Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 10. janúar 2020.  Útgáfa 150a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um bráðabirgðaútflutningsskýrslur

1935 nr. 53 28. janúar


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 30. janúar 1935. Breytt með: L. 19/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992 nema 1. og 3. mgr. 29. gr. sem tóku gildi 17. apríl 1991). L. 92/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992 nema 103. gr. sem tók gildi 9. jan. 1992). L. 141/2019 (tóku gildi 1. jan. 2020).


1. gr.
Fiskifélag Íslands skal safna skýrslum um útflutning á alls konar sjávarafurðum.
2. gr.
Fiskifélagið gefur út á mánuði hverjum skýrslur um útflutninginn; nær skýrslugerð þessi aðeins til magns vörunnar, nema öðruvísi sé ákveðið. Á skýrslum þessum skal tilgreina, hvert varan er flutt.
Félagið skal samtímis birta yfirlit um fiskbirgðir í landinu.
3. gr.
Til skýrslugerðarinnar skal afla þeirra gagna, sem hér segir:
    Saltfiskur, verkaður og óverkaður, og hertur fiskur:
Yfirfiskimatsmenn skulu afhenda Fiskifélaginu afrit af hverju farmskírteini fiskjar, sem matsmaður hefur ritað á vottorð. Þessi afrit skulu þeir senda með fyrstu ferð og jafnframt fela undirmatsmönnum, sem undirskrifa í umboði þeirra, að gera hið sama.
Á afriti farmskírteinisins skal tilgreina ákvörðunarstað vörunnar. Ef hann er ekki tilgreindur, skal sendandi tilkynna félaginu svo fljótt sem unnt er, hver viðtökustaðurinn varð.
    Ísfiskur, ísuð síld og ísuð hrogn:
Útflytjendur skulu, svo fljótt sem unnt er, afhenda félaginu afrit af sölureikningi með tilgreindu vörumagni og verði.
Á reikningnum skal tilgreina þann þunga, sem tilkynntur er þeirri stofnun, sem fjallar um innflutningsskýrslur í hlutaðeigandi landi.
Til bráðabirgða skulu útflytjendur láta umboðsmenn sína erlendis síma Fiskifélaginu magn aflans þegar, er salan hefur farið fram, frá Bretlandi það magn í enskum vættum (cwts.), sem tilkynnt er fiskimálaráðuneyti þar, en frá öðrum löndum þunga talinn í kg.
Nú er varan seld beint af framleiðendum í erlend skip, sem kaupa fyrir eigin reikning, og skulu þá umboðsmenn hins erlenda skips gefa skýrslu um vörumagn og verð, sundurliðaða á þann hátt, sem félagið fyrirskipar.
Af öllum öðrum sjávarafurðum eða vörum, sem að nokkru eða öllu leyti eru unnar úr þeim, [skulu tollyfirvöld] 1) á útflutningsstaðnum halda eftir einu eintaki af útflutningsskýrslu um vöruna og senda Fiskifélaginu með fyrstu ferð.
    1)L. 141/2019, 38. gr.
4. gr.
Nú er ákvörðunarstaður vörunnar ekki nægilega ákveðinn eða upplýsingar þær, sem í farmskírteininu felast, ekki fullnægjandi, og getur þá Fiskifélagið krafið útflytjandann um frekari upplýsingar, og skal honum skylt að láta þær í té, að svo miklu leyti sem hann getur.
5. gr.
Nú þarf Fiskifélagið að safna upplýsingum um birgðir, sem til eru í landinu af einhverjum þeim afurðum, er um getur í 1. gr., og skal þá eiganda eða umráðamanni vörunnar skylt að láta félaginu eða umboðsmönnum þess í té, svo fljótt sem auðið er, skýrslur um þær birgðir, sem hann hefur umráð yfir.
6. gr.
Fiskifélaginu er skylt að láta útgerðarmönnum, bönkum og kaupsýslumönnum í té vitneskju um útflutning og birgðir af vörum þeim, sem það safnar skýrslum um. Þó skal það ekki gefa upplýsingar um útflutning eða birgðir einstakra manna eða félaga, nema með leyfi þeirra eða eftir dómsúrskurði.
7. gr.
Ríkisstjórnin getur ákveðið með reglugerð, að skýrslur þær, sem um ræðir í lögum þessum, skuli einnig ná til verðmætis vörunnar, og einnig sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, ef þurfa þykir.
8. gr.
Gefi nokkur vísvitandi ranga skýrslu, skal hann sæta refsingu samkvæmt 156. gr. alm. hegningarlaga frá 1869. 1)
Tregðist nokkur við að láta í té skýrslu, sem Fiskifélagið hefur krafið um, setur félagið honum hæfilegan frest til þess að hafa skilað skýrslunni, en að frestinum liðnum má þröngva honum til þess með dagsektum, [sem Fiskifélagið ákveður, og má fullnægja kröfu um þær með fjárnámi]. 2)
Sektir allar renna í ríkissjóð.
    1)l. 19/1940, 146. gr. 2)L. 92/1991, 20. gr.
9. gr.1)
    1)L. 19/1991, 194. gr.