Ferill 186. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 450  —  186. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun.

Frá 2. minni hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölda gesta sem venju samkvæmt eru taldir upp í áliti meiri hluta nefndarinnar. Þá barst nefndinni fjöldi umsagna og erinda, auk þess sem á annað hundrað bréf hafa borist nefndinni í tölvupósti sem ekki var unnið með, hvorki í umhverfisnefnd né iðnaðarnefnd.

1. Inngangur.
    Afstaða 2. minni hluta, fulltrúa Samfylkingarinnar, til málsins er skýr. Gerð er krafa um að fram fari lögformlegt umhverfismat áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar enda ekki fallist á að svo gömul leyfi sem raun ber vitni liggi til grundvallar svo umdeildum framkvæmdum.
    Í samræmi við afstöðu Samfylkingarinnar til málsins lögðu þingmenn hennar fram breytingartillögu um að virkjunin færi í mat á umhverfisáhrifum. Í tillögunni, á þskj. 228, segir að á grundvelli fyrirliggjandi skýrslu um umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar, greinargerðar um orkuöflun fyrir álver í Reyðarfirði, skýrslu um þjóðhagsleg áhrif álversins og athugunar á samfélagslegum áhrifum þess lýsi Alþingi yfir stuðningi við áform um gerð Fljótsdalsvirkjunar, sbr. lög um raforkuver, nr. 60/1981, samning ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkjunar, dags. 11. ágúst 1982, og lög um Landsvirkjun, nr. 42/1983, enda hefjist framkvæmdir ekki nema að fengnu jákvæðu mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna samkvæmt ákvæðum laga nr. 63/1993.
    Með hliðsjón af framangreindu lögðu þingmenn Samfylkingarinnar einnig fram frumvarp um að öll virkjanaleyfi skuli háð umhverfismati. Í frumvarpinu, sem er um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, 197. mál, þskj. 230, er lögð til sú breyting á ákvæði til bráðabirgða II í lögunum að taldar verði upp þær virkjanir sem skuli háðar mati á umhverfisáhrifum, enda falli þær undir skilyrði 5. gr. laganna um skyldu til umhverfismats. Þá segir í frumvarpinu að aðrar virkjunarheimildir sem veittar hafa verið með lögum fyrir gildistöku laganna um mat á umhverfisáhrifum en eru ekki komnar til fullra framkvæmda árið 1999 skuli með sömu skilyrðum háðar mati á umhverfisáhrifum.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að málið sé flutt í framhaldi af svari iðnaðarráðherra á þskj. 141 við fyrirspurn Sighvats Björgvinssonar um virkjunarleyfi og umhverfismat, 62. mál, en þar benti iðnaðarráðherra á að þó nokkur fjöldi virkjunarheimilda væri í lögum, sérstaklega lögum um raforkuver, nr. 60/1981, sem taldar væru undanþegnar ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, þótt framkvæmdir væru ekki hafnar. Þessar lagaheimildir ná til ársins 1947, en á árunum 1947.56 setti Alþingi fjórum sinnum lög um ný orkuver Rafmagnsveitna ríkisins. Þessi lög væru enn í gildi og þar væri að finna ónýttar heimildir, en um litlar virkjanir væri að ræða.
    Þá kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að öllu alvarlegra sé að í lögum um raforkuver sé að finna virkjunarheimildir stórra raforkuvera eða heimildir til verulegra stækkana á eldri raforkuverum sem stjórnvöld telja undanþegin mati á umhverfisáhrifum um ókominn tíma. Einnig er þar bent á að undanfarin ár hafi orðið gífurleg viðhorfsbreyting meðal almennings til umhverfismála og náttúruverndar. Það er í hæsta máta óeðlilegt að jafnvel áratuga gömul leyfi til virkjunar sem ekki hafa komið til framkvæmda skuli standa óhögguð þrátt fyrir breyttar kröfur samfélagsins. Slíkar framkvæmdir eigi og verði að vera metnar út frá umhverfissjónarmiðum sem gilda þegar framkvæmdir fara fram en ekki þegar leyfi var veitt, ef til vill mörgum árum áður, ef leyfisveiting og framkvæmdir haldast ekki í hendur.
    Með þessum þingmálum áréttar Samfylkingin að farið sé að lögum í stað þess að skýla sér bak við umdeilt bráðabirgðaákvæði í lögum um mat á umhverfisáhrifum.

2. Málsmeðferð.
    Samfylkingin gagnrýnir harðlega þá málsmeðferð sem málið hefur fengið á Alþingi. Umfangsmesta þætti málsins, umhverfisþætti þess, var vísað til umhverfisnefndar en önnur atriði voru rædd í iðnaðarnefnd og fékk umhverfisnefnd innan við tveggja vikna frest til að skila iðnaðarnefnd áliti sínu. Í áliti 2. minni hluta umhverfisnefndar, sem fulltrúar Samfylkingarinnar í umhverfisnefnd styðja, kemur fram að vegna tímaskorts hafi ekki verið hægt að kalla til fleiri aðila eða leita eftir umsögnum sem skýrt hefðu betur ýmsa grundvallarþætti málsins. Megi þar m.a. nefna lagaleg atriði, gróðurfar, dýralíf, mat á arðsemi, m.a. með tilliti til verðmætis lands, náttúru og auðlinda, mat á öðrum nýtingarmöguleikum svæðisins o.fl. Meðal þeirra aðila sem leita hefði þurft álits hjá og umsagna eru óháðir lögfróðir aðilar, m.a. frá Háskóla Íslands, aðilar með sérþekkingu á útreikningum arðsemismats, m.a. frá Þjóðhagsstofnun, Umhverfisstofnun Háskóla Íslands o.fl., og náttúrufræðingar sem rannsakað hafa dýralíf og gróðurfar svæðisins. Þá hefði einnig þurft að kalla til aðila sem hefðu afgerandi áhrif á málsmeðferð umhverfisþáttarins.
    Meiri hluti iðnaðarnefndar synjaði beiðnum um að umhverfisþætti málsins yrði fylgt eftir í iðnaðarnefnd, sem og því að leita álits sérfræðinga á gagnrýni Landsvirkjunar á álit umhverfisnefndar. Ekki var heldur orðið við erindum þeirra aðila sem með tölvupósti óskuðu eftir að koma á fund nefndarinnar.

3. Rök fyrir umhverfismati.
    Í lögum um mat á umhverfisáhrifum segir m.a. í 1. gr. að markmið laganna sé að tryggja að mat á umhverfisáhrifum fari fram áður en tekin sé ákvörðun um framkvæmdir sem kunna, vegna staðsetningar, starfsemi sem þeim fylgir, eðlis eða umfangs, að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag.
    Í 7. og 8. gr. laganna segir að áður en hafist sé handa um framkvæmdir sem lögin eða reglugerð sett samkvæmt þeim taki til skuli framkvæmdaraðili senda skipulagsstjóra tilkynningu um fyrirhugaða framkvæmd þar sem fram komi lýsing á framkvæmdinni, ráðgerðri hönnun og hugsanlegri umhverfisröskun og fyrirhuguðum ráðstöfunum til að draga úr henni og aðrar upplýsingar sem skipulagsstjóri telur nauðsynlegar. Skipulagsstjóri skuli síðan innan tveggja vikna birta tilkynningu framkvæmdaraðila ásamt meðfylgjandi gögnum með opinberri auglýsingu. Athugasemdum skuli skilað til skipulagsstjóra innan fimm vikna frá birtingu auglýsingar. Innan átta vikna frá því að skipulagsstjóri hefur birt tilkynningu framkvæmdaraðila skuli hann kveða upp rökstuddan úrskurð um það hvort fallist sé á viðkomandi framkvæmd, með eða án skilyrða, eða hvort ráðist skuli í frekara mat á umhverfisáhrifum. Þegar ákvörðun skipulagsstjóra liggur fyrir skuli hún kynnt framkvæmdaraðila, leyfisveitendum og sveitarstjórnum sem hlut eiga að máli. Jafnframt skuli birta hana opinberlega.
    Í 10. og 11. gr. laganna kemur fram að í mati á umhverfisáhrifum skuli tilgreina á viðeigandi hátt áhrif sem framkvæmdir og fyrirhuguð starfsemi kunni að hafa á menn, samfélag og menningu, dýr, plöntur og aðra þætti lífríkis, jarðveg, vatn, loft, veðurfar og landslag og á samverkan þessara þátta. Þar skuli gera sérstaka grein fyrir því hvaða forsendur liggi til grundvallar matinu. Innan tveggja vikna frá því að skipulagsstjóri hafi tekið á móti niðurstöðum mats á umhverfisáhrifum skuli hann birta þær með opinberri auglýsingu. Athugasemdum skuli skilað til skipulagsstjóra innan fimm vikna frá auglýsingu og innan átta vikna frá því að skipulagsstjóri birti niðurstöður mats á umhverfisáhrifum skuli hann kveða upp rökstuddan úrskurð á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Í úrskurði felist að fallist sé á viðkomandi framkvæmd, með eða án skilyrða, krafa sé gerð um frekari könnun einstakra þátta eða lagst gegn viðkomandi framkvæmd. Þegar úrskurður skipulagsstjóra liggur fyrir skuli hann kynntur framkvæmdaraðila, leyfisveitendum og sveitarstjórnum sem hlut eiga að máli. Jafnframt skuli birta úrskurðinn eða útdrátt úr honum opinberlega. Almenningur skuli eiga greiðan aðgang að úrskurði skipulagsstjóra, svo og niðurstöðum matsins.
    Með því að tryggja að umdeild framkvæmd eins og virkjun í Fljótsdal fari í lögformlegt umhverfismat er verið að fylgja reglum sem tryggja aðkomu og andmælarétt borgaranna.

4. Skortur á rannsóknum á gróðurfari og dýralífi.
    Fullyrðingar í skýrslu Landsvirkjunar um að ítarlegar rannsóknir á gróðurfari á lónstæði Eyjabakkalóns hafi staðið yfir með hléum frá 1975 (bls. 66) standast ekki. Engar rannsóknir hafa verið birtar frá þessu svæði sem gerðar hafa verið eftir 1978. Skýrsla Ágústs H. Bjarnasonar grasafræðings, sem unnin var fyrir Landsvirkjun og fjallaði m.a. á gagnrýninn hátt um fyrri gróðurrannsóknir á Eyjabökkum, var ekki birt í fylgiskjölum með skýrslu Landsvirkjunar, þrátt fyrir að vera ein helsta heimild skýrsluhöfunda um gróðurfar á svæðinu. Fullyrðingar Þóru Ellenar Þórhallsdóttur, prófessors í grasafræði, um að skýrsla Landsvirkjunar endurspegli stöðu grasafræðilegrar þekkingar á Íslandi fyrir 20 árum og hún endurspegli hvorki nútímaþekkingu í plöntuvistfræði né verndunarlíffræði eru í fullu gildi. Í greinargerð sinni til iðnaðarnefndar víkur Landsvirkjun sér undan því að svara málefnalega þeirri gagnrýni að nauðsynlegt sé að gera úttekt og rannsóknir á Eyjabakkasvæðinu í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til slíkra rannsókna í dag.
    Náttúrufræðistofnun Íslands bendir í greinargerð sinni til umhverfisnefndar á að mjög takmarkaðar rannsóknir hafi verið gerðar á dýralífi á Eyjabökkum. Um sé að ræða rannsóknir sem gerðar voru sumrin 1979–81 auk einnar viku vinnu sumarið 1975. Að öðru leyti sé um að ræða talningar á gæsum og hreindýrum á Eyjabökkum dagpart á sumri hverju.
    Sérfræðingar á sviði hreindýrarannsókna hafa látið í ljós það mat að ekki liggi fyrir nægilegar rannsóknir á fari og hegðun hreindýra á svæðinu til að hægt sé að meta með öryggi áhrif Eyjabakkkalóns á hreindýrastofninn. Nýleg samantekt íslenskra og norskra sérfræðinga leiðir hins vegar líkur að því að áhrif virkjana norðan Vatnajökuls geti haft veruleg áhrif á stofninn.

5. Mótvægisaðgerðir.
    Hugmyndir Landsvirkjunar um mótvægisaðgerðir á Eyjabakkasvæðinu til að bæta tap á gróðurlendum og búsvæðum fugla sem tíundaðar eru í greinargerð fyrirtækisins við álit 1. minni hluta umhverfisnefndar eru óljóst og almennt orðaðar þannig að mjög erfitt er að meta raunhæfni þeirra. Sama gildir um umfjöllun um slíkar aðgerðir í skýrslu Landsvirkjunar, Fljótsdalsvirkjun, umhverfi og umhverfisáhrif. Þær hugmyndir sem Landsvirkjun greinir frá og gagnast eiga fuglalífi á Eyjabakkasvæðinu, þ.e. að búa til eyju eða eyjar í lóninu, sem og að styrkja náttúrulegan gróður með fram strönd lónsins og að rækta gróður á jökulgörðum syðst í lóninu, eru samkvæmt erlendum rannsóknarniðurstöðum á sambærilegum aðgerðum ólíklegar til árangurs. Þetta kemur m.a. fram í riti Þóru Ellenar Þórhallsdóttur prófessors: Áhrif miðlunarlóns á gróður og jarðveg í Þjórsárverum (Líffræðistofnun Háskólans, 1994) sem er ítarlegasta greinargerð sem ráðist hefur verið í hér á landi um umhverfisáhrif af völdum miðlunarlóna.
    Tilbúnar eyjar munu að öllum líkindum lítið sem ekkert gagnast heiðagæs. Vandamál heiðagæsanna verður ekki skortur á eyjum, heldur skortur á próteinríkri fæðu sem er þeim nauðsynleg til að komast af og ljúka fjaðrafelli. Allt helsta beitiland heiðagæsanna á Eyjabakkasvæðinu mun hverfa undir fyrirhugað miðlunarlón og eyðileggjast, liðlega 15 km² af próteinríkum votlendisgróðri. Vegna breytilegrar vatnshæðar í miðlunarlóninu má staðhæfa að nær ófært sé að skapa aðstæður fyrir votlendisgróður á eyjunum og skiptir engu hversu margar eða stórar þær yrðu. Vegna öldurofs má jafnframt búast við að eyjarnar rýrni og hverfi fyrr en seinna.
    Gera má ráð fyrir umtalsverðu rofi á mestallri strandlengju lónsins á tímabilinu júlí – október þegar vatnsborðsstaða er hæst í lóninu, bæði vegna vinds og ölduróts. Á nýja strandsvæðinu er núna ríkjandi þurrlendisgróður sem þolir ekki að blotna og þorna á víxl og því mun hann drepast og hverfa og gróðurvana belti myndast. Jarðvegurinn undir er víðast hvar leirkenndur framburður sem er einnig auðrofinn. Hér skiptir ekki meginmáli hversu bratt er upp frá ströndinni eins og gefið er í skyn í skýrslu Landsvirkjunar, en þar er notaður 7% halli sem þröskuldsgildi fyrir lítið eða mikið rof. Stór gróðurvana belti munu einmitt myndast þar sem land er flatt og hallar lítið. Engin reynsla er hér á landi af ræktunaraðgerðum til að sporna við strandrofi. Landsvirkjun hefur gert eina tilraun í þessa veru, þ.e. við Stóraversvatn í Þjórsárverum, en hún mistókst þar sem svæðið var ekki girt af og gæsir átu upp alla hnausana sem var plantað, sbr. áðurnefnt rit Þóru Ellenar, bls. 120. Samkvæmt samantekt Þóru, sem tvímælalaust er helsti plöntuvistfræðingur hér á landi og með hvað mesta reynslu á umræddu sviði, er ljóst að uppgræðsluaðgerðir af hvaða toga sem er verða ávallt mjög erfiðar á strandsvæðum í miðlunarlónum hér á landi, sér í lagi þó í mikilli hæð þar sem sumur eru stutt og köld eins og á Eyjabakkasvæðinu.
    Landsvirkjun hefur haft nægan tíma til að semja skýra og ítarlega áætlun um mótvægisaðgerðir, en í stað þess ber fyrirtækið á borð ómótaðar hugmyndir þar sem fátt er fast í hendi. Krafa um slíka áætlun er ekki aðeins í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum heldur eðlileg í ljósi þess að aldrei áður hefur verið ráðist í jafn umfangsmikla framkvæmd sem raskar og eyðileggur eins víðáttumikið og fágætt votlendi í einu vetfangi á Íslandi. Vísbendingar sem byggjast á erlendri reynslu og á kringumstæðum hér á landi benda til þess að hugmyndir Landsvirkjunar og 1. minni hluta umhverfisnefndar um mótvægisaðgerðir á Eyjabakkasvæðinu séu ekki líklegar til að leiða til raunhæfs árangurs.

6. Skipulagsmál.
    Samfylkingin vekur athygli á athugasemdum skipulagsstjóra en hann bendir á að ekki liggi fyrir deiliskipulag af þeim svæðum sem framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun eru fyrirhugaðar á. Hann telur að þær kalli á gerð deiliskipulags, annars vegar fyrir aðkomu- og stöðvarhússvæði og hins vegar fyrir stíflustæði. Þar sem aðal- eða svæðisskipulag er ekki fyrir hendi er unnt að auglýsa deiliskipulagstillögu og ganga frá deiliskipulagi á grundvelli 3. tölul. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga. Skipulagsstofnun verður að samþykkja að auglýsa tillögu að deiliskipulagi og að fengnu samþykki hennar fer með auglýsingu og afgreiðslu deiliskipulagsins skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga. Liggi staðfest svæðisskipulag fyrir getur sveitarstjórn auglýst tillögu að deiliskipulagi skv. 25. gr. sömu laga án meðmæla Skipulagsstofnunar. Telur skipulagsstjóri samkvæmt þessu að Fljótsdalshreppur þurfi að leita meðmæla stofnunarinnar vegna auglýsingar deiliskipulagstillögu fyrir aðkomu- og stöðvarhússvæði en Fljótsdalshreppur og Norður-Hérað geti auglýst deiliskipulagstillögu fyrir stíflusvæði á grundvelli svæðisskipulags miðhálendis.
    Þá vekur Samfylkingin athygli á því að skipulagsstjóri telur að skv. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga þyrfti byggingarleyfi fyrir varanlegum húsbyggingum í tengslum við virkjanir, en það ætti m.a. við um stöðvarhús, íbúðarhús, mötuneyti og verkstæði. Þá upplýsti hann að byggingarleyfi væri ekki fyrir húsbyggingum vegna Fljótsdalsvirkjunar. Enn fremur greindi hann frá því að framkvæmdaleyfi fyrir byggingu virkjunarinnar frá sveitarstjórn, samkvæmt þágildandi skipulags- og byggingarlögum, væru ekki til staðar, að undanskildu leyfi fyrir aðkomugöngum virkjunarinnar. Hjá skipulagsstjóra kom fram að hann teldi að aðrar framkvæmdir við virkjunina sem ekki væru byggingarleyfisskyldar, þar á meðal stíflugerð, vegir, veitur og efnistökustaðir, væru háðar framkvæmdaleyfi skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, að mati Skipulagsstofnunar. Iðnaðarráðherra hefur staðfest að ekki séu öll leyfi fyrir hendi.

7. Lagaóvissa.
    Í umsögn Aðalheiðar Jóhannsdóttur lögfræðings um málið kemur fram að hún telur að tengsl ESB-réttar og EES-réttar annars vegar og EES-réttar og íslenskra laga hins vegar séu vanmetin í athugasemdum við þingsálykunartillöguna. Lögin um mat á umhverfisáhrifum hafi m.a. verið sett til þess að uppfylla tilteknar skuldbindingar í EES-samningnum. Þessar skuldbindingar sé að finna í tilskipun ráðsins 85/337/EBE frá 27. júní 1985 um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið. Í tilskipuninni sé hins vegar ekki ákvæði um það hvernig fara skuli með leyfi sem gefin voru út áður en hún kom til framkvæmda innan ESB 3. júlí 1988. Meðal annars vegna þessa hefur tugur dóma gengið þar sem ýmis ákvæði tilskipunarinnar hafa verið skýrð. Hefur dómstóll ESB í nokkrum dómum slegið því föstu að hafi formlega verið sótt um heimild til að hefja framkvæmdir eftir að tilskipunin kom til framkvæmda beri að meta umhverfisáhrif þeirra samkvæmt ákvæðum hennar. Í umsögn Aðalheiðar kemur hins vegar fram að ekkert þeirra mála sem dómstóllinn hefur dæmt í hafi að fullu verið sambærilegt við stöðuna í íslenskum rétti.
    Þá bendir Aðalheiður á að samkvæmt íslenskum rétti sé ekki sjálfgefið hvaða leyfi sé endanlegt leyfi til framkvæmda, sbr. orðalag 2. gr. laga nr. 63/1993, þar sem framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun og rekstur hennar séu háð nokkrum leyfum, m.a. virkjunarleyfi sem var gefið út árið 1991 og framkvæmdaleyfi í samræmi við 27. gr. skipulags- og byggingalaga, nr. 73/1997. Hún dregur í efa að rétt sé að líta svo á að virkjunarleyfið sé endanlegt leyfi. Jafnframt telur hún það eðlilegri lögskýringu, og frekar í samræmi við fyrirliggjandi dómafordæmi dómstóls ESB, að miða við framkvæmdaleyfi skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga og að lögin um mat á umhverfisáhrifum eigi að gilda um framkvæmdina þar sem þetta framkvæmdaleyfi hafi ekki verið gefið út.
     Í grein um efni Ríó-sáttmálans sem Einar B. Pálsson prófessor skrifaði í Morgunblaðið 14. október sl. víkur hann m.a. að hinni svokölluðu varúðarreglu. Hún er ein af meginreglum umhverfisréttarins og ein af þeim grunnreglum sem samþykktar voru af öllum þátttökuríkjum Ríó-ráðstefnunnar um umhverfismál 1992. Hér er um að ræða reglu um varúð við undirbúning framkvæmda vegna hættu á skaðlegum umhverfisáhrifum sem felur það í sér að ef óttast er að fyrirhugaðar framkvæmdir eða starfsemi valdi skaðlegum umhverfisáhrifum skuli ekki ráðist í þær fyrr en sýnt er að svo sé ekki. Niðurstaða Einars er sú að í því máli sem hér er til umfjöllunar sé skylt að beita varúðarreglu Ríó-sáttmálans. Ekki eigi að ráðast í virkjunarframkvæmdir nema önnur lausn finnist sem ekki yrði talin hafa alvarleg eða óbætanleg umhverfisáhrif í för með sér.
    Í sama streng tóku fulltrúar Umhverfisverndarsamtaka Íslands sem komu á fund umhverfisnefndar en þeir bentu á að þrátt fyrir að Ríó-yfirlýsingin væri ekki lagalega bindandi samningur væru öll þátttökuríki siðferðilega bundin af henni. Hins vegar hefði Ísland tekið upp í íslenska löggjöf varúðarregluna með aðild sinni að EES. Þá kom fram að tilskipun ESB gerði ekki ráð fyrir undanþágu sambærilegri og er að finna í ákvæði til bráðabirgða við lögin um mat á umhverfisáhrifum. Þeir töldu því að ákvæðið stangaðist algerlega á við þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands, ekki síst þar sem framkvæmdaleyfi hefði ekki verið gefið út, og yrði að teljast ógilt samkvæmt EES-rétti og skuldbindingum Íslands.

8. Aðrir virkjunarkostir.
    Fleiri möguleikar en núverandi virkjunaráform eru fyrir hendi ef á annað borð á að virkja Jökulsá í Fljótsdal. Þeim hefur hins vegar verið lítill gaumur gefinn.

Sameining Fljótsdals- og Hraunavirkjunar.
    Í greinargerð Orkustofnunar frá 2. des. 1999, sem send var umhverfisnefnd, er gerð grein fyrir virkjun Hraunavatns og hugmyndum um sameiningu Fljótsdals- og Hraunavirkjunar í eina virkjun, Hraunavirkjun meiri, með stöðvarhúsi í Suðurdal í stað stöðvarhúss í Norðurdal eins og fyrirhugað er með Fljótsdalsvirkjun. Ánni væri þá veitt austur fyrir Suðurdal og fram með honum og virkjað í mynni hans. Aðalmiðlun þessarar virkjunar væri á Eyjabökkum. Hraunavirkjun væri reiknuð sem áfangaskipt virkjun sem ekki væri þörf á að byggja í fullri stærð strax heldur væri hægt að laga hana að vexti markaðar, þótt fyrsti áfanginn þyrfti orkukrefjandi viðskiptavini. Vatninu væri veitt í ámóta löng göng og í Fljótsdalsvirkjun en kostir Hraunavirkjunar umfram Fljótsdalsvirkjun fælust í meira virkjuðu rennsli við svipaðan tilkostnað ef eingöngu væri tekið vatn á gangaleiðinni. Hagkvæmt væri að auka vatnsrennsli til virkjunarinnar með tveimur öðrum veitum. Hafa kostnaðaráætlanir tekið mið af því og er hún talin ódýr virkjunarkostur. Niðurstöður benda til þess að orkuverð frá Hraunavirkjun yrði 15–20% lægra en frá Fljótsdalsvirkjun og að mun dýrara yrði að nýta vatn af Hrauna-, Suðurfjarða- og Líkárvatnssvæðum ef það yrði nokkurn tíma gert. Í stuttu máli má segja að ýmis rök hnígi að því að hagkvæmara sé að virkja rennsli Jökulsár í Fljótsdal í Suðurdal en sá kostur hefur ekki verið kannaður til hlítar þrátt fyrir að hann hafi legið fyrir frá árinu 1991.

Hálslón – Kárahnjúkavirkjun með veitu úr Jökulsá í Fljótsdal.
    Til er áætlun um Kárahnjúkavirkjun með Hálslóni sem aðalmiðlunarlóni en með veitu Jökulsár í Fljótsdal úr litlu inntakslóni og þá án miðlunar á Eyjabökkum sem yrði hlíft. Samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins hefur mælst til þess í greinargerð með svæðisskipulaginu að þessi kostur yrði athugaður nánar. Miðlunarvirki við Kárahnjúka yrðu að mestu leyti eins og frumhönnun Kárahnjúkavirkunar gerir ráð fyrir en aðalstífla yrði 4 m hærri eða 189 m. Inntakslón Jökulsár í Fljótsdal yrði 2 km fyrir neðan Eyjabakkafoss og gert er ráð fyrir veitum bæði vestan og austan við ána. Jarðgöng frá Hálslóni og Jökulsá í Fljótsdal tengdust norðan Laugarár og þaðan yrðu aðrennslisgöng norður að Teigsbjargi. Áætlað er að afl þessarar virkjunar verði um 700 MW og unnt væri að skipta verkinu í áfanga. Fyrst yrði Jökulsá á Brú virkjuð með Kárahnjúkavirkjun með 500 MW afli en síðar yrði rennsli Jökulsár í Fljótsdal tengt inn á aðrennslisgöngin og aflið aukið um 200 MW. Þessi kostur væri óhagkvæmari en fyrirhuguð Fljótsdalsvirkjun og Kárahnjúkavirkjun, hvor í sínu lagi, með tilliti til orkunýtingar því að um 2,0–4,5% meiri orka fengist úr virkjununum hvorri fyrir sig. Kostnaður á orkueiningu yrði svipaður í báðum tilvikum. Kostur þessarar tilhögunar er að unnt væri að hlífa Eyjabökkum en óvíst er hvort vandamál verða vegna aurburðar í inntakslón við Jökulsá í Fljótsdal. Þessi leið er ekki talin henta þeim orkunýtingaráformum sem nú eru uppi þar sem uppsett afl í fyrri áfanga virkjunarinnar er mjög mikið. Þá er talið að ýmsar rannsóknir séu nauðsynlegar áður en endanlegt fyrirkomulag til verkhönnunar liggur fyrir. Með öðrum orðum, þessi kostur hefur ekki verið kannaður til hlítar þrátt fyrir að kostnaður á orkueiningu sé svipaður og miðað er við í núverandi virkjunaráformum.

Fljótsdalsvirkjun með Hraunaveitu meiri.
    Unnt er að ná meira vatni af Hraunum til Fljótsdalsvirkjunar með breyttri tilhögun Hraunaveitu en með Sauðárveitu. Þetta kallar á meiri miðlun í Eyjabakkalóni vegna aukins aðrennslis til virkjunarinnar. Athuganir benda til þess að hagkvæmt verði að hækka stífluna við Eyjabakkalón um 3 m en við það stækkar yfirborð lónsins um 4 km², verður mest 48 km², og miðlunin verður 625 Gl í stað 500 Gl. Með þessari útfærslu yrði hægt að framleiða næga orku fyrir fyrsta áfanga álvers í Reyðarfirði en orkuframleiðsla fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar nægir ekki til þess. Fram hefur komið að þennan valkost ætlar Landsvirkjun að skoða á sumri komanda. Augljóst er að ákvörðun á þessari stundu um þennan kost mundi skylda framkvæmdaraðilann til að óska mats á umhverfisáhrifum í samræmi við gildandi lög. Þess vegna mun þessi kostur fyrst koma til eftir samþykkt málsins. Dæmi eru um að aðalstífla virkjunar hafi verið hækkuð eftir að framkvæmdir hófust. Ætla má að Landsvirkjun leiti allra leiða til að fá sem mesta orku út úr fyrirhugaðri Fljótsdalsvirkjun. Ástæða er til að ætla að stjórnvöld séu hér enn einu sinni að fara í kringum lög og reglugerðir í stað þess að meta þennan kost á eðlilegan hátt með lögformlegu umhverfismati.

9. Heildarmat allra framkvæmda.
    Skipulagsstofun hefur lokið athugun á frummati á umhverfisáhrifum 480.000 tonna álvers í Reyðarfirði. Það er mat skipulagsstjóra ríkisins að ekki sé stoð fyrir því í lögum um mat á umhverfisáhrifum að krefjast þess að tengdar framkvæmdir séu metnar í einu heildarmati. Hann telur þó að slíkt heildarmat mundi stuðla að markvissari vinnubrögðum og umræðu um fyrirhugaðar framkvæmdir af þeirri stærðargráðu sem hér er um að ræða. Orkuþörf 480.000 tonna álvers ein og sér kallar á umfangsmiklar framkvæmdir við orkuframleiðslu sem fyrirsjáanlegt er að kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Óvíst er hvernig orku til annarra áfanga en þess fyrsta verður aflað. Skipulagsstjóri gerir vegna þessa kröfu um að ítarleg grein sé gerð fyrir jákvæðum áhrifum 480.000 tonna álvers. Er þá átt við áhrif á byggð, samfélag og atvinnulíf á Austurlandi og landinu í heild. Einungis heildarmat á umhverfisáhrifum nátengdra stórframkvæmda gefur nauðsynlega sýn yfir alla þá þætti sem taka verður með í reikninginn þegar ákvörðun er tekin.

10. Byggðamál.
    Upp úr 1980 fór sú umræða í gang á Austfjörðum að reist skyldi stóriðja á Reyðarfirði, kísilmálmvinnsla. Ekkert varð hins vegar af framkvæmdum þótt málinu væri haldið gangandi og ýmsum aðgerðum lofað af hálfu stjórnvalda. Nokkru seinna hófst umræða um álver, síðan væntingar um slípiefnavinnslu og svo álver aftur núna. Austfirðingar eru eðlilega orðnir þreyttir á loforðum stjórnvalda um stóriðju sem ekkert hefur orðið af. Þeir hafa viljað trúa því að stórrekstur af slíku tagi hefði víðtæk jákvæð áhrif fyrir byggðaþróun á Austfjörðum. Sú mikla byggðaröskun sem orðið hefur á undanförnum árum hefur ekki síður komið við Austfirði en aðra landshluta. Það er þess vegna þeim mun alvarlegra að stjórnvöld skyldu fara af stað með hugmyndir um virkjun og álver á Austurlandi og vekja þannig enn upp vonir um atvinnuuppbyggingu og að snúa mætti byggðaþróuninni við á þann hátt án þess að allir þættir málsins væru tryggðir. Í stað þess að undirbúa málið af kostgæfni og reyna þannig að koma til móts við mismunandi sjónarmið og koma í veg fyrir illvígar deilur hefur málinu nú verið teflt í algera tvísýnu vegna þess að stjórnvöld hafa þverskallast við að fara með Fljótsdalsvirkjun í umhverfimat. Þannig hafa stjórnvöld hugsanlega enn á ný klúðrað möguleikum Austfirðinga til uppbyggingar stóriðju með vinnubrögðum sínum. Ef farið hefði verið að tillögu fyrrverandi umhverfisráðherra og virkjunin sett í umhverfismat lægi það nú fyrir og menn hefðu fastara land undir fótum, bæði hvað varðar möguleika á Fljótsdalsvirkjun og öðrum virkjanakostum.
    Málið er nú rekið af hálfu stjórnvalda sem byggðamál og reyna þau að réttlæta það að virkjunin fari ekki í umhverfimat á þeim forsendum. Sú niðurstaða hefur hins vegar valdið miklum deilum í samfélaginu sem ekki sér fyrir endann á. Miðað við ummæli talsmanna Norsk Hydro má allt eins ætla að ef deilurnar um umhverfisþátt málsins verða enn harðari kippi þeir að sér hendinni. Þá er málið allt í uppnámi því að fyrirtæki sem annt er um orðspor sitt, ekki síst þau sem þurfa á góðu orðspori að halda í umhverfimálum, munu ekki koma að máli sem komið er í slíkan hnút. Það er því mjög ámælisvert að stjórnarflokkarnir skyldu vanrækja undirbúning málsins svo sem raun ber vitni og þeim ekki til málsbóta að réttlæta það klúður sitt á byggðaforsendum. Ef raunverulegur vilji var til að koma til móts við væntingar Austfirðinga áttu stjórnvöld að vanda undirbúninginn, ekki að tefla málinu í tvísýnu eins og orðið er. Það er ámælisvert.

11. Umdeilt arðsemismat.
    Ef tekið er mið af þeim forsendum sem stjórnarmeirihlutinn hefur gefið sér í málinu er rétt að benda á að fram hafa komið alvarlegar athugasemdir við arðsemismat virkjunarinnar. Í grein Sigurðar Jóhannessonar hagfræðings í tímaritinu Frjáls verslun kom m.a. fram að allt að 13 milljarða kr. tap gæti orðið af Fljótsdalsvirkjun miðað við tilteknar forsendur. Þá hafa fleiri sérfræðingar fært rök fyrir því með útreikningum að virkjun sem þessi geti aldrei orðið arðbær. Þar sem forsendur eru ekki allar þekktar stærðir hlýtur þetta að vekja menn til umhugsunar um hvort málið hafi fengið nægilega skoðun.

12. Afstaða Norsk Hydro.
    Eins og fram kemur í áliti 2. minni hluta umhverfisnefndar telja íslensk stjórnvöld ekki á það hættandi að vinna málið lengur eða betur, hvað þá að setja virkjunina í lögformlegt umhverfismat.
    Í allri umræðunni hefur stjórnarmeirihlutinn hafnað lögformlegu umhverfismati, m.a. vegna þess að standa þurfi við allar dagsetningar gangvart Norsk Hydro. Yfirlýsingar Norsk Hydro síðustu vikur hafa hins vegar verið afar misvísandi. Upplýsingafulltrúi fyrirtækisins lýsti því efnislega yfir á fundi á dögunum með fulltrúum World Wide Fund for Nature að fyrirtækið vildi að tímaáætlunin sem gerð hefði verið stæðist. Það mundi hins vegar ekki þýða að fyrirtækið missti áhugann á að reisa álver ef Alþingi ákvæði að fram skyldi fara lögformlegt mat á umhverfisáhrifum. Daginn eftir kom hins vegar önnur yfirlýsing frá fyrirtækinu þar sem sagði að tafir á byggingu fyrirhugaðrar álverksmiðju á Reyðarfirði mundu, hvort sem þær stöfuðu af aðstæðum á alþjóðaálmarkaði eða einhverju öðru, auka hættuna á að ekkert yrði úr verkefninu. Nokkrum dögum síðar sagði aðalforstjóri Norsk Hydro, Egil Miklebust, m.a. í viðtali við dagblaðið Dagens Næringsliv að fyrirtækið ætlaði sjálft að meta umhverfisþættina og það yrði gert á fyrri helmingi næsta árs. Vegna þessa er afar nauðsynlegt að fá fram afstöðu Norsk Hydro.
    Í bæði umhverfisnefnd og iðnaðarnefnd voru lagðar fram formlegar óskir um að fá fulltrúa Norsk Hydro til fundar en því var hafnað í umhverfisnefnd sökum tímaskorts en í iðnaðarnefnd var ekki talin ástæða til að kalla þessa aðila á fund.

13. Lokaorð.
    Í áliti Samfylkingarinnar hafa rök fyrir umhverfismati verið reifuð og bent hefur verið á að verulega skorti á rannsóknir á gróðurfari og dýralífi á Eyjabakkasvæðinu. Engin skýr áætlun um mótvægisaðgerðir á svæðinu liggur fyrir, aðeins ómótaðar hugmyndir. Þá hefur sérstaklega verið bent á að skipulagsþáttur málsins sé umdeildur og óviss og það sama er að segja um lagalega hlið málsins almennt. Nefnt hefur verið að aðrir virkjunarmöguleikar hafi ekki verið kannaðir til hlítar og einnig hefur verið bent á að arðsemismat sé umdeilt og ekki talið að nægilega hafi verið farið ofan í saumana á því. Jafnframt hafa byggðasjónarmið verið reifuð. Samfylkingin gagnrýnir málsmeðferðina hér á Alþingi sérstaklega, ekki síst að á það var ekki fallist að fulltrúar Norsk Hydro kæmu til fundar við umhverfisnefnd og iðnaðarnefnd þrátt fyrir ítekaðar óskir þar að lútandi.
    Krafa Samfylkingarinnar er að fram fari lögformlegt mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar áður en endanlegar ákvarðanir verða teknar og lýtur breytingartillaga hennar að því.

Alþingi, 15. des. 1999.



Rannveig Guðmundsdóttir,


frsm.


Ásta R. Jóhannesdóttir.




Fylgiskjal I.


Umsögn 3. minni hluta umhverfisnefndar.


(Reykjavík, 6. desember 1999.)



    Við undirrituð nefndarmenn í umhverfisnefnd styðjum í einu og öllu álit og niðurstöðu formanns nefndarinnar, Ólafs Arnar Haraldssonar, og Katrínar Fjeldsted er varðar þingsályktunartillögu um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun, þskj. 216, 186. mál.


Össur Skarphéðinsson.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Kolbrún Halldórsdóttir.



Fylgiskjal II.



Álit



um till. til þál. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun.

Frá 2. minni hluta umhverfisnefndar.



    Í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir um umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar telur 2. minni hluti nefndarinnar nauðsynlegt að fram fari mat á umhverfisáhrifum hennar, samkvæmt gildandi lögum, svo að tryggt sé að bestu fáanlegu upplýsingar og rannsóknir liggi til grundvallar ákvörðuninni um að virkja Jökulsá í Fljótsdal. Telur 2. minni hluti að skorti á að fullnægjandi rannsóknir séu fyrir hendi. Þá telur hann ekki síður mikilvægt að allri lagaóvissu varðandi framkvæmdirnar verði eytt.
    Fyrir liggur þingsályktunartillaga frá iðnaðarráðherra þar sem óskað er eftir pólitískum stuðningi við framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Tillögunni var vísað til iðnaðarnefndar. Með bréfi dags. 23. nóvember sl. barst umhverfisnefnd ósk iðnaðarnefndar um að nefndin tæki að sér umhverfisþátt tillögu til þingsályktunar um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Var þess óskað að svar bærist eigi síðar en 6. desember.
    Iðnaðarnefnd hefur falið umhverfisnefnd alfarið vinnu við umhverfisþátt tillögunnar en ætlar sér sjálf að vinna aðra þætti málsins. 2. minni hluti lítur svo á að álit umhverfisnefndar hljóti því að vera hluti af nefndaráliti iðnaðarnefndar þegar hún hefur skoðað málið í heild. Er því gert ráð fyrir að álit umhverfisnefndar verði hluti af áliti iðnaðarnefndar sem fjallar um aðra þætti málsins en verði ekki einungis birt sem fylgiskjal.

1.    Málsmeðferð í umhverfisnefnd.
    Umhverfisnefnd hefur fengið mjög stuttan tíma til að skila áliti sínu á umhverfisþætti málsins, eða innan við tvær vikur. Að mati 2. minni hluta er slíkur fyrirvari allt of skammur til að hægt sé að vinna málið þannig að fullnægjandi sé. Miklir hagsmunir eru í húfi og því mikilvægt að vandað sé til verks við alla framkvæmd málsins.
    Við yfirferð umhverfisnefndar hefur umhverfisþátturinn orðið allskýr en í nokkrum veigamiklum atriðum hefur verið bent á óvissu sem nauðsynlegt er að eyða. Nefndin tók á þessu stigi ekki afstöðu til frummatsskýrslu um álver í Reyðarfirði og fjallaði ekki heldur um umhverfisáhrif háspennulína frá virkjun að fyrirhugaðri verksmiðju eða lagningu lína yfir hálendið frá Bjarnarflagi eða Kröflu. Þá fjallaði nefndin ekki um önnur umhverfisáhrif sem beint eða óbeint kann að leiða af Fljótsdalsvirkjun og starfrækslu álvers á Austurlandi, svo sem virkjun við Kárahnúka eða aðrar framkvæmdir, jafnvel þó að hvatt hafi verið til þess af iðnaðarráðherra í umræðum um málið. Hér er einungis um að kenna tímaskorti.
    Við umfjöllun sína um málið kallaði nefndin á sinn fund Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Smára Geirsson og Þorvald Jóhannesson frá Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, en Smári kom einnig sem fulltrúi bæjarstjóra Fjarðabyggðar á fundinn, Árna Finnsson og Hilmar J. Malmquist frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Einar Rafn Haraldsson frá samtökunum Afl fyrir Austurland, Þórhall Þorsteinsson frá Félagi áhugamanna um verndun Austurlands, Höllu Eiríksdóttur frá Náttúruverndarsamtökum Austurlands, Arnór Benediktsson frá sveitarstjórn Norður-Héraðs, Jóhann F. Þórhallsson oddvita og Kristin Bjarnason, lögmann fyrir Fljótsdalshrepp, Magnús Oddsson frá Ferðamálaráði, Þorgeir Örlygsson, Jón Ingimarsson og Guðjón Axel Guðjónsson frá iðnaðarráðuneyti, Gunnlaugu Einarsdóttur, Sigurð H. Magnússon og Þórólf Antonsson frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Jóhann Óla Hilmarsson og Ólaf Einarsson frá Fuglaverndarfélagi Íslands, Sigríði Ásgeirsdóttur frá Sambandi dýraverndunarfélaga, Guðmund Malmquist, Bjarka Bragason og Guðmund Guðmundsson frá Byggðastofnun, Helga Torfason, Bryndísi Róbertsdóttur og Eddu Lilju Sveinsdóttur frá Jarðfræðafélagi Íslands, Sigurð Jóhannesson hagfræðing, Geir Oddsson, fiski- og auðlindafræðing, Skarphéðin Þórisson líffræðing, Hákon Aðalsteinsson og Sveinbjörn Björnsson frá Orkustofnun, Garðar Ingvarsson og Magnús Ásgeirsson frá verkefnisstjórn STAR, Steingrím Hermannsson, Gunnar G. Schram, Júlíus Sólnes og Ketil Sigurjónsson frá Umhverfisverndarsamtökum Íslands, Gunnar H. Hjálmarsson og Sigurgeir Þórarinsson frá SAMÚT, Helga Bjarnason, Ragnheiði Ólafsdóttur, Agnar Olsen og Örlyg Þórðarson frá Landsvirkjun, Björn Jóhann Björnsson frá Stuðli, Sigurjón Pál Ísaksson frá Línuhönnun, en tveir þeir síðarnefndu komu sem fulltrúar Landsvirkjunar, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Magnús Jóhannesson, Ingimar Sigurðsson og Kristínu Lindu Árnadóttur frá umhverfisráðuneyti, Ólaf F. Magnússon og Svein Aðalsteinsson frá Umhverfisvinum, Ólöfu Guðnýju Valdimarsdóttur, Kára Kristjánsson, Gísla Má Gíslason og Eyþór Einarsson frá Náttúruverndarráði, Stefán Thors og Hólmfríði Sigurðardóttur frá Skipulagsstofnun og Þóru Ellen Þórhallsdóttur prófessor.
         Þá hefur nefndin reynt eftir föngum að afla sér sem mestra upplýsinga frá sérfræðingum um skýrslu virkjunaraðila sem er veigamesta fylgiskjal málsins. Nefndin hefur þannig fengið erindi frá Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Afli fyrir Austurland, Náttúruverndarsamtökum Austurlands, Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs, Fuglaverndarsamtökum Íslands, Náttúruverndarsamtökum Vesturlands, Umhverfisverndarsamtökum Íslands, Náttúruverndarráði, Orkustofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Geir Oddssyni, Aðalheiði Jóhannsdóttur, Náttúruvernd ríkisins, Þóru Ellen Þórhallsdóttur, Önnu Margréti Bjarnadóttur, Landsvirkjun, Sambandi dýraverndunarfélaga Íslands, Byggðastofnun, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Skipulagsstofnun, Landmótun, Eyþóri Einarssyni og umhverfisráðuneyti.
    Þá hafa á annað hundrað bréfa borist til nefndanna í gegnum tölvupóstföng nefndanna.
    Vegna tímaskorts var ekki hægt að kalla til fleiri aðila eða leita eftir umsögnum sem skýrt hefðu betur ýmsa grundvallarþætti málsins. Má þar m.a. nefna lagaleg atriði, gróðurfar, dýralíf, mat á arðsemi, m.a. með tilliti til verðmætis lands, náttúru og auðlinda, mat á öðrum nýtingarmöguleikum svæðisins o.fl. Meðal þeirra aðila sem leita hefði þurft til með álit og umsagnir eru óháðir lögfróðir aðilar, m.a. frá Háskóla Íslands, aðilar með sérþekkingu á útreikningum arðsemismats, m.a. frá Þjóðhagsstofun, Umhverfisstofnun Háskóla Íslands o.fl., og náttúrufræðingar sem rannsakað hafa dýralíf og gróðurfar svæðisins. Þá hefði einnig þurft að kalla til aðila sem hafa afgerandi áhrif á málsmeðferð umhverfisþáttarins. Er þar sérstaklega átt við Norsk Hydro, en yfirlýsingar fyrirtækisins hafa verið misvísandi og gefið tilefni til að fá skorið úr um afstöðu fyrirtækisins til mögulegrar seinkunar framkvæmda við fyrirhugað álver. Svo sem kunnugt er telja íslensk stjórnvöld ekki á það hættandi að vinna málið lengur og betur, hvað þá að hættandi sé á að setja virkjunina í lögformlegt umhverfismat. Nauðsynlegt er að Alþingi fái skýr svör fyrirtækisins um hver sé umhverfisstefna þess, hvaða kröfu það geri til þeirra verkefna sem það tekur þátt í og hversu mikla áhættu fyrirtækið telji felast í því að fresta framkvæmdum þar til lögformlegt umhverfismat hefur farið fram og í hverju slík áhætta sé fólgin. Fram kom í nefndinni ósk um að fá fulltrúa fyrirtækisins á fund hennar en sökum tímaskorts nefndarinnar við umfjöllun málsins reyndist það ekki unnt. Þá vill 2. minni hluti geta þess að sá stutti tími sem nefndin hafði til að fjalla um málið varð til þess að Landvernd, mikilvægur umsagnaraðili um málið, treysti sér ekki til að koma á fund nefndarinnar eða gefa henni umsögn um málið á þeim stutta tíma sem gefinn var.
    Til grundvallar störfum nefndarinnar liggur skýrsla Landsvirkjunar, Fljótsdalsvirkjun, umhverfi og umhverfisáhrif. Eins og fram hefur komið hefur fjöldi gesta, m.a. vísindamenn og sérfræðingar á sviði náttúruverndar, komið til fundar við nefndina. Afstaða gesta umhverfisnefndar var í grófum dráttum tvenns konar, annaðhvort þurfi að koma til mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar samkvæmt gildandi lögum um það efni eða ekki. Lögformlegt umhverfismat er ákveðið ferli sem fram fer samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, þar sem skipulagsstjóri ríkisins metur umhverfisáhrif af ákveðinni framkvæmd, í þessu tilviki virkjunarframkvæmd Landsvirkjunar. Hlutur sérfræðinga og almennings í matinu er tryggður og eru athugasemdir þeirra metnar af skipulagsstjóra, en honum er skylt að bregðast við öllum athugasemdum sem berast. Ekki liggur ljóst fyrir hve langan tíma það tæki að láta virkjunarframkvæmdirnar fara í umhverfismat samkvæmt gildandi lögum en ætla má að það geti tekið 14–16 mánuði.
    Af þeim gestum sem komið hafa til fundar við nefndina hafa eftirtaldir lýst stuðningi við að fram fari mat á umhverfisáhrifum samkvæmt gildandi lögum: fulltrúar frá ríkisstofnunum á sviði umhverfismála, þar á meðal Náttúruverndarráð og Náttúruvernd ríkisins, frjáls félagasamtök á sviði umhverfismála, þar á meðal Náttúruverndarsamtök Íslands, Félag áhugamanna um verndun hálendis Austurlands, Umhverfisverndarsamtök Íslands, Umhverfisvinir, Náttúruverndarsamtök Austurlands og Náttúruverndarsamtök Vesturlands, fagfélög á vettvangi umhverfismála, þar á meðal Félag íslenskra náttúrufræðinga, Fuglaverndarfélag Íslands, Samband dýraverndunarfélaga og Jarðfræðafélag Íslands, svo og vísindamenn og sérfræðingar sem komu á fund nefndarinnar, þar á meðal Skarphéðinn Þórisson líffræðingur, Geir Oddsson, fiski- og auðlindafræðingur, og Þóra Ellen Þorvaldsdóttir prófessor.
    Aðilar sem hafa lýst sig mótfallna slíku mati eru einungis hagsmunaaðilar á borð við Landsvirkjun, fulltrúar sveitarfélaga á Austurlandi og hagsmunasamtök íbúa á Austurlandi, svo og ráðuneyti iðnaðar- og umhverfismála sem heyra undir ráðherra og geta vart talist hlutlausir aðilar.

2.    Lagaóvissa enn fyrir hendi.
    Nefndinni barst umsögn frá Aðalheiði Jóhannsdóttur lögfræðingi með lögfræðilegu áliti um málið. Þá liggur einnig fyrir nefndinni kæra Náttúruverndarsamtaka Íslands til Eftirlitsstofnunar EFTA ásamt greinargerð. 2. minni hluti telur að álit Aðalheiðar og kæra Náttúruverndarsamtaka Íslands leiði að því ákaflega sterkar líkur að lagaóvissa sé fyrir hendi í málinu. Lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, eru byggð á tilskipun ESB um það efni en Íslandi bar í samræmi við skyldur sínar samkvæmt EES-samningnum að innleiða efni hennar í landslög. Ný og endurskoðuð tilskipun um sama efni hefur verið sett og bar Íslandi að lögleiða efni hennar í landsrétt fyrir mars á þessu ári. Það hefur ekki verið gert.
    Nefndin fékk á sinn fund skipulagsstjóra ríkisins. Kom fram í máli hans að ekki liggur fyrir deiliskipulag af þeim svæðum sem framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun eru fyrirhugaðar á en hann telur að þær kalli á gerð deiliskipulags, annars vegar fyrir aðkomu- og stöðvarhússvæði og hins vegar fyrir stíflustæði. Þar sem aðal- eða svæðisskipulag er ekki fyrir hendi er unnt að auglýsa deiliskipulagstillögu og ganga frá deiliskipulagi á grundvelli 3. tölul. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga. Skipulagsstofnun verður að samþykkja að auglýsa tillögu að deiliskipulagi og að fengnu samþykki hennar fer með auglýsingu og afgreiðslu deiliskipulagsins skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga. Liggi staðfest svæðisskipulag fyrir getur sveitarstjórn auglýst tillögu að deiliskipulagi skv. 25. gr. sömu laga án meðmæla Skipulagsstofnunar. Telur skipulagsstjóri samkvæmt þessu að Fljótsdalshreppur þurfi að leita meðmæla stofnunarinnar vegna auglýsingar deiliskipulagstillögu fyrir aðkomu- og stöðvarhússvæði en Fljótsdalshreppur og Norður-Hérað geti auglýst deiliskipulagstillögu fyrir stíflusvæði á grundvelli svæðisskipulags miðhálendis. Þá lýsti skipulagsstjóri því mati sínu að hann teldi að skv. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga þyrfti byggingarleyfi fyrir varanlegum húsbyggingum sem gerðar væru í tengslum við virkjanir, en það ætti m.a. við um stöðvarhús, íbúðarhús, mötuneyti og verkstæði. Þá upplýsti hann að byggingarleyfi væri ekki fyrir húsbyggingum vegna Fljótsdalsvirkjunar. Enn fremur greindi hann frá því að framkvæmdaleyfi fyrir byggingu virkjunarinnar frá sveitarstjórn samkvæmt þágildandi skipulags- og byggingarlögum væru ekki til staðar, að undanskildu leyfi fyrir aðkomugöngum virkjunarinnar. Kom fram hjá skipulagsstjóra að hann teldi að aðrar framkvæmdir við virkjunina sem ekki væru byggingarleyfisskyldar, þar á meðal stíflugerð, vegir, veitur og efnistökustaðir, væru háðar framkvæmdaleyfi skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga. Að mati 2. minni hluta styður þetta álit skipulagsstjóra það mat 2. minni hluta að talsverð lagaóvissa sé fyrir hendi í málinu.
    Lagaóvissan er fyrst og fremst fólgin í því að þótt gilt virkjunarleyfi sé talið vera fyrir hendi bendi öll rök til þess, m.a. studd af dómafordæmum frá EB-dómstólnum, að fyrir þurfi að liggja öll leyfi lögbærra aðila áður en lagt er í framkvæmdir af þessu tagi og samkvæmt íslenskum lögum séu það virkjunarleyfi og framkvæmdaleyfi samkvæmt skipulags- og byggingarlögum. Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps hefur hins vegar ekki gefið út framkvæmdaleyfi og er það staðfest í greinargerð með tillögu iðnaðarráðherra á bls. 9 þar sem segir orðrétt: „Samkvæmt þessu liggur ekki fyrir formlegt samþykki Fljótsdalshrepps fyrir frekari framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun en áður greindum aðkomugöngum.“ Nefndinni vannst ekki tími til að leita eftir lögfræðilegu áliti fleiri aðila, svo sem Lagastofnunar Háskóla Íslands, en það væri æskilegt að mati 2. minni hluta. 2. minni hluti telur enn fremur að úr lagaóvissu verði að greiða og verður vart séð að það verði gert án þess að farin verði dómstólaleiðin.
    Þá vill nefndin vekja athygli á því að samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands gerði fyrirvara um lónstærðir á Eyjabakkasvæðinu og aðra tilhögun virkjunar og komst að þeirri niðurstöðu að skynsamlegra væri að virkja við Kárahnúka en Eyjabakka ef á annað borð yrði virkjað á svæðinu. Í greinargerð nefndarinnar segir: „Vegna mikilvægis og sérstöðu Eyjabakkasvæðisins hvað varðar gróðurfar, dýralíf, landslag o.fl. er ástæða til að endurskoða tilhögun virkjunar samkvæmt gildandi lögum. Svæðið hefur einnig mikið gildi fyrir ferðaþjónustuna. Gert er ráð fyrir að skoðaðir verði til hlítar möguleikar á að virkja saman Jökulsá á Brú (Kárahnjúkavirkjun) og Jökulsá í Fljótsdal með þeim hætti að Kárahnúkalón geti nýst sem miðlun fyrir bæði vatnasviðin. Því er gerður fyrirvari um lónastærðir á Eyjabakkasvæðinu og aðra tilhögun virkjunar.“ Þá vill 2. minni hluti taka fram að þetta álit samvinnunefndarinnar var auglýst opinberlega vorið 1997 og síðan staðfest af umhverfisráðherra í maí 1999.

3.    Ófullkomið arðsemismat.
    Mikil umræða hefur vaknað um arðsemi virkjunarinnar og hafa ýmsir aðilar dregið í efa að virkjunin muni standa undir sér. Raforkuverð liggur ekki fyrir en það er ein af þeim forsendum sem leggja þarf til grundvallar við arðsemismat virkjunarinnar. Samkvæmt upplýsingum sem nefndin hefur fengið hjá Sigurði Jóhannessyni hagfræðingi virðist Landsvirkjun þurfa að selja kw-stundina mun hærra verði en gert er í dag til að virkjunin verði hagkvæm í rekstri. Þá hefur ekki verið lagt mat á náttúruleg verðmæti sem tapast við framkvæmdirnar. Mat hefur ekki farið fram á því landi, náttúruverðmætum og auðlind sem fórna þarf verði virkjað á svæðinu. Í útreikninga Þjóðhagsstofnunar vegna virkjunarframkvæmdanna vantar umhverfisþáttinn og af þeirri ástæðu er sú aukning þjóðarframleiðslu sem þar er gert ráð fyrir ofmetin sem því nemur. Þá er ljóst að ekki er tekið tillit til verndargildis Eyjabakka en það er mjög hátt að margra mati. 2. minni hluti telur skilyrðislaust að reikna þurfi umhverfisþáttinn inn í hagkvæmnistölur virkjunarinnar, annars sé dæmið ekki reiknað til fullnustu.
    Að mati 2. minni hluta hefur alvarleg og málefnaleg gagnrýni komið fram á skýrslu Landsvirkjunar. Sérfræðingar á sviði náttúrufars hafa lýst þeirri skoðun sinni að þeir telji að framsetning og túlkun gagna í skýrslunni sé virkjunaraðila í hag. 2. minni hluti telur augljóst að skýrslan er skrifuð af mörgum höfundum svo að ekki gætir samræmis í efnislegri meðferð auk þess sem hún ber þess merki að vera ekki skrifuð af líffræðingum, náttúrufræðingum eða vistfræðingum. Þá hefur verið bent á ýmsar rannsóknir, bæði innlendar og erlendar, sem til eru um áhrif virkjanaframkvæmda á dýralíf og náttúrufar á svæðinu sem ekki er getið í skýrslu Landsvirkjunar. Má þar nefna áfangaskýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands um verndargildi virkjanasvæða, unnin fyrir verkefnisstjórn rammaáætlunar ríkisstjórnarinnar í nóvember 1999, skýrslur um íslenskar rannsóknir á rofi við miðlunarlón og við Lagarfljót vegna vatnsborðsbreytinga (Ásrún Einarsdóttir og Borgþór Magnússon, 1998: Gróðurbreytingar í mólendi við Blöndulón; Borgþór Magnússon 1995: Gróðurbreytingar í mólendi við Blöndulón; Borgþór Magnússon og Ásrún Elmarsdóttir: Frá Blöndulóni að Norðlingaöldu; Sigurður H. Magnússon, Kristbjörn Egilsson og Eyþór Einarsson 1998: Gróðurbreytingar við Lagarfljót 1976–1994; Þóra Ellen Þórhallsdóttir 1994: Áhrif miðlunarlóns á gróður og jarðveg), skýrslu C. Nellemanns, I. Vistness og Skarphéðins Þórissonar 1999: Environmental impacts of the Fljótsdalur and Kárahnjúkar hydro-electric power supply to aluminium smelter by Norsk Hydro in Iceland og Viðmiðunarreglur um mat á umhverfisáhrifum á heimskautasvæðum útgefnar 1997 af Arctic Environmental Protection Strategy.

4.    Athugasemdir við rannsóknarþátt skýrslu Landsvirkjunar.
    Gerður hefur verið fjöldi athugasemda við skýrsluna og við það hvernig hún hefur verið unnin. Það álit hefur verið látið í ljós að skýrslan sé áferðarfalleg og einkennist nokkuð af lýsingum á staðháttum en margar rannsóknir vanti til að hægt sé að meta svæðið heildstætt. Sem dæmi má nefna að gróðurhluti skýrslunnar er byggður á um 20 ára gömlum rannsóknum og er tekið fram að enda þótt niðurstöður þeirra standi enn vel fyrir sínu geta þær ekki talist fullnægjandi miðað við þær kröfur sem eðlilegt er að gera til slíkra rannsókna. Hvað varðar gróðurfar hefur einnig verið bent á að einn stærsti annmarki skýrslunnar sé að nær engin tilraun sé gerð til að setja gróður svæðisins í stærra samhengi með því að bera hann saman við gróður annars staðar á hálendinu eða skoða mikilvægi hans í evrópsku eða hnattrænu samhengi. Þá hefur verið bent á að Eyjabakkar séu flæðiengi en engar rannsóknir hafi farið fram sem skilgreina það vistkerfi gróðurs og dýra sem þarna er að finna. Víst er að flæðiengi eru sjaldgæf á miðhálendinu og tilvist þeirra á Eyjabökkum gefur svæðinu sérstöðu. Þá telur 2. minni hluti hæpið að halda því fram að allmargar athuganir hafi verið gerðar á gróðurfari Eyjabakkasvæðisins eins og segir í skýrslu Landsvirkunar (bls. 66). Þóra Ellen Þórhallsdóttur og fleiri hafa tjáð nefndinni að samkvæmt þeirra upplýsingum hafi grasafræðingar eytt að hámarki um 30 dögum við gagnasöfnun á Eyjabakkasvæðinu vegna virkjanaáforma þar ef frá er talin vinna við gróðurkort sumarið 1976. Þá fékk nefndin þær upplýsingar að Ágúst H. Bjarnason grasafræðingur, sem samkvæmt skýrslu Landsvirkjunar vann að athugunum á Eyjabakkasvæðinu sumarið 1998, hefði aldrei farið inn á Eyjabakkasvæðið heldur gert athuganir á Fljótsdalsheiði og við Hölkná, Laugará og Grjótá sem ekki eru á vatnasvæði Jökulsár í Fljótsdal heldur renna niður Hrafnkelsdal. Þá segir Þóra Ellen Þórhallsdóttir um skýrslu Ágústs að hún sé að hluta gagnrýnin úttekt á fyrri rannsóknum, einkum aðferðarfræði þeirra. Niðurstaða hans sé að meginþorri þeirra gróðurlýsinga sem til eru af þessu svæði sé almenns eðlis. Gróður á fyrirhuguðu svæði Eyjabakkalóns sé því aðeins þekktur í stærstu megindráttum þar sem fáar eða nær engar nákvæmar athuganir hafi verið gerðar. Þá hafa Þóra Ellen, Náttúruvernd ríkisins og fleiri bent á að litlar sem engar vistfræðirannsóknir hafi verið gerðar á svæðinu. Það álit var einnig látið í ljós við nefndina að skýrsla Landsvirkjunar endurspegli stöðu grasafræðilegrar þekkingar á Íslandi fyrir 20 árum og hún endurspegli hvorki nútíma þekkingu í plöntuvistfræði né verndunarlíffræði.
    Bent hefur verið á það af vísindamönnum sem komið hafa á fund nefndarinnar að í gróðurvinjum á íslenska miðhálendinu, sem samanstendur að mestu af eyðimörk, sé uppspretta fræja sem numið gætu land á auðnunum í kring með breyttum skilyrðum, t.d. minnkandi búfjárbeit, en þessa möguleika er í engu getið í skýrslunni.
    Þá hafa athugasemdir verið gerðar við mat á strandrofi í skýrslu Landsvirkjunar. Efasemdir hafa verið látnar í ljós um að líkan sem skýrsluhöfundar vísa til varðandi mat á strandrofi gagnist við íslenskar aðstæður en samkvæmt líkaninu verður strandrof lítið þegar halli lands við ströndina er minni en 7%. Ekki er vitnað til innlendra rannsókna og athugana sem gerðar hafa verið, t.d. við Blöndulón. Þá er ekki vísað í rannsóknir á strandrofi við aðra hluta lónsins þar sem halli er meiri en 7%. Samkvæmt upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands gefa niðurstöðurnar frá Blöndulóni til kynna að strandrof geti verið nokkurt á landi þar sem halli er 7% eða jafnvel minni. Niðurstöður frá Lagarfljóti munu benda í svipaða átt. Einnig hefur verið bent á að vatnsborðssveiflur í lóninu geti verið afar miklar, eða frá 8 km 2 allt upp í 43 km 2. Í skýrslunni er aðeins fjallað um aðstæður í meðalári sem er afar villandi því að fokhætta margfaldast ef nokkrir samverkandi umhverfisþættir verða allir hliðstæðir foki í einu. Hvað Eyjabakkalón áhrærir eru það einmitt sömu veðurskilyrði (langvinnir þurrkar) sem skapa hagstæð skilyrði fyrir vindrof og leiða til þess að lágt verður í lóninu. Þá hefur verið bent á að ekki liggi fyrir nægilega miklar rannsóknir á grunnvatnsstöðu til þess að hægt sé að fullyrða að grunnvatnsborð hækki eftir að lónið yrði tekið í notkun. Ljóst er að við Eyjabakkalón gætu fokefni rokið úr gífurlega stóru svæði og þau gætu borist yfir víðáttumikið gróið land norðan lónsins. Slíkt mundi auka verulega rofhættu á því landi og gæti í versta falli sett af stað keðjuverkandi ferli gróður- og jarðvegseyðingar. Hinir sérstöku eiginleikar eldfjallajarðvegs valda því að íslenskur jarðvegur er ákaflega viðkvæmur fyrir rofi, eins og saga gróðureyðingar hér á landi sýnir. Það er einmitt á jarðarsvæðum, eins og á hálendinu, sem minnst má út af bera. Margir af þeim sérfræðingum á sviði náttúrufars sem komið hafa til fundar við nefndina hafa látið í ljós það álit sitt að hugsanlegt sé að skýrslan gefi mjög ranga mynd af rofhættu við lónið, m.a. með hliðsjón af framangreindu.
    Sú fullyrðing kemur fram í skýrslu Landsvirkjunar að ekki er talið að breytingar á rennsli Lagarfljóts með tilkomu Fljótsdalsvirkjunar hafi áhrif á gróður meðfram fljótinu. Fulltrúi Náttúrufræðistofnunar Íslands og Eyþór Einarsson grasafræðingur hafa mótmælt þessu og m.a. bent á að rannsóknir sem gerðar hafa verið á gróðri meðfram Lagarfljóti í kjölfar virkjunar við Lagarfoss árið 1975 sýni að gróður hafi breyst verulega, jafnvel þótt vatnsstaða hafi ekki breyst nema um 30 sm. 2. minni hluti vill benda á að þessar rannsóknir eru meðal þeirra sem ekki er vitnað til í skýrslu Landsvirkjunar.
    Áburðaráhrifa vorflóða í Jökulsá í Fljótsdal er að engu getið í skýrslunni og því engin afstaða tekin til þess hvaða áhrif það kunni að hafa á gróður meðfram ánni þegar þeirra nýtur ekki lengur við. Þá er ekki getið um möguleg áhrif á lífríkið í Héraðsflóa þegar framburðar frá jökulánni nýtur ekki lengur við í þeim mæli sem nú er.
    Þá hefur sú gagnrýni komið fram að dýralífsþætti skýrslunnar sé mjög áfátt. Sérfræðingar á sviði hreindýrarannsókna hafa látið í ljós það mat sitt að ekki liggi fyrir nægilegar rannsóknir á fari og hegðun hreindýra á svæðinu. Þá bendir Náttúrufræðistofnun Íslands á að mjög takmarkaðar rannsóknir hafi verið gerðar á dýralífi á Eyjabökkum. Gerðar voru rannsóknir sem stóðu yfir á sumrin 1979–1981 auk einnar viku vinnu sumarið 1975. Að öðru leyti sé um að ræða talningar á gæsum og hreindýrum á Eyjabökkum dagpart á sumri hverju. Hins vegar er í skýrslu Landsvirkjunar talað um að rannsóknir á dýralífi hafi nú staðið yfir í 30 ár. Náttúrufræðistofnun Íslands telur að enginn vafi leiki á hvaða áhrif myndun lóns hefði á dýralíf á Eyjabökkum – dýrin missi búsvæði sín og lendi á hrakhólum. Fullnægjandi vitneskja sé hins vegar ekki til staðar um hvaða áhrif það muni hafa fyrir stofna viðkomandi tegunda, einkum gæsa og hreindýra, en eins og kunnugt er eru Eyjabakkar mikilvægasti fjaðrafellistaður á Íslandi fyrir heiðagæsir og eitt mjög fárra svæða á landinu sem bjóða upp á heppileg skilyrði fyrir stóran hóp fellifugla.

5.    Náttúruverndargildi vanmetið.
    Það er mat 2. minni hluta nefndarinnar að skýrslan geri beinlínis lítið úr náttúruverndargildi svæðisins og geri ekki grein fyrir því að það land sem þarna tapast verði ekki endurheimt á nokkurn hátt þrátt fyrir hugmyndir um mótvægisaðgerðir. Þær aðgerðir sem skýrslan gerir ráð fyrir til mótvægis eru að mati margra gesta nefndarinnar ófullnægjandi þar sem þær færu fram á láglendi fjarri Eyjabökkum. Þá er á það bent að ekki liggja fyrir nægilegar rannsóknir á því votlendi sem hefur verið endurheimt á landinu síðustu ár svo að ekki er hægt að draga þá ályktun að endurheimt votlendis sé einföld framkvæmd. Náttúruvernd ríkisins er meðal þeirra sem bent hefur á að eyðing votlendis sé eitt mesta umhverfisvandamál á Íslandi. Mjög erfitt er að fá land til að endurheimta votlendi og jafnframt hefur verið bent á að endurheimt votlendis á hálendi sé nánast óframkvæmanleg. Að mati 2. minni hluta nefndarinnar þurfa mótvægisaðgerðirnar að vera stórfelldar en jafnframt að þær séu algerlega ómótaðar þannig að ekki liggi fyrir hvar, hverjar eða hvenær þær verða og þaðan af síður hversu kostnaðarsamar mótvægisaðgerðirnar verði og hver eigi að greiða fyrir þær. Slíkar aðgerðir hafa ekki verið kynntar sem hluti af stofnkostnaði við virkjunina.

6.    Aðrir virkjunarkostir.
    2. minni hluti telur að aðrir virkjunarkostir hafi ekki verið skoðaðir nægjanlega. Athugasemdir hafa verið gerðar af sérfræðingum sem komið hafa á fund nefndarinnar við framsetningu á öðrum valkostum í skýrslu Landsvirkjunar. Þeir eru settir fram á þann hátt að erfitt er að átta sig á ólíku gildi þeirra og virðast afgreiddir af Landsvirkjun sem óframkvæmanlegir eða lakari kostur en sá sem liggur fyrir. Er 2. minni hluti sammála þeim gestum nefndarinnar sem telja að vega ætti og meta kostina á eins hlutlausan hátt og kostur er, þannig að um raunverulegt val milli ólíkra kosta geti verið að ræða. Komið hefur fram að ýmsir sérfræðingar, þar á meðal sérfræðingar Landsvirkjunar og iðnaðarráðuneytis, álíta að hægt sé að virkja þannig á Eyjabökkum að stíflað sé neðar og þar með hlíft viðkvæmasta svæðinu, sem eru innstu 4–5 km, og aðalvotlendið næst Snæfelli haldi sér þar með. Þessi leið virðist geta verið mun ákjósanlegri út frá náttúruverndarsjónarmiðum og því ber að mati 2. minni hluta nefndarinnar að skoða hana betur. Einnig hefur verið bent á þann kost að hlífa Eyjabökkum að fullu en virkja þess í stað báðar árnar saman við Kárahnúka og leggur 2. minni hluti áherslu á að sá möguleiki verði skoðaður. Það er staðreynd að 1. áfangi álvers á Reyðarfirði útheimtir meiri orku (40 MW) en Fljótsdalsvirkjun getur látið í té samkvæmt þeim hönnunartillögum sem liggja fyrir. Hefur verið bent á í því samhengi að rétt sé að meta kosti Hraunaveitu meiri, áður en framkvæmdir hefjast, þar sem sú virkjunartilhögun gerir ekki ráð fyrir miklu meiri umhverfisskaða en hlýst af þeirri tilhögun sem er til umræðu. Í því sambandi má geta þess að virkjun við Bjarnarflag, sem talað er um að geti aflað þeirrar viðbótarorku sem þörf er á, yrði á friðlýstu svæði.

7.    Alþjóðasamningar.
    Þá telur 2. minni hluti nefndarinnar að í 10. kafla skýrslu Landsvirkjunar þar sem m.a. er fjallað um alþjóðlega samninga að mikilvægum atriðum sé sleppt og hefur Náttúrufræðistofnun Íslands einnig vakið athygli á því í umsögn sinni til nefndarinnar. Í kaflanum er fjallað um Ramsar-samninginn um verndun votlendis sem Íslendingar gerðust aðilar að árið 1978, eða þremur árum áður en heimildarlög um Fljótsdalsvirkjun voru samþykkt. Í skýrslunni eru nokkur ákvæði rakin en ýmsu sleppt, m.a. því ákvæði að láta framkvæma mat á umhverfisáhrifum áður en votlendi er breytt eða það eyðilagt. (rec. 1.6, 2.3, 3.1 og 4.10). Þá gerir Náttúrufræðistofnun Íslands einnig athugasemdir við umfjöllun um tvo aðra alþjóðasamninga, annars vegar um Ríó-samninginn um líffræðilega fjölbreytni, en stofnunin telur umfjöllunina mjög takmarkaða og villandi og sá misskilningur komi fram að samningurinn snúist nær eingöngu um hættuna á útrýmingu tegunda. Stofnunin bendir á að hann snúi ekki síður að varðveislu búsvæða og vistkerfa, ekki síst þeirra sem eru í óbyggðum og varði fartegundir (sbr. t.d. 7. gr. samningsins og viðauka I). Hins vegar sé um að ræða Bernarsamninginn um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu. Í skýrslunni er því haldið fram að Eyjabakkasvæðið falli ekki undir samninginn sem lífsvæði heiðagæsar. Bendir stofnunin á að í 1. gr. samningsins komi fram að markmið hans sé að vernda villtar plöntur og dýr og náttúruleg búsvæði þeirra, sérstaklega þeirra tegunda og búsvæða sem verða ekki verndaðar sem skyldi nema í samvinnu fleiri ríkja.
    Nefndin ræddi um möguleg áhrif virkjunarinnar á ferðamennsku við gesti sína og vill 2. minni hluti benda á það mat SAMÚT, samtaka útivistarfélaga, að ímynd Íslands í augum ferðamanna sé í mikilli hættu komi til þess að virkjað verði á Eyjabökkum. Þá hefur verið bent á möguleg áhrif skaddaðrar ímyndar landsins á viðskiptaaðila Íslendinga erlendis.

8.    Sérstaða Eyjabakka.
    2. minni hluti nefndarinnar telur mikilvægt að líta til sérstöðu hálendis Íslands þegar tekin er afstaða til þess hvort byggja eigi álver við Reyðarfjörð og virkja í því skyni. Telur hún engan vafa leika á því að hálendið sé náttúrufarslega mikilvægt á heimsvísu, sem eitt stærsta ósnortna svæði í Vestur-Evrópu. Vegna þessa er nauðsynlegt að meta arðsemi þess að svæðið verði friðað.
    Eyjabakkar hafa verið á náttúruminjaskrá frá 1978 og hefur verndargildi þeirra verið talið mikið af stofnunum á sviði náttúruverndar. Kemur það mat m.a. fram í samantekt sem gerð var fyrir umhverfisnefnd og iðnaðarnefnd Alþingis á þessu ári af Náttúrufræðistofnun Íslands. Verður stiklað á stóru í þeirri samantekt. Fjallað er um mikið verndargildi einstakra fossa/fossaraðar í Jökulsá í Fljótsdal og það nefnt að um fágætt náttúrufyrirbæri sé að ræða. Einnig er nefnd samfelld gróðurþekja sem nær frá Héraðsflóa inn að jökuljöðrum beggja vegna Snæfells en hvergi annars staðar á landinu er að finna sambærilega gróðurhulu frá fjöru til jökla auk þess er getið um að algróið land við jökulsporða á miðhálendinu sé fágætt og því sé verndargildi mikið. Þá er einnig fjallað um sérstöðu Eyjabakka, en hvergi á Íslandi er að finna jafngróið svæði í jafnmikilli hæð yfir sjávarmáli. Stór hluti af svæðinu er flæðiland en það er mjög sjaldgæft á hálendi og hefur því mikið verndargildi. Þá er þess getið að afar sérstæðir hraukar séu á Eyjabökkum, verndargildi þeirra er óumdeilt enda eru hraukarnir á Eyjabökkum líklega þeir einu sem orðið hafa til við að jökull gekk út á mýrlendi. Hraukarnir á Eyjabökkum munu hverfa undir vatn ef stíflað verður á Eyjabökkum. Hvað líffræðilega fjölbreytni og gróður á Eyjabökkum varðar felst sérstaða þess í mikilli frjósemi hátt til fjalla og hlutfallslega mikilli fjölbreytni þrátt fyrir að sjaldgæfar tegundir séu ekki margar og helst verndargildið hátt vegna gróðurs á hraukum og í flæðilöndum. Verndargildi líffræðilegrar fjölbreytni og fugla er mikið vegna þýðingar Eyjabakka fyrir heiðagæsir og einnig telst svæðið alþjóðlega mikilvægur varpstaður fyrir íslenska álftastofninn en 1–2% hans nýtir Eyjabakka til varps og fæðuöflunar. Álftin og búsvæði hennar njóta auk þess sérstakrar verndar samkvæmt Bernarsáttmálanum. Hvað varðar mikilvægi fyrir einstaka stofna njóta Eyjabakkar sérstöðu þar sem þeir eru mikilvægasti fjaðrafellistaður heiðagæsar á Íslandi og eitt af mjög fáum svæðum hérlendis sem bjóða upp á heppileg skilyrði fyrir stóran hóp fellifugla. Verndargildi þess er því mikið á lands-, Evrópu- og heimsvísu þar sem hátt hlutfall íslenskra heiðagæsa og íslensk-grænlenska heiðagæsastofnsins nýtir svæðið (sbr. Ramsar- samninginn). Mikilvægi Eyjabakka fyrir hreindýrastofninn er einnig mikið enda nýtir stór hluti íslenska hreindýrastofnsins þá til beitar. Að mati stofnunarinnar er erfitt að meta þýðingu svæðisins fyrir stofninn á grundvelli fyrirliggjandi gagna en verndargildi beitilandsins telur hún talsvert eða mikið.
    2. minni hluti nefndarinnar ítrekar það álit sitt að fyrirhugaðar framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun fari í mat á umhverfisáhrifum samkvæmt gildandi lögum.

Alþingi, 6. des. 1999.



Ólafur Örn Haraldsson, form.


Katrín Fjeldsted.




    Eftirfarandi fylgiskjölum er einnig útbýtt með nefndarálitinu:
III. Umsögn Aðalheiðar Jóhannsdóttur lögfræðings.
IV. Umsögn Náttúruverndar ríkisins.
V. Umsögn Þóru Ellenar Þórhallsdóttur.
VI. Umsögn Skipulagsstofnunar.
VII. Greinargerð Náttúruverndarsamtaka Íslands við skýrslu Landsvirkjunar.
VIII. Umsögn Ólafar G. Valdimarsdóttur, formanns Náttúruverndarráðs.
IX. Umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands.
X. Framhaldsumsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands.
XI. Umsögn Gísla Gíslasonar landslagsarkitekts.
XII. Umsögn Geirs Oddssonar, fiski- og auðlindafræðings.
XIII. Umsögn Náttúruverndarsamtaka Íslands.
XIV. Umsögn Eyþórs Einarssonar grasafræðings.
XV. Skýrsla Náttúrufræðistofnunar Íslands.