Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 3. maí 2019. Útgáfa 149b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum
1999 nr. 61 22. mars
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 30. mars 1999. EES-samningurinn: XVIII. viðauki tilskipun 75/129/EBE og 77/187/EBE, XXII. viðauki tilskipun 78/660/EBE og XVIII. viðauki tilskipun 94/45/EB. Breytt með l. 104/2014 (tóku gildi 7. nóv. 2014; EES-samningurinn: XVIII. viðauki tilskipun 2009/38/EB).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við félags- og barnamálaráðherra eða félagsmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Markmið og gildissvið.
1. gr. Markmið laganna.
Markmið laga þessara er að bæta rétt starfsmanna til upplýsinga og samráðs í fyrirtækjum eða fyrirtækjasamstæðum er starfa í a.m.k. tveimur ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu (EES).
Skal í þeim tilgangi stofna evrópskt samstarfsráð, hér eftir nefnt samstarfsráð, með fulltrúum starfsmanna eða setja reglur í hverju fyrirtæki og hverri fyrirtækjasamstæðu um upplýsingamiðlun og samráð eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.
[Upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn eða fulltrúa þeirra skal fara fram á viðeigandi stjórnunarstigum við þar til bæra fulltrúa í samræmi við það efni sem er til umfjöllunar hverju sinni.] 1)
1)L. 104/2014, 1. gr.
2. gr. Gildissvið.
Lög þessi taka til fyrirtækja og fyrirtækjasamstæðna, sbr. 3. og 4. gr.
Þegar aðalstjórn fyrirtækis, sbr. 7. gr., er hér á landi taka lög þessi enn fremur til erlendra dótturfyrirtækja og starfsstöðva að undantekinni 8. gr., 3. og 4. mgr. 11. gr., 2. og 3. mgr. 21. gr. og 34.–35. gr.
[Valdsvið samstarfsráðs, upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn samkvæmt lögum þessum skal takmarkast við fjölþjóðlegt málefni, sbr. 8. gr. a.
Lög þessi gilda ekki um upplýsingamiðlun og samráð samkvæmt lögum um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum, nr. 151/2006. Þá gilda lög þessi ekki um reglur um upplýsingamiðlun og samráð skv. 6. gr. laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 72/2002, og skv. II. kafla laga um hópuppsagnir, nr. 63/2000.] 1)
1)L. 104/2014, 2. gr.
II. kafli. Skilgreiningar.
3. gr. Fyrirtæki.
Með fyrirtæki í lögum þessum er átt við fyrirtæki sem:
1. hefur a.m.k. 1.000 starfsmenn í ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu,
2. er með starfsstöðvar í a.m.k. tveimur EES-ríkjum og hefur a.m.k. 150 starfsmenn í hvoru þeirra.
4. gr. Fyrirtækjasamstæða.
Í lögum þessum merkir fyrirtækjasamstæða samstæðu fyrirtækja sem:
1. hefur a.m.k. 1.000 starfsmenn í ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu,
2. er með fyrirtæki í a.m.k. tveimur EES-ríkjum,
3. samanstendur af minnst tveimur fyrirtækjum, hvoru í sínu EES-ríkinu, sem hvort um sig hefur 150 starfsmenn eða fleiri.
5. gr. Móðurfyrirtæki.
Móðurfyrirtæki merkir fyrirtæki sem er í ráðandi aðstöðu gagnvart öðru fyrirtæki, t.d. á grundvelli eignarréttar, fjárhagslegrar þátttöku eða þeirra reglna sem það starfar eftir, sbr. þó 1. mgr. 6. gr.
Ef ekki er unnt að sýna fram á hið gagnstæða skal telja að fyrirtæki sé í ráðandi aðstöðu gagnvart öðru fyrirtæki þegar það beint eða óbeint:
1. hefur rétt til að tilnefna meira en helming fulltrúa í félagsstjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstofnun þess eða
2. fer með meiri hluta atkvæða í því eða
3. á meira en helmingshlut í því.
Ef tvö eða fleiri fyrirtæki innan fyrirtækjasamstæðu fullnægja einu eða fleiri skilyrðum 2. mgr. telst það fyrirtæki móðurfyrirtæki sem fullnægir skilyrði 1. tölul. 2. mgr. Ef ekkert fyrirtækjanna fullnægir skilyrði 1. tölul. 2. mgr. telst það fyrirtæki sem fullnægir skilyrði 2. tölul. 2. mgr. móðurfyrirtæki.
Fyrirtæki, sem móðurfyrirtæki hefur eitthvert það samband við sem nefnt er í 1. og 2. mgr., telst dótturfyrirtæki. Saman mynda móðurfyrirtækið og dótturfyrirtækin fyrirtækjasamstæðu.
Við ákvörðun þess hvaða þýðingu atkvæðisréttur og réttur til að tilnefna fulltrúa í félagsstjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstofnun fyrirtækis hefur í skilningi þessa ákvæðis skulu talin með bæði réttindi í eigu móðurfyrirtækis og dótturfyrirtækja þess.
6. gr. Undantekningar.
Fyrirtæki telst ekki móðurfyrirtæki skv. 1.–3. mgr. 5. gr. ef um er að ræða:
1. Lánastofnanir, aðrar fjármálastofnanir eða tryggingafyrirtæki, þar sem verðbréfaviðskipti, kaup og sala fyrir eigin hönd eða annarra falla undir eðlilega starfsemi hlutaðeigandi fyrirtækis, sem halda til bráðabirgða hlutabréfum í fyrirtæki sem þau hyggjast selja aftur. Skilyrði er að þau notfæri sér ekki atkvæðisrétt sem þessum hlutabréfum fylgir með það fyrir augum að ákvarða samkeppnisaðgerðir þess sama fyrirtækis eða að þau notfæri sér þennan atkvæðisrétt einungis með það fyrir augum að undirbúa sölu hlutaðeigandi fyrirtækis í heild eða að hluta, eigna þess eða hlutabréfa og að af sölunni verði innan árs frá því að bréfanna var aflað.
2. Eignarhaldsfélag sem öðlast beint eða óbeint yfirráð yfir öðru fyrirtæki, með kaupum á hlut í því eða með öðrum hætti, að því tilskildu að atkvæðisréttur sem yfirráðin veita sé nýttur, einkum er varðar skipun í framkvæmdastjórn og yfirstjórnir fyrirtækja sem þau eiga hlut í, aðeins til að viðhalda fullu verðgildi þessara fjárfestinga og ekki til að ákvarða beint eða óbeint samkeppnisaðgerðir fyrirtækja þessara. Með eignarhaldsfélögum er átt við fyrirtæki sem hafa það meginmarkmið að fjárfesta í öðrum fyrirtækjum og ávaxta og nýta slíka hagsmuni án þess að blanda sér beint eða óbeint í stjórn slíkra fyrirtækja.
Skiptastjóri þrotabús samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti, eða annar sá aðili sem lögum samkvæmt hefur verið skipaður til að annast félagsslit, greiðslustöðvun, nauðasamninga eða aðrar sambærilegar aðgerðir, telst ekki í ráðandi aðstöðu í skilningi 5. gr.
7. gr. Aðalstjórn.
Stjórn fyrirtækis telst aðalstjórn þess.
Stjórn móðurfyrirtækis, sbr. 5. gr., telst aðalstjórn fyrirtækjasamstæðu. Ef tvö eða fleiri fyrirtæki innan sömu fyrirtækjasamstæðu eru móðurfyrirtæki telst aðalstjórn vera stjórn þess fyrirtækis sem er í ráðandi aðstöðu gagnvart hinum fyrirtækjunum, sbr. þó 1. mgr. 6. gr.
Ef aðalstjórn fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu er ekki í EES-ríki telst aðalstjórn vera sá fulltrúi sem aðalstjórn tilnefnir. Ef slíkur fulltrúi hefur ekki verið tilnefndur telst aðalstjórn vera stjórn þess fyrirtækis eða starfsstöðvar sem hefur flesta starfsmenn í EES-ríki.
8. gr. Fjöldi starfsmanna.
Með fjölda starfsmanna, sbr. 3. og 4. gr., er átt við meðalfjölda starfsmanna á síðustu tveimur árum áður en beiðni er lögð fram skv. 10. gr. Við ákvörðun þessa skal ekki gerður greinarmunur á starfsmönnum í hlutastörfum og þeim sem gegna fullu starfi, sbr. þó 2. mgr.
Aðalstjórn skal veita fulltrúum starfsmanna upplýsingar um heildarfjölda starfsmanna í fyrirtækjum og starfsstöðvum í einstökum ríkjum. Aðalstjórn skal enn fremur láta þeim í té upplýsingar um félagsform fyrirtækis og fyrirtækjasamstæðu.
[8. gr. a. Fjölþjóðlegt málefni.
Með fjölþjóðlegu málefni er í lögum þessum átt við málefni sem varðar:
1. fyrirtæki, sbr. 3. gr., sem eina heild,
2. fyrirtækjasamstæðu, sbr. 4. gr., sem eina heild eða
3. a.m.k. tvö fyrirtæki fyrirtækjasamstæðu eða tvær starfsstöðvar fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu í tveimur EES-ríkjum.] 1)
1)L. 104/2014, 3. gr.
[8. gr. b. Fulltrúar starfsmanna.
Með fulltrúum starfsmanna er í lögum þessum átt við trúnaðarmenn stéttarfélaga og/eða sameiginlegan fulltrúa þeirra starfsmanna hlutaðeigandi fyrirtækis sem ekki eiga trúnaðarmann nema annað sé ákveðið í kjarasamningum eða samkomulag sé um aðra framkvæmd í fyrirtæki.] 1)
1)L. 104/2014, 3. gr.
[8. gr. c. Upplýsingamiðlun.
Með upplýsingamiðlun er í lögum þessum átt við miðlun upplýsinga frá vinnuveitanda til fulltrúa starfsmanna sem gerir þeim kleift að kynna sér efni máls. Upplýsingar skulu vera þess efnis og veittar á þeim tíma og með þeim hætti að fulltrúar starfsmanna geti framkvæmt ítarlegt mat á hugsanlegum áhrifum þeirra og eftir því sem við getur átt undirbúið samráð við þar til bæran aðila í viðkomandi fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæðu.] 1)
1)L. 104/2014, 3. gr.
[8. gr. d. Samráð.
Með samráði er í lögum þessum átt við að komið sé á viðræðum og skoðanaskiptum á milli fulltrúa starfsmanna og aðalstjórnar eða annars viðeigandi stjórnunarstigs. Samráð skal vera þess efnis og fara fram á þeim tíma og með þeim hætti að fulltrúar starfsmanna geti á grundvelli þeirra upplýsinga sem þeim hafa verið veittar látið í ljós álit sitt á hinum fyrirhuguðu aðgerðum sem samráðið varðar.] 1)
1)L. 104/2014, 3. gr.
III. kafli. Stofnun samstarfsráðs eða samþykkt reglna um upplýsingamiðlun og samráð.
9. gr. Ábyrgð.
Aðalstjórn ber ábyrgð á því að skapa nauðsynleg skilyrði fyrir stofnun samstarfsráðs eða samþykkt reglna um upplýsingamiðlun og samráð.
10. gr. Upphaf samningaumleitana.
Aðalstjórn skal að eigin frumkvæði eða fyrir skriflega beiðni um það frá a.m.k. 100 starfsmönnum eða fulltrúum þeirra í a.m.k. tveimur fyrirtækjum eða starfsstöðvum í a.m.k. tveimur EES-ríkjum hefja samningaumleitanir um stofnun samstarfsráðs eða setningu reglna um upplýsingamiðlun.
Beiðni skv. 1. mgr. skal afhent aðalstjórn eða einhverri annarri stjórn fyrirtækis sem skal þá framsenda beiðnina til aðalstjórnar.
Frestur, sbr. 19. gr., hefst þegar beiðni starfsmanna, sbr. 1. mgr., hefur verið afhent aðalstjórn eða stjórn annars hlutaðeigandi fyrirtækis sem er hluti af fyrirtækjasamstæðunni eða fyrirtækinu.
11. gr. Skipan sérstaks samningaráðs.
Að uppfylltum ákvæðum 10. gr. skal aðalstjórn hafa frumkvæði að skipan sérstaks samningaráðs sem hafi það að markmiði að vinna að stofnun samstarfsráðs eða setningu reglna um upplýsingamiðlun og samráð.
[Fulltrúar starfsmanna kjósa fulltrúa í samningaráð skv. 1. mgr. úr hópi sínum. Ef því verður ekki við komið skulu allir starfsmenn kjósa um þá.] 1)
Fulltrúar í samningaráðið, sem kosnir eru á Íslandi, skulu kosnir úr hópi starfsmanna af trúnaðarmönnum innan fyrirtækis. Séu ekki trúnaðarmenn innan fyrirtækis eiga allir starfsmenn fyrirtækis eða starfsstöðvar rétt á að taka þátt á kjöri fulltrúa í samningaráðið.
Starfsmenn sem stöðu sinnar vegna eiga ekki trúnaðarmann eiga rétt á að velja sér fulltrúa sem skal taka þátt í kjöri fulltrúa í samningaráðið.
[Fjöldi fulltrúa starfsmanna frá hverju EES-ríki, þar sem fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæða hefur fyrirtæki eða starfsstöð, sem skipaðir eru í samningaráð ræðst af hlutfalli starfsmanna í því ríki af heildarfjölda starfsmanna fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar. Skal að lágmarki einn fulltrúi starfsmanna eiga sæti í samningaráðinu frá því EES-ríki skv. 1. málsl. þar sem starfsmenn eru færri en nemur 10% af heildarfjölda starfsmanna fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar.
Þegar samningaráðið hefur verið skipað skal aðalstjórn, staðbundnum stjórnum og þar til bærum samtökum launafólks og vinnuveitenda á Evrópuvísu tilkynnt um skipan þess og um upphaf samningaumleitana.] 1)
1)L. 104/2014, 4. gr.
12. gr. Verkefni og kostnaður sérstaka samningaráðsins.
Samningaráði og aðalstjórn ber í anda samvinnu að vinna að gerð skriflegs samnings um stofnun samstarfsráðs eða setningu reglna um upplýsingamiðlun og samráð.
[Samningaráðið getur kvatt sér til aðstoðar sérfræðinga að eigin vali, svo sem fulltrúa þar til bærra viðurkenndra stéttarfélaga eða samtaka launafólks á Evrópuvísu. Að beiðni samningaráðsins er slíkum sérfræðingum og fulltrúum stéttarfélaga heimilt að vera viðstaddir fundi þar sem samningaumleitanir fara fram til að veita samningaráðinu ráðgjöf.] 1)
Aðalstjórn skal bera þann kostnað sem hlýst af samningaviðræðum þannig að samningaráðinu sé gert kleift að sinna verkefnum sínum með eðlilegum hætti, þar með talinn útlagðan ferða- og gistikostnað. Þá skal aðalstjórn útvega samningaráðinu húsnæði auk túlka og ritara ef þörf krefur.
1)L. 104/2014, 5. gr.
13. gr. Boðun fundar.
Þegar samningaráðið hefur verið skipað, sbr. 11. gr., skal aðalstjórn boða það til fundar í því skyni að hefja viðræður um gerð samnings skv. 14. eða 15. gr. Stjórnum annarra fyrirtækja skal tilkynnt um fundarboðið.
[Fyrir og eftir hvern fund með aðalstjórn er sérstaka samningaráðinu heimilt að koma saman án þess að fulltrúar aðalstjórnar séu viðstaddir og er samningaráðinu heimilt að nota til þess nauðsynlegar samskiptaleiðir.] 1)
1)L. 104/2014, 6. gr.
14. gr. Inntak samnings um samstarfsráð.
Í samningi um stofnun samstarfsráðs, sbr. 1. mgr. 12. gr., skulu vera ákvæði a.m.k. um eftirfarandi atriði:
1. Nöfn fyrirtækja og/eða starfsstöðva, sbr. 3. og 4. gr., sem falla undir samninginn.
2. [Samsetningu samstarfsráðsins, fjölda fulltrúa í ráðinu, úthlutun sæta og skipunartíma þess. Gæta skal jafnvægis við úthlutun sæta, að því marki sem unnt er, með tilliti til kyns fulltrúanna, starfa þeirra og starfssviðs.] 1)
3. [Hlutverk samstarfsráðsins og upplýsingamiðlun og samráð samstarfsráðsins sem og með hvaða hætti upplýsingamiðlun og samráð samstarfsráðsins verði samhæft við upplýsingamiðlun og samráð innlendra fulltrúaráða starfsmanna, en við þá samhæfingu skal taka mið af ákvæðum 3. mgr. 1. gr. og 3. mgr. 2. gr.] 1)
4. Hvar ráðið skal hittast, hversu oft og hve lengi.
5. Hvert fjármagn og aðbúnaður samstarfsráðsins skal vera.
6. [Gildistökudag samningsins og gildistíma hans, með hvaða hætti honum verði breytt eða sagt upp og í hvaða tilvikum samningur skuli endurnýjaður og með hvaða hætti það skuli gert, þar á meðal vegna breytinga á skipulagi fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu ef þess gerist þörf.] 1)
[7. Skipan, hlutverk og reglur um tilnefningar og málsmeðferð framkvæmdanefndarinnar sem sett er á fót innan samstarfsráðsins, ef við á.] 1)
1)L. 104/2014, 7. gr.
15. gr. Inntak samnings um upplýsingamiðlun og samráð.
Ef aðalstjórn og samningaráð ákveða að gera samning er hefur að geyma reglur um upplýsingamiðlun og samráð, sbr. 1. mgr. 12. gr., skal samningurinn einkum hafa að geyma ákvæði um málefni sem varða fleiri en eitt EES-ríki og hafa umtalsverð áhrif á hagsmuni starfsmanna. Í samningi aðila skal þó að lágmarki kveða á um eftirfarandi atriði:
1. Nöfn fyrirtækja og/eða starfsstöðva, sbr. 3. og 4. gr., sem falla undir samninginn.
2. Fyrirkomulag á miðlun upplýsinga og samráði við starfsmenn eða fulltrúa þeirra.
3. Rétt starfsmanna eða fulltrúa þeirra til að koma saman til fundar í því skyni að skiptast á skoðunum um upplýsingar sem þeim eru veittar skv. 1. málsl.
16. gr. Slit viðræðna.
Samningaráðið getur ákveðið með a.m.k. tveimur þriðju hlutum atkvæða að hefja ekki viðræður um gerð samnings skv. 14. eða 15. gr. eða slíta viðræðum sem þegar eru hafnar.
Hafi samningaráðið ályktað skv. 1. mgr. skal viðræðum um samningsgerð slitið. Þegar slík ákvörðun hefur verið tekin gilda ákvæði IV. kafla ekki.
Kalla má samningaráðið saman að nýju í fyrsta lagi tveimur árum eftir að framangreind ákvörðun er tekin nema aðilar mæli fyrir um skemmri tíma.
17. gr. Atkvæðagreiðsla.
Atkvæði meiri hluta fulltrúa í samningaráðinu ráða úrslitum í atkvæðagreiðslum, sbr. þó 16. gr. Ef atkvæði falla jöfn hafa fulltrúar frá því ríki þar sem starfsmenn eru flestir eitt viðbótaratkvæði.
18. gr. Tilkynning til ráðherra.
Aðalstjórn skal tilkynna ráðherra um samninga sem gerðir hafa verið skv. 14. eða 15. gr. laga þessara.
IV. kafli. Ákvæði til vara.
19. gr. Skylda til stofnunar samstarfsráðs.
Samstarfsráð skal stofnað samkvæmt ákvæðum þessa kafla:
1. ef aðalstjórn og samningaráðið ákveða það,
2. ef aðalstjórn hefur ekki hafið samningaumleitanir innan sex mánaða eftir að beiðni frá starfsmönnum hefur borist um það skv. 10. gr.,
3. ef aðilar hafa ekki komið sér saman um samning þann sem tilgreindur er í 14. eða 15. gr. innan þriggja ára frá þeim tíma þegar beiðni um það barst upphaflega, sbr. 10. gr., og samningaráðið hefur ekki áður tekið ákvörðun skv. 16. gr.
20. gr. [Upplýsingamiðlun og samráð.
Upplýsingamiðlun til samstarfsráðs skal einkum varða skipulag fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar, efnahagslega og fjárhagslega stöðu og líklega þróun hvað varðar rekstur, framleiðslu og sölu.
Upplýsingamiðlun og samráð við samstarfsráð skal einkum varða ástand og horfur í atvinnumálum, fjárfestingar og umtalsverðar breytingar á skipulagi fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar, tilkomu nýrra starfsaðferða eða framleiðsluaðferða, flutning framleiðslu, samruna fyrirtækja, niðurskurð eða lokun fyrirtækja, starfsstöðva eða annarra mikilvægra hluta þeirra og hópuppsagnir.
Samráði skal þannig háttað að fulltrúar starfsmanna geti fundað með aðalstjórn og fengið viðbrögð hennar við álitum sínum ásamt rökstuðningi aðalstjórnar fyrir þeim viðbrögðum.] 1)
1)L. 104/2014, 8. gr.
21. gr. Val fulltrúa í samstarfsráð.
Í samstarfsráði skulu sitja minnst þrír en mest þrjátíu fulltrúar. Fulltrúar starfsmanna kjósa fulltrúa í ráðið úr sínum hópi. Ef því verður ekki við komið skulu allir starfsmennirnir kjósa um þá.
Fulltrúar í samstarfsráðið, sem kosnir eru á Íslandi, skulu kosnir úr hópi starfsmanna af trúnaðarmönnum innan fyrirtækis. Séu ekki trúnaðarmenn innan fyrirtækis eiga allir starfsmenn fyrirtækis eða starfsstöðvar rétt á að taka þátt á kjöri fulltrúa í samstarfsráðið.
Starfsmenn sem stöðu sinnar vegna eiga ekki trúnaðarmann eiga rétt á að velja sér fulltrúa sem skal taka þátt í kjöri fulltrúa í samstarfsráðið.
[Fjöldi fulltrúa starfsmanna frá hverju EES-ríki, þar sem fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæða hefur fyrirtæki eða starfsstöð, sem skipaðir eru í samstarfsráð ræðst af hlutfalli starfsmanna í því ríki af heildarfjölda starfsmanna fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar. Skal að lágmarki einn fulltrúi starfsmanna eiga sæti í samstarfsráðinu frá því EES-ríki skv. 1. málsl. þar sem starfsmenn eru færri en nemur 10% af heildarfjölda starfsmanna fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar.] 1)
… 1)
Aðalstjórn eða einhverju öðru hlutaðeigandi stjórnunarstigi innan fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu skal tilkynnt um hverjir skipa samstarfsráðið.
[Til að tryggja að samstarfsráðið geti samræmt starfsemi sína skal það kjósa úr sínum hópi framkvæmdanefnd sem skal skipuð allt að fimm fulltrúum. Framkvæmdanefndinni skal gert kleift að koma reglulega saman til að rækja skyldur sínar og skal hún setja sér starfsreglur.] 1)
1)L. 104/2014, 9. gr.
22. gr. Endurskoðun.
Annað hvert ár eftir stofnun samstarfsráðs skal aðalstjórn reikna út fjölda fulltrúa fyrir hvert ríki og gefa ráðinu upplýsingar um niðurstöðu sína. Ef niðurstaðan kallar á breytingu á fjölda fulltrúa sem skipaðir hafa verið skv. 4. og 5. mgr. 21. gr. skal fulltrúum í ráðinu fækkað eða fjölgað eftir því sem við á.
Fjórum árum eftir að samstarfsráð hefur verið stofnað samkvæmt ákvæðum í þessum kafla ber ráðinu að ræða hver þörfin er fyrir að hefja viðræður í því skyni að gera samning skv. 14. eða 15. gr. eða hvort halda beri áfram starfi samstarfsráðsins á sama grundvelli og áður.
Ef aðilar ákveða að gera samning skv. 14. og 15. gr. skal samstarfsráðið gegna því hlutverki sem samningaráði væri að öðrum kosti falið.
23. gr. Reglulegir fundir.
Samstarfsráð hefur rétt til þess að eiga fund með aðalstjórn einu sinni á ári til upplýsingar og samráðs. Fyrir fundinn skal aðalstjórn útbúa skýrslu um rekstur og rekstrarhorfur fyrirtækisins sem lögð skal til grundvallar fundinum.
… 1)
1)L. 104/2014, 10. gr.
24. gr. Aukafundir.
[Ef fyrir hendi eru sérstakar aðstæður eða teknar hafa verið ákvarðanir sem hafa umtalsverð áhrif á hagsmuni starfsmanna, einkum vegna flutnings, lokunar fyrirtækja eða starfsstöðva þeirra eða hópuppsagna, á framkvæmdanefnd eða samstarfsráð, hafi framkvæmdanefnd ekki verið skipuð, rétt á að fá upplýsingar þar um.] 1)
Framkvæmdanefndin eða, hafi hún ekki verið stofnuð, samstarfsráðið hefur eftir að hafa sent frá sér beiðni þess efnis rétt til að sitja fund með aðalstjórn fyrirtækis eða einhverju öðru hlutaðeigandi stjórnunarstigi í fyrirtækinu eða fyrirtækjasamstæðunni í því skyni að fá upplýsingar og hafa samráð um mikilvægar ráðstafanir sem hafa umtalsverð áhrif á hagsmuni starfsmanna.
[Fulltrúar í samstarfsráðinu, sem kosnir hafa verið í fyrirtækjum eða starfsstöðvum þeirra sem viðkomandi aðstæður eða ákvarðanir skv. 1. mgr. hafa umtalsverð áhrif á, eiga rétt á að sitja fundi framkvæmdanefndar sem ráðgerðir eru skv. 2. mgr.] 1)
Fundur skv. 2. mgr. skal haldinn svo skjótt sem við verður komið á grundvelli skýrslu aðalstjórnar eða annars hlutaðeigandi stjórnunarstigs. Framkvæmdanefndinni eða samstarfsráðinu er heimilt að leggja fram álit á skýrslunni í fundarlok eða innan hæfilegs frests.
Fundur skv. 2. mgr. hefur ekki áhrif á heimildir aðalstjórnar.
Ef skammt er til árlegs fundar skv. 23. gr. er heimilt að fresta umræðum um málefni sem annars yrði fjallað um á aukafundi ef ljóst þykir að frestur af þeim sökum hafi ekki áhrif á samráðsferlið.
[1.–6. mgr. um upplýsingamiðlun og samráð skal framfylgt með tilliti til 2. mgr. 1. gr. og 29. gr.] 1)
1)L. 104/2014, 11. gr.
25. gr. Undirbúningsfundur.
Áður en fundur er haldinn með aðalstjórn er samstarfsráðinu eða framkvæmdanefndinni, með þeirri víðtækari skipan sem heimiluð er skv. 3. mgr. 24. gr., heimilt að halda fund án nærveru stjórnarinnar.
26. gr. Upplýsingagjöf.
Fulltrúar í samstarfsráði skulu greina fulltrúum starfsmanna fyrirtækisins eða, ef slíkir fulltrúar eru ekki fyrir hendi, öllum starfsmönnum fyrirtækisins frá efni upplýsinga og samráði sem farið hefur fram í samræmi við ákvæði þessa kafla, sbr. þó 29. gr.
27. gr. Sérfræðingar.
Samstarfsráðið eða framkvæmdanefndin getur kallað til sérfræðinga að eigin vali ef slíkt reynist nauðsynlegt vegna starfsemi ráðsins. Kostnaður aðalstjórnar, sbr. 28. gr., takmarkast þó við störf eins sérfræðings.
28. gr. Kostnaður.
Aðalstjórn greiðir kostnað samstarfsráðsins.
Aðalstjórn ber að tryggja fulltrúum í samstarfsráðinu það fjármagn og þá aðstöðu sem þeim er nauðsynleg til að sinna skyldum sínum. Aðalstjórn ber að tryggja að fulltrúar í samstarfsráðinu verði ekki fyrir launamissi vegna þátttöku sinnar í starfi ráðsins.
Einkum skal aðalstjórn greiða kostnað af skipulagi funda og aðstöðu vegna túlkunar og gisti- og ferðakostnað fulltrúa samstarfsráðsins og framkvæmdanefndar hennar nema um annað sé samið.
V. kafli. Sameiginleg ákvæði.
29. gr. Þagnarskylda.
Aðalstjórn er heimilt að leggja þagnarskyldu á fulltrúa í samningaráðinu, samstarfsráðinu og framkvæmdanefndinni, fulltrúa starfsmanna skv. 15. gr. og þá sérfræðinga sem til eru kvaddir þeim til aðstoðar. Aðalstjórn skal tiltaka sérstaklega þær upplýsingar sem þagnarskylda lýtur að.
Þagnarskyldan helst þótt umboð þeirra sem heyra undir 1. mgr. falli niður.
30. gr. Undanþága frá upplýsingaskyldu.
Aðalstjórn er heimilt að láta hjá líða að veita fulltrúum í samningaráðinu, samstarfsráðinu og framkvæmdanefndinni eða fulltrúum starfsmanna skv. 15. gr. upplýsingar ef þær eru samkvæmt hlutlægu mati þess eðlis að þær geti haft skaðleg áhrif á starfsemi hlutaðeigandi fyrirtækja eða verið þeim skaðlegar.
[30. gr. a. Samhæfing upplýsingamiðlunar og samráðs gagnvart innlendum fulltrúaráðum starfsmanna.
Upplýsingamiðlun og samráð samstarfsráðs skal vera samhæft við upplýsingamiðlun og samráð innlendra fulltrúaráða starfsmanna, að teknu tilliti til valdsviðs og aðgerðasviðs þessara aðila, sbr. 3. mgr. 1. gr. og 3. mgr. 2. gr.
Kveða skal á um fyrirkomulag samhæfingar upplýsingamiðlunar og samráðs samstarfsráðs og innlendra fulltrúaráða starfsmanna skv. 1. mgr. í samningi um stofnun samstarfsráðs, sbr. 14. gr. Hafi fyrirkomulag samhæfingar skv. 1. mgr. ekki verið skilgreint með samningi, sbr. 3. tölul. 14. gr., og fyrirhugað er að taka ákvarðanir sem leitt geta til verulegra breytinga á starfsskipulagi eða samningssambandi starfsmanna og vinnuveitanda skal upplýsingamiðlun og samráð fara fram í samstarfsráði sem og hjá trúnaðarmönnum stéttarfélaga og/eða sameiginlegum fulltrúum þeirra starfsmanna sem ekki eiga trúnaðarmenn.] 1)
1)L. 104/2014, 12. gr.
[30. gr. b. Breytingar á samningi um samstarfsráð vegna verulegra breytinga á fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæðu.
Hefja skal að nýju samningaumleitanir vegna samnings um samstarfsráð ef gerðar eru verulegar breytingar á skipulagi fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu og í gildandi samningum hefur ekki verið kveðið á um hvernig bregðast skuli við þegar slíkar breytingar verða eða ákvæði gildandi samninga þar um eru ósamrýmanleg. Slíkar samningaumleitanir verða hafnar að frumkvæði aðalstjórnar eða að skriflegri beiðni minnst 100 starfsmanna eða fulltrúa þeirra í a.m.k. tveimur EES-ríkjum þar sem fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæða hefur starfsemi.
Í sérstöku samningaráði skulu auk kjörinna fulltrúa eiga sæti a.m.k. þrír fulltrúar frá hverju starfandi samstarfsráði.
Meðan á samningaumleitunum stendur skulu starfandi samstarfsráð, eitt eða fleiri, starfa áfram með þeim hætti sem fulltrúar samstarfsráðsins og aðalstjórn hafa komið sér saman um.] 1)
1)L. 104/2014, 12. gr.
31. gr. [Hlutverk og réttarstaða fulltrúa starfsmanna.
Með fyrirvara um valdsvið annarra aðila skulu fulltrúar samstarfsráðs hafa nauðsynleg úrræði til að nýta réttindi sín samkvæmt lögum þessum og til að gæta hagsmuna starfsmanna fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu.
Með fyrirvara um ákvæði 29. gr. skulu fulltrúar samstarfsráðs veita fulltrúum starfsmanna fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu upplýsingar um efni og niðurstöður upplýsingamiðlunar og samráðs. Sé ekki um slíka fulltrúa að ræða skulu fulltrúar samstarfsráðs veita öllum starfsmönnum upplýsingar þessar.
Fulltrúar í sérstaka samningaráðinu eða samstarfsráðinu eða fulltrúar starfsmanna skulu hvorki sæta uppsögn né skerðingu á kjörum sínum vegna starfa sinna. Fulltrúar starfsmanna, sbr. 8. gr. b, skulu njóta sams konar réttarverndar og trúnaðarmenn samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938.
Fulltrúum starfsmanna skal tryggður réttur með samningi við vinnuveitanda til að taka sér leyfi frá störfum svo að þeir geti á eðlilegan hátt sinnt skyldum sínum við gerð og framkvæmd samninga samkvæmt lögum þessum.
Fulltrúum sérstaka samningaráðsins og samstarfsráðsins skal, án þess að þeir missi við það laun, veitt sú þjálfun sem nauðsynleg er til að þeir geti rækt skyldur sínar samkvæmt lögum þessum.] 1)
1)L. 104/2014, 13. gr.
32. gr. Ágreiningur.
Ágreiningur, sem kann að rísa um gerð eða framkvæmd samnings sem gerður er á grundvelli laga þessara, verður borinn undir almenna dómstóla.
33. gr. Reglugerð.
Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði í reglugerð um kosningu íslenskra fulltrúa í samningaráðið og samstarfsráðið.
VI. kafli. Viðurlög.
34. gr. Upplýsingar til þriðja aðila.
Þeir sem þrátt fyrir þagnarskyldu skv. 29. gr. láta þriðja aðila í té upplýsingar sem þeim hafa verið veittar skulu dæmdir til fésekta nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
35. gr. Viðurlög.
Brot á 9. gr., 1. mgr. 10. gr., 1. mgr. 11. gr., 19. gr., 23. gr. og 1.–2. mgr. 24. gr. varða fésektum.
VII. kafli. Ýmis ákvæði.
36. gr. 13. gr. samningar.
Lög þessi taka ekki til fyrirtækja og fyrirtækjasamstæðna sem eiga aðild að samkomulagi um upplýsingagjöf og samráð á grundvelli 13. gr. tilskipunar nr. 94/45/EB. Skilyrði er að samkomulag aðila hafi öðlast gildi í síðasta lagi 21. september 1996 og að það nái til allra starfsmanna hlutaðeigandi fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu og snerti upplýsingagjöf og samráð um málefni fyrirtækja í tveimur eða fleiri ríkjum.
Ef samkomulag, sbr. 1. mgr., fellur úr gildi er aðilum heimilt að framlengja það. Að öðrum kosti fer um samskipti aðila samkvæmt lögum þessum.
[36. gr. a. Innleiðing tilskipunar.
Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/38/EB frá 6. maí 2009 um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum, er starfa á bandalagsvísu, varðandi upplýsingamiðlun til starfsmanna og samráð við starfsmenn, sem vísað er til í 27. lið XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 54/2010.] 1)
1)L. 104/2014, 14. gr.
37. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast þegar gildi.