Lagasafn.  Íslensk lög 20. apríl 2022.  Útgáfa 152b.  Prenta í tveimur dálkum.


[Lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu]1)

2005 nr. 57 20. maí


    1)L. 50/2008, 4. gr.
Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. júlí 2005. Breytt með: L. 34/2007 (tóku gildi 30. mars 2007). L. 57/2007 (tóku gildi 3. apríl 2007). L. 50/2008 (tóku gildi 7. júní 2008; EES-samningurinn: IX. viðauki tilskipun 2005/29/EB). L. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008). L. 98/2009 (tóku gildi 1. okt. 2009 nema 69. og 70. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2010). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 38/2011 (tóku gildi 21. apríl 2011; EES-samningurinn: X. viðauki tilskipun 89/552/EBE). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 125/2013 (tóku gildi 31. des. 2013). L. 71/2019 (tóku gildi 5. júlí 2019). L. 21/2020 (tóku gildi 21. mars 2020). L. 131/2020 (tóku gildi 17. des. 2020; EES-samningurinn: XVII. viðauki tilskipun 2016/943).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við menningar- og viðskiptaráðherra eða menningar- og viðskiptaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr.
Lög þessi taka til hvers konar atvinnustarfsemi, svo sem framleiðslu, verslunar og þjónustu, án tillits til þess hvort hún er rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum.
Lög þessi taka ekki til launa eða annarra starfskjara launþega samkvæmt kjarasamningum.
2. gr.
Lög þessi taka til samninga, skilmála og athafna sem hafa eða ætlað er að hafa áhrif hér á landi.
[Auk þess taka lög þessi til samninga, skilmála og athafna aðila sem hefur staðfestu á Íslandi og ætlað er að hafa áhrif í aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu og um er að ræða ætlað brot gegn ákvæðum III.–V. kafla.] 1)
    1)L. 38/2011, 65. gr.
3. gr.
Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
    1. Atvinnurekstur er hvers konar atvinnustarfsemi, óháð formi eignarhalds og án tillits til þeirrar vöru, þjónustu eða réttinda sem verslað eða sýslað er með gegn endurgjaldi.
    2. Fyrirtæki er einstaklingur, félag, opinberir aðilar og aðrir sem stunda atvinnurekstur.
    3. Neytandi er einstaklingur sem kaupir vöru eða þjónustu gegn endurgjaldi, enda séu kaupin ekki gerð í atvinnuskyni.
    4. Vara er samkvæmt lögum þessum fasteignir og lausafé, þ.m.t. skip, loftför, lofttegundir, rafmagn og aðrir orkugjafar.
    5. Verð er andvirði vöru og þjónustu með virðisaukaskatti og öðrum opinberum gjöldum þar sem við á, þ.e. hvers konar endurgreiðsla án tillits til þess hvort notað er annað heiti, svo sem endurgjald, laun, þóknun, frakt, flutningsgjald, taxti, leiga eða því um líkt.
    [6. Viðskiptahættir eru markaðssetning fyrirtækja eða önnur athöfn, athafnaleysi eða hátterni sem tengist kynningu á vöru eða þjónustu eða viðskiptum með vöru og þjónustu.] 1)
    [7.] 1) Þjónusta er hvers konar fyrirgreiðsla, vinna eða þjónusta gegn endurgjaldi, nema launuð vinna í þjónustu annarra.
    1)L. 50/2008, 1. gr.
4. gr.
[Neytendastofa, undir yfirstjórn ráðherra, fer með eftirlit samkvæmt lögum þessum einkum í þágu neytenda.] 1)
Hlutverk Neytendastofu samkvæmt lögum þessum er að:
    a. framfylgja boðum og bönnum laganna,
    b. ákveða aðgerðir gegn óréttmætum viðskiptaháttum,
    c. stuðla að auknu gagnsæi markaðarins.
[Neytendastofa ákveður hvort erindi sem berst gefi nægar ástæður til rannsóknar.] 1) Við afgreiðslu mála samkvæmt lögum þessum er Neytendastofu heimilt að raða málum í forgangsröð.
Ákvörðunum Neytendastofu sem teknar eru á grundvelli laga þessara verður skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála, sem starfar á grundvelli 4. gr. [laga um Neytendastofu]. 2)
    1)L. 21/2020, 1. gr. 2)L. 125/2013, 6. gr.

[II. kafli. Bann við óréttmætum viðskiptaháttum.]1)
    1)L. 50/2008, 2. gr.
[5. gr.
Óréttmætir viðskiptahættir eru bannaðir. Bann þetta gildir áður en, á meðan og eftir að viðskipti með vöru fara fram eða þjónusta er veitt. Í III.–V. kafla er nánar tilgreint hvað teljast óréttmætir viðskiptahættir.] 1)
    1)L. 50/2008, 2. gr.
[6. gr.
Auglýsingar skulu þannig úr garði gerðar að ekki leiki vafi á að um auglýsingar sé að ræða. Skulu þær skýrt aðgreindar frá öðru efni fjölmiðla.
Auglýsingar og aðrar viðskiptaaðferðir skulu ekki vera ósanngjarnar gagnvart keppinautum eða neytendum vegna forms þeirra eða sökum þess að skírskotað er til óviðkomandi mála.
Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.
Fullyrðingar sem fram koma í auglýsingum eða með öðrum hætti þarf fyrirtæki að geta fært sönnur á.] 1)
    1)L. 50/2008, 2. gr.
[7. gr.
Auglýsingar skulu miðast við að börn sjái þær og heyri og mega þær á engan hátt misbjóða þeim.
Í auglýsingum verður að sýna sérstaka varkárni vegna trúgirni barna og unglinga og áhrifa á þau.
Komi börn fram í auglýsingum skal þess gætt að sýna hvorki né lýsa hættulegu atferli eða atvikum er leitt geti til þess að þau eða önnur börn komist í hættu eða geri það sem óheimilt er.] 1)
    1)L. 50/2008, 2. gr.

[III. kafli. [Viðskiptahættir gagnvart neytendum.]1)]2)
    1)L. 21/2020, 2. gr. 2)L. 50/2008, 2. gr.
[8. gr.
Viðskiptahættir eru óréttmætir ef þeir brjóta í bága við góða viðskiptahætti gagnvart neytendum og raska verulega eða eru líklegir til að raska verulega fjárhagslegri hegðun neytenda. Viðskiptahættir sem brjóta í bága við ákvæði kafla þessa eru alltaf óréttmætir.
Ráðherra kveður í reglugerð 1) á um þá viðskiptahætti sem teljast undir öllum kringumstæðum óréttmætir.] 2)
    1)Rg. 160/2009. 2)L. 50/2008, 2. gr.
[9. gr.
Viðskiptahættir eru villandi ef þeir eru líklegir til að blekkja neytendur eða eru með þeim hætti að neytendum eru veittar rangar upplýsingar í þeim tilgangi að hafa áhrif á ákvörðun þeirra um viðskipti. Hér er átt við rangar upplýsingar um:
    a. eðli vöru eða þjónustu og hvort varan sé til eða þjónustan fyrir hendi,
    b. helstu einkenni vöru eða þjónustu, t.d. notkun, samsetningu eða árangur sem vænta má af notkun hennar,
    c. þjónustu við viðskiptavini, meðferð kvartana, dagsetningu framleiðslu eða aðferð við framleiðslu,
    d. verð vöru eða þjónustu eða aðferð við útreikning á verði og hvort um sértilboð eða annað verðhagræði sé að ræða og hvort það sé háð skilyrðum,
    e. þörf fyrir þjónustu, varahluti, skipti á hlutum og viðgerðir,
    f. réttindi, hæfni eða annað sem varðar aðstæður söluaðila eða fulltrúa hans, stöðu hans á markaði, skyldur, vörumerki og önnur hugverkaréttindi,
    g. lögbundin réttindi neytanda.
Viðskiptahættir eru villandi ef ekki er greint frá upplýsingum sem telja má að almennt skipti máli fyrir neytendur eða þeim er leynt og þær eru til þess fallnar að hafa áhrif á ákvörðun neytanda um að eiga viðskipti.] 1)
    1)L. 50/2008, 2. gr.
[10. gr.
Ef fyrirtæki hyggst auglýsa eða beita öðrum slíkum viðskiptaaðferðum vegna tiltekinnar vöru eða þjónustu skal það, eftir því sem við á og að teknu tilliti til auglýsingamiðilsins sem nýttur er, veita upplýsingar um:
    a. helstu eiginleika vörunnar eða þjónustunnar,
    b. nafn og heimilisfang fyrirtækis,
    c. greiðslutilhögun, afhendingu og framkvæmd samnings, víki þessi atriði frá því sem tíðkast í starfsgreininni,
    d. meðferð kvörtunarmála gagnvart fyrirtækinu, víki meðferðin frá því sem tíðkast í starfsgreininni,
    e. rétt til að falla frá kaupum, afpöntun eða skilarétt hafi neytendur slíkan rétt, víki meðferðin frá því sem tíðkast í starfsgreininni,
    f. endanlegt verð, þ.m.t. virðisaukaskatt og önnur opinber gjöld.
Hafi vara eða þjónusta þá eiginleika að ekki sé hægt að gefa upp verð fyrir fram á einfaldan hátt verður að upplýsa hvernig verðið sé fundið út. Þar sem það á við skal veita allar upplýsingar um kostnað við frakt, afhendingu eða flutningsgjald, en sé það ekki hægt á einfaldan hátt þarf að upplýsa um að þessi kostnaður geti bæst við verð.] 1)
    1)L. 50/2008, 2. gr.
[11. gr.
Útsölu eða aðra sölu, þar sem selt er á lækkuðu verði, má því aðeins auglýsa eða tilkynna að um raunverulega verðlækkun sé að ræða. Þess skal gætt að greinilegt sé með verðmerkingum hvert hið upprunalega verð vörunnar var.] 1)
    1)L. 50/2008, 2. gr.
[12. gr.
Viðskiptahættir teljast ágengir ef valfrelsi eða athafnafrelsi neytanda við ákvörðun um viðskipti með vöru er takmarkað með ótilhlýðilegum hætti, t.d. þvingunum eða hótunum, og þeir eru til þess fallnir að hafa þau áhrif að hann taki ákvörðun sem hann hefði ella ekki tekið.] 1)
    1)L. 50/2008, 2. gr.

[IV. kafli. [Góðir viðskiptahættir o.fl.]1)]2)
    1)L. 21/2020, 3. gr. 2)L. 50/2008, 2. gr.
[13. gr.
Óheimilt er að hafast nokkuð það að sem brýtur í bága við góða viðskiptahætti í atvinnustarfsemi eins og þeir eru tíðkaðir eða eitthvað það sem óhæfilegt er gagnvart hagsmunum neytenda.
1. mgr. gildir um aðra viðskiptahætti en þá sem III. kafli tekur til.] 1)
    1)L. 50/2008, 2. gr.

[V. kafli. Háttsemi milli fyrirtækja.]1)
    1)L. 50/2008, 2. gr.
[14. gr.
Óheimilt er að veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum eða með öðrum hætti eða beita öðrum slíkum viðskiptaaðferðum sem sama marki eru brenndar gagnvart keppinautum, enda séu upplýsingar þessar og viðskiptaaðferðir til þess fallnar að hafa áhrif á eftirspurn eða framboð vara, fasteigna, þjónustu eða annars þess sem haft er á boðstólum í atvinnustarfsemi sem lög þessi taka til.] 1)
    1)L. 50/2008, 2. gr.
[15. gr.
Samanburðarauglýsingar eru allar þær auglýsingar þar sem beint eða óbeint er vísað til keppinautar eða vöru eða þjónustu sem keppinautur býður.
Samanburðarauglýsingar skulu, að því er samanburð varðar, leyfðar að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:
    a. þær séu ekki villandi,
    b. samanburðurinn taki til vöru eða þjónustu sem fullnægir sömu þörfum eða er ætluð til sömu nota,
    c. gerður sé samanburður á einum eða fleiri áþreifanlegum, viðeigandi, sannreynanlegum og dæmigerðum eiginleika eða eiginleikum vöru eða þjónustu, að meðtöldu verði ef vill,
    d. á markaðnum verði ekki villst á auglýsanda og keppinaut hans eða á vörumerkjum eða vöruheitum auglýsanda og keppinautar, öðrum auðkennum, vöru- eða þjónustutegundum,
    e. ekki sé kastað rýrð á vörumerki, vöruheiti, önnur auðkenni, vöru, þjónustu, starfsemi eða aðstæður keppinautar, eða þeim sýnd lítilsvirðing,
    f. ef um er að ræða vöru með upprunatáknum skal í öllum tilvikum bera saman vörur með sömu táknum,
    g. ekki sé með ósanngjörnum hætti hagnýttur orðstír vörumerkis, vöruheitis eða annarra auðkenna keppinautar eða upprunatáknunar samkeppnisvöru,
    h. vara eða þjónusta sé ekki kynnt sem eftirlíking eða eftirgerð vöru eða þjónustu sem ber verndað vörumerki eða vöruheiti.
Sé getið um sértilboð í samanburði skal tiltaka skýrt og ótvírætt á hvaða degi sértilboðinu ljúki eða, þar sem við á, að sértilboðið sé háð framboði á vörunni eða þjónustunni og, hafi sértilboðið enn ekki tekið gildi, á hvaða degi byrjað verði að bjóða sérstakt verð eða önnur sérkjör.
Ákvæði þetta á einnig við um aðrar svipaðar viðskiptaaðferðir og auglýsingar.] 1)
    1)L. 50/2008, 2. gr.
[15. gr. a.
Óheimilt er að nota í atvinnustarfsemi firmanafn, verslunarmerki eða því um líkt, sem sá hefur ekki rétt til er notar, eða reka atvinnu undir nafni sem gefur villandi upplýsingar um eignarrétt eða ábyrgð atvinnurekanda. Enn fremur er sérhverjum bannað að nota auðkenni, sem hann á tilkall til, á þann hátt að leitt geti til þess að villst verði á því og öðru einkenni sem annað fyrirtæki notar með fullum rétti.] 1)
    1)L. 50/2008, 2. gr.

[VI. kafli. Ábyrgðaryfirlýsingar, trúnaðarskyldur o.fl.]1)
    1)L. 50/2008, 2. gr.
[16. gr.
Nú er vara, þjónusta eða annað það sem í té er látið og lög þessi taka til þannig úr garði gert að leiðbeininga er þörf við mat á eiginleikum þess, t.d. notagildi og endingu, svo og meðferð og hættu sem af vöru eða öðru getur stafað, og ber þá að veita fullnægjandi skriflegar leiðbeiningar þegar tilboð er gefið, samningur gerður eða eftir atvikum við afhendingu.
Leiðbeiningarnar skulu vera á íslensku eða öðru Norðurlandamáli, þó ekki finnsku, eða ensku og miðaðar við tegund og gerð viðkomandi vöru, þjónustu eða annars þess sem í té er látið.
Almennir skilmálar þjónustuaðila, sem bjóða neytendum þjónustu sína hér á landi, skulu vera á íslensku.] 1)
    1)L. 50/2008, 2. gr.
[16. gr. a.
Yfirlýsingu um ábyrgð má því aðeins gefa að ábyrgðaryfirlýsingin veiti viðtakanda meiri rétt en hann hefur samkvæmt gildandi lögum.
Ábyrgðaryfirlýsing er lagalega bindandi fyrir ábyrgðaraðila á grundvelli þeirra skilyrða sem fram koma í ábyrgðarskilmálum og auglýsingum hans.] 1)
    1)L. 50/2008, 2. gr.
[16. gr. b.
Ef ábyrgðaryfirlýsing er veitt skal seljandi vöru eða þjónustu upplýsa neytanda á skýran og greinargóðan hátt um gildissvið ábyrgðarinnar og hvaða skilyrði eru sett til þess að neytandi geti borið fyrir sig ábyrgðina. Jafnframt skal seljandi upplýsa neytanda á skýran hátt um þau ófrávíkjanlegu réttindi sem hann nýtur samkvæmt ákvæðum laga og ábyrgðaryfirlýsingin hefur engin áhrif á. Ef neytandi óskar þess ber seljanda að afhenda honum skilmála ábyrgðaryfirlýsingarinnar ritaða á pappír eða á öðrum varanlegum miðli sem er neytandanum aðgengilegur. Skriflegar ábyrgðaryfirlýsingar skulu vera á íslensku.] 1)
    1)L. 50/2008, 2. gr.
[16. gr. c.1)] 2)
    1)L. 131/2020, 20. gr. 2)L. 50/2008, 2. gr.
[16. gr. d.
Óheimilt er að selja eða hafa á boðstólum vörur sem merktar eru sjálfar eða á miða eða umbúðir eða með tilsvarandi heitum, alþjóðamerki hjúkrunar- og mannúðarstarfsemi eða öðrum hliðstæðum auðkennum, svo og að nota slík merki, auðkenni eða nöfn í heimildarleysi á auglýsingaspjöldum, auglýsingum, reikningum, vöruskrám eða öðrum verslunarskjölum.
Við framboð vöru, þjónustu eða annars þess sem í té er látið og lög þessi taka til er óheimilt að nota íslenska ríkisskjaldarmerkið, þá er óheimilt að nota í heimildarleysi íslensk byggðamerki, svo og erlend ríkis- eða byggðamerki.] 1)
    1)L. 50/2008, 2. gr.

[VII. kafli.]1) Eftirlit með gagnsæi markaðarins.
    1)L. 50/2008, 2. gr.
17. gr.
Fyrirtæki, sem selur vörur eða þjónustu til neytenda, skal merkja vöru sína og þjónustu með verði eða sýna það á svo áberandi hátt á sölustaðnum að auðvelt sé fyrir neytendur að sjá það. Neytendastofa getur sett nánari ákvæði um verðmerkingar með opinberri tilkynningu. 1)
    1) Rgl. 383/2007. Rgl. 366/2008. Rgl. 536/2011. Rgl. 537/2011, sbr. rgl. 860/2013. Rgl. 1212/2020.
18. gr.
Neytendastofa getur gefið fyrirtækjum sérstök fyrirmæli um að gera ráðstafanir til að auðvelda viðskiptavinum að meta verð og gæði. Fyrirmælin geta falist í skyldu til að tilgreina verð, viðskiptakjör, gæði og aðra eiginleika og hvernig vara skal mæld, vegin og flokkuð. Neytendastofa getur gefið slík fyrirmæli með opinberri tilkynningu. 1)
    1) Rgl. 381/2007. Rgl. 382/2007. Rgl. 383/2007. Rgl. 384/2007. Rgl. 366/2008. Rgl. 536/2011. Rgl. 537/2011, sbr. rgl. 860/2013. Augl. 574/2012. Rgl. 220/2015, sbr. 608/2018. Rgl. 1212/2020.
19. gr.
Í því skyni að upplýsa neytendur og efla verðskyn þeirra aflar Neytendastofa upplýsinga um verð, verðmyndun og önnur viðskiptakjör og birtir niðurstöður eftir því sem ástæða þykir til. Neytendastofa skal setja verklagsreglur um öflun slíkra upplýsinga, meðferð þeirra og birtingu.

[VIII. kafli.]1) [Upplýsingaöflun.]2)
    1)L. 50/2008, 2. gr. 2)L. 21/2020, 6. gr.
20. gr.
Neytendastofa getur krafið þá sem lög þessi taka til um allar upplýsingar sem nauðsynlegar þykja við athugun einstakra mála. Upplýsinga er hægt að krefjast munnlega eða skriflega og skulu þær gefnar innan hæfilegs frests sem stofnunin setur.
Neytendastofa getur með sömu skilyrðum og í 1. mgr. krafist þess að fá gögn afhent til athugunar. Skulu þau afhent innan hæfilegs frests sem stofnunin setur.
Neytendastofa getur í starfi sínu krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum, þar á meðal frá skattyfirvöldum og tollyfirvöldum, óháð þagnarskyldu þeirra.
Neytendastofa getur einnig lagt skyldu á þá aðila sem um getur í 1. mgr. að upplýsa stofnunina reglulega um atriði sem máli skipta við framkvæmd laga þessara. Neytendastofa getur gefið slík fyrirmæli með opinberri tilkynningu.
[20. gr. a.
Neytendastofa getur við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstöðvum þeirra sem lög þessi taka til [eða á stað þar sem gögn eru varðveitt] 1) og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum þessum eða ákvörðunum Neytendastofu.
Við framkvæmd aðgerða skal fylgja ákvæðum laga um meðferð [sakamála] 2) um leit og hald á munum.] 3)
    1)L. 21/2020, 4. gr. 2)L. 88/2008, 234. gr. 3)L. 57/2007, 1. gr.
[20. gr. b.
Neytendastofa getur keypt vörur og þjónustu, undir fölsku nafni og auðkenni, til að koma upp um brot gegn lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim og afla upplýsinga og gagna sem nauðsynleg þykja við athugun einstakra mála.
Neytendastofa getur krafist endurgreiðslu vegna kaupa skv. 1. mgr. nema það hafi í för með sér verulegt óhagræði fyrir seljanda.] 1)
    1)L. 21/2020, 5. gr.
21. gr.
[Þeir sem starfa af hálfu stjórnvalda að framkvæmd laga þessara eru bundnir þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga.] 1)
    1)L. 71/2019, 5. gr.
[21. gr. a.
Neytendastofu er heimilt að afhenda stjórnvöldum annarra ríkja upplýsingar og gögn sem nauðsynleg þykja við framkvæmd laga í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt milliríkjasamningum.
Við afhendingu upplýsinga og gagna skal setja sem skilyrði að:
    1. farið verði með upplýsingarnar og gögnin sem trúnaðarmál hjá þeim sem við þeim tekur,
    2. upplýsingarnar og gögnin verði aðeins notuð í því skyni sem kveðið er á um í viðkomandi milliríkjasamningi og
    3. upplýsingarnar og gögnin verði aðeins afhent öðrum með samþykki Neytendastofu og í þeim tilgangi sem samþykkið kveður á um.] 1)
    1)L. 57/2007, 2. gr.

[IX. kafli.]1) [Úrræði, viðurlög o.fl.]2)
    1)L. 50/2008, 2. gr. 2)L. 21/2020, 10. gr.
[21. gr. b.
Neytendastofa skal leitast við að fá fyrirtæki til að haga starfsemi sinni í samræmi við lög þessi, m.a. með sáttaumleitan.
Brjóti viðskiptahættir gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim getur Neytendastofa tekið við skriflegum skuldbindingum um að látið sé af brotinu eða tekið ákvörðun skv. IX. kafla. Neytendastofa getur einnig kallað eftir skriflegum skuldbindingum um að neytendum sem brotið hafði áhrif á verði boðnar viðeigandi úrbætur.] 1)
    1)L. 21/2020, 7. gr.
[[21. gr. c.]1)
[Neytendastofa leitast við að hafa áhrif á háttsemi fyrirtækja með útgáfu leiðbeinandi reglna um góða viðskiptahætti á nánar afmörkuðum sviðum viðskipta sem talin eru mikilvæg fyrir hagsmuni neytenda. Neytendastofa skal ráðgast við hlutaðeigandi samtök neytenda og fyrirtækja áður en slíkar reglur eru settar.] 2)
Neytendastofa getur gripið til aðgerða gegn viðskiptaháttum sem brjóta í bága við ákvæði II.–VI. kafla og ákvæði VII. og VIII. kafla eftir því sem við getur átt. Aðgerðir Neytendastofu geta falið í sér bann, fyrirmæli eða heimild með ákveðnu skilyrði.
[Neytendastofu er heimilt að taka ákvarðanir til bráðabirgða um einstök mál skv. 2. mgr. enda sé hætta á að háttsemin skaði verulega heildarhagsmuni neytenda.
Bráðabirgðaákvörðun skal gilda í tiltekinn tíma og má endurnýja hana ef það er talið nauðsynlegt.] 2)] 3)
    1)L. 21/2020, 7. gr. 2)L. 21/2020, 8. gr. 3)L. 50/2008, 3. gr.
22. gr.
[Neytendastofa getur lagt stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem brjóta gegn:
    a. ákvæðum laga þessara, og reglum settum samkvæmt þeim um bann við óréttmætum viðskiptaháttum, sbr. II.–V. kafla,
    b. stjórnvaldsreglum og ákvörðunum Neytendastofu gegn viðskiptaháttum sem brjóta í bága við ákvæði II.–VIII. kafla og fyrirmælum Neytendastofu, sbr. 21. gr. b,
    c. reglum og fyrirmælum Neytendastofu um ráðstafanir til að auðvelda viðskiptavinum að meta verð og gæði, sbr. 18. gr.] 1)
Sektir skv. 1. mgr. geta numið allt að 10 millj. kr.
    1)L. 50/2008, 3. gr.
23. gr.
Ef ekki er farið að ákvörðun sem tekin hefur verið samkvæmt þessum lögum getur Neytendastofa ákveðið að sá eða þeir sem ákvörðunin beinist gegn greiði dagsektir þar til farið verður að henni. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að.
24. gr.
Ákvörðun um dagsektir má skjóta til áfrýjunarnefndar neytendamála innan fjórtán daga frá því að hún er kynnt þeim er hún beinist að. Dagsektir reiknast ekki fyrr en frestur er liðinn. Ef ákvörðun er skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála falla dagsektir ekki á fyrr en niðurstaða hennar liggur fyrir.
25. gr.
Ákvörðun Neytendastofu verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála liggur fyrir.
[Nú vill aðili ekki una úrskurði áfrýjunarnefndar og getur hann þá höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um úrskurð áfrýjunarnefndarinnar. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurðar nefndarinnar né heimild til aðfarar.] 1)
    1)L. 34/2007, 11. gr.
[25. gr. a. Lögbann.
Neytendastofa getur leitað lögbanns til að vernda heildarhagsmuni neytenda enda sé fullnægt öðrum skilyrðum lögbanns sem greind eru í lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl.
Neytendastofa getur fengið lagt lögbann við athöfn ef hætta er á að háttsemin skaði verulega heildarhagsmuni neytenda og engin önnur skilvirk leið er fyrir hendi til að stöðva brot gegn ákvæðum II.–VII. kafla. Við lögbannsgerð má eftir kröfu Neytendastofu leggja fyrir:
    a. þjónustuveitanda eða þann sem starfrækir netskilflöt að fjarlægja efni á netskilfleti eða setja upp skýra viðvörun sem neytendur sjá þegar þeir fara inn á netskilflöt,
    b. fjarskiptafyrirtæki að takmarka aðgang að netskilfleti,
    c. þjónustuveitanda að fjarlægja, gera óvirkan eða takmarka aðgang að netskilfleti, eða
    d. skráningaraðila eða skráningarmiðlun léna að loka, læsa eða endurskrá lén á Neytendastofu.
Lagt verður fyrir þjónustuveitendur og fjarskiptafyrirtæki að leysa af hendi athafnir skv. 2. mgr. óháð því hvort þau beri ábyrgð á gögnum, miðlun gagna eða sjálfvirkri, millistigs- eða skammtímageymslu gagna.
Þeir sem lagt verður fyrir að leysa af hendi athafnir skv. a–d-lið 2. mgr. og þeir sem taldir eru brjóta gegn ákvæðum II.–VII. kafla skulu fá réttarstöðu gerðarþola eftir því sem við verður komið. Ef við á skal rétthafa léns tryggð sambærileg réttarstaða og gerðarþola til hagsmunagæslu við fyrirtöku lögbannsgerðar eftir því sem við verður komið, auk tilkynningar um lögbannsgerð að henni lokinni, skv. 14. og 18. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o. fl., nr. 31/1990.
Við mat á því hvort lögbann verði lagt á skal vega saman hagsmuni gerðarþola og heildarhagsmuni neytenda. Meðal annars skal litið til sjónarmiða um meðalhóf, tjáningarfrelsi og upplýsingarétt.
Um lögbann fer að öðru leyti eftir lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl.] 1)
    1)L. 21/2020, 9. gr.
[25. gr. b. Úrræði.
Háttsemi sem er andstæð ákvæðum laga þessara má banna með dómi. Í málum vegna brota á lögunum getur dómstóll ákveðið að gerðar skuli ráðstafanir til að tryggja að farið sé að banninu.
Brot á lögum þessum getur valdið skaðabótaskyldu í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttar.
Þeim sem af ásetningi eða gáleysi hagnýtir réttindi annars samkvæmt lögum þessum er skylt að greiða hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtinguna.
Þeim sem hagnast á réttindum annars án þess að um ásetning eða gáleysi sé að ræða er skylt að greiða hæfilegt endurgjald. Endurgjaldið má þó aldrei vera hærra en ætla má að nemi hagnaði hans af brotinu.
Sá sem á lögvarinna hagsmuna að gæta getur höfðað dómsmál til að fá bann lagt við háttsemi og/eða dæmda eða viðurkennda kröfu um skaðabætur eða hæfilegt endurgjald.] 1)
    1)L. 21/2020, 9. gr.
26. gr.
Brot gegn lögum þessum, reglum og fyrirmælum settum samkvæmt þeim varða fésektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef sakir eru miklar. Dæma má sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga og fésekt jafnframt fangelsi ef skilyrði 49. gr. almennra hegningarlaga eru fyrir hendi.
Sá sem gefur aðilum, sem annast framkvæmd laga þessara, rangar skýrslur skal sæta refsingu skv. XV. kafla almennra hegningarlaga.
Sektir samkvæmt lögum þessum má gera jafnt lögaðila sem einstaklingi. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á starfsmann lögaðilans. Hafi starfsmaður lögaðilans framið brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim má einnig gera lögaðila þessum sekt og sviptingu starfsréttinda, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hefur notið hagnaðar af brotinu. Lögaðili ber ábyrgð á greiðslu sektar sem starfsmaður hans er dæmdur til að greiða vegna brota á lögum þessum enda séu brot tengd starfi hans hjá lögaðilanum.
Dæma má sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga og upptöku eigna skv. 69. gr. sömu laga í máli er rís vegna brota á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim.
27. gr.
Ákvarðanir Neytendastofu um að leggja á stjórnvaldssektir eða dagsektir eru aðfararhæfar, svo og sakarkostnaður.
Málskot til áfrýjunarnefndar neytendamála frestar aðför.
Við aðför samkvæmt ákvörðunum Neytendastofu skal kveðja gerðarþola fyrir héraðsdóm og um málsmeðferð fara skv. 13. kafla aðfararlaga.
28. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2005.