbr. 23. gr.
Við mat á greiðsluþátttöku ríkissjóðs í einstökum verkefnum skal ávallt tekið tillit til fjárhagslegrar getu hafnarsjóðs til að standa undir nauðsynlegum hafnarframkvæmdum, þó með þeim takmörkunum um hámark sem kveðið er á um í 24. gr. Staðfesting Siglingastofnunar skal liggja fyrir um að höfn hafi nýtt alla kosti sína til tekjuöflunar áður en umsókn um ríkisstyrk er tekin fyrir svo að framlagið raski ekki samkeppni við aðrar hafnir. Staðfesting þessi skal m.a. byggjast á samanburði við gjaldtöku annarra sambærilegra hafna.
Greiðsluþátttaka ríkissjóðs í einstökum verkefnum skal ákveðin um leið og verk eru sett á samgönguáætlun og tekin til endurskoðunar á tveggja ára fresti við endurskoðun samgönguáætlunar, sbr. 23. gr.
26. gr. Hafnabótasjóður.
Hafnabótasjóður er eign ríkisins og fer hafnaráð með stjórn sjóðsins í umboði samgönguráðherra. Sjóðurinn skiptist í tvær deildir, A-deild og B-deild. Hlutverk A-deildar sjóðsins er að fjármagna hlut ríkisins í ríkisstyrktum framkvæmdum en B-deildar að fjármagna tjónaviðgerðir, sbr. 3. tölul. 3. mgr.
Tekjur Hafnabótasjóðs eru tekjur af starfsemi sjóðsins og framlag úr ríkissjóði samkvæmt ákvörðun Alþingis hverju sinni.
Hafnabótasjóði er heimilt að taka lán vegna starfsemi sinnar samkvæmt ákvörðun Alþingis hverju sinni. Hafnaráð ráðstafar fé Hafnabótasjóðs að fengnum tillögum Siglingastofnunar Íslands með samþykki ráðherra á eftirgreindan hátt:
    1. Fjármagnar framkvæmdir ríkisins samkvæmt samgönguáætlun sem samþykkt hefur verið á Alþingi.
    2. Hafnabótasjóði er heimilt að starfrækja þróunardeild hafna samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur að fengnu sérstöku fjárframlagi samkvæmt samþykkt Alþingis. Markmið þróunardeildarinnar er að styðja minni hafnir á landsbyggðinni sem eru mikilvægar fyrir byggðarlagið og atvinnuuppbyggingu þess.
    3. Hafnabótasjóði er heimilt að bæta tjón á hafnarmannvirkjum sem eru styrkhæf skv. a-lið og b-lið 2. mgr. 24. gr. [eða tjón á upptökumannvirkjum], 1) þ.m.t. tjón sem ekki fæst að fullu bætt úr Viðlagasjóði eða vegna ákvæða IX. kafla siglingalaga um takmarkaða ábyrgð útgerðarmanna.
Siglingastofnun Íslands annast vörslu, daglega afgreiðslu og bókhald Hafnabótasjóðs. Lánasýsla ríkisins veitir sjóðnum aðstoð við öflun lánsfjár.
Heimilt er með samþykki ráðherra að fela lánastofnun umsýslu lána sjóðsins.
    1)L. 28/2007, 7. gr.

IX. kafli. Kæruheimild.
27. gr. Kæruheimild.
Notendum hafna er heimilt að skjóta ákvörðunum hafnarstjórna samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, öðrum en gjaldskrárákvörðunum, til Siglingastofnunar Íslands.
Ákvörðunum Siglingastofnunar samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim má skjóta til samgönguráðherra. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

X. kafli. Viðurlög, gildistaka o.fl.
28. gr. Refsingar.
Brot gegn lögum þessum varða sektum nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum. Þegar brot er framið í starfsemi lögaðila má gera lögaðilanum sekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga.
29. gr. Breytingar á verðlagi.
Allar verðmætaviðmiðanir samkvæmt lögum þessum skulu taka sömu breytingum á milli ára og vísitala neysluverðs frá gildistíma laganna.
30. gr. Gildistaka o.fl.
Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2003. … Ákvæði til bráðabirgða I öðlast þegar gildi.
Allar hafnir skulu leitast við að taka ákvörðun um rekstrarform fyrir 1. júlí 2003, en þá taka ný rekstrarform hafna samkvæmt lögum þessum gildi.
Sé engin ákvörðun tekin um rekstrarform hafnar fyrir 1. júlí 2003 skal rekstrarform hennar vera höfn með hafnarstjórn í eigu sveitarfélags. Við breytingu núverandi hafnarforms frá höfn með hafnarstjórn í höfn án sérstakrar hafnarstjórnar í eigu sveitarfélags skal sveitarstjórn taka við stjórn hafnarinnar og ábyrgð á rekstri hennar.
B-deild Hafnabótasjóðs skv. 26. gr. skal yfirtaka núverandi eignir sjóðsins við gildistöku laganna.

Ákvæði til bráðabirgða.
I. Gjaldskrá.
Við gildistöku ákvæðisins setur samgönguráðherra gjaldskrá fyrir allar hafnir til 12 mánaða fyrir lestar- og bryggjugjöld, farþegagjald og vörugjöld, þ.m.t. aflagjald. Heimilt er einstökum höfnum að hækka eða lækka þessi gjöld um 20%. Skal gjaldskráin við það miðuð að hafnir landsins geti haft nægar tekjur til þess að standa undir rekstri miðað við forsendur þessara laga. Þó er óheimilt að hækka gjöld einstakra hafna umfram það sem þörf krefur til þess að standa undir rekstri hafnar, sbr. skilgreiningu 3. gr. Samgönguráðherra er heimilt að gefa út sérstaka gjaldskrá til 12 mánaða fyrir hverja höfn sem undir þetta getur fallið. Í lok þessa 12 mánaða tímabils flytjast gjaldtökuákvarðanir til hafna.
II. Ríkisstyrkir.
[Þrátt fyrir 24. gr. þessara laga er ríkissjóði heimilt að styrkja framkvæmdir í höfnum, sbr. ákvæði um greiðsluþátttöku í eldri hafnalögum, nr. 23/1994, með síðari breytingum, [til ársloka 2010]. 1) Þetta á við um framkvæmdir sem skilgreindar eru í siglingamálakafla samgönguáætlunar 2005–2008 og þær framkvæmdir sem koma inn í siglingamálakafla samgönguáætlunar 2007–2010 vegna endurskoðunar á áformum samgönguyfirvalda um að hafnir skuli jafnsettar á aðlögunartíma nýrra hafnalaga.
Þrátt fyrir 26. gr. þessara laga er Hafnabótasjóði heimilt að veita styrk skv. 3. tölul. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 23/1994 fram til [1. janúar 2011]. 1)] 2)
    1)L. 145/2007, 2. gr. 2)L. 11/2006, 1. gr.
III. Sérstakt vörugjald.
Innheimt skal sérstakt vörugjald fram til júníloka 2004 sem renna skal í ríkissjóð. Gjaldið skal vera sem svarar 25% álagi á vörugjöld, önnur en aflagjöld, eins og þau verða ákveðin í gjaldskrá samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I.
IV. Endurskoðunarnefnd.
[Ráðherra skal í síðasta lagi árið 2010, eða fyrr ef nauðsyn krefur, skipa sérstaka skoðunarnefnd sem hafi það hlutverk að meta hvort töluleg viðmið 24. gr. þurfi breytinga við í ljósi reynslunnar.] 1)
    1)L. 28/2007, 8. gr.
[V. Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 3. mgr. 18. gr. skal ekki gripið til aðgerða á grundvelli þessa ákvæðis fyrr en 1. janúar 2012.] 1)
    1)L. 28/2007, 9. gr.