Ferill 206. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 240  —  206. mál.
Tillaga til þingsályktunarum fullgildingu samnings sem ráð Evrópusambandsins og lýðveldið Ísland og konungsríkið Noregur gera með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna.

(Lögð fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning sem ráð Evrópusambandsins og lýðveldið Ísland og konungsríkið Noregur gera með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna sem undirritaður var í Brussel 18. maí 1999.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.I.     Almennt.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á samningi sem ráð Evrópusambandsins og lýðveldið Ísland og konungsríkið Noregur gera með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna er undirritaður var í Brussel 18. maí 1999. Samningurinn, sem hér eftir er nefndur Brussel- samningurinn, er prentaður sem fylgiskjal I með tillögu þessari.
    Upphaf Schengen-samstarfsins má rekja til þess að hinn 14. júní 1985 var undirritað í bænum Schengen í Lúxemborg samkomulag milli Belgíu, Frakklands, Hollands, Lúxemborgar og Þýskalands um að fella smám saman niður eftirlit á sameiginlegum landamærum þessara ríkja (hér eftir nefnt „Schengen-samkomulagið“). Íslensk þýðing Schengen-samkomulagsins er prentuð sem fylgiskjal II með tillögu þessari.
    Með Schengen-samkomulaginu voru skilgreind almenn markmið um að koma á í áföngum frjálsri för einstaklinga yfir innri landamæri aðildarríkjanna. Nánar tiltekið kveður samkomulagið á um að aðildarríkin skuli með tilteknum hætti einfalda eftirlit með för fólks á sameiginlegum landamærum. Enn fremur kveður samkomulagið á um að aðildarríkin styrki samstarf sitt í baráttunni gegn alþjóðlegri afbrotastarfsemi.
    Hinn 19. júní 1990 var undirritaður á sama stað samningur milli sömu ríkja um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 1985 (hér eftir nefndur „Schengen- samningurinn“). Íslensk þýðing Schengen-samningsins er prentuð sem fylgiskjal III með tillögu þessari. Síðar hafa Ítalía, Spánn, Portúgal, Grikkland, Austurríki, Danmörk, Finnland og Svíþjóð gerst aðilar að Schengen-samningnum. Ákvæði samningsins eru komin til framkvæmda í aðildarríkjunum að undanskildum norrænu ríkjunum og Grikklandi að hluta.
    Segja má að kjarni Schengen-samstarfsins sé annars vegar að tryggja frjálsa för einstaklinga um innri landamæri samstarfsríkjanna og hins vegar að styrkja baráttu samstarfsríkjanna gegn alþjóðlegri afbrotastarfsemi, ekki síst ólöglegum innflutningi fíkniefna.
    Reglur Evrópubandalaganna frá 1986 um innri markaðinn lúta á sama hátt að því að tryggja frjálsa för einstaklinga en ekki náðist samstaða milli allra aðildarríkja þeirra um hversu langt skyldi ganga. Þau ríkjanna sem lengst vildu ganga stofnuðu því til Schengen- samstarfsins með það að leiðarljósi að hin aðildarríkin gætu seinna gerst aðilar að því. Í ljósi þessa má segja að Schengen-samstarfið sé liður í því að tryggja frjálsa för einstaklinga um Evrópu.
    Með Schengen-samstarfinu er leitast við að styrkja baráttu samstarfsríkjanna gegn alþjóðlegri afbrotastarfsemi. Er markmiðið að koma í veg fyrir að afnám persónueftirlits á innri landamærum auðveldi afbrotamönnum starfsemi sína. Þróunin hefur hins vegar leitt í ljós að burtséð frá fyrirkomulagi persónueftirlits að þessu leyti er brýn þörf fyrir alþjóðlega lögreglusamvinnu til að berjast gegn alþjóðlegri afbrotastarfsemi.
    Íslendingar hafa orðið áþreifanlega varir við það að undanförnu að skipulögð afbrotastarfsemi, sem kemur í kjölfar aukinnar fíkniefnaneyslu, virðist ekki ætla að láta Ísland ósnert. Reynsla annarra þjóða sýnir að í kjölfarið má reikna með annars konar skipulagðri afbrotastarfsemi, svo sem peningaþvætti, vændi og skipulögðu smygli á fólki. Hvarvetna í heiminum er þekkt að skipulögð afbrotastarfsemi virðir ekki landamæri á sama hátt og réttarvörslukerfin. Afbrotahringir nýta sér lögsögumörk markvisst til að komast undan armi laganna í heimi sem verður stöðugt minni fyrir áhrif nútímasamskipta og -samgangna. Viðurkennt er að eina leiðin til að bregðast við þessu er að stórauka alþjóðlega lögreglusamvinnu.
    Þátttaka í Schengen-samstarfinu styrkir stöðu lögreglunnar í baráttunni gegn alþjóðlegri afbrotastarfsemi þar sem komið hefur verið á fót beinum samskiptum milli lögregluyfirvalda samstarfsríkjanna auk þess sem ríkin hafa komið sér saman um fyrirkomulag lögreglusamvinnu yfir landamæri. Aðgangur lögreglu að Schengen-upplýsingakerfinu er þar einn mikilvægasti þátturinn. Einnig ber að hafa í huga að gagnkvæm réttaraðstoð á þessu sviði á milli samstarfsríkjanna hefur verið einfölduð, m.a. með beinum samskiptum viðkomandi yfirvalda.

II.     Grundvöllur þátttöku Íslands og Noregs í Schengen-samstarfinu.
    Schengen-samningurinn kom til framkvæmda milli hluta aðildarríkjanna (Benelúx- ríkjanna, Frakklands, Portúgals, Spánar og Þýskalands) 26. mars 1995. Danmörk hafði þá sótt um áheyrnaraðild að samstarfinu með það fyrir augum að gerast aðili síðar. Aðild Dana að samstarfinu hefði leitt til þess að ytri landamæri Schengen-svæðisins hefðu legið í gegnum Norðurlöndin og með því hefði norræna vegabréfasambandið liðið undir lok. Vegna þessa var sá fyrirvari í umsókn Dana að Schengen-samstarfinu að norræna vegabréfasambandið héldist.
    Það var mat stjórnvalda að íbúar Norðurlandanna mundu hvorki skilja né sætta sig við að 40 ára frelsi til ferða án vegabréfs milli norænu ríkjanna þyrfti að ljúka á þennan hátt. Auk þessu hefðu Norðurlöndin haft með sér verulegt samstarf á sviði lögreglumála, réttaraðstoðar o.fl. sem kynni að vera í hættu ef þau væru ekki samstíga í þessu sambandi.
    Í ljósi alls þessa lýstu forsætisráðherrar Norðurlanda því yfir á fundi sínum í Reykjavík 27. febrúar 1995 að það þjónaði best hagsmunum norræna vegabréfasambandsins að löndin hefðu sameiginlega jákvæða afstöðu til þátttöku í Schengen-samstarfinu. Samstarfssamningur Íslands og Noregs við Schengen-ríkin var síðan undirritaður í Lúxemborg 19. desember 1996 (hér eftir nefndur „Lúxemborgarsamningurinn“) samhliða aðildarsamningum Danmerkur, Finnlands og Svíþjóðar. Þingsályktunartillaga um fullgildingu Lúxemborgarsamningsins var lögð fram á 122. löggjafarþingi, þskj. 1176, en varð ekki útrædd. Lúxemborgarsamningurinn var prentaður sem fylgiskjal með þeirri tillögu.
    Með Amsterdam-sáttmálanum, sem undirritaður var í október 1997, um breytingar á Maastricht-sáttmálanum um Evrópusambandið, stofnsáttmálum Evrópubandalaganna og tilteknum gerðum sem tengjast þeim fylgdi bókun sem fellir Schengen-samstarfið undir laga- og stofnanaramma Evrópusambandsins (hér eftir nefnd „Schengen-bókunin“). Í Schengen- bókuninni er sérstaklega kveðið á um að samstarfi við Ísland og Noreg skuli haldið áfram á grunni Lúxemborgarsamningsins en að gera skyldi sérstakan samning um samstarfið milli Evrópusambandsins og ríkjanna tveggja.
    Á grundvelli framangreinds gengu Ísland og Noregur sameiginlega til samningaviðræðna við ráð Evrópusambandsins um þátttöku í Schengen-samstarfinu eftir að það færðist undir laga- og stofnanaramma Evrópusambandsins með gildistöku Amsterdam-sáttmálans. Annað aðalsamningsmarkmið Íslands var að áhrif á mótun nýrra Schengen-reglna yrðu með sambærilegum hætti og samkvæmt Lúxemborgarsamningnum. Þar var skýrt kveðið á um að Ísland og Noregur tækju fullan þátt í framkvæmd og mótun Schengen-reglna á öllum stigum utan þátttöku í atkvæðagreiðslum. Hitt meginmarkmið Íslands var að ekki yrði komið á eftirlitsvaldi alþjóðlegra stofnana með framkvæmd Íslands á samningnum nema því aðeins að Ísland ætti aðild að slíkum stofnunum á að minnsta kosti sambærilegan hátt og í EES- samstarfinu.
    Þessi samningsmarkmið byggðust m.a. á álitsgerð þriggja lagaprófessora frá desember 1997 um hvort væntanlegur samningur um þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu, eftir að það hefði færst undir Evrópusambandið með Amsterdam-sáttmálanum, samrýmdist ákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar. Álitsgerðin er prentuð sem fylgiskjal IV með tillögu þessari.
    Samningar náðust um miðjan desember 1998 þar sem meginsamningsmarkmiðum Íslands er náð og skrifaði utanríkisráðherra undir samninginn í Brussel 18. maí 1999. Meðan á samningaviðræðunum stóð leitaði utanríkisráðherra ráðgjafar lagaprófessoranna þriggja um stjórnskipuleg atriði og hafði að öðru leyti samráð við ríkisstjórn og utanríkismálanefnd um framgang samningaviðræðnanna. Með bréfi dags. 17. febrúar sl. óskaði utanríkisráðuneytið eftir því við lagaprófessorana að þeir gæfu skriflega umsögn um endanlega gerð samningsins og er umsögn þeirra, dags. 31. ágúst 1999, prentuð sem fylgiskjal V með tillögu þessari.

III.     Nánar um Schengen-samninginn frá 1990.
    Schengen-samkomulagið frá 1985 er grundvöllur Schengen-samstarfsins en Schengen- samningurinn afmarkar efnissvið þess. Því er nauðsynlegt að lýsa innihaldi Schengen- samningsins en Schengen-gerðir eru samningnum til fyllingar og verða að hafa stoð í honum.
    Rétt er þó að taka fram áður en lengra er haldið að í 1. hluta viðauka A við Brussel- samninginn kemur fram að gildissvið sumra ákvæða og hluta Schengen-samningsins er takmarkað gagnvart Íslandi og Noregi. Slíkra takmarkana er getið í neðanmálsgreinum með íslenskri þýðingu samningsins auk þess sem nánari grein er gerð fyrir takmörkunum og ástæðum þeirra í eftirfarandi umfjöllun um Schengen-samninginn.
    Schengen-samningurinn er 142 greinar og skiptist í átta bálka svo sem hér greinir:
     *      I. bálkur (1. gr.) inniheldur hugtakaskilgreiningar sem skýra sig sjálfar.
     *      II. bálkur (2.–38. gr.) fjallar um afnám eftirlits á innri landamærum og för fólks. Bálknum er skipt í sjö kafla.
     *      III. bálkur (39.–91. gr.) fjallar um lögreglu og öryggi. Bálknum og er skipt í sjö kafla.
     *      IV. bálkur (92.–119. gr.) fjallar um Schengen-upplýsingakerfið. Bálknum er skipt í fjóra kafla.
     *      V. bálkur (120.–125. gr.) fjallar um flutninga og vöruflæði. Gagnvart Evrópusambandsríkjunum hefur bálkurinn vikið fyrir reglum innri markaðarins. Tekið er fram í viðauka A við Brussel-samninginn að bálkurinn gildi ekki gagnvart Íslandi og Noregi, enda kveður EES-samningurinn á um beitingu reglna innri markaðar EB gagnvart Íslandi og Noregi. Með hliðsjón af þessu er ekki gerð frekari grein fyrir þessum ákvæðum samningsins hér á eftir.
     *      VI. bálkur (126.–130. gr.) fjallar um vernd persónuupplýsinga.
     *      VII. bálkur (131.–133. gr.) fjallar um framkvæmdanefnd samningsins.
     *      VIII. bálkur (134.–142. gr.) hefur að geyma lokaákvæði samningsins.

Um 1. kafla II. bálks – farið yfir innri landamæri (2. gr.).
    Mönnum er heimilt að fara yfir innri landamæri aðildarríkjanna hvar sem er og án þess að sæta nokkru persónueftirliti. Þrátt fyrir afnám slíks eftirlits er heimilt, að höfðu samráði við önnur aðildarríki, að koma á tímabundinni landamæravörslu á innri landamærum vegna allsherjarreglu og þjóðaröryggis. Afnám persónueftirlits takmarkar ekki heimildir aðildarríkjanna til löggæslu innan landamæranna lögum samkvæmt. Afnám eftirlitsins hefur ekki áhrif á skyldu einstaklinga til að bera og eftir atvikum framvísa skjölum í samræmi við reglur hlutaðeigandi ríkis.
    Samkvæmt viðauka A við Brussel-samninginn gildir 4. mgr. 2. gr., sem fjallar um eftirlit með vörum, ekki gagnvart Íslandi og Noregi, sbr. það sem áður segir um vörusvið samningsins. Felur það í sér að tolleftirliti verður eftir sem áður haldið uppi gagnvart farþegum við komu frá Schengen-svæðinu.

Um 2. kafla II. bálks – farið yfir ytri landamæri (3.–8. gr.).
    Umferð yfir ytri landamæri skal almennt einungis fara um landamærastöðvar.
    Við komu í flughöfn skal hafa eftirlit með farþegum sem koma frá þriðja ríki og handfarangri þeirra haldi þeir áfram flugi innan svæðisins. Farþegar sem koma með flugi innan svæðisins skulu, áður en þeir halda áfram með flugi til þriðja ríkis, háðir eftirliti og sama gildir um handfarangur þeirra. Þessi ákvæði gilda ekki um innritaðan farangur sem annaðhvort er háður eftirliti á upphaflegum brottfararstað eða áfangastað.
    Heimilt er að veita útlendingi leyfi til komu inn á Schengen-svæðið og til dvalar þar í allt að þrjá mánuði hafi hann skilríki sem framkvæmdanefnd samningsins hefur ákveðið að teljist fullnægjandi til að koma inn á svæðið, hafi hann gilda áritun þegar þess er krafist og geti hann lagt fram sannanir fyrir tilgangi og skilyrðum dvalar. Enn fremur verður hann að hafa efni á framfærslu meðan á dvöl stendur og til heimferðar eða ferðar til þriðja ríkis þar sem honum er tryggð koma eða getur á lögmætan hátt framfleytt sér. Loks er það skilyrði að hann hafi ekki verið lýstur óæskilegur í landinu og ekki megi ætla að hann muni spilla allsherjarreglu eða öryggi ríkisins eða alþjóðlegum tengslum aðildarríkjanna. Neita skal útlendingi, sem ekki uppfyllir öll skilyrði til aðgangs að svæðinu, um að koma inn á það nema nauðsynlegt sé að víkja frá þeirri reglu af mannúðarástæðum, m.a. samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum. Þegar þannig stendur á gildir heimild til komu inn á svæðið aðeins fyrir það ríki sem slíka ákvörðun tekur og skal hún tilkynnt öðrum aðildarríkjum. Útlendingi, sem hefur dvalarleyfi eða áritun til endurkomu til einhvers aðildarríkis, skal veita leyfi til ferðar gegnum ríki þar sem hann kemur inn á svæðið, nema viðkomandi ríki hafi lýst hann óæskilegan útlending.
    Eftirlit á ytri landamærum aðildarríkjanna skal framkvæmt af þar til bærum yfirvöldum samkvæmt samræmdum meginreglum innan valdmarka og laga viðkomandi ríkis að teknu tilliti til sameiginlegra hagsmuna aðildarríkjanna. Samræmdu meginreglurnar eru að eftirlit með einstaklingum tekur ekki einungis til þess að staðreyna ferðaskilríki og önnur skilyrði fyrir komu inn á svæðið, dvöl þar, vinnu og brottför af svæðinu, heldur einnig rannsókna á og varna gegn ógnunum við þjóðaröryggi og allsherjarreglu á Schengen-svæðinu. Skulu allir útlendingar sæta slíku eftirliti en aðrir skulu a.mk. sæta eftirliti með ferðaskilríkjum.
    Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gilda ákvæði 4. gr. um eftirlit með farangri ekki um Ísland og Noreg þar sem í því efni gilda reglur aðildarríkja ESB þeirra í milli og milli aðildarríkja ESB og Íslands og Noregs að svo miklu leyti sem þær kunna að eiga stoð í EES-samningnum. Í þeim tilvikum verður að öðru leyti beitt reglum íslenskra laga sem felur í sér óbreytta stefnu að því er varðar tolleftirlit með farþegum er koma frá Schengen-svæðinu.

Um 1. þátt 3. kafla II. bálks – vegabréfsáritanir til stuttrar dvalar (9.–17. gr.).
    Aðildarríkin skulu framfylgja sameiginlegum viðmiðunum varðandi för fólks, sérstaklega varðandi reglur um vegabréfsáritanir. Ríkin skuldbinda sig til að framfylgja samræmdum reglum um útgáfu á áritunum sem óheimilt er að víkja frá nema með samþykki þegar sérstakar aðstæður krefjast.
    Taka skal upp sameiginlega vegabréfsáritun sem gildir á öllu Schengen-svæðinu og getur hún gilt fyrir dvöl sem stendur í allt að þrjá mánuði. Heimilt er að takmarka gildissvið áritunar við tiltekið eða tiltekin aðildarríki.
    Áritun getur gilt fyrir eina eða fleiri komur inn á svæðið og einnig má gefa út áritun vegna ferðar í gegnum svæðið, en slík áritun má þó ekki gilda nema að hámarki í fimm daga.
    Áritun skal gefin út af stjórnarerindrekum aðildarríkjanna eða ræðismönnum. Meginreglan er að áritun skal gefin út af fulltrúum þess ríkis sem ferðinni er heitið til. Sé það ekki unnt skal áritun almennt gefin út af fulltrúum fyrsta komuríkis á svæðinu.
    Ekki má veita áritun á útrunnin ferðaskilríki. Ferðaskilríkin skulu hafa lengri gildistíma en áritunin. Þau skulu hafa nægilega langan gildistíma til að útlendingurinn geti ferðast til baka til heimaríkis eða þriðja ríkis. Áritun má almennt því aðeins veita að útlendingur uppfylli öll skilyrði fyrir komu inn á svæðið. Telji aðildarríki ástæðu til að veita undanþágu frá skilyrðum um aðgang að svæðinu má það veita útlendingi áritun sem takmarkast við landsvæði viðkomandi ríkis.
    Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gilda 2. mgr. 10. gr. og 2. mgr. 19. gr. um bráðabirgðaráðstöfun þar til samræmd vegabréfsáritun hefur verið tekin upp ekki um Noreg og Ísland. Ástæða þess er að samræmd vegabréfsáritun hefur þegar verið tekin upp milli Schengen-ríkjanna, sbr. reglugerð ráðherraráðs ESB nr. 1683/95 sem er að finna í viðauka B við Brussel-samninginn.

Um 2. þátt 3. kafla II. bálks – vegabréfsáritanir til lengri dvalar (18. gr.).
    Hvert ríki gefur út vegabréfsáritun til lengri dvalar en þriggja mánaða í samræmi við eigin lög.

Um 4. kafla II. bálks – skilyrði fyrir för útlendinga (19.–24. gr.).
    Útlendingur með sameiginlega áritun getur ferðast frjálst innan svæðisins meðan áritunin er í gildi.
    Útlendingur, sem er undanþeginn skyldu til vegabréfsáritunar, getur ferðast frjálst innan svæðisins í allt að þrjá mánuði.
    Útlendingur með gilt dvalarleyfi ásamt gildu ferðaskilríki má ferðast frjálst um svæðið í allt að þrjá mánuði.
    Útlendingi, sem kemur löglega inn á Schengen-svæðið, er skylt að tilkynna sig til viðkomandi yfirvalda í því landi samkvæmt skilyrðum sem viðkomandi ríki setur. Slíkrar tilkynningar er hægt að krefjast við komu eða í síðasta lagi innan þriggja virkra daga eftir komu. Útlendingi, sem á búsetu í einu aðildarríki og ferðast til annars aðildarríkis, er með sama hætti skylt að tilkynna sig. Undantekningar frá þessum reglum ákveður hvert aðildarríki.
    Útlendingur, sem ekki uppfyllir lengur skilyrði fyrir leyfi til skammrar dvalar, skal fylgja þeirri meginreglu að yfirgefa tafarlaust Schengen-svæðið. Hafi útlendingur gilt dvalarleyfi eða bráðabirgðadvalarleyfi í einu aðildarríki skal hann þegar fara til þess ríkis. Yfirgefi útlendingur ekki viðkomandi svæði telst hann ekki vilja yfirgefa það og teljist það nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða allsherjarreglu skal honum vísað úr landi. Þessi ákvæði hindra ekki beitingu ákvæða í lögum aðildarríkjanna um hæli og Genfarsamningsins um réttarstöðu flóttamanna.

Um 5. kafla II. bálks – dvalarleyfi og skráning þegar synja á um komu (25. gr.).
    Hyggist aðildarríki veita útlendingi, sem er á skrá yfir óæskilega útlendinga og vísa ber frá svæðinu, dvalarleyfi skal það hafa samráð við önnur aðildarríki og taka tillit til hagsmuna þeirra. Dvalarleyfi skal því aðeins veitt að gildar ástæður mæli með því, svo sem mannúðarástæður eða alþjóðlegar skuldbindingar.

Um 6. kafla II. bálks – viðbótarráðstafanir (26. og 27. gr.).
    Með fyrirvara um þær skuldbindingar sem leiðir af Genfarsamningnum um réttarstöðu flóttamanna skuldbinda aðildarríkin sig til að lögfesta reglur um að flutningsaðila verði gert að flytja viðkomandi útlending til baka þegar honum er neitað um aðgang að Schengen- svæðinu. Flutningsaðila er skylt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að kanna hvort útlendingur sem fluttur er flug- eða sjóleiðis hafi gild ferðaskilríki til að geta fengið aðgang að svæðinu.

Um 7. kafla II. bálks – ábyrgð á meðferð beiðna um hæli (28.–38. gr.).
    Með samningi milli aðildarríkja Evrópusambandsins um ábyrgð á meðferð beiðna um hæli, sem undirritaður var í Dyflinni 15. júní 1990, (hér eftir nefndur „Dyflinnarsamningur“) hefur 7. kafli II. bálks Schengen-samningsins verið leystur af hólmi. Samkvæmt því er í 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn kveðið á um að 7. kafli gildi ekki gagnvart Íslandi og Noregi. Skv. 7. gr. Brussel-samningsins er það forsenda fyrir því að framkvæmd Schengen-reglna geti hafist á Íslandi og í Noregi að áður verði búið að semja við ríkin um ábyrgð á meðferð hælisbeiðna. Reiknað er með að slíkur samningur tengist Dyflinnarsamningnum eða fyrirhugaðri afleiddri löggjöf EB um sama efni auk fyrirhugaðs samræmds kerfis ESB um skráningu fingrafara þeirra er leita hælis í aðildarríkjum ESB en það kerfi er talið ein af forsendum þess að markmið Dyflinnarsamningsins náist.
    Markmið Dyflinnarsamningsins er að skýra meðferð umsókna um hæli sem lagðar eru fram í aðildarríkjunum til þess að koma í veg fyrir að vafi leiki á um hvar umsókn skuli tekin til meðferðar. Er ætlunin að tryggja umsækjanda að umsókn hans hljóti meðferð í einu aðildarríkjanna auk þess að fyrirbyggja að umsækjandi verði sendur frá einu aðildarríki til annars án þess að nokkurt þeirra viðurkenni ábyrgð sína á meðferð umsóknar. Eru efnisatriði samningsins þannig til þess fallin að styrkja réttarstöðu þeirra er sækja um hæli á samningssvæðinu.
    Samkvæmt Dyflinnarsamningnum staðfesta aðildarríkin skyldur sínar samkvæmt Genfarsamningnum um réttarstöðu flóttamanna.
    Óháð því í hvaða aðildarríki útlendingur leggur fram beiðni um hæli skal aðeins eitt ríki bera ábyrgð á meðferð beiðninnar. Er nákvæmlega kveðið á um það hvernig skuli ákveðið hverju sinni hvaða ríki beri ábyrgðina.
    Hvert aðildarríki getur tekið umsókn til meðferðar jafnvel þótt því sé það ekki skylt samkvæmt samningnum, enda samþykki umsækjandi það.
    Hvert aðildarríki hefur rétt til þess á grundvelli gildandi laga að senda umsækjanda um hæli til þriðja ríkis í samræmi við Genfarsamninginn.
    Um meðferð beiðni um hæli fer samkvæmt reglum þess ríkis sem ber ábyrgð á meðferð hennar.
    Komi beiðni um hæli til ríkis sem ekki fjallar um málið getur það ríki óskað eftir því að umsækjandinn verði fluttur til þess ríkis þar sem málið er til meðferðar. Skylt er að verða við slíkum tilmælum ef beiðni þar að lútandi berst innan sex mánaða frá því að beiðni um hæli var móttekin.
    Hvert aðildarríki veitir öðru aðildarríki samkvæmt beiðni þær upplýsingar sem það hefur um umsækjanda um hæli og nauðsynlegar eru til ákvörðunar um hvaða aðildarríki skuli fjalla um beiðni. Aðildarríki getur auk þess beðið annað aðildarríki um að fá upplýst hvaða ástæður umsækjandi um hæli færði fyrir umsókn sinni og rökstuðning þeirrar ákvörðunar sem kann að hafa verið tekin. Þessi upplýsingaskipti gerast samkvæmt beiðni aðildarríkis og mega einungis eiga sér stað milli þeirra stjórnvalda sem hvert aðildarríki hefur tilnefnt. Upplýsingarnar má einungis framsenda þeim stjórnvöldum og dómstólum sem hafa það hlutverk að ákveða hvaða aðildarríki skuli fjalla um umsóknina. Umsækjandi um hæli hefur samkvæmt beiðni heimild til að fá upplýst hvaða upplýsingar voru veittar um hann, svo fremi sem slíkt er unnt. Komist hann að því að þessar upplýsingar séu rangar eða að ekki hafi átt að veita þær hefur hann rétt til að krefjast leiðréttinga á þeim eða að þeim verði eytt. Hverju aðildarríki er skylt að skrá hvaða upplýsingar það hefur veitt og móttekið. Upplýsingarnar skulu einungis varðveittar svo lengi sem nauðsynlegt er. Veittar upplýsingar skulu a.m.k. njóta sömu verndar og gilda samkvæmt lögum viðtökulandsins um sambærilegar upplýsingar.
    Gert er ráð fyrir að verði miðlun upplýsinga á einhvern hátt kerfisbundin skuli það gert í samræmi við samning Evrópuráðsins frá 28. janúar 1981 um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga.
    Til þess að tryggja skilvirka framkvæmd Dyflinnarsamningsins skiptast aðildarríkin á nauðsynlegum upplýsingum svo unnt sé að ákveða hvaða ríki skuli bera ábyrgð á meðferð umsóknar. Er í þessu sambandi um að ræða ýmsar upplýsingar er tengjast viðkomandi umsækjanda, svo sem um ferðaleiðir, skráningu í viðkomandi ríki og ferðaskilríki.
    Meðal þeirra upplýsinga sem hafa í framkvæmd reynst áreiðanlegastar til að taka ákvörðun í þessu sambandi eru fingraför umsækjanda. Er þeim nú miðlað á milli aðildarríkjanna að svo miklu leyti sem það er heimilt á grundvelli löggjafar hvers ríkis. Hins vegar hefur um nokkurt skeið verið unnið að samningi milli aðildarríkja Evrópusambandsins um að setja á fót samræmt kerfi í þessu skyni þar sem safnað verði upplýsingum um fingraför einstaklinga er sótt hafa um hæli í aðildarríkjunum auk þess sem úr kerfinu verði miðlað upplýsingum um fingraför til einstakra aðildarríkja. Er einnig gert ráð fyrir að kerfið nái til annarra ólöglegra innflytjenda sem handteknir eru í tengslum við ólöglega umferð yfir landamæri eða eru handteknir innan aðildarríkis þar sem þeir dveljast ólöglega.
    Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur nú lagt fram tillögu að uppsetningu kerfis af þessu tagi, svonefnt EURODAC, en sú tillaga byggist á samkomulagi sem hafði náðst meðal aðildarríkjanna. Er þessi tillaga til meðferðar innan ráðherraráðs Evrópusambandsins en gert er ráð fyrir því að þátttaka í þessu samstarfi verði hluti af því samkomulagi sem gert verður við Evrópusambandið á grundvelli 7. gr. Brussel-samningsins. Í tillögu framkvæmdastjórnarinnar felst að aðildarríkin skuli taka fingraför af umsækjendum um hæli og miðla þeim til upplýsingakerfis EURODAC. Hið sama gildir um fingraför einstaklinga sem handteknir eru í tengslum við ólöglega för um ytri landamæri. Einnig er lagt til að aðildarríki verði heimilað að senda fingraför þeirra sem handteknir hafa verið vegna ólöglegrar dvalar innan þess.
    Tillagan gerir ráð fyrir að sett verði á fót skrifstofa innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er annist rekstur upplýsingakerfisins sem felst í móttöku og miðlun upplýsinga í og úr kerfinu fyrir hönd aðildarríkjanna. Með þessu er ætlunin að gera það skýrt að það eru aðildarríkin sjálf sem stjórna því hvaða upplýsingar eru sendar og eftir hvaða upplýsingum er kallað úr kerfinu en skrifstofan verði einvörðungu milligönguaðili.
    Í tillögum framkvæmdastjórnarinnar er gert ráð fyrir ítarlegum reglum um persónuvernd sem m.a. byggjast á tilskipun ESB nr. 95/46 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og frjálsa miðlun slíkra upplýsinga. Tilskipunin var felld inn í EES- samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 83/1999. Er m.a. kveðið sérstaklega á um réttarstöðu viðkomandi einstaklings. Gert er ráð fyrir virku eftirliti með starfsemi EURODAC bæði af hálfu eftirlitsaðila innan aðildarríkjanna og einnig af hálfu sérstaks eftirlitsaðila að því er varðar upplýsingakerfið sjálft.
    Til viðbótar er mælt fyrir um að gögn verði einungis vistuð í upplýsingakerfinu í takmarkaðan tíma og skuli í tilteknum tilvikum tekin út úr því. Að auki er skýrt mælt fyrir um það í hvaða tilgangi gögn í upplýsingakerfinu verði notuð og eftir atvikum settar takmarkanir við notkun þeirra.

Um 1. kafla III. bálks – lögreglusamvinna (39.–47. gr.).
    Lögregluyfirvöld í aðildarríkjunum skulu veita gagnkvæma aðstoð til að fyrirbyggja og upplýsa refsiverða verknaði. Í vissum tilvikum þarf þá atbeina dómstóla og ekki er gert ráð fyrir að aðstoð feli í sér að þvingunarráðstöfunum verði beitt. Skriflegar upplýsingar má aðeins nota sem sönnunargögn þegar skriflegt samþykki liggur fyrir frá viðkomandi yfirvöldum þess ríkis sem veitti upplýsingarnar.
    Hafi lögregla mann undir eftirliti vegna rannsóknar máls sem leitt getur til framsals getur hún haldið eftirliti áfram í öðru aðildarríki að fengnu leyfi þess á grundvelli réttarbeiðni. Binda má slíkt leyfi skilyrðum. Samkvæmt beiðni skal eftirlit flutt til lögreglu þess ríkis þar sem það er framkvæmt. Heimilt er, sérstaklega í áríðandi tilvikum vegna rannsóknar á nánar tilgreindum afbrotum, að halda eftirliti áfram í öðru ríki án fyrir fram samþykkis samkvæmt nánari ákvæðum samningsins. Í slíkum tilvikum skal yfirvöldum þess svæðis þar sem eftirlitið fer fram þegar tilkynnt um málið og geta þau stöðvað eftirlitið. Í öllum tilvikum skal eftirlit stöðvað eigi síðar en fimm klukkustundum eftir að það hófst hafi heimild til að halda því áfram ekki borist.
    Hafi lögregla í ríki staðið mann að verki við nánar tilgreind afbrot er heimilt að veita honum eftirför inn í annað ríki sem á landamæri á landi að ríkinu án sérstaks leyfis, enda hafi ekki gefist tími til að upplýsa viðkomandi ríki um málið eða yfirvöld þess ekki átt möguleika á að taka við eftirförinni. Sama gildir þegar strokuföngum er veitt eftirför.
    Aðildarríki ásetja sér að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að hótelhaldarar og aðrir er hýsa fólk sjái til þess að erlendir gestir, þar með taldir borgarar aðildarríkjanna, að undanskildum mökum, börnum og þátttakendum í hópferðum, fylli persónulega út og undirriti skráningarkort og að þeir sanni á sér deili með gildum skilríkjum. Þessi gögn skulu vera aðgengileg fyrir yfirvöld vegna öryggis, málsmeðferðar, eftirlýstra manna eða vegna slysa. Sama gildir um aðra næturstaði sem eru til boða í atvinnuskyni, svo sem tjaldsvæði, hjólhýsasvæði og báta.
    Aðildarríkin geta gert tímabundið eða ótímabundið samkomulag um staðsetningu tengifulltrúa í þeim tilgangi að auðvelda samskipti milli ríkjanna varðandi skipti á upplýsingum til að fyrirbyggja eða upplýsa refsiverða verknaði, auðvelda gagnkvæma réttaraðstoð milli lögreglu og réttarkerfa landanna og veita þeim aðstoð sem gæta ytri landamæra. Skulu þeir veita ráðgjöf og aðstoð en hafa ekki heimild til að starfa sem lögreglumenn. Aðildarríkjum skulu veittar upplýsingar um staðsetningu tengifulltrúa í þriðja ríki og er heimilt að þeir veiti þriðja ríki upplýsingar og aðstoð.

Um 2. kafla III. bálks – gagnkvæm réttaraðstoð í sakamálum (48.–53. gr.).
    Ákvæði samningsins um þessi atriði koma til viðbótar Evrópusamningi um gagnkvæma aðstoð í sakamálum. Veita skal gagnkvæma réttaraðstoð við rekstur máls vegna verknaðar sem sætir stjórnsýslumeðferð í öðru eða báðum aðildarríkjunum, enda sé unnt að bera málið undir dómstóla. Sama á við um mál vegna bótakröfu fyrir ólögmæta málsmeðferð eða sakfellingu, varðandi meðferð beiðni um náðun, varðandi einkaréttarkröfur í tengslum við sakamál, enda sé refsiþáttur málsins enn til meðferðar, við birtingu gagna í tengslum við fullnustu refsingar, þar með talda innheimtu sekta eða sakarkostnaðar, eða annarra viðurlaga, og varðandi ráðstafanir í tengslum við skilorðsbindingu á ákvörðun eða fullnustu refsingar, reynslulausn, frestun á fullnustu refsingar o.fl.
    Skylt er að veita aðstoð í málum vegna brota á lögum og reglum varðandi ýmsa tolla og skatta. Óheimilt er að synja um aðstoð á þeirri forsendu að viðkomandi gjöld séu ekki innheimt í því ríki þar sem beðið er um aðstoð. Upplýsingar sem veittar eru vegna meðferðar slíkra mála má ekki nota vegna meðferðar annarra mála án samþykkis.
    Ekki má setja önnur skilyrði fyrir því að verða við beiðni um rannsókn eða haldlagningu en að verknaður varði a.m.k. sex mánaða refsivist samkvæmt lögum beggja aðildarríkjanna eða hann varði slíkri refsingu samkvæmt lögum annars aðildarríkisins en geti sætt stjórnsýslumeðferð í hinu ríkinu, enda sé unnt að bera málið undir dómstól, eða að beiðnin, verði orðið við henni, sé í andstöðu við lög þess ríkis þar sem beðið er um aðstoð.
    Heimilt er að senda dómskjöl og kvaðningar í pósti til aðila í öðru aðildarríki. Sé ástæða til að ætla að viðtakandi skilji ekki það tungumál sem skjölin eru á skal þýða þau eða útdrátt úr þeim á tungumál þess ríkis sem sent er til. Viti sendandi að viðtakandi skjala skilur aðeins eitthvert annað tungumál skal þýða skjöl eða útdrátt úr þeim á það tungumál. Vitni eða sérfróða aðila, sem ekki sinna stefnu sem send hefur verið með pósti, má ekki beita neinum viðurlögum eða þvingunarráðstöfunum, þrátt fyrir aðvörun í stefnu þar um, þótt þeir mæti ekki, nema þeir fari síðar af sjálfsdáðum til landsvæðis þess aðila sem stefndi þeim og þeim sé stefnt þar á ný. Þegar verknaður, sem leiðir til réttarbeiðni, sætir samkvæmt lögum beggja aðildarríkja málsmeðferð fyrir stjórnvöldum sem unnt er að bera undir dómstól skal almennt senda skjöl um það mál með pósti.
    Almennt skal senda beiðnir um réttaraðstoð og svör beint á milli viðkomandi dómsmálayfirvalda en þó er einnig heimilt að beiðnir og svör fari í gegnum dómsmálaráðuneyti aðildarríkjanna eða Interpol. Beiðnir um tímabundinn flutning eða gegnumflutning á frjálsræðissviptum manni og beiðnir um upplýsingar um sakaferil eða upplýsingar úr sakaskrá skal senda um viðkomandi dómsmálaráðuneyti.

Um 3. kafla III. bálks – beiting reglunnar „ne bis in idem“ (54.–58. gr.).
    Reglan „ne bis in idem“ fjallar um það að hvaða leyti refsidómur sem kveðinn er upp í einu ríki skuli koma í veg fyrir að dæmt verði í sama máli í öðru ríki, sbr. m.a. 8. gr. a og b almennra hegningarlaga.
    Hafi maður verið dæmdur með endanlegum dómi í einu aðildarríki er óheimilt að reka mál fyrir sama verknað í öðru aðildarríki þegar refsingunni hefur verið fullnægt, verið er að fullnusta hana eða ekki er unnt að fullnusta refsinguna vegna löggjafar í dómsríkinu.
    Aðildarríki getur við fullgildingu eða aðild að samningnum lýst því yfir að það sé í einu eða fleiri af eftirfarandi tilvikum ekki bundið af framangreindri reglu: Ef verknaður sem lá til grundvallar hinum erlenda dómi var framinn að hluta eða öllu leyti á landsvæði þess. Þetta gildir þó ekki ef verknaðurinn var að hluta framinn á landsvæði dómsríkisins. Hið sama gildir ef verknaður braut gegn öryggi ríkisins eða öðrum álíka mikilvægum hagsmunum eða ef hann var framinn af manni í þjónustu ríkisins sem með verknaðinum braut þar með opinberar skyldur sínar.
    Sé á ný höfðað mál gegn manni fyrir verknað sem hann hefur þegar hlotið dóm fyrir í öðru aðildarríki skal draga frá viðurlögunum sérhverja frjálsræðissviptingu sem hann hefur afplánað í því ríki vegna verknaðarins. Sama gildir um aðra frjálsræðissviptingu sem hann hefur sætt vegna verknaðarins. Sé mál sem dæmt hefur verið í einu aðildarríki á ný til meðferðar í öðru aðildarríki skal það ríki, ef það telur slíkt nauðsynlegt, biðja ríkið sem þegar hefur dæmt í málinu um allar mikilvægar upplýsingar um málið.

Um 4. kafla III. bálks – framsal (59.–66. gr.).
    Ákvæði samningsins um framsal koma til viðbótar Evrópusamningi um framsal sakamanna. Hafi aðildarríki ekki fullgilt þann samning gilda þó ákvæði hans í samskiptum aðildarríkjanna. Schengen-samningurinn hindrar ekki beitingu víðtækari ákvæða í gagnkvæmum samningi aðildarríkjanna. Samkvæmt ákvörðun ráðsins frá 20. maí 1999 (1999/435/EB) er 60. gr. Schengen-samningsins ekki felld undir Evrópusambandið og er greinin því að sama skapi undanskilin gildissviði Brussel-samningsins, sbr. 1. hluta viðauka A við hann. Er skýringin sú að öll aðildarríki ESB auk Íslands og Noregs eru nú aðilar að framangreindum samningi.
    Varðandi fyrningu gilda einungis lög þess ríkis sem biður um framsal. Náðun eða sakaruppgjöf kemur ekki í veg fyrir framsal nema hinn refsiverði verknaður falli undir refsilögsögu þess ríkis sem slíkt veitti. Krefjist lög þess ríkis sem beðið er um framsal þess að fyrir liggi formleg kæra eða opinber heimild til málshöfðunar hefur það ekki áhrif á skyldu til framsals að slíkt skjal liggi ekki fyrir.
    Skylt er að framselja menn vegna brota á lögum um tolla og skatta, bæði vegna málsmeðferðar og fullnustu dóma. Skilyrði Evrópusamningsins um framsal sakamanna gilda í þessum tilvikum.
    Sé framsal ekki beinlínis óheimilt skal aðildarríki heimila framsal án formlegrar málsmeðferðar ef sá aðili sem óskast framseldur gefur formlegt samþykki fyrir því hjá dómara eða öðru þar til bæru yfirvaldi, eftir að honum hefur verið kynntur réttur til málsmeðferðar. Þegar yfirlýsing er gefin skal viðkomandi heimilt að njóta aðstoðar lögmanns. Við framkvæmd framsals samkvæmt eigin samþykki getur viðkomandi ekki afturkallað yfirlýsingu sína eftir að hafa afsalað sér þeirri vernd sem felst í sérreglunni. Sú regla fjallar um það að ekki megi höfða mál á hendur framseldum manni, dæma hann eða fullnusta dóm á hendur honum vegna annars afbrots, sem framið var fyrir framsal, nema að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum.

Um 5. kafla III. bálks – flutningur á fullnustu refsidóma (67.–69. gr.).
    Ákvæði samningsins koma til viðbótar Evrópusamningi um flutning dæmdra manna.
    Nú er ríkisborgari eins aðildarríkis dæmdur í öðru aðildarríki til refsivistar og hann kemur sér undan fullnustu refsingarinnar með því að fara til þess ríkis þar sem hann er ríkisborgari og er þá unnt að biðja það ríki um að fullnægja refsingunni. Flutningur á fullnustu refsingar er í þessu tilviki ekki háður samþykki dómþola.

Um 6. kafla III. bálks – fíkniefni (70.–76. gr.).
    Á grundvelli 70. gr. starfar vinnuhópur, m.a. með fulltrúa lögreglu- og tollyfirvalda, til að fjalla um sameiginleg vandamál í baráttunni gegn fíkniefnabrotum og ræða leiðir til þess að bæta hagnýt og tæknileg viðhorf vegna samvinnu aðildarríkjanna á þessu sviði. Samkvæmt ákvörðun ráðsins frá 20. maí 1999 (1999/435/EB) er 70. gr. Schengen- samningsins ekki felld undir Evrópusambandið og er greinin því að sama skapi undanskilin gildissviði Brussel-samningsins, sbr. 1. hluta viðauka A við hann. Starf nefndarinnar hefur verið yfirtekið af sérfræðingahópi á vegum ráðherraráðs ESB þar sem fulltrúar Íslands og Noregs eiga sæti á grundvelli 3. gr. Brussel-samningsins.
    Varðandi beina eða óbeina verslun með hvers konar ávana- og fíkniefni skuldbinda aðildarríkin sig, í samræmi við samninga Sameinuðu þjóðanna á þessu sviði, til þess að grípa til sérhverra ráðstafana sem eru nauðsynlegar til að fyrirbyggja og berjast gegn ólöglegri verslun með ávana- og fíkniefni. Aðildarríkin skuldbinda sig til að fyrirbyggja ólöglegan útflutning á ávana- og fíkniefnum með stjórnvalds- og refsiréttarlegum úrræðum. Í þeim tilgangi að berjast gegn ólöglegum innflutningi ávana- og fíkniefna skerpa aðildarríkin eftirlit á ytri landamærum með einstaklingum, vörum og flutningatækjum, m.a. með notkun nýjustu tækni við leit að fíkniefnum og með fíkniefnahundum. Markvisst eftirlit skal haft með þeim stöðum þar sem verslun með fíkniefni fer venjulega fram. Til að berjast gegn ólöglegri eftirspurn eftir ávana- og fíkniefnum grípur hvert aðildarríki til aðgerða til að fyrirbyggja og berjast gegn neikvæðum áhrifum eftirspurnarinnar. Hvert aðildarríki ákveður hvaða aðgerðum það beitir í þessum tilgangi.
    Aðildarríki skulu tryggja að fullnægjandi lagaheimildir séu til að leggja hald á og gera upptækar eignir sem stafa af verslun með ávana- og fíkniefni.
    Aðildarríkin skulu vegna ólöglegrar verslunar með ávana- og fíkniefni hafa möguleika á að beita afhendingu undir eftirliti.
    Í 74. gr. samningsins er kveðið á um að eftirlit með löglegri verslun ávanabindandi lyfja og geðvirkra efna í samræmi við samninga Sameinuðu þjóðanna skuli fara fram innan lands. Samkvæmt ákvörðun ráðsins frá 20. maí 1999 (1999/435/EB) er 74. gr. Schengen- samningsins ekki felld undir löggjöf Evrópusambandsins og er greinin því að sama skapi undanskilin gildissviði Brussel-samningsins, sbr. 1. hluta viðauka A við hann. Þeir sem ferðast til eða innan aðildarríkjanna mega flytja þau ávanabindandi lyf og geðvirku efni sem þeim eru nauðsynleg vegna læknismeðferðar, enda geti þeir við eftirlit framvísað vottorði sem gefið er út eða staðfest af viðkomandi yfirvaldi í búsetulandi, sbr. 75. gr.

Um 7. kafla III. bálks – skotvopn og skotfæri (77.–91. gr.).
    Evrópusambandið hefur sett reglur sem tekið hafa yfir hluta þeirra reglna sem Schengen- samningurinn kveður á um, m.a. á sviði skotvopna. Því er kveðið á um það í Brussel- samningnum að ákvæðin gildi ekki að svo miklu leyti sem tilskipun 91/477/EBE, og er að finna í viðauka B við samninginn, inniheldur ákvæði á sama sviði. Aðildarríkin skuldbinda sig til að löggjöf þeirra og reglur um kaup, vörslu, sölu og afhendingu á skotvopnum og skotfærum verði í samræmi við ákvæði samningsins. Skotvopn samkvæmt samningnum eru bönnuð vopn, vopn sem háð eru leyfum og vopn sem háð eru tilkynningu. Lásar, magasín og hlaup skotvopna eru háð sömu reglum og þau skotvopn sem þau eru hluti af. Stutt skotvopn eru skotvopn með allt að 30 sm hlaupi eða þegar samanlögð lengd fer ekki yfir 60 sm. Önnur skotvopn teljast löng skotvopn.
    Í samningnum er gerð nánari grein fyrir mismunandi flokkum skotvopna. Ákvæði hans gilda ekki um skotvopn sem eru framleidd fyrir 1870 eða eftir fyrirmynd frá því fyrir 1870 nema í sérstökum undantekningartilvikum, enda sé ekki hægt að skjóta úr þessum vopnum með skotfærum fyrir bönnuð vopn eða vopn sem háð eru sérstöku leyfi. Sama gildir um eftirlíkingar af þessum vopnum, enda sé ekki hægt að nota málmskothylki í þær, og skotvopn sem tæknilega eru gerð ónothæf til að skjóta hvers konar skotfærum og bera því til staðfestingar opinberan stimpil eða eru viðurkennd af slíku yfirvaldi.
     Leyfi til kaupa og varðveislu skotvopna má einungis veita þeim sem uppfylla eftirtalin skilyrði:
          einstaklingur sé 18 ára eða eldri; í undantekningartilvikum má þó víkja frá þessu skilyrði vegna veiði eða íþróttaiðkana;
          einstaklingur sé ekki óhæfur til þess að kaupa eða eiga skotvopn vegna geðveiki eða annarrar andlegrar eða líkamlegrar fötlunar;
          einstaklingur hafi ekki verið dæmdur fyrir refsiverðan verknað eða aðrar ástæður séu ekki til þess að ætla að hann stofni almannaöryggi og allsherjarreglu í hættu;
          ástæðan, sem hann tilgreinir fyrir kaupum og eign skotvopns, sé tekin góð og gild.
    Halda skal skrá um tilkynningarskyld skotvopn samkvæmt nánari reglum sem tilgreindar eru. Jafnframt skal skylt að krefjast löggildingar til að framleiða og versla með skotvopn sem eru leyfis- eða tilkynningarskyld. Þá skal raunhæft eftirlit haft með þessum aðilum. Skotvopn skulu vera með óafmáanlegu raðnúmeri og merki framleiðanda. Vopnaframleiðendur og söluaðilar skulu halda skrár yfir öll leyfis- og tilkynningarskyld vopn sem þeir framleiða og hafa til sölu og skotvopnaleyfi skulu bera númer og nafn framleiðanda þess vopns sem leyft er.
    Þeim sem löglega hefur vopn sem er leyfis- eða tilkynningarskylt er óheimilt að afhenda það öðrum sem ekki hefur leyfi eða tilkynningarvottorð. Skylt er að hafa í lögum ákvæði um að leyfi sé hægt að afturkalla uppfylli viðkomandi ekki lengur skilyrði til að eiga vopn og gera skal nauðsynlegar ráðstafanir ef gildandi lög og reglur um skotvopn eru brotin. Slíkar ráðstafanir skulu m.a. fela í sér heimild til haldlagningar og upptöku á skotvopni, afturköllun á leyfi og beitingu viðurlaga.
    Þá er í samningnum ákvæði um að unnt sé að breyta ákvæðum hans um það hvaða skotvopn séu leyfis- eða tilkynningarskyld, að heimilt sé að hafa strangari ákvæði en samningurinn gerir ráð fyrir og um skipti á upplýsingum í nánar tilgreindum tilvikum.
    Íslensk löggjöf á þessu sviði er þegar í samræmi við reglur Schengen-samningsins og ákvæði tilvitnaðar tilskipunar.

IV. bálkur. Upplýsingakerfi Schengen.
Um 1. kafla IV. bálks – uppsetning Schengen-upplýsingakerfisins (92. gr.).
    Aðildarríkin stofna og reka sameiginlegt upplýsingakerfi sem samanstendur af kerfi í hverju einstöku aðildarríki og miðlægu tæknilegu stuðningskerfi. Kerfið veitir tilnefndum aðilum aðgang að stöðluðum upplýsingum um einstaklinga og hluti vegna persónueftirlits, rannsókna lögreglu og tollyfirvalda og vegna annarra rannsókna innan lands, vegna meðferðar á beiðnum um vegabréfsáritun og dvalarleyfi og framkvæmdar á lögum um útlendinga sem liðar í framkvæmd samningsins.
    Hvert aðildarríki setur á stofn og rekur á eigin ábyrgð kerfið í sínu landi. Gagnaskrár skulu vera eins hjá öllum aðilum.
    Miðlæga stuðningskerfið sendir vélrænt upplýsingar til kerfanna í hverju einstöku aðildarríki. Í gagnasafni miðlæga kerfisins eru upplýsingar um einstaklinga og hluti sem hafa þýðingu fyrir öll aðildarríki.

Um 2. kafla IV. bálks – rekstur og hagnýting upplýsingakerfisins (93.–101. gr.).
    Markmiðið með rekstri upplýsingakerfisins er að veita upplýsingar í þeim tilgangi að viðhalda allsherjarreglu og öryggi, þar með talið öryggi ríkisins, og tryggja beitingu þeirra ákvæða samningsins sem varða för fólks.
    Upplýsingar í kerfinu eru um einstaklinga og hluti. Um einstaklinga má skrá upplýsingar um nafn, sérstök óbreytanleg líkamleg einkenni, fyrsta bókstaf í öðru eiginnafni, fæðingardag og fæðingarstað, kyn, ríkisfang, hvort viðkomandi er vopnaður, hvort hann er talinn ofbeldissinnaður, ástæðu fyrir skráningu og til hvaða ráðstafana er óskað að gripið verði. Telji aðildarríki að skýrsla sem fylgir með beiðni um aðgerðir sé í andstöðu við lög þess ríkis, alþjóðlegar skuldbindingar eða mikilvæga hagsmuni ríkisins getur það skráð athugasemd í sinn hluta kerfisins um að beiðnin verði ekki framkvæmd á landsvæði hans.
    Í kerfið eru skráðar upplýsingar um einstaklinga sem óskað er eftir að handteknir verði í þeim tilgangi að verða framseldir en samkvæmt 64. gr. samningsins skal líta á skráningu af þessu tagi sem beiðni um handtöku til bráðabirgða. Samhliða skráningu skal senda þeim aðildarríkjum sem skráningu er beint til upplýsingar um hver gaf út handtökubeiðni, hvort fyrir liggur handtökuskipun eða sambærileg ákvörðun, um hvaða refsiverðan verknað er að ræða og lagalega skilgreiningu hans, lýsingu á við hvaða aðstæður afbrot var framið, m.a. um stað og tíma, og að hve miklu leyti sá sem óskast framseldur tók þátt í því og, að svo miklu leyti sem unnt er, hvaða afleiðingar hinn refsiverði verknaður hafði. Geti aðildarríki ekki orðið við beiðni um handtöku vegna þess að það hefur ekki viðurkennt hana eða neitar að framkvæma hana skal litið á beiðnina sem beiðni um að fá upplýsingar um dvalarstað viðkomandi. Aðildarríki er ekki skylt að verða við beiðnum er varða ríkisborgara þess.
    Í kerfið eru skráðar upplýsingar um útlendinga sem óskað er eftir að verði neitað um aðgang að Schengen-svæðinu. Slíkar upplýsingar eru skráðar að beiðni einstakra ríkja og vegna ákvörðunar sem tekin er af þar til bæru stjórnvaldi eða dómstóli í samræmi við reglur viðkomandi ríkis um málsmeðferð. Þessar ákvarðanir geta verið rökstuddar með því að dvöl viðkomandi útlendings geti skapað hættu fyrir opinbert öryggi eða allsherjarreglu eða vegna öryggis ríkisins. Þetta gildir sérstaklega um útlendinga sem dæmdir hafa verið fyrir afbrot sem varðar a.m.k. eins árs refsivist og útlendinga sem rökstuddur grunur leikur á að hafi framið alvarlegt afbrot eða fyrir liggja ákveðnar vísbendingar um að ætli að fremja slíkan verknað á svæðinu. Slíkar ákvarðanir geta einnig verið rökstuddar með því að viðkomandi útlendingi hafi áður verið vísað úr landi eða hann endursendur með banni um endurkomu og dvöl í landinu, enda hafi slík ákvörðun ekki verið ógilt eða felld úr gildi.
    Í kerfið eru skráðar upplýsingar um horfna menn eða einstaklinga sem vegna eigin öryggis eða fyrirbyggjandi aðgerða, að beiðni viðkomandi yfirvalds, skulu þegar teknir í gæslu þannig að lögregla geti tilkynnt þeim yfirvöldum sem báðu um aðgerðir um dvalarstað viðkomandi eða hindrað frekari ferð þeirra, enda sé slíkt heimilt að lögum. Þetta ákvæði á sérstaklega við ósjálfráða einstaklinga og þá sem ákveðið hefur verið að nauðungarvista.
    Í þeim tilgangi að fá upplýsingar um dvalarstað eða búsetu vitna eða einstaklinga sem stefna á fyrir dóm í sakamáli eða til að birta dóm eða ákvörðun um afplánun er heimilt að skrá upplýsingar um þá í kerfið.
    Í kerfið skal skrá upplýsingar um einstaklinga og ökutæki í þeim tilgangi að hafa þau undir leynilegu eftirliti eða til að taka þau til sérstakrar athugunar. Slík skráning skal gerð vegna reksturs sakamáls og til að fyrirbyggja að hótanir er beinast að allsherjarreglu verði framkvæmdar, enda liggi fyrir rökstuddur grunur um að viðkomandi ætli eða sé að fremja fleiri sérstaklega alvarleg afbrot eða með hliðsjón af heildarmati á viðkomandi, einkum á grunni fyrri afbrota, gefi ástæðu til að ætla að hann muni í framtíðinni fremja sérstaklega alvarlegt afbrot. Að beiðni þeirra sem bera ábyrgð á öryggi ríkisins er heimilt að skrá í kerfið upplýsingar þegar fyrir liggja órækar sannanir til að ætla að slíkt sé nauðsynlegt til að fyrirbyggja alvarlegar hótanir frá viðkomandi eða aðrar alvarlegar hótanir gegn innra eða ytra öryggi ríkisins. Vegna leynilegrar eftirfarar eru í samningnum ákvæði um atriði sem heimilt er að safna og veita upplýsingar um til viðkomandi ríkis. Í þeim tilgangi sem hér er fjallað um er heimilt að framkvæma rannsókn á einstaklingum og farartækjum og farangri.
    Í kerfið skal skrá upplýsingar um hluti sem eftirlýstir eru í þeim tilgangi að leggja hald á þá eða nota sem sönnunargögn í sakamáli. Upplýsingar um eftirtalda flokka hluta skulu skráðar: Stolin eða á annan hátt horfin ökutæki með sprengirými yfir 50 sm 3, stolna eða á annan hátt horfna eftirvagna og hjólhýsi sem eru yfir 750 kg, stolin eða á annan hátt horfin skotvopn, stolin eða á annan hátt horfin óútfyllt opinber skjöl og stolin eða á annan hátt horfin persónuskilríki og peningaseðla.
    Aðgang að upplýsingum úr kerfinu skulu þeir einir hafa sem bera ábyrgð á persónueftirliti og önnur lögreglu- og tollyfirvöld sem bera ábyrgð á rannsóknum innan lands eða samræmingu á þeim. Sama gildir um yfirvöld sem bera ábyrgð á útgáfu vegabréfsáritana, miðlæg yfirvöld sem bera ábyrgð á rannsóknum á beiðnum um vegabréfsáritun og yfirvöld sem bera ábyrgð á útgáfu dvalarleyfa og yfirvöld sem framkvæma útlendingalöggjöfina að svo miklu leyti sem þeim er það nauðsynlegt í störfum sínum vegna framkvæmdar ákvæða samningsins um för fólks. Notendur mega einungis sækja upplýsingar sem þeim eru nauðsynlegar vegna starfa sinna.

Um 3. kafla IV. bálks – vernd persónuupplýsinga og öryggi upplýsinga í Schengen- upplýsingakerfinu (102.–118. gr.).
    Aðildarríki mega einungis nota upplýsingar í upplýsingakerfi Schengen í þeim tilgangi sem þar er tilgreindur.
    Aðili má ekki afrita upplýsingar frá öðrum aðila til nota í öðrum gagnasöfnum innan lands. Aðili má einungis fara frá einum skráningarflokki til annars í kerfinu þegar slíkt er nauðsynlegt til að fyrirbyggja yfirvofandi hættu gegn allsherjarreglu og öryggi, vegna alvarlegrar hótunar gegn öryggi ríkisins eða vegna alvarlegs afbrots, enda sé áður fengin heimild frá skráningaraðila.
    Í samningnum eru ákvæði um innra eftirlit með kerfinu í hverju einstöku ríki, um að skráningar í kerfið og framkvæmd beiðna í kerfinu fari að landslögum nema samningurinn innihaldi strangari eða að öðru leyti önnur ákvæði og um að viðkomandi ríki beri ábyrgð á upplýsingum sem það setur í kerfið og að þær séu settar í það með lögmætum hætti. Einungis sá sem skráir upplýsingar má breyta þeim, bæta við þær eða afmá þær. Þar sem í samningnum eru ákvæði um framkvæmd beiðna fer það að lögum þess ríkis sem beiðni er beint til hver ber ábyrgð á framkvæmdinni. Þegar ekki er unnt að verða við beiðni skal þegar tilkynna það þeim aðila sem biður um aðgerðir.
    Sérhvert aðildarríki tilnefnir miðstjórnvald sem fer með ábyrgð á kerfinu í viðkomandi landi og skulu skráningar í kerfið fara í gegnum þann aðila. Hann gerir nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að samningsákvæðin séu haldin.
    Réttur einstaklings til að fá aðgang að upplýsingum um hann sjálfan í upplýsingakerfinu fer eftir lögum þess ríkis þar sem slíkra upplýsinga er krafist. Sé slíkur aðgangur heimill ákveður eftirlitsaðili viðkomandi ríkis hvort og hvernig heimilt sé að veita upplýsingar. Ekki má veita upplýsingar um skráningu frá öðru aðildarríki án þess að áður hafi verið fengin umsögn þess um málið. Neita skal um aðgang að upplýsingum ef það getur skaðað framkvæmd þeirra ráðstafana sem um er beðið eða til að vernda réttindi annarra. Sérhver einstaklingur hefur rétt til að fá afmáðar upplýsingar um hann sjálfan séu þær efnislega eða lagalega rangar.
    Sérhver skráður aðili getur á landsvæði hvers aðildarríkis skilað inn kæru til þar til bærra dómstóla eða stjórnvalda og gert kröfu um leiðréttingu eða um að skráðar upplýsingar verði afmáðar, hann fái aðgang að þeim eða skaðabætur. Aðildarríki skuldbinda sig til að framkvæma gagnkvæmt þær ákvarðanir sem teknar eru í þessu sambandi.
    Persónuupplýsingar, sem skráðar eru í kerfið þegar lýst er eftir manni, skulu aðeins varðveittar á meðan nauðsynlegt er til að þjóna tilgangi sínum. Í síðasta lagi þremur árum eftir skráningu skal skráningaraðili taka afstöðu til þess hvort nauðsynlegt er að varðveita upplýsingarnar áfram. Í nánar tilgreindum tilvikum eru þessi tímamörk eitt ár. Aðildarríki getur í samræmi við eigin löggjöf haft þessi tímamörk styttri.
    Í samningnum eru ákvæði um hve lengi aðrar upplýsingar skulu varðveittar í kerfinu.
    Hvert aðildarríki tilnefnir eftirlitsaðila sem samkvæmt lögum viðkomandi ríkis skal hafa sjálfstætt eftirlit með gagnasafni viðkomandi ríkis í upplýsingakerfinu og með því að ekki sé brotið gegn réttindum skráðs aðila við meðferð og notkun upplýsinganna. Eftirlitsaðilanum skal tryggður aðgangur að gagnasafni viðkomandi ríkis í upplýsingakerfinu. Sérhver skráður aðili hefur rétt til að biðja eftirlitsaðilann að framkvæma eftirlit með upplýsingum um hann ásamt því hvernig þær hafa verið notaðar. Slíkt eftirlit fer fram eftir lögum viðkomandi ríkis. Séu upplýsingarnar skráðar af öðru aðildarríki skal eftirlitið fara fram í nánu samráði við eftirlitsaðila viðkomandi ríkis.
    Setja skal á fót sameiginlegan eftirlitsaðila sem skal hafa eftirlit með miðlægum hluta gagnasafnsins. Þessi eftirlitsaðili hefur m.a. það hlutverk að hafa eftirlit með því að ákvæðum samningsins sé rétt beitt. Skal honum tryggður aðgangur að miðlæga upplýsingakerfinu. Eftirlitsaðilinn getur einnig rannsakað þau vandamál sem komið geta upp í tengslum við rekstur upplýsingakerfisins með tilliti til beitingar og túlkunar á ákvæðum samningsins og þau vandamál sem komið geta upp vegna eftirlits í einstökum ríkjum.
    Hvert aðildarríki skuldbindur sig, vegna eigin hluta upplýsingakerfisins, til að gera ráðstafanir sem skulu tryggja að engir aðrir en þeir sem hafa heimild til þess geti fengið aðgang að búnaði sem notaður er til meðferðar á persónuupplýsingum kerfisins. Enn fremur skal tryggt að ekki sé unnt að lesa, afrita, breyta eða fjarlæga upplýsingar úr gagnamiðlinum af hálfu annarra en þeirra sem hafa heimild til þess, að engir aðrir en þeir sem hafa heimild geti fengið aðgang að upplýsingum í gagnasafninu og að aðrir en til þess hafa heimild öðlist ekki þekkingu til að breyta eða afmá skráðar upplýsingar. Þá skal tryggt að tölvukerfið verði ekki notað af öðrum en þeim sem hafa heimild til þess, að þeir sem hafa heimild til að nota skráðar upplýsingar fái aðeins aðgang að þeim upplýsingum sem varða starfssvið þeirra, að unnt verði að kanna og staðfesta til hvaða yfirvalda persónuupplýsingar hafa verið gefnar með vélrænum hætti, að unnt verði að kanna og staðfesta hvaða persónuupplýsingar voru færðar í annað tölvukerfi, hvenær það var gert og hver gerði það og að ekki verði unnt að lesa, afrita, breyta eða afmá persónuupplýsingar við framsendingu þeirra af öðrum en þeim sem hefur heimild til þess. Hvert aðildarríki skal aðeins tilnefna sérstaklega hæfan aðila sem sætt hefur öryggisskoðun til að fara með upplýsingar í upplýsingakerfinu í eigin landi.

Um 4. kafla IV. bálks – skipting kostnaðar við Schengen-upplýsingakerfið (119. gr.).
    Kostnaður við uppsetningu og rekstur miðlæga upplýsingakerfisins og tengingar þess við upplýsingakerfin í einstökum aðildarríkjum skal borinn sameiginlega af aðildarríkjum samkvæmt reglum sem nánar er vísað til í samningnum. Aðildarríki ber sjálft kostnað af uppsetningu og rekstri þess hluta upplýsingakerfisins sem það hefur.

Um VI. bálk – vernd persónuupplýsinga (126.–130. gr.).
    Með tilliti til vélrænnar meðferðar persónuupplýsinga sem veittar eru samkvæmt samningnum skal hvert aðildarríki í síðasta lagi við aðild að samningnum hafa gert nauðsynlegar ráðstafanir til að eigin lög þess veiti persónuupplýsingum a.m.k. þá vernd er greinir í Evrópusamningnum um vernd persónuupplýsinga.
    Við vélræna meðferð persónuupplýsinga sem veittar eru samkvæmt samningnum gildir að sá sem fær upplýsingar má aðeins nota þær í þeim tilgangi sem þær voru veittar. Önnur notkun upplýsinganna er háð fyrir fram gefnu leyfi þess ríkis sem veitti þær og því að slík notkun sé í samræmi við lög þess ríkis sem fékk upplýsingarnar. Einungis má veita slíkt leyfi ef það er ekki í andstöðu við lög ríkisins sem veitti upplýsingarnar. Einungis þau dómsmálayfirvöld og aðilar mega nota upplýsingarnar sem hafa skyldum eða hlutverki að gegna vegna þess markmiðs sem að framan greinir. Sá aðili, sem veitir upplýsingar, hefur skyldur til að sjá til þess að upplýsingarnar séu réttar. Komist hann sjálfur að því eða samkvæmt beiðni frá viðkomandi einstaklingi að upplýsingarnar séu ekki réttar eða ekki átti að veita þær skal hann tilkynna það þeim aðila sem fékk þær. Sá aðili hefur skyldu til að leiðrétta upplýsingarnar, eyða þeim eða skrá athugasemd við þær um að þær séu ekki réttar eða að ekki hafi átt að veita þær. Aðildarríki getur ekki skotið sér undan þeirri ábyrgð sem hann ber að eigin lögum gagnvart einstaklingi sem orðið hefur fyrir tjóni með vísun til þess að annað aðildarríki hafi veitt rangar upplýsingar. Bæti aðili tjón vegna notkunar rangra upplýsinga sem hann hefur fengið frá öðrum aðila skal sá aðili sem veitti upplýsingarnar endurgreiða viðkomandi ríki að fullu þær bætur sem það greiddi. Skrá skal upplýsingar sem veittar eru og mótteknar í gagnagrunna aðila sem veitti og fékk upplýsingarnar.
    Um persónuupplýsingar sem veittar eru samkvæmt samningnum úr gagnasafni og teknar í gagnasafn sem ekki er vélrænt gilda ákvæði næstu málsgreinar hér á undan. Framangreind ákvæði gilda um þessar upplýsingar að öðru leyti en því að ekki þarf að skrá í gagnasafn aðilanna upplýsingar um að þær hafi verið veittar eða mótteknar. Að öðru leyti gildir eftirfarandi um þessar upplýsingar: Veiting og móttaka á upplýsingum skal skráð skriflega. Þetta gildir þó ekki þegar ekki er nauðsynlegt að skrá upplýsingarnar til að nota þær, sérstaklega þegar þær eru ekki notaðar eða einungis notaðar í mjög stuttan tíma. Með tilliti til notkunar upplýsinganna skal viðtakandi þeirra tryggja vernd þeirra á sama hátt og sambærilegra upplýsinga samkvæmt hans eigin lögum. Lög þess ríkis sem beiðni er beint til gilda um aðgang viðkomandi að þessum upplýsingum og um skilyrði fyrir aðgangi að þeim.
    Veiting persónuupplýsinga samkvæmt samningnum má þá fyrst eiga sér stað þegar það aðildarríki, sem á að fá upplýsingarnar, hefur tilnefnt eftirlitsaðila til að framkvæma óháð eftirlit með því að ákvæði samningsins um meðferð þessara upplýsinga séu virt. Sé sérstökum aðila samkvæmt lögum falið að hafa eftirlit með vernd persónuupplýsinga sem ekki eru í gagnasafni skal sama aðila falið að hafa eftirlit samkvæmt samningnum.
    Með tilliti til verndar persónuupplýsinga sem veittar eru samkvæmt ákvæðum samningsins um lögreglusamvinnu skuldbinda aðildarríkin sig til að vernd þeirra upplýsinga sé í samræmi við ályktun Evrópuráðsins um notkun lögreglu á persónuupplýsingum. Að því er varðar veitingu upplýsinga um þá sem eiga leyfis- eða tilkynningarskyld skotvopn gildir að viðtakandi slíkra upplýsinga má einungis nota þær í þeim tilgangi sem slíkar upplýsingar voru veittar til og samkvæmt skilyrðum sem sá aðili setti sem veitti upplýsingarnar. Upplýsingarnar má einungis veita lögreglu. Án fyrir fram gefins leyfis frá þeim aðila sem veitti upplýsingarnar má ekki veita öðrum aðilum aðgang að þeim. Samkvæmt beiðni þess aðila sem veitti upplýsingarnar skal sá sem fékk þær upplýsa fyrrgreinda aðilann um til hvers upplýsingarnar hafi verið notaðar og um árangur.
    Fái tengifulltrúi (sjá 7. gr. Schengen-samningsins) þær upplýsingar sem fjallað er um í þessum kafla gilda ákvæði hans einungis eftir að hann hefur framsent upplýsingarnar til þess aðila sem sendi hann til starfa á yfirráðasvæði annars ríkis.
    Í samningnum eru ákvæði um undantekningar frá þeim atriðum sem tilgreind eru að framan.

Um VII. bálk – framkvæmdanefndin (131.–133. gr.).
    Í bálkinum er kveðið á um framkvæmdanefnd Schengen-samstarfsins. Þar sem stofnanir Evrópusambandsins hafa leyst stofnanir Schengen af hólmi gildir bálkurinn ekki gagnvart Íslandi og Noregi, sbr. 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn. Ísland og Noregur störfuðu hins vegar með nefnd þessari á grundvelli Lúxemborgarsamningsins og undanfarandi áheyrnaraðildar landanna frá vorinu 1996 og til loka starfs hennar í apríl sl. Frá framkvæmdanefndinni stafa flestar þeirra Schengen-gerða sem Ísland og Noregur hafa samþykkt að taka mið af og þykir því rétt að gera nokkra grein fyrir henni. Auk þeirra sérstöku verkefna sem framkvæmdanefndinni voru falin með Schengen-samningnum var það hlutverk nefndarinnar að tryggja rétta beitingu samningsins.
    Í framkvæmdanefndinni var einn fulltrúi frá hverju aðildarríki. Aðildarríkin höfðu einn ráðherra í nefndinni sem bar ábyrgð á framkvæmd samningsins og gat hann að svo miklu leyti sem nauðsynlegt var notið aðstoðar sérfræðings sem gat tekið þátt í umræðum. Framkvæmdanefndin tók ákvarðanir samhljóða. Hún setti sér sjálf vinnureglur og gat í því sambandi ákveðið að ákvarðanir væru teknar skriflega. Samkvæmt beiðni fulltrúa eins aðildarríkis gat endanlegri ákvörðun, sem framkvæmdanefndin hafði tekið afstöðu til, verið frestað í allt að tvo mánuði eftir að málið var borið upp.

Um VIII. bálk – lokaákvæði (134.–142. gr.).
    Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gilda 134. og 139.–142. gr. Schengen-samningsins ekki gagnvart Íslandi og Noregi og stafar það m.a. af því að sum ákvæðanna hafa misst gildi sitt við færslu Schengen-samstarfsins undir Evrópusambandið. Af þeim ákvæðum sem eftir standa skiptir 136. gr., um samninga við þriðju ríki, máli meðan aðrar greinar eru fyrst og fremst lagatæknilegs eðlis. Aðildarríki, sem hyggst taka upp viðræður við þriðja ríki um persónueftirlit, skal upplýsa önnur aðildarríki um það. Ekkert aðildarríki má gera samning um einföldun eða afnám persónueftirlits við eitt eða fleiri þriðju ríki án fyrir fram samþykkis annarra aðildarríkja. Þetta takmarkar þó ekki rétt aðildarríkja Evrópusambandsins til að gera slíka samninga sín á milli.

IV.     Nánar um Brussel-samninginn.
    Með Lúxemborgarsamningnum frá 19. desember 1996 var Íslandi og Noregi tryggð full aðild að öllu ákvarðanaferli Schengen með sama hætti og aðildarríkjunum, að undanskildum atkvæðagreiðslum. Ísland og Noregur voru ekki bundin af ákvörðun framkvæmdanefndarinnar sem fór með æðsta vald Schengen-málefna fyrir gildistöku Amsterdam-sáttmálans. Tóku ríkin hverju sinni sjálfstæða ákvörðun um hvort þau samþykktu niðurstöðu framkvæmdanefndarinnar.
    Með Lúxemborgarsamningnum var tilvist norræna vegabréfasambandsins varin en það byggist á sömu grundvallarsjónarmiðum og Schengen-samstarfið. Lúxemborgarsamningurinn tryggði:
     *      áframhaldandi ferða- og vegabréfafrelsi milli norrænna ríkja,
     *      aðild að stærsta ferðafrelsissvæði Evrópu,
     *      þátttöku í aukinni lögreglusamvinnu Evrópuríkja gegn alþjóðlegri afbrotastarfsemi og
     *      þátttöku í víðtæku samstarfi gegn ólöglegum innflytjendum.
    Með Amsterdam-sáttmálanum var ákveðið að færa Schengen-samstarfið undir Evrópusambandið eins og áður er greint frá. Því var ljóst að endursemja þyrfti um þátttöku Íslands og Noregs í samstarfinu en í svonefndri Schengen-bókun við Amsterdam-sáttmálann er sérstaklega að því vikið og kveðið á um að það skyldi gert á grunni Lúxemborgarsamningsins. Þeim samningaviðræðum lauk með gerð Brussel-samningsins eins og áður segir.
    Með Brussel-samningnum var áframhaldandi þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu tryggð. Samningurinn er gerður milli ráðs Evrópusambandsins annars vegar og Íslands og Noregs hins vegar. Aðild ráðsins að samningnum byggðist á gildistöku Amsterdam- sáttmálans og því var fyrst unnt að undirrita samninginn eftir 1. maí 1999 en meginmál samningsins var að mestu frágengið í desember 1998. Brussel-samningurinn leysir Lúxemborgarsamninginn af hólmi og kveður eins og hann fyrst og fremst á um stofnanalegt fyrirkomulag þátttöku Íslands og Noregs í Schengen-samstarfinu.
    Eins og áður hefur komið fram var megináhersla lögð á tvennt af Íslands hálfu í viðræðunum um gerð Brussel-samningsins. Annars vegar að þátttaka Íslands og Noregs væri tryggð við mótun ákvarðana og rekstur samningsins og hins vegar að nýr samningur héldi öllum einkennum almenns þjóðréttarsamnings, án þátta sem kallast mættu yfirþjóðlegir. Af hálfu Evrópusambandsins þurfti hins vegar að gæta að því að sjálfstæði stofnana og innra starfs Evrópusambandsins væri tryggt.
    Ljóst er að með Brussel-samningnum hefur náðst ásættanleg niðurstaða hvað varðar þjóðréttarlega stöðu samstarfsins. Í samningnum er hvorki gert ráð fyrir íþyngjandi eftirlitshlutverki framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins né dómsvaldi Evrópudómstólsins gagnvart Íslandi og Noregi.
    Erfitt reyndist fyrir Evrópusambandið vegna grundvallarreglna þess um stöðu ráðsins og meðferð innri mála að koma nægilega til móts við kröfur Íslands og Noregs um þátttöku í mótun gerða en eftir nokkra erfiða samningafundi náðist niðurstaða um fyrirkomulag þátttöku Íslands og Noregs í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-reglna. Niðurstaðan var, að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis og ráðgjafa samninganefndarinnar um stjórnskipunarmálefni, metin ásættanleg.
    Þannig kveður Brussel-samningurinn á um að komið sé á laggirnar samsettri nefnd sem kemur saman á stigi sérfræðinga, háttsettra embættismanna (COREPER) og ráðherra. Ráðgert er að öll undirbúningsvinna, umræða og mótun nýrra Schengen-gerða fari fram í samsettu nefndinni en einungis hin formlega ákvarðanataka um Schengen-málefni verði í hinum formlegu nefndum Evrópusambandsins. Ísland og Noregur taka sem fyrr sjálfstæða ákvörðun hvort fyrir sig um hvort þau kjósa, að undangenginni þátttöku sinni í undirbúningi ákvarðana, að bindast þeim og taka þær upp í löggjöf sína á grundvelli eigin stjórnskipunarlaga.
    Vert er að taka fram að Evrópusambandið áskilur sér rétt til þess að ræða mál fyrst í sínum hópi ef það telur það nauðsynlegt. Af aðdraganda samningaviðræðnanna má ráða að það sé einkum ef um er að ræða málefni sem tengjast samstarfssviðum Evrópusambandsins sem eru utan við Schengen-samstarfið sem sú nauðsyn gæti komið upp að halda sérstaka Evrópusambandsfundi fyrir fundi samsettu nefndarinnar. Í samningsumboði kemur og fram að undirbúningsfundir á vettvangi Evrópusambandsins mundu vera undantekning en ekki regla. Aftur á móti er skýrt tekið fram í 1. mgr. 4. gr. Brussel-samningsins að samsettu nefndinni er ætlað að taka á öllum þeim málum sem falla undir samninginn og tryggja að sjónarmið Íslands og Noregs fái tilhlýðilega umfjöllun. Í ljósi þess verður að telja þetta ásættanlegt þótt vissulega hefði verið æskilegt að kveðið hefði verið með enn afdráttarlausari hætti á um fulla þátttöku Íslands og Noregs í allri mótun nýrra gerða, utan atkvæðagreiðslna.
    Til frekari stuðnings því að samsetta nefndin verði hinn raunverulegi vettvangur allrar mótunar nýrra Schengen-gerða eru að auki ákvæði í inngangskafla samningsins. Þar er m.a. vísað til þess markmiðs með Lúxemborgarsamningnum að viðhalda norræna vegabréfasamstarfinu og þess að virða skuli og þjóna markmiðum og tilgangi Lúxemborgarsamningsins með því að gera samning á grunni hans sem tengi Ísland og Noreg við framkvæmd Schengen-gerðanna og tryggi áframhaldandi þátttöku þeirra í Schengen- samstarfinu. Enn fremur er áréttuð nauðsyn þess að allir aðilar, þ.m.t. Ísland og Noregur, sem beita ákvæðum Schengen-gerðanna og geta síðar þurft að hlíta því að þeim sé beitt gagnvart þeim, taki á viðeigandi hátt, á hvaða vettvangi sem er, þátt í umræðum um beitingu þeirra í reynd, framkvæmd þeirra og undirbúningi að frekari þróun þeirra. Að lokum er því lýst yfir í inngangskaflanum að samsetta nefndin sé vettvangur Íslands og Noregs til þátttöku í þessu starfi.
    Samsetta nefndin er því virkur samstarfsvettvangur Íslands, Noregs og aðildarríkja Evrópusambandsins. Það styrkir stöðu Íslands og Noregs að samstarf um persónueftirlit er þannig að það er í allra þágu að öll aðildarríki taki fullan þátt í undirbúningi mála. Aðildarríki Evrópusambandsins stefndu eigin öryggi og skilvirku eftirliti í hættu með óþarfa pukri gagnvart ríkjum innan sameiginlega persónueftirlitssvæðisins. Eðli samstarfsins og hagsmunir aðildarríkjanna krefjast virkrar þátttöku Íslands og Noregs frá upphafi til enda. Schengen-samstarfið hefur til þessa gengið þannig að það styrkir enn stöðu Íslands og Noregs. Í ljósi þessa er ekki ástæða til annars en að ætla að samsetta nefndin verði á vettvangi sérfræðinga hinn raunverulegi vettvangur mótunar nýrra Schengen-gerða.
    Innan Evrópusambandsins eru þau málefni, sem ekki verða rædd til hlítar meðal sérfræðinga og eru sérstaklega mikilvæg eða viðkvæm, jafnan sett á dagskrá ráðherrafunda. Áður en málið kemur til kasta ráðherra eru þau tekin fyrir á fundum fastafulltrúa (COREPER) og er þess freistað þar að leysa vandann eða einfalda og undirbúa umræðuna fyrir ráðherrafundinn. Dómsmála- og innanríkisráðherrar Evrópusambandsins funda 4–6 sinnum á ári og þó ekki sé víst að Schengen-málefni séu fastur liður á dagskrá þeirra má ætla að þau verði alloft til umræðu.
    Samkvæmt Brussel-samningnum er ekki gengið út frá því sem gefnu að Ísland og Noregur sæki ráðherrafundi Evrópusambandsins sjálfkrafa eða að ævinlega séu haldnir ráðherrafundir samsettu nefndarinnar í hvert skipti sem Evrópusambandsráðherrar á þessu sviði þinga. Hins vegar hafa Ísland og Noregur rétt á að fara fram á fund ráðherra hvenær sem er til þess að skýra afstöðu sína varðandi einstök málefni innan samningsins og eru ekki takmarkanir á þeim rétti. Sérstök yfirlýsing áréttar þetta. Fyrir liggur að Ísland og Noregur munu fara fram á þátttöku í hvert sinn sem Schengen-málefnum hefur verið vísað áfram til ráðherra. Þegar slíkur ráðherrafundur samsettu nefndarinnar er í undirbúningi verður einnig boðað til fundar háttsettra embættismanna. Á vettvangi fastafulltrúa Evrópusambandsins er algengt að umræðan tengi saman óskyld málefni í leit að heildarlausn sem taki tillit til ólíkra hagsmuna aðildarríkjanna. Einmitt þess vegna er vitað að mörg aðildarríki Evrópusambandsins eru því mótfallin að veita utanaðkomandi ríkjum á borð við Ísland og Noreg aðgang að umræðunni. Á þessu stigi umræðunnar má því búast við einhverjum takmörkunum á þátttöku Íslands og Noregs. Almenn inngangsorð samningsins taka þó af allan vafa um að stefnt sé að víðtæku samstarfi. Af þeirri reynslu sem orðin er af framkvæmd samningsins má ráða að Evrópusambandið hyggist framkvæma þennan hluta samningsins á traustvekjandi hátt. Þegar hefur verið haldinn fundur á vettvangi ráðherra sem undirbúinn var af nefnd háttsettra embættismanna og er annar fyrirhugaður fyrir áramótin 1999/2000.
    Þrátt fyrir að Ísland og Noregur hefðu kosið enn afdráttarlausari ákvæði um fulla þátttöku á öllum sviðum má ekki líta fram hjá því að með Brussel-samningnum hefur Evrópusambandið gengið lengra í að hleypa þriðju ríkjum að starfsemi ráðsins en áður er dæmi um. Í því samhengi má minna á að ekki var orðið við kröfu EFTA-ríkjanna í EES- viðræðunum um formbundinn aðgang að starfsemi ráðsins.
    Ísland og Noregur skuldbinda sig á svipaðan hátt og ráð var fyrir gert í Lúxemborgarsamningnum til þess að taka upp og framkvæma Schengen-reglur eins og þær eru tilgreindar í sérstökum viðaukum. Árlega munu íslensk stjórnvöld gefa skýrslu um það í samsettu nefndinni hvernig framkvæmd hefur gengið. Nýjar Schengen-gerðir, sem Ísland og Noregur hafa tekið þátt í að undirbúa innan samsettu nefndarinnar, verða fyrst samþykktar af viðeigandi stofnun Evrópusambandsins en síðar taka Ísland og Noregur hvort um sig sjálfstæða ákvörðun um aðild að þeim. Tilkynni Ísland eða Noregur ekki innan þrjátíu daga að gerð sé samþykkt er litið á það sem uppsögn en sambærileg ákvæði voru í Lúxemborgarsamningnum. Sérákvæði eru um málsmeðferð í þeim tilvikum þegar Ísland og Noregur geta stjórnskipunar sinnar vegna ekki samþykkt nýja Schengen-gerð fyrr en að aflokinni þingmeðferð.
    Lúxemborgarsamningurinn sætti gagnrýni fyrir að allur samningurinn var sjálfkrafa í húfi í hvert skipti sem gerð kynni að vera hafnað. Samkvæmt Brussel-samningnum er hins vegar gert ráð fyrir níutíu daga sáttaferli til þess að leita leiða til að halda samstarfi áfram þó svo að Ísland eða Noregur hafni gerð. Takist ekki að finna lausn á þeim tíma er samningnum slitið gagnvart viðkomandi ríki þremur mánuðum eftir að frestur rennur út, eða eftir sex mánuði alls. Sérstaklega er tekið fram í yfirlýsingu að leitað verði sátta á ráðherrafundi. Brussel-samningurinn er hvað þetta varðar betri en Lúxemborgarsamningurinn því að neitun eða frestur á samþykki nýrrar gerðar leiðir ekki á jafnsjálfkrafa hátt til uppsagnar eins og var samkvæmt Lúxemborgarsamningnum.
    Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að Schengen-samstarfið er þess eðlis að það fellur nær allt undir verksvið framkvæmdarvaldsins. Engin ákvörðun sem tekin hefur verið innan Schengen frá því Ísland hóf þátttöku 1996 hefur krafist þingmeðferðar. Eftir að almennur rammi hefur verið mótaður er mjög ólíklegt að til þess komi að ný Schengen-gerð þurfi að fara fyrir þing. Ekki þótti til dæmis ástæða til þess að taka á því sérstaklega í Lúxemborgarsamningnum hver málsmeðferð yrði ef gerð þyrfti að sæta þingmeðferð. En þar sem allur samningurinn er í húfi í hvert sinn sem gerð er hafnað og ekki er hægt að útiloka þann möguleika að ákvörðun verði tekin innan Evrópusambandsins sem þyrfti að fara fyrir þing áður en Ísland eða Noregur gætu orðið aðilar að henni var talið æskilegt að ganga frá sérstökum ákvæðum um það í samningnum hvert verklagið yrði í slíkum tilfellum.
    Alla jafna verður stefnt að því að gerð gangi í gildi á sama tíma á öllu Schengen-svæðinu. Sé gerð hins vegar þess eðlis að hún þurfi að fara fyrir þing á Íslandi eða Noregi verður gildistökutíminn fyrir Ísland eða Noreg ákveðinn með það fyrir augum að gefa nægilegt svigrúm til umræðu og ákvörðunar á þingi. Gera má ráð fyrir að ljóst sé með nokkuð löngum aðdraganda hvort væntanleg sé gerð sem er þess eðlis að hún þurfi að fara fyrir þing.
    Evrópusambandinu er hins vegar umhugað um að einhver tímafrestur sé skilgreindur svo Ísland eða Noregur geti ekki dregið endalaust að segja af eða á. Framkvæmd nýrrar Schengen-gerðar megi ekki dragast óhóflega vegna þess að verið sé að bíða eftir ákvörðun Íslands eða Noregs. Hér lágu hagsmunir Noregs og Íslands ekki saman.
    Norðmenn kusu fremur almennan sex mánaða frest eftir tilkynningu til að ljúka þingmeðferð og buðu á móti að nýrri Schengen-gerð yrði beitt til bráðabirgða. Norðmenn töldu sig á grundvelli almennra laga geta heimilað framkvæmdarvaldinu að hlutast til um bráðabirgðainnleiðingu Schengen-gerðar þrátt fyrir að mestar líkur væru á því að hana þyrfti að leggja fyrir þing vegna þess að hún væri ósamþýðanleg norskum lögum. Að höfðu samráði við ráðgjafa samninganefndar Íslands um stjórnskipunarmálefni og utanríkismálanefnd var talið að slík lagaheimild til bráðabirgðabeitingar Schengen-gerða sem samrýmdust ekki íslenskum lögum stæðist varla íslenskar stjórnskipunarreglur um mörk löggjafar- og framkvæmdarvalds.
    Því var valin sú leið af Íslands hálfu að byggja á samningsskuldbindingu um að við ákvörðun um gildistöku að því er Ísland varðar yrði tekið tillit til yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda um að ný Schengen-gerð yrði háð þingmeðferð og gildistaka gæti þannig verið ákveðin talsvert síðar fyrir Ísland en fyrir önnur ríki. Hefð er fyrir lengri þinghléum á Íslandi en í Noregi og fastur sex mánaða frestur til þingmeðferðar kynni því að vera með skemmsta móti, t.d. á kosningaári.
    Vert er að hafa í huga að Norðmenn kunna vegna landfræðilegrar legu sinnar að þurfa við ákveðnar aðstæður að vera reiðubúnir til að grípa til aðgerða, svo sem á landamærum sínum, án fyrirvara, en þeir eiga t.d. landamæri á landi að Rússlandi.
    Evrópusambandið lagði upp með það í samningaviðræðunum að kveðið yrði á um að Ísland og Noregur gætu með sérstakri yfirlýsingu leyft dómstólum sínum að leita til Evrópudómstólsins eftir ráðgefandi áliti og að Íslandi og Noregi væri gefinn kostur á því að láta deilumál koma til kasta Evrópudómstóls. Svipuð ákvæði voru í EES-samningnum en honum fylgdu yfirlýsingar um að þessir möguleikar yrðu ekki nýttir af Íslandi eða Noregi. Óskum Evrópusambandsins um ákvæði af þessu tagi var bæði hafnað af Íslandi og Noregi. Því kveður Brussel-samningurinn einvörðungu á um að samningsaðilar muni í samsettu nefndinni fylgjast með því hvernig Evrópudómstóllinn túlkar ákvæði sem falla undir samninginn og að Íslandi og Noregi verði gefinn kostur á því að leggja fram athugasemdir þegar mál á vegum aðildarríkja Evrópusambandsins, sem varða túlkun ákvæða samningsins, eru til umfjöllunar í dómstólnum. Við þetta bætist síðan að Ísland og Noregur munu upplýsa Evrópusambandið um íslenskar og norskar dómsúrlausnir um Schengen-gerðir.
    Sérstök ákvæði eru um úrlausn deilumála og þá stöðu ef verulegt misræmi kemur upp varðandi túlkun og framkvæmd samningsins. Er þá gert ráð fyrir að leitað verði lausna í samsettu nefndinni. Sé ekki hægt að leysa málið þar innan tveggja mánaða leiðir það til uppsagnar.
    Þátttaka Íslands og Noregs í kostnaði við framkvæmd samningsins er leyst á þann hátt að ákveðið er fast hlutfall af ákveðinni upphæð, 300 millj. belgískra franka. Er sú upphæð miðuð við rekstrarkostnað Schengen-skrifstofunnar árið 1998, en framlagið verður síðan árlega lagað að verðlagsþróun innan Evrópusambandsins. Árlegt framlag Íslands til rekstrarins er 0,1%, eða um 0,6 millj. kr. miðað við núverandi gengi. Þegar um er að ræða sérstök verkefni utan fjárlaga Evrópusambandsins verður greiðsla Íslands og Noregs í hlutfalli við þjóðarframleiðslu. Þessi lausn virðist ágætlega hagstæð Íslandi og byggist á hagstæðum samningum sem Ísland náði um greiðslu framlaga innan Schengen-samstarfsins áður en það var sameinað Evrópusambandinu.

V.     Athugasemdir um einstakar greinar Brussel-samningsins.
    Samningurinn inniheldur átján greinar auk tveggja viðauka og yfirlýsinga, bókana og lokagerðar sem fylgdu honum.
    Viðaukarnir tveir afmarka efnissvið samvinnunnar og eru í viðauka A allar Schengen- gerðir sem eiga rætur sínar að rekja til Schengen-samstarfsins utan stofnanaramma Evrópusambandsins en í viðauka B eru þær EB-gerðir sem samstarfið nær til. Af Schengen- gerðunum eru það Schengen-samkomulagið og Schengen-samningurinn sem afmarka efnissvið samvinnunar og skapa grundvöll fyrir þeim ákvörðunum um framkvæmd og útfærslu samstarfsins sem framkvæmdanefndin gat staðið að. Schengen-gerðirnar sem vísað er til í viðaukunum eru ekki formlegur hluti Brussel-samningsins og fylgja því ekki með tillögu þessari utan Schengen-samkomulagið og Schengen-samningurinn. Alþingi verður hins vegar tryggður aðgangur að gerðum þessum eftir því sem óskað er vegna þingmeðferðar málsins.
    Hluti Schengen-gerðanna er þess eðlis að um þær verður að ríkja trúnaður eigi samningsmarkmiðin að nást. Hér er einkum um að ræða handbækur fyrir framkvæmd persónueftirlits, lögreglusamstarf, starfsemi upplýsingakerfis Schengen og um útgáfu vegabréfsáritana en ekki síður ýmiss konar tæknilega staðla er samstarfið byggist á. Alþingi verður að sjálfsögðu gerð grein fyrir efni þessara reglna í trúnaði en þeirra er að öðru leyti ekki getið í tillögu þessari. Ástæða þess að aðildarríkin hafa flokkað skjölin sem trúnaðarskjöl er að þau innihalda reglur og leiðbeiningar sem afbrotamenn gætu misnotað og þar með ógnað öryggi aðildarríkjanna og íbúa þeirra ef gerð væru opinber.
    Þýðing gerðanna yfir á íslensku er nú á lokastigi og verða þær, að undanskildum þeim gerðum sem eru trúnaðarmál, birtar á heimasíðum dómsmálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins eftir því sem þýðingar verða frágengnar.
    Almennt eru gerðirnar þess eðlis að þær þarfnast ekki lagabreytinga en munu verða teknar upp í íslenskan landsrétt ýmist í formi reglugerða eða starfsfyrirmæla. Sérstök grein er gerð fyrir þörf á lagabreytingum í lok greinargerðar þessarar.

Athugasemdir við einstakar greinar samningsins.


Um formálsorð.


    Í formálsorðum samningsins er gerð grein fyrir aðdraganda samningsgerðarinnar og meginmarkmiðum samningsaðila. Gerð er grein fyrir Lúxemborgarsamningnum og því meginmarkmiði hans að varðveita norræna vegabréfasambandið. Því næst er vikið að Schengen-bókuninni við Amsterdam-sáttmálann þar sem fram kom skuldbinding Evrópusambandsins til að ganga til samninga við Ísland og Noreg um þátttöku þeirra í Schengen-samstarfinu eftir að það hefði verið fært til stofnana Evrópusambandsins og að slíkur samningur yrði að vera reistur á grunni Lúxemborgarsamningsins. Enn fremur er vikið að nauðsyn þess að allir aðilar að Schengen-samstarfinu komi að allri umræðu, á öllum stigum, sem snýr að beitingu Schengen-gerða í reynd, framkvæmd þeirra og undirbúningi að frekari þróun. Í lok formálsorðanna er því lýst yfir að nauðsyn sé að setja á laggirnar samsetta nefnd samningsaðila utan stofnanaramma Evrópusambandsins sem tryggi þátttöku Íslands og Noregs í ferlinu við ákvarðanatöku á þessum sviðum.

Um 1. gr.


    Í 1. gr. er kveðið á um að Ísland og Noregur skuli taka þátt í starfi Evrópubandalagsins og Evrópusambandsins á þeim sviðum sem afmörkuð eru með viðaukum A og B. Um þátttökuna fer eftir ákvæðum samningsins sem að öðru leyti skapar samningsaðilum gagnkvæm réttindi og skyldur í samræmi við ákvæði samningsins um málsmeðferð.

Um 2. gr.


    Með 2. gr. er efnissvið Schengen-samstarfsins sem fellur undir samninginn afmarkað og um það vísað til tveggja viðauka við samninginn. Schengen-gerðirnar sem falla undir samninginn eru í öllum meginatriðum þær sömu og voru felldar undir Evrópusambandið með ákvörðun ráðsins frá 20. maí 1999 (1999/435/EB).
    Nánar tiltekið er í 1. mgr. kveðið á um að Ísland og Noregur skuli koma í framkvæmd og beita ákvæðum Schengen-gerðanna sem tilgreindar eru í viðauka A. Þar er um er að ræða sömu gerðir og tilgreindar voru í viðauka við Lúxemborgarsamninginn eins og þeim hefur verið breytt, við þær bætt eða þær felldar niður fram að gildistöku Amsterdam-sáttmálans. Ísland hefur tekið þátt í mótun Schengen-gerða með þátttöku sinni í starfi framkvæmdanefndarinnar, fyrst á grundvelli boðs Schengen-ríkjanna um áheyrnaraðild frá vorinu 1996, og síðan á grundvelli ákvæða Lúxemborgarsamningsins um þátttöku í starfi framkvæmdanefndarinnar til bráðabirgða frá undirritun samningsins 19. desember 1996.
    Í 2. mgr. er vísað til viðauka B þar sem tilgreindar eru þær ESB-gerðir sem leyst hafa af hólmi ákvæði Schengen-samningsins frá 1990 eða ákvæði sem reist hafa verið á honum.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að Ísland og Norgur skuli samþykkja, koma í framkvæmd og beita gerðum og ráðstöfunum Evrópusambandsins sem breyta eða bætast við þau ákvæði sem um getur í viðaukum A og B að teknu tilliti til málsferðarreglna samningsins.

Um 3. gr.


    Í 3. gr. er kveðið á um stofnun og samsetningu samsettu nefndarinnar.
    Nefndin skal skipuð fulltrúum Íslands, Noregs, ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar. Þetta felur það í sér að fulltrúar Bretlands og Írlands eiga sæti í nefndinni þótt löndin séu ekki þátttakendur í Schengen-samstarfinu. Þessi sérstaka aðstaða ríkjanna tveggja og ákvæði Amsterdam-sáttmálans um heimild þeirra til að sækja um að taka þátt í samstarfinu að hluta eða öllu leyti gerði það nauðsynlegt að semja sérstaklega um gagnkvæm réttindi og skyldur þeirra gagnvart Íslandi og Noregi í samræmi við 2. mgr. 6. gr. Schengen-bókunar Amsterdam-sáttmálans. Er sérstök grein gerð fyrir þessum samningi síðar. Samsetta nefndin tók til starfa strax við undirritun samningsins, sbr. 4. mgr. 15. gr.
    Samsetta nefndin setur sjálfri sér starfsreglur og skulu þær samþykktar samhljóða. Í yfirlýsingu Evrópusambandsins, sbr. 5. lið lokagerðar samningsins, kemur fram sú skoðun þess að í þeim tilvikum þegar samsetta nefndin ályktar um mál skuli ályktanir vera samhljóða nema annað leiði af starfsreglum nefndarinnar. Voru málsmeðferðarreglur þessar samþykktar í lok júní 1999.
    Samkvæmt 3. mgr. kallar formaður til nefndarfunda að eigin frumkvæði eða eftir ósk einhvers nefndarmanns.
    Í 4. mgr. eru ákvæði um að samsetta nefndin geti komið saman skipuð ráðherrum, háttsettum embættismönnum eða sérfræðingum og í 5. mgr. eru ákvæði um hvernig forsæti skuli skipað. Á vettvangi sérfræðinga skal fulltrúi Evrópusambandsins vera í forsæti en á vettvangi háttsettra embættismanna og ráðherra skal forsæti vera til skiptis, til sex mánaða í senn, hjá fulltrúa Evrópusambandsins og hjá fulltrúa Íslands eða Noregs. Gegnir Ísland formennsku á þessum vettvangi frá 1. júlí til 31. desember 1999.

Um 4. gr.


    Í 4. gr. er kveðið á um hlutverk samsettu nefndarinnar.
    Samkvæmt 1. mgr. skal nefndin fjalla um öll málefni er falla undir 2. gr. samningsins. Auk þess skal tryggt að hvert það atriði er Ísland og Noregur láta sig varða fái tilhlýðilega umfjöllun. Af formálsorðum verður ráðið að nefndin skal vera vettvangur umræðu allra þeirra aðila er framkvæma reglur Schengen-samningsins, um framkvæmd þeirra og um undirbúning frekari þróunar þeirra. Tengir nefndin þannig Ísland og Noreg við undirbúning ákvarðana á vettvangi Schengen-samstarfsins.
    Þegar hlutverk samsettu nefndarinnar er skoðað verður einnig að hafa í huga 5. og 8.–11. gr. sem fjalla m.a. um skyldu til upplýsingamiðlunar, samráð um túlkun og um lausn ágreiningsmála.
    Í 2. mgr. greinarinnar er fjallað um fundi samsettu nefndarinnar á vettvangi ráðherra þar sem ráðherrar Íslands og Noregs eiga þess kost að útskýra vandamál sem komið hafa upp að því er varðar tiltekna gerð eða ráðstöfun eða taka afstöðu til vandamála sem aðrar sendinefndir standa frammi fyrir. Auk þess geta þeir skýrt sjónarmið sín í sérhverju álitamáli er viðvíkur þróun eða framkvæmd ákvæða sem þá varða. Í þessu samhengi verður og að hafa í huga formálsorð samningsins þar sem fram kemur að allir þeir er framkvæma reglur Schengen muni á öllum stigum taka þátt í umfjöllun um þær. Í yfirlýsingu 1 við samninginn lýsa Ísland og Noregur því yfir að þau telji að það sé þeirra að meta hvort skilyrði þau er greinir í ákvæðinu hafi verið uppfyllt. Auk þess undirstrika ríkin í yfirlýsingu þessari rétt sinn til að óska eftir fundi í nefndinni á hvaða vettvangi sem er í samræmi við 3. mgr. 3. gr.
    Samkvæmt 3. mgr. eru fundir samsettu nefndarinnar á vettvangi ráðherra undirbúnir af nefnd háttsettra embættismanna. Á vettvangi Evrópusambandsins er það venja að nefnd fastafulltrúa aðildarríkjanna (COREPER) undirbúi ráðherrafundi. Reyndist af þeim sökum nauðsynlegt að samsetta nefndin kæmi einnig saman á þeim vettvangi til að undirbúa fundi ráðherra.
    Í 4. mgr. er fjallað um rétt Íslands og Noregs til að leggja fram hugmyndir í samsettu nefndinni og fá umfjöllun um þær. Frekari framgangur þeirra er undir því kominn að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eða eitt aðildarríkja Evrópusambandsins geri þær formlega að sínum tillögum. Rétt er að taka fram að með þessu er átt við rétt ríkjanna til að leggja fram hugmyndir að nýjum aðgerðum eða að nýrri gerð á vettvangi Schengen. Hér er ekki átt við einstakar tillögur sem fulltrúar Íslands og Noregs kunna að leggja fram við umræður um fram komnar tillögur framkvæmdastjórnar eða einstakra aðildarríkja.

Um 5. gr.


    Með 5. gr. er lögð almenn upplýsingaskylda á ESB til að tilkynna samsettu nefndinni um allar gerðir eða ráðstafanir sem eru í undirbúningi í ráðinu og kunna að varða samninginn. Til viðbótar koma önnur ákvæði samningsins sem innihalda upplýsingaskyldu um gerðir sem samningurinn nær yfir og má þar nefna 4. og 8. gr. Þannig mun upplýsingaskylda á grunni 5. gr. fyrst og fremst hafa sjálfstæða þýðingu um gerðir er falla utan samningsins en kunna þó að tengjast honum óbeint.
    Í þessu sambandi er og rétt að hafa í huga yfirlýsingu 6 þar sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skuldbindur sig til að tilkynna Íslandi og Noregi þegar hún sendir ráði Evrópusambandsins og Evrópuþinginu tillögur sínar er varða samninginn.

Um 6. gr.


    Með 6. gr. er kveðið á um að framkvæmdastjórnin skuli við undirbúning nýrra Schengen- gerða leita óformlega ráða íslenskra og norskra sérfræðinga til jafns við sérfræðinga frá aðildarríkjum ESB. Grein þessi á sér samsvörun í 103. gr. EES-samningsins og getur eins og hún haft mikið hagnýtt gildi.

Um 7. gr.


    Með 7. gr. er kveðið á um að samið skuli um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákveða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram hjá einhverjum samningsaðila. Um þessi mál fer nú eftir Dyflinnarsamningnum sem áður er getið, en samningurinn leysti af hólmi ákvæði 7. kafla II. bálks Schengen-samningsins um ábyrgð á meðferð beiðna um hæli.

Um 8. gr.


    Í 8. gr. er kveðið á um samþykkt nýrra gerða og ráðstafana sem falla undir Schengen- samstarfið, skuldbindingargildi þeirra gagnvart Íslandi og Noregi og gildistöku. Enn fremur er í greininni kveðið á um afleiðingar þess ef Ísland og Noregur ákveða að samþykkja ekki nýja Schengen-gerð.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að samþykkt nýrra gerða og ráðstafana sem varða Schengen sé í höndum þar til bærra stofnana Evrópusambandsins. Evrópusambandið er skuldbundið til að tilkynna Íslandi og Noregi strax um samþykkt nýrra gerða og ráðstafana, sbr. a-lið 2. mgr. Þótt gert sé ráð fyrir einhliða samþykki nýrra gerða og ráðstafana af hálfu Evrópusambandsins verður að hafa í huga að gert er ráð fyrir að Ísland og Noregur hafi í samræmi við ákvæði Brussel-samningsins tekið fullan þátt í undanfarandi mótun gerðanna á vettvangi samsettu nefndarinnar.
    Með 1. mgr. er mörkuð sú stefna að nýjar gerðir skuli ganga í gildi samtímis innan Evrópusambandsins og á Íslandi og í Noregi. Því er sérstaklega tekið fram að við mótun gildistökuákvæða skuli tekið tilhlýðilegt tillit til þess tíma sem Ísland og Noregur kunna að þurfa til að unnt sé að uppfylla stjórnskipuleg skilyrði fyrir því að löndin skuldbindi sig. Ísland og Noregur skulu upplýsa um slíkt á vettvangi samsettu nefndarinnar. Þess er að vænta að flestar nýjar gerðir og ráðstafanir vegna Schengen verði þess efnis að íslensk og norsk stjórnvöld geti framkvæmt þær innan ramma gildandi laga og þurfi því ekki að gera fyrirvara vegna þingmeðferðar. Í því þeim tilvikum þegar þingmeðferð er nauðsynleg skal Evrópusambandið taka tilhlýðilegt tillit til þess við ákvörðun gildistökutíma.
    Samkvæmt a-lið 2. mgr. skulu Ísland og Noregur hvort fyrir sig ákveða hvort þau samþykki efni nýrrar Schengen-gerðar eða ráðstöfunar. Löndin skulu tilkynna Evrópusambandinu um ákvörðun sína innan 30 daga frá samþykkt gerðar eða ráðstöfunar. Slík tilkynning, sem er einhliða, stofnar til þjóðréttarlegrar skuldbindingar Íslands gagnvart Evrópusambandsríkjunum og Noregi. Án tilkynningarinnar verða ríkin hins vegar ekki skuldbundin en ákvæði 4. mgr. koma til framkvæmda.
    Í b-lið 2. mgr. er kveðið á um hvernig staðið skuli að tilkynningum af Íslands hálfu þegar ný Schengen-gerð eða ráðstöfun kallar á atbeina Alþingis. Ísland mun í slíku tilviki tilkynna Evrópusambandinu um að atbeina þingsins þurfi til áður en stjórnvöld geti skuldbundið sig. Stjórnvöld munu í slíkum tilvikum hafa farið fram á að gildistaka viðkomandi gerðar eða ráðstöfunar verði ákvörðuð þannig að fullnægjandi svigrúm sé til þingmeðferðar, sbr. 1. mgr., og Evrópusambandið er samkvæmt sömu grein skuldbundið til að taka tilhlýðilegt tillit til þess. Ísland sendir síðan að lokinni þingmeðferð, og að því gefnu að niðurstaða hennar hafi verið jákvæð, aðra tilkynningu sem stofnar til hinnar þjóðréttarlegu skuldbindingar. Sú tilkynning á að berast í seinasta lagi fjórum vikum fyrir gildistökudag gerðarinnar eða ráðstöfunarinnar.
    Í c-lið 2. mgr. er kveðið á um hvernig staðið skuli að tilkynningum af hálfu Noregs þegar ný Schengen-gerð eða ráðstöfun kallar á atbeina Stórþingsins.
    Í 3. mgr. er kveðið á um þjóðréttarlegt skuldbindingargildi tilkynninga Íslands og Noregs samkvæmt framangreindu.
    Í 4. mgr. er kveðið á um málsmeðferð í þeim tilvikum að annaðhvort Ísland eða Noregur samþykkja ekki nýja Schengen-gerð eða ráðstöfun. Slíkt getur gerst hvort sem er með því að beinlínis sé tilkynnt að gerð sé ekki samþykkt eða með því að áskildar tilkynningar skv. 8. gr. berist ekki á réttum tíma. Í slíkum tilvikum telst samningnum slitið að því er varðar Ísland eða Noreg, eftir því sem við á, nema samsetta nefndin ákveði annað. Samsetta nefndin skal kanna ítarlega leiðir til að halda samningnum í gildi og hefur 90 daga til þess. Í yfirlýsingu 2 með samningnum hafa Ísland og Noregur lýst því yfir að ríkin muni í tilvikum sem þessum nýta rétt sinn skv. 3. mgr. 3. gr. og óska eftir fundi í samsettu nefndinni á vettvangi ráðherra svo að leita megi leiða til að halda samningnum í gildi. Renni framangreindur frestur út án þess að samsetta nefndin finni leið til að halda samningnum í gildi verða samningsslit þremur mánuðum síðar.

Um 9. gr.


    Í 9. gr. greinir hvernig ætlunin er að ná því markmiði samningsaðila að beiting og túlkun reglna 2. gr. verði samræmd.
    Í 1. mgr. kemur fram að gert er ráð fyrir að samsetta nefndin fylgist stöðugt með dómaframkvæmd Evrópudómstólsins og einnig dómaframkvæmd þar til bærra dómstóla Íslands og Noregs varðandi slík ákvæði. Í þessu augnamiði er gert ráð fyrir sérstöku fyrirkomulagi til að tryggja reglubundna og gagnkvæma miðlun þessarar dómaframkvæmdar.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að Ísland og Noregur eigi rétt á að leggja greinargerð eða skriflegar athugasemdir fyrir Evrópudómstólinn í málum sem dómstóll aðildarríkis hefur vísað til hans til að fá forúrskurð um túlkun ákvæðis sem um getur í 2. gr. Mun Evrópusambandið leitast við að breyta samþykktum Evrópudómstólsins til að gera þetta mögulegt. Þessi réttur er í líkingu við EES-samninginn.

Um 10. gr.


    Samkvæmt 10. gr. skulu Ísland og Noregur árlega gefa samsettu nefndinni skýrslu um hvernig stjórnvöld og dómstólar hafa beitt Schengen-reglum og túlkað þær. Komi í ljós verulegur munur á framkvæmd Schengen-reglna milli samningsaðila skal samsetta nefndin taka slíkt til meðferðar og leita lausna til að tryggja samræmi. Takist það ekki innan tveggja mánaða skal málið koma til meðferðar eftir ákvæðum 11. gr.

Um 11. gr.


    Í 11. gr. er kveðið á um meðferð ágreiningsmála. Slík mál skal setja á dagskrá samsettu nefndarinnar á vettvangi ráðherra. Samsetta nefndin hefur 90 daga til að leysa málið frá þeim degi að telja sem dagskráin sem ágreiningsmálið hefur verið sett á er samþykkt. Náist ekki lausn á því 90 daga tímabili skal bætt við 30 dögum til að finna endanlega lausn. Fáist engin endanleg lausn telst samningnum slitið gagnvart því ríki sem ágreiningurinn er við og öðlast samningsslitin gildi sex mánuðum síðar.
    Þetta þýðir að frá því að ágreiningsmál kemur upp og formlega á dagskrá ráðherrafundar samsettu nefndarinnar líða tíu mánuðir áður en til uppsagnar getur komið.

Um 12. gr.


    Í 12. gr. er kveðið á um þátttöku Íslands og Noregs í kostnaði af Schengen-samstarfinu. Hlutfall Íslands er 0,1% af 300 millj. belgískra franka eða um það bil 0,6 millj. kr. Grunnfjárhæðin tekur mið af ársrekstrarkostnaði Schengen-skrifstofunar eins og hann var áður en Schengen færðist undir Evrópusambandið. Grunnfjárhæðin breytist í samræmi við verðlagsþróun í Evrópusambandslöndunum. Að öðru leyti er kveðið á um að þátttaka í rekstrarkostnaði skuli miðast við hundraðshluta vergrar þjóðarframleiðslu af samanlagðri vergri þjóðarframleiðslu allra þátttökuríkjanna.
    Í 2. mgr. er kveðið á um rétt Íslands og Noregs til að fá skjöl og túlkun á fundum samsettu nefndarinnar á opinberu tungumáli stofnana Evrópusambandsins að eigin vali. Það er þó áréttað að allar þýðingar og túlkun úr og á íslensku og norsku skuli vera á kostnað Íslands eða Noregs eftir því sem við á. Þessi aðstaða endurspeglast í því framlagi sem að framan greinir til reksturs samstarfsins.

Um 13. gr.


    Með 13. gr. er kveðið á um tengsl samningsins við aðra samninga. Samningurinn skal ekki hagga EES-samningnum né neinum öðrum samningum milli Íslands og EB eða Noregs og EB. Enn fremur er kveðið á um að hann skuli ekki hafa áhrif á samninga milli þessara aðila eða samninga milli Íslands eða Noregs og Evrópusambandsins á sviði utanríkis- og öryggismála (2. stoð ESB) eða dómsmálasamstarfsins (3. stoð ESB). Að lokum er ítrekað að samningurinn skuli ekki hagga norræna vegabréfasambandinu.

Um 14. gr.


    Í 14. gr. er kveðið á um að samningurinn gildi ekki um Svalbarða.

Um 15. gr.


    Greinin fjallar um vörsluaðila og samþykki samningsins, gildistöku hans, bráðabirgðaþátttöku í nefndarstarfi fram að gildistöku og upphaf framkvæmdar Schengen- reglna.
    Framkvæmdastjóri ráðsins er vörsluaðili samningsins. Samningsaðilar skulu lýsa samþykki sínu við að vera bundnir af samningnum og skal vörsluaðilinn sannreyna að formlegum skilyrðum fyrir yfirlýsingunni sé fullnægt. Samningurinn öðlast gildi einum mánuði síðar.
    Á grundvelli 2. mgr. hefur Ísland, líkt og á grundvelli sambærilegs ákvæðis í Lúxemborgarsamningnum, tekið þátt í starfi samsettu nefndarinnar frá undirritunardegi samningsins, 18. maí 1999. Frá gildistökudegi Amsterdam-sáttmálans og fram til 18. maí var fulltrúum Íslands og Noregs boðið sérstaklega til einstakra funda til að tryggja að samstarf sem verið hafði milli aðila á grunni Lúxemborgarsamningsins rofnaði ekki.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að Ísland og Noregur skuli innan 30 daga frá gildistöku samningsins tilkynna, í samræmi við 2. mgr. 8. gr., hvort þau samþykki nýjar Schengen- gerðir sem samþykktar hafa verið á tímabilinu frá undiritun samningsins og fram að gildistöku. Í lok októbermánaðar 1999 hafa engar nýjar Schengen-gerðir verið afgreiddar í samsettu nefndinni.
    Um upphaf framkvæmdar Schengen-reglna, m.a. um breytingar á fyrirkomulagi persónueftirlits, fer eftir 4. mgr. Þar er kveðið á um að ráðið ákveði upphafsdaginn að höfðu samráði við samsettu nefndina eftir að úttektir hafa farið fram. Í 5. mgr. er síðan kveðið á um að við upphaf framkvæmdar Schengen-reglna skapist réttindi og skyldur milli Íslands og Noregs, svo og milli Íslands og Noregs annars vegar og Evrópubandalagsins og þeirra aðildarríkja þess þar sem þessi ákvæði eru einnig komin til framkvæmda hins vegar. Bretland og Írland standa sem kunnugt er utan Schengen-samstarfsins og Grikkland hefur enn ekki hafið fulla framkvæmd þótt líklegt sé að svo verði fljótlega. Gert er ráð fyrir því að framkvæmd Norðurlandanna á Schengen-reglum hefjist samtímis og verða þá Bretland, Írland og Liechtenstein einu EES-ríkin utan Schengen-samstarfsins.

Um 16. gr.


    Samkvæmt 16. gr. geta Ísland eða Noregur hvort fyrir sig sagt samningnum upp án skilyrða og héldi þá samningur gildi áfram milli annarra samningsaðila. Evrópusambandið getur sagt samningnum upp án skilyrða svo fremi sem ráðið, að undanskildu Bretlandi og Írlandi, samþykki uppsögn einróma. Uppsögn öðlast gildi sex mánuðum eftir að tilkynning um hana berst til vörsluaðila.

Um 17. gr.


    Greinin fjallar um afleiðingar þess að Ísland eða Noregur gangi út úr Schengen- samstarfinu. Í slíku tilviki skulu aðilarnir sem eftir eru leita samninga við aðilann sem gengur úr samstarfinu um lyktir málsins. Takist samningar ekki skal ráðið taka ákvörðun, að höfðu samráði við þann aðila sem áfram er bundinn af samningnum, um nauðsynlegar ráðstafanir. Samningsaðilinn er þó einungis bundinn af slíkum ráðstöfunum ef hann samþykkir þær.

Um 18. gr.


    Með greininni er því slegið föstu að samningurinn komi í stað Lúxemborgarsamningsins auk þess sem gerð er grein fyrir því að hann sé gerður á öllum opinberu tungumálum Evrópusambandsríkjanna auk íslensku og norsku og að allar tungumálagerðirnar séu jafngildar.

Um lokagerð samningsins.


    Lokagerð samningsins inniheldur sex yfirlýsingar. Hefur þegar verið vísað hér að framan til yfirlýsinga 1, 2, 5 og 6 í tengslum við viðeigandi samningsákvæði.
    Yfirlýsing 3 fjallar um framsal sakamanna og er sams konar yfirlýsing og Ísland og Noregur gáfu í tengslum við Lúxemborgarsamninginn. Er henni ætlað að gefa til kynna að í tilteknum tilvikum muni Ísland og Noregur gagnvart aðildarríkjum ESB ekki beita fyrirvörum sem þau hafa sett við samninga Evrópuráðsins um varnir gegn hryðjuverkum og um framsal sakamanna. Með þessari yfirlýsingu er gefin til kynna sú fyrirætlan íslenskra stjórnvalda að laga afstöðu þessa að fyrirkomulagi því er gildir í aðildaríkjum Schengen- samningsins.
    Yfirlýsing 4 varðar vettvang til umræðu milli þingmanna Evrópuþingsins annars vegar og íslenskra og norskra þingmanna hins vegar. Kom fram í samningaviðræðum að þetta samstarf gæti byggst á því samstarfi sem þegar er fyrir hendi milli aðila.

Um samning í formi bréfaskipta.


    Ef ráðherraráð Evrópusambandsins samþykkir að framselja vald sitt að einhverju leyti til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í því skyni að geta unnið og gefið út reglur til fyllingar á einstökum samningssviðum eða til að hrinda tilteknum gerðum í framkvæmd eru nefndir skipaðar fulltrúum aðildarríkjanna framkvæmdastjórninni til aðstoðar. Í slíkum tilvikum er gert ráð fyrir að samningur verði gerður milli ráðsins annars vegar og Íslands og Noregs hins vegar sem gerir ríkjunum tveimur kleift að taka þátt í störfum nefnda af þessu tagi í samræmi við reglur samningsins.

VI. Samningur um stöðu Bretlands og Írlands.
    Bretland og Írland eru einu aðildarríki Evrópusambandsins sem ekki eru aðilar að Schengen-samstarfinu. Um leið og ákveðið var að fella Schengen-samstarfið undir Evrópusambandið reyndist nauðsynlegt að finna lausn á stöðu ríkjanna tveggja í þessu samhengi. Var það gert í sérstökum bókunum þar sem gert er ráð fyrir að ríkin geti sótt um þátttöku í þeim þáttum er varða Schengen að hluta eða öllu leyti.
    Vegna þessarar stöðu reyndist nauðsynlegt að gera ráð fyrir að gerður yrði sérstakur samningur um réttarstöðu ríkjanna gagnvart Íslandi og Noregi. Í 2. mgr. 6. gr. Schengen- bókunarinnar er gert ráð fyrir að sérstakur samningur verði gerður um þetta atriði og var hann undirritaður 30. júní 1999. Er ekki óskað heimildar Alþingis til fullgildingar á honum þar sem hann kallar ekki á breytingar á íslenskri löggjöf.
    Í samningi þessum er kveðið á um það að að svo miklu leyti sem Bretland og Írland kjósa að taka þátt í Schengen-samstarfinu skuli Brussel-samningurinn gilda í samskiptum þeirra og Íslands og Noregs nema annað sé tekið fram. Er að auki í samningnum kveðið á um að samráð skuli haft við Ísland og Noreg að því er varðar meðferð umsókna Breta og Íra um þátttöku í Schengen-samstarfinu þegar og ef þær verða lagðar fram. Umsókn Breta er nú til meðferðar. Að öðru leyti er fjallað um það í samningnum hvernig gagnkvæm réttindi og gagnkvæmar skyldur stofnist milli samningsaðilanna.

VII.     Brussel-samningurinn með tilliti til stjórnarskrár Íslands.
    Eins og áður er getið fól utanríkisráðherra í kjölfar niðurstöðu ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins sumarið 1997 lagaprófessorunum Davíð Þór Björgvinssyni, Stefáni Má Stefánssyni og Viðari Má Matthíassyni að taka saman álitsgerð um hvort væntanlegt samkomulag við Evrópusambandið um Schengen-samstarfið kynni að brjóta í bága við íslensku stjórnarskrána. Í áliti sínu komust lagaprófessorarnir m.a. að þeirri niðurstöðu að samningurinn sem þá var væntanlegur ætti ekki að brjóta í bága við stjórnarskrána. Þessi niðurstaða þeirra var reist á þeim forsendum að samningurinn við Evrópusambandið byggðist á óbreyttu fyrirkomulagi í samræmi við Lúxemborgarsamninginn. Álitsgerð prófessoranna, dags. 3. desember 1997, er að finna í fylgiskjali IV með tillögu þessari.
    Samninganefnd Íslands naut ráðgjafar þessara sömu prófessora meðan á samningaviðræðunum stóð, eins og áður greinir, og í fylgiskjali V með tillögu þessari er skrifleg umsögn þeirra um endanlega gerð Brussel-samningsins.
    Niðurstaða prófessorana er sú að þátttaka í Schengen-samstarfinu á grundvelli Brussel- samningsins samrýmist stjórnarskrá Íslands.

VIII.     Áhrif Schengen-samstarfsins á stjórnsýslu og kostnaður.
    Framkvæmd Schengen-reglna mun fyrst og fremst hvíla á dómsmálaráðuneytinu, ríkislögreglustjóra, Útlendingaeftirlitinu og einstökum lögreglustjóraembættum. Utanríkisráðuneytið mun þó koma að starfsemi samsettu nefndarinnar í nokkrum mæli, auk þess sem embætti á þess vegum, þ.e. Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli og sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli, munu koma að framkvæmdinni.
    Eins og áður er getið tryggir Schengen-samstarfið íslenskum lögregluyfirvöldum aðgang að einum nánasta samstarfsvettvangi evrópskra lögregluliða. Ríkislögreglustjóri mun m.a. annast þá samvinnu og verður svonefnd SIRENE-skrifstofa rekin af embættinu. Í því felst að annast um hluta Íslands í upplýsingakerfi Schengen (N-SIS). Uppbygging tenginga við N-SIS fellur að mörgu leyti saman við uppbyggingu á tölvukerfum sýslumannsembættanna. Þar sem tölvukerfi lögreglustjóraembætta á Íslandi hafa nýlega verið uppfærð verður ekki um verulegan kostnaðarauka að ræða vegna þess.
    Fyrir lögreglustjóraembættin verður mesta breytingin fólgin í nýjum starfsaðferðum við persónueftirlit. Persónueftirlit leggst niður við komu frá Schengen-ríkjum en fyrirkomulag tollgæslu verður óbreytt. Flugvélar og skip sem koma frá löndum utan Schengen-samstarfsins verða hins vegar að koma fyrst til einhverra hinna opinberu landamærastöðva á auglýstum opnunartíma og sæta þar persónueftirliti eftir samræmdum Schengen-reglum.
    Þetta kallar á að lögreglumenn hljóti fræðslu og þjálfun um Schengen-reglur og að aðstaða, tækjabúnaður og annar aðbúnaður til persónueftirlits verði með fullnægjandi hætti á landamærastöðvunum.
    Um Keflavíkurflugvöll fer langstærstur hluti þeirra einstaklinga sem samkvæmt þessu mun þurfa að sæta persónueftirliti við brottför og komu. Þar háttar svo til að fyrir dyrum stendur stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar til að mæta aukinni umferð farþega um stöðina. Við hönnun þeirrar stækkunar hefur því verið hægt að taka tillit til aðstöðu- og aðbúnaðarþarfar persónueftirlits eftir Schengen-reglum. Ljóst er að einhvern hluta kostnaðar við stækkunina má heimfæra til Schengen-samstarfsins en að sama skapi er ljóst að kostnaður er langtum minni en hjá þeim nágrannaþjóðum okkar sem þurftu að ráðast í kostnaðarsamar breytingar á nýlegum flugstöðvum sem ekki voru hannaðar með framkvæmd Schengen- reglna í huga. Burtséð frá þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu hefði við stækkun flugstöðvarinnar þurft að gera ráð fyrir verulega bættri starfsaðstöðu fyrir persónueftirlit, en persónueftirlit á Keflavíkurflugvelli hefur undanfarin ár liðið fyrir óhentugan aðbúnað.
    Ljóst er að fjölga verður þeim er starfa að persónueftirliti við komu og brottför á Keflavíkurflugvelli. Á það sérstaklega við á álagstímum á morgnana þegar áætlunarflug frá Norður-Ameríku kemur til landsins og síðari hluta dags er flug frá Evrópu kemur til landsins til að tengjast flugi til Norður-Ameríku. Þessa fyrirsjáanlegu fjölgun má að nokkru leyti rekja til framkvæmdar Schengen-reglna en ekki síður að styrkja nauðsynlegt persónueftirlit á tímum þegar smygl á fólki til Íslands, jafnt sem annarra Evrópuríkja, er að verða ábatasamur iðnaður alþjóðlegra glæpasamtaka. Sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli vinnur nú að útfærslu á því hvernig verði staðið að þessu aukna eftirliti og hvar hagræða megi í rekstri til að takmarka sem mest þá viðbót við mannafla sem það kallar á. Sýslumannsembættið vinnur þar á grundvelli þeirra skýru markmiða að persónueftirlit á Keflavíkurflugvelli skuli bæði að gæðum og skilvirkni vera sambærilegt því besta sem þekkist í Evrópu, enda er það nauðsynlegt til að Keflavíkurflugvöllur geti áfram verið í fremstu röð tengiflugvalla í heimi hvað varðar skilvirkni og stuttan tengitíma flugvéla. Það er markmið stjórnvalda að þátttaka í Schengen-samstarfinu hafi ekki áhrif á rekstur flugstöðvarinnar eða tengda starfsemi.

IX. Persónuvernd.
    Hér að framan er gerð grein fyrir þeim efnisákvæðum sem er að finna í Schengen- samningnum um persónuvernd í tengslum við Schengen-upplýsingakerfið. Auk þeirra ákvæða sem samningurinn geymir mun persónuverndin byggjast á nýrri löggjöf um persónuvernd en gert er ráð fyrir að frumvarp þar að lútandi verði lagt fyrir Alþingi innan tíðar. Er markmið þess frumvarps m.a. að uppfylla skuldbindingar Íslands samkvæmt EES- samningnum. Til viðbótar verður lagt fram frumvarp til laga um vernd persónuupplýsinga í lögregluskrám sem enn fremur mun styrkja réttarstöðu einstaklinga í þessu sambandi og byggist á tilmælum Evrópuráðsins R (87) 15 frá 17. september 1987.
    Eins og komið hefur fram er gert ráð fyrir að hver samningsaðili tilnefni eftirlitsaðila sem hafi eftirlit með þeim hluta Schengen-upplýsingakerfisins sem staðsettur er í viðkomandi ríki. Er gert ráð fyrir því að tölvunefnd verði falið þetta hlutverk hér á landi. Heimildir nefndarinnar er víðtækar til eftirlits með kerfinu á grunni 114. gr. samningsins. Geta einstaklingar m.a. snúið sér til nefndarinnar og óskað eftir að athugun fari fram á gögnum er þá varða í kerfinu og notkun á þeim.
    Auk þessa er starfandi sameiginleg eftirlitsnefnd sem ber ábyrgð á eftirliti með miðlæga hluta upplýsingakerfsins. Eiga fulltrúar Íslands sæti í nefndinni. Er það hlutverk nefndarinnar að fylgjast með því að reglum samningsins sé fylgt að því er varðar hinn miðlæga hluta kerfisins.

X. Lagabreytingar.
    Vegna þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu er nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á lögum til að unnt verði að fullnægja þeim skuldbindingum sem því eru samfara. Þetta felur fyrst og fremst í sér að laga verður íslenskan rétt að Schengen-samningnum, en einnig þarf að taka tillit til annarra gerða sem gildi hafa í Schengen-samstarfinu. Fyrirhugað er að flutt verði lagafrumvörp þessa efnis samhliða framlagningu þessarar þingsályktunartillögu og um þessar mundir er unnið að samningu þeirra í dómsmálaráðuneytinu. Hér er gerð nánari grein fyrir þessum frumvörpum og meginefni þeirra samkvæmt þeim drögum sem nú liggja fyrir:
     *      Frumvarp til laga um Schengen-upplýsingakerfið. Í frumvarpinu verður mælt fyrir um starfrækslu upplýsingakerfisins hér á landi og um persónuvernd við skráningu og meðferð upplýsinga í því kerfi. Lagt verður til að ríkislögreglustjóra verði falið að reka og bera ábyrgð á upplýsingakerfinu. Í frumvarpinu verður að finna ítarlegar reglur um hvaða upplýsingar megi skrá í kerfið og í hvaða skyni og sérstaklega verður áréttað að einungis eigi að skrá upplýsingar þegar nægjanlega brýnt tilefni er til þess. Í frumvarpinu verður einnig að finna reglur um hvaða stjórnvöld hafi aðgang að skráðum upplýsingum, um þagnarskyldu þeirra sem starfa við kerfið, um aðgang hins skráða að upplýsingum, um rétt hans til að fá leiðréttar rangar, villandi eða ófullkomnar upplýsingar og um bótaábyrgð ríkissjóðs vegna tjóns sem rakið verður til skráðra upplýsinga. Þá verður í frumvarpinu mælt fyrir um hvenær afmá beri skráðar upplýsingar, en það sætir takmörkunum hve lengi þær geta staðið skráðar. Loks verður í frumvarpinu lagt til að tölvunefnd verði falið að hafa eftirlit með því að skráning í kerfið sé í samræmi við lög og reglur sem um það gilda.
     *      Frumvarp til laga um breyting á lögum um eftirlit með útlendingum, nr. 45/1965. Í frumvarpinu verða lagðar til nauðsynlegar breytingar þannig að framfylgt verði samræmdum reglum á Schengen-svæðinu um landamæraeftirlit, dvalarleyfi og vegabréfsáritanir. Þá verður í frumvarpinu að finna heimild til að miðla upplýsingum til stjórnvalda í öðrum Schengen-ríkjum um útlendinga að því marki sem nauðsynlegt er til að fullnægja þeim reglum sem gilda á Schengen-svæðinu, auk þess sem kveðið verður á um meðferð umsókna um hæli.
     *      Frumvarp til laga um breyting á ýmsum lögum vegna þátttöku Íslands í Schengen- samstarfinu. Í frumvarpinu verða lagðar til nauðsynlegar breytingar á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984, lögum um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma, nr. 56/1993, lögreglulögum, nr. 90/1996, og lögum um vegabréf, nr. 136/1998. Tillögur þessar munu ekki fela í sér viðamiklar breytingar frá gildandi lögum.
    Auk þeirra frumvarpa sem hér hafa verið rakin er nauðsynlegt að endurskoða lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, nr. 121/1989, til að laga íslenskan rétt að tilskipun Evrópusambandsins frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga. Þetta er einnig nauðsynlegt til að Ísland fullnægi skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum svo sem fyrr er rakið. Frumvarp til nýrra laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga verður væntanlega lagt fram á Alþingi innan skamms. Þá er nauðsynlegt að settar verði nánari reglur um vernd persónuupplýsinga í lögregluskrám, en það málefni er nú til athugunar í dómsmálaráðuneytinu.
Fylgiskjal I.SAMNINGUR
SEM RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS
OG LÝÐVELDIÐ ÍSLAND OG KONUNGSRÍKIÐ NOREGUR
GERA MEÐ SÉR UM ÞÁTTTÖKU HINNA SÍÐARNEFNDU Í
FRAMKVÆMD, BEITINGU OG ÞRÓUN SCHENGEN-GERÐANNA


RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS

og

LÝÐVELDIÐ ÍSLAND OG

KONUNGSRÍKIÐ NOREGUR,

ÞAR EÐ frá því að Lúxemborgarsamningurinn á milli hinna þrettán aðildarríkja Evrópusambandsins, sem hafa undirritað Schengen-samningana, og Lýðveldisins Íslands og Konungsríkisins Noregs var undirritaður 19. desember 1996 hafa tvö síðarnefndu ríkin tekið þátt í umræðunum um beitingu, framkvæmd og frekari þróun Schengen-samninganna og ákvæða sem tengjast þeim,

ÞAR EÐ bókunin, sem fellir Schengen-gerðirnar inn í ramma Evrópusambandsins og sett var í viðauka við sáttmálann um Evrópusambandið og stofnsáttmála Evrópubandalagsins með Amsterdam-sáttmálanum sem breytir sáttmálanum um Evrópusambandið, stofnsáttmálum Evrópubandalaganna og tilteknum gerðum sem tengjast þeim (hér á eftir nefnd „Schengen- bókunin“), hefur í för með sér að samstarf á milli aðildarríkja Evrópusambandsins, sem hafa undirritað Schengen-samningana, innan gildissviðs þeirra samninga og ákvæða sem tengjast þeim, mun fara fram innan stofnana- og lagaramma Evrópusambandsins og að virtum viðeigandi ákvæðum sáttmálans um Evrópusambandið og stofnsáttmála Evrópubandalagsins,

MINNAST ÞESS að markmið og tilgangur Lúxemborgarsamningsins er að halda því fyrirkomulagi sem fyrir er milli hinna fimm norrænu ríkja samkvæmt samningi um afnám vegabréfaskoðunar við landamæri milli Norðurlandanna sem var undirritaður í Kaupmannahöfn 12. júlí 1957, þar sem Norræna vegabréfasambandinu var komið á fót, þegar þau norrænu ríki, sem eru aðilar að Evrópusambandinu, taka upp fyrirkomulagið um afnám eftirlits með fólki á innri landamærum sem kveðið er á um í Schengen-samningunum,

HAFA Í HUGA ákvæðin sem mælt er fyrir um í Lúxemborgarsamningnum,

VIÐURKENNA engu að síður að með því að fella Schengen-gerðirnar inn í ramma Evrópusambandsins er ákvarðanataka um frekari þróun ákvæða Schengen-gerðanna færð til Evrópusambandsins og þar með Evrópubandalagsins,

ÞAR EÐ það er vilji Evrópusambandsins, og þar með Evrópubandalagsins, skv. 1. mgr. 6. gr. Schengen-bókunarinnar að virða og þjóna markmiðum og tilgangi Lúxemborgarsamningsins með samningi sem, við gildistöku Amsterdam-sáttmálans, tengir Lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noreg framkvæmd Schengen-gerðanna og frekari þróun þeirra á grundvelli Lúxemborgarsamningsins sem tryggir það sameiginlega markmið að þessi tvö ríki taki áfram þátt í þessu starfi,

ERU SANNFÆRÐ um nauðsyn þess að allir aðilar, sem beita ákvæðum Schengen-gerðanna og geta síðar þurft að hlíta því að ákvæðunum, eins og þau eru á hverjum tíma, verði beitt gagnvart þeim, Lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noregur þar með talin, taki á viðeigandi hátt, á hvaða vettvangi sem er, þátt í umræðum um beitingu þeirra í reynd, framkvæmd þeirra og undirbúning að frekari þróun þeirra,

ÁLÍTA að í því augnamiði sé nauðsynlegt að mynda skipulagseiningu utan stofnanaramma Evrópusambandsins sem tryggi þátttöku Lýðveldisins Íslands og Konungsríkisins Noregs í ferlinu við ákvarðanatöku á þessum sviðum og geri þeim kleift að taka þátt í þessu starfi í samsettri nefnd, og

HAFA ORÐIÐ ÁSÁTT UM EFTIRFARANDI:

1. gr.

    Lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noregur, hér á eftir nefnd „Ísland“ og „Noregur“, skulu taka þátt í starfi Evrópubandalagsins og Evrópusambandsins á þeim sviðum sem ákvæðin, sem um getur í viðaukum A og B við þennan samning, ná yfir, eins og þau eru á hverjum tíma.
    Með þessum samningi skapast gagnkvæm réttindi og skyldur í samræmi við þá málsmeðferð sem hér er ákveðin.

2. gr.

    1. Ísland og Noregur skulu koma í framkvæmd og beita ákvæðum Schengen-gerðanna sem talin eru upp í viðauka A við þennan samning, á sama hátt og þau eiga við um aðildarríki Evrópusambandsins, hér á eftir nefnd „aðildarríkin“, sem taka þátt í hinu nánara samstarfi á grundvelli Schengen-bókunarinnar.
    2. Ísland og Noregur skulu koma í framkvæmd og beita ákvæðum gerða Evrópubandalagsins sem eru talin upp í viðauka B við þennan samning, að því marki sem þau hafa komið í staðinn fyrir samsvarandi ákvæði samningsins, sem undirritaður var í Schengen 19. júní 1990, um framkvæmd samkomulagsins um afnám í áföngum á eftirliti á sameiginlegum landamærum, eða ákvæði sem samþykkt eru samkvæmt honum.
    3. Ísland og Noregur skulu enn fremur samþykkja, koma í framkvæmd og beita gerðum og ráðstöfunum Evrópusambandsins sem breyta eða bætast við þau ákvæði sem um getur í viðaukum A og B og falla undir málsmeðferðina sem kveðið er á um í þessum samningi, sbr. þó 8. gr.

3. gr.

    1. Hér með er komið á fót samsettri nefnd sem skipuð er fulltrúum ríkisstjórna Íslands og Noregs, og þeim sem sæti eiga í ráði Evrópusambandsins, hér á eftir nefnt „ráðið“, og í framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna, hér á eftir nefnd „framkvæmdastjórnin“.
    2. Samsetta nefndin skal samþykkja samhljóða reglur um málsmeðferð.
    3. Samsetta nefndin skal halda fundi að frumkvæði forseta hennar eða að ósk einhvers nefndarmanna.
    4. Með fyrirvara um 2. mgr. 4. gr. skal samsetta nefndin koma saman á vettvangi ráðherra, háttsettra embættismanna eða sérfræðinga, eftir því sem aðstæður krefjast.
    5. Embætti forseta samsettu nefndarinnar skal skipa:
          á vettvangi sérfræðinga: fulltrúi Evrópusambandsins;
          á vettvangi háttsettra embættismanna og ráðherra: til skiptis, til sex mánaða í senn, fulltrúi Evrópusambandsins og fulltrúi ríkisstjórnar Íslands eða Noregs.

4. gr.

    1. Samsetta nefndin skal, í samræmi við þennan samning, fjalla um öll málefni sem falla undir 2. gr. og tryggja að hvert það atriði, sem Ísland og Noregur láta sig varða, fái tilhlýðilega umfjöllun.
    2. Á vettvangi ráðherra í samsettu nefndinni skulu fulltrúar Íslands og Noregs eiga þess kost:
          að útskýra vandamál sem fyrir þeim verða að því er varðar tiltekna gerð eða ráðstöfun eða taka afstöðu til vandamála sem aðrar sendinefndir standa frammi fyrir;
          að skýra frá sjónarmiðum sínum í sérhverju álitamáli er viðvíkur þróun eða framkvæmd ákvæða sem þá varða.
    3. Samsetta nefndin á vettvangi háttsettra embættismanna skal undirbúa fundi nefndarinnar á vettvangi ráðherra.
    4. Fulltrúar ríkisstjórna Íslands og Noregs skulu hafa rétt til að setja fram hugmyndir í samsettu nefndinni varðandi málefnin sem um getur í 1. gr. Að loknum umræðum er framkvæmdastjórninni eða sérhverju aðildarríki heimilt að taka þessar hugmyndir til umfjöllunar í því augnamiði að leggja fram tillögu um eða eiga frumkvæði að, í samræmi við reglur Evrópusambandsins, samþykkt gerðar eða ráðstöfunar Evrópubandalagsins eða Evrópusambandsins.

5. gr.

    Með fyrirvara um 4. gr. skal tilkynna samsettu nefndinni um allar gerðir eða ráðstafanir sem eru í undirbúningi í ráðinu og kunna að varða þennan samning.

6. gr.

    Þegar gerð eru drög að nýrri löggjöf á sviði sem fellur undir þennan samning skal framkvæmdastjórnin leita ráða með óformlegum hætti hjá sérfræðingum Íslands og Noregs á sama hátt og hún leitar ráða hjá sérfræðingum aðildarríkjanna við gerð tillagna sinna.

7. gr.

    Samningsaðilar eru sammála um að gera þurfi viðeigandi samkomulag um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í einhverju af aðildarríkjunum eða á Íslandi eða í Noregi. Þetta samkomulag þarf að vera frágengið þegar ákvæðin, sem um getur í viðauka A og viðauka B, svo og ákvæði sem þegar hafa verið samþykkt skv. 3. mgr. 2. gr., koma til framkvæmda gagnvart Íslandi og Noregi í samræmi við 4. mgr. 15. gr.

8. gr.

    1. Samþykkt nýrra gerða eða ráðstafana, sem tengjast þeim málefnum sem um getur í 2. gr., skal alfarið vera í höndum þar til bærra stofnana Evrópusambandsins. Með fyrirvara um 2. mgr. skulu þessar gerðir eða ráðstafanir öðlast gildi samtímis að því er Evrópusambandið og hlutaðeigandi aðildarríki þess varðar og að því er Ísland og Noreg varðar, nema skýrt sé kveðið á um annað í þessum gerðum eða ráðstöfunum. Taka skal, að því er þetta varðar, tilhlýðilegt tillit til þess tíma sem Ísland og Noregur greina samsettu nefndinni frá að þau þurfi til að uppfylla stjórnskipuleg skilyrði sín.
    2.
     a)      Ráðið skal tilkynna Íslandi og Noregi án tafar um samþykkt gerða eða ráðstafana sem um getur í 1. mgr. og farið hefur verið með samkvæmt þeim málsmeðferðarreglum sem settar eru í þessum samningi. Ísland og Noregur skulu, hvort í sínu lagi, ákveða hvort þau samþykkja efni þeirra og taka þær upp í landsrétt sinn. Þessar ákvarðanir skulu tilkynntar ráðinu og framkvæmdastjórninni innan þrjátíu daga frá samþykkt viðkomandi gerða eða ráðstafana.
     b)      Ef efni slíkrar gerðar eða ráðstöfunar getur ekki orðið bindandi fyrir Ísland fyrr en stjórnskipuleg skilyrði hafa verið uppfyllt skal Ísland gera ráðinu og framkvæmdastjórninni grein fyrir því þegar Ísland sendir tilkynningu sína. Þegar öll stjórnskipuleg skilyrði hafa verið uppfyllt skal Ísland þegar í stað gera ráðinu og framkvæmdastjórninni skriflega grein fyrir því og upplýsa þetta eigi síðar en fjórum vikum fyrir daginn sem mælt er fyrir um að gerðin eða ráðstöfunin öðlist gildi að því er Ísland varðar, eins og ákveðið hefur verið skv. 1. mgr.
     c)      Ef efni slíkrar gerðar eða ráðstöfunar getur ekki orðið bindandi fyrir Noreg fyrr en stjórnskipuleg skilyrði hafa verið uppfyllt skal Noregur gera ráðinu og framkvæmdastjórninni grein fyrir því þegar Noregur sendir tilkynningu sína. Þegar öll stjórnskipuleg skilyrði hafa verið uppfyllt skal Noregur þegar í stað gera ráðinu og framkvæmdastjórninni skriflega grein fyrir því og eigi síðar en sex mánuðum frá því að tilkynning ráðsins berst. Frá þeim degi sem mælt er fyrir um að gerðin eða ráðstöfunin öðlist gildi að því er Noreg varðar og þar til upplýst hefur verið að stjórnskipuleg skilyrði hafi verið uppfyllt skal Noregur, eftir því sem unnt er, beita efni gerðarinnar eða ráðstöfunarinnar til bráðabirgða.
    3. Samþykki Íslands og Noregs á efni gerða og ráðstafana, sem um getur í 2. mgr., skapar réttindi og skyldur milli Íslands og Noregs svo og milli Íslands og Noregs annars vegar og Evrópubandalagsins og þeirra aðildarríkja þess, sem eru bundin af viðkomandi gerðum og ráðstöfunum, hins vegar.
    4. Í þeim tilvikum þegar
     a)      annaðhvort Ísland eða Noregur tilkynnir þá ákvörðun sína að samþykkja ekki efni gerðar eða ráðstöfunar sem um getur í 2. mgr. og farið hefur verið með samkvæmt þeim málsmeðferðarreglum sem settar eru í þessum samningi; eða
     b)      annaðhvort Ísland eða Noregur sendir ekki tilkynningu innan þeirra þrjátíu daga tímamarka sem sett eru í a-lið 2. mgr.; eða
     c)      Ísland sendir ekki tilkynningu fyrir fjögurra vikna tímamörkin sem sett eru í b-lið 2. mgr. fyrir þann dag sem mælt er fyrir um að viðkomandi gerð eða ráðstöfun öðlist gildi að því er Ísland varðar; eða
     d)      Noregur sendir ekki tilkynningu innan þeirra sex mánaða tímamarka sem sett eru í c-lið 2. mgr. eða gerir ekki ráðstafanir til beitingar til bráðabirgða, eins og gert er ráð fyrir í sama lið, frá þeim degi að telja sem mælt er fyrir um að viðkomandi gerð eða ráðstöfun öðlist gildi að því er Noreg varðar;
telst samningi þessum slitið að því er varðar Ísland eða Noreg, eftir því sem við á, nema samsetta nefndin, að lokinni ítarlegri könnun á leiðum til að halda samningnum áfram, ákveði annað innan níutíu daga. Slit þessa samnings öðlast gildi þremur mánuðum eftir að níutíu daga tímabilinu lýkur.

9. gr.

    1. Til að ná því markmiði samningsaðila að ná eins samræmdri beitingu og túlkun og unnt er á ákvæðunum sem um getur í 2. gr. skal samsetta nefndin fylgjast stöðugt með dómaframkvæmd dómstóls Evrópubandalaganna, hér á eftir nefndur „dómstóllinn“, og einnig dómaframkvæmd þar til bærra dómstóla Íslands og Noregs varðandi slík ákvæði. Í þessu augnamiði skal koma á sérstöku fyrirkomulagi til að tryggja reglubundna og gagnkvæma miðlun þessarar dómaframkvæmdar.
    2. Með fyrirvara um samþykkt nauðsynlegra breytinga á samþykktum dómstólsins skulu Ísland og Noregur eiga rétt á að leggja greinargerð eða skriflegar athugasemdir fyrir dómstólinn í málum sem dómstóll aðildarríkis hefur vísað til hans til að fá forúrskurð um túlkun ákvæðis sem um getur í 2. gr.

10. gr.

    1. Ísland og Noregur skulu árlega gefa samsettu nefndinni skýrslu þar sem fram kemur hvernig stjórnvöld þeirra og dómstólar hafa beitt og túlkað ákvæðin sem um getur í 2.  gr. og, ef við á, eins og dómstóllinn hefur túlkað þau.
    2. Ef samsetta nefndin hefur ekki getað tryggt samræmda beitingu og túlkun innan tveggja mánaða frá því að athygli hennar er vakin á verulegum mun á dómaframkvæmd dómstólsins og dómstóla Íslands eða Noregs eða verulegum mun á beitingu yfirvalda viðkomandi aðildarríkja annars vegar og Íslands eða Noregs hins vegar, að því er varðar ákvæðin sem um getur í 2. gr., skal málsmeðferð skv. 11. gr. koma til framkvæmda.

11. gr.

    1. Rísi ágreiningur um beitingu þessa samnings, eða komi þær aðstæður upp sem kveðið er á um í 2. mgr. 10. gr., skal setja málið opinberlega á dagskrá fundar samsettu nefndarinnar á vettvangi ráðherra sem ágreiningsmál.
    2. Samsetta nefndin skal hafa níutíu daga til að leysa ágreininginn frá þeim degi að telja sem dagskráin, sem ágreiningsmálið hefur verið sett á, er samþykkt.
    3. Geti samsetta nefndin ekki leyst ágreininginn á því níutíu daga tímabili sem gert er ráð fyrir í 2. mgr. skal bætt við þrjátíu dögum til að finna endanlega lausn.
    Fáist engin endanleg lausn telst samningnum slitið að því er varðar Ísland eða Noreg, eftir því hvort ríkið ágreiningurinn varðar. Samningsslitin öðlast gildi sex mánuðum eftir að þrjátíu daga fresturinn rennur út.

12. gr.

    1. Ísland og Noregur skulu á hverju ári leggja til fjárlaga Evrópubandalaganna vegna rekstrarkostnaðar við beitingu þessa samnings fjárhæð sem nemur:
          0,1% fyrir Ísland
          4,995% fyrir Noreg
af 300 000 000 BEF (eða samsvarandi fjárhæð í evrum) með fyrirvara um árlega aðlögun með tilliti til verðbólgu í Evrópusambandinu.
    Ef til þess er ætlast að hlutaðeigandi aðildarríki greiði rekstrarkostnað við beitingu samningsins beint, en leggi ekki til fjárlaga Evrópubandalaganna vegna hans, skal hlutur Íslands og Noregs í kostnaðinum vera í samræmi við hundraðshluta vergrar þjóðarframleiðslu þessara landa af vergri þjóðarframleiðslu allra þátttökuríkjanna.
    Ef rekstrarkostnaður er greiddur með framlagi til fjárlaga Evrópubandalagsins skal hlutur Íslands og Noregs í honum greiðast með árlegum framlögum inn á téð fjárlög í samræmi við hundraðshluta vergrar þjóðarframleiðslu þessara landa af vergri þjóðarframleiðslu allra þátttökuríkjanna.
    2.     Ísland og Noregur skulu eiga rétt á að fá afhent skjöl sem framkvæmdastjórnin eða ráðið láta gera í tengslum við þennan samning og fá túlkun á fundum samsettu nefndarinnar á opinbert tungumál stofnana Evrópubandalaganna að eigin vali. Ísland eða Noregur skal þó bera kostnað við þýðingu og túlkun úr og á íslensku eða norsku, eftir því sem við á.

13. gr.

    1. Samningur þessi skal engin áhrif hafa á samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eða aðra samninga sem Evrópubandalagið og Ísland og/eða Noregur hafa gert með sér.
    2. Samningur þessi skal engin áhrif hafa á samninga sem gerðir verða milli Íslands og/eða Noregs og Evrópubandalagsins eða á grundvelli 24. og 38. greinar sáttmálans um Evrópusambandið.
    3. Samningur þessi skal engin áhrif hafa á samstarfið innan ramma Norræna vegabréfasambandsins, að því marki sem samstarfið er ekki andstætt eða til fyrirstöðu þessum samningi og þeim gerðum og ráðstöfunum sem byggjast á honum.

14. gr.

    Samningur þessi tekur ekki til Svalbarða (Spitzbergen).

15. gr.

    1. Samningur þessi öðlast gildi þegar liðinn er einn mánuður frá þeim degi er vörsluaðili hans, sem er framkvæmdastjóri ráðsins, hefur sannreynt að samningsaðilar fullnægja öllum formlegum skilyrðum fyrir því að þeir lýsi sig, sjálfir eða aðrir fyrir þeirra hönd, samþykka því að vera bundnir af honum.
    2. Ákvæðum 1., 3., 4. og 5. gr. og fyrsta málsliðar a-liðar 2. mgr. 8. gr. skal beitt til bráðabirgða frá undirritun þessa samnings.
    3. Að því er varðar gerðir eða ráðstafanir sem eru samþykktar eftir undirritun þessa samnings en fyrir gildistöku hans skal þrjátíu daga tímabilið, sem um getur í síðasta málslið a-liðar 2. mgr. 8. gr., hefjast á þeim degi sem þessi samningur öðlast gildi.
    4. Ákvæðin, sem um getur í viðauka A og viðauka B, og ákvæði sem þegar hafa verið samþykkt skv. 3. mgr. 2. gr., skulu koma til framkvæmda gagnvart Íslandi og Noregi á þeim degi sem ráðið ákveður með samhljóða samþykki fulltrúa þeirra aðildarríkja sem taka þátt í hinu nánara samstarfi á grundvelli Schengen-bókunarinnar, að höfðu samráði við samsettu nefndina í samræmi við 4. gr. þessa samnings og þegar það hefur gengið úr skugga um að Ísland og Noregur hafi fullnægt skilyrðum fyrir framkvæmd viðkomandi ákvæða og að eftirlit á ytri landamærum þeirra sé skilvirkt.
    5. Við það að ákvæðin, sem um getur í 4. mgr., koma til framkvæmda skapast réttindi og skyldur milli Íslands og Noregs svo og milli Íslands og Noregs annars vegar og Evrópubandalagsins og þeirra aðildarríkja þess, þar sem þessi ákvæði eru einnig komin til framkvæmda, hins vegar.

16. gr.

    Ísland eða Noregur geta sagt samningi þessum upp og unnt er að segja honum upp með ákvörðun ráðsins með samhljóða samþykki fulltrúa þeirra aðildarríkja sem taka þátt í hinu nánara samstarfi á grundvelli Schengen-bókunarinnar. Tilkynna ber um uppsögnina til vörsluaðila. Hún öðlast gildi þegar liðnir eru sex mánuðir frá því að tilkynningin berst.

17. gr.

    Segi Ísland eða Noregur þessum samningi upp eða verði honum slitið gagnvart Íslandi eða Noregi skulu þeir samningsaðilar, sem eru áfram bundnir af honum, og viðkomandi ríki, sem hefur sagt samningnum upp eða samningsslitin eiga við um, semja um lyktir málsins. Reynist ekki unnt að ná samkomulagi skal ráðið taka ákvörðun, að höfðu samráði við þann þátttökuaðila að samningnum sem áfram er bundinn af samningnum, um nauðsynlegar ráðstafanir. Samningsaðilinn er þó einungis bundinn af slíkum ráðstöfunum hafi hann samþykkt þær.

18. gr.

    Samningur þessi kemur í stað samstarfssamningsins milli Konungsríkisins Belgíu, Lýðveldisins Frakklands, Sambandslýðveldisins Þýskalands, Stórhertogadæmisins Lúxemborgar, Konungsríkisins Hollands, Lýðveldisins Ítalíu, Konungsríkisins Spánar, Lýðveldisins Portúgals, Lýðveldisins Grikklands, Lýðveldisins Austurríkis, Konungsríkisins Danmerkur, Lýðveldisins Finnlands og Konungsríkisins Svíþjóðar, sem eru aðilar að Schengen-samkomulaginu og Schengen-samningnum, og Lýðveldisins Íslands og Konungsríkisins Noregs um afnám eftirlits með fólki á sameiginlegum landamærum sem var undirritaður í Lúxemborg 19. desember 1996.

    Gjört í Brussel 18. maí 1999 í einu frumriti á dönsku, ensku, finnsku, frönsku, grísku, hollensku, írsku, ítölsku, portúgölsku, spænsku, sænsku, þýsku, íslensku og norsku og eru allir textarnir jafngildir en frumritið verður afhent til vörslu í skjalasafni aðalskrifstofu Evrópusambandsins.

    Fyrir hönd ráðs Evrópusambandsins

    Fyrir hönd Lýðveldisins Íslands

    Fyrir hönd Konungsríkisins Noregs

VIÐAUKI A

(1. mgr. 2. gr.)

    Fyrsti hluti þessa viðauka vísar til Schengen-samkomulagsins frá 1985 og Schengen- samningsins frá 1990 um framkvæmd Schengen-samkomulagsins. 2. hluti vísar til aðildarskjalanna og 3. hluti til viðeigandi afleiddra Schengen-gerða.

1. hluti
    Ákvæði samkomulagsins, sem var undirritað í Schengen 14. júní 1985, á milli ríkisstjórna aðildarríkja Benelúx-efnahagssambandsins, Sambandslýðveldisins Þýskalands og Lýðveldisins Frakklands um afnám í áföngum á eftirliti á sameiginlegum landamærum þeirra.
    Öll ákvæði samningsins, sem var undirritaður í Schengen 19. júní 1990, á milli Konungsríkisins Belgíu, Sambandslýðveldisins Þýskalands, Lýðveldisins Frakklands, Stórhertogadæmisins Lúxemborgar og Konungsríkisins Hollands, um framkvæmd Schengen- samkomulagsins frá 14. júní 1985 með eftirfarandi undantekningum:
    4. mgr. 2. gr.,
    4. gr., að því er tekur til eftirlits með farangri,
    2. mgr. 10. gr.,
    2. mgr. 19. gr.,
    28. til 38. gr. og skilgreiningar sem tengjast þeim,
    60. gr.,
    70. gr.,
    74. gr.,
    77. til 91. gr., að því marki sem þær falla undir tilskipun ráðsins 91/477/EBE um eftirlit með skotvopnakaupum og skotvopnaeign,
    120. til 125. gr.,
    131. til 133. gr.,
    134. gr.,
    139. til 142. gr.,
    lokagerð: 2. yfirlýsing,
    lokagerð: 4., 5. og 6. yfirlýsing,
    bókun,
    sameiginleg yfirlýsing,
    yfirlýsing ráðherra og aðstoðarráðherra.

2. hluti
    Ákvæði samninga og bókana um aðild Lýðveldisins Ítalíu (undirrituð í París 27. nóvember 1990), Konungsríkisins Spánar og Lýðveldisins Portúgals (undirrituð í Bonn 25. júní 1991), Lýðveldisins Grikklands (undirrituð í Madríd 6. nóvember 1992), Lýðveldisins Austurríkis (undirrituð í Brussel 28. apríl 1995) og Konungsríkisins Danmerkur, Lýðveldisins Finnlands og Konungsríkisins Svíþjóðar (undirrituð í Lúxemborg 19. desember 1996) að Schengen- samkomulaginu og Schengen-samningnum með eftirfarandi undantekningum:
     1.      Bókunin, sem var undirrituð í París 27. nóvember 1990, um aðild ríkisstjórnar Lýðveldisins Ítalíu að samkomulaginu milli ríkisstjórna aðildarríkja Benelúx- efnahagssambandsins, Sambandslýðveldisins Þýskalands og Lýðveldisins Frakklands um afnám í áföngum á eftirliti á sameiginlegum landamærum þeirra sem var undirritað í Schengen 14. júní 1985.
     2.      Eftirfarandi ákvæði samningsins, sem var undirritaður í París 27. nóvember 1990, um aðild Lýðveldisins Ítalíu að samningnum, sem var undirritaður í Schengen 19. júní 1990, um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 14. júní 1985 milli ríkisstjórna aðildarríkja Benelúx-efnahagssambandsins, Sambandslýðveldisins Þýskalands og Lýðveldisins Frakklands, lokagerð hans og tengdar yfirlýsingar: 1. gr., 5. og 6. gr., I. hluti lokagerðar, 2. og 3. yfirlýsing í II. hluta, yfirlýsing ráðherra og aðstoðarráðherra.
     3.      Bókunin, sem var undirrituð í Bonn 25. júní 1991, um aðild ríkisstjórnar Konungsríkisins Spánar að samkomulaginu, sem var undirritað í Schengen 14. júní 1985, milli ríkisstjórna aðildarríkja Benelúx-efnahagssambandsins, Sambandslýðveldisins Þýskalands og Lýðveldisins Frakklands um afnám í áföngum á eftirliti á sameiginlegum landamærum þeirra, eins og því var breytt með bókuninni um aðild ríkisstjórnar Lýðveldisins Ítalíu sem var undirrituð í París 27. nóvember 1990, og meðfylgjandi yfirlýsingar.
     4.      Eftirfarandi ákvæði samningsins, sem var undirritaður í Bonn 25. júní 1991, um aðild Konungsríkisins Spánar að samningnum, sem var undirritaður í Schengen 19. júní 1990, um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 14. júní 1985 milli ríkisstjórna aðildarríkja Benelúx-efnahagssambandsins, Sambandslýðveldisins Þýskalands og Lýðveldisins Frakklands, sem Lýðveldið Ítalía hefur gerst aðili að með samningnum sem var undirritaður í París 27. nóvember 1990, lokagerð hans og tengdar yfirlýsingar: 1. gr., 5. og 6. gr., I. hluti lokagerðar, 2. og 3. yfirlýsing í II. hluta, 3. og 4. yfirlýsing í III. hluta, yfirlýsing ráðherra og aðstoðarráðherra.
     5.      Bókunin, sem var undirrituð í Bonn 25. júní 1991, um aðild ríkisstjórnar Lýðveldisins Portúgals að samkomulaginu, sem var undirritað í Schengen 14. júní 1985, milli ríkisstjórna aðildarríkja Benelúx-efnahagssambandsins, Sambandslýðveldisins Þýskalands og Lýðveldisins Frakklands um afnám í áföngum á eftirliti á sameiginlegum landamærum þeirra, eins og því var breytt með bókuninni um aðild ríkisstjórnar Lýðveldisins Ítalíu sem var undirrituð í París 27. nóvember 1990, og meðfylgjandi yfirlýsingar.
     6.      Eftirfarandi ákvæði samningsins, sem var undirritaður í Bonn 25. júní 1991, um aðild Lýðveldisins Portúgals að samningnum, sem var undirritaður í Schengen 19. júní 1990, um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 14. júní 1985 milli ríkisstjórna aðildarríkja Benelúx-efnahagssambandsins, Sambandslýðveldisins Þýskalands og Lýðveldisins Frakklands, sem Lýðveldið Ítalía hefur gerst aðili að með samningnum sem var undirritaður í París 27. nóvember 1990, lokagerð hans og tengdar yfirlýsingar: 1. gr., 7. og 8. gr., I. hluti lokagerðar, 2. og 3. yfirlýsing í II. hluta, 2., 3., 4. og 5. yfirlýsing í III. hluta, yfirlýsing ráðherra og aðstoðarráðherra.
     7.      Bókunin, sem var undirrituð í Madríd 6. nóvember 1992, um aðild ríkisstjórnar Lýðveldisins Grikklands að samkomulaginu, sem var undirritað í Schengen 14. júní 1985, milli ríkisstjórna aðildarríkja Benelúx-efnahagssambandsins, Sambandslýðveldisins Þýskalands og Lýðveldisins Frakklands um afnám í áföngum á eftirliti á sameiginlegum landamærum þeirra, eins og því var breytt með bókuninni um aðild ríkisstjórnar Lýðveldisins Ítalíu sem var undirrituð í París 27. nóvember 1990, og bókununum um aðild ríkisstjórna Konungsríkisins Spánar og Lýðveldisins Portúgals sem voru undirritaðar í Bonn 25. júní 1991, og meðfylgjandi yfirlýsing.
     8.      Eftirfarandi ákvæði samningsins, sem var undirritaður í Madríd 6. nóvem ber 1992, um aðild Lýðveldisins Grikklands að samningnum, sem var undirritaður í Schengen 19. júní 1990, um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 14. júní 1985 milli ríkisstjórna aðildarríkja Benelúx-efnahagssambandsins, Sambandslýðveldisins Þýskalands og Lýðveldisins Frakklands, sem Lýðveldið Ítalía hefur gerst aðili að með samningnum sem var undirritaður í París 27. nóvember 1990, og einnig Konungsríkið Spánn og Lýðveldið Portúgal með samningunum sem voru undirritaðir í Bonn 25. júní 1991, lokagerð hans og tengdar yfirlýsingar: 1. gr., 6. og 7. gr., I. hluti lokagerðar, 2., 3. og 4. yfirlýsing í II. hluta, 1. og 3. yfirlýsing í III. hluta, yfirlýsing ráðherra og aðstoðarráðherra.
     9.      Bókunin, sem var undirrituð í Brussel 28. apríl 1995, um aðild ríkisstjórnar Lýðveldisins Austurríkis að samkomulaginu, sem var undirritað í Schengen 14. júní 1985, milli ríkisstjórna aðildarríkja Benelúx-efnahagssambandsins, Sambandslýðveldisins Þýskalands og Lýðveldisins Frakklands um afnám í áföngum á eftirliti á sameiginlegum landamærum þeirra, eins og því var breytt með bókununum um aðild ríkisstjórnar Lýðveldisins Ítalíu, Konungsríkisins Spánar og Lýðveldisins Portúgals, og Lýðveldisins Grikklands sem voru undirritaðar 27. nóvember 1990, 25. júní 1991 og 6. nóvember 1992.
     10.      Eftirfarandi ákvæði samningsins, sem var undirritaður í Brussel 28. apríl 1995, um aðild Lýðveldisins Austurríkis að samningnum, sem var undirritaður í Schengen 19. júní 1990, um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 14. júní 1985 milli ríkisstjórna aðildarríkja Benelúx-efnahagssambandsins, Sambandslýðveldisins Þýskalands og Lýðveldisins Frakklands og Lýðveldið Ítalía, Konungsríkið Spánn og Lýðveldið Portúgal, og Lýðveldið Grikkland hafa gerst aðilar að með samningunum sem voru undirritaðir 27. nóvember 1990, 25. júní 1991 og 6. nóvember 1992, og lokagerð hans: 1. gr., 5. og 6. gr., I. hluti lokagerðar, 2. yfirlýsing í II. hluta, III. hluti.
     11.      Bókunin, sem var undirrituð í Lúxemborg 19. desember 1996, um aðild ríkisstjórnar Konungsríkisins Danmerkur að samkomulaginu, sem var undirritað í Schengen 14. júní 1985, um afnám í áföngum á eftirliti á sameiginlegum landamærum þeirra, og tengdar yfirlýsingar.
     12.      Eftirfarandi ákvæði samningsins, sem var undirritaður í Lúxemborg 19. desember 1996, um aðild Konungsríkisins Danmerkur að samningnum, sem var undirritaður í Schengen 19. júní 1990, um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 14. júní 1985 um afnám í áföngum á eftirliti á sameiginlegum landamærum þeirra, lokagerð hans og tengdar yfirlýsingar: 1. gr., 7. og 8. gr., I. hluti lokagerðar, 2. yfirlýsing í II. hluta, III. hluti, yfirlýsing ráðherra og aðstoðarráðherra.
     13.      Bókunin, sem var undirrituð í Lúxemborg 19. desember 1996, um aðild ríkisstjórnar Lýðveldisins Finnlands að samkomulaginu, sem var undirritað í Schengen 14. júní 1985, um afnám í áföngum á eftirliti á sameiginlegum landamærum þeirra, og tengdar yfirlýsingar.
     14.      Eftirfarandi ákvæði samningsins, sem var undirritaður í Lúxemborg 19. desember 1996, um aðild Lýðveldisins Finnlands að samningnum, sem var undirritaður í Schengen 19. júní 1990, um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 14. júní 1985 um afnám í áföngum á eftirliti á sameiginlegum landamærum þeirra, lokagerð hans og tengd yfirlýsing: 1. gr., 6. og 7. gr., I. hluti lokagerðar, 2. yfirlýsing í II. hluta, III. hluti, að undanskilinni yfirlýsingunni um Álandseyjar, yfirlýsing ráðherra og aðstoðarráðherra.
     15.      Bókunin, sem var undirrituð í Lúxemborg 19. desember 1996, um aðild ríkisstjórnar Konungsríkisins Svíþjóðar að samkomulaginu, sem var undirritað í Schengen 14. júní 1985, um afnám í áföngum á eftirliti á sameiginlegum landamærum þeirra, og tengd yfirlýsing.
     16.      Eftirfarandi ákvæði samningsins, sem var undirritaður í Lúxemborg 19. desember 1996, um aðild Konungsríkisins Svíþjóðar að samningnum, sem var undirritaður í Schengen 19. júní 1990, um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 14. júní 1985 um afnám í áföngum á eftirliti á sameiginlegum landamærum þeirra, lokagerð hans og tengd yfirlýsing: 1. gr., 6. og 7. gr., I. hluti lokagerðar, 2. yfirlýsing í II. hluta, III. hluti, yfirlýsing ráðherra og aðstoðarráðherra.

3. hluti

A. EFTIRFARANDI ÁKVARÐANIR FRAMKVÆMDANEFNDARINNAR:

Ákvörðun Efni
SCH/Com-ex (93) 10
14. 12. 1993
Staðfesting á yfirlýsingum ráðherranna og aðstoðarráðherranna frá 19. júní 1992 og 30. júní 1993 um að samningurinn komi til framkvæmda
SCH/Com-ex (93) 14
14. 12. 1993
Bætt samvinna í framkvæmd á milli dómsmálayfirvalda í baráttunni gegn ólöglegum fíkniefnaviðskiptum
SCH/Com-ex (93) 16
14. 12. 1993
Fjárhagsreglugerð um kostnað við uppsetningu og rekstur miðlæga Schengen-upplýsingakerfisins (C.SIS)
SCH/Com-ex (93) 21
14. 12. 1993
Framlenging samræmdrar vegabréfsáritunar
SCH/Com-ex (93) 22, endursk.
14. 12. 1993
Tiltekin skjöl eru trúnaðarmál
SCH/Com-ex (93) 24
14. 12. 1993
Sameiginleg málsmeðferð við ógildingu, afturköllun eða styttingu á gildistíma samræmdrar vegabréfsáritunar
SCH/Com-ex (94) 1, 2. endursk.
26. 4. 1994
Aðlögunarráðstafanir sem miða að því að afnema tálma og takmarkanir á umferð um landamærastöðvar á vegum við innri landamæri
SCH/Com-ex (94) 2
26. 4. 1994
Útgáfa samræmdra vegabréfsáritana á landamærunum
SCH/Com-ex (94) 15, endursk.
21. 11. 1994
Samráð með tölvusamskiptum við miðlægu yfirvöldin, sem um getur í 2. mgr. 17. gr. framkvæmdarsamningsins, tekið upp
SCH/Com-ex (94) 16, endursk.
21. 11. 1994
Öflun sameiginlegra komu- og brottfararstimpla
SCH/Com-ex (94) 17, 4. endursk.
22. 12. 1994
Upptaka og framkvæmd Schengen-kerfisins í flughöfnum og á flugvöllum
SCH/Com-ex (94) 25
22. 12. 1994
Skipst á tölulegum upplýsingum um útgáfu vegabréfsáritana
SCH/Com-ex (94) 28, endursk.
22. 12. 1994
Vottorð, sem um getur í 75. gr., um að handhafi megi hafa með sér lyf og/eða geðvirk efni
SCH/Com-ex (94) 29, 2. endursk.
22. 12. 1994
Samningurinn um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 19. júní 1990 kemur til framkvæmda
SCH/Com-ex (95) PV 1, endursk.
(8. liður)
Sameiginleg stefna í málum er varða vegabréfsáritanir
SCH/Com-ex (95) 20, 2. endursk.
20. 12. 1995
Samþykkt skjals SCH/I (95) 40, 6. endurskoðun, um málsmeðferð við beitingu 2. mgr. 2. gr. samningsins um framkvæmd Schengen- samkomulagsins
SCH/Com-ex (95) 21
20. 12. 1995
Schengen-ríkin skiptast á sem skjótastan hátt á tölulegum og efnislegum upplýsingum sem benda til misbrests á starfinu á ytri landamærunum
SCH/Com-ex (96) 13, endursk.
27. 6. 1996
Meginreglur um útgáfu Schengen-vegabréfsáritana í samræmi við a-lið 1. mgr. 30. gr. samningsins um framkvæmd Schengen- samkomulagsins
SCH/Com-ex (96) 27
19. 12. 1996
Útgáfa vegabréfsáritana á landamærum til sjómanna við gegnumferð
SCH/Com-ex (97) 2, 2. endursk.
25. 4. 1997
Tilhögun útboðs á forkönnun vegna Schengen-upplýsingakerfisins (SIS) II
SCH/Com-ex (97) 6, 2. endursk.
24. 6. 1997
Schengen-handbókin um lögreglusamvinnu í málefnum er varða allsherjarreglu og almannaöryggi
SCH/Com-ex (97) 18
7. 10. 1997
Framlög Noregs og Íslands vegna rekstrarkostnaðar miðlæga Schengen-upplýsinga-kerfisins (C.SIS)
SCH/Com-ex (97) 24
7. 10. 1997
Framtíð Schengen-upplýsingakerfisins (SIS)
SCH/Com-ex (97) 29, 2. endursk.
7. 10. 1997
Samningurinn um framkvæmd Schengen-samkomulagsins kemur til framkvæmda í Grikklandi
SCH/Com-ex (97) 32
15. 12. 1997
Samræming stefnu í málum er varða vegabréfsáritanir
SCH/Com-ex (97) 34, endursk.
15. 12. 1997
Framkvæmd sameiginlegrar aðgerðar um samræmt eyðublað fyrir dvalarleyfi
SCH/Com-ex (97) 35
15. 12. 1997
Breyting á fjárhagsreglugerðum um miðlæga Schengen- upplýsingakerfið (C.SIS)
SCH/Com-ex (97) 39, endursk.
15. 12. 1997
Leiðbeinandi meginreglur um sönnunargögn og vísbendingar innan ramma samninga á milli Schengen-ríkjanna um endurviðtöku
SCH/Com-ex (98) 1, 2. endursk.
21. 4. 1998
Skýrsla um störf átakshópsins
SCH/Com-ex (98) 10
21. 4. 1998
Samstarf milli samningsaðilanna í málum er varða endursendingu útlendinga flugleiðis
SCH/Com-ex (98) 11
21. 4. 1998
Miðlæga Schengen-upplýsingakerfið (C.SIS) með 15/18 tengingar
SCH/Com-ex (98) 12
21. 4. 1998
Staðbundin skipti á tölulegum upplýsingum um vegabréfsáritanir
SCH/Com-ex (98) 17
23. 6. 1998
Tiltekin skjöl eru trúnaðarmál
SCH/Com-ex (98) 18, endursk.
23. 6. 1998
Fyrirhugaðar ráðstafanir varðandi lönd sem valda erfiðleikum með tilliti til útgáfu skjala sem krafist er til að flytja ríkisborgara þeirra frá yfirráðasvæði Schengen
ENDURVIÐTAKA – VEGABRÉFSÁRITANIR
SCH/Com-ex (98) 19
23. 6. 1998
Mónakó
VEGABRÉFSÁRITANIR – YTRI LANDAMÆRI – SCHENGEN- UPPLÝSINGAKERFIÐ
SCH/Com-ex (98) 21
23. 6. 1998
Stimplun vegabréfa umsækjenda um vegabréfsáritun
VEGABRÉFSÁRITANIR
SCH/Com-ex (98) 26, lokaútg.
16. 9. 1998
Fastanefnd um Schengen-framkvæmdarsamninginn komið á fót
SCH/Com-ex (98) 29, endursk.
23. 6. 1998
Heildarákvæði sem tekur til allra tæknilegra Schengen-gerða
SCH/Com-ex (98) 35, 2. endursk.
16. 9. 1998
Sameiginlega handbókin send til ríkja sem sótt hafa um aðild að Evrópusambandinu
SCH/Com-ex (98) 37, 2. lokaútg. Aðgerðaáætlun í baráttunni gegn ólöglegum innflytjendum
SCH/Com-ex (98) 43, endursk.
16. 9. 1998
Sérstök nefnd um Grikkland
SCH/Com-ex (98) 49, 3. endursk.
16. 12. 1998
Samningurinn um framkvæmd Schengen-samkomulagsins kemur til framkvæmda í Grikklandi
SCH/Com-ex (98) 51, 3. endursk.
16. 12. 1998
Lögreglusamvinna yfir landamæri á sviði afbrotavarna og uppljóstrana afbrota samkvæmt beiðni
SCH/Com-ex (98) 52
16. 12. 1998
Handbók um lögreglusamvinnu yfir landamæri
SCH/Com-ex (98) 53, 2. endursk. Samræmd stefna varðandi vegabréfsáritanir – gráu skrárnar felldar niður
SCH/Com-ex (98) 56
16. 12. 1998
Handbók um skilríki sem bera mega vegabréfsáritun
SCH/Com-ex (98) 57
16. 12. 1998
Samræmt eyðublað fyrir heimboð, staðfestingu á gistingu og viðurkenningu á skuldbindingum um framfærslu tekið upp
SCH/Com-ex (98) 59, endursk.
16. 12. 1998
Kerfisbundin þjónusta skjalaráðgjafa
SCH/Com-ex (99) 1, 2. endursk.
28. 4. 1999
Staðan í fíkniefnamálum
SCH/Com-ex (99) 3
28. 4. 1999
Fjárhagsáætlun fyrir þjónustuborð fyrir árið 1999
SCH/Com-ex (99) 4
28. 4. 1999
Kostnaður við uppsetningu miðlæga Schengen-upplýsingakerfisins (C.SIS)
SCH/Com-ex (99) 5
28. 4. 1999
SIRENE-handbókin
SCH/Com-ex (99) 6
28. 4. 1999
Staðan í fjarskiptamálum
SCH/Com-ex (99) 7, 2. endursk.
28. 4. 1999
Samskiptafulltrúar
SCH/Com-ex (99) 8, 2. endursk.
28. 4. 1999
Greiðslur til upplýsingagjafa
SCH/Com-ex (99) 10
28. 4. 1999
Ólögleg viðskipti með skotvopn
SCH/Com-ex (99) 11, 2. endursk.
28. 4. 1999
Ákvörðun sem tengist samningnum um samvinnu um málsmeðferð vegna umferðarlagabrota
SCH/Com-ex (99) 13
28. 4. 1999
Afturköllun á gömlum útgáfum og samþykkt á nýjum útgáfum Sameiginlegu handbókarinnar og Sameiginlegu fyrirmælanna til sendiráða og ræðisskrifstofa
SCH/Com-ex (99) 14
28. 4. 1999
Handbók um skilríki sem bera mega vegabréfsáritun
SCH/Com-ex (99) 18
28. 4. 1999
Bætt lögreglusamvinna að því er varðar afbrotavarnir og uppljóstranir afbrota


B. EFTIRFARANDI YFIRLÝSINGAR FRAMKVÆMDANEFNDARINNAR:

Yfirlýsing Efni
SCH/Com-ex (96) 5. yfirl.
18. 4. 1996
Skilgreining á hugtakinu „útlendingur“ frá þriðja landi
SCH/Com-ex (96) 6. yfirl., 2. endursk.
26. 6. 1996
Yfirlýsing um framsal
SCH/Com-ex (97) 13. yfirl., 2. endursk.
18. 4. 1996
Brottnám ólögráða barna
SCH/Com-ex (99) 2. yfirl., endursk.
28. 4. 1999
Uppbygging Schengen-upplýsingakerfisins (SIS)


C. EFTIRFARANDI ÁKVARÐANIR MIÐHÓPSINS:

Ákvörðun Efni
SCH/C (98) 117
27. 10. 1998
Aðgerðaáætlun í baráttunni gegn ólöglegum innflytjendum
SCH/C (99) 25
22. 3. 1999
Almennar meginreglur um greiðslur til upplýsingagjafa og flugumannaVIÐAUKI B

(2. mgr. 2. gr.)
1


    Reglugerð ráðsins (EB) nr. 574/1999 frá 12. mars 1999 þar sem tiltekin eru þau þriðju lönd sem um gildir að ríkisborgarar þeirra verða að hafa vegabréfsáritanir undir höndum þegar þeir fara yfir ytri landamæri aðildarríkjanna (Stjtíð. EB L 72/2 frá 18. 3. 1999) 2 ;
    Reglugerð ráðsins (EB) nr. 1683/95 frá 29. maí 1995 þar sem mælt er fyrir um sameiginlegt eyðublað um vegabréfsáritanir (Stjtíð. EB L 164/1 frá 14. 7. 1995) og ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 7. febrúar 1996 þar sem mælt er fyrir um frekari tækniforskriftir fyrir samræmt eyðublað um vegabréfsáritanir (ekki birt);
    Tilskipun ráðsins nr. 91/477/EBE frá 18. júní 1991 um eftirlit með skotvopnakaupum og skotvopnaeign (Stjtíð. EB L 256/51 frá 13. 9. 1991) og tilmæli framkvæmdastjórnarinnar 93/216/EBE frá 25. febrúar 1993 um evrópska skotvopnaleyfið (Stjtíð. EB L 93/39 frá 17. 4. 1993) eins og þeim var breytt með tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 96/129/EB frá 12. janúar 1996 (Stjtíð. EB L 30/47 frá 8. 2. 1996).

LOKAGERÐ


    Samningsaðilar hafa samþykkt þessa lokagerð sem hefur að geyma eftirfarandi yfirlýsingar:

     1.      Yfirlýsing Íslands og Noregs um 2. mgr. 4. gr.:
             Að því er varðar fundi samsettu nefndarinnar á vettvangi ráðherra líta Ísland og Noregur svo á að þau skuli sjálf meta hvort líta beri á tiltekin atriði sem „vandamál sem fyrir þeim verða“ (fyrsti undirliður ákvæðisins) eða atriði sem „varða“ þau (annar undirliður ákvæðisins) og hvort nauðsyn beri til að fjallað sé um málið á vettvangi ráðherra. Í samræmi við sameiginlega hagsmuni samningsaðila er gert ráð fyrir því að slík „vandamál“ og álitamál sem „varða“ þau komi allajafna upp í hinu reglulega samstarfi með einhverjum þeim hætti er leiði til þess að þau verði sett á dagskrá funda samsettu nefndarinnar á vettvangi ráðherra. Engu að síður leggja Ísland og Noregur áherslu á rétt nefndarmanna til að óska eftir fundi í samsettu nefndinni á hvaða vettvangi sem er í samræmi við 3. mgr. 3. gr. samningsins.
     2.      Yfirlýsing Íslands og Noregs um 4. mgr. 8. gr.:
             Í þeim tilvikum að aðstæður skapast sem gerð er grein fyrir í a-, b-, c- eða d-lið 4. mgr. 8. gr. munu Ísland og Noregur nýta sér heimildina sem kveðið er á um í 3. mgr. 3. gr. til að óska eftir fundi í samsettu nefndinni á vettvangi ráðherra svo að leita megi leiða til að halda samningnum áfram.
     3.      Yfirlýsing Íslands og Noregs um framsal:
        1.    Ekki skal bera fyrir sig fyrirvara, sem settir hafa verið skv. 13. gr. Evrópusamningsins um varnir gegn hryðjuverkum er lagður var fram til undirritunar í Strassborg 27. janúar 1977, í framsalsmálum er tengjast aðildarríkjum Evrópusambandsins sem ábyrgjast sams konar málsmeðferð.
        2.    Ekki skal bera fyrir sig yfirlýsingar, sem gerðar hafa verið skv. 1. mgr. 6. gr. Evrópusamningsins um framsal sakamanna er lagður var fram til undirritunar í París 13. desember 1957, sem ástæðu þess að synja um framsal á þeim sem þar eru búsettir en hafa ríkisfang annarra ríkja en Norðurlanda til aðildarríkja Evrópusambandsins sem ábyrgjast sams konar málsmeðferð.
     4.      Sameiginleg yfirlýsing um samráð þjóðþinga:
             Evrópusambandið, Ísland og Noregur telja við hæfi að umræða um málefni sem falla undir þennan samning fari fram á fundum þingmanna Evrópuþingsins og íslenskra þingmanna annars vegar og þingmanna Evrópuþingsins og norskra þingmanna hins vegar.
     5.      Yfirlýsing ráðs Evrópusambandsins, samþykkt samhljóða af þeim sem sæti eiga í ráðinu og um getur í 1. mgr. 6. gr. Schengen-bókunarinnar, um ákvarðanir sem samsettu nefndinni ber að taka:
             „Það er skilningur ráðsins að ákvarðanir, sem samsettu nefndinni ber að taka samkvæmt samningnum, skuli samþykktar samhljóða af fulltrúum þeirra sem sæti eiga í ráðinu og um getur í 1. mgr. 6. gr. Schengen-bókunarinnar og fulltrúum ríkisstjórna Íslands og Noregs, nema kveðið sé á um annað í reglum um málsmeðferð eða í samningi þeim sem gerður verður skv. 2. mgr. 6. gr. Schengen-bókunarinnar.“
     6.      Yfirlýsing framkvæmdastjórnar Evrópubandalaganna um aðgengi að tillögum:
             Þegar framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna sendir ráði Evrópusambandsins og Evrópuþinginu tillögur sínar er varða þennan samning skal hún senda Íslandi og Noregi afrit af þeim.


    Gjört í Brussel 18. maí 1999.

    Fyrir hönd ráðs Evrópusambandsins

    Fyrir hönd Lýðveldisins Íslands

    Fyrir hönd Konungsríkisins Noregs


SAMNINGUR
Í FORMI BRÉFASKIPTA
MILLI RÁÐS EVRÓPUSAMBANDSINS
OG LÝÐVELDISINS ÍSLANDS OG KONUNGSRÍKISINS NOREGS
UM NEFNDIR SEM AÐSTOÐA FRAMKVÆMDASTJÓRN
EVRÓPUBANDALAGANNA
VIÐ AÐ BEITA FRAMKVÆMDAVALDI SÍNUA. Bréf frá bandalaginu

Herra,

    Ráðið vísar til samningaviðræðna um samninginn um þátttöku Lýðveldisins Íslands og Konungsríkisins Noregs í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna og hefur tekið fullt tillit til óskar Íslands og Noregs um að taka fullan þátt í starfi nefndanna, sem aðstoða framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna við að beita framkvæmdavaldi sínu, á grundvelli þátttöku þeirra í ákvarðanatöku á sviðum sem falla undir samninginn og til að stuðla að góðri framkvæmd samningsins.
    Ráðið tekur mið af því að síðar, þegar slíkri málsmeðferð verður beitt á þeim sviðum sem falla undir samninginn, verði vissulega nauðsynlegt að Ísland og Noregur taki þátt í starfi þessara nefnda, einnig til að tryggja að viðkomandi gerðir eða ráðstafanir hafi fengið málsmeðferð samkvæmt samningnum og þar með orðið bindandi gagnvart Íslandi og Noregi.
    Því lýsir Evrópubandalagið sig reiðubúið, jafnskjótt og þörf krefur, til samningaviðræðna um viðeigandi fyrirkomulag á þátttöku Íslands og Noregs í starfi þessara nefnda.
    Ég væri yður þakklátur ef þér vilduð tilkynna mér hvort ríkisstjórn yðar samþykkir framangreint.
    Ég votta yður virðingu mína,

                                       Fyrir hönd
                                       ráðs Evrópusambandsins


    Gjört í Brussel 18. maí 1999.

    Fyrir hönd ráðs Evrópusambandsins


B. Bréf frá Íslandi

    Mér veitist sá heiður að staðfesta að ég hef móttekið svohljóðandi bréf frá yður, dagsett í dag:
    „Ráðið vísar til samningaviðræðna um samninginn um þátttöku Lýðveldisins Íslands og Konungsríkisins Noregs í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna og hefur tekið fullt tillit til óskar Íslands og Noregs um að taka fullan þátt í starfi nefndanna, sem aðstoða framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna við að beita framkvæmdavaldi sínu, á grundvelli þátttöku þeirra í ákvarðanatöku á sviðum sem falla undir samninginn og til að stuðla að góðri framkvæmd samningsins.
    Ráðið tekur mið af því að síðar, þegar slíkri málsmeðferð verður beitt á þeim sviðum sem falla undir samninginn, verði vissulega nauðsynlegt að Ísland og Noregur taki þátt í starfi þessara nefnda, einnig til að tryggja að viðkomandi gerðir eða ráðstafanir hafi fengið málsmeðferð samkvæmt samningnum og þar með orðið bindandi gagnvart Íslandi og Noregi.
    Því lýsir Evrópubandalagið sig reiðubúið, jafnskjótt og þörf krefur, til samningaviðræðna um viðeigandi fyrirkomulag á þátttöku Íslands og Noregs í starfi þessara nefnda.
    Ég væri yður þakklátur ef þér vilduð tilkynna mér hvort ríkisstjórn yðar samþykkir framangreint.“
    Ég get tilkynnt yður að ríkisstjórn mín samþykkir efni bréfs yðar.
    Ég votta yður virðingu mína,


                                       Fyrir hönd ríkisstjórnar
                                       Lýðveldisins Íslands


    Gjört í Brussel 18. maí 1999.

    Fyrir hönd Lýðveldisins Íslands
A. Bréf frá bandalaginu

Herra,

    Ráðið vísar til samningaviðræðna um samninginn um þátttöku Lýðveldisins Íslands og Konungsríkisins Noregs í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna og hefur tekið fullt tillit til óskar Íslands og Noregs um að taka fullan þátt í starfi nefndanna, sem aðstoða framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna við að beita framkvæmdavaldi sínu, á grundvelli þátttöku þeirra í ákvarðanatöku á sviðum sem falla undir samninginn og til að stuðla að góðri framkvæmd samningsins.
    Ráðið tekur mið af því að síðar, þegar slíkri málsmeðferð verður beitt á þeim sviðum sem falla undir samninginn, verði vissulega nauðsynlegt að Ísland og Noregur taki þátt í starfi þessara nefnda, einnig til að tryggja að viðkomandi gerðir eða ráðstafanir hafi fengið málsmeðferð samkvæmt samningnum og þar með orðið bindandi gagnvart Íslandi og Noregi.
    Því lýsir Evrópubandalagið sig reiðubúið, jafnskjótt og þörf krefur, til samningaviðræðna um viðeigandi fyrirkomulag á þátttöku Íslands og Noregs í starfi þessara nefnda.
    Ég væri yður þakklátur ef þér vilduð tilkynna mér hvort ríkisstjórn yðar samþykkir framangreint.
    Ég votta yður virðingu mína,

                                       Fyrir hönd
                                       ráðs Evrópusambandsins


    Gjört í Brussel 18. maí 1999.

    Fyrir hönd ráðs Evrópusambandsins


B. Bréf frá Noregi

    Mér veitist sá heiður að staðfesta að ég hef móttekið svohljóðandi bréf frá yður, dagsett í dag:
    „Ráðið vísar til samningaviðræðna um samninginn um þátttöku Lýðveldisins Íslands og Konungsríkisins Noregs í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna og hefur tekið fullt tillit til óskar Íslands og Noregs um að taka fullan þátt í starfi nefndanna, sem aðstoða framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna við að beita framkvæmdavaldi sínu, á grundvelli þátttöku þeirra í ákvarðanatöku á sviðum sem falla undir samninginn og til að stuðla að góðri framkvæmd samningsins.
    Ráðið tekur mið af því að síðar, þegar slíkri málsmeðferð verður beitt á þeim sviðum sem falla undir samninginn, verði vissulega nauðsynlegt að Ísland og Noregur taki þátt í starfi þessara nefnda, einnig til að tryggja að viðkomandi gerðir eða ráðstafanir hafi fengið málsmeðferð samkvæmt samningnum og þar með orðið bindandi gagnvart Íslandi og Noregi.
    Því lýsir Evrópubandalagið sig reiðubúið, jafnskjótt og þörf krefur, til samningaviðræðna um viðeigandi fyrirkomulag á þátttöku Íslands og Noregs í starfi þessara nefnda.
    Ég væri yður þakklátur ef þér vilduð tilkynna mér hvort ríkisstjórn yðar samþykkir framangreint.“
    Ég get tilkynnt yður að ríkisstjórn mín samþykkir efni bréfs yðar.
    Ég votta yður virðingu mína,

                                       Fyrir hönd ríkisstjórnar
                                       Konungsríkisins Noregs

    Gjört í Brussel 18. maí 1999.

    Fyrir hönd Konungsríkisins Noregs
Fylgiskjal II.SAMKOMULAG
MILLI RÍKISSTJÓRNA RÍKJA BENELÚX-EFNAHAGSSAMBANDSINS, SAMBANDSLÝÐVELDISINS ÞÝSKALANDS OG LÝÐVELDISINS FRAKKLANDS UM AFNÁM Í ÁFÖNGUM Á EFTIRLITI
Á SAMEIGINLEGUM LANDAMÆRUM

    Ríkisstjórnir Konungsríkisins Belgíu, Sambandslýðveldisins Þýskalands, Lýðveldisins Frakklands, Stórhertogadæmisins Lúxemborgar og Konungsríkisins Hollands,
    hér á eftir nefnd samningsaðilarnir,
    sem gera sér ljóst að æ nánara bandalag þjóða aðildarríkja Evrópubandalaganna þarf að koma fram í frjálsri för allra ríkisborgara aðildarríkjanna yfir innri landamæri og í frjálsum vöruflutningum og frjálsri þjónustustarfsemi,
    sem hafa fullan hug á að styrkja samstöðu þjóða sinna með því að ryðja úr vegi hindrunum á frjálsri för yfir sameiginleg landamæri ríkja Benelúx-efnahagssambandsins, Sambandslýðveldisins Þýskalands og Lýðveldisins Frakklands,
    með tilliti til þeirra framfara sem þegar hafa orðið innan Evrópubandalaganna að því er varðar frjálsa för fólks, frjálsa vöruflutninga og frjálsa þjónustustarfsemi,
    sem hafa einsett sér að afnema eftirlit á sameiginlegum landamærum með för ríkisborgara aðildarríkja Evrópubandalaganna og auðvelda vöruflutninga og þjónustustarfsemi,
    sem gera sér ljóst að vegna framkvæmdar þessa samkomulags getur verið nauðsynlegt að gera ráðstafanir í lagasetningu sem verður að leggja fyrir þjóðþingin í samræmi við stjórnarskrár undirritunarríkjanna,
    með hliðsjón af yfirlýsingu leiðtogaráðsins í Fontainebleau frá 25. og 26. júní 1984 um afnám lögreglu- og tollformsatriða á innri landamærum að því er varðar för fólks og vöruflutninga,
    með hliðsjón af samningnum milli Sambandslýðveldisins Þýskalands og Lýðveldisins Frakklands sem gerður var í Saarbrücken 13. júlí 1984,
    með hliðsjón af þeim ályktunum sem voru samþykktar að loknum fundi samgönguráðherra Benelúx-ríkjanna og Sambandslýðveldisins Þýskalands í Neustadt/Aisch 31. maí 1984,
    með hliðsjón af minnisblaði ríkisstjórna Benelúx-efnahagssambandsins frá 12. desember 1984 sem var sent ríkisstjórnum Sambandslýðveldisins Þýskalands og Lýðveldisins Frakklands,
    hafa orðið ásáttar um eftirfarandi:

I. BÁLKUR
Skammtímaráðstafanir
1. gr.

    Frá gildistöku þessa samkomulags, og þangað til eftirlit verður að fullu afnumið, skal fullnægja formsatriðum að því er tekur til ríkisborgara aðildarríkja Evrópubandalagana á sameiginlegum landamærum ríkja Benelúx-efnahagssambandsins, Sambandslýðveldisins Þýskalands og Lýðveldisins Frakklands í samræmi við eftirfarandi skilyrði.

2. gr.

    Að því er varðar för fólks skulu lögreglu- og tollyfirvöld, frá 15. júní 1985, að jafnaði framfylgja einföldu sjónrænu eftirliti með einkaökutækjum sem aka hægt yfir sameiginlegu landamærin án þess að stöðva þau.
    Þau geta þó gert úrtakskannanir þar sem nákvæmara eftirlit fer fram. Þær skal gera, ef unnt er, utan akreinar þannig að straumur annarra ökutækja yfir landamærin sé ekki rofinn.

3. gr.

    Til þess að auðvelda sjónrænt eftirlit geta ríkisborgarar aðildarríkja Evrópubandalaganna, sem hafa í hyggju að fara yfir sameiginlegu landamærin í bifreið, sett á framrúðu ökutækisins græna skífu sem er að minnsta kosti 8 cm í þvermál. Þessi skífa gefur til kynna að þeir fari að fyrirmælum landamæralögreglunnar, hafi eingöngu með sér vörur sem falla undir reglur um tollfrjálsan varning og virði gjaldeyrisreglur.

4. gr.

    Samningsaðilarnir skulu leggja sig fram um að stytta, eins og hægt er, viðdvöl á sameiginlegum landamærum vegna eftirlits með fólksflutningum á vegum í atvinnuskyni.
    Samningsaðilarnir skulu leita lausna sem gera það kleift að hætta, fyrir 1. janúar 1986, kerfisbundnu eftirliti með akstursskrám og flutningaleyfum þegar um er að ræða fólksflutninga á vegum í atvinnuskyni.

5. gr.

    Fyrir 1. janúar 1986 skal setja upp sameiginlegar eftirlitsstöðvar þar sem eftirlitsstöðvar hvers lands um sig standa hlið við hlið á landamærum svo framarlega sem það hefur ekki þegar verið gert og staðhættir leyfa. Í framhaldi af því skal athuga hvort mögulegt sé að setja upp sameiginlegar eftirlitsstöðvar á öðrum landamærastöðvum, að teknu tilliti til aðstæðna á hverjum stað.

6. gr.

    Með fyrirvara um hagstæðara fyrirkomulag milli samningsaðilanna skulu þeir gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að auðvelda för þeirra ríkisborgara aðildarríkja Evrópubandalaganna sem búsettir eru í sveitarfélögum í grennd við sameiginlegu landamærin þannig að þeim sé heimilt að fara yfir landamærin annars staðar en á viðurkenndum landamærastöðvum og utan ákveðins afgreiðslutíma.
    Viðkomandi einstaklingar njóti þessara fríðinda því aðeins að þeir hafi eingöngu með sér vörur sem falla undir reglur um tollfrjálsan varning og virði gjaldeyrisreglur.

7. gr.

    Samningsaðilarnir skulu leggja sig fram um að samræma, eins fljótt og unnt er, stefnu sína í málum er varða vegabréfsáritanir til þess að forðast hugsanlegar neikvæðar afleiðingar þess að draga úr eftirliti á sameiginlegum landamærum í málum sem varða innflytjendur og öryggi. Fyrir 1. janúar 1986 skulu þeir, ef unnt er, gera þær ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til þess að koma á málsmeðferð um útgáfu vegabréfsáritana og komuleyfa með tilliti til þess að tryggt verði að allt yfirráðasvæði samningsaðilanna fimm njóti verndar gegn ólöglegum innflytjendum og starfsemi sem getur teflt öryggi í tvísýnu.

8. gr.

    Í því augnamiði að draga úr eftirliti á sameiginlegum landamærum, og með tilliti til þess verulega munar sem er á löggjöf ríkja Benelúx-efnahagssambandsins, Sambandslýðveldisins Þýskalands og Lýðveldisins Frakklands, skuldbinda samningsaðilarnir sig til þess að vinna af festu gegn ólöglegum viðskiptum með fíkniefni á yfirráðasvæði sínu og samræma markvisst aðgerðir á þessu sviði.

9. gr.

    Samningsaðilarnir skulu styrkja samstarf milli toll- og lögregluyfirvalda, einkum í baráttunni gegn afbrotum, fyrst og fremst ólöglegum viðskiptum með fíkniefni og vopn, gegn því að einstaklingar komi inn á yfirráðasvæði þeirra og dvelji þar í heimildarleysi, gegn brotum á skatta- og tollareglum og gegn smygli. Í þessum tilgangi, í samræmi við lög í hverju ríki, skulu samningsaðilarnir leggja sig fram um bæta upplýsingaskipti og auka streymi upplýsinga sem gætu komið hinum samningsaðilunum að gagni í baráttunni gegn afbrotum.
    Í samræmi við landslög í hverju ríki skulu samningsaðilarnir auka gagnkvæma aðstoð við að hindra ólöglega fjármagnsflutninga.

10. gr.

    Til þess að tryggja það samstarf, sem kveðið er á um í 6., 7., 8. og 9. gr., skulu þar til bær yfirvöld samningsaðilanna halda fundi með reglulegu millibili.

11. gr.

    Að því er varðar vöruflutninga á vegum yfir landamæri skulu samningsaðilarnir, frá og með 1. júlí 1985, ekki framfylgja reglubundið eftirliti á sameiginlegum landamærum sem hér segir:
          eftirliti með öku- og hvíldartímum (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 543/69 frá 25. mars 1969 um samræmingu tiltekinna ákvæða félagsmálalöggjafarinnar varðandi flutninga á vegum og AETR);
          eftirliti með stærð og þyngd atvinnuökutækja; þetta ákvæði útilokar ekki að innleidd verði sjálfvirk vigtunarkerfi til þess að gera úrtakskannanir á þyngd;
          eftirliti með tæknilegu ástandi ökutækja.
    Gera skal ráðstafanir til þess að forðast tvöfalt eftirlit á yfirráðasvæði samningsaðilanna.

12. gr.

    Frá og með 1. júlí 1985 skal, í stað eftirlits með skjölum varðandi flutninga sem fara fram án leyfa eða kvóta samkvæmt reglum bandalagsins eða tvíhliða reglum, koma á úrtakskönnunum á sameiginlegum landamærum. Á ökutæki, sem notuð eru við slíka flutninga, skal setja sýnileg merki þegar farið er yfir landamæri. Þar til bær yfirvöld samningsaðilanna skulu ákveða sameiginlega útlit þessa merkis.

13. gr.

    Samningsaðilarnir skulu leggja sig fram um að samræma gildandi reglur um leyfi til vöruflutninga í atvinnuskyni á vegum, þar sem farið er yfir landamæri, fyrir 1. janúar 1986 með það að markmiði að einfalda þær og auðvelda notkun þeirra og hugsanlega skipta út ferðaleyfum fyrir tímabundin leyfi sem fela í sér sjónrænt eftirlit þegar farið er yfir sameiginleg landamæri.
    Aðferðir við að breyta ferðaleyfum í tímabundin leyfi skulu ákveðnar tvíhliða og skal þá tekið tillit til mismunandi þarfa viðkomandi landa fyrir vöruflutninga á vegum.

14. gr.

    Samningsaðilarnir skulu leita lausna sem gera kleift að stytta viðdvöl flutningalesta vegna eftirlits á sameiginlegum landamærum.

15. gr.

    Samningsaðilarnir skulu mæla með því við járnbrautarfélög sín að:
          haga tæknilegri málsmeðferð þannig að viðdvöl á sameiginlegum landamærum verði eins stutt og hægt er;
          fyrir tiltekna vöruflutninga með járnbrautarlestum, sem eru ákveðnir af járnbrautarfélögunum, verði allt gert til þess að koma á sérstöku áætlunarkerfi þannig að unnt sé að fara yfir sameiginlegu landamærin með hraði án umtalsverðrar viðdvalar (vörulestir með stutta viðdvöl á landamærum).

16. gr.

    Samningsaðilarnir skulu samræma afgreiðslutíma tolleftirlitsstöðva fyrir fljótasiglingar á sameiginlegum landamærum.

II. BÁLKUR
Ráðstafanir til lengri tíma
17. gr.

    Samningsaðilarnir skulu stefna að því, að því er varðar för fólks, að afnema eftirlit á sameiginlegum landamærum og færa það að ytri landamærum sínum. Í þessum tilgangi skulu þeir leggja sig fram um að samræma fyrir fram, ef þörf er á, lög og stjórnsýslufyrirmæli um bönn og takmarkanir sem liggja eftirlitinu til grundvallar og gera viðbótarráðstafanir til þess að tryggja öryggi, svo og til þess að hindra komu ólöglegra innflytjenda sem ekki eru ríkisborgarar aðildarríkja Evrópubandalaganna.

18. gr.

    Samningsaðilarnir skulu taka eftirfarandi atriði sérstaklega til umræðu en hafa jafnframt hliðsjón af þeim árangri sem skammtímaráðstafanirnar hafa borið:
     a)      að koma á fyrirkomulagi um lögreglusamvinnu í tengslum við að koma í veg fyrir afbrot, svo og leit;
     b)      að kanna erfiðleika sem kunna að koma upp við framkvæmd samninga um alþjóðlega réttaraðstoð og framsal til þess að finna þær lausnir sem eru best til þess fallnar að bæta samstarf samningsaðilanna á þessum sviðum;
     c)      að leita leiða í hinni sameiginlegu baráttu gegn afbrotum, meðal annars með því að kanna þann möguleika að innleiða rétt lögreglumanna til eftirfarar, að teknu tilliti til þeirra samskiptaleiða sem eru fyrir hendi og alþjóðlegrar réttaraðstoðar.

19. gr.

    Samningsaðilarnir skulu stefna að því að samræma lög og reglugerðir, sérstaklega varðandi eftirfarandi atriði:
          fíkniefni;
          vopn og sprengiefni;
          skráningu ferðamanna á hótelum.

20. gr.

    Samningsaðilarnir skulu leggja sig fram um að samræma stefnu sína í málum er varða vegabréfsáritanir og skilyrði fyrir komu inn á yfirráðasvæði sitt. Þeir skulu, að svo miklu leyti sem þörf er á, búa sig undir að samræma reglur á tilteknum sviðum laga um útlendinga sem varða ríkisborgara ríkja sem eiga ekki aðild að Evrópubandalögunum.

21. gr.

    Samningsaðilarnir skulu sameiginlega eiga frumkvæði innan Evrópubandalaganna að því:
     d)      að rýmka tollfrelsismörk ferðamanna;
     e)      að afnema, innan ramma tollfrelsismarka bandalagsins, takmarkanir, sem enn eru í gildi við komu til aðildarríkjanna, á varningi sem íbúum landsins er ekki bannað að eiga.
    Samningsaðilarnir skulu eiga frumkvæði að því innan Evrópubandalaganna að vinna að því að álagning virðisaukaskatts á flutninga í ferðaþjónustu í brottfararlandi verði samræmd innan Evrópubandalaganna.

22. gr.

    Samningsaðilarnir skulu leggja sig fram um, bæði sín á milli og innan Evrópubandalaganna:
          að rýmka tollfrelsismörk fyrir eldsneyti þannig að þau séu í samræmi við eðlilegt geymslurými eldsneytistanks strætisvagna og langferðabifreiða (600 l);
          að samræma skattlagningu díseleldsneytis og rýmka tollfrelsismörk fyrir eðlilegt geymslurými eldsneytistanks flutningabifreiða.

23. gr.

    Samningsaðilarnir skulu einnig, á sviði vöruflutninga, leggja sig fram um að stytta biðtíma og fækka viðkomustöðum á samliggjandi eftirlitsstöðvum.

24. gr.

    Að því er varðar vöruflutninga skulu samningsaðilarnir leita leiða til að færa það eftirlit, sem er nú framfylgt á sameiginlegum landamærum, til ytri landamæranna eða inn á sitt yfirráðasvæði.
    Í þeim tilgangi skulu þeir, ef þörf er á, sameiginlega eiga frumkvæði að því, sín á milli og innan Evrópubandalaganna, að samræma þau ákvæði sem vörueftirlit á sameiginlegum landamærum grundvallast á.
    Þeir skulu huga að því að þessar ráðstafanir skaði ekki nauðsynlega heilbrigðisvernd manna, dýra og plantna.

25. gr.

    Samningsaðilarnir skulu efla samstarf sín á milli til þess að auðvelda tollafgreiðslu vara sem eru fluttar yfir sameiginleg landamæri með því að skiptast kerfisbundið og sjálfvirkt á nauðsynlegum upplýsingum sem tiltækar eru fyrir tilstilli einingarskjalsins.

26. gr.

    Samningsaðilarnir skulu kanna hvernig hægt er að samræma óbeina skatta (virðisaukaskatt og vörugjöld) innan ramma Evrópubandalaganna. Í þeim tilgangi skulu þeir styðja frumkvæði Evrópubandalaganna í þá átt.

27. gr.

    Samningsaðilarnir skulu kanna hvort unnt er að afnema, með gagnkvæmu samkomulagi, þær takmarkanir, sem heimilar eru samkvæmt lögum bandalagsins, á tollfrelsismörkum fyrir íbúa landamærasvæða á sameiginlegum landamærum.

28. gr.

    Samningsaðilarnir skulu hafa samráð sín á milli áður en gerðir eru hvers konar tvíhliða eða marghliða samningar, í líkingu við þetta samkomulag, við ríki sem eru ekki aðilar að samkomulagi þessu.

29. gr.

    Samkomulag þetta gildir einnig fyrir Berlínarfylki, nema ríkisstjórn Sambandslýðveldisins Þýskalands lýsi yfir hinu gagnstæða við ríkisstjórnir ríkja Benelúx-efnahagssambandsins og við ríkisstjórn Lýðveldisins Frakklands innan þriggja mánaða frá gildistöku samkomulags þessa.

30. gr.

    Þær ráðstafanir, sem kveðið er á um í þessu samkomulagi og eru ekki framkvæmanlegar þegar við gildistöku þess, skulu, að því er varðar ráðstafanir sem kveðið er á um í I. bálki, gerðar fyrir 1. janúar 1986 og, að því er varðar ráðstafanir sem kveðið er á um í II. bálki, ef unnt er, fyrir 1. janúar 1990 svo framarlega sem engir aðrir eindagar eru tilgreindir í samkomulagi þessu.

31. gr.

    Samkomulag þetta gildir með fyrirvara um ákvæði 5. og 6. gr., svo og 8. til 16. gr. samningsins milli Sambandslýðveldisins Þýskalands og Lýðveldisins Frakklands sem gerður var í Saarbrücken 13. júlí 1984.

32. gr.

    Samkomulag þetta skal undirritað án fyrirvara um fullgildingu eða samþykki eða með fyrirvara um fullgildingu eða samþykki með eftirfarandi fullgildingu eða samþykki.
    Samkomulag þetta gildir til bráðabirgða frá deginum eftir undirritun. Það öðlast gildi þrjátíu dögum eftir að síðasta skjalið um fullgildingu eða samþykki hefur verið afhent til vörslu.

33. gr.

    Samkomulag þetta verður í vörslu ríkisstjórnar Stórhertogadæmisins Lúxemborgar. Hún lætur ríkisstjórnum hinna undirritunarríkjanna í té staðfest endurrit.

    ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samkomulag þetta.

    GJÖRT Í SCHENGEN (Stórhertogadæminu Lúxemborg) fjórtánda dag júnímánaðar nítján hundruð áttatíu og fimm í einu frumriti á frönsku, hollensku og þýsku og eru allir textarnir jafngildir.


    Fyrir hönd ríkisstjórnar Konungsríkisins Belgíu

    P. DE KEERSMAEKER
    aðstoðarráðherra Evrópumála


    Fyrir hönd ríkisstjórnar Sambandslýðveldisins Þýskalands

    Próf. Dr. W. SCHRECKENBERGER
    aðstoðarráðherra kanslaraembættisins


    Fyrir hönd ríkisstjórnar Lýðveldisins Frakklands

    C. LALUMIERE
    aðstoðarráðherra Evrópumála


    Fyrir hönd ríkisstjórnar Stórhertogadæmisins Lúxemborgar

    R. GOEBBELS
    aðstoðarráðherra utanríkismála


    Fyrir hönd ríkisstjórnar Konungsríkisins Hollands

    W.F. van EEKELEN
    aðstoðarráðherra utanríkismála

Fylgiskjal III.SAMNINGUR
UM FRAMKVÆMD SCHENGEN-SAMKOMULAGSINS FRÁ 14. JÚNÍ 1985 MILLI RÍKISSTJÓRNA RÍKJA BENELÚX-EFNAHAGSSAMBANDSINS, SAMBANDSLÝÐVELDISINS ÞÝSKALANDS OG LÝÐVELDISINS FRAKKLANDS UM AFNÁM Í ÁFÖNGUM Á EFTIRLITI
Á SAMEIGINLEGUM LANDAMÆRUM


    Konungsríkið Belgía, Sambandslýðveldið Þýskaland, Lýðveldið Frakkland, Stórhertogadæmið Lúxemborg og Konungsríkið Holland, hér á eftir nefnd samningsaðilarnir,
    sem byggja á Schengen-samkomulaginu frá 14. júní 1985 um afnám í áföngum á eftirliti á sameiginlegum landamærum,
    sem hafa ákveðið að hrinda í framkvæmd því markmiði, sem fram kemur í samkomulaginu, að afnema eftirlit með för fólks á sameiginlegum landamærum og að auðvelda flutninga og vöruflæði,
    sem hafa í huga að í stofnsáttmála Evrópubandalaganna, sem var nánar útfærður með einingarlögum Evrópu, er kveðið á um að innri markaðurinn skuli mynda svæði án innri landamæra,
    sem hafa í huga að stefnumið samningsaðilanna er samhljóða þessu markmiði, með fyrirvara um ráðstafanir sem verða gerðar við framkvæmd ákvæða sáttmálans,
    sem hafa í huga að til þess að ná þessu markmiði er nauðsynlegt að samningsaðilarnir geri ýmsar viðeigandi ráðstafanir og hafi nána samvinnu sín á milli,
    hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

I. BÁLKUR
Skilgreiningar
1. gr.

    Í þessum samningi er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
innri landamæri:    sameiginleg landamæri samningsaðilanna á landi ásamt flughöfnum fyrir innansvæðisflug og höfnum fyrir reglubundnar ferjusiglingar sem eru eingöngu á milli hafna á yfirráðasvæðum samningsaðilanna án viðkomu í höfnum sem eru utan þessara yfirráðasvæða;
ytri landamæri:    landamæri á landi og sjó ásamt flughöfnum og höfnum samningsaðilanna ef ekki er um innri landamæri að ræða;
innansvæðisflug:    flug sem er eingöngu á milli staða á yfirráðasvæðum samningsaðilanna án þess að lent sé á yfirráðasvæði þriðja ríkis;
þriðja ríki:     ríki sem er ekki samningsaðili;
útlendingur:    maður sem er ekki ríkisborgari í aðildarríki Evrópubandalaganna;
útlendingur sem er
á skrá yfir þá sem
synja á um komu:    útlendingur sem skráður hefur verið í Schengen-upplýsingakerfið í samræmi við ákvæði 96. gr. í þeim tilgangi að synja honum um komu;
landamærastöð:    staður þar sem þar til bær yfirvöld heimila að farið sé yfir ytri landamæri;
landamæraeftirlit:    eftirlit á landamærum sem fer eingöngu fram vegna fyrirhugaðrar farar yfir landamærin án tillits til annarra ástæðna;
flutningsaðili:    einstaklingur eða lögaðili sem stundar fólksflutninga í atvinnuskyni í lofti, á landi eða á sjó;
dvalarleyfi:    leyfi sem samningsaðili gefur út og veitir rétt til dvalar á yfirráðasvæði hans. Hér með telst ekki bráðabirgðaleyfi til dvalar á yfirráðasvæði samningsaðila á meðan beiðni um hæli eða umsókn um dvalarleyfi er til meðferðar;
beiðni um hæli:     beiðni útlendings sem er sett fram skriflega, munnlega eða á annan hátt á ytri landamærunum eða á yfirráðasvæði samningsaðila í þeim tilgangi að öðlast stöðu flóttamanns samkvæmt Genfarsamningnum frá 28. júlí 1951 um réttarstöðu flóttamanna, eins og honum var breytt með New York-bókuninni frá 31. janúar 1967, og fá sem slíkur dvalarrétt;
beiðandi um hæli:     útlendingur sem hefur lagt inn beiðni um hæli í skilningi þessa samnings sem endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin um;
meðferð beiðni
um hæli:    öll málsmeðferð við rannsókn og ákvarðanatöku í tengslum við beiðni um hæli ásamt ráðstöfunum sem eru gerðar í sambandi við endanlega ákvörðun, að undanskilinni ákvörðun um hvaða samningsaðili skuli annast meðferð beiðninnar um hæli samkvæmt ákvæðum þessa samnings.

II. BÁLKUR
Afnám eftirlits á innri landamærum og för fólks
1. KAFLI
Farið yfir innri landamæri
2. gr.

    1.     Fara má yfir innri landamærin hvar sem er án þess að persónueftirliti sé framfylgt.
    2.     Þegar allsherjarregla eða þjóðaröryggi krefst þess getur samningsaðili þó ákveðið, að höfðu samráði við aðra samningsaðila, að taka tímabundið upp landamæraeftirlit á innri landamærum í samræmi við tilefni. Ef allsherjarregla eða þjóðaröryggi krefst þess að brugðist verði við án tafar skal viðkomandi samningsaðili grípa til nauðsynlegra ráðstafana og tilkynna hinum samningsaðilunum um þær eins fljótt og unnt er.
    3.     Afnám persónueftirlits á innri landamærum skal hvorki hafa áhrif á beitingu ákvæða 22. gr. né framkvæmd lögregluvalds þar til bærra yfirvalda samkvæmt löggjöf hvers samningsaðila, á gervöllu yfirráðasvæði hans né þær skyldur, sem kveðið er á um í löggjöf hans, til að eiga, hafa meðferðis og framvísa leyfum og skilríkjum.
    4.     Eftirliti með vörum skal framfylgt í samræmi við viðeigandi ákvæði þessa samnings. 1

2. KAFLI
Farið yfir ytri landamæri
3. gr.

    1.     Meginreglan er sú að aðeins má fara yfir ytri landamærin á landamærastöðvum og á ákveðnum afgreiðslutímum. Framkvæmdanefndin setur frekari ákvæði um þetta og einnig um undantekningar og reglur um staðbundna landamæraumferð, svo og reglur um sérstaka flokka skipasiglinga eins og skemmtisiglingar og strandveiðar.
    2.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig til að taka upp viðurlög við því að fara í heimildarleysi yfir ytri landamærin utan landamærastöðvanna eða utan ákveðins afgreiðslutíma.

4. gr. 2

    1.     Samningsaðilarnir skulu tryggja að frá og með árinu 1993 þurfi farþegar, sem koma með flugi frá þriðja ríki, að sæta persónueftirliti og eftirliti með handfarangri við komu í flughöfn úr flugi frá viðkomandi þriðja ríki áður en þeir skipta yfir í innansvæðisflug. Farþegar, sem koma með innansvæðisflugi og skipta yfir í flug til þriðja ríkis, sæta persónueftirliti og eftirliti með handfarangri við brottför úr flughöfn þaðan sem flogið er til viðkomandi þriðja ríkis.
    2.     Samningsaðilarnir skulu grípa til nauðsynlegra ráðstafana til þess að eftirliti sé framfylgt í samræmi við ákvæði 1. mgr.
    3.     Ákvæði 1. og 2. mgr. hafa ekki áhrif á eftirlit með skráðum farangri; það fer annaðhvort fram í þeirri flughöfn, sem er lokaákvörðunarstaður, eða þeirri sem er upprunalegur brottfararstaður.
    4.     Fram að þeim tíma, sem kveðið er á um í 1. mgr., skal litið á flughafnir fyrir innansvæðisflug sem ytri landamæri þrátt fyrir skilgreininguna á innri landamærum.

5. gr.

    1.     Útlendingur getur fengið leyfi til að koma inn og dvelja í allt að þrjá mánuði á yfirráðasvæði samningsaðilanna ef hann uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
     a)      hann þarf að hafa ein eða fleiri gild skilríki samkvæmt ákvörðun framkvæmdanefndarinnar sem veita heimild til að fara yfir landamærin;
     b)      hann þarf að hafa gilda vegabréfsáritun ef þess er krafist;
     c)      honum ber eftir atvikum að framvísa skjölum til staðfestingar á tilgangi dvalar og aðstæðum, meðan á dvölinni stendur, og að hann geti séð fyrir sér, meðan á fyrirhugaðri dvöl stendur, og greitt fyrir ferð til baka til upprunalandsins eða í gegnum þriðja ríki þar sem honum hefur verið tryggður aðgangur eða sýna fram á að hann sé í aðstöðu til að sjá fyrir sér á löglegan hátt;
     d)      hann má ekki vera á skrá yfir þá sem synja á um komu;
     e)      hann má ekki teljast geta verið ógnun við allsherjarreglu, þjóðaröryggi eða alþjóðasamskipti neins samningsaðilanna.
    2.     Útlendingi, sem uppfyllir ekki öll framangreind skilyrði, skal synja um komu inn á yfirráðasvæði samningsaðilanna, nema samningsaðili telji nauðsynlegt að víkja frá þessari meginreglu af mannúðarástæðum, vegna þjóðarhagsmuna eða alþjóðlegra skuldbindinga. Í þeim tilvikum verður aðgangur takmarkaður við yfirráðasvæði viðkomandi samningsaðila og skal hinum samningsaðilunum tilkynnt um þetta.
    Þessar reglur hafa ekki áhrif á beitingu sérstakra ákvæða um rétt til hælis eða þeirra ákvæða sem mælt er fyrir um í 18. gr.
    3.     Útlendingi, sem hefur dvalarleyfi eða vegabréfsáritun fyrir ferð til baka, sem einn samningsaðilanna hefur gefið út, eða hvor tveggja skilríkin ef þess er krafist, skal heimilað að fara í gegn, nema hann sé á landsskrá yfir þá sem synja á um komu hjá þeim samningsaðila þar sem hann óskar að koma yfir ytri landamærin.

6. gr.

    1.     Ferðir yfir ytri landamærin skulu vera undir eftirliti þar til bærra yfirvalda. Því skal framfylgt eftir samræmdum meginreglum, innan valdsviðs hvers ríkis og í samræmi við innlenda löggjöf og með tilliti til hagsmuna allra samningsaðilanna á yfirráðasvæðum þeirra.
    2.     Hinar samræmdu meginreglur, sem um getur í 1. mgr., eru:
     a)      Til þess að önnur skilyrði fyrir komu, dvöl, vinnu og brottför séu uppfyllt skal persónueftirlit ekki aðeins taka til sannprófunar ferðaskilríkja heldur einnig til rannsóknar á og varna gegn ógnunum við þjóðaröryggi og allsherjarreglu samningsaðilanna. Eftirlitið skal einnig taka til ökutækja fólks, sem fer yfir landamærin, og þeirra hluta sem það hefur meðferðis. Eftirlitinu skal framfylgt í samræmi við innlenda löggjöf hvers samningsaðila, sérstaklega þau ákvæði sem varða leit.
     b)      Allir skulu að minnsta kosti einu sinni sæta eftirliti sem gerir kleift að staðfesta hverjir þeir eru á grundvelli ferðaskilríkja sem þeir framvísa.
     c)      Útlendingar skulu sæta ítarlegu eftirliti við komu samkvæmt a- lið.
     d)      Við brottför skal því eftirliti framfylgt sem er nauðsynlegt til að tryggja hagsmuni allra samningsaðilanna samkvæmt lögum um útlendinga og er tilgangurinn með því rannsókn á og varnir gegn ógnunum við þjóðaröryggi og allsherjarreglu samningsaðilanna. Allir útlendingar skulu sæta slíku eftirliti.
     e)      Ef ekki er hægt að framfylgja slíku eftirliti af sérstökum ástæðum verður að raða í forgangsröð. Þá gildir sú meginregla að eftirlit við komu hefur forgang fram yfir eftirlit við brottför.
    3.     Þar til bær yfirvöld skulu halda uppi eftirliti með færanlegum einingum á ytri landamærunum á milli landamærastöðva; hið sama skal gilda um landamærastöðvar utan venjulegs afgreiðslutíma. Þetta eftirlit skal fara þannig fram að það hvetji ekki fólk til þess að komast hjá eftirliti á landamærastöðvunum. Framkvæmdanefndin kveður nánar á um tilhögun eftirlitsins ef svo ber undir.
    4.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig til að hafa yfir að ráða nægilegum fjölda hæfra starfsmanna til að sinna eftirliti á ytri landamærunum.
    5.     Halda skal uppi sams konar eftirliti alls staðar á ytri landamærunum.

7. gr.

    Samningsaðilarnir skulu aðstoða hver annan og hafa nána og stöðuga samvinnu við að halda uppi öflugu eftirliti. Þeir skulu einkum skiptast á öllum mikilvægum upplýsingum sem máli skipta, að undanskildum upplýsingum um nafngreinda einstaklinga, nema þessi samningur kveði á um annað, og á sama hátt skulu þeir samræma, eftir því sem unnt er, fyrirmæli til þeirra yfirvalda sem sinna eftirliti auk þess að stuðla að því að þjálfun eftirlitsmanna, þar með talin framhaldsþjálfun, verði samræmd. Slík samvinna getur falist í gagnkvæmum skiptum á tengifulltrúum.

8. gr.

    Framkvæmdanefndin skal taka nauðsynlegar ákvarðanir um einstök hagnýt atriði er varða framkvæmd eftirlits á landamærunum.

3. KAFLI
Vegabréfsáritanir
1. þáttur
Vegabréfsáritanir til stuttrar dvalar
9. gr.

    1.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig til þess að fylgja sameiginlegri stefnu í því sem varðar för fólks, sérstaklega með tilliti til reglna um vegabréfsáritanir. Með þetta í huga skulu þeir veita hver öðrum gagnkvæma aðstoð. Samningsaðilarnir skuldbinda sig einhuga til að samræma enn frekar stefnuna í málum sem varða vegabréfsáritanir.
    2.     Sameiginlegum reglum samningsaðilanna um vegabréfsáritanir fyrir ríkisborgara frá þriðju ríkjum, sem gilda við undirritun þessa samnings eða verða teknar upp síðar, verður aðeins breytt með samþykki allra samningsaðilanna. Í undantekningartilvikum getur samningsaðili vikið frá sameiginlegum reglum um vegabréfsáritanir gagnvart þriðja ríki þegar brýn þörf er á skjótri ákvörðun með tilliti til innlendrar stefnu þess aðila. Sá aðili skal hafa samráð við hina samningsaðilana fyrir fram og taka tillit til hagsmuna þeirra þegar ákvörðun er tekin og taka tillit til þeirra afleiðinga sem hún hefur í för með sér.

10. gr.

    1.     Taka skal upp samræmda vegabréfsáritun sem gildir á yfirráðasvæði allra samningsaðilanna. Þessa vegabréfsáritun má gefa út til dvalar í allt að þrjá mánuði; sjá þó nánar ákvæði 11. gr. um gildistíma.
    2.     Þangað til vegabréfsáritun af þessu tagi hefur verið tekin upp skulu samningsaðilarnir viðurkenna vegabréfsáritanir hinna landanna svo framarlega sem þær eru gefnar út á grundvelli sameiginlegra skilyrða og viðmiðana samkvæmt viðkomandi ákvæðum þessa kafla. 3
    3.     Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. áskilur hver samningsaðili sér rétt til að takmarka gildissvæði vegabréfsáritunarinnar á grundvelli sameiginlegs fyrirkomulags samkvæmt viðkomandi ákvæðum þessa kafla.

11. gr.

    1.     Vegabréfsáritunin, sem kveðið er á um í 10. gr., getur verið:
     a)      vegabréfsáritun sem gildir fyrir eina eða fleiri komur inn á svæðið, en hvorki samfelldur né samanlagður dvalartími nokkurra heimsókna í röð má vera lengri en þrír mánuðir á hálfs árs tímabili miðað við þann dag sem fyrst er komið inn á svæðið;
     b)      vegabréfsáritun vegna gegnumferðar sem veitir handhafa heimild til þess að fara einu sinni, tvisvar eða oftar í undantekningartilvikum um yfirráðasvæði samningsaðilanna yfir á yfirráðasvæði þriðja ríkis, enda taki gegnumferðin að hámarki fimm daga.
    2.     Ákvæði 1. mgr. skulu ekki koma í veg fyrir að samningsaðili geti, ef með þarf, gefið út á framangreindu hálfs árs tímabili nýja vegabréfsáritun sem gildir eingöngu á yfirráðasvæði þess aðila.

12. gr

    1.     Samræmda vegabréfsáritunin, sem kveðið er á um í 1. mgr. 10. gr., skal gefin út af sendiráðum eða ræðisskrifstofum samningsaðilanna og, þar sem við á, af þeim yfirvöldum samningsaðilanna sem tilgreind eru í 17. gr.
    2.     Meginreglan er sú að þar til bær samningsaðili til útgáfu slíkrar vegabréfsáritunar er samningsaðilinn þar sem aðalákvörðunarstaður ferðarinnar er. Ef ekki er hægt að fastákveða þennan ákvörðunarstað er meginreglan sú að vegabréfsáritun er gefin út af sendiráði eða ræðisskrifstofu þess samningsaðila sem fyrst er komið inn til.
    3.     Framkvæmdanefndin kveður nánar á um framkvæmdina og einkum þær viðmiðanir sem verða notaðar við að úrskurða hver teljist aðalákvörðunarstaður ferðarinnar.

13. gr.

    1.     Ekki má setja vegabréfsáritun í ferðaskilríki sem eru fallin úr gildi.
    2.     Ferðaskilríki skulu hafa lengri gildistíma en vegabréfsáritunin og þá skal tekið tillit til þess hve lengi má fresta því að nota vegabréfsáritunina. Vegabréfsáritun skal taka til ferðar útlendings til baka til upprunalands síns eða komu inn í þriðja ríki.

14. gr.

    1.     Ekki má setja vegabréfsáritun í ferðaskilríki sem gilda ekki hjá neinum samningsaðila. Ef ferðaskilríkin gilda aðeins hjá einum samningsaðila eða nokkrum samningsaðilum skal vegabréfsáritunin, sem sett er í þau, takmörkuð við þann eða þá samningsaðila.
    2.     Ef ferðaskilríki eru ekki tekin gild hjá einum eða fleiri samningsaðilum má gefa út leyfi sem kemur í stað vegabréfsáritunar.

15. gr.

    Meginreglan er sú að aðeins má gefa út vegabréfsáritanirnar, sem um getur í 10. gr., til handa útlendingi sem uppfyllir komuskilyrðin sem kveðið er á um í a-, c-, d- og e-lið 1. mgr. 5. gr.

16. gr.

    Telji samningsaðili nauðsynlegt að víkja frá meginreglunni, sem mælt er fyrir um í 15. gr., af einhverri þeirra ástæðna sem kveðið er á um í 2. mgr. 5. gr., og gefa út vegabréfsáritun til handa útlendingi sem uppfyllir ekki öll komuskilyrðin sem um getur í 1. mgr. 5. gr., gildir vegabréfsáritunin aðeins á yfirráðasvæði þess samningsaðila og skal hann gera hinum samningsaðilunum grein fyrir þessu.

17. gr.

    1.     Framkvæmdanefndin skal setja sameiginlegar reglur um meðferð umsókna um vegabréfsáritun, fylgjast með því að þær séu notaðar rétt og laga þær að nýjum aðstæðum og tilvikum.
    2.     Framkvæmdanefndin skal einnig ákveða í hvaða tilvikum útgáfa vegabréfsáritunar er háð samráði við miðlægt yfirvald þess samningsaðila, sem fékk umsóknina til meðferðar, og, ef við á, við miðlæg yfirvöld hinna samningsaðilanna.
    3.     Framkvæmdanefndin skal jafnframt taka nauðsynlegar ákvarðanir um eftirfarandi atriði:
     a)      ferðaskilríki sem mega bera vegabréfsáritun;
     b)      þá aðila sem eru þar til bærir að gefa út vegabréfsáritanir;
     c)      skilyrði fyrir útgáfu vegabréfsáritana á landamærum;
     d)      útlit, efni og gildistíma vegabréfsáritana og gjald sem skal innheimt fyrir útgáfu þeirra;
     e)      skilyrði fyrir framlengingu eða synjun um vegabréfsáritanirnar, sem um getur í c- og d- lið, með tilliti til hagsmuna allra samningsaðilanna;
     f)      takmarkanir á gildissvæði vegabréfsáritana;
     g)      meginreglur sem gilda um gerð sameiginlegrar skrár yfir þá sem synja á um komu, sbr. þó ákvæði 96. gr.

2. þáttur
Vegabréfsáritanir til langrar dvalar
18. gr.

    Vegabréfsáritanir til lengri dvalar en þriggja mánaða eru áritanir viðkomandi lands sem einstakir samningsaðilar gefa út í samræmi við eigin löggjöf. Vegabréfsáritun af því tagi heimilar handhafa að fara í gegnum yfirráðasvæði hinna samningsaðilanna til þess að komast inn á yfirráðasvæði þess samningsaðila sem gaf vegabréfsáritunina út, nema hann uppfylli ekki komuskilyrðin sem um getur í a-, d- og e-lið 1. mgr. 5. gr. eða sé á skrá yfir þá sem synja á um komu hjá þeim samningsaðila sem ræður yfirráðasvæðinu sem hann óskar að fara í gegnum.

4. KAFLI
Skilyrði fyrir för útlendinga
19. gr.

    1.     Útlendingar, sem eru handhafar samræmdrar vegabréfsáritunar og hafa komið löglega inn á yfirráðasvæði eins samningsaðila, hafa frelsi til að fara um yfirráðasvæði allra samningsaðilanna á meðan vegabréfsáritunin er í gildi, að því tilskildu að þeir uppfylli komuskilyrðin sem um getur í a-, c-, d- og e-lið 1. mgr. 5. gr.
    2.     Þangað til samræmd vegabréfsáritun verður tekin upp hafa útlendingar, sem eru handhafar vegabréfsáritunar sem er gefin út af einum samningsaðilanna og hafa komið löglega inn á yfirráðasvæði eins samningsaðila, frelsi til að fara um yfirráðasvæði allra samningsaðilanna á meðan vegabréfsáritunin er í gildi í allt að þrjá mánuði frá þeim degi sem þeir komu fyrst inn á svæðið, að því tilskildu að þeir uppfylli komuskilyrðin sem um getur í a-, c-, d- og e-lið 1. mgr. 5. gr. 4
    3.     Ekki skal beita ákvæðum 1. og 2. mgr. um vegabréfsáritanir sem hafa takmarkað gildissvæði í samræmi við ákvæði 3. kafla þessa bálks.
    4.     Ákvæði þessarar greinar gilda með fyrirvara um ákvæði 22. gr.

20. gr.

    1.     Útlendingar, sem falla ekki undir kvöð um vegabréfsáritun, hafa frelsi til að fara um yfirráðasvæði samningsaðilanna í allt að þrjá mánuði á sex mánaða tímabili frá þeim degi sem þeir komu fyrst inn á svæðið, að því tilskildu að þeir uppfylli komuskilyrðin sem um getur í a-, c-, d- og e-lið 1. mgr. 5. gr.
    2.     Ákvæði 1. mgr. hafa ekki áhrif á rétt hvers samningsaðila um sig til að heimila á yfirráðasvæði sínu að útlendingur dvelji lengur en þrjá mánuði í undantekningartilvikum eða vegna framkvæmdar tvíhliða samkomulags sem gert hefur verið áður en þessi samningur öðlast gildi.
    3.     Ákvæði þessarar greinar gilda með fyrirvara um ákvæði 22. gr.

21. gr.

    1.     Útlendingar, sem eru handhafar gilds dvalarleyfis, sem er gefið út af einum samningsaðilanna, og gildra ferðaskilríkja, hafa frelsi til að fara um yfirráðasvæði hinna samningsaðilanna í allt að þrjá mánuði, að því tilskildu að þeir uppfylli komuskilyrðin, sem um getur í a-, c- og e-lið 1. mgr. 5. gr., og séu ekki á innlendri skrá viðkomandi samningsaðila yfir þá sem synja á um komu.
    2.     Ákvæði 1. mgr. gilda einnig um útlendinga sem eru handhafar bráðabirgðadvalarleyfis, sem er gefið út af einum samningsaðilanna, og ferðaskilríkja sem eru gefin út af sama samningsaðila.
    3.     Samningsaðilarnir skulu senda framkvæmdanefndinni skrá yfir þau skjöl sem þeir gefa út sem dvalarleyfi eða bráðabirgðadvalarleyfi og sem ferðaskilríki í skilningi þessarar greinar.
    4.     Ákvæði þessarar greinar gilda með fyrirvara um ákvæði 22. gr.

22. gr.

    1.     Útlendingum, sem hafa komið löglega inn á yfirráðasvæði eins samningsaðilanna, er skylt að tilkynna sig hjá þar til bærum yfirvöldum á yfirráðasvæði þess samningsaðila, sem komið er til, í samræmi við þau skilyrði sem hver samningsaðili um sig setur. Hver samningsaðili um sig getur valið um hvort tilkynningin á sér stað við komu eða innan þriggja virkra daga frá komudegi inn á yfirráðasvæði viðkomandi samningsaðila.
    2.     Útlendingar, sem eru búsettir á yfirráðasvæði eins samningsaðila og ferðast inn á yfirráðasvæði annars samningsaðila, falla undir tilkynningarskyldu skv. 1. mgr.
    3.     Hver samningsaðili um sig skal ákveða undantekningar frá 1. og 2. mgr. og tilkynna framkvæmdanefndinni um þær.

23. gr.

    1.     Útlendingar, sem uppfylla ekki eða uppfylla ekki lengur þau skilyrði fyrir stuttri dvöl sem gilda á yfirráðasvæði eins samningsaðila, skulu fylgja þeirri meginreglu að yfirgefa tafarlaust yfirráðasvæði samningsaðilanna.
    2.     Ef útlendingur er handhafi gilds dvalarleyfis eða bráðabirgðadvalarleyfis sem annar samningsaðili hefur gefið út skal hann fara tafarlaust yfir á yfirráðasvæði þess samningsaðila.
    3.     Fari viðkomandi útlendingur ekki sjálfviljugur úr landi, eða ef ætla má að hann muni ekki fara úr landi, eða verði útlendingur að fara tafarlaust úr landi vegna þjóðaröryggis eða allsherjarreglu skal vísa honum brott af yfirráðasvæði samningsaðilans, þar sem hann var handtekinn, í samræmi við innlend lög þess samningsaðila. Ef brottvísun er óheimil samkvæmt þessum lögum má viðkomandi samningsaðili heimila útlendingnum dvöl á yfirráðasvæði sínu.
    4.     Viðkomandi útlendingi má vísa brott af yfirráðasvæði þess ríkis til upprunalands síns eða til einhvers annars lands sem hann má koma til, einkum samkvæmt viðeigandi ákvæðum samninga um endurviðtöku sem samningsaðilarnir hafa samþykkt.
    5.     Ákvæði 4. mgr. hafa ekki áhrif á innlend ákvæði um rétt til hælis, ákvæði Genfarsamningsins frá 28. júlí 1951 um réttarstöðu flóttamanna, eins og honum var breytt með New York-bókuninni frá 31. janúar 1967, né ákvæði 2. mgr. þessarar greinar né 1. mgr. 33. gr. þessa samnings.

24. gr.

    Með fyrirvara um viðeigandi hagnýtar viðmiðanir og fyrirkomulag, sem framkvæmdanefndin ákveður, skulu samningsaðilarnir jafna sín á milli þann mismun á kostnaði sem getur leitt af brottvísunarskyldu eins og kveðið er á um í 23. gr. þegar viðkomandi útlendingur getur ekki staðið straum af kostnaði við brottvísunina.

5. KAFLI
Dvalarleyfi og skráning þegar synja á um komu
25. gr.

    1.     Hafi samningsaðili í hyggju að veita útlendingi, sem er á skrá yfir þá sem synja á um komu, dvalarleyfi er haft samráð fyrir fram við þann samningsaðila sem skráði hann og skal taka tillit til hagsmuna þess aðila; dvalarleyfi skal aðeins veitt þegar um þungvægar ástæður er að ræða, sérstaklega mannúðarástæður eða ástæður sem leiðir af alþjóðlegum skuldbindingum.
    Ef dvalarleyfi er gefið út skal samningsaðilinn, sem skráði viðkomandi útlending, afturkalla skráninguna en er þó heimilt að hafa hann á sinni landsskrá.
    2.     Komi í ljós að útlendingur, sem hefur undir höndum gilt dvalarleyfi útgefið af einum samningsaðilanna, hefur verið skráður sem einstaklingur sem synja á um komu skal samningsaðilinn, sem skráði hann, hafa samráð við samningsaðilann, sem gaf út dvalarleyfið, um það hvort fullnægjandi ástæður eru til þess að afturkalla dvalarleyfið.
    Ef dvalarleyfið er ekki afturkallað skal samningsaðilinn, sem skráði hann, afturkalla skráninguna en er þó heimilt að hafa hann á sinni landsskrá.

6. KAFLI
Viðbótarráðstafanir
26. gr.

    1.     Með fyrirvara um þær skuldbindingar, sem leiðir af Genfarsamningnum frá 28. júlí 1951 um réttarstöðu flóttamanna, eins og honum var breytt með New York-bókuninni frá 31. janúar 1967, skuldbinda samningsaðilarnir sig til að taka upp eftirfarandi reglur í innlenda löggjöf:
     a)      Ef útlendingi er synjað um komu inn á yfirráðasvæði eins samningsaðilanna skal flutningsaðilinn, sem flutti hann að ytri landamærunum, hvort sem það var loft-, sjó- eða landleiðis, taka tafarlaust á sig ábyrgð á viðkomandi. Að kröfu þeirra yfirvalda, sem annast landamæraeftirlit, skal flutningsaðilinn flytja útlendinginn til baka til þess þriðja ríkis, sem hann kom frá, til þess þriðja ríkis, sem gaf út ferðaskilríkin sem hann notaði á ferðalaginu, eða til einhvers annars þriðja ríkis sem tryggir honum aðgang.
     b)      Flutningsaðilanum ber skylda til að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til að fullvissa sig um að útlendingur, sem er fluttur loft- eða sjóleiðis, hafi undir höndum nauðsynleg ferðaskilríki til komu inn á yfirráðasvæði samningsaðilanna.
    2.     Með fyrirvara um þær skuldbindingar, sem leiðir af Genfarsamningnum frá 28. júlí 1951 um réttarstöðu flóttamanna, eins og honum var breytt með New York-bókuninni frá 31. janúar 1967, skuldbinda samningsaðilarnir sig til að taka upp viðurlög, hver í samræmi við eigin stjórnskipunarlög, gagnvart þeim flutningsaðilum sem flytja útlendinga, sem hafa ekki nauðsynleg ferðaskilríki undir höndum, loft- eða sjóleiðis frá þriðja ríki inn á yfirráðasvæði samningsaðilanna.
    3.     Ákvæði b-liðar 1. mgr. og 2. mgr. skulu einnig gilda um flutningsaðila sem annast alþjóðlega hópflutninga fólks í langferðabifreiðum, að undanskildum ferðum yfir landamæri.

27. gr.

    1.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig til að taka upp viðeigandi viðurlög gagnvart öllum þeim sem í hagnaðarskyni hjálpa eða reyna að hjálpa útlendingi við að komast inn á yfirráðasvæði eins samningsaðila eða dvelja þar í andstöðu við lög þess aðila um komu og dvöl útlendinga.
    2.     Fái samningsaðili upplýsingar um málsatvik, eins og um getur í 1. mgr., sem stríða gegn löggjöf annars samningsaðila skal hann upplýsa þann síðarnefnda um málsatvik.
    3.     Hafi löggjöf eins samningsaðila verið brotin, og hann farið þess á leit við annan samningsaðila að hefja lögsókn vegna málsatvikanna sem um getur í 1. mgr., skulu þar til bær yfirvöld gefa út opinbera tilkynningu eða staðfestingu á því hvaða lagaákvæði hafa verið brotin.

7. KAFLI 5
Ábyrgð á meðferð beiðna um hæli
28. gr.

    Samningsaðilarnir staðfesta hér með skuldbindingar sínar samkvæmt Genfarsamningnum frá 28. júlí 1951 um réttarstöðu flóttamanna, eins og honum var breytt með New York- bókuninni frá 31. janúar 1967, án nokkurra landfræðilegra takmarkana á gildissviði þessara gerninga, svo og ásetning sinn um að eiga samstarf við flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna við framkvæmd þessara gerninga.

29. gr.

    1.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig til að fjalla um sérhverja beiðni um hæli sem útlendingur leggur inn á yfirráðasvæði einhvers samningsaðila.
    2.     Þessi skuldbinding felur ekki í sér að viðkomandi samningsaðila beri í öllum tilvikum að leyfa beiðanda um hæli að koma inn á eða dvelja á yfirráðasvæði sínu.
    Hver samningsaðili um sig heldur þeim rétti að vísa beiðanda um hæli til baka til þriðja ríkis eða vísa honum úr landi samkvæmt eigin ákvæðum eða í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar.
    3.     Aðeins einn samningsaðili ber ábyrgð á meðferð beiðni um hæli, óháð því hjá hvaða samningsaðila útlendingur hefur lagt inn umrædda beiðni. Skal það ákvarðað á grundvelli þeirra viðmiðana sem mælt er fyrir um í 30. gr.
    4.     Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. heldur hver samningsaðili um sig þeim rétti að fara með beiðni um hæli, af sérstökum ástæðum sem tengjast einkum landslögum, jafnvel þó að ábyrgðin hvíli á öðrum samningsaðila samkvæmt þessum samningi.

30. gr.

    1.     Ákvarðað er hvaða samningsaðili telst bera ábyrgð á meðferð beiðni um hæli með hliðsjón af eftirfarandi:
     a)      Hafi einn samningsaðili gefið út einhvers konar vegabréfsáritun eða dvalarleyfi til handa beiðanda um hæli ber sá samningsaðili ábyrgð á meðferð beiðninnar um hæli. Hafi vegabréfsáritunin verið veitt á grundvelli heimildar annars samningsaðila þá ber sá aðili ábyrgð sem veitti heimildina.
     b)      Hafi fleiri en einn samningsaðili gefið út einhvers konar vegabréfsáritun eða dvalarleyfi til handa beiðanda um hæli ber sá samningsaðili ábyrgð sem gaf út vegabréfsáritunina eða dvalarleyfið sem fellur síðast úr gildi.
     c)      Hafi beiðandi um hæli ekki yfirgefið yfirráðasvæði samningsaðilanna helst sú ábyrgð sem kveðið er á um í a- og b-lið jafnvel þó að vegabréfsáritunin, af hvaða tegund sem hún er, eða dvalarleyfið sé útrunnið. Hafi beiðandi um hæli yfirgefið yfirráðasvæði samningsaðilanna eftir að vegabréfsáritunin eða dvalarleyfið hefur verið gefið út eru þau skjöl lögð til grundvallar við að ákvarða ábyrgð samkvæmt a- og b-lið, nema þau séu útrunnin miðað við landslög.
     d)      Hafi samningsaðilarnir leyst beiðanda um hæli undan kvöð um vegabréfsáritun ber sá samningsaðili ábyrgð sem ræður ytri landamærunum sem beiðandi um hæli kom yfir inn á yfirráðasvæði samningsaðilanna.
             Á meðan stefna í málum, er varða vegabréfsáritanir, hefur ekki verið algerlega samræmd, og beiðandi um hæli er aðeins laus undan kvöð um vegabréfsáritanir hjá tilteknum samningsaðilum, ber sá samningsaðili ábyrgð sem ræður ytri landamærunum sem beiðandi um hæli kom yfir inn á yfirráðasvæði samningsaðilanna án vegabréfsáritunar, sbr. þó a-, b- og c-lið.
             Ef beiðni um hæli er beint til samningsaðila, sem hefur veitt viðkomandi beiðanda um hæli vegabréfsáritun til gegnumferðar, óháð því hvort hann hefur sætt vegabréfaeftirliti eða ekki, og hafi sú vegabréfsáritun verið veitt eftir að aðilar gegnumferðarlandsins hafa fengið fullvissu um það hjá yfirvöldum ræðisskrifstofu eða sendiráðs þess samningsaðila, þar sem ákvörðunarstaður ferðarinnar er, að beiðandi um hæli uppfylli skilyrði fyrir því að koma inn í ákvörðunarlandið, ber samningsaðilinn, þar sem ákvörðunarstaður ferðarinnar er, ábyrgð á meðferð beiðni um hæli.
     e)      Hafi beiðandi um hæli komið inn á yfirráðasvæði samningsaðilanna án þess að hafa undir höndum ein eða fleiri skilríki, samkvæmt ákvörðun framkvæmdanefndarinnar, sem veita heimild til að fara yfir landamærin ber sá samningsaðili ábyrgð sem hefur hleypt beiðanda um hæli yfir ytri landamærin hjá sér og inn á yfirráðasvæði samningsaðilanna.
     f)      Leggi útlendingur, sem er með beiðni um hæli til meðferðar hjá einum samningsaðilanna, fram nýja beiðni ber sá samningsaðili ábyrgð sem er með upprunalegu beiðnina til meðferðar.
     g)      Leggi útlendingur, sem hefur áður lagt fram beiðni um hæli og einn samningsaðilanna hefur tekið endanlega ákvörðun um, fram nýja beiðni þá ber sá samningsaðili ábyrgð sem hafði fyrri beiðnina til meðferðar, nema beiðandi um hæli hafi yfirgefið yfirráðasvæði samningsaðilanna.
    2.     Hafi samningsaðili tekið að sér meðferð beiðni um hæli skv. 4. mgr. 29. gr. er samningsaðilinn, sem ber ábyrgð skv. 1. mgr. þessarar greinar, leystur undan skyldum sínum.
    3.     Ef ekki er unnt að ákvarða á grundvelli viðmiðananna sem mælt er fyrir um í 1. og 2. mgr. hvaða samningsaðili ber ábyrgð telst sá samningsaðili bera ábyrgð þar sem umrædd beiðni um hæli var lögð fram.

31. gr.

    1.     Samningsaðilarnir skulu leggja sig fram um að ákvarða, eins fljótt og unnt er, hver þeirra beri ábyrgð á meðferð beiðni um hæli.
    2.     Ef beiðni um hæli er beint til samningsaðila sem ber ekki ábyrgð á meðferð beiðni skv. 30. gr. og dvelji útlendingurinn á yfirráðasvæði hans getur sá samningsaðili farið þess á leit við samningsaðilann sem ber ábyrgð að taka við beiðanda um hæli með það í huga að taka beiðni hans um hæli til meðferðar.
    3.     Samningsaðili, sem ber ábyrgð á meðferð beiðni, er skuldbundinn til þess að taka við beiðanda um hæli sem um getur í 2. mgr. þegar þess er farið á leit innan sex mánaða frá því að beiðni um hæli var lögð fram. Ef þess er ekki farið á leit innan þessa frests ber sá samningsaðili, sem beiðni um hæli var beint til, ábyrgð á meðferð beiðninnar.

32. gr.

    Farið er með beiðni um hæli í samræmi við innlend lög þess samningsaðila sem ber ábyrgð á meðferð beiðninnar.

33. gr.

    1.     Dvelji beiðandi um hæli ólöglega á yfirráðasvæði annars samningsaðila á meðan beiðni um hæli er til meðferðar ber þeim samningsaðila, sem ber ábyrgð á meðferð beiðninnar, skylda til að taka við viðkomandi beiðanda aftur.
    2.     Ekki skal beita ákvæðum 1. mgr. þegar annar samningsaðili hefur gefið út dvalarleyfi handa beiðanda um hæli sem gildir í eitt ár eða lengur. Í því tilviki flyst ábyrgð á meðferð beiðninnar til þess samningsaðila.

34. gr.

    1.     Samningsaðilanum, sem ber ábyrgð á meðferð beiðni, ber skylda til að taka aftur við útlendingi sem hefur endanlega verið neitað um hæli og hefur farið inn á yfirráðasvæði annars samningsaðila án þess að hafa leyfi til að dvelja þar.
    2.     Ekki skal þó beita ákvæðum 1. mgr. ef samningsaðilinn, sem ber ábyrgð á meðferð beiðni, hefur vísað viðkomandi útlendingi brott af yfirráðasvæði samningsaðilanna.

35. gr.

    1.     Samningsaðilanum, sem hefur veitt útlendingi réttarstöðu flóttamanns og heimilað dvöl hans, ber skylda til að taka á sig ábyrgð á meðferð beiðni um hæli frá aðstandanda hans svo framarlega sem hlutaðeigandi eru því samþykkir.
    2.     Aðstandandi, sem um getur í 1. mgr., er maki flóttamanns eða einhleypt barn hans undir átján ára aldri eða, ef flóttamaðurinn er einhleypt barn undir átján ára aldri, faðir hans eða móðir.

36. gr.

    Samningsaðili, sem ber ábyrgð á meðferð beiðni um hæli, getur farið þess á leit við annan samningsaðila að hann taki að sér að annast beiðnina af mannúðarástæðum, sérstaklega þeim sem snerta fjölskyldu eða menningu, fari beiðandi sjálfur fram á slíkt. Samningsaðilinn, sem beiðninni er beint til, metur hvort unnt er að verða við þessari beiðni.

37. gr.

    1.     Þar til bær yfirvöld samningsaðilanna skulu tilkynna hvert öðru eins fljótt og unnt er um:
     a)      nýjar reglur eða ráðstafanir sem samþykktar hafa verið á sviði laga um rétt til hælis eða varðandi meðferð beiðenda um hæli, í síðasta lagi við gildistöku þeirra;
     b)      tölulegar upplýsingar um fjölda þeirra sem koma og biðja um hæli í hverjum mánuði, ásamt upplýsingum um helstu upprunalönd og um ákvarðanir um beiðnir um hæli þegar þær upplýsingar eru fyrir hendi;
     c)      tilkomu nýrra hópa, sem biðja um hæli, eða verulega aukningu í ákveðnum hópum og allar fyrirliggjandi upplýsingar um þá;
     d)      grundvallarákvarðanir á sviði laga um rétt til hælis.
    2.     Samningsaðilarnir skulu auk þess tryggja nána samvinnu við öflun upplýsinga um aðstæður í upprunalöndum beiðenda um hæli í þeim tilgangi að leggja sameiginlega mat á aðstæður.
    3.     Samningsaðilarnir skulu virða tilmæli samningsaðila um að fara með upplýsingar frá honum sem trúnaðarmál.

38. gr.

    1.     Hver samningsaðili um sig lætur hverjum af hinum samningsaðilunum í té, að beiðni þeirra, fyrirliggjandi upplýsingar um beiðanda um hæli sem eru nauðsynlegar til þess að:
          ákvarða hvaða samningsaðili ber ábyrgð á meðferð beiðni um hæli;
          taka viðkomandi beiðni um hæli til meðferðar;
          efna þær skuldbindingar sem koma fram í þessum kafla.
    2.     Einungis eftirfarandi upplýsingar mega koma fram:
     a)      hver maðurinn er (kenninafn, eiginnafn, hugsanlega fyrra nafn, auknefni eða fölsk nöfn, fæðingardagur og -ár, fæðingarstaður, núverandi og fyrrverandi ríkisfang beiðanda um hæli og, ef við á, aðstandenda hans);
     b)      persónuskilríki og ferðaskilríki (númer, gildistími, útgáfustaður og útgáfudagur, yfirvöld sem gáfu út skilríkin o.s.frv.);
     c)      aðrar upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að staðfesta hver beiðandi um hæli er;
     d)      dvalarstaðir og ferðaleiðir;
     e)      dvalarleyfi eða vegabréfsáritanir sem samningsaðili hefur gefið út;
     f)      staðurinn þar sem beiðni um hæli er lögð fram;
     g)      dagsetning þegar fyrri beiðni um hæli er lögð fram, ef við á, dagsetning þegar núverandi beiðni um hæli er lögð fram, upplýsingar um stöðu málsins og efni ákvörðunarinnar sem tekin hefur verið.
    3.     Auk þess getur samningsaðili farið þess á leit við annan samningsaðila að hann gefi upplýsingar um ástæðurnar, sem beiðandi um hæli hefur lagt fram til stuðnings beiðni sinni, og eftir atvikum ástæður þeirrar ákvörðunar sem tekin hefur verið um hana. Samningsaðilinn, sem beiðninni er beint til, tekur afstöðu til þess hvort hann getur orðið við þessari beiðni. Í öllum tilvikum er samþykki beiðanda um hæli skilyrði fyrir því að þessar upplýsingar séu látnar í té.
    4.     Skipst skal á framangreindum upplýsingum að beiðni eins samningsaðila og fara upplýsingaskiptin aðeins fram á milli þeirra yfirvalda sem hver samningsaðili um sig hefur tilnefnt og tilkynnt framkvæmdanefndinni um.
    5.     Upplýsingarnar má aðeins nota í þeim tilgangi sem mælt er fyrir um í 1. mgr. Þær má aðeins senda til þeirra yfirvalda og dómstóla sem hafa það verkefni að:
          ákvarða hvaða samningsaðili ber ábyrgð á meðferð beiðni um hæli;
          taka beiðni um hæli til meðferðar;
          efna þær skuldbindingar sem koma fram í þessum kafla.
    6.     Samningsaðilinn, sem sendir upplýsingarnar, gætir þess að þær séu réttar og uppfærðar.
    Komi í ljós að viðkomandi samningsaðili hafi látið í té rangar upplýsingar, eða upplýsingar sem ekki hefði átt að senda, skal tilkynna það tafarlaust þeim samningsaðilum sem tóku við þeim upplýsingum. Þeim ber skylda til að leiðrétta eða eyða upplýsingunum.
    7.     Beiðandi um hæli hefur rétt á því samkvæmt beiðni að fá að sjá þær upplýsingar sem skipst hefur verið á og varða hann svo framarlega sem þær eru tiltækar.
    Telji beiðandi um hæli að þessar upplýsingar séu rangar eða að ekki hefði átt að senda þær hefur hann rétt til að krefjast þess að þær verði leiðréttar eða þeim eytt. Leiðréttingar skulu gerðar í samræmi við 6. mgr.
    8.     Hverjum samningsaðila um sig ber skylda til að skrá þær upplýsingar sem hann sendir eða fær frá öðrum.
    9.     Upplýsingar, sem sendar hafa verið, skulu aðeins geymdar eins lengi og nauðsynlegt er í þeim tilgangi sem þær voru sendar til að þjóna. Viðkomandi samningsaðili skal meta þegar þar að kemur hvort nauðsynlegt er að geyma upplýsingarnar áfram.
    10.      Upplýsingar, sem sendar eru, skulu að minnsta kosti njóta sömu verndar og þeirrar sem gildir, samkvæmt lögum þess samningsaðila sem tekur við upplýsingunum, fyrir sams konar upplýsingar.
    11.      Ef upplýsingarnar eru ekki skráðar vélrænt heldur á einhvern annan hátt skal hver samningsaðili um sig gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja með skilvirku eftirliti að farið sé að ákvæðum þessarar greinar. Hafi samningsaðili yfir að ráða eftirlitsstofnun af þeirri gerð sem um getur í 12. mgr. getur hann falið henni að annast eftirlitið.
    12.      Óski einn eða fleiri samningsaðilar eftir því að tölvuskrá þær upplýsingar sem um getur í 2. og 3. mgr., allar eða að hluta til, er það því aðeins leyfilegt að viðkomandi samningsaðilar hafi samþykkt löggjöf um slíka tölvuskráningu sem tryggir framkvæmd meginreglna samnings Evrópuráðsins frá 28. janúar 1981 um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga og að þeir hafi falið viðeigandi innlendri stofnun að annast óháð eftirlit með vinnslu og notkun þeirra upplýsinga sem sendar eru samkvæmt þessum samningi.

III. BÁLKUR
Lögregla og öryggi
1. KAFLI
Lögreglusamvinna
39. gr.

    1.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig til þess að tryggja að lögregluyfirvöld þeirra veiti hver öðrum aðstoð, í samræmi við innlenda löggjöf og innan valdsviðs þeirra, við að koma í veg fyrir og rannsaka refsiverða verknaði, svo framarlega sem það er ekki í verkahring dómsmálayfirvalda samkvæmt innlendum lögum að leggja fram eða verða við beiðni um aðstoð og hægt sé að verða við slíkri beiðni án þess að samningsaðilinn, sem beiðni er beint til, þurfi að beita þvingunarráðstöfunum. Hafi lögregluyfirvöldin, sem beiðni er beint til, ekki heimild til að verða við beiðni framsenda þau hana til þar til bærra yfirvalda.
    2.     Skriflegar upplýsingar, sem samningsaðili, sem beiðni er beint til, veitir skv. 1. mgr., má sá samningsaðili, sem leggur fram beiðni, aðeins nota sem sönnunargögn í sakamáli að fengnu leyfi þar til bærra dómsmálayfirvalda þess samningsaðila sem beiðni er beint til.
    3.     Beiðnir um aðstoð skv. 1. mgr. og svör við slíkum beiðnum má senda á milli þeirra miðlægu stofnana sem samningsaðilarnir hafa falið að annast alþjóðlega lögreglusamvinnu. Þegar ekki er hægt að senda beiðni í tæka tíð með þessari aðferð geta lögregluyfirvöld þess samningsaðila, sem leggur fram beiðni, sent beiðnina beint til þar til bærra yfirvalda þess samningsaðila sem beiðni er beint til og þau sent svar beint til baka. Í þeim tilvikum tilkynna viðkomandi lögregluyfirvöld, eins fljótt og unnt er, um þessa milliliðalausu beiðni þeirri miðlægu stofnun sem annast alþjóðlega lögreglusamvinnu fyrir þann samningsaðila sem beiðni er beint til.
    4.     Þar til bærir ráðherrar samningsaðilanna geta gert með sér samkomulag um samvinnu á landamærasvæðum.
    5.     Ákvæði þessarar greinar koma ekki í veg fyrir víðtækari tvíhliða samninga, sem hafa verið eða verða gerðir, milli tveggja samningsaðila sem eiga sameiginleg landamæri. Samningsaðilarnir skulu tilkynna hver öðrum um slíka samninga.

40. gr.

    1.     Hafi lögreglumenn eins samningsaðila, við rannsókn sakamáls í landi sínu, einstakling, sem er grunaður um að hafa tekið þátt í refsiverðum verknaði er getur haft í för með sér framsal, undir eftirliti skal þeim heimilt að halda eftirlitinu áfram á yfirráðasvæði annars samningsaðila hafi hinn síðarnefndi leyft eftirlit yfir landamæri sem svar við áður sendri beiðni um réttaraðstoð. Leyfi getur verið veitt með skilyrðum.
    Samkvæmt beiðni skal eftirlitið falið lögreglumönnum samningsaðilans sem ræður yfirráðasvæðinu þar sem það fer fram.
    Beiðni um réttaraðstoð, sem um getur í 1. lið, skal beina til þess yfirvalds sem hver samningsaðili um sig hefur tilnefnt og er þar til bært að veita eða framsenda slíkt leyfi.
    2.     Ef ekki er hægt að biðja um leyfi annars samningsaðila fyrir fram í sérstaklega áríðandi tilvikum mega lögreglumenn halda eftirlitinu áfram, þó að komið sé yfir landamæri, þegar um er að ræða mann sem er grunaður um einhvern af þeim refsiverðu verknuðum sem kveðið er á um í 7. mgr., að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
     a)      Yfirvaldi, sem er tilnefnt skv. 5. mgr., frá samningsaðilanum, sem ræður yfirráðasvæðinu þar sem eftirliti með einstaklingi skal haldið áfram, skal tafarlaust, á meðan eftirlitið fer fram, tilkynnt um að farið er yfir landamærin.
     b)      Beiðni um réttaraðstoð, sem lögð er fram í samræmi við 1. mgr., skal send tafarlaust og jafnframt gerð grein fyrir ástæðum þess að farið var yfir landamærin án fyrirframleyfis.
    Eftirliti skal hætt um leið og samningsaðilinn, sem ræður yfirráðasvæðinu þar sem eftirlitið fer fram, krefst þess í framhaldi af tilkynningunni sem um getur í a-lið eða beiðninni sem um getur í b-lið eða hafi leyfi ekki fengist fimm klukkustundum eftir að farið var yfir landamærin.
    3.     Eftirlit, sem um getur í 1. og 2. mgr., skal aðeins fara fram með eftirfarandi almennum skilyrðum:
     a)      Lögreglumennirnir, sem sinna eftirlitinu, skulu fara að ákvæðum þessarar greinar og lögum samningsaðilans sem ræður yfirráðasvæðinu sem þeir starfa á; þeir skulu fylgja fyrirmælum þar til bærra staðaryfirvalda.
     b)      Að frátöldum þeim tilvikum sem um getur í 2. mgr. ber lögreglumönnunum, á meðan eftirlitið fer fram, að hafa með sér skjal sem sýnir að leyfi hafi verið veitt.
     c)      Lögreglumennirnir, sem sinna eftirlitinu, verða alltaf að geta sannað að þeir starfi sem opinberir embættismenn.
     d)      Lögreglumennirnir, sem sinna eftirlitinu, mega hafa með sér vinnuvopn sín á meðan á eftirliti stendur, nema samningsaðilinn, sem beiðni er beint til, hafi tekið annað sérstaklega fram; notkun vinnuvopns er ekki leyfileg nema í nauðvörn.
     e)      Bannað er að fara inn á einkaheimili og staði sem eru ekki opnir almenningi.
     f)      Lögreglumennirnir, sem sinna eftirlitinu, mega hvorki stöðva né handtaka þann sem er undir eftirliti.
     g)      Um hverja aðgerð skal gefa yfirvöldum þess samningsaðila, sem ræður yfirráðasvæðinu þar sem aðgerðin átti sér stað, skýrslu; fara má fram á að lögreglumennirnir, sem sinntu eftirlitinu, mæti í eigin persónu.
     h)      Fari yfirvöld samningsaðilans, sem ræður yfirráðasvæðinu þar sem eftirlitið fór fram, fram á það skulu yfirvöld samningsaðilans, þar sem lögreglumennirnir, sem sinntu eftirlitinu, eiga heima, aðstoða við rannsóknina í framhaldi af aðgerðinni, þar með talda málsmeðferð.
    4.     Lögreglumennirnir, sem um getur í 1. og 2. mgr., eru:
          að því er tekur til Konungsríkisins Belgíu: lögreglumenn í „la police judiciaire près les Parquets“ (rannsóknarlögreglu ákæruvaldsins), „la gendarmerie“ (héraðslögreglunni) og „la police communale“ (lögreglu sveitarfélaga), svo og tollverðir, með þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í viðeigandi tvíhliða samningum sem um getur í 6. mgr., að því er tekur til heimilda þeirra varðandi ólögleg viðskipti með fíkniefni og geðvirk efni, vopn og sprengiefni og ólöglegan flutning eitraðs og skaðlegs úrgangs;
          að því er tekur til Sambandslýðveldisins Þýskalands: lögreglumenn í „Polizeien des Bundes und der Länder“ (lögreglu Sambandslýðveldisins og einstakra fylkja), svo og fulltrúar „Zollfahndungsdienst“ (rannsóknardeildar tollyfirvalda) sem fulltrúar opinbers ákæruvalds, eingöngu að því er tekur til ólöglegra viðskipta með fíkniefni og geðvirk efni og vopn;
          að því er tekur til Lýðveldisins Frakklands: lögreglumenn og rannsóknarlögreglumenn í „la police nationale“ (ríkislögreglunni) og „la gendarmerie nationale“ (héraðslögreglunni), svo og tollverðir, með þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í viðeigandi tvíhliða samningum sem um getur í 6. mgr., að því er tekur til heimilda þeirra varðandi ólögleg viðskipti með fíkniefni og geðvirk efni, vopn og sprengiefni og ólöglegan flutning eitraðs og skaðlegs úrgangs;
          að því er tekur til Stórhertogadæmisins Lúxemborgar: lögreglumenn í „la gendarmerie“ (héraðslögreglunni) og „la police“ (lögreglunni), svo og tollverðir, með þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í viðeigandi tvíhliða samningum sem um getur í 6. mgr., að því er tekur til heimilda þeirra varðandi ólögleg viðskipti með fíkniefni og geðvirk efni, vopn og sprengiefni og ólöglegan flutning eitraðs og skaðlegs úrgangs;
          að því er tekur til Konungsríkisins Hollands: lögreglumenn í „Rijkspolitie“ (ríkislögreglu) og „Gemeentepolitie“ (lögreglu sveitarfélaga), svo og fulltrúar skattrannsóknaryfirvalda sem bera ábyrgð á aðflutnings- og vörugjöldum, með þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í viðeigandi tvíhliða samningum sem um getur í 6. mgr., að því er tekur til heimilda þeirra varðandi ólögleg viðskipti með fíkniefni og geðvirk efni, vopn og sprengiefni og ólöglegan flutning eitraðs og skaðlegs úrgangs.
    5.     Yfirvaldið, sem um getur í 1. og 2. mgr., er:
          að því er tekur til Konungsríkisins Belgíu: „Commissariat général de la Police judiciaire“;
          að því er tekur til Sambandslýðveldisins Þýskalands: „Bundeskriminalamt“;
          að því er tekur til Lýðveldisins Frakklands: „Direction centrale de la Police judiciaire“;
          að því er tekur til Stórhertogadæmisins Lúxemborgar: „Procureur général d'Etat“;
          að því er tekur til Konungsríkisins Hollands: „Landelijk Officier van Justitie“ sem ber ábyrgð á eftirliti yfir landamæri.
    6.     Samningsaðilarnir geta með tvíhliða samningum rýmkað gildissvið þessarar greinar og samþykkt aðrar ráðstafanir við framkvæmd hennar.
    7.     Eftirlitinu, sem um getur í 2. mgr., má aðeins sinna þegar um eftirtalda refsiverða verknaði er að ræða:
          morð,
          manndráp,
          nauðgun,
          íkveikju af ásetningi,
          peningafölsun,
          grófan þjófnað, rán og hylmingu,
          kúgun,
          mannrán og gíslatöku,
          mansal,
          ólögleg viðskipti með fíkniefni og geðvirk efni,
          brot á lögum um vopn og sprengiefni,
          notkun sprengiefna,
          ólöglegan flutning eitraðs og skaðlegs úrgangs.

41. gr.

    1.     Lögreglumönnum eins samningsaðila, sem í sínu heimalandi veita eftirför manni, sem hefur verið staðinn að verki við að fremja einn af þeim refsiverðu verknuðum sem um getur í 4. mgr., eða á hlutdeild í verknaði af því tagi, skal heimilt að halda eftirförinni áfram á yfirráðasvæði annars samningsaðila án þess að fá leyfi til þess fyrir fram, hafi ekki verið mögulegt að tilkynna þar til bærum yfirvöldum þess samningsaðila um þetta með einhverri þeirra boðleiða sem kveðið er á um í 44. gr. vegna þess hversu tilefnið var áríðandi eða þessi yfirvöld komust ekki á staðinn í tæka tíð til þess að taka við eftirförinni.
    Hið sama gildir þegar maður, sem veitt er eftirför, hefur strokið úr gæsluvarðhaldi eða fangelsi.
    Lögreglumennirnir, sem veita eftirför, skulu hafa samband við þar til bær yfirvöld þess samningsaðila, sem ræður yfirráðasvæðinu sem eftirförin er veitt á, í síðasta lagi þegar farið er yfir landamærin. Hætta skal eftirför um leið og samningsaðilinn, sem ræður yfirráðasvæðinu sem eftirförin er veitt á, krefst þess. Þar til bær staðaryfirvöld skulu stöðva þann sem veitt er eftirför að beiðni lögreglumannanna sem veita eftirförina til þess að staðfesta hver maðurinn er eða handtaka hann.
    2.     Eftirför skal veita samkvæmt annarri hvorri eftirfarandi aðferða sem eru skilgreindar í yfirlýsingunni sem mælt er fyrir um í 9. mgr.:
     a)      Lögreglumennirnir, sem veita eftirför, hafa ekki rétt til að stöðva þann sem veitt er eftirför.
     b)      Þegar þess hefur ekki verið krafist að eftirförinni skuli hætt og þar til bær staðaryfirvöld hafa ekki gripið inn í í tæka tíð mega lögreglumennirnir, sem veita eftirför, stöðva þann sem veitt er eftirför uns lögreglumenn samningsaðilans, sem ræður yfirráðasvæðinu sem eftirförin er veitt á, en þeir skulu þegar í stað upplýstir um málið, geta staðfest hver maðurinn er eða handtekið hann.
    3.     Eftirför skal veita í samræmi við 1. og 2. mgr. samkvæmt annarri hvorri eftirfarandi aðferða sem eru skilgreindar í yfirlýsingunni sem mælt er fyrir um í 9. mgr.:
     a)      innan ákveðins svæðis eða tíma frá því að farið er yfir landamæri eins og mælt er fyrir um í yfirlýsingunni;
     b)      án takmörkunar í rúmi og tíma.
    4.     Í yfirlýsingunni, sem um getur í 9. mgr., skulu samningsaðilarnir skilgreina þá refsiverðu verknaði, sem um getur í 1. mgr., í samræmi við aðra hvora eftirfarandi aðferða:
     a)      Um er að ræða eftirtalda refsiverða verknaði:
          morð,
          manndráp,
          nauðgun,
          íkveikju af ásetningi,
          peningafölsun,
          grófan þjófnað, rán og hylmingu,
          kúgun,
          mannrán og gíslatöku,
          mansal,
          ólögleg viðskipti með fíkniefni og geðvirk efni,
          brot á lögum um vopn og sprengiefni,
          notkun sprengiefna,
          ólöglegan flutning eitraðs og skaðlegs úrgangs,
          ólöglega brottför af slysstað þegar afleiðingar slyss eru alvarlegir líkamsáverkar eða mannslát.
     a)      Um er að ræða refsiverða verknaði sem geta haft framsal í för með sér.
    5.     Eftirför má aðeins veita með eftirfarandi almennum skilyrðum:
     a)      Lögreglumennirnir, sem veita eftirför, skulu fara að ákvæðum þessarar greinar og lögum þess samningsaðila sem ræður yfirráðasvæðinu sem þeir starfa á; þeir skulu hlýða skipunum þar til bærra staðaryfirvalda.
     b)      Eftirför má aðeins veita yfir landamæri á landi.
     c)      Bannað er að fara inn á einkaheimili og staði sem eru ekki opnir almenningi.
     d)      Lögreglumennirnir, sem veita eftirför, verða að vera auðþekkjanlegir, annað hvort af einkennisbúningi, armbindi eða viðbótarbúnaði á ökutæki; notkun borgaralegs klæðnaðar og ómerktra ökutækja frá lögreglu án framangreindra auðkenna er bönnuð; lögreglumennirnir, sem veita eftirför, verða hvenær sem er að geta sýnt fram á að þeir starfi sem opinberir embættismenn.
     e)      Lögreglumennirnir, sem veita eftirför, mega hafa með sér vinnuvopn sín; notkun vinnuvopns er ekki leyfileg nema í nauðvörn.
     f)      Þegar búið er að stöðva mann sem veitt er eftirför, eins og kveðið er á um í b-lið 2. mgr., í þeim tilgangi að færa hann fyrir þar til bær staðaryfirvöld, má aðeins gera á honum öryggisleit; nota má handjárn meðan verið er að flytja hann; leggja má hald á hluti sem sá sem veitt er eftirför hefur meðferðis.
     g)      Að lokinni hverri aðgerð, sem um getur í 1., 2. og 3. mgr., skulu lögreglumennirnir, sem veita eftirför, mæta hjá þar til bærum staðaryfirvöldum þess samningsaðila, sem ræður yfirráðasvæðinu sem þeir störfuðu á, og gefa skýrslu; að beiðni viðkomandi yfirvalda ber þeim skylda til að vera tiltækir þangað til varpað hefur verið nægilegu ljósi á allar aðstæður í tengslum við aðgerð þeirra; hið sama gildir þó að eftirförin hafi ekki leitt til handtöku þess sem veitt var eftirför.
     h)      Fari yfirvöld samningsaðilans, sem ræður yfirráðasvæðinu sem eftirför var veitt á, fram á það skulu yfirvöld samningsaðilans, þar sem lögreglumennirnir, sem veittu eftirför, eiga heima, aðstoða við rannsóknina í framhaldi af aðgerðinni, þar með talda málsmeðferð.
    6.     Mann, sem er handtekinn af þar til bærum staðaryfirvöldum í kjölfar aðgerðarinnar, sem gripið er til í samræmi við 2. mgr., má hafa í haldi til yfirheyrslu óháð ríkisfangi hans. Viðeigandi ákvæði innlendra laga gilda á hliðstæðan hátt.
    Ef hinn handtekni er ekki ríkisborgari þess samningsaðila sem ræður yfirráðasvæðinu þar sem hann var handtekinn skal honum sleppt í síðasta lagi innan sex klukkustunda frá handtöku og þá telst tíminn frá miðnætti til níu árdegis ekki með, nema þar til bær staðaryfirvöld hafi áður fengið beiðni af einhverju tagi um bráðabirgðahandtöku í þeim tilgangi að fá manninn framseldan.
    7.     Lögreglumennirnir, sem um getur í 1. til 6. mgr., eru:
          að því er tekur til Konungsríkisins Belgíu: lögreglumenn í „la police judiciaire près les Parquets“ (rannsóknarlögreglu ákæruvaldsins), „la gendarmerie“ (héraðslögreglunni) og „la police communale“ (lögreglu sveitarfélaga), svo og tollverðir, með þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í viðeigandi tvíhliða samningum sem um getur í 10. mgr., að því er tekur til heimilda þeirra varðandi ólögleg viðskipti með fíkniefni og geðvirk efni, vopn og sprengiefni og ólöglegan flutning eitraðs og skaðlegs úrgangs;
          að því er tekur til Sambandslýðveldisins Þýskalands: lögreglumenn í „Polizeien des Bundes und der Länder“ (lögreglu Sambandslýðveldisins og einstakra fylkja), svo og fulltrúar „Zollfahndungsdienst“ (rannsóknardeildar tollyfirvalda) sem fulltrúar opinbers ákæruvalds, eingöngu að því er tekur til ólöglegra viðskipta með fíkniefni og geðvirk efni og vopn;
          að því er tekur til Lýðveldisins Frakklands: lögreglumenn og rannsóknarlögreglumenn í „la police nationale“ (ríkislögreglunni) og „la gendarmerie nationale“ (héraðslögreglunni), svo og tollverðir, með þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í viðeigandi tvíhliða samningum sem um getur í 10. mgr., að því er tekur til heimilda þeirra varðandi ólögleg viðskipti með fíkniefni og geðvirk efni, vopn og sprengiefni og ólöglegan flutning eitraðs og skaðlegs úrgangs;
          að því er tekur til Stórhertogadæmisins Lúxemborgar: lögreglumenn í „la gendarmerie“ (héraðslögreglunni) og „la police“ (lögreglunni), svo og tollverðir, með þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í viðeigandi tvíhliða samningum sem um getur í 10. mgr., að því er tekur til heimilda þeirra varðandi ólögleg viðskipti með fíkniefni og geðvirk efni, vopn og sprengiefni og ólöglegan flutning eitraðs og skaðlegs úrgangs;
          að því er tekur til Konungsríkisins Hollands: lögreglumenn í „Rijkspolitie“ (ríkislögreglunni) og „Gemeentepolitie“ (lögreglu sveitarfélaga), svo og fulltrúar skattrannsóknaryfirvalda sem bera ábyrgð á aðflutnings- og vörugjöldum, með þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í viðeigandi tvíhliða samningum sem um getur í 10. mgr., að því er tekur til heimilda þeirra varðandi ólögleg viðskipti með fíkniefni og geðvirk efni, vopn og sprengiefni og ólöglegan flutning eitraðs og skaðlegs úrgangs.
    8.     Ákvæði þessarar greinar hafa ekki, að því er viðkomandi samningsaðila varðar, áhrif á 27. gr. Benelúx-sáttmálans um framsal og gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 27. júní 1962 eins og honum var breytt með bókuninni frá 11. maí 1974.
    9.     Við undirritun þessa samnings skal hver samningsaðili um sig gefa út yfirlýsingu þar sem er kveðið á um, á grundvelli ákvæða 2., 3. og 4. mgr., hvaða aðferðum samningsaðilarnir, sem viðkomandi aðili á sameiginleg landamæri með, beita þegar rétti til eftirfarar er framfylgt á yfirráðasvæði hans.
    Samningsaðili getur hvenær sem er gefið út nýja yfirlýsingu sem kemur í stað eldri yfirlýsingar, svo framarlega sem hin síðari takmarkar ekki gildissvið hinnar fyrri.
    Sérhver yfirlýsing skal gerð að höfðu samráði við alla viðkomandi samningsaðila og með það í huga að sambærilegar reglur séu í gildi báðum megin við innri landamærin.
    10.      Samningsaðilarnir geta á tvíhliða grundvelli rýmkað gildissvið 1. mgr. og samþykkt viðbótarákvæði um framkvæmd þessarar greinar.

42. gr.

    Á meðan á aðgerðunum, sem um getur í 40. og 41. gr., stendur hafa lögreglumenn, sem sinna verkefni á yfirráðasvæði annars samningsaðila, sömu stöðu og lögreglumenn þess samningsaðila með tilliti til refsiverðra verknaða sem þeir verða fyrir eða fremja sjálfir.

43. gr.

    1.     Þegar lögreglumenn eins samningsaðila sinna verkefni á yfirráðasvæði annars samningsaðila, í samræmi við 40. og 41. gr. þessa samnings, ber fyrrnefndur samningsaðili ábyrgð á því tjóni sem þeir kunna að valda meðan á verkefni þeirra stendur, í samræmi við lög þess samningsaðila sem ræður yfirráðasvæðinu sem verkefnið var unnið á.
    2.     Samningsaðili skuldbindur sig til að bæta tjón, sem valdið er á yfirráðasvæði hans og um getur í 1. mgr., á sama hátt og hann myndi bæta tjón af völdum sinna eigin lögreglumanna.
    3.     Samningsaðili með lögreglumenn í sinni þjónustu, sem hafa valdið öðrum tjóni á yfirráðasvæði annars samningsaðila, geldur þeim aðila þá fjárhæð að fullu sem hann hefur þurft að greiða til tjónþola eða til rétthafa þeirra.
    4.     Með fyrirvara um rétt gagnvart þriðja aðila, og að undanskildum ákvæðum 3. mgr., afsalar hver samningsaðili um sig, í því tilviki sem kveðið er á um í 1. mgr., sér réttinum til að krefjast skaðabóta vegna tjóns sem annar samningsaðili hefur valdið honum.

44. gr.

    1.     Í samræmi við viðeigandi alþjóðasamninga og að teknu tilliti til staðbundinna aðstæðna og tæknilegra möguleika skulu samningsaðilarnir, sérstaklega á landamærasvæðum, sjá fyrir síma-, þráðlausu fjarskipta- og telexsambandi og annars konar beinu sambandi í þeim tilgangi að auðvelda samvinnu lögreglu og tolls og einkum til þess að unnt sé að senda upplýsingar í tæka tíð í tengslum við eftirlit og eftirför yfir landamæri.
    2.     Auk þessara skammtímaráðstafana skulu þeir athuga sérstaklega möguleika sem felast í því:
     a)      að skiptast á búnaði eða senda tengifulltrúa til starfa sem hafa yfir að ráða hentugum þráðlausum fjarskiptabúnaði;
     b)      að breikka tíðnisviðin sem notuð eru á landamærasvæðum;
     c)      að koma á fót sameiginlegri tengingu milli lögreglu og tolls sem starfar á þessum sömu svæðum;
     d)      að samræma áætlanir um kaup á fjarskiptabúnaði í þeim tilgangi að koma á fót stöðluðu og samhæfðu fjarskiptakerfi.

45. gr.

    1.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig til þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja:
     a)      að stjórnendur fyrirtækja, sem selja gistingu, eða starfsmenn þeirra sjái til þess að útlendir næturgestir, þar með taldir ríkisborgarar hinna samningsaðilanna svo og annarra aðildarríkja Evrópubandalaganna, nema um maka og ólögráða börn í fylgd með þeim sé að ræða eða þátttakendur í hópferð, fylli út eyðublað eigin hendi og undirriti það og sýni um leið gild persónuskilríki til staðfestingar;
     b)      að útfyllt eyðublöð séu geymd handa þar til bærum yfirvöldum eða send þeim þegar þau telja það nauðsynlegt til að koma í veg fyrir ógnanir, vegna meðferðar sakamáls eða til þess að upplýsa hvað hafi hent horfna menn eða fórnarlömb slysa, nema kveðið sé á um annað í landslögum.
    2.     Ákvæði 1. mgr. gilda á hliðstæðan hátt um næturgesti á stöðum sem eru leigðir út gegn gjaldi, einkum í tjöldum, hjólhýsum og bátum.

46. gr.

    1.     Hver samningsaðili um sig getur í sérstökum tilvikum, í samræmi við innlenda löggjöf, sent viðkomandi samningsaðila upplýsingar án beiðni til þess að aðstoða hann við að berjast gegn refsiverðum verknuðum í framtíðinni og koma í veg fyrir refsiverða verknaði eða verknaði sem ógna allsherjarreglu og almannaöryggi.
    2.     Með fyrirvara um fyrirkomulag samvinnu á landamærasvæðum, sem um getur í 4. mgr. 39. gr., skal skipst á upplýsingum í gegnum þá miðlægu stofnun sem til þess verður tilnefnd. Í sérstaklega áríðandi tilvikum er hægt að senda upplýsingar, í skilningi þessarar greinar, beint á milli viðkomandi lögregluyfirvalda, nema landslög kveði á um annað. Miðlægu stofnuninni skal tilkynnt um slík tilfelli eins fljótt og unnt er.

47. gr.

    1.     Samningsaðilarnir geta gert tvíhliða samninga um að senda, tímabundið eða ótímabundið, tengifulltrúa eins samningsaðila til lögreglu annars samningsaðila.
    2.     Ótímabundin eða tímabundin skipti á tengifulltrúum eru gerð í þeim tilgangi að hvetja samningsaðilana til aukinnar samvinnu og hraða henni, sérstaklega með því að
     a)      aðstoða við að skiptast á upplýsingum til að koma í veg fyrir og berjast gegn afbrotum;
     b)      aðstoða við að verða við beiðnum um gagnkvæma lögreglu- og réttaraðstoð í sakamálum;
     c)      aðstoða yfirvöld sem annast landamæraeftirlit á ytri landamærum.
    3.     Það er verkefni tengifulltrúa að veita ráðgjöf og aðstoð. Þeir hafa ekki heimild til að vinna sjálfstætt að lögregluaðgerðum. Þeir veita upplýsingar og sinna verkefnum sínum í samræmi við fyrirmæli frá samningsaðilanum, sem þeir koma frá, og frá samningsaðilanum sem þeir eru sendir til. Þeir gefa yfirmanni lögregludeildarinnar, sem þeir eru sendir til aðstoðar, reglulega skýrslu.
    4.     Samningsaðilarnir geta gert tvíhliða eða marghliða samninga um að tengifulltrúar, sem eru sendir til þriðju ríkja, gæti einnig hagsmuna eins eða fleiri annarra samningsaðila í starfi sínu. Samkvæmt slíkum samningum senda tengifulltrúar, sem hafa verið sendir til þriðju ríkja, öðrum samningsaðilum upplýsingar, ýmist að beiðni þeirra eða að eigin frumkvæði, og sinna verkefnum fyrir þá aðila innan þess ramma sem þeim er heimilt að starfa. Samningsaðilarnir skulu tilkynna hver öðrum um tengifulltrúa sem þeir hafa í hyggju að senda til þriðju ríkja.

2. KAFLI
Gagnkvæm réttaraðstoð í sakamálum
48. gr.

    1.     Ákvæðum þessa kafla er ætlað að vera viðbót við Evrópusamninginn um gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 20. apríl 1959 og, að því er varðar samskipti samningsaðilanna sem eru aðilar að Benelúx-efnahagssambandinu, viðbót við II. kafla Benelúx-sáttmálans um framsal og gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 27. júní 1962, eins og honum var breytt með bókuninni frá 11. maí 1974, og auðvelda framkvæmd þessara samninga.
    2.     Ákvæði 1. mgr. hafa ekki áhrif á beitingu víðtækari ákvæða í gildandi tvíhliða samningum á milli samningsaðilanna.

49. gr.

    Gagnkvæm réttaraðstoð skal einnig veitt:
     a)      við málsmeðferð vegna verknaða sem samkvæmt landslögum teljast brot á ákvæðum annars eða beggja samningsaðilanna sem stjórnvöld geta tekið ákvörðun um og slíkar ákvarðanir geta leitt til málsmeðferðar fyrir þar til bærum dómstóli í sakamálum;
     b)      í málum um skaðabætur fyrir ólögmæta málsmeðferð fyrir rétti eða sakfellingu;
     c)      í náðunarmálum;
     d)      í einkamálum sem tengjast sakamálum á meðan sakadómur hefur enn ekki endanlega afgreitt sakamálið;
     e)      við birtingu málsgagna í tengslum við fullnustu refsingar eða öryggisráðstöfunar, greiðslu fjársektar eða málskostnaðar;
     f)      vegna ráðstafana í tengslum við frestun sakfellingar eða fullnustu refsingar eða öryggisráðstöfunar, reynslulausn, frestun eða rof fullnustu refsingar eða öryggisráðstöfunar.

50. gr.

    1.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig til að veita hver öðrum gagnkvæma réttaraðstoð vegna brota á lögum og reglum um vörugjöld, virðisaukaskatt og tolla í samræmi við samninginn og sáttmálann sem um getur í 48. gr. Með tollaákvæðum er átt við þær reglur sem mælt er fyrir um í 2. gr. samningsins frá 7. september 1967 milli Belgíu, Sambandslýðveldisins Þýskalands, Frakklands, Ítalíu, Lúxemborgar og Hollands um gagnkvæma aðstoð milli tollyfirvalda, svo og í 2. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1468/81 frá 19. maí 1981.
    2.     Beiðni um aðstoð í málum vegna gruns um undandrátt vörugjalda, má ekki hafna með þeim rökum að ríkið, sem beiðni er beint til, leggi ekki vörugjald á þær vörur sem tilteknar eru í beiðninni.
    3.     Samningsaðilinn, sem leggur fram beiðni, má hvorki senda né nota upplýsingar eða sönnunargögn frá samningsaðilanum, sem beiðni er beint til, við rannsókn eða málsmeðferð í öðrum málum en þeim sem tiltekin eru í beiðninni án leyfis fyrir fram frá sama samningsaðila.
    4.     Gagnkvæmri réttaraðstoð í skilningi þessarar greinar má hafna þegar fjárhæð ógreidds eða undandregins skatts er lægri en 25.000 ekur eða verðmæti vöru, sem er flutt inn eða út án leyfis, er fyrirsjáanlega ekki meira en 100.000 ekur, nema samningsaðilinn, sem leggur fram beiðni, telji málið mjög alvarlegt vegna sérstakra aðstæðna eða vegna þess hver hinn ákærði er.
    5.     Ákvæði þessarar greinar skulu einnig gilda þegar farið er fram á gagnkvæma réttaraðstoð varðandi verknaði sem aðeins er refsað fyrir með fjársektum, eins og reglugerðarbrot sem sæta málsmeðferð hjá stjórnvöldum, og beiðnin um réttaraðstoð er sett fram af dómsmálayfirvöldum.

51. gr.

    Samningsaðilunum er óheimilt að setja önnur skilyrði fyrir afgreiðslu réttarbeiðni varðandi leit eða haldlagningu en þau sem hér eru talin:
     a)      Verknaðurinn, sem er ástæðan fyrir réttarbeiðni, skal samkvæmt lögum beggja samningsaðilanna varða refsingu, sem er frjálsræðissvipting, eða öryggisráðstöfun í a.m.k. sex mánuði, eða varða samsvarandi refsingu og að framan greinir samkvæmt lögum annars samningsaðilans en varða refsingu samkvæmt lögum hins samningsaðilans sem reglugerðarbrot sem sætir málsmeðferð hjá stjórnvöldum og ákvörðun þeirra má bera undir þar til bæran dómstól í sakamálum.
     b)      Framkvæmd réttarbeiðni skal að öðru leyti samræmast lögum þess samningsaðila sem beiðni er beint til.

52. gr.

    1.     Hver samningsaðili um sig getur sent einstaklingum, sem dvelja á yfirráðasvæði annars samningsaðila, málsskjöl í pósti. Samningsaðilarnir skulu senda framkvæmdanefndinni skrá yfir þau skjöl sem má framsenda á þennan hátt.
    2.     Þegar ástæða er til að ætla að viðtakandi skilji ekki tungumálið sem skjalið er samið á skal þýða skjalið, eða að minnsta kosti mikilvægustu kafla þess, á þjóðtungu eða eina af þjóðtungum þess samningsaðila sem ræður yfirráðasvæðinu sem viðtakandi dvelur á. Ef yfirvaldinu, sem framsendir skjalið, er kunnugt um að viðtakandi skilur eingöngu eitthvert annað tungumál skal þýða skjalið, eða að minnsta kosti mikilvægustu kafla þess, á það tungumál.
    3.     Vitni eða sérfræðingi, sem hefur fengið stefnu í pósti en ekki hlýtt henni, skal ekki refsa eða beita þvingunarráðstöfun jafnvel þó að í stefnunni sé varað við því að það varði refsingu að hlýða ekki, nema viðkomandi komi síðar af fúsum og frjálsum vilja inn á yfirráðasvæði þess samningsaðila sem leggur fram beiðni og er þá stefnt á ný á viðeigandi hátt. Yfirvald, sem sendir stefnu í pósti, skal gæta þess að hún hafi ekki að geyma viðvörun um refsingu. Þetta ákvæði hefur ekki áhrif á ákvæði 34. gr. Benelúx-sáttmálans um framsal og gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 27. júní 1962 eins og honum var breytt með bókuninni frá 11. maí 1974.
    4.     Ef ástæðan fyrir beiðni um réttaraðstoð er verknaður sem varðar refsingu sem reglugerðarbrot sem sætir málsmeðferð hjá stjórnvöldum og ákvörðun þeirra má bera undir þar til bæran dómstól í sakamálum, bæði samkvæmt lögum samningsaðilans, sem beiðni er beint til, og samningsaðilans sem leggur fram beiðni, er meginreglan sú að farið er með sendingar á málsskjölum skv. 1. mgr.
    5.     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má senda málsskjöl í gegnum dómsmálayfirvöld samningsaðilans, sem beiðni er beint til, þegar heimilisfang viðtakanda er óþekkt eða samningsaðilinn, sem leggur fram beiðni, krefst formlegrar birtingar.

53. gr.

    1.     Beiðnir um réttaraðstoð og svör við þeim má senda beint á milli dómsmálayfirvalda.
    2.     Ákvæði 1. mgr. koma ekki í veg fyrir að beiðnir séu sendar og þeim svarað í gegnum dómsmálaráðuneyti viðkomandi landa eða í gegnum aðalskrifstofur Alþjóðasambands sakamálalögreglunnar (INTERPOL) í hverju landi.
    3.     Beiðnir um tímabundinn flutning eða gegnumflutning einstaklinga, sem eru í gæsluvarðhaldi eða fangelsi eða sæta annars konar frjálsræðissviptingu, skal senda í gegnum dómsmálaráðuneytin, og einnig beiðnir um reglubundin eða tilfallandi upplýsingaskipti úr sakaskrá.
    4.     Í skilningi Evrópusamningsins um gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 20. apríl 1959 merkir dómsmálaráðuneyti, að því er tekur til Sambandslýðveldisins Þýskalands, dómsmálaráðherra Sambandslýðveldisins og dómsmálaráðherrar eða -öldungaráðsmenn fylkjanna.
    5.     Beiðnir um höfðun máls vegna brota á ákvæðum um akstur og hvíldartíma, í samræmi við 21. gr. Evrópusamningsins um gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 20. apríl 1959 eða 42. gr. Benelúx-sáttmálans um framsal og gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 27. júní 1962, eins og honum var breytt með bókuninni frá 11. maí 1974, mega dómsmálayfirvöld samningsaðilans, sem leggur fram beiðni, senda beint til dómsmálayfirvalda samningsaðilans sem beiðni er beint til.

3. KAFLI
Beiting reglunnar „ne bis in idem“
54. gr.

    Einstakling, sem hefur hlotið endanlegan dóm hjá einum samningsaðila, má annar samningsaðili ekki sækja til saka fyrir sama refsiverða verknað hafi, þegar um sakfellingu er að ræða, refsing verið fullnustuð, sé til fullnustu eða ekki lengur hægt að fullnusta hana samkvæmt lögum þess samningsaðila þar sem dómur var kveðinn upp.

55. gr.

    1.     Samningsaðili getur við fullgildingu, staðfestingu eða samþykki þessa samnings lýst yfir að hann sé í einu eða fleiri eftirfarandi tilvika óbundinn af 54. gr.:
     a)      þegar þeir refsiverðu verknaðir, sem lagðir voru til grundvallar erlendum dómi, voru framdir að öllu leyti eða að hluta til á yfirráðasvæði hans; í síðarnefnda tilvikinu gildir undantekningin ekki ef verknaðirnir hafa verið framdir að hluta til á yfirráðasvæði þess samningsaðila þar sem dómur var kveðinn upp;
     b)      þegar þeir refsiverðu verknaðir, sem lagðir voru til grundvallar erlendum dómi, eru þess eðlis að þeir stofna öryggi ríkisins eða öðrum jafnmikilvægum hagsmunum þessa samningsaðila í hættu;
     c)      þegar þeir refsiverðu verknaðir, sem lagðir voru til grundvallar erlendum dómi, voru framdir af starfsmanni þessa samningsaðila í andstöðu við embættisskyldur hans.
    2.     Samningsaðili, sem gefur út yfirlýsingu varðandi undantekninguna sem um getur í b- lið 1. mgr., skal taka fram hvaða refsiverðu verknaði slík undantekning gildir um.
    3.     Samningsaðili getur hvenær sem er dregið til baka yfirlýsingu varðandi eina eða fleiri undantekningar sem um getur í 1. mgr.
    4.     Undantekningar, sem eru nefndar í yfirlýsingu skv. 1. mgr., gilda ekki þegar viðkomandi samningsaðili hefur beðið annan samningsaðila um að annast málssókn vegna sama refsiverða verknaðar eða hefur heimilað framsal viðkomandi einstaklings.

56. gr.

    Ef samningsaðili hefur nýja málssókn gegn einstaklingi sem hefur fengið endanlegan dóm fyrir sama refsiverða verknað hjá öðrum samningsaðila skal allur sá tími, sem hann hefur sætt frjálsræðissviptingu fyrir þennan refsiverða verknað á yfirráðasvæði síðarnefnds samningsaðila, dragast frá refsingu í hugsanlegum dómi. Svo framarlega sem innlend löggjöf heimilar skal einnig taka tillit til annarra refsinga en frjálsræðissviptingar ef þær hafa verið fullnustaðar.

57. gr.

    1.     Ef samningsaðili ákærir einstakling fyrir refsiverðan verknað og hafi þar til bær yfirvöld þessa samningsaðila ástæðu til að ætla að ákæran varði sama refsiverða verknað og viðkomandi hefur þegar fengið endanlegan dóm fyrir hjá öðrum samningsaðila skulu viðkomandi yfirvöld, ef þau telja það nauðsynlegt, fara fram á að fá allar upplýsingar, sem skipta máli, hjá þar til bærum yfirvöldum þess samningsaðila sem ræður yfirráðasvæðinu þar sem dómur var kveðinn upp.
    2.     Umbeðnar upplýsingar skulu sendar eins fljótt og unnt er og skal taka tillit til þeirra þegar ákvörðun er tekin um framhald málsmeðferðarinnar.
    3.     Hver samningsaðili um sig tilnefnir, við fullgildingu, staðfestingu eða samþykki þessa samnings, þau yfirvöld sem hafa heimild til að biðja um upplýsingar eða taka við upplýsingum samkvæmt þessari grein.

58. gr.

    Framangreind ákvæði koma ekki í veg fyrir beitingu víðtækari innlendra ákvæða um regluna „ne bis in idem“ í tengslum við erlendar dómsákvarðanir.

4. KAFLI
Framsal
59. gr.

    1.     Ákvæðum þessa kafla er ætlað að vera viðbót við Evrópusamninginn um framsal sakamanna frá 13. september 1957 og, að því er varðar samskipti samningsaðilanna sem eru aðilar að Benelúx-efnahagssambandinu, viðbót við I. kafla Benelúx-sáttmálans um framsal og gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 27. júní 1962, eins og honum var breytt með bókuninni frá 11. maí 1974, og auðvelda framkvæmd þessara samninga.
    2.     Ákvæði 1. mgr. hafa ekki áhrif á beitingu víðtækari ákvæða í gildandi tvíhliða samningum á milli samningsaðilanna.

60. gr. 6

    Í samskiptum milli tveggja samningsaðila, þar sem annar er ekki aðili að Evrópusamningnum um framsal sakamanna frá 13. september 1957, gilda ákvæði nefnds samnings milli samningsaðilanna að teknu tilliti til fyrirvara og yfirlýsinga sem hafa annað hvort komið fram við fullgildingu umrædds samnings eða, að því er varðar samningsaðila sem eru ekki aðilar að Evrópusamningnum, við fullgildingu, staðfestingu eða samþykki þessa samnings.

61. gr.

    Lýðveldið Frakkland skuldbindur sig til þess að framselja einstaklinga, fari annar samningsaðili fram á það, til þess að unnt sé að sækja þá til saka fyrir refsiverða verknaði sem samkvæmt franskri löggjöf má refsa fyrir með frjálsræðissviptingu eða öryggisráðstöfun til tveggja ára að minnsta kosti og samkvæmt lögum þess samningsaðila, sem leggur fram beiðni, með frjálsræðissviptingu eða öryggisráðstöfun til eins árs að minnsta kosti.

62. gr.

    1.     Að því er varðar rof á fyrningarfresti gilda eingöngu lög þess samningsaðila sem leggur fram beiðni.
    2.     Hafi samningsaðili, sem beiðni er beint til, veitt almenna sakaruppgjöf kemur það ekki í veg fyrir framsal, nema hinn refsiverði verknaður falli undir lögsögu þessa samningsaðila.
    3.     Ef aðeins er gert ráð fyrir því í löggjöf samningsaðilans, sem beiðni er beint til, að kæra eða opinbert leyfi til málssóknar sé fyrir hendi hefur það ekki áhrif á framsalsskylduna að slíkt sé ekki til staðar.

63. gr.

    Samningsaðilarnir skuldbinda sig, í samræmi við ákvæði samningsins og sáttmálans sem um getur í 59. gr., til að framselja til hvers annars einstaklinga sem sæta málsmeðferð dómsmálayfirvalda samningsaðilans, sem leggur fram beiðni, fyrir einn af þeim refsiverðu verknuðum sem um getur í 1. mgr. 50. gr. eða eru eftirlýstir af honum í þeim tilgangi að fullnusta refsingu eða öryggisráðstöfun vegna slíks verknaðar.

64. gr.

    Skráning í Schengen-upplýsingakerfinu skv. 95. gr. jafngildir beiðni um handtöku og gæslu í skilningi 16. gr. Evrópusamningsins um framsal sakamanna frá 13. september 1957 eða 15. gr. Benelúx-sáttmálans um framsal og gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 27. júní 1962 eins og honum var breytt með bókuninni frá 11. maí 1974.

65. gr.

    1.     Beiðnir um framsal og gegnumflutning eru sendar af þar til bæru ráðuneyti þess samningsaðila, sem leggur fram beiðni, til þar til bærs ráðuneytis þess samningsaðila sem beiðni er beint til, enda kemur þetta ekki í veg fyrir að hægt sé að senda beiðnir eftir diplómatískum leiðum.
    2.     Þar til bær ráðuneyti eru:
          að því er tekur til Konungsríkisins Belgíu: dómsmálaráðuneytið;
          að því er tekur til Sambandslýðveldisins Þýskalands: dómsmálaráðuneyti Sambandslýðveldisins og dómsmálaráðherrar eða -öldungaráðsmenn fylkjanna;
          að því er tekur til Lýðveldisins Frakklands: utanríkisráðuneytið,
          að því er tekur til Stórhertogadæmisins Lúxemborgar: dómsmálaráðuneytið,
          að því er tekur til Konungsríkisins Hollands: dómsmálaráðuneytið.

66. gr.

    1.     Ef framsal einstaklings, sem óskast framseldur, er ekki beinlínis óheimilt samkvæmt lögum þess samningsaðila sem beiðni er beint til getur sá samningsaðili heimilað framsal án þess að málið sæti formlegri framsalsmeðferð, svo framarlega sem einstaklingurinn, sem óskast framseldur, samþykkir framsal og það er bókfært af fulltrúa réttarkerfisins eftir að sá hinn sami hefur yfirheyrt hann og upplýst hann um rétt hans til þess að fá formlega framsalsmeðferð. Einstaklingurinn, sem óskast framseldur, á rétt á lögfræðiaðstoð við framangreinda yfirheyrslu.
    2.     Þegar um framsal skv. 1. mgr. er að ræða og einstaklingur, sem óskast framseldur, hefur afdráttarlaust lýst því yfir að hann hafni þeirri vernd sem honum stendur til boða samkvæmt sérreglunni getur hann ekki dregið þá yfirlýsingu til baka.

5. KAFLI
Flutningur á fullnustu refsidóma
67. gr.

    Eftirfarandi ákvæðum skal beitt milli samningsaðilanna sem eru aðilar að samningi Evrópuráðsins frá 21. mars 1983 um flutning dæmdra manna og skulu þau vera viðbót við þann samning.

68. gr.

    1.     Samningsaðili getur, þegar ríkisborgari frá öðrum samningsaðila hefur verið dæmdur til frjálsræðissviptingar eða öryggisráðstöfunar á yfirráðasvæði hins fyrrnefnda en komið sér undan fullnustu refsingarinnar eða öryggisráðstöfunarinnar með því að flýja til heimalands síns, beðið síðarnefnda samningsaðilann, ef sá sem flúði dvelur á yfirráðasvæði hans, um að yfirtaka fullnustu refsingarinnar eða öryggisráðstöfunarinnar.
    2.     Þangað til skjöl til stuðnings beiðni um yfirtöku á fullnustu refsingarinnar eða öryggisráðstöfunarinnar, eða þess hluta refsingarinnar sem eftir er, berast og þangað til ákvörðun hefur verið tekin um beiðnina getur samningsaðili, sem beiðni er beint til, að ósk þess samningsaðila sem leggur fram beiðni, sett dómþola í gæslu eða gert aðrar ráðstafanir til þess að tryggja að hann dvelji áfram á yfirráðasvæði þess samningsaðila sem beiðni er beint til.

69. gr.

    Flutningur á fullnustu skv. 68. gr. skal ekki háður samþykki einstaklings sem er dæmdur til refsingar eða öryggisráðstöfunar. Önnur ákvæði samnings Evrópuráðsins frá 21. mars 1983 um flutning dæmdra manna eiga við á hliðstæðan hátt.

6. KAFLI
Fíkniefni
70. gr. 7

    1.     Samningsaðilarnir skulu koma á fót föstum vinnuhópi sem hefur það verkefni að kanna sameiginleg vandamál í sambandi við baráttuna gegn fíkniefnabrotum og, ef við á, gera tillögur um úrbætur varðandi hagnýtar og tæknilegar hliðar samstarfsins milli samningsaðilanna. Vinnuhópurinn skal leggja tillögur sínar fyrir framkvæmdanefndina.
    2.     Þar til bærar stofnanir í hverju ríki skulu tilnefna þá sem eiga sæti í vinnuhópnum sem um getur í 1. mgr. og í honum skulu vera fulltrúar þeirra yfirvalda sem bera ábyrgð á lögreglu- og tollamálum.

71. gr.

    1.     Hvað við kemur beinni eða óbeinni sölu fíkniefna og geðvirkra efna af öllu tagi, þar með talið hampefna, og vörslu slíkra efna í þeim tilgangi að selja þau eða flytja úr landi skuldbinda samningsaðilarnir sig, í samræmi við gildandi samninga Sameinuðu þjóðanna (*), til að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir og berjast gegn ólöglegum viðskiptum með fíkniefni og geðvirk efni.
    2.     Með fyrirvara um viðeigandi ákvæði 74., 75. og 76. gr. skuldbinda samningsaðilarnir sig með aðgerðum á sviði stjórnsýslu og refsiréttar til að koma í veg fyrir og berjast gegn ólöglegum útflutningi fíkniefna og geðvirkra efna, þar með talinna hampefna, svo og sölu, útvegun og afhendingu þessara efna.
    3.     Í þeim tilgangi að berjast gegn ólöglegum innflutningi fíkniefna og geðvirkra efna, þar með talið hampefna, skulu samningsaðilarnir auka eftirlit með för fólks, vöruflutningum og flutningatækjum á ytri landamærunum. Vinnuhópurinn, sem um getur í 70. gr., kveður nánar á um þessar ráðstafanir. Vinnuhópurinn skal meðal annars kanna möguleika á því að færa til hluta þeirra lögreglumanna og tollvarða, sem losna undan störfum sínum á innri landamærum, og að nýta nútímaaðferðir við uppljóstrun fíkniefnamála og að nota fíkniefnahunda.
    4.     Samningsaðilarnir skulu hafa markvisst eftirlit með þeim stöðum sem eru þekktir fyrir fíkniefnaviðskipti til þess að tryggja að ákvæði þessarar greinar séu virt.
    5.     Samningsaðilarnir skulu gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að koma í veg fyrir og berjast gegn neikvæðum áhrifum ólöglegrar eftirspurnar eftir fíkniefnum og geðvirkum efnum af öllu tagi, þar með talið hampefnum. Það er á ábyrgð einstakra samningsaðila hvaða ráðstafanir eru gerðar í þessum tilgangi.

72. gr.

    Samningsaðilarnir skulu tryggja í samræmi við stjórnarskrá sína og réttarkerfi að sett verði lagaákvæði sem heimila að leggja hald á og gera upptækan ávinning af ólöglegum viðskiptum með fíkniefni og geðvirk efni.

73. gr.

    1.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig til, í samræmi við stjórnarskrá sína og réttarkerfi, að gera ráðstafanir sem gerir það kleift að heimila afhendingu undir eftirliti í tengslum við ólögleg viðskipti með fíkniefni og geðvirk efni.
    2.     Ákvörðun um að heimila afhendingu undir eftirliti skal tekin í hverju tilviki um sig á grundvelli fyrirframleyfis frá hverjum einstökum samningsaðila sem á hlut að máli.
    3.     Hver samningsaðili um sig stjórnar og hefur eftirlit með aðgerðum á sínu yfirráðasvæði og hefur heimild til þess að grípa inn í þær.

74. gr. 8

    Að því er varðar löglega verslun með fíkniefni og geðvirk efni eru samningsaðilarnir sammála um að eftirlitið, sem fer fram á innri landamærunum samkvæmt ákvæðum samninga Sameinuðu þjóðanna sem um getur í 71. gr., skuli fara fram inni í landinu að svo miklu leyti sem unnt er.

75. gr.

    1.     Einstaklingar á ferðalagi á milli yfirráðasvæða eða innan yfirráðasvæðis samningsaðilanna mega hafa með sér fíkniefni og geðvirk efni í því magni sem nauðsynlegt er vegna læknismeðferðar að því tilskildu að þeir geti við eftirlit lagt fram vottorð sem er gefið út eða staðfest af þar til bæru yfirvaldi í búsetulandinu.
    2.     Framkvæmdanefndin skal kveða nánar á um útlit og efni vottorðsins sem um getur í 1. mgr. og gefið er út af einum samningsaðilanna, sérstaklega skal tilgreind tegund efnis og magn auk fjölda ferðadaga.
    3.     Samningsaðilarnir skulu tilkynna hver öðrum hvaða yfirvöld eru þar til bær að gefa út eða staðfesta vottorðið sem um getur í 2. mgr.

76. gr.

    1.     Samningsaðilarnir skulu, ef þörf er á og að teknu tilliti til læknisfræðilegra, siðferðilegra og hagnýtra starfsvenja þeirra, gera viðeigandi ráðstafanir vegna eftirlits með fíkniefnum og geðvirkum efnum sem eru háð strangara eftirliti á yfirráðasvæði eins eða fleiri samningsaðila heldur en á yfirráðasvæði þeirra sjálfra til þess að þessu strangara eftirliti verði ekki teflt í tvísýnu.
    2.     Ákvæði 1. mgr. gilda einnig um efni sem oft eru notuð við framleiðslu fíkniefna eða geðvirkra efna.
    3.     Samningsaðilarnir skulu tilkynna hver öðrum um þær ráðstafanir sem þeir hafa gert til að sinna eftirliti með löglegum viðskiptum með þau efni sem um getur í 1. og 2. mgr.
    4.     Framkvæmdanefndin tekur reglulega til umræðu þau vandamál sem upp kunna að koma í þessu sambandi.

7. KAFLI 9
Skotvopn og skotfæri
77. gr.

    1.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig til að aðlaga innlend lög og stjórnsýslufyrirmæli um kaup, eign, sölu og afhendingu skotvopna og skotfæra að ákvæðum þessa kafla.
    2.     Ákvæði þessa kafla gilda þegar einstaklingar og lögpersónur kaupa, eiga, selja og láta af hendi skotvopn og skotfæri; þau gilda ekki um afhendingu til handa opinberum yfirvöldum og svæðisyfirvöldum, her eða lögreglu né kaup eða eign þessara aðila á skotvopnum og skotfærum, né heldur framleiðslu opinberra fyrirtækja á skotvopnum og skotfærum.

78. gr.

    1.     Í þessum kafla eru skotvopn flokkuð sem hér segir:
     a)      bönnuð vopn;
     b)      leyfisskyld vopn;
     c)      tilkynningarskyld vopn.
    2.     Um lása, skothylkjahólf og hlaup skotvopna skulu að breyttu breytanda gilda sömu ákvæði og um skotvopnið sem þau eru eða eiga að vera hluti af.
    3.     Í þessum samningi merkja „stutt vopn“ skotvopn sem hafa ekki lengra hlaup en 30 cm eða eru ekki lengri en 60 cm í allt; öll önnur skotvopn teljast vera „löng vopn“.

79. gr.

    1.     Skrá yfir bönnuð skotvopn og skotfæri skal ná yfir eftirfarandi:
     a)      skotvopn sem eru venjulega notuð sem stríðsskotvopn;
     b)      sjálfvirk skotvopn, jafnvel þau sem eru ekki stríðsskotvopn;
     c)      skotvopn sem eru dulbúin sem eitthvað annað;
     d)      skotfæri sem fara í gegnum brynvörn, sprengju- og íkveikjuskotfæri ásamt skotum í slík skotfæri;
     e)      skotfæri í skammbyssur og marghleypur með dúmmdúmm-skotum eða skotum með holum oddi og skot í slík skotfæri.
    2.     Þar til bær yfirvöld geta í sérstökum tilvikum gefið út leyfi fyrir skotvopnum og skotfærum eins og um getur í 1. mgr. að teknu tilliti til almannaöryggis og allsherjarreglu.

80. gr.

    1.     Skrá yfir skotvopn, sem þarf leyfi til að kaupa og eiga, skal að minnsta kosti ná yfir eftirfarandi skotvopn, svo framarlega sem þau eru ekki bönnuð:
     a)      hálfsjálfvirk stutt skotvopn eða stutt skotvopn með handvirkri endurhleðslu;
     b)      einskota stutt skotvopn með miðkveiktu skothylki;
     c)      einskota stutt skotvopn með randkveiktu skothylki sem eru styttri en 28 cm í allt;
     d)      hálfsjálfvirk löng skotvopn með skothylkjahólfi og skothúsi fyrir meira en þrjú skothylki;
     e)      löng skotvopn með handvirkri endurhleðslu og hálfsjálfvirk löng skotvopn með sléttu hlaupi og hlauplengd er ekki meiri en 60 cm;
     f)      hálfsjálfvirk skotvopn fyrir óbreytta borgara sem líkjast sjálfvirkum stríðsvopnum.
    2.     Skrá yfir þau skotvopn, sem þarf leyfi fyrir, nær ekki yfir eftirfarandi skotvopn:
     a)      viðvörunarskotvopn, táragasbyssur og merkjavopn að því tilskildu að hægt sé að tryggja með tæknilegum ráðstöfunum að ekki sé hægt að breyta þeim með venjulegum verkfærum í vopn sem má skjóta úr skotum með sprengiefni (sprengiskotum) og að það valdi ekki varanlegum áverkum þegar skotið er með ertandi efnum;
     b)      hálfsjálfvirk löng skotvopn með skothylkjahólfi og skothúsi, sem taka ekki fleiri en þrjú skothylki án þess að það þurfi að hlaða að nýju, með því skilyrði að ekki sé hægt að skipta um skothylkjahólf eða hægt sé að tryggja á annan hátt að ekki megi breyta þeim með venjulegum verkfærum í vopn með skothylkjahólfi og skothúsi fyrir fleiri en þrjú skothylki.

81. gr.

    Á skrá yfir tilkynningarskyld skotvopn skulu vera eftirfarandi vopn svo framarlega sem þau eru hvorki bönnuð né leyfisskyld:
     a)      löng skotvopn með handvirkri endurhleðslu;
     b)      einskota löng skotvopn með riffluðu hlaupi eða riffluðum hlaupum;
     c)      einskota stutt skotvopn með randkveiktu skothylki sem eru lengri en 28 cm í allt;
     d)      skotvopnin sem eru talin upp í b-lið 2. mgr. 80. gr.

82. gr.

    Skrár yfir skotvopn, sem um getur í 79., 80. og 81. gr., ná ekki yfir eftirfarandi:
     a)      skotvopn sem hafa verið hönnuð eða framleidd fyrir 1. janúar 1870, fyrir utan sérstakar undantekningar, að því tilskildu að ekki sé hægt að hlaða þau með skotfærum sem eru fyrir bönnuð eða leyfisskyld vopn,
     b)      endurgerð vopn eins og lýst er í a-lið að því tilskildu að ekki sé hægt að skjóta úr þeim með skothylkjum með málmhulstrum;
     c)      skotvopn sem búið er að breyta með sérstökum tæknilegum aðferðum þannig að ekki sé hægt að nota þau til að skjóta skotfærum af nokkru tagi og sem hafa fengið stimpil frá opinberum aðila eða eru viðurkennd af slíkum aðila.

83. gr.

    Leyfi til þess að kaupa og eiga skotvopn, sem um getur í 80. gr., má einstaklingur því aðeins fá að
     a)      hann sé orðinn átján ára, nema í undantekningartilvikum þegar um er að ræða notkun til veiða eða í íþróttum;
     b)      hann sé ekki óhæfur til þess að kaupa eða eiga skotvopn vegna geðveiki eða annarrar andlegrar eða líkamlegrar fötlunar;
     c)      hann hafi ekki verið dæmdur fyrir refsiverðan verknað eða aðrar ástæður séu ekki til þess að ætla að hann stofni almannaöryggi og allsherjarreglu í hættu;
     d)      ástæðan, sem hann tilgreinir fyrir kaupum og eign skotvopns, sé tekin góð og gild.

84. gr.

    1.     Tilkynningar um vopn, sem um ræðir í 81. gr., skulu færðar í skrá sem haldin er af þeim einstaklingum sem um getur í 85. gr.
    2.     Ef einstaklingur, sem ekki er getið um í 85. gr., lætur vopn af hendi skal tilkynna það samkvæmt nánari ákvæðum sem hver samningsaðili um sig setur.
    3.     Tilkynningarnar, sem um getur í þessari grein, skulu taka til þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til þess að þekkja viðkomandi einstaklinga og vopn.

85. gr.

    1.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig til að krefjast þess að allir aðilar, sem framleiða og selja leyfisskyld skotvopn, hafi leyfi til þess og krefjast þess að allir aðilar, sem framleiða og selja tilkynningarskyld skotvopn, sjái um að tilkynna þau. Leyfi fyrir leyfisskyldum skotvopnum nær einnig yfir tilkynningarskyld vopn. Samningsaðilarnir skulu halda uppi eftirliti með vopnaframleiðendum og vopnasölum og tryggja að eftirlitið sé skilvirkt.
    2.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig til að samþykkja ákvæði um að öll skotvopn þurfi að minnsta kosti að vera varanlega merkt með raðnúmeri og merki framleiðanda.
    3.     Samningsaðilarnir skylda vopnaframleiðendur og vopnasala til þess að skrá öll leyfisskyld og tilkynningarskyld skotvopn; skrárnar skulu gera það kleift að fá með hraði upplýsingar um tegund, uppruna og kaupanda skotvopna.
    4.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig til þess að samþykkja ákvæði um leyfisskyld vopn skv. 79. og 80. gr. þar að lútandi að raðnúmer og merki skotvopna skuli tilgreind í leyfisskjölum sem gefin eru út til handhafa skotvopns.

86. gr.

    1.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig til samþykkja ákvæði sem banna réttmætum handhöfum leyfisskyldra og tilkynningarskyldra skotvopna að láta þau af hendi til einstaklinga sem ekki hafa undir höndum leyfi til að kaupa vopn eða staðfestingu á tilkynningu.
    2.     Samningsaðilarnir geta gert ráðstafanir til að heimila að slík vopn séu látin tímabundið af hendi til einstaklinga á þann hátt sem þeir ákveða.

87. gr.

    1.     Samningsaðilarnir skulu setja ákvæði í innlenda löggjöf sem heimila afturköllun leyfis til einstaklinga ef viðkomandi uppfyllir ekki lengur þau skilyrði fyrir leyfisveitingu sem kveðið er á um í 83. gr.
    2.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig til að gera viðeigandi ráðstafanir, þ.m.t. að leggja hald á skotvopn og afturkalla leyfi og að setja viðeigandi viðurlög við brotum á lögum og reglum um skotvopn. Slík viðurlög geta falist í því að skotvopn verði gerð upptæk.

88. gr.

    1.     Einstaklingar, sem hafa leyfi til þess að kaupa skotvopn, þurfa ekki leyfi til þess að kaupa skotfæri í viðkomandi vopn.
    2.     Fyrir einstaklinga, sem hafa ekki leyfi til þess að kaupa vopn, gilda sömu reglur um kaup á skotfærum og um þau vopn sem skotfærin eru ætluð í. Hægt er að gefa út leyfi til að kaupa eina tegund skotfæra eða allar tegundir skotfæra.

89. gr.

    Framkvæmdanefndin getur breytt skrám yfir bönnuð, leyfisskyld og tilkynningarskyld skotvopn og bætt við þær þannig að tekið sé tillit til tæknilegrar og efnahagslegrar þróunar og öryggis ríkisins.

90. gr.

    Samningsaðilarnir skulu hafa heimild til þess að setja strangari lög eða ákvæði um skotvopn og skotfæri.

91. gr.

    1.     Á grundvelli Evrópusamningsins frá 28. júní 1978 um eftirlit með umráðum einstaklinga yfir skotvopnum og með því hvernig þeir afla þeirra og innan ramma innlendrar löggjafar skulu samningsaðilarnir skiptast á upplýsingum um skotvopnakaup einstaklinga, hvort sem um er að ræða óbreytta einstaklinga eða vopnasmásala, sem dvelja yfirleitt á yfirráðasvæði annars samningsaðila eða hafa þar aðsetur. Vopnasmásali merkir hér sérhver einstaklingur sem hefur að hluta til eða að öllu leyti af því atvinnu að selja skotvopn í smásölu.
    2.     Skipti á upplýsingum eiga sér stað:
     a)      á milli tveggja samningsaðila, sem hafa fullgilt samninginn sem um getur í 1. mgr., um þau skotvopn sem eru tilgreind undir a- til h-lið 1. tölul. í A-hluta 1. viðauka nefnds samnings;
     b)      á milli tveggja samningsaðila, þegar að minnsta kosti annar þeirra hefur ekki fullgilt samninginn sem um getur í 1. mgr., um þau skotvopn sem eru leyfis- eða tilkynningarskyld á yfirráðasvæði hvers einstaks samningsaðila.
    3.     Upplýsingar um kaup skotvopna skal senda tafarlaust og þær skulu ná yfir:
     a)      hvaða dag kaupin fóru fram og hver kaupandinn er, nánar tiltekið,
          ef um einstakling er að ræða: kenninafn, eiginnafn, fæðingardag og -ár, fæðingarstað, heimilisfang, númer vegabréfs eða persónuskilríkja og einnig útgáfudag og hvaða yfirvöld gefa það út óháð því hvort um vopnasala er að ræða eða ekki;
          ef um lögpersónu er að ræða: heiti fyrirtækis og aðsetur svo og kenninafn, eiginnafn, fæðingardag og -ár, fæðingarstað, heimilisfang og númer vegabréfs eða persónuskilríkja þess einstaklings sem er réttmætur fulltrúi lögpersónu;
     d)      tegund, framleiðslunúmer, hlaupvídd og önnur einkenni umrædds skotvopns svo og raðnúmer.
    4.     Hver samningsaðili um sig skal tilnefna innlent yfirvald sem skal sjá um að senda og taka á móti þeim upplýsingum sem um getur í 2. og 3. mgr. og tilkynna hinum samningsaðilunum tafarlaust um allar breytingar er varða tilnefnt yfirvald.
    5.     Yfirvaldið, sem hver samningsaðili um sig tilnefnir, getur sent upplýsingar sem það hefur tekið á móti til þar til bærra staðbundinna lögregluyfirvalda og yfirvalda, sem annast landamæraeftirlit, í þeim tilgangi að koma í veg fyrir refsiverðan verknað og brot á lögum eða til málsmeðferðar fyrir refsiverðan verknað og brot á lögum.

IV. BÁLKUR
Schengen-upplýsingakerfið
1. KAFLI
Uppsetning Schengen-upplýsingakerfisins
92. gr.

    1.     Samningsaðilarnir skulu setja upp og reka sameiginlegt upplýsingakerfi, hér á eftir nefnt Schengen-upplýsingakerfið, sem samanstendur af einingu hjá hverjum samningsaðila um sig og tæknilegri stoðeiningu. Með Schengen-upplýsingakerfinu geta yfirvöldin, sem samningsaðilarnir hafa tilnefnt, leitað vélrænt að skráningum um einstaklinga og hluti vegna landamæraeftirlits og annars eftirlits lögreglu og tolls inni í landinu í samræmi við landslög, og, aðeins hvað varðar þá tegund skráninga sem um getur í 96. gr., vegna útgáfu vegabréfsáritana, veitingar dvalarleyfa og framkvæmdar laga um útlendinga með skírskotun til beitingar þeirra ákvæða þessa samnings sem varða för fólks.
    2.     Hver samningsaðili um sig skal setja upp og reka, á eigin ábyrgð og eiginn kostnað, landseiningu í Schengen-upplýsingakerfinu og skal gagnasafn einingarinnar vera efnislega samsvarandi gagnasöfnum landseininga hvers og eins af hinum samningsaðilunum en það er gert með því að nota tæknilegu stoðeininguna. Til að tryggja skjóta og skilvirka sendingu upplýsinga, sem um getur í 3. mgr., skal hver samningsaðili um sig við uppsetningu sinnar einingar fylgja þeim bókunum og starfsreglum sem samningsaðilarnir hafa sett í sameiningu varðandi tæknilegu stoðeininguna. Hægt verður að leita vélrænt í gagnasafni hverrar landseiningar á yfirráðasvæði viðkomandi samningsaðila. Ekki verður hægt að leita í gagnasöfnum landseininga hinna samningsaðilanna.
    3.     Samningsaðilarnir skulu setja upp og reka tæknilega stoðeiningu Schengen- upplýsingakerfisins, bera á henni sameiginlega ábyrgð og deila kostnaðinum við hana. Lýðveldið Frakkland skal bera ábyrgð á tæknilegu stoðeiningunni og verður hún staðsett í Strassborg. Tæknilega stoðeiningin mun hafa yfir að ráða gagnasafni sem upplýsingar verða sendar úr með beinlínutengingu í gagnasöfn einstakra landseininga til þess að tryggja að gagnasöfn landseininganna samsvari hvert öðru. Í gagnasafn tæknilegu stoðeiningarinnar verða færðar inn skráningar um einstaklinga og hluti sem varða alla samningsaðilana. Í gagnasafni tæknilegu stoðeiningarinnar skulu ekki vera neinar aðrar upplýsingar en um getur í þessari mgr. og í 2. mgr. 113. gr.

2. KAFLI
Rekstur og hagnýting Schengen-upplýsingakerfisins
93. gr.

    Markmiðið með Schengen-upplýsingakerfinu er, í samræmi við ákvæði þessa samnings og með notkun upplýsinga sem miðlað er um þetta kerfi, að tryggja almannaöryggi og allsherjarreglu, þar með talið öryggi ríkisins, á yfirráðasvæði samningsaðilanna og tryggja beitingu þeirra ákvæða þessa samnings sem varða för fólks.

94. gr.

    1.     Í Schengen-upplýsingakerfinu skulu eingöngu vera þeir flokkar upplýsinga sem hver samningsaðilanna sendir inn og eru nauðsynlegir til að uppfylla þau markmið sem mælt er fyrir um í 95. til 100. gr. Samningsaðilinn, sem færir inn skráningu, skal meta hvort málið er nógu mikilvægt til að réttlæta innfærslu skráningarinnar í Schengen-upplýsingakerfið.
    2.     Flokkar upplýsinga skulu vera:
     a)      einstaklingar sem til eru skráningar um;
     b)      hlutir sem um getur í 100. gr. og ökutæki sem um getur í 99. gr.
    3.     Upplýsingar um einstaklinga skulu takmarkaðar við eftirfarandi:
     a)      kenninafn og eiginnafn með tilvísun til hugsanlegrar sérskráningar falskra nafna;
     b)      sérstök varanleg líkamleg einkenni;
     c)      fyrsta staf annars eiginnafns;
     d)      fæðingarstað og fæðingardag og -ár;
     e)      kynferði;
     f)      ríkisfang;
     g)      hvort viðkomandi er vopnaður;
     h)      hvort viðkomandi er ofbeldishneigður;
     i)      ástæðu fyrir skráningu;
     j)      aðgerðir sem farið er fram á.
    Aðrar upplýsingar má ekki skrá, sérstaklega ekki upplýsingar sem eru tilgreindar í fyrsta málslið 6. gr. í samningi Evrópuráðsins frá 28. janúar 1981 um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga.
    4.     Ef samningsaðili telur að skráning í samræmi við 95., 97. eða 99. gr. samræmist ekki innlendum lögum, alþjóðlegum skuldbindingum eða mikilvægum hagsmunum ríkisins getur sá aðili látið setja merki eftir á við skráninguna í gagnasafni sinnar landseiningar í Schengen- upplýsingakerfinu um að ekki skuli, á yfirráðasvæði þess aðila, gripið til þeirrar aðgerðar sem tiltekin er á grundvelli þessarar skráningar. Hafa skal samráð við aðra samningsaðila um þetta. Ef samningsaðilinn, sem færði inn skráninguna, dregur hana ekki til baka gildir sú skráning áfram fyrir aðra samningsaðila.

95. gr.

    1.     Upplýsingar um eftirlýsta einstaklinga, sem óskað er eftir að verði handteknir í þeim tilgangi að verða framseldir, verða skráðar að beiðni dómsmálayfirvalda þess samningsaðila sem leggur fram beiðni.
    2.     Áður en skráning er færð inn skal samningsaðilinn, sem færir inn skráningu, kanna hvort lög samningsaðilans, sem beiðni er beint til, heimila handtöku. Í vafatilvikum skal sá samningsaðili, sem færir inn skráningu, hafa samráð við viðkomandi samningsaðila.
    Samningsaðili, sem færir inn skráningu, skal senda, með þeim hætti sem fljótlegastur er, samningsaðilunum, sem beiðni er beint til, bæði skráninguna og eftirtaldar mikilvægar upplýsingar um málið:
     a)      hvaða yfirvald leggur fram beiðni um handtöku;
     b)      hvort fyrir liggi handtökuskipun eða ákvörðun með sama gildi eða aðfararhæfur dómur;
     c)      hvers konar refsiverðan verknað um er að ræða og tilvísun til viðeigandi refsiákvæða;
     d)      við hvaða aðstæður hinn refsiverði verknaður var framinn, þar með talið hvenær og hvar hann var framinn og hver þáttur hins skráða er í málinu;
     e)      eftir því sem unnt er, hverjar séu afleiðingar hins refsiverða verknaðar.
    3.     Samningsaðili, sem beiðni er beint til, getur látið setja inn merki við skráningu í gagnasafn sinnar landseiningar í Schengen-upplýsingakerfinu um að ekki sé heimilt að handtaka neinn á grundvelli skráningarinnar fyrr en merkinu hefur verið eytt. Merkinu skal eyða í síðasta lagi tuttugu og fjórum klukkustundum eftir að skráning er færð inn, nema viðkomandi samningsaðili hafni handtökubeiðni af lagalegum ástæðum eða af sérstökum tilfallandi ástæðum. Í sérstökum undantekningartilvikum er hægt að lengja áðurnefndan frest upp í eina viku ef málavextir, sem liggja til grundvallar skráningunni, eru mjög flóknir. Með fyrirvara um slíkt merki eða synjun um handtöku geta hinir samningsaðilarnir gripið til handtöku sem beðið er um í skráningunni.
    4.     Ef samningsaðili biður um tafarlausa leit af sérstaklega áríðandi ástæðum kannar samningsaðili sem beiðni er beint til hvort hann geti dregið merkið til baka. Samningsaðilinn, sem beiðni er beint til, skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að unnt sé að framkvæma strax aðgerðina sem beðið var um hafi skráningin verið samþykkt.
    5.     Sé handtaka ekki möguleg vegna þess að samningsaðilinn, sem beiðni er beint til, hefur ekki lokið rannsókn eða hefur hafnað handtökubeiðni skal sá samningsaðili fara með skráninguna eins og skráningu í þeim tilgangi að fá upplýsingar um dvalarstað viðkomandi einstaklings.
    6.     Samningsaðilarnir, sem beiðni er beint til, skulu framkvæma þá aðgerð sem beðið var um í skráningunni í samræmi við gildandi samninga um framsal og innlend lög. Þeir eru ekki skyldugir til að verða við beiðni sem varðar ríkisborgara þeirra nema unnt sé að framkvæma handtöku í samræmi við innlend lög.

96. gr.

    1.     Upplýsingar um útlendinga, sem eru á skrá yfir þá sem synja á um komu, eru skráðar á grundvelli innlendrar skráningar sem byggjast á ákvörðunum þar til bærra stjórnvalda eða dómstóla í samræmi við reglur um málsmeðferð í innlendum lögum.
    2.     Þessar ákvarðanir geta byggst á þeirri ógnun við almannaöryggi og allsherjarreglu eða þjóðaröryggi sem stafar af veru útlendings á yfirráðasvæði samningsaðila.
    Þetta á sérstaklega við um:
     a)      útlending sem hefur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað og refsing felur í sér frjálsræðissviptingu í eitt ár að minnsta kosti;
     b)      útlending sem liggur undir rökstuddum grun um að hafa framið alvarlegan refsiverðan verknað, þar með talið verknað eins og um getur í 71. gr., eða haldgóðar vísbendingar eru fyrir hendi um að hann hafi slíkan verknað í hyggju á yfirráðasvæði samningsaðila.
    3.     Þessar ákvarðanir geta einnig byggst á því að útlendingi hafi verið vísað úr landi, endursendur eða vísað brott, svo framarlega sem þeim ráðstöfunum hefur ekki verið frestað eða þær afturkallaðar, og þær fela í sér bann við því að koma inn í landið eða dvelja í landinu sem byggist á því að innlend lög um komu og dvöl útlendinga hafi ekki verið virt.

97. gr.

    Upplýsingar um týnda einstaklinga eða einstaklinga, sem, vegna eigin öryggis eða til að koma í veg fyrir hættuástand, verður að taka í gæslu tímabundið að beiðni þar til bærs yfirvalds eða þar til bærs dómmálayfirvalds þess samningsaðila sem færir inn skráningu, skal skrá í gagnasafnið til þess að lögregluyfirvöld geti tilkynnt samningsaðilanum, sem færir inn skráningu, um dvalarstað viðkomandi eða tekið einstaklinginn í gæslu í þeim tilgangi að hindra hann í að halda áfram ferðalagi sínu svo fremi sem innlend löggjöf heimilar það. Þetta á sérstaklega við um ólögráða börn og einstaklinga sem þarf að vista nauðuga á grundvelli ákvörðunar þar til bærs yfirvalds. Upplýsingar um lögráða einstaklinga má aðeins veita með samþykki viðkomandi.

98. gr.

    1.     Upplýsingar um vitni svo og einstaklinga, sem stefnt er til að koma fyrir rétt í sakamáli vegna verknaða sem þeir eru ákærðir fyrir, eða um einstaklinga, sem á að birta dóm í sakamáli eða boðun til afplánunar frjálsræðissviptingar, skulu skráðar að beiðni þar til bærra dómsmálayfirvalda í þeim tilgangi að veita upplýsingar um búsetu eða dvalarstað.
    2.     Umbeðnar upplýsingar skal senda samningsaðilanum, sem leggur fram beiðni, í samræmi við innlenda löggjöf og gildandi samninga um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum.

99. gr.

    1.     Í samræmi við innlenda löggjöf þess samningsaðila, sem færir inn skráningu, skal skrá upplýsingar varðandi einstaklinga eða ökutæki í þeim tilgangi að nota við skyggingu eða markvisst eftirlit í samræmi við 5. mgr.
    2.     Slík skráning er heimil vegna málsmeðferðar fyrir refsiverðan verknað og til að koma í veg fyrir ógnanir við almennt öryggi þegar:
     a)      haldgóðar vísbendingar eru fyrir hendi um að viðkomandi hafi í hyggju að fremja eða fremji marga og sérlega alvarlega refsiverða verknaði, eða
     b)      heildarmat á viðkomandi einstaklingi, sem byggist á þeim refsiverðu verknuðum sem hann hefur þegar framið, bendir til þess að hann muni í framtíðinni einnig fremja sérlega alvarlega refsiverða verknaði.
    3.     Auk þess er heimilt að færa inn skráningu, svo framarlega sem innlend lög heimila það, að beiðni þeirra þar til bæru aðila sem bera ábyrgð á öryggi ríkisins þegar raunverulegar vísbendingar eru fyrir hendi um að þær upplýsingar, sem um getur í 4. mgr., séu nauðsynlegar til að koma í veg fyrir að alvarleg hætta stafi af viðkomandi eða til að koma í veg fyrir alvarlegar ógnanir við innra eða ytra öryggi ríkisins. Samningsaðilanum, sem færir inn skráninguna, ber skylda til að ráðfæra sig við hina samningsaðilana fyrir fram.
    4.     Við undirbúning skyggingar er heimilt að safna saman upplýsingum um öll eftirfarandi atriði eða hluta þeirra og senda til yfirvaldsins sem færði inn skráningu til að nota við landamæraeftirlit eða við annað eftirlit lögreglu og tolls inni í landinu:
     a)      að einstaklingur eða ökutæki, sem til er skráning um, hafi fundist;
     b)      stað, dagsetningu og tilefni eftirlitsins;
     c)      ferðaleið og ákvörðunarstað;
     d)      fylgdarmenn eða farþega;
     e)      ökutæki sem notað er;
     f)      hluti sem menn hafa meðferðis;
     g)      við hvaða aðstæður viðkomandi einstaklingur eða ökutæki fannst.
    Við söfnun upplýsinga af þessu tagi skal tryggja að skyggingin haldist örugglega leynileg.
    5.     Í tengslum við markvisst eftirlit, sem um getur í 1. mgr., og í samræmi við innlend lög er heimilt að leita á einstaklingum, í ökutækjum og hlutum, sem menn hafa meðferðis, í þeim tilgangi sem um getur í 2. og 3. mgr. Ef markvisst eftirlit er ekki heimilt samkvæmt lögum einhvers samningsaðila skal því sjálfkrafa breytt í skyggingu hjá þeim samningsaðila.
    6.     Samningsaðili, sem beiðni er beint til, getur látið setja merki við skráningu í gagnasafni sinnar landseiningar í Schengen-upplýsingakerfinu um að ekki sé heimilt að taka ákvarðanir um skyggingu eða markvisst eftirlit á grundvelli þeirrar skráningar fyrr en merkinu hefur verið eytt. Merkinu skal eytt í síðasta lagi tuttugu og fjórum klukkustundum eftir að skráning er færð inn, nema viðkomandi samningsaðili hafni því, af lagalegum ástæðum eða af sérstökum tilfallandi ástæðum, að gera þær ráðstafanir sem beðið var um. Með fyrirvara um slíkt merki eða synjun hafa aðrir samningsaðilar heimild til að gera þær ráðstafanir sem beðið er um í skráningunni.

100. gr.

    1.     Upplýsingar um hluti, sem er leitað að í þeim tilgangi að leggja á þá hald eða nota sem sönnunargögn í sakamáli, skal skrá í Schengen-upplýsingakerfinu.
    2.     Ef við leit kemur í ljós að fyrir hendi er skráning á fundnum hlut hefur yfirvaldið, sem hefur staðfest þetta, samband við yfirvaldið sem færði skráninguna inn til þess að þau geti komið sér saman um hvaða ráðstafanir skuli gera. Einnig má veita persónuupplýsingar í þessum tilgangi í samræmi við ákvæði þessa samnings. Ráðstafanir, sem gerðar eru af þeim aðila sem fann viðkomandi hlut, skulu gerðar í samræmi við innlend lög.
    3.     Upplýsingar um eftirfarandi flokka hluta skulu skráðar:
     a)      vélknúin ökutæki með slagrými yfir 50 rúmsentímetra sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega eða hafa horfið;
     b)      eftirvagna og hjólhýsi með eiginþunga yfir 750 kg sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega eða hafa horfið;
     c)      skotvopn sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega eða hafa horfið;
     d)      óútfyllt skilríki sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega eða hafa horfið;
     e)      útgefin persónuskilríki (vegabréf, nafnskírteini, ökuskírteini) sem hefur verið stolið, hafa verið seld ólöglega eða hafa horfið;
     f)      peningaseðla (með skráðum númerum).

101. gr.

    1.     Aðgang að upplýsingum í Schengen-upplýsingakerfinu, með þeim rétti að mega leita beint að tilteknum upplýsingum, hafa eingöngu aðilar sem bera ábyrgð á:
     a)      landamæraeftirliti;
     b)      öðru eftirliti lögreglu og tolls inni í landinu svo og samræmingu slíks eftirlits.
    2.     Aðgang að upplýsingum, sem skráðar eru í samræmi við 96. gr., með þeim rétti að mega leita beint að þessum upplýsingum, hafa auk þess þau yfirvöld sem sjá um að gefa út vegabréfsáritanir, miðlæg yfirvöld sem bera ábyrgð á meðferð umsókna um vegabréfsáritanir og yfirvöld sem annast útgáfu dvalarleyfa og hafa umsjón með útlendingalöggjöfinni í tengslum við beitingu þeirra ákvæða þessa samnings sem varða för fólks. Aðgangur að framangreindum upplýsingum skal vera í samræmi við innlend lög hvers samningsaðila.
    3.     Notendur mega aðeins leita að þeim upplýsingum sem þeim eru nauðsynlegar við lausn verkefna sinna.
    4.     Hver samningsaðili um sig skal senda framkvæmdanefndinni skrá yfir þar til bær yfirvöld sem hafa heimild til að leita beint að upplýsingum í Schengen-upplýsingakerfinu. Í skránni skal tilgreint að hvaða upplýsingum hvert yfirvald megi leita og í hvaða tilgangi.

3. KAFLI
Vernd persónuupplýsinga og öryggi upplýsinga
í Schengen-upplýsingakerfinu

102. gr.

    1.     Samningsaðilunum er eingöngu heimilt að nota þær upplýsingar, sem kveðið er á um í 95. til 100. gr., í þeim tilgangi sem mælt er fyrir um við hverja tegund skráninga í framangreindum greinum.
    2.     Upplýsingar má eingöngu afrita í tæknilegum tilgangi þegar það er nauðsynlegt til að þau yfirvöld, sem um getur í 101. gr., geti leitað beint að upplýsingum. Ekki má afrita skráningar frá öðrum samningsaðila úr gagnasafni einnar landseiningar Schengen- upplýsingakerfisins í gagnasöfn annarra landseininga.
    3.     Varðandi skráningarnar, sem kveðið er á um í 95. til 100. gr. þessa samnings, er aðeins heimilt að víkja frá 1. mgr. með því að breyta úr einni tegund skráninga yfir í aðra ef það er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir alvarlega og bráða ógnun við almannaöryggi og allsherjarreglu, af alvarlegu tilefni er varðar öryggi ríkisins eða í þeim tilgangi að koma í veg fyrir alvarlegan refsiverðan verknað. Til þess þarf að fá leyfi fyrir fram hjá þeim samningsaðila sem færði skráninguna inn.
    4.     Upplýsingarnar má ekki nota í þágu stjórnsýslunnar. Þrátt fyrir þetta má nota upplýsingar, sem eru færðar inn skv. 96. gr., eingöngu í þeim tilgangi sem nefndur er í 2. mgr. 101. gr. og í samræmi við innlend lög hvers samningsaðila.
    5.     Öll notkun upplýsinga, sem samræmist ekki 1. til 4. mgr., skal vera talin misnotkun samkvæmt innlendum lögum hvers samningsaðila um sig.

103. gr.

    Hver samningsaðili um sig skal tryggja að sá aðili, sem ber ábyrgð á gagnasafninu, skrái að jafnaði tíunda hvert tilvik um sendingu persónuupplýsinga í landseiningu Schengen- upplýsingakerfisins í þeim tilgangi að hafa eftirlit með því hvort heimild sé fyrir leit. Skráninguna má aðeins nota í þessum tilgangi og skal eyða henni að sex mánuðum liðnum.

104. gr.

    1.     Um skráningar gilda innlend lög þess samningsaðila sem færir skráninguna inn, nema strangari skilyrði fyrir skráningu séu sett fram í þessum samningi.
    2.     Svo framarlega sem ekki eru sérstök ákvæði í þessum samningi skal beita innlendum lögum hvers samningsaðila um sig um upplýsingar sem hafa verið færðar inn í landseiningu Schengen-upplýsingakerfisins.
    3.     Svo framarlega sem ekki eru sérstök ákvæði í þessum samningi um framkvæmd aðgerðanna sem beðið er um í skráningu gilda innlend lög þess samningsaðila sem beiðni er beint til og sér um aðgerðir. Svo framarlega sem sérstök ákvæði eru í þessum samningi um framkvæmd aðgerða sem beðið er um í skráningu takmarkast ábyrgð til að framkvæma slíkar aðgerðir af innlendum lögum þess samningsaðila sem beiðni er beint til. Ef ekki er hægt að framkvæma umbeðnar aðgerðir skal samningsaðilinn, sem beiðni er beint til, tilkynna samningsaðilanum, sem færir inn skráninguna, tafarlaust um það.

105. gr.

    Samningsaðili, sem færir inn skráningu, ber ábyrgð á því að upplýsingarnar séu rétt færðar inn og uppfærðar svo og á lögmæti þess að skrá upplýsingarnar í Schengen-upplýsingakerfið.

106. gr.

    1.     Aðeins sá samningsaðili, sem færir inn skráningu, má breyta upplýsingum, bæta við þær, leiðrétta þær eða eyða þeim.
    2.     Hafi samningsaðili, sem færði sjálfur ekki inn tiltekna skráningu, vísbendingar um að upplýsingar í henni séu rangar eða að ekki hafi verið lögmætt að færa þær inn skal hann tilkynna samningsaðilanum, sem færði skráninguna inn, um það eins fljótt og unnt er og ber þeim síðarnefnda skylda til að kanna þessa tilkynningu umsvifalaust og leiðrétta eða eyða tafarlaust umræddum upplýsingum ef nauðsyn ber til.
    3.     Ef samningsaðilarnir geta ekki komist að samkomulagi leggur samningsaðilinn, sem ekki færði skráninguna inn upphaflega, málið fyrir sameiginlegu eftirlitsstofnunina, sem um getur í 1. mgr. 115. gr., til ályktunar.

107. gr.

    Þegar skráning á tilteknum einstaklingi hefur verið færð inn í Schengen-upplýsingakerfið og samningsaðili hefur í hyggju að bæta við nýrri skráningu skal hann komast að samkomulagi við samningsaðilann, sem færði fyrst inn skráningu, um hvernig skráningarnar skuli færðar inn. Samningsaðilarnir geta einnig sett almenn ákvæði um þetta atriði.

108. gr.

    1.     Hver samningsaðili um sig skal tilnefna yfirvald sem ber meginábyrgð á viðkomandi landseiningu Schengen-upplýsingakerfisins.
    2.     Hver samningsaðili um sig skal færa skráningar sínar inn hjá því yfirvaldi.
    3.     Umrætt yfirvald skal bera ábyrgð á því að rekstur landseiningar Schengen- upplýsingakerfisins gangi snurðulaust og gerir nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að farið sé að ákvæðum þessa samnings.
    4.     Samningsaðilarnir skulu tilkynna hver öðrum í gegnum vörsluaðilann hvaða yfirvald þau hafa tilnefnt skv. 1. mgr.

109. gr.

    1.     Réttur hvers einstaklings til þess að fá aðgang að þeim upplýsingum, sem eru til um hann í Schengen-upplýsingakerfinu, skal vera í samræmi við innlend lög samningsaðilans sem fær beiðni um nýtingu þessa réttar á yfirráðasvæði sínu. Svo framarlega sem innlend lög heimila ákveður innlenda eftirlitsstofnunin sem kveðið er á um í 1. mgr. 114. gr. hvort upplýsingar skuli gefnar og á hvaða hátt. Samningsaðili, sem hefur sjálfur ekki fært inn tiltekna skráningu, má því aðeins veita upplýsingar varðandi hana að hann hafi áður gefið samningsaðilanum, sem færði skráninguna inn, tækifæri til að tjá sig um það.
    2.     Viðkomandi einstaklingi skal neitað um aðgang að upplýsingunum ef það getur skaðað framkvæmd þar til bærra ráðstafana sem leiðir af skráningu eða ef það er nauðsynlegt til að vernda rétt og frelsi annarra. Upplýsingar eru aldrei gefnar á því tímabili sem skráning tengist skyggingu.

110. gr.

    Hver sem er hefur rétt til þess að láta leiðrétta rangar upplýsingar sem varða hann eða láta eyða upplýsingum sem hafa verið skráðar ólöglega.

111. gr.

    1.     Hver skráður einstaklingur hefur rétt til þess að leggja það fyrir þar til bæra dómstóla eða þar til bær yfirvöld á yfirráðasvæði hvers samningsaðila um sig, í samræmi við landslög, að leiðrétta eða eyða skráningu eða fá aðgang að upplýsingum um hana eða skaðabætur.
    2.     Með fyrirvara um ákvæði 116. gr. skuldbinda samningsaðilarnir sig sameiginlega til þess að fullnusta endanlegar ákvarðanir dómstóla eða yfirvalda sem um getur í 1. mgr.

112. gr.

    1.     Persónuupplýsingar, sem eru færðar inn í Schengen-upplýsingakerfið í tengslum við leit að einstaklingum, skal ekki geyma lengur en nauðsynlegt er í þeim ákveðna tilgangi. Eigi síðar en þremur árum eftir að skráning er færð inn skal samningsaðilinn, sem færði skráninguna inn, gera könnun á því hvort nauðsyn beri til að geyma upplýsingarnar áfram. Þegar um er að ræða skráningar skv. 99. gr. er umræddur frestur eitt ár.
    2.     Hver samningsaðili um sig getur ákveðið eftir atvikum að hafa styttri tímabil á milli kannana í samræmi við innlend lög.
    3.     Tæknileg stoðeining Schengen–upplýsingakerfisins skal tilkynna samningsaðilunum vélrænt með eins mánaðar fyrirvara þegar fyrirhugað er að eyða upplýsingum úr kerfinu.
    4.     Samningsaðili, sem færði inn tiltekna skráningu, getur ákveðið innan hins tiltekna frests að framlengja skráninguna ef það er nauðsynlegt að teknu tilliti til þeirrar ástæðu sem var fyrir skráningu. Ef ákveðið er að framlengja skráningu skal tæknilegu stoðeiningunni gert viðvart. Ákvæði 1. mgr. gilda um skráningu sem er framlengd.

113. gr.

    1.     Aðrar upplýsingar en þær sem um getur í 112. gr. skulu varðveittar í mesta lagi í tíu ár eftir skráningu, upplýsingar um útgefin persónuskilríki og skráða peningaseðla í mesta lagi í fimm ár og upplýsingar um ökutæki, eftirvagna og hjólhýsi í mesta lagi í þrjú ár.
    2.     Upplýsingar, sem hefur verið eytt, skulu varðveittar áfram í eitt ár í tæknilegu stoðeiningunni. Á þeim tíma má þó aðeins nota þær til þess að yfirfara hvort þær hafi verið rétt og löglega skráðar. Eftir þann tíma skal eyðileggja þær.

114. gr.

    1.     Hver samningsaðili um sig skal tilnefna eftirlitsstofnun sem hefur það verkefni í samræmi við innlenda löggjöf að annast óháð eftirlit með gagnasafni hverrar landseiningar Schengen-upplýsingakerfisins og því hvort úrvinnsla og notkun upplýsinganna í Schengen- upplýsingakerfinu brjóti í bága við réttindi viðkomandi einstaklinga. Eftirlitsstofnunin skal hafa aðgang að gagnasafni viðkomandi landseiningar Schengen-upplýsingakerfisins í þeim tilgangi.
    2.     Hver sem er hefur rétt til að senda beiðni til eftirlitsstofnunarinnar um athugun á upplýsingum, sem skráðar eru um viðkomandi einstakling í Schengen-upplýsingakerfinu, svo og á notkun þeirra. Þessi réttur er útfærður í samræmi við innlend lög þess samningsaðila sem fær beiðnina. Hafi annar samningsaðili fært inn viðkomandi upplýsingar fer athugunin fram í náinni samvinnu við eftirlitsstofnun þess samningsaðila.

115. gr.

    1.     Koma skal á fót sameiginlegri eftirlitsstofnun sem annast eftirlit með tæknilegri stoðeiningu Schengen-upplýsingakerfisins. Tveir fulltrúar frá eftirlitsstofnun hvers ríkis skulu vera við stofnunina. Hver samningsaðili um sig hefur eitt atkvæði við atkvæðagreiðslu. Eftirlitið skal unnið í samræmi við ákvæði þessa samnings, samnings Evrópuráðsins frá 28. janúar 1981 um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga, með tilliti til tilmæla ráðherranefndar Evrópuráðsins R (87) 15 frá 17. september 1987 varðandi notkun lögreglu á persónuupplýsingum og í samræmi við innlend lög þess samningsaðila sem ber ábyrgð á tæknilegu stoðeiningunni.
    2.     Verkefni sameiginlegu eftirlitsstofnunarinnar varðandi tæknilega stoðeiningu Schengen-upplýsingakerfisins verður að hafa eftirlit með því hvort rétt sé staðið að framkvæmd ákvæða þessa samnings. Í því skyni skal hún hafa aðgang að tæknilegu stoðeiningunni.
    3.     Sameiginlega eftirlitsstofnunin er einnig þar til bær að athuga vandamál sem upp koma við rekstur Schengen-upplýsingakerfisins varðandi beitingu eða túlkun, vandamál sem upp koma í tengslum við óháðar athuganir eftirlitsstofnana í hverju ríki eða hvernig nýta beri rétt til þess að fá aðgang að upplýsingum svo og að vinna að samræmdum tillögum að sameiginlegum lausnum á vandamálunum.
    4.     Skýrslur frá sameiginlegu eftirlitsstofnuninni skulu sendar til þeirra yfirvalda sem fá skýrslur frá eftirlitsstofnunum í hverju ríki.

116. gr.

    1.     Hver samningsaðili um sig ber ábyrgð á því í samræmi við innlend lög ef einstaklingur verður fyrir tjóni vegna notkunar gagnasafns Schengen-upplýsingakerfisins í því landi. Hið sama gildir ef einhver verður fyrir tjóni vegna þess að samningsaðili, sem færði inn skráningu, hefur skráð rangar upplýsingar eða upplýsingar sem ólögmætt var að skrá.
    2.     Ef samningsaðili, sem höfðað er mál gegn, er ekki sá samningsaðili sem færði inn skráningu skal hinn síðarnefndi endurgreiða, ef þess er óskað, þær fjárhæðir sem greiddar hafa verið sem skaðabætur, nema samningsaðilinn, sem beiðni var beint til, hafi notað viðkomandi upplýsingar í bága við ákvæði þessa samnings.

117. gr.

    1.     Með tilliti til tölvuvinnslu persónuupplýsinga, sem eru sendar samkvæmt ákvæðum þessa bálks, skal hver samningsaðili um sig, í síðasta lagi við gildistöku þessa samnings, setja nauðsynleg ákvæði í innlend lög til þess að tryggja að vernd persónuupplýsinga sé að minnsta kosti á því stigi sem leiðir af meginreglum samnings Evrópuráðsins frá 28. janúar 1981 um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga og sé í samræmi við tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins R (87) 15 frá 17. september 1987 varðandi notkun lögreglu á persónuupplýsingum.
    2.     Persónuupplýsingar má ekki senda samkvæmt ákvæðum þessa bálks fyrr en ákvæði 1. mgr. um vernd persónuupplýsinga hafa öðlast gildi í ríkjum þeirra samningsaðila sem eiga aðild að sendingunni.

118. gr.

    1.     Hver samningsaðili um sig skuldbindur sig til að gera ráðstafanir varðandi sína landseiningu Schengen-upplýsingakerfisins sem eru nauðsynlegar til þess:
          a)      að hindra að þeir sem ekki hafa til þess heimild hafi aðgang að gagnakerfum þar sem unnið er með persónuupplýsingar (eftirlit með aðgangi að gagnakerfum);
          b)      að hindra að þeir sem ekki hafa til þess heimild geti lesið, afritað, breytt eða fjarlægt gagnagrunna (eftirlit með gagnagrunnum);
          c)      að hindra að hægt sé að bæta inn í skrár án heimildar svo og að hindra að þeir sem ekki hafa til þess heimild geti lesið persónuupplýsingar, breytt þeim eða eytt þeim (eftirlit með færslum í gagnaskrár);
          d)      að hindra að þeir sem ekki hafa til þess heimild geti notað vélræn gagnavinnslukerfi með búnaði til gagnaflutnings (notendaeftirlit);
          e)      að tryggja að þeir sem hafa heimild til að nota vélræn gagnavinnslukerfi hafi eingöngu aðgang að þeim upplýsingum sem heimildin nær til (eftirlit með aðgangi að gögnum);
          f)      að tryggja að hægt sé að kanna og staðfesta til hvaða yfirvalda hægt er að senda persónuupplýsingar með búnaði til gagnaflutnings (eftirlit með gagnasendingum);
          g)      að tryggja að hægt sé að kanna og staðfesta eftir á hvaða persónuupplýsingar hafi verið færðar inn, hvenær og hver hafi fært þær inn í vélræna gagnavinnslukerfið (eftirlit með færslum);
          h)      að hindra að hægt sé án heimildar að lesa, afrita, breyta eða eyða persónuupplýsingum við sendingu upplýsinga eða við flutning gagnagrunna (eftirlit með flutningi gagna).
    2.     Hver samningsaðili um sig verður að gera sérstakar ráðstafanir til að tryggja öryggi upplýsinga þegar þær eru sendar til stofnana utan yfirráðasvæðis samningsaðilanna. Tilkynna skal sameiginlegu eftirlitsstofnuninni um þær ráðstafanir.
    3.     Hver samningsaðili um sig má aðeins ráða til starfa við vinnslu upplýsinga í sinni landseiningu Schengen-upplýsingakerfisins einstaklinga sem eru sérstaklega til þess hæfir og hafa staðist öryggispróf.
    4.     Samningsaðilinn, sem ber ábyrgð á tæknilegri stoðeiningu Schengen- upplýsingakerfisins, gerir þær ráðstafanir varðandi hana sem mælt er fyrir um í 1. til 3. mgr.

4. KAFLI
Skipting kostnaðar við Schengen-upplýsingakerfið
119. gr.

    1.     Samningsaðilarnir bera sameiginlega kostnað við uppsetningu og rekstur tæknilegu stoðeiningarinnar, sem um getur í 3. mgr. 92. gr., þar með talinn kostnað vegna tengibúnaðar landseininga Schengen-upplýsingakerfisins við tæknilegu stoðeininguna. Hlutur hvers samningsaðila um sig í kostnaðinum er ákveðinn á grundvelli hlutar hans í samræmdum útreikningsgrundvelli virðisaukaskatts í skilningi c-liðar 1. mgr. 2. gr. ákvörðunar ráðs Evrópubandalaganna frá 24. júní 1988 um eigið fjármagnskerfi bandalaganna.
    2.     Hver samningsaðili ber sjálfur kostnað við uppsetningu og rekstur sinnar landseiningar Schengen-upplýsingakerfisins.

V. BÁLKUR 10
Flutningar og vöruflæði
120. gr.

    1.     Samningsaðilarnir skulu í sameiningu sjá til þess að hvorki lög né stjórnsýslufyrirmæli hindri á óréttmætan hátt vöruflutninga yfir innri landamæri.
    2.     Samningsaðilarnir skulu auðvelda vöruflutninga yfir innri landamæri með því að afgreiða formsatriði varðandi bönn og takmarkanir um leið og vörur eru tollafgreiddar og afhentar til neyslu. Að vali viðkomandi getur tollafgreiðsla annaðhvort farið fram inni í landinu eða á innri landamærunum. Samningsaðilarnir skulu leggja sig fram um að hvetja til þess að tollafgreiðsla fari fram inni í landi.
    3.     Hafi ekki verið hægt að koma í framkvæmd þeim einföldunum sem um getur í 2. mgr., eða aðeins að hluta til, skulu samningsaðilarnir leggja sig fram um að skapa skilyrði til þess innbyrðis eða innan ramma Evrópubandalaganna.
    Þessi málsgrein gildir einkum um eftirlit með því að farið sé að reglum um atvinnuleyfi til flutninga og tæknilegt eftirlit með flutningatækjum, eftirlit með dýravernd og dýraheilbrigði, eftirlit með hreinlæti við meðferð kjöts og eftirlit með plöntuheilbrigði, svo og um eftirlit með flutningi hættulegs varnings og úrgangs.
    4.     Samningsaðilarnir skulu enn fremur leggja sig fram um að samræma formsatriði varðandi vöruflutninga yfir ytri landamæri og hafa eftirlit með því samkvæmt sameiginlegum meginreglum að þau formsatriði séu virt. Í þessum tilgangi skulu samningsaðilarnir vinna náið saman í framkvæmdanefndinni, innan ramma Evrópubandalaganna og á öðrum alþjóðlegum vettvangi.

121. gr.

    1.     Í samræmi við lög bandalagsins skulu samningsaðilarnir falla frá eftirliti með plöntuheilbrigði og kröfum um að leggja fram vottorð um plöntuheilbrigði sem kveðið er á um í lögum bandalagsins varðandi tilteknar plöntur og plöntuafurðir.
    Framkvæmdanefndin skal taka saman skrá yfir plöntur og plöntuafurðir sem falla undir einfaldanir þær sem um getur í fyrsta málslið hér að framan. Hún getur breytt skránni og ákveður hvenær slíkar breytingar öðlast gildi. Samningsaðilarnir skulu tilkynna hver öðrum um þær ráðstafanir sem þeir hafa gripið til.
    2.     Ef hætta er á því á skaðvaldar berist inn eða breiðist út getur samningsaðili krafist þess að eftirlitsráðstöfunum, sem mælt er fyrir um í lögum bandalagsins, verði komið á aftur tímabundið og framfylgt þeim sjálfur. Hann skal tilkynna hinum samningsaðilunum um það skriflega án tafar og tilgreina ástæður fyrir þessari ákvörðun.
    3.     Plöntuheilbrigðisvottorðið má nota áfram sem vottorð sem krafist er samkvæmt lögum um verndun tegundanna.
    4.     Að fenginni beiðni skal þar til bært yfirvald gefa út plöntuheilbrigðisvottorð þegar sending er að öllu leyti eða að hluta til ætluð til endurútflutnings svo framarlega sem plönturnar eða plöntuafurðirnar uppfylla kröfur um plöntuheilbrigði.

122. gr.

    1.     Samningsaðilarnir skulu styrkja samstarf sitt til að tryggja öryggi í tengslum við flutninga á hættulegum varningi og skuldbinda sig til að samræma innlend lagaákvæði til samræmis við gildandi alþjóðlega samninga. Í þeim tilgangi sérstaklega að viðhalda núverandi öryggisstigi skuldbinda þeir sig auk þess til að:
     a)      samræma kröfur varðandi faglega hæfni bílstjóra;
     b)      samræma aðferðir við og umfang eftirlits með flutningunum og í fyrirtækjunum;
     c)      samræma atvikalýsingar lögbrota og lagaákvæði um gildandi viðurlög þar að lútandi;
     d)      tryggja stöðug skipti á upplýsingum og lýsingum á reynslu af þeim ráðstöfunum sem gripið hefur verið til, svo og af því eftirliti sem hefur verið framfylgt.
    2.     Samningsaðilarnir skulu styrkja samstarf sitt í tengslum við eftirlit með flutningi yfir innri landamærin á hættulegum og hættulausum úrgangi.
    Í því sambandi skulu þeir leggja sig fram um að hafa sameiginlega afstöðu til breytinga á tilskipunum bandalagsins um eftirlit og umsjón með flutningi hættulegs úrgangs og til upptöku bandalagsgerða um hættulausan úrgang með það að markmiði að koma á fót fullnægjandi innra skipulagi og setja samræmda staðla á háu stigi fyrir förgun úrgangsins.
    Á meðan bandalagsreglur um hættulausan úrgang eru ekki fyrir hendi skal eftirlit með flutningi slíks úrgangs vera með þeim hætti að það sé mögulegt að fylgjast með flutningi á ákvörðunarstað á meðan hann er meðhöndlaður.
    Ákvæði annars málsliðar 1. mgr. eiga einnig við um þessa málsgrein.

123. gr.

    1.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig til að ráðfæra sig hver við annan í þeim tilgangi að afnema núgildandi gagnkvæma skyldu að framvísa leyfi til útflutnings hernaðarlegra mikilvægra iðnaðarvara og tækniþekkingar og, ef við á, koma á sveigjanlegri málsmeðferð í stað slíks leyfis svo framarlega sem löndin, sem eru fyrsti ákvörðunarstaður og lokaákvörðunarstaður, eru samningsaðilar.
    Með fyrirvara um slíkt samráð og til þess að tryggja skilvirkni slíks eftirlits, þar sem það reynist nauðsynlegt, skulu samningsaðilarnir leggja sig fram um í náinni samvinnu, og með því að koma á samræmingarkerfi, að skiptast á nauðsynlegum upplýsingum í samræmi við innlenda löggjöf.
    2.     Að því er varðar aðrar vörur en hernaðarlega mikilvægar iðnaðarvörur og tækniþekkingu, sem um getur í 1. mgr., skulu samningsaðilarnir annars vegar leitast við að afgreiða formsatriði varðandi útflutning inni í landi og hins vegar að samræma eftirlitsaðferðir sínar.
    3.     Innan ramma þeirra markmiða, sem sett eru í 1. og 2. mgr. hér að framan, skulu samningsaðilarnir hafa samráð við önnur aðildarríki sem málið varðar.

124. gr.

    Dregið skal, eins og kostur er, úr tíðni og umfangi eftirlits með vörum í tengslum við för fólks yfir innri landamærin. Hvort dregið verður frekar úr eftirliti og það endanlega lagt niður er háð því að komið verði smátt og smátt á undanþágum fyrir ferðamenn og hvernig gildandi ákvæði um för fólks yfir landamæri koma til með að þróast.

125. gr.

    1.     Samningsaðilarnir skulu gera samninga um gagnkvæm skipti á tengifulltrúum frá tollyfirvöldum sínum.
    2.     Markmiðið með skiptum á tengifulltrúum er að styðja og flýta fyrir samstarfi milli samningsaðilanna almennt og sérstaklega innan ramma gildandi samninga og bandalagsgerða um gagnkvæma aðstoð.
    3.     Það er verkefni tengifulltrúa að veita ráðgjöf og aðstoð. Þeim er ekki heimilt að grípa að eigin frumkvæði til ráðstafana varðandi tollgæslu. Þeir skulu veita upplýsingar og sinna verkefnum sínum í samræmi við leiðbeiningar sem þeir fá frá sínu heimalandi.

VI. BÁLKUR
Vernd persónuupplýsinga
126. gr.

    1.     Að því er varðar vélræna vinnslu persónuupplýsinga, sem sendar eru á milli samkvæmt þessum samningi, skal hver samningsaðili um sig setja nauðsynleg ákvæði í innlend lög, í síðasta lagi við gildistöku þessa samnings, til þess að tryggja að vernd persónuupplýsinga sé að minnsta kosti á því stigi sem leiðir af meginreglum samnings Evrópuráðsins frá 28. janúar 1981 um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga.
    2.     Sendingu persónuupplýsinga, sem kveðið er á um í þessum samningi, má ekki hefja fyrr en ákvæði um vernd persónuupplýsinga, sem tilgreind eru í 1. mgr., hafa öðlast gildi á yfirráðasvæði þeirra samningsaðila sem eru aðilar að sendingunni.
    3.     Auk þess gilda eftirfarandi ákvæði um vélræna vinnslu persónuupplýsinga sem eru sendar á milli samkvæmt þessum samningi:
     a)      Samningsaðilanum, sem tekur við upplýsingum, er aðeins heimilt að nota upplýsingarnar í þeim ákveðna tilgangi sem kveðið er á um varðandi sendingu slíkra upplýsinga í þessum samningi; notkun upplýsinganna í öðrum tilgangi er eingöngu heimil að fengnu fyrirframleyfi samningsaðilans, sem sendir upplýsingarnar, og í samræmi við löggjöf samningsaðilans sem tekur við þeim. Gefa má slíkt leyfi svo framarlega sem löggjöf samningsaðilans, sem sendir upplýsingarnar, heimilar slíkt.
     b)      Aðeins þau dómsmálayfirvöld, þær deildir og stofnanir, sem eru þar til bærar að sinna verkefnum eða rækja skyldur í tengslum við þau markmið sem mælt er fyrir um í a-lið, mega nota upplýsingarnar.
     c)      Samningsaðilanum, sem sendir upplýsingarnar, ber skylda til að tryggja að þær séu réttar; sannreyni hann, annaðhvort að eigin frumkvæði eða að fenginni beiðni frá viðkomandi einstaklingi, að upplýsingarnar hafi verið rangar eða ekki hafi verið heimilt að senda þær skal tilkynna það tafarlaust þeim samningsaðila eða samningsaðilum sem tóku við upplýsingunum. Honum eða þeim ber skylda til að leiðrétta upplýsingarnar, eyða þeim eða merkja við þær að þær séu rangar eða ekki hafi átt að senda þær.
     d)      Samningsaðili getur ekki vísað til þess að annar samningsaðili hafi sent honum rangar upplýsingar til þess að firra sig ábyrgð sem hann ber gagnvart tjónþola samkvæmt innlendum lögum. Þurfi samningsaðilinn, sem tekur við upplýsingum, að greiða skaðabætur vegna tjóns sem hefur orðið vegna notkunar rangra aðsendra upplýsinga skal samningsaðilinn, sem sendi upplýsingarnar, greiða samningsaðilanum, sem tók við þeim, þá fjárhæð sem skaðabótunum nemur að fullu.
     e)      Sendingu og viðtöku persónuupplýsinga skal færa inn í gagnasafnið sem þær eru sendar úr og í gagnasafnið sem þær eru settar inn í.
     f)      Sameiginlega eftirlitsstofnunin, sem um getur í 115. gr., getur, að fenginni beiðni frá einum samningsaðilanna, lagt fram álitsgerð um vandamál í sambandi við beitingu og túlkun þessarar greinar.
    4.     Þessi grein gildir ekki um sendingu upplýsinga sem kveðið er á um í 7. kafla II. bálks og í IV. bálki. Ákvæði 3. mgr. skulu ekki gilda um sendingu upplýsinga sem kveðið er á um í 2., 3., 4. og 5. kafla III. bálks.

127. gr.

    1.     Þegar persónuupplýsingar eru sendar til annars samningsaðila samkvæmt ákvæðum þessa samnings gilda ákvæði 126. gr. um sendingu upplýsinga sem koma úr órafrænu gagnasafni og upplýsingar sem komið er fyrir í slíku gagnasafni.
    2.     Þegar persónuupplýsingar eru sendar til annars samningsaðila samkvæmt þessum samningi í öðrum tilfellum en þeim sem um getur í 1. mgr. 126. gr. eða í 1. mgr. þessarar greinar, þá gildir 3. mgr. 126. gr., að undanskildum e-lið. Auk þess gilda eftirfarandi ákvæði:
     a)      sendingu og viðtöku persónuupplýsinga skal skrá skriflega; þessi skylda fellur niður þegar ekki er nauðsynlegt að skrá notkun upplýsinganna, sérstaklega þegar upplýsingarnar eru ekki notaðar eða eru aðeins notaðar í stuttan tíma;
     b)      við notkun upplýsinga, sem hafa verið sendar á milli, skal sá samningsaðili, sem tekur við upplýsingum, tryggja að vernd þeirra sé að minnsta kosti í samræmi við þá vernd sem gildir um notkun upplýsinga af sama tagi samkvæmt lögum þess samningsaðila;
     c)      ákvörðun um hvort heimila skal aðgang að upplýsingum, og með hvaða skilyrðum, er tekin á grundvelli landslaga þess samningsaðila sem viðkomandi einstaklingur lagði beiðni fyrir.
    3.     Þessi grein gildir ekki um sendingu upplýsinga sem kveðið er á um í 7. kafla II. bálks, í 2., 3., 4. og 5. kafla III. bálks og í IV. bálki.

128. gr.

    1.     Ekki er heimilt að senda persónuupplýsingar, eins og kveðið er á um í þessum samningi, fyrr en samningsaðilarnir, sem koma að sendingunni, hafa gefið innlendri eftirlitsstofnun fyrirmæli um að láta fara fram óháða úttekt á því að ákvæði 126. og 127. gr., svo og ákvæði um framkvæmd þeirra, séu virt að því er varðar vinnslu persónuupplýsinga í gagnasöfnum.
    2.     Hafi samningsaðili, í samræmi við innlend lög, falið eftirlitsstofnun það verkefni að annast óháð eftirlit með því að á einu eða fleiri sviðum séu virt lagaákvæði um vernd persónuupplýsinga sem ekki hafa verið settar inn í gagnasafn skal sá samningsaðili einnig fela þeirri eftirlitsstofnun að hafa eftirlit með því að ákvæði þessa bálks á viðkomandi sviðum séu virt.
    3.     Þessi grein gildir ekki um sendingu upplýsinga sem kveðið er á um í 7. kafla II. bálks og í 2., 3., 4. og 5. kafla III. bálks.

129. gr.

    Að því er varðar sendingu persónuupplýsinga skv. 1. kafla III. bálks skuldbinda samningsaðilarnir sig, með fyrirvara um ákvæði 126. og 127. gr., til að tryggja að vernd persónuupplýsinga sé að minnsta kosti á því stigi sem leiðir af meginreglum tilmæla ráðherranefndar Evrópuráðsins R (87) 15 frá 17. september 1987 varðandi notkun lögreglu á persónuupplýsingum. Að því er varðar sendingu upplýsinga skv. 46. gr. gilda auk þess eftirfarandi ákvæði:
     a)      samningsaðilanum, sem tekur við upplýsingunum, er eingöngu heimilt að nota þær í þeim tilgangi sem samningsaðilinn, sem sendir upplýsingarnar, kveður á um og með þeim skilyrðum sem hann setur;
     b)      upplýsingarnar má eingöngu senda til lögregludeilda og lögregluyfirvalda; þær má aðeins senda áfram til annarra yfirvalda að fengnu fyrirframleyfi samningsaðilans sem sendi upplýsingarnar;
     c)      samningsaðilinn, sem tekur við upplýsingunum, greinir samningsaðilanum, sem sendir þær, frá því hvernig viðkomandi upplýsingar hafi verið notaðar og hvaða árangur hafi náðst í því sambandi ef beiðni berst um slíkt.

130. gr.

    Ef persónuupplýsingar eru sendar í gegnum tengifulltrúa, eins og um getur í 47. eða 125. gr., gilda ákvæði þessa bálks einungis þegar tengifulltrúinn hefur sent slíkar upplýsingar til þess samningsaðila sem sendi hann til starfa á yfirráðasvæði annars samningsaðila.

VII. BÁLKUR 11
Framkvæmdanefnd
131. gr.

    1.     Framkvæmdanefnd skal komið á fót til að framkvæma þennan samning.
    2.     Með fyrirvara um það sérstaka valdsvið, sem framkvæmdanefndinni er falið í þessum samningi, er meginhlutverk hennar að tryggja rétta framkvæmd þessa samnings.

132. gr.

    1.     Hver samningsaðili um sig á einn fulltrúa í framkvæmdanefndinni. Fulltrúi samningsaðilanna í framkvæmdanefndinni skal vera ráðherra sem ber ábyrgð á framkvæmd þessa samnings; ef þörf er á er honum heimilt að leita aðstoðar sérfræðinga sem mega taka þátt í umræðum.
    2.     Ákvarðanir framkvæmdanefndarinnar skulu vera samhljóða. Hún setur sér starfsreglur og getur í því sambandi ákveðið að ákvarðanatökur geti farið fram skriflega.
    3.     Fari fulltrúi samningsaðila fram á slíkt er heimilt að fresta endanlegri ákvörðun um tillögu sem framkvæmdanefndin hefur tekið afstöðu til, en þó ekki lengur en í tvo mánuði frá því að tillagan var lögð fram.
    4.     Framkvæmdanefndin getur komið á fót vinnuhópum, sem í eru fulltrúar stjórnsýslu samningsaðilanna, með það í huga að undirbúa ákvarðanir eða sinna öðrum verkefnum.

133. gr.

    Framkvæmdanefndin skal koma saman til skiptis á yfirráðasvæði hvers samningsaðila um sig. Haldnir verða fundir eins oft og nauðsynlegt er til þess að nefndin geti sinnt verkefnum sínum.

VIII. BÁLKUR
Lokaákvæði
134. gr.

    Ákvæðum samnings þessa skal því aðeins beita að því marki sem þau samræmast lögum bandalagsins. 12

135. gr.

    Ákvæðum samnings þessa skal beita með fyrirvara um ákvæði Genfarsamningsins um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 eins og honum var breytt með New York-bókuninni frá 31. janúar 1967.

136. gr.

    1.     Hafi samningsaðili í hyggju að hefja viðræður um landamæraeftirlit við þriðja ríki skal hann greina hinum samningsaðilunum frá því með góðum fyrirvara.
    2.     Samningsaðilunum er ekki heimilt að gera tvíhliða eða marghliða samninga við þriðju ríki um einföldun eða afnám eftirlits á landamærum án þess að leita áður samþykkis hinna samningsaðilanna með fyrirvara um rétt aðildarríkja Evrópubandalaganna til að gera slíka samninga í sameiningu.
    3.     Ákvæði 2. mgr. gilda ekki um samninga um staðbundna umferð yfir landamæri svo framarlega sem í þeim samningum séu virtar þær undantekningar og skilyrði sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 3. gr.

137. gr.

    Ekki er hægt að gera aðra fyrirvara við þennan samning en þá sem um getur í 60. gr.

138. gr.

    Að því er varðar Lýðveldið Frakkland gilda ákvæði samnings þessa eingöngu um yfirráðasvæði Lýðveldisins Frakklands í Evrópu.
    Að því er varðar Konungsríkið Holland gilda ákvæði samnings þessa eingöngu um yfirráðasvæði Konungsríkisins Hollands í Evrópu.

139. gr. 13

    1.     Samningur þessi er háður fullgildingu, staðfestingu eða samþykki. Skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki skulu afhent til vörslu hjá ríkisstjórn Stórhertogadæmisins Lúxemborgar sem skal tilkynna öllum samningsaðilunum um það.
    2.     Samningur þessi öðlast gildi fyrsta dag annars mánaðar eftir að síðasta skjalið um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki hefur verið afhent til vörslu. Ákvæði um að koma framkvæmdanefndinni á fót, um verkefni hennar og valdsvið koma til framkvæmda við gildistöku samningsins. Önnur ákvæði koma til framkvæmda fyrsta dag þriðja mánaðar eftir gildistöku samningsins.
    3.     Ríkisstjórn Stórhertogadæmisins Lúxemborgar skal tilkynna öllum samningsaðilunum um gildistökudaginn.

140. gr. 14

    1.     Öll aðildarríki Evrópubandalaganna geta gerst aðilar að samningi þessum. Um aðildina skal gera samning milli þess ríkis og samningsaðilanna.
    2.     Slíkur samningur er háður fullgildingu, staðfestingu eða samþykki þess ríkis sem fær aðild og hvers samningsaðila um sig. Hann öðlast gildi fyrsta dag annars mánaðar eftir að síðasta skjalið um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki hefur verið afhent til vörslu.

141. gr. 15

    1.     Hver samningsaðili um sig getur sent vörsluaðila tillögu um breytingu á samningi þessum. Vörsluaðili skal tilkynna hinum samningsaðilunum um þá tillögu. Ef beiðni berst frá einum samningsaðila fara samningsaðilarnir aftur yfir ákvæði samnings þessa ef aðstæður, sem voru fyrir hendi við gildistöku samningsins, hafa að þeirra mati breyst í grundvallaratriðum frá gildistöku hans.
    2.     Samningsaðilarnir skulu samþykkja samhljóða breytingar á samningi þessum.
    3.     Breytingarnar öðlast gildi fyrsta dag annars mánaðar eftir að síðasta skjalið um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki hefur verið afhent til vörslu.

142. gr. 16

    1.     Verði gerðir samningar milli aðildarríkja Evrópubandalaganna með það í huga að svæði án innri landamæra verði að veruleika þá skulu samningsaðilarnir koma sér saman um með hvaða skilyrðum viðeigandi ákvæði framangreindra samninga komi í staðinn fyrir ákvæði samnings þessa eða hvaða ákvæðum hans þurfi að breyta.
    Samningsaðilarnir skulu í þessu sambandi taka tillit til þess að ákvæði samnings þessa geta kveðið á um víðtækara samstarf en ákvæði áðurnefndra samninga.
    Ákvæði, sem ganga gegn ákvæðum samninga milli aðildarríkja Evrópubandalaganna, skulu aðlöguð í öllum tilvikum.
    2.     Þær breytingar á samningi þessum, sem samningsaðilarnir telja nauðsynlegar, eru háðar fullgildingu, staðfestingu eða samþykki. Beita skal ákvæði 3. mgr. 141. gr. enda öðlast breytingarnar ekki gildi fyrr en áðurnefndir samningar milli aðildarríkja Evrópubandalaganna hafa öðlast gildi.

    Þessu til staðfestu hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

    Gjört í Schengen nítjánda dag júnímánaðar nítján hundruð og níutíu á frönsku, hollensku og þýsku, og eru allir textarnir jafngildir, í einu frumriti sem verður afhent til vörslu í skjalasafni ríkisstjórnar Stórhertogadæmisins Lúxemborgar sem skal láta hverjum samningsaðila um sig í té staðfest endurrit.

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Konungsríkisins Belgíu

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Sambandslýðveldisins Þýskalands

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Lýðveldisins Frakklands

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Stórhertogadæmisins Lúxemborgar

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Konungsríkisins HollandsLOKAGERÐ


    Við undirritun samningsins um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 14. júní 1985 milli ríkisstjórna ríkja Benelúx-efnahagssambandsins, Sambandslýðveldisins Þýskalands og Lýðveldisins Frakklands um afnám í áföngum á eftirliti á sameiginlegum landamærum hafa samningsaðilarnir samþykkt eftirfarandi yfirlýsingar:
     1.      Sameiginleg yfirlýsing um 139. gr.
             Undirritunarríkin skulu, fyrir gildistöku samningsins, gefa hvert öðru upplýsingar um allar aðstæður sem máli skipta varðandi efni samningsins og til að hann komi til framkvæmda.
             Samningurinn kemur ekki til framkvæmda fyrr en skilyrðin fyrir framkvæmd samningsins hafa verið uppfyllt í undirritunarríkjunum og eftirliti á ytri landamærunum hefur verið komið á að fullu.
     2.      Sameiginleg yfirlýsing um 4. gr. 17
             Samningsaðilarnir skuldbinda sig til að leggja allt kapp á að virða þessi tímamörk samtímis og koma í veg fyrir að öryggi sé ábótavant. Framkvæmdanefndin skal kanna fyrir 31. desember 1992 hvaða framfarir hafi orðið. Konungsríkið Holland bendir á að ekki sé hægt að útiloka erfiðleika við að virða tímamörkin í tiltekinni flughöfn án þess þó að glufa myndist í öryggismálum. Hinir samningsaðilarnir munu taka tillit til þessa án þess þó að það hafi erfiðleika í för með sér fyrir innri markaðinn.
             Komi upp erfiðleikar skal framkvæmdanefndin kanna hvernig best er að koma ráðstöfununum í flughöfnum samtímis í framkvæmd.
     3.      Sameiginleg yfirlýsing um 2. mgr. 71. gr.
             Ef samningsaðili víkur í innlendri stjórnmálastefnu sinni um forvarnir og meðferð við misnotkun fíkniefna og geðvirkra efna frá meginreglunni, sem um getur í 2. mgr. 71. gr., skulu allir samningsaðilarnir grípa til nauðsynlegra stjórnsýslu- og refsiréttarlegra ráðstafana til þess að koma í veg fyrir og berjast gegn ólöglegum inn- og útflutningi slíkra efna, einkum til yfirráðasvæðis hinna samningsaðilanna.
     4.      Sameiginleg yfirlýsing um 121. gr. 18
             Samningsaðilarnir skulu, jafnframt því að lög bandalagsins eru virt, ekki gera kröfu um eftirlit með plöntuheilbrigði og að lögð séu fram þau vottorð um plöntuheilbrigði, sem kveðið er á um í lögum bandalagsins um plöntur og plöntuafurðir, og
        a)    eru taldar upp undir 1. lið, eða
        b)    eru taldar upp undir liðum 2 til 6 og eru upprunnar í einhverju samningsríkjanna.
              1.      Afskorin blóm og plöntuhlutar, ætluð til skreytinga, af tegundunum: Castanea Chrysanthemum Dendranthema Dianthus Gladiolus Gypsophila Prunus Quercus Rosa Salix Syringa Vitis
              2.      Ferskir ávextir af tegundunum: Citrus Cydonia Malus Prunus Pyrus
              3.      Viður af tegundunum: Castanea Quercus
              4.      Vaxtarefni sem að öllu leyti eða hluta til er samsett úr mold eða föstu lífrænu efni eins og plöntuhlutum, torfi eða berki með moldarefni en er þó ekki eingöngu úr torfi.
              5.      Fræ.
              6.      Lifandi plöntur sem eru nefndar hér á eftir og falla undir sameinuðu tollnafnaskrána (SAT) en hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna 7. september 1987. 19
                 SAT             Lýsing
                0601 20 30    blómlaukar, rótarhnýði, jarðstönglar og forðastönglar í vexti eða í blóma, brönugrös (orkideur), goðaliljur (hýasintur), hátíðarliljur (narsissur) og túlipanar
                0601 20 90    blómlaukar, rótarhnýði, jarðstönglar og forðastönglar í vexti eða í blóma: annað
                0602 30 10    Alparósir og glóðarrósir (Azalea indica)
                0602 99 51    útiplöntur: fjölærar útiplöntur
                0602 99 59    útiplöntur: aðrar
                0602 99 91    stofuplöntur: blómplöntur með knöppum eða blómum að frátöldum kaktusum
                0602 99 99    stofuplöntur: aðrar
     5.      Sameiginleg yfirlýsing um stefnu einstakra ríkja í málum er varða hæli 20
             Samningsaðilarnir skulu taka saman greinargerð um stefnur einstakra ríkja í málum er varða hæli með það í huga að stuðla að samræmingu.
     6.      Sameiginleg yfirlýsing um 132. gr. 21
             Samningsaðilarnir skulu upplýsa hver sitt þjóðþing um framkvæmd þessa samnings.

    Gjört í Schengen nítjánda dag júnímánaðar nítján hundruð og níutíu á frönsku, hollensku og þýsku, og eru allir textarnir jafngildir, í einu frumriti sem verður afhent til vörslu í skjalasafni ríkisstjórnar Stórhertogadæmisins Lúxemborgar sem skal láta hverjum samningsaðila um sig í té staðfest endurrit.

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Konungsríkisins Belgíu

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Sambandslýðveldisins Þýskalands

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Lýðveldisins Frakklands

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Stórhertogadæmisins Lúxemborgar

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Konungsríkisins Hollands


Fundargerð 22

    Til viðbótar við lokagerð samningsins um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 14. júní 1985 milli ríkja Benelúx-efnahagssambandsins, Sambandslýðveldisins Þýskalands og Lýðveldisins Frakklands um afnám í áföngum á eftirliti á sameiginlegum landamærum hafa samningsaðilarnir samþykkt eftirfarandi sameiginlega yfirlýsingu og tekið mið af eftirfarandi yfirlýsingum, sem þar eru gefnar einhliða, varðandi áðurnefndan samning:

I.        Yfirlýsing um gildissvið samningsins
             Samningsaðilarnir taka eftirfarandi fram: eftir sameiningu þýsku ríkjanna tveggja mun gildissvið samningsins samkvæmt þjóðarétti einnig ná yfir yfirráðasvæði Þýska alþýðulýðveldisins.
II.        Yfirlýsing Sambandslýðveldisins Þýskalands um túlkun samningsins
     1.      Samningurinn er gerður í ljósi fyrirhugaðrar sameiningar beggja þýsku ríkjanna.
             Hvað varðar Sambandslýðveldið Þýskaland er Þýska alþýðulýðveldið ekki erlent land.
             Ákvæði 136. gr. gilda ekki um tengsl Sambandslýðveldisins Þýskalands og Þýska alþýðulýðveldisins.
     2.      Þessi samningur hefur ekki áhrif á fyrirkomulagið, sem ákveðið var í bréfaskiptum milli Þjóðverja og Austurríkismanna frá 20. ágúst 1984, um að draga úr eftirliti á sameiginlegum landamærum þeirra fyrir ríkisborgara beggja ríkjanna. Með tilliti til krafna Schengen-samningsaðilanna varðandi öryggi og innflytjendur skal þó þessu fyrirkomulagi komið á með þeim hætti að hagræðingin komi í raun aðeins austurrískum ríkisborgurum til góða.
III.    Yfirlýsing Konungsríkisins Belgíu um 67. gr.
             Með tilliti til yfirfærslu fullnustu erlendra dóma mun Belgía ekki fylgja innlendri málsmeðferð, sem kveðið er á um í belgískum lögum, um flutning dómþola á milli ríkja heldur sérstakri málsmeðferð sem ákveðin verður við fullgildingu þessa samnings.

    Gjört í Schengen nítjánda dag júnímánaðar nítján hundruð og níutíu á frönsku, hollensku og þýsku, og eru allir textarnir jafngildir, í einu frumriti sem verður afhent til vörslu í skjalasafni ríkisstjórnar Stórhertogadæmisins Lúxemborgar sem skal láta hverjum samningsaðila um sig í té staðfest endurrit.

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Konungsríkisins Belgíu

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Sambandslýðveldisins Þýskalands

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Lýðveldisins Frakklands

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Stórhertogadæmisins Lúxemborgar

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Konungsríkisins Hollands


SAMEIGINLEG YFIRLÝSING 23

ráðherra og aðstoðarráðherra
sem komu saman í Schengen 19. júní 1990


    Ríkisstjórnir samningsaðila Schengen-samkomulagsins munu hefja eða halda áfram umræðum um eftirfarandi atriði sérstaklega:
          að bæta og einfalda fyrirkomulag við framsal;
          að bæta samstarf um málsmeðferð vegna umferðarlagabrota;
          að vinna að reglum um gagnkvæma viðurkenningu ökuleyfissviptingar;
          að gera mögulega gagnkvæma fullnustu fjársekta;
          að vinna að reglum um gagnkvæman flutning málsmeðferðar, þar með hugsanlegan flutning hins grunaða til síns heimalands;
          að vinna að reglum um heimsendingu ólögráða barna sem hafa verið tekin ólöglega frá þeim sem fer með forræði barnanna;
          að halda áfram að einfalda eftirlit með vöruflutningum í viðskiptum.

    Gjört í Schengen nítjánda dag júnímánaðar nítján hundruð og níutíu á frönsku, hollensku og þýsku, og eru allir textarnir jafngildir, í einu frumriti sem verður afhent til vörslu í skjalasafni ríkisstjórnar Stórhertogadæmisins Lúxemborgar sem skal láta hverjum samningsaðila um sig í té staðfest endurrit.

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Konungsríkisins Belgíu

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Sambandslýðveldisins Þýskalands

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Lýðveldisins Frakklands

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Stórhertogadæmisins Lúxemborgar

    Fyrir hönd ríkisstjórnar Konungsríkisins Hollands


YFIRLÝSING RÁÐHERRA OG AÐSTOÐARRÁÐHERRA 24


    Fulltrúar ríkisstjórna Konungsríkisins Belgíu, Sambandslýðveldisins Þýskalands, Lýðveldisins Frakklands, Stórhertogadæmisins Lúxemborgar og Konungsríkisins Hollands hafa þann 19. júní 1990 undirritað í Schengen, Stórhertogadæminu Lúxemborg, samning um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 14. júní 1985 milli ríkisstjórna ríkja Benelúx- efnahagssambandsins, Sambandslýðveldisins Þýskalands og Lýðveldisins Frakklands um afnám í áföngum á eftirliti á sameiginlegum landamærum.
    Við undirritun þessa hafa þeir gefið eftirfarandi yfirlýsingar:
          Samningsaðilarnir eru þeirrar skoðunar að samningurinn sé mikilvægt skref í þá átt að svæði án innri landamæra verði að veruleika og líta á það sem lið í frekara starfi á vettvangi aðildarríkja Evrópubandalaganna.
          Með tilliti til áhættu, sem tengist öryggi og ólöglegum innflytjendum, leggja ráðherrarnir og aðstoðarráðherrarnir áherslu á nauðsyn þess að koma á skilvirku eftirliti á ytri landamærunum samkvæmt þeim samræmdu meginreglum sem mælt er fyrir um í 6. gr. Samningsaðilarnir munu beita sér sérstaklega fyrir því að samræma vinnureglur við landamæraeftirlit með það í huga að koma þessum samræmdu meginreglum í framkvæmd.
    Framkvæmdanefndin skal auk þess meta allar þær ráðstafanir sem stuðla að því að koma á samræmdu og skilvirku eftirliti á ytri landamærunum, svo og koma slíkum ráðstöfunum í framkvæmd. Meðal þeirra eru ráðstafanir til þess að staðfesta með hvaða hætti útlendingur kom inn á yfirráðasvæði samningsaðilanna, ráðstafanir til þess að samræma hvað skuli haft til viðmiðunar þegar synjað er um komu, til þess að vinna að sameiginlegri handbók fyrir embættismenn sem sinna landamæraeftirliti og til þess að stuðla að samsvarandi fyrirkomulagi við eftirlit á ytri landamærunum með skiptum og sameiginlegum vinnuheimsóknum.
    Við undirritun þessa hafa þeir staðfest að samningamiðhópurinn hefur ákveðið að koma á fót vinnuhópi með eftirfarandi valdsviði:
          að kynna samningamiðhópnum, fyrir gildistöku samningsins, allar aðstæður sem máli skipta varðandi efni samningsins og til að hann komi til framkvæmda, sérstaklega um þann árangur sem náðst hefur við samræmingu lagaákvæða við sameiningu beggja þýsku ríkjanna;
          að ráðgast um hugsanlegar afleiðingar þessarar samræmingar og þessara aðstæðna fyrir að samningurinn komi til framkvæmda;
          að gera, fyrir gildistöku samningsins, raunhæfar ráðstafanir með tilliti til frjálsrar farar útlendinga, sem falla ekki undir kvöð um vegabréfsáritun, og tillögur til að samræma fyrirkomulag við persónueftirlit á hinum fyrirhuguðu ytri landamærum.
Fylgiskjal IV.Álitsgerð
um Schengensamstarfið
og íslensku stjórnarskrána


Efnisyfirlit.

1.0    Verkefnið.
2.0     Schengensamstarfið.
3.0     Aðild Íslands að Schengensamstarfinu.
4.0     Schengensamningurinn.
    4.1    Almenn atriði.
    4.2     Helstu efnisatriði Schengensamningsins.
         4.2.1     Landamæraeftirlit.
              a) För um innri landamæri (1. kafli, 2. gr.).
              b) För um ytri landamæri (2. kafli, 3.–8. gr.).
              c) Vegabréfsáritanir.
              d) Skilyrði varðandi ferðir útlendinga (4. kafli, 19.–24. gr.).
              e) Ákvæði um búsetuleyfi, flóttamenn o.fl. (5.–7. kafli, 25.–38. gr.).
         4.2.2     Lögregla og öryggi (III. hluti).
              a) Lögreglusamvinna (1. kafli, 39.–47. gr.).
              b) Gagnkvæm aðstoð í sakamálum (2. kafli, 48.–53. gr.).
              c) Beiting Non bis in idem reglunnar
              d) Framsal sakamanna o.fl. (4. kafli, 54.–66. gr..).
              e) Flutningur á fullnustu refsidóma (5. kafli, 67.–69. gr.).
              f) Fíkniefni (6. kafli, 70.–76. gr.).
              g) Skotvopn og skotfæri (7. kafli, 77.–91. gr.).
         4.2.3     Schengen upplýsingakerfi (IV. hluti, 92.–119. gr.).
         4.2.4     Vöruflutningar (V. hluti, 120.–125. gr.).
         4.2.5     Vernd persónuupplýsinga (VI. hluti, 126.–130. gr.).
         4.2.6     Framkvæmdarnefndin (VII. hluti, 134.–142. gr.).
         4.2.7     Lokaákvæði (VIII. hluti, 134.–142. gr.).
5.0    Samstarfssamningur milli aðildarríkja Schengensamkomulagsins og Schengensamningins annars vegar og Íslands og Noregs hins vegar.
6.0     Yfirfærsla Schengen til ESB.
    6.1     Fyrsta stoðin.
    6.2     Þriðja stoðin.
7.0     Sérstaða Danmerkur.
8.0     Íslensk stjórnarskrárákvæði sem koma við sögu.
9.0     Gildissvið íslensku stjórnarskrárinnar og dæmi úr löggjöf um framsal ríkisvalds.
10.0     Tengsl álitsgerðar þessarar við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
11.0     Niðurstöður.
    11.1     Almenn atriði.
    11.2     Löggjafarvaldið.
         11.2.1     Áhrif á ákvarðanatöku.
         11.2.2     Lögfesting Schengengerða.
         11.2.3     Ferill breytinga.
         11.2.4     Áhrif synjunar.
    11.3     Framkvæmdarvaldið.
         11.3.1     Vegabréfsáritanir.
         11.3.2     Schengenupplýsingakerfið.
         11.3.3     Eftirlit og eftirför á íslensku yfirráðasvæði.
         11.3.4     Niðurstöður varðandi framsal á framkvæmdarvaldi.
         11.3.5     Ákvarðanir sameiginlegu eftirlitsstofnunarinnar og miðstjórnar.
    11.4     Dómsvaldið.
         11.4.1     Almennt.
         11.4.2     Dómsvald samkvæmt samstarfssamningnum
         11.4.3     Vitnastefnur o.fl.
         11.4.4     Dómsvald eftir að Schengenreglur hafa verið færðar yfir í ESB-reglur.
         11.4.5     EFTA-dómstóllinn eða sambærilegur dómstóll.
    11.5     Danska lausnin.
    11.6     Framsal á valdi til að gera þjóðréttarsamninga.
12.0     Lokaorð.

1.0 Verkefnið

    Með bréfi dags. 17. júlí 1997 fól Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra lagaprófessorunum Stefáni Má Stefánssyni, Davíð Þór Björgvinssyni og Viðari Má Matthíassyni að taka saman álitsgerð um það hvort væntanlegt samkomulag við Evrópusambandið um Schengensamninginn kunni að brjóta í bága við íslensku stjórnarskrána. Nánar kemur fram í bréfinu:
             Á ríkjaráðstefnu ESB, sem lauk hinn 18. júní sl. var ákveðið að færa Schengensamstarfið undir ESB. Þessar breyttu forsendur kalla á samningaviðræður milli Íslands og Noregs annars vegar og ESB hins vegar um endurskoðun á samstarfssamningi sem Ísland og Noregur og Schengenríkin undirrituðu hinn 19. desember 1996. Í ljósi þessara breytinga er líklegt að eitt af umræðuefnunum, sem upp munu koma upp hér á landi, verði hvort væntanlegur samningur við ESB kunni að brjóta í bága við stjórnarskrá lýðveldisins.
    Í bréfinu segir jafnframt að nauðsynlegt sé að þetta málefni verði kannað á faglegum grunni, og því hafi verið leitað eftir álitsgerð frá ofangreindum. Síðan segir í bréfinu, að þar sem niðurstöður samningaviðræðnanna liggi ekki fyrir verði álitsgerðin að byggja á ákveðnum forsendum, en þær eru eftirfarandi:
     d)      Að samstarfssamningurinn við Schengenríkin verði lagður til grundvallar í samningaviðræðunum.
     e)      Að væntanlegur samningur verði milliríkjasamningur við ESB.
     f)      Að önnur atriði í hinni svokölluðu „dönsku“ lausn verði höfð til hliðsjónar.
     g)      Að ef nauðsynlegt reynist að dómstóll fari með dómsvald varðandi þau málefni sem falla myndu undir væntanlegan samning, yrði það EFTA-dómstóllinn eða sambærilegur dómstóll.

2.0 Schengensamstarfið og aðdragandi þess

2.1 Tilurð Schengensamstarfsins og þátttaka Norðurlanda
    Hinn 14. júní 1985 var undirritað í bænum Schengen í Lúxemborg samkomulag milli Belgíu, Frakklands, Hollands, Lúxemborgar og Þýskalands um að fella smám saman niður eftirlit á sameiginlegum landamærum aðildarríkjanna. Þetta samkomulag hefur verið nefnt Schengensamkomulagið. Þann 19. júní 1990 var undirritaður samningur á sama stað milli sömu ríkja um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 1985. Þessi samningur er almennt nefndur Schengensamningurinn og verður svo gert hér. Síðarnefndi samningurinn hefur sætt nokkrum breytingum með bókunum og aðildarsamningum nýrra aðildarríkja.
    Schengensamningurinn gekk í gildi milli upphaflegu ríkjanna 5, auk Portúgals og Spánar, sem höfðu gerst aðilar að honum þann 26. mars 1995. Austurríki, Grikkland og Ítalía hafa einnig gerst aðilar að honum. Danmörk sótti um aðild í maí 1994 og sama gerðu Finnland og Svíþjóð í júní 1995.
    Ástæður þess að Norðurlöndin hafa með einum eða öðrum hætti tengst sameiginlega Schengensamningnum eru aðallega þær að þann 26. mars 1995 átti að hefja framkvæmd hans. Samningurinn felur m.a. í sér afnám eftirlits á innri landamærum og hert eftirlit á ytri landamærum. Danmörk hafði í upphafi sótt um áheyrnaraðild með það fyrir augum að gerast aðili síðar. Aðild Danmerkur að samstarfinu hefði leitt til þess að ytri landamæri Schengensvæðisins hefðu legið í gegnum Norðurlöndin. Af því leiddi að Norræna vegabréfasambandið hefði ekki getað verið í gildi áfram þar sem ekki var unnt að samræma reglur þess reglum Schengensamstarfsins. Mat Norðurlandanna var það að þau vildu ekki una því að frelsi til ferða án vegabréfs á milli þeirra þyrfti að ljúka með þessum hætti auk þess sem Norðurlöndin höfðu haft með sér verulegt samstarf á sviði lögreglu- og tollamála, réttaraðstoðar og á fleiri sviðum sem kynnu að vera í hættu ef Danmörk gerðist aðili að Schengensamstarfinu. Af þessum ástæðum lýstu forsætisráðherrar Norðurlandanna því yfir á fundi í Reykjavík 27. febrúar 1995, að það þjónaði best hagsmunum Norræna vegabréfasambandsins, að Norðurlöndin hefðu sameiginlega jákvæða afstöðu til þátttöku í Schengensamstarfinu. Í framhaldi af því settu norrænu ESB ríkin þann fyrirvara í aðildarumsóknum sínum að lausn fyndist á stöðu Íslands og Noregs.
    Norræna vegabréfasambandið er reist á bókun frá 22. maí 1954, sem fjallar um undanþágur fyrir ríkisborgara Norðurlandanna frá þeirri kvöð að hafa vegabréf eða dvalarleyfi er þeir dvelja í öðru norrænu aðildarríki en heimalandinu, sbr. einnig samning milli sömu aðila sem undirritaður var í Kaupmannahöfn 12. júlí 1957. Norræna vegabréfasambandið er því að nokkru leyti byggt á sömu meginhugmynd og Schengensamningurinn.
    Þann 19. desember 1996 undirrituðu Ísland og Noregur samstarfssamning við aðildarríki Schengensamningsins, þar sem leitast er við að finna lausn sem Norðurlöndin gátu unað við með hliðsjón af vegabréfasambandi þeirra. Nánar er fjallað um þann samning í kafla 5.0.

3.0 Aðild Íslands að Schengensamstarfinu

    Samkvæmt skýrslu dóms- og kirkjumálaráðherra og utanríkisráðherra um Schengensamstarfið, sem lögð var fram á Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995-1996, hófust í júní 1995 viðræður við formennskuríki Schengensamstarfsins um þátttöku annarra Norðurlanda en Danmerkur í samstarfinu. Viðræðurnar við Danmörku höfðu hafist nokkru fyrr.
    Í 140. gr. Schengensamningsins er gert ráð fyrir því að einungis aðildarríki EB geti orðið aðilar að honum. Því snerust viðræðurnar í upphafi að meginhluta til um það með hvaða hætti Ísland og Noregur gætu tekið þátt í samstarfinu. Upphafsviðræður leiddu til þess að í desember 1995 fékk formennskuríki Schengensamstarfsins umboð til að hefja samningaviðræður um aðild Danmerkur, Finnlands og Svíþjóðar að samstarfinu og um samstarfssamning við Ísland og Noreg. Var við það miðað að samningaviðræður yrðu það vel á veg komnar að unnt væri að bjóða Norðurlöndunum öllum áheyrnaraðild frá og með 1. maí 1996. Samningaviðræður við Norðurlöndin hafa þróast þannig að samstaða er um meginþætti hugsanlegs samstarfssamnings Schengenríkjanna við Ísland og Noreg, sbr. nánar það sem rakið er í kafla 5.0.
    Í samstarfssamningnum, eins og hann liggur fyrir, er gert ráð fyrir að bæði ríkin hafi rétt til þátttöku í öllum fundum innan samstarfsins með málfrelsi og tillögurétti. Ísland og Noregur hafi aftur á móti ekki atkvæðisrétt. Hins vegar er gert ráð fyrir því að ríkin taki sjálfstætt ákvörðun um það hvort þau samþykkja ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli Schengensamningsins í framtíðinni. Fallist ríkin á slíkar ákvarðanir fá þær gildi fyrir viðkomandi ríki. Fari á hinn bóginn svo að ríkin tvö geti ekki fallist á þær kemur til sérstök meðferð sem getur leitt til þess að litið verði á neitunina sem uppsögn samningsins.
    Á þessum grunni voru viðkomandi ráðherrar Norðurlandanna boðaðir til fundar með framkvæmdanefnd Schengen 18. apríl 1996. Norðurlöndum var í framhaldi af því boðin áheyrnaraðild að samstarfinu frá og með 1. maí 1996. Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi 9. apríl 1996 að fallast á boð um þátttöku Íslands í Schengensamstarfinu með áheyrnaraðild og sótti dómsmálaráðherra fund framkvæmdanefndar Schengensamstarfsins 18. apríl 1996. Með áheyrnaraðild að Schengen er því lýst yfir að stefnt sé að fullri þátttöku í Schengensamstarfinu. Áheyrnaraðild felur í sér rétt til þátttöku í öllum fundum innan samstarfsins með málsfrelsi og tillögurétti. Hún felur aftur á móti ekki í sér að ákvæði samningsins komi til framkvæmda á einn eða annan hátt.

4.0 Schengensamningurinn

4.1 Almenn atriði
    Aðaltilgangurinn með Schengensamningnum er að skapa skilyrði til þess að afnema allt eftirlit með ferðum manna yfir landamæri innan Schengensvæðisins. Í því felst jafnframt að taka verður upp sameiginlegar reglur varðandi eftirlit við ytri landamæri svæðisins. Schengensamstarfið er þannig liður í því að náð verði áformum þeim sem keppt er að með hinum innri markaði ESB í samræmi við 7. gr. A í Rómarsamningnum. Schengensamkomulagið leiðir óhjákvæmilega til þess að taka verður upp hert eftirlit á ytri landamærum Schengenríkjanna. Þetta hefur aftur haft í för með sér vandamál gagnvart þeim ESB ríkjum sem ekki eru aðilar að Schengen. Af þeim sökum m.a. hefur framkvæmdastjórn ESB fylgst náið með þróun mála innan Schengen með það í huga að samstarfið mætti víkka út til allra ESB ríkjanna og fella það inn í þann lagagrundvöll sem þar gildir.
    Í samræmi við framangreint fjallar Schengensamningurinn um frjálsa för fólks um innri landamæri aðildarríkjanna og afnám eftirlits með einstaklingum við innri landamæri svo og um samræmt eftirlit á ytri landamærum samningssvæðisins.
    Í samningnum er einnig fjallað um samvinnu um vegabréfsáritanir, þar á meðal um sameiginlegan lágmarkslista yfir þau ríki sem krafist er vegabréfsáritunar frá. Samningurinn fjallar ennfremur um samræmda vegabréfsáritun sem gildir almennt fyrir öll aðildarríkin, reglur um vissa þætti í málsmeðferð varðandi beiðni um hæli og flóttamenn, sameiginlegan upplýsingabanka um óæskilega útlendinga, eftirlýsta einstaklinga o.fl. Loks eru ákvæði í samningnum um samvinnu á sviði lögreglumála, þar á meðal í fíkniefnamálum, og um gagnkvæma réttaraðstoð og fleiri atriði.
    Að því er varðar þann kafla samningsins sem fjallar um vöruflutninga er þess að geta að honum er ekki beitt þar sem litið er svo á að nýjar reglur ESB um frjálsa vöruflutninga, svo og um tollasamstarf og samstarf um skatta og önnur gjöld, hafi yfirtekið ákvæði kaflans að langmestu leyti, sbr. ákvæði 134. gr., þar sem segir að ákvæði samningsins skuli aðeins gilda að svo miklu leyti sem þau eru í samræmi við bandalagsrétt. Í 6. gr. samstarfssamningins við Ísland og Noreg er sérstaklega tekið fram að samstarfssamningurinn taki ekki til ákvæða V. þáttar Schengensamningsins um frjálsa vöruflutninga. Því má ætla að EES-samningnum sé ætlað að taka til frjálsra vöruflutninga. Ennfremur er þess að geta að Ísland mun ekki taka þátt í tollasamstarfi Schengenríkjanna.

4.2. Helstu efnisatriði Schengensamningsins
    Schengensamningurinn skiptist í átta hluta. Verður hér gerð grein fyrir helstu efnisatriðum hans.

4.2.1 Afnám eftirlits á innri landamærum og frjáls för fólks (II. hluti).
a)      För um innri landamæri (1. kafli, 2. gr.)
    Í þessum kafla er að finna meginreglurnar um för manna um innri landamæri aðildarríkjanna. Í 1. mgr. 2. gr. er gert ráð fyrir því sem meginreglu að fara megi yfir innri landamæri hvar sem er án nokkurs eftirlits með fólki. Gildir þetta hvort sem um er að ræða mann sem er ríkisborgari í Schengenríki eða þriðja ríki. Í 2. mgr. er mælt fyrir um að einstök ríki geti ákveðið eftirlit í tiltekinn tíma vegna allsherjarreglu og þjóðaröryggis. Í 3. mgr. er gert ráð fyrir því að samningurinn hafi ekki áhrif á athafnir lögreglu samkvæmt landslögum, sbr. einnig 22. gr. Afnám landamæraeftirlits takmarkar því ekki heimildir aðildarríkjanna til að framkvæma löggæslu innan landamæra sinna.

b)      För um ytri landamæri (2. kafli, 3.–8. gr.)
    Í 1. mgr. 3. gr. kemur fram sú meginregla að aðeins megi fara yfir ytri landamæri aðildarríkjanna á ákveðnum landamærastöðvum á ákveðnum opnunartímum þeirra. Þá kemur fram í 4. gr. að farþegar sem koma frá þriðju ríkjum skuli hlíta því að þeir verði skoðaðir persónulega svo og handfarangur þeirra, bæði við komu á flughöfn í aðildarríki og þegar þeir fara í flug yfir ytri landamæri þó að þeir hafi áður flogið í sömu ferð yfir innri landamæri. Eftirlit samkvæmt þessari grein skal vera samræmt og tekur ákvæðið til allra ríkisborgara sem fara um ytri landamæri. Á flugstöðvum á þó að hafa sérstök hlið fyrir ESB borgara, en almennt eiga þeir ekki að sæta öðru persónueftirliti en að staðreynt verði hverjir þeir eru. Samkvæmt samstarfssamningnum eiga ríkisborgarar EES-ríkja að hafa sömu réttarstöðu að þessu leyti. Ríkisborgarar þriðju ríkja sæta nánara eftirliti og þá sérstaklega þeir sem koma frá ríkjum þaðan sem krafist er vegabréfsáritunar.
    Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. má veita ríkisborgara ríkis, sem á ekki aðild að Schengensamningnum, leyfi til að dveljast á landsvæði samningsríkjanna í þrjá mánuði eða skemmri tíma ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt: a) hann hefur gilt skjal, eða skjöl, sem heimilar för yfir landamæri, samkvæmt því sem ákveðið er af framkvæmdanefndinni, b) hefur gilda vegabréfsáritun ef þess er krafist, c) framvísar, eftir því sem við á, skjali sem sannar tilgang ferðar, ferðaáætlun og næg efni, d) sé ekki maður sem tilkynnt hefur verið að sé óheimil för í ríki, eða e) sé ekki maður sem álitinn er hættulegur vegna allsherjarreglu, öryggi ríkisins eða alþjóðlegra tengsla aðildarríkja. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. er aðildarríkjunum skylt að neita útlendingi um landvistarleyfi sem ekki fullnægir þessum skilyrðum nema nauðsyn beri til að víkja frá þeirri reglu af mannúðarástæðum, vegna hagsmuna ríkisins eða alþjóðlegra skuldbindinga.
    Samkvæmt 6. gr. skulu viðeigandi yfirvöld annast eftirlit á ytri landamærum aðildarríkjanna. Eftirlitið skal lúta samræmdum reglum og vera í samræmi við lög viðkomandi ríkis, að teknu tilliti til hagsmuna aðildarríkjanna. Í ákvæðinu er síðan nánar skilgreint hvað felst í orðasambandinu „samræmdar reglur“ (uniform principles). Í 7. gr. er að finna ákvæði sem varðar samvinnu aðildarríkja við framkvæmd samningsins.

c)      Vegabréfaáritanir (3. kafli, 9.–18. gr.)
    Schengenríkin hafa sammælst um lista yfir þau ríki þaðan sem ríkisborgarar skulu hafa vegabréfsáritun til að þeim verði heimilt að koma inn á Schengen-svæðið.
    Í gildi eru samningar milli íslenskra stjórnvalda um gagnkvæmt afnám vegabréfsáritunar við nokkur ríki sem Schengenríkin krefjast vegabréfsáritunar frá. Af þessum ríkjum eru sum á lista ESB. Svo virðist sem Ísland verði að segja upp samningum við þau ríki sem ekki eru á lista ESB ef það gerist aðili að Schengen. Schengenríkin hafa samræmda áritun fyrir vegabréf og almennt gildir vegabréfsáritun til eins ríkis sem heimild til að ferðast til þeirra allra. Það ríki sem gefur út vegabréfsáritun ber ábyrgð á veitingu hennar. Það fyrirkomulag gildir á Íslandi að vegabréfsáritun er ekki veitt af sendiráði án þess að umsókn hafi áður verið send útlendingaeftirliti til athugunar og það samþykkt að áritun verði veitt. Þátttaka í Schengen útilokar ekki slíkt verklag.
    Um vegabréfsáritanir vegna styttri dvalar er fjallað í 9.–17. gr. Í 9. og 10. gr. undirgagnast samningsríkin m.a. þá skyldu, að móta sameiginlega stefnu fyrir för fólks og reglur fyrir sameiginlega vegabréfsáritun sem gildir á yfirráðasvæði aðildarríkjanna. Gefa má út vegabréfsáritun samkvæmt þessu sem gildir á öllu Schengensvæðinu ef gildistími er þrír mánuðir eða skemmri tími. Ekki má gefa út áritun á útrunnin ferðaskírteini. Ferðaskilríki skulu hafa lengri gildistíma en áritun þannig að hann sé nægjanlegur til að útlendingurinn geti ferðast til baka til heimaríkis eða þriðja ríkis, sbr. 13. gr. Vegabréfsáritanir taka til svonefndra ferðaáritana, sem geta gilt fyrir eina eða fleiri heimsóknir, eða gegnumáritanir (transitvisa), sem heimilar viðkomandi að fara einu sinni, tvisvar og í undantekningartilvikum oftar í gegnum yfirráðasvæði aðildarríkjanna til þriðju ríkja. Gegnumferð má þó aldrei standa lengur en í 5 daga. Nánari ákvæði um útgáfu vegabréfsáritana er að finna í 10., 11. og 12. gr.
    Samkvæmt 17. gr. ber framkvæmdarnefndinni að undirbúa og taka upp sameiginlegar reglur um könnun á umsóknum um vegabréfsáritanir, auk þess sem hún á að tryggja rétta framkvæmd þeirra og aðlaga þær að nýjum og breyttum aðstæðum. Vegabréfsáritanir eru aftur á móti gefnar út af yfirvöldum einstakra ríkja, sbr. 12.
    Um vegabréfsáritanir vegna lengri dvalar er fjallað 18. gr. Samkvæmt ákvæðinu sjá aðildarríkin alfarið um að gefa út vegabréfsáritanir til þriggja mánaða eða skemmri tíma. Slík vegabréfsáritun veitir handhafa hennar heimild til þess að fara í gegnum aðildarríkin til að komast til þess lands sem gaf út vegabréfsáritunina. Flestum skilyrðum 5. gr. þarf þó að vera fullnægt til þess að slík för sé heimil, sbr. nánar ákvæði 18. gr.

d)      Skilyrði varðandi ferðir útlendinga (4. kafli, 19.–24. gr.)
    Samkvæmt 19. og 20. gr. geta útlendingar sem hafa aflað sér samræmdrar áritunar ferðast frjálst um á yfirráðasvæði aðildarríkjanna ef þeir hafa komið löglega inn á svæðið. Sama gildir um útlendinga sem eru undanþegnir skyldu til vegabréfsáritunar. Þetta gildir þó ekki nema fullnægt sé tilteknum skilyrðum sem fram koma í 5. gr. Þá eru sérstök ákvæði um ferðafrelsi þeirra útlendinga sem hafa búsetuleyfi (residence permit) í viðkomandi ríki. Þeir eiga einnig frjálsa för í þrjá mánuði eða skemmri tíma ef þeir fullnægja að öðru leyti þeim skilyrðum 5. gr., sbr. 21. gr.
    Samkvæmt 22. gr. er útlendingi sem hefur komið löglega inn á yfirráðasvæði eins aðildarríkis, skylt að tilkynna sig til viðkomandi yfirvalda í því landi, samkvæmt þeim skilyrðum sem viðkomandi ríki setur.
    Útlendingur sem ekki fullnægir lengur skilyrði til skemmri dvalar skal að meginreglu til þegar yfirgefa Schengensvæðið, sbr. nánar 23. gr.

e)      Ýmis ákvæði sem varða búsetuleyfi, flóttamenn o. fl. (5.–7. kafli, 25.–38. gr.)
    Í 5. kafla, 25. gr., er að finna ákvæði sem lýtur að því þegar aðildarríki hyggst veita búsetuleyfi útlendingi sem hefur verið tekinn á skrá yfir menn sem ekki skal veita landgöngu. Þar kemur m.a. fram að þá skuli haft samráð við það ríki sem tilkynnti viðkomandi á skrá og taka tillit til hagsmuna þess.
    Í 6. kafla, 26. gr., er að finna reglur sem varða ráðstafanir til að senda til baka menn sem ekki fá landgönguleyfi. Þar er gert ráð fyrir því sem meginreglu að yfirvöld í viðkomandi landi geti krafist þess af flytjanda að hann flytji viðkomandi aftur til þess ríkis sem hann var fluttur frá, þess ríkis þar sem ferðaskjöl hans voru gefin út eða einhvers annar ríkis þar sem hann á það víst að fá landgönguleyfi.
    Í 27. gr. er að finna ákvæði sem varða skyldur ríkja til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til þess að þeim verði refsað sem aðstoða menn við að komast ólöglega inn á yfirráðasvæði ríkis.
    Í 7. kafla (28.–38. gr.) er fjallað um skyldur ríkja varðandi meðferð á umsóknum um hæli. Áréttaðar eru skuldbindingar ríkjanna til að aðstoða flóttamenn samkvæmt Genfarsáttmálanum frá 28. júlí 1951 (breytt með New York-bókuninni frá 31. janúar 1967). Schengensamstarfið felur því ekki í sér sameiginlega stefnu varðandi veitingu hælis eða afstöðu til flóttamanna. Hvert aðildarríki veitir hæli eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum í samræmi við eigin lög og alþjóðlegar skuldbindingar og ákveður reglur um synjun og um brottvísun umsækjanda til þriðja ríkis. Í samningnum er hins vegar fjallað nánar um skylduna til að viðhafa réttar málsmeðferðarreglur um flóttamenn ef þeir biðja um hæli. Koma þar m.a. fram ákvæði um það hvaða ríki skuli teljast fyrsta hælisríki. Umsækjanda um hæli verður því ekki vísað á milli margra ríkja sem ekki vilja bera ábyrgð á umsókn hans.
    Hver samningsaðili veitir samkvæmt beiðni öðrum samningsaðila þær upplýsingar sem hann hefur um umsækjanda um hæli og sem eru nauðsynlegar til ákvörðunar um það hvaða samningsaðili skuli fjalla um beiðni, til meðferðar á beiðni um hæli og til að uppfylla skyldur samkvæmt ákvæðum 7. kafla. Upplýsingarnar má einungis veita um það hver umsækjandi sé og eftir atvikum um fjölskyldu hans. Samningsaðili getur auk þess beðið annan samningsaðila um að fá upplýst hvaða ástæður umsækjandi um hæli færði fyrir umsókn sinni og röskstuðning þeirrar ákvörðunar sem kann að hafa verið tekin í framhaldinu. Ýmsar skorður eru þó settar við upplýsingagjöf af þessu tagi og í aðalatriðum má aðeins senda upplýsingarnar til viðkomandi stjórnvalda eða dómstóla.
    Hér er þó þess að geta að aðildarríki ESB hafa gert með sér svonefnt Dyflinarsamkomulag frá 1990 sem hefur að mestu leyti að geyma sömu reglur og Schengensamningurinn. Samkomulagið hefur að geyma formreglur um það hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsóknum um hæli. Þessar reglur hafa þann megintilgang að gera ábyrgð viðkomandi ríkis skýra og að koma í veg fyrir að sama umsókn lendi í meðferð hjá mörgum ríkjum. Dyflinarsamkomulagið hefur hins vegar almennt ekki að geyma efnisreglur um það hvenær hæli skuli veitt. Aðeins aðildarríki EB geta gerst aðilar að Dyflinarsamkomulaginu. Þó fylgir samkomulaginu yfirlýsing þess efnis, að aðildarríkin lýsa sig reiðubúin til að útvíkka samkomulagið til annarra ríkja. Gert er ráð fyrir því að það sé gert að því er Ísland og Noreg varðar. Með gildistöku Dyflinarsamkomulagsins falla úr gildi ákvæði 7. kafla Schengensamningsins, sbr. og 134. gr. hans.

4.2.2 Lögregla og öryggi (III. hluti)
a)      Lögreglusamvinna (1. kafli, 39.–47. gr.)
    Fram er komið að Schengensamningurinn gengur út frá þeirri meginreglu að persónueftirlit verði fellt niður vegna ferðalaga á milli aðildarríkjanna. Afnám persónueftirlits getur haft í för með sér skert öryggi og því eru í samningnum fjölmörg stuðningsákvæði til að efla samstarf aðildarríkjanna um öryggis- og afbrotamál. Aukin lögreglusamvinna er eitt mikilvægasta stuðningsákvæðið.
    Samkvæmt 39. gr. eru lögregluyfirvöld m.a. skyld til að veita gagnkvæma aðstoð til að fyrirbyggja og upplýsa refsiverða verknaði. Þetta á þó hvorki við þegar atbeina dómstóla þarf til að afla eða veita umbeðnar upplýsingar né þegar beita þarf sérstökum þvingunarráðstöfunum til að afla þeirra. Í næstu greinum er að finna nánari ákvæði um framkvæmd þessarar samvinnu. Samkvæmt þeim er t.d. lögreglumönnum í einu aðildarríki heimilað, með tilteknum skilyrðum sem rækilega eru útfærð, að halda áfram eftirför á hendur brotamanni inn í annað aðildarríki, sbr. 41. gr.
    Samkvæmt 45. gr. er aðildarríkjum skylt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að hótelhaldarar og aðrir er hýsa fólk sjái til þess að erlendir gestir fylli persónulega út og undirriti skráningarkort og að þeir sanni á sér deili með gildum skilríkjum. Þessi gögn skulu vera aðgengileg fyrir yfirvöld vegna öryggis, málsmeðferðar vegna eftirlýstra manna og vegna slysa.
    Samkvæmt 46. gr. er gert ráð fyrir miðlun upplýsinga til annarra samningsríkja í sérstökum tilvikum til að fyrirbyggja afbrot og samkvæmt 47. gr. má gera gagnkvæma samninga um skipti á lögreglumönnum sem ætlað er að vera tengiliðir til að auðvelda samskipti lögreglu viðkomandi ríkja. Þeir skulu veita ráðgjöf og aðstoð, en starfa ekki beinlínis sem lögreglumenn.
    Í 108. gr. er gert ráð fyrir að hvert aðildarríki Schengensamstarfsins skuli tilnefna yfirvald sem beri ábyrgð á Schengenupplýsingakerfinu í viðkomandi landi. Þessi yfirvöld hafa síðar fengið nafnið SIRENE-skrifstofur (Supplément d´information requis á l´entrée nationale). Þeirra hlutverk er að bera ábyrgð á framkvæmd upplýsingakerfisins. Þá hefur skrifstofan það hlutverk að miðla milli lögregluyfirvalda upplýsingum sem falla utan þess sem skráð er í upplýsingakerfi Schengen og umsjón með annarri lögreglusamvinnu sem fellur innan Schengen-samstarfsins.

b) Gagnkvæm aðstoð í sakamálum ( 2. kafli, 48.–53. gr.)
    Í greinum 48–53 er fjallað um gagnkvæma aðstoð í sakamálum og er þeim ætlað að vera eins konar viðauki við Evrópusáttmála frá 20. apríl 1959 um gagnkvæma aðstoð í sakamálum og hluta II í Benelúxsamningnum um framsal sakamanna og gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 27. júní 1962, eins og honum var breytt með bókun 11. maí 1994.
    Samkvæmt 49. gr. skal einnig veita gagnkvæma réttaraðstoð við rekstur máls sem rekið er fyrir stjórnvöldum vegna verknaðar sem felur í sér lögbrot og sem sætir refsingu í öðru eða báðum samningsríkjum enda sé unnt að bera málið undir dómstóla. Einnig skal veita gagnkvæma réttaraðstoð í tilteknum flokkum mála sem rekin eru fyrir úrlausnaraðilum í aðildarríkjunum, sbr. nánar b)–f) liðir 49. gr.
    Skylt er að veita aðstoð í málum vegna brota á lögum og reglum varðandi ýmsa skatta og tolla, sbr. 50. gr. Unnt er þó að hafna gagnkvæmri aðstoð á þessum grundvelli ef undandreginn skattur eða tollur nemur lægri fjárhæð en 25000 ECU eða ef líklegt verðmæti ólöglegs innflutnings eða útflutnings er ekki meira en 100000 ECU.
    Almennt má ekki setja önnur skilyrði fyrir því að verða við beiðni um rannsókn eða haldlagningu en að verknaður varði a.m.k. sex mánaða refsivist samkvæmt lögum beggja aðildarríkjanna. Þessi regla er þó útfærð nánar í samningnum, sbr. nánar 51. gr.
    Í 52. gr. kemur fram að að heimilt sé að senda dómskjöl og kvaðningar í pósti til aðila í öðru aðildarríki. Vitni eða sérfróða aðila sem ekki sinna stefnu sem send hefur verið með pósti má ekki beita neinum viðurlögum eða þvingunarráðstöfunum þótt þeir mæti ekki. Þetta gildir þó ekki ef þeir fara síðar af sjálfsdáðum til landssvæðis þess aðila sem stefndi þeim og þeim sé þar stefnt á ný. Samkvæmt 53. gr. skal senda beiðnir um réttaraðstoð og svör beint til viðkomandi dómsmálayfirvalda en þó er einnig heimilt að beiðnir og svör fari í gegnum dómsmálaráðuneyti aðildarríkjanna eða Interpol.

c)      Beiting Non bis in idem reglunnar (3. kafli, 54.–58. gr.)
    Regla þessi fjallar um það að hvaða leyti refsidómur sem kveðinn er upp í einu ríki skuli koma í veg fyrir að dæmt verði í sama máli í öðru ríki. Í Schengen-samningnum er gert ráð fyrir þeirri meginreglu að maður sem hefur verið dæmdur í einu landi verði ekki sóttur til saka fyrir sama brot í öðru aðildarríki þegar refsingunni hefur verið fullnægt, verið er að fullnusta hana eða ekki er unnt að fullnusta henni vegna löggjafar í dómsríkinu. Nánari ákvæði sem að þessu lúta er að finna í 54.–58. gr.

d)      Framsal sakamanna o. fl. (4. kafli, 59.–66. gr.)
    Í kafla 4 í III. hluta samningsins er fjallað um framsal sakamanna og er kaflinn viðauki við Evrópusáttmála frá 13. september 1957 um framsal og kafla I í Benelúxsáttmálanum um framsal og gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 27. júní 1962, eins og honum var breytt með bókun frá 11. maí 1974. Tekið er fram í 2. mgr. 59. gr. að ákvæði kaflans hafi ekki áhrif á samningsákvæði sem í gildi séu milli samningsríkjanna þar sem gert sé ráð fyrir víðtækari samvinnu en Schengen-samningurinn mælir fyrir um. Varðandi fyrningu brota gilda einungis lög þess ríkis sem biður um framsal. Náðun eða sakaruppgjöf kemur ekki í veg fyrir framsal nema hinn refsiverði verkaður falli undir refsilögsögu þess ríkis sem slíkt veitti. Skylt er að framselja menn vegna brota á lögum um tolla og skatta, bæði vegna málsmeðferðar og fullnustu dóma. Skilyrði Evrópusamnings um framsal gilda í þessum tilvikum.

e)      Flutningur á fullnustu refsidóma (5. kafli, 67.–69. gr.)
    Kafli 5 (67.–69. gr.) fjallar um flutning á fullnustu refsidóma. Aðalreglan er sú að hafi ríkisborgari eins aðildarríkis verði dæmdur í öðru aðildarríki til refsivistar og hann kemur sér undan fullnustu refsingarinnar með því að fara til þess ríkis þar sem hann er ríkisborgari, sé unnt að biðja það ríki um að fullnægja refsidóminum. Slíkur flutningur er ekki háður samþykki dómþola.

f)      Fíkniefni (6. kafli, 70.–76. gr.)
    Í 6. kafla III. hluta Schengensamningsins eru ákvæði um samstarf í fíkniefnamálum. Grundvöllur þessa samstarfs eru samningar Sameinuðu þjóðanna um fíkniefni frá 1961 með síðari breytingum. Samkvæmt Schengensamningnum skal setja á fót fastan vinnuhóp þar sem m.a. eru fulltrúar frá lögreglu og tollyfirvöldum til að fjalla um og rannsaka sameiginleg vandamál í baráttunni gegn fíkniefnabrotum og til að gera tillögur, þar sem þess er þörf, sem miða að því að bæta hagnýt og tæknileg atriði sem varða samvinnu ríkjanna, sbr. 70. gr. Jafnframt skuldbinda aðildarríkin sig til, í samræmi við áðurnefnda samninga, að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fyrirbyggja og berjast gegn ólöglegum viðskiptum með ávana- og fíkniefni, sbr. 71. gr.

g)      Skotvopn og skotfæri (7. kafli, 77.–91. gr.)
    Í 7. kafla er fjallað um skotvopn og skotfæri. Í ákvæðum kaflans skuldbinda aðildarríkin sig til að löggjöf þeirra og reglur um kaup, vörslu, sölu og afhendingu á skotvopnum og skotfærum verði í samræmi við ákvæði samningsins. Í 78.–82. gr. er ítarlega fjallað um það til hvaða skotvopna samningurinn tekur. Í 83. gr. er ákvæði um skotvopnaleyfi. Leyfi til að kaupa og til að hafa í vörslum sínum skotvopn, sem samningurinn tekur til, má einungs veita þeim sem orðnir eru 18 ára. Þó má ekki veita þeim slíkt leyfi sem vegna geðrænna sjúkdóma eða af öðrum líkamlegum og andlegum annmörkum telst ekki hæfur til að kaupa eða hafa í vörslum sínum skotvopn. Hið sama gildir um þá sem hafa verið sakfelldir fyrir refsiverðan verknað eða þá sem á annan hátt má telja að skapi hættu fyrir opinbert öryggi eða allsherjarreglu og þá sem ekki geta fært fram lögmætar ástæður fyrir ósk sinni um að kaupa eða hafa í vörslum sínum skotvopn.

4.2.3      Schengen upplýsingakerfi (IV. hluti, 92.–119. gr.)
    Í IV. hluta samningsins er fjallað um stofnsetningu sérstaks Schengen-upplýsingakerfis. Þar er gert ráð fyrir því að sérhvert aðildarríki reki á sína ábyrgð eigið upplýsingakerfi, en að við það bætist miðlægt tæknilegt stuðningskerfi, sem staðsett verði í Strasbourg í Frakklandi (sjá 92. gr.). Í kerfið eru skráðar staðlaðar upplýsingar um einstaklinga og hluti (ökutæki) vegna landamæraeftirlits, rannsókna lögreglu og tollyfirvalda og vegna meðferðar á beiðnum um vegabréfsáritun og búsetuleyfi og framkvæmdar á lögum um útlendinga sem eru liður í framkvæmd samningsins.
    Gagnaskrár skulu vera eins hjá öllum aðildarríkjunum. Aðildarríkin geta ekki sótt upplýsingar í staðbundin kerfi hvers annars. Miðlæga stuðningskerfið sendir vélrænt upplýsingar til kerfanna í hverju einstöku aðildarríki.
    Í upplýsingakerfið má skrá upplýsingar um einstaklinga sem óskað er eftir að verði handteknir í þeim tilgangi að þeir verði framseldir og um útlendinga sem óskað er eftir að neitað verði um sameiginlega Schengenvegabréfsáritun. Í kerfið á ennfremur að skrá einstaklinga sem vegna fyrirbyggjandi aðgerða skulu teknir í gæslu lögreglu, sérstaklega ósjálfráða einstaklinga og þá sem ákveðið hefur verið að hneppa í nauðungarvist. Þá er heimilt að skrá upplýsingar í kerfið í þeim tilgangi að fá upplýsingar um dvalarstaði einstaklinga sem stefna á fyrir dóm í sakamáli eða til að birta þeim dóm eða ákvörðun um afplánun. Sama gildir um einstaklinga og ökutæki sem hafa á undir leynilegu eftirliti og loks er heimilt að skrá í kerfið hluti sem eftirlýstir eru í þeim tilgangi að leggja hald á þá.
    Þá eru í samningnum ítarleg ákvæði um vernd persónuupplýsinga í upplýsingakerfinu og um aðgang að skráðum upplýsingum og um notkun þeirra, sbr. nánar 102.–118. gr.
    Í 119. gr. er fjallað um skiptingu kostnaðar vegna upplýsingakerfisins.
    
4.2.4      Vöruflutningar (V.hluti, 120.–125. gr.)
    Í 120.–125. gr. er að finna ákvæði sem varða sérstaklega vöruflutninga um innri landamæri, sem miða að því að gera þá sem greiðasta. Almenna reglan kemur fram í 1. mgr. 120. gr. þar sem samningsaðilar taka á sig þá skyldu að tryggja að lög og stjórnsýslufyrirmæli hindri ekki á óréttmætan hátt vöruflutninga yfir innri landamæri.
    Þessum ákvæðum er ekki beitt í samskiptum Schengenríkjanna þar sem nýjar reglur ESB um vöruflutninga, tollasamband og samstarf um skatta og önnur gjöld hafa yfirtekið ákvæði kaflans að langmestu leyti, sbr. ákvæði 134. gr., þar sem segir að ákvæði samningsins skuli aðeins gilda að svo miklu leyti sem þau séu í samræmi við bandalagsrétt. Í viðræðum við Noreg og Ísland mun hafa komið fram að ákvæði EES-samningsins um vöruflutninga muni gilda áfram í samskiptum Íslands og Noregs við önnur Schengenríki. Samkvæmt því mun Ísland ekki taka þátt í tollabandalagi Schengenríkjanna þótt það taki þátt í Schengensamstarfinu.

4.2.5      Vernd persónuupplýsinga (VI. hluti, 126.–130.gr. )
    Í þessum hluta er fjallað um vernd persónuupplýsinga. Vegna hins greiða aðgangs að upplýsingum sem tölvutæknin gerir mögulegan taka aðildarríkin á sig þá skyldu að taka í lög sín reglur sem veita a.m.k. þá lágmarksvernd sem gert er ráð fyrir í samkvæmt meginreglum Evrópuráðssamningsins frá 28. jan. 1981 um vernd tölvuvæddra persónuupplýsinga.
    Við vélræna meðferð persónuupplýsinga sem veittar eru samkvæmt samningnum gildir að sá sem fær upplýsingar má aðeins nota þær í þeim tilgangi sem þær voru veittar. Önnur notkun er háð fyrirframgefnu leyfi þess ríkis sem veitti þær og á notkun að vera í samræmi við lög þess ríkis sem fékk upplýsingarnar. Einungis má veita slíkt leyfi að það sé ekki í andstöðu við lög ríkisins sem veitti upplýsingarnar. Þær má einungis nota af dómsmálayfirvöldum og aðilum sem hafa skyldum að gegna vegna þess markmiðs sem voru grundvöllur að veitingu þeirra.

4.2.6 Framkvæmdanefndin (VII. hluti, 131.–133. gr.)
    Í 131.–133. gr. samningsins er mælt fyrir um stofnun framkvæmdarnefndar vegna samningsins. Hið almenna hlutverk nefndarinnar er að tryggja rétta beitingu samningsins, auk þess sem henni eru falin tiltekin sérgreind verkefni. Sérhver samningsaðili á fulltrúa í nefndinni. Gert er ráð fyrir því að ráðherrar eigi þar sæti.

4.2.7 Lokaákvæði (VIII. hluti, 134.–142. gr.)
    Í þessum hluta er að finna lokaákvæði. Þar segir m.a., að samningurinn gildi aðeins að því leyti sem hann sé í samræmi við bandalagsrétt, sbr. 134. gr. Fjallað er um gildi annarra samninga, um samninga eins ríkis við þriðja ríki og um að ekki verði gerðir aðrir fyrirvarar en þeir sem nefndir eru í 60. gr. (um framsal sakamanna).
    Geri aðildarríki bandalagsins samninga í því skyni að koma á svæði án innri landamæra ákveða samningsaðilar með hvaða hætti ákvæði slíkra samninga koma í stað eða breyta ákvæðum Schengensamningsins. Í því sambandi skulu samningsaðilar þó hafa í huga að ákvæði Schengensamningsins kunna að gera ráð fyrir víðtækara samstarfi heldur en leiðir af slíkum samningum, sbr. 142. gr. Í þessu sambandi ber að hafa ákvæði 134. gr. í huga sem kveður á um það að ákvæði Schengensamningsins skulu aðeins gilda að því marki sem hann er í samræmi við bandalagsrétt.
    Í 140. gr. segir að sérhvert bandalagsríki geti gerst aðili að samningnum ef aðildarríkin samþykkja. Í 141 gr. er fjallað um meðferð breytingartillagna.

5.0 Samstarfssamningurinn milli aðildarríkja Schengensamkomulagsins og Schengensamningsins annars vegar og Íslands og Noregs hins vegar.

    Samstarfssamningurinn milli aðildarríkja Schengen-samkomulagsins og Schengensamningsins annars vegar og Íslands og Noregs hins vegar um afnám persónueftirlits á sameiginlegum landamærum var undirritaður 19. desember 1996.
    1.     Í 1. gr. samnings þessa er gert ráð fyrir því að Schengensamkomulagið og Schengensamningurinn og aðrar gerðir og yfirlýsingar sem honum fylgja og samningar gerðir í tengslum við þessa samninga skuli gilda milli allra samningsaðila nema sérstaklega sé kveðið á um annað og í 2. gr. er gert ráð fyrir því að Ísland og Noregur taki þátt í öllum fundarhöldum ráðherranefndarinnar, sameiginlegu eftirlitsstofnunarinnar, miðstjórnar og allra annarra vinnuhópa sem settir hafa verið á stofn til að undirbúa ákvarðanir eða til annarra starfa. Þar geta þessi ríki lýst skoðunum sínum, gert athugasemdir og lagt fram tillögur en taka ekki þátt í atkvæðagreiðslu. Þá skulu ríkin sem eiga aðild að Schengen-samningnum skiptast á skoðunum við Ísland og Noreg um þau málefni sem rædd eru á vettvangi ESB og tengjast þessum samningi.
    Samkvæmt 4. gr. samningsins skulu ákvæði hans ekki vera til fyrirstöðu samvinnu innan ramma Norræna vegabréfasambandsins að svo miklu leyti sem hún gengur ekki gegn eða hindrar framkvæmd samstarfssamningsins.
    2.     Mikilvægt er að Ísland og Noregur ákveða hvort í sínu lagi hvort þau samþykkja þær ákvarðanir sem upp eru taldar í 1. mgr. 3. gr., en þær eru:
     a.      ákvarðanir teknar eða yfirlýsingar gefnar af ráðherranefndinni eða í hennar nafni.
     b.      ákvarðanir um að ákvæði í gerðum EB sem ráðherranefndin hefur staðfest að felli úr gildi ákvæði í Schengensamningnum samkvæmt 134. gr. hans.
     c.      ákvarðanir um að ákvæði sem aðildarríki ESB hafa samþykkt og ráðherranefndin hefur staðfest að felli úr gildi ákvæði Schengensamningsins í samræmi við 1. mgr. 142. gr. hans.
     d.      ákvarðanir um breytingar á Schengensamningnum í skilningi 141. eða 2. mgr. 142. gr. hans.
     e.      ákvarðanir um samninga sem kunna að verða gerðir milli allra ríkjanna sem eiga aðild að Schengensamningnum við þriðju ríki.
    Sé líklegt að Ísland eða Noregur geti ekki samþykkt ákvörðun samkvæmt framansögðu fá þau tækifæri til að skýra afstöðu sína í ráðherranefndinni. Hún tekur ekki ákvörðun í málinu fyrr en hún hefur gaumgæft afstöðu þessara ríkja. Samþykki Ísland og/eða Noregur ekki ákvörðun skv. 1. mgr. 3. gr. jafngildir það uppsögn samningsins samkvæmt 2. mgr. 10. gr. Samstarfssamningnum fylgir yfirlýsing ríkjanna sem eiga aðild að Schengensamningnum. Hún er svohljóðandi:
             Verði þessum samningi sagt upp eða falli hann niður í samræmi við ákvæði 2. mgr. 10. gr. skal persónueftirlit á landamærum hlutaðeigandi ríkis eða ríkja fara fram í samræmi við ákvæði Schengensamningsins.
    3.     Í 6. gr. er kveðið á um að ákvæði Schengensamningsins sem fjalla um vörur falli utan samstarfssamningsins. Á þessu sviði hafa reglur ESB tekið yfir reglur Schengen. Allt eftirlit með vörum til Íslands og Noregs verður óbreytt þar eð þessi lönd taka ekki þátt í tollasamstarfi við ESB.

6.0 Yfirfærsla Schengen til ESB     

    Í sérstakri bókun sem fylgir frumvarpi að svonefndum Amsterdamsamningi er gert ráð fyrir því að allur Schengensamningurinn verði færður undir samningana um ESB.Við þá yfirfærslu verður m.a. að hafa í huga að Írland og Stóra-Bretland eru ekki aðilar að Schengensamstarfinu. Við yfirfærsluna mun lagarammi og stofnanir ESB gilda um allar Schengenreglurnar. Yfirfærslan sjálf fer fram með þeim hætti að svonefnt Schengenaquis, þar á meðal ákvarðanir framkvæmdanefndarinnar, sem teknar eru fyrir gildistöku bókunarinnar, eru látnar gilda fyrir þau 13 aðildarríki sem bókunin tekur til (Schengenaquis er nánar skilgreint í sérstökum viðauka með Amsterdamsamningnum). Frá þeim tíma kemur ráðherraráð ESB í stað framkvæmdanefndar Schengensamningsins. Efnisatriði samningsins verða ýmis flutt yfir í 1. eða 3. stoð ESB samningsins.

6.1      Fyrsta stoðin.
    Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir því að þessir málaflokkar falli undir 1. stoðina:
         afnám eftirlits á innri landamærum,
         eftirlit á ytri landamærum,
         vegabréfsáritanir,
         frjáls för borgara þriðju ríkja,
         ábyrgð á meðferð umsóknar um hæli,
         innflytjendamál og
         upplýsingakerfi (að hluta til).
    Í uppkastinu að Amsterdamsamningnum sést að ætlunin er að færa nýjan hluta (Title) inn í Rómarsamninginn sem ber yfirskriftina „Free movement of persons, asylum and immigration“. Þessi hluti tekur til þeirra málaflokka sem að framan eru raktir. Segir í grein A að ráðið skuli:
(a)     gera ráðstafanir, innan fimm ára frá gildistöku samningsins, til þess að tryggja frjálsa för fólks í samræmi við ákvæði 7. gr. a Rómarsamningsins og fleiri greinr.
(b)     gera ráðstafanir að því er varðar hæli, innflytjendur og til að tryggja réttindi borgara þriðju ríkja samkvæmt grein C,
(c)     gera ráðstafanir á sviði réttaraðstoðar í einkamálum í samræmi við grein E,
(d)     gera viðeigandi ráðstafanir til að hvetja til og styrkja samvinnu á stjórnsýslusviðinu samkvæmt grein F, og
(e)     gera ráðstafanir á sviði lögreglumála og réttaraðstoðar í opinberum málum.
    Í grein B er fjallað nánar um ráðstafanir vegna afnáms eftirlits á innri landamærum, eftirlit á ytri landamærum og vegabréfsáritanir. Þar er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því að ráðið hafi innan 5 ára sett reglur um afnám alls eftirlits á innri landamærum hvort sem þar er um að ræða ríkisborgara ESB eða annarra ríkja. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að ráðið setji viðmiðunarreglur og málsmeðferðarreglur sem aðildarríkin eigi að fylgja við framkvæmd eftirlits á ytri landamærum. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að ráðið setji reglur um vegabréfsáritanir fyrir dvöl sem er ætluð til þriggja mánaða eða skemmri tíma. Þar er m.a. gert ráð fyrir því að settur verði upp sameiginlegur listi yfir þau ríki sem krafist er vegabréfsáritunar frá, um málsmeðferðarreglur og skilyrði fyrir útgáfu vegabréfsáritana, samræmt form og efni slíkra áritana og í fjórða lagi er gert ráð fyrir því að kveðið verði á um skilyrði fyrir því að ríkisborgarar þriðju ríkja megi ferðast um í aðildarríkjunum í þrjá mánuði eða skemmri tíma. Samkvæmt bókun sem fylgir er tekið fram að ákvæði greina B (2) (a) sé því ekki til fyrirstöðu að aðildarríki geti gert þjóðréttarsamninga við þriðju ríki um það efni ef slíkir samningar brjóta ekki í bága við bandalagsrétt eða aðra þjóðréttarsamninga sem máli skipta.
    Þess skal getið að grein G fjallar nánar um málsmeðferðina við ákvarðanatökuna. Þar segir að ráðið taki ákvörðun með einróma samþykki á fyrstu 5 árunum eftir gildistöku samningsins eftir tillögu frá framkvæmdastjórninni eða að frumkvæði aðildarríkis eftir að það hefur ráðfært sig við þingið. Eftir fimm ára tímabilið breytist hins vegar málsmeðferðin nokkuð, einkum að því leyti að ráðið skal þá ákveða með einróma ályktun og eftir að hafa ráðfært sig við þingið, hvort öll fyrrgreind réttarsvið eða hluti þeirra skuli falla undir málsmeðferðarreglurnar í 189. gr. b Rómarsamningsins. Þau réttarsvið sem færð eru undir 189. gr. b eru þar með komin undir ákvörðunarferli þar sem aðeins er krafist meirihluta til samþykkis gerða í ráðinu. Jafnframt er gert ráð fyrir því að ráðið hafi þá samþykkt reglur sem lúta að valdsviði dómstóls EB. Að því er varðar vegabréfsáritanir er reglan þó önnur, sbr. 3. mgr. í grein G. Þar er gert ráð fyrir því að frá gildistöku samningsins séu sumar ákvarðanir teknar með auknum meirihluta í ráðinu eftir tillögu frá framkvæmdastjórninni og eftir að hafa ráðfært sig við þingið, en aðrar ákvarðanir eftir þeim málsmeðferðarreglum sem getið er í 189. gr. b í Rómarsamningnum.
    Samkvæmt grein C er gert ráð fyrir því að ráðið taki ákvörðun eftir þeim reglum, sem þar er kveðið á um innan 5 ára í flestum tilvikum. Þessar ákvarðanir varða hæli, flóttamenn, innflytjendur og reglur um rétt þeirra erlendu ríkisborgara sem eru heimilisfastir í einu aðildarríki til að eiga heimili í öðru aðildarríki. Í grein D er fjallað um að samningurinn hafi ekki áhrif á ábyrgð aðildarríkjanna til að halda uppi lögum og allsherjarreglu. Í grein E er fjallað um ráðstafanir á sviði réttarsamvinnu í einkamálum og í grein F er fjallað um samvinnu stjórnsýsluaðila í aðildarríkjunum. Í grein H er fjallað um það að 177. gr. Rómarsamningsins um forúrskurði gildi í þeim málaflokkum sem falla undir þann hluta.
    Yfirfærsla Schengenacquis í stofnanakerfi ESB þýðir að það verður notað við framkvæmd og þróun nýrra Schengengerða. Frumkvæði að nýjum gerðum breytist þess vegna. Dómstóll EB fær dómsvald á tilteknum sviðum en þó með ákveðnum takmörkunum. Dómsvaldið nær þannig ekki til þess atriðis að viðhalda lögum og allsherjarreglu og að vernda innra öryggi í aðildarríkjunum. Dómstóllinn hefur heldur ekki dómsvald til að kveða upp forúrskurði í þeim málaflokkum sem falla innan þriðju stoðarinnar, nema með tilteknum skilyrðum. Þá er og þess að geta að í öllum tilvikum nema varðandi vegabréfsáritanir er krafist einróma samþykkis til ákvarðanatöku. Þess er hins vegar að geta að samkvæmt gr. A og B (1) í Amsterdamsamningnum er ráðinu skylt að gera ráðstafanir innan 5 ára til að hrinda í framkvæmd þeim málefnum sem þar greinir, þ.e. þeim málefnum sem talin eru falla undir fyrstu stoðina. Þá skal þess ennfremur getið að framkvæmdastjórn ESB kemur til með að hafa eftirlit með öllum Schengenreglunum, eins og þær eru og verða eftir yfirfærsluna í ESB, nema sérstök undantekning kunni að verða gerð frá því varðandi Noreg og Ísland.

6.2      Þriðja stoðin.
    Undir þriðju stoðina falla þessi málefni:
         upplýsingakerfi (að hluta til),
         lögreglusamvinna á tilteknum sviðum og
         aðstoð í sakamálum.
    Í öllum þessum tilvikum er krafist einróma samþykkis til ákvarðanatöku.
    Eftirfarandi málaflokkar tengjast Schengensamstarfinu en eru þó taldir falla utan Schengengerða:
         málefni flóttamanna,
         meðferð þeirra sem leita hælis,
         réttarsamvinna á sviði einkamála og
         EUROPOL.
    Í öllum tilvikum er krafist einróma samþykkis til ákvörðunar innan ESB. Þrír fyrst töldu málaflokkarnir falla undir 1. stoðina en EUROPOL fellur undir 3. stoðina.
    Ísland er aðili að ýmsum alþjóðsamningum um sum þessara málefna sem setja ákveðnar lágmarksreglur. Stefna Schengen hefur verið að gera framkvæmd þessara samninga einfaldari í samskiptum aðildarríkjanna í því skyni að efla baráttu gegn margvíslegri alþjóðlegri brotastarfsemi. Samstarfssamningur milli Íslands og ESB um tengsl Íslands við Schengensamstarfið getur tryggt nánari samvinnu á umræddum sviðum.
    Með gildistöku samstarfssamningsins verður stofnað svonefnt Schengenráð þar sem sitja fulltrúar ESB ríkja annars vegar og Noregs og Íslands hins vegar.

7.0 Sérstaða Danmerkur.

    Danmörk felldi Maastrichtsamninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í framhaldi af því gerði Danmörk samkomulag við leiðtoga ESB um tiltekin atriði samningsins (Edinborgaryfirlýsingin) m.a. á sviði innanríkismála. Af þessum sökum hefur Danmörk sérstöðu varðandi sambandsborgararétt, Efnahags- og myntsambandið, stefnu í varnarmálum og í lagalegum og innri málefnum. Danir túlka samkomulagið þannig að það takmarki möguleika þeirra til samstarfs á vettvangi Schengen innan sambandsins. Þess vegna er að finna sérstaka yfirlýsingu í Amsterdamsamningnum sem varðar stöðu Danmerkur. Yfirlýsingin á við bókunina sem fellir Schengenacquis inn í lagaramma sambandsins. Í 2. gr. bókunarinnar, sem varðar sérstöðu Danmerkur, kemur fram sú aðalregla að engin ákvæði tiltekins hluta samningsins um EB, engir alþjóðlegir samningar sem gerðir eru samkvæmt kaflanum og engin ákvörðun dómstóls EB sem lýtur að slíkum reglum sé bindandi fyrir Danmörku. Í 5. gr. kemur fram regla um að Danmörk skuli ákveða innan 6 mánaða eftir að ráðið hefur tekið ákvörðun um frumkvæði eða uppástungu sem bætir við Schengenacquis og fellur undir ákvæði undirkaflans hvort hún muni lögfesta ákvörðunina í innanlandslögum sínum. Ákveði Danmörk að gera það ekki er gert ráð fyrir því að aðildarríki grípi til viðeigandi ráðstafana.
    Í heild má segja að réttarstaða Danmerkur sé þessi:
     a)      Staða Danmerkur að því er varðar Schengengerðir sem þegar hafa verið samþykktar og sem Danmörk kann að undirgangast sérstaklega eru þjóðréttarlega bindandi fyrir Danmörku. Þær eru hins vegar ekki á neinn hátt sambandsréttur að því er Danmörku varðar.
     b)      Danmörk tekur sjálfstæða ákvörðun um hvort hrint er í framkvæmd ákvörðunum um viðbætur eða breytingar á Schengengerðum sem falla undir frjálsa för fólks, hæli og innflytjendur. Samþykki þeir það ekki er gert ráð fyrir að önnur aðildarríki geti ákveðið viðbrögð við því. Danmörk er þó áfram bundin af ákvörðunum sem varða lista yfir vegabréfsáritanir og samræmt form vegabréfsáritana enda voru þeir það við gerð Amsterdamsamningsins.
     c)      Dómstóll EB hefur ekki dómsvald yfir Danmörku í þessum málaflokki.
     d)      Varðandi málefni sem falla undir þriðju stoðina hefur Danmörk sömu réttarstöðu og fyrir gerð Amsterdamsamningsins. Þess er að geta að samstarfinu í þriðju stoðinni má jafna til milliríkjasamstarfs enda eru allar ákvarðanir þar teknar með einróma samþykki. Þýðing þess að færa þessi málefni undir ESB er helst sú að stofnanarammi þess er notaður.

8.0 Íslensk stjórnarskrárákvæði sem koma við sögu.

    Hér verður gefið stutt yfirlit yfir þau ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sem koma helst til skoðunar í álitsgerð þessari:

1)     Ákvæði 1. gr. íslensku stjórnarskrárinnar hljóðar svo:
             Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.
    Þetta ákvæði var sett þegar lýðveldi var stofnað árið 1944, en það á sér þó lengri forsögu. Í ákvæðinu felst að okkar mati, að Ísland er frjálst og fullvalda ríki, sem er aðili að þjóðarétti og getur tekið á sig þjóðréttarlegar skuldbindingar, ef því er að skipta. Hugtakið ríki er umdeilt. Algengt er þó að telja, að ríki sé mannlegt samfélag, sem hefur varanleg yfirráð yfir tilteknu landssvæði, býr við lögbundið skipulag og lýtur stjórn, sem sækir vald sitt til samfélagsins sjálfs en ekki til annarra ríkja. Jafnframt er ráð fyrir því gert, að stjórnin fari með æðsta vald í landinu, óháð valdhöfum annarra ríkja eða alþjóðlegum stofnunum að öðru leyti en því, sem leiðir af reglum þjóðaréttar.

2)     Í 2. gr. stjórnarskrárinnar segir svo:
             Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.
    Hér verður gengið út frá því, að löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald sé í höndum þeirra aðila, sem nefndir eru í greininni, enda er það eðlileg skýring, þegar horft er til venjubundinna hugmynda um þetta atriði. Sú réttarregla, sem fram kemur í greininni, er meginregla, sem margar undantekningar eru frá. Ekki verður farið nánar út í þetta atriði, en minnt skal þó á, að Alþingi framselur oft hluta af löggjafarvaldi sínu til handhafa framkvæmdarvalds, oftast til ráðherra, með því að heimila eða leggja svo fyrir, að sett séu stjórnsýslufyrirmæli um tiltekin atriði. Þá má benda á, að stundum eru ákvarðanir, sem eftir eðlilegum skilningi ættu að vera í höndum handhafa framkvæmda- eða dómsvalds, faldar löggjafanum. Fjöldi dæma er um þetta. Hér skal látið nægja að benda á, að kosning í bankaráð Seðlabankans (sbr. 30. gr. l. nr. 36/1986), útvarpsréttarnefnd og útvarpsráð (sbr. 3. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 19. gr. l. nr. 68/1985) og ýmsar aðrar slíkar nefndir fer fram á Alþingi, þó að ekki sé unnt að telja slíkar kosningar löggjafarstarf að efni til. Loks eru ákvarðanir, sem eðlilegast er að telja til dómsathafna, stundum teknar af öðrum en dómendum. Þannig má nefna, að í 15. gr. laga nr. 30/1992 um yfirskattanefnd segir að úrskurður yfirskattanefndar sé fullnaðarúrskurður um skattfjárhæð. Ágreining um skattskyldu og skattstofna má þó bera undir dómstóla.
    Ennfremur má nefna l. nr. 36/1992 um Fiskistofu, en þeim lögum hefur nú verið breytt. Þar var gert ráð fyrir að sérstök stjórnsýslunefnd hefði heimild til að ákveða sekt á hendur skipstjórum fiskiskipa að tilteknu hámarki fyrir brot á lögum um fiskveiðar við Ísland svo og til að ákveða upptöku ólögmæts sjávarafla. Um heimildir Fiskistofu til að ákvarða viðurlög gilda nú ákvæði í l. nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar.
    Þess má einnig geta, að oft er dómstólum falin verk, sem engan veginn geta talist til dómsathafna í venjubundinni merkingu þess orðs. Má þar t.d. nefna, að Hæstiréttur skipar tvo dómendur í Kjaradóm, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 120/1992 um Kjaradóm og kjaranefnd og tilnefnir þrjá menn og þrjá til vara til að sitja í áfrýjunarnefnd samkeppnismála samkvæmt 2. mgr. 9. gr. samkeppnislaga nr. 2/1993.
    Samkvæmt því, sem nú hefur verið rakið, sætir meginreglan um skiptingu ríkisvalds, sem fram kemur í 2. gr. stjórnarskrárinnar, margvíslegum frávikum. Þau frávik koma fram í stjórnarskránni sjálfri, almennum lögum eða byggjast á venju og dómafordæmum.

3)     Í 60. gr. stjórnarskrárinnar segir svo:
             Dómendur skera úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda.
    Þessi regla varðar fyrst og fremst valdaskiptinguna milli hinna þriggja þátta ríkisvaldsins en ekki lögverkanir þjóðréttarsamninga. Með ákvæðinu er tryggt, að íslenskir ríkisborgarar og lögaðilar geta borið ágreiningsefni sín á milli og við íslensk stjórnvöld undir íslenska dómstóla. Líta má þannig á ákvæðið í ljósi þess, að það veiti íslenskum ríkisborgurum og lögaðilum vernd gegn athöfnum stjórnsýsluaðila. Það gildir auðvitað fyrst og fremst gagnvart athöfnum íslenskra stjórnvalda. Þess er þó einnig að gæta að ákvæðið getur staðið því í vegi að stjórnvöld færi ákvörðunarvald sitt gagnvart íslenskum ríkisborgurum út úr landinu með þjóðréttarsamningum þannig að þeim stæði eftir það ekki til boða slík réttarvernd. Umrædd stjórnarskrárbundin vernd verður ekki tekin frá íslenskum ríkisborgurum og lögaðilum án stjórnarskrárbreytingar nema ótvíræð efnisrök standi til þess í nánar skilgreindum tilvikum, sbr. það sem síðar greinir.

4)     Í 21. gr. stjórnarskrárinnar segir:
             Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.
    Hin hefðbundna skoðun hér á landi er sú, að í þessu stjórnarskrárákvæði felist ekki sjálfstæð og sérstök heimild til þess að gera þjóðréttarsamninga, sem breyta stjórnarskránni. Rökin fyrir þessu er að finna í forsögu ákvæðisins, auk þess sem nágrannaþjóðirnar hafa komist að svipaðri niðurstöðu varðandi sambærileg ákvæði.
    Hafi samningur verið gerður við annað ríki eða alþjóðastofnun og þess gætt,sem í 21. gr. stjórnarskrárinnar segir er samningurinn bindandi fyrir Ísland að þjóðarétti. Í því felst, að íslenska ríkið hefur skuldbundið sig gagnvart viðsemjanda sínum til að hlíta samningum og gera þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru, jafnvel að breyta stjórnarskrá og almennum lögum, ef þess er þörf. Þjóðréttarsamningar gilda ekki sem lög á Íslandi, þótt fullgiltir verði, nema þeir hafi verið lögfestir sérstaklega. Þetta viðhorf til þjóðréttarsamninga byggist á fordæmisreglum, sem Hæstiréttur hefur skapað. Niðurstaðan er sú sama í rétti hinna Norðurlandanna. Ef Ísland uppfyllir ekki skuldbindingar, sem það hefur tekist á hendur með þjóðréttarsamningi, getur það átt á hættu viðbrögð frá viðsemjendum sínum samkvæmt þeim reglum sem um það gilda að þjóðarétti. Fer eftir atvikum, hver þau geta orðið. Í mörgum öðrum ríkjum í Evrópu fá alþjóðasamningar hins vegar lagagildi strax og þeir eru fullgiltir, án þess að hafa verið lögfestir sérstaklega. Af því leiðir, að einstaklingar og lögaðilar geta byggt á þeim, þegar reynir á reglur þeirra í dómsmálum.

Niðurstöður samkvæmt framansögðu:
    Niðurstaðan af framangreindum hugleiðingum er sú, að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands hefur að geyma meginreglu um skiptingu ríkisvaldsins milli hinna þriggja þátta þess. Það leiðir af eðli málsins, að ríkisvald þetta tekur í aðalatriðum til íslensks yfirráðasvæðis, íslenskra hagsmuna og íslenskra aðila. Ákvæði 21. gr. stjórnarskrárinnar heimilar að skuldbinda íslenska ríkið að þjóðarétti með þjóðréttarsamningum. Í greininni felst þó ekki heimild til að breyta ákvæðum stjórnarskrárinnar. Um nánari afmörkun þess valdssviðs, sem stjórnarskráin mælir fyrir um, verður fjallað í næstu köflum hér á eftir.

9.0 Gildissvið íslensku stjórnarskrárinnar og dæmi úr löggjöf um framsal ríkisvalds.

9.1      Gildissvið stjórnarskrárinnar.
    Gildissvið íslensku stjórnarskrárinnar tekur í aðalatriðum til yfirrráðasvæðis íslensks ríkisvalds eins og það er ákveðið samkvæmt íslenskri stjórnskipan. Ennfremur tekur það til þeirra einstaklinga og lögaðila, sem tilheyra íslenska ríkinu og njóta þar réttinda og bera skyldur, sem stjórnskipunin kveður á um. Er þar einkum um að ræða aðila, sem eiga íslenskan ríkisborgararétt eða eiga heimili hér á landi. Frá þessari reglu eru nokkrar undantekningar, sem eiga sér stoð í úrlendisrétti en verða ekki gerðar að umræðuefni hér.
    Þegar vald alþjóðastofnana er skoðað gagnvart íslenskum einstaklingum og lögaðilum, með hliðsjón af gildissviði íslenskrar stjórnarskrár, eru nokkur atriði, sem öðrum fremur skipta máli. Í raun er þar um að ræða viðmiðanir, sem notaðar eru í þjóðarétti og alþjóðlegum einkamálarétti (lagaskilarétti) til að afmarka vald aðildarríkis gagnvart valdi annarra aðildarríkja eða alþjóðastofnana. Þessar viðmiðanir eru einkum:
     1.      Hvar lögskiptin gerðust. Vettvangur lögskipta skiptir yfirleitt máli, þegar skorið er úr um það, hvers lands lög skuli gilda um tiltekið réttaratriði, t.d. hvaða alþjóðlegt varnarþing skuli gilda og þar með hvaða dómstólar tiltekinna ríkja skuli hafa dómsvald. Sama gildir um valdbærni opinberra stofnana. Þannig yrði t.d. mál út af skaðabótaskyldu verki Íslendings, sem framið er á Ítalíu, rekið þar í landi, og umsókn sama Íslendings um vegabréfsáritun til ítalskra yfirvalda yrði afgreidd endanlega af yfirvöldum þar. Sama meginsjónarmið á einnig við, þegar stofnanir að þjóðarétti eiga í hlut.
     2.      Hvaða hagsmuni lögskiptin vörðuðu. Miklu máli skiptir að ákvarða, hvaða hagsmuni sakarefni snertir. Íslensk stjórnvöld eru að öðru jöfnu ekki valdbær, ef málefni snertir ekki íslenska opinbera- eða einstaklingshagsmuni. Íslendingur, sem sækir um dvalarleyfi í Frakklandi, er því bundinn af niðurstöðu franskra stjórnvalda um þá umsókn, enda snertir umsóknin aðeins með mjög óbeinum hætti íslenska hagsmuni. Einnig hér eiga svipuð sjónarmið við, þegar stofnanir að þjóðrétti eiga í hlut.
     3.      Hvers konar lögskipti var um að tefla. Það hefur þýðingu að skilgreina þau lögskipti nánar, sem til athugunar eru. Sérstaklega skiptir máli, hvort ákvörðun sú, sem um er að tefla, telst verulega íþyngjandi fyrir viðkomandi aðila eða ekki. Sem dæmi um þetta má nefna að ýmsar frelsisskerðingar og aðrar skerðingar grundvallarmannréttinda gagnvart íslenskum borgurum mega ekki fara fram innan íslenska ríkisins nema ákvæðum íslenskrar stjórnarskrár sé fullnægt. Þegar um það er að ræða að veita alþjóðastofnunum vald til þess að taka íþyngjandi ákvarðanir, t.d. sektarákvarðanir gagnvart íslenskum aðilum, koma fyrrgreind sjónarmið til álita sérstaklega. Íslenska stjórnarskráin áskilur borgurum sínum rétt til þess að bera ágreining um embættistakmörk yfirvalda undir dómstóla, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar. Varla er vafi á því, að íslensk stjórnskipun áskilur borgurum sínum ríka og sambærilega vernd gagnvart þeim ákvörðunum erlendra aðila sem hafa sterk íslensk einkenni. Slíka ályktun má m.a. byggja á lögmætisreglunni, sem hér gengur út á það, að heimildir til framsals stjórnskipulegs valds til alþjóðastofnana þurfi að vera mjög skýrar og ótvíræðar, þegar um slíkar ákvarðanir er að tefla. Tæpast er heldur vafi á því, að í 60. gr. stjórnarskrárinnar er átt við íslenska dómstóla og íslenskt yfirvald. Hafi því alþjóðastofnunum verið heimilað með íslenskum lögum að taka íþyngjandi ákvarðanir gagnvart íslenskum einstaklingum eða lögaðilum getur orðið álitamál, hvort fram hafi farið ólögmætt framsal á íslensku ríkisvaldi.
     4.      Afmörkun framsalsheimilda, gagnkvæmni o.fl. Fleiri atriði en nú hafa verið nefnd skipta einnig máli, þegar metið er, hvort stjórnarskráin leyfir framsal tiltekinna valdheimilda. Hér skal nefnt sérstaklega, að máli skiptir, hvort valdframsal er vel afmarkað eða ekki, hvort tiltekið framsal er gagnkvæmt í samskiptum ríkja og hvort tiltekið ríki geti haft áhrif á þær ákvarðanir, sem teknar eru af erlendum aðilum á grundvelli framsalsins. Ennfremur skiptir máli, hvort íslenskir framkvæmdarvaldshafar hafi áður farið með umrætt eða sambærilegt vald. Loks verður að telja að það skipti máli hvers konar aðilar eða stofnanir það eru, sem vald er framselt til, m.a. hvort þar séu virtar þær grundvallarreglur um málsmeðferð, sem séu samrýmanlegar þeim grunnhugmyndum, sem byggt er á hér á landi.

9.2      Dæmi úr löggjöf um framsal ríkisvalds.
    Löng venja er fyrir því, að erlendar dómsúrlausnir megi með lögum gera aðfararhæfar hér á landi. Byggist slíkt að jafnaði á þjóðréttarsamningi, sem Ísland hefur gerst aðili að. Má í þessu sambandi vísa til 11. tl. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989, þar sem fram kemur að úrlausnum eða ákvörðunum erlendra dómstóla eða yfirvalda eða sáttum gerðum fyrir þeim verði fullnægt hér á landi, ef íslenska ríkið hefur skuldbundið sig að þjóðarétti og með lögum til að viðurkenna slíkar aðfararheimildir, enda verði fullnusta kröfunnar talin samrýmanleg íslensku réttarskipulagi. Sem dæmi um slík tilvik má benda á Lúganósamninginn um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum frá 16. september 1988, sbr. lög nr. 68/1995, og Norðurlandasamning milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um viðurkenningu dóma og fullnægju þeirra frá 16. mars 1932, sbr. lög nr. 30/1932. Einnig má benda á lög nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma. Þar er gert ráð fyrir því í 14. gr., að gerðardómar, sem kveðnir eru upp í samræmi við þjóðréttarsamninga, sem Ísland er aðili að, skuli öðlast viðurkenningu og aðfararhæfi hér á landi, eftir því sem efni þeirra standa til.
    Þá eru einnig mörg dæmi um það, að erlendum stjórnsýsluákvörðunum hafi verið veitt aðfararhæfi hér á landi með íslenskum lögum. Sem dæmi um þetta má nefna samning milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð, sem veitt var lagagildi hér á landi með lögum nr. 29/1931. Í 22. gr. samningsins, svo sem henni var breytt með lögum nr. 95/1973, er kveðið svo á, að tilteknir úrskurðir umboðsstjórnarinnar skuli gilda í hinum ríkjunum án sérstakrar staðfestingar og án rannsóknar á því, hvort úrskurðurinn sé réttur eða forsendur hans, þær er taka til heimilisfesti eða ríkisfesti í einhverju samningsríkjanna. Þetta er dæmi þess, að heimilt hafi verið talið að fá stjórnvöldum utan Íslands stjórnvald, sem er skýrt afmarkað og ekki umfangsmikið eða verulega íþyngjandi fyrir einstaklinga eða lögaðila. Sem annað dæmi um erlendar aðfararhæfar stjórnsýsluákvarðanir má nefna lög nr. 93/1962, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að láta öðlast gildi ákvæði í samningi milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um innheimtu meðlaga, sbr. 1. gr. samningsins, og lög nr. 46/1990, um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Norðurlanda um aðstoð í skattamálum, sbr. 14. gr. samningsins. Það er þó ekki fullkomlega ljóst samkvæmt þessum og nokkrum öðrum sambærilegum heimildum, hvort endurskoðun íslenskra dómstóla á erlendum stjórnsýsluákvörðunum megi eða geti farið fram, umfram það sem leiðir af endurskoðun á grundvelli ordre-public fyrirvara.
    Loks ber hér að nefna samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Samkvæmt þeim samningi og fylgisamningum hans getur eftirlitsstofnun EFTA tekið ákvarðanir í samkeppnismálum, sem eru bindandi fyrir íslenska einstaklinga og lögaðila. Þessar ákvarðanir eru af ýmsum toga, t.d. í formi bindandi yfirlýsinga, hvort tiltekin aðgerð fari í bága við samkeppnisreglur EES, ákvörðun um rannsóknaraðgerðir gegn fyrirtækjum og ákvörðun um sektir og févíti sem eru aðfararhæf á hendur viðkomandi einstaklingum eða fyrirtækjum. Umræddar ákvarðanir verða almennt ekki endurskoðaðar af íslenskum dómstólum. Í sumum tilvikum getur jafnvel farið svo, að framkvæmdastjórn EB taki sambærilegar ákvarðanir á hendur íslenskum aðilum. Ástæða þess er m.a. sú, að skipta þarf eftirlitshlutverki á hinu Evrópska efnahagssvæði í samkeppnismálum upp á milli EB annars vegar og eftirlitsstofnunar EFTA hins vegar. Getur þá tiltekið vald fallið til framkvæmdastjórnar EB, sem segja mætti með einhverjum rökum, að ætti eðli málsins samkvæmt fremur að vera EFTA megin. Þetta gildir þó einnig öfugt. Í áliti nefndar utanríkisráðherra um stjórnarskrána og EES samninginn frá 6. júlí 1992 sagði um þetta m.a. svo:
             Þegar meta skal, hvort reglurnar um vald stofnana EFTA á sviði samkeppnisreglna sé samrýmanlegt 2. gr. stjórnarskrárinnar, ber að okkar áliti að hafa hliðsjón af því sem nú var sagt.
             Við teljum að reglurnar um vald stofnana EFTA séu vel afmarkaðar og feli ekki í sér verulegt valdframsal sem talið verði íþyngjandi í ríkum mæli. Verður að telja að stjórnarskráin heimili framsal stjórnvalds sem er takmarkað með þessum hætti og varðar milliríkjaviðskipti. Ekki verður talið skipta máli í þessu sambandi þótt eftirlits- og ákvörðunarvaldið sé í afmörkuðum tilvikum í höndum eftirlitsaðila EB. Skipting valds milli eftirlitsnefndar EFTA og framkvæmdastjórnar EB í þessum tilvikum helgast af nauðsyn í viðskiptum milli ríkja, það er afmarkað og skýrar heimildir liggja því að baki. Þá er það einnig gagnkvæmt að vissu marki, enda eru bæði EB og EFTA-ríkin aðilar að hinu nýja réttarkerfi sem komið er á með EES-samningnum.
    Meginniðurstaðan að þessu leyti er því sú, að ýmis dæmi megi finna í íslenskri löggjöf um framsal valds til erlendra aðila, án þess að það hafi verið talið brjóta í bága við stjórnarskrána. Hér er fyrst og fremst um að ræða afmörkuð svið, sem varða aðfararhæfi dóma og stjórnsýsluákvarðana. Segja má, að EES samningurinn sé nokkurs konar stigmögnun í þessu efni. Umdeilt var, hvort lögtaka hans færi í bága við stjórnarskrána. Alþingi taldi svo ekki vera, sbr. nánar 10. kafla.

9.3      Heildarmat.
    Ekkert eitt af framangreindum atriðum ræður úrslitum um það að hvaða marki íslensk stjórnarskrá heimilar framsal einstakra þátta ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana. Segja má öllu fremur, að hafa beri þau öll í huga, og að það séu heildaráhrif þeirra, sem máli skipti. Eðlilegt er að gera ráð fyrir að ákvæði íslenskrar stjórnarskrár séu túlkuð með hliðsjón af gildandi þjóðarétti á hverjum tíma, a.m.k. að því marki sem unnt er að samrýma slíka túlkun fullveldisrétti ríkisins og réttaröryggi borgaranna. Þetta gildir líka um gildissvið hennar. Því eru líkur til þess, að öðrum skilyrðum uppfylltum, að almenni löggjafinn geti, innan ramma íslenskrar stjórnarskrár, kveðið nánar á um gildissvið tiltekins réttaratriðis sem hefur á sér alþjóðlegan blæ. Líklegt er, að þetta svigrúm sé því meira þeim mun alþjóðlegri sem lögskiptin eru í eðli sínu. Ákvarðanir þær, sem um verður fjallað í álitsgerð þessari, varða að mestu leyti reglur um það þegar farið er yfir innri og ytri landamæri Schengensvæðisins svo og ákvarðanir um sameiginlegar vegabréfsáritanir.
    Ekki fer því á milli mála, að umrædd réttarsvið hafa á sér greinilegan alþjóðlegan blæ og samkvæmt samkomulaginu við Ísland og Noreg er gert ráð fyrir gagnkvæmni að því er varðar réttindi og skyldur. Ekki virðist hins vegar gert ráð fyrir jafnræði milli aðila samkomulagsins varðandi ákvörðun um framtíðargerðir sem samþykktar kunna að verða innan Schengensamkomulagsins (eða innan ESB). Um þetta atriði svo og um heimildir alþjóðastofnana til eftirlits á svæðinu verður rætt síðar.

10.0 Tengsl álitsgerðar þessarar við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

    Í næstu köflum hér á eftir verða einstök ákvæði Schengensamningsins könnuð nánar út frá því sjónarmiði, hvort ákvæði hans eða hann í heild brjóti í bága við íslensku stjórnarskrána, ef samstarfssamningur sá um Schengensamninginn við aðildarríki þess samnings yrði fullgiltur og lögtekinn. Er þá miðað að öðru leyti við þær forsendur sem raktar eru í álitsgerð þessari.
    Þann 1. janúar 1994 tók samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði gildi, sbr. 5. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Samningurinn er mjög viðamikill. Hann tekur til margra efnisþátta, og þær samningsskyldur, sem íslenska ríkið tók á sig varðandi lagasetningu, eru verulegar. Hann, ásamt fylgisamningum, hefur að geyma ýmis ákvæði, sem talin voru þess eðlis, að þau kynnu að brjóta í bága við stjórnarskrána. Í ýmsum atriðum reyndi því meira á heimildir íslenskrar stjórnarskrár til valdframsals, heldur en áður hafði þekkst. Samningurinn hlaut ítarlega lögfræðilega umræðu út frá þessu sjónarmiði. Eftir talsverðar umræður á Alþingi og utan þess var hann fullgiltur og tekinn í lög með þeim hætti, sem nánar er getið í fyrrgreindum lögum.
    Í álitsgerð þessari þykir eðlilegt að miða við, að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hafi verið samrýmanlegur íslensku stjórnarskránni. Verður við það miðað í álitsgerðinni og því fjallað um sambærileg eða svipuð atriði út frá sama sjónarhorni, eftir því sem tilefni gefst til. Þetta skiptir ekki síst máli, þar sem reglur Schengensamningsins tengjast framkvæmd á reglum innri markaðar EB, en síðarnefndu reglurnar eru að stærstum hluta teknar yfir með EES-samningnum. Schengensamstarfið er þannig öðrum þræði nánari útfærsla og útvíkkun á því samstarfi sem stofnað er til með EES-samningnum.
    Þegar EES-samningurinn er borinn saman við samstarfssamninginn verður að hafa í huga að samningar þessir eru að sumu leyti ólíkir. Í fyrsta lagi gerir EES-samningurinn ráð fyrir sameiginlegum stofnunum sem fara með tiltekin völd og þar sem samningsaðilar eiga sæti og jafnræði ríkir með þeim. Hér er einkum átt við sameiginlegu EES-nefndina. Þó verður að taka fram að EES-samningurinn eða einstakir hlutar hans geta fallið úr gildi til bráðabirgða ef sameiginlegu EES nefndinni tekst ekki að finna lausn á ágreiningsefnum sínum. Ekki virðist gert ráð fyrir sambærilegum stofnunum í samstarfssamningnum. Í öðru lagi sjá EFTA- ríkin sjálf um eftirlit með EES reglum á umráðasvæði sínu. Þetta er gert með sérstökum EFTA-stofnunum, þ.e. eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólnum. Í samstarfssamningnum er ekki gert ráð fyrir sambærilegu kerfi. Helst virðist mega gera ráð fyrir að stofnanir ESB skuli notaðar í þessu skyni. Í þriðja lagi má nefna að EES samningurinn er mun víðtækari en það samstarf sem fram fer innan Schengen. Ganga má út frá því að Schengen réttarheimildir séu aðeins lítill hluti af þeim réttarheimildum sem Ísland er skuldbundið af samkvæmt EES- samningnum og samningum í tengslum við hann.

11.0 Niðurstöður

11.1. Almenn atriði
    Í íslenskum rétti er byggt á hinu svonefnda tvíeðli þjóðaréttar og landsréttar. Það þýðir að þjóðréttarsamningar sem íslenska ríkið gerir binda aðeins það sjálft en ekki einstakar stofnanir þess eða einkaaðila. Þetta hefur m.a. það í för með sér að ekki er nægilegt að fara að í samræmi við 21. gr. stjórnarskrárinnar ef þjóðréttarsamningum er ætlað að binda íslenska aðila beint, heldur verður einnig að lögfesta samsvarandi innlend lög á stjórnskipulegan hátt. Samkvæmt 21. gr. stjórnarskrárinnar er aftur á móti heimilt að gangast undir þjóðréttarsamninga, sem skuldbinda íslenska ríkið til þess að lögfesta síðar reglur með tilteknu efni. Þessari heimild eru þó sett viss takmörk.
    Í fyrsta lagi eru því takmörk sett hversu víðtækar og umfangsmiklar slíkar skyldur íslenska ríkið getur tekið á sig gagnvart erlendum aðilum. Þetta gildir einnig þótt aðeins sé um hefðbundna þjóðréttarsamninga að ræða. Sem dæmi má nefna ef íslenska ríkið skuldbindur sig gagnvart erlendum aðilum til að aðlaga alla löggjöf sína eða stóra hluta hennar samkvæmt þeim fyrirmælum sem tiltekin alþjóðastofnun mælir fyrir um. Vandinn er hins vegar fólginn í því að ákveða hvar eigi að setja mörkin. Í því efni verður m.a. að horfa til umfangs reglnanna, hvort þær skuldbindi aðildarríkin þannig að þau hafi í raun ekki annað ákvörðunarvald en að lögfesta efni þeirra óbreytt og hvort ríki geti haft áhrif á ákvarðanatökuna. Fleiri atriði koma ennfremur til skoðunar, sbr. nánar 9. kafla hér að framan.
    Í öðru lagi er það aðalregla að íslenska stjórnarskráin heimilar ekki að valdheimildir íslenskra stjórnvalda séu framseldar alþjóðlegum stofnunum þannig að ákvarðanir sem teknar eru geti haft bein réttaráhrif fyrir íslenska lögaðila eða borgara. Þær valdheimildir sem hér er átt við eru fyrst og fremst þær sem löggjafinn, framkvæmdarvaldið og dómstólar fara með. Þessi regla er heldur ekki án undantekninga svo sem mörg dæmi sýna.
    Samkvæmt því sem nú var sagt skiptir mestu máli að kanna í hvaða mæli lagasetningarvald, framkvæmdarvald eða dómsvald kunni að yfirfærast til alþjóðlegra stofnana við fullgildingu samstarfssamningsins og í hvaða mæli ef svo er.

11.2. Löggjafarvaldið.
11.2.1 Áhrif á ákvarðanatöku.
    Samstarfssamningur milli aðildarríkja Schengensamkomulagsins og Schengensamningsins annars vegar og Íslands og Noregs hins vegar um afnám persónueftirlits á sameiginlegum landamærum var undirritað 19. desember 1996. Í samningi þessum er gert ráð fyrir því í 1. gr. að Schengensamkomulagið og Schengensamningurinn og aðrar gerðir og yfirlýsingar sem honum fylgja og samningar gerðir í tengslum við þessa samninga skuli gilda milli allra samningsaðila.
    Að því er varðar framtíðargerðir gildir hins vegar 3. gr. Af henni er ljóst að stofnanir aðila Schengensamstarfsins (þ.e. nú ráðherranefndin og sameiginlega eftirlitsstofnunin en stofnanir ESB eftir gildistöku Amsterdamsamningsins) munu taka ákvarðanir um þær og efni þeirra. Ísland og Noregur taka þátt í öllum fundarhöldum ráðherranefndarinnar og allra annarra vinnuhópa sem settir hafa verið á stofn til að undirbúa ákvarðanir eða til annarra starfa. Þar geta þau lýst skoðunum sínum, gert athugasemdir og lagt fram tillögur. Þau taka hins vegar ekki þátt í atkvæðagreiðslu.
    Framtíðargerðir lúta einkum að því að settar eru bindandi reglur innan marka Schengensamningsins um nánar tiltekin atriði líkt og á sér stað um afleiddar gerðir innan EB. Sumar af þeim gerðum sem nefndar eru í 3. gr. samstarfssamningsins eru þó komnar til með öðrum hætti. Í fyrsta lagi er þar gert ráð fyrir því að EB réttur geti þróast með þeim hætti að hann felli niður tiltekna hluta Schengensamningsins, sbr. 134. gr. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að aðildarríki EB geti gert með sér þjóðréttarsamninga um tiltekið efni sem kann að breyta Schengensamningnum, sbr. 1. mgr. 142. gr. Ráðherranefndin verður að staðfesta að slíkar gerðir felli úr gildi tiltekin ákvæði Schengensamningsins. Að því er Ísland og Noreg varðar er gert ráð fyrir því að ráðherranefndin ákveði hvaða atriði í þessum ákvörðunum ættu að verða tilefni sérstaks fyrirkomulags milli samningsaðila. Náist ekki samkomulag um slíkt fyrirkomulag getur ráðherranefndin innan marka valdssviðs síns samþykkt bráðabirgðaákvæði ef þörf krefur.
    Hér að framan hafa þær framtíðargerðir verið hafðar í huga sem falla undir fyrstu stoð ESB. Upplýsingakerfið að hluta til, lögreglusamvinna á tilteknum sviðum og aðstoð í sakamálum falla undir þriðju stoðina. Þegar það er kannað sérstaklega hvort framsal á lagasetningarvaldi geti falist í þeim efnissviðum sem þangað eru færð, verður fyrst og fremst að hafa í huga að ávallt er krafist einróma samþykkis í ráðinu til ákvarðanatöku. Þá má einnig ætla að þau efnissvið sem falla undir þriðju stoðina séu að sumu leyti fremur í samvinnuformi og því síður til þess fallin að hafa bein réttaráhrif fyrir borgarana. Engu að síður er vert að taka fram að áhrif synjunar Íslands og/eða Noregs á þeim framtíðargerðum sem koma undir þriðju stoðina eru þau sömu og endranær, þ.e. að synjun getur skoðast sem uppsögn samstarfssamningsins. Af þessum sökum er rétt að líta svo á að ekki sé mikill munur á því hvort framtíðargerðir sem samþykktar eru innan ESB á Schengensviðinu koma undir fyrstu eða þriðju stoðina. Allt lagakerfið verður því að skoða í samhengi.
    Samkvæmt 3. gr. samstarfssamningins ákveða Ísland og Noregur „hvort í sínu lagi“ hvort þau samþykkja þessar gerðir. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar skapast gagnkvæm réttindi og skyldur milli samningsaðila þegar Ísland og Noregur samþykkja þær gerðir sem getið er í 1. mgr. 3. gr. Samkvæmt framansögðu er alveg ljóst að Ísland verður ekki sjálfkrafa bundið að þjóðarétti við þær framtíðargerðir sem samþykktar verða á vegum stofnana ESB, enda verður að telja þá tilhögun eðlilega með hliðsjón af því að Ísland tekur ekki þátt í atkvæðagreiðslu um tilvist þeirra og efni. Samþykki Ísland hins vegar tiltekna framtíðargerð er viðbúið að af því leiði þjóðréttarleg skuldbinding til að lögfesta hana í innanlandsrétti. Verður um það rætt í næsta kafla.

11.2.2. Lögfesting Schengengerða.
    Í samstarfssamningnum er hvergi sagt berum orðum að gildandi Schengengerðir og framtíðargerðir skuli lögfestar sérstaklega. Ljóst er þó að eftir að Schengengerðir hafa verið færðar yfir í fyrstu stoðina öðlast gildandi Schengenréttur og allar framtíðargerðir lagaáhrif og bein réttaráhrif í aðildarríkjunum með svipuðum hætti og annar ESB réttur. Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hvaða hlutar Schengengerðanna fela í sér bindandi reglur. Ljóst er þó að sumir hlutar þeirra fela aðeins í sér yfirlýsingar, leiðbeinandi reglur og aðrar slíkar reglur. Aðrir hlutar hans fela í sér bindandi reglur. Sumar af þessum reglum eru þess eðlis að þær snúa beint að borgurunum og geta skapað réttindi fyrir þá eða lagt á þá skyldur. Þær fá lagaáhrif eða bein réttaráhrif í rétti ESB eftir því sem efni þeirra stendur til, en þær þyrfti hins vegar að lögfesta hér á landi. Sem dæmi um slíkar reglur má nefna að gerist Ísland aðili að Schengensamstarfinu verður að breyta allri gildandi löggjöf um aðgang og dvöl útlendinga að landinu þannig að þær verði í samræmi við Schengenreglurnar. Sama á við um vegabréfsáritanir, umsóknir um þær, hvar eigi að koma þeim fyrir, gildistíma þeirra, form o.fl.
    Í álitsgerð þessari verður af þessum sökum að reikna með því að samstarfssamningurinn feli það í sér að Ísland verði að lögfesta Schengengerðir í samsvarandi mæli og þeim er ætlað að hafa lagaáhrif og bein réttaráhrif innan ESB. Það er forsenda þess að samstarfið milli Íslands og Noregs annars vegar og Schengenríkjanna hins vegar geti skilað árangri á Schengensvæðinu.
    Af fyrrgreindum sökum verður að líta svo á að af samstarfssamningnum leiði að Íslandi sé skylt að lögfesta í innanlandslögum sínum bæði núgildandi Schengengerðir og þær framtíðargerðir sem það kann að samþykkja í sama eða svipuðum mæli og þær öðlast lagagildi í aðildarríkjum sambandsins. Ella yrði líklega litið svo á að um samningsbrot væri að tefla. Ennfremur verður að ætla að löggjafinn hér á landi hafi í reynd ekki svigrúm til að breyta út af umræddum gerðum þegar þær eru lögteknar nema því aðeins að þær sjálfar veiti heimild til tiltekinna valkosta eða til að útfæra Schengenreglu nánar.

11.2.3. Ferill breytinga.
    Sem fyrr segir gerir samstarfssamningurinn ráð fyrir því að Ísland og Noregur taki þátt í öllum fundarhöldum ráðherranefndarinnar og allra annarra vinnuhópa sem settir hafa verið á stofn til að undirbúa ákvarðanir eða til annarra starfa. Þar geta þessi ríki lýst skoðunum sínum, gert athugasemdir og lagt fram tillögur en þau taka aftur á móti ekki þátt í atkvæðagreiðslu. Ekki er alveg ljóst hvernig þessum áhrifum verður háttað ef Amsterdamsamningurinn öðlast gildi og mikilvægustu Schengenmálefnin falla undir fyrstu stoðina. Verður að minnsta kosti að gera ráð fyrir því að framkvæmdastjórn ESB verði gert að leita ráða hjá sérfræðingum Íslands og Noregs, þegar hún undirbýr tillögur um nýja löggjöf, á sama hátt og hún leitar ráða hjá sérfræðingum aðildarríkjanna um mótun tillagna.
    Hvað sem þessu líður gerir samstarfssamningurinn ráð fyrir því að Ísland og Noregur fái tækifæri til að hafa áhrif á mótun nýrra Schengenreglna. Þannig verður það væntanlega einnig eftir að Schengensamstarfið hefur verið fært undir fyrstu stoðina en einstök útfærsluatriði eru þó ekki ljós.

11.2.4. Áhrif synjunar.
    Í 2. mgr. 10. gr. samstarfssamningsins segir svo:
             Samþykki Lýðveldið Ísland og/eða Konungsríkið Noregur ekki ákvörðun sem um getur í 1. mgr. 3. gr. jafngildir það uppsögn og skal formennskuríki ráðherranefndar tilkynna ríkisstjórn Stórhertogadæmisins Lúxemborgar þá ákvörðun innan 30 daga [...] Lýðveldið Ísland og/eða Konungsríkið Noregur hætta að eiga aðild að þessum samningi sex mánuðum eftir slíka tilkynningu.
    Ljóst er af fyrrgreindu ákvæði að Ísland og Noregur eru undir talsverðum þrýstingi til að samþykkja tiltekna framtíðargerð, sem liggur í því að það er að jafnaði mun viðurhlutameira að ganga út úr samstarfi heldur en að samþykkja tiltekna gerð. Ef til vill er ekki raunhæft að gera ráð fyrir því að Ísland gangi út úr samstarfinu á grundvelli ósamkomulags um tiltekna gerð, nema hún verði talin hafa afgerandi pólitíska þýðingu og samstarfið sem slíkt þætti vegna hennar ekki viðunandi. Af orðum greinarinnar verður ekki ráðið að neinn greinarmunur sé gerður á því hvort umræddar framtíðargerðir séu bindandi eða ekki, hvort þær þurfi að lögfesta í innanlandsrétti eða hvort þær falli undir fyrstu eða þriðju stoð. Engu að síður er ljóst að þýðing gerða er mismunandi mikil að þessu leyti.
    Af fyrrgreindum sökum er ljóst að Ísland og Noregur taka ekki þátt í umræddu samstarfi á jafnréttisgrundvelli. Jafnframt virðist ljóst þegar litið er til almenna uppsagnarákvæðisins í 1. mgr. 10. gr. að ákvæðinu í 2. mgr. 10. gr. er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að þrýsta á um að Ísland og Noregur samþykki viðkomandi framtíðargerðir.
    Spyrja má hvort í slíku ferli sem að framan hefur verið lýst geti falist framsal á löggjafarvaldi. Reynir þar einkum á 2. gr. stjórnarskrárinnar. Setning nýrra Schengengerða felur í sér breytingu á þjóðréttarsamningi. Þar eiga ekki við stjórnarskrárákvæði um frumkvæðisrétt ríkisstjórnar eða þingmanna að lagafrumvörpum eða rétt til að flytja breytingatillögur. Ísland hefur einungis rétt til að samþykkja viðkomandi breytingu (nýja gerð) eða hafna henni. Jafnframt hefur löggjafinn fullt vald til að ákveða hvaða reglur skuli leiddar í lög samkvæmt skuldbindingum sem felast í samstarfssamningnum. Samþykki Ísland ekki tiltekna gerð eða samþykki Alþingi ekki að leiða hana í lög kallar það eingöngu á þjóðréttarleg viðbrögð samkvæmt samningnum. Þetta atriði teljum við ráða úrslitum um það að ákvæði samstarfssamningsins um samþykki framtíðargerða og lögfestingu þeirra í framhaldi af því feli ekki í sér framsal á löggjafarvaldi og sé í samræmi við 2. gr. íslensku stjórnarskrárinnar. Það styður þessa niðurstöðu að samstarfssamningurinn fjallar um svið sem er vel afmarkað og ekki víðtækt.
    Tekið skal fram að það breytir ekki þessari niðurstöðu þó gert sé ráð fyrir því að hluti Schengenreglnanna verði færður yfir í fyrstu eða þriðju stoð ESB. Ástæðan er sú að gagnvart Íslandi (og Noregi) gildir samstarfssamningurinn en samkvæmt skýlausu ákvæði 3. gr. ákveða ríkin, hvort í sínu lagi, hvort þau samþykkja tilteknar framtíðargerðir innan Schengensviðsins. Ísland er því ekki bundið við slíkar gerðir að þjóðarétti nema það samþykki sérstaklega að gangast undir þær.

11.3. Framkvæmdarvaldið.
    Með framkvæmdarvaldi er venjulega átt við opinbert vald sem hvorki telst löggjafarvald né dómsvald. Hér verður einkum miðað við það vald sem í því felst að taka bindandi ákvarðanir sem beinast að einstaklingum eða lögaðilum. Framsal framkvæmdarvalds getur falist í því að erlendum eða fjölþjóðlegum stjórnvöldum er falið vald til að taka ákvarðanir sem binda hendur íslenskra aðila. Það vald sem þannig er framselt getur verið mismunandi íþyngjandi. Það er t.d. munur á því hvort þessir aðilar þurfa að þola skráningu á tilteknum upplýsingum af hálfu erlendra aðila eða hvort um er að ræða að erlendir aðilar geti framkvæmt eftirlit eða beitt öðrum þvingunaraðgerðum á íslensku yfirráðasvæði. Samkvæmt því sem áður hefur verið rakið um efni Schengensamninganna virðist framsal á framkvæmdarvaldi geta átt sér stað í eftirfarandi tilvikum:

11.3.1. Vegabréfsáritanir.
    Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. Schengensamningsins skal það ríki, sem er hinn eiginlegi áfangastaður viðkomandi, gefa út áritun. Áritunin gildir á öllu Schengensvæðinu. Af þessu leiðir að íslensk stjórnvöld eru bundin við áritun í mörgum tilvikum sem gefin hefur verið út af öðrum samningsaðilum. Svipað er að segja um þann lista yfir ríki þaðan sem ríkisborgarar skulu háðir vegabréfsáritun. Schengensamningurinn felur það í sér að aðildarríkin eru bundin við sameiginlegan lista yfir slík ríki. Framsal framkvæmdarvalds felst í því að íslensk stjórnvöld eru bundin við ákvarðanir stjórnvalda samningsaðila eða alþjóðlegra stofnana jafnvel á eigin yfirráðasvæði.

11.3.2. Schengen upplýsingakerfið (FIS).
    Gert er ráð fyrir að sérhvert aðildarríki reki á sína ábyrgð eigið upplýsingakerfi þar sem skráðar eru ýmsar persónulegar upplýsingar sem nánar er vikið að í IV. hluta Schengensamningsins. Það fer eftir landslöggjöf einstakra ríkja, hvaða upplýsingar eru þar skráðar. Þessu til viðbótar er miðlægt stuðningskerfi í Strasborg. Aðildarríkin geta að vísu ekki sótt upplýsingar í staðbundin kerfi hvers annars. Miðlæga kerfið veldur því þó að þær upplýsingar sem skráðar eru í hverju aðildarríki er unnt að sækja í gegnum miðlæga kerfið. Af þessu leiðir að íslensku reglurnar um kerfisbundna skráningu persónuupplýsinga eiga aðeins við um þær upplýsingar sem lagðar eru inn í íslenska staðbundna kerfið. Ísland er hins vegar bundið við skráningu og aðgang að þeim persónuupplýsingum sem önnur lönd leggja inn. Þetta gildir jafnt þó þar sé um að ræða upplýsingar um íslenska ríkisborgara. Það er því löggjöf annarra Schengen-ríkja sem ræður því hvaða persónuupplýsingar af þessu tagi eru skráðar og Schengenreglur mæla nánar fyrir um hvernig aðgangi að þessum upplýsingum skuli háttað. Í 2. mgr. 92. gr. Schengensamningsins er þó kveðið á um það, að reglur ríkja sem þátt taka í samstarfinu séu samræmdar efnislega. Í kerfinu felst því takmarkað framsal framkvæmdarvalds.

11.3.3. Eftirlit og eftirför á íslensku yfirráðasvæði.
    Schengensamningurinn gerir ráð fyrir því að lögregluyfirvöld eins aðildarríkis geti með nánar tilteknum skilyrðum framkvæmt eftirlit með brotamanni á yfirráðasvæði annars aðildarríkis. Þó verður að afla leyfis hjá viðkomandi ríki, sbr. 1. mgr. 40. gr. Schengensamningsins, nema í mjög afmörkuðum tilvikum, sbr. 2. mgr. greinarinnar.
    Samningurinn gerir einnig ráð fyrir því að lögreglumenn eins aðildarríkis megi veita brotamanni eftirför inn á yfirráðasvæði annars aðildarríkis, sbr. 41. gr. Þetta getur einungis átt við þegar brotamaður er staðinn að verki að tilteknum brotum og ef jafnframt er um að ræða óslitna eftirför. Án leyfis er þetta þó því aðeins heimilt að ekki hafi verið unnt að afla þess í tæka tíð eða ef lögregluyfirvöld í viðkomandi ríki gátu ekki yfirtekið eftirförina í tæka tíð. Nánari ákvæði eru síðan í greininni um heimildir þeirra lögreglumanna sem veita eftirför samkvæmt framangreindu.
    Þar sem ákvæðið um eftirför tekur aðeins til eftirfarar inn á yfirráðasvæði á landi verður það ekki talið skipta miklu máli að því er Ísland varðar .

11.3.4. Niðurstöður varðandi framsal á framkvæmdarvaldi.
    Helstu niðurstöður eru þær að samstarfssamningurinn felur óhjákvæmilega í sér framsal á framkvæmdarvaldi einkum að því er varðar vegabréfsáritanir til þriggja mánaða eða skemmri tíma og eftir atvikum varðandi skráningar á persónuupplýsingum um íslenska aðila og aðgang að þeim upplýsingum.
    Aðalreglan er sú að framkvæmdarvaldið er í höndum þeirra aðila sem nefndir eru í 2. gr. stjórnarskrárinnar að því er tekur til íslensks yfirráðasvæðis og íslenskra ríkisborgara. Frá þessu eru þó ýmsar undantekningar og frávik sem styðjast við sjónarmið sem rakin hafa verið í 9. kafla hér að framan.
    Þegar metið er hvort framsal af því tagi, sem segja má að felist í samstarfssamningnum, samrýmist 2. gr. stjórnarskrárinnar skiptir máli að meta hversu íþyngjandi og umfangsmiklar þær valdheimildir eru sem gert er ráð fyrir að framseldar verði. Þegar hugtakið „íþyngjandi“ er metið ber m.a. að hafa í huga hvort gert sé ráð fyrir að erlendur aðili geti framkvæmt viðkomandi ákvörðun hér á landi. Sé það unnt felur slíkt að jafnaði í sér meira inngrip í fullveldisrétt ríkis heldur en ef viðkomandi ákvörðun er tekin og framkvæmd erlendis. Við hið endanlega mat koma fyrri þjóðréttarsamningar sem Ísland er aðili að til skoðunar. Ber þá fyrst og fremst að nefna EES-samninginn sem felur í sér framsal framkvæmdarvalds varðandi tilteknar ákvarðanir á samkeppnissviði og 10. tl. 2. gr. fylgiskjals (viðbætir um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra) sem fylgdi lögum nr. 110/1951 um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess. Þar segir m.a. að liði Bandaríkjanna sé rétt að fara með lögregluvald á samningssvæðunum og gera allar viðeigandi ráðstafanir til að halda uppi aga, allsherjarreglu og öryggi.
    Miðað við fyrri fordæmi, eðli ákvarðananna og umfang þeirra er það skoðun okkar að ekki sé um að ræða framsal framkvæmdarvalds í þeim mæli að það fari í bága við 2. gr. stjórnarskrárinnar.

11.3.5. Ákvarðanir sameiginlegu eftirlitsstofnunarinnar og miðstjórnar.
    Sameiginlega eftirlitsstofnunin er stofnun sem tekur ákvarðanir sem eru bindandi fyrir aðildarríkin, sbr. 132. gr. Schengensamningsins. Eftirlitsstofnunin hefur veitt miðstjórninni heimild til að taka vissar tæknilegar ákvarðanir. Schengensamningurinn hefur ekki að geyma nein ákvæði um réttaráhrif þeirra ákvarðana sem hér um ræðir. Af því leiðir að þær hafa ekki bein réttaráhrif samkvæmt gildandi þjóðarétti heldur verður hvert ríki um sig að ákveða hvort þörf sé laga- eða reglugerðabreytinga í innanlandslöggjöf og að framkvæma slíkar breytingar ef það er talið nauðsynlegt. Schengensamningnum svipar að þessu leyti til hefðbundinna þjóðréttarsamninga. Af þessum sökum kemur ekki til álita að líta svo á að þessar ákvarðanir kunni að fela í sér ólögmætt framsal á íslensku framkvæmdarvaldi.
    Ef Schengenréttarsviðið verður fært til fyrstu stoðar ESB fær framkvæmdastjórn ESB fyrrgreint ákvörðunarvald að því er ætla má. Við það breytast réttaráhrif slíkra ákvarðana verulega því að ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar geta haft bein réttaráhrif. Vikið verður nánar að þessu í næsta kafla.

11.4. Dómsvaldið.
11.4.1. Almennt.
    Í dómsvaldi felst vald til að skera úr réttarágreiningi milli einstaklinga eða lögpersóna innbyrðis eða gagnvart ríkisvaldinu. Enginn vafi er á því að aðalreglan er sú að íslenskir dómstólar eiga dómsvald um réttarágreining íslenskra einstaklinga, lögaðila og stjórnvalda samkvæmt 2. og 60. gr. stjórnarskrárinnar. Það er jafnframt grundvallarregla að dómstólar skera úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Er sérstaklega þýðingarmikið að benda á, að borgararnir eiga rétt á ríkri vernd dómstóla þegar frelsi þeirra og öryggi er í húfi.

11.4.2. Dómsvald samkvæmt samstarfssamningnum.
    Í samstarfssamningnum er ekki gert ráð fyrir neinum dómstóli til að skera úr einstökum deilumálum sem rísa kunna við túlkun eða framkvæmd Schengenreglna. Það leiðir til þeirrar meginniðurstöðu að íslenskir dómstólar eru valdbærir til að leysa úr ágreiningi um Schengenreglur eftir því sem efni þeirra gefur tilefni til og um stöðu þeirra að landsrétti. Sem dæmi um þetta má nefna að ætla verður að íslenskir dómstólar eigi dómsvald um ákvarðanir íslenskra stjórnvalda sem teknar eru samkvæmt Schengenreglum sem lögfestar hafa verið hér á landi. Ennfremur verður sennilega að líta svo á að íslenskir dómstólar eigi dómsvald um það hvort erlendur maður hér á landi hafi löglega vegabréfsáritun ef um það rís ágreiningur, t.d. hvort áritun hans sé í lögmætu formi. Hins vegar verður að leggja erlenda áritun til grundvallar ef hún er í lögmætu formi og engin heimild er í samstarfssamningnum til að stefna viðkomandi erlendu stjórnvaldi hér á landi til að þola ógildingu þeirrar stjórnsýslugerðar sem ágreiningi veldur. Þá má einnig gera ráð fyrir að t.d. ágreiningur um hvort færa megi upplýsingar um íslenska ríkisborgara, sem annað Schengenríki en Ísland hyggst færa í upplýsingakerfi sitt, eigi ekki undir íslenska dómstóla samkvæmt Schengensamningnum heldur dómstóla viðkomandi ríkis. Samsvarandi á sér stað þegar ágreiningur rís um notkun þeirra upplýsinga sem lagðar hafa verið í upplýsingakerfið. Samkvæmt þessu helst framsal dómsvaldsins að þessi leyti nokkuð í hendur við það framsal á framkvæmdarvaldi sem áður var rakið.
    Það framsal dómsvalds sem kann að felast í því sem fyrr er ritað er á þröngu sviði og tiltölulega skýrt afmarkað. Við teljum með svipuðum rökum og teflt var fram varðandi framsal framkvæmdarvaldsins að á grundvelli samstarfssamningsins sé ekki um framsal á dómsvaldi að ræða sem fari í bága við fyrrgreind ákvæði stjórnarskrárinnar.

11.4.3. Vitnastefnur o.fl.
    Í 52. gr. Schengensamningsins er gert ráð fyrir því að stefna megi vitnum eða sérfræðingum til úrskurðaraðila í öðru landi, en þeir eru staddir í. Ekki er þó unnt að koma fram neins konar viðurlögum ef slíkum stefnum er ekki sinnt. Af þessum ástæðum teljum við að þessi tilhögun fari ekki í bága við íslenska stjórnarskrá.

11.4.4. Dómsvald eftir að Schengenreglur hafa verið færðar yfir í ESB reglur.
    Fari svo að flest Schengenmálefni verði færð undir fyrstu stoð samninganna um ESB hefur slíkt óhjákvæmilega í för með sér að dómstóll EB fær dómsvald í veigamiklum málaflokkum að því er varðar þann hluta Schengenreglnanna sem falla undir fyrstu stoð ESB. Ber þá alveg sérstaklega að nefna að lögmæti allra ákvarðana sem teknar verða af stofnunum ESB verða þá einungis prófaðar af dómstól EB. Þessi tilvik má sérstaklega nefna til sögunnar:
     1.      Framkvæmdastjórn ESB mun sjá um framkvæmd Schengengerðanna eftir að þær hafa verið færðar í fyrstu og þriðju stoð ESB. Hér er um almennt eftirlit að ræða gagnvart aðildarríkjunum. Ágreiningur um það hvort aðildarríki hafi staðið við skyldur sínar að því er þetta svið varðar á undir dómstól EB.
     2.      Í núgildandi Schengenrétti (132. gr. Schengensamningsins) felst vald til að taka ákvarðanir sem geta jafnvel beinst að einstaklingum og lögpersónum. Í framtíðargerðum kann einnig að felast vald sem framkvæmdarstjórninni verður fengið til að taka svipaðar ákvarðanir. Schengenreglurnar snúa í talsverðum mæli að einstaklingum og réttarstöðu þeirra. Þegar framkvæmdastjórn ESB tekur slíkar ákvarðanir fá þær réttaráhrif samkvæmt 189. gr. Rómarsamningsins. Þær eru því bindandi í öllum atriðum fyrir þá sem þær beinast að. Ágreiningur um þær ákvarðanir sem framkvæmdastjórnin kann að taka með heimild í slíkum reglum fellur innan dómsvalds dómstóls EB samkvæmt þeim reglum sem 173. gr. Rómarsamningsins kveður nánar á um.
     3.      Ágreiningur um lagastoð þeirra afleiddu gerða sem í framtíðinni verða gefnar út á Schengenréttarsviðinu fellur alfarið undir dómstól EB. Sama gildir um allan ágreining varðandi þær málsmeðferðarreglur sem ber að viðhafa við setningu þeirra.
     4.      Dómsmál sem rekin eru í aðildarríkjunum og varða túlkun eða beitingu Schengen reglna er stundum heimilt og stundum skylt að senda EB dómstólnum til forúrskurðar. Viðkomandi dómstóll í aðildarríki er bundinn við þann forúrskurð sem EB dómstóllinn fella af þessu tilefni.
     5.      Ekki er vafi á því að dómstóll EB mun skera endanlega úr um dómsvald dómstóla aðildarríkjanna á sviði Schengenreglna. Þetta er nánast rökbundin afleiðing þess að mestur hluti Schengengerðanna færist yfir í fyrstu stoð ESB. Dómstóll EB fær t.d. færi á að úrskurða um slíkt valdsvið í forúrskurðarmálum.

Niðurstöður.
    Í samstarfssamningnum er ekki tekið sérstaklega á því hvernig fara skuli með dómsvald og eftirlitsvald ef Schengensviðið verður fært í fyrstu og þriðju stoð ESB. Hér er því miðað við að Ísland (og Noregur) verði að hlíta sömu reglum og ESB ríkin varðandi dómsvald og framkvæmdarvald stofnana ESB.
    Við teljum að samstarfssamningur sem fæli í sér slíkt framsal dómsvalds gengi lengra en rúmast getur innan þeirra sjónarmiða, sem rakin eru í 9. kafla að framan og myndi því ekki standast ákvæði íslenskrar stjórnarskrár.

11.4.5. EFTA dómstóllinn eða sambærilegur dómstóll.
    Í bréfi utanríkisráðherra dags. 17. júlí 1997 er m.a. gert ráð fyrir þeirri forsendu að EFTA- dómstóllinn eða sambærilegur dómstóll fari með vald á því sviði sem dómsvaldinu er ætlað að taka til. Við teljum að í því sambandi sé einnig eðlilegt að gera ráð fyrir að eftirlitsstofnun EFTA eða sambærileg stofnun sinni eftirliti og sem fari með hliðstæðar valdheimildir að því er varðar Schengen-samninginn og eftirlitsstofnun EFTA hefur nú. Til viðbótar verður að gera ráð fyrir að verkaskipting milli slíks dómstóls og EB-dómstólsins annars vegar og eftirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdastjórnar EB hins vegar fari eftir vel skilgreindum reglum þar sem jafnræðis sé gætt. Verði þessi leið farin leiða af henni þessar breytingar miðað við þá lausn sem nefnd er í 11.4.4:
     a)      að íslenskir dómendur eigi sæti í viðkomandi dómstóli og að íslenskir aðilar eigi að sama skapi sæti í þeirri eftirlitsnefnd sem sér um framkvæmdina að því er varðar Ísland og Noreg.
     b)      að eftirlitsstofnun EFTA verði fengið vald til að hafa almennt eftirlit með samningnum að því er Ísland og Noreg varðar eftir skiptingareglum sem samið verður um við hin aðildarríki samstarfssamningsins. Þetta vald verði sambærilegt því sem framkvæmdastjórn ESB kemur til með að hafa, og
     c)      að ekki verði skylt að óska eftir forúrskurðum og þau álit sem EFTA dómstóllinn eða sambærilegur dómstóll gefur samkvæmt beiðni dómstóla Íslands eða Noregs verði aðeins ráðgefandi.
    Verulegur munur er á þessum valkosti miðað við þann sem reifaður var í kaflanum að framan. Hann felst einkum í því að Ísland tekur þátt í þeim alþjóðstofnunum sem hér koma við sögu. Ennfremur að niðurstöður EFTA dómstólsins eða sambærilegs dómstóls eru ekki bindandi í sama mæli fyrir íslenska aðila.

11.5. Danska lausnin.
    Sú yfirlýsing sem varðar stöðu Danmerkur tekur til undirkafla í samningunum um ESB eins og hann verður ef Amsterdamsamningurinn verður fullgiltur. Undirkaflinn ber heitið „frjáls för fólks, hæli og innflytjendur“. Í 2. gr. bókunarinnar, sem á við um Danmörku, kemur fram sú aðalregla að engin ákvæði undirkaflans, engir alþjóðlegir samningar sem gerðir eru samkvæmt kaflanum og engin ákvörðun dómstóls EB sem lýtur að slíkum reglum sé bindandi fyrir Danmörku. Þar fyrir utan er Danmörku samkvæmt 5. gr. bókunarinnar heimilt að taka sjálfstæða ákvörðun um það hvort hún muni lögfesta framtíðargerð sem fellur efnislega innan Schengen í innanlandslög sín þó þannig að búast má við viðbrögðum af hálfu annarra samningsaðila ef það er ekki gert.
    Kaflinn um frjálsa för fólks, hæli og innflytjendur er að því er best verður séð kjarni þeirra málaflokka sem falla undir fyrstu stoðina við yfirfærslu Schengenréttarheimildanna í ESB lagakerfið. Stoð þrjú hefur sjálfstæða tilveru gagnvart rétti Evrópubandalagsins og telst ekki hluti af honum. Þau lagaúrræði sem standa til boða í þriðju stoðinni eru einkum þau að ríkin hafa samráð í ráðinu til að samræma aðgerðir sínar auk þess sem aðildarríkin skiptast á tilkynningum. Ráðið hefur auk þess vald til að ákveða sameiginlega stefnu og nánari reglur um framkvæmd hennar, samþykkja sameiginlegar aðgerðir og gera þjóðréttarsamninga. Aðalreglan er hins vegar sú að ráðið verður að álykta einum rómi þegar það tekur ákvörðun sína.
    Þegar sérstaða Danmerkur er metin í heild sinni út frá fyrrgreindri réttarstöðu og jafnframt miðað við það að Ísland muni hljóta sams konar sérstöðu verður að líta svo á að hún sé þess eðlis að það myndi ekki fara í bága við ákvæði íslenskrar stjórnarskrár þótt Ísland undirgengist þjóðréttarlega skuldbindingu af þessu tagi.
    Í því sambandi ber annars vegar að líta til þess að Danmörk yrði ekki háð eftirlitsvaldi dómstóls EB. Að vísu stendur þá eftir hið almenna eftirlitsvald framkvæmdastjórnar ESB. Að því er Ísland varðar yrði þó að gera ráð fyrir því að framkvæmdastjórn ESB færi ekki með ákvörðunarvald sem væri beint bindandi gagnvart íslenskum ríkisborgurum eða lögaðilum.

11.6. Framsal á valdi til að gera þjóðréttarsamninga.
    Í 21. gr. stjórnarskrárinnar segir að forseti lýðveldisins geri samninga við önnur ríki. Í þessu ákvæði felst að valdið til að gera þjóðréttarsamninga við önnur ríki verði almennt ekki framselt til annarra ríkja eða alþjóðastofnana.
    Samkvæmt e. lið 1. mgr. 3. gr. samstarfssamningsins er gert ráð fyrir því að Ísland og Noregur ákveði hvort í sínu lagi hvort þau samþykki samninga sem kunna að verða gerðir milli allra ríkjanna sem eiga aðild að Schengensamningnum og þriðju ríkja. Þeir hlutar ákvæðisins sem hér skipta máli hljóða svo:
             Lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noregur ákveða hvort í sínu lagi hvort þau samþykkja: [...]
             e.    samninga sem kunna að verða gerðir milli allra ríkjanna sem eiga aðild að Schengensamningnum og þriðju ríkja.
    Hér ber jafnframt að hafa í huga ákvæði 2. mgr. 10. gr. samningsins um sjálfkrafa uppsögn hans ef ákvörðun samkvæmt 1. mgr. 3. gr. er ekki samþykkt.
    Samstarfssamningurinn gerir samkvæmt framanrituðu ekki ráð fyrir því að valdið til að gera þjóðréttarsamninga sé framselt til annarra ríkja eða alþjóðastofnana. Ákvæði 21. gr. stjórnarskrárinnar er af þessum sökum ekki því til fyrirstöðu að samstarfssamningurinn sé undirritaður af Íslands hálfu.

12.0 Lokaorð

    Okkur hefur verið ætlað að meta hvort samstarfssamningurinn milli flestra aðildarríkja ESB annars vegar og Íslands og Noregs hins vegar brjóti á einhvern hátt í bága við íslensk stjórnskipunarlög. Þetta höfum við gert. Aðalniðurstöður okkar eru þessar:
    Sú grein í stjórnarskránni sem helst gæti staðið því í vegi að samstarfssamningurinn yrði gerður er 2. gr. en efni hennar hefur áður verið rakið.
    Samningur sá sem hér um ræðir er þjóðréttarsamningur. Honum fylgja ýmsar gerðir auk þess sem gert er ráð fyrir því að settar verði gerðir í framtíðinni innan þess ramma sem samstarfssamningurinn tekur til. Hvorki samstarfssamningurinn sjálfur né þær gerðir sem honum fylgja eða munu fylgja verða íslensk lög nema Alþingi setji slík lög og forseti staðfesti þau. Telja má víst að af samstarfssamningnum muni leiða þjóðréttarlegar skuldbindingar til að setja íslenska löggjöf á sviðum sem hann tekur til eða til að breyta íslenskum lögum til samræmis við reglur samningsins. Sú málsmeðferð er í samræmi við íslenskan stjórnskipunarrétt. Stjórnarskráin stendur því þó í vegi að með þjóðréttarsamningum sé ríkisvald með óheimilum hætti lagt í hendur annarra en taldir eru í 2. gr. stjórnarskrárinnar. Það á einkum við ef um er að ræða ákvæði sem leggja skyldur á einstaklinga eða lögaðila. Skyldur sem aðeins varða íslenska ríkið að þjóðarétti fela almennt ekki í sér stjórnarskrárbrot, enda sæta brot á þeim eingöngu þjóðréttarlegum viðurlögum.
    Við teljum að ákvæði 1. mgr. 3. gr. samstarfssamningsins sýni svo ekki verði um villst að ekki er gert ráð fyrir því að Ísland sé bundið af neinni framtíðargerð nema það ákveði það sérstaklega að vera bundið við hana samkvæmt stjórnskipunarlögum sínum. Af þessu leiðir að hvorki er þarna um að ræða framsal á valdi til að gera þjóðréttarsamninga né framsal á löggjafarvaldi. Engu breytir í þessu efni þótt Schengenreglurnar verði færðar yfir í fyrstu og þriðju stoð ESB og lúti þeirri ákvarðanatöku sem þar gildir.
    Að því er varðar framkvæmdarvald og dómsvald ber að gera ráð fyrir þremur valkostum. Í fyrsta lagi að samstarfssamningurinn verði óbreyttur. Í öðru lagi að Schengensviðið verði lagt til ESB og að Ísland njóti ekki sérstakra undanþága varðandi valdsvið stofnana og í þriðja lagi að Schengensviðið verði lagt til ESB en að Ísland njóti þar tiltekinna undanþága.
    Að því er fyrsta valkostinn varðar höfum við komist að þeirri niðurstöðu að framsal á framkvæmdarvaldi og dómsvaldi sé þess eðlis að það brjóti ekki í bága við íslenska stjórnarskrá. Eins og að framan er rakið teljum við að eftirtalin atriði ráða einkum niðurstöðunni:
     1.      Það er viðurkennd regla í íslenskum rétti að við sérstakar aðstæður megi beita erlendum réttarreglum hér á landi.
     2.      Þess eru dæmi að ákvarðanir erlendra stjórnvalda hafi gildi hér á landi og séu aðfararhæfar.
     3.      Vald það sem alþjóðastofnunum er ætlað með samningnum er vel afmarkað og á þröngu sviði.
     4.      Vald það sem framselt er telst ekki verulega íþyngjandi fyrir íslenska aðila.
     5.      Ákvarðanir sameiginlegu eftirlitsstofnunarinnar og miðstjórnar eru aðeins bindandi fyrir aðildarríkin.
     6.      Ekki er gert ráð fyrir neinum alþjóðlegum dómstóli sem sker úr deilumálum þannig að bindandi sé fyrir íslenska ríkisborgara.
    Að því er annan valkostinn varðar verður að reikna með því að framkvæmdastjórn ESB og dómstóll EB fari með talsvert vald hvor á sínu sviði sem íslenskir einstaklingar og lögaðilar geti orðið bundnir við. Þetta vald varðar einkum þau málefni sem falla undir fyrstu stoðina. Ekki er unnt að gera ráð fyrir því að Ísland eigi neina aðild að þeim alþjóðastofnunum sem þarna ræðir um. Eins og nánar er lýst í kafla 11.4.4 teljum við að samningur sem gerði ráð fyrir slíku framsali stæðist ekki ákvæði íslenskrar stjórnarskrár.
    Að því er varðar þriðja valkostinn kemur fram sá munur miðað við annan valkostinn að gert er ráð fyrir því að Ísland eigi aðild að þeim alþjóðastofnunum sem þar ræðir um. Einnig er gert ráð fyrir því að dómsvald dómstóls EFTA eða sambærilegs dómstóls yrði ekki jafn víðtækt og úrlausnir hans ekki bindandi í sama mæli og ef um dómstól EB væri að ræða. Þetta á einkum við um forúrskurðarmál. Sé málum skipað með þessum hætti er það álit okkar að slík tilhögun stæðist ákvæði íslenskrar stjórnarskrár.
    Álit okkar er miðað við tilteknar forsendur. Í því er einnig gert ráð fyrir því að afskipti alþjóðastofnana af íslenskum ríkisborgurum séu ekki veruleg vegna hugsanlegrar aðildar Íslands að samstarfssamningnum um Schengen. Framsal á einstökum þáttum ríkisvalds, sem gert er ráð fyrir í samstarfssamningnum er takmarkað og tekur til afmarkaðra málaflokka. Það framsal ríkisvalds, sem fjallað er um í þessari álitsgerð er takmarkaðra og fyrirsjáanlegra, en það sem felst í samningunum um EES. Við teljum því, eins og að framan greinir, að það brjóti ekki í bága við stjórnarskrána. Rétt þykir þó að benda á, að þótt takmarkað framsal ríkisvalds með samningum um einstök málefni, eins og Schengensamstarfið, sé samrýmanlegt stjórnarskránni, er fyrirsjáanlegt að aukin alþjóðleg samvinna einkum milli Evrópuríkja muni kalla á frekara framsal ríksvalds. Að því kann að koma að talið verði að framsal hafi átt sér stað í of ríkum mæli miðað við reglur stjórnarskrárinnar, eins og þær eru nú. Það er því eðlilegt, þegar horft er fram á vaxandi alþjóðlegt samstarf í framtíðinni, að undirbúa og framkvæma breytingar á íslensku stjórnarskránni, til þess að koma í veg fyrir að sérstakur vafi rísi í hvert sinn, sem stofnað er til samstarfs um tiltekinn málaflokk.

Reykjavík 3. desember 1997.


                             Sign.     Sign.     Sign.
               Stefán Már Stefánsson     Viðar Már Matthíasson     Davíð Þór Björgvinsson


Fylgiskjal V.


Davíð Þór Björgvinsson,
Stefán Már Stefánsson,
Viðar Már Matthíasson:Álitsgerð
um Schengensamninginn og íslensku stjórnarskrána í ljósi samnings
milli ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um framkvæmd,
beitingu og þróun Schengengerðanna frá 18. maí 1999.

1. Inngangur

    1. Með bréfi utanríkisráðuneytisins, dags. 17. febrúar 1999, var þess óskað að undirritaðir prófessorar við lagadeild Háskóla Íslands gæfu umsögn um samning sem ráð Evrópusambandsins annars vegar og Lýðveldið Ísland og Konungsríkið Noregur hins vegar gera með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengengerðanna. Samningurinn, sem var formlega undirritaður 18. maí 1999, verður hér eftir nefndur Brusselsamningurinn.
    2. Þann 3. desember 1997 skiluðum við álitsgerð um Schengensamstarfið og íslensku stjórnarskrána einkum í því ljósi hvort væntanlegt samkomulag við Evrópusambandið um Schengensamninginn kynni að brjóta í bága við íslensku stjórnarskrána. Álitsgerðin var samin á grundvelli Samstarfssamningsins frá 19. desember 1996, sbr. kafli 5.0 í álitsgerðinni. Af drögum að nýjum samningi var þá þegar ljóst að ráðgert var að yfirfæra Schengenreglur í rétt ESB og þar með einnig bandalagsréttinn. Þar sem samningaviðræður voru í gangi þegar álitsgerðin var skrifuð var að öðru leyti ekki ljóst hvernig einstökum atriðum yrði ráðið til lykta og að hvaða marki samstarfssamningurinn yrði lagður til grundvallar. Því var lagt fyrir okkur í beiðni um eldri álitsgerðina að miða hana við tilteknar forsendur. Þær voru eftirfarandi:
          að samstarfssamningurinn við Schengenríkin frá 19. desember 1996 yrði lagður til grundvallar í samningaviðræðunum,
          að væntanlegur samningur yrði milliríkjasamningur við ESB,
          að hin svonefnda „danska lausn“ yrði höfð til hliðsjónar, og
          að ef nauðsynlegt reyndist að dómstóll færi með dómsvald varðandi þau málefni sem falla ættu undir væntanlegan samning, yrði það EFTA dómstóllinn eða sambærilegur dómstóll.
    Þótt það komi ekki fram í bréfi ráðuneytisins frá 17. febrúar sl. skiljum við beiðnina þannig að fyrst og fremst sé óskað eftir umsögn um það hvort Brusselsamningurinn frá 18. maí 1999 kunni á einhvern hátt að fara í bága við stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, með síðari breytingum.
    3. Í bréfi utanríkisráðuneytisins er þess ennfremur óskað að við tökum sérstakt mið af fyrri álitsgerð okkar frá 3. desember 1997. Af þessu leiðir að einkum kemur til skoðunar nú hvort samningurinn sem undirritaður var 18. maí 1999 feli í sér breytingar, sem hafi þýðingu varðandi ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar. Miðast álitsgerðin fyrst og fremst við þetta álitaefni.

2. Nýmæli Brusselsamningsins

    4. Við höfum borið saman Schengensamninginn frá 18. maí 1999 og fyrri samningsforsendur sem lágu grundvallar eldri álitsgerð okkar. Það eru fjögur atriði sem að okkar mati skipta mestu máli fyrir þessa álitsgerð.
          Í fyrsta lagi gerir samningurinn í meginatriðum ráð fyrir sambærilegri þátttöku Íslands í ákvarðanatöku um nýjar Schengengerðir eða aðrar ráðstafanir og fyrri samningsforsendur. Þess ber þó að geta að samningurinn gerir ekki ráð fyrir því að Ísland eða Noregur geti sett fram formlegar tillögur til nýrra gerða eða ákvarðana um ráðstafanir eins og ráðgert var í fyrri samningsforsendum, sbr. t.d. 2. mgr. 2. gr. Samstarfssamningsins frá 19. desember 1996. Aftur á móti getur Ísland sett fram „hugmyndir“ í samsettu nefndinni sem framkvæmdastjórnin eða einstök aðildarríki ESB geta síðan borið upp sem eigin tillögur innan ESB, sbr. nánar 4. mgr. 4. gr.
          Í öðru lagi hafa reglur Brusselsamningsins að geyma önnur og að nokkru leyti hagstæðari ákvæði en eldri samningsforsendur um afleiðingar þess að Ísland samþykkir ekki tiltekna Schengengerð, tilkynnir ekki á réttum tíma um slíkt samþykki eða tilkynnir ekki á réttum tíma að stjórnskipulegum skilyrðum hafi verið fullnægt. Samkvæmt eldri samningsforsendum jafngilti það uppsögn samnings ef Ísland samþykkti ekki ákvörðun. Samkvæmt samningnum frá 18. maí 1999 fellur hann aftur á móti ekki úr gildi fyrr en eftir að reynt hefur verið að ná samkomulagi. Samsetta nefndin getur ákveðið innan tiltekins frests að láta samninginn gilda áfram þrátt fyrir allt. Að öðrum kosti fellur hann úr gildi að því er Ísland varðar að liðnum ákveðnum fresti, sbr. einkum 4. mgr. 8. gr.
          Í þriðja lagi gerir Brusselsamningurinn ráð fyrir því að dómstóll EB eigi dómsvald um Schengenreglur, sbr. einkum 9. gr. Samkvæmt sambandsréttinum er slíkt dómsvald fyrir hendi í talsverðum mæli og verður að því vikið síðar. Dómsúrlausnir dómstóls EB á þessu sviði eru ekki formlega bindandi fyrir Ísland, en samningurinn gerir þó ráð fyrir því að íslenskir dómstólar og íslensk stjórnvöld taki mið af slíkum dómafordæmum við túlkun og framkvæmd samningsins og þeirra reglna sem af honum leiða hér á landi, sbr. 9. og 10. gr. samningsins. Dómsúrlausnir þessar munu því augljóslega hafa þýðingu sem fordæmi hér á landi. Samkvæmt þessu verða dómsúrlausnir dómstóls EB réttarheimildir á þessu sviði, sem þó eru ekki formlega bindandi.
          Í fjórða lagi gerir samningurinn ráð fyrir því að verði deilur um beitingu hans eða ef upp kemur verulegt misræmi í dómaframkvæmd EB dómstólsins annars vegar og íslenskra (eða norskra) dómstóla hins vegar varðandi túlkun eða beitingu Schengen reglna, eða eftir atvikum ef slíkt misræmi kemur upp milli stjórnvalda aðildarríkja ESB annars vegar og stjórnvalda Íslands eða Noregs hins vegar, er gert ráð fyrir að málið verði tekið upp í samsettu nefndinni og þar reynt að finna lausn innan tiltekins tíma, sbr. 10. gr. Finnist hún ekki fellur samningurinn úr gildi eftir ákveðinn tíma, eins og nánar verður rakið síðar.

3. Staða Schengengerða innan ESB

    5. Schengengerðir hafa nú verið yfirfærðar í Evrópusambandsréttinn, þ.e. í stoð 1 (sem hefur að geyma bandalagsrétt) og stoð 3 um dóms- og innanríkismál. Yfirfærsla Schengengerða í bandalagsrétt þýðir að stofnanakerfi þess verður notað við þróun nýrra Schengengerða og framkvæmd þeirra, að virtum viðeigandi ákvæðum samningsins um Evrópusambandið og Rómarsamningsins. Nýjar reglur gilda því varðandi frumkvæði að setningu nýrra gerða og ákvarðanatöku um þær. Þá fær dómstóll EB dómsvald á umræddum sviðum samningshlutans en þó með ákveðnum takmörkunum eins og lýst verður nánar síðar. Dómsvald EB dómstólsins nær þannig t.d. hvorki til þess atriðis að viðhalda lögum og allsherjarreglu né að vernda innra öryggi í aðildarríkjunum. Dómstóllinn hefur heldur ekki dómsvald til að kveða upp forúrskurði í þeim málaflokkum sem falla undir þriðju stoð nema með tilteknum skilyrðum. Minnt er á að í öllum tilvikum, að ákvörðunum um vegabréfsáritanir undanskildum þar sem aukinn meirihluti nægir, er krafist einróma samþykkis til ákvarðanatöku. Þess er hins vegar að geta að samkvæmt 61.–63. gr. (áður 73. gr. i–k) Rs. er ráðinu skylt að gera ráðstafanir innan 5 ára til að hrinda í framkvæmd þeim málefnum sem þar greinir. Þetta þýðir, nánar tiltekið, að eftir þennan tíma má búast við að ákvarðanir verði teknar með auknum meirihluta í stað einróma samþykkis áður. Ákvarðanir í þeim málefnum sem falla innan þriðju stoðarinnar verða þó aðeins teknar með einróma samþykki.
    6. Eftir að Schengenreglur hafa verið yfirfærðar annars vegar í 1. stoðina undir bandalagsrétt og hins vegar undir 3. stoðina verður óljósara hvaða reglur það eru sem teljast Schengenreglur og hverjar ekki. Í Brusselsamningum er brugðist við þessu með þeim hætti að í viðaukum A og B við samninginn eru einfaldlega talin upp þau réttarsvið sem Ísland og Noregur taka þátt í. Þessi aðferð getur þó ekki tekið til framtíðargerða eðli máls samkvæmt. Því geta vafamál risið um það hvaða framtíðargerðir falli undir Schengenreglur og hverjar ekki. ESB verður þó sjálft að afmarka þessar reglur frá öðrum enn sem komið er, þar sem Stóra-Bretland og Írland eru ekki aðilar að Schengensamstarfinu, auk þess sem sérstakar reglur gilda um Danmörku. Af þeim sökum gilda sérreglur innan ESB varðandi þessi ríki og munu þá ákvarðanir ESB um afmörkun reglnanna sjálfsagt verða lagðar til grundvallar gagnvart Íslandi og Noregi. Aftur á móti er reiknað með að ríkin þrjú gerist aðilar í framtíðinni. Eftir það getur risið álitamál um það hvaða gerðir eigi undir Schengensamstarfið sem erfitt getur verið að leysa úr.
    7. Schengenreglurnar eru nú að stórum hluta að finna í bandalagsrétti (1. stoð) eins og áður er fram komið, þ.e. 3. hluta IV. þáttar Rs., en hluti þeirra, þ.e. lögreglusamvinna og upplýsingakerfi og fleira, falla undir þriðju stoðina. Helstu réttindin varðandi frjálsa för fólks samkvæmt 3. hluta IV. þáttar Rs. eru í því fólgin að mega ferðast frjálst um innri landamæri aðildarríkja bandalagsins. Þessi réttur gildir ekki aðeins fyrir ríkisborgara í aðildarríkjunum heldur fyrir alla sem löglega eru komnir inn á bandalagssvæðið. Hann veitir þó ekki neinn sjálfkrafa búseturétt. Schengenreglurnar snúa yfirleitt beint að borgurunum sjálfum og geta skipt þá miklu bæði fjárhagslega og persónulega. Ber að hafa þetta í huga við þá umfjöllun sem hér fer á eftir.

4. Sjónarmið við túlkun ákvæða stjórnarskrárinnar

    8. Áður en lengra er haldið er rétt að geta nokkurra almennra sjónarmiða sem við teljum að hafa beri í huga þegar metið er hvort Brusselsamningurinn hafi í för með sér sérstök stjórnskipuleg vandkvæði. Rétt er að rekja þessi almennu sjónarmið í stuttu máli þar sem þau liggja til grundvallar við samningu álitsgerðar þessarar, ásamt þeim rökum sem sérstaklega eru tilfærð annars staðar í álitsgerðinni.
    9. Í fyrsta lagi er á því byggt að Alþingi, sem handhafi löggjafarvalds, hafi nokkurt svigrúm til að meta hvort tiltekinn þjóðréttarsamningur brjóti í bága við stjórnarskrána eða ekki. Stjórnarskrárákvæði þau sem koma til skoðunar í tengslum við Brusselsamninginn, sbr. einkum 2. gr., eru matskennd, dómaframkvæmd á grundvelli þeirra er takmörkuð og fræðikenningar og skýrar stjórnskipunarhefðir skortir. Af þeim sökum ríkir oft vafi um túlkun þeirra. Hafa ber í huga í þessu sambandi að stjórnarskráin sjálf felur ekki neinum einum aðila að skera úr um stjórnarskrárleg álitamál af þessu tagi, eins og gert er í sumum öðrum ríkjum. Fyrir því er hins vegar stjórnskipuleg dómvenja hér á landi að dómstólar hafi þetta vald. Álitamál um samrýmanleika almennra laga eða þjóðréttarsamninga annars vegar og stjórnarskrár hins vegar verða þó aðeins borin undir hina almennu dómstóla í tengslum við tiltekið sakarefni. Ef af slíkri málssókn verður eiga dómstólar þess ekki kost að dæma í málinu fyrr en löngu eftir að tiltekinn samningur (eða almenn lög) er kominn til framkvæmda. Við þessar aðstæður er ekki óeðlilegt að játa löggjafanum sjálfum, lýðræðislega kjörnum meirihluta Alþingis, visst svigrúm til að túlka stjórnarskrána.
    10. Í öðru lagi teljum við að við túlkun ákvæða stjórnarskrárinnar sem varða fullveldi íslenska ríkisins verði að hafa í huga síaukna alþjóðlega samvinnu á öllum sviðum. Þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem hér eru til skoðunar eru gömul að stofni til og stjórnarskárin í heild, af sögulegum ástæðum, samofin hugmyndinni um fullveldi íslenska ríkisins, einkum gagnvart því danska. Alþjóðlegt samstarf hefur fært þjóðir heims saman og Ísland er þar þátttakandi sem fullvalda ríki og staða þess í alþjóðlegu samstarfi að því leyti þjóðréttarlega ótvíræð. Þessa þróun er eðlilegt að hafa í huga þegar ákvæði stjórnarskrárinnar eru túlkuð og hún leiðir að okkar mati til þess að forsendur fyrir túlkun á ákvæðum stjórnarskrárinnar sem varða fullveldi íslenska ríkisins eru aðrar en áður. Af því leiðir að ganga verður út frá því að handhafar löggjafarvalds (og framkvæmdarvalds) hafi að ákveðnu marki svigrúm til að túlka þessi ákvæði þannig að ekki þrengi um of að möguleikum íslenska ríkisins sem fullvalda þjóðréttaraðila til að tryggja hagsmuni sína sem best í samstarfi og samningum við aðrar þjóðir.

5. Almennt um þjóðréttarsamninga og stjórnarskrána

    11. Í kafla 11.1. í fyrri álitsgerð okkar frá 3. desember 1997 er gerð grein fyrir nokkrum almennum atriðum sem koma til skoðunar þegar metið er hvort tiltekinn þjóðréttarsamningur standist ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar. Þar er gerð grein fyrir tveimur almennum sjónarmiðum sem til álita koma: Um fyrra atriðið sagði að því væru takmörk sett hversu víðtækar og umfangsmiklar þær skyldur væru sem íslenska ríkið gæti tekið á sig gagnvart erlendum aðilum og gilti þetta einnig þótt um svonefnda hefðbundna þjóðréttarsamninga væri að ræða. Um síðara atriðið sagði að aðalreglan væri sú að íslenska stjórnarskráin heimilaði ekki að valdheimildir íslenskra stjórnvalda væru framseldar alþjóðlegum stofnunum þannig að ákvarðanir sem teknar væru gætu haft bein réttaráhrif fyrir íslenska borgara eða lögaðila. Fyrr í álitsgerðinni var tekið fram að stjórnarskráin hefði að geyma meginreglu um skiptingu ríkisvaldsins milli hinna þriggja þátta þess. Var það talið leiða af eðli málsins að ríkisvald þetta tæki í aðalatriðum til íslensks yfirráðasvæðis, íslenskra hagsmuna og íslenskra aðila.
    12. Að því er fyrra atriðið varðar er rétt að taka fram að skyldur samkvæmt þjóðréttarsamningi geta verið víðtækar og umfangsmiklar vegna þess að hann nær til mikils hluta löggjafar aðildarríkis. Ef þar við bætist að skyldurnar eru ekki vel skilgreindar getur niðurstaðan orðið sú að mörk leyfilegs framsals ríkisvalds nálgist. Segja má einnig að skyldur samkvæmt þjóðréttarsamningi geti verið víðtækar og umfangsmiklar, ekki af þeim sökum að hann nái til víðtæks sviðs, heldur fremur vegna þess að hann sé mjög einhliða, t.d. varðandi það hvort annar samningsaðilinn ráði ferðinni þegar teknar eru ákvarðanir samkvæmt samningnum. Sama gildir ef afleiðingar þess að ekki er fylgt ákveðnum reglum eru mjög íþyngjandi fyrir annan aðilann jafnvel þótt slík háttsemi teljist ekki samningsbrot.
    13. Að því er varðar síðara atriðið skal tekið fram að í íslenskum rétti er byggt á svonefndu tvíeðli þjóðaréttar og landsréttar sem þýðir að þjóðréttarsamningar sem íslenska ríkið gerir binda aðeins það sjálft en ekki einstakar stofnanir þess eða einkaaðila nema annað og meira komi til, þ.e. innlend löggjöf. Með orðasambandinu bein réttaráhrif er í hefðbundnum þjóðarétti í aðalatriðum átt við að texti þjóðréttarsamnings sé svo skýr og óskilyrtur að honum verði beitt á sama hátt og lögum í landinu án þess að innlendrar lagasetningar sé þörf. Er venjulega við það miðað að einstaklingar og lögaðilar geti byggt á slíkum ákvæðum til stuðnings rétti sínum annað hvort gagnvart stjórnvöldum eða við dómstóla í viðkomandi aðildarríkjum. Orðasambandið bein réttaráhrif á sérstaklega við í Evrópurétti þar sem mikið ber á gerðum og öðrum ráðstöfunum sem einmitt er ætlað að hafa bein réttaráhrif gagnvart einkaaðilum án nokkrar milligöngu af hálfu aðildarríkjanna. Evrópurétturinn hefur að þessu leyti verið í örri þróun sem dómstóll EB hefur stuðlað að með dómafordæmum sínum. Ljóst er að eftir að Schengengerðir hafa verið yfirfærðar í bandalagsrétt að stórum hluta verður það túlkun og framþróun Evrópuréttarins sem mun hér skipta máli í framtíðinni.
    14. Samkvæmt íslensku stjórnarskránni, sbr. 2. gr., eru það löggjafinn, framkvæmdavaldið og dómsvaldið sem fara fyrst og fremst með þær valdheimildir sem Schengenreglurnar taka til. Því verður að kanna í hvaða mæli þessar valdheimildir kynnu að yfirfærast til alþjóðlegara stofnana við fullgildingu Brusselsamningsins. Hafa verður jafnframt í huga að umrædd regla stjórnarskrárinnar er meginregla sem undantekningar eru frá auk þess sem ekki er alltaf skýrt hvað felst í orðasambandinu bein réttaráhrif.

6. Brusselsamningurinn og stjórnarskráin

Dómsvaldið
    15. Í dómsvaldi felst vald til að skera úr réttarágreiningi milli einstaklinga og/eða lögaðila innbyrðis eða gagnvart ríkisvaldinu. Íslenskir dómstólar eiga dómsvald um réttarágreining einstaklinga, lögaðila og stjórnvalda samkvæmt 2. mgr. 60. gr. stjórnarskrárinnar og þeir skera úr öllum réttarágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Ljóst er að íslenskir ríkisborgarar og lögaðilar eiga rétt á vernd innlendra dómstóla þegar frelsi þeirra og öryggi er í húfi en Schengenreglur taka einmitt til slíkra atriða.
    Framsal dómsvalds getur einkum falist í þrennu:
          að gert sé ráð fyrir að unnt sé að skjóta innlendum dómsúrlausnum eða ákvörðunum stjórnvalda til alþjóðlegra dómstóla til endurskoðunar þannig að bindandi sé,
          að íslenskum úrlausnaraðilum sé gert skylt að bera ákveðin lagaatriði undir alþjóðlega dómstóla og vera bundnir við niðurstöður þeirra um þau atriði.
          að erlendum dómum sé veitt aðfararhæfi hér á landi.
    Þótt við það sé miðað að íslenskir einstaklingar og lögaðilar eigi rétt á að innlendir dómstólar (eða aðrir úrlausnaraðilar) fjalli um mál þeirra og að íslenska ríkið lúti fyrst og fremst úrlausnarvaldi þeirra hefur verið talið heimilt að víkja frá þessu að vissu marki án þess að það væri talið fara í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar, sbr. kafli 9.0 í eldri álitsgerð okkar. Ennfremur má slá því föstu að það er ekki andstætt ákvæðum íslenskrar stjórarskrár þótt Ísland viðurkenni í þjóðréttarsamningi að alþjóðlegur dómstóll kveði upp dóma sem túlka nánar þær þjóðréttarlegu skyldur sem leiða af viðkomandi þjóðréttarsamningi. Þetta gildir jafnt þótt slíkar niðurstöður geti haft mikla þýðingu fyrir túlkun íslensks réttar af hálfu íslenskra dómstóla og stjórnvalda. Dæmi um þetta er Mannrétindasáttmáli Evrópu, en dómar Mannréttindadómstóls Evrópu hafa haft mikil áhrif á þróun íslensks réttar. Sambærilegt dæmi má einnig finna í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    16. Um dómsvald dómstóls EB um Schengenreglur er fjallað í 3. hluta IV. þáttar Rs. sem fjallar um vegabréfsáritanir, hæli og önnur stefnumið varðandi frjálsa för fólks og í VI. þætti samningsins um Evrópusambandið sem fjallar um ákvæði um lögreglusamvinnu og lagalega samvinnu í refsimálum. Hér skulu nefnd nokkur atriði:
    Í 68. gr. (áður 73. gr. p) Rs. er kveðið á um dómsvald dómstóls EB í þeim málaflokkum sem falla undir bandalagsréttinn. Reglurnar sem þarna koma fram eru þær að 234. gr. (áður 177. gr.) Rs. um forúrskurði fær gildi um þessi málefni með mjög líkum hætti og endranær. Þó kemur fram sú mikilvæga undantekning að dómstóllinn hefur ekkert dómsvald þegar um er að ræða ráðstafanir eða ákvarðanir, sem teknar hafa verið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 62. gr. (áður 73. gr. j) Rs. til þess að tryggja að ekki sé haft eftirlit með fólki þegar það ferðast um innri landamæri ef ráðstafanirnar eða ákvarðanirnar varða lög og allsherjarreglu eða vernd innra öryggis. Skal í því sambandi minnt á ákvæði 64. gr. (áður 73. gr. l) Rs. Þar er um það fjallað að þáttur IV um vegabréfsáritanir, hæli, innflutning og önnur stefnumið sem varða frjálsa för fólks, hafi ekki áhrif á heimildir aðildarríkjanna til að halda uppi lögum og allsherjarreglu.
    Þá gerir 3. mgr. 68. gr. (áður 73. gr. p) Rs. ráð fyrir því að ráðið, framkvæmdastjórnin eða aðildarríki geti óskað eftir því við dómstól EB að hann kveði á um túlkun einstakra ákvæða umrædds samningshluta eða gerða sem settar eru á grundvelli hans. Ákvæðið leyfir ekki að óskað sé eftir að kveðið sé á um gildi ákvarðana. Það gerir ráð fyrir því að úrlausnir dómstólsins á grundvelli ákvæðisins séu bindandi í felstum tilvikum.
    Þar sem farin hefur verið sú leið í bandalagsréttinum að skilgreina hvert sé dómsvald dómstóls EB varðandi þann samningshluta sem hér er til umræðu verður væntanlega að líta svo á að um tæmandi talningu sé að ræða. Dómstóllinn hefur því ekki dómsvald varðandi þennan málaflokk á grundvelli 230. gr. (áður 173. gr.) Rs. svo dæmi sé tekið.
    Á svipaðan hátt er fjallað um dómsvald dómstóls EB í 35. gr. (áður grein K.7) samningsins um ESB að því er varðar þau málefni sem falla undir þriðju stoðina. Ekki er ástæða til að rekja þessar reglur nánar hér en bent skal á að dómsvald dómstóls EB í þessum málaflokki er að nokkru takmarkað.
    17. Bruesselsamningurinn gerir ekki ráð fyrir neinum dómstóli sem sker úr deilumálum sem rísa kunna milli samningsaðila við túlkun eða framkvæmd Schengenreglnanna. Í fyrri álitsgerð okkar var m.a. byggt á þeirri forsendu að slíkt dómsvald yrði falið EFTA dómstólnum eða sambærilegum dómstól. Var það talið samrýmast stjórnarskránni, sbr. bls. 39 –40 í eldri álitsgerð okkar. Í aðalatriðum mun dómstóll EB (og framkvæmdastjórnin) túlka og beita Schengenreglunum eins og hverjum öðrum bandalags- eða sambandsrétti, en íslenskir dómstólar (og stjórnvöld) eru á sama hátt valdbærir til að leysa úr ágreiningi um Schengenreglur hér á landi eftir því sem efni þeirra gefur tilefni til og segja til um stöðu þeirra að landsrétti. Eins og áður greinir má gera ráð fyrir því að túlkunaráhrif dómstóls EB um Schengenreglur muni verða talsverð og ekki fer á milli mála að 9. og 10. gr. Schengensamningsins gera óbeint ráð fyrir slíkum áhrifum. Í þessu felst þó ekkert valdframsal enda eru íslenskir dómstólar ekki formlega bundir við niðurstöður dómstóls EB (eða framkvæmdastjórnarinnar) samkvæmt Brusselsamningnum.
    18. Með vísan til þess sem að framan greinir og til þess sem segir um dómsvaldið í kafla 11.4. í álitsgerð okkar frá 3. desember 1997 er það ótvírætt álit okkar að í Brusselsamningnum felist ekki framsal dómsvalds sem fari í bága við íslensku stjórnarskrána.

Framkvæmdarvald
    19. Í álitsgerð þessari er gengið út frá því að í framkvæmdavaldi felist vald til að taka bindandi ákvarðanir sem beinast að einstaklingum eða lögaðilum og ennfremur vald til að setja almenn stjórnsýslufyrirmæli á grundvelli almennra laga. Framsal framkvæmdavalds getur falist í því að alþjóðlegum stofnunum sé falið vald til að taka ákvarðanir sem eru gildar og binda hendur íslenskra aðila að íslenskum lögum eða eftir atvikum til að setja reglur sem hafa stöðu almennra stjórnsýslufyrirmæla. Í kafla 11.3. í álitsgerð okkar frá 3. desember 1997 eru rakin þau atriði sem helst gætu haft í för með sér framsal á framkvæmdavaldi. Meginniðurstaða okkar var svohljóðandi:
             Miðað við fyrri fordæmi, eðli ákvarðananna og umfang þeirra er það skoðun okkar að ekki sé um að ræða framsal framkvæmdavalds í þeim mæli að það fari í bága við 2. gr. stjórnarskrárinnar.
    Í samningi þeim sem nú liggur fyrir eru engin ný ákvæði sem túlka má sem framsal framkvæmdavalds frá því sem var í fyrri samningsforsendum. Er m.a. bent á að ekki er gert ráð fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA hafi hlutverki að gegna varðandi eftirlit með því að Ísland og Noregur fullnægi skuldbindingum sínum samkvæmt samningnum. Eftirlit þetta er þar með, að því er Ísland varðar í höndum íslenskra stjórnvalda. Við vísum því til tilvitnaðra orða og annarra ummæla sem fram koma í kafla 11.3. í fyrrgreindri álitsgerð.

Löggjafarvald
    20. Ísland og Noregur taka þátt í starfi Evrópubandalagsins og Evrópusambandsins á þeim sviðum sem viðaukar A og B við Schengensamninginn ná yfir eins og þeir eru á hverjum tíma, sbr. 1. gr. Schengensamningsins. Í viðaukum A og B með Schengensamningnum eru taldir upp þeir samningar og gerðir sem hann tekur til. Af viðaukum þessum er ljóst að þeir taka til Schengensamkomulagsins frá 1985 og Schengensamningsins frá 1990 um framkvæmd Schengen-samkomulagsins. Þeir taka einnig til aðildarsamninga og bókana í tengslum við þá og ennfremur til afleiddra Schengengerða. Í síðastnefnda tilvikinu er um að ræða ákvarðanir framkvæmdanefndarinnar sem nánar eru taldar upp í viðauka A. Þar er m.a. um að ræða ákvörðun um útgáfu samræmdra vegabréfsáritana á landamærum, ákvörðun um sameiginlega stefnu í málum er varða vegabréfsáritanir, ákvörðun um Schengenupplýsingakerfið og margar fleiri. Loks er í viðauka B að finna eftirtaldar gerðir:
          Reglugerð nr. 574/1999 þar sem tiltekin eru þau þriðju lönd sem sú regla gildir um, að ríkisborgarar þeirra verða að hafa vegabréfsáritanir undir höndum þegar þeir fara yfir ytri landamæri aðildarríkjanna.
          Reglugerð nr. 1683/95 þar sem mælt er fyrir um sameiginlegt eyðublað um vegabréfsáritanir og ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 7. febrúar 1996 þar sem mælt er fyrir um frekari tækniforskriftir fyrir samræmt eyðublað um vegabréfsáritanir.
          Tilskipun ráðsins nr. 91/477 um eftirlit með skotvopnakaupum og skotvopnaeign ásamt tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 93/216 með síðari breytingum.
    21. Eftirtalin Schengenmálefni falla nú undir 3. hluta IV. þáttar Rómarsamningsins:
          afnám eftirlits á innri landamærum,
          eftirlit á ytri landamærum,
          vegabréfsáritanir,
          frjáls för borgara þriðju ríkja,
          ábyrgð á meðferð umsóknar um hæli og
          innflytjendamál
    Geta má þess að þeir málaflokkar sem falla undir 3. hluta IV. þáttar eru fleiri, t.d. réttarsamvinna á sviði einkamála svo og samvinna á sviði stjórnsýslu. Ennfremur má hér nefna málefni flóttamanna. Þessi málefni tengjast Schengensamstarfinu en þau eru þó talin falla utan eiginlegra Schengenreglna.
    Þá er þess að geta að samkvæmt 69. gr. (áður 73. gr. q) Rs. má aðeins beita fyrrgreindum reglum að því er varðar Stóra-Bretland, Írland og Danmörku í samræmi við sérstakar bókanir sem fylgja Amsterdamsamningnum. Tvö fyrrnefndu ríkin hafa auk þess fengið sérstakar bókanir varðandi viss atriði í 14. gr. (áður 7. gr. a) Rs. Fyrrgreindar reglur eiga því aðeins við hin 12 ríki ESB enn sem komið er.
    Í 61. gr. (áður 73. gr. i) Rs. er gert ráð fyrir því að til þess að koma smám saman á svæði þar sem ríkir frelsi, öryggi og réttlæti skuli ráðið:
(g)     gera ráðstafanir, innan fimm ára frá gildistöku samningsins, til þess að tryggja frjálsa för fólks í samræmi við ákvæði 14. gr. (áður 7. gr. a) Rs. og í því sambandi einnig í tengslum við ráðstafanir samkvæmt fleiri greinum, einkum 62.–63. gr. (áður 73. gr. j og k) Rs., sem lúta að eftirliti á ytri landamærum, veitingu hælis og veitingu innflytjendaleyfa.
(h)     gera aðrar ráðstafanir að því er varðar hæli, flóttamenn, innflytjendur og til að tryggja réttindi borgara þriðju ríkja samkvæmt 63. gr. (áður 73. gr. k) Rs.
(i)         gera ráðstafanir á sviði réttaraðstoðar í einkamálum í samræmi við 65. gr. (áður 73. gr. m) Rs.
(j)         gera viðeigandi ráðstafanir til að hvetja til og styrkja samvinnu á stjórnsýslusviðinu samkvæmt 66. gr. (áður 73. gr. n) Rs.
(k)     gera ráðstafanir á sviði lögreglumála og réttaraðstoðar í opinberum málum sem miða að miklu öryggi með því að koma í veg fyrir og berjast gegn glæpum innan Sambandsins samkvæmt ákvæðunum í samningnum um Evrópusambandið.
    Í 62. gr. (áður 73. gr. j) Rs. er fjallað nánar um ráðstafanir vegna afnáms eftirlits á innri landamærum, eftirlit á ytri landamærum og vegabréfsáritanir.
    Þar er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því að ráðið hafi innan 5 ára frá því að Amsterdamsamningurinn gekk í gildi og í samræmi við málsmeðferðarreglurnar í 67. gr. (áður 73. gr. o) Rs. gert ráðstafanir í samræmi við ákvæði 14. gr. (áður 7. gr. a) Rs. til þess að tryggja að ekki sé haft eftirlit með fólki þegar það ferðast um innri landamæri. Gildir þetta bæði fyrir borgara sambandsins sem og borgara þriðju ríkja er þeir fara yfir landamæri aðildarríkjanna.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að ráðið geri ráðstafanir að því er varðar för um ytri landamæri. Þar er um það að ræða að setja viðmiðunarreglur og málsmeðferðarreglur sem aðildarríkin eigi að fylgja við framkvæmd eftirlits á ytri landamærum. Ennfremur að setja reglur um vegabréfsáritanir fyrir dvöl sem er ætluð til þriggja mánaða eða skemmri tíma. Í því efni er ma. gert ráð fyrir því að settur verði upp sameiginlegur listi yfir þau ríki sem krafist er vegabréfsáritunar frá, um málsmeðferðarreglur og skilyrði fyrir útgáfu vegabréfsáritana og um samræmt form og efni slíkra áritana.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að kveðið verði á um skilyrðin fyrir því að ríkisborgarar þriðju ríkja megi ferðast um í aðildarríkjunum í þrjá mánuði eða skemmri tíma.
    Samkvæmt 63. gr. (áður 73. gr. k) er gert ráð fyrir því að ráðið taki ákvörðun samkvæmt málsmeðferðarreglunum í 67. gr. (áður 73. gr. o) innan 5 ára í flestum tilvikum um ráðstafanir varðandi hæli, flóttamenn og innflytjendur og til að tryggja réttindi borgara þriðju ríkja.
    Loks ber að nefna að undir þriðju stoð Evrópusambandsins fellur upplýsingakerfi (að hluta til), lögreglusamvinna á tilteknum sviðum og aðstoð í sakamálum.
    22. Eins og áður er greint frá er ekki fullkomlega ljóst hvaða reglur verða Schengenreglur eftir að þær hafa verið yfirfærðar í sambandsréttinn. Hins vegar er ljóst til hvaða reglna Brusselsamningurinn tekur nú þar sem þær eru skilgreindar í viðaukum A og B með þeim samningi sem fyrr segir.
    Í Brusselsamningnum segir berum orðum í 2. gr. að Ísland skuli koma í framkvæmd og beita ákvæðum Schengengerðanna sem taldar eru upp í viðauka A á sama hátt og þær eiga við um aðildarríki Evrópusambandsins. Sama gildir um þau ákvæði gerða sem talin eru upp í viðauka B að því marki sem ákvæðin hafa komið í staðinn fyrir samsvarandi ákvæði samnings sem undirritaður var í Schengen 19. júní 1990 um framkvæmd samkomulagsins um afnám í áföngum á eftirliti á sameiginlegum landamærum eða ákvæði sem samþykkt eru samkvæmt honum. Loks skal Ísland samþykkja, koma í framkvæmd og beita gerðum og ráðstöfunum ESB sem breyta eða bætast við þau ákvæði sem um getur í viðaukum A og B.
    Ljóst er að eftir að Schengengerðir hafi verið færðar yfir í fyrstu stoðina öðlast Schengenréttur lagaáhrif og bein réttaráhrif innan aðildarríkja ESB með svipuðum hætti og bandalagsréttur. Þetta gildir í minna mæli um þær reglur sem falla undir þriðju stoðina. Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hvaða hlutar Schengengerða fela í sér reglur sem hafi slík áhrif. Sumar af þeim eru þó þess eðlis að þær snúa beint að borgurunum og geta skapað réttindi fyrir þá eða lagt á þá skyldur. Því verður að reikna með að samningurinn feli það í sér að Ísland verði að lögfesta Schengengerðir í samsvarandi mæli og þeim er ætlað að hafa lagaáhrif eða bein réttaráhrif ef markmið þeirra eiga að nást. Brusselsamningurinn felur þannig í sér að skylt er að lögfesta í innanlandslögum Íslands og Noregs núgildandi Schengengerðir svo og þær framtíðargerðir í sama eða svipuðum mæli og þær öðlast lagagildi í aðildarríkjum sambandsins. Að öðru leyti er vísað í kafla 11.2.2. í álitsgerð okkar frá 3. desember 1997 um frekari reifun.
    23. Samkvæmt 3. gr. Brusselsamningsins er komið á fót samsettri nefnd sem skipuð er fulltrúum ríkisstjórna Íslands og Noregs og þeim sem eiga sæti í ráðinu og framkvæmdastjórninni. Samsetta nefndin skal fjalla um öll málefni sem falla undir efnissvið samningsins og tryggja að hvert það atriði sem Ísland og Noregur láta sig varða fái tilhlýðilega umfjöllun. Fulltrúar Íslands og Noregs eiga þess m.a. kost að skýra frá sjónarmiðum sínum í sérhverju álitamáli er viðvíkur þróun eða framkvæmd ákvæða sem þá varða og þeir hafa ennfremur rétt til að setja fram hugmyndir í samsettu nefndinni varðandi málefni sem falla undir gildissvið samningsins. Framkvæmdastjórnin eða aðildarríki getur síðan nýtt sér þessar hugmyndir í þeim tilgangi að leggja fram tillögu eða eiga frumkvæði að samþykkt gerðar eða ráðstöfunar innan EB eða ESB. Jafnframt er áskilið í 5. gr. samningsins að tilkynna skuli samsettu nefndinni um allar gerðir eða ráðstafanir sem eru í undirbúningi í ráðinu. Loks segir í 6. gr. að við gerð nýrrar löggjafar sem fellur undir gildissvið samningsins skuli framkvæmdastjórnin leita ráða með óformlegum hætti hjá sérfræðingum Íslands og Noregs á sama hátt og hún leitar ráða hjá sérfræðingum aðildarríkjanna. Ljóst er af samningi í formi bréfaskipta milli samningsaðila frá 18. maí 1999, að bandalagið mun taka fullt tillit til óska Íslands og Noregs um að taka fullan þátt í starfi nefndanna sem aðstoða framkvæmdastjórnina við að beita framkvæmdavaldi sínu á grundvelli þátttöku þeirra í ákvarðanatöku á sviðum sem falla undir samninginn og til að stuðla að góðri framkvæmd hans. Er Íslandi og Noregi í stuttu máli tryggð þátttaka í starfi þessara nefnda. Stofnanir aðila Schengensamstarfsins voru áður ráðherranefndin og sameiginlega eftirlitsstofnunin. Í fyrri samningsforsendum var gert ráð fyrir því að Ísland og Noregur myndu taka þátt í öllum fundarhöldum ráðherranefndarinnar og allra annarra vinnuhópa sem settir voru á stofn til að undirbúa ákvarðanir. Gert var ráð fyrir því að Ísland og Noregur gætu lýst skoðunum sínum, gert athugasemdir og lagt fram tillögur en tækju hins vegar ekki þátt í atkvæðagreiðslu.
    Þær breytingar sem fyrirliggjandi samningur felur í sér frá því fyrirkomulagi sem gert var ráð fyrir í fyrri samningsforsendum felast einkum í því að Ísland og Noregur geta nú ekki sett fram formlegar tillögur til nýrra gerða eða ráðstafana og að framkvæmdastjórnin þarf aðeins að leita ráða með „óformlegum hætti“ hjá sérfræðingum þessar landa. Við fyrstu sýn má því ætla að áhrif Íslands og Noregs á ákvarðanatöku samkvæmt Schengensamningnum séu minni en samkvæmt fyrri samningsforsendum. Samþykkt nýrra gerða eða ráðstafana er hins vegar alfarið í höndum stofnana ESB svo sem skýrt kemur fram í 1. mgr. 8. gr. samningsins.
    24. Ráðið skal tilkynna Íslandi og Noregi um samþykkt þeirra gerða eða ráðstafana sem falla undir efnissvið samningsins. Ríkin skulu síðan hvort í sínu lagi ákveða hvort þau samþykki efni þeirra og taki þær upp í landsrétt sinn, sbr. (a) lið 2. mgr. 8. gr. en efni slíkrar gerðar eða ráðstöfunar getur þó ekki orðið bindandi fyrir Ísland fyrr en stjórnskipulegum skilyrðum hefur verið fullnægt. Ef Ísland samþykkir ekki efni tiltekinnar gerðar eða ráðstöfunar eða tilkynnir ekki í tíma að það hafi samþykkt tiltekna gerð eða ráðstöfun eða ef tilkynning berst ekki innan settra tímamarka um að öllum stjórnskipulegum skilyrðum hafi verið fullnægt, verður afleiðingin sú að samningnum telst slitið, að því er varðar Ísland nema því aðeins að samsetta nefndin, að lokinni könnun að leiðum til að halda samningnum áfram, ákveði annað innan níutíu daga. Slit samningsins öðlast gildi þremur mánuðum eftir að nítuíu daga tímabilinu lýkur. Með þessum reglum hefur orðið sú breyting á frá fyrri samningsforsendum að neitun Íslands á að samþykkja ákvörðun jafngildir nú ekki lengur uppsögn heldur er gert ráð fyrir ákveðinni málsmeðferð og tímafresti sem nota á til að freista þess að ná samkomulagi um ágreiningsefnið. Náist ekki samstaða um að halda samningnum áfram fellur hann úr gildi með þeim hætti sem fyrr sagði.
    25. Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir því hvernig Schengenreglunum er skipað undir bandalagsrétt og sambandsrétt og hvernig ákvarðanatöku er háttað innan ESB. Þá hefur einnig verið gerð grein fyrir því hvernig ákvarðanatöku er háttað milli samningsaðila samkvæmt fyrirliggjandi samningi, hver áhrif Ísland (og Noregur) geti haft á það samningsferli og hverjar séu afleiðingar þess að Ísland samþykkir ekki tiltekna gerð eða ráðstöfun. Loks liggur fyrir að samkvæmt 2. gr. samningsins ber Íslandi og Noregi ennfremur að samþykkja að koma í framkvæmd og beita gerðum og ráðstöfunum ESB sem breyta eða bætast við þau ákvæði sem getið er í viðaukum A og B með Brusselsamningnum. Ljóst er einnig að Ísland og Noregur eru undir talsverðum þrýstingi til að samþykkja tiltekna framtíðargerð eða ráðstöfun því að ætla má að þessi ríki geti staðið frammi fyrir því að mun viðurhlutameira sé að ganga út úr samstarfinu heldur en að samþykkja tiltekna gerð. Meginatriðið er þó að okkar mati það að ákvæði samningsins gera í engu tilviki ráð fyrir því að ákvarðanir stofnana ESB öðlist sjálfkrafa gildi hér á landi eða komi til framkvæmda án milligöngu innlendra stjórnvalda eða löggjafarvaldsins.
    26. Þegar öll fyrrgreind atriði eru höfð í huga er niðurstaða okkar sú að Brusselsamningurinn feli ekki í sér veruleg frávik frá fyrri samningsforsendum. Eftir stendur að sá samningur sem hér um ræðir er þjóðréttarsamningur og að hann eða hlutar hans verða ekki íslensk lög nema samþykki Alþingis komi til eða eftir atvikum atbeini innlendra stjórnvalda á grundvelli heimilda í almennum lögum. Það sama á við um framtíðargerðir. Engar skyldur samkvæmt samningnum verða heldur lagðar á íslenska ríkisborgara eða lögaðila hvorki í formi lagareglna né annarra ráðstafana nema til komi atbeini íslenskra yfirvalda. Því vísum við til fyrri álitsgerðar okkar frá 3. desember 1997, kafla 11.2. og teljum, m.a. af þeim ástæðum sem þar getur, að fyrirliggjandi Brusselsamningur feli ekki sér framsal löggjafarvalds sem fari gegn ákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar.

7. Uppsagnarákvæði samningsins

    27. Að lokum má varpa fram því álitamáli hvort samningurinn feli í raun í sér brot á ákvæðum stjórnarskrárinnar vegna uppsagnarákvæða hans. Álitaefnið er hvort löggjafarvald, framkvæmdavald eða dómsvald sé í raun hjá viðeigandi íslenskum stjórnvöldum þegar ákvæði samningsins eru slík að hann fellur auðveldlega úr gildi ef löggjafarvaldið, framkvæmdavaldið eða dómsvaldið tekur ekki upp þær gerðir eða fer ekki eftir þeim ákvörðunum á gildissviði samningsins sem stofnanir ESB ákveða.
    28. Í fyrri kafla hefur verið getið um afleiðingar þess ef Ísland eða Noregur samþykkir ekki tiltekna gerð eða ráðstöfun og það telst að auki samningsbrot að veita ekki þessum gerðum eða ráðstöfunum sambærilegt gildi og þær hafa innan ESB. Við gerð Brusselsamningsins hefur bæst við sú þörf sem augljóslega er fyrir hendi að ná fram samræmdri túlkun og beitingu á reglum samningsins á öllu yfirráðasvæði samningsaðila. Þess er freistað að ná þessu markmiði án þess að fela eftirlits- eða dómsvald alþjóðlegum stofnunum sem Ísland og Noregur eiga aðild að. Í 9. gr. samningsins segir að samsetta nefndin skuli fylgjast stöðugt með dómaframkvæmd dómstóls EB og þar til bærra dómstóla Íslands og Noregs á gildissviði samningsins. Hafi nefndin ekki getað tryggt samræmda beitingu og túlkun þessara aðila innan tveggja mánaða (og samsvarandi gildir ef ekki tekst að koma í veg fyrir verulegan mun á beitingu stjórnvalda viðkomandi aðildararíkja annars vegar og Íslands eða Noregs hins vegar) eða rísi ágreiningur um beitingu samningsins hefur samsetta nefndin 90 daga til að leysa hann. Finnist lausn ekki á þessum tíma skal bætt við 30 dögum til að finna endanlega lausn. Fáist engin endanleg lausn telst samningnum slitið að því er Ísland eða Noreg varðar, eftir því hvort ríkið ágreiningurinn varðar. Samningsslitin öðlast gildi sex mánuðum eftir að þrjátíu daga fresturinn rann út, sbr. nánar 11. gr. samningsins.
    29. Miðað við fyrri samningsforsendur hefur það breyst að fleiri atriði geta nú valdið því að samningurinn falli úr gildi. Samningurinn fellur ekki einungis úr gildi ef Ísland eða Noregur samþykkja ekki gerðir eða ráðstafanir ESB á sviði Schengenreglna heldur einnig ef túlkun eða beiting dómstóla eða stjórnvalda þessara ríkja á reglunum er ekki í samræmi við túlkun eða beitingu innan ESB. Þar við bætist að ágreiningur samningsaðila um beitingu samningsins getur leitt til sömu niðurstöðu. Á sama tíma er ljóst af ákvæðum 1. mgr. 8. gr. og einnig í ljósi lagareglna um starfsemi stofnana ESB að það er túlkun og beiting stofnana ESB sem ber í aðalatriðum að leggja til grundvallar. Ísland (og eftir atvikum Noregur) verða því að grípa inn í og leiðrétta misræmi, t.d. með innlendri lagasetningu. Jafnframt má hafa í huga að slit samstarfs þessa er mun þungbærara fyrir Ísland og Noreg heldur en Evrópusambandið í ljósi þess að aðildarríki þess munu halda áfram Schengensamstarfinu innan ramma ESB. Af þessu leiðir að talsvert skortir á að jafnræði ríki með samningsaðilum Brusselsamningsins að því er þessi ákvæði varðar.
    30. Við teljum þó að þetta leiði ekki til þess að samningurinn teljist ósamrýmanlegur stjórnarskránni. Þess er fyrst að gæta, til viðbótar þeim sjónarmiðum sem nefnd eru í kafla 11.4. í álitsgerð okkar frá 3. desember 1997, að í samningnum felst ekki að íslenskir dómstólar muni fá fyrirmæli um að breyta úrlausnum sem þeir hafa komist að eða bindandi fyrirmæli um að dæma með tilteknum hætti. Á hinn bóginn getur vel verið að íslenski löggjafinn þurfi að bregðast við ef ósamræmi er komið upp og breyta lögum til tryggja einsleitni í framtíðinni.
    31. Að því er varðar framsal löggjafarvalds skal einnig tekið fram, til viðbótar og áréttingar þeim sjónarmiðum sem fram koma í kafla 11.2., einkum 11.2.4 í álitsgerð okkar frá 3. desember 1997, að Schengenreglur framtíðarinnar munu að einhverjum hluta fara fram innan þriðju stoðar sem þýðir að þær eru ekki bindandi með sama afgerandi hætti og ef ákvarðanir um þær væru teknar innan bandalagsréttarins. Ennfremur skal þess getið að enda þótt reglur Schengensamstarfsins séu miklar að vöxtum fjalla þær þó um afmarkað svið og er byggt á því hér að framtíðargerðir feli aðeins í sér nánari útfærslu á þeim reglum í formi innlendra reglugerða eða samsvarandi fyrirmæla.
    32. Niðurstaða okkar er því sú að áhrif þess að Ísland samþykkir ekki nýjar gerðir, fylgir ekki fyrirmælum um að veita framtíðargerðum bein réttarárhif, lagar ekki ósamræmi sem upp er komið varðandi túlkun eða beitingu laga, eða fellst ekki á að leysa ágreining sem upp er kominn með tilteknum hætti sem upp er kominn, séu ekki slík að unnt sé að meta þau sem brot á 2. gr. stjórnarskrárinnar.

8. Lokaorð

    33. Við ítrekum að öðru leyti þau meginatriði sem fram koma í kafla 12 í álitsgerð okkar frá 3. desember 1997.

Reykjavík 31. ágúst 1999

    Sign.     Sign.     Sign.
     Davíð Þ. Björgvinsson     Stefán M. Stefánsson     Viðar M. Matthíasson

Neðanmálsgrein: 1
1     Sjá einnig yfirlýsingu ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar er varðar ákvörðun 95/46/EB sem er samþykkt um leið og þessi samningur er gerður.
Neðanmálsgrein: 2
2     Með fyrirvara um tengsl hennar við ákvæði, þar sem tiltekin eru þriðju lönd sem um gildir að ríkisborgarar þeirra verða að hafa vegabréfsáritanir undir höndum eða eru undanþegnir slíkum kvöðum, sem hafa verið samþykkt innan ramma Schengen-samstarfsins og verður beitt áfram þegar Schengen-gerðirnar verða felldar undir ramma Evrópusambandsins og fjallað er um innan viðauka A.
Neðanmálsgrein: 3
1     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir ákvæðið ekki fyrir Ísland og Noreg.
Neðanmálsgrein: 4
2     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir ákvæðið ekki fyrir Ísland og Noreg, að því er tekur til eftirlits með farangri.
Neðanmálsgrein: 5
3     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir ákvæðið ekki fyrir Ísland og Noreg.
Neðanmálsgrein: 6
4     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir ákvæðið ekki fyrir Ísland og Noreg.
Neðanmálsgrein: 7
5     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir kaflinn ekki fyrir Ísland og Noreg.
Neðanmálsgrein: 8
6     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir ákvæðið ekki fyrir Ísland og Noreg.
Neðanmálsgrein: 9
7     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir ákvæðið ekki fyrir Ísland og Noreg.
Neðanmálsgrein: 10
         (*)    Alþjóðasamningur um ávana- og fíkniefni frá 1961 eins og honum var breytt með bókuninni frá 1972 um breytingu á alþjóðasamningnum um ávana- og fíkniefni frá 1961; Alþjóðasamningur um ávana- og fíkniefni frá 1971; Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni frá 20. desember 1988.
Neðanmálsgrein: 11
8     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir ákvæðið ekki fyrir Ísland og Noreg.
Neðanmálsgrein: 12
9     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir kaflinn ekki fyrir Ísland og Noreg, að því marki sem greinar hans falla undir tilskipun ráðsins 91/477/EBE um eftirlit með skotvopnum og skotvopnaeign.
Neðanmálsgrein: 13
10     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir bálkurinn ekki fyrir Ísland og Noreg.
Neðanmálsgrein: 14
11     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir bálkurinn ekki fyrir Ísland og Noreg.
Neðanmálsgrein: 15
12     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir ákvæðið ekki fyrir Ísland og Noreg.
Neðanmálsgrein: 16
13     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir ákvæðið ekki fyrir Ísland og Noreg.
Neðanmálsgrein: 17
14     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir ákvæðið ekki fyrir Ísland og Noreg.
Neðanmálsgrein: 18
15     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir ákvæðið ekki fyrir Ísland og Noreg.
Neðanmálsgrein: 19
16     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir ákvæðið ekki fyrir Ísland og Noreg.
Neðanmálsgrein: 20
17     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir yfirlýsingin ekki fyrir Ísland og Noreg.
Neðanmálsgrein: 21
18     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir yfirlýsingin ekki fyrir Ísland og Noreg.
Neðanmálsgrein: 22
19     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir yfirlýsingin ekki fyrir Ísland og Noreg.
Neðanmálsgrein: 23
20     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir yfirlýsingin ekki fyrir Ísland og Noreg.
Neðanmálsgrein: 24
21     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir yfirlýsingin ekki fyrir Ísland og Noreg.
Neðanmálsgrein: 25
22     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir yfirlýsingin ekki fyrir Ísland og Noreg.
Neðanmálsgrein: 26
23     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir yfirlýsingin ekki fyrir Ísland og Noreg.
Neðanmálsgrein: 27
24     Samkvæmt 1. hluta viðauka A við Brussel-samninginn gildir yfirlýsingin ekki fyrir Ísland og Noreg.