Ferill 186. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 427  —  186. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun.

Frá 1. minni hluta iðnaðarnefndar.



1. Inngangur.
    Þingsályktunartillögu um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun var formlega vísað til iðnaðarnefndar 22. nóvember 1999. Í iðnaðarnefnd var samþykkt að vísa umfjöllun um náttúrufar svæðisins til efnislegrar umfjöllunar í umhverfisnefnd, en að iðnaðarnefnd fjallaði um aðra þætti málsins. Umhverfisnefnd skilaði álitum sínum 6. desember og eru þau fylgiskjöl með þessu nefndaráliti.
    Í iðnaðarnefnd og umhverfisnefnd voru settar fram óskir um að haldinn yrði opinn borgarafundur um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun en þeirri beiðni var alfarið hafnað af meiri hluta iðnaðarnefndar. Hinn 3. desember 1999 rituðu Kolbrún Halldórsdóttir, fulltrúi í umhverfisnefnd, og undirritaður, sem fulltrúi í iðnaðarnefnd, þingforseta bréf þar sem farið var fram á að opinn borgarafundur yrði haldinn. Meiri hluti forsætisnefndar hafnaði erindinu á fundi sínum 6. desember 1999.
    Á sameiginlegum fundi iðnaðarnefndar og umhverfisnefndar sem haldinn var miðvikudaginn 8. desember voru álit umhverfisnefndar kynnt. 1. minni hluti nefndarinnar leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt. Undir það álit rita Kristján Pálsson, Ásta Möller, Jónas Hallgrímsson og Gunnar Birgisson. 2. minni hluti umhverfisnefndar ítrekar það álit að fyrirhugaðar framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun fari í mat á umhverfisáhrifum samkvæmt gildandi lögum. Undir það álit rita Ólafur Örn Haraldsson, formaður nefndarinnar, og Katrín Fjeldsted.
    Þrír fulltrúar stjórnarandstöðunnar í umhverfisnefnd rituðu svohljóðandi bréf til formanns umhverfisnefndar: „Við undirritaðir nefndarmenn í umhverfisnefnd styðjum í einu og öllu álit og niðurstöðu formanns nefndarinnar, Ólafs Arnar Haraldssonar, og Katrínar Fjeldsted er varðar þingsályktunartillögu um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun, þskj. 216, 186. mál.“ Undir bréfið rita Össur Skarphéðinsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Kolbrún Halldórsdóttir. Því er ljóst að meiri hluti umhverfisnefndar er samþykkur því að Fljótsdalsvirkjun fari í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum.
    Á fundi iðnaðarnefndar mánudaginn 7. desember var tekið fyrir formlegt erindi frá undirrituðum þar sem farið var þess á leit að fulltrúar frá Norsk Hydro væru kallaðir á fund nefndarinnar. Erindið var tekið til atkvæðagreiðslu og felldi meiri hlutinn það. Á þingfundi sama dag kvaddi undirritaður sér hljóðs um störf þingsins og mótmælti afgreiðslu meiri hlutans, enda fáheyrt á Alþingi að nefndarmönnum sé neitað um að kalla fyrir málsaðila.
    Á fundi iðnaðarnefndar föstudaginn 8. desember óskaði minni hlutinn eftir því að þeir aðilar sem formlega, með rafrænum hætti, óskuðu eftir að koma á fund nefndarinnar væru kallaðir til. Meiri hlutinn felldi þá tillögu og bar við tímaskorti.
    Nefndin fékk á sinn fund við umfjöllun málsins Þorgeir Örlygsson, Jón Ingimarsson og Guðjón Axel Guðjónsson frá iðnaðarráðuneyti, Friðrik Sophusson, Jóhann Má Maríusson, Helga Bjarnason og Agnar Olsen frá Landsvirkjun, Þorkel Helgason og Sveinbjörn Björnsson frá Orkustofnun, Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóra, Þórð Friðjónsson frá Þjóðhagsstofnun, Óskar Maríusson frá Samtökum atvinnulífsins, Svein Hannesson frá Samtökum iðnaðarins, Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Magnús Oddsson frá Ferðamálaráði, Þorvald Jóhannesson, framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi (SSA), Smára Geirsson, formann Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi og fulltrúa Fjarðabyggðar, Arnór Benediktsson, oddvita Norður-Héraðs, Ásmund Gíslason frá Ferðamálasamtökum Austurlands, Einar Rafn Haraldsson frá Afli fyrir Austurland, Jóhann F. Þórhallsson oddvita Fljótsdalshrepps, Kristinn Bjarnason hrl., Guðmund Bjarnason frá Fjarðabyggð, Guðmund Malmquist, Bjarka Jóhannesson og Guðmund Guðmundsson frá Byggðastofnun, Erlend Magnússon, fulltrúa í stjórn Hæfis, Magnús Ásgeirsson og Garðar Halldórsson frá nefnd um staðarvalsathuganir iðnaðarsvæða á Reyðarfirði (STAR) og Sigurð Jóhannesson hagfræðing.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Landsvirkjun, Orkustofnun, Samtökum iðnaðarins, Þjóðhagsstofnun, Verkamannasambandi Íslands, Verkamannafélaginu Árvakri á Eskifirði, Alþýðusambandi Austurlands, Jakobi Björnssyni, fyrrverandi orkumálastjóra, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Afli fyrir Austurland, Náttúruverndarsamtökum Austurlands, Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs, Fuglaverndarfélagi Íslands, Landvernd, Náttúruverndarsamtökum Vesturlands, STAR, Umhverfisverndarsamtökum Íslands, Náttúruverndarráði, Samtökum útivistarfélaga, Umhverfisvinum, Skarphéðni Þórissyni líffræðingi, Náttúrufræðistofnun Íslands, Kaupfélagi Héraðsbúa, Geir Oddssyni, fiski- og auðlindafræðingi, Aðalheiði Jóhannsdóttur lögfræðingi, Náttúruvernd ríkisins, Þóru Ellen Þórhallsdóttur prófessor, Sambandi dýraverndunarfélaga Íslands, Byggðastofnun, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Skipulagsstofnun, Landmótun, Breiðdalshreppi, Eyþóri Einarssyni grasafræðingi, umhverfisráðuneyti, Guðmundi Sigvaldasyni verkefnastjóra, Rögnvaldi Þorleifssyni, Gíslunni Jóhannsdóttur og frá Önnu Margréti Bjarnadóttur. Þá hefur á annað hundrað bréfa borist nefndinni í tölvupósti.
    Nefndinni bárust einnig undirskriftalistar frá íbúum Fjarðabyggðar og Búða- og Fáskrúðsfjarðarhrepps til stuðnings virkjunarframkvæmdum.
    Fyrir iðnaðarnefnd liggur óafgreidd tillaga til þingsályktunar um sjálfbæra orkustefnu, þskj. 13, 13. mál, og fyrir umhverfisnefnd liggur óafgreidd tillaga til þingsályktunar um stofnun Snæfellsþjóðgarðs, þskj. 11, 11. mál. Báðar þessar tillögur eru þess eðlis að þær bæri að afgreiða á undan tillögu til þingsályktunar um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun.

2. Lagaóvissa.
    Iðnaðarráðherra segir í greinargerð með þingsályktunartillögu sinni að þáverandi iðnaðarráðherra, Jón Sigurðsson, hafi veitt leyfi fyrir framkvæmdum 24. apríl 1991, en lætur þess jafnframt getið að sveitarstjórn Fljótsdalshrepps hafi ekki veitt leyfi fyrir öðrum framkvæmdum en þeim sem lúta að aðkomugöngum virkjunarinnar. Þar með segir ráðherrann að leyfi Fljótsdalshrepps hafi þurft fyrir áframhaldandi framkvæmdum 1991. Skilningur skipulagsstjóra ríkisins er annar hvað þetta atriði varðar. Í umsögn hans til umhverfisnefndar, dags. 3. desember 1999, kemur fram að engar beinar leyfisveitingar til framkvæmda hafi verið fyrir hendi samkvæmt skipulagslögum, nr. 19/1964, með síðari breytingum, sem í gildi voru þegar virkjunarleyfi þáverandi iðnaðarráðherra var gefið út. Að hans mati hafi leyfi þáverandi iðnaðarráðherra verið ígildi framkvæmdaleyfis. Hins vegar hafi ekki verið leyfi fyrir húsbyggingum vegna virkjunarinnar, t.d. stöðvarhúsi. Þannig virðast iðnaðarráðherra og skipulagsstjóri sammála um að leyfi hafi skort 1991 fyrir ákveðnum þáttum framkvæmdarinnar þótt ágreiningur sé um það hvers konar leyfi hafi skort. Svo komu til sögunnar ný skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997, en skv. 27. gr. þeirra eru framkvæmdir á borð við stíflugerð, vegi, veitur og efnistökustaði háðar framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarstjórnar. Slíkt leyfi frá sveitarstjórn Fljótsdalshrepps er ekki til og einnig skortir enn byggingarleyfi fyrir öllum húsbyggingum tengdum virkjuninni. Skipulagsstjóra og iðnaðarráðherra greinir á um þessa túlkun.
    Umsögn skipulagsstjóra ríkisins til umhverfisnefndar staðfestir einnig þann ágreining sem er um skipulagsþátt málsins. Samkvæmt áliti hans kalla fyrirhugaðar framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun á gerð deiliskipulags, annars vegar fyrir aðkomu- og stöðvarhússvæði og hins vegar fyrir stíflusvæði. Á grundvelli samþykkts svæðisskipulags miðhálendisins geta því sveitarstjórnir Fljótsdalshrepps og Norður-Héraðs auglýst deiliskipulagstillögu fyrir stíflusvæði virkjunarinnar og sveitarstjórn Fljótsdalshrepps getur að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar auglýst deiliskipulagstillögu fyrir aðkomu- og stöðvarhússvæði. Ekki er vitað hversu langt vinna við deiliskipulagstillögur þessar er á veg komin. Þetta álit stangast hins vegar á við álit ráðherrans sem lýst er í greinargerð með tillögunni, en þar segir, með vísan til 3. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1977, að sveitarstjórn geti án þess að fyrir liggi staðfest aðalskipulag eða samþykkt deiliskipulag og að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar leyft einstakar framkvæmdir sem um kann að vera sótt. Þannig er ráðherra þeirrar skoðunar að hægt sé að undanskilja framkvæmdirnar staðfestu og/eða auglýstu deiliskipulagi. Vegna ágreinings um skipulagsþátt málsins og leyfisveitingar til framkvæmdanna er umsögn skipulagsstjóra ríkisins, dags. 3. desember 1999, birt í fylgiskjali með nefndaráliti þessu.
    Þá ber að huga að því hvort framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun stríði gegn tilskipun 85/ 337/EBE frá 27. júní 1985 sem EES-samningurinn leggur okkur á herðar og tilskipun 97/11/ EC frá 3. mars 1997. Þá er einnig rétt að kanna dómafordæmi frá Evrópudómstólnum í skyldum málum, sbr. kæru Náttúruverndarsamtaka Íslands til Eftirlitsstofnunar EFTA og umsögn Aðalheiðar Jóhannsdóttur til umhverfisnefndar, dags. 1. desember 1999, sem fylgja áliti þessu.

3. Engar vistfræðirannsóknir framkvæmdar.
    Mikill fjöldi vísindamanna og sérfræðinga sem komu á fund umhverfisnefndar taldi framsetningu og túlkun rannsóknargagna vilhalla framkvæmdunum og framkvæmdaraðila í hag. Þá hefur komið á daginn að skýrslan gerir meira en efni standa til úr gróðurfarsrannsóknum sem sagðar eru hafa verið gerðar á svæðinu sl. 25–30 ár. Engar vistfræðirannsóknir hafa farið fram á svæðinu og þær gróðurfarsrannsóknir sem skýrslan vísar til eru lítið annað en tegundatalningar. Þar að auki virðast rannsóknir þær sem gerðar hafa verið komnar það til ára sinna að öðrum aðferðum væri beitt við sams konar rannsóknir færu þær fram um þessar mundir. Þá er skýrslan greinilega ekki skrifuð af líffræðingum, náttúrufræðingum eða vistfræðingum, sem hlýtur að teljast galli með tilliti til mats á áhrifum á náttúru svæðisins. Eyjabakkar eru að öllum líkindum „flæðiengi“ en engar rannsóknir hafa farið fram til að skilgreina það vistkerfi gróðurs og dýra sem þarna er að finna og gera höfundar skýrslunnar enga tilraun til að varpa ljósi á vistfræði svæðisins. Ekki er reynt að meta verndargildi þess, en þegar gögn þau er bárust umhverfisnefnd við afgreiðslu málsins eru skoðuð má draga þá ályktun að hér sé um einstakt landsvæði að ræða og í alla staði óbætanlegt. Einungis séu til fimm eiginlegar gróðurvinjar á miðhálendi Íslands, Eyjabakkar séu sú stærsta, sú sem er í mestri hæð yfir sjávarmáli og sú eina sem er hluti af samfelldri gróðurþekju frá fjöru til jökla. Fari fram sem horfir með framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun sé unninn óafturkræfur skaði á lífríki sem að öllum líkindum er einstakt í sinni röð.

4. Ófullnægjandi mótvægisaðgerðir.
    Skýrsla Landsvirkjunar gerir fremur lítið úr náttúruverndargildi svæðisins og gerir ekki grein fyrir því að land sem þarna tapast verður ekki endurheimt, þrátt fyrir vilja til mótvægisaðgerða. Þær aðgerðir sem skýrslan gerir ráð fyrir eru að mati margra gesta umhverfisnefndar ófullnægjandi. Áætlanir um endurheimt votlendis í stað þess er tapaðist færu allar fram á láglendi, fjarri Eyjabökkum. Þá er bent á að ekki liggja fyrir nægilegar rannsóknir á votlendi sem hér hefur verið endurheimt síðustu ár svo að ekki er hægt að draga neina ályktun á grundvelli þeirra tilrauna. Í sumum tilfellum er ekki getið um neinar mótvægisaðgerðir. Til dæmis er ekki getið um frágang haugstæða með tilliti til landmótunar og annarra þátta þar að lútandi.
    Rannsóknir á öldurofi og foki virðast ófullnægjandi að mati gesta umhverfisnefndar. Ekki er hægt að fallast á að líkan sem skýrsluhöfundar notast við frá Iowa State University gagnist við íslenskar aðstæður, auk þess sem landhalli við lónið (bæði austan og vestan megin) yrði á stórum svæðum meiri en 7%. Ekki er vitnað í íslenskar rannsóknir sem þó eru til hjá Landsvirkjun um strandrof við Blöndulón, en þær sýna fram á mikil merki um fok (50 . 55 m tunga sem huldi gróður 1998). Þá eru skýrsluhöfundar gagnrýndir fyrir að miða við meðalvatnshæð þegar mögulegt fok úr lónsbotninum er metið, nauðsynlegt er að ganga út frá hæstu/lægstu vatnsstöðu. Á það er bent að í þurru árferði standi 20–30 km² af lónsbotni ofan vatnsborðs og fráleitt sé að telja að ekki rjúki leir úr því svæði. Þá liggja ekki fyrir nægilega miklar rannsóknir á grunnvatnsstöðu til þess að hægt sé að fullyrða að grunnvatnsborð hækki eftir að lónið verður tekið í notkun. Einnig er bent á að þurru áttirnar á svæðinu eru suðlægar og kemur leirinn þar af leiðandi til með að rjúka til norðurs yfir gróið land með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Um þetta er ekki getið í skýrslu Landsvirkjunar.

5. Áhrif á dýralíf.
    Dýralífsþætti skýrslunnar virðist í fjölmörgum atriðum áfátt. Mat færustu sérfræðinga á sviði hreindýrarannsókna er að ekki liggi fyrir nægilegar rannsóknir á fari og hegðun hreindýra á svæðinu til að hægt sé að draga þær ályktanir sem skýrsluhöfundar gera. Til marks um það er skýrsla sem lögð var fyrir umhverfisnefnd: Environmental impacts of the Fljótsdalur and Kárahnjúkar hydro-electric power supply to aluminium smelter by Norsk Hydro in Iceland – preliminary asessment of impacts on reindeer. Í henni kemur meðal annars fram að möguleg áhrif virkjunarinnar á íslenska hreindýrastofninn geti orðið mjög alvarleg. Hreindýrin hafi áður verið dreifð um landið en svæðið umhverfis Snæfell sé eini staðurinn þar sem þau hafa þraukað. Það bendi til þess að náttúruleg skilyrði þess henti heindýrum umfram önnur svæði. Afleiðingar þess að svipta dýrin þeim gróðri sem Eyjabakkasvæðið gefur síðsumars geti leitt til þess að kýrnar nái ekki að fita sig nægilega mikið fyrir veturinn til að þær geti alið heilbrigða kálfa. Þannig kann kálfadauði að aukast til muna og á endanum kann það að hafa umtalsverð áhrif á viðkomu stofnsins. Ýmislegt sem kemur fram í þessari skýrslu þarfnast nánari athugunar áður en ákveðið er að svipta hreindýrin því landsvæði sem hefur veitt þeim lífsbjörg hingað til.
    Mikils misræmis gætir víða í skýrslu Landsvirkjunar milli meginmáls og samantektar í köflum. Dæmi um slíkt misræmi er að finna í kafla um áhrif virkjunar á smádýralíf. Á bls. 79 er þess getið að þrátt fyrir erfiðar aðstæður sumarið 1979, þegar voraði óvenju seint, hafi kannanir á smádýralífi í gróðurlendi Eyjabakkasvæðisins leitt í ljós að furðumargar tegundir lifi á svæðinu, 120 tegundir skordýra, níu tegundir áttfætla og þrjár tegundir lindýra, þrjár tegundir liðorma auk nokkurra þráðorma. Í samantekt kaflans (bls. 80) segir hins vegar að smádýralíf sé fábreytt og á engan hátt einstætt.

6. Aðrir kostir ekki metnir.
    Nokkrar af alvarlegustu aðfinnslunum varðandi skýrslu Landsvirkjunar lúta að virkjunarmöguleikum sem þar er getið. Þeir valkostir sem skýrslan getur um eru settir fram á þann hátt að erfitt er að átta sig á ólíku gildi þeirra, kostnaði eða umhverfisáhrifum. Skýrsluhöfundar virðast afgreiða þá alla sem óframkvæmanlega, eða verri en þann sem útheimtir 43 km² miðlunarlón á Eyjabökkum.
    Þegar framkvæmd á borð við þessa stendur fyrir dyrum hlýtur að teljast skynsamlegt að vega og meta kostina á eins vandaðan hátt og framast er unnt svo að um raunverulegt val milli ólíkra kosta geti verið að ræða. Varðandi þá staðreynd að fyrsti áfangi álvers í Reyðarfirði útheimtir meiri orku (40 MW) en Fljótsdalsvirkjun getur látið í té, eins og hún er hönnuð í þeim tillögum sem liggja fyrir, hefði verið skynsamlegt að meta kosti Hraunaveitu betur áður en framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun hefjast. Sú virkjunartilhögun hefði ekki í för með sér miklu meiri umhverfisskaða en hlýst af þeirri tilhögun sem nú er til umræðu en gæti aukið afl virkjunarinnar umtalsvert. Með því móti væri hægt að komast hjá virkjun í Bjarnarflagi sem nú er gert ráð fyrir að afli þeirrar viðbótarorku sem þörf er á til að uppfylla orkuþörf fyrsta áfanga álversins.

7. Skammsýni í nýtingu náttúruauðlinda.
    Markmið með mati á umhverfisáhrifum er meðal annars að meta líkleg áhrif framkvæmda á náttúruauðlindir. Helstu orkulindir Íslendinga eru takmarkaðar. Talið hefur verið að fjárhagslega geti verið hagkvæmt að virkja og framleiða sem svarar 30.000 GWst./ári (30 teravattstundir) af raforku úr vatnsaflinu og um 20.000 GWst./ári með virkjun jarðvarma eða samtals um 50.000 GWst./ári (50 teravattstundir). Frá þessum virkjunarkostum er skynsamlegt að draga að minnsta kosti helming orkunnar, þ.e. um 25.000 GWst./ári, vegna verndarsjónarmiða. Nú þegar eru framleiddar um 6.500 GWst./ári eða um fjórðungur af því sem gæti verið til ráðstöfunar í heild. Sú tala á eftir að hækka í um 9.000 GWst./ári á næstu árum vegna fyrri skuldbindinga um orkusölu til stóriðju (Ísal, Norðurál og Íslenska járnblendifélagið). Miðað við framangreindar forsendur standa þá eftir um 16.000 GWst./ári (25.000 – 9.000 = 16.000 GWst./ári). Orkuspárnefnd gerir ráð fyrir 2% aukningu almennrar raforkunotkunar fram til 2050 en það svarar til viðbótar sem nemur um 5.500 GWst./ári frá aldamótum talið. Eftir eru þá aðeins 10.500 GWst./ári sem nægja tæpast til að framleiða vetni eða annað vistvænt eldsneyti sem komið gæti í stað innflutts jarðefnaeldsneytis miðað við núverandi notkun olíuafurða. Mun ekki veita af talsverðri beislun vinds að auki til raforkuframleiðslu til að ná því markmiði að gera vetnissamfélag hérlendis að veruleika á komandi öld, sbr. minnisblað frá Orkustofnun (Eldsneytisnotkun Íslendinga 1996) með þingsályktunartillögu um sjálfbæra orkustefnu, 13. mál á 125. löggjafarþingi.
    Af þessu sést hversu andstætt það væri sjálfbærri orkustefnu að ráðstafa meiri orku til hefðbundinnar stóriðju en þegar er orðið, hvað þá skammti upp á 6.700 GWst./ári sem þyrfti fyrir 480 þús. tonna álverksmiðju.
    Til skammsýnnar notkunar náttúruauðlinda verður einnig í mörgum tilvikum að telja ráðstöfun lands undir miðlunarlón og raforkumannvirki sem setja vaxandi mark sitt á lítt snortin svæði á hálendinu. Ekki síst á það við um fyrirhugaðar virkjanir norðan Vatnajökuls í þágu þeirrar álverksmiðju sem hér um ræðir.

8. Áhrif á byggð og samfélag.
    Þegar litið er til íbúafjölda á Mið-Austurlandi sætir furðu að mönnum skuli detta í hug að setja þar niður slíkt stóriðjuver. Fullbyggt kallar það á 720 ársverk í sjálfri verksmiðjunni að því er fram kemur í frummatsskýrslu um álver á Reyðarfirði (október 1999). Jafnvel fyrsti áfangi verksmiðjunnar, sem talað er um að skapi 270 heilsársstörf, er meira en æskilegt er að safna á einn vinnustað í svo fámennu samfélagi. Draga verður í efa að svæðið rísi undir því að veita fyrirtæki sem þessu viðunandi þjónustu sem þá yrði í miklum mæli aðkeypt. Yrði það með öðru íþyngjandi fyrir samkeppnisstöðu verksmiðjunnar.
    Þau gögn sem fylgja frummatsskýrslu um þessi efni eru ótrúlega rýr og virðast fyrst og fremst tekin saman með það í huga að sannfæra höfunda og stjórnmálamenn um að óhætt sé að staðsetja fyrirtækið í landshlutanum. Er þá viðamesta plaggið, skýrsla Nýsis hf. o.fl., Athugun á samfélagslegum áhrifum álvers í Reyðarfirði (fskj. A15), ekki undanskilið. Athyglisvert er það sem segir í fylgiskjalinu: „Skýrsla þessi var að mestu unnin í lok ársins 1997 og ársbyrjun 1998, miðað við aðrar forsendur um stærð álversins og framkvæmdatíma en nú eru uppi. Skýrslan var endurskoðuð seinni hluta sumars 1999 miðað við breyttar forsendur. Ekki reyndust á reiðum höndum nýjar upplýsingar nema um vissa efnisþætti og hefði það kostað mikla vinnu og seinkað verkinu verulega ef ákveðið hefði verið að endurvinna allan upplýsingagrunn verksins“ (bls. 8).
    Eftirtektarverð eru viðhorf og ábendingar sem fram koma í greinargerð frá þróunarsviði Byggðastofnunar, dags. 26. júlí 1999 (fskj. B2). Hafði stofnunin nánast með engum fyrirvara verið beðin um ábendingar varðandi byggðaþætti umhverfismats. Í umsögninni koma þó fram margar ábendingar um þýðingarmikla þætti þar sem ósvarað er mikilvægum spurningum. Einnig er þar bent á mörg tilefni til rannsókna vegna fyrirhugaðra framkvæmda sem varða meðal annars áhrif á atvinnugreinar sem fyrir eru og þætti sem geta varðað samkeppnisstöðu álverksmiðju miklu.
    Til dæmis má vitna til eftirfarandi ummæla í greinargerð Byggðastofnunar: „Í heild má segja að búsetuþættirnir séu ekki hagstæðir álverinu, en há laun geti þar vegið á móti. Þar þarf meðal annars að meta samsetningu starfa, þ.e. fjölda fólks í ýmsum sérfræðistörfum, fagstörfum og ófaglærðum störfum.“ Þótt gert sé ráð fyrir því í umsögn Byggðastofnunar að áhrif álversins geti orðið góð fyrir atvinnulíf á svæðinu telur stofnunin erfitt að segja til um heildaráhrifin. Ekki verður séð af frummatsskýrslu nokkur viðbrögð við þeirri umsögn stofnunarinnar. Er það ámælisvert í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem hér geta verið í húfi.
    Í skýrslu Nýsis kemur fram að þrátt fyrir að tekjur í útgerðarbæjum eins og Eskifirði og Neskaupstað séu töluvert yfir landsmeðaltali og þar sé góð afkoma, ekkert atvinnuleysi og þurft hafi að flytja að vinnuafl hefur fólki fækkað þar síðustu fimm árin. „Á árunum 1998 og 1999 hefur í auknum mæli farið að bera á vinnuaflsskorti á Mið-Austurlandi. Í september 1999 er talið að það vanti fólk í 100–200 störf.“
    Í skýrslu Nýsis kemur fram að „á vinnumarkaði á Mið-Austurlandi [sé] munur á fjölda karla og kvenna í öllum aldurshópum. Konur á aldrinum 15–69 ára voru 2.688 1. janúar 1999 en karlar á sama aldri 3.021 eða 12% fleiri“ (bls. 21). Einnig segir: „Ungar konur virðast sjá enn færri náms- og starfsmöguleika í sinni heimabyggð og flytja á brott í enn meiri mæli en ungir karlmenn“ (bls. 36). Augljóst er að álverksmiðja mun ekki bæta úr þessari kynbundnu misskiptingu nema síður sé, enda hafa höfundar skýrslunnar af því nokkrar áhyggjur og tala um að huga þurfi að því „hvernig hægt [sé] að laða ungar konur af svæðinu til starfa í álverinu“.
    Staðhæfingar í frummatsskýrslunni og fylgigögnum með henni um að með tilkomu álverksmiðjunnar muni fólki á Mið-Austurlandi fjölga um 2.500 umfram það sem yrði „að óbreyttri þróun“ eru fjarstæðukenndar og ekki studdar nægum rökum. Þjóðhagsstofnun gefur sér í minnisblaði um staðbundin áhrif af fyrsta áfanga verksmiðjunnar (fskj. A11) að engar breytingar verði á „mannaflaþörf þess atvinnulífs sem fyrir [sé]“ og að reiknað sé með „að staðbundin áhrif verði hrein viðbót á svæðinu. Því [muni 120 þús. tonna] álver leiða af sér um 440 ný störf samtals og er ekki reiknað með því að álverið ryðji burt öðrum atvinnugreinum.“ Í langri skýrslu Nýsis er sáralítið að finna um áhrif álverksmiðjunnar og byggingarframkvæmda við verksmiðju og virkjanir á það atvinnulíf sem fyrir er, hvað þá að reynt sé að fjalla um aðra þróunarkosti. Er þetta stór galli á frummatsskýrslunni.
    Ein aðaláhættan með stóriðjuframkvæmdum og rekstri álverksmiðju er áhrifin á samfélagið á Mið-Austurlandi, atvinnulíf sem þar er fyrir og á mögulega þróunarkosti sem þar væru til staðar án risaálverksmiðju. Að mati 1. minni hluta eru líkur á að vinnuafl við stóriðjuframkvæmdirnar komi einna helst úr fyrirtækjum á svæðinu sem lent gætu í miklum erfiðleikum af þeim sökum. Fráleitt er að reikna vinnuaflsþörf álbræðslunnar sem hreina viðbót við fjölda starfandi fólks. Svo gæti farið að stóriðjuframkvæmdirnar drægju úr atvinnustarfsemi sem fyrir er og að nettófólksfjöldaáhrif yrðu langtum minni en skýrsluhöfundar gefa sér. Hafa ber í huga að eftir að rekstur fyrsta áfanga álverksmiðju hæfist er gert ráð fyrir byggingarframkvæmdum við síðari áfanga verksmiðjunnar og tilheyrandi raforkumannvirki. Það mundi leiða til viðvarandi spennuástands á vinnumarkaði meðan á þeim framkvæmdum stæði, þ.e. í einn til tvo áratugi, og yrðu áhrifin vafalítið slæm á marga þætti hefðbundins atvinnurekstrar á svæðinu og gætu gert nýsköpunarviðleitni í öðrum greinum erfitt um vik. Í þessu sambandi má benda á áhrif virkjunarframkvæmda á Suðurlandi fyrr á árum sem ekki skiluðu landshlutanum miklu.
    Í skýrslu Nýsis er aðaláherslan lögð á að sýna fram á að unnt verði að manna álverksmiðjuna. Lítið er vikið að öðrum atvinnugreinum en þó talið líklegt að ýmsir sem nú starfa í sjávarútvegi, svo og bændur og starfsfólk í ferðaþjónustu, muni leita eftir vinnu í verksmiðjunni eða afleiddum störfum. Hins vegar er lítið rætt um þessi áhrif og erfiðleika sem af gætu hlotist fyrir atvinnulíf sem fyrir er og er sú umfjöllun allsendis ófullnægjandi í slíkri skýrslu.
    Ekki eru síður brotalamir í hugleiðingum skýrsluhöfunda um hverjir sæktust eftir að starfa í verksmiðjunni. Staðhæft er að þess megi vænta að ungt fólk leiti þar eftir störfum, þar á meðal ungt fólk sem hefur aflað sér góðrar menntunar. Fyrir slíkum fullyrðingum eru ekki færð nein haldbær rök. Álverksmiðjur eru einhæfir og lítt aðlaðandi vinnustaðir ef frá eru kannski talin skrifstofu- og stjórnunarstörf. Allt tal um slíkar verksmiðjur sem hátækniiðnað er fjarstæðukennt. Skýrsluhöfundar gera því líka skóna að „heimafólk“ sem leita muni starfa í verksmiðjunni sé öðru fremur „fólk á svæðinu sem hefur stopula vinnu og/eða lágar tekjur.“ Þar segir enn fremur: „Álverið mun því draga til sín starfsfólk sem nú er með stopula vinnu en gæti hugsanlega haldið áfram með núverandi starfsemi í aukavinnu ef vinnufyrirkomulag hentar“ (bls. 47). Allsendis er óvíst að ungt og vel menntað fólk leiti starfa í verksmiðjunni að einhverju marki. Samanburður við fyrirtæki eins og Ísal á fyrstu áratugum þeirrar verksmiðju er ekki marktækur. Samfélagsaðstæður voru þá allt aðrar, fyrir utan að aðsóknarsvæði þess fyrirtækis er ósambærilegt við Mið-Austurland. Á hinn bóginn hefur skortur á hæfu starfsfólki verið vaxandi vandamál hjá Ísal síðustu ár.
    Ekki er líklegt að skýrsluhöfundar hafi hitt naglann á höfuðið þegar þeir gera því skóna að hátt í 200 „brottfluttir Austfirðingar, einkum fólk á aldrinum 18–30 ára“ muni snúa „heim“ og ráðast til starfa í verksmiðjunni. Síðar segir: „Ungar konur frá svæðinu sem giftar eru mönnum annars staðar frá og eiga ef til vill lítil börn mundu hafa áhuga á að snúa til baka ef starf við hæfi býðst fyrir eiginmanninn og aðrir í fjölskyldunni eru búsettir á svæðinu.“ Þetta er sýnishorn af kynlegum hugarburði sem virðist fram reiddur til þess eins að dæmið gangi upp. Sama er uppi á teningnum þegar leiddar eru líkur að því „að einhverjir Íslendingar sem búsettir eru erlendis hafi áhuga á að snúa til fósturjarðarinnar einkum þeir sem hafa menntun og starfsreynslu sem nýtist í starfi í álveri“ (bls. 50). Hitt er líklegra að fylla þurfi upp í störf í álverksmiðjunni, ef byggð verður, með innfluttu vinnuafli ekki ósvipað því sem gerst hefur í fiskvinnslu víða á landsbyggðinni að undanförnu.
    Veikleikar frummatsskýrslunnar í flestu er varðar samfélagsleg áhrif stóriðjuframkvæmdanna eru slíkir að lítið sem ekkert er hægt að byggja á þeim hluta skýrslunnar. Nánast engin viðleitni er til að bera saman og greina aðstæður á Mið-Austurlandi annars vegar og á Faxaflóasvæðinu hins vegar með tilliti til áliðnaðar.
    Látið er að því liggja að skýrsluhöfundar hafi skyggnst um erlendis en ekki er að finna lýsingu og lærdóma af því í framlögðum gögnum. Má þó víða finna dæmi um dapra reynslu af fámennum stóriðjusamfélögum, sbr. skýrslu staðarvalsnefndar iðnaðarráðuneytis um iðnrekstur: Staðarval fyrir orkufrekan iðnað. Forval. (Mars 1983, bls. 9–10 og 16–17.) Þar er rakin reynsla Norðmanna. Einnig kemur fram í þessari skýrslu að Reyðarfjarðarsvæðið geti hentað fyrir minni háttar og miðlungsstórt iðjuver en ekki stóriðjuver (sjá töflu 14, heildaryfirlit).
    Ekki verður fallist á það sem segir um skýrslu Nýsis í frummatsskýrslu: „Úttektin sýnir að tiltölulega auðvelt verður að manna álverið með því að nýta framkvæmdatímabilið til undirbúnings.“ Slíkt er þvert á móti líklegt til að verða þung þraut og stefna rekstri fyrirtækisins í mikla tvísýnu frá byrjun.
    Niðurstaða 1. minni hluta er því að umfjöllun um samfélagsleg áhrif í skýrslu Nýsis hf. sé lítt marktæk og allsendis ófullnægjandi.

9. Veðurfarsathuganir og loftdreifingarspá.
    Í frummatsskýrslu er fjallað um staðarval fyrir verksmiðjuna í Reyðarfirði en einnig er rætt um Keilisnes sem valkost (bls. 25–27). Sú umfjöllun er hvorki ítarleg né sannfærandi. Ljóst er að ráðandi þáttur í staðarvalinu er að nýta vatnsafl jökulánna norðan Vatnajökuls í þágu verksmiðjunnar. Látið er að því liggja að ekki þurfi að koma á nýrri tengingu við raforkukerfi landsins með raflínu „í fyrsta áfanga“. Ekkert er frekar um það efni fjallað með tilliti til síðari áfanga og þarf að upplýsa hvort gert er ráð fyrir lagningu raflínu yfir hálendið í tengslum við síðari áfanga verksmiðjunnar.
    Svæðið við Hraun er valið undir verksmiðjulóð og hafnargerð. Gerður er lítils háttar samanburður á því svæði og svæðinu á Leirum inn af fjarðarbotni. Hugmyndin frá 1990 um að reisa álverksmiðju þar var frá upphafi hrein fjarstæða. Því má segja að samanburðurinn á þessum svæðum sé ástæðulaus. Í frummatsskýrslu segir: „Sýnt hefur verið fram á það með veðurmælingum að loftdreifingarskilyrði við Hraun eru allt önnur og betri en í botni Reyðarfjarðar. Kauptúnið verður langt utan við þynningarsvæði álversins.“ Vegalengdin frá verksmiðjunni að kauptúni er ekki nema um 5 km og ríkjandi vindáttir eru sagðar vera inn og út fjörðinn þegar ekki er staðviðri.
    Fyrirliggjandi veðurfarsathuganir gefa til kynna að hægviðri eða mjög hægur vindur sé ríkjandi, „undir 3 m/sek. í rúmlega helmingi tilvika á árunum 1983–1998, en í tæplega þremur fjórðu tilvika undir 5 m/sek.“ (bls. 36–37). Er ekki að undra að Veðurstofa Íslands bendi í bréfi frá 6. ágúst 1999 (fskj. B22) á „veðurfarslega sérstöðu Austfjarða þar sem kaldur Austur-Íslandsstraumur kælir oft neðsta hluta austlægra og suðaustlægra vinda sem af hafi [berist].“ Þar segir og: „Veldur þetta tíðum hitahvörfum við jörð eða lágt í lofti og miklum stöðugleika loftsins. Eins hefur Veðurstofan oft bent á hina landfræðilegu staðreynd að Reyðarfjörður er umluktur um 1.000 m háum fjöllum sem móta loftstreymi og auka líkur á hægviðri. Allar mælingar okkar staðfesta þessa sérstöðu og þær mælingar á stöðugleika lofts sem gerðar hafa verið fyrst með mælingum á Mjóeyri í Eskifirði upp undir Oddsskarð og nú síðast mælingar í mastrinu að Sómastaðagerði sýna mikla tíðni jarðlægra hitahvarfa. Þar sem mastrið er aðeins tæplega 40 m hátt nægir það ekki til að mæla hitahvörf hærra uppi, en leiða má að því líkur að tíðni hærri hitahvarfa sé talsverð, samanber mælingarnar upp frá Eskifirði. Tíðni hægviðris er einnig mjög mikil samkvæmt mælingum að Kollaleiru, en þar reyndist vindhraði í 2 m hæð vera undir 3 m/sek. í rúmlega helmingi tilvika á árunum 1983–1998, en í tæplega þremur fjórðu tilvika undir 5 m/sek. Þetta tíða hægvirði er einnig staðfest með öðrum mælingum. Í 11 m hæð á Leirum mældist vindhraði t.d. 5 m/sek. í 59% tilvika.“
    Af þessu yfirliti Veðurstofunnar má álykta að öllu óhagstæðari staðsetningu mengandi iðnaðar sé vart að finna hérlendis en einmitt á Reyðarfirði. Þá vekur athygli hvað veðurathuganir á iðnaðarlóðinni ná yfir stuttan tíma eða aðeins í eitt ár, sem er auðvitað allt of stuttur tími til að fá marktækar niðurstöður sem loftdreifingarspá má byggja á. Kemur óvissan berlega í ljós þegar niðurstöður stöðugleikamælinga á þessum tíma (1998–99) eru bornar saman við mælingar annars staðar í um 200 m fjarlægð á tímabilinu 1982–84. „Mælingar nú sýna minni stöðugleika lofts og því eru dreifingarskilyrði útblástursefna betri en áður var talið“ stendur í frummatsskýrslu (bls. 62). Loftdreifingarspá sem víðtækar ályktanir eru dregnar af í frummatsskýrslu er byggð á allsendis ófullnægjandi forsendum og geta ekki talist marktækar.
    Athygli vekur að aðeins eru gerðir útreikningar fyrir loftdreifingu svifryks frá 480 þús. tonna álveri með vothreinsun. Eru niðurstöður sagðar langt undir viðmiðunarmörkum. „Því má gera ráð fyrir að svifryk sé ekki vandamál fyrir fyrri áfanga“ (bls. 66). Rétt er að benda á að ekki er gert ráð fyrir vothreinsun í fyrsta áfanga verksmiðjunnar og því hefði verið nauðsynlegt að gera útreikninga fyrir dreifingu svifryks frá honum sérstaklega. Þá kemur einnig fram að reglur Evrópusambandsins sem taka gildi 1. janúar 2000 gera ráð fyrir helmingi strangari kröfum um loftgæði en hér er miðað við. Sýnist full þörf á að athuga þetta misræmi sérstaklega og miða við loftgæðakröfur samkvæmt ESB-reglum. Undirritaður hefur margoft bent á að löngu sé tímabært að endurskoða íslensku mengunarvarnarreglugerðina frá 1994. Í tilskipun Evrópusambandsins, 1999/30/EC, eru hertar kröfur um styrk brennisteinsdíoxíðs í lofti. Munu ákvæði hennar væntanlega verða innleidd hérlendis á næstunni.

10. Ímynd Austurlands.
    Ekki fer hjá því að tilkoma risaálverksmiðju við Reyðarfjörð og virkjarnir sem henni mundu fylgja hefði afar slæm áhrif á ímynd Austurlands, bæði fyrir komandi kynslóðir og ferðamenn sem þangað leggja leið sína. Í stað friðsælla sjávarbyggða og sveita með hefðbundnum búskap mun Mið-Austurland óhjákvæmilega fá á sig stimpil stóriðju sem í augum flestra mun rýra upplifun af náttúru svæðisins og dvöl þar og mun verða til þess að beina ferðamönnum annað. Virkjanir í þágu verksmiðjunnar reistar á lítt snortnum víðernum norðan Vatnajökuls bæta síðan gráu ofan á svart.
    Stóriðjuáform þau sem hér um ræðir munu hafa mjög slæm áhrif á þróun ferðaþjónustu allt frá upphafi og til framtíðar. Álverksmiðja við Reyðarfjörð jafngildir gengisfalli alls Mið- Austurlands þar sem að óbreyttu eru góðir möguleikar á að efla ferðaþjónustu sem atvinnugrein. Sama gildir um ímynd matvælaiðnaðar á svæðinu.
    Niðurstaðan er sú að heildstætt mat skuli fara fram um alla framkvæmdina: allar virkjanir, þrjá áfanga álvers, allar línulagnir, allar vegaframkvæmdir, brýr, hafnir o.s.frv. Nú er tækifærið, fyrst álverið hefur verið úrskurðað í frekara mat.

11. Efnahagsleg áhrif.
    Vitnað er til greinar Sigurðar Jóhannessonar hagfræðings í Frjálsri verslun, 9. tbl. 1999:
    „Í öllu talinu um náttúruspjöll á Eyjabökkum kemur stöku sinnum fyrir að spurt sé hvort virkjunin borgi sig — þó að flestir gangi að því sem vísu. Ólafur Hannibalsson bar þessa spurningu upp á Alþingi í fyrravetur. Hann lagði til að nýjar virkjanir færu ekki einungis í umhverfismat (eins og skylt er um þær sem ekki höfðu leyfi 1994) heldur yrði arðsemi þeirra einnig könnuð. Sumir furða sig kannski á því að yfirleitt þurfi að flytja þetta mál. Virkjanir eru dýrar og mikilvægt að vel sé að þeim staðið. En einhverra hluta vegna virðast vangaveltur um arðsemi þeirra ekki halda vöku fyrir Íslendingum. Skammt er síðan iðnaðarráðuneytið kynnti tölur um gróða af fyrirhuguðu álveri á Reyðarfirði. Ekki var vikið orði að því hvort hagnaður yrði af virkjun fyrir það. Mætti þó halda að þær upplýsingar ættu meira erindi við almenning, sem mun eiga virkjunina, en ekki álverið. Ekki vantar að margir þykist vita útkomuna á arðsemismatinu en þeir hafa yfirleitt ekki átt við tölur heldur eru þeir að taka pólitíska afstöðu. Það er í huga margra einn af hornsteinum sjálfstæðisstefnunnar að virkjanir og álver færi landsmönnum auð. Umhverfisverndarmenn segja lítið um arðsemi virkjana, enda kannski hafnir yfir slíkan hégóma. Oftast má þó skilja á málflutningi þeirra að í virkjanamálunum togist á spjöll á náttúrunni og peningalegur gróði. Hið viðtekna viðhorf er að ekki þurfi að skoða arðsemishliðina: „Við vitum þetta.“ Frumvarpi um arðsemismat var stungið undir stól án umræðna. Flutningsmaður hlaut sömu örlög nokkrum mánuðum síðar.

Virkjanir og pýramídar.
    Í fyrra fékk Landsvirkjun dr. Pál Harðarson hagfræðing til þess að meta þjóðhagslegt hagræði af stóriðju frá upphafi. Í skýrslu hans má sjá ýmislegt sem greinir þjóðhagsmat frá venjulegu arðsemismati. Samkvæmt henni eru auknar tekjur í efnahagslægðum meginávinningur landsmanna af stóriðju. Talsvert atvinnuleysi var í landinu þegar Búrfellsvirkjun var reist og óvíst að önnur vinna fengist. Skattar af stóriðju eru taldir henni til tekna vegna þess að í hana var lagt erlent fjármagn, sem ella hefði ekki komið til landsins. Laun eru hærri í stóriðju en gengur og gerist. Skýrsluhöfundur núvirðir ávinning og útgjöld miðað við 3,5% og 4% vexti. Ávöxtunarkrafan ræðst af meðalvöxtum á lánum Landsvirkjunar á árunum 1966–1997, en þeir voru 3,9%. Út kemur að stóriðja hafi fært Landsvirkjun 6 milljarða kr. hagnað — miðað við 4% vexti — en alls hafi Íslendingar grætt 92 milljarða kr. á henni. Stóriðjufyrirtækin borguðu aðeins 68 milljarða kr. fyrir rafmagnið á þessum tíma. Samkvæmt skýrslunni hefðu Íslendingar því haft hag af stóriðju þó að þeir hefðu borgað með orkunni til hennar. Rök eru fyrir öllu sem tínt er til í skýrslu Landsvirkjunar, en á hinn bóginn má segja að æði margar fjárfestingar, sem ekki væru taldar góðar að öðrum kosti, mundu borga sig ef reiknað væri svona. Eftir að Keynes kom fram með hugmyndir sínar um eftirspurnarstjórn fann einn spekingurinn út að smíði pýramídanna í Egyptalandi hefði verið þjóðhagslega hagkvæm á krepputímum þar í landi. Þetta kann að þykja öfgakennt dæmi, en það sýnir að stutt er í ógöngur þegar ein tegund fjárfestinga er tekin öðrum tökum en almennt tíðkast. Hvers vegna ætti að gera fjárfestingum ríkisins hærra undir höfði en framkvæmdum við Kringluna? Ríkið getur ýtt undir fjárfestingar með almennum aðgerðum — til dæmis með því að lækka skatta — og látið ráðast hver nýtir þau færi sem þannig bjóðast. Eftir nokkur ár þarf Landsvirkjun að keppa við önnur fyrirtæki í rafmagnssölu. Af þeirri ástæðu verður að telja sérlega hæpið að hún slái af þeim arðsemiskröfum sem gerðar eru á frjálsum markaði.
    Hjá venjulegum fyrirtækjum lítur dæmið allt öðru vísi út en í þjóðhagsmatinu hér að framan. Þau borga laun fyrir verk sem unnin eru og greiða skatta án þess að sérstök umbun komi á móti. Þau njóta ekki heldur ábyrgðar ríkis eða sveitarfélaga á lánum (eigendaábyrgð á lánum Landsvirkjunar er í raun styrkur við fyrirtækið þó að lánin falli ekki á eigendurna). 1 Þá er á frjálsum markaði krafist meiri vaxta fyrir áhættufé en lánsfé.
    Í grein sem birtist í Vísbendingu 7. ágúst 1998 komst ég að því, að miðað við 6% vexti næmi tap á orkusölu Landsvirkjunar til stóriðju 15–20 milljörðum kr. (og er þá reynt að halda öðrum forsendum í Landsvirkjunarskýrslunni). Í Morgunblaðsgrein 4. september 1999 fær Þorsteinn Siglaugsson út tæplega 26 milljarða kr. tap miðað við 7,2% vexti. Til þess að sjá heildartap hins opinbera af stóriðju verður að bæta við þessar tölur að minnsta kosti 10 milljarða kr. ríkisframlagi til járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga.
    Í þessum tölum er ekki reiknað með afgjaldi af landi. Söluverð á hálendisjörðum í nágrenni Reykjavíkur undanfarin ár bendir til þess að land undir virkjanir fyrir stóriðju hefði kostað á annan milljarð króna ef þurft hefði að kaupa það. 2 En verðmæti óspilltrar náttúru er meira. Ásýnd landsins breytist þegar virkjað er, og fyrir slíkt er yfirleitt ekki greitt á fasteignamarkaði. Oft er erfitt að taka það aftur sem gert er. Það mætti til dæmis hugsa sér að hver landsmaður fyrir sig segði hvers virði Eyjabakkasvæðið væri honum og tölurnar væru síðan lagðar saman. Gallinn við þá aðferð er að ekki er víst að allir vilji í alvöru reiða fram þá fjárhæð sem þeir nefna. En landið er að minnsta kosti ekki verðlaust. Jarðrask þarf að meta til fjár og bæta því við orkureikning stóriðju og annarra rafmagnsnotenda.
    Í tölunum hér að framan er ekki heldur tekið inn tjón af flúor, koltvíildi eða annarri mengun af stóriðju. Kyoto-samkomulagið, sem gerir ráð fyrir að hvert land beri ábyrgð á þeim gróðurhúsaáhrifum sem þaðan stafa, hafði ekki litið dagsins ljós þegar Íslendingar byrjuðu að reisa virkjanir fyrir álver. Ef Íslendingar tækju á sig tjón af koltvísýringsmengun fyrri ára væru þeir að gera það af frjálsum vilja. Hins vegar eru allar líkur á að landsmenn beri á næstu árum kostnað af gróðurhúsaáhrifum héðan. Þau stafa auðvitað ekki aðeins af stóriðju heldur einnig öðrum verksmiðjurekstri, bílum, olíukyndingu og fleira.

Óspillt náttúra verður meira virði.
    Harðir virkjanasinnar taka fram að þeir vilji ekki virkja á Þingvöllum. Ætli þeir átti sig á að í því felst breyting frá því viðhorfi sem ríkti fyrir nokkrum áratugum? Björn Th. Björnsson segir um Sogsvirkjun í Þingvallabók sinni: „Hins vegar urðu Þingvellir að gjalda æði dýrt fyrir rafmagnið sem öðrum var ætlað, því að með byggingu orkuversins við Efrafall var yfirborð vatnsins hækkað svo, eða um 80 sm, að veruleg röskun hefur orðið á lífríki þess, en hólmar, leirur og tangar í þjóðgarðinum sjálfum farið undir vatn. Glöggt má merkja þetta af rennsli Öxarár. Áður rann hún allstríð fram Þingvöllinn og milli harðbakka, en nú breiðir hún úr sér móti fyrirstöðu vatnsins og myndar svakka á bæði borð, inn undir búðastæðin að vestan og inn undir kirkjugarð og túnið að austan.“ 3 Ekki er þetta einsdæmi, því að elsti þingstaður landsins, þar sem Reykvíkingar og nágrannar þeirra gerðu út um mál sín á fyrstu öldum byggðar, fór að hluta á kaf þegar reist var stífla við útfall Elliðavatns fyrir 1930. Ef marka má viðbrögð við ráðgerðri virkjun á Eyjabökkum má telja ólíklegt að slíkt rask yrði látið óátalið nú. Forgangsröðin breytist þegar efni vaxa, menn kunna ekki aðeins að meta fæði, ljós og hita, heldur líka „munað“ á borð við óspillta náttúru. Ef að líkum lætur heldur vegur hennar áfram að vaxa á komandi áratugum og öldum.

Arðsemi Fljótsdalsvirkjunar er torfundin.
    Hér eru tekin nokkur dæmi um það hvernig arðsemismat fyrir Fljótsdalsvirkjun gæti litið út. Aðalálitaefnið er hvaða ávöxtunarkröfu eigi að nota. Opinberar framkvæmdir í Bretlandi hafa verið núvirtar með 6% ávöxtunarkröfu, en Alþjóðabankinn gerði lengi kröfu um 7% arð til framkvæmda sem hann lánaði til. Einnig sést stundum 5% ávöxtunarkrafa. Krafan er vegið meðaltal af vöxtum af lánum sem í boði eru og óskum um ávöxtun eigin fjár. Óvissa um rafmagnssölu á seinni endingarárum Fljótsdalsvirkjunar, sem lesa má úr yfirlýsingum iðnaðarráðherra, ýtir ávöxtunarkröfunni upp á við. Engin ástæða er til að gera lítið úr þessari óvissu. Minna má á að árið 1991 var Blönduvirkjun fullbúin en enginn vissi hvað átti að gera við hana. Þá má nefna að Landsvirkjun tekur á sig töluverða áhættu með því að láta orkuverð sveiflast með verði á áli. Ef ríki og sveitarfélög taka ábyrgð á lánum fyrirtækisins verður að bæta við kostnaði þeirra af því.
    Hér er gert ráð fyrir að stofnkostnaður Fljótsdalsvirkjunar, spennistöðva, lína og annars sem henni fylgir sé 25 milljarðar kr. Í tölunni eru vextir á virkjunartíma. Hins vegar eru ekki taldir með 3 milljarðar kr. sem þegar hafa farið í rannsóknir og annan undirbúning. Þar sem búið er að eyða þessum peningum hafa þeir ekki áhrif á það hvort virkjað verður. 4 Landsvirkjun telur rekstrarkostnað 0,7% af stofnkostnaði vatnsaflsvirkjana á ári, en hærra hlutfall af línum og öðrum búnaði. Í dæmunum hér á eftir er rekstrarkostnaður 0,8% af heildarfjárfestingunni. Landsvirkjun afskrifar stíflur, veitur og önnur mannvirki á 60 árum en vélbúnað og spennistöðvar á 30 árum. Í dæmunum er miðað við 45 ára meðalafskriftatíma. Orkugeta Fljótsdalsvirkjunar er 1.250 GWst. á ári. Í fyrsta dæminu er miðað við 6% ávöxtunarkröfu og meðalverð á rafmagni til stóriðju árið 1998, en það var 88 aurar á kWst. Útkoman er að 10 milljarða kr. tap verði af fjárfestingunni, um 240 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu í Reykjavík (að ótöldum 3 milljörðum kr. sem þegar hefur verið varið í undirbúningskostnað). Rafmagnsverð til stóriðju þarf að hækka um tæp 60% frá meðalverði ársins 1998 ef virkjunin á að bera sig. Orkuverðið yrði þá 140 aurar á kWst. Ef undirbúningskostnaður er talinn með fer tapið í 13 milljarða kr. Orkuverð þarf að fara yfir 150 aura á kWst., til þess að fá inn fyrir honum líka.
    Til samanburðar er dæmið reiknað miðað við aðrar forsendur:
          Þegar miðað er við 5% ávöxtunarkröfu þarf rafmagnsverð að hækka um meira en 40% frá meðalverði 1998 — fara í 125 aura kWst. — til þess að koma fjárfestingunni upp í núll (og fara í tæplega 140 aura til að fá fyrir undirbúningskostnaði).
          Í þriðja dæminu er reiknað með aðeins 4% vöxtum, sem telja verður mjög lágt. Enn þarf verðið að hækka um tæpan fjórðung til þess að fjárfestingin komi út á sléttu. Verðið yrði þá 109 aurar á kWst. (og það þarf að fara yfir 120 aura til þess að fá fyrir undirbúningskostnaði).
    Ekkert mat hefur hér verið lagt á þann missi sem yrði að Eyjabökkum, fágætum gróðurreit í 650 m hæð. Hann er bónus ofan á peningaleg útgjöld af virkjuninni. Einnig verður að bæta við kostnaði af gróðurhúsaáhrifum af álverinu sem landsmenn munu bera. Miðað við að hvert tonn koltvísýrings sé metið á um þúsund krónur 5 er kostnaður af menguninni 4 milljarðar kr. við 4% vexti og 3 milljarðar kr. við 6% vexti (hugsanlegt er auðvitað að álverið sjálft greiði mengunargjald).
    Hér er alls ekki reynt að mála Fljótsdalsvirkjun dekkri litum en ástæða er til, heldur er gefin eins góð mynd og hægt er út frá þeim tölum sem fyrir liggja frá Landsvirkjun. Ef Fljótsdalsvirkjun er góður fjárfestingarkostur verður að gera ráð fyrir mun hærra raforkuverði frá stóriðju en fékkst á liðnu ári.
    Landsvirkjun hefur bent á það í auglýsingum að gróðurhúsaáhrif séu níu sinnum minni þegar ál er búið til með rafmagni úr vatnsaflsvirkjun en þegar kol eru notuð. Af þessum sökum er það hagsmunamál Íslendinga — og ekki síst Landsvirkjunar — að Kyoto-samkomulagið nái fram að ganga. Ef það gerist mun mengunargjald bætast ofan á verð á rafmagni úr kyndistöðvum. Búast má við að einhvers konar auðlindagjald leggist á íslenskt rafmagnsverð á næstu árum, en líkast til verður það miklu lægra en mengunargjaldið sem erlendir rafmagnsframleiðendur munu borga. Þetta styrkir samkeppnisstöðu íslenskrar raforku og ætti að vera landsmönnum hvatning til að flana ekki að neinu í rafmagnssölumálum, tíminn vinnur með þeim.

Mældu rétt …
    Þó að opinber arðsemisathugun hafi ekki verið gerð á Fljótsdalsvirkjun hafa Þjóðhagsstofnun og fleiri látið frá sér tölur um áhrif framkvæmdanna á hagvöxt. Í grein í Morgunblaðinu 24. nóvember 1998 gerði Tryggvi Felixson hagfræðingur og aðstoðarskátahöfðingi nokkrar kurteislegar athugasemdir við tölur sem Finnur Ingólfsson iðnaðarráðherra nefndi á fundi. Daginn eftir birtist í blaðinu bráðskemmtilegt svar ráðherrans sem sagði meðal annars: „Enn ber þó nokkuð á óvandaðri umfjöllun um orkufrekan iðnað. Ein slík grein birtist í Morgunblaðinu í gær þegar Tryggvi Felixson, embættismaður í þjónustu ríkisstjórnarinnar (leturbreyting mín), reynir að gera tölur mínar um þjóðhagsleg áhrif frekari stóriðjuframkvæmda tortryggilegar …“ Þetta var í fyrsta skipti af þremur í greininni sem Finnur minnti Tryggva á hjá hverjum hann starfaði. Tryggvi vann um þessar mundir í fjármálaráðuneytinu. Þetta lýsir þeim vanda sem þeim hagfræðingum er á höndum sem efast um hag af stóriðju- og virkjanaframkvæmdum. Ekki er nóg með að Þjóðhagsstofnun og ráðuneyti vinni hörðum höndum að því að koma upp stóriðju hér á landi. Bankarnir, þar sem helst er að finna hagfræðinga utan ríkisstofnana, eru nú komnir á kaf í undirbúning álvers á Reyðarfirði.

„…hver orkuveita … fór í framkvæmdir … í trausti þess að hún ætti viðkomandi markað og gæti alltaf velt kostnaðinum á neytendur.“
    Samkvæmt lögum má orkusala til stóriðju ekki leiða til hærra rafmagnsverðs til almenningsveitna en ella mundi verða. Ýmis rök eru fyrir því að selja rafmagn til stóriðju við lægra verði en til almenningsveitna. Orkunotkun stóriðju er jöfn og krefst því tiltölulega minna afls en sala til almennings. Stóriðjan kemur líka inn í heilu lagi þannig að virkjanir eru ekki illa nýttar í mörg ár. Fyrir tíu árum taldi Landsvirkjun að langtímakostnaður á kWst. væri 25–30% lægri þegar virkjað væri fyrir stóriðju en fyrir almenning. Þá var gert ráð fyrir að þessi hlutföll myndu endurspeglast í orkuverði hér á landi fljótlega upp úr aldamótum. Árið 1998 var mjög langt í land. Þá kostaði rafmagn til stóriðju að meðaltali 88 aura á kWst., sem fyrr segir, en til almenningsrafveitna 2 kr. og 80 aura á kWst. — meira en þrefalt meira. Þetta bendir til að almennir rafmagnsnotendur niðurgreiði rafmagnskostnað stóriðju hér á landi. Í þessu sambandi er fróðlegt að lesa ávarp Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar, stjórnarformanns Landsvirkjunar, á samráðsfundi 23. apríl 1999. Þar ræðir hann ástæður þess að sala á rafmagni var gefin frjáls í Noregi: „Í viðræðum okkar Landsvirkjunarmanna við þarlenda forráðamenn í raforkugeiranum kom fram að helsta forsendan fyrir þeim breytingum sem þeir fóru í fyrir um áratug síðan var hið svæðis- og sveitarfélagabundna skipulag sem þar var á framleiðslunni. Slíkt skipulag gerði það að verkum að hver orkuveita fyrir sig fór í framkvæmdir út frá sínum forsendum og í trausti þess að hún ætti viðkomandi markað og gæti alltaf velt kostnaðinum á neytendur á sínu svæði.“ Skyldi vera kominn tími til þess að gefa rafmagnssölu frjálsa á Íslandi líka?“

12. Niðurstöður frumathugunar skipulagsstjóra.
    Hinn 10. desember 1999 sendi Skipulagsstofnun ríkisins frá sér niðurstöður frumathugunar og úrskurð skipulagsstjóra um 480 þús. tonna álver í Reyðarfirði. Niðurstaða stofnunarinnar er:
    „Við frumathugun hafa komið fram veigamiklar athugasemdir við marga þætti málsins, meðal annars varðandi framkvæmdatilhögun, grunnupplýsingar um náttúrufar og staðhætti sem mat grundvalli á, við aðferðir sem beitt er við mat, viðmiðunargildi mengunar og við niðurstöður mats. Í kjölfar þessara athugasemda hefur framkvæmdaraðili lagt fram þónokkrar viðbótarupplýsingar sem eingöngu hafa hlotið kynningu fyrir sérfræðistofnunum á þeim sviðum sem efni viðbótargagna fjallar helst um.
    Á grundvelli framlagðra gagna við frumathugun er það mat skipulagsstjóra ríkisins að ekki hafi verið lagðar fram nægar upplýsingar um framkvæmd og umhverfisáhrif framkvæmdarinnar til að unnt sé að taka afstöðu til þess hvort hún muni hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hvorki varðandi fyrsta né síðari áfanga framkvæmdarinnar. Því er niðurstaða skipulagsstjóra ríkisins sú að ráðist skuli í frekara mat á umhverfisáhrifum álvers í Reyðarfirði, sbr. 8. gr. laga og 12. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum. Í frekara mati verði gerð frekari grein fyrir áhrifum framkvæmdarinnar á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag, eins og nánar er tilgreint í 6. kafla þessa úrskurðar.“

13. Tengdar framkvæmdir.
    Á öðrum stað í skýrslu skipulagsstjóra segir:
    „Við frumathugun hafa komið fram fjölmargar athugasemdir við að ekki skuli vera lagt heildarmat á umhverfisáhrif álvers í Reyðarfirði og fyrirhugaðra framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun, lagningu háspennulína, hafnargerð, Bjarnarflagsvirkjun, Kárahnjúkavirkjun og fleira.
    Í svörum framkvæmdaraðila við athugasemdum kemur fram að eðlilegt verði að telja að framkvæmdaraðili álvers beri einungis ábyrgð á mati á umhverfisáhrifum þeirra tilteknu framkvæmda sem hann hyggst hefja. Framkvæmdaraðili álvers verði annar en t.d. framkvæmdaraðili vatnsaflsvirkjana.
    Að mati skipulagsstjóra ríkisins er ekki stoð fyrir því í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, að krefjast þess að tengdar framkvæmdir séu metnar í einu heildarmati. Skipulagsstjóri bendir í þessu sambandi á úrskurð umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum álvers á Grundartanga. Slíkt heildarmat mundi stuðla að markvissari vinnubrögðum og umræðu um fyrirhugaðar framkvæmdir af þeirri stærðargráðu sem álver við Reyðarfjörð, virkjunarframkvæmdir og lagning háspennulína eru. Skipulagsstofnun beindi í september 1999 þeim tilmælum til framkvæmdaraðila að mat á umhverfisáhrifum nýrrar hafnar við fyrirhugað álver og háspennulínu að álverinu yrði auglýst samtímis. Jafnframt að auglýst yrði á sama tíma mat á umhverfisáhrifum jarðgufuvirkjunar við Bjarnarflag sem talin var nauðsynleg forsenda fyrir fyrsta áfanga álversins. Við þessu var ekki orðið og bent á að um aðra framkvæmdaraðila væri að ræða. Þá er rétt að benda á að vegna mikillar óvissu um áhrif 480 þús. tonna álvers á samfélag og atvinnulíf á Austurlandi og óvissu um orkuöflun vegna þess lagði Skipulagsstofnun til við framkvæmdaraðila að tilkynnt yrði til stofnunarinnar frummat á umhverfisáhrifum 120 þús. tonna álvers og kynnt áform um fyrirhugaða stækkun. Á þetta sjónarmið var ekki fallist.
    Orkuþörf 480 þús. tonna álvers ein og sér kallar á umfangsmiklar framkvæmdir við orkuframleiðslu sem fyrirsjáanlegt er að kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif að mati skipulagsstjóra ríkisins. Vert er að minna á að starfsemi 480 þús. tonna álvers krefst 6.640 GWst. af raforku á ári, sem er meira en heildarframleiðsla Landsvirkjunar árið 1998. Einnig að ekki hafa verið lagðar fram upplýsingar um hvernig fyrirhugað er að afla orku til 480 þús. tonna álvers, utan hvað fyrir liggur að til fyrsta áfanga álvers sé fyrirhugað að virkja Jökulsá í Fljótsdal og í Bjarnarflagi, auk þess sem Kárahnjúkavirkjun, sem samkvæmt svæðisskipulagi miðhálendisins ætti að framleiða 3.200 GWst., er tilgreind í Noral- samkomulaginu frá 29. júní 1999 til orkuöflunar fyrir álverið. Af þessum ástæðum verður að gera kröfu um að ítarleg grein sé gerð fyrir jákvæðum áhrifum 480 þús. tonna álvers sem vega kunni upp þau hugsanlegu umtalsverðu umhverfisáhrif sem framkvæmd hennar kynni beint og óbeint að hafa í för með sér. Þar er átt við áhrif á byggð, samfélag og atvinnulíf á Austurlandi og landinu í heild.“

14. Úrskurðarorð skipulagsstjóra.
    „Í samræmi við 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, hefur skipulagsstjóri ríkisins farið yfir frummatsskýrslu framkvæmdaraðila ásamt umsögnum, athugasemdum, sérfræðiáliti um samfélagsleg áhrif og viðbótargögnum framkvæmdaraðila.
    Með vísan til niðurstöðu skipulagsstjóra ríkisins sem gerð er grein fyrir í 5. kafla þessa úrskurðar skal ráðast í frekara mat á umhverfisáhrifum álvers í Reyðarfirði. Þar komi fram:
     1.      Frekari gögn um veðurfar til grundvallar útreikningum á loftmengun. Jafnframt verði skýrt hversu einkennandi viðmiðunartímabil eru fyrir veðurfar á svæðinu.
     2.      Endurskoðaðir útreikningar á loftmengun á grundvelli endurskoðaðra upplýsinga um veðurfar. Í nýjum gögnum um dreifingu loftmengunar verði gerð grein fyrir loftmengun miðað við viðmiðunargildi í tilskipun Evrópusambandsins nr. 99/30/EC þar sem þau ganga lengra en núgildandi reglugerðarákvæði og 0,2 .g/m 3 langtímagildi fyrir flúoríð, nema að fram komi kröfur frá Hollustuvernd ríkisins um önnur viðmiðunargildi.
     3.      Hvaða hámarksmörk framkvæmdaraðili er reiðubúinn að miða við varðandi útblástur mengunarefna með tilliti til afmörkunar þynningarsvæðis.
     4.      Samanburður á vot- og þurrhreinsun útblásturs frá fyrsta áfanga álvers með tilliti til jákvæðra og neikvæðra umhverfisáhrifa.
     5.      Tillögur að þynningarsvæðum fyrir mismunandi framkvæmdakosti og framkvæmdaáfanga. Tillögur að þynningarsvæðum skulu hafa verið bornar undir Hollustuvernd ríkisins áður en þær eru lagðar fram til annarrar athugunar.
     6.      Ítarlegri upplýsingar um strauma í Reyðarfirði, hugsanlega lagskiptingu sjávar og líkindi á því að hún myndist.
     7.      Varðandi förgun kerbrota verði gerð nánari grein fyrir lífríki í fjörunni og mögulegu streymi efna úr kerbrotagryfjum og samanburður gerður við aðra kosti við förgun kerbrota.
     8.      Varðandi útstreymi PAH-efna verði gerð mun ítarlegri grein fyrir hugsanlegri mengun PAH-efna á landi og í sjó.
     9.      Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar efnistöku og samanburður á umhverfisáhrifum mismunandi kosta, ef fleiri en einn staður kemur til greina.
     10.      Mat á aurskriðuhættu á byggingarlóð álvers.
     11.      Mat á áhrifum framkvæmdarinnar á þróun og skipulag landnotkunar í Reyðarfirði og Fjarðabyggð.
     12.      Frekara mat á jákvæðum áhrifum framkvæmdarinnar á byggð, áhrifum á byggðir á Austurlandi utan Mið-Austurlands, varanleika áhrifa á fólksfjöldaþróun og áhrifa á vinnuafl í atvinnuvegum sem fyrir eru á svæðinu.
     13.      Áætlun um umhverfisvöktun.“

    Af framangreindu er ljóst að heildstæðu mati á framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun og mati á afleiddum framkvæmdum er verulega ábótavant. 1. minni hluti leggur því til að tillaga til þingsályktunar um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun verði felld og fram fari lögformlegt umhverfismat á öllum þáttum fyrirhugaðra framkvæmda. Vísað er til tillögu til þingsályktunar sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagði fram á 125. löggjafarþingi, þskj. 7, 7. mál, um mat á lögformlegum umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar.

Alþingi, 15. des. 1999.



Árni Steinar Jóhannsson.





Fylgiskjal I.


Álit



um till. til þál. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun.

Frá 1. minni hluta umhverfisnefndar.



    Með bréfi dags. 23. nóvember sl. óskaði iðnaðarnefnd eftir því að umhverfisnefnd tæki til skoðunar umhverfisþátt tillögu til þingsályktunar um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Þess var óskað að svar bærist eigi síðar en 6. desember.
    Umhverfisnefnd fékk 13 daga frest til að skila iðnaðarnefnd áliti sínu á umhverfisþætti tillögunnar. 1. minni hluti telur hins vegar rétt að minna á að efnislega tengt mál hefur verið til umfjöllunar í nefndinni en það er tillaga til þingsályktunar um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar (þskj. 7, 7. mál) sem vísað var til nefndarinnar 11. október sl. Það mál var áður flutt á 124. löggjafarþingi og var það sent nokkrum fjölda aðila til umsagnar en ekki var lokið við afgreiðslu þess á því þingi. Þá fór nefndin í tveggja daga ferðalag í september sl. ásamt iðnaðarnefnd þar sem fyrirhugað virkjunarsvæði var skoðað og haldinn var fundur með sérfræðingum og hagsmunaaðilum á Austurlandi sem gerðu grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.
    Við umfjöllun sína um málið kallaði nefndin á sinn fund Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Smára Geirsson og Þorvald Jóhannesson frá Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi en Smári kom einnig sem fulltrúi Fjarðabyggðar á fundinn, Árna Finnsson og Hilmar J. Malmquist frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Einar Rafn Haraldsson frá samtökunum Afl fyrir Austurland, Þórhall Þorsteinsson frá Félagi áhugamanna um verndun Austurlands, Höllu Eiríksdóttur frá Náttúruverndarsamtökum Austurlands, Arnór Benediktsson frá Norður-Héraði, Jóhann F. Þórhallsson og Kristin Bjarnason fyrir Fljótsdalshrepp, Magnús Oddsson frá Ferðamálaráði, Þorgeir Örlygsson, Jón Ingimarsson og Guðjón Axel Guðjónsson frá iðnaðarráðuneyti, Gunnlaugu Einarsdóttur, Sigurð H. Magnússon og Þórólf Antonsson frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Jóhann Óla Hilmarsson og Ólaf Einarsson frá Fuglaverndarfélagi Íslands, Sigríði Ásgeirsdóttur frá Sambandi dýraverndunarfélaga, Guðmund Malmquist, Bjarka Bragason og Guðmund Guðmundsson frá Byggðastofnun, Helga Torfason, Bryndísi Róbertsdóttur og Eddu Lilju Sveinsdóttur frá Jarðfræðafélagi Íslands, Sigurð Jóhannesson hagfræðing, Geir Oddsson, fiski- og auðlindafræðing, Skarphéðin Þórisson líffræðing, Hákon Aðalsteinsson og Sveinbjörn Björnsson frá Orkustofnun, Garðar Ingvarsson og Magnús Ásgeirsson frá verkefnisstjórn STAR, Steingrím Hermannsson, Gunnar G. Schram, Júlíus Sólnes og Ketil Sigurjónsson frá Umhverfisverndarsamtökum Íslands, Gunnar H. Hjálmarsson og Sigurgeir Þórarinsson frá SAMÚT, Helga Bjarnason, Ragnheiði Ólafsdóttur, Agnar Olsen og Örlyg Þórðarson frá Landsvirkjun, Björn Jóhann Björnsson frá Stuðli, Sigurjón Pál Ísaksson frá Línuhönnun, en tveir þeir síðarnefndu komu sem fulltrúar Landsvirkjunar, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Magnús Jóhannesson, Ingimar Sigurðsson og Kristínu Lindu Árnadóttur frá umhverfisráðuneyti, Ólaf F. Magnússon og Svein Aðalsteinsson frá Umhverfisvinum, Ólöfu Guðnýju Valdimarsdóttur, Kára Kristjánsson, Gísla Má Gíslason og Eyþór Einarsson frá Náttúruverndarráði, Stefán Thors og Hólmfríði Sigurðardóttur frá Skipulagsstofnun og Þóru Ellen Þórhallsdóttur prófessor.
    Nefndin kallaði einnig eftir ýmsum gögnum og fékk erindi frá Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Afli fyrir Austurland, Náttúruverndarsamtökum Austurlands, Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs, Fuglaverndarsamtökum Íslands, Náttúruverndarsamtökum Vesturlands, Umhverfisverndarsamtökum Íslands, Náttúruverndarráði, Orkustofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Geir Oddssyni, Aðalheiði Jóhannsdóttir, Náttúruvernd ríkisins, Þóru Ellen Þórhallsdóttur, Önnu Margréti Bjarnadóttur, Landsvirkjun, Sambandi dýraverndunarfélaga Íslands, Byggðastofnun, Landvernd, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Skipulagsstofnun, Landmótun, Eyþóri Einarssyni og umhverfisráðuneytinu.
    Nefndin tók til skoðunar öll gögn sem lögð voru fyrir hana, bæði vegna þessa máls og sem nefndin hafði viðað að sér fyrir ferð umhverfisnefndar og iðnaðarnefndar á Eyjabakka í haust. Lá því fyrir nefndinni mikið af sérfræðiálitum, skýrslum og gögnum með upplýsingum um svæðið. Þá komu fjölmargir gestir á fundi nefndarinnar eins og fram kemur hér að framan, m.a. flest samtök sem tengjast náttúru- og umhverfismálum. Flestir þessara aðila skiluðu athugasemdum sínum skriflega og var hjá mörgum um nokkuð ítarlega úttekt að ræða. 1. minni hluti nefndarinnar telur rétt að geta þess að flestir umsagnaraðilar hrósuðu skýrslu Landsvirkjunar fyrir skýrleika og góða framsetningu. Margir fulltrúar náttúruverndar- og umhverfissamtaka lýstu þeirri skoðun sinni að skýrsla Landsvirkjunar væri hlutdræg að því leyti að hún drægi fremur úr áhrifum virkjunar á umhverfið. Umsagnaraðilar voru þó ekki allir á einu máli um gæði skýrslunnar.
    Með lögum nr. 60/1981, um raforkuver, veitti Alþingi ríkisstjórninni heimild til að semja við Landsvirkjun um að reisa og reka nokkrar vatnsaflsvirkjanir, þar á meðal Fljótsdalsvirkjun, með allt að 330 MW afli. Á grundvelli þessarar heimildar og heimildar í þágildandi lögum um Landsvirkjun gerðu ríkisstjórn Íslands og Landsvirkjun með sér samning 11. ágúst 1982 um virkjanamál, yfirtöku byggðalína o.fl. Núgildandi lög um Landsvirkjun, nr. 42/ 1983, voru samþykkt 23. mars 1983. Í 6. gr. laganna er vísað í lög nr. 60/1981, um raforkuver, hvað varðar virkjunarheimildina. Samkvæmt því er Landsvirkjun, sbr. lög um Landsvirkjun og lög um raforkuver heimilað að reisa og reka Fljótsdalsvirkjun með allt að 330 MW afli samkvæmt fyrrnefndum samningi milli ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkjunar. Lögformlega hefur Alþingi því veitt heimild sína fyrir Fljótsdalsvirkjun og hún því óumdeild að þessu leyti.
    Í 6. gr. laga um Landsvirkjun kemur fram að Landsvirkjun reisi og reki Fljótsdalsvirkjun samkvæmt fyrrgreindum lagaheimildum að fengnu leyfi ráðherra orkumála. Iðnaðarráðherra veitti Landsvirkjun leyfi fyrir Fljótsdalsvirkjun, 210 MW virkjun ásamt aðalorkuveitum, í apríl 1991 skv. 7. gr., sbr. 6. gr. laga um Landsvirkjun. Heimildir til að hefja virkjunarframkvæmdir eru því byggðar á lagalegum grunni og telur 1. minni hluti því að ótvírætt sé að Landsvirkjun hafi leyfi til framkvæmdanna. Þá er rétt að benda á að lagaheimild Landsvirkjunar nær til þess að reisa 330 MW virkjun en leyfi iðnaðarráðherra er fyrir 210 MW virkjun. Virkjunin verður því mun minni en ella hefði getað orðið.
    Miklar umræður hafa vaknað um lögmæti þess að framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun fari ekki í mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993. Eins og fram hefur komið var Landsvirkjun veitt leyfi til að hefja framkvæmdir við virkjunina árið 1991 og hófust framkvæmdir það ár við vegagerð og sprengingar í gangamunna. Lög um mat á umhverfisáhrifum voru samþykkt í maí 1993. Í lögunum er í bráðabirgðaákvæði II kveðið á um að framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 séu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. 1. minni hluti telur ljóst að vegna þessa ákvæðis verði ekki gerð sú krafa að fram fari mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna, enda var leyfi til framkvæmdanna útgefið tveimur árum fyrir gildistöku laga nr. 63/1993.
    Náttúruverndarráð hefur tvívegis veitt samþykki sitt fyrir virkjuninni, fyrst með bréfi dags. 31. mars 1981 og síðar með bréfi dags. 7. febrúar 1991. Skylt var að leita samþykkis Náttúruverndarráðs samkvæmt þágildandi náttúruverndarlögum, nr. 47/1971, fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum ef hætta væri á því að landið breytti varanlega um svip, merkum náttúruminjum yrði spillt eða hætta væri á mengun lofts og lagar. Leitað var samþykkis að nýju eftir að gerðar voru ákveðnar breytingar við tilhögun við virkjunina og gert ráð fyrir aðrennslisgöngum í stað skurða áður. Í bréfi Náttúruverndarráðs frá 1991 segir orðrétt: „Það er skilningur Náttúruverndarráðs að jákvæð umsögn ráðsins (bréf dags. 31. mars 1981) varðandi eldri hugmyndir um virkjun standi enn, þar með talið samþykki við því að leggja Eyjabakka undir vatn. Sú breytta verkhönnun sem hér er verið að óska umsagnar um dregur verulega úr umhverfisáhrifum á heiðinni. Þeir skurðir og stíflur sem eldri hugmyndir gerðu ráð fyrir hefðu efalítið verið til lýta í landslagi og hindrað för manna og skepna um heiðina. Loks er það mikils virði að tjarnir og votlendi á Fljótsdalsheiðinni fái að halda sér.“ 1. minni hluti lítur svo á að ákveðinni sátt hafi verið náð um framkvæmdir. Sú afstaða sem kemur fram í fyrra bréfi Náttúruverndarráðs mun m.a. hafa mótast af því að samkomulag hafði tekist um varanlega verndun Þjórsárvera auk þess sem ráðið taldi sig með þessu stuðla að verndun nokkurra þekktari stórfossa landsins. Ráðið ítrekaði jákvæða afstöðu sína í síðari umsögn sinni og var sérstaklega litið til þess að breytingar á virkjunartilhögun mundu draga verulega úr umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar virkjunar en breytingar á upphaflegum áformum leiða til þess að flatarmál lands sem færi undir vatn minnkaði úr 83 km 2 í 46 km 2.
    Fyrsti minni hluti telur ljóst að gróið og mjög sérstakt land fer undir vatn við virkjunarframkvæmdirnar og fossar hverfa sem eftirsjá er að. Má nefna að hraukar, sem eru sérstæð landform sem eiga sér fáar hliðstæður svo vitað sé, munu hverfa með tilkomu lónsins. Þá hefur því oft verið lýst að Eyjabakkar hafi sérstöðu vegna hæðar sinnar yfir sjávarmáli en Eyjabakkar og Vesturöræfi munu vera hæstu stóru samfelldu gróðurlendin á miðhálendi Íslands. Þá er mikil fossaröð í Jökulsá í Fljótsdal enda fellur áin 600 m á 30 km. Með virkjuninni hverfur jökulvatnið úr farvegi hennar og má búast við að aðeins seinni part sumars, þegar miklar leysingar eru í jöklinum og lónið er orðið fullt, verði rennsli í fossunum að einhverju verulegu marki. Í skýrslu Landsvirkjunar eru á bls. 132 í grófum dráttum tekin saman áhrif á umhverfið á virkjunarsvæðinu. Þar kemur fram að áhrif virkjunarframkvæmda á náttúrufar og friðlýst svæði eða svæði á náttúruminjaskrá verða mikil á Eyjabakkasvæðinu. Áhrifin af Sauðárveitu, veitum að vestan, stöðvarhúsi og aðveitu og framkvæmdum neðan virkjunar á þessa þætti verða að jafnaði lítil eða óveruleg að undanskildum áhrifum Sauðárveitu og veitum að vestan sem munu hafa talsverð áhrif á yfirborðsvatn og fossa.
    Eins og fram hefur komið eru umsagnaraðilar ekki á einu máli um gæði skýrslu Landsvirkjunar. Kom t.d. fram í máli nokkurra að jarðfræði svæðisins lægi nokkuð ljós fyrir og væri gerð góð skil, en aðrir voru ekki sammála því. Þá kom fram mismunandi mat á gæðum lýsinga og umfangi rannsókna á gróðurfari og dýralífi. 1. minni hluti bendir á að margir þessara aðila vilja friða svæðið og hafa lýst því yfir að þeir séu mótfallnir öllum stórvirkjunum á þessu svæði óháð því hvort umhverfismat á þeim yrði jákvætt eða ekki, þar á meðal virkjun við Kárahnúka.
    Rannsóknir hófust á svæðinu vegna virkjunarframkvæmdanna árið 1975 og hafa staðið yfir með hléum síðan. Margir gestir nefndarinnar sem tilheyra náttúru- og umhverfisverndarsamtökum lýstu þeirri skoðun sinni að þeir teldu að frekari rannsókna væri þörf á svæðinu, m.a. með tilliti til gróðurfars, hegðunar dýra og hugsanlegs jarðvegsrofs á bökkum lónsins, svo og því að meta náttúruverndargildi svæðisins sem heildar. 1. minni hluti telur að lengi megi deila um hvenær svæði teljist vera nægjanlega rannsakað og sjálfsagt yrði alltaf ágreiningur um það. 1. minni hluti telur að þau gögn sem liggja fyrir gefi greinargóða mynd af náttúru svæðisins og gildi þess og telur sig geta á grundvelli þeirra tekið afstöðu til framhalds framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun.
    Fyrsti minni hluti telur að þó að mikið hafi dregið úr umhverfisspjöllum af völdum virkjunarinnar frá upphaflegum áformum sé nauðsynlegt af hálfu Landsvirkjunar að skoða frekari aðgerðir til mótvægis eða til að draga úr umhverfisspjöllum. Í umsögn Náttúruverndarráðs um breytta útfærslu Fljótsdalsvirkjunar frá 1991 eru gerðar athugasemdir við röskun á vatnasviði ánna. Telur 1. minni hluti að kanna megi möguleika á að vernda vatnsföll sem draga úr náttúruspjöllum með því að smáárnar Hafursá, Laugará, Grjótá og Hölkná haldi rennsli sínu svo að fossar í þeim varðveitist. Að mati 1. minni hluta eru margir fallegir fossar í ánum sem eftirsjá er í. Þá er lögð áhersla á uppgræðslu og ræktun lands til mótvægis við það sem tapast. 1. minni hluti telur nauðsynlegt að Landsvirkjun birti áætlun um hvernig það verði gert, svo og að Landsvirkjun athugi hvort tilbúnir hólmar í lóninu gætu gagnast fuglalífi svæðisins. Þá hafa gestir á fundum nefndarinnar látið í ljósi þá skoðun að hætta á foki af bökkum lónsins sé meiri en gert er ráð fyrir í skýrslu Landsvirkjunar, einkum með tilvísun til þess að vatnsborðssveiflur verði mun meiri í fyrirhuguðu Eyjabakkalóni en öðrum lónum á landinu sem rannsökuð hafa verið og vitnað er til í skýrslunni. Telur 1. minni hluti mikilvægt að Landsvirkjun leggi fram áætlun um hvernig brugðist verði við því.
    Fulltrúar 1. minni hluta vilja taka fram að þeir styðja það sjónarmið sem kemur fram í greinargerð með tillögunni að tryggja þurfi eftir því sem kostur er eðlilega dreifingu virkjana um landið þannig að virkjað sé utan eldvirkra svæða. Með virkjun Jökulsár í Fljótsdal er skapað visst öryggi fyrir rafmagnsframleiðslu landsmanna því að svæðið er utan þekktra virkra jarðskjálftasvæða.
    Þá bendir 1. minni hluti á að í máli sveitarstjórnarmanna á Austurlandi, samtaka íbúa á svæðinu sem styðja virkjunarframkvæmdir á Austurlandi, og fulltrúa Byggðastofnunar á fundum nefndarinnar komu fram verulegar áhyggjur af þróun byggðar á svæðinu. Fram kom að á undanförnum árum hefur fólki fækkað mjög í fjórðungnum. Á undanförnum árum hafi ýmsar ráðstafanir verið gerðar í atvinnumálum til að snúa þróuninni við, en þær hafi ekki dugað til. Var það mat þessara aðila að Fljótsdalsvirkjun og bygging álvers í kjölfarið, að teknu tilliti til margföldunaráhrifa þeirra framkvæmda og reksturs álverksmiðju, væri sú einstaka ráðstöfun sem hefði möguleika á að snúa þróuninni við. Engin önnur áform á vegum t.d. Byggðastofnunar gætu mögulega haft viðlíka jákvæð áhrif á samfélagið á Austurlandi til styrkingar öllum þáttum samfélagsins með tilliti til atvinnu, menningar og mannlífs. Einnig er efnahagslegur ávinningur þjóðarinnar allrar mikill.
    Fyrsti minni hluti umhverfisnefndar leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 6. des. 1999.



Kristján Pálsson.

Ásta Möller.


Jónas Hallgrímsson.
Gunnar Birgisson.

Fylgiskjal II.


Álit



um till. til þál. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun.

Frá 2. minni hluta umhverfisnefndar.



    Í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir um umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar telur 2. minni hluti nefndarinnar nauðsynlegt að fram fari mat á umhverfisáhrifum hennar, samkvæmt gildandi lögum, svo að tryggt sé að bestu fáanlegu upplýsingar og rannsóknir liggi til grundvallar ákvörðuninni um að virkja Jökulsá í Fljótsdal. Telur 2. minni hluti að skorti á að fullnægjandi rannsóknir séu fyrir hendi. Þá telur hann ekki síður mikilvægt að allri lagaóvissu varðandi framkvæmdirnar verði eytt.
    Fyrir liggur þingsályktunartillaga frá iðnaðarráðherra þar sem óskað er eftir pólitískum stuðningi við framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Tillögunni var vísað til iðnaðarnefndar. Með bréfi dags. 23. nóvember sl. barst umhverfisnefnd ósk iðnaðarnefndar um að nefndin tæki að sér umhverfisþátt tillögu til þingsályktunar um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Var þess óskað að svar bærist eigi síðar en 6. desember.
    Iðnaðarnefnd hefur falið umhverfisnefnd alfarið vinnu við umhverfisþátt tillögunnar en ætlar sér sjálf að vinna aðra þætti málsins. 2. minni hluti lítur svo á að álit umhverfisnefndar hljóti því að vera hluti af nefndaráliti iðnaðarnefndar þegar hún hefur skoðað málið í heild. Er því gert ráð fyrir að álit umhverfisnefndar verði hluti af áliti iðnaðarnefndar sem fjallar um aðra þætti málsins en verði ekki einungis birt sem fylgiskjal.

1.    Málsmeðferð í umhverfisnefnd.
    Umhverfisnefnd hefur fengið mjög stuttan tíma til að skila áliti sínu á umhverfisþætti málsins, eða innan við tvær vikur. Að mati 2. minni hluta er slíkur fyrirvari allt of skammur til að hægt sé að vinna málið þannig að fullnægjandi sé. Miklir hagsmunir eru í húfi og því mikilvægt að vandað sé til verks við alla framkvæmd málsins.
    Við yfirferð umhverfisnefndar hefur umhverfisþátturinn orðið allskýr en í nokkrum veigamiklum atriðum hefur verið bent á óvissu sem nauðsynlegt er að eyða. Nefndin tók á þessu stigi ekki afstöðu til frummatsskýrslu um álver í Reyðarfirði og fjallaði ekki heldur um umhverfisáhrif háspennulína frá virkjun að fyrirhugaðri verksmiðju eða lagningu lína yfir hálendið frá Bjarnarflagi eða Kröflu. Þá fjallaði nefndin ekki um önnur umhverfisáhrif sem beint eða óbeint kann að leiða af Fljótsdalsvirkjun og starfrækslu álvers á Austurlandi, svo sem virkjun við Kárahnúka eða aðrar framkvæmdir, jafnvel þó að hvatt hafi verið til þess af iðnaðarráðherra í umræðum um málið. Hér er einungis um að kenna tímaskorti.
    Við umfjöllun sína um málið kallaði nefndin á sinn fund Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Smára Geirsson og Þorvald Jóhannesson frá Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, en Smári kom einnig sem fulltrúi bæjarstjóra Fjarðabyggðar á fundinn, Árna Finnsson og Hilmar J. Malmquist frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Einar Rafn Haraldsson frá samtökunum Afl fyrir Austurland, Þórhall Þorsteinsson frá Félagi áhugamanna um verndun Austurlands, Höllu Eiríksdóttur frá Náttúruverndarsamtökum Austurlands, Arnór Benediktsson frá sveitarstjórn Norður-Héraðs, Jóhann F. Þórhallsson oddvita og Kristin Bjarnason, lögmann fyrir Fljótsdalshrepp, Magnús Oddsson frá Ferðamálaráði, Þorgeir Örlygsson, Jón Ingimarsson og Guðjón Axel Guðjónsson frá iðnaðarráðuneyti, Gunnlaugu Einarsdóttur, Sigurð H. Magnússon og Þórólf Antonsson frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Jóhann Óla Hilmarsson og Ólaf Einarsson frá Fuglaverndarfélagi Íslands, Sigríði Ásgeirsdóttur frá Sambandi dýraverndunarfélaga, Guðmund Malmquist, Bjarka Bragason og Guðmund Guðmundsson frá Byggðastofnun, Helga Torfason, Bryndísi Róbertsdóttur og Eddu Lilju Sveinsdóttur frá Jarðfræðafélagi Íslands, Sigurð Jóhannesson hagfræðing, Geir Oddsson, fiski- og auðlindafræðing, Skarphéðin Þórisson líffræðing, Hákon Aðalsteinsson og Sveinbjörn Björnsson frá Orkustofnun, Garðar Ingvarsson og Magnús Ásgeirsson frá verkefnisstjórn STAR, Steingrím Hermannsson, Gunnar G. Schram, Júlíus Sólnes og Ketil Sigurjónsson frá Umhverfisverndarsamtökum Íslands, Gunnar H. Hjálmarsson og Sigurgeir Þórarinsson frá SAMÚT, Helga Bjarnason, Ragnheiði Ólafsdóttur, Agnar Olsen og Örlyg Þórðarson frá Landsvirkjun, Björn Jóhann Björnsson frá Stuðli, Sigurjón Pál Ísaksson frá Línuhönnun, en tveir þeir síðarnefndu komu sem fulltrúar Landsvirkjunar, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Magnús Jóhannesson, Ingimar Sigurðsson og Kristínu Lindu Árnadóttur frá umhverfisráðuneyti, Ólaf F. Magnússon og Svein Aðalsteinsson frá Umhverfisvinum, Ólöfu Guðnýju Valdimarsdóttur, Kára Kristjánsson, Gísla Má Gíslason og Eyþór Einarsson frá Náttúruverndarráði, Stefán Thors og Hólmfríði Sigurðardóttur frá Skipulagsstofnun og Þóru Ellen Þórhallsdóttur prófessor.
         Þá hefur nefndin reynt eftir föngum að afla sér sem mestra upplýsinga frá sérfræðingum um skýrslu virkjunaraðila sem er veigamesta fylgiskjal málsins. Nefndin hefur þannig fengið erindi frá Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Afli fyrir Austurland, Náttúruverndarsamtökum Austurlands, Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs, Fuglaverndarsamtökum Íslands, Náttúruverndarsamtökum Vesturlands, Umhverfisverndarsamtökum Íslands, Náttúruverndarráði, Orkustofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Geir Oddssyni, Aðalheiði Jóhannsdóttur, Náttúruvernd ríkisins, Þóru Ellen Þórhallsdóttur, Önnu Margréti Bjarnadóttur, Landsvirkjun, Sambandi dýraverndunarfélaga Íslands, Byggðastofnun, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Skipulagsstofnun, Landmótun, Eyþóri Einarssyni og umhverfisráðuneyti.
    Þá hafa á annað hundrað bréfa borist til nefndanna í gegnum tölvupóstföng nefndanna.
    Vegna tímaskorts var ekki hægt að kalla til fleiri aðila eða leita eftir umsögnum sem skýrt hefðu betur ýmsa grundvallarþætti málsins. Má þar m.a. nefna lagaleg atriði, gróðurfar, dýralíf, mat á arðsemi, m.a. með tilliti til verðmætis lands, náttúru og auðlinda, mat á öðrum nýtingarmöguleikum svæðisins o.fl. Meðal þeirra aðila sem leita hefði þurft til með álit og umsagnir eru óháðir lögfróðir aðilar, m.a. frá Háskóla Íslands, aðilar með sérþekkingu á útreikningum arðsemismats, m.a. frá Þjóðhagsstofun, Umhverfisstofnun Háskóla Íslands o.fl., og náttúrufræðingar sem rannsakað hafa dýralíf og gróðurfar svæðisins. Þá hefði einnig þurft að kalla til aðila sem hafa afgerandi áhrif á málsmeðferð umhverfisþáttarins. Er þar sérstaklega átt við Norsk Hydro, en yfirlýsingar fyrirtækisins hafa verið misvísandi og gefið tilefni til að fá skorið úr um afstöðu fyrirtækisins til mögulegrar seinkunar framkvæmda við fyrirhugað álver. Svo sem kunnugt er telja íslensk stjórnvöld ekki á það hættandi að vinna málið lengur og betur, hvað þá að hættandi sé á að setja virkjunina í lögformlegt umhverfismat. Nauðsynlegt er að Alþingi fái skýr svör fyrirtækisins um hver sé umhverfisstefna þess, hvaða kröfu það geri til þeirra verkefna sem það tekur þátt í og hversu mikla áhættu fyrirtækið telji felast í því að fresta framkvæmdum þar til lögformlegt umhverfismat hefur farið fram og í hverju slík áhætta sé fólgin. Fram kom í nefndinni ósk um að fá fulltrúa fyrirtækisins á fund hennar en sökum tímaskorts nefndarinnar við umfjöllun málsins reyndist það ekki unnt. Þá vill 2. minni hluti geta þess að sá stutti tími sem nefndin hafði til að fjalla um málið varð til þess að Landvernd, mikilvægur umsagnaraðili um málið, treysti sér ekki til að koma á fund nefndarinnar eða gefa henni umsögn um málið á þeim stutta tíma sem gefinn var.
    Til grundvallar störfum nefndarinnar liggur skýrsla Landsvirkjunar, Fljótsdalsvirkjun, umhverfi og umhverfisáhrif. Eins og fram hefur komið hefur fjöldi gesta, m.a. vísindamenn og sérfræðingar á sviði náttúruverndar, komið til fundar við nefndina. Afstaða gesta umhverfisnefndar var í grófum dráttum tvenns konar, annaðhvort þurfi að koma til mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar samkvæmt gildandi lögum um það efni eða ekki. Lögformlegt umhverfismat er ákveðið ferli sem fram fer samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, þar sem skipulagsstjóri ríkisins metur umhverfisáhrif af ákveðinni framkvæmd, í þessu tilviki virkjunarframkvæmd Landsvirkjunar. Hlutur sérfræðinga og almennings í matinu er tryggður og eru athugasemdir þeirra metnar af skipulagsstjóra, en honum er skylt að bregðast við öllum athugasemdum sem berast. Ekki liggur ljóst fyrir hve langan tíma það tæki að láta virkjunarframkvæmdirnar fara í umhverfismat samkvæmt gildandi lögum en ætla má að það geti tekið 14–16 mánuði.
    Af þeim gestum sem komið hafa til fundar við nefndina hafa eftirtaldir lýst stuðningi við að fram fari mat á umhverfisáhrifum samkvæmt gildandi lögum: fulltrúar frá ríkisstofnunum á sviði umhverfismála, þar á meðal Náttúruverndarráð og Náttúruvernd ríkisins, frjáls félagasamtök á sviði umhverfismála, þar á meðal Náttúruverndarsamtök Íslands, Félag áhugamanna um verndun hálendis Austurlands, Umhverfisverndarsamtök Íslands, Umhverfisvinir, Náttúruverndarsamtök Austurlands og Náttúruverndarsamtök Vesturlands, fagfélög á vettvangi umhverfismála, þar á meðal Félag íslenskra náttúrufræðinga, Fuglaverndarfélag Íslands, Samband dýraverndunarfélaga og Jarðfræðafélag Íslands, svo og vísindamenn og sérfræðingar sem komu á fund nefndarinnar, þar á meðal Skarphéðinn Þórisson líffræðingur, Geir Oddsson, fiski- og auðlindafræðingur, og Þóra Ellen Þorvaldsdóttir prófessor.
    Aðilar sem hafa lýst sig mótfallna slíku mati eru einungis hagsmunaaðilar á borð við Landsvirkjun, fulltrúar sveitarfélaga á Austurlandi og hagsmunasamtök íbúa á Austurlandi, svo og ráðuneyti iðnaðar- og umhverfismála sem heyra undir ráðherra og geta vart talist hlutlausir aðilar.

2.    Lagaóvissa enn fyrir hendi.
    Nefndinni barst umsögn frá Aðalheiði Jóhannsdóttur lögfræðingi með lögfræðilegu áliti um málið. Þá liggur einnig fyrir nefndinni kæra Náttúruverndarsamtaka Íslands til Eftirlitsstofnunar EFTA ásamt greinargerð. 2. minni hluti telur að álit Aðalheiðar og kæra Náttúruverndarsamtaka Íslands leiði að því ákaflega sterkar líkur að lagaóvissa sé fyrir hendi í málinu. Lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, eru byggð á tilskipun ESB um það efni en Íslandi bar í samræmi við skyldur sínar samkvæmt EES-samningnum að innleiða efni hennar í landslög. Ný og endurskoðuð tilskipun um sama efni hefur verið sett og bar Íslandi að lögleiða efni hennar í landsrétt fyrir mars á þessu ári. Það hefur ekki verið gert.
    Nefndin fékk á sinn fund skipulagsstjóra ríkisins. Kom fram í máli hans að ekki liggur fyrir deiliskipulag af þeim svæðum sem framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun eru fyrirhugaðar á en hann telur að þær kalli á gerð deiliskipulags, annars vegar fyrir aðkomu- og stöðvarhússvæði og hins vegar fyrir stíflustæði. Þar sem aðal- eða svæðisskipulag er ekki fyrir hendi er unnt að auglýsa deiliskipulagstillögu og ganga frá deiliskipulagi á grundvelli 3. tölul. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga. Skipulagsstofnun verður að samþykkja að auglýsa tillögu að deiliskipulagi og að fengnu samþykki hennar fer með auglýsingu og afgreiðslu deiliskipulagsins skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga. Liggi staðfest svæðisskipulag fyrir getur sveitarstjórn auglýst tillögu að deiliskipulagi skv. 25. gr. sömu laga án meðmæla Skipulagsstofnunar. Telur skipulagsstjóri samkvæmt þessu að Fljótsdalshreppur þurfi að leita meðmæla stofnunarinnar vegna auglýsingar deiliskipulagstillögu fyrir aðkomu- og stöðvarhússvæði en Fljótsdalshreppur og Norður-Hérað geti auglýst deiliskipulagstillögu fyrir stíflusvæði á grundvelli svæðisskipulags miðhálendis. Þá lýsti skipulagsstjóri því mati sínu að hann teldi að skv. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga þyrfti byggingarleyfi fyrir varanlegum húsbyggingum sem gerðar væru í tengslum við virkjanir, en það ætti m.a. við um stöðvarhús, íbúðarhús, mötuneyti og verkstæði. Þá upplýsti hann að byggingarleyfi væri ekki fyrir húsbyggingum vegna Fljótsdalsvirkjunar. Enn fremur greindi hann frá því að framkvæmdaleyfi fyrir byggingu virkjunarinnar frá sveitarstjórn samkvæmt þágildandi skipulags- og byggingarlögum væru ekki til staðar, að undanskildu leyfi fyrir aðkomugöngum virkjunarinnar. Kom fram hjá skipulagsstjóra að hann teldi að aðrar framkvæmdir við virkjunina sem ekki væru byggingarleyfisskyldar, þar á meðal stíflugerð, vegir, veitur og efnistökustaðir, væru háðar framkvæmdaleyfi skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga. Að mati 2. minni hluta styður þetta álit skipulagsstjóra það mat 2. minni hluta að talsverð lagaóvissa sé fyrir hendi í málinu.
    Lagaóvissan er fyrst og fremst fólgin í því að þótt gilt virkjunarleyfi sé talið vera fyrir hendi bendi öll rök til þess, m.a. studd af dómafordæmum frá EB-dómstólnum, að fyrir þurfi að liggja öll leyfi lögbærra aðila áður en lagt er í framkvæmdir af þessu tagi og samkvæmt íslenskum lögum séu það virkjunarleyfi og framkvæmdaleyfi samkvæmt skipulags- og byggingarlögum. Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps hefur hins vegar ekki gefið út framkvæmdaleyfi og er það staðfest í greinargerð með tillögu iðnaðarráðherra á bls. 9 þar sem segir orðrétt: „Samkvæmt þessu liggur ekki fyrir formlegt samþykki Fljótsdalshrepps fyrir frekari framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun en áður greindum aðkomugöngum.“ Nefndinni vannst ekki tími til að leita eftir lögfræðilegu áliti fleiri aðila, svo sem Lagastofnunar Háskóla Íslands, en það væri æskilegt að mati 2. minni hluta. 2. minni hluti telur enn fremur að úr lagaóvissu verði að greiða og verður vart séð að það verði gert án þess að farin verði dómstólaleiðin.
    Þá vill nefndin vekja athygli á því að samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands gerði fyrirvara um lónstærðir á Eyjabakkasvæðinu og aðra tilhögun virkjunar og komst að þeirri niðurstöðu að skynsamlegra væri að virkja við Kárahnúka en Eyjabakka ef á annað borð yrði virkjað á svæðinu. Í greinargerð nefndarinnar segir: „Vegna mikilvægis og sérstöðu Eyjabakkasvæðisins hvað varðar gróðurfar, dýralíf, landslag o.fl. er ástæða til að endurskoða tilhögun virkjunar samkvæmt gildandi lögum. Svæðið hefur einnig mikið gildi fyrir ferðaþjónustuna. Gert er ráð fyrir að skoðaðir verði til hlítar möguleikar á að virkja saman Jökulsá á Brú (Kárahnjúkavirkjun) og Jökulsá í Fljótsdal með þeim hætti að Kárahnúkalón geti nýst sem miðlun fyrir bæði vatnasviðin. Því er gerður fyrirvari um lónastærðir á Eyjabakkasvæðinu og aðra tilhögun virkjunar.“ Þá vill 2. minni hluti taka fram að þetta álit samvinnunefndarinnar var auglýst opinberlega vorið 1997 og síðan staðfest af umhverfisráðherra í maí 1999.

3.    Ófullkomið arðsemismat.
    Mikil umræða hefur vaknað um arðsemi virkjunarinnar og hafa ýmsir aðilar dregið í efa að virkjunin muni standa undir sér. Raforkuverð liggur ekki fyrir en það er ein af þeim forsendum sem leggja þarf til grundvallar við arðsemismat virkjunarinnar. Samkvæmt upplýsingum sem nefndin hefur fengið hjá Sigurði Jóhannessyni hagfræðingi virðist Landsvirkjun þurfa að selja kw-stundina mun hærra verði en gert er í dag til að virkjunin verði hagkvæm í rekstri. Þá hefur ekki verið lagt mat á náttúruleg verðmæti sem tapast við framkvæmdirnar. Mat hefur ekki farið fram á því landi, náttúruverðmætum og auðlind sem fórna þarf verði virkjað á svæðinu. Í útreikninga Þjóðhagsstofnunar vegna virkjunarframkvæmdanna vantar umhverfisþáttinn og af þeirri ástæðu er sú aukning þjóðarframleiðslu sem þar er gert ráð fyrir ofmetin sem því nemur. Þá er ljóst að ekki er tekið tillit til verndargildis Eyjabakka en það er mjög hátt að margra mati. 2. minni hluti telur skilyrðislaust að reikna þurfi umhverfisþáttinn inn í hagkvæmnistölur virkjunarinnar, annars sé dæmið ekki reiknað til fullnustu.
    Að mati 2. minni hluta hefur alvarleg og málefnaleg gagnrýni komið fram á skýrslu Landsvirkjunar. Sérfræðingar á sviði náttúrufars hafa lýst þeirri skoðun sinni að þeir telji að framsetning og túlkun gagna í skýrslunni sé virkjunaraðila í hag. 2. minni hluti telur augljóst að skýrslan er skrifuð af mörgum höfundum svo að ekki gætir samræmis í efnislegri meðferð auk þess sem hún ber þess merki að vera ekki skrifuð af líffræðingum, náttúrufræðingum eða vistfræðingum. Þá hefur verið bent á ýmsar rannsóknir, bæði innlendar og erlendar, sem til eru um áhrif virkjanaframkvæmda á dýralíf og náttúrufar á svæðinu sem ekki er getið í skýrslu Landsvirkjunar. Má þar nefna áfangaskýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands um verndargildi virkjanasvæða, unnin fyrir verkefnisstjórn rammaáætlunar ríkisstjórnarinnar í nóvember 1999, skýrslur um íslenskar rannsóknir á rofi við miðlunarlón og við Lagarfljót vegna vatnsborðsbreytinga (Ásrún Einarsdóttir og Borgþór Magnússon, 1998: Gróðurbreytingar í mólendi við Blöndulón; Borgþór Magnússon 1995: Gróðurbreytingar í mólendi við Blöndulón; Borgþór Magnússon og Ásrún Elmarsdóttir: Frá Blöndulóni að Norðlingaöldu; Sigurður H. Magnússon, Kristbjörn Egilsson og Eyþór Einarsson 1998: Gróðurbreytingar við Lagarfljót 1976–1994; Þóra Ellen Þórhallsdóttir 1994: Áhrif miðlunarlóns á gróður og jarðveg), skýrslu C. Nellemanns, I. Vistness og Skarphéðins Þórissonar 1999: Environmental impacts of the Fljótsdalur and Kárahnjúkar hydro-electric power supply to aluminium smelter by Norsk Hydro in Iceland og Viðmiðunarreglur um mat á umhverfisáhrifum á heimskautasvæðum útgefnar 1997 af Arctic Environmental Protection Strategy.

4.    Athugasemdir við rannsóknarþátt skýrslu Landsvirkjunar.
    Gerður hefur verið fjöldi athugasemda við skýrsluna og við það hvernig hún hefur verið unnin. Það álit hefur verið látið í ljós að skýrslan sé áferðarfalleg og einkennist nokkuð af lýsingum á staðháttum en margar rannsóknir vanti til að hægt sé að meta svæðið heildstætt. Sem dæmi má nefna að gróðurhluti skýrslunnar er byggður á um 20 ára gömlum rannsóknum og er tekið fram að enda þótt niðurstöður þeirra standi enn vel fyrir sínu geta þær ekki talist fullnægjandi miðað við þær kröfur sem eðlilegt er að gera til slíkra rannsókna. Hvað varðar gróðurfar hefur einnig verið bent á að einn stærsti annmarki skýrslunnar sé að nær engin tilraun sé gerð til að setja gróður svæðisins í stærra samhengi með því að bera hann saman við gróður annars staðar á hálendinu eða skoða mikilvægi hans í evrópsku eða hnattrænu samhengi. Þá hefur verið bent á að Eyjabakkar séu flæðiengi en engar rannsóknir hafi farið fram sem skilgreina það vistkerfi gróðurs og dýra sem þarna er að finna. Víst er að flæðiengi eru sjaldgæf á miðhálendinu og tilvist þeirra á Eyjabökkum gefur svæðinu sérstöðu. Þá telur 2. minni hluti hæpið að halda því fram að allmargar athuganir hafi verið gerðar á gróðurfari Eyjabakkasvæðisins eins og segir í skýrslu Landsvirkunar (bls. 66). Þóra Ellen Þórhallsdóttur og fleiri hafa tjáð nefndinni að samkvæmt þeirra upplýsingum hafi grasafræðingar eytt að hámarki um 30 dögum við gagnasöfnun á Eyjabakkasvæðinu vegna virkjanaáforma þar ef frá er talin vinna við gróðurkort sumarið 1976. Þá fékk nefndin þær upplýsingar að Ágúst H. Bjarnason grasafræðingur, sem samkvæmt skýrslu Landsvirkjunar vann að athugunum á Eyjabakkasvæðinu sumarið 1998, hefði aldrei farið inn á Eyjabakkasvæðið heldur gert athuganir á Fljótsdalsheiði og við Hölkná, Laugará og Grjótá sem ekki eru á vatnasvæði Jökulsár í Fljótsdal heldur renna niður Hrafnkelsdal. Þá segir Þóra Ellen Þórhallsdóttir um skýrslu Ágústs að hún sé að hluta gagnrýnin úttekt á fyrri rannsóknum, einkum aðferðarfræði þeirra. Niðurstaða hans sé að meginþorri þeirra gróðurlýsinga sem til eru af þessu svæði sé almenns eðlis. Gróður á fyrirhuguðu svæði Eyjabakkalóns sé því aðeins þekktur í stærstu megindráttum þar sem fáar eða nær engar nákvæmar athuganir hafi verið gerðar. Þá hafa Þóra Ellen, Náttúruvernd ríkisins og fleiri bent á að litlar sem engar vistfræðirannsóknir hafi verið gerðar á svæðinu. Það álit var einnig látið í ljós við nefndina að skýrsla Landsvirkjunar endurspegli stöðu grasafræðilegrar þekkingar á Íslandi fyrir 20 árum og hún endurspegli hvorki nútímaþekkingu í plöntuvistfræði né verndunarlíffræði.
    Bent hefur verið á það af vísindamönnum sem komið hafa á fund nefndarinnar að í gróðurvinjum á íslenska miðhálendinu, sem samanstendur að mestu af eyðimörk, sé uppspretta fræja sem numið gætu land á auðnunum í kring með breyttum skilyrðum, t.d. minnkandi búfjárbeit, en þessa möguleika er í engu getið í skýrslunni.
    Þá hafa athugasemdir verið gerðar við mat á strandrofi í skýrslu Landsvirkjunar. Efasemdir hafa verið látnar í ljós um að líkan sem skýrsluhöfundar vísa til varðandi mat á strandrofi gagnist við íslenskar aðstæður en samkvæmt líkaninu verður strandrof lítið þegar halli lands við ströndina er minni en 7%. Ekki er vitnað til innlendra rannsókna og athugana sem gerðar hafa verið, t.d. við Blöndulón. Þá er ekki vísað í rannsóknir á strandrofi við aðra hluta lónsins þar sem halli er meiri en 7%. Samkvæmt upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands gefa niðurstöðurnar frá Blöndulóni til kynna að strandrof geti verið nokkurt á landi þar sem halli er 7% eða jafnvel minni. Niðurstöður frá Lagarfljóti munu benda í svipaða átt. Einnig hefur verið bent á að vatnsborðssveiflur í lóninu geti verið afar miklar, eða frá 8 km 2 allt upp í 43 km 2. Í skýrslunni er aðeins fjallað um aðstæður í meðalári sem er afar villandi því að fokhætta margfaldast ef nokkrir samverkandi umhverfisþættir verða allir hliðstæðir foki í einu. Hvað Eyjabakkalón áhrærir eru það einmitt sömu veðurskilyrði (langvinnir þurrkar) sem skapa hagstæð skilyrði fyrir vindrof og leiða til þess að lágt verður í lóninu. Þá hefur verið bent á að ekki liggi fyrir nægilega miklar rannsóknir á grunnvatnsstöðu til þess að hægt sé að fullyrða að grunnvatnsborð hækki eftir að lónið yrði tekið í notkun. Ljóst er að við Eyjabakkalón gætu fokefni rokið úr gífurlega stóru svæði og þau gætu borist yfir víðáttumikið gróið land norðan lónsins. Slíkt mundi auka verulega rofhættu á því landi og gæti í versta falli sett af stað keðjuverkandi ferli gróður- og jarðvegseyðingar. Hinir sérstöku eiginleikar eldfjallajarðvegs valda því að íslenskur jarðvegur er ákaflega viðkvæmur fyrir rofi, eins og saga gróðureyðingar hér á landi sýnir. Það er einmitt á jarðarsvæðum, eins og á hálendinu, sem minnst má út af bera. Margir af þeim sérfræðingum á sviði náttúrufars sem komið hafa til fundar við nefndina hafa látið í ljós það álit sitt að hugsanlegt sé að skýrslan gefi mjög ranga mynd af rofhættu við lónið, m.a. með hliðsjón af framangreindu.
    Sú fullyrðing kemur fram í skýrslu Landsvirkjunar að ekki er talið að breytingar á rennsli Lagarfljóts með tilkomu Fljótsdalsvirkjunar hafi áhrif á gróður meðfram fljótinu. Fulltrúi Náttúrufræðistofnunar Íslands og Eyþór Einarsson grasafræðingur hafa mótmælt þessu og m.a. bent á að rannsóknir sem gerðar hafa verið á gróðri meðfram Lagarfljóti í kjölfar virkjunar við Lagarfoss árið 1975 sýni að gróður hafi breyst verulega, jafnvel þótt vatnsstaða hafi ekki breyst nema um 30 sm. 2. minni hluti vill benda á að þessar rannsóknir eru meðal þeirra sem ekki er vitnað til í skýrslu Landsvirkjunar.
    Áburðaráhrifa vorflóða í Jökulsá í Fljótsdal er að engu getið í skýrslunni og því engin afstaða tekin til þess hvaða áhrif það kunni að hafa á gróður meðfram ánni þegar þeirra nýtur ekki lengur við. Þá er ekki getið um möguleg áhrif á lífríkið í Héraðsflóa þegar framburðar frá jökulánni nýtur ekki lengur við í þeim mæli sem nú er.
    Þá hefur sú gagnrýni komið fram að dýralífsþætti skýrslunnar sé mjög áfátt. Sérfræðingar á sviði hreindýrarannsókna hafa látið í ljós það mat sitt að ekki liggi fyrir nægilegar rannsóknir á fari og hegðun hreindýra á svæðinu. Þá bendir Náttúrufræðistofnun Íslands á að mjög takmarkaðar rannsóknir hafi verið gerðar á dýralífi á Eyjabökkum. Gerðar voru rannsóknir sem stóðu yfir á sumrin 1979–1981 auk einnar viku vinnu sumarið 1975. Að öðru leyti sé um að ræða talningar á gæsum og hreindýrum á Eyjabökkum dagpart á sumri hverju. Hins vegar er í skýrslu Landsvirkjunar talað um að rannsóknir á dýralífi hafi nú staðið yfir í 30 ár. Náttúrufræðistofnun Íslands telur að enginn vafi leiki á hvaða áhrif myndun lóns hefði á dýralíf á Eyjabökkum – dýrin missi búsvæði sín og lendi á hrakhólum. Fullnægjandi vitneskja sé hins vegar ekki til staðar um hvaða áhrif það muni hafa fyrir stofna viðkomandi tegunda, einkum gæsa og hreindýra, en eins og kunnugt er eru Eyjabakkar mikilvægasti fjaðrafellistaður á Íslandi fyrir heiðagæsir og eitt mjög fárra svæða á landinu sem bjóða upp á heppileg skilyrði fyrir stóran hóp fellifugla.

5.    Náttúruverndargildi vanmetið.
    Það er mat 2. minni hluta nefndarinnar að skýrslan geri beinlínis lítið úr náttúruverndargildi svæðisins og geri ekki grein fyrir því að það land sem þarna tapast verði ekki endurheimt á nokkurn hátt þrátt fyrir hugmyndir um mótvægisaðgerðir. Þær aðgerðir sem skýrslan gerir ráð fyrir til mótvægis eru að mati margra gesta nefndarinnar ófullnægjandi þar sem þær færu fram á láglendi fjarri Eyjabökkum. Þá er á það bent að ekki liggja fyrir nægilegar rannsóknir á því votlendi sem hefur verið endurheimt á landinu síðustu ár svo að ekki er hægt að draga þá ályktun að endurheimt votlendis sé einföld framkvæmd. Náttúruvernd ríkisins er meðal þeirra sem bent hefur á að eyðing votlendis sé eitt mesta umhverfisvandamál á Íslandi. Mjög erfitt er að fá land til að endurheimta votlendi og jafnframt hefur verið bent á að endurheimt votlendis á hálendi sé nánast óframkvæmanleg. Að mati 2. minni hluta nefndarinnar þurfa mótvægisaðgerðirnar að vera stórfelldar en jafnframt að þær séu algerlega ómótaðar þannig að ekki liggi fyrir hvar, hverjar eða hvenær þær verða og þaðan af síður hversu kostnaðarsamar mótvægisaðgerðirnar verði og hver eigi að greiða fyrir þær. Slíkar aðgerðir hafa ekki verið kynntar sem hluti af stofnkostnaði við virkjunina.

6.    Aðrir virkjunarkostir.
    2. minni hluti telur að aðrir virkjunarkostir hafi ekki verið skoðaðir nægjanlega. Athugasemdir hafa verið gerðar af sérfræðingum sem komið hafa á fund nefndarinnar við framsetningu á öðrum valkostum í skýrslu Landsvirkjunar. Þeir eru settir fram á þann hátt að erfitt er að átta sig á ólíku gildi þeirra og virðast afgreiddir af Landsvirkjun sem óframkvæmanlegir eða lakari kostur en sá sem liggur fyrir. Er 2. minni hluti sammála þeim gestum nefndarinnar sem telja að vega ætti og meta kostina á eins hlutlausan hátt og kostur er, þannig að um raunverulegt val milli ólíkra kosta geti verið að ræða. Komið hefur fram að ýmsir sérfræðingar, þar á meðal sérfræðingar Landsvirkjunar og iðnaðarráðuneytis, álíta að hægt sé að virkja þannig á Eyjabökkum að stíflað sé neðar og þar með hlíft viðkvæmasta svæðinu, sem eru innstu 4–5 km, og aðalvotlendið næst Snæfelli haldi sér þar með. Þessi leið virðist geta verið mun ákjósanlegri út frá náttúruverndarsjónarmiðum og því ber að mati 2. minni hluta nefndarinnar að skoða hana betur. Einnig hefur verið bent á þann kost að hlífa Eyjabökkum að fullu en virkja þess í stað báðar árnar saman við Kárahnúka og leggur 2. minni hluti áherslu á að sá möguleiki verði skoðaður. Það er staðreynd að 1. áfangi álvers á Reyðarfirði útheimtir meiri orku (40 MW) en Fljótsdalsvirkjun getur látið í té samkvæmt þeim hönnunartillögum sem liggja fyrir. Hefur verið bent á í því samhengi að rétt sé að meta kosti Hraunaveitu meiri, áður en framkvæmdir hefjast, þar sem sú virkjunartilhögun gerir ekki ráð fyrir miklu meiri umhverfisskaða en hlýst af þeirri tilhögun sem er til umræðu. Í því sambandi má geta þess að virkjun við Bjarnarflag, sem talað er um að geti aflað þeirrar viðbótarorku sem þörf er á, yrði á friðlýstu svæði.

7.    Alþjóðasamningar.
    Þá telur 2. minni hluti nefndarinnar að í 10. kafla skýrslu Landsvirkjunar þar sem m.a. er fjallað um alþjóðlega samninga að mikilvægum atriðum sé sleppt og hefur Náttúrufræðistofnun Íslands einnig vakið athygli á því í umsögn sinni til nefndarinnar. Í kaflanum er fjallað um Ramsar-samninginn um verndun votlendis sem Íslendingar gerðust aðilar að árið 1978, eða þremur árum áður en heimildarlög um Fljótsdalsvirkjun voru samþykkt. Í skýrslunni eru nokkur ákvæði rakin en ýmsu sleppt, m.a. því ákvæði að láta framkvæma mat á umhverfisáhrifum áður en votlendi er breytt eða það eyðilagt. (rec. 1.6, 2.3, 3.1 og 4.10). Þá gerir Náttúrufræðistofnun Íslands einnig athugasemdir við umfjöllun um tvo aðra alþjóðasamninga, annars vegar um Ríó-samninginn um líffræðilega fjölbreytni, en stofnunin telur umfjöllunina mjög takmarkaða og villandi og sá misskilningur komi fram að samningurinn snúist nær eingöngu um hættuna á útrýmingu tegunda. Stofnunin bendir á að hann snúi ekki síður að varðveislu búsvæða og vistkerfa, ekki síst þeirra sem eru í óbyggðum og varði fartegundir (sbr. t.d. 7. gr. samningsins og viðauka I). Hins vegar sé um að ræða Bernarsamninginn um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu. Í skýrslunni er því haldið fram að Eyjabakkasvæðið falli ekki undir samninginn sem lífsvæði heiðagæsar. Bendir stofnunin á að í 1. gr. samningsins komi fram að markmið hans sé að vernda villtar plöntur og dýr og náttúruleg búsvæði þeirra, sérstaklega þeirra tegunda og búsvæða sem verða ekki verndaðar sem skyldi nema í samvinnu fleiri ríkja.
    Nefndin ræddi um möguleg áhrif virkjunarinnar á ferðamennsku við gesti sína og vill 2. minni hluti benda á það mat SAMÚT, samtaka útivistarfélaga, að ímynd Íslands í augum ferðamanna sé í mikilli hættu komi til þess að virkjað verði á Eyjabökkum. Þá hefur verið bent á möguleg áhrif skaddaðrar ímyndar landsins á viðskiptaaðila Íslendinga erlendis.

8.    Sérstaða Eyjabakka.
    2. minni hluti nefndarinnar telur mikilvægt að líta til sérstöðu hálendis Íslands þegar tekin er afstaða til þess hvort byggja eigi álver við Reyðarfjörð og virkja í því skyni. Telur hún engan vafa leika á því að hálendið sé náttúrufarslega mikilvægt á heimsvísu, sem eitt stærsta ósnortna svæði í Vestur-Evrópu. Vegna þessa er nauðsynlegt að meta arðsemi þess að svæðið verði friðað.
    Eyjabakkar hafa verið á náttúruminjaskrá frá 1978 og hefur verndargildi þeirra verið talið mikið af stofnunum á sviði náttúruverndar. Kemur það mat m.a. fram í samantekt sem gerð var fyrir umhverfisnefnd og iðnaðarnefnd Alþingis á þessu ári af Náttúrufræðistofnun Íslands. Verður stiklað á stóru í þeirri samantekt. Fjallað er um mikið verndargildi einstakra fossa/fossaraðar í Jökulsá í Fljótsdal og það nefnt að um fágætt náttúrufyrirbæri sé að ræða. Einnig er nefnd samfelld gróðurþekja sem nær frá Héraðsflóa inn að jökuljöðrum beggja vegna Snæfells en hvergi annars staðar á landinu er að finna sambærilega gróðurhulu frá fjöru til jökla auk þess er getið um að algróið land við jökulsporða á miðhálendinu sé fágætt og því sé verndargildi mikið. Þá er einnig fjallað um sérstöðu Eyjabakka, en hvergi á Íslandi er að finna jafngróið svæði í jafnmikilli hæð yfir sjávarmáli. Stór hluti af svæðinu er flæðiland en það er mjög sjaldgæft á hálendi og hefur því mikið verndargildi. Þá er þess getið að afar sérstæðir hraukar séu á Eyjabökkum, verndargildi þeirra er óumdeilt enda eru hraukarnir á Eyjabökkum líklega þeir einu sem orðið hafa til við að jökull gekk út á mýrlendi. Hraukarnir á Eyjabökkum munu hverfa undir vatn ef stíflað verður á Eyjabökkum. Hvað líffræðilega fjölbreytni og gróður á Eyjabökkum varðar felst sérstaða þess í mikilli frjósemi hátt til fjalla og hlutfallslega mikilli fjölbreytni þrátt fyrir að sjaldgæfar tegundir séu ekki margar og helst verndargildið hátt vegna gróðurs á hraukum og í flæðilöndum. Verndargildi líffræðilegrar fjölbreytni og fugla er mikið vegna þýðingar Eyjabakka fyrir heiðagæsir og einnig telst svæðið alþjóðlega mikilvægur varpstaður fyrir íslenska álftastofninn en 1–2% hans nýtir Eyjabakka til varps og fæðuöflunar. Álftin og búsvæði hennar njóta auk þess sérstakrar verndar samkvæmt Bernarsáttmálanum. Hvað varðar mikilvægi fyrir einstaka stofna njóta Eyjabakkar sérstöðu þar sem þeir eru mikilvægasti fjaðrafellistaður heiðagæsar á Íslandi og eitt af mjög fáum svæðum hérlendis sem bjóða upp á heppileg skilyrði fyrir stóran hóp fellifugla. Verndargildi þess er því mikið á lands-, Evrópu- og heimsvísu þar sem hátt hlutfall íslenskra heiðagæsa og íslensk-grænlenska heiðagæsastofnsins nýtir svæðið (sbr. Ramsar- samninginn). Mikilvægi Eyjabakka fyrir hreindýrastofninn er einnig mikið enda nýtir stór hluti íslenska hreindýrastofnsins þá til beitar. Að mati stofnunarinnar er erfitt að meta þýðingu svæðisins fyrir stofninn á grundvelli fyrirliggjandi gagna en verndargildi beitilandsins telur hún talsvert eða mikið.
    2. minni hluti nefndarinnar ítrekar það álit sitt að fyrirhugaðar framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun fari í mat á umhverfisáhrifum samkvæmt gildandi lögum.

Alþingi, 6. des. 1999.



Ólafur Örn Haraldsson, form.


Katrín Fjeldsted.




Fylgiskjal III.

Umsögn 3. minni hluta umhverfisnefndar.


(Reykjavík, 6. desember 1999.)



    Við undirrituð nefndarmenn í umhverfisnefnd styðjum í einu og öllu álit og niðurstöðu formanns nefndarinnar, Ólafs Arnar Haraldssonar, og Katrínar Fjeldsted er varðar þingsályktunartillögu um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun, þskj. 216, 186. mál.

Össur Skarphéðinsson.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Kolbrún Halldórsdóttir.



Fylgiskjal IV.


Umsögn Aðalheiðar Jóhannsdóttur lögfræðings.
(1. desember 1999.)



(Texti er ekki til tölvutækur.)





Fylgiskjal V.


Umsögn Náttúruverndar ríkisins.
(1. desember 1999.)



(Texti er ekki til tölvutækur.)





Fylgiskjal VI.


Umsögn Þóru Ellenar Þórhallsdóttur prófessors.
(3. desember 1999.)



(Texti er ekki til tölvutækur.)





Fylgiskjal VII.


Umsögn Skipulagsstofnunar.
(3. desember 1999.)


(Texti er ekki til tölvutækur.)



Fylgiskjal VIII.


Greinargerð Náttúruverndarsamtaka Íslands við skýrslu Landsvirkjunar.
(3. desember 1999.)


(Texti er ekki til tölvutækur.)




Fylgiskjal IX.


Umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands.
(2. desember 1999.)



(Texti er ekki til tölvutækur.)





Fylgiskjal X.

Skýrsla Náttúrufræðistofnunar Íslands.



(Texti er ekki til tölvutækur.)





Fylgiskjal XI.


Umsögn Gísla Gíslasonar landslagsarkitekts.


(2. desember 1999.)




(Texti er ekki til tölvutækur.)




Fylgiskjal XII.


Umsögn Eyþórs Einarssonar grasafræðings.


(3. desember 1999.)




(Texti er ekki til tölvutækur.)





Fylgiskjal XIII.


Umsögn Náttúruverndarsamtaka Íslands.


(30. nóvember 1999.)




(Texti er ekki til tölvutækur.)





Fylgiskjal XIV.


Umsögn Geirs Oddssonar, fiski- og auðlindafræðings.


(30. nóvember 1999.)




(Texti er ekki til tölvutækur.)





Fylgiskjal XV.


Kæra Náttúruverndarsamtaka Íslands til Eftirlitsstofnunar EFTA.


(20. október 1999.)




(Texti er ekki til tölvutækur.)

Neðanmálsgrein: 1
    1 Landsvirkjun hefur greitt í ábyrgðargjald 0,15–0,25% af skuldbindingum ríkisins vegna hennar. Þetta er aðeins brot af verðmæti ábyrgðarinnar sem lækkar vexti fyrirtækisins um eitt eða fleiri prósent.
Neðanmálsgrein: 2
    2 Sjá til dæmis Frjálsa verslun, 9. tölublað 1998: Garðyrkjumaður græðir á landsölu.


Neðanmálsgrein: 3
    3 Björn Th. Björnsson (1987): Þingvellir staðir og leiðir, 2. útgáfa, bls. 126, Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
Neðanmálsgrein: 4
    4 Samtal við Þorstein Hilmarsson, upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar, 17. október.

Neðanmálsgrein: 5
    5 Sjá Pearce, D.W. (1994): The Environment í Layard og Glaister (ritstj.): Cost-Benefit Analysis, 2. útg., Cambridge University Press.