Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 78, 119. löggjafarþing 14. mál: atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES (ráðstöfun lausra starfa).
Lög nr. 90 22. júní 1995.

Lög um breytingu á lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.


1. gr.

     Í stað orðanna „sbr. reglugerð nr. 312/76/EBE“ í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: sbr. reglugerðir nr. 312/76/EBE og nr. 2434/92/EBE.

2. gr.

     Fylgiskjal með lögunum, sbr. 2. mgr. 1. gr. þeirra, orðast svo:
     Ákvæði reglugerðar um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins nr. 1612/68/EBE, eins og henni er breytt með reglugerðum nr. 312/76/EBE og nr. 2434/ 92/EBE, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af V. viðauka, bókun 1 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og öðrum ákvæðum hans. *

*Aðlögun reglugerðarinnar er með fyrirvara um framkvæmd EFTA-ríkjanna á einstökum þáttum hennar, sbr. t.d. d-lið 4. tölul. bókunar 1.


I. HLUTI
ATVINNA OG FJÖLSKYLDUR LAUNÞEGA
I. BÁLKUR
Aðgangur að vinnumarkaði.

1. gr.

  1. Sérhver ríkisborgari EES-ríkis skal, óháð búsetu, hafa rétt til að ráða sig til vinnu sem launþegi og rækja það starf á yfirráðasvæði annars EES-ríkis í samræmi við þau ákvæði í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum er taka til atvinnumála ríkisborgara aðildarríkisins.
  2. Hann skal m.a. njóta þeirra réttinda að ráða sig til vinnu á yfirráðasvæði annars EES-ríkis með sama forgangsrétti og ríkisborgarar þess ríkis.


2. gr.

     Sérhver ríkisborgari EES-ríkis og sérhver vinnuveitandi sem rekur starfsemi á yfirráðasvæði EES-ríkis geta skipst á umsóknum og tilboðum um atvinnu og geta komið sér saman um og framkvæmt ráðningarsamninga í samræmi við ákvæði gildandi laga eða stjórnsýslufyrirmæla án þess að það leiði til nokkurrar mismununar.

3. gr.

  1. Samkvæmt þessari reglugerð skulu ákvæði í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum EES-ríkis ekki gilda í þeim tilvikum:

          —    þar sem þau takmarka umsóknir og framboð á atvinnu eða rétt erlendra ríkisborgara til að fá og stunda atvinnu eða setja þeim önnur skilyrði en þau sem gilda um þeirra eigin ríkisborgara eða

          —    þar sem meginmarkmið eða áhrif þeirra eru að halda ríkisborgurum annarra EES-ríkja frá atvinnu sem til boða stendur enda þótt það taki ekki til þjóðernis.
    Þetta ákvæði á ekki við í þeim tilvikum þar sem tungumálakunnátta skiptir máli vegna eðlis starfsins sem um er að ræða.
  2. Þetta skal einkum og sér í lagi ná til þeirra ákvæða eða venju EES-ríkis samkvæmt fyrstu undirgrein 1. mgr. sem:
    1. mæla fyrir um sérstakar reglur um ráðningar erlendra ríkisborgara;
    2. takmarka eða draga úr auglýsingum í blöðum eða öðrum fjölmiðlum á lausum störfum eða binda þau öðrum skilmálum en þeim sem gilda fyrir atvinnurekendur á yfirráðasvæði aðildarríkisins;
    3. binda aðgang að vinnumarkaðinum við skráningu á ráðningarskrifstofum eða hindra ráðningu einstakra launþega þegar um er að ræða fólk sem ekki býr á yfirráðasvæði þess aðildarríkis sem í hlut á.


4. gr.

  1. Ákvæði í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum EES-ríkis sem takmarka fjölda eða hundraðshluta erlendra ríkisborgara í fyrirtækjum, starfsgrein eða á tilteknu svæði eða á landsmælikvarða skulu ekki gilda um ríkisborgara annarra EES-ríkja.
  2. Þegar ívilnun til fyrirtækja í EES-ríki er bundin við ákveðið lágmarkshlutfall innlendra launþega skal litið á ríkisborgara annarra EES-ríkja sem innlenda samkvæmt ákvæði í tilskipun ráðsins frá 15. október 1963.1)

1)Stjtíð. EB nr. 159, 2. nóv. 1963, bls. 2661/63.


5. gr.

     Ríkisborgari aðildarríkis, sem sækir um atvinnu í öðru EES-ríki, skal njóta sömu aðstoðar þar og vinnumiðlun þess ríkis veitir innlendum ríkisborgurum sem eru í atvinnuleit.

6. gr.

  1. Ráðning og skráning ríkisborgara eins EES-ríkis í stöðu í öðru EES-ríki skal ekki vera háð neinum skilyrðum er varða heilsufar, sérþekkingu eða annað það sem gerir honum lægra undir höfði í samanburði við innlenda ríkisborgara sem gegna sama starfi í hinu EES-ríkinu.
  2. Engu að síður getur ríkisborgari, sem hefur undir höndum persónulegt starfstilboð frá vinnuveitanda í öðru EES-ríki en sínu eigin, þurft að fara í hæfnispróf hafi vinnuveitandinn sett það sem skilyrði með tilboðinu.


II. BÁLKUR
Atvinna og jafnræði við málsmeðferð.

7. gr.

  1. Ekki er heimilt að láta launþega, sem er ríkisborgari annars EES-ríkis en þess sem hann starfar í, gjalda þjóðernis síns hvað viðvíkur ráðningar- og vinnuskilyrðum, einkum og sér í lagi hvað varðar launakjör, uppsögn úr starfi og, komi til atvinnumissis, endurskipun eða endurráðningu.
  2. Hann skal njóta sömu félagslegra réttinda og skattaívilnana og innlendir launþegar.
  3. Hann skal einnig í krafti sama réttar og með sömu skilyrðum hafa sama aðgang og innlendir launþegar að þjálfun í skólum er tengjast atvinnulífinu og endurmenntunarstöðvum.
  4. Öll ákvæði í kjarasamningum eða ráðningarsamningum eða öðrum almennum reglugerðum sem varða aðgang að atvinnu og öll önnur starfsskilyrði eða uppsagnarákvæði eru ógild og að engu hafandi að svo miklu leyti sem þau mæla fyrir um eða heimila mismunun launþega sem eru ríkisborgarar annarra EES-ríkja.


8. gr.

     Launþegi, sem er ríkisborgari EES-ríkis og starfar á yfirráðasvæði annars EES-ríkis, skal njóta jafnræðis við málsmeðferð hvað varðar aðild að stéttarfélögum og njóta þess réttar er hún veitir, að meðtöldum réttinum til að greiða atkvæði og til að gegna stjórnar- og stjórnunarstörfum fyrir stéttarfélagið 1); það má meina honum að eiga sæti í stjórn nefnda sem lúta ríkisrétti eða að gegna stöðu sem er bundin af ríkisrétti. Enn fremur á hann rétt á að taka sæti í fulltrúaráði launþega við fyrirtæki. Ákvæði þessarar greinar skulu ekki hafa áhrif á lög eða reglugerðir í tilteknum EES-ríkjum sem veita launþegum sem koma frá öðrum EES-ríkjum meiri rétt.

1)Reglugerð nr. 312/76.


9. gr.

  1. Launþegi sem er ríkisborgari EES-ríkis og starfar á yfirráðasvæði annars EES-ríkis skal njóta allra sömu réttinda og ívilnana og innlendir launþegar hvað viðvíkur húsnæði; það á einnig við um eignarrétt á húsnæði sem hann þarf á að halda.
  2. Slíkur launþegi getur, með sama rétti og innlendir ríkisborgarar, látið skrá sig hjá húsnæðismiðlun á því svæði þar sem hann starfar, fari slík skráning fram, og skal hann njóta viðeigandi ívilnana og forréttinda.
    Hafi fjölskylda hans orðið eftir í landinu sem hann kom frá skal einnig tekið tillit til hennar í þessu sambandi eins og hún væri búsett á viðkomandi svæði, að því tilskildu að innlendir launþegar njóti svipaðra fríðinda.


III. BÁLKUR
Fjölskyldur launþega.

10. gr.

  1. Eftirfarandi skulu, óháð þjóðerni þeirra, hafa rétt til að koma sér fyrir hjá launþega sem er ríkisborgari eins EES-ríkis og starfar á yfirráðasvæði annars EES-ríkis:
    1. maki hans ásamt afkomendum þeirra sem eru yngri en 21 árs eða eru á þeirra framfæri;
    2. ættmenn launþega og maka hans að feðgatali sem eru á þeirra framfæri.
  2. EES-ríkin skulu auðvelda þeim aðstandendum, sem ekki heyra undir ákvæði 1. mgr. en eru á framfæri launþega sem að framan er getið eða hafa búið undir sama þaki í landinu sem hann kom frá, að koma til ríkisins.
  3. Að því er varðar 1. og 2. mgr. verður launþeginn að hafa yfir að ráða húsnæði fyrir fjölskyldu sína sem talið er hæfa innlendum launþegum á því svæði þar sem hann hefur ráðið sig til vinnu; þetta ákvæði má hins vegar ekki leiða til þess að launþegum frá öðrum EES-ríkjum sé mismunað á kostnað innlendra launþega.


11. gr.

     Í þeim tilvikum þar sem ríkisborgari EES-ríkis hefur ráðið sig til vinnu eða er sjálfstætt starfandi á yfirráðasvæði annars EES-ríkis skulu maki hans og þau barnanna, sem eru yngri en 21 árs eða eru á hans framfæri, hafa rétt til að ráða sig í hvaða vinnu sem er hvar sem er á yfirráðasvæði þess ríkis, jafnvel þó að þau séu ekki ríkisborgarar neins EES-ríkis.

12. gr.

     Börn ríkisborgara EES-ríkis, sem er eða hefur verið ráðinn til vinnu á yfirráðasvæði annars EES-ríkis, skulu eiga rétt á almennri skólagöngu í því ríki, námsvist og starfsþjálfunarnámskeiðum með sömu skilyrðum og ríkisborgarar þess ríkis, að því tilskildu að börnin búi þar.
     EES-ríkin skulu leggja sig fram um að gera þessum börnum kleift að stunda námið við ákjósanlegustu skilyrði.

II. HLUTI
ATVINNUFRAMBOÐ OG ATVINNUUMSÓKNIR
I. BÁLKUR
Samvinna á milli EFTA-ríkja og við fastanefnd EFTA.

13. gr.

  1. EFTA-ríkin eða fastanefnd EFTA skulu stofna til eða í sameiningu gera hverjar þær kannanir á atvinnutækifærum eða atvinnuleysi sem þau telja nauðsynlegar til að tryggja frelsi launþega til flutninga innan EES.
    Aðalvinnumiðlanirnar í EFTA-ríkjunum skulu eiga náið samstarf sín á milli og við fastanefnd EFTA með það að markmiði að hafa samráð um ráðningu í lausar stöður og meðferð atvinnuumsókna innan EES og yfirlit um hverjir hljóta stöður.
  2. Í þessu skyni skulu EFTA-ríkin tilnefna sérstakar þjónustuskrifstofur og ber þeim að skipuleggja þá starfsemi sem að ofan er getið og hafa samráð sín á milli og við fastanefnd EFTA.
    EFTA-ríkjunum ber að tilkynna fastanefnd EFTA um allar breytingar sem verða á tilnefningu aðila til slíkrar þjónustu og skal fastanefnd EFTA birta nákvæmar upplýsingar um þær í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópubandalagsins.


14. gr.

  1. EFTA-ríkin skulu senda fastanefnd EFTA og eftirlitsstofnun EFTA upplýsingar um vandamál sem upp kunna að koma í sambandi við frelsi til flutninga og atvinnumál launþega og nákvæmt yfirlit yfir stöðu og þróun atvinnulífs.1)
  2. Fastanefnd EFTA skal, að teknu fyllsta tilliti til álits umsjónarnefndarinnar, ákvarða með hvaða hætti upplýsingarnar, sem um getur í 1. mgr., skuli settar fram.
  3. Í samræmi við þær starfsaðferðir, sem fastanefnd EFTA ákveður að teknu fyllsta tilliti til álits umsjónarnefndarinnar1), skal þjónustuskrifstofa hvers EFTA-ríkis senda til þjónustuskrifstofa hinna EFTA-ríkjanna og til fastanefndar EFTA upplýsingar um lífskjör og vinnuskilyrði og ástand vinnumarkaðar sem líklegar eru til að koma launþegum frá öðrum EFTA-ríkjum að gagni. Upplýsingarnar skal endurskoða reglulega.
    Þjónustuskrifstofurnar í hinum EFTA-ríkjunum skulu tryggja að slíkar upplýsingar séu vel kynntar, m.a. með því að dreifa þeim á meðal viðeigandi vinnumiðlana og koma þeim á framfæri með öllum tiltækum ráðum við þá launþega sem hlut eiga að máli.

1)Reglugerð nr. 2434/92.


II. BÁLKUR
Ráðstöfun lausra starfa.

15. gr.1)

  1. Þjónustuskrifstofa hvers EFTA-ríkis skal senda reglulega til þjónustuskrifstofa hinna EFTA-ríkjanna og til fastanefndar EFTA:
    1. upplýsingar um laus störf sem ríkisborgarar hinna aðildarríkja EES geta hugsanlega gegnt;
    2. upplýsingar um laus störf sem boðin eru fram í ríkjum utan EES;
    3. upplýsingar um atvinnuumsóknir fólks sem hefur lýst sig reiðubúið til að starfa í öðru EES-ríki;
    4. upplýsingar, sundurliðaðar eftir svæðum og greinum, um umsækjendur sem hafa í raun lýst sig reiðubúna til að taka atvinnutilboði í öðru landi.
    Þjónustuskrifstofa hvers EFTA-ríkis skal senda slíkar upplýsingar áfram til viðkomandi vinnumiðlana og vinnumálaskrifstofa eins fljótt og kostur er.
  2. Upplýsingum um lausar stöður og umsóknir, sem um getur í 1. mgr., skal dreift samkvæmt samræmdu heildarkerfi sem fastanefnd EFTA skal koma á fót, í samvinnu við umsjónarnefndina.
    Ef nauðsynlegt reynist getur fastanefnd EFTA aðlagað þetta kerfi í samvinnu við umsjónarnefndina.

1)Reglugerð nr. 2434/92.


16. gr.1)

  1. Þar til bærar vinnumiðlanir hinna EFTA-ríkjanna skulu láta tilkynningar berast um sérhvert laust starf í skilningi 15. gr. sem er tilkynnt til vinnumiðlana EES-ríkis og vinna úr þeim.
    Þessir aðilar skulu senda vinnumiðlunum fyrstnefnda EFTA-ríkisins upplýsingar um gildar umsóknir.
  2. Viðkomandi vinnumiðlanir EFTA-ríkjanna skulu svara atvinnuumsóknunum sem um getur í c-lið 1. mgr. 15. gr. innan hæfilegs frests sem sé eigi lengri en einn mánuður.
  3. Vinnumiðlanirnar skulu veita launþegum, sem eru ríkisborgarar annarra EES-ríkja, sömu forréttindi og gert er ráð fyrir samkvæmt viðeigandi ráðstöfunum að innlendir ríkisborgarar njóti miðað við launþega sem eru ríkisborgarar landa utan EES.

1)Reglugerð nr. 2434/92.


17. gr.

  1. Þjónustuskrifstofurnar skulu annast framkvæmd ákvæða 16. gr. Hins vegar, að svo miklu leyti sem höfuðstöðvarnar heimila og að svo miklu leyti sem skipulag vinnumiðlana í EFTA-ríki og úthlutunaraðferðir leyfa:
    1. skulu svæðisbundnar vinnumiðlanir EFTA-ríkis:
      1. á grundvelli upplýsinganna1) sem getið er í 15. gr. og viðeigandi aðgerðir byggjast á, safna saman og ráðstafa lausum störfum og atvinnuumsóknum;
      2. koma á beinum tengslum við ráðstöfun:

              —    starfa sem boðin hafa verið tilteknum launþega;

              —    einstakra atvinnuumsókna sem sendar hafa verið annaðhvort til sérstakra vinnumiðlana eða til vinnuveitanda sem rækir starfsemi á því svæði sem miðlunin nær til;

              —    starfa til handa árstíðabundnu vinnuafli sem ráða verður eins skjótt og auðið er;


    2. skulu vinnumiðlanir, sem ná til svæða sem liggja að landamærum tveggja eða fleiri EFTA-ríkja, skiptast reglulega á gögnum er varða laus störf og óafgreiddar atvinnuumsóknir á þeirra svæði og með sama hætti og gert er gagnvart öðrum vinnumiðlunum í löndum þeirra miðla og ráðstafa lausum störfum og atvinnuumsóknum;
      ef nauðsynlegt reynist skulu vinnumiðlanir, sem ná til svæða sem liggja að landamærum, einnig koma á samvinnu- og þjónustukerfi með það í huga að geta boðið:

            —    notendum eins miklar hagnýtar upplýsingar um hinar ýmsu hliðar flutningafrelsisins og hægt er og

            —    stofnunum vinnumarkaðarins, félagsmálastofnunum (m.a. opinberum, einkareknum og þeim sem nýtast almenningi) og öllum stofnunum sem málið varðar, samþættar ráðstafanir er tengjast frelsi til flutninga; 1)

    3. skulu opinberar vinnumiðlanir, sem sérhæfa sig í tilteknum starfsgreinum eða láta sig varða sérstaka hópa fólks, eiga beina samvinnu hver við aðra.

  2. EFTA-ríkin, sem hlut eiga að máli, skulu senda fastanefnd EFTA skrá, sem samráð er haft um, yfir þær stofnanir sem um getur í 1. mgr.; fastanefnd EFTA skal birta þessa skrá ásamt þeim breytingum sem kunna að verða á henni í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópubandalagsins.

1)Reglugerð nr. 2434/92.


18. gr.

     Ekki er skylt að taka upp þær ráðningaraðferðir sem framkvæmdaraðilar beita og kveðið er á um í samkomulagi sem tvö eða fleiri EES-ríki gera sín á milli.

III. BÁLKUR
Leiðir til að hafa eftirlit með jafnvægi á vinnumarkaðinum.

19. gr.

  1. Á grundvelli skýrslu frá fastanefnd EFTA, sem unnin er úr upplýsingum frá EFTA-ríkjunum, skulu EFTA-ríkin og fastanefnd EFTA kanna sameiginlega minnst einu sinni á ári árangur aðgerða EES vegna lausra starfa og atvinnuumsókna.1)
  2. EES-ríkin skulu ásamt fastanefnd EFTA kanna öll tiltæk ráð til að veita ríkisborgurum aðildarríkjanna forgang þegar ráðið er í lausar stöður til að leitast við að koma á jafnvægi milli framboðs og umsókna um störf innan EES. Þau skulu beita öllum tiltækum ráðum í þessu skyni.
  3. Annað hvert ár skal fastanefnd EFTA leggja fram skýrslu um framkvæmd II. hluta þessarar reglugerðar þar sem gerð er grein fyrir þeim upplýsingum sem hafa borist og niðurstöðum athugana og rannsókna sem hafa farið fram með sérstakri áherslu á gagnlegar upplýsingar er varða þróun vinnumarkaðarins á Evrópska efnahagssvæðinu.1)

1)Reglugerð nr. 2434/92.


20. gr.1)

     [Fellur brott.]

1)Reglugerð nr. 2434/92.


IV. BÁLKUR
Evrópska samráðsskrifstofan.1)

21. gr.

     Evrópska skrifstofan, sem samræmir ráðstafanir vegna atvinnutækifæra og atvinnuumsókna og stofnuð var á vegum framkvæmdastjórnarinnar (í þessari reglugerð nefnd „evrópska samráðsskrifstofan“), skal almennt gegna því hlutverki að miðla upplýsingum um atvinnutækifæri innan bandalagsins. Hún skal einkum bera ábyrgð á öllum formsatriðum er varða þennan málaflokk sem samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar falla undir framkvæmdastjórnina og ekki síst aðstoða innlendar vinnumiðlanir.
     Henni ber að taka saman þær upplýsingar sem um getur í 14. og 15. gr. ásamt niðurstöðum kannana og rannsókna sem gerðar eru skv. 13. gr. í því skyni að varpa ljósi á gagnlegar staðreyndir um fyrirsjáanlega þróun á vinnumarkaði bandalagsins. Slíkum staðreyndum skal komið á framfæri við þjónustuskrifstofur aðildarríkjanna og við ráðgjafar- og umsjónarnefndirnar.

1)Af hálfu EFTA-ríkjanna skal fastanefnd EFTA sinna þessu hlutverki innan EES.


22. gr.

  1. Evrópska samráðsskrifstofan skal einkum sjá um að:
    1. samræma þær aðferðir sem þörf er á til að manna laus störf innan bandalagsins og hafa yfirlit yfir þá flutninga launþega sem af hljótast;
    2. vinna að þessum markmiðum með því að stuðla að því í samvinnu við umsjónarnefndina að sambærilegar aðferðir séu notaðar bæði á stjórnunar- og framkvæmdastigi;
    3. safna saman þegar sérstaka nauðsyn ber til í samvinnu við þjónustuskrifstofurnar upplýsingum um laus störf og atvinnuumsóknum svo að unnt sé að ráðstafa þeim hjá þjónustuskrifstofunum.

  2. Henni ber að tilkynna þjónustuskrifstofunum um laus störf og atvinnuumsóknir sem sendar hafa verið beint til framkvæmdastjórnarinnar og fá upplýsingar um viðbrögð við þeim.


23. gr.

     Framkvæmdastjórnin getur, í samvinnu við lögbært yfirvald í hverju aðildarríki fyrir sig og í samræmi við þá skilmála og þær aðferðir sem hún skal ákveða á grundvelli álitsgerðar umsjónarnefndarinnar, skipulagt heimsóknir og verkefni fyrir embættismenn annarra aðildarríkja og einnig framhaldsnámskeið fyrir sérmenntað starfsfólk.

III. HLUTI
NEFNDIR SEM EIGA AÐ TRYGGJA NÁNA SAMVINNU MILLI AÐILDARRÍKJANNA Í MÁLEFNUM ER VARÐA FRJÁLSA FLUTNINGA LAUNÞEGA OG ATVINNUMÁL ÞEIRRA
I. BÁLKUR
Ráðgjafarnefndin.1)

24. gr.

     Ráðgjafarnefndin ber ábyrgð á að aðstoða framkvæmdastjórnina við að athuga vafamál sem upp kunna að koma við beitingu sáttmálans og í sambandi við ráðstafanir sem gerðar eru á grundvelli hans og varða frelsi launþega til flutninga og störf þeirra.

1)Fastanefnd EFTA getur komið á fót undirnefndum til að sinna þessum verkefnum.


25. gr.

     Ráðgjafarnefndin ber einkum ábyrgð á að:
  1. rannsaka mál er varða frjálsa flutninga launþega og atvinnumál innan ramma innlendrar vinnumálastefnu með það að leiðarljósi að samræma vinnumálastefnu aðildarríkjanna á bandalagsgrundvelli og á þann hátt stuðla að aukinni efnahagslegri þróun og jafnvægi á vinnumarkaði;
  2. gera almenna úttekt á þeim áhrifum sem framkvæmd þessarar reglugerðar og aðrar viðbótarráðstafanir hafa;
  3. koma til framkvæmdastjórnarinnar rökstuddum tillögum um endurskoðun á þessari reglugerð;
  4. láta í té, hvort heldur sem er að beiðni framkvæmdastjórnarinnar eða að eigin frumkvæði, rökstudda álitsgerð um almenn atriði eða meginreglur, einkum og sér í lagi hvað varðar upplýsingaskipti um þróun mála á vinnumarkaðinum, um flutninga launþega milli aðildarríkja, um áætlanir eða ráðstafanir til eflingar starfsleiðbeiningum eða starfsþjálfun sem er líkleg til að efla frelsi til flutninga og atvinnuskipta, jafnframt um alla þá aðstoð sem launþegar og fjölskyldur þeirra eiga kost á að meðtalinni félagslegri aðstoð og húsnæðisöflun launþega.

26. gr.

  1. Ráðgjafarnefndin skal skipuð sex fulltrúum frá hverju aðildarríki, tveir eru ríkisstjórnarfulltrúar, tveir eru frá launþegasamtökum og tveir frá samtökum vinnuveitenda.
  2. Hvert aðildarríki skal tilnefna einn varamann fyrir hvern hóp sem tilgreindur er í 1. mgr.
  3. Starfstími fulltrúanna og varamanna þeirra skal vera tvö ár. Heimilt er að endurskipa þá.

     Er starfstíminn rennur út skulu bæði aðal- og varamenn sitja þar til aðrir hafa verið skipaðir í þeirra stað eða skipanir þeirra endurnýjaðar.

27. gr.

     Ráðið skal skipa bæði aðal- og varamenn í ráðgjafarnefndina og kappkosta þegar fulltrúar launþegasamtakanna og samtaka vinnuveitenda eru valdir að þeir komi frá hinum ýmsu geirum efnahagslífsins.
     Ráðið skal láta birta til upplýsingar skrá yfir aðal- og varamenn í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins.

28. gr.

     Fulltrúi úr framkvæmdastjórninni eða varamaður hans skal vera formaður ráðgjafarnefndarinnar. Formaðurinn hefur ekki atkvæðisrétt. Nefndin skal koma saman tvisvar á ári hið minnsta. Formaðurinn kallar hana saman, annaðhvort að eigin frumkvæði eða að beiðni að minnsta kosti þriðjungs nefndarmanna. Framkvæmdastjórnin skal sjá nefndinni fyrir skrifstofuþjónustu.

29. gr.

     Formaðurinn getur boðið einstaklingum eða fulltrúum aðila sem hafa víðtæka reynslu af atvinnu- eða flutningsmálum launþega að taka þátt í fundum sem áheyrnarfulltrúar eða sem sérfræðingar. Formaðurinn getur leitað ráða hjá sérfræðingum.

30. gr.

  1. Álitsgerð nefndarinnar telst ekki gild nema að minnsta kosti tveir þriðju hlutar fulltrúanna séu viðstaddir.
  2. Álitsgerðir skulu vera rökstuddar og þær teljast samþykktar þegar fyrir þeim er hreinn meiri hluti gildra atkvæða. Þeim skal fylgja skrifleg greinargerð með áliti minni hlutans fari hann fram á það.


31. gr.

     Ráðgjafarnefndin skal setja sér starfsreglur samkvæmt reglum um málsmeðferð sem skulu taka gildi þegar ráðið að fengnu áliti framkvæmdastjórnarinnar hefur gefið samþykki sitt. Gildistaka breytinga, sem nefndin kann að gera á þessum starfsreglum, skal háð sömu málsmeðferð.

II. BÁLKUR
Umsjónarnefndin.1)

32. gr.

     Umsjónarnefndin ber ábyrgð á að aðstoða framkvæmdastjórnina við að undirbúa, stuðla að og fylgja eftir öllum formsatriðum og ráðstöfunum sem miða að því að koma þessari reglugerð ásamt viðbótarráðstöfunum í framkvæmd.

1)Fastanefnd EFTA getur komið á fót undirnefndum til að sinna þessum verkefnum.


33. gr.

     Umsjónarnefndin ber einkum ábyrgð á að:
  1. koma á og bæta samvinnu milli þeirra yfirvalda sem hlut eiga að máli í aðildarríkjunum varðandi öll formsatriði í tengslum við frjálsa flutninga launþega og atvinnumál þeirra;
  2. móta aðferðir við skipulag sameiginlegra aðgerða opinberra yfirvalda sem í hlut eiga;
  3. auðvelda söfnun upplýsinga sem líklegar eru til að koma framkvæmdastjórninni að gagni og sem nota má í þeim könnunum og rannsóknum sem kveðið er á um í þessari reglugerð og hvetja stjórnsýsluaðila sem málið varðar til að skiptast á upplýsingum og miðla reynslu;
  4. kanna formsatriði er varða samhæfingu viðmiðana sem aðildarríki nota til að meta stöðu vinnumarkaðarins.


34. gr.

  1. Umsjónarnefndin skal skipuð fulltrúum ríkisstjórna aðildarríkjanna. Hver ríkisstjórn skal tilnefna í umsjónarnefndina einn af fulltrúum sínum í ráðgjafarnefndinni.
  2. Sérhver ríkisstjórn skal tilnefna varamann úr hópi annarra fulltrúa — aðal- eða varamanna — í ráðgjafarnefndina.


35. gr.

     Fulltrúi úr framkvæmdastjórninni eða varamaður hans skal vera formaður umsjónarnefndarinnar. Formaðurinn hefur ekki atkvæðisrétt. Formaðurinn og meðlimir nefndarinnar geta leitað ráða hjá sérfræðingum.
     Framkvæmdastjórnin skal sjá nefndinni fyrir skrifstofuþjónustu.

36. gr.

     Tillögur og álitsgerðir umsjónarnefndarinnar skulu berast til framkvæmdastjórnarinnar og skal tilkynna það ráðgjafarnefndinni. Skrifleg greinargerð með álitsgerð einstakra nefndarmanna umsjónarnefndarinnar skal fylgja öllum tillögum og álitsgerðum fari þeir fram á það.

37. gr.

     Umsjónarnefndin skal setja sér starfsreglur samkvæmt reglum um málsmeðferð sem skulu taka gildi þegar ráðið að fengnu áliti framkvæmdastjórnarinnar hefur gefið samþykki sitt. Gildistaka breytinga, sem nefndin kann að gera á þessum starfsreglum, skal háð sömu málsmeðferð.

IV. HLUTI
BRÁÐABIRGÐA- OG LOKAÁKVÆÐI
I. BÁLKUR
Bráðabirgðaákvæði.

38. gr.

     Þar til fastanefnd EFTA hefur komið á samræmda heildarkerfinu sem greint er frá í 2. mgr. 15. gr. skal samráðsskrifstofan koma með tillögur um leiðir sem líklegar eru til að koma að haldi við að semja og dreifa skýrslunum sem getið er í 1. mgr. 15. gr.

39. gr.

     Reglur ráðgjafar- og umsjónarnefndarinnar um málsmeðferð, sem eru í gildi við gildistöku þessarar reglugerðar, eiga áfram við.

40. gr.

     [Gildir ekki.]

41. gr.

     [Gildir ekki.]

II. BÁLKUR
Lokaákvæði.

42. gr.

  1. [1. mgr. gildir ekki.]
    Engu að síður skal þessi reglugerð ná til þeirra hópa launþega sem um getur í fyrstu undirgrein og til aðstandenda þeirra, að svo miklu leyti sem réttarstaða þeirra ræðst ekki af ofangreindum sáttmálum eða ráðstöfunum.
  2. Reglugerð þessi skal ekki hafa áhrif á ráðstafanir sem gripið er til skv. 29. gr. EES-samningsins.
  3. Reglugerð þessi skal ekki hafa áhrif á skuldbindingar EES-ríkjanna vegna:

          —    sérstakra sambanda eða komandi samninga við tiltekin lönd eða yfirráðasvæði utan Evrópu er byggjast á tengslum milli stofnana sem eru til staðar við gildistöku þessarar reglugerðar eða

          —    samninga sem eru í gildi við gildistöku þessarar reglugerðar við tiltekin lönd eða yfirráðasvæði utan Evrópu er byggjast á tengslum milli stofnana þeirra.
    Launþegar frá slíkum löndum eða yfirráðasvæðum, sem í samræmi við þetta ákvæði stunda vinnu á yfirráðasvæði einhvers þessara EES-ríkja, geta ekki borið fyrir sig eða notið ákvæða þessarar reglugerðar á yfirráðasvæðum hinna EES-ríkjanna.


43. gr.

     EFTA-ríkin skulu í upplýsingaskyni senda fastanefnd EFTA texta samkomulags, samninga eða samþykkta sem þau hafa gert sín á milli varðandi launþega á tímabilinu frá undirritun þeirra til gildistöku.

44. gr.

     Framkvæmdastjórnin skal gera tilheyrandi ráðstafanir samkvæmt þessari reglugerð svo að hún komist til framkvæmdar. Hún skal í þessu skyni eiga náið samstarf við opinber stjórnvöld í aðildarríkjunum.

45. gr.

     Framkvæmdastjórnin skal koma til ráðsins tillögum sem miða að því að afnema í samræmi við skilmála sáttmálans takmarkanir á aðgangi launþega sem eru ríkisborgarar aðildarríkjanna að vinnumarkaðinum í þeim tilvikum þar sem skortur á gagnkvæmri viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum eða öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi getur hindrað frelsi launþega til flutninga.

46. gr.

     Stjórnsýsluútgjöld nefndanna, sem um getur í III. hluta, skulu talin með í þeim hluta fjárhagsáætlunar Evrópubandalagsins sem tilheyrir framkvæmdastjórninni.

47. gr.

     Reglugerð þessi gildir fyrir yfirráðasvæði aðildarríkjanna og ríkisborgara þeirra, sbr. þó 2., 3., 10. og 11. gr.

48. gr.

     [Gildir ekki.]

VIÐAUKI1)
     [Fellur brott.]

1)Reglugerð nr. 2434/92.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 12. júní 1995.