Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1274, 117. löggjafarþing 478. mál: þjóðminjalög (stjórnkerfi minjavörslu o.fl.).
Lög nr. 98 20. maí 1994.

Lög um breyting á þjóðminjalögum, nr. 88/1989, sbr. lög nr. 43/1991.


1. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn þjóðminjavörslu í landinu.
     Menntamálaráðherra skipar þjóðminjaráð til fjögurra ára í senn. Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir einn fulltrúa, Félag íslenskra safnamanna einn, Háskóli Íslands einn, Hið íslenska kennarafélag og Kennarasamband Íslands einn sameiginlega og einn fulltrúi er skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Þjóðminjavörður og safnstjóri Þjóðminjasafns, ásamt einum fulltrúa tilnefndum af föstum starfsmönnum safnsins úr þeirra röðum, eiga setu á fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétti.
     Hlutverk þjóðminjaráðs er að vinna að mörkun stefnu og gera langtímaáætlun um starfsemi Þjóðminjasafns Íslands og þjóðminjavörsluna í heild og hafa yfirumsjón með gerð fjárhagsáætlunar og framkvæmd hennar. Ráðið er stjórnarnefnd Þjóðminjasafns Íslands og hefur umsjón með rekstri þess. Að öðru leyti sinnir ráðið þeim verkefnum sem því eru sérstaklega falin í lögum þessum.
     Þjóðminjavörður hefur umsjón með þjóðminjavörslu í landinu öllu. Hann er forstöðumaður Þjóðminjasafns Íslands og framkvæmdastjóri þjóðminjaráðs. Forseti Íslands skipar þjóðminjavörð til fimm ára í senn að tillögu menntamálaráðherra sem leita skal umsagnar þjóðminjaráðs. Að öðru jöfnu skal ráðinn maður með sérfræðilega menntun í menningarsögu og reynslu af stjórnunarstörfum.
     Birta skal árlega starfsskýrslu þjóðminjaráðs og Þjóðminjasafns Íslands.

2. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Þriggja manna fornleifanefnd fjallar um og veitir leyfi til allra staðbundinna og tímabundinna fornleifarannsókna og er Þjóðminjasafni Íslands til ráðgjafar um fornleifavörslu, fornleifaskráningu og fornleifarannsóknir. Menntamálaráðherra skipar fornleifanefnd til fjögurra ára í senn. Háskóli Íslands og Félag íslenskra fornleifafræðinga tilnefna einn fulltrúa hvor og skulu þeir hafa háskólapróf í fornleifafræði sem aðalgrein. Þjóðminjaráð tilnefnir einn fulltrúa. Menntamálaráðherra skipar formann úr hópi nefndarmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Þjóðminjavörður, eða fulltrúi hans, situr fundi nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétti.

3. gr.

     4. gr. laganna orðast svo:
     Landinu skal skipt í minjasvæði eftir ákvæðum í reglugerð sem menntamálaráðherra setur að fengnum tillögum þjóðminjaráðs.
     Á hverju minjasvæði skal starfa einn minjavörður. Hlutverk minjavarða er að hafa umsjón með menningarminjum og fornleifavörslu, skráningu og eftirliti forngripa og gamalla bygginga og vera byggðasöfnum til ráðuneytis og aðstoðar. Minjaverðir skulu að öðru jöfnu hafa sérfræðilega menntun á sviði menningarsögu eða fornleifafræði.
     Í Reykjavík fer borgarminjavörður með minjavörslu. Aðra minjaverði ræður þjóðminjavörður til fimm ára í senn samkvæmt tillögu þjóðminjaráðs. Þeir eru starfsmenn Þjóðminjasafns Íslands. Heimilt er þó að fela forstöðumanni byggðasafns að gegna hlutverki minjavarðar á viðkomandi minjasvæði samkvæmt sérstökum starfssamningi.

4. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Þjóðminjasafn Íslands er eign íslenska ríkisins. Það er miðstöð þjóðminjavörslu í landinu.
     Við Þjóðminjasafn Íslands skal auk þjóðminjavarðar starfa safnstjóri sem stjórnar daglegri starfsemi safnsins undir yfirumsjón þjóðminjavarðar. Safnstjóri er staðgengill þjóðminjavarðar. Menntamálaráðherra ræður safnstjóra til fimm ára í senn að fengnum tillögum þjóðminjavarðar og þjóðminjaráðs. Safnstjóri skal að öðru jöfnu hafa sérfræðilega menntun í menningarsögu, góða þekkingu á rekstri safna og reynslu af stjórnunarstörfum.
     Um deildaskiptingu safnsins skal mælt fyrir í reglugerð að fengnum tillögum þjóðminjaráðs. Deildir safnsins geta verið sjálfstæðar rekstrareiningar, haft stöðu sérstakra safna eða stofnana.
     Þjóðminjavörður ræður deildarstjóra og aðra sérfræðinga safnsins með samþykki þjóðminjaráðs. Deildarstjórar skulu ráðnir til fimm ára í senn. Skulu þeir að öðru jöfnu hafa sérfræðimenntun á starfssviði sínu. Þjóðminjavörður annast ráðningu annarra starfsmanna Þjóðminjasafns.

5. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Til byggðasafna teljast samkvæmt lögum þessum önnur söfn sem sett hafa verið á stofn í þeim tilgangi sem segir í 7. gr. og hlotið hafa viðurkenningu þjóðminjaráðs.
     Þau söfn, sem uppfylla skilyrði þjóðminjaráðs, geta sótt um styrk úr ríkissjóði til starfsemi sinnar.
     Byggðasöfn geta verið sjálfseignarstofnanir eða í eigu sveitarfélaga, stofnana eða félagasamtaka. Setja skal hverju byggðasafni stofnskrá þar sem m.a. skal kveðið á um stjórn safnsins, eignaraðild að því, þátttöku ríkisins í kostnaði við það og ráðningu forstöðumanns. Ríkisstyrkur til byggðasafns er háður því að menntamálaráðuneytið hafi samþykkt stofnskrá þess að fenginni tillögu þjóðminjaráðs.
     Menntamálaráðherra setur reglugerð um byggðasöfn að fenginni tillögu þjóðminjaráðs.

6. gr.

     5. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
     Þjóðminjasafn Íslands skal stuðla að rannsóknum á minjum um menningarsögu Íslendinga og útgáfu fræðilegra rita um þær.

7. gr.

     11. gr. laganna orðast svo:
     Ekki má nota myndir af gripum safnanna sem vörumerki eða í auglýsingaskyni og ekki heldur gera af þeim myndir eða eftirlíkingar nema með leyfi viðkomandi forstöðumanna.

8. gr.

     12. gr. laganna orðast svo:
     Á hverju minjasvæði, sbr. 4. gr., skal starfa minjaráð sem skipað er forstöðumönnum allra viðurkenndra byggðasafna á svæðinu ásamt minjaverði. Hlutverk þess er að fjalla um og samhæfa starfsemi safnanna.

9. gr.

     Lokamálsliður 16. gr. laganna orðast svo: Að jafnaði skal telja minjar 100 ára og eldri til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar, sbr. 18. gr.

10. gr.

     17. gr. laganna orðast svo:
     Fornleifum má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né úr stað flytja nema leyfi fornleifanefndar komi til.

11. gr.

     18. gr. laganna orðast svo:
     Þjóðminjasafn Íslands lætur, eftir föngum, skrá allar þekktar fornleifar og gefur út skrá um friðlýstar fornleifar og skal hún endurskoðuð á þriggja ára fresti. Skylt er að fornleifaskráning fari fram á skipulagsskyldum svæðum áður en gengið er frá skipulagi eða endurskoðun þess og skal Þjóðminjasafn eiga samvinnu við skipulagsyfirvöld um það.
     Þjóðminjasafn ákveður í samráði við fornleifanefnd hvaða fornleifar skulu friðlýstar. Friðlýsingu fornleifa skal birta í Stjórnartíðindum og staðurinn tilgreindur svo nákvæmlega sem unnt er á korti eða á annan hátt. Auðkenna skal friðlýstar fornleifar eða minjasvæði með sérstökum merkjum. Tilkynna skal landeiganda og ábúanda með sannanlegum hætti um friðlýsinguna. Þjóðminjasafn gefur út skrá um friðlýstar fornleifar og skal hún endurskoðuð á þriggja ára fresti.
     Friðlýsingu fornleifa skal þinglýsa sem kvöð á landareign þá sem í hlut á. Þeim minjum, sem friðlýstar eru, skal fylgja 20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum fornleifa og umhverfis nema kveðið sé á um annað. Um stærra svæði skal leita samþykkis landeiganda. Friðlýstar fornleifar skulu færðar á skipulagskort.
     Fornleifar, sem friðlýstar hafa verið samkvæmt eldri lögum, skulu njóta friðlýsingar áfram.

12. gr.

     19. gr. laganna orðast svo:
     Skylt er landeiganda og ábúanda að gera Þjóðminjasafni Íslands viðvart ef fornleifar liggja undir spjöllum af völdum náttúrunnar eða þeim er spillt af manna völdum. Þjóðminjasafn ákveður þá hvaða ráðstafanir skuli gerðar til verndar fornleifunum.

13. gr.

     1. málsl. 20. gr. laganna orðast svo: Nú finnast fornleifar sem áður voru ókunnar og skal finnandi þá skýra Þjóðminjasafni Íslands frá fundinum svo fljótt sem unnt er.

14. gr.

     1. mgr. 21. gr. laganna orðast svo:
     Nú telur landeigandi, ábúandi eða einhver annar, þar á meðal sá sem stjórnar opinberum framkvæmdum, svo sem vegagerð, að hann þurfi að gera jarðrask er haggar við fornleifum og skal hann þá skýra Þjóðminjasafni Íslands frá því áður en hafist er handa um verkið. Lýst skal nákvæmlega breytingum þeim er af framkvæmd mundi leiða. Þjóðminjasafn ákveður hvort og hvenær framkvæmd megi hefja og með hvaða skilmálum.

15. gr.

     22. gr. laganna orðast svo:
     Þjóðminjasafn Íslands fer með yfirstjórn og annast eftirlit rannsókna á fornleifum í landinu. Þegar fornleifanefnd veitir leyfi til stað- og tímabundinna rannsókna, sbr. 3. gr., skal þess gætt að stjórnandi þeirra hafi tilskilda menntun í fornleifafræði. Skal leyfi vera skriflegt hverju sinni og sá sem slíkt leyfi fær hlíta þeim reglum sem fornleifanefnd setur þar að lútandi, svo sem um skil á rannsóknarskýrslum og birtingu þeirra og um skil á gripum sem finnast við rannsóknina. Rannsóknir útlendinga skulu vera undir yfirumsjón Þjóðminjasafns. Beina skal til fornleifanefndar öllum rannsóknarbeiðnum útlendinga er varða fornleifar á einhvern hátt, þar á meðal þeim sem einnig er skylt að beina til Vísindaráðs samkvæmt lögum nr. 48/1987.

16. gr.

     23. gr. laganna orðast svo:
     Þjóðminjasafn Íslands hefur rétt til að láta rannsaka fornleifar með grefti eða á annan hátt og gera það sem þarf til verndar fornleifum, viðhalds eða endurbóta, en gera skal landeiganda eða ábúanda viðvart um það áður.

17. gr.

     24. gr. laganna orðast svo:
     Óheimil er öðrum en starfsmönnum Þjóðminjasafns Íslands notkun málmleitartækja eða annars tækjabúnaðar við leit að forngripum í jörðu nema með sérstöku leyfi þjóðminjavarðar.

18. gr.

     26. gr. laganna orðast svo:
     Forngripir eru lausar fornminjar, einstakir hlutir, 100 ára og eldri. Þegar forngripir finnast sem liggja eða legið hafa í jörðu skal finnandi tilkynna Þjóðminjasafni Íslands fundinn svo fljótt sem við verður komið. Finnandi skal ekki hagga við fundinum nema nauðsynlegt sé að taka hann eða hluta hans þegar til umhirðu með því að ella væri hætta á að munir spilltust eða færu forgörðum.
     Ákvæði 1. mgr. taka til allra muna sem menn hafa notað eða mannaverk eru á og einnig til leifa af líkömum manna og dýra sem finnast í fornum haugum, dysjum eða leiðum.
     Allir munir, sem grein þessi fjallar um, eru eign ríkisins. Skulu þeir varðveittir í Þjóðminjasafni eða í hlutaðeigandi byggða- eða minjasafni. Ef upp kemur ágreiningur um hvar varðveita skuli forngripi sker þjóðminjaráð úr.

19. gr.

     Við 2. mgr. 35. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

20. gr.

     49. gr. laganna orðast svo:
     Útgjöld vegna starfsemi húsafriðunarnefndar, þar á meðal þóknun til nefndarmanna eftir ákvörðun ráðherra, greiðast úr húsafriðunarsjóði.

21. gr.

     52. gr. laganna orðast svo:
     Brot gegn ákvæðum 17. gr., 19.–22. gr., 24. gr., 1. mgr. 26. gr., 28. gr., 30. gr., 2. mgr. 36. gr., 39. gr., 42. gr. og 44. gr. varða sektum til ríkissjóðs nema þyngri refsing liggi við broti skv. 177. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19 12. febrúar 1940.

22. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða orðast svo:
     Ráðið skal í allar stöður minjavarða, sbr. 4. gr., fyrir árslok 1997.

23. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1994.

Samþykkt á Alþingi 7. maí 1994.