Frumvörp til breytinga á lögunum:

Lagasafn.  Íslensk lög 20. apríl 2022.  Útgáfa 152b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um fyrningu kröfuréttinda

2007 nr. 150 20. desember


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. janúar 2008. Breytt með: L. 17/2013 (tóku gildi 1. apríl 2013; EES-samningurinn: IX. viðauki tilskipun 2009/110/EB).


I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr.
Kröfur um peninga eða aðrar greiðslur fyrnast samkvæmt reglum laga þessara nema annað sé ákveðið með lögum.
Samningur um að krafa fyrnist ekki er ógildur.
Frestir samkvæmt lögunum eru taldir í árum eða mánuðum og er reiknað með heilum dögum þannig að dagurinn sem talið er frá er ekki talinn með. Ef sami dagur er ekki í lok mánaðar rennur fresturinn út síðasta dag mánaðarins.

II. kafli. Fyrningarfrestur.
2. gr.
Fyrningarfrestur kröfu reiknast frá þeim degi þegar kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda.
Fyrningarfrestur krafna, sem stofnast vegna vanefnda, reiknast frá þeim degi þegar samningurinn er vanefndur.
Þegar samningi verður rift áður en efndatími hans er kominn eða krafa er gjaldfallin fyrr en upphaflega var ákveðið, vegna vanefnda skuldara eða annarra atvika, reiknast fyrningarfrestur kröfu frá þeim degi er kröfuhafi tilkynnir skuldara að hann ætli að bera fyrir sig riftun eða gjaldfellingu. Kjósi kröfuhafi að beita ekki þessum úrræðum reiknast fresturinn frá þeim gjalddaga sem upphaflega var ákveðinn.
Nú hefur seljandi eða fyrri söluaðili ábyrgst seldan hlut með því að taka að sér úrbætur eða aðra ábyrgð og reiknast þá fyrningarfrestur kröfu, sem byggist á slíkri ábyrgð, frá þeim degi er kaupandi sendir tilkynningu um það atvik sem krafan byggist á, en í síðasta lagi frá þeim degi sem ábyrgðin rennur út. Sama gildir þegar sá sem veitir þjónustu hefur ábyrgst árangur af verki sínu.
3. gr.
Almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda er fjögur ár.
4. gr.
Krafa vegna innláns eða verðmæta sem lögð hafa verið inn hjá fjármálafyrirtæki, opinberum sjóði eða öðrum aðila, sem hefur heimild að lögum til að taka við innlánum frá almenningi, auk vaxta af slíkum kröfum, fyrnist á 20 árum frá þeim degi er verðmætin voru lögð inn. Nýr fyrningarfrestur byrjar að líða þegar kröfuhafi hefur fengið umráð fjármunanna með því að taka þá út eða setja fjármuni inn á reikninginn.
Krafa skv. 1. mgr. fyrnist þó því aðeins að viðtakandi fjármuna veki athygli kröfuhafa eða erfingja hans, tímanlega og á sannanlegan hátt, á að krafan sé að fyrnast.
[4. gr. a.
Krafa vegna rafeyris í skilningi laga um útgáfu og meðferð rafeyris fyrnist á 20 árum frá samningslokum.
Krafa skv. 1. mgr. fyrnist þó því aðeins að viðtakandi fjármuna veki athygli rétthafa, tímanlega og á sannanlegan hátt, á að krafan sé að fyrnast.] 1)
    1)L. 17/2013, 47. gr.
5. gr.
Kröfur samkvæmt skuldabréfi og kröfur sem skráðar hafa verið rafrænni skráningu í verðbréfamiðstöð fyrnast á tíu árum. Fyrningarfrestur ákvæðisins gildir ekki um vexti, verðbætur, arð af félagi og greiðslur skv. 6. gr.
Kröfur sem byggjast á peningalánum fyrnast einnig á tíu árum. Þetta gildir þó ekki um lán sem seljandi eða annar aðili hefur veitt til fjármögnunar á kaupum með greiðslufresti. Fyrningarfrestur ákvæðisins gildir ekki um vexti og verðbætur.
6. gr.
Krafa sem er umsamin eða ákveðin vegna eftirlauna, framfærslueyris, meðlags eða annarrar greiðslu, og fellur í gjalddaga með jöfnu millibili og er ekki afborgun af höfuðstóli, fyrnist þegar liðin eru tíu ár frá þeim degi sem síðasta greiðsla var innt af hendi. Ef engar greiðslur hafa átt sér stað byrjar fresturinn að líða frá þeim degi þegar kröfuhafi gat krafist þess að fá greidda fyrstu greiðsluna. Einstakar gjaldfallnar greiðslur fyrnast enn fremur eftir ákvæðum 3. gr.
7. gr.
Nú er krafa tryggð með ábyrgð eða annarri sambærilegri tryggingu og reiknast þá fyrningarfrestur gagnvart ábyrgðarmanni eftir sömu reglum og gilda um aðalkröfuna. Engu breytir við útreikning fyrningarfrests þótt ekki sé unnt að krefjast fullnustu hjá ábyrgðarmanni fyrr en greiðslu hefur árangurslaust verið leitað hjá aðalskuldara eða að ábyrgðin er að öðru leyti þess eðlis að hún sé til vara.
8. gr.
Nú eru fleiri skuldarar ábyrgir gagnvart kröfuhafa og einn þeirra efnir skuldbindinguna áður en krafa fyrnist gagnvart honum og fyrnist þá krafa hans á hendur meðskuldurum sínum fjórum árum eftir innlausnina. Krafan fyrnist þó ekki fyrr en við lok þess fyrningarfrests sem hann hefði notið ef innleysta krafan hefði verið framseld honum. Sama gildir um endurkröfu ábyrgðarmanns á hendur aðalskuldara eða meðábyrgðarmanni.
9. gr.
Krafa um skaðabætur fyrnist á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Krafa um skaðabætur vegna líkamstjóns, þ.m.t. fyrir ófjárhagslegt tjón, fyrnist þó á tíu árum.
Krafan fyrnist þó í síðasta lagi 20 árum eftir að tjónsatburði eða öðru atviki sem liggur til grundvallar ábyrgðinni lauk. Þetta gildir þó ekki um líkamstjón ef:
    a. tjónið hefur orðið í atvinnustarfsemi eða starfsemi sem má jafna við hana eða á meðan tjónþoli er undir 18 ára aldri og
    b. sá sem er ábyrgur, eða einhver sem hann ber ábyrgð á, vissi eða mátti vita, áður en tjónsatburði lauk, að háttsemin gæti leitt til hættu á lífi eða alvarlegs heilsutjóns.
Þessi grein gildir ekki um kröfur sem eiga rót að rekja til samnings, nema kröfur varðandi líkamstjón.

III. kafli. Viðbótarfrestir.
10. gr.
Nú hefur kröfuhafi ekki haft uppi kröfu sökum þess að hann skorti nauðsynlega vitneskju um kröfuna eða skuldarann og fyrnist þá krafa hans aldrei fyrr en einu ári eftir þann dag þegar kröfuhafi fékk eða bar að afla sér slíkrar vitneskju.
Ef ekki er unnt að rjúfa fyrningu á grundvelli íslenskra eða erlendra laga eða sökum annarrar óyfirstíganlegrar hindrunar, sem ekki byggist á atvikum er varða kröfuhafa sjálfan, hefst fyrning í fyrsta lagi einu ári eftir þann dag er hindruninni lauk.
Ekki er unnt að framlengja fyrningarfrest samkvæmt þessari grein í meira en tíu ár frá því að krafa hefði ella fyrnst. Fyrningarfresti á grundvelli 2. mgr. 9. gr. er ekki unnt að framlengja samkvæmt þessari grein.
11. gr.
Þótt fyrningarfrestur sé liðinn er unnt að hafa uppi kröfu um skaðabætur í sakamáli þar sem skuldari er fundinn sekur um þann verknað sem liggur til grundvallar bótakröfu. Slíka kröfu má einnig setja fram í sérstöku máli sem höfðað er innan eins árs frá því að áfellisdómur í sakamáli var kveðinn upp. Sama gildir þegar skuldarinn gengst undir viðurlög vegna brotsins.
12. gr.
Nú á ólögráða maður kröfu á hendur fjárhaldsmanni eða yfirlögráðanda eða lögpersóna kröfu gegn stjórnarmanni eða framkvæmdastjóra og hefst þá fyrning kröfu vegna ábyrgðar, sem stafar af þessu réttarsambandi, í fyrsta lagi einu ári eftir að viðkomandi lét af starfanum. Ef sá sem er bær til að sækja kröfuna vegna kröfuhafa fær vitneskju um þau atvik sem liggja til grundvallar kröfunni fyrir þann tíma tekur fyrningarfrestur að líða frá því tímamarki þótt sá sem í hlut eigi hafi ekki látið af starfanum. Reglan gildir einnig um kröfu þrotamanns á hendur skiptastjóra þrotabúsins vegna starfa hans.
Fyrning kröfu sem hvílir samkvæmt félagssamningi á félagsmanni til að leggja framlag í eignasafn félags hefst fyrst þegar félagsaðild lýkur og félagið hefur fengið tilkynningu þar að lútandi.
13. gr.
Nú hefur opinber innköllun verið gefin út lögum samkvæmt með áskorun til kröfuhafa um að lýsa kröfum sínum innan ákveðins frests og fyrnist þá krafa ekki fyrr en sá frestur er liðinn. Ef kröfu er lýst innan kröfulýsingarfrests fyrnist krafan ekki fyrr en liðið er eitt ár frá því að kröfulýsingarfresti lauk. Við gjaldþrotaskipti eða opinber skipti dánarbús gilda 18. gr. og 2. mgr. 22. gr.

IV. kafli. Slit fyrningar.
14. gr.
Fyrningu er slitið þegar skuldari hefur gagnvart kröfuhafa beinlínis eða með atferli sínu viðurkennt skylduna, svo sem með loforði um greiðslu eða með því að greiða afborgun höfuðstóls, verðbætur eða vexti.
15. gr.
Fyrningu er slitið með málssókn kröfuhafa á hendur skuldara til að fá dóm fyrir kröfunni eða þegar krafist er skuldajafnaðar fyrir dómi. Einnig er fyrningu slitið þegar kröfuhafi höfðar mál til að fá viðurkenningardóm fyrir kröfunni eða leggur málið fyrir gerðardóm samkvæmt samningi.
Ef krafan er sótt fyrir dómstól er fyrningu slitið þegar mál telst höfðað eða þegar greinargerð er lögð fram með gagnkröfu til skuldajafnaðar.
Ef heimilt eða skylt er samkvæmt samningi eða lögum að leggja ágreining í gerð er fyrningu slitið þegar kröfuhafi gerir það sem nauðsynlegt er til að hrinda málinu af stað. Ef höfð er uppi krafa til skuldajafnaðar í slíku máli er fyrningu þeirrar kröfu slitið þegar hún er sett fram.
16. gr.
Fyrningu er slitið þegar kröfuhafi leggur málið til ákvörðunar fyrir stjórnvald sem hefur sérstakt ákvörðunarvald til þess að ljúka deilu um ágreininginn. Þetta gildir þótt kæra megi ákvörðunina til annars stjórnvalds eða dómstóla. Ef málið er undirbúið af öðru stjórnvaldi er nægilegt að krafan sé lögð fyrir það stjórnvald.
Ákvæði 1. mgr. gilda jafnframt um kröfur sem lagðar eru fyrir kæru- og úrskurðarnefndir sem settar eru á fót af skuldara eða starfsgreinasamtökum sem hann á aðild að eða með þátttöku þeirra. Sama gildir ef kæru- eða umkvörtunarnefndir hafa verið settar á fót á grundvelli fyrirmæla í lögum eða ef skuldari samþykkir að krafa sé lögð fyrir starfandi kæru- eða umkvörtunarnefnd.
17. gr.
Nú hefur kröfuhafi heimild til að krefjast fullnustugerðar fyrir kröfu hjá skuldara og er fyrningu þá slitið þegar beiðni um fullnustugerð berst héraðsdómara eða sýslumanni og fullnægt er að öðru leyti skilyrðum 52. gr. laga um aðför og 2. mgr. 12. gr. laga um nauðungarsölu.
Þegar innheimta þarf meðlagsgreiðslu í öðru ríki er fyrningu slitið þegar sá sem rétt á til greiðslunnar leggur fram beiðni um slíka innheimtu hjá hlutaðeigandi stjórnvaldi hér á landi eða í erlenda ríkinu í samræmi við samning milli Íslands og þess ríkis sem á í hlut.
18. gr.
Fyrningu kröfu er slitið þegar héraðsdómi berst krafa um gjaldþrotaskipti eða opinber skipti á dánarbúi skuldara til fullnustu á kröfunni.
Nú hefur bú skuldara verið tekið til gjaldþrotaskipta eða dánarbú hans til opinberra skipta og er þá fyrningu slitið með því að lýsa kröfunni í búið áður en frestur til að lýsa kröfum rennur út.
Rof fyrningar skv. 1. og 2. mgr. hefur einnig áhrif gagnvart þrotamanni og erfingjum skuldara.
19. gr.
Nú er fyrningu slitið gegn einum af fleiri skuldurum með málssókn í samræmi við 15. gr. og fyrnist þá krafan ekki á hendur öðrum skuldara ef honum er stefnt til réttargæslu í málinu áður en krafan fyrnist gagnvart honum. Í kjölfarið verður kröfuhafi að fylgja kröfunni eftir gagnvart þeim skuldara innan eins árs eftir að málinu lauk með sátt, dómi eða með öðrum hætti.
Sama gildir ef sá sem málssókn beinist að vill hafa uppi endurkröfu á hendur öðrum manni vegna þess sem hann kann að þurfa að greiða.

V. kafli. Réttaráhrif þess að fyrningu er slitið.
20. gr.
Þegar fyrningu er slitið með viðurkenningu skuldara skv. 14. gr. telst nýr fyrningarfrestur samkvæmt reglum þessara laga frá því að krafan var viðurkennd eða frá síðara tímamarki ef kröfuhafi átti þá fyrst rétt á að fá kröfuna efnda.
21. gr.
Ef fyrningu hefur verið slitið á grundvelli 15.–17. gr. byrjar nýr fyrningarfrestur ekki að líða á meðan á lögsókninni stendur.
Nú er krafa dæmd eða um hana gerð dómsátt eða hún tekin til greina við málsmeðferð skv. 16. gr. og hefst þá nýr tíu ára fyrningarfrestur. Reiknast sá fyrningarfrestur frá þeim degi sem dómur gekk, dómsátt var gerð eða krafan var tekin til greina eða frá síðara tímamarki ef kröfuhafi getur fyrst þá krafist efnda. Krafa um síðar áfallna vexti, verðbætur eða arð í félagi fyrnist skv. 3. gr.
Ef aðfarargerð skv. 1. mgr. 17. gr. fer fram hjá skuldara án þess að krafa fáist að fullu greidd hefst nýr fyrningarfrestur frá þeim degi sem fullnustugerðinni lauk. Sami fyrningarfrestur tekur að líða frá því að lögð er fram beiðni skv. 2. mgr. 17. gr.
22. gr.
Nú er lögsókn skv. 15. eða 16. gr. beint að skuldara en máli vísað frá dómi eða viðkomandi úrlausnaraðila eða það fellt niður og getur þá kröfuhafi höfðað nýtt mál eða borið málið aftur undir sama úrlausnaraðila þótt fyrningarfresturinn sé liðinn, enda sé það gert innan sex mánaða. Sama gildir ef hinu síðari máli eða síðari málum verður vísað frá eða þau falla niður án efnisdóms.
Nú er ekki fallist á kröfu um gjaldþrotaskipti eða kröfu um opinber skipti dánarbús og er fyrningu þá slitið í sex mánuði frá því að skiptabeiðni var hafnað.
23. gr.
Nú er fyrningu slitið með málssókn í öðru ríki og er þá fyrningu kröfunnar slitið hér á landi á meðan málið er rekið þar fyrir dómi. Eftir því sem við getur átt gildir 1. mgr. 22. gr. ef máli lýkur ekki með efnisdómi.
Þegar krafa er dæmd eða um hana gerð dómsátt í öðru ríki hefst nýr tíu ára fyrningarfrestur skv. 2. mgr. 21. gr., enda sé dómsúrlausnin samrýmanleg íslensku réttarskipulagi.

VI. kafli. Réttaráhrif fyrningar.
24. gr.
Þegar krafa fyrnist fellur hún niður og kröfuhafi glatar rétti sínum til efnda. Falla þá einnig niður vextir, verðbætur, arður og aðrar viðbótargreiðslur.
25. gr.
Þótt krafa fyrnist gagnvart einum af fleiri skuldurum hefur það ekki áhrif gagnvart öðrum skuldurum nema á annan veg hafi verið samið.
Nú er krafa tryggð með ábyrgð og fyrnist þá krafan á hendur ábyrgðarmanni ef aðalkrafan fellur niður fyrir fyrningu áður en fyrningu er slitið gagnvart ábyrgðarmanni skv. 15.–19. gr., enda leiði ekki annað af samningi.
26. gr.
Fyrning kröfu felur ekki í sér að kröfuhafi missi rétt til skuldajafnaðar ef samið hefur verið um þann rétt eða kröfurnar eru af sömu rót runnar og aðalkrafan hefur stofnast áður en gagnkrafan fyrntist.
27. gr.
Fyrning kröfu hefur ekki áhrif á veðrétt og haldsrétt og standa slík tryggingaréttindi óhögguð þótt krafan, sem þau eiga að tryggja, falli niður fyrir fyrningu. Það á þó ekki við í eftirfarandi tilvikum:
    a. Þegar krafa tryggð með lögveði fyrnist fellur lögveðið niður samtímis.
    b. Sjálfsvörsluveð fyrir kröfu um vexti eða öðrum kröfum um greiðslu, sem falla í gjalddaga með jöfnu millibili og eru ekki afborgun höfuðstóls, fellur brott þegar krafan fyrnist.
Um brottfall söluveðs gildir 41. gr. laga um samningsveð.
Af réttindum, sem hvíla sem afgjaldskvöð á fasteign, fyrnast aðeins einstakar greiðslur.

VII. kafli. Gildistaka o.fl.
28. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008. Lögin gilda einvörðungu um þær kröfur sem stofnast eftir gildistöku laganna.