Ferill 146. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 146  —  146. mál.



Frumvarp til leiklistar laga.




(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



I. KAFLI


Markmið og yfirstjórn.


1. gr.


    Markmið laga þessara er að efla íslenska leiklist og aðrar sviðslistir og búa þeim hagstæð skilyrði.

2. gr.


    Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn leiklistarmála samkvæmt lögum þessum.

II. KAFLI
Þjóðleikhús.
3. gr.

    Þjóðleikhúsið er eign íslensku þjóðarinnar.

4. gr.

    Í Þjóðleikhúsinu skal iðka leiklist og þær listgreinar aðrar sem leiksviði eru tengdar.
    Þjóðleikhúsið skal í starfsemi sinni leitast við að glæða áhuga landsmanna á þessum list­greinum og stuðla að þróun þeirra. Það skal kosta kapps um að efla íslenska leikritun og vera til fyrirmyndar um listrænan flutning viðfangsefna og meðferð íslenskrar tungu.

5. gr.

    Aðalverkefni Þjóðleikhússins er flutningur íslenskra og erlendra sjónleikja. Jafnframt skal það standa að flutningi á óperum og söngleikjum og listdanssýningum.
    Á hverju leikári skulu eitt eða fleiri viðfangsefni sérstaklega ætluð börnum.
    Á vegum Þjóðleikhússins skulu árlega farnar leikferðir sem víðast um landið. Einnig skulu farnar leikferðir til annarra landa og fengnir til Íslands erlendir listamenn, hvort tveggja eftir því sem aðstæður leyfa.

6. gr.

    Menntamálaráðherra skipar þjóðleikhússtjóra til fimm ára í senn, að fenginni umsögn þjóðleikhúsráðs. Skipaður skal maður með staðgóða þekkingu á starfi leikhúsa. Ætíð skal auglýsa embættið laust til umsóknar í lok hvers skipunartímabils.
    Þjóðleikhússtjóri er stjórnandi leikhússins og markar listræna stefnu þess í samráði við þjóðleikhúsráð. Hann stýrir leikhúsinu samkvæmt samþykktri starfs- og fjárhagsáætlun og ber ábyrgð á rekstri þess, bæði listrænum og fjárhagslegum.


7. gr.

    Menntamálaráðherra skipar fimm manna þjóðleikhúsráð. Félag íslenskra leikara tilnefnir einn fulltrúa og Félag leikstjóra á Íslandi annan en þrír eru skipaðir án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi ráðsmanna. Ráðið skal skipað til fjögurra ára í senn, þó þannig að starfstími þeirra fulltrúa sem skipaðir eru án tilnefningar takmarkast við embættistíma ráðherrans sitji hann skemur. Fulltrúi starfsmanna leikhússins, kjörinn úr hópi þeirra til eigi skemmri tíma en eins árs í senn, á sæti á fundum þjóðleikhúsráðs með málfrelsi og tillögurétti.
    Þjóðleikhúsráð er stjórnarnefnd Þjóðleikhússins og skulu allar meiri háttar ákvarðanir um leikhúsreksturinn bornar undir ráðið. Það vinnur með þjóðleikhússtjóra að langtímaáætlun um starfsemina. Árleg starfs- og fjárhagsáætlun skal lögð fyrir þjóðleikhúsráð til samþykktar og ráðið hefur eftirlit með framkvæmd hennar.

8. gr.

    Um innra starfsskipulag Þjóðleikhússins má kveða á í reglugerð að fengnum tillögum þjóðleikhúsráðs.

9. gr.

    Þjóðleikhússtjóri ræður starfsmenn leikhússins og gerir við þá starfssamninga í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

10. gr.

    Þjóðleikhúsið skal kosta kapps um hagkvæmt samstarf við stofnanir, félög og aðra sem sinna leiklist og öðrum þeim listgreinum er starfi þess tengjast. Það skal eftir föngum veita leikfélögum áhugamanna lið og gera leiklistarnemendum kleift að fylgjast með leikhússtarf­inu.

11. gr.

    Þegar Þjóðleikhúsbyggingin er ekki notuð til reglubundinnar starfsemi leikhússins sam­kvæmt þessum lögum má nota hana til annarrar menningarstarfsemi.

12. gr.

    Kostnaður af rekstri Þjóðleikhússins greiðist úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjár­lögum og eigið aflafé leikhússins hrekkur ekki til.

13. gr.

    Þjóðleikhúsbyggingin stendur ekki til tryggingar skuldbindingum Þjóðleikhússins.

III. KAFLI
Önnur leiklistarstarfsemi.
14. gr.

    Auk framlaga til Þjóðleikhússins veitir Alþingi árlega fé í fjárlögum til stuðnings annarri leiklistarstarfsemi, bæði atvinnumanna og áhugaleikfélaga. Slíkur fjárstuðningur getur auk almennrar leikstarfsemi tekið til barnaleikhúsa, brúðuleikhúsa, óperustarfsemi og listdans.

    Að því leyti sem framlög til einstakra aðila eru ekki ákveðin í fjárlögum hverju sinni annast menntamálaráðuneytið úthlutun þess fjár sem veitt er samkvæmt þessari grein. Úthlutun styrkja til atvinnuleikhópa skal ákveðin að fengnum tillögum leiklistarráðs, sbr. 17.–18. gr., en til starfsemi áhugaleikfélaga að fengnum tillögum Bandalags íslenskra leikfélaga. Mennta­málaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um undirbúning og tilhögun styrkveitinga.
    Um veitingu starfslauna til leikhúslistafólks fer samkvæmt ákvæðum laga um listamanna­laun, nr. 35/1991, með síðari breytingum.

15. gr.

    Sveitarstjórnir veita fé til leiklistarstarfsemi í sveitarfélögum eftir því sem ákveðið er í árlegri fjárhagsáætlun þeirra.

16. gr.

    Heimilt er menntamálaráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs að gera tíma­bundinn samning við rekstraraðila atvinnuleikhúss og hlutaðeigandi sveitarfélag eða sveitar­félög um fjárstuðning við leikhúsið, með fyrirvara um fjárveitingar í fjárlögum á samnings­tímanum. Heimilt er einnig að gera slíka samninga við lögaðila, félög eða stofnanir á sviði listdans, óperu og annarra sviðslista.
    Í þessum efnum skal taka sérstakt tillit til leiklistarstofnana og félaga sem lengi hafa notið fjárhagslegs stuðnings úr ríkissjóði.

IV. KAFLI
Leiklistarráð.
17. gr.

    Menntamálaráðherra skipar leiklistarráð til tveggja ára í senn. Í ráðinu skulu eiga sæti þrír fulltrúar. Leiklistarsamband Íslands tilnefnir einn, Bandalag sjálfstæðra atvinnuleikhúsa einn en einn er skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður ráðsins. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalfulltrúa í leiklistarráði meira en tvö starfstímabil í röð.

18. gr.

    Leiklistarráð gerir tillögu til menntamálaráðuneytisins um úthlutun fjár sem veitt er í fjárlögum til stuðnings atvinnuleikhópum, sbr. 14. gr.
    Ráðið veitir umsögn um leiklistarerindi sem menntamálaráðuneytið vísar til þess og getur einnig að eigin frumkvæði beint ábendingum og tillögum til ráðuneytisins um leiklistarmál­efni.
    Þóknun fulltrúa í leiklistarráði og annar kostnaður við störf ráðsins greiðist úr ríkissjóði.

V. KAFLI
Önnur ákvæði.
19. gr.

    Menntamálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga. Heimilt er að ákvæði er taka til starfsemi Þjóðleikhússins séu sett í sérstakri reglugerð.

20. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Um leið falla úr gildi leiklistarlög, nr. 33/1977, með síðari breytingum, og lög nr. 58/1978, um Þjóðleikhús, með síðari breytingum. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 35/1991, um listamannalaun, sbr. 9. gr. laga nr. 144/1996, breytist á þá lund að í stað orðanna „framkvæmdastjórn leiklistarráðs“ kemur: leiklistarráði.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Að loknum ráðningartíma núverandi þjóðleikhússtjóra skal miða upphaf skipunartíma þjóðleikhússtjóra samkvæmt þessum lögum við 1. janúar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp til leiklistarlaga var lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98 en varð þá eigi útrætt. Það er nú lagt fram á ný með fáeinum breytingum, þ.e. á 6., 7., 16., 17. og 20. gr.
    Frumvarpið er samið í menntamálaráðuneytinu, en hliðsjón var m.a. höfð af tillögum nefndar sem ráðuneytið skipaði árið 1994 til að huga að nýjum leiklistarlögum. Í þeirri nefnd áttu sæti fulltrúar frá Bandalagi íslenskra leikfélaga, Leiklistarsambandi Íslands og leiklistar­ráði, auk fulltrúa sem skipaðir voru án tilnefningar, en formaður var Sveinn Einarsson, fyrrverandi þjóðleikhússtjóri. Nefndin skilaði álitsgerð í ágúst 1995. Meðal annarra gagna sem lágu fyrir við samningu frumvarpsins má nefna frumvarp til laga um Þjóðleikhús sem lagt var fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90 en varð ekki útrætt.
    Frumvarpið var í drögum kynnt þjóðleikhússtjóra, framkvæmdastjórn leiklistarráðs og fulltrúum úr leiklistarlaganefndinni sem að framan getur og tekið var tillit til ýmissa ábend­inga sem fram komu í þeim viðræðum.
    Nýjum leiklistarlögum er samkvæmt frumvarpinu ætlað að leysa af hólmi tvenn núgildandi lög, þ.e. annars vegar leiklistarlög, nr. 33/1977, með síðari breytingum, og hins vegar lög um Þjóðleikhús, nr. 58/1978, með síðari breytingum. Þannig er stefnt að heildstæðum lögum um leiklistarmálefni þar sem ákvæði um Þjóðleikhús verði sérstakur kafli. Þessi formbreyting er eðlileg miðað við efnislegt samhengi. Í meginatriðum svara I., III. og IV. og að nokkru leyti V. kafli frumvarpsins til núgildandi leiklistarlaga, að því er efnisatriði varðar, en II. kafli til núgildandi laga um Þjóðleikhús.
    Helstu breytingar og nýmæli sem í frumvarpinu felast skulu nú stuttlega rakin og þá fyrst þau sem varða svið núgildandi leiklistarlaga, nr. 33/1977, með breytingum samkvæmt lögum nr. 10/1979.
          Ákvæði um fjárstuðning ríkisins við leiklistarstarfsemi, umfram rekstur Þjóðleikhússins, eru gerð almennari en nú. Tekið er fram að slíkur stuðningur geti auk almennrar leik­starfsemi tekið til barnaleikhúsa, brúðuleikhúsa, óperustarfsemi og listdans, bæði á vegum atvinnumanna og áhugaleikfélaga, en ekki er gert ráð fyrir að lögbinda framlög til einstakra aðila.
          Gert er ráð fyrir, eins og í gildandi lögum, að sveitarfélög veiti fé til leiklistarstarfsemi, en fellt er brott ákvæði um að framlag sveitarfélags til hvers leikfélags skuli eigi vera minna en ríkissjóður greiðir. Er það gert með tilliti til meginreglu um fjárhagslegt sjálf­ræði sveitarfélaga.
          Lagt er til að lögfest verði heimild til að gera samninga af hálfu ríkisins við sveitarfélög, lögaðila, félög eða stofnanir um fjárstuðning við atvinnuleikhús eða hliðstæða starfsemi á sviði listdans, óperu og annarra sviðslista.
          Skipan leiklistarráðs er breytt, fulltrúum fækkað til muna og sérstök framkvæmdastjórn ráðsins lögð niður.
    Kaflinn um Þjóðleikhús felur í sér talsverða styttingu og einföldun miðað við gildandi þjóðleikhúslög. M.a. er gert ráð fyrir að felld verði brott ýmis ákvæði sem teljast mega úrelt vegna breyttra aðstæðna eða hafa ekki reynst virk í framkvæmd. Að öðru leyti miða þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að því að efla sjálfstæði leikhússins með því að draga úr lagafyrirmælum um starfstilhögun þess og stjórnkerfi, jafnframt því að leitast er við að marka skýrar línur um ábyrgð og forustuhlutverk stjórnenda. Er í því efni tekið mið af þeirri meginstefnu sem fram kemur í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins frá 1996. Auk þessara almennu breytinga skal eftirtalinna atriða getið en jafnframt er vísað til athugasemda við einstakar greinar:
          Skipan þjóðleikhúsráðs er breytt að því leyti að gert er ráð fyrir að fulltrúar í ráðið séu valdir með öðrum hætti en nú er. Í stað tilnefningar af hálfu fjögurra stærstu þingflokk­anna og Félags íslenskra leikara er lagt til að Félag íslenskra leikara tilnefni einn fulltrúa og Félag leikstjóra á Íslandi einn en að þrír verði skipaðir af menntamálaráðherra án til­nefningar. Skipunartími ráðsins verði ekki bundinn við bilið milli alþingiskosninga heldur ákveðinn fjögur ár, þó þannig að starfstími þeirra fulltrúa sem skipaðir eru án tilnefningar takmarkist við embættistíma ráðherrans ef hann situr skemur. Þá er gert ráð fyrir að fulltrúi starfsmanna leikhússins eigi sæti á fundum ráðsins með málfrelsi og tillögurétti.
          Þjóðleikhúsinu er gert lögskylt að kosta kapps um hagkvæmt samstarf við stofnanir, félög og aðra sem sinna listgreinum á starfssviði þess.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér er markmið lagasetningar um leiklistarmál orðað í stuttu máli. Greinin á sér ekki beina hliðstæðu í gildandi lögum.

    Um 2. gr.

    Þessi grein er efnislega óbreytt frá gildandi leiklistarlögum.

Um 3. gr.

    Greinin er samhljóða 1. gr. gildandi laga um Þjóðleikhús.

Um 4. gr.

    Sú skilgreining á hlutverki Þjóðleikhússins sem í greininni felst er að mestu samhljóða markmiðslýsingu í 2. gr. gildandi laga en þó lítið eitt stytt.

Um 5. gr.

    Hér er kveðið nánar á um verksvið og starfshætti Þjóðleikhússins á svipaðan hátt og í gildandi lögum þótt ákvæðin séu þar í mismunandi greinum (sbr. 3. og 5. gr. laga nr. 58/1978). Aðalbreytingin lýtur að skyldum Þjóðleikhússins til að sinna óperum, söngleikjum og listdansi. Á þessu sviði hafa aðstæður breyst nokkuð eftir setningu gildandi laga, einkum með tilkomu Íslensku óperunnar og breyttum högum Íslenska dansflokksins sem orðinn er sjálfstæð stofnun og hefur ekki lengur bækistöð í Þjóðleikhúsinu. Engu að síður er áfram gert ráð fyrir að Þjóðleikhúsið hafi skyldum að gegna á þessu sviði en ákvæðið sem að því lýtur er rýmkað frá því sem nú er. Í stað þess að mæla fyrir um að leikhúsið skuli „árlega flytja óperu og söngleiki og sýna listdans“ (sbr. 3. gr. gildandi þjóðleikhúslaga) er kveðið á um að það skuli „standa að flutningi á óperum og söngleikjum og listdanssýningum“. Er þá m.a. haft í huga að um geti verið að ræða samvinnuverkefni Þjóðleikhússins og annarra aðila á þessu sviði.

Um 6. gr.

    Fyrri málsgrein greinarinnar fjallar um skipun þjóðleikhússtjóra. Er þar miðað við að um hana gildi meginreglur laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að því er varðar forstöðumenn ríkisstofnana. Í þjóðleikhúslögunum frá 1978 var kveðið á um fjög­urra ára ráðningartíma þjóðleikhússtjóra en því var breytt í fimm ára skipunartíma með lögum nr. 83/1997, um breytingar á sérákvæðum í lögum er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að fellt verði brott ákvæði gildandi laga um að endurnýja megi skipun þjóðleikhússtjóra einu sinni til næstu fimm ára en þess í stað fari um endurskipun eftir almennum reglum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 23. gr. laga nr. 70/1996, þó þannig að áskilið er að embættið skuli ætíð auglýst laust til umsóknar í lok hvers skipunartímabils.
    Lagt er til að afnumin verði tilhögun sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 13. gr. gildandi þjóðleikhúslaga og varðar skörun á störfum fráfarandi þjóðleikhússtjóra og þess sem við tekur. Hvort tveggja er að hún samrýmist illa aðalreglu nýrra starfsmannalaga um skipunar­tíma embættismanna og jafnframt viðbúið að hún geti reynst hæpin í framkvæmd, leiði til óvissu um valdmörk og ábyrgð þegar tveir menn eiga hlut að sama forstöðumannsstarfi. Hér eru þeir annmarkar taldir vega þyngra en þau vandkvæði að nýr þjóðleikhússtjóri skuli þurfa að sæta því í upphafi ferils síns að stjórna starfsemi sem aðrir hafa skipulagt og ákveðið. Við slíkt þarf að búa á mörgum öðrum sviðum, m.a. í öðrum listastofnunum sem þurfa að skipu­leggja starfsemi sína með nokkrum fyrirvara. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir (sbr. ákvæði til bráðabirgða) að nýtt skipunartímabil, og þar með mannaskipti ef um þau er að ræða, miðist við áramót, en samkvæmt núverandi tilhögun lætur fráfarandi þjóðleikhússtjóri af störfum í upphafi nýs leikárs.
    Síðari málsgrein 6. gr. skilgreinir hlutverk þjóðleikhússtjóra í stuttu máli. Í meginatriðum er ekki um að ræða mikla breytingu frá gildandi lögum, en ætlast er til að orðalag greinarinnar gefi skýrt til kynna að þjóðleikhússtjóri er ótvíræður stjórnandi stofnunarinnar og ber ábyrgð á starfi hennar í samræmi við það.

Um 7. gr.

    Í fyrri málsgrein greinarinnar er fjallað um skipun þjóðleikhúsráðs. Er þar gert ráð fyrir veigamiklum breytingum, sbr. almennar athugasemdir hér að framan. Samkvæmt núgildandi lögum (sbr. 5. gr. laga nr. 58/1978) skipar menntamálaráðherra, eftir hverjar alþingiskosn­ingar, fimm menn í þjóðleikhúsráð, fjóra eftir tilnefningu fjögurra stærstu þingflokkanna og einn samkvæmt tilnefningu Félags íslenskra leikara. Ráðherra skipar jafnframt einn úr þess­um hópi formann ráðsins. Þessi tilhögun hefur verið frá því að Þjóðleikhúsið tók til starfa fyrir nærfellt hálfri öld, raunar var hún ákveðin í þjóðleikhúslögum 1947, en á sér ekki hliðstæðu í ríkiskerfinu. Með þessu frumvarpi er lagt til að breytt verði á þá lund að tveir af fimm fulltrúum í þjóðleikhúsráði verði tilnefndir af Félagi íslenskra leikara og Félagi leikstjóra á Íslandi, en þrír fulltrúar verði skipaðir án tilnefningar af menntamálaráðherra, sem jafnframt skipi formann ráðsins og varaformann úr hópi aðalfulltrúa í ráðinu. Þá er og gert ráð fyrir að skipunartími þjóðleikhúsráðs verði fjögur ár, þó þannig að starfstími þeirra fulltrúa sem skipaðir eru án tilnefningar takmarkist við embættistíma ráðherrans sem skipar þá, sitji hann skemur.
    Önnur nýjung er að samkvæmt frumvarpinu er kjörnum fulltrúa starfsmanna leikhússins tryggt sæti á fundum þjóðleikhúsráðs með málfrelsi og tillögurrétti. Slík lögformleg trygging er ekki fyrir hendi nú þótt í framkvæmd muni það oftast hafa verið svo að fulltrúi Félags ís­lenskra leikara í ráðinu hafi verið úr hópi starfsmanna leikhússins. Nauðsynlegt er að starfs­fólk stofnunarinnar eigi kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á vettvangi þjóð­leikhúsráðs. Með hliðsjón af hæfisreglum stjórnsýslulaga er hins vegar ekki gert ráð fyrir að fulltrúi starfsfólks fari þar með atkvæðisrétt.
    Í seinni málsgrein greinarinnar er hlutverk þjóðleikhúsráðs skýrgreint á samfelldari hátt en í gildandi lögum. Tekið er fram að það sé stjórnarnefnd leikhússins sem allar meiri háttar rekstrarákvarðanir skuli bornar undir. Það er þjóðleikhússtjóra til samráðs um mótun starf­seminnar, leggur samþykki á árlega starfs- og fjárhagsáætlun og hefur eftirlit með fram­kvæmd hennar. Rétt er að ítreka það sem segir í athugasemd um 6. gr. hér að framan, þar sem áhersla er lögð á forustuhlutverk og ábyrgð þjóðleikhússtjóra. Hlýtur samstarf þjóðleikhús­ráðs og þjóðleikhússtjóra að taka mið af því.

Um 8.–9. gr.

    Í gildandi þjóðleikhúslögum eru allmörg ákvæði sem varða tiltekin störf og stöður í leikhúsinu, önnur en stöðu þjóðleikhússtjóra. Sumt af því á sér ekki lengur stoð í raunveru­legum aðstæðum stofnunarinnar. Sem dæmi má nefna ákvæði um listdansstjóra í fullu starfi, sbr. það sem að framan getur um aðskilnað Þjóðleikhússins og Íslenska dansflokksins. Mestu skiptir þó hitt að ekki verður talið heppilegt að njörva niður í lagasetningu hvernig störfum skuli skipað í leikhúsinu. Gert er ráð fyrir að stjórnendur stofnunarinnar hafi með höndum að ráða það starfslið sem þarf til að hún fái sem best rækt lögbundið hlutverk sitt og með hliðsjón af þeirri ábyrgð sem þeir bera á því að reksturinn sé innan marka lögmætra fjárheimilda. Um stöðu og kjör þeirra sem ráðnir eru til ákveðinna starfa fer síðan eftir lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og þeim kjarasamningum sem í gildi eru á hverjum tíma.
    Þessi sjónarmið liggja því til grundvallar að ákvæði frumvarpsins um starfsmannamál Þjóðleikhússins eru til muna fábrotnari en í gildandi lögum. Í 8. gr. er hins vegar gert ráð fyrir að setja megi í reglugerð ákvæði um innra starfsskipulag hússins ef það þykir henta og þá að fengnum tillögum þjóðleikhúsráðs.

Um 10. gr.

    Í 14. og 15. gr. núgildandi laga um Þjóðleikhús eru allviðamikil ákvæði sem lúta að sam­starfi Þjóðleikhússins við leikfélög í landinu, einkum félög áhugamanna. Í stað þeirra er í þessari grein frumvarpsins kveðið almennt á um skyldu Þjóðleikhússins til að kappkosta hag­kvæmt samstarf við stofnanir, félög og aðra sem sinna þeim listgreinum er falla undir verk­svið þess, jafnframt því að áréttað er að því beri eftir föngum að liðsinna leikfélögum áhuga­manna og veita leiklistarnemendum fyrirgreiðslu. Með þessum ákvæðum er mörkuð sú stefna að stuðla beri að samvinnu þeirra sem vinna að sviðslistum, bæði opinberra stofnana og ann­arra, þegar ætla má að slík samvinna geti verið árangursrík frá listrænu sjónarmiði eða fjár­hagslegu. Ýmis dæmi eru um vel heppnað samstarf af þessu tagi og fjölbreyttir möguleikar ættu að vera fyrir hendi, misjafnlega nærtækir. Meðal eðlilegra samstarfsaðila Þjóðleikhúss­ins, auk almennra leikhúsa og leikfélaga, má benda á Íslensku óperuna, Íslenska dansflokk­inn, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Ríkisútvarpið og aðra ljósvakamiðla í tengslum við upptökur á leiksýningum, en þær hafa til þessa verið of fátíðar.
    Í 14. gr. gildandi þjóðleikhúslaga, sem áður var vitnað til, er mælt fyrir um að Þjóðleik­húsið skuli taka þátt í stofnun og rekstri leikmunasafns ásamt sjónvarpsdeild Ríkisútvarpsins. Af stofnun slíks sameiginlegs safns hefur ekki orðið, þótt hlutverki þess sé sinnt með öðrum hætti af hlutaðeigandi stofnunum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þetta ákvæði falli brott.

Um 11.–13. gr.

    Þessar greinar eru efnislega lítt breyttar frá gildandi lögum.

Um 14. gr.

    Greinin fjallar um þann fjárstuðning sem gert er ráð fyrir að veittur sé í fjárlögum ár hvert til leiklistarstarfsemi auk framlaga til Þjóðleikhússins. Skilgreining í 1. mgr. á þeirri starfsemi sem notið getur slíks stuðnings af hálfu ríkisins er rúm, tekið er fram að bæði sé átt við leiklist atvinnumanna og áhugaleikfélaga, svo og mismunandi tegundir sviðslista. Hliðstæð ákvæði í núgildandi leiklistarlögum (sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 33/1977, með breytingum samkvæmt lögum nr. 10/1979) eru að því leyti frábrugðin að þar eru sérstaklega tilgreindir þrír aðilar sem njóta eiga árlegs fjárstuðnings, þ.e. Leikfélag Reykjavíkur, Leikfélag Akureyrar og Bandalag íslenskra leikfélaga. Í frumvarpinu er valin sú leið að skilgreina styrkhæfa starfsemi en tiltaka ekki einstaka aðila sem skylt sé að styrkja. Að því er Leikfélag Reykjavíkur varðar er rétt að taka fram að árleg framlög ríkisins til félagsins hafa verið mjög takmörkuð flest hin síðari ár, eftir að nokkurs konar verkaskipting komst á milli ríkisins og Reykjavíkurborgar árið 1991 um fjárstuðning við Leikfélag Reykjavíkur og Íslensku óperuna. Undantekning í þessu efni er samtals 25 millj. kr. framlag ríkisins til LR í tilefni af aldarafmæli félagsins 1997. Um framlög til Leikfélags Akureyrar hefur frá 1991 farið eftir þríhliða samningi milli ríkisins, Akureyrarbæjar og Leikfélags Akureyrar, en framkvæmd þess samnings fellur nú undir samning sem gerður var árið 1996 milli ríkisins og Akureyrarbæjar um framlög ríkissjóðs til menningarmála og menningarstofnana sem tengjast Akureyrarbæ. (Samningurinn við Akureyrarbæ var gerður í tengslum við hlutverk Akureyrarbæjar sem reynslusveitarfélag og gildir til ársloka 1999.) Bandalag íslenskra leikfélaga hefur um langt skeið notið árlegs styrks í fjárlögum til starfsemi sinnar og í frumvarpinu felst alls engin vísbending um að á því ætti að verða breyting.
    Í 2. mgr. greinarinnar er kveðið á um hvernig standa skuli að úthlutun þess styrkfjár sem um ræðir í 1. mgr. Í meginatriðum er um að ræða hliðstætt fyrirkomulag því sem tíðkast hefur í framkvæmd, þ.e. að styrkjum til svonefndra atvinnuleikhópa sé úthlutað að fengnum tillögum leiklistarráðs og styrkjum til áhugaleikfélaga að fengnum tillögum Bandalags ís­lenskra leikfélaga. Þess skal þá getið að tillögugerð af hálfu leiklistarráðs hefur verið í hönd­um framkvæmdastjórnar þess (sbr. athugasemdir við 17. gr. hér á eftir). Þá er og mælt fyrir um að menntamálaráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um undirbúning og tilhögun styrk­veitinga.
    Mikilsverður þáttur í fjárhagslegum stuðningi ríkisins við leiklistarstarfsemi er fólginn í starfslaunum sem veitt eru samkvæmt lögum um listamannalaun, svo sem vísað er til í síðustu málsgrein þessarar greinar frumvarpsins. Samkvæmt þeim lögum eru starfslaun listamanna veitt úr fjórum sjóðum, þ.e. Launasjóði rithöfunda, Launasjóði myndlistarmanna, Tón­skáldasjóði og Listasjóði. Listasjóður er almennur sjóður en sinnir einkum öðrum listgreinum en þeim sem falla undir sérgreindu sjóðina. Með lögum nr. 144/1996, um breyting á lögum um listamannalaun, nr. 35/1991, var kveðið á um að allt að þriðjungi starfslauna og styrkja úr Listasjóði skuli varið til stuðnings leikhópum, svo sem fyrir er mælt í ákvæðum leiklistarlaga, enda verði því framlagi einvörðungu varið til greiðslu starfslauna til einstakra leikhúslistamanna. Stjórn listamannalauna getur falið framkvæmdastjórn leiklistarráðs að fjalla um veitingu þessara starfslauna. Með þessu móti eru tengd saman starfslaun samkvæmt lögum um listamannalaun og fjárstuðningur við leikhópa á grundvelli leiklistarlaga. Kom sú tilhögun í fyrsta sinn til framkvæmda á þessu ári og er líkleg til að styrkja mjög aðstöðu þeirra leikhópa sem hennar njóta.
    Í 2. mgr. þessarar greinar er orðið „atvinnuleikhópar“ haft um leikhópa sem geta notið stuðnings að fengnum tillögum leiklistarráðs. Ástæða er til að fjalla stuttlega um merkingu þeirrar nafngiftar í þessu samhengi. Ekki er unnt að fullyrða að „atvinnuleikhópur“ sé hópur manna sem hafa aðalatvinnu af leikstarfi heldur er átt við að þeir sem að starfseminni standa hafi til að bera sérhæfða menntun eða reynslu sem að öðru jöfnu er ein af forsendum „fag­mennsku“ í leiklist. Ýmis önnur orð hafa með jafngóðum rökum verið notuð um þá sýningarhópa sem hér er um að tefla, svo sem „frjálsir leikhópar“ eða „sjálfstæðir leikhópar“ og þá átt við að starfsemin sé ekki á vegum (opinberra) stofnana.

Um 15. gr.

    Hér er, eins og í gildandi leiklistarlögum, gengið út frá því að sveitarfélög efli leiklistar­starfsemi innan vébanda sinna með fjárstuðningi. Hins vegar er lagt til að niður falli ákvæði um að fjárframlag sveitarstjórnar skuli eigi vera lægra til hvers leikfélags en ríkissjóður greið­ir að fengnum tillögum Bandalags íslenskra leikfélaga. Eðlilegt er að í þessu efni gildi sjálfræði sveitarfélaganna um ráðstöfun fjármuna sinna.

Um 16. gr.

    Eins og um getur í athugasemdum við 14. gr. hefur um nokkurra ára skeið verið í gildi þríhliða samningur milli ríkisins, Akureyrarbæjar og Leikfélags Akureyrar um framlög til atvinnuleikhúss á vegum Leikfélags Akureyrar. Samningur milli menntamálaráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og stjórna Íslensku óperunnar og styrktarfélags hennar um fjárstuðning ríkisins við starfsemi Íslensku óperunnar var gerður 1991 og endurnýjaður í endurskoðaðri gerð í janúar 1997 til fjögurra ára. Loks má nefna að menntamálaráðuneytið hefur að tillögu framkvæmdastjórnar leiklistarráðs þrívegis gert starfssamning til tveggja leikára við leikhóp sem veittur var styrkur af fjárveitingu til atvinnuleikhópa. Samningar af þessu tagi eru til þess fallnir að styrkja rekstrargrundvöll starfseminnar sem í hlut á jafnframt því að stuðlað er að markvissri nýtingu þess fjárstuðnings sem samið er um. Ákvæði þessarar greinar frumvarpsins miða að því fá slíkum samningum beina stoð í leiklistarlögum, en þeir hafa hingað til aðallega byggst á fjárveitingum í fjárlögum hverju sinni. Almenn lagaheimild til verkefnasamninga ráðuneyta við ríkisstofnanir, sveitarfélög eða einkaaðila er nú að finna í 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997.
    Ekki þykir rétt að binda hendur ráðherra í lögum þannig að gert sé skylt að ganga til samn­inga við tiltekna aðila. Í síðari málsgrein greinarinnar kemur hins vegar fram að við fram­kvæmd heimildarákvæðisins beri að taka sérstakt tillit til stofnana og félaga sem lengst hafa notið fjárhagslegs stuðnings úr ríkissjóði. Er þá haft í huga að leiklistarstofnanir eins og Leik­félag Reykjavíkur, Leikfélag Akureyrar og Íslenska óperan hafa skipað sérstakan sess í íslensku leikhúslífi. Samningaheimildin mundi m.a. taka til þeirra, sbr. og það sem rakið var hér að framan.

Um 17. gr.

    Í þessari grein er fjallað um skipan leiklistarráðs og gert ráð fyrir að á henni verði veiga­mikil breyting. Á grundvelli gildandi leiklistarlaga er leiklistarráð nú skipað nær 30 full­trúum, tilnefndum af samtökum og stofnunum sem fjalla um leiklistarmál. Skipunartími ráðs­ins er þrjú ár í senn. Ráðið skal koma saman einu sinni á ári nema sérstök ástæða sé til fleiri funda, en milli funda ráðsins fer þriggja manna framkvæmdastjórn með málefni þess. Í frum­varpinu er lagt til að í leiklistarráði eigi sæti þrír fulltrúar, einn tilnefndur af Leiklistar­sambandi Íslands og annar af Bandalagi sjálfstæðra atvinnuleikhúsa en einn skipaður án til­nefningar og sé hann formaður ráðsins. Eins og nú er gert ráð fyrir að menntamálaráðherra skipi ráðið en skipunartíminn er styttur í tvö ár og kveðið á um að ekki megi skipa sama mann aðalfulltrúa meira en tvö starfstímabil í röð.
    Eins og núgildandi lagaákvæði um leiklistarráð eru úr garði gerð er þess ekki að vænta að ráðið í heild inni af hendi eiginlegt starf að þeim málefnum sem falla undir verksvið þess samkvæmt lögunum, nema hvað ársfundir ráðsins hafa að sjálfsögðu verið vettvangur um­ræðna um leiklistarmál. Að öðru leyti sinnir framkvæmdastjórnin verkefnum ráðsins, m.a. gerð tillagna um ráðstöfun fjárveitingar til starfsemi atvinnuleikhópa. Segja má að í frum­varpinu felist viðurkenning á þessari tilhögun. Ekki virðist lengur ástæða til að lögbinda sérstakan umræðuvettvang um leiklistarmál, m.a. með hliðsjón af tilkomu Leiklistar­sambands Íslands sem eftir samþykktum sínum er ætlað að vera „sameiginlegur vettvangur allra þeirra starfsgreina og stofnana sem vinna að leikhúsmálum á Íslandi“.

Um 18. gr.

    Í greininni er kveðið á um verkefni leiklistarráðs. Lögð er nokkru meiri áhersla en í gildandi lögum á það hlutverk ráðsins að vera ráðgjafar- og umsagnaraðili fyrir menntamála­ráðuneytið um leiklistarmálefni. Kveðið er beint á um tillögugerð ráðsins að því er varðar úthlutun fjárveitingar til atvinnuleikhópa, en um það verkefni framkvæmdastjórnar leiklistar­ráðs er nú mælt í reglugerð.

Um 19. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 20. gr.

    Auk ákvæða um gildistöku nýrra laga og niðurfellingu fyrri leiklistarlaga og laga um Þjóð­leikhús er í greininni mælt fyrir um lítils háttar breytingu á lögum um listamannalaun sem leiðir af því að ekki verður lengur um að ræða framkvæmdastjórn leiklistarráðs.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Vísað er til athugasemda við 6. gr.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til leiklistarlaga.

     Frumvarpið felur í sér að sett verði ein lög um leiklistarstarfsemi í landinu sem taki við hlutverki núgildandi leiklistarlaga, nr. 33/1977, og laga um Þjóðleikhús, nr. 58/1978. Helstu breytingar og nýmæli sem koma til álita varðandi kostnað eru í fyrsta lagi að ákvæði um fjár­stuðning ríkisins við leiklistarstarfsemi, umfram rekstur Þjóðleikhússins, eru gerð almennari en nú. Í öðru lagi er fellt brott lagaákvæði um að framlag sveitarfélags til hvers leikfélags skuli eigi vera minna en það sem ríkissjóður greiðir. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að lögfest verði heimild til handa menntamálaráðherra og fjármálaráðherra til að gera samninga um fjárstuðning við atvinnuleikhús og hliðstæða starfsemi með fyrirvara um fjárveitingu í fjárlögum, en almenn heimild ráðherra til að gera samninga til nokkurra ára er í fjárreiðu­lögum. Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar á skipan leiklistarráðs sem fela í sér fækkun full­trúa og einföldun. Í fimmta og síðasta lagi er lagt til að bundið verði í lög að Þjóðleikhúsinu sé ætlað að eiga samstarf við aðrar stofnanir, félög og aðra sem sinna listgreinum á starfssviði þess og geta eflt þessar listgreinar á hagkvæman hátt. Að því er séð verður mun frumvarpið, verði það að lögum, hafa óveruleg áhrif á útgjöld ríkissjóðs.