Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla

1979 nr. 19 1. maí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 2. maí 1979.

1. gr.
Nú hefur verkafólk unnið eitt ár samfellt hjá aðilum, sem fást við atvinnurekstur innan sömu starfsgreinar, og ber því þá eins mánaðar uppsagnarfrestur frá störfum, enda hafi uppsögn hjá fyrri atvinnurekendum borið að með löglegum hætti.
Verkafólki, sem ráðið hefur verið hjá sama atvinnurekanda í þrjú ár samfleytt, ber tveggja mánaða uppsagnarfrestur.
Eftir fimm ára samfellda ráðningu hjá sama atvinnurekanda ber verkafólki þriggja mánaða uppsagnarfrestur.
Verkafólk telst hafa unnið innan atvinnugreinar eða verið ráðið hjá atvinnurekanda í eitt ár, ef það hefur unnið samtals a.m.k. 1550 stundir á síðustu 12 mánuðum, þar af a.m.k. 130 stundir síðasta mánuðinn fyrir uppsögn. Jafngildar unnum klukkustundum teljast í þessu sambandi fjarvistir vegna veikinda, slysa, orlofs, verkfalla og verkbanna, allt að 8 klst. fyrir hvern fjarvistardag. Hins vegar teljast álags- og ákvæðisgreiðslur eða aðrar þess háttar greiðslur ekki jafngildi unninna vinnustunda.
Launþega, sem rétt á til uppsagnarfrests samkvæmt þessari grein, skal skylt að tilkynna með sama fyrirvara, ef hann óskar að hætta störfum hjá atvinnurekanda sínum.
Uppsögn skal vera skrifleg og miðast við mánaðamót.
2. gr.
Nú fer verkamaður fyrir tilmæli atvinnurekanda, sem hann vinnur hjá, til starfs um tíma hjá öðrum atvinnurekanda, og skal þá sá tími talinn unnar vinnustundir hjá hinum fyrrtalda atvinnurekanda, að því er réttindi þau snertir, sem um getur í 1. gr.
3. gr.
Nú fellur niður atvinna hjá atvinnurekanda, svo sem vegna þess að hráefni er ekki fyrir hendi hjá fiskiðjuveri, upp- og útskipunarvinna er ekki fyrir hendi hjá skipaafgreiðslu, fyrirtæki verður fyrir ófyrirsjáanlegu áfalli, svo sem vegna bruna eða skiptapa, og verður atvinnurekanda þá eigi gert að greiða bætur til launþega sinna, þó að vinna þeirra nemi eigi 130 klukkustundum á mánuði, enda missa launþegar þá eigi uppsagnarrétt sinn meðan slíkt ástand varir.
Nú hefur verkamaður misst atvinnu sína af ofangreindum ástæðum og honum býðst annað starf, sem hann óskar að taka, og er hann þá ekki bundinn af ákvæðum 5. mgr. 1. gr. um uppsagnarfrest, enda tilkynni hann strax atvinnurekandanum ef hann ræður sig hjá öðrum til frambúðar.
4. gr.
Allt verkafólk, sem forfallast frá vinnu vegna slysa við vinnuna, á beinni leið til eða frá vinnu, eða vegna atvinnusjúkdóma, sem orsakast af henni, skal fá greidd laun fyrir dagvinnu í allt að 3 mánuði samkvæmt þeim taxta, sem viðkomandi tók laun eftir, enda sé unnið hjá aðila sem fæst við atvinnurekstur í viðkomandi starfsgrein.
5. gr.
Allt fastráðið verkafólk, sem ráðið hefur verið hjá sama atvinnurekanda í eitt ár samfellt, skal er það forfallast frá vinnu vegna sjúkdóma eða slysa eigi missa neins í af launum sínum, í hverju sem þau eru greidd, í einn mánuð.
Hafi slíkt starfsfólk verið ráðið hjá sama atvinnurekanda í þrjú ár samfellt skal það, auk þess sem í 1. mgr. segir, halda daglaunum sínum í einn mánuð, en í tvo mánuði eftir fimm ára samfellda ráðningu hjá sama atvinnurekanda.
Auk þeirra réttinda, sem fastráðið verkafólk nýtur skv. 1. og 2. mgr., skal það, er forföll stafa af vinnuslysi eða atvinnusjúkdómi, halda dagvinnulaunum í allt að þrjá mánuði eins og í 4. gr. segir.
6. gr.
Á fyrsta starfsári hjá sama atvinnurekanda skal verkafólk eigi missa neins í af launum, í hverju sem þau eru greidd, í tvo daga fyrir hvern unninn mánuð í veikinda- og slysatilfellum, auk réttar til dagvinnulauna skv. 4. gr.
7. gr.
Vinnuveitendur skulu greiða 1% af útborguðu kaupi verkafólks í sjúkrasjóð viðkomandi stéttarfélags, nema um hærri greiðslur hafi verið samið í kjarasamningum.
8. gr.
Nú vill launþegi neyta réttar síns samkvæmt 1. og 4. gr., og skal hann þá, ef atvinnurekandi óskar þess, afhenda honum vottorð læknis um veikindin eða slysið, er sýni, að hann hafi verið óvinnufær vegna veikindanna eða slyssins.
9. gr.
Ákvæði laga þessara hagga ekki samningum milli samtaka atvinnurekenda og launþega um greiðslu atvinnurekanda á sjúkrapeningum til starfsmanna sinna, hvort sem þeir eru greiddir til styrktarsjóða, stéttarfélaga eða beint til þeirra sjálfra.
10. gr.
Ákvæði samnings milli atvinnurekanda og launþega, sem brjóta í bág við lög þessi, eru ógild, ef þau rýra rétt launþegans.
Haldast skulu þau réttindi, sem veitt eru með sérstökum lögum, samningum eða leiðir af venju í einstökum starfsgreinum, ef þau eru launþeganum hagstæðari en ákvæði þessara laga.
11. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.