Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 20. janúar 2021.  Útgáfa 151a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um innheimtu og meðferð á kirknafé

1890 nr. 20 22. maí


Tóku gildi 18. september 1890. Breytt með: L. 40/1909 (tóku gildi 18. nóv. 1909).


1. gr.
Rétt er, að fjárhaldsmaður kirkju feli hlutaðeigandi sóknarnefnd, vilji hún það að sér taka, að heimta inn tekjur kirkju og koma þeim í peninga, gegn innheimtulaunum, 10 af hundraði.
2. gr.1)
    1)L. 40/1909, 9. gr.
3. gr.
Frá næsta nýári eftir að lög þessi öðlast gildi og koma til framkvæmdar, skal reikningsár kirkna vera frá 1. janúar til 31. desember. Skal semja reikninga kirkna sem fyrst eftir nýár. Skal hlutaðeigandi prestur, eða, ef hann er féhirðir kirkjunnar, hlutaðeigandi safnaðarfulltrúi fyrst rannsaka reikninginn og bera hann saman við hrepps- og kirkjubækur. Fyrir rannsókn þessa má greiða 2 kr. af tekjum kirkjunnar. Fyrir lok maímánaðar skulu kirkjureikningar með fullnægjandi fylgiskjölum vera komnir til hlutaðeigandi prófasts, er rannsakar þá og leggur fram á héraðsfundi. Nú álítur bæði héraðsprófastur og héraðsfundur reikning kirkju réttan, er það þá fullnaðarúrskurður, en greini prófast og héraðsfund á, leggur biskup á fullnaðarúrskurð.
4. gr.
Stofna skal almennan kirkjusjóð, og skal hver kirkja hafa sína viðskiptabók við sjóðinn. Stiftsyfirvöld Íslands hafa umsjón yfir kirkjusjóði þessum og ábyrgð á honum. Fé kirkjusjóðs skal ávaxta eftir sömu reglum og landssjóðsfé. Forgangsrétt til lána úr sjóði þessum eiga kirkjur.
Auglýsa skal reikninga sjóðs þessa í Stjórnartíðindunum, deildinni B, ár hvert.
5. gr.
Allt það fé, sem kirkjur eiga afgangs útgjöldum, skal láta á vöxtu í hinum almenna kirkjusjóði og vextirnir árlega leggjast við höfuðstólinn. Heimilt er þó reikningshaldara að halda eftir vaxtalaust 100 kr. af tekjum kirkju. Rétt er og að kirkjur greiði vexti af fé því, sem þær hafa að láni.
Þó falla niður þeir vextir, sem eigi geta greiðst af helmingi þess, er hver kirkja hefur afgangs árlegum útgjöldum sínum.
Af sjóðum þeim, sem kirkjur eiga, þá er lög þessi öðlast gildi, skal sá, er sjóðinn hefur undir höndum, greiða í hinn almenna kirkjusjóð 1/ 15 á ári, uns sjóðurinn er allur greiddur af hendi enda þurfi hans eigi kirkjunni til aðgjörðar eða endurbyggingar á því tímabili. Sé kirkja afhent, skal greiða sjóðinn allan af hendi.
6. gr.
Þá er fjárhaldsmaður, er haft hefur kirkju til umsjónar og ábyrgðar og lánað henni fé, sleppir fjárhaldinu eða deyr, skal hann eða erfingjar hans eiga heimting á að fá skuld þá borgaða af fé því, sem kirkjan hefur afgangs nauðsynlegum ársútgjöldum.
7. gr.
Ákvæði laga þessara ná eigi til bændakirkna, nema hlutaðeigandi kirkjuráðendur veiti til þess samþykki sitt.