Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 20. janúar 2019.  Útgáfa 149a.  Prenta í tveimur dálkum.


[Lög um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi vörur sem tengjast orkunotkun]1)

1994 nr. 72 11. maí


    1)L. 7/2015, 10. gr.
Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 30. maí 1994. EES-samningurinn: II. viðauki tilskipun 92/75/EBE. Breytt með l. 61/2002 (tóku gildi 17. maí 2002; EES-samningurinn: II. viðauki tilskipun 92/75/EBE), l. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008), l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011) og l. 7/2015 (tóku gildi 7. febr. 2015; EES-samningurinn: II. viðauki tilskipun 2010/30/ESB).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. [Markmið.]1)
[Tilgangur laga þessara er að stuðla að því að orka sé notuð með skynsamlegum og hagkvæmum hætti með því að tryggja að neytendur hafi greiðan aðgang að samræmdum upplýsingum um orkunotkun og hávaðamengun [vara sem lög þessi] 1) ná til, svo og áhrif á umhverfi auk annars er varðar rekstur þeirra. [Lög þessi skulu tryggja samræmi í merkingum og stöðluðum upplýsingum vara sem tengjast orkunotkun innan Evrópska efnahagssvæðisins og frjálst flæði á slíkum vörum á sameiginlegum innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.] 1)] 2)
    1)L. 7/2015, 1. gr. 2)L. 61/2002, 1. gr.
2. gr. [Gildissvið.]1)
[Lög þessi taka til merkinga og staðlaðra upplýsinga um vörur sem tengjast orkunotkun. Í reglugerð 2) skal kveðið á um hvaða kröfur slík vara skal uppfylla svo setja megi hana á markað og taka í notkun hér á landi.] 1)
Lögin taka ekki til endursölu notaðra [vara] 1) og búnaðar.
[Farþega- og vöruflutningar og notaðar vörur falla utan gildissviðs þessara laga. Lög þessi taka ekki til merkiplatna eða sambærilegrar öryggismerkingar vöru.] 1)
    1)L. 7/2015, 2. gr. 2)Rg. 78/1999.
[2. gr. a. Orðskýringar.
Í lögum þessum er merking eftirtalinna hugtaka sem hér segir:
    1. Birgðasali: Framleiðandi, fulltrúi hans eða sá er markaðssetur vöru.
    2. Seljandi: Smásali eða annar aðili sem selur, leigir, býður upp á kaupleigu eða sýnir endanlegum notendum vörur.
    3. Setja á markað: Að bjóða fram vöru í fyrsta sinn á markaði á Evrópska efnahagssvæðinu til dreifingar eða til notkunar óháð því hvort varan er seld eða gefin til kynningar.
    4. Taka í notkun: Að nota vöru með tilætluðum hætti í fyrsta sinn á Evrópska efnahagssvæðinu.
    5. Upplýsingablað: Tafla með upplýsingum um vöru.
    6. Vara sem tengist orkunotkun: Vara sem er sett á markað og/eða tekin í notkun og nýtir orku til að virka sem skyldi eða hefur áhrif á orkunotkun þegar hún er í notkun. Hér teljast einnig með íhlutir orkutengdrar vöru.] 1)
    1)L. 7/2015, 3. gr.
3. gr. [Upplýsingaskylda birgðasala og seljanda.]1)
[Birgðasali og seljandi skulu láta neytendum í té upplýsingar um orkunotkun, orkunýtni, hávaða og annað er varðar rekstur þeirra vara sem eru seldar eða leigðar með beinum hætti eða óbeinum hætti með fjarsölu eða netsölu og eru jafnframt tilgreindar í reglugerð settri á grundvelli laga þessara. Upplýsingar þessar skulu vera á íslensku og þær skal samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð vera að finna á merkimiðum, sérstökum upplýsingablöðum eða veggspjöldum.] 1)
Birgðasala og seljanda er skylt að vekja athygli neytenda á fyrrgreindum upplýsingum.
[Upplýsingar skv. 1. mgr. eru aðeins veittar að því er varðar innbyggðar eða uppsettar vörur þegar þess er krafist í viðkomandi reglugerð.
Feli auglýsing í sér orku- eða verðupplýsingar skal jafnframt birta tilvísun í orkunýtniflokk vörunnar ef varan sem um ræðir tengist orkunotkun og er tilgreind í reglugerð settri á grundvelli laga þessara.
Allt tæknilegt kynningarefni sem varðar vörur sem tengjast orkunotkun og lýsir sérstökum tæknilegum kennistærðum vöru, nánar tiltekið tæknileiðbeiningar og kynningarrit framleiðenda, hvort sem er á prenti eða rafrænu formi, skal látið endanlegum notendum í té ásamt nauðsynlegum upplýsingum um orkunotkun eða tilvísun í orkunýtniflokk vörunnar.] 1)
    1)L. 7/2015, 4. gr.
4. gr. [Tæknileg gögn.]1)
Birgðasali skal taka saman tæknileg gögn sem leggja má til grundvallar við mat á upplýsingum þeim sem greint er frá á merkingum og upplýsingablaði.
Slíkar upplýsingar skulu hafa að geyma:
    1. Almenna vörulýsingu.
    2. Niðurstöður útreikninga varðandi hönnun ef við á.
    3. Prófunarskýrslur þegar þær eru til, þar með taldar skýrslur um prófanir sem tilnefndir aðilar hafa framkvæmt í samræmi við aðra löggjöf.
    4. Ofangreindar upplýsingar um svipaðar gerðir [vöru] 1) ef tölulegar niðurstöður miðast við þær.
    5. Lýsingu á mælingum og könnunum á hávaða.
Birgðasali skal hafa þessi gögn til reiðu vegna skoðunar í fimm ár [frá því að varan var síðast framleidd]. 1)
    1)L. 7/2015, 5. gr.
5. gr. [Ábyrgð birgðasala og seljanda.]1)
Birgðasali ber ábyrgð á því að upplýsingar á merkimiðum og upplýsingablöðum, sem hann lætur í té, séu réttar.
Óheimilar eru merkingar sem samrýmast hvorki ákvæðum þessara laga né reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra.
[Birgðasali og seljandi bera ábyrgð á því að sýna merkimiða á tilhlýðilegan hátt þannig að þeir séu sýnilegir og læsilegir og að upplýsingablaðið sé í kynningarriti um vöruna eða öðrum skjölum sem fylgja vörunni þegar hún er seld endanlegum notendum.] 1)
    1)L. 7/2015, 6. gr.
6. gr. [Framkvæmd og eftirlit.
Ráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Eftirlit og dagleg stjórnsýsla á því sviði sem lög þessi ná til er þó á hendi Mannvirkjastofnunar. Mannvirkjastofnun tekur við tilkynningum um vörur sem ekki eru í samræmi við kröfur laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim og annast samskipti vegna þeirra við önnur eftirlitsstjórnvöld á Evrópska efnahagssvæðinu.] 1)
    1)L. 7/2015, 7. gr.
7. gr. [Eftirlit.]1)
Ef ástæða er til að ætla að upplýsingar, sem veittar hafa verið, séu rangar er [Mannvirkjastofnun], 1) sbr. 6. gr., heimilt að krefja birgðasala eða seljendur um gögn sem nauðsynleg eru við eftirlit. Jafnframt er [stofnuninni] 1) heimilt að krefjast þess að eintak vöru og umbúða verði lagt fram til skoðunar.
    1)L. 7/2015, 8. gr.
[8. gr. Markaðseftirlit Mannvirkjastofnunar.
Mannvirkjastofnun tekur við ábendingum og fer með markaðseftirlit í samræmi við ákvæði laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim.
Mannvirkjastofnun getur falið faggiltri skoðunarstofu að annast markaðseftirlit eða faggiltri prófunarstofu að prófa og meta hvort vara sem fellur undir lög þessi uppfylli kröfur laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim. Um faggildinguna gilda ákvæði laga um faggildingu o. fl., nr. 24/2006. Beiting réttarúrræða skv. 10. gr. skal vera á hendi Mannvirkjastofnunar.
Birgðasali eða viðurkenndur fulltrúi hans hér á landi skal halda skrá með upplýsingum um birgja og þá sem bjóða fram vörur hans.] 1)
    1)L. 7/2015, 9. gr.
[9. gr. Heimild til skoðunar og upplýsingaskylda.
Mannvirkjastofnun, eða eftir atvikum faggiltri skoðunarstofu, er heimilt að skoða vöru hjá seljanda, birgðasala eða viðurkenndum fulltrúa hans, taka sýnishorn af vöru til rannsókna og krefja þá um allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn, svo sem aðgang að skrá yfir þá sem hafa vöruna á boðstólum, skýrslur um prófanir eða útreikninga og tæknileg gögn.
Birgðasali eða viðurkenndur fulltrúi hans ber kostnað vegna þeirra sýnishorna vöru sem tekin eru til rannsóknar. Að lokinni rannsókn skal sýnishornum skilað eða þau eyðilögð með öruggum hætti eftir atvikum. Sýnishorn vöru samkvæmt þessari grein er að jafnaði eitt eintak vöru eða lágmarksfjöldi sem er nauðsynlegur til að framkvæma rannsókn.
Birgðasali eða viðurkenndur fulltrúi hans ber allan kostnað af athugun á því hvort vara sé í samræmi við settar reglur, svo sem kostnað sem hlýst af skoðun, rannsókn og prófun, flutningskostnað, svo og annan kostnað sem er í beinum og efnislegum tengslum við eftirlitið. Birgðasali eða viðurkenndur fulltrúi hans greiðir auk þess allan kostnað af tilkynningum sem beint er til almennings, svo sem kostnað við tilkynningar í fjölmiðlum.
Mannvirkjastofnun skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að upplýsingarnar, sem veittar eru við málsmeðferðina, teljist trúnaðargögn þegar slíkt telst réttmætt.
Mannvirkjastofnun skal tilkynna ákvarðanir um bann og afturköllun á vörum til Eftirlitsstofnunar EFTA.] 1)
    1)L. 7/2015, 9. gr.
[10. gr. Réttarúrræði Mannvirkjastofnunar.
Mannvirkjastofnun getur fyrirskipað innköllun, tekið af markaði eða bannað sölu eða afhendingu vöru sem tengist orkunotkun ef hún uppfyllir ekki skilyrði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim, þ.m.t. um merkingar, leiðbeiningar og gögn sem ber að útbúa og hafa tiltæk.
Mannvirkjastofnun er heimilt að beita dagsektum, allt að 200.000 kr. á dag, til að knýja á um þær skyldur sem lög þessi kveða á um eða að látið sé af ólögmætu atferli. Dagsektir skulu renna í ríkissjóð. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt skriflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Dagsektir má innheimta með fjárnámi.
Ákvörðun um dagsektir má skjóta til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan fjórtán daga frá því að hún er kynnt þeim er hún beinist að. Dagsektir reiknast ekki fyrr en frestur er liðinn.
Ef ákvörðun er skotið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála falla dagsektir ekki á fyrr en niðurstaða hennar liggur fyrir. Ákvörðun Mannvirkjastofnunar verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála liggur fyrir.] 1)
    1)L. 7/2015, 9. gr.
[11. gr. Viðurlög.
Mannvirkjastofnun getur lagt stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem brjóta gegn ákvæðum laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim og ákvörðunum eftirlitsaðila. Slíkar sektir geta numið allt að 5 millj. kr. og skulu þær renna í ríkissjóð.] 1)
    1)L. 7/2015, 9. gr.
[12. gr. Kæra ákvarðana Mannvirkjastofnunar.
Ákvörðunum sem Mannvirkjastofnun tekur á grundvelli laga þessara má skjóta til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem starfar á grundvelli laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
Ákvörðun Mannvirkjastofnunar verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála liggur fyrir. Nú vill aðili ekki una úrskurði úrskurðarnefndar og getur hann þá höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um úrskurð úrskurðarnefndar. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurðar nefndarinnar né heimild til aðfarar.] 1)
    1)L. 7/2015, 9. gr.
[13. gr. Reglugerðarheimild.
Ráðherra skal setja í reglugerð 1) nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
Heimilt er að kveða á um nánari reglur um kæru ákvarðana Mannvirkjastofnunar í reglugerð.] 2)
    1)Rg. 78/1999. Rg. 260/2003, sbr. 913/2004. Rg. 819/2010. Rg. 855/2012. Rg. 382/2013, sbr. 610/2016 og 196/2018. Rg. 383/2013, sbr. 609/2016 og 197/2018. Rg. 384/2013, sbr. 608/2016 og 198/2018. Rg. 385/2013, sbr. 607/2016 og 199/2018. Rg. 386/2013, sbr. 606/2016 og 200/2018. Rg. 388/2013, sbr. 605/2016 og 201/2018. Rg. 456/2013. Rg. 832/2013, sbr. 604/2016 og 204/2018. Rg. 1001/2013. Rg. 1279/2014. Rg. 152/2016, sbr. 613/2016 og 190/2018. Rg. 154/2016, sbr. 612/2016 og 191/2018. Rg. 155/2016, sbr. 192/2018. Rg. 344/2016, sbr. 611/2016 og 193/2018. Rg. 346/2016, sbr. 194/2018. Rg. 347/2016, sbr. 195/2018. Rg. 616/2016, sbr. 202/2018. Rg. 617/2016, sbr. 203/2018. 2)L. 7/2015, 9. gr.
[14. gr. Innleiðing tilskipunar.
Með lögum þessum eru innleidd ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2010/30/ESB frá 19. maí 2010 um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á orkutengdum vörum er greina frá notkun þeirra á orku og öðrum aðföngum (endurútgefin) eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 217/2012 frá 7. desember 2012, sem birt var 21. mars 2013 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 18/2013, ásamt frekari tilskipunum sem innleiddar verða með reglugerðum samkvæmt heimild í lögum þessum.] 1)
    1)L. 7/2015, 9. gr.
[15. gr.]1)
Lög þessi öðlast þegar gildi.
    1)L. 7/2015, 9. gr.