Lagasafn.  Íslensk lög 13. apríl 2021.  Útgáfa 151b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um einkenning fiskiskipa

1925 nr. 31 27. júní


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 23. september 1925. Breytt með: L. 116/1990 (tóku gildi 31. des. 1990). L. 19/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992 nema 1. og 3. mgr. 29. gr. sem tóku gildi 17. apríl 1991).


1. gr.
Öll skip, íslensk sem erlend, sem ætluð eru til fiskiveiða, skulu bera á sér glöggt heiti sitt og heimilisfang, er þau koma í íslenska landhelgi eða hafast þar við. 1)
Botnvörpuskip og önnur fiskiskip, sem knúin eru eimorku, skulu bera nafn sitt og heimilisfang á afturstafni, enda skal setja nafn skips og önnur einkennismerki beggja megin á framstafn. Sleppa má nafni skipsins á framstafni, ef einkennismerki skipsins eru sett þar sams konar og þau, er segir í samningum þeim, er um getur í næstu málsgrein hér á eftir.
Nú er skip svo merkt, sem segir í samningi 6. maí 1882 um fiskiveiðar í Englandshafi, eða eins og mælt er í samningi 24. júní 1901 um fiskiveiðagæslu utan landhelgi við Ísland og Færeyjar, og skal þá sú merking talin nægileg.
    1)Rg. 493/1986 (um merkingu skipa).
2. gr.
Bannað er að afmá einkenni þau, er í 1. gr. segir, eða afbaka þau, gera þau óþekkjanleg, hylja þau eða dylja, meðan skip er í íslenskri landhelgi.
3. gr.
Það varðar sektum … 1) ef fiskiskip kemur í íslenska landhelgi, eða hefst þar við, án þess að hafa á sér merki þau, er í 1. gr. segir, eða ef brotið er af ásettu ráði bann það, er í 2. gr. getur. Nú á botnvörpuskip hlut að máli, og skal þá svo með fara, sem slíkt skip hefði verið í landhelgi og hefði komið veiðarfærum sínum ólöglega fyrir.
Nú verða fyrirmæli laga þessara um merkingu skipa brotin, án þess að ásetningsbrot verði talið, og liggur þá … 1) sekt við því.
Nú veiðir skip heimildarlaust í íslenskri landhelgi með vísvitandi duldum, afmáðum eða afbökuðum merkjum (sbr. 1. gr.), og skal þá ákveða refsingu fyrir brot þessi í einu lagi, en hækka skal sekt fyrir heimildarlausa veiði um allt að helmingi, og ekki má sekt lægri vera en sem svarar hæstu sekt fyrir fiskiveiðabrotið, ef gufuskip á hlut að máli.
    1)L. 116/1990, 16. gr.
4. gr.
1)
Sektir samkvæmt lögum þessum renna í landhelgissjóð. Til tryggingar greiðslu sekta og málskostnaðar má kyrrsetja skip og síðan selja, að undangenginni aðför, til lúkningar hvors tveggja.
    1)L. 19/1991, 194. gr.