Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 20. janúar 2021.  Útgáfa 151a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um umsjón og fjárhald kirkna

1907 nr. 22 16. nóvember


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 25. mars 1908. Breytt með: L. 40/1909 (tóku gildi 18. nóv. 1909).


1. gr.
Hverja þá lénskirkju, sem sóknarprestur hefur enn fjárhald fyrir, skal hlutaðeigandi söfnuði bjóða til umsjónar og fjárhalds eigi síðar en við næstu prestaskipti. Sé það samþykkt með meiri hluta greiddra atkvæða á lögmætum safnaðarfundi, skal afhenda kirkjuna söfnuðinum, enda samþykki héraðsfundur og biskup.
Svo má og svipta sóknarprest fjárhaldi lénskirkju og afhenda kirkjuna söfnuðinum, þó að presturinn sé því ekki samþykkur, ef héraðsfundur og biskup álíta hann óhæfan til að sjá um fé kirkjunnar.
2. gr.
Þegar eigandi bændakirkju vill selja umsjón hennar og fjárráð söfnuðinum í hendur, þá getur því máli framgengt orðið, er það er samþykkt með meiri hluta greiddra atkvæða á lögmætum safnaðarfundi, og samþykki héraðsfundar og biskups kemur til.
3. gr.
Þegar kirkja er afhent söfnuði, skal prófastur með tveim óvilhöllum úttektarmönnum gjöra nákvæma úttekt á kirkjunni, eignum hennar, áhöldum og gripum. Skulu úttektarmenn meta sanngjarnt álag á kirkjuna og það, sem henni fylgir, ef þeim virðist þess þörf. Greiðir sá, er kirkju hefur haldið, álagið að þeim hluta, sem sjóður kirkjunnar eigi vinnst til, í hendur sóknarnefndinni, er tekur við kirkjunni og fé hennar fyrir hönd safnaðarins. Nú er kirkja í skuld við forráðamann sinn, og úttektarmenn gera álag á hana, og skal þá forráðamaður hennar eigi að síður greiða álagið, en úttektarmenn meta, að hve miklu leyti skuldina skuli endurgjalda af tekjum kirkjunnar eftirleiðis. Mat þetta liggur undir samþykki biskups. Hafi lán verið tekið af almannafé til að byggja kirkju, skal greiða á sama hátt það, sem ógreitt er af vöxtum og afborgun.
Ef hinn fyrrverandi forráðamaður kirkjunnar eða sóknarnefnd er óánægð með úttektina, má skjóta henni til yfirúttektar.
Heimilt er sóknarnefnd að taka við kirkju, án þess regluleg úttekt sé gerð, ef samþykki héraðsprófastsins kemur til, og hann afhendir kirkjuna.
4. gr.
Söfnuðir þeir, sem taka að sér umsjón og fjárhald kirkna, gangast undir allar þær skyldur, sem legið hafa á eigendum þeirra eða forráðamönnum, að því er kemur til endurbyggingar kirkju, viðhalds og hirðingar. Skal sóknarnefndin fyrir hönd safnaðarins heimta kirkjutekjurnar saman, svo sem lög standa til, og koma kirkjusjóðnum á vöxtu. Fyrir innheimtu og ómak sitt skal sóknarnefndin fá 6% af árstekjum kirkjunnar. Þó getur söfnuðurinn veitt sóknarnefndinni allt að 10% í innheimtulaun.
5. gr.1)
    1)L. 40/1909, 13. gr.