Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 384, 126. löggjafarþing 199. mál: tekjustofnar sveitarfélaga (útsvar, fasteignaskattur o.fl.).
Lög nr. 144 30. nóvember 2000.

Lög um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum.


1. gr.

     1. og 2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
     Leggja skal árlega fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignamati 31. desember á næstliðnu ári, sbr. þó 5. gr.
     Stofn til álagningar fasteignaskatts á allar fasteignir skal vera fasteignamat þeirra.

2. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna:
  1. Á eftir orðinu „erfðafestulönd“ kemur: í dreifbýli.
  2. Orðin „sem ekki eru nytjaðar til annars en landbúnaðar“ falla brott.
  3. Á eftir orðunum „sem tengd eru landbúnaði“ kemur: öll hlunnindi.


3. gr.

     B-liður 3. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Allt að 1,32% af álagningarstofni:
     Allar aðrar fasteignir, svo sem iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.

4. gr.

     Við 8. gr. laganna bætist nýr stafliður er orðast svo: Framlag úr ríkissjóði er nemi 0,64% af skatttekjum ríkissjóðs af beinum og óbeinum sköttum sem innheimtir eru í ríkissjóð. Skal því varið til að jafna tekjutap einstakra sveitarfélaga vegna lækkunar fasteignaskattstekna í kjölfar breytingar á álagningarstofni mannvirkja. Ráðherra setur reglugerð um framkvæmd þessa ákvæðis í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

5. gr.

     Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Þar sem svo háttar til að hagkvæmara er að mati sveitarstjórnar að leggja vatnsveitu að einstökum bæjum í dreifbýli, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 81/1991, um vatnsveitur sveitarfélaga, með síðari breytingum, er heimilt að greiða framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna stofnkostnaðar við vatnsveitu á vegum eigenda einstakra lögbýla. Heildarfjárhæð framlaga úr sjóðnum til framkvæmda á hverju ári skal ekki fara umfram 25 millj. kr. Stjórn Bændasamtaka Íslands gerir í lok hvers árs tillögur til félagsmálaráðuneytisins um framlög vegna einstakra framkvæmda á því ári á grundvelli reglugerðar sem ráðherra setur og annast greiðslur til framkvæmdaraðila.

6. gr.

     Í stað „12,04%“ í 1. mgr. 23. gr. laganna kemur: 13,03%.

7. gr.

     Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
  1. (V.)
  2.      Þrátt fyrir ákvæði 23. gr. skal hámark útsvars skv. 1. mgr. 23. gr. tekjuárið 2001 vera 12,70%.
  3. (VI.)
  4.      Þrátt fyrir lokamálslið 3. mgr. 13. gr. skal stjórn Bændasamtaka Íslands skila tillögum um framlög vegna framkvæmda á árunum 1999 og 2000 eigi síðar en 15. mars 2001.


8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 29. nóvember 2000.