Lagasafn. Íslensk lög 12. apríl 2024. Útgáfa 154b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði
2014 nr. 50 22. maí
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. janúar 2015 nema 8. gr. og brbákv. I–IV sem tóku gildi 31. maí 2014. Breytt með: L. 130/2016 (tóku gildi 1. júlí 2017). L. 141/2018 (tóku gildi 1. jan. 2019). L. 50/2021 (tóku gildi 8. júní 2021).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við dómsmálaráðherra eða dómsmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
1. gr.
Sýslumenn fara með framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, hver í sínu umdæmi, eftir því sem lög og reglugerðir eða önnur stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um. Þar á meðal fara þeir með innheimtu opinberra gjalda, að því leyti sem hún er ekki falin öðrum. Embætti sýslumanna heyra undir ráðherra.
2. gr.
Landið skiptist í níu umdæmi sýslumanna sem eru:
1. Umdæmi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.
2. Umdæmi sýslumannsins á Vesturlandi.
3. Umdæmi sýslumannsins á Vestfjörðum.
4. Umdæmi sýslumannsins á Norðurlandi vestra.
5. Umdæmi sýslumannsins á Norðurlandi eystra.
6. Umdæmi sýslumannsins á Austurlandi.
7. Umdæmi sýslumannsins á Suðurlandi.
8. Umdæmi sýslumannsins í Vestmannaeyjum.
9. Umdæmi sýslumannsins á Suðurnesjum.
Umdæmamörk sýslumannsembætta skv. 1. mgr. skulu ákveðin í reglugerð 1) sem ráðherra setur með hliðsjón af skipulagi annarrar opinberrar þjónustu í umdæminu og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga og viðkomandi sýslumenn.
Ráðherra ákveður í reglugerð hvar aðalskrifstofur sýslumanna skuli staðsettar. Ráðherra ákveður einnig í reglugerð, að höfðu samráði við viðkomandi sýslumann, hvar aðrar sýsluskrifstofur verða starfræktar og hvaða þjónustu þar skuli veita.
1)Rg. 1151/2014, sbr. 244/2017 og 532/2017.
3. gr.
Ráðherra skipar sýslumann til fimm ára í senn og setur honum erindisbréf.
Sýslumaður skal, auk almennra hæfisskilyrða til þess að hljóta skipun í embætti á vegum ríkisins, fullnægja eftirtöldum skilyrðum:
a. … 1)
b. Hefur íslenskan ríkisborgararétt.
c. Er svo á sig kominn andlega og líkamlega að hann geti gegnt embættinu.
d. Er lögráða og hefur aldrei misst forræði á búi sínu.
e. [Hefur hvorki hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir að hann varð fullra 18 ára] 2) né sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem sýslumenn verða almennt að njóta.
f. [Hefur lokið embættisprófi eða grunnnámi ásamt meistaraprófi í lögum.] 1)
Ef sýslumanni er veitt lausn frá embætti, leyfi frá störfum eða hann forfallast af öðrum ástæðum getur ráðherra falið öðrum sýslumanni að gegna embættinu til allt að eins árs í senn og skal [ráðherra] 3) ákveða þóknun vegna þess. Ráðherra getur einnig sett annan mann sem fullnægir skilyrðum 2. mgr. til að gegna embættinu um stundarsakir í forföllum sýslumanns, þó aldrei lengur en til eins árs.
Ráðherra getur ákveðið að fela sýslumanni eða fulltrúa hans embættisverk annars sýslumanns.
1)L. 50/2021, 11. gr. 2)L. 141/2018, 16. gr. 3)L. 130/2016, 8. gr.
4. gr.
Auk lögbundinna verkefna getur ráðherra falið sýslumönnum framkvæmd tiltekinna sérverkefna. Þá getur ráðherra falið sýslumanni framkvæmd verkefna á landsvísu sem annars ættu undir aðra sýslumenn, ráðuneytið eða undirstofnanir þess, eftir því sem lög heimila.
Með samþykki ráðherra geta sýslumenn annast framkvæmd verkefna fyrir aðrar ríkisstofnanir eða stjórnvöld með sérstökum samningi, enda standi ákvæði laga því ekki í vegi.
5. gr.
Sýslumenn bera faglega, fjárhagslega og stjórnunarlega ábyrgð á rekstri embætta sinna í samræmi við lög og önnur stjórnvaldsfyrirmæli.
Sýslumaður ræður starfslið við embætti sitt og ákveður aðsetur þess á aðalskrifstofu eða öðrum sýsluskrifstofum. Löglærðir fulltrúar sýslumanns skulu fullnægja skilyrðum b–f-liðar 2. mgr. 3. gr.
Sýslumanni er heimilt að ákveða að löglærður fulltrúi sé staðgengill hans, enda fullnægi hann skilyrðum til skipunar í embætti sýslumanns. Staðgengill sinnir störfum sýslumanns í hans fjarveru, svo sem í sumarleyfum og öðrum styttri leyfum, enda hafi ráðherra ekki falið öðrum að gegna embættinu í fjarveru sýslumanns á grundvelli 3. mgr. 3. gr.
6. gr.
Sýslumenn tilnefna árlega úr sínum hópi nefnd þriggja manna er hafi það hlutverk:
a. að vinna með ráðuneytinu að stefnumótun fyrir sýslumannsembættin í heild og gera tillögur um hvað eina sem getur orðið til úrbóta í störfum sýslumanna eða löggjöf sem um verkefni þeirra gildir,
b. að vinna að sameiginlegum verkefnum sýslumanna, svo sem útgáfu ársskýrslu fyrir embættin í heild, að vera til ráðgjafar um þróun starfs- og upplýsingakerfa embættanna, að annast sameiginlega vefsíðu embættanna og að stuðla að símenntun og þjálfun starfsmanna þeirra.
Nefndinni er heimilt að fela sýslumanni framkvæmd einstakra verkefna undir yfirstjórn hennar.
7. gr.
Sýslumaður skal hafa forgöngu um reglulegt samráð við sveitarfélög og önnur stjórnvöld ríkisins um fyrirkomulag og samræmingu opinberrar þjónustu í umdæminu eftir því sem við getur átt.
8. gr.
Ef óskað er eftir þjónustu sýslumanns utan hefðbundins vinnutíma og starfsstöðva og ekki er kveðið á um í lögum að sýslumanni sé skylt að sinna slíkum verkum á þeim tíma eða stað er sýslumanni heimilt að verða við beiðninni, enda sé greitt fyrir slíka þjónustu á grundvelli tímagjalds samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur, að viðbættu akstursgjaldi. Gjald fyrir slíka þjónustu rennur óskipt til viðkomandi embættis.
9. gr.
Ráðherra setur í reglugerð 1) nánari ákvæði um skipan mála samkvæmt lögum þessum, m.a. um umdæmamörk sýslumannsembætta, aðalskrifstofur og aðrar sýsluskrifstofur, starfs- og upplýsingakerfi sýslumanna, heimild sýslumanna til að nota fjarfundarbúnað við meðferð mála við fyrirtökur og einkennisfatnað og skilríki sýslumanna og löglærðra fulltrúa þeirra.
1)Rg. 1151/2014, sbr. 244/2017 og 532/2017.
10. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2015. … Þó skulu 8. gr. og ákvæði til bráðabirgða I–IV öðlast þegar gildi.
Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Ráðherra skal skipa verkefnisstjórn sem hefur með höndum undirbúning þeirra breytinga sem lög þessi mæla fyrir um samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.
Frá samþykkt laga þessara og fram til 1. janúar 2015 er ráðherra heimilt að undirbúa stofnun nýrra sýslumannsembætta, sbr. 1.–7. tölul. 1. mgr. 2. gr., og aðskilnað löggæslu frá starfsemi sýslumannsins í Vestmannaeyjum, m.a. með setningu þeirra reglugerða um skipulag allra embætta sýslumanna sem kveðið er á um í greininni. Við gerð þeirra reglugerða þarf ekki að gæta að ákvæðum 2. gr. laga nr. 92/1989, um framkvæmdarvald ríkisins í héraði. Þegar lög þessi öðlast gildi skal sú reglugerð sem hér er kveðið á um eiga stoð í 2. gr. laga þessara. Þá skal ráðherra einnig heimilt að taka ákvörðun um skipun eða flutning sýslumanna í ný embætti samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þeir hafi heimild til þess að undirbúa starfsemi hinna nýju embætta, þ.m.t. starfsmannahald. Við ráðstöfun starfa eða embætta samkvæmt þessu bráðabirgðaákvæði þarf ekki að gæta að skyldu til að auglýsa laus störf til umsóknar, sbr. 7. gr. laga nr. 70/1996. Skulu ný embætti taka við þeim réttindum og skyldum sem einstakir embættismenn hafa áunnið sér, þ.m.t. samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996.
Skipun sýslumanna í hin nýju embætti tekur formlega gildi 1. janúar 2015. Þeir sem við samþykkt laga þessara eru starfandi eða skipaðir sýslumenn og kjósa að sækjast eftir nýju embætti skulu njóta forgangs til skipunar í hin nýju embætti sýslumanna skv. 2. gr. laga þessara. Þau embætti sýslumanna sem kveðið er á um í núgildandi lögum, nr. 92/1989, verða lögð niður að undanskildum embættum sýslumannsins í Reykjanesbæ og sýslumannsins í Vestmannaeyjum. Í þeim tilvikum þar sem sýslumenn hljóta ekki skipun í ný embætti sýslumanna skal leitast við að bjóða þeim störf hjá embættum lögreglu eða sýslumanna eða að öðrum kosti störf annars staðar á umsýslusviði þess ráðuneytis sem fer með málefni sýslumanna. Þeir sem skipaðir eru sýslumenn skulu eiga þess kost að lýsa yfir að þeir muni ekki sækjast eftir nýjum embættum sýslumanna samkvæmt lögum þessum og hefja þeir þá töku biðlauna samkvæmt ákvæði 34. gr. laga nr. 70/1996 þegar embætti þeirra hefur verið lagt niður samkvæmt ákvæðum þessara laga.
II.
Ný embætti sýslumanna samkvæmt lögum þessum taka við öllum réttindum, eignum og skyldum þeirra sýslumannsembætta sem þau leysa af hólmi, þó ekki hvað varðar löggæslu. Eftir að skipulag embætta hefur verið ákveðið, sbr. ákvæði til bráðabirgða I í lögum þessum, skal bjóða öllum starfsmönnum þeirra embætta sem lögð verða niður störf ýmist hjá hinum nýju embættum sýslumanna eða lögregluembættum. Ef ekki er unnt að bjóða núverandi starfsmanni starf við ný embætti sýslumanna eða lögreglu skal leitast við að bjóða honum starf annars staðar á umsýslusviði þess ráðuneytis sem fer með málefni sýslumanna. Viðkomandi starfsmaður kann þó að þurfa að hlíta breytingum á starfi vegna skipulagsbreytinga eða í tengslum við stofnun nýrra sýslumannsembætta og lögregluembætta í hverju umdæmi og með hliðsjón af nýju skipuriti. Ný embætti taka yfir þau réttindi og skyldur sem starfsmenn hafa áunnið sér en um réttindi og skyldur starfsmanna vegna skipulagsbreytinganna fer að öðru leyti eftir ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um skyldu til að auglýsa laus störf til umsóknar, eiga hins vegar ekki við um ráðstöfun starfa samkvæmt þessu bráðabirgðaákvæði.
III.
Við samþykkt laga þessara skal ráðherra í samstarfi við forsætisráðherra láta semja aðgerðaáætlun fyrir Stjórnarráðið þar sem afmörkuð skulu þau stjórnsýsluverkefni ráðuneyta og undirstofnana þeirra sem talið er ákjósanlegt að flutt verði til embætta sýslumanna. Skal aðgerðaáætlun um flutning tilgreindra verkefna liggja fyrir ekki síðar en 1. janúar 2015.
IV.
Ráðherra getur falið sýslumanni að gegna öðru eða öðrum embættum ásamt eigin embætti í samræmi við ákvæði 3. mgr. 3. gr. laga þessara og ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 92/1989. Í þeim tilvikum er sýslumanni heimilt að fela starfsmönnum embættanna að vinna embættisverk beggja eða allra embættanna hvar sem er innan embættanna. Sýslumanni er jafnframt heimilt að gera nauðsynlegar ráðstafanir sem leitt geta til fjárhagslegrar hagræðingar í rekstri og samræmingar á þjónustu. Ráðherra kveður í reglugerð á um framkvæmd þessa ákvæðis.