Lagasafn. Íslensk lög 1. maí 2020. Útgáfa 150b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um staðla og Staðlaráð Íslands
2003 nr. 36 20. mars
Ferill málsins á Alþingi.
Frumvarp til laga.
Tóku gildi 3. apríl 2003. Breytt með: L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eða
atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna
hér.
1. gr.

Hugtökin staðall, alþjóðlegur staðall, stöðlun, tækniforskrift og sammæli skulu hafa alþjóðlega viðurkennda merkingu hér á landi eins og hún kemur fram í íslenskum staðli um íðorð í stöðlun og skyldri starfsemi.
2. gr.

Íslenskur staðall er staðall sem hefur verið staðfestur af Staðlaráði Íslands.

Heimilt er að gefa út íslenskan staðal á erlendu tungumáli ef sýnt er að það hindri ekki eðlileg not hans.
3. gr.

Staðall er til frjálsra afnota. Stjórnvöld geta þó gert notkun tilgreinds staðals skyldubundna með vísun til hans og hlutaðeigandi laga. Skal hann þá staðfestur með reglugerð af hlutaðeigandi ráðuneyti og skal í reglugerð vísa til staðalsins.
4. gr.

Staðlaráð Íslands er samstarfsráð þeirra sem hagsmuna hafa að gæta af stöðlum. Aðild að ráðinu er öllum heimil.

Staðlaráð Íslands setur sér starfsreglur sem ráðherra staðfestir þar sem m.a. skal kveða á um skipulag ráðsins, stjórn þess og daglega starfsemi. Staðlaráð Íslands ræður sér framkvæmdastjóra. Hann fer með daglega stjórn ráðsins og ber ábyrgð á rekstri þess gagnvart stjórn þess.

Stjórn Staðlaráðs Íslands hefur það hlutverk að staðfesta alþjóðlega staðla og annast gerð íslenskra staðla í samvinnu við hagsmunaaðila, svo sem hlutaðeigandi ráðuneyti, stofnanir, samtök og fyrirtæki.

Staðlaráð Íslands getur starfrækt fagstaðlaráð á einstökum fagsviðum í samvinnu við hlutaðeigandi hagsmunaaðila. Hlutverk fagstaðlaráða er að samræma og hafa frumkvæði að stöðlunarvinnu á sínu sviði.
5. gr.

Staðlaráð Íslands á aðild að alþjóðasamstarfi staðlaráða fyrir Íslands hönd og fer með atkvæði landsins á þeim vettvangi. Heimilt er þó ráðinu að fela stofnun, fyrirtæki eða samtökum að annast í umboði þess þátttöku í alþjóðastaðlasamstarfi.
6. gr.

Eigi sjaldnar en ársfjórðungslega skal á vegum Staðlaráðs Íslands gefa út Staðlatíðindi þar sem m.a. skal:
1. tilkynna um ný stöðlunarverkefni,
2. auglýsa frumvörp að íslenskum stöðlum og kalla eftir athugasemdum innan tiltekins tímafrests og
3. tilkynna um staðfestingu Staðlaráðs Íslands á nýjum íslenskum stöðlum.

Við útgáfu auglýsinga og ákvörðun tímafrests samkvæmt þessari grein skal miðað við að þeir sem hagsmuna hafa að gæta geti haft áhrif á gerð staðalsins.

Á vegum Staðlaráðs Íslands skal haldin skrá yfir alla gildandi íslenska staðla. Skráin skal birt eigi sjaldnar en einu sinni á ári. Jafnframt skal Staðlaráð Íslands sjá til þess að á hverjum tíma séu til eintök af öllum gildandi íslenskum stöðlum.
7. gr.

Til að standa straum af starfsemi Staðlaráðs Íslands rennur hluti af gjaldstofni tryggingagjalds samkvæmt
lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, til Staðlaráðs Íslands. Aðrar tekjur Staðlaráðs Íslands eru m.a. aðildargjöld, sem ráðið ákveður, tekjur af verkefnum fyrir opinbera aðila og sala á stöðlum og þjónustu.
8. gr.

[Ráðherra]
1) fer með framkvæmd laga þessara. Hann getur með reglugerð
2) sett nánari ákvæði um framkvæmd þeirra, að fenginni umsögn Staðlaráðs Íslands.
1)L. 126/2011, 362. gr. 2)Rg. 319/1993, sbr. 276/1996. Rg. 798/2014.
9. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.
…