Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 67. máls.

Þskj. 67  —  67. mál.Frumvarp til laga

um fyrningu kröfuréttinda.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.

    Kröfur um peninga eða aðrar greiðslur fyrnast samkvæmt reglum laga þessara nema annað sé ákveðið með lögum.
    Samningur um að krafa fyrnist ekki er ógildur.
    Frestir samkvæmt lögunum eru taldir í árum eða mánuðum og er reiknað með heilum dögum þannig að dagurinn sem talið er frá er ekki talinn með. Ef sami dagur er ekki í lok mánaðar rennur fresturinn út síðasta dag mánaðarins.

II. KAFLI
Fyrningarfrestur.
2. gr.

    Fyrningarfrestur kröfu reiknast frá þeim degi þegar kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda.
    Fyrningarfrestur krafna, sem stofnast vegna vanefnda, reiknast frá þeim degi þegar samningurinn er vanefndur.
    Þegar samningi verður rift áður en efndatími hans er kominn eða krafa er gjaldfallin fyrr en upphaflega var ákveðið, vegna vanefnda skuldara eða annarra atvika, reiknast fyrningarfrestur kröfu frá þeim degi er kröfuhafi tilkynnir skuldara að hann ætli að bera fyrir sig riftun eða gjaldfellingu. Kjósi kröfuhafi að beita ekki þessum úrræðum reiknast fresturinn frá þeim gjalddaga sem upphaflega var ákveðinn.
    Nú hefur seljandi eða fyrri söluaðili ábyrgst seldan hlut með því að taka að sér úrbætur eða aðra ábyrgð og reiknast þá fyrningarfrestur kröfu, sem byggist á slíkri ábyrgð, frá þeim degi er kaupandi sendir tilkynningu um það atvik sem krafan byggist á, en í síðasta lagi frá þeim degi sem ábyrgðin rennur út. Sama gildir þegar sá sem veitir þjónustu hefur ábyrgst árangur af verki sínu.

3. gr.

    Almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda er fjögur ár.

4. gr.

    Krafa vegna innláns eða verðmæta sem lögð hafa verið inn hjá fjármálafyrirtæki, opinberum sjóði eða öðrum aðila, sem hefur heimild að lögum til að taka við innlánum frá almenningi, auk vaxta af slíkum kröfum, fyrnist á 20 árum frá þeim degi er verðmætin voru lögð inn. Nýr fyrningarfrestur byrjar að líða þegar kröfuhafi hefur fengið umráð fjármunanna með því að taka þá út eða setja fjármuni inn á reikninginn.
    Krafa skv. 1. mgr. fyrnist þó því aðeins að viðtakandi fjármuna geri áður eðlilegar ráðstafanir til að vekja athygli kröfuhafa eða erfingja hans á að krafan sé að fyrnast.

5. gr.

    Kröfur samkvæmt skuldabréfi og kröfur sem skráðar hafa verið rafrænni skráningu í verðbréfamiðstöð fyrnast á tíu árum. Fyrningarfrestur ákvæðisins gildir ekki um vexti, verðbætur, arð af félagi og greiðslur skv. 6. gr.
    Kröfur sem byggjast á peningalánum fyrnast einnig á tíu árum. Þetta gildir þó ekki um lán sem seljandi eða annar aðili hefur veitt til fjármögnunar á kaupum með greiðslufresti. Fyrningarfrestur ákvæðisins gildir ekki um vexti og verðbætur.

6. gr.

    Krafa sem er umsamin eða ákveðin vegna eftirlauna, framfærslueyris, meðlags eða annarrar greiðslu, og fellur í gjalddaga með jöfnu millibili og er ekki afborgun af höfuðstóli, fyrnist þegar liðin eru tíu ár frá þeim degi sem síðasta greiðsla var innt af hendi. Ef engar greiðslur hafa átt sér stað byrjar fresturinn að líða frá þeim degi þegar kröfuhafi gat krafist þess að fá greidda fyrstu greiðsluna. Einstakar gjaldfallnar greiðslur fyrnast enn fremur eftir ákvæðum 3. gr.

7. gr.

    Nú er krafa tryggð með ábyrgð eða annarri sambærilegri tryggingu og reiknast þá fyrningarfrestur gagnvart ábyrgðarmanni eftir sömu reglum og gilda um aðalkröfuna. Engu breytir við útreikning fyrningarfrests þótt ekki sé unnt að krefjast fullnustu hjá ábyrgðarmanni fyrr en greiðslu hefur árangurslaust verið leitað hjá aðalskuldara eða að ábyrgðin er að öðru leyti þess eðlis að hún sé til vara.

8. gr.

    Nú eru fleiri skuldarar ábyrgir gagnvart kröfuhafa og einn þeirra efnir skuldbindinguna áður en krafa fyrnist gagnvart honum og fyrnist þá krafa hans á hendur meðskuldurum sínum fjórum árum eftir innlausnina. Krafan fyrnist þó ekki fyrr en við lok þess fyrningarfrests sem hann hefði notið ef innleysta krafan hefði verið framseld honum. Sama gildir um endurkröfu ábyrgðarmanns á hendur aðalskuldara eða meðábyrgðarmanni.

9. gr.

    Krafa um skaðabætur, þar með talið fyrir ófjárhagslegt tjón, fyrnist á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga.
    Krafan fyrnist þó í síðasta lagi 20 árum eftir að tjónsatburði eða öðru atviki sem liggur til grundvallar ábyrgðinni lauk. Þetta gildir þó ekki um líkamstjón ef:
     a.      tjónið hefur orðið í atvinnustarfsemi eða starfsemi sem má jafna við hana eða á meðan tjónþoli er undir 18 ára aldri og
     b.      sá sem er ábyrgur, eða einhver sem hann ber ábyrgð á, vissi eða mátti vita, áður en tjónsatburði lauk, að háttsemin gæti leitt til hættu á lífi eða alvarlegs heilsutjóns.
    Þessi grein gildir ekki um kröfur sem eiga rót að rekja til samnings, nema kröfur varðandi líkamstjón.

III. KAFLI
Viðbótarfrestir.
10. gr.

    Nú hefur kröfuhafi ekki haft uppi kröfu sökum þess að hann skorti nauðsynlega vitneskju um kröfuna eða skuldarann og fyrnist þá krafa hans aldrei fyrr en einu ári eftir þann dag þegar kröfuhafi fékk eða bar að afla sér slíkrar vitneskju.
    Ef ekki er unnt að rjúfa fyrningu á grundvelli íslenskra eða erlendra laga eða sökum annarrar óyfirstíganlegrar hindrunar, sem ekki byggist á atvikum er varða kröfuhafa sjálfan, hefst fyrning í fyrsta lagi einu ári eftir þann dag er hindruninni lauk.
    Ekki er unnt að framlengja fyrningarfrest samkvæmt þessari grein í meira en tíu ár frá því að krafa hefði ella fyrnst. Fyrningarfresti á grundvelli 2. mgr. 9. gr. er ekki unnt að framlengja samkvæmt þessari grein.

11. gr.

    Þótt fyrningarfrestur sé liðinn er unnt að hafa uppi kröfu um skaðabætur í sakamáli þar sem skuldari er fundinn sekur um þann verknað sem liggur til grundvallar bótakröfu. Slíka kröfu má einnig setja fram í sérstöku máli sem höfðað er innan eins árs frá því að áfellisdómur í sakamáli var kveðinn upp. Sama gildir þegar skuldarinn gengst undir viðurlög vegna brotsins.

12. gr.

    Nú á ólögráða maður kröfu á hendur fjárhaldsmanni eða yfirlögráðanda eða lögpersóna kröfu gegn stjórnarmanni eða framkvæmdastjóra og hefst þá fyrning kröfu vegna ábyrgðar, sem stafar af þessu réttarsambandi, í fyrsta lagi einu ári eftir að viðkomandi lét af starfanum. Ef sá sem er bær til að sækja kröfuna vegna kröfuhafa fær vitneskju um þau atvik sem liggja til grundvallar kröfunni fyrir þann tíma tekur fyrningarfrestur að líða frá því tímamarki þótt sá sem í hlut eigi hafi ekki látið af starfanum. Reglan gildi einnig um kröfu þrotamanns á hendur skiptastjóra þrotabúsins vegna starfa hans.
    Fyrning kröfu sem hvílir samkvæmt félagssamningi á félagsmanni til að leggja framlag í eignasafn félags hefst fyrst þegar félagsaðild lýkur og félagið hefur fengið tilkynningu þar að lútandi.

13. gr.

    Nú hefur opinber innköllun verið gefin út lögum samkvæmt með áskorun til kröfuhafa um að lýsa kröfum sínum innan ákveðins frests og fyrnist þá krafa ekki fyrr en sá frestur er liðinn. Ef kröfu er lýst innan kröfulýsingarfrests fyrnist krafan ekki fyrr en liðið er eitt ár frá því að kröfulýsingarfresti lauk. Við gjaldþrotaskipti eða opinber skipti dánarbús gilda 18. gr. og 2. mgr. 22. gr.

IV. KAFLI
Slit fyrningar.
14. gr.

    Fyrningu er slitið þegar skuldari hefur gagnvart kröfuhafa beinlínis eða með atferli sínu viðurkennt skylduna, svo sem með loforði um greiðslu eða með því að greiða afborgun höfuðstóls, verðbætur eða vexti.

15. gr.

    Fyrningu er slitið með málssókn kröfuhafa á hendur skuldara til að fá dóm fyrir kröfunni eða þegar krafist er skuldajafnaðar fyrir dómi. Einnig er fyrningu slitið þegar kröfuhafi höfðar mál til að fá viðurkenningardóm fyrir kröfunni eða leggur málið fyrir gerðardóm samkvæmt samningi.
    Ef krafan er sótt fyrir dómstól er fyrningu slitið þegar mál telst höfðað eða þegar greinargerð er lögð fram með gagnkröfu til skuldajafnaðar.
    Ef samið er um að ágreiningur um kröfu skuli lagður í gerð er fyrningu slitið þegar kröfuhafi gerir það sem nauðsynlegt er til að hrinda málinu af stað. Ef höfð er uppi krafa til skuldajafnaðar í slíku máli er fyrningu þeirrar kröfu slitið þegar hún er sett fram.

16. gr.

    Fyrningu er slitið þegar kröfuhafi leggur málið til ákvörðunar fyrir stjórnvald sem hefur sérstakt ákvörðunarvald til þess að ljúka deilu um ágreininginn. Þetta gildir þótt kæra megi ákvörðunina til annars stjórnvalds eða dómstóla. Ef málið er undirbúið af öðru stjórnvaldi er nægilegt að krafan sé lögð fyrir það stjórnvald.
    Ákvæði 1. mgr. gilda eftir því sem við á um kröfur sem lagðar eru fyrir kæru- eða umkvörtunarnefndir, sem eru settar á fót af skuldara eða starfsgreinasamtökum sem hann á aðild að eða með þátttöku þeirra. Sama gildir þegar skuldari samþykkir að krafa sé lögð fyrir kæru- eða umkvörtunarnefnd sem stofnað hefur verið til.

17. gr.

    Nú hefur kröfuhafi heimild til að krefjast fullnustugerðar fyrir kröfu hjá skuldara og er fyrningu þá slitið þegar beiðni um fullnustugerð berst héraðsdómara eða sýslumanni og fullnægt er að öðru leyti skilyrðum 52. gr. laga um aðför og 2. mgr. 12. gr. laga um nauðungarsölu.
    Þegar innheimta þarf meðlagsgreiðslu í öðru ríki er fyrningu slitið þegar sá sem rétt á til greiðslunnar leggur fram beiðni um slíka innheimtu hjá hlutaðeigandi stjórnvaldi hér á landi eða í erlenda ríkinu í samræmi við samning milli Íslands og þess ríkis sem á í hlut.

18. gr.

    Fyrningu kröfu er slitið þegar héraðsdómi berst krafa um gjaldþrotaskipti eða opinber skipti á dánarbúi skuldara til fullnustu á kröfunni.
    Nú hefur bú skuldara verið tekið til gjaldþrotaskipta eða dánarbú hans til opinberra skipta og er þá fyrningu slitið með því að lýsa kröfunni í búið áður en frestur til að lýsa kröfum rennur út.
    Rof fyrningar skv. 1. og 2. mgr. hefur einnig áhrif gagnvart þrotamanni og erfingjum skuldara.

19. gr.

    Nú er fyrningu slitið gegn einum af fleiri skuldurum með málssókn í samræmi við 15. gr. og fyrnist þá krafan ekki á hendur öðrum skuldara ef honum er stefnt til réttargæslu í málinu áður en krafan fyrnist gagnvart honum. Í kjölfarið verður kröfuhafi að fylgja kröfunni eftir gagnvart þeim skuldara innan eins árs eftir að málinu lauk með sátt, dómi eða með öðrum hætti.
    Sama gildir ef sá sem málssókn beinist að vill hafa uppi endurkröfu á hendur öðrum manni vegna þess sem hann kann að þurfa að greiða.

V. KAFLI
Réttaráhrif þess að fyrningu er slitið.
20. gr.

    Þegar fyrningu er slitið með viðurkenningu skuldara skv. 14. gr. telst nýr fyrningarfrestur samkvæmt reglum þessara laga frá því að krafan var viðurkennd eða frá síðara tímamarki ef kröfuhafi átti þá fyrsta rétt á að fá kröfuna efnda.

21. gr.

    Ef fyrningu hefur verið slitið á grundvelli 15.–17. gr. byrjar nýr fyrningarfrestur ekki að líða á meðan á lögsókninni stendur.
    Nú er krafa dæmd eða um hana gerð dómsátt eða hún tekin til greina við málsmeðferð skv. 16. gr. og hefst þá nýr tíu ára fyrningarfrestur. Reiknast sá fyrningarfrestur frá þeim degi sem dómur gekk, dómsátt var gerð eða krafan var tekin til greina eða frá síðara tímamarki ef kröfuhafi getur fyrst þá krafist efnda. Krafa um síðar áfallna vexti, verðbætur eða arð í félagi fyrnist skv. 3. gr.
    Ef aðfarargerð skv. 1. mgr. 17. gr. fer fram hjá skuldara án þess að krafa fáist að fullu greidd hefst nýr tíu ára fyrningarfrestur frá þeim degi sem fullnustugerðinni lauk. Sami fyrningarfrestur tekur að líða frá því að lögð er fram beiðni skv. 2. mgr. 17. gr.

22. gr.

    Nú er lögsókn skv. 15. eða 16. gr. beint að skuldara en máli vísað frá dómi eða viðkomandi úrlausnaraðila eða það fellt niður og getur þá kröfuhafi höfðað nýtt mál eða borið málið aftur undir sama úrlausnaraðila þótt fyrningarfresturinn sé liðinn, enda sé það gert innan sex mánaða. Sama gildir ef hinu síðari máli eða síðari málum verður vísað frá eða þau falla niður án efnisdóms.
    Nú er ekki fallist á kröfu um gjaldþrotaskipti eða kröfu um opinber skipti dánarbús og er fyrningu þá slitið í sex mánuði frá því að skiptabeiðni var hafnað.

23. gr.

    Nú er fyrningu slitið með málssókn í öðru ríki og er þá fyrningu kröfunnar slitið hér á landi á meðan málið er rekið þar fyrir dómi. Eftir því sem við getur átt gildir 1. mgr. 22. gr. ef máli lýkur ekki með efnisdómi.
    Þegar krafa er dæmd eða um hana gerð dómsátt í öðru ríki hefst nýr tíu ára fyrningarfrestur skv. 2. mgr. 21. gr., enda sé dómsúrlausnin samrýmanleg íslensku réttarskipulagi.

VI. KAFLI
Réttaráhrif fyrningar.
24. gr.

    Þegar krafa fyrnist fellur hún niður og kröfuhafi glatar rétti sínum til efnda. Falla þá einnig niður vextir, verðbætur, arður og aðrar viðbótargreiðslur.
    

25. gr.

    Þótt krafa fyrnist gagnvart einum af fleiri skuldurum hefur það ekki áhrif gagnvart öðrum skuldurum nema á annan veg hafi verið samið.
    Nú er krafa tryggð með ábyrgð og fyrnist þá krafan á hendur ábyrgðarmanni ef aðalkrafan fellur niður fyrir fyrningu áður en fyrningu er slitið gagnvart ábyrgðarmanni skv. 15.–19. gr., enda leiði ekki annað af samningi.

26. gr.

    Fyrning kröfu felur ekki í sér að kröfuhafi missi rétt til skuldajafnaðar ef samið hefur verið um þann rétt eða kröfurnar eru af sömu rót runnar og aðalkrafan hefur stofnast áður en gagnkrafan fyrntist.

27. gr.

    Fyrning kröfu hefur ekki áhrif á veðrétt og haldsrétt og standa slík tryggingaréttindi óhögguð þótt krafan, sem þau eiga að tryggja, falli niður fyrir fyrningu. Það á þó ekki við í eftirfarandi tilvikum:
     a.      Þegar krafa tryggð með lögveði fyrnist fellur lögveðið niður samtímis.
     b.      Sjálfsvörsluveð fyrir kröfu um vexti eða öðrum kröfum um greiðslu, sem falla í gjalddaga með jöfnu millibili og eru ekki afborgun höfuðstóls, fellur brott þegar krafan fyrnist.
    Um brottfall söluveðs gildir 41. gr. laga um samningsveð.
    Af réttindum, sem hvíla sem afgjaldskvöð á fasteign, fyrnast aðeins einstakar greiðslur.

VII. KAFLI
Gildistaka o.fl.
28. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008. Lögin gilda einvörðungu um þær kröfur sem stofnast eftir gildistöku laganna.
    Við gildistöku laganna falla úr gildi lög um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, nr. 14/1905.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.

    Frumvarp þetta felur í sér heildarendurskoðun á lögum um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, nr. 14 frá 20. október 1905. Vinna við endurskoðun laganna hófst í viðskiptaráðuneytinu en Óskar Sigurðsson, hæstaréttarlögmaður og aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands, var síðan fenginn til að annast verkefnið og vinna drög að frumvarpi til nýrra laga um fyrningu kröfuréttinda. Einnig kom Benedikt Bogason, dómstjóri og dósent við lagadeild Háskóla Íslands, að verkinu á síðari stigum. Ráðuneytið kynnti drög að frumvarpi til nýrra fyrningarlaga í september 2006 og gafst þá almenningi og hagsmunaaðilum kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri. Í kjölfarið hafa frumvarpsdrögin verið yfirfarin í ráðuneytinu og nokkrar minni háttar breytingar gerðar á þeim.

II.

    Hugtakið fyrning hefur verið skilgreint á þann veg að réttindi falli niður eða missi réttarvernd sína að meira eða minna leyti fyrir það að þeirra er ekki neytt um tiltekinn tíma og ekki gerðar aðrar ráðstafanir um þau sem að lögum gætu varnað því að þau fyrnist (Ólafur Lárusson, Fyrirlestrar um fyrningu, bls. 1).
    Reglur um fyrningu eru ein tegund réttarreglna sem mæla fyrir um lagaleg áhrif aðgerðaleysis. Þeim til viðbótar koma almenn tómlætissjónarmið, vanlýsingarreglur og ýmsar reglur í lögum, sem áskilja að menn setji fram kröfur innan tiltekins frests (d. reklamation). Dæmi um slíkan lögbundinn frest er 2. mgr. 32. gr. laga um lausafjárkaup, nr. 50/2000, en samkvæmt því ákvæði verður kaupandi að leggja fram kvörtun innan tveggja ára frá þeim degi er hann veitir söluhlut viðtöku, ella getur hann ekki síðar borið gallann fyrir sig. Frestreglur af þessu tagi teljast ekki til fyrningarreglna, þar sem framsetning kröfu felur ekki í sér upphaf nýs frests, sem venjulega er jafnlangur hinum fyrri. Slíkar frestreglur gilda hins vegar jafnhliða fyrningarreglum, en af því leiðir að kröfuhafi kann að hafa glatað rétti til að halda fram kröfu, enda þótt hún sé enn ófyrnd.
    Aðallagaboðið um fyrningu hafa verið lög um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, nr. 14/1905 (hér eftir nefnd fyrningarlög). Samhliða þeim hafa einnig verið lögfestar sérreglur í ýmsum lögum um fyrningu tiltekinna tegunda kröfuréttinda. Í dæmaskyni um slíkar reglur má nefna 14. gr. laga um skaðsemisábyrgð, nr. 25/1991, 52. gr. laga um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, 99. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, og 215. og 216. gr. siglingalaga, nr. 34/1985. Með sérreglum um fyrningu er í flestum tilvikum mælt fyrir um styttri fyrningarfrest en leiðir af almennum reglum fyrningarlaga. Þessarar tilhneigingar hefur einnig gætt annars staðar á Norðurlöndum. Ástæður þessa eru einkum þær þjóðfélagsbreytingar sem átt hafa sér stað frá árinu 1905, þegar fyrningarlögin voru sett, en löggjafinn hefur á þessum tilteknu sviðum ekki talið jafnríkar ástæður fyrir svo löngum fyrningarfresti sem leiðir af almennum reglum fyrningarlaga.

III.

    Rökin að baki fyrningarreglum eru bæði einstaklingsbundnir hagsmunir og hagsmunir almannavaldsins (almannahagsmunir).
    Almannahagsmunir að baki lagareglum um fyrningu eru meðal annars að gjarnan er erfitt að færa fram sönnun þegar málssókn rís út af löngu liðnum atburðum. Þannig er yfirleitt erfiðara að sanna tilvist kröfu eftir því sem hún verður eldri. Að sama skapi er vandasamara fyrir dómstóla að meta réttmæti krafna vegna löngu liðinna lögskipta. Með fyrningarreglum er komið í veg fyrir þetta en þær stuðla að því að viðskiptum verði lokið áður en óhæfilega langur tími er liðinn frá því til þeirra var stofnað.
    Með fyrningarreglum eru einnig verndaðir einstaklingsbundnir hagsmunir og þá einkum hagsmunir skuldara. Vissulega geta erfiðleikar við sönnun kröfu bitnað á hvorum aðilanum sem er en oftar kæmi þetta skuldara í koll, enda má frekar gera ráð fyrir að skuldari hafi tapað gögnum til að sanna að krafan sé fallin niður en að kröfuhafi hafi tapað gögnum sem sanna að hún hafi stofnast. Fyrningarreglur veita skuldaranum því vernd gegn því að verða dæmdur til að greiða kröfu, sem þegar er fallin niður eða greidd, og spara honum þá fyrirhöfn að geyma von úr viti kvittanir eða önnur gögn. Þá eru fyrningarreglurnar til hagsbóta fyrir kröfuhafa að því leyti að þær hvetja hann til að gera reka að fullnusta krafna sinna.
    Það sem almennt býr að baki fyrningarreglunum er það að tryggja að endi verði bundinn á skuldbindingar sem stofnað hefur verið til. Má í þessu sambandi benda á að kröfuréttindum er venjulega ekki ætlaður langur líftími.

IV.

    Nokkur aðdragandi var að því að fyrningarlög voru sett árið 1905. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna kemur fram að árið 1890 hafi að tilhlutan dönsku stjórnarinnar verið samið frumvarp til laga um skuldafyrningu. Frumvarpið var síðan endurskoðað af dönskum og norskum lögfræðingum og á þessum grundvelli voru fyrningarlög lögfest í Noregi árið 1896, sbr. lög nr. 7 frá 27. júlí það ár (lov om foreldelse av fordringer). Þegar frumvarp til fyrningarlaga var lagt fram á Alþingi var til meðferðar í danska þinginu frumvarp, sem var í öllum aðalatriðum samhljóða norsku lögunum. Frumvarpið var hins vegar ekki samþykkt í Danmörku. Þar sem fyrningarlög höfðu verið sett í Noregi og lagafrumvarpið var til meðferðar í danska þinginu var talið heppilegt að hér á landi yrðu lögfestar sams konar reglur um fyrningu og í nágrannalöndum okkar og voru því lögin sniðin eftir norsku lögunum. Þó var í nokkrum atriðum vikið frá norsku fyrirmyndinni, svo sem varðandi fyrningarfrest sem skyldi hér á landi vera stystur fjögur ár en sá frestur var þrjú ár í norsku lögunum. Í Danmörku var frumvarp til laga um fyrningu lögfest árið 1908, sbr. lög nr. 274 frá 22. desember það ár (lov om forældelse af visse fordringer), og gilda þau lög samhliða ákvæðum dönsku laga Kristjáns V. frá árinu 1683, sbr. 5. bók 14. kapituli 4. gr. til 1. janúar 2008 en þá munu taka gildi ný fyrningarlög sem samþykkt voru í júní 2007. Í Noregi voru sett ný lög um fyrningu árið 1979, sbr. lög nr. 18 frá 18. maí það ár. Gildandi fyrningarlög í Noregi eru að mörgu leyti byggð á eldri lagagrundvelli.
    Fyrir setningu fyrningarlaga árið 1905 voru engin almenn fyrningarlög í gildi hér á landi. Hins vegar mátti finna einstök lagaákvæði um fyrningu skulda, meðal annars varðandi eftirlaun, víxilkröfur, skaðabætur fyrir gæsluvarðhald að ósekju, o.fl. Í Jónsbók voru ákvæði um fyrningu og var aðallagaákvæðið í 8. kapitula kaupabálks Jónsbókar varðandi skuld eftir dauðan mann. Einnig voru ákvæði um hversu lengi arfur mætti standa ósóttur í 17., 18. og 20. kapitula Jónsbókar um kvennagiptingar.
    Reglur dönsku laga Kristjáns V. í 5. bók 14. kapitula 4. gr. og norsku laga Kristjáns V. í 5. bók 13. kapitula 2. gr. um fyrningu giltu ekki hérlendis, eins og fram kemur í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til fyrningarlaga. Þar til fyrningarlög voru sett giltu því eingöngu ákvæði Jónsbókar auk sundurleitra sérlagaákvæða. Engar efnislegar breytingar hafa verið gerðar á ákvæðum fyrningarlaga, ef frá er talið brottfall nokkurra ákvæða í tengslum við aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, sem tók gildi 1. júlí 1992.
    Enda þótt fyrningarlög hafi reynst vel um liðlega aldarskeið fer ekki hjá því að endurskoðun laganna sé löngu orðin tímabær. Orðalag í lögunum er á köflum torskilið og ýmsar reglur laganna eru miðaðar við aðstæður sem ekki eru fyrir hendi í viðskiptum nú á tímum. Að sama skapi eru lögin þögul um ýmis mikilvæg atriði sem reynt getur á í framkvæmd. Þá er meginregla laganna sú að kröfur fyrnist á tíu árum þótt flestar algengustu kröfur falli undir ákvæði laganna um fjögurra ára fyrningu. Þykir óheppilegt að lögin hafi að geyma svo víðtækar undantekningar frá meginreglu laganna.

V.

    Eins og áður var rakið voru fyrningarlög samin eftir fyrirmynd sem ætlað var að gilda fyrir Danmörku, Ísland og Noreg. Þegar árið 1909 komu fram hugmyndir að norrænu samstarfi um lagasetningu á þessu sviði en til þess var þó ekki efnt á þeim tíma. Á sjötta áratug liðinnar aldar unnu fulltrúar frá Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi að lagasamræmingu, sem lauk árið 1957 með framlagningu fjögurra frumvarpa til fyrningarlaga, hverju fyrir sitt land. Frumvörpin sættu töluverðri gagnrýni og ekkert þeirra varð að lögum. Þótt lagasamræming fyrningarreglna hafi af og til síðar borið á góma á norrænum vettvangi hefur ekki orðið úr samstarfi á því sviði. Réttarreglur Norðurlandanna um fyrningu eru því frábrugðnar í ýmsum atriðum og má til dæmis nefna að samkvæmt norskum og íslenskum rétti er fyrningarfrestur kröfu almennt miðaður við gjalddaga, en meginreglan annars staðar á Norðurlöndum er sú að miða við það tímamark þegar krafa stofnast. Í þeim löndum er einnig unnt að rjúfa fyrningarfrest með sannanlegri greiðsluáskorun, gagnstætt því sem á við samkvæmt íslenskum og norskum lögum.
    Ef horft er til réttar annarra ríkja er löggjöfin enn sundurleitari. Má til dæmis nefna að í sumum ríkjum teljast fyrningarreglur til réttarfarsreglna fremur en efnisreglna, svo sem í engilsaxneskum rétti (statute of limitations). Árið 1967 var á vettvangi Evrópuráðsins sett á laggirnar nefnd, sem vinna átti drög að samræmdum fyrningarreglum, en ekki reyndist grundvöllur fyrir evrópskri lagasamræmingu á þessu sviði.
    Við samningu frumvarps þessa þótti heppilegast að hafa hliðsjón af gildandi fyrningarlögum í Noregi frá árinu 1979 með síðari breytingum. Er þá litið til þess að þau lög voru sett á grundvelli eldri laga sem voru hliðstæð gildandi fyrningarlögum hér á landi. Jafnframt eru réttarreglur landanna um kröfuréttindi sambærileg í flestu tilliti.

VI.

    Gildissvið frumvarpsins takmarkast að meginstefnu til við kröfuréttindi. Í því felst að við úrlausn um hvort tiltekin réttindi séu undirorpin fyrningu verður að líta til almennra lagasjónarmiða um hvort réttindin séu kröfuréttareðlis. Tekið skal fram að áhorfsmál er hvort krafa um afhendingu á einstaklega ákveðnum söluhlut samkvæmt kaupsamningi sé fremur kröfuréttar- eða eignarréttarlegs eðlis. Fræðikenningar um þetta hafa verið nokkuð á reiki. Samkvæmt eldri kenningum var einkum litið til þess hvort réttur til afhendingar hefði náð réttarvernd gagnvart þriðja manni. Það viðhorf hefur verið gagnrýnt, án þess að einhugur sé um við hvað annað skuli miðað.
    Því hefur verið haldið fram að jafnvel þótt líta megi á rétt til afhendingar hlutar sem eignarrétt sé eðlilegt að beita fyrningarreglum um slíkan rétt með sama hætti og um tegundarákveðna greiðslu (Ólafur Lárusson, Fyrirlestrar um fyrningu, bls. 7). Á móti má benda á að aðrar lagareglur, einkum tómlætissjónarmið og frestir t.d. samkvæmt lögum um lausafjárkaup, draga úr nauðsyn þess að fyrningarreglur gildi um kröfu til afhendingar á einstökum hlut. Miða reglur frumvarpsins við að úrlausn um hvort tiltekin réttindi falli undir ákvæði þess, ráðist af því hvort réttindin teljist kröfuréttarlegs eðlis, enda er það í samræmi við dómaframkvæmd (sjá t.d. Hrd. 1957:94). Endanleg niðurstaða um þetta er þó að sjálfsögðu háð mati dómstóla í hverju tilviki fyrir sig.
    Á hinn bóginn gildir einu hvernig krafan hefur stofnast. Eins og ákvæði frumvarpsins bera með sér er þeim ætlað að gilda jafnt um kröfur sem byggjast á samningi, skaðabótakröfur utan samninga og kröfur sem reistar eru á öðrum lagagrundvelli. Ekki skiptir heldur máli hvort krafan á rót sína að rekja til opinbers réttar eða einkaréttar.
    Ekki eru öll kröfuréttindi háð fyrningu. Þau kröfuréttindi sem frumvarpið tekur til eru kröfur um peninga og aðrar greiðslur, svo sem beinlínis er tekið fram í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Gildissvið þess takmarkast því við þau kröfuréttindi sem fela í sér að einhver greiðsla sé innt af hendi, hvort sem um er að ræða peninga, vöru, vinnuframlag eða annað. Umdeilt hefur verið hvort og þá hvernig kröfur þess efnis að tiltekinn aðili þoli eitthvað eða láti eitthvað ógert séu háð fyrningu, svonefndar neikvæðar kröfur. Ekki er gert ráð fyrir að reglur frumvarpsins nái til neikvæðra krafna af þessum toga. Ástæða þessa er meðal annars sú að ekki er um að ræða neinn gjalddaga á slíkum kröfum um athafnaleysi, og því örðugt að slá nokkru föstu um upphaf fyrningarfrests.
    Með sama hætti og í gildandi fyrningarlögum er kveðið á um áhrif fyrningar á tiltekin réttindi, sem almennt eru talin eignarréttindi í íslenskri lögfræði, til dæmis veðréttindi. Af þessu verður þó ekki dregin sú ályktun, fremur en af gildandi lögum, að ætlast sé til þess að litið verði á slík réttindi sem kröfuréttindi, heldur er fremur um að ræða rýmkun á gildissviði laganna út fyrir svið eiginlegra kröfuréttinda.

VII.

    Ein af ástæðum þess að nauðsynlegt er talið að endurskoða gildandi fyrningarlög er að orðalag þeirra er sums staðar torskilið og flókið. Með hliðsjón af því hefur verið leitast við að einfalda uppbyggingu frumvarpsins og gera það eins gagnsætt og kostur er. Í 1. gr. er að finna ákvæði um almenn atriði en í 2. gr. er ákvæði um upphaf fyrningarfrests. Í 3. gr. er mælt fyrir um almennan fyrningarfrest og í 4.–9. gr. eru reglur um sérstakan fyrningarfrest ákveðinna krafna, svo sem vegna bankainnborgana, fasteignakaupa, skuldabréfa, peningalána, lífeyris, ábyrgðarskuldbindinga, endurkrafna og krafna um skaðabætur. Ákvæði um viðbótarfresti vegna vanþekkingar o.fl. eru í 10.–13. gr. Um slit fyrningar er fjallað um í 14.–19. gr. og áhrif þess að fyrningu kröfu sé slitið í 20.–23. gr. Þá er fjallað um réttaráhrif fyrningar í 24.–27. gr. Loks er í 28. gr. mælt fyrir um gildistöku laganna og lagaskil yngri og eldri laga.

VIII.

    Að mestu má segja að frumvarpið sé lögfesting á því sem talið hefur verið gildandi réttur. Helstu nýmæli frumvarpsins eru þau að lagt er til að almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda verði fjögur ár. Meginregla gildandi fyrningarlaga er aftur á móti sú að kröfur fyrnist á tíu árum, sbr. 2. tölul. 4. gr. laganna. Reyndin er hins vegar að flestar kröfur fyrnast á fjórum árum skv. 3. gr. laganna. Er því í raun um að ræða lögfestingu á gildandi meginreglu í framkvæmd. Þá er lagt til í frumvarpinu að ábyrgðarskuldbindingar fyrnist eftir sömu reglum og krafa á hendur aðalskuldara og að reglurnar verði einfaldaðar nokkuð frá því sem nú er. Nýtt ákvæði er í frumvarpinu um fyrningu flestra skaðabótakrafna og þar er meðal annars tekið mið af kröfum vegna tjóns, sem gerist á löngum tíma, eins og til dæmis mengunartjóns. Reglur um viðbótarfresti eru einnig gerðar skýrari auk þess sem það nýmæli er í frumvarpinu að ekki þurfi að vera um sviksamlega háttsemi að ræða hjá skuldara til þess að kröfuhafi geti fengið viðbótarfrest til að sækja kröfu sína. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir fleiri úrræðum til að slíta fyrningu en samkvæmt gildandi lögum. Þannig er lagt til að unnt verði að slíta fyrningu með því að leggja mál fyrir stjórnvald, sem hefur úrskurðarvald um málið, sem og kærunefndir. Eins og samkvæmt gildandi lögum er gert ráð fyrir að unnt sé að semja um lengri eða skemmri fyrningarfresti en lögin mæla fyrir um.
    Í frumvarpinu er lagt til að settar verði almennar reglur um upphaf fyrningarfrests, sbr. 2. gr., og því verði afnumdar sérreglur um það efni. Í gildandi fyrningarlögum er slíkar sérreglur að finna í 1. mgr. 5. gr. um gjalddaga verslunarskulda og dómkrafna og í 1. tölul. 3. gr. um föst reikningsviðskipti og um kaupgjald hjús sem er samfellt í sömu vist. Að því er varðar verslunarskuldir og reikningsviðskipti er eðlilegra að gjalddagi, og þar með upphaf fyrningarfrests, ráðist af almennum kröfuréttarreglum. Rökin fyrir sérreglu um dómkröfur á rætur að rekja til reglna eldri laga um meðferð einkamála í héraði, en samkvæmt þeim byrjuðu frestir ekki að líða fyrr en við birtingu dóms, sbr. hins vegar nú 4. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Varðandi kröfur um kaupgjald hjúa skal bent á að réttarreglur um hjú hafa varla nokkra raunhæfa þýðingu nú á tímum. Því verður ekki séð að ástæða sé til að halda í aðra tilhögun um fyrningu á launakröfum hjúa en gildir í vinnuréttarsamböndum almennt. Sömu rök búa að baki tillögum um afnám reglu 1. tölul. 8. gr. fyrningarlaga um kröfur hjóna hvort á annað en samkvæmt greindu ákvæði fyrnast kröfur milli hjóna ekki fyrr en fjögur ár eru liðin frá því að hjónabandi var slitið. Fyrningarfrestur er því samkvæmt ákvæðinu lengdur og getur ákvæðið átt við um allar kröfur hjóna hvort á annað, án tillits til þess hvort þær hafa stofnast fyrir eða eftir hjúskap. Í athugasemdum með frumvarpi til fyrningarlaga voru engin rök færð fyrir þessari reglu. Í öllu falli verður ekki séð að nú á tímum sé ástæða til að víkja frá almennum reglum um fyrningu þessara krafna.
    Í 5. mgr. 1. gr. gildandi fyrningarlaga segir að kröfur til endurgjalds af þegnum sveitarstyrk fyrnist ekki. Í frumvarpinu er lagt til að þessi regla verði afnumin. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga við einstaklinga hefur breyst í öllu tilliti á þeirri rúmu öld sem liðin er frá setningu fyrningarlaga árið 1905. Samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/ 1991, getur fjárhagsaðstoð verið fólgin í lánveitingum og styrkjum, sbr. 22. gr. laganna. Ekki er gert ráð fyrir endurgreiðslu þegar um styrkveitingu er að ræða, nema ef rangar upplýsingar hafa verið veittar, en fjárhagsaðstoð er veitt sem lán ef umsækjandi óskar þess eða könnun á aðstæðum viðkomandi leiðir til þess að eðlilegra er að gera kröfu um endurgreiðslu með tilliti til eigna og framtíðartekna. Að því leyti sem slík aðstoð er á annað borð endurkræf verður ekki séð að rök standi til að undanþiggja slíkar kröfur fyrningu frekar en önnur kröfuréttindi hins opinbera. Þess má geta að gildissvið ákvæðisins hefur verið túlkað þröngt í réttarframkvæmd, sbr. Hrd. 1999:3079.
    Með frumvarpinu er lagt til að afnumin verði 18. gr. fyrningarlaga þar sem segir að krafa samkvæmt peningaseðli eða bankaseðli fyrnist ekki. Peningaseðlar voru innleysanlegir í gulli fram til ársins 1916 og ákvæðið var því barn síns tíma. Í dag er litið svo á að peningaseðlar hafi sjálfstætt gildi og reynir því ekki á innlausn þeirra. Í meðförum Alþingis var orðinu „bankaseðill“ bætt við ákvæðið og var það rökstutt þannig að réttara væri að taka það fram að seðlar Landsbanka Íslands væru líka gildir sem peningaseðlar, en þeir voru ekki innleysanlegir. Þar sem ekki er um að ræða innlausnarskyldu Seðlabanka Íslands á útgefnum peningaseðlum eru þeir ekki kröfuréttarskjöl í hefðbundnum skilningi. Þeir mundu því ekki undirorpnir fyrningarreglum jafnvel þótt það væri ekki sérstaklega tekið fram í lögum. Um einkarétt Seðlabanka Íslands til útgáfu seðla og mynta er kveðið á um í II. kafla laga 36/2001. Ákvæði 18. gr. fyrningarlaga kemur ekki í veg fyrir að unnt sé að ógilda peningaseðla þannig að engin krafa verði á þeim byggð. Skv. 10. gr. laga um gjaldmiðil Íslands, nr. 22/1968, er ráðherra heimilt að láta innkalla einstakar gerðir gjaldgengra seðla og sleginna peninga með þeim réttaráhrifum að þeir hætta að vera lögmætur gjaldmiðill í lögskiptum að liðnum innköllunarfresti, sem skal vera 12 mánuðir. Eru allir bankar og sparisjóðir skyldugir að taka við peningum þeim sem innkalla skal á innköllunarfrestinum og láta í staðinn peninga, sem ekki skal innkalla.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. mgr. er gildissvið frumvarpsins afmarkað en það á við um kröfuréttindi, hvort sem um er að ræða kröfu um greiðslu peninga eða aðra greiðslu. Um þetta vísast nánar til almennra athugasemda með frumvarpinu. Í ákvæðinu er gerður sá fyrirvari að sérlög geti haft að geyma reglur um fyrningu einstakra tegunda kröfuréttinda, og ganga þá slík ákvæði framar ákvæðum frumvarpsins. Áréttað skal einnig, svo sem rakið er í almennum athugasemdum, að í lögum eru ýmsar reglur um brottfall réttinda sakir athafnaleysis rétthafa, sem þó teljast ekki fyrningarreglur. Mundu ákvæði frumvarpsins gilda jafnhliða slíkum reglum, eftir því sem við getur átt.
    Samkvæmt 2. mgr. er óheimilt að semja svo að krafa sé ófyrnanleg. Slíkur samningur er ógildur og gæti því kröfuhafi ekki fengið dóm á hendur skuldara fyrir kröfu sem væri fyrnd eftir þeim reglum sem ættu við. Að baki þessu búa fyrst og fremst þau sjónarmið að tryggja hagsmuni skuldara með því að koma í veg fyrir samningsákvæði sem felur í sér að skuldari verði sviptur þeirri vernd sem lögboðin fyrning veitir. Þessi regla á bæði við um fyrir fram gerðan samning sem og samning gerðan eftir að krafa er stofnuð eða gjaldfallin. Aftur á móti er ekki lagt til að hömlur verði settar við því að samið verði um styttri eða lengri fyrningarfrest. Ef slíkur samningur færi í bága við tilgang fyrningarreglna gæti þó komið til álita að honum yrði vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, með síðari breytingum, í slíkum tilvikum, ef aðstæður eru slíkar.
    Fyrningarfrestir samkvæmt frumvarpinu eru taldir í árum eða mánuðum. Er miðað við heila daga þannig að dagurinn sem talið er frá er ekki talinn með. Samkvæmt þessu væri síðasti dagur 4 ára fyrningarfrests 1. janúar 2011 ef gjalddagi kröfunnar var 1. janúar 2007. Krafan væri því fallin niður fyrir fyrningu 2. janúar 2011. Ef ekki er um sama dag að ræða í lok mánaðar rennur frestur út síðasta daginn í mánuðinum. Því er krafa fyrnd 1. mars án tillits til þess hvort um er að ræða hlaupár ef gjalddagi var 29. febrúar. Aftur á móti skiptir engu þótt síðasti dagurinn sé sunnudagur eða helgidagur. Er þetta í samræmi við gildandi rétt.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu koma fram reglur um hvenær fyrningarfrestur byrjar að líða. Reglur þessar gilda óháð því hvort um er að ræða almennan fyrningarfrest skv. 3. gr. eða fresti samkvæmt sérreglum frumvarpsins eða öðrum lögum, enda feli þær ekki í sér önnur fyrirmæli um upphaf frests. Í sumum sérlögum er að finna aðrar reglur um upphaf fyrningarfrests, sbr. til að mynda 52. gr. laga um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004. Samkvæmt því ákvæði miðast fyrningarfrestur krafna, sem rísa af vátryggingarsamningi, við lok þess almanaksárs er kröfuhafinn fékk vitneskju um kröfu sína. Hins vegar er í frumvarpinu lagt til að afnumdar verði þær sérreglur um gjalddaga og upphaf fyrningarfrests varðandi einstakar tegundir krafna, sem fram koma í gildandi fyrningarlögum, eins og nánar er rakið í almennum athugasemdum. Verður ekki séð að slíkra sérákvæða sé þörf í viðskiptalífi nútímans.
    Reglur ákvæðisins um upphaf frestsins eru hlutlægar. Ef kröfuhafi hefur öðlast rétt til efnda byrjar fyrningarfrestur að líða og breytir þá engu hvort hann hafði á því tímamarki tök á að framfylgja kröfu sinni eða vissi um tilvist kröfunnar eða önnur atvik. Þekkingarskortur og aðrar hindranir geta hins vegar leitt til þess að regla 10. gr. frumvarpsins um viðbótarfresti eigi við. Loks getur huglæg afstaða kröfuhafa skipt máli varðandi beitingu einstaka sérreglna, sbr. til dæmis 9. gr. frumvarpsins um fyrningu skaðabótakrafna.
    Samkvæmt 1. mgr. er meginreglan sú að fyrningarfrestur reiknast frá þeim degi þegar kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda. Er það efnislega sama regla og nú er kveðið á um í 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. fyrningarlaga. Regla 1. mgr. gildir hvort sem krafan verður gjaldkræf vegna ákvæða í samningi, dómsorði, fyrir venju eða á annan hátt.
    Af ákvæðum 1. mgr. leiðir að upphaf fyrningarfrestsins miðast við gjalddaga ef hann er fastákveðinn. Almennar reglur kröfuréttarins segja til um hvaða dagur telst vera gjalddagi kröfu í hverju einstöku tilviki, en hann getur leitt af samningi, lögum eða venju. Hitt er einnig til að ekki sé um að ræða neinn eiginlegan gjalddaga eða að gjalddagi kröfu fari eftir undanfarandi uppsögn af hálfu kröfuhafa. Í slíkum tilvikum leiðir af orðalagi ákvæðisins að upphaf fyrningarfrests miðast við það tímamark, þegar kröfuhafi gat fyrst átt möguleika á að knýja fram efndir, þ.e. með uppsögn eða kröfu um greiðslu. Enda þótt segja megi að réttur til efnda stofnist á því tímamarki þegar slík krafa um efndir er í raun sett fram er til þess að líta að í tilvikum sem þessum hefur kröfuhafi það í hendi sér hvenær krafa verður gjaldkræf. Ef miðað væri við það tímamark þegar kröfuhafi tekur ákvörðun um að fá kröfuna efnda mundi það leiða til þeirrar ótæku niðurstöðu að hann réði því hvenær fyrningarfrestur tekur að líða. Ber því að túlka orðalag ákvæðisins svo að miða skal upphaf fyrningarfrests við það tímamark þegar kröfuhafi átti þess fyrst kost að setja fram kröfu um efndir. Sú túlkun er í samræmi við reglu 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. fyrningarlaga um kröfur sem háðar eru undanfarandi uppsögn, og samrýmist auk þess þeirri meginreglu frumvarpsins að upphaf fyrningarfrests sé óháð athöfnum eða athafnaleysi kröfuhafa.
    Vera kann að gjalddagi kröfu sé tiltekinn, en kröfuhafi hafi jafnframt áskilið sér rétt til uppsagnar áður en gjalddaginn er kominn, án þess að vanefnd af hálfu skuldara eða önnur samningsbundin atvik komi til. Er þetta einkum raunhæft varðandi langtímaskuldbindingar. Miðast þá upphaf fyrningarfrestsins við hvenær kröfuhafi gat fyrst sagt upp kröfunni, óháð því hvenær gjalddaginn er. Í slíkum tilvikum er mögulegt að fyrningarfrestur byrji að líða þegar við stofnun kröfu, og krafan kann því að fyrnast áður en gjalddagi hennar er kominn. Við fyrstu sýn kann regla þessi að virðast ströng í garð kröfuhafa. Hún er hins vegar í samræmi við þær meginreglur sem ráða byrjun fyrningarfrests. Þá er til þess að líta að kröfuhafi hefur í hendi sér að meta hverju sinni hvort hann telur nauðsyn á víðtækum uppsagnarrétti með hliðsjón af samningstíma og öðrum aðstæðum. Hann getur tilgreint skilyrði þess að uppsagnarréttur hans verði virkur og hefst þá fyrningarfrestur ekki fyrr en þau skilyrði koma fram. Þá skal bent á að almennt er ekki ýkja raunhæft að kröfur vegna peningalána með reglulegum gjalddögum fyrnist því fyrningarfrestur þeirra er tíu ár og fyrningu er slitið með hverri afborgun vaxta, sbr. 14. og 20. gr. frumvarpsins. Loks skal bent á að regla þessi tekur ekki til réttar kröfuhafa til gjaldfellingar fyrir gjalddaga vegna vanefnda skuldara, en um þau tilvik er sérregla í 3. mgr., svo sem nánar verður vikið að síðar.
    Í 2. mgr. er orðuð almenn regla varðandi upphaf fyrningarfrests krafna, sem rísa vegna vanefnda. Regla þessi gildir um kröfur vegna hvers konar vanefnda, hvort sem um er að ræða afhendingardrátt, galla, vanheimild eða önnur tilvik. Er upphaf fyrningarfrests miðað við þann dag sem vanefnd hefst. Í samningssamböndum liggur vanefnd oftast fyrir á því tímamarki þegar greiðsla (t.d. afhending vöru) á sér stað eða á að eiga sér stað. Í einstaka tilvikum kunna þó kröfur vegna vanefnda að verða til seinna, t.d. eftirfarandi vanheimild seljanda. Í slíkum tilvikum verður krafa gjaldkræf þegar vanefnd kemur til. Athygli skal vakin á því að sérreglur gilda um skaðabótakröfur utan samninga, sbr. 9. gr. frumvarpsins. Hér eins og í öðrum ákvæðum greinarinnar er upphaf fyrningarfrests miðað við hlutlæg atvik. Skiptir því ekki máli um upphaf fyrningarfrests hvort kröfuhafi hafi fengið vitneskju um að vanefnd væri fyrir hendi. Er þetta í samræmi við íslenska dómaframkvæmd, sem hefur meðal annars byggt á því að fyrningarfrestur krafna vegna leyndra galla byrji almennt að líða frá afhendingu söluhlutar.
    Í 3. mgr. kemur fram sérregla, sem á við um þau tilvik þegar samningur er riftanlegur eða unnt er að líta á kröfu sem gjaldfallna vegna tiltekinna atvika, enda þótt gjalddagi hennar sé enn ekki kominn. Gagnstætt ákvæðum 1. og 2. mgr. 2. gr. byrjar fyrningarfrestur ekki að líða í slíkum tilvikum fyrr en kröfuhafi tilkynnir skuldara um að hann hyggist nýta sér þennan rétt eða í síðasta lagi miðað við umsaminn gjalddaga. Rök þessarar sérreglu eru einkum þau að samningsákvæði eða almennar réttarreglur kunna að fela í sér víðtæka heimild fyrir kröfuhafa til gjaldfellingar vegna vanefnda skuldara. Þykir því ekki rétt að kröfuhafi sé knúinn til að beita þessum úrræðum af fullum þunga til að firra sig hættu á fyrningu. Við þetta hefur almennt verið miðað í réttarframkvæmd. (Sjá nánar: Ólafur Lárusson, Fyrirlestrar um fyrningu, bls. 10, og Hrd. 1998:642. Niðurstaðan var hins vegar gagnstæð í Hrd. 1998:3253.) Hér er lagt til að tekin verði af öll tvímæli í þessum efnum þannig að kröfuhafi þurfi að sýna í verki að hann vilji beita þessum rétti sínum til að fyrningarfrestur hefjist. Ákvæðið tekur bæði til riftunarréttar vegna fyrirsjáanlegra vanefnda skuldara og gjaldfellingar vegna atvika á borð við ófyrirsjáanleg ytri atvik (force majeure), andlát skuldara eða rýrnun veðs eða annarrar tryggingar. Ákvæðið á við jafnt þegar riftun eða gjaldfelling byggist beinlínis á samningsákvæði, og eins ef slíkan rétt má leiða af almennum reglum samningaréttarins um vanefndir og brostnar forsendur. Hins vegar gildir reglan ekki ef kröfuhafi hefur áskilið sér almenna og óbundna heimild til uppsagnar eða gjaldfellingar fyrir gjalddaga, sbr. 1. mgr.
    Í 4. mgr. er að finna sérreglu sem á við þegar veitt er ábyrgð við kaup á vöru eða þjónustu. Ábyrgð getur miðast við tiltekið tímabil eða annað viðmið, til dæmis tiltekinn kílómetrafjölda bifreiðar og getur verið veitt af endanlegum seljanda, framleiðanda eða fyrri söluaðila. Fyrningarfrestur kröfu, sem byggist á slíkri ábyrgðaryfirlýsingu, byrjar að líða frá og með þeim degi þegar kaupandi hefur tilkynnt að hann ætli sér að byggja rétt á ábyrgðinni eða í síðasta lagi þann dag sem ábyrgðin rennur út. Ákvæðið á aðeins við þegar með ábyrgðaryfirlýsingu er veittur meiri réttur en kaupandi ætti að öðrum kosti. Ef yfirlýsingin felur ekki í sér annað en gilda mundi samkvæmt almennum réttarreglum er ekki um það að ræða að krafa „byggist á ábyrgðinni“ í skilningi ákvæðisins heldur væri um að ræða almenna kröfu vegna vanefnda, sem ætti undir ákvæði 2. mgr.

Um 3. gr.

    Hér er lögð til sú meginregla að kröfuréttindi fyrnist á fjórum árum ef annað er ekki ákveðið með lögum. Skv. 2. tölul. 4. gr. fyrningarlaga gildir nú sú regla að kröfur fyrnast á tíu árum nema annað leiði af lögum. Þessi regla hefur þó í framkvæmd haft takmarkaða þýðingu þar sem 3. gr. laganna mælir fyrir um fjögurra ára fyrningarfrest varðandi flestar algengustu kröfur í viðskiptum manna. Má því heita að sá fyrningarfrestur sé í reynd meginreglan í framkvæmd. Ekki verður séð að þörf sé á því í viðskiptalífi nútímans að mæla fyrir um lengri fyrningarfrest krafna en fjögur ár, vegna annarra krafna en þeirra sem getið er sérstaklega um í ákvæðum frumvarpsins. Fremur má færa rök fyrir því að þjóðfélagslegir hagsmunir séu við það bundnir að kröfuréttindi séu gerð upp með sæmilega greiðum hætti. Auk þess má gera ráð fyrir að meðal almennings sé fjögurra ára fyrningarfresturinn betur þekktur en hinn almenni tíu ára frestur fyrningarlaga.
    Samkvæmt norskum lögum er meginreglan sú að fyrningarfrestur er þrjú ár og var það svo einnig samkvæmt eldri lögum frá árinu 1896, sem eru hliðstæð við gildandi fyrningarlög hér á landi. Samkvæmt nýsamþykktum dönskum fyrningarlögum er almennur fyrningarfrestur einnig þrjú ár. Við setningu hérlendra fyrningarlaga á árinu 1905 var þriggja ára fyrningarfrestur talinn of stuttur fyrir íslenskar aðstæður, einkum vegna þess að á þeim tíma var innheimta skulda með málssókn seinleg. Enda þótt þessi rök eigi í sjálfu sér ekki við lengur þykir ekki ástæða til að hrófla við reglunni um fjögurra ára fyrningarfrest vegna algengustu krafna, en sá frestur hefur verið við lýði í rúma öld og er rótgróinn í viðskiptum.
    Því þykir rétt að mæla fyrir um fjögurra ára fyrningarfrest sem meginreglu en mæla síðan fyrir um annan og lengri frest í sérreglum um tiltekin kröfuréttindi.

Um 4. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um 20 ára fyrningarfrest krafna vegna innlána á hendur fjármálafyrirtækjum og öðrum þeim sem heimild hafa til að taka við innlánum frá almenningi. Ákvæðið svarar að mestu til 1. tölul. 2. gr. gildandi fyrningarlaga. Ákvæðið á við um fjármálafyrirtæki, opinbera sjóði og aðra þá sem hafa að lögum heimild til að taka við innlánum. Með fjármálafyrirtækjum er átt við þá sem hafa starfsleyfi samkvæmt ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Með opinberum sjóðum er átt við hvern þann opinbera aðila sem tekur við fjármunum til varðveislu, hvort sem viðkomandi sjóður er á vegum ríkis eða sveitarfélaga. Þá tekur ákvæðið til vaxta af innlánum og öðrum kröfum sem falla þar undir.
    Jafnframt innlánum í hefðbundnum skilningi tekur ákvæðið til þess þegar verðmæti eru lögð inn. Sem dæmi um slíkt má nefna að fjármálafyrirtæki taki verðbréf til varðveislu með þeim skilmála að skila síðar eiganda sambærilegum verðbréfum (depositum irregulare). Í þeim tilvikum mundi 20 ára fyrningarfrestur gilda um kröfu eigandans um að fá til baka sambærileg verðbréf og um kröfur tengdar þessu, svo sem ef fjármálafyrirtækið hefur selt verðbréf eða innheimt arð eða vexti. Hugtakið „verðmæti“ tekur hins vegar aðeins til kröfuréttinda, eins og leiðir af gildissviði frumvarpsins. Réttur manns til að fá afhentan einstakan hlut sem hann hefur falið til dæmis banka til varðveislu byggist á eignarrétti hans og er því ekki undirorpinn fyrningu. Hafi fjármálafyrirtækið í dæminu hér á undan skuldbundið sig til að skila nákvæmlega sama verðbréfi til baka, fyrnist krafa um þá afhendingu ekki.
    Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. byrjar fyrningarfrestur að líða þegar fjármunir eru lagðir inn á reikning eða er komið í varðveislu. Í 2. málsl. 1. mgr. kemur hins vegar fram að fyrningu sé slitið við hreyfingar á reikningnum, þ.e. við inn- eða útborgun. Byrjar þá nýr 20 ára frestur að líða að því er varðar alla innstæðuna. Fyrningu er hins vegar ekki slitið við það eitt að áfallnir vextir séu lagðir við innstæðuna. Skv. 1. mgr. 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, skulu vextir höfuðstólsfærðir á tólf mánaða fresti, óháð því hversu lengi innstæða hefur staðið óhreyfð. Ef slík færsla sliti fyrningu yrðu því fyrningarákvæði frumvarpsins þýðingarlaus.
    Í 2. mgr. kemur fram að krafa fyrnist ekki nema að því tilskildu að viðtakandi innláns eða fjármuna hafi áður gert eðlilegar ráðstafanir til að ná til reikningseiganda í því skyni að vekja athygli hans á yfirvofandi fyrningu. Er þetta svipuð regla og fram kemur í 5. gr. laga um geymslufé, nr. 9/1978. Það ræðst af aðstæðum hverju sinni, hvaða kröfur ber að gera til viðtakanda fjármuna í þessu efni. Að því er fjármálafyrirtæki varðar má þó benda á að þeim er jafnan fær sú leið að stefna til sín handhafa innlánsskilríkis, ef grunur leikur á að það hafi glatast, sbr. 114. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sbr. 11. gr. laga nr. 130/2004. Ef rétthafi gefur sig þá ekki fram falla niður öll réttindi samkvæmt skilríkinu óháð því hvort fyrningarfrestur er liðinn.

Um 5. gr.

    Í greininni eru taldar upp þær kröfur sem fyrnast á tíu árum. Þar sem meginreglan samkvæmt frumvarpinu er fjögurra ára fyrningarfrestur er í 5. og 6. gr. frumvarpsins að finna tæmandi talningu á þeim kröfum sem tíu ára frestur gildir um gagnstætt því sem gildir samkvæmt gildandi fyrningarlögum.
    Í 1. mgr. kemur fram að skuldabréf fyrnast á tíu árum og er það sama regla og í 1. tölul. 4. gr. gildandi fyrningarlaga. Hugtakið skuldabréf er hér notað í venjubundinni kröfuréttarlegri merkingu, þ.e. að um sé að ræða skriflega yfirlýsingu, þar sem útgefandinn viðurkennir einhliða skyldu sína til að greiða peningagreiðslu. Ákvæði 1. mgr. á einnig við um kröfu, sem hefur verið skráð rafrænni skráningu í verðbréfamiðstöð í samræmi við ákvæði laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997. Vextir, verðbætur, arður af félagi og greiðslur skv. 6. gr. frumvarpsins fyrnast ekki samkvæmt þessu ákvæði heldur eftir almennum fjögurra ára fyrningarfresti sem kveðið er á um í 3. gr. frumvarpsins.
    Í 1. málsl. 2. mgr. segir að kröfur vegna peningalána fyrnist á tíu árum. Er þetta sama regla og leiðir af almennum fyrningarfresti í 2. tölul. 4. gr. gildandi fyrningarlaga. Fyrir þessari reglu má færa þau rök að ýmis peningalán eru veitt án þess að tiltekinn sé ákveðinn gjalddagi, til dæmis lán milli venslamanna. Er eðlilegt að fyrningarfrestur vegna slíkra lána sé ríflegur, meðal annars með hliðsjón af meginreglu 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins, sem getur falið í sér að fyrningarfrestur byrji að líða strax þegar lánið er veitt, eins og rakið er í skýringum við það ákvæði. Reglan tekur bæði til peningalána, sem veitt eru í atvinnuskyni, þar með talið yfirdráttarlána, og lána milli einstaklinga, hvort sem um formlegan lánagerning er að ræða eða ekki. Ákvæðinu er hins vegar ekki ætlað að taka til annars konar fjármögnunar, sem fyrnist á fjórum árum eftir almennu reglunni í 3. gr. frumvarpsins.
    Sérstaklega er tekið fram í 2. málsl. 2. mgr. að tíu ára fresturinn eigi ekki við um lán sem veitt er vegna afborgunarkaupa. Rökin fyrir þessu eru þau að þessi lán eru í raun ein tilhögun af fleirum við greiðslu kaupverðs, fremur en eiginlegt peningalán. Er tæpast eðlilegt að mismunandi fyrningarfrestir gildi um kröfur vegna kaupsamninga af þeirri ástæðu einni að gengið sé frá fjármögnun með mismunandi hætti. Þá eru lán af þessu tagi oft tryggð með söluveði í hinu selda og gildir þá fjögurra ára fyrningarfrestur skv. 41. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997. Loks skal á það bent að yfirleitt eru viðskipti vegna kaupa með greiðslufresti gerð upp á skömmum tíma fremur en að um langtímalán sé að ræða og því ekki þörf á jafnlöngum fyrningarfresti og ella. Að afborgunarkaupum frátöldum verður að líta á aðstæður hverju sinni þegar metið er hvort um er að ræða peningalán eða annars konar gerning. Tekið skal fram að ef gefið er út skuldabréf fyrir kröfu vegna afborgunarkaupa eða annarrar fjármögnunar, sem ekki telst peningalán í skilningi 2. mgr., mundi tíu ára fyrningarfrestur samt sem áður eiga við vegna ákvæða 1. mgr. Með sama hætti og skv. 1. mgr. fyrnast vextir af peningaláni eftir almennu reglunni í 3. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Í þessari grein er mælt fyrir um fyrningu krafna sem fela í sér greiðslur með reglulegu millibili án þess að um afborganir af höfuðstól skuldar sé að ræða. Hér er um að ræða fyrningu á sjálfum réttinum til að krefjast áframhaldandi greiðslna en ekki réttinum til að heimta hverja einstaka greiðslu. Kröfur um einstakar greiðslur fyrnast á fjórum árum frá gjalddaga hverrar greiðslu fyrir sig, svo sem beinlínis er kveðið á um í 3. málsl. greinarinnar. Er það sama regla og fram kemur í 2. tölul. 3. gr. gildandi fyrningarlaga. Jafnframt leiðir brottfall kröfu um greiðslu fjárframlagsins skv. 1. málsl. til þess að allar kröfur til einstakra, gjaldfallinna greiðslna fyrnast um leið, sbr. orðalagið „fyrnast enn fremur“.
    Í gildandi fyrningarlögum eru ákvæði um slíkar kröfur í 2. tölul. 2. gr., sbr. 4. mgr. 5. gr. Þar er mælt fyrir um 20 ára fyrningarfrest talið frá þeim degi er hin fyrsta greiðsla féll í gjalddaga. Gildandi lög segja ekki beinlínis til um hvort fyrningarfrestur rofnar við að einstakar greiðslur eru inntar af hendi og hefur sambærilegt ákvæði í norskum lögum verið umdeilt. Lagt er til að fyrningarfrestur þessara krafna verði styttur í tíu ár miðað við hvenær fyrsta greiðsla varð gjaldkræf, en jafnframt að því verði slegið föstu að greiðsla slíti fyrningu.
    Ákvæðið tekur til krafna sem eru „umsamdar eða ákveðnar“, hvort sem um er að ræða einkaréttarlegan samning, dóm eða stjórnvaldsúrskurð, til dæmis varðandi rétt til lífeyris eða meðlags.
    Að því er gjaldfallnar greiðslur vegna barnsmeðlags snertir skal bent á að almennt fara slíkar greiðslur fram fyrir milligöngu almannatryggingakerfisins og því er lítil hætta á að einstakar greiðslur fyrnist þrátt fyrir fjögurra ára fyrningarfrest. Hins vegar fyrnast kröfur Innheimtustofnunar sveitarfélaga á hendur barnsfeðrum um endurgreiðslu barnsmeðlaga og sérstakra framlaga samkvæmt ákvæðum barnalaga á tíu árum, sbr. 10. mgr. 5. gr. laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971, eins og henni var breytt með lögum nr. 62/2000.

Um 7. gr.

    Frumvarpið hefur að geyma sérreglur um fyrningu ábyrgðarskuldbindinga en lagt er til að þeim reglum verði hagað nokkuð með öðru móti en samkvæmt gildandi fyrningarlögum. Lagt er til að undir ákvæðið falli allar tegundir ábyrgða, þar með talið sjálfskuldarábyrgð og einföld ábyrgð. Einnig er gert ráð fyrir því að undir ákvæðið falli tilvik þar sem krafa hefur verið framseld með skaðlausu framsali, þ.e. þegar krafa er framseld með ábyrgð framseljanda á greiðslu kröfunnar. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að ábyrgðarskuldbindingar geti fyrnst með tvennum hætti. Annars vegar er um að ræða sjálfstæða fyrningu ábyrgðarkröfu og er um hana rætt í þessari grein. Hins vegar getur fyrning ábyrgðar átt sér stað samhliða fyrningu aðalkröfu skv. 2. mgr. 25. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 4. tölul. 3. gr. gildandi fyrningarlaga er fyrningarfrestur ábyrgðarskuldbindinga fjögur ár óháð því hver fyrningarfrestur aðalkröfunnar er. Skv. 2. mgr. 5. gr. sömu laga gilda sérreglur um ábyrgð á kröfum, sem fyrnast á tíu eða tuttugu árum. Ef gjalddagi slíkra krafna fer eftir uppsögn af hálfu kröfuhafa byrjar fyrningarfrestur ábyrgðar á þeim aðeins að líða þegar uppsögn hefur í raun og veru farið fram. Jafnframt er kveðið á um að ábyrgðarkrafan fyrnist eftir sömu reglum og aðalkrafan, þ.e. á tíu eða tuttugu árum frá þeim degi er hún hefði fyrst getað orðið gjaldkræf vegna uppsagnar á aðalkröfunni. Er því um að ræða tvöfaldan fyrningarfrest að gildandi rétti.
    Eins og orðalag 7. gr. frumvarpsins ber með sér er hér í fyrsta lagi lagt til að fyrningarfrestur ábyrgðarskuldbindingar verði sá sami og aðalkröfunnar. Ef aðalkrafa fyrnist til dæmis á 10 árum gildir það sama um ábyrgðarskuldbindingu vegna hennar. Í öðru lagi felur ákvæðið í sér að upphaf fyrningarfrests er ákveðið eftir sömu reglum og gilda um aðalkröfuna. Jafnframt leiðir af ákvæðum 2. mgr. 25. gr. frumvarpsins að ábyrgðarskuldbinding fyrnist hvað sem öðru líður samtímis aðalkröfu ef kröfuhafi hefur ekki látið reyna á ábyrgðina áður. Er það í samræmi við óskráðar reglur um ábyrgðir en samkvæmt þeim fellur ábyrgð niður við fyrningu aðalkröfu.
    Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er lagt til að reglurnar um fyrningu ábyrgðarkrafna verði einfaldaðar og er ekki gert ráð fyrir að lengur verði um að ræða að fyrningarfrestur ábyrgðarkröfu og aðalkröfu geti verið misjafn. Kröfuhafi verður hins vegar eins og áður að gæta að því sjálfur að kröfur á hendur aðalskuldara og ábyrgðarmanni fyrnist ekki.
    Í 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins er lögð til sú meginregla að upphaf fyrningarfrests miðist við þann dag er kröfuhafi gat öðlast rétt til efnda. Lagt er til að það sama gildi um fyrningu ábyrgðarkröfu. Um ábyrgðarkröfur verður þó einnig að gæta að 2. málsl. 7. gr. en þar segir að ekki skipti máli við útreikning á fyrningarfrestinum þótt ekki sé unnt að krefjast fullnustu hjá ábyrgðarmanni fyrr en greiðslu hefur árangurslaust verið leitað hjá aðalskuldaranum eða ábyrgðin er að öðru leyti þess eðlis að hún sé til vara. Af þessu leiðir að fyrningarfrestur ábyrgðarkrafna hefst þegar aðalskuldin er vanefnd, þ.e. frá gjalddaga aðalkröfunnar.

Um 8. gr.

    Í ákvæðinu koma fram reglur um fyrningu svokallaðrar endurkröfu (regres). Er þá átt við þau tilvik þegar fleiri skuldarar en einn bera ábyrgð gagnvart kröfuhafa og einn þeirra greiðir kröfuna áður en fyrningarfrestur rennur út gagnvart honum. Eftir atvikum öðlast hann þá endurkröfu á hendur meðskuldurum sínum, hvort heldur sem er aðalskuldara sjálfum eða öðrum meðskuldurum.
    Lagt er til að áfram gildi fjögurra ára fyrningarfrestur um slíkar kröfur eins og nú er enda er jafnframt lagt til að kveðið verði á um að endurkrafa fyrnist frá þeim tíma þegar hún er innleyst í samræmi við dómaframkvæmd. Sá sem leysir til sín kröfu nýtur þó jafnframt þess fyrningarfrests sem á við um aðalkröfuna. Eðlilegt er að sá sem leysir til sín kröfu njóti sama réttar og upphaflegur kröfuhafi gagnvart aðalskuldara eða meðskuldara. Í norskum lögum er samsvarandi fyrningarfrestur miðaður við eitt ár í stað fjögurra ára. Ekki verður talið að rök standi til að hrófla við reglunni um fjögurra ára fyrningarfrest á endurkröfu, enda er reglan rótgróin í viðskiptalífinu. Þar að auki búa að baki hagsmunir þess skuldara sem þarf að leysa kröfu til sín, en stytting frestsins gæti valdið honum réttarspjöllum að ósekju.
    Ákvæðið nær til hvers konar endurkrafna og skiptir venjulega engu hvernig slík endurkrafa stofnast eða verður til. Þannig tekur ákvæðið til endurkrafna sem byggjast á löggerningi eða lögum sem og þeirra sem rísa vegna skaðabótaskyldu, hvort heldur sem um er að ræða endurkröfu að fullu eða að hluta. Í dæmaskyni um það fyrrnefnda má nefna að ákvæðið tekur til þess tilviks þegar ábyrgðarmaður þarf að greiða skuld, sem hann hefur ábyrgst fyrir aðalskuldara, og öðlast hann þá endurkröfu að fullu á hendur aðalskuldara. Einnig tekur ákvæðið til þess tilviks þegar einn af fleiri samskuldurum greiðir kröfu og eignast þá endurkröfu að hluta til á aðra meðskuldara, þ.e. fyrir þeirra hlut af skuldinni. Þá tekur ákvæðið til krafna sem rísa vegna skaðabótaskyldu, til dæmis þegar fleiri en einn tjónvaldur bera ábyrgð á tjóni. Enn fremur fyrnist samkvæmt þessari grein endurkrafa vinnuveitanda á hendur starfsmanni, sem valdið hefur tjóni, sbr. 17., 19. og 23. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Það sama gildir einnig um endurkröfur sem mælt er fyrir um í lögum nema þær séu sérstaklega undanskildar fyrningu samkvæmt fyrningarlögum. Um lögbundna endurkröfu má benda á 3. mgr. 158. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Í því ákvæði er kveðið á um óskipta ábyrgð á líkamstjóni, sem verður af völdum skipa. Þar segir einnig að hafi einhver hinna seku greitt meiri bætur en hann bar ábyrgð á þá eigi hann endurkröfu á hendur hinum á þeirri upphæð sem hann varð að greiða umfram sinn hlut. Í dæmaskyni um sérreglu um fyrningu endurkröfu má benda á 4. gr. laga um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, nr. 29/1995. Þar segir að krafa um endurgreiðslu samkvæmt lögunum falli úr gildi fyrir fyrningu þegar fjögur ár eru liðin frá því að greiðsla átti sér stað.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að allar endurkröfur fyrnist með sama hætti séu þær ekki undanskildar fyrningu samkvæmt fyrningarlögum berum orðum. Ákvæði um endurkröfur er nú í 2. málsl. 4. tölul. 3. gr. fyrningarlaga. Þar segir að slíkar kröfur fyrnist á fjórum árum en ekki kemur fram í ákvæðinu hvenær upphafstími fyrningar er. Í dómaframkvæmd hefur verið miðað við að upphafstími fyrningarfrestsins á slíkum kröfum sé þegar krafan er innleyst, sbr. til dæmis Hrd. 1978:1106 og Hrd. 2001:303. Samkvæmt umræddu ákvæði er tvöfaldur fyrningarfrestur á endurkröfunni því þar er tekið fram að endurkrafan sé dómtæk eins lengi og aðalkrafan mundi vera.

Um 9. gr.

    Hér er mælt fyrir um fyrningu á kröfum um skaðabætur, þar með talið bætur fyrir ófjárhagslegt tjón, og tekur ákvæðið til skaðabótakrafna utan samninga. Ákvæðið á hins vegar ekki við um kröfur sem rót eiga að rekja til samnings nema um sé að ræða kröfur vegna líkamstjóns, sbr. 3. mgr.
    Samkvæmt greininni er lagt til það nýmæli að skaðabótakröfur fyrnist á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgur er fyrir því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Krafan fyrnist þó alltaf í síðasta lagi tuttugu árum eftir að tjónsatburði lauk með tilteknum undantekningum þó varðandi líkamstjón. Undantekningarnar koma fram í tveimur stafliðum í 2. mgr. Í fyrsta lagi gildir tuttugu ára fyrningarreglan ekki í þeim tilvikum þegar tjónið sem um ræðir hefur orðið í atvinnustarfsemi eða starfsemi sem jafna má við hana. Í öðru lagi gildir tuttugu ára fyrningarreglan ekki á meðan tjónþoli er undir 18 ára aldri. Er því gert ráð fyrir að tuttugu ára fyrningartíminn byrji að líða þegar tjónþoli nær 18 ára aldri. Rök fyrir þessari reglu eru þau að eðlilegt sé að gefa tjónþola svigrúm til að sækja bætur eftir að hann nær sjálfræðisaldri og að óeðlilegt sé að skaðabótakröfur vegna slysa á börnum fyrnist of fljótt, en í mörgum tilvikum er erfitt að gera sér grein fyrir því hvert endanlegt tjón er fyrr en viðkomandi tjónþoli hefur náð fullorðinsaldri. Til að undantekningar þessar gildi þarf sá sem ábyrgur er fyrir tjóninu, eða einhver sem hann bar ábyrgð á, að hafa vitað eða mátt vita, áður en tjónsatburði lauk, að háttsemin gæti leitt til hættu á lífi eða alvarlegs heilsutjóns.
    Annað hvort skilyrðið sem fram kemur í a-lið 2. mgr. auk skilyrðisins í b-lið þurfa að vera fyrir hendi til þess að undantekningin geti átt við. Hún getur til dæmis átt við um skaðabótakröfur vegna líkamstjóns, þar sem tjón kemur fram á lengri tíma, svo sem heilsutjón vegna mengunarslysa, hættulegra efna o.s.frv. Í slíkum tilvikum kemur tjónið fram á lengri tíma, hugsanlega smátt og smátt, og ef tuttugu ára fresturinn mundi gilda um slíkar kröfur kynnu þær að vera fyrndar loks þegar tjónþoli fær vitneskju um tjónið. Fyrningarfresturinn fer því eftir fyrirmælum 1. mgr.
    Eins og áður segir felur 9. gr. frumvarpsins í sér það nýmæli að gert er ráð fyrir að flestar skaðabótakröfur fyrnist á fjórum árum, en ekki tíu eins og er samkvæmt gildandi fyrningarlögum. Upphafstími fyrningarfrests er mismunandi eftir því hvort um skaðabótakröfu innan eða utan samninga er að ræða. Krafa um skaðabætur innan samninga fyrnist eftir almennum reglum sem fram koma í 2. og 3. gr. frumvarpsins, þ.e. á fjórum árum frá gjalddaga. Upphaf fyrningarfrests skaðabótakrafna utan samninga sem og krafna um bætur fyrir líkamstjón bæði innan og utan samninga miðast við þann dag er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgur er fyrir því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Því er gert ráð fyrir að fyrningarfrestur hefjist á síðara tímamarki en samkvæmt gildandi fyrningarlögum, en þar er í 1. mgr. 5. gr. kveðið á um að fyrningarfrestur teljist frá þeim degi þegar krafa verður gjaldkræf. Almennt mundi það teljast frá þeim degi þegar tjónsatvik á sér stað, en það er ekki alltaf raunin. Það kemur fyrir að tjón verður í raun ekki fyrr en við síðari tímapunkt eða umfang þess verður ekki ljóst fyrr en síðar. Í þeim tilvikum hefur upphafstími fyrningar verið talinn frá því tímamarki þegar tjónið kemur fram. Sem dæmi um þetta má nefna dóm Hæstaréttar Hrd. 1975:1105. (Viðar Már Matthíasson, Skaðabótaréttur, bls. 712–713).
    Í reynd er þó ekki um jafnumfangsmikla breytingu að ræða og ætla mætti því að í sérlögum er að finna reglur um styttri fyrningartíma. Þannig er unnt að hafa til hliðsjónar 99. gr. umferðarlaga, nr. 55/1987, eftir því sem við á, en þar er kveðið á um að allar bótakröfur sem byggðar eru á XIII. kafla umferðarlaganna, bæði á hendur þeim sem ábyrgð ber og vátryggingafélagi, svo og endurkröfur vátryggingafélags, fyrnist á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Kröfur skv. XIII. kafla umferðarlaganna fyrnast þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði. Í dómum þar sem reynt hefur á túlkun þessa ákvæðis er upphaf fyrningarfrestsins miðað við það tímamark er örorkumat eða skýrsla læknis liggur fyrir og jafnframt er litið til þess hvenær stöðugleikatímapunkti er náð. Það er eðlilegt þar sem um líkamstjón er að ræða og viðkomandi kröfuhafi verður fyrir slysi tiltekinn dag en fær ekki vitneskju um kröfu sína fyrr en álit læknis er fengið. Verður tjónþoli þá að höfða mál innan fjögurra ára frá lokum þess almanaksárs er álit læknis er fengið. Það verður þó að staðreyna tjón um leið og skilyrði eru til þess og fyrningarfrestur kröfunnar byrjar að líða frá lokum þess almanaksárs, sem það var tækt. Er iðulega í því samhengi miðað við það hvenær stöðugleikatímapunkti var náð.
    Í norskum, sænskum, finnskum og þýskum fyrningarlögum er meginreglan sú að skaðabótakröfur fyrnast á þremur árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Samkvæmt lögum þessara ríkja fyrnast kröfur þó með ákveðnum undantekningum í síðasta lagi tuttugu árum frá tjónsdegi, líkt og gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu. Í nýsamþykktum dönskum fyrningarlögum, sem taka eiga gildi 1. janúar 2008, er mælt fyrir um að skaðabótakröfur fyrnist á þremur árum og miðast upphaf fyrningarfrests við þann tímapunkt þegar kröfuhafi fékk vitneskju eða hefði getað fengið vitneskju um kröfu sína. Skaðabótakröfur vegna líkamstjóns og mengunartjóns fyrnast þó alltaf í síðasta lagi 30 árum frá því að tjónsatburði lauk.
    Í 9. gr. frumvarpsins er lagt til að upphaf fyrningartíma skaðabótakrafna utan samninga og allra skaðabótakrafna vegna líkamstjóns, hvort sem þær eru innan eða utan samninga, skuli telja frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgur er fyrir því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Skilyrðið um vitneskju tjónþola byggist á tveimur þáttum, annars vegar vitneskju um tjónið og hins vegar vitneskju um þann sem ábyrgð ber á því. Fyrst þegar bæði þessi skilyrði eru uppfyllt byrjar fyrningarfrestur kröfunnar að líða. Þessi skilyrði eru matskennd og fela í sér breytingu frá lögum nr. 14/1905. Miðað við framkvæmd á sambærilegu ákvæði sem verið hefur í norskum lögum frá árinu 1979 má segja að almennt sé litið svo á að fyrningarfresturinn byrji að líða þegar tjónþoli fékk eða bar að afla sér nauðsynlegra upplýsinga um fyrrgreinda tvo þætti, þ.e. tjónið sjálft og þann sem ábyrgðina ber. Þá fyrst hefur verið talinn grundvöllur fyrir hann til að setja fram kröfu sína um bætur. Hann getur hins vegar ekki setið aðgerðalaus eða borið við vanþekkingu sinni á réttarstöðu sinni. Fyrningarfrestur samkvæmt þessu ákvæði fer ekki eftir persónubundinni vitneskju einstakra tjónþola um réttarstöðu sína, heldur eftir því hvenær tjónþoli bjó yfir þeirri vitneskju að honum væri fært að leita fullnustu kröfu sinnar. Einstaklingsbundin vitneskja um lagareglur ræður ekki fyrningarfresti hér frekar en öðrum lagaskilyrðum.

Um 10. gr.

    Ákvæðið mælir fyrir um viðbótarfrest fyrir kröfuhafa til að sækja kröfu sína ef hann skortir nauðsynlega vitneskju um kröfuna eða skuldarann. Hér er um nýmæli að ræða, en í 7. gr. gildandi fyrningarlaga er ákvæði sem mælir fyrir um það að ef skuldari dregur sviksamlega dul á eða vanrækir að skýra frá atvikum er krafan byggist á eða valda því að hún verður gjaldkræf og skuldaranum bar skylda til að segja frá þá fyrnist skuldin ekki fyrr en fjögur ár eru liðin frá þeim degi er kröfueigandinn fékk vitneskju um atvik þetta eða eitt ár er liðið frá dánardegi skuldara. Til þess að fresturinn geti lengst samkvæmt gildandi lögum þarf því að vera um sviksamlega háttsemi að ræða, mat á því hvenær háttsemi telst sviksamleg fer eftir eðli þess réttarsambands sem á í hlut. Ljóst er að erfitt er að sýna fram á að svik hafi átt sér stað þar sem skilyrðin eru ströng, þ.e. skuldari þarf að hafa vanrækt að skýra frá atvikum, sem krafan byggðist á, eða valda því að hún verður gjaldkræf, og honum var skylt að skýra frá. Þá þarf launungin einnig að vera sviksamleg. Vegna þessara skilyrða hefur sjaldan reynt á umrætt ákvæði í dómsmálum. Í Hrd. 2000:1183 var ekki fallist á að 7. gr. fyrningarlaga ætti við en þar var byggt á því að starfsmönnum ráðuneytis hefði verið skylt að greina frá því að gjaldtaka jöfnunargjalds væri ólögmæt. Þá var því hafnað í Hrd. 2000:4344 að ákvæðið ætti við um skaðabótakröfu vegna galla í fasteign sökum þess að ekki hefði verið sýnt fram á sviksamlega háttsemi. Því þykir þörf á því að setja í lög skýr ákvæði um viðbótarfrest fyrir kröfuhafa til að sækja kröfu sína í ákveðnum tilvikum.
    Í 1. mgr. er mælt fyrir um viðbótarfrest fyrir kröfuhafa í þeim tilvikum er hann skortir nauðsynlega vitneskju um kröfuna eða skuldarann. Þá fyrnist krafa hans aldrei fyrr en einu ári eftir þann dag er kröfuhafi fékk eða bar að afla sér slíkrar vitneskju. Fyrningarfrestur kröfunnar telst hér sem endranær frá gjalddaga en þetta ákvæði leiðir til þess að fresturinn getur lengst og búa hér að baki sjónarmið til verndar kröfuhafa. Skorti kröfuhafa vitneskju um kröfu sína eða skuldara á hann enga möguleika til að rjúfa fyrningu kröfu sinnar með þeim úrræðum, sem ákvæði 14.–19. gr. frumvarpsins mæla fyrir um. Í slíkum tilvikum er því réttlætanlegt að lengja frestinn. Samkvæmt ákvæðinu þarf ekki að sýna fram á sviksamlega háttsemi skuldara, sem erfitt getur reynst að færa sönnur fyrir, heldur er byggt á vitneskju og þekkingu kröfuhafans sjálfs. Ákvæðið tekur þó einnig til þess er skuldari með sviksamlegri háttsemi kemur í veg fyrir að kröfuhafi fái fullnægjandi vitneskju um kröfu sína. Það er vitneskja kröfuhafans sem er lykilatriði í þessu sambandi en viðbótarfrestur getur einungis komið til ef hann skortir „nauðsynlega vitneskju“ um kröfuna. Mat á því verður að ráðast af aðstæðum hverju sinni en skortur á vitneskju getur lotið annars vegar að kröfunni sjálfri, til dæmis ef kröfuhafi fær ranglega upplýsingar um að krafa hans sé fallin niður eða sé ekki til, eða hins vegar að skuldaranum sjálfum, til dæmis ef kröfuhafi hefur ekki vitneskju um hver sé skuldari. Hér verður þó að gera ákveðnar kröfur til sjálfstæðrar rannsóknar af hálfu kröfuhafa og vísar niðurlag 1. mgr. til þeirrar skyldu hans. Við mat á því hvort kröfuhafi hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni verður að líta til aðstæðna hverju sinni en þá getur til dæmis skipt máli hvort því fylgi mikil fyrirhöfn eða kostnaður að afla upplýsinga um kröfuna. Enn fremur getur háttsemi skuldara einnig skipt máli að því leyti að sé um sviksamlegt háttalag að ræða getur það haft áhrif á hversu strangt sé tekið á því hvort kröfuhafi hafi fullnægt rannsóknarskyldu sinni.
    Ákvæði 2. mgr. á við þegar ekki er mögulegt að rjúfa fyrningu vegna óyfirstíganlegra hindrana. Þá hefst fyrning í fyrsta lagi einu ári eftir að hindruninni lauk. Hér er verið að vísa til mjög sérstakra og óvenjulegra tilvika, sem upp geta komið, og ber að túlka ákvæðið í því ljósi. Atvik af þessu tagi eru svonefnd force majeure tilvik, þ.e. náttúruhamfarir og aðrir ófyrirsjáanlegir atburðir, sem koma í veg fyrir að unnt sé að rjúfa fyrningarfrest kröfu. Ákvæðið er þó ekki einskorðað við slík tilvik en hindrunin verður ætíð að vera almenn í þeim skilningi að ekki sé kleift fyrir neinn að slíta fyrningu með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir. Tilvik, sem varða einungis kröfuhafa sjálfan, geta því ekki fallið hér undir. Einnig verður að gera kröfu til nokkurs varanleika slíkra hindrana. Því kæmu skammvinnar hindranir tæplega til álita.
    Ekki er unnt að framlengja fyrningarfrest samkvæmt ákvæðinu í meira en tíu ár frá því krafa hefði annars fyrnst, sbr. 3. mgr. Skuldarinn hefur hagsmuni af því að krafa geti ekki varað endalaust og telja verður að eftir svo langan tíma sé eðlilegt að krafa falli niður. Ákvæðið á ekki við um skaðabótakröfur skv. 2. mgr. 9. gr., enda er þar kveðið á um langan fyrningarfrest.

Um 11. gr.

    Greinin svarar til ákvæða 16. gr. gildandi fyrningarlaga og hefur að geyma sérreglu um fyrningu skaðabótakröfu vegna refsiverðs verknaðar. Slíka kröfu er unnt að setja fram þótt hún teldist fyrnd eftir almennum reglum, ef skuldari er fundinn sekur um þann verknað sem liggur til grundvallar bótaskyldu. Af því leiðir að sérreglan á ekki við ef skuldari er sýknaður af ákæru í sakamáli eða máli vísað frá eða það fellt niður.
    Í 16. gr. gildandi laga er gert að skilyrði að sakamaður sé dæmdur fyrir „glæp“ en ekki er alveg ljóst hvað átt er við með því orðalagi. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna var ekki fjallað sérstaklega um þetta en fræðimenn hafa talið að það taki til ásetningsverka og þá aðeins til meiri háttar brota. Hins vegar eigi reglan ekki við um bætur fyrir minni háttar brot þótt þau sæti ákæru (Ólafur Lárusson, Fyrirlestrar um fyrningu, bls. 20). Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að ekki verði gerður greinarmunur á meiri háttar og minni háttar brotum og ekki er lagt til að um ásetningsbrot þurfi að vera að ræða til að ákvæðið eigi við. Af orðalagi ákvæðisins leiðir að hvers konar refsiverð háttsemi, sem skuldari er fundinn sekur um, getur fallið hér undir.
    Ef skilyrðum ákvæðisins er fullnægt er unnt að setja fram kröfu um skaðabætur með tvenns konar hætti. Annars vegar er unnt að hafa slíka kröfu uppi samhliða refsikröfu í opinberu máli í samræmi við XX. kafla laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. Hins vegar getur kröfuhafi sett slíka kröfu fram sjálfstætt í sérstöku máli, sem höfðað er innan eins árs frá því að dómur í refsimáli var kveðinn upp. Það er því ekki skilyrði fyrir beitingu sérreglunnar í ákvæðinu að bótakrafan sé tekin til meðferðar í sjálfu sakamálinu. Ákvæðið á við um bótakröfu vegna bæði fjárhagslegs og ófjárhagslegs tjóns.

Um 12. gr.

    Í greininni er að finna sérreglur um lengingu fyrningarfrestsins í kröfuréttarsamböndum af sérstöku tagi. Í fyrsta lagi tekur reglan til krafna milli ólögráða manns og fjárhaldsmanns eða yfirlögráðanda. Sambærilegt ákvæði er að finna í 2. tölul. 8. gr. fyrningarlaga og er lagt til að ákvæðið taki eins og samkvæmt gildandi lögum til allra kröfuréttinda ólögráða manna á hendur fjárhaldsmanni eða yfirlögráðanda, sem af réttarsambandi þeirra stafar. Í öðru lagi á ákvæðið við um kröfu sem lögpersónur á borð við hlutafélög eða önnur félagasamtök, sjóðir og stofnanir, kunna að eiga gegn stjórnarmanni eða framkvæmdastjóra. Tekur ákvæðið til allra krafna sem lögpersónan á vegna starfa viðkomandi. Svipað ákvæði er í 3. tölul. 8. gr. gildandi laga. Í þriðja lagi á ákvæðið einnig við um samband þrotamanns og skiptastjóra búsins og tekur til krafna sem þrotamaður kann að eiga á hendur skiptastjóra vegna bústjórnar hans. Slík krafa fyrnist ekki meðan á gjaldþrotaskiptum stendur, enda gæti skiptastjóri að öðrum kosti hugsanlega komið því til leiðar að krafa fyrntist með því einu að draga skiptin á langinn. Ákvæðið tekur einungis til þrotamanns og á ekki við um kröfuhafa búsins.
    Í þeim tilvikum sem hér um ræðir byrjar fyrningarfrestur kröfu ekki að líða fyrr en í fyrsta lagi einu ári eftir að starfanum lauk, svo sem þegar fjárhaldinu lýkur með því að ólögráða maður verður lögráða og stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri hættir hjá félagi. Ef sá sem er til þess bær getur sótt kröfu fyrir hönd kröfuhafa vegna vitneskju um þau atvik sem krafan byggist á hefst fyrningarfrestur frá því tímamarki þótt viðkomandi hafi ekki látið af starfanum. Til þess bær aðili gæti til dæmis verið stjórn hlutafélags.
    Í 2. mgr. er sérregla um fyrningu á framlagi samkvæmt félagssamningi í eignasafn félags. Ef slík krafa hvílir á félagsmanni þá fyrnist hún ekki fyrr en félagsaðild lýkur og félagið hefur fengið tilkynningu þar að lútandi. Hér undir gæti til dæmis fallið krafa um framlag samkvæmt hlutafjárloforði.

Um 13. gr.

    Þetta ákvæði á við þegar opinber innköllun hefur verið gefin út lögum samkvæmt með áskorun til kröfuhafa um að lýsa kröfum sínum. Fyrnist þá krafan ekki fyrr en kröfulýsingarfresturinn rennur út. Ef kröfu er lýst á réttum tíma þá fyrnist hún ekki fyrr en eitt ár er liðið frá því að kröfulýsingarfrestur leið. Við gjaldþrotaskipti eða opinber skipti dánarbús gilda ákvæði 18. gr. og 2. mgr. 22. gr. Ákvæðið hefur hins vegar þýðingu við einkaskipti dánarbús þegar erfingjar gefa út og fá birta innköllun til kröfuhafa með áskorun til lánardrottna að lýsa kröfum sínum innan ákveðins frests, sbr. 1. mgr. 87. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991. Þegar slík innköllun hefur verið gefin út er fullnægjandi að lýsa kröfunni áður en kröfulýsingarfrestur líður og skiptir þá ekki máli þótt upphaflegur fyrningarfrestur líði eftir að innköllun var gefin út. Af ákvæðinu leiðir einnig að krafa á hendur skuldara sem fengið hefur heimild til að leita nauðasamnings fyrnist ekki á tímabilinu frá því innköllun hefur verið gefin út þar til kröfulýsingarfrestur rennur út. Aftur á móti er fyrningu kröfu slitið gagnvart skuldara með kröfulýsingu, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Þetta ákvæði um viðbótarfrest fær ekki haggað þeirri reglu um fyrningarrof við nauðasamningsumleitan og því gildir ekki ársfrestur greinarinnar heldur tekur nýr fyrningarfrestur að líða sem er jafnlangur hinum fyrri.

Um 14. gr.

    Hér er mælt fyrir um að skuldari geti slitið fyrningu kröfu ef hann viðurkennir skuld sína við kröfuhafa annaðhvort beinlínis eða með atferli sínu, svo sem með loforði um greiðslu eða með því að greiða afborgun höfuðstóls, verðbætur eða vexti. Hefst þá nýr fyrningarfrestur frá þeim tíma. Ákvæðið er sambærilegt við 6. gr. gildandi fyrningarlaga og ber að túlka það á sama veg.
    Af ákvæðinu leiðir að það er aðeins viðurkenning skuldara sjálfs gagnvart kröfuhafa sem getur slitið fyrningu. Það sama gildir ef skuldari viðurkennir skuld sína við mann sem hefur heimild til að taka við slíkri viðurkenningu fyrir hönd kröfuhafa. Um viðurkenningu skuldara gilda sömu reglur og um önnur loforð. Kröfuhafi verður að hafa ástæðu til að skilja framkomu skuldara á þá leið að hann kannist bæði við skuldina og lofi að greiða hana. Viðurkenningin þarf hins vegar ekki að vera í sérstöku formi en í ákvæðinu er sérstaklega tekið fram að viðurkenning geti verið með beinum hætti, til dæmis með berum orðum, eða atferli skuldara feli í sér viðurkenningu, svo sem loforð gefið um greiðslu eða að greitt sé upp í kröfuna.

Um 15. gr.

    Kröfuhafi getur slitið fyrningu kröfu sinnar með málssókn fyrir dómi og í þessari grein eru nokkuð ítarlegar reglur um það. Í 1. mgr. kemur fram að málssókn kröfuhafa gegn skuldara slíti fyrningu og þegar krafist er skuldajafnaðar fyrir dómi. Sama gildir þegar kröfuhafi krefst viðurkenningar á kröfu sinni fyrir dómi eða leggur málið fyrir gerðardóm.
    Í 2. mgr. eru settar nánari reglur um hvenær fyrningu er slitið. Þegar um er að ræða mál, sem sótt er fyrir dómstólum, er fyrning rofin á þeirri stundu þegar málið telst höfðað, sbr. 93. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Á það einnig við þegar mál er höfðað til sjálfstæðs dóms með gagnsök. Jafnframt er gert ráð fyrir því að kröfuhafi geti slitið fyrningu með því að hafa uppi gagnkröfu í máli til skuldajafnaðar án þess að höfða sérstakt gagnsakarmál. Þá er miðað við að fyrningu sé slitið með framlagningu greinargerðar þar sem gagnkrafan er höfð uppi. Um heimild til þess að hafa uppi gagnkröfur án þess að stefna fer eftir 28. gr. laga nr. 90/1991.
    Í 3. mgr. eru fyrirmæli um slit fyrningar ef samið er um að ágreiningur um kröfu skuli lagður í gerð, sbr. lög um samningsbundna gerðardóma, nr. 53/1989. Þá slitnar fyrning þegar kröfuhafi gerir það sem nauðsynlegt er til að hrinda málinu af stað. Hvenær kröfuhafi telst hafa fullnægt því verður að meta eftir atvikum hverju sinni. Hafi aðilar til dæmis samið fyrir fram um gerðardóm og skipan hans til að útkljá ágreiningsefni sín á milli mundi fyrningu vera slitið þegar ágreiningsefnið er lagt fyrir gerðardóminn til úrlausnar. Hafi skipan ekki verið ákveðin teldist fyrningu slitið þegar kröfuhafi hefði efnt skyldu sína samkvæmt gerðarsamningi um útnefningu gerðarmanns. Ef höfð er uppi krafa til skuldajafnaðar í slíku máli er fyrningu þeirrar kröfu slitið þegar hún er sett fram.

Um 16. gr.

    Í þessu ákvæði er að finna nýmæli sem gefur frekari möguleika til að slíta fyrningu en eftir gildandi lögum. Samkvæmt greininni getur kröfuhafi slitið fyrningu kröfu með því að leggja mál til ákvörðunar fyrir stjórnvald sem hefur sérstakt ákvörðunarvald til þess að ljúka deilu um ágreininginn. Af 2. málsl. 1. mgr. leiðir að hér skiptir ekki máli þótt viðkomandi stjórnvald hafi ekki fullnaðarúrskurðarvald í málinu og unnt sé að kæra úrskurð til æðra stjórnvalds eða dómstóla. Sé mál undirbúið af einu stjórnvaldi er nægjanlegt að krafan sé lögð fyrir það.
    Eins og fyrr segir er hér um breytingu að ræða frá því sem er samkvæmt gildandi fyrningarlögum og réttarframkvæmd en ákvæði 11. gr. laganna hefur verið beitt þegar yfirvöld hafa endanlegt úrskurðarvald en ekki dómstólar, sbr. Hrd. 1957:482. Rök fyrir breytingunni eru þau að eðlilegt þykir að unnt sé að slíta fyrningu með því að leggja mál fyrir stjórnvald, jafnvel þó að það hafi ekki endanlegt úrskurðarvald og þannig koma í veg fyrir að krafa fyrnist á meðan mál er til meðferðar hjá stjórnvöldum.
    Það sama gildir einnig þegar mál er borið undir kæru- eða umkvörtunarnefnd, sem settar hafa verið á fót af skuldara eða starfsgreinasamtökum, sem hann er aðili að eða með þátttöku þeirra, en mjög algengt er að slíkar nefndir séu starfandi. Á ákvæðið bæði við um nefndir, sem hafa úrskurðarvald í ágreiningi aðila, sem og nefndir sem gefa álit um réttarstöðu viðkomandi en fela ekki í sér bindandi niðurstöðu. Sé ekki um slíka nefnd að ræða, sem skuldari eða starfsgreinasamtök hans eiga aðild að, er engu að síður unnt að slíta fyrningu sé mál lagt fyrir kæru- eða umkvörtunarnefnd með samþykki skuldarans.

Um 17. gr.

    Í 1. mgr. er mælt fyrir um rof fyrningar með fullnustugerðum en um það er vísað til 52. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, og 2. mgr. 12. gr. laga um nauðungarsölu, nr. 90/1991. Er miðað við að fyrningu sé slitið þegar beiðni um fullnustugerð berst héraðsdómara eða sýslumanni, enda sé fullnægt að öðru leyti skilyrðum greindra lagaákvæða.
    Í 2. mgr. er sérákvæði um slit fyrningar á meðlagskröfum, sem innheimta þarf í öðru ríki. Þá er fyrning rofin þegar sá sem á rétt til greiðslunnar setur fram beiðni um slíka innheimtu við hlutaðeigandi stjórnvald hér á landi eða í erlenda ríkinu í samræmi við samning milli Íslands og viðkomandi ríkis. Með þessu móti er auðveldara fyrir þann sem á rétt til meðlagsgreiðslu að slíta fyrningu. Í stað þess að þurfa að hefja lögsókn eða aðrar aðgerðir fyrir dómstólum viðkomandi ríkis er nægjanlegt fyrir viðkomandi að senda beiðni um fullnustu til yfirvalda, annaðhvort hér á landi eða í erlenda ríkinu. Ákvæðið á einungis við um þau tilvik þar sem í gildi er samningur milli Íslands og viðkomandi ríkis um innheimtu á meðlagsgreiðslum. Hér á landi hefur verið lögfestur samningur milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um innheimtu meðlaga, sbr. lög nr. 93/1962. Samningurinn tekur til innheimtu á grundvelli aðfararhæfra dóma, úrskurða stjórnvalda eða skriflegra skuldbindinga.

Um 18. gr.

    Í greininni eru ákvæði um rof fyrningar við gjaldþrotaskipti og opinber skipti dánarbús.
    Samkvæmt 1. mgr. slítur kröfuhafi fyrningu kröfu sinnar þegar hann krefst gjaldþrotaskipta eða opinberra skipta á dánarbúi skuldara. Er hér um að ræða breytingu frá gildandi fyrningarlögum en skv. 13. gr. þeirra er fyrningu einungis slitið við kröfulýsingu í bú skuldara. Hér nýtur því kröfuhafi þess að fyrningu á kröfu hans er slitið þegar hann setur fram skiptabeiðni og hún er móttekin af héraðsdómi.
    Af 2. mgr. leiðir að fyrningu er slitið með kröfu sem lýst er við gjaldþrotaskipti eða opinber skipti dánarbús. Með þessu móti getur kröfuhafi sem ekki er skiptabeiðandi rofið fyrningu kröfunnar. Þessi regla er í samræmi við 13. gr. gildandi fyrningarlaga. Auk þess er ákvæðið í samræmi við 6. mgr. 117. gr. laga um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991, og 4. mgr. 57. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991.
    Af 3. mgr. leiðir að fyrningu er ekki aðeins slitið gagnvart viðkomandi búi heldur einnig gagnvart þrotamanni persónulega sem og erfingjum skuldara, ef um opinber skipti er að ræða og erfingjar hafa tekið á sig ábyrgð á skuldum búsins. Um rof fyrningar gagnvart þrotamanni fer eftir 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991.

Um 19. gr.

    Samkvæmt þessari grein getur kröfuhafi, sem hefur byrjað lögsókn fyrir dómi gegn einum eða fleiri skuldurum, komið í veg fyrir að krafa á hendur öðrum skuldara fyrnist með því að stefna honum í málinu til réttargæslu, sbr. 21. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, áður en krafan fyrnist gagnvart viðkomandi skuldara. Geri kröfuhafi þetta verður hann að fylgja kröfu sinni eftir innan eins árs eftir að málinu lauk með sátt, dómi eða öðrum hætti.
    Hér er um sambærilegt ákvæði að ræða og er í 14. gr. gildandi fyrningarlaga en samkvæmt því gat kröfuhafi fengið sex mánaða frest til að slíta fyrningu með því að gera skuldara aðvart um málssókn á hendur öðrum skuldara. Sá munur er hér á að ákvæðið mælir fyrir um rýmri frest fyrir kröfuhafa til að fylgja kröfu sinni eftir auk þess sem fyrningu verður eingöngu slitið með réttargæslustefnu.
    Ákvæðið getur átt við í þeim tilvikum þegar fleiri menn ábyrgjast skuld saman, til dæmis aðalskuldari og ábyrgðarmaður eða fleiri samskuldarar. Kröfuhafi getur því sótt aðalskuldara um greiðslu skuldar en þá gæti hann jafnframt stefnt ábyrgðarmanni til réttargæslu í stað þess að þurfa að höfða mál á hendur honum.
    Í 2. mgr. kemur fram að sama regla gildi einnig ef sá sem stefnt er vill hafa uppi endurkröfu á hendur öðrum manni vegna þess sem hann kann að þurfa að greiða. Ákvæðið er sambærilegt við 2. mgr. 14. gr. gildandi fyrningarlaga.

Um 20. gr.

    Samkvæmt greininni reiknast nýr fyrningarfrestur frá þeim degi þegar fyrningu er slitið með viðurkenningu skv. 14. gr. frumvarpsins eða frá síðara tímamarki ef kröfuhafi átti þá fyrst rétt á að fá kröfuna efnda. Einnig er kveðið á um að hinn nýi fyrningarfrestur skuli vera í samræmi við reglur frumvarpsins en í því felst að um er að ræða sama fyrningarfrest og áður gilti.

Um 21. gr.

    Hér eru fyrirmæli um áhrif þess að fyrningu sé slitið með málssókn eða öðrum aðgerðum, sem lýst er í 15.–17. gr. frumvarpsins. Ef fyrningu er slitið með þeim aðgerðum fyrnist krafan ekki meðan á meðferð málsins stendur. Fyrningu er því slitið en nýr fyrningarfrestur byrjar þó ekki að líða fyrr en lögsóknin hefur verið leidd til lykta eftir því sem segir í 2. mgr.
    Samkvæmt 2. mgr. telst nýr fyrningarfrestur frá þeim degi sem dómur gekk, dómsátt var gerð eða krafan var tekin til greina við málsmeðferð skv. 16. gr. Hér er því ekki miðað við það tímamark þegar skuldari fær vitneskju um niðurstöðuna. Ástæða þess er sú að þá væri kröfuhafa í lófa lagið að lengja fyrningarfrestinn með því að gera skuldara ekki aðvart um niðurstöðuna. Ef kröfuhafi getur fyrst krafist efnda frá síðara tímamarki ber að reikna fyrningarfrestinn frá því. Þetta á helst við um dómsáttir en með þeim er gjarnan samið um gjaldfrest kröfu að einhverju eða öllu leyti. Nýr fyrningarfrestur skv. 2. mgr. er tíu ár og er það í samræmi við gildandi rétt um fyrningu dómsúrlausna, sbr. 1. tölul. 4. gr. gildandi fyrningarlaga. Lagt er til að frá þessari reglu verði gerð undantekning varðandi síðar áfallna vexti, verðbætur eða arð í félag. Þessar kröfur munu því fyrnast á fjórum árum skv. 3. gr. frumvarpsins. Af þessu leiðir að hafi kröfuhafi fengið dóm eða gert sátt fyrir útistandandi áföllnum vöxtum þá fyrnist sú krafa á tíu árum en síðar áfallnir vextir fyrnast hins vegar á fjórum árum.
    Í 3. mgr. er lagt til að nýr tíu ára fyrningarfrestur taki að líða frá þeim degi sem aðfarargerð skv. 1. mgr. 17. gr. lauk hjá skuldara án þess að krafa fengist að fullu greidd. Þá er miðað við að sami frestur taki að líða frá því að beiðni um innheimtu meðlags í öðru ríki er lögð fram hjá hlutaðeigandi stjórnvaldi hér á landi eða í erlenda ríkinu, sbr. 2. mgr. 17. gr. Hér er ekki sérstaklega kveðið á um réttaráhrif þess að fyrningu sé slitið með nauðungarsölubeiðni, en um það fer eftir 2. mgr. 12. gr. laga um nauðungarsölu, nr. 90/1991. Með frumvarpinu er því ekki haggað við þeirri reglu.
    Í frumvarpinu er ekki lagt til að sama regla og mælt er fyrir um í þessu ákvæði gildi þegar fyrningu er slitið með skiptabeiðni eða kröfulýsingu skv. 18. gr. Þó er gert ráð fyrir að stuttur frestur taki að líða þegar skiptabeiðni er hafnað, sbr. 2. mgr. 22. gr., en slík úrlausn felur ekki í sér neina endanlega niðurstöðu um fjárkröfuna sem slíka. Í öðrum tilvikum leiðir hins vegar af sjálfu sér að krafan kemur til meðferðar við búskiptin. Aftur á móti leiðir af 3. mgr. 18. gr. að fyrningu er slitið gagnvart þrotamanni og erfingjum skuldara ef þeir hafa tekið á sig ábyrgð á skuldum búsins. Í samræmi við almennar reglur hefst þá nýr fyrningarfrestur jafnlangur hinum fyrri. Um upphaf frestsins gagnvart þrotamanni fer eftir 2. mgr. 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, og miðast hann við skiptalok ef krafan er viðurkennd við skiptin en ella við kröfulýsingu. Upphaf nýs fyrningarfrests gagnvart erfingjum hins látna miðast við kröfulýsingu, enda mæla lög ekki fyrir um annað tímamark.

Um 22. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um viðbótarfresti ef máli er vísað frá eða það fellur niður án þess að leyst sé úr því að efni til. Þegar þannig hagar til er heimilt að höfða nýtt mál á hendur skuldara eða leggja málið aftur fyrir sama úrlausnaraðila þótt fyrningarfrestur sé liðinn, enda sé það gert innan sex mánaða. Miðast sá frestur við uppsögu úrskurðar eða þegar ákvörðun var tekin hjá viðkomandi dómstól eða úrlausnaraðila. Ef nýtt mál er rekið í samræmi við þetta falla ekki niður þau réttaráhrif fyrra máls að fyrningu kröfunnar hafi verið slitið, enda sé um að ræða sama sakarefni. Hér er um að ræða hliðstæða reglu og er að finna í 1. mgr. 11. gr. gildandi fyrningarlaga. Um beitingu þeirrar reglu má til að mynda benda á Hrd. 2000: 1183. Er gert ráð fyrir að ákvæðinu verði beitt á sama veg og sú regla hefur verið skýrð í dómaframkvæmd. Með ákvæðinu er einnig lagt til, óbreytt frá gildandi lögum, að heimilt verði að reka nýtt mál ef síðara máli eða síðari málum er vísað frá eða þau falla niður. Hins vegar eru ekki efni til að kveða sérstaklega á um frest til að fá mál tekið fyrir á ný við lægri dómstól eftir heimvísun, sbr. 2. mgr. 11. gr. gildandi fyrningarlaga, enda gilda almennar reglur um málshraða eftir að máli hefur verið vísað til nýrrar meðferðar.
    Sambærilegt ákvæði og í 1. mgr. er að finna í 22. gr. norsku fyrningarlaganna, en þar er þó mælt fyrir um lengri frest eða eitt ár, auk þess sem skilyrði er að ekki sé um að ræða atriði sem kröfuhafa verður kennt um. Vandkvæði eru bundin við að beita svo matskenndri reglu í framkvæmd og eru því ekki talin efni til að hrófla við 1. mgr. 11. gr. gildandi fyrningarlaga.
    Í 2. mgr. er lögð til sú regla að fyrningu sé slitið í sex mánuði ef kröfu um gjaldþrotaskipti eða opinber skipti er hafnað. Miðast sá frestur við úrskurð héraðsdóms þar að lútandi eða dóm Hæstaréttar ef máli er skotið þangað. Með þessu er kröfuhafa gefið hæfilegt ráðrúm til að leita annarra leiða til að koma í veg fyrir að krafa falli niður fyrir fyrningu.

Um 23. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um slit fyrningar með málssókn í erlendu ríki. Er miðað við að fyrningu sé slitið hér á landi með málssókn í öðru ríki og að krafan fyrnist ekki á meðan mál er rekið þar fyrir dómi. Einnig er lagt til að 1. mgr. 22. gr. frumvarpsins gildi eftir því sem við getur átt. Þegar dómsúrlausn er fengin tekur nýr tíu ára fyrningarfrestur að líða. Þó er gerður sá fyrirvari að dómsúrlausnin sé samrýmanleg íslensku réttarskipulagi.
    Samkvæmt 15. gr. fyrningarlaga getur kröfuhafi sem ekki getur sótt kröfu fyrir íslenskum dómstólum komið í veg fyrir fyrningu kröfu með því að tilkynna landsyfirdómnum (nú Hæstarétti) um kröfuna áður en fyrningartími er liðinn. Heldur hann þá rétti sínum óskertum, til að sækja kröfu sína að lögum, annaðhvort innan árs eftir að skilyrði voru fengin fyrir því að innheimta mætti skuldina við íslenskan dómstól eða innan tíu ára frá því að tilkynningin var gerð. Með frumvarpinu er lagt til að þessi heimild verði felld niður. Að baki því búa þau rök að innheimta kröfu milli ríkja er nú mun auðveldari en áður. Þykir því eðlilegt að miða slit fyrningar og fyrningarfrest við málssókn og dómsúrlausn í erlendu ríki.

Um 24. gr.

    Í greininni er kveðið á um réttaráhrif fyrningar. Meginreglan er sú að fyrning kröfu hefur í för með sér að kröfuhafi glatar rétti sínum til að krefjast efnda eða með öðrum orðum krafan fellur niður. Fyrning nær ekki aðeins til aðalskyldunnar heldur jafnframt vaxta, verðbóta, arðs og þess konar viðbótargreiðslna, sbr. 2. mgr. 24. gr. Á það bæði við um áfallnar viðbótargreiðslur sem og þær greiðslur sem mundu falla á til framtíðar litið ef aðalskyldan væri ófyrnd.

Um 25. gr.

    Hér er fjallað um áhrif fyrningar kröfu þegar um samskuldara er að ræða. Þótt krafa fyrnist gagnvart einum skuldara hefur það ekki áhrif gagnvart samskuldurum og er það í samræmi við þá almennu reglu að skyldur fleiri skuldara, sem standa jafnfætis, ber að meta sjálfstætt. Sú staðreynd að krafan á hendur einum sé ógild eða fyrnd hefur því ekki þá afleiðingu að skuldbindingar annarra falli niður. Þótt krafa kunni að vera fyrnd gegn einum skuldara verður þó að hafa í huga að sá skuldari sem efnir skyldur sínar getur átt endurkröfu á hendur öðrum skuldurum eftir innbyrðis réttarsambandi þeirra, sbr. 8. gr. frumvarpsins. Þessi regla frumvarpsins er frávíkjanleg og er það tekið fram í greininni.
    Í 2. mgr. er kveðið sérstaklega á um áhrif fyrningar aðalkröfu gagnvart ábyrgðarmanni. Hafi krafa á hendur aðalskuldara fyrnst áður en fyrningu hefur verið slitið gagnvart ábyrgðarmanni, með þeim hætti sem frumvarpið mælir fyrir um, telst krafan á hendur ábyrgðarmanni jafnframt fyrnd. Staða ábyrgðarmanns gagnvart kröfuhafa er því ekki sú sama og annarra samskuldara kröfu. Er þetta í samræmi við meginreglur kröfuréttar um ábyrgðir en af þeim leiðir að ábyrgðarmaður verður venjulega ekki krafinn um greiðslu ef aðalkrafan er ógild eða fallin niður.

Um 26. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um hvenær kröfuhafi getur nýtt fyrnda kröfu til skuldajafnaðar. Eitt af skilyrðum skuldajafnaðar er að krafan, sem höfð er uppi til skuldajafnaðar, sé lögvarin krafa. Eins og fram kemur í 24. gr. frumvarpsins er meginreglan sú að fyrnd krafa nýtur ekki lögverndar, þ.e. hún fellur niður og kröfuhafi getur því ekki krafist efnda eða nýtt kröfuna til skuldajafnaðar. Hér er að finna frávik í tveimur atriðum frá þessari meginreglu. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir heimild til að skuldajafna með fyrndri gagnkröfu þegar samið hefur verið um þennan rétt en aðilar skuldarsambands geta almennt samið sín í milli fyrir fram um heimild til skuldajafnaðar með þessum hætti og þá jafnframt um víðtækari skuldajafnaðarheimild en leiða mundi af almennum reglum í því efni. Ef samið er á þennan veg, þ.e. um víðtækari rétt til skuldajafnaðar en gildir samkvæmt almennum reglum, er í raun verið að veita ákveðin tryggingaréttindi, sem um margt eru ekki ósvipuð öðrum tryggingaréttindum, til dæmis veði eða ábyrgð þriðja manns. Í annan stað er gert ráð fyrir heimild til að skuldajafna fyrndri gagnkröfu þegar aðalkrafan er af sömu rót runnin og fyrnda krafan. Með samrættum kröfum í þessu sambandi er átt við að aðalkrafa og gagnkrafa séu sprottnar af sama atburði eða sama réttarsambandi. Þá verður aðalkrafan að hafa stofnast áður en gagnkrafan fyrntist. Af almennum reglum kröfuréttar leiðir að heimild til skuldajafnaðar er rýmri þegar um samrættar kröfur er að ræða. Með þessu er tekið mið af nánu samhengi milli samrættra krafna en það sjónarmið býr einnig að baki þessari reglu frumvarpsins. Ákvæðið er sama efnis og 2. mgr. 1. gr. gildandi fyrningarlaga.

Um 27. gr.

    Þessi grein fjallar um áhrif fyrningar á veðréttindi, haldsrétt og önnur takmörkuð (óbein) eignaréttindi. Almennt hefur fyrning kröfu ekki áhrif á þessi tryggingaréttindi og standa þau iðulega óhögguð þótt krafan, sem þau eiga að tryggja, falli niður fyrir fyrningu (Ólafur Lárusson, Fyrirlestrar um fyrningu, bls. 9). Í 1. mgr. er sérstaklega kveðið á um þetta og er hér um að ræða sambærilegt ákvæði og er í 3. mgr. 1. gr. fyrningarlaga. Í greininni eru síðan taldar upp undantekningar frá meginreglunni að þessi tryggingaréttindi fyrnist ekki.
    Þessar undantekningar snerta sjálfsvörsluveð en þá heldur veðsali sjálfur umráðum veðandlagsins þrátt fyrir veðsetninguna, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997. Sjálfsvörsluveð má síðan greina eftir veðandlaginu í fasteignaveð annars vegar og lausafjárveð hins vegar. Ákvæði 1. mgr. gildir jafnt um sjálfsvörsluveð í fasteignum og lausafé og falla veðréttindin niður um leið og krafa fyrnist í þeim tilvikum sem rakin eru í a- og b-lið 1. mgr.
    Samkvæmt a-lið 1. mgr. fellur lögveð brott við fyrningu kröfu. Með lögveði er átt við þau veðréttindi sem stofnast vegna fyrirmæla í lögum og teljast hvorki til samningsveðs né aðfararveðs. Í dæmaskyni um veðréttindi af þessu tagi má nefna ýmis gjöld tryggð með lögveði í fasteign eins og fasteignagjöld, skipulagsgjöld, og brunatryggingariðgjöld. Sjóveð eru einnig lögveðsréttindi en sjóveð stofnast í skipum til tryggingar ýmsum fjárkröfum, er verða til í siglingum og nánar er mælt fyrir um í siglingalögum. Rökin að baki því að lögveð falli niður um leið og krafa fyrnist eru þau að þessar kröfur ganga á undan öðrum veðkröfum og því er eðlilegt að takmörk séu fyrir því hversu lengi veðrétturinn stendur. Þessar kröfur geta líka haft mikil áhrif á stöðu síðari veðhafa þar sem réttarvernd lögveðsréttinda er ekki háð þinglýsingu og þarf ekki að gera sérstakar tryggingarráðstafanir til þess að þau njóti réttarverndar. Njóta lögveðskröfur því sérstakrar tryggingar og þykir rétt með tilliti til hagsmuna síðari veðhafa að þau falli niður um leið og lögveðskrafan fyrnist.
    Eftir b-lið 1. mgr. fellur niður við fyrningu sjálfsvörsluveð fyrir vöxtum og öðrum kröfum um greiðslu, sem falla í gjalddaga með jöfnu millibili og eru ekki afborgun höfuðstóls. Hér er um að ræða sambærilegt ákvæði og í 4. mgr. 1. gr. gildandi fyrningarlaga en rétt þykir að sú regla haldi gildi sínu.
    Samhengisins vegna er í 2. mgr. vísað til 41. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997, um brottfall söluveðs. Í norsku fyrningarlögunum er sérákvæði um brottfall söluveðs sem og eignarréttarfyrirvara þegar krafa, sem tryggð er á þann veg, fellur niður. Þar sem um þetta er sérstaklega fjallað í lögum um samningsveð er ekki þörf á að kveða sérstaklega á um brottfall þessara tryggingaréttinda við fyrningu.
    Samkvæmt 3. mgr. fyrnast ekki þau réttindi sem hvíla á fasteign sem ævarandi afgjaldskvöð. Hér er um að ræða sambærilegt ákvæði og í 5. mgr. 1. gr. gildandi fyrningarlaga. Réttindi af þessu tagi eru ekki kröfuréttindi heldur hlutaréttindi, sem tengd eru við fasteign og fela í sér óbeinan eignarrétt að eigninni. Um afgjaldsskyldur er talað þegar skylda til fjárgreiðslu er varanlega tengd við fasteign þannig að þeir sem eru afnotahafar eða eigendur fasteignarinnar eru skyldir til að inna þessa greiðslu af hendi (Gaukur Jörundsson, Eignaréttur I, bls. 7). Í dæmaskyni má nefna rétt til að heimta tiltekna greiðslu til framtíðar í formi peninga, vöru eða vinnu. Ákvæðið á við um afgjaldsréttinn sjálfan en ekki einstaka afgjaldsgreiðslu. Slík greiðsla fyrnist hins vegar samkvæmt reglum frumvarpsins.

Um 28. gr.

    Í greininni er að finna lagaskilareglu þess efnis að lögunum verði eingöngu beitt um kröfur sem stofnast eftir gildistöku laganna. Um kröfur sem stofnast fyrir það tímamark fer því eftir gildandi lögum. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um fyrningu kröfuréttinda.


    Þau kröfuréttindi sem frumvarpið tekur til skv. 1. gr. frumvarpsins eru kröfur um peninga og aðrar greiðslur, þ.e. að einhver greiðsla sé innt af hendi. Með frumvarpinu er lagt til að almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda verði fjögur ár en allt að 20 ár fyrir sérstakan fyrningarfrest ákveðinna krafna, svo sem vegna bankainnborgana, fasteignakaupa, skuldabréfa, peningalána, lífeyris, ábyrgðarskuldbindinga, endurkrafna og krafna um skaðabætur. Meginregla gildandi fyrningarlaga er að kröfur fyrnist á tíu árum. Við gildistöku frumvarpsins falla úr gildi lög um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, nr. 14/1905.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.