Ferill 225. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 225 . mál.


443. Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Óhjákvæmilegt er að gera í upphafi alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og meiri hluta hennar á þingi í þessu máli. Í tengslum við frumvarp til fjárlaga er verið að gera ýmsar breytingar á sérlögum og eins og stundum áður er valin sú leið að senda Alþingi lagafrumvarp þar sem komið er inn skerðingarákvæðum gagnvart ýmsum ákvæðum sérlaga. Í daglegu tali ganga slíkar sendingar undir nafninu bandormar og þykja þeir ekki alltaf til fyrirmyndar. Þó verður að segja að nú tekur steininn úr því að ríkisstjórnin hefur lagt fyrir Alþingi bandorm sem er einstakur í sinni röð. Í fyrsta lagi er hann sá allra skrautlegasti og lengsti sem sögur fara af en í rúmlega 60 lagagreinum eru lagðar til breytingar á ekki færri en 33 mismunandi lögum. Einna alvarlegast er þó að eðli þessa bandorms er alveg nýtt. Hér eru lagðar til í fjölmörgum tilvikum varanlegar breytingar, varanlegar skerðingar eða stefnubreytingar og er þar stundum um ákvæði að ræða sem eru lítt eða ekki tengd afgreiðslu fjárlaga fyrir komandi ár. Það hefur þótt slæmt og lítt til eftirbreytni fallið að grauta saman í einn bandorm fjöldanum öllum af óskyldum ákvæðum úr mismunandi lögum og breyta þeim þannig tímabundið vegna afgreiðslu fjárlaga til eins árs. Þó er sýnu alvarlegra ef á að fara út á þá braut að gera varanlegar lagabreytingar með slíkum bandormum og jafnvel framkvæma grundvallarstefnubreytingar í viðamiklum málaflokkum eins og heilbrigðismálum og á almannatryggingalöggjöfinni og jafnvel leiða til lykta stórpólitísk ágreiningsmál með þeim hætti.
    Minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar mótmælir þessum vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar alveg sérstaklega og harðlega. Minni hlutinn telur að þessi ósiður við lagasetningu, verði hann látinn ganga yfir þingið, hafi ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér og stórspilli öllu andrúmslofti í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu. Hér er verið að innleiða óþolandi vinnubrögð, hroðvirkni og metnaðarleysi við lagasetningu sem allra síst er samboðin einni elstu löggjafarsamkomu heimsins eins og Alþingi stærir sig gjarnan af að vera.
    Minni hlutinn hefur leitað eftir samkomulagi við meiri hlutann og ríkisstjórn um að breyta uppsetningu frumvarpsins í grundvallaratriðum þannig að öllum hefðbundnum skerðingarákvæðum verði breytt í tímabundin ákvæði, venjubundin „þrátt-fyrir“-ákvæði og ný efnisatriði verði annaðhvort meðhöndluð á sama hátt eða þau hverfi úr frumvarpinu. Hefði ríkisstjórnin verið tilbúin til að koma til móts við óskir minni hlutans í þessum efnum hefði það auðveldað mjög samkomulag um afgreiðslu mála þótt eftir stæði pólitískur ágreiningur um ýmis grundvallaratriði. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur f.h. meiri hlutans borið þau skilaboð inn í nefndina að slíkt sé ekki til umræðu og strandi þar einkum og sér í lagi á forsætisráðherra.
    Fyrir utan þær athugasemdir, sem hér hafa verið gerðar um málsmeðferð ríkisstjórnarinnar og eðli þessa þingmáls sem hér er til umræðu, er ljóst að í frumvarpinu er í mörgum tilvikum um stórpólitísk átakamál að ræða. Til að nefna nokkur þau helstu má í fyrsta lagi taka þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að skerða verulega þegar á fyrsta ári lög um greiðslur ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Í öðru lagi þá grundvallarbreytingu að afnema tengingu atvinnuleysisbóta og elli- og örorkulífeyrisbóta við almenna launaþróun. Í þriðja lagi má nefna ýmsa skerðingu í málefnum fatlaðra og aldraðra og er reyndar ljóst að margþættar atlögur ríkisstjórnarinnar að öldruðum keyra um þverbak við afgreiðslu fjárlaga og efnahagsfrumvarpa ríkisstjórnarinnar. Harkalegur niðurskurður í samgöngumálum er einnig mjög gagnrýniverður og ekki síst hvernig flugmálaáætlun er slátrað. Hér á eftir verður gerð grein fyrir efni einstakra greina og kafla í þeirri röð sem þeir koma fyrir í frumvarpinu.

1. Málefni á sviði menntamálanefndar.
    Í 1.–5. gr. frumvarpsins er fjallað um skerðingu og varanlega breytingu á nokkrum liðum sem falla undir málefnasvið menntamálanefndar. Er þar í fyrsta lagi um að ræða breytingu á lögum um Listskreytingasjóð, í öðru lagi lögum um kvikmyndamál, í þriðja lagi útvarpslögum og í fjórða lagi þjóðminjalögum. Í öllum tilvikum er um að ræða að fjárveitingar til viðkomandi málaflokka, sem að einhverju leyti hafa verið skertar með „þrátt-fyrir“-ákvæðum undanfarin ár, verði nú með varanlegum hætti miðaðar við framlag úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni. Breytingarnar á útvarpslögum fela þó í sér að einfaldlega verður fellt niður ákvæði um að aðflutningsgjöld af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum skuli renna í Framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins. Sérstaklega ámælisverð er sú breyting, sem lögð er til á þjóðminjalögum, að þar skuli framlag ríkissjóðs eftirleiðis miðast við þá upphæð sem ákveðin er í fjárlögum hverju sinni í stað þess að núgildandi lög kveða á um að 100 kr. á hvern íbúa landsins skuli renna sem framlag ríkissjóðs í húsafriðunarsjóð. Á móti skulu koma framlög sveitarfélaganna upp á 100 kr. á hvern íbúa í hlutaðeigandi sveitarfélagi. Frumvarpið gerir ráð fyrir að þetta ákvæði, sem skyldar sveitarfélögin nú til að leggja 150 kr. á hvern íbúa hlutaðeigandi sveitarfélags, skuli haldast en ríkið skuli hins vegar leyst undan skyldu sinni til að leggja jafnhátt framlag á móti. Segir þessi breyting allt sem segja þarf um þann anda sem kemur fram gagnvart samskiptum ríkisvalds og sveitarfélaga. Að öðru leyti vísar minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar til álits minni hluta menntamálanefndar ásamt fylgiskjölum.

2. Málefni á sviði landbúnaðarnefndar.

    Í 6.–10. gr. eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum sem varða landbúnaðarmál. Þar er í fyrsta lagi um að ræða breytingu á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins, í öðru lagi lögum um búfjárrækt, í þriðja lagi jarðræktarlögum, í fjórða lagi lögum um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum og loks lögum um flokkun og mat á gærum og ull. Hér eru á ferðinni að mestu leyti gamalkunnug ákvæði og skerðingar á fjárframlögum eða lagaákvæðum sem hafa verið árviss. Þess ber þó að geta að þeim ákvæðum hefur ætíð verið breytt tímabundið með „þrátt-fyrir“-ákvæðum en ekki varanlega. Gilda því sömu athugasemdir um hina formlegu hlið málsins um varanlegar breytingar. Um efni breytinganna er hins vegar vísað til álits landbúnaðarnefndar og er tekið undir þær breytingartillögur sem nefndin leggur til.

3. Málefni á sviði sjávarútvegsnefndar.
    Í 11.–16. gr. frumvarpsins eru gerðar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og lögum um Fiskveiðasjóð, einnig lögum um Fiskistofu og lögum um reikningaskrifstofu sjávarútvegsins. Verður að segjast eins og er að þessar lagagreinar eiga afar lítið erindi inn í frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, enda í litlum tengslum við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins. Að vísu á gjaldtaka skv. 12. gr. að skila ríkissjóði óverulegum fjárhæðum á síðustu mánuðum komandi árs. Minni hlutinn varar við því að hróflað sé við lögum um Fiskveiðasjóð miðað við þær aðstæður að fyrir dyrum standi heildarendurskoðun á stöðu sjóðsins og jafnvel breyting á sjóðnum í hlutafélag. Er því ástæðulaust að gera nú þá breytingu sem 11. gr. laganna gerir ráð fyrir. Hvað varðar 12.–14. gr. má færa fyrir því viss rök að um samræmingu sé að ræða, sem ekki sé ástæða til að leggjast efnislega gegn, en ítrekað skal að um mjög litla upphæð eða u.þ.b. 2 millj. kr. er að ræða í tekjum, sem álagning gjalds á afla krókaleyfisbáta og tvöföldun línuafla á að skila á næsta ári. Ekkert rekur því á eftir varanlegri lagabreytingu á þessari stundu og nægur tími hefði verið til að fjalla um slíkt í betra tómi á vormissirinu. Hvað varðar 15. og 16. gr., sem einnig tengjast málefnum sjávarútvegs, er þar annars vegar fjallað um Fiskistofu og hins vegar um reikningaskrifstofu sjávarútvegsins. Þá tekur minni hlutinn undir það álit minni hluta sjávarútvegsnefndar að allt of skammur tími hafi unnist til að skoða þessar breytingar og ekki sé ráðlegt að gera þær án þess að nokkurt samkomulag liggi fyrir milli viðkomandi aðila sem hér eiga hlut að máli, þ.e. fyrst og fremst Fiskifélags Íslands annars vegar og Fiskistofu og sjávarútvegsráðuneytis hins vegar. Að öðru leyti er vísað til umsagnar minni hluta sjávarútvegsnefndar.

4. Breyting á lögum um kirkjubyggingasjóð.
    Um hefðbundið skerðingarákvæði á mörkuðum tekjustofni er að ræða eða á framlagi ríkisins sem hér eftir skal ákvarðast af fjárlögum hverju sinni. Þetta framlag hefur verið skert eða fellt niður með sérstöku tímabundnu ákvæði nokkur undanfarin ár. Er vísað til þess sem áður hefur verið sagt um sambærilegar breytingar.

5. Greiðslur ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.
    Hér er á ferðinni fádæma lágkúra af hálfu ríkisstjórnarinnar en mikil réttarbót fólst í löngu tímabærum lögum um þessi mál sem voru afgreidd í góðu samkomulagi allra aðila á þingi sl. vetur skömmu fyrir kosningar. Með þessum tillögum ríkisstjórnarinnar á nánast að rústa lögunum áður en þau ná að verða ársgömul og koma til framkvæmda. Er það gert með frestun gildistöku laganna en þó fyrst og fremst með stórfelldum skerðingum þeirra upphæða sem ríkissjóður greiðir af dæmdum eða ákvörðuðum bótum. Minni hlutinn mótmælir þessu harðlega en vísar að öðru leyti til umfjöllunar minni hluta allsherjarnefndar um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

6. Sýslumannsembætti.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að á næsta ári verði lögð niður tvö sýslumannsembætti, þ.e. sýslumannsembættin í Bolungarvík og Ólafsfirði. Ekki hafa komið fram í umfjöllun um málið sterk rök fyrir því að velja úr þessi sýslumannsembætti sérstaklega, þó að sjálfsögðu mæli margt með því að endurskipuleggja og bæta rekstur sýslumannsembættanna í landinu. Undir lok umfjöllunar efnahags- og viðskiptanefndar um málið komu þau skilaboð frá meiri hlutanum að í stjórnarherbúðunum væru menn fallnir frá því að láta þessar breytingar koma til framkvæmda og er því ekki meira um það mál að segja á þessu stigi.


7. Málefni fatlaðra.
    Um er að ræða breytingu á annars vegar lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, og hins vegar lögum um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila. Í 22. gr. segir að þrátt fyrir ákvæði í 40. gr. laga um málefni fatlaðra skuli verja allt að 40% af ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs fatlaðra á árinu 1996 til tiltekinna rekstrarverkefna samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra. Hér er á ferðinni endurvakið ákvæði frá fyrra ári og felur það í sér að fjármunum sjóðsins skuli nú ekki einungis varið til framkvæmda eins og upphaflega var, og síðan bættist við meiri háttar viðhald, heldur einnig til rekstrar. Hefur þá á skömmum tíma orðið sú breyting að stór hluti tekna sjóðsins rennur til slíkra hluta. Enn alvarlegra er að skv. 23. gr. er sett þak á tekjur af erfðafjárskatti á árinu 1996 við 257 millj. kr. og skal það sem þar er umfram renna í ríkissjóð. Er þar á ferðinni umtalsverð upptaka á þessum tekjustofni. Upplýst er að um 133 millj. kr. upptöku á tekjum af erfðafjárskatti sé að ræða sem renni í ríkissjóð en samkvæmt tekjuáætlun fyrir Framkvæmdasjóð fatlaðra, sem lögð var fram í efnahags- og viðskiptanefnd, koma til viðbótar tekjum upp á 257 millj. kr., tekjur vegna sölu Sólborgar upp á 80 millj. kr. og tekjur umfram áætlun í fjárlögum árið 1995 upp á aðrar 80 millj. kr. Hina hraklegu útreið á málefnum fatlaðra í frumvarpinu getur minni hlutinn engan veginn sætt sig við og mótmælir henni harðlega. Einnig vakna áleitnar spurningar þegar ljóst er að ríkissjóður skerðir tekjur af erfðafjárskatti um svipaða upphæð og fæst fyrir sölu á eignum Sólborgar þannig að í reynd er ríkissjóður að hirða þessa eign sem að miklu leyti var byggð fyrir samskot, gjafir og áheit. Það hlýtur í því ljósi að teljast mjög ámælisvert að láta ekki málaflokkinn sem slíkan njóta sölu þessarar eignar í formi viðbótarfjármuna sem renni til viðurkenndra þarfa á þessu sviði.

8. Bjargráðasjóður.
    Með sambærilegum hætti og í öðrum tilvikum er nú kveðið á um að framlag ríkissjóðs skuli verða samkvæmt fjárlögum hverju sinni og gerir minni hlutinn ekki aðrar athugasemdir en þær sem lúta að hinni formlegu hlið málsins og áður hefur verið gerð grein fyrir.

9. Atvinnuleysistryggingar.
    Í 25.–29. gr. eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuleysisbætur og fela þær annars vegar í sér að fella skuli brott þau ákvæði laganna sem kveða á um bein framlög ríkisins sem tekjustofn inn í Atvinnuleysistryggingasjóð. Eru þær breytingar í tengslum við breytingu á lögum um tryggingagjald. Hin meginbreytingin er sú að afnumin er sú tenging sem verið hefur á milli atvinnuleysisbóta og launaþróunar samkvæmt tiltekinni viðmiðun. Þessari grundvallarbreytingu mótmælir minni hlutinn mjög harðlega. Hér er á ferðinni atlaga að mikilvægum grundvallarréttindum í velferðarkerfi okkar sem fyrir eru færð þau málamyndarök að verið sé að afnema verðtryggingu og sjálfvirkni í kerfinu almennt. Í því felst að sjálfsögðu engin verðtrygging eða óeðlileg sjálfvirkni þó að tekið sé mið af tilteknum launagreiðslum í þjóðfélaginu þegar réttindi af þessum toga eru ákvörðuð. Hér er á ferðinni einhliða breyting á grundvallarréttindum og einnig talsverð breyting á anda þeirra samskipta sem hafa verið á milli ríkisvalds annars vegar og sveitarfélaga og verkalýðshreyfingarinnar hins vegar um þennan málaflokk. Verður að átelja mjög harðlega hvernig að þessu er staðið af hálfu ríkisstjórnarinnar hvað efni, form og aðferð áhrærir. Að öðru leyti vísar minni hlutinn í álit minni hluta félagsmálanefndar.

10. Málefni á sviði heilbrigðis- og trygginganefndar.
    Í greinum 30–50 er fjallað um lagaákvæði sem vísað var til heilbrigðis- og trygginganefndar að undanskildum 37.–39. gr. sem taka til breytinga á lögum um eftirlaun aldraðra og var vísað til félagsmálanefndar. Greinarnar ná til breytinga á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um málefni aldraðra og lögum um heilbrigðisþjónustu. Hvað almannatryggingalögin snertir eru tvímælalaust alvarlegust ákvæði 30. gr. um að taka skuli upp þá reglu að fjármagnstekjur skerði almannatryggingar og hlýtur að teljast harla sérkennilegt að byrja á því að skerða greiðslur úr almannatryggingakerfinu á þessum grundvelli áður en fjármagnstekjuskattur er almennt kominn til framkvæmda. Hafnar minni hlutinn þeirri breytingu og jafnvel þótt boðuð breytingartillaga meiri hlutans um að lækka það hlutfall slíkra tekna sem metnar eru úr 70 hundraðshlutum í 50 nái fram að ganga. Að hinu leytinu til er í 35. gr. lögð til sú grundvallarbreyting á lögunum um almannatryggingar að horfið verði frá viðmiðun við almenna launaþróun í landinu við ákvörðun á upphæð þessara bótagreiðslna yfir í það að þær skuli ákvarðast einvörðungu af upphæðum samkvæmt fjárlögum hvers árs. Hér er á ferðinni enn ein af fjölmörgum atlögum ríkisstjórnarinnar að þessum hópum sem ástæða er til að mótmæla mjög harðlega.

11. Eftirlaun aldraðra.
    Um 37.–39. gr. er það að segja að þær eru afleiðing breytinga sem verið er að gera á tryggingagjaldi og málefnum Atvinnuleysistryggingasjóðs þar sem kostnaður af eftirlaunum aldraðra samkvæmt lögum nr. 113/1994 á hér eftir að greiðast úr ríkissjóði í staðinn fyrir Atvinnuleysistryggingasjóði. Af öðru leyti skýrast þessi ákvæði af þeim breytingum, sem af þessu stafa, og telur minni hlutinn ekki ástæðu til að fjalla frekar um þau mál að öðru leyti en því að ítreka að breytingar af þessu tagi er eðlilegra að taka til umfjöllunar í sérfrumvörpum.

12. Félagsleg aðstoð.
    Greinar 40–44 fjalla um breytingar á lögum um félagslega aðstoð og er þar á ferðinni skerðing á mæðra- og feðralaunum sem á að fella niður með einu barni og lækka með tveimur og þremur börnum og hafa þessar breytingar verið rökstuddar með þeim undarlega hætti að þessar upphæðir hafi hvort eð er verið svo lágar. Slíkt er að sjálfsögðu ekki rök með því að fella þær niður eins og minni hluti heilbrigðis- og trygginganefndar bendir réttilega á. Að öðru leyti er vísað til álits minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar sem fylgir hér með.

13. Málefni aldraðra.
    Í greinum 45 og 46 er fjallað um breytingar á lögum um málefni aldraðra. Er þar um að ræða breytingar náskyldar þeim sem gerðar eru á lögum um málefni fatlaðra framar í frumvarpinu og reyndar einnig um Atvinnuleysistryggingasjóð. Í 45. gr. er lagt til að gjald það, sem rennur til Framkvæmdasjóðs aldraðra og lagt er á alla skattskylda menn í landinu í formi nefskatts, verði ekki lengur verðtryggt miðað við byggingarvísitölu heldur endurskoðað við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni. Í 46. gr. er lagt til að Framkvæmdasjóði aldraðra verði hér eftir skylt að greiða rekstrarfé til stofnana aldraðra í samræmi við ákvæði fjárlaga á hverju ári og er lagt til að sú breyting verði varanleg. Er þannig með mismunandi hætti fjallað um þessa tvo meginsjóði, annars vegar Framkvæmdasjóð fatlaðra, sem áfram er gert ráð fyrir að skerða með tímabundnu „þrátt-fyrir“-ákvæði á næsta ári, en hins vegar Framkvæmdasjóð aldraðra sem á að skerða varanlega þvert ofan í gefin loforð.

14. Heilbrigðismál.
    Greinar 47–50 fjalla um breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu. Er hér um að ræða hreinar stefnumótandi stjórnkerfisbreytingar sem fjalla um stjórnunarfyrirkomulag heilsugæslustöðva og eiga að sjálfsögðu alls ekkert erindi inn í bandorm, frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem að nafninu til eru rökstuddar með nauðsyn lagabreytinga í tengslum við afgreiðslu fjárlaga. Minni hlutinn tekur því undir álit minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar um að vísa beri þessum hluta frumvarpsins frá.

15. Gæsluvistarsjóður.
    Í 51. gr. er lögð til breyting á lögum um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra. Felur það ákvæði í sér að III. kafli laganna um svonefndan gæsluvistarsjóð falli brott. Þetta er gert í tengslum við það að með lögum um gjald á áfengi, sem sett voru fyrr á þessu ári, var settur á laggirnar sérstakur Forvarnasjóður og mun hann taka á svipuðum verkefnum og gæsluvistarsjóði hefur verið ætlað með lögum en hann hefur þó ekki verið starfandi í raun um nokkurt árabil. Minni hlutinn gerir ekki athugasemdir við þessar breytingar að öðru leyti en því að ætlunin var að hinn nýi Forvarnasjóður yrði til að efla starf á þessu sviði og yrði viðbót við það sem fyrir er.

16. Samgöngumál.
    Í greinum 52–55 er fjallað um breytingar á lögum um skipulag ferðamála, hafnalögum og lögum um flugmálaáætlun. Þá er í 62. gr. fjallað um skerðingu á vegafé og verður vikið að því síðar. Í greinum 52 og 53 er lagt til að í stað þeirrar viðmiðunar að 10% af árlegri vörusölu Fríhafnarinnar í Keflavík renni til Ferðamálaráðs skuli nú framlög til þess ákveðin á fjárlögum hverju sinni. Hér er á ferðinni eitt af mörgum ákvæðum sem skert hafa verið undanfarin ár og lúta því athugasemdir minni hlutans fyrst og fremst að formi þessarar skerðingar en hún er hér gerð varanleg án samhengis við efnisatriði laga um skipulag ferðamála að öðru leyti. Einnig er rétt að minna á í þessu sambandi að með öllu er óleystur vandi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og verður nánar vikið að því síðar í umfjöllun um skerðingu flugmálaáætlunar. Væri eðlilegt að geyma allar varanlegar breytingar á ráðstöfun fjármuna, sem til falla við rekstur í Keflavík, sem og breytingar á flugmálaáætlun, þangað til heildarendurskoðun þessara mála hefði farið fram.
    Í 54. gr. er lögð til breyting á hafnalögum sem í reynd felur í sér að skerðing á tekjum Hafnabótasjóðs skuli ákveðin á fjárlögum hverju sinni, þ.e. hversu mikið af mörkuðum tekjum Hafnabótasjóðs skuli renna til sjóðsins annars vegar og beint í ríkissjóð hins vegar. Framlög til sjóðsins hafa verið ákveðin með skerðingarákvæðum undanfarin ár þannig að hér gilda sömu athugasemdir og áður hefur verið gerð grein fyrir um form breytinganna.
    Í 55. gr. er fjallað um breytingar á lögum um flugmálaáætlun og felur hún í sér að tekjum af flugvallagjaldi skuli varið til framkvæmda í flugmálum og til rekstrar flugvalla. Þessi breyting, sem gerir ráð fyrir því að flugmálaáætlun verði skert, og það allharkalega, er í tengslum við nærfellt helmingsniðurskurð á framkvæmdafé til flugmála sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir. Á síðasta ári var farið út á þá braut að ákveða í fyrsta sinn nokkra skerðingu á tekjum flugmálaáætlunar, sem lög hafa frá upphafi gert ráð fyrir að eingöngu skuli varið til framkvæmda, en þá var um tiltölulega litla skerðingu að ræða og skyldu þeir fjármunir eingöngu ganga til rekstrarkostnaðar á flugvöllum, þ.e. til snjómoksturs. Hér er um allt aðra stærðargráðu á skerðingu að ræða auk þess sem lagaákvæði nú gera ráð fyrir að opnað verði fyrir almenna skerðingu fjár til rekstrar í flugmálum. Ljóst er að þessi niðurskurður mun hafa gríðarleg áhrif og nánast lama framkvæmdaþátt flugmálaáætlunarinnar, sbr. upplýsingar sem flugmálastjóri hefur veitt nefndinni. Niðurskurðurinn nemur um 47–48% og er ljóst að nokkrar stærstu framkvæmdirnar sem fyrirhugaðar voru á næsta ári, svo sem framkvæmdir á Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði, í Reykjavík og víðar, munu ýmist með öllu verða að bíða eða verða skornar verulega niður. Upplýst er að hjá Flugmálastjórn liggur fyrir tíu ára áætlun um að fullnægja stöðlum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar ICAO í flugmálum Íslendinga og er kostnaður við það metinn á 5 milljarða kr. Inni í þeirri tölu er endurbygging á Reykjavíkurflugvelli. Niðurskurður af þessari stærðargráðu mun lama framkvæmdaþátt flugmálaáætlunarinnar og koma stórlega niður á öryggismálum í fluginu. Að öðru leyti er vísað til athugasemda sem fulltrúar minni hlutans í samgöngunefnd gera og birtast í umsögn samgöngunefndar.

17. Umhverfismál.
    Í greinum 56–60 er fjallað um mál sem vísað var til umhverfisnefndar. Er um að ræða annars vegar breytingar á skipulagslögum og hins vegar lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Minni hlutinn tekur undir athugasemdir minni hluta umhverfisnefndar, að ekki hafi verið vandað til vinnubragða sem skyldi í báðum þessum tilvikum og hlýtur að teljast ámælisvert að gera slíkar grundvallarbreytingar á samskiptamálum við sveitarfélögin án samráðs og samþykkis þeirra en fyrir liggja mótmæli stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga um þessi mál.

18. Alræðisvald ráðherra.
    Í 61. gr. er að finna afar sérkennilegt ákvæði sem felur í sér breytingu á lögum nr. 97/1974, um eftirlit með ráðningu starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana. Er vandséð hvaða erindi ákvæði af þessu tagi á inn í lagafrumvarp sem hér um ræðir, en í ákvæði þessu, ef að lögum verður, er ekki að sjá annað en að viðkomandi ráðherra sé falið víðtækt vald til þess að ráðskast með opinbera starfsemi og opinberar stofnanir eins og honum sýnist, hvort heldur er að sameina svæði og semja við sveitarfélög eða einkaaðila um að þau yfirtaki verkefni ríkisstofnana eða heimila ríkisstofnunum að taka að sér verkefni annarra með þeim eina fyrirvara að slíkt skuli vera tímabundið. Minni hlutinn telur þetta vera fráleita nálgun við lagasetningu og leggur til að þessi grein falli brott. Fulltrúar BSRB og BHMR, sem nefndin fékk á fund sinn, gagnrýndu þetta ákvæði harðlega.

19. Vegamál.
    Í 62. gr. eru lagðar til breytingar á lögum um fjáröflun til vegagerðar. Er þar að finna ákvæði um skerðingu á mörkuðum tekjustofnum Vegasjóðs í ríkissjóð á árinu 1996. Þessi ákvæði eru tengd áformum ríkisstjórnarinnar samkvæmt fjárlagafrumvarpi og breytingum sem urðu á frumvarpinu við 2. umræðu um gríðarlega skerðingu á mörkuðum tekjum Vegagerðinnar, á vegáætlun, upp á nálægt 1 milljarði kr. Niðurstöðutala vegamálanna verður samkvæmt upplýsingum vegamálastjóra 6.663 millj. kr. á næsta ári en ætti að vera 7.618 millj. kr. framreiknuð á núgildandi verðlagi miðað við vegaáætlun eins og hún var afgreidd á síðasta ári fyrir árið 1996. Undanfarin ár hefur það verið réttlætt og rökstutt sérstaklega að nauðsynlegt væri að halda uppi umtalsverðum framkvæmdum í vegamálum vegna atvinnuástands í landinu og því miður hefur ekkert breyst í þeim efnum þannig að tæplega verður hinn mikli niðurskurður vegaframkvæmda nú rökstuddur með því að atvinnuástand hafi batnað til svo mikilla muna. Meðfylgjandi eru gögn frá vegamálastjóra um þetta efni.
    Hér hefur nú í 19 tölusettum liðum verið farið yfir meginefnisþætti þessa frumvarps og er þó sú upptalning engan veginn tæmandi né eins ítarleg og efni væru til. Minni hlutinn mun leggja til og flytja við 2. umræðu breytingartillögur í samræmi við þá afstöðu sem hér hefur verið kynnt. Ónefnt er þó enn að meiri hlutinn hefur boðað breytingar við 2. umræðu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Breytingar þessar voru sendar nefndinni með bréfi í gær og voru þær ekki teknar fyrir fyrr en á fundi í gærkvöldi og hefur sáralítill tími gefist til að skoða þær. Ljóst er þó að í þeim felst enn ein atlagan að ellilífeyrisþegum því er lagt til að í lögum um almannatryggingar verði sú breyting á 1. málsl. 2. mgr. 11. gr. að í stað þess að utanaðkomandi tekjur skerði ellilífeyri um 25% skerðist hann um 35%. Einnig er lagt til að gerð sé sú breyting á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð að bætur til einstaklings sem samtals, samkvæmt þeim lögum, nemi 600 kr. eða minna á mánuði falli niður. Ljóst er að þessi breyting getur skert tekjur slíks bótaþega um 7.200 kr. á ári og þó að 600 kr. á mánuði virðist ekki mikil upphæð munar um minna fyrir fólk sem er í þeirri tekjustöðu sem raun ber vitni. Hér er á ferðinni óverulegur sparnaður eða annars vegar um 20–30 millj. kr. sem hefst upp úr því að hækka skerðingarhlutfallið gagnvart ellilífeyri og hins vegar um 10–12 millj. kr. upp úr því að fella niður bætur lægri en 600 kr. Þá er rétt að fram komi að í nefndinni hefur meiri hlutinn upplýst að flutt verði í tengslum við afgreiðslu fjárlaga annar bandormur sem fengið hefur vinnuheitið „skröltormurinn“ og verði þar á ferðinni breytingar á nokkrum nýjum lagaákvæðum.
    Þetta er nefnt hér til marks um þau vinnubrögð sem þarna eru á ferðinni og auðvitað taka engu tali. Minni hlutinn vill að lokum ítreka gagnrýni sína á það metnaðar- og virðingarleysi fyrir vönduðum vinnubrögðum sem felst í framlagningu þessa frumvarps og eðli þess. Minni hlutinn mun flytja breytingartillögur við frumvarpið til þess að reyna að fella brott það sem er ótækt til afgreiðslu og lagfæra annað, en verði ekki fallist á slíkar breytingar og ekki einu sinni að breyta málinu að formi til mun minni hlutinn greiða atkvæði gegn frumvarpinu í heild, enda er þar á ferðinni samsafn af skerðingarákvæðum og pólitískum deilumálum sem engin samstaða er um og mun ekki verða á komandi árum. Ljóst er að ríkisstjórnin er að boða til styrjaldar og átaka við fjölmarga hópa í þjóðfélaginu. Ítrekaðar atlögur að öldruðum, fötluðum, öryrkjum og atvinnulausum auk virðingarleysis fyrir löggjöf og lagasetningu, menningu og listum, einkenna þetta frumvarp sem er einhver versta smíð sem lengi hefur sést á borðum þingmanna.
    Kristín Ástgeirsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 19. des. 1995.



Steingrímur J. Sigfússon,

Jón Baldvin Hannibalsson.

Ágúst Einarsson.


frsm.



Fylgiskjal I.

Umsögn minni hluta menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um þann kafla frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um þingsköp Alþingis og bréf efnahags- og viðskiptanefndar frá 11. desember.
    Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að tilgangurinn með framlagningu þess er að aðlaga ákvæði annarra laga forsendum fjárlaga. Fjárlög eru sett til eins árs. Það er venja að ríkisstjórnin leggi fram frumvarp, samhliða fjárlögum, þar sem kveðið er á um tímabundna frestun á gildi ákvæða annarra laga sem ekki verða samræmd niðurstöðutölum fjárlaga. Það er nánast óþekkt að frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem er fylgifrumvarp fjárlaga, feli í sér varanlegar breytingar á ákvæðum annnarra laga og er því hér um stefnubreytingu að ræða.
    Þrátt fyrir að ákvæði 1.–5. gr. feli í sér varanlegar breytingar á lögum sem heyra undir málefnasvið menntamálanefndar kom nefndin að málinu sem umsagnaraðili að beiðni efnahags- og viðskiptanefndar. Niðurstaðan er því sú að þær varanlegu breytingar á löggjöfinni sem er að finna í 1.–5. gr. frumvarpsins fá ekki umfjöllun í fagnefnd. Minni hlutinn átelur harðlega þessi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og telur þau til þess fallin að draga úr virðingu Alþingis sem löggjafarstofnunar.
    Að gefnu tilefni vill minni hlutinn taka fram að þrátt fyrir að eftir því hafi verið leitað fór ekki fram í nefndinni efnisleg umræða um þau ákvæði frumvarpsins sem nefndinni var ætlað að gefa umsögn um.

Um 1. gr.
    1. gr. frumvarpsins fjallar um breytingu á lögum nr. 71/1990, um Listskreytingasjóð ríkisins. Lagt er til að árlegt framlag úr ríkissjóði verði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum í stað þess að það nemi 1% álagi á samanlagðar fjárveitingar ríkissjóðs í A-hluta fjárlaga til þeirra bygginga sem ríkissjóður stendur að einn eða með öðrum. Hér er lagt til að trygg tekjuviðmiðun fyrir sjóðinn verði afnumin varanlega.
    Á fund nefndarinnar komu Sverrir Kristinsson, formaður stjórnar Listskreytingasjóðs ríkisins, og Sólveig Eggertsdóttir frá Sambandi íslenskra myndlistamanna, en félagið á tvo fulltrúa í stjórn sjóðsins.
    Framlög til sjóðsins hafa að meðaltali verið um 12 millj. kr. frá árinu 1989, sem lætur nærri að vera 0,25–0,35% af lögboðnum framlögum. Nú er svo komið að aðeins 4 millj. kr. eru ætlaðar til sjóðsins á fjárlögum fyrir árið 1996.
    Í yfirliti yfir afgreiðslur úr Listskreytingasjóði ríkisins árin 1983–94 kemur fram að það eru fyrst og fremst skólar, sjúkrahús og heilsugæslustöðvar, ríkisstofnanir og sveitarfélög sem sækja í sjóðinn og að greiðslur hafa runnið til 240 listamanna. Tæplega 50% af því fjármagni sem hefur farið til listaverkakaupa á vegum ríkisins undanfarin ár koma úr þessum sjóði.
    Það er álit minni hlutans að Listskreytingasjóður ríkisins gegni mikilvægu hlutverki og að mikilvægt sé að sjóðstjórnin geti gert áætlanir fram í tímann. Því varar minni hlutinn við þeirri breytingu sem lögð er til í 1. gr. frumvarpsins án mun meiri athugunar og mælir með að ákvæði 1. gr. verði breytt í „þrátt-fyrir“-ákvæði og frestað verði ákvörðunum um varanlega breytingu á lögunum.

Um 2. gr.
    Í 2. gr. er lagt til að framlag ríkisins til Kvikmyndasjóðs fari eftir ákvörðun í fjárlögum hverju sinni. Í núgildandi lögum á það að nema áætluðum söluskatti af kvikmyndasýningum í landinu. Flest undanfarin ár hefur framlag í Kvikmyndasjóð verið skert. Sjóðnum eru nú ætlaðar 92,3 millj. kr. á fjárlögum í samanburði við 101,6 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 1995. Á fund nefndarinnar komu fulltrúar frá Kvikmyndasjóði og kvikmyndagerðarmönnum.
    Minni hlutinn leggur áherslu á að margt mæli með auknum fjárveitingum til Kvikmyndasjóðs. Fyrst skal nefnt að í kvikmyndaiðnaðinum felst vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi sem hefur skapað fjölmörg störf á undanförnum árum. Þá má nefna að fjármagn sem veitt er í Kvikmyndasjóð margfaldast við mótframlög úr erlendum sjóðum. Niðurskurður á framlagi til Kvikmyndasjóðs lokar því leið erlends fjármagns til kvikmyndagerðar því að framlag úr sjóðnum er forsenda þess að hægt sé að sækja í erlenda sjóði til kvikmyndagerðar. Í þriðja lagi er bent á mikilvægi íslenskrar kvikmyndagerðar sem mótvægi við erlend menningaráhrif. Að lokum er bent á að óvenjumargar íslenskar kvikmyndir voru frumsýndar á sl. ári og kallar það á aukið kynningar- og markaðsstarf erlendis.
    Minni hlutinn telur mikilvægt að Kvikmyndasjóði séu tryggðar reglulegar fjárveitingar og að þær verði auknar. Þótt ekki hafi verið staðið við lögbundin fjárframlög á undanförnum árum þykir óráðlegt að fella með öllu niður lögbundinn tekjustofn sjóðsins og því er mælt gegn því að ákvæði 5. gr. laga um kvikmyndamál, sem fjallað er um í 2. gr. frumvarpsins, verði breytt á varanlegan hátt.

Um 3. og 4. gr.
    Í 3. gr. er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið missi varanlega tekjur sem því eru ætlaðar samkvæmt lögum af aðflutningsgjöldum af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum, sbr. 2. mgr. 22. gr. útvarpslaga. Í 4. gr. er tillaga um að út falli 2. mgr. 23. gr. sömu laga þar sem þessum tekjustofni er ætlað að renna óskiptum í Framkvæmdasjóð Ríkisútvarps.
    Vegna þessara fyrirætlana kom Hörður Vilhjálmsson, fjármálastjóri Ríkisútvarpsins, á fund nefndarinnar. Fram kom að þessi tekjustofn hefur verið skertur frá því á árinu 1987. Jafnframt kom fram að ákvæði laga og reglugerðar um undanþágu þeirra frá greiðslu afnotagjalda sem hljóta uppbót á elli- og örorkulífeyri skv. 19. gr. laga um almannatryggingar séu afar íþyngjandi fyrir stofnunina, nettótekjutap nemi 162 millj. kr. í ár.
    Þá kom fram að besta fjárhagsráðstöfun sem hægt væri að gera í þágu Ríkisútvarpsins væri að fella út ákvæðin um Menningarsjóð útvarpsstöðva sem hefði reynst afar íþyngjandi fyrir Ríkisútvarpið. Á síðasta ári hafi Ríkisútvarpið t.d. greitt 54 millj. kr. í sjóðinn en ekki fengið neitt til baka og í ár yrði tíund útvarpsins í sjóðinn 60 millj. kr., en úr sjóðnum fengi það samtals 6,6 millj. kr. Því hefur verið svarað til að ekki væri hægt að slá sjóðinn af, þ.e. breyta ákvæðum útvarpslaganna, fyrr en heildarendurskoðun á lögunum færi fram. Eftir að frumkvæði menntamálayfirvalda væri komið varðandi breytingu á lögunum væri hins vegar tæpast nokkuð lengur til fyrirstöðu með breytingar á öðrum greinum.
    Fleiri umsagna var ekki leitað. Engar efnislegar umræður fóru fram í nefndinni um frumvarpsgreinarnar né heldur umsögnina.

Um 5. gr.
    Í gildandi þjóðminjalögum, nr. 88/1989, með síðari breytingum, segir að framlag ríkissjóðs í húsafriðunarsjóð skuli vera 100 kr. á hvern íbúa landsins og að framlög sveitarfélaga skuli vera 100 kr. á hvern íbúa í hlutaðeigandi sveitarfélagi. Framlög þessi eiga að breytast árlega í hlutfalli við byggingarvísitölu.
    Í 5. gr. frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996 er lagt til að þetta ákvæði þjóðminjalaga breytist þannig að framlög ríkisins verði ótilgreind, ákveðin í fjárlögum hvers árs, en að framlag sveitarfélaga skuli miðast við 150 kr. á hvern íbúa hlutaðeigandi sveitarfélags.
    Í athugasemdum við lagafrumvarpið segir um 5. gr. að hækkun á framlögum sveitarfélaga úr 100 kr. á hvern íbúa sveitarfélags í 150 kr. á hvern íbúa sé í raun aðeins verðlagsbreyting frá árinu 1989.
    Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, þeir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þórður Skúlason, komu á fund menntamálanefndar og lögðu fram skriflega umsögn vegna þeirra breytinga sem felast í 5. gr. frumvarpsins. Í umsögn þeirra segir:
    „Samband íslenskra sveitarfélaga mótmælir harðlega ákvæði um breytingu á þjóðminjalögum í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996 og leggur til að á næsta ári standi ríkissjóður við lögbundnar skyldur sínar um framlög til húsafriðunarsjóðs samkvæmt gildandi lögum.“
    Jafnframt kemur fram í umsögn þeirra sem birt er sem fskj. 2 með áliti þessu að þrátt fyrir að ríkissjóður hafi ekki staðið við ákvæði gildandi þjóðminjalaga hvað varðar varðveislu og viðhald menningarsögulegra mannvirkja með listrænt gildi, þar sem Alþingi hafi skert lögbundin framlög ríkissjóðs til húsafriðunarsjóðs ár frá ári, hafi sveitarfélögin ætíð uppfyllt greiðsluskyldur sínar til sjóðsins í samræmi við lögin. Í yfirliti sem fylgir umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga sést hver þróunin hefur verið. Framlög ríkissjóðs eru aðeins rúmlega 20% af framlagi sveitarfélaga.
    Með þeirri breytingu sem lögð er til í 5. gr. frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum er verið að leggja til hækkun á framlagi sveitarfélaga á sama tíma og lagt er til að framlög ríkissjóðs verði óbreytt, 10,5 millj. kr. Sveitarfélögunum er hins vegar gert að greiða rúmlega 40 millj. kr. á móti 38 millj. kr. á árinu 1995. Minni hluti menntamálanefndar mótmælir þeirri stefnumörkun sem felst í frumvarpinu og í fjárveitingum undanfarinna ára og því að sveitarfélögunum einum er ætlað að standa undir meginhluta kostnaðar vegna varðveislu menningarsögulegra mannvirkja.
    Árum saman hafa framlög ríkisins til þessara mála verið skert verulega frá því sem ætlað er í þjóðminjalögum. Nú er hins vegar lögð til varanleg breyting á lagatexta, þar sem fellt er út ákvæði þess efnis að ríki og sveitarfélögum beri að greiða sömu framlög í húsafriðunarsjóð. Minni hluti menntamálanefndar mótmælir harðlega þeim vinnubrögðum að leggja fram í bandormi tengdum afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1996 varanlegar efnisbreytingar á lögum sem í gildi eru. Sé ætlun ríkisstjórnarinnar að leggja til skerðingu á lögbundnum framlögum til húsafriðunar árið 1996 verði það gert með tímabundnu skerðingarákvæði sem gildi út það fjárlagaár.
    Einnig er vakin athygli á því að þrátt fyrir að sveitarfélögin standi að verulegu leyti undir fjárframlögum í húsafriðunarsjóð eiga þau aðeins einn fulltrúa af fimm í húsafriðunarnefnd. Ef sú stefnubreyting sem boðuð er í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996 yrði að veruleika telur minni hluti menntamálanefndar rétt að sveitarfélögin skipi minnst þrjá af fimm fulltrúum í húsafriðunarnefnd.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem nefndin fékk sóttu 236 aðilar um styrki í húsafriðunarsjóð árið 1994. Styrkveitingar voru 160 eða samtals að upphæð 44.748.000 kr. Árið 1995 sótti 201 um styrki en styrkveitingar voru 148, samtals að upphæð 33.650.000 kr. Í fskj. 1 með áliti þessu má finna upplýsingar frá þjóðminjaverði um skiptingu þessara fjármuna á einstök verkefni.
    Svanfríður Jónasdóttir sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er sammála umsögn þessari.

Alþingi, 14. des. 1995.



Lúðvík Bergvinsson.


Margrét Frímannsdóttir.


Guðný Guðbjörnsdóttir.





    Með umsögninni voru tvö fylgiskjöl: Tafla yfir styrkveitingar húsafriðunarsjóðs 1994 og 1995 og umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 13. desember 1995.




Fylgiskjal II.

Umsögn landbúnaðarnefndar.


    Landbúnaðarnefnd hefur, sbr. bréf efnahags- og viðskiptanefndar frá 11. desember, fjallað um 6. og 9.–10. gr. frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996, 225. mál.
    Nefndin fékk á sinn fund við umfjöllun málsins Guðmund Sigþórsson skrifstofustjóra og Ingimar Jóhannsson deildarsérfræðing frá landbúnaðarráðuneyti.
    Lögð er til sú breyting á lögum nr. 45/1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, með síðari breytingum, að framlag ríkisins til Stofnlánadeildar landbúnaðarins verði framvegis ákveðið á fjárlögum hverju sinni en fjárhæðir ekki bundnar í lögunum sjálfum. Meiri hlutinn gerir ekki athugasemd við þá breytingu, en einstakir nefndarmenn vilja gera athugasemd við þá aðferð að setja í lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem hafa þann tilgang að aðlaga önnur ákvæði laga forsendum fjárlaga, ákvæði sem breyta lögum varanlega og hafa þannig lengri líftíma en ákvæði fjárlaga. Þau ákvæði frumvarpsins sem breyta lögum varanlega fá því ekki þá umfjöllun í fagnefnd sem skyldi.
    Breytingar þær, sem lagt er til að gerðar verði á ákvæðum laga nr. 30/1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, með síðari breytingum, og lögum nr. 57/1990, um flokkun og mat á gærum og ull, með síðari breytingum, telur landbúnaðarnefnd ástæðu til að gera athugasemdir við. Nefndinni þykir rétt að taka af öll tvímæli um hvort gjöld til greiðslu kostnaðar ríkissjóðs af yfirmati skuli innheimt eða ekki og því skuli ráðherra kveða nánar á um innheimtu gjaldanna með reglugerð. Að auki er lagt til að í stað þess að innheimta gjaldið af sláturleyfum eins og gert er ráð fyrir í 10. gr. frumvarpsins, um breytingu á lögum um flokkun og mat á gærum og ull, skuli það innheimt af afurðastöðvum vegna hlutaðeigandi afurðar. Þessi breyting er lögð til þar sem þeir sem eru með sláturleyfi versla ekki með ull, en gjaldið er tekið af afurðastöðvum sem versla með viðkomandi vöru. Breytingartillögur nefndarinnar eru því eftirfarandi:
    Við 9. gr. Efnismálsgrein orðist svo:
                  Ráðherra skal innheimta gjald af sláturleyfishöfum til greiðslu kostnaðar ríkissjóðs af yfirmati sem af lögum þessum leiðir. Ráðherra skal kveða nánar á um innheimtu gjaldsins með reglugerð.
    Við 10. gr. Efnismálsgrein orðist svo:
                  Ráðherra skal innheimta gjald af afurðastöðvum vegna hlutaðeigandi afurðar til greiðslu kostnaðar ríkissjóðs af yfirmati sem af lögum þessum leiðir. Ráðherra skal kveða nánar á um innheimtu gjaldsins með reglugerð.

Alþingi, 14. des. 1995.



F.h. landbúnaðarnefndar,

Guðni Ágústsson, form.





Fylgiskjal III.


Umsögn minni hluta sjávarútvegsnefndar.


    Sjávarútvegsnefnd fékk til meðferðar 11.–16. gr. í frumvarpinu. Ekki hefur gefist tóm til að fara vandlega efnislega yfir einstakar greinar. Það er ámælisvert að lagasetning sé knúin áfram með þeim hætti sem raun ber vitni. Efnisatriði úr tugum mismunandi laga er hrúgað saman í einn bandorm og það sem verra er að það er ætlun stjórnarmeirihlutans að gera þar í mörgum tilvikum varanlega breytingu. Eigi að síður munu undirrituð sem skipa minni hluta sjávarútvegsnefndar gera grein fyrir afstöðu sinni eftir föngum.
    Varðandi 11. gr. telur minni hlutinn ekki ráðlegt að hrófla við lögum nr. 44/1976 þar sem til stendur að fara í heildarendurskoðun á lögum um Fiskveiðasjóð Íslands.
    Í greinum 12–14 má færa rök fyrir að um sé að ræða samræmingu sem ekki er ástæða til að leggjast efnislega gegn. Þó skal á það bent að um litla upphæð er að ræða eða u.þ.b. 2 millj. kr. og innheimta þess gjalds hefst ekki fyrr en 1. september á næsta ári. Það er því vandséð hvað hastar varanlegri lagabreytingu á þessari stundu. Minni hlutinn telur hins vegar ástæðu til að benda á að smábátar greiða u.þ.b. 75% af þeirri upphæð sem innheimt er í formi gjalda vegna útgáfu veiðileyfa.
    Hvað varðar 15. og 16. gr. er um varanlega breytingu að ræða á formi þeirra viðskipta sem verið hafa milli Fiskistofu og Fiskifélags Íslands að undanförnu. Þó það sé út af fyrir sig gagnrýnisvert og ekki góð latína að skylda opinbera stofnun með lögum til að eiga viðskipti um tiltekna hluti fyrir tiltekið verð við tiltekna óopinbera stofnun, þá er það mat minni hlutans að betri tíma hefði þurft að gefa nefndarmönnum til að fara yfir það hvað þessar breytingar hafa í för með sér. Best væri auðvitað að áðurnefndir aðilar leystu úr sínum samskiptamálum með samkomulagi sín í millum.

Alþingi, 15. des. 1995.



Svanfríður Jónasdóttir.


Sighvatur Björgvinsson.


Steingrímur J. Sigfússon.






Fylgiskjal IV.


Umsögn minni hluta allsherjarnefndar.


    Minni hluti allsherjarnefndar getur ekki sætt sig við þær breytingar sem lagðar eru til á 18.–20. gr. frumvarpsins, en þær fjalla um breytingu á lögum nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.
    Allsherjarnefnd afgreiddi frumvarp um þetta mál samhljóða frá sér fyrr á þessu ári og það varð að lögum rétt fyrir síðustu kosningar með samþykki allra sem tóku þátt í afgreiðslu málsins. Með lagasetningu þessari var stigið stórt skref í baráttunni fyrir bættri meðferð brotaþola og breyttum viðhorfum í þessum efnum. Tjónþolum hefur reynst erfitt að sækja bætur til þeirra sem tjóni valda, ekki síst hafa þolendur nauðgunar eða annars kynferðislegs ofbeldis verið í erfiðri stöðu.
    Með samþykki áðurnefndra laga var margra ára barátta ýmissa kvennahópa í höfn og brotaþolar fengu þau mikilvægu skilaboð að samfélaginu væri ekki sama um örlög þeirra. Því kom óþægilega á óvart þegar í ljós kom að ekki var gert ráð fyrir greiðslum samkvæmt þessum lögum í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1996 og boðuð tillaga ríkisstjórnarinnar um frestun gildistöku laganna um eitt ár. Jafnframt átti afturvirkni þeirra að færast til um eitt ár, og um leið átti að svipta þá einstaklinga voninni sem höfðu fengið úrskurðaðar miskabætur vegna brota sem framin höfðu verið eftir 1. janúar 1993. Þetta olli hörðum viðbrögðum innan og utan þingsins og í 18.–20. gr. frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum er lagt til að gildistöku laganna verði frestað um hálft ár í stað eins árs og að jafnframt verði bótafjárhæðir stórlega lækkaðar.
    Það er mat minni hlutans að þessi niðurstaða sé gjörsamlega óviðunandi og leggur hann þunga áherslu á að Alþingi tryggi nægjanlegt fjármagn á árinu 1996 til að staðið verði við lögin að fullu. Meðferð ríkisstjórnarinnar á þessu máli er hneyksli sem Alþingi getur ekki samþykkt. Því er lagt til að frumvarpi til fjárlaga verði breytt þannig að 60 millj. kr. komi á lið 06-233 Bætur til þolenda afbrota og að 18.–20. gr. frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum verði felldar brott.
    Þá gerir minni hlutinn þá almennu athugasemd við frumvarpið að óeðlilegt sé að í frumvarpi sem þessu, sem flutt er vegna ríkisfjármála á árinu 1996, skuli lagt til að gerðar verði varanlegar breytingar á fjölmörgum lögum sem kveða á um greiðslur úr ríkissjóði. Þá mótmælir minni hlutinn því háttalagi að leggja til í frumvarpinu lagabreytingar sem alls ekki tengjast afgreiðslu fjárlaga eða ríkisfjármálum á árinu 1996. Slíkar breytingar á skilyrðislaust að leggja fyrir Alþingi sem sjálfstæð þingmál.
    Jóhanna Sigurðardóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk umsögn þessari.

Alþingi, 14. des. 1995.



Guðný Guðbjörnsdóttir.


Ögmundur Jónasson.


Sighvatur Björgvinsson.




Fylgiskjal V.


Umsögn minni hluta félagsmálanefndar.

    Nefndin hefur fjallað um þann hluta frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996 sem varðar félagsmálin.
    Minni hluti nefndarinnar telur nokkur atriði í frumvarpinu vera þess eðlis að þau krefjist athugasemda. Ber þar fyrst að geta þeirrar stefnu sem kemur fram í 22. gr. frumvarpsins, sbr. 23. gr., að verja allt að 40% af ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs fatlaðra á árinu 1996 til tiltekinna rekstrarverkefna. Varar minni hlutinn eindregið við þessari stefnu, jafnvel þótt umrætt fé renni til stofnana fatlaðra.
    Í 24. gr. er lagt til að framlag ríkisins til Bjargráðasjóðs verði ákveðið í fjárlögum hverju sinni. Minni hlutinn bendir á að þessi grein er ekki nauðsynlegur fylgifiskur frumvarps til fjárlaga og því væri eðlilegra að henni væri breytt sérstaklega. Það er slæm lagasetningaraðferð að skella breytingum á fleiri tugum laga inn í eitt frumvarp, jafnvel þótt það sé gert í nafni fjárlagagerðar. Það er algerlega óviðunandi að hafa slíka liði fleiri en nauðsyn ber til.
    Í 27. gr. er gert ráð fyrir að tekjur af atvinnutryggingagjaldi renni til Atvinnuleysistryggingasjóðs í samræmi við ákvæði laga um tryggingagjald, en samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er ætlunin að hækka gjaldið um 0,5%. Minni hlutinn vekur athygli á því sem fram kom í samtölum nefndarmanna við fulltrúa ASÍ, BSRB og VSÍ, að líklega stæði gjaldið ekki undir áætlaðri útgjaldaaukningu sjóðsins.
    Í 28. gr. er ákvæði sem felur í sér afnám tengsla bótagreiðslna úr Atvinnleysistryggingasjóði við almenna launaþróun. Þess í stað er lagt til að hámarksfjárhæð bóta komi til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Í gildandi lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð er tenging við kjarasamninga fiskverkafólks sem felur í sér að bæturnar hækka í samræmi við almennar launahækkanir í þeirri starfsgrein. Með því að falla frá þessari tengingu er verið að snúa til kerfis sem minnir á ölmusu en slíkar hugmyndir höfðu sem betur fer verið aflagðar hér á landi. Ríkisstjórnin hyggst nú taka slíkt skref til fortíðarinnar og gerir það í nafni þess að það falli undir heildarstefnu um afnám sjálfvirkni og verðlagsuppfærslna. Minni hlutinn telur tengingu við laun vera grundvallarréttindamál fyrir þá sem þurfa á greiðslum úr tryggingakerfinu að halda og gildir sá skilningur allt að einu þótt ríkisstjórnin hafi samið um greiðslurnar nú um áramót í tengslum við aðgerðir á vinnumarkaði. Eftir stendur að atvinnulausum er ekki tryggð þessi tenging í framtíðinni en það telur minni hlutinn vera mikla afturför og minnir á að atvinnulausir eru formlega séð á vinnumarkaði og því er sjálfsagt að greiðslur til þeirra fylgi almennri launaþróun. Þá vill minni hlutinn benda á að það var almenn krafa verkalýðshreyfingarinnar að fallið yrði frá þessum áformum og það að ekki hefur verið fallist á þær kröfur mun leiða til harðari átaka við frágang kjarasamninga í framtíðinni þar sem verkalýðshreyfingin mun eftir sem áður leitast við að tryggja þessum félagsmönnum sínum sambærilegar launabreytingar og öðrum.

    Svanfríður Jónasdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk umsögn þessari.

Alþingi, 15. des. 1995.



Kristín Ástgeirsdóttir.


Bryndís Hlöðversdóttir.


Rannveig Guðmundsdóttir.




Fylgiskjal VI.


Umsögn minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.


    Heilbrigðis- og trygginganefnd hefur, sbr. bréf efnahags- og viðskiptanefndar frá 11. desember sl., fjallað um 30.–36. gr. og 40.–51. gr. frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996. Fékk nefndin á sinn fund frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti Davíð Á. Gunnarsson ráðuneytisstjóra, Ragnhildi Arnljótsdóttur deildarstjóra, Sólveigu Guðmundsdóttur deildarstjóra og Þóri Haraldsson, aðstoðarmann heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.
    Minni hluti nefndarinnar mótmælir þeim grundvallarbreytingum sem felast í tillögum frumvarpsins. Einnig er það gagnrýnt að frumvarpið felur í sér gagngerar breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Þær ættu að bíða heildarendurskoðunar laganna sem hafin er í heilbrigðisráðuneytinu.
    Minni hlutinn gerir athugasemdir við eftirfarandi greinar:
    Í 30. gr. frumvarpsins er ákvæði um að fjármagnstekjur skerði almannatryggingabætur. Minni hlutinn hafnar því að byrjað verði á því að skerða greiðslur til lífeyrisþega, þ.e. aldraðra og öryrkja, gagnvart fjármagnstekjum, áður en fjármagnstekjuskatti hefur verið komið á.
    31. gr. heimilar skerðingu tekjutryggingar þeirra sem ekki hafa hirt um að greiða í lífeyrissjóð eins og það er orðað í fjárlagafrumvarpinu. Í skýringum með frumvarpinu frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kemur fram að þetta ákvæði muni hafa lítil áhrif fyrstu árin frá gildistöku þess. Því telur minni hlutinn að þetta ákvæði eigi ekki heima í frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Hann leggur til að breytingunni verði vísað til heildarendurskoðunar almannatryggingalaganna eða að breyting þessi verði lögð fram sem frumvarp síðar og fái þá eðlilega umfjöllun á Alþingi. Því leggur minni hlutinn til að greinin falli brott.
    Í 35. gr. laganna er um grundvallarbreytingu á lífeyristryggingum að ræða og alvarlega atlögu að lífeyrisþegum. Þar er lagt til að lífeyrisgreiðslur almannatrygginga verði ekki lengur tengdar við almenna launaþróun í landinu heldur ákvarðist á fjárlögum hvers árs. Minni hlutinn mótmælir harðlega þeirri aðför sem hér er gerð að öldruðum og öryrkjum og lýsir þess vegna eindreginni andstöðu við greinina. Jafnframt vill minni hlutinn taka fram varðandi það ákvæði greinarinnar að heilbrigðisráðherra sé heimilt að breyta bótafjárhæðum um allt að 3% frá forsendum fjárlaga, verði verulegar breytingar á þjóðhagsforsendum, að ekki sé rétt að binda hendur ráðherra með ákveðinni prósentu, enda hafi ekki komið fram neinar skýringar á því hvers vegna 3% voru valin frekar en einhver önnur tala. Þess vegna sé rétt að prósentutalan falli brott og í stað orðsins „breyta“ komi „hækka“ í samræmi við skýringar með lagagreininni í frumvarpinu.
    40. og 41. gr. um að mæðra- og feðralaun skuli felld niður með einu barni og lækkuð með tveimur og þremur börnum hefur verið rökstudd með því að þessar greiðslur hafi hvort eð er verið svo lágar. Það að greiðslur séu lágar teljum við ekki vera rök fyrir því að þær falli brott. Þessum ákvæðum ætti að vísa til nefndar þeirrar sem vinnur að heildarendurskoðun laga um félagslega aðstoð og almannatryggingar.
    Í 42. gr. er sett inn heimild til að lengja greiðslur dánarbóta, sem almennt eru greiddar í sex mánuði, í a.m.k. 12 mánuði til viðbótar við sérstakar aðstæður, þó aldrei lengur en í 48 mánuði. Í upplýsingum frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu geta „sérstakar aðstæður“ átt við um ómegð, efnaleysi, heilsubrest og erfiðar félagslegar aðstæður. Þar sem hér er um heimildarbætur að ræða þar sem meta þarf hvert einstakt tilvik og mikill munur er á rétti til dánarbóta almannatrygginga (félagslegrar aðstoðar og slysatrygginga) eftir því hvort maki fellur frá vegna slyss eða sjúkdóms, telur minni hlutinn að sama eigi að gilda um hámarkslengd greiðslutíma og gildir um dánarbætur slysatrygginga sem eru átta ár. Minni hlutinn gerir því breytingartillögu um heimild til átta ára hámarksgreiðslu dánarbóta.
    Varðandi 44. gr., þar sem greiðsla ekkjulífeyris er lögð af, er minni hluti nefndarinnar sammála því að ekki skuli hafa í lögunum ákvæði sem mismuna eftir kyni. Engu að síður er staðreyndin sú að þeim konum, sem eiga rétt á ekkjulífeyri, fer fækkandi vegna þrengdra ákvæða í lögunum og þjóðfélagsbreytinga. Því hefði mátt gera ráð fyrir að bótaflokkurinn legðist af á næstu árum að öllu óbreyttu, enda ekki gert ráð fyrir nema 5 millj. kr. sparnaði af þessari breytingu. Minni hlutinn getur fallist á ákvæðin verði heimild til greiðslu dánarbóta lengd í hámark átta ár, sbr. slysabætur.
    Minni hlutinn mótmælir harðlega þeim grundvallarbreytingum á Framkvæmdasjóði aldraðra sem lagðar eru til í 45. gr. Þó svo að mönnum hafi þótt ástæða til að hluti af fé sjóðsins færi tímabundið til rekstrar stofnana fyrir aldraða skal það haft hugfast að hann var stofnaður til framkvæmda, til uppbyggingar stofnana fyrir aldraða. Enn þá er mikið uppbyggingarstarf óunnið sem sést best á því að í Reykjavík einni eru enn yfir 100 aldraðir í brýnni neyð sem bíða eftir hjúkrunarrými. Undirrituð mótmæla þessari ótímabundnu heimild til að hluta sjóðsins verði varið til rekstrar.
    47.–50. gr. vísar minni hluti heilbrigðis- og trygginganefndar frá þar sem þær eiga ekki heima í frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Hér er um skipulagsbreytingu að ræða sem kemur afgreiðslu fjárlaga ekki við.
    Minni hlutinn leggur til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á frumvarpinu:
    30. og 31. gr. frumvarpsins falli brott.
    Orðin „allt að 3%“ í 35. gr. falli brott.
    Í stað orðanna „breyta bótafjárhæðum“ í 35. gr. komi: hækka bótafjárhæðir.
    Í stað orðanna „48 mánuði“ í 42. gr. komi: átta ár.
    47.–50. gr. falli brott.

Alþingi, 14. des. 1995.



Ásta R. Jóhannesdóttir.


Ögmundur Jónasson.


Össur Skarphéðinsson, form.



Fylgiskjal VII.


Umsögn samgöngunefndar.


    Samgöngunefnd hefur, sbr. bréf efnahags- og viðskiptanefndar frá 11. desember, fjallað um 52.–55. gr. frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996, 225. mál.
    Nefndin fékk á sinn fund við umfjöllun málsins Jón Birgi Jónsson, ráðuneytisstjóra samgönguráðuneytis.
    Breytingar þær sem hér eru lagðar til eru bein afleiðing þeirrar stefnumörkunar sem fram kemur í frumvarpi til fjárlaga. Samgöngunefnd skilaði ítarlegu áliti til fjárlaganefndar við undirbúning fjárlaga og vísar til þeirrar umsagnar.
    Í ákvæði 55. gr. frumvarpsins er lagt til að tekjum af flugvallagjaldi skuli varið til framkvæmda í flugmálum og rekstrar flugvalla. Hér er um rýmkun að ræða frá fyrra ári þar sem mælt var fyrir um að gjaldinu skyldi eingöngu varið til framkvæmda í flugmálum, svo og snjómoksturs og viðhalds flugvalla og tækja. Meiri hluti nefndarinnar leggur til að ákvæði 55. gr. sæti þeirri breytingu að gjaldinu skuli varið til framkvæmda í flugmálum samkvæmt flugmálaáætlun og til rekstrar flugvalla. Þessi breyting er sett fram til samræmis við ákvæði 6. gr. laga nr. 31/1987, um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum. Í því ákvæði segir að gjaldi, sem innheimt er skv. 5. gr. laganna af þeim sem selja flugvélabensín og þotueldsneyti á íslenskum flugvöllum, skuli einungis varið til framkvæmda samkvæmt flugmálaáætlun. Breytingin verði því svohljóðandi:
    Við 55. gr.
    Á eftir orðunum „framkvæmda í flugmálum“ í efnismálsgrein komi: samkvæmt flugmálaáætlun.
    Þeir nefndarmenn sem standa að framangreindri breytingartillögu eru Einar K. Guðfinnsson, Magnús Stefánsson, Egill Jónsson, Stefán Guðmundsson, Kristján Pálsson og Árni Johnsen. Ragnar Arnalds, Ásta R. Jóhannesdóttir og Petrína Baldursdóttir gera athugasemd við þá aðferð að setja í lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem hafa þann tilgang að aðlaga önnur lagaákvæði forsendum fjárlaga, ákvæði sem breyta lögum varanlega og hafa þannig lengri gildistíma en ákvæði fjárlaga. Slík ákvæði fá ekki þá umfjöllun í fagnefnd sem skyldi. Þau mótmæla því að tekjum af flugvallagjaldi eigi nú að verja til rekstrar flugvalla og þykir rétt að ákvæðið verði óbreytt frá fyrra ári.

Alþingi, 15. des. 1995.



F.h. samgöngunefndar,



Einar K. Guðfinnsson, form.



Fskj.

Minnisblað frá flugmálastjóra.


(18. desember 1995.)



(Repró, 5 síður. Athugið pdf-skjalið)



Fylgiskjal VIII.


Fréttabréf Alþýðusambands Íslands.


(17. október 1995.)




(Repró, 15. síður. Athugið pdf-skjalið)




Fylgiskjal IX.


Bréf Flugleiða til fjárlaganefndar.


(12. desember 1995.)



(Repró, ein síða. Athugið pdf-skjalið)




Virðingarfyllst,



Sigurður Helgason,


forstjóri.




Fylgiskjal X.


Bréf Flugleiða til samgönguráðherra.


(25. október 1995.)



(Repró, 2 síður. Athugið pdf-skjalið)




Virðingarfyllst,



Sigurður Helgason,


forstjóri.




Fskj.

Gjöld, tekjur og nettóframlag ríkisins til flugmála.


(Allar upphæðir eru í millj. kr.)



(Repró, ein síða. Athugið pdf-skjalið)



Fylgiskjal XI.


Bréf Félags eldri borgara.


(17. október 1995.)



    Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni mótmælir þeim yfirgripsmikla niðurskurði sem fyrirhugaður er í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1996 og varðar afkomu lífeyrisþega, þar á meðal lækkun lífeyristrygginga um 1.115 milljónir króna.
    Að verðlagsuppfærsla bóta verði ákveðin í forsendum fjárlaga hvert ár og eingreiðslur felldar inn í bótafjárhæðir með því að skerða tekjur lífeyrisþega um 450 milljónir króna.
                  Félagið bendir á að um áratuga skeið hafa lífeyrisþegar haft þann rétt innan laga almannatrygginga að lífeyrir hækki í samræmi við almennar launahækkanir í landinu.
                  Enn og aftur ítrekar félagið að á ellilífeyri komi að fullu allar þær hækkanir sem verða á almennum launum í landinu, þar á meðal hækkanir í formi eingreiðslna.
    Að skerða bætur almannatrygginga um 285 milljónir króna með því að tekjutengdar bætur skerðist við fjármagnstekjur á meðan lög um fjármagnstekjuskatt hafa ekki verið sett.
    Að lækka með setningu nýrra reglna um útgreiðslu svokallaðra heimildarbóta um 250 milljónir króna.
    Félagið mótmælir fyrirhugaðri hækkun á heilbrigðisþjónustu og þar með að auka útgjöld þeirra sjúklinga sem eru á aldrinum 67 til 70 ára um 40 milljónir króna. En fyrirhugað er að þeir greiði með sama hætti fyrir heilbrigðisþjónustu og sjúkratryggðir almennt. Eingöngu væri sú framkvæmd gerleg ef viðkomandi hefur það háar tekjur að hann eigi ekki rétt á grunnlífeyri.
    Félagið mótmælir einnig að fyrirhuguð eru innritunargjöld á sjúkrahús.
    Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni skorar á Alþingi að sjá til þess að fyrrgreind áform nái ekki fram að ganga.

Virðingarfyllst,


f.h. Félags eldri borgara


í Reykjavík og nágrenni,



Páll Gíslason, formaður.


Guðríður Ólafsdóttir, framkvstj.






Fylgiskjal XII.


Upplýsingar frá vegamálastjóra.


(18. desember 1995.)



    Samanburður á vegáætlun fyrir árið 1996 og frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1996 (upphæðir í millj. kr.):

Útgjöld 1996 samkvæmt gildandi vegáætlun
7.678

Leiðrétting vegna verðlags
 – 60

7.618


Útgjöld samkvæmt fjárlagafrumvarpi þegar það var lagt fram
6.913

Leiðrétting markaðra tekna vegna magnaukningar
  100

7.013

Frestun framkvæmdaátaks
– 350

Útgjöld samkvæmt frumvarpi nú
6.663


Mismunur
  955


    Tekjur af þungaskatti eru áætlaðar 2.440 millj. kr. Átak er í gangi til að bæta innheimtu þungaskatts. Verði innheimtan hærri en áætlunin mun framlag til Vegagerðarinnar hækka í fjáraukalögum 1996 sem því nemur (sjá um 62. gr. í greinargerð). Þessi viðbót hefur verið talin geta orðið um eða yfir 50 millj. kr.
    Lækkun útgjalda kemur fyrst og fremst niður á nýbyggingarliðum vegáætlunar, en þeir eru alls 3,7–3,8 milljarðar kr. Þó mætti lækka viðhaldsliði um sem nemur áætlaðri viðbót í þungaskatti (50 millj. kr.), enda rynni viðbótin þangað ef hún skilaði sér.
    Í ljósi þessarar miklu lækkunar á útgjöldum vegáætlunar 1996 verður að taka hana til endurskoðunar eftir áramót.