Ferill 429. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 690  —  429. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðild að sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samninga um sölu á vöru milli ríkja.

(Lögð fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



    Alþingi ályktar að heimila að Ísland gerist aðili að sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samninga um sölu á vöru milli ríkja sem gerður var í Vínarborg 11. apríl 1980.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til þess að Ísland gerist aðili að sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samninga um sölu á vöru milli ríkja sem gerður var í Vínarborg 11. apríl 1980. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari.
    Vorið 1980 stóðu Sameinuðu þjóðirnar fyrir ráðstefnu í Vínarborg er hófst 10. mars sama ár. Lauk ráðstefnunni með því að samþykktur var alþjóðasamningur um samninga um sölu á vöru milli ríkja, oft nefndur samningur um alþjóðleg lausafjárkaup. Sáttmálinn var lagður fram til undirritunar á ráðstefnunni í Vínarborg 11. apríl 1980 og lá síðan frammi til undirritunar í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna til 30. september 1981. Sáttmálinn öðlaðist gildi 1. janúar 1988. Hinn 31. desember 2000 voru aðildarríki sáttmálans 58 talsins.
    Alþjóðlegt samstarf á sviði kauparéttar hófst um miðbik þessarar aldar. Árið 1955 var gerður alþjóðlegur samningur sem kenndur er við Haag í Hollandi og ber hann heitið „Convention on the Law Applicable to International Sales of Goods“. Meginregla þess samnings er sú að aðilar kaupsamnings geta samið um hvers lands lögum beita skuli um kaup þeirra. Ef slíku samningsákvæði er ekki til að dreifa skal leggja til grundvallar lög í því ríki þar sem seljandinn hafði aðsetur þegar hann tók við pöntun varðandi kaupin. Árið 1964 voru gerðir tveir alþjóðlegir samningar sem einnig eru kenndir við Haag og bera heitin „Convention relating to a Uniform Law on the Formation of Contracts for the International Sale of Goods“ og „Convention relating to a Uniform Law on the International Sale of Goods“. Ísland hefur ekki gerst aðili að framangreindum samningum frá 1955 og 1964. Danmörk, Svíþjóð, Finnland og Noregur hafa hins vegar gerst aðilar að samningnum frá 1955 og sett samhljóða lög um efni hans. Samningarnir frá 1964 öðluðust gildi árið 1972 en fá ríki hafa fullgilt þá.
    Í desember árið 1966 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktun þess efnis að sett skyldi á laggirnar sérstök fastanefnd eða undirstofnun samtakanna sem skyldi hafa það hlutverk að efla og styrkja samræmingu alþjóðlegrar viðskiptalöggjafar. Stofnunin, sem tók til starfa skömmu síðar, var nefnd „the United Nations Commission on International Trade“ (UNCITRAL) og hefur hún aðsetur í Vínarborg. Fékk nefndin það verkefni að undirbúa gerð sáttmála um samninga um sölu á vöru milli ríkja sem m.a. gæti leyst af hólmi samningana frá 1964.
    Fyrstu drög hins nýja sáttmála voru kynnt árið 1974 og eftir það voru kynntar endurskoðaðar gerðir árin 1975, 1976, 1977 og 1978. Að gerð þessara samningsdraga vann starfshópur skipaður fulltrúum 14 ríkja sem tilheyrðu mismunandi réttarkerfum. Drögin voru rædd á þingum UNCITRAL og voru þau samþykkt á þingi stofnunarinnar árið 1978. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna boðaði síðan til fyrrnefndrar ráðstefnu í Vínarborg vorið 1980 þar sem saman komu fulltrúar 62 ríkja og átta alþjóðastofnana og var samningurinn samþykktur þar eins og áður segir.
    Þótt gerð sáttmálans frá 1980 hafi formlega séð ekki verið endurskoðun á Haagsamningunum frá 1964 er honum ætlað að verða eina réttarheimildin við úrlausn ágreiningsefna á sviði alþjóðlegra kaupa. Sést þetta m.a. á því að í 99. gr. sáttmálans er gert ráð fyrir að þau ríki, sem gerast aðilar að honum og eru jafnframt aðilar að Haagsamningunum, skuli fella niður aðild sína að hinum síðarnefndu samningum. Einnig kemur þetta fram í því að í sáttmálanum er að finna efnisreglur sem ætlað er að leysa af hólmi efnisákvæði Haagsamninganna. Í heild má segja að reglur sáttmálans frá 1980 séu bæði skýrari og afmarkaðri en Haagsamninganna frá 1964. Óvíst er hins vegar hvert gildi Haagsamningsins frá 1955 verður, m.a. vegna tilkomu sáttmálans.
    Sáttmálinn frá 1980 gildir um samninga um sölu á vöru milli aðila, sem ekki hafa starfsstofur í aðildarríki, þegar bæði ríkin eru aðilar að sáttmálanum, eða þegar reglur alþjóðlegs einkamálaréttar leiða til þess að beita skuli löggjöf aðildarríkis, sbr. 1. gr. sáttmálans. Undanþegin þessu ákvæði er sala á vöru sem keypt er til persónulegra nota, vegna fjölskyldu eða til heimilishalds, sala á uppboði, vegna réttarframkvæmdar, sala skipa, fljótandi farartækja, svifnökkva eða flugvéla og sala rafmagns, sbr. 2. gr.
    Sáttmálinn skiptist í fjóra þætti. Í I. þætti eru ákvæði um gildissvið auk almennra ákvæða, svo sem um túlkun sáttmálans. Í II. þætti eru nánari ákvæði um samningsgerðina, m.a. um gerð og afturköllun tilboðs og samþykki. Efnisreglur um kaup er að finna í III. þætti sáttmálans sem skiptist í fimm kafla. Fyrsti kafli hefur að geyma almenn ákvæði, svo sem um afleiðingar vanefnda, riftun samnings og breytingu eða uppsögn samnings. Annar kafli fjallar í þremur hlutum um skyldur seljanda, þ.e. afhendingu vöru og afhendingu skjala, samningshæfi vöru og kröfur þriðja aðila og loks úrræði vegna vanefnda seljanda. Í þriðja kafla er fjallað um skyldur kaupanda í þremur hlutum, í fyrsta lagi um greiðslu kaupverðs, í öðru lagi um viðtöku vöru og loks um úrræði vegna vanefnda kaupanda. Í fjórða kafla eru reglur um áhættuskipti og loks eru í fimmta kafla sameiginleg ákvæði um skyldur seljanda og kaupanda í sex hlutum, þ.e. um fyrirsjáanlegar vanefndir og afborgunarsamninga, skaðabætur, vexti, undantekningar frá ábyrgð á vanefndum, áhrif riftunar og umönnun vöru.
    Í IV. þætti eru lokaákvæði sáttmálans, þar á meðal ákvæði um gildistöku og heimild til að gera fyrirvara við hann. Getur ríki til dæmis gert þann fyrirvara að það sé óbundið af ákvæðum II. þáttar sáttmálans um samningsgerð og III. þáttar um kaup, sbr. 92. gr. Sérstaka þýðingu fyrir norrænu ríkin hefur sá kostur að gera fyrirvara samkvæmt ákvæðum 94. gr. Tvö eða fleiri aðildarríki, sem hafa sömu eða svipaðar réttarreglur á því sviði sem sáttmálinn tekur til, geta hvenær sem er lýst því yfir að sáttmálinn skuli ekki gilda á milli aðila sem hafa starfsstofu í þessum ríkjum. Enn fremur getur ríki samkvæmt ákvæðum 95. gr. samningsins gert fyrirvara við að sáttmálinn skuli aðeins gilda milli aðila sem hafa starfsstofu í aðildarríkjum sáttmálans. Ef ekki er gerður slíkur fyrirvari gildir sáttmálinn jafnvel þótt aðeins annað viðkomandi ríkja hafi gerst aðili að honum þegar reglur alþjóðlegs einkamálaréttar leiða til þess að leggja ber lög þess ríkis til grundvallar.
    Með lögum um lausafjárkaup, nr. 50/2000, hafa verið sköpuð skilyrði til þess að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt sáttmálanum.
Fylgiskjal.


Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um samninga um sölu á vöru milli ríkja, 1980.


Ríkin, sem aðilar eru að sáttmála þessum,

hafa í huga hin víðtæku markmið ályktana sjötta sérstaka fundar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um stofnun nýs alþjóðlegs efnahagsskipulags,


með tilliti til
þess að þróun alþjóðlegra viðskipta á grundvelli jafnræðis og gagnkvæms hags er mikilvægur þáttur þess að efla vinsamleg samskipti milli ríkja,

eru þeirrar skoðunar
að samþykkt samræmdra reglna, sem gilda um samninga um sölu á vöru milli ríkja og taka mið af mismunandi félagslegum og efnahagslegum aðstæðum og löggjöf, myndi stuðla að því að lagalegum hindrunum í alþjóðlegum viðskiptum verði útrýmt og efla þróun alþjóðlegra viðskipta,

hafa orðið ásátt um eftirfarandi:


I. HLUTI


Gildissvið og almennar reglur.


I. KAFLI

Gildissvið.

1. gr.

    1. Sáttmáli þessi gildir um samninga um sölu á vöru milli aðila sem hafa starfsstofur í mismunandi ríkjum:
     1.      þegar ríkin eru samningsríki; eða
     2.      þegar reglur alþjóðlegs einkamálaréttar leiða til þess að beita skuli löggjöf samningsríkis.

    2. Litið skal fram hjá því þótt aðilar séu með starfsstofur í mismunandi ríkjum þegar slíkt kemur ekki fram í samningnum sjálfum eða í viðskiptum þeirra á milli eða í upplýsingum sem aðilar hafa látið í té einhvern tímann áður en eða þegar samningurinn var gerður.
    3. Hvorki skal taka tillit til þjóðernis aðila né þjóðfélagslegrar eða viðskiptalegrar stöðu aðila eða samnings við ákvörðun um hvort sáttmáli þessi eigi við.

2. gr.

    Sáttmáli þessi gildir ekki um sölu:
     1.      vöru sem keypt er til persónulegra nota, vegna fjölskyldu eða til heimilishalds, nema seljandi á tímabilinu áður en eða þegar samningur var gerður, hvorki vissi né mátti hafa vitað að varan var keypt til einhverra slíkra nota;
     2.      á uppboði;
     3.      vegna réttarframkvæmdar eða á annan hátt vegna lagaskyldu;
     4.      verðbréfa, hlutabréfa, fjárfestingarskírteina, viðskiptabréfa eða gjaldmiðla;
     5.      skipa, fljótandi farartækja, svifnökkva eða flugvéla;
     6.      rafmagns.

3. gr.

    1. Samningar um birgðir vöru sem þarf að búa til eða framleiða skulu teljast samningar um sölu nema sá aðili sem pantar vöruna taki að sér að leggja fram verulegan hluta þess efnis sem nauðsynlegt er til slíkrar vörugerðar eða framleiðslu.
    2. Sáttmáli þessi gildir ekki um samninga þegar mestur hluti skuldbindinga þess aðila sem leggur til vöruna felst í vinnuframlagi eða annarri þjónustu.


4. gr.

    Sáttmáli þessi gildir aðeins um gerð samnings um sölu og þau réttindi og þær skyldur seljanda og kaupanda sem leiða af slíkum samningi. Sér í lagi, nema öðruvísi sé skýrt kveðið á um í sáttmála þessum, fjalla ákvæði hans ekki um:
     1.      gildi samnings, einstök ákvæði hans eða viðskiptavenjur;
     2.      áhrif samnings á eignarrétt að seldum vörum.


5. gr.

    Sáttmála þessum verður ekki beitt um ábyrgð seljanda vegna dauða eða líkamstjóns manns af völdum vörunnar.

6. gr.

    Aðilar mega víkja sáttmálanum til hliðar eða, með hliðsjón af 12. gr., undanþiggja sig eða breyta áhrifum einstakra ákvæða hans.

II. KAFLI

Almenn ákvæði.

7. gr.

    1. Við túlkun sáttmála þessa ber að hafa hliðsjón af hinu alþjóðlega eðli hans og þeirri nauðsyn sem á því er að efla samræmi í beitingu hans og að efla virðingu fyrir góðum trúnaði í alþjóðlegum viðskiptum.
    2. Úr álitaefnum er varða atriði sem ekki er kveðið skýrt á um í samningnum og sáttmáli þessi gildir um skal leysa í samræmi við meginreglur þær sem sáttmálinn er grundvallaður á eða, ef slíkar meginreglur skortir, í samræmi við þá löggjöf sem beita skal samkvæmt reglum alþjóðlega einkamálaréttarins.

8. gr.

    1. Samkvæmt sáttmála þessum á að túlka yfirlýsingar annars aðila og aðra hegðun hans í samræmi við tilgang aðilans þegar gagnaðilinn vissi um eða mátti ekki vera ókunnugt um hver sá tilgangur væri.

    2. Ef næstu málsgrein á undan verður ekki beitt skal túlka yfirlýsingar annars aðila og aðra hegðun hans samkvæmt þeim skilningi sem skynsamur maður af sama toga og gagnaðili myndi hafa haft við sömu aðstæður.
    3. Þegar ákvarða á tilgang aðila eða þann skilning sem skynsamur maður myndi hafa haft skal hafa hliðsjón af öllum atvikum sem tengjast málinu, þar á meðal samningaviðræðum, samskiptavenjum sem aðilar hafa stofnað sín á milli, viðskiptavenjum og eftirfarandi hegðun aðila.


9. gr.

    1. Aðilar eru bundnir af öllum viðskiptavenjum sem þeir hafa samið um og af samskiptavenjum sem þeir hafa stofnað sín á milli.
    2. Aðilar eru taldir óbeint hafa fallist á, nema öðru vísi sé um það samið, að beita skuli sérstakri viðskiptavenju við framkvæmd samnings eða við gerð hans, sem aðilum var kunn eða mátti vera kunn, sem er almennt þekkt í alþjóðlegum viðskiptum og er á reglubundinn hátt virt af aðilum samningsins um þá tegund viðskipta sem um ræðir.

10. gr.

    Í þessum sáttmála:
     1.      hafi aðili fleiri en eina starfsstofu er starfsstofan sá staður sem tengdastur er samningi og efndum hans að teknu tilliti til aðstæðna sem aðilum voru kunnar eða þeir hafa haft í huga tímabilið áður en eða þegar samningur var gerður.

     2.      hafi aðili ekki starfsstofu skal vísað til fasts aðseturs hans.

11. gr.

    Samningur um sölu þarf ekki að vera gerður eða sannanlegur í rituðu máli og þarf ekki að uppfylla nein önnur formskilyrði. Sanna má hann með sérhverjum hætti, þar á meðal með vitnum.

12. gr.

    Sérhverju því ákvæði 11. gr., 29. gr. eða II. hluta þessa sáttmála, sem heimilar að samningur um sölu, breytingu hans eða uppsögn samkvæmt samkomulagi eða sem heimilar að tilboð, samþykki eða önnur viljayfirlýsing sé gerð í öðru formi en skriflegu, verður ekki beitt, ef einhver aðila hefur starfsstofu í aðildarríki sem gefið hefur út yfirlýsingu samkvæmt heimildarákvæði 96. gr. sáttmála þessa. Aðilar mega ekki undanþiggja sig frá eða breyta áhrifum þessa ákvæðis.

13. gr.

    Í þessum sáttmála merkir orðið „skriflegt“ jafnframt símskeyti og fjarrit.

II. HLUTI


Samningsgerð.


14. gr.

    1. Áskorun um að gera samning sem beint er til eins eða fleiri tilgreindra aðila felur í sér tilboð, sé hún nægilega ákveðin og gefur til kynna að hún sé bindandi fyrir tilboðsgjafa verði hún samþykkt. Áskorun er nægilega ákveðin gefi hún til kynna vöruna og beint eða óbeint fastsetur eða kveður á um ákvörðun magns og verðs.

    2. Áskorun sem ekki er beint til eins eða fleiri tilgreindra aðila verður einnig skoðuð sem áskorun um að gera tilboð, nema hið gagnstæða sé skýrt gefið til kynna af þeim sem sendir áskorunina.

15. gr.

    1. Tilboð verður bindandi þegar það kemur til tilboðsmóttakanda.
    2. Tilboð, jafnvel þótt það sé óafturkallanlegt, má draga til baka komi tilkynning um það til tilboðsmóttakanda á undan eða samtímis tilboðinu.

16. gr.

    1. Fram að þeim tíma er samningur er gerður má afturkalla tilboð komi afturköllunin til tilboðsmóttakanda áður en hann hefur gefið samþykki.
    2. Samt sem áður verður tilboð ekki afturkallað:
     1.      gefi það til kynna, annaðhvort með því að veita tímabundinn frest til samþykkis eða með öðrum hætti, að það sé óafturkallanlegt; eða
     2.      að eðlilegt hafi verið fyrir tilboðsmóttakanda að treysta því að tilboðið hafi verið óafturkallanlegt og að tilboðsmóttakandi hafi breytt í trausti tilboðsins.

17. gr.

    Tilboð, jafnvel þótt það sé óafturkallanlegt, fellur niður þegar höfnun þess kemur til tilboðsgjafa.

18. gr.

    1. Yfirlýsing eða önnur hegðun tilboðsmóttakanda sem gefur til kynna að fallist sé á tilboð er samþykki. Þögn eða athafnaleysi eitt og sér jafngildir ekki samþykki.
    2. Samþykki tilboðs verður bindandi á þeirri stundu er viljayfirlýsing um samþykki kemur til tilboðsgjafa. Samþykki er ekki bindandi ef viljayfirlýsing um samþykki kemur ekki til tilboðsgjafa innan þess frests sem hann hefur ákveðið eða, ef enginn frestur hefur verið ákveðinn, innan hæfilegs tíma og að teknu tilliti til aðstæðna viðskiptanna, þar á meðal hraðvirkni þeirrar samskiptaaðferðar sem tilboðsgjafi notar. Munnlegt tilboð verður að samþykkja án tafar nema aðstæður gefi annað til kynna.
    3. Ef tilboðsgjafi, á grundvelli tilboðs eða vegna samskiptavenju sem aðilar hafa komið á sín á milli eða vegna viðskiptavenju, er hins vegar talinn gefa til kynna samþykki með athöfn sinni, til dæmis tengdri sendingu á vöru eða greiðslu vöruverðs án þess að tilboðsgjafa sé tilkynnt það, verður samþykkið bindandi á þeirri stundu þegar athöfnin er framkvæmd að því tilskildu að athöfnin sé framkvæmd innan þess tíma sem tilgreindur er í næstu málsgrein á undan.

19. gr.

    1. Svar við tilboði sem felur í sér samþykki en vegna viðbóta, takmarkana eða annarra breytinga er höfnun tilboðs og felur í sér gagntilboð.

    2. Svar við tilboði sem felur í sér samþykki en vegna viðbótarskilmála eða annarra skilmála sem ekki breyta efnislega skilmálum tilboðsins er hins vegar talið fela í sér samþykki, nema tilboðsgjafi beri fram munnleg mótmæli tafarlaust vegna ósamræmisins eða sendi frá sér tilkynningu með slíkum mótmælum. Mótmæli hann ekki á slíkan hátt teljast skilmálar samnings vera skilmálar tilboðsins með þeim breytingum sem felast í samþykkinu.
    3. Viðbót við skilmála eða breyting á skilmálum sem varða meðal annars verð, greiðslu, ástand og magn vöru, afhendingarstað, afhendingartíma, takmörkun á ábyrgð annars aðila gagnvart öðrum eða lausn deilumála, skal skoða sem efnislega breytingu á skilmálum tilboðs.

20. gr.

    1. Frestur til samþykkis sem ákvarðaður er í símskeyti eða bréfi byrjar að líða þegar símskeytið er afhent til sendingar eða samkvæmt dagsetningu bréfsins eða, ef engin slík dagsetning kemur fram, samkvæmt þeirri dagsetningu sem fram kemur á umslaginu. Frestur til samþykkis sem ákvarðaður er af tilboðsgjafa gegnum síma, fjarrita eða á annan hátt með umsvifalausum fjarskiptum, byrjar að líða þegar tilboð kemur til tilboðsmóttakanda.
    2. Opinberir frídagar eða almennir frídagar, sem líða innan samþykkisfrestsins, teljast með freststímabilinu. Verði tilkynning um samþykki hins vegar ekki afhent á heimilisfang tilboðsgjafa á síðasta degi freststímabilsins vegna þess að sá dagur er opinber frídagur eða almennur frídagur á starfsstofu tilboðsgjafa lengist freststíminn fram til næsta viðskiptadags.

21. gr.

    1. Of seint fram komið samþykki er engu að síður bindandi ef tilboðsgjafi, án tafar, tilkynnir það tilboðsmóttakanda munnlega eða sendir frá sér tilkynningu þess efnis.
    2. Komi fram á bréfi eða öðru skriflegu erindi sem hefur að geyma of seint fram komið samþykki að það hafi verið sent af stað við slíkar aðstæður að hefði sending þess farið fram með eðlilegum hætti þá hefði það komið til tilboðsmóttakanda á réttum tíma, er hið of seint fram komna samþykki bindandi nema tilboðsgjafi, án tafar, tilkynni tilboðsmóttakanda munnlega að hann skoði tilboð sitt niður fallið eða sendi tilkynningu þess efnis.

22. gr.

    Samþykki telst afturkallað komi afturköllunin til tilboðsgjafa áður en eða á sama tíma og samþykki hefði orðið bindandi.

23. gr.

    Samningur er gerður þegar samþykki á tilboði verður bindandi í samræmi við ákvæði sáttmála þessa.

24. gr.

    Samkvæmt ákvæðum þessa hluta sáttmálans kemur tilboð, samþykki eða yfirlýsing um samþykki eða sérhver önnur viljayfirlýsing „til“ móttakanda þegar slíkri yfirlýsingu er beint til hans munnlega eða afhent honum persónulega eftir öðrum leiðum, á starfsstofu hans eða á póstfang hans eða, hafi hann ekki starfsstofu eða póstfang, þá til fasts aðseturs hans.

III. HLUTI


Sala vöru.


I. KAFLI

Almenn ákvæði.

25. gr.

    Vanefndir annars aðila eru verulegar séu afleiðingar þeirra fyrir gagnaðila þær að hann verði sviptur því efnislega að öllu verulegu sem hann mátti gera ráð fyrir af samningnum, nema ef sá sem vanefnir sá ekki slíkt fyrir og skynsamur maður í sömu stöðu og við sömu aðstæður hefði ekki séð slíkt fyrir.


26. gr.

    Riftun samnings er aðeins gild sé hún tilkynnt gagnaðila.

27. gr.

    Sé tilkynning, áskorun eða önnur orðsending send af hálfu aðila í samræmi við þennan hluta sáttmálans og með aðferð sem viðeigandi er miðað við aðstæður, þá verður sá aðili ekki sviptur rétti til þess að mega treysta erindinu þótt töf verði á eða villa í sendingu þess eða sending þess hafi ekki komist til skila nema annað sé sérstaklega tekið fram í þessum hluta sáttmálans.

28. gr.

    Ef annar aðila getur samkvæmt ákvæðum sáttmála þessa krafist þess að gagnaðili efni einhverja samningsskyldu sína þá er dómstóll ekki skyldur að dæma um sérstaka samningsskyldu, nema dómurinn myndi dæma samkvæmt eigin innlendri löggjöf um sams konar samning um sölu sem sáttmálinn nær ekki yfir.


29. gr.

    1. Breyta má eða segja upp samningi eftir samkomulagi aðila.
    2. Skriflegum samningi sem felur í sér ákvæði er gerir ráð fyrir því að allar breytingar á samningnum eða uppsögn hans verði að vera í skriflegu formi, má ekki breyta eða segja upp á annan hátt. Hins vegar getur aðila með hegðan sinni verið meinað að byggja á slíku ákvæði að svo miklu leyti sem gagnaðili hefur treyst á hegðan hans.

II. KAFLI

Skyldur seljanda.

30. gr.

    Seljandi verður að afhenda vöruna og öll viðkomandi skjöl og framselja eignarréttinn að hinu selda eins og krafist er í samningi og sáttmála þessum.


I. ÞÁTTUR


Um afhendingu vöru og


afhendingu skjala.


31. gr.

    Ef seljanda er ekki skylt að afhenda vöruna á neinum ákveðnum stað er efni afhendingarskyldu hans eftirfarandi:
     1.      hafi samningur um sölu í för með sér flutning á vöru – þá ber honum að afhenda vöruna fyrsta flutningsmanni til flutnings til kaupanda;
     2.      fjalli samningur, í tilvikum sem falla ekki undir næsta málslið á undan, um ákveðna vöru eða tegundarákveðna vöru sem á að búa til eða framleiða og sem aðilar vissu þegar samningur var gerður hvar væri staðsett eða að það ætti að framleiða eða búa hana til á ákveðnum stað – þá ber honum að koma vörunni í vörslur kaupanda á þeim stað;

     3.      í öðrum tilvikum – þá ber seljanda að koma vörunni í vörslur kaupanda á þeim stað sem seljandi átti starfsstofu sína er samningur var gerður.


32. gr.

    1. Ef seljandi, samkvæmt samningnum eða sáttmála þessum, afhendir vöruna flutningsmanni og sé varan ekki augljóslega tengd samningnum með merkingu á vörunni, með flutningsskírteinum eða á annan hátt, verður seljandi að senda kaupanda tilkynningu um vörusendinguna þar sem varan er tilgreind.
    2. Sé seljanda skylt að annast flutning vörunnar verður hann að gera samninga um viðeigandi flutning miðað við aðstæður sem nauðsynlegir eru og með þeim skilmálum sem venja er við slíka flutninga.
    3. Sé seljanda ekki skylt að annast tryggingar vegna flutnings vörunnar ber honum að beiðni kaupanda að láta honum í té allar tiltækar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að gera honum kleift að koma á slíkri tryggingu.

33. gr.

    Seljandi á að afhenda vöruna:
     1.      sé dagsetning fastákveðin eða ákveða megi dagsetningu af samningi þá ber seljanda að afhenda vöruna á þeim degi;
     2.      sé tímabil áskilið í samningi eða ákvarða megi tímabil af samningi þá ber seljanda að afhenda vöruna hvenær sem er innan tímabilsins nema aðstæður bendi til þess að kaupandi eigi að velja dagsetningu; eða
     3.      í sérhverju öðru tilviki ber seljanda að afhenda vöruna innan hæfilegs tíma eftir að samningur var gerður.

34. gr.

    Sé seljanda skylt að afhenda skjöl vegna vöru verður hann að afhenda þau á þeim tíma og stað og í því formi sem áskilið er í samningnum. Hafi seljandi afhent skjölin fyrir þann tíma má hann fram að þeim tíma lagfæra skort á samræmi í skjölum valdi sú heimild kaupanda ekki ósanngjörnu óhagræði eða ósanngjörnum kostnaði. Hins vegar heldur kaupandi heimild sinni til að krefjast skaðabóta eftir því sem kveðið er á um í sáttmála þessum.


II. ÞÁTTUR


Samningshæfi vöru og kröfur þriðja aðila.


35. gr.

    1. Seljandi á að afhenda vöru í því magni, í því ástandi og samkvæmt þeirri lýsingu sem áskilið er í samningi og í þeim umbúðum eða umgjörð sem áskilið er í samningnum.
    2. Hafi aðilar ekki samið á annan hátt telst vara ekki vera í samningshæfu ástandi nema hún:

     1.      komi að þeim notum sem sams konar vörur myndu venjulega eiga að gera;
     2.      sé hæf til ákveðinna nota sem seljanda hefur, beint eða óbeint, verið greint frá þegar samningur var gerður nema ljóst megi vera af aðstæðum að kaupandi hafi ekki treyst eða ósanngjarnt hafi verið af kaupanda að treysta á þekkingu og mat seljanda;
     3.      búi yfir þeim eiginleikum sem seljandi hefur kynnt kaupanda í formi sýnis eða fyrirmyndar vörunnar;
     4.      sé í umbúðum eða hún pökkuð á þann hátt sem venja er um slíka vöru eða, þar sem engin slík venja er fyrir hendi, á þann hátt sem hæfilegur þykir til þess að geyma og verja vöruna.
    3. Seljandi ber ekki ábyrgð samkvæmt a–d-liðum í næstu málsgrein á undan vegna skorts á samningshæfi vöru ef kaupandi vissi eða gat ekki verið grunlaus um slíkan skort á samningshæfi vörunnar er samningur var gerður.

36. gr.

    1. Seljandi ber ábyrgð samkvæmt samningnum og sáttmála þessum á skorti á samningshæfi vöru sem er til staðar þegar áhættan fyrir selda vöru færist yfir á kaupanda jafnvel þótt skortur á samningshæfi vörunnar komi ekki í ljós fyrr en eftir þann tíma.
    2. Seljandi ber einnig ábyrgð á skorti á samningshæfi vöru sem kemur í ljós eftir þann tíma sem nefndur er í næstu málsgrein á undan og stafar af vanefndum á einhverri samningsskyldu hans, þar á meðal tímabundinni tryggingu hans fyrir því að varan verði hæf til allra venjulegra nota slíkrar vöru eða til ákveðinna nota eða því að hún muni halda tilteknum gæðum eða eiginleikum.

37. gr.

    Hafi seljandi afhent vöruna fyrir afhendingardag getur hann fram að þeim degi afhent það sem á kynni að vanta eða bætt allan skort á magni vörunnar sem afhent er eða afhent aðra vöru sem kemur í stað vöru sem afhent hefur verið og skortir samningshæfi eða bætt fyrir það sem þegar hefur verið afhent af vörunni og er áfátt, að því tilskildu að beiting heimildar þessarar valdi kaupanda ekki ósanngjörnum óþægindum eða ósanngjörnum kostnaði. Hins vegar heldur kaupandi þeim rétti til að krefjast skaðabóta sem kveðið er á um í sáttmála þessum.

38. gr.

    1. Kaupanda ber að rannsaka vöruna eða sjá til þess að hún verði rannsökuð eins fljótt og unnt er miðað við aðstæður.
    2. Taki samningurinn til flutnings vörunnar má fresta rannsókn hennar uns varan er komin á ákvörðunarstað.
    3. Hafi varan verið framflutt til nýs áfangastaðar eða hafi hún verið framsend af hálfu kaupanda án þess að hann hafi fengið sanngjarnt tækifæri til þess að rannsaka vöruna og seljandi á þeim tíma er samningur var gerður vissi eða mátti vita um möguleikann á slíkum framflutningi eða framsendingu, má fresta rannsókn uns varan er komin á hinn nýja áfangastað.

39. gr.

    1. Kaupandi missir rétt til að byggja á skorti á samningshæfi vöru greini hann ekki seljanda frá því með tilkynningu þar sem hann tiltekur í hverju skortur á samningshæfi vörunnar sé fólginn innan hæfilegs tíma eftir að honum varð kunnugt um eða mátti hafa orðið kunnugt um það.
    2. Hvað sem öðru líður þá missir kaupandi rétt til að byggja á skorti á samningshæfi vöru tilkynni hann ekki seljanda um slíkt í síðasta lagi innan tveggja ára frá þeim degi er varan komst í hendur kaupanda, nema frestur þessi samrýmist ekki ábyrgðartíma samkvæmt samningi.


40. gr.

    Seljandi getur ekki byggt á ákvæðum 38. og 39. gr. ef skortur á samningshæfi vörunnar tengist staðreyndum sem honum voru kunnar eða máttu ekki vera ókunnar og hann upplýsti ekki kaupanda um.

41. gr.

    Seljanda ber að afhenda vöru sem er óbundin réttindum eða kröfu þriðja aðila nema kaupandi hafi samþykkt að taka við vöru sem slík réttindi eða krafa hvílir á. Ef slík réttindi eða krafa er hins vegar byggð á eignarréttindum á sviði iðnaðar eða öðrum hugverkarétti lýtur skylda seljanda ákvæðum 42. gr.

42. gr.

    1. Seljanda ber að afhenda vöru sem ekki hvíla á nein réttindi eða kröfur þriðja aðila sem byggjast á eignarréttindum á sviði iðnaðar eða öðrum hugverkarétti sem seljandi, er samningur komst á, vissi um eða mátti ekki hafa verið ókunnugt um, að því tilskildu að rétturinn eða krafan byggist á eignarréttindum á sviði iðnaðar eða öðrum hugverkarétti:
     1.      samkvæmt lögum þess ríkis þar sem varan verður endurseld eða notuð á annan hátt hafi aðilar haft það í huga, er samningur komst á, að vörurnar yrðu endurseldar eða notaðar á annan hátt í því ríki; eða
     2.      í sérhverju öðru tilviki samkvæmt lögum þess ríkis þar sem kaupandi hefur starfsstofu sína.
    2. Skylda seljanda samkvæmt næstu málsgrein á undan nær ekki til þeirra tilvika þar sem:
     1.      kaupandi vissi eða mátti ekki vera ókunnugt um réttindin eða kröfuna er samningur var gerður; eða
     2.      réttindin eða krafan stafa af hlýðni seljanda við tækniteikningar, uppdrætti, fyrirmæli eða aðrar slíkar leiðbeiningar sem kaupandi hefur látið í té.


43. gr.

    1. Kaupandi missir rétt til að byggja á ákvæðum 41. eða 42. gr. sendi hann ekki tilkynningu til seljanda þar sem hann tilgreinir eðli réttinda eða kröfu þriðja aðila, innan hæfilegs tíma eftir að honum varð kunnugt um eða mátti hafa orðið kunnugt um réttindin eða kröfuna.
    2. Seljandi getur ekki byggt á ákvæðum næstu málsgreinar á undan hafi honum verið kunnugt um réttindi eða kröfu þriðja aðila og eðli hennar.

44. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 39. gr. og 1. mgr. 43. gr. getur kaupandi lækkað kaupverð í samræmi við ákvæði 50. gr. eða krafist skaðabóta, nema vegna hagnaðarmissis, hafi hann réttmæta afsökun fyrir því að hafa ekki sent tilkynningu þá sem krafist er.


III. ÞÁTTUR


Úrræði vegna vanefnda seljanda.


45. gr.

    1. Efni seljandi ekki samningsskyldur sínar eða skyldur samkvæmt sáttmála þessum getur kaupandi:

     1.      beitt heimildum 46.–52. gr.;
     2.      krafist skaðabóta eins og kveðið er á um í 74.–77. gr.
    2. Kaupandi glatar ekki neinum rétti sem hann gæti átt til að krefjast skaðabóta þótt hann beiti öðrum úrræðum.
    3. Dómstóll eða gerðardómur má ekki veita seljanda afhendingarfrest þegar kaupandi beitir úrræðum vegna vanefnda á samningi.

46. gr.

    1. Kaupandi má krefjast þess að seljandi efni samningsskyldur sínar nema kaupandi hafi beitt úrræðum sem eru ósamrýmanleg þeirri kröfu.

    2. Sé vara í ósamræmi við samning getur kaupandi aðeins krafist þess að sér verði afhent önnur vara í staðinn hafi skortur á samningshæfi vörunnar haft í för með sér að um verulegar vanefndir samnings hafi orðið að ræða og að beiðni um nýja vöru hafi verið gerð samtímis tilkynningu skv. 39. gr. eða innan hæfilegs tíma þar á eftir.
    3. Sé vara í ósamræmi við samning getur kaupandi krafist þess af seljanda að hann bæti fyrir skort á samningshæfi vöru með því að gera við vöruna nema slíkt sé ósanngjarnt þegar allar aðstæður eru virtar. Beiðni um viðgerð verður að koma fram annaðhvort jafnhliða tilkynningu skv. 39. gr. eða innan hæfilegs tíma þar á eftir.

47. gr.

    1. Kaupandi getur ákveðið hæfilegan viðbótarfrest handa seljanda til þess að efna skyldur sínar.

    2. Kaupandi má ekki leita úrræða vegna vanefnda á samningum nema hann hafi móttekið tilkynningu frá seljanda þess efnis að hann muni ekki efna samninginn innan þess frests sem ákveðinn hefur verið. Kaupandi glatar hins vegar ekki neinum rétti sem hann kann að hafa til að krefjast skaðabóta vegna afhendingardráttar.

48. gr.

    1. Með hliðsjón af 49. gr. getur seljandi, jafnvel eftir að afhendingartími er liðinn, bætt á eigin kostnað sérhvern skort á efndum samnings geti hann gert það án óhæfilegs dráttar og án þess að valda kaupanda ósanngjörnum óþægindum eða óvissu um endurgreiðslu seljanda á áður útlögðum kostnaði af hálfu kaupanda. Hins vegar heldur kaupandi þeim rétti til að krefjast skaðabóta sem kveðið er á um í sáttmála þessum.
    2. Ef seljandi skorar á kaupanda að lýsa því yfir hvort hann vilji samþykkja efndagreiðslu sína og kaupandi bregst ekki við áskoruninni innan hæfilegs tíma getur seljandi innt efndagreiðslu sína af hendi innan þess tíma sem greinir í áskorun seljanda. Kaupandi má ekki á því tímabili leita neinna úrræða sem eru í ósamræmi við efndir seljanda á samningnum.
    3. Tilkynning seljanda um að hann muni efna samninginn innan ákveðins tíma telst fela í sér áskorun samkvæmt næstu málsgrein á undan um að kaupandi skýri frá ákvörðun sinni.
    4. Áskorun eða tilkynning seljanda skv. 2. eða 3. mgr. þessarar greinar er ekki gild nema kaupandi taki við henni.

49. gr.

    1. Kaupandi má rifta samningi:
     1.      ef það að seljandi efnir ekki einhverja samningsskyldu sína samkvæmt samningnum eða sáttmála þessum jafngildir því að um verulegar vanefndir samnings verði að ræða; eða
     2.      þegar afhending fer ekki fram, ef seljandi afhendir ekki varninginn innan þess viðbótarfrests sem kaupandi hefur ákveðið í samræmi við 1. mgr. 47. gr. eða lýsir því yfir að hann muni ekki afhenda vöru innan þess tímabils sem þannig hefur verið ákveðið.
    2. Hafi seljandi hins vegar afhent vöruna missir kaupandi rétt til að rifta samningnum nema:

     1.      þegar um afhendingardrátt er að ræða, innan hæfilegs tíma eftir að honum verður kunnugt um að afhending hefur átt sér stað;
     2.      þegar um aðrar vanefndir en afhendingardrátt er að ræða, innan hæfilegs tíma:
       a.      eftir að hann vissi eða mátti hafa vitað um vanefndirnar;
       b.      eftir að viðbótarfrestur sem kaupandi hefur ákveðið í samræmi við 1. mgr. 47. gr. er liðinn eða eftir að seljandi hefur lýst því yfir að hann muni ekki efna samningsskyldur sínar innan þess viðbótarfrests; eða

       c.      eftir að viðbótarfrestur sá sem seljandi hefur lýst yfir í samræmi við 2. mgr. 48. gr. er liðinn eða eftir að kaupandi hefur lýst því yfir að hann muni ekki samþykkja efndir seljanda.

50. gr.

    Ef ástand vöru er ekki samningshæft og hvort sem kaupverð hefur verið greitt eða ekki getur kaupandi lækkað kaupverðið í sama hlutfalli og það verðgildi vöru sem afhent hefur verið var á þeim tíma er afhending fór fram miðað við verðgildi vöru sem hefði verið samningshæf á sama tíma. Ef seljandi bætir hins vegar úr vanefndum sínum í samræmi við 37. gr. eða 48. gr. eða ef kaupandi neitar að taka við efndagreiðslu seljanda í samræmi við ákvæði þessara greina getur kaupandi ekki lækkað kaupverðið.


51. gr.

    1. Ef seljandi afhendir aðeins hluta vöru eða ef aðeins hluti afhentrar vöru er í samningshæfu ástandi gilda 46.–50. gr. varðandi þann hluta sem á skortir eða er ekki í samningshæfu ástandi.

    2. Kaupandi getur aðeins rift samningnum í heild leiði afhendingardráttur að hluta eða að það sem afhent var er ekki í samningshæfu ástandi til þess að um verulegar vanefndir á samningnum verði að ræða.

52. gr.

    1. Ef seljandi afhendir vöru fyrir þann tíma sem tiltekinn hefur verið getur kaupandi tekið við því sem afhent er eða hann getur neitað að taka við því.
    2. Ef seljandi afhendir meira magn vöru en ákveðið er í samningnum getur kaupandi tekið við því sem innt er af hendi eða hann getur neitað að taka við því magni sem umfram er. Ef kaupandi tekur við öllu eða hluta þess magns sem umfram er verður hann að greiða fyrir það samkvæmt verðákvæðum samningsins.

III. KAFLI

Skyldur kaupanda.

53. gr.

    Kaupandi verður að greiða kaupverð vörunnar og taka við henni eins og krafist er samkvæmt ákvæðum samningsins og sáttmála þessum.

I. ÞÁTTUR


Greiðsla kaupverðs.


54. gr.

    Skylda kaupanda að greiða kaupverðið felur í sér að gera þær ráðstafanir og fullnægja þeim formsatriðum sem kveðið er á um í samningnum eða í lögum og reglugerðum til þess að greiðsla geti farið fram.

55. gr.

    Þar sem gildur samningur hefur verið gerður en kaupverð er hvorki beint eða óbeint tilgreint né kveðið á um ákvörðun þess í samningnum eru aðilar taldir hafa, bendi ekkert til hins gagnstæða, óbeint vísað til þess kaupverðs sem krafist var að öllu jöfnu fyrir slíkar vörur við sambærilegar aðstæður á því sviði viðskipta og á þeim tíma er samningur var gerður.

56. gr.

    Ef kaupverðið er ákveðið eftir þyngd vöru skal, ef vafi er á því, ákveða það eftir nettóþyngd.


57. gr.

    1. Sé kaupanda ekki skylt að greiða kaupverðið á öðrum tilgreindum stað verður hann að greiða seljanda kaupverðið:
     1.      á starfsstofu seljanda; eða
     2.      ef það ber að greiða kaupverðið gegn því að vara eða skjöl verði afhent, á þeim stað þar sem afhendingin fer fram.
    2. Seljandi verður að bera þann aukna kostnað við að inna greiðslu af hendi sem leiðir af því ef breyting verður á starfsstofu hans eftir að samningur var gerður.

58. gr.

    1. Ef kaupanda er ekki skylt að greiða kaupverðið á öðrum tíma verður hann að greiða það þegar seljandi fær honum umráð hvort heldur vörunnar eða farmskjala, sem veita rétt til ráðstöfunar hennar, í samræmi við samninginn og sáttmála þennan. Seljandi getur sett það skilyrði fyrir því að hann afhendi vöru eða skjöl að slík greiðsla fari fram.
    2. Ef samningurinn felur í sér flutning vöru getur seljandi sent farmflytjanda vöruna með þeim skilmálum að varan eða skjöl sem ráðstöfunarrétt veita yfir vörunni verði ekki afhent kaupanda nema gegn greiðslu kaupverðsins.
    3. Kaupanda er ekki skylt að greiða kaupverðið fyrr en honum hefur gefist færi á að rannsaka vöruna nema það fyrirkomulag afhendingar eða greiðslu kaupverðs sem aðilar hafa orðið ásáttir um sé í ósamræmi við að honum veitist slíkt færi á að rannsaka vöruna.

59. gr.

    Kaupandi verður að greiða kaupverðið á þeim degi sem ákveðinn er eða leiða má af samningnum og sáttmála þessum án þess að þörf sé áskorunar eða að fullnægt sé nokkrum formskilyrðum af hendi seljanda.

II. ÞÁTTUR


Viðtaka vöru.


60. gr.

    Skylda kaupanda til að taka við vöru felur í sér:
     1.      að framkvæma allt það sem með sanngirni má ætlast til af honum til þess að gera seljanda kleift að inna af hendi afhendingarskyldu sína; og
     2.      að taka við vörunni.

III. ÞÁTTUR


Úrræði vegna vanefnda kaupanda.


61. gr.

    1. Ef kaupandi vanefnir einhverja skyldu sína samkvæmt samningnum eða sáttmála þessum getur seljandi:
     1.      beitt heimildum sem kveðið er á um í 62.–65. gr.;
     2.      krafist skaðabóta sem kveðið er á um í 74.–77. gr.
    2. Seljandi glatar ekki neinum rétti sem hann gæti átt til að krefjast skaðabóta þótt hann beiti öðrum úrræðum.
    3. Dómstóll eða gerðardómur má ekki veita kaupanda frest til efnda þegar seljandi beitir vanefndaúrræðum.

62. gr.

    Seljandi má krefjast þess af kaupanda að hann greiði kaupverðið, taki við vörunni eða inni af hendi aðrar skyldur sínar nema seljandi hafi leitað úrræða sem samræmast ekki slíkri kröfu.

63. gr.

    1. Seljandi getur ákveðið hæfilegan viðbótarfrest handa kaupanda til að efna skyldur sínar.

    2. Nema seljandi hafi fengið tilkynningu frá kaupanda þess efnis að hann muni ekki efna samningsskyldur sínar innan þess tíma sem ákveðinn hefur verið getur seljandi ekki á því tímabili leitað annarra úrræða vegna vanefnda samningsins. Seljandi glatar hins vegar ekki neinum rétti sem hann kann að hafa til þess að krefjast skaðabóta vegna tafa á efndum.

64. gr.

    1. Seljandi getur rift samningi:
     1.      ef það að kaupandi efnir ekki skyldur sínar samkvæmt samningnum eða sáttmála þessum telst veruleg vanefnd; eða

     2.      ef kaupandi efnir ekki innan þess viðbótarfrests sem seljandi hefur ákveðið í samræmi við 1. mgr. 63. gr. skyldu sína til að greiða kaupverðið eða taka við vörunni eða ef hann lýsir því yfir að hann muni ekki gera það innan þess frests sem þannig hefur verið ákveðinn.
    2. Í tilvikum þar sem kaupandi hefur innt af hendi kaupverðið missir seljandi hins vegar rétt til að rifta samningnum nema hann rifti:
     1.      vegna viðtökudráttar af hendi kaupanda áður en seljanda varð kunnugt um að efndir hefðu átt sér stað; eða
     2.      vegna annarra vanefnda en viðtökudráttar af hendi kaupanda, innan hæfilegs tíma:
       a.      eftir að seljandi vissi eða mátti hafa vitað um vanefndirnar; eða
       b.      eftir að liðinn er viðbótarfrestur sem seljandi hefur ákveðið skv. 1. mgr. 63. gr. eða eftir að kaupandi hefur lýst því yfir að hann muni ekki efna samningsskyldur sínar innan slíks viðbótarfrests.


65. gr.

    1. Ef kaupandi skal samkvæmt ákvæðum samningsins tilgreina nákvæmlega lögun, mál eða önnur megineinkenni vöru og það bregst að hann ákveði slíka nákvæma tilgreiningu annaðhvort á þeim degi sem umsaminn er eða innan hæfilegs tíma eftir móttöku áskorunar frá seljanda, má seljandi, án þess að það komi niður á öðrum þeim réttindum sem hann kann að eiga, ákveða slíka tilgreiningu sjálfur í samræmi við þær kröfur kaupanda sem seljanda eru kunnar.
    2. Ef seljandi ákveður tilgreininguna sjálfur verður hann að upplýsa kaupanda um einstök atriði tilgreiningarinnar og hann verður að fastákveða hæfilegan frest handa kaupanda til að ákveða breytingu tilgreiningar. Ef það bregst að kaupandi ákveði tilgreiningu eftir að hafa tekið við tilkynningu þess efnis og innan þess frests sem þannig hefur verið ákveðinn verður tilgreining sú sem seljandi ákvað bindandi.

IV. KAFLI

Áhættuskipti.

66. gr.

    Ef vara ferst eða verður fyrir tjóni eftir að áhættan á því hefur færst yfir á kaupanda leysir það kaupanda ekki undan skyldu hans að greiða kaupverðið nema missirinn eða tjónið stafi af athöfn eða athafnaleysi seljanda.

67. gr.

    1. Ef samningur um sölu hefur í för með sér flutning vöru og seljanda er ekki skylt að afhenda hana á ákveðinn stað færist áhættan yfir á kaupanda þegar varan er afhent fyrsta flutningsmanni til flutnings til kaupanda í samræmi við samninginn. Ef seljanda er skylt að afhenda vöruna flutningsmanni á ákveðnum stað færist áhættan ekki yfir á kaupanda fyrr en varan er afhent flutningsmanni á þeim stað. Það að seljanda er heimilt að halda eftir skjölum sem heimila ráðstöfun vörunnar hefur ekki áhrif á áhættuskiptin.


    2. Engu að síður færist áhættan ekki yfir á kaupanda fyrr en varan hefur verið skýrlega samrætt samningnum hvort heldur með merkingum á vörunni, farmskjölum, tilkynningu til kaupanda eða á annan hátt.

68. gr.

    Áhættan vegna vöru sem seld er til framflutnings færist yfir á kaupanda á þeirri stundu sem samningur er gerður. Sé það hins vegar ljóst af aðstæðum þá færist áhættan yfir á kaupanda þegar varan er afhent þeim flutningsmanni er gefur út skjöl vegna flutningssamningsins. Engu að síður hafi seljandi, er samningur um sölu var gerður, vitað eða mátt vita að varan hafi farist eða orðið fyrir tjóni og hafi hann ekki skýrt kaupanda frá því, er missirinn eða tjónið á ábyrgð seljanda.


69. gr.

    1. Í tilvikum sem falla ekki undir 67. og 68. gr. færist áhættan yfir á kaupanda þegar hann tekur við vörunni eða, ef hann gerir það ekki á réttum tíma, á þeirri stundu sem vörunni er komið í umráð hans og hann vanefnir samninginn með því að taka ekki við vörunni.
    2. Sé kaupanda hins vegar skylt að taka við vörunni á öðrum stað en starfsstofu seljanda, færist áhættan yfir þegar afhendingartíminn er kominn og kaupanda er kunnugt um það að vörunni hafi verið skilað í hans umráð á þeim stað.
    3. Ef samningurinn er um vöru sem enn hefur ekki verið sérgreind telst vörunni ekki hafa verið skilað í umráð kaupanda fyrr en varan hefur verið samrætt samningnum.

70. gr.

    Hafi seljandi vanefnt samning verulega koma 67., 68. og 69. gr. ekki í veg fyrir að kaupandi neyti þeirra úrræða sem tiltæk eru vegna vanefndanna.


V. KAFLI

Sameiginleg ákvæði um skyldur
seljanda og kaupanda.

I. ÞÁTTUR

Fyrirsjáanlegar vanefndir og afborgunarsamningar.

71. gr.

    1. Samningsaðili getur hætt að efna skyldur sínar samkvæmt samningnum ef það kemur í ljós eftir að samningur var gerður að gagnaðili muni ekki efna verulegan hluta skuldbindinga sinna:

     1.      vegna þess að hæfi hans til þess að efna samninginn eða lánshæfni hans er verulega skert; eða
     2.      vegna hegðunar hans við undirbúning efnda samningsins eða við efndir samningsins.
    2. Ef seljandi hefur sent frá sér vöruna áður en aðstæður þær sem lýst er í næstu málsgrein á undan koma í ljós getur hann komið í veg fyrir afhendingu vörunnar til kaupanda jafnvel þótt kaupandi sé handhafi skjala sem heimila honum að fá vöruna til sín. Þessi málsgrein á eingöngu við um réttindi til vörunnar að því er varðar kaupanda og seljanda.
    3. Aðili sem hættir að efna samninginn hvort sem það gerist fyrir eða eftir að varan er send af stað verður án tafar að tilkynna gagnaðila um stöðvun sína á efndum og verður að halda áfram að efna samninginn ef gagnaðili veitir nægilega tryggingu fyrir því að hann geti efnt samninginn.

72. gr.

    1. Ef ljóst verður áður en komið er að efndum samnings að annar aðila muni vanefna samninginn verulega má gagnaðili rifta samningnum.

    2. Gefist til þess tími verður sá aðili sem hyggst rifta samningnum að tilkynna gagnaðila það á réttan hátt til þess að sá aðili geti tryggt það nægilega að hann muni efna samninginn.
    3. Skilyrðin í næstu málsgrein á undan eiga ekki við ef gagnaðili hefur lýst því yfir að hann muni ekki efna skuldbindingar sínar.

73. gr.

    1. Sé um að ræða samning um afhendingu vöru smátt og smátt, og annar aðila efnir ekki einhverja samningsskyldu sína vegna einstakrar afhendingar, getur gagnaðili rift samningnum varðandi þá afhendingu.

    2. Ef það að aðili efnir ekki einhverja samningsskyldu sína vegna einstakrar afhendingar veitir gagnaðila tilefni til þess að álykta að um verulegar vanefndir muni verða að ræða vegna afhendinga framvegis getur hann rift samningnum vegna ókominna afhendinga að því gefnu að hann rifti innan hæfilegs tíma.
    3. Kaupandi sem riftir samningnum vegna einstakrar afhendingar getur á sama tíma rift samningnum vegna afhendinga sem þegar hafa farið fram eða vegna ókominna afhendinga séu þau tengsl á milli einstakra afhendinga að einstakar afhendingar vöru koma ekki að þeim notum sem aðilar höfðu í huga er samningur var gerður.

II. ÞÁTTUR


Skaðabætur.


74. gr.

    Skaðabætur vegna vanefnda annars aðila skulu nema þeirri fjárhæð sem svarar til tjónsins, þar á meðal er hagnaðarmissir sem gagnaðili hefur orðið fyrir sem afleiðing af vanefndunum. Slíkar skaðabætur mega ekki vera meiri en tjónið sem sá er vanefnir sá eða mátti hafa séð fyrir að gæti hafa orðið möguleg afleiðing vanefnda samnings þá er samningur komst á, með hliðsjón af málsatvikum og staðreyndum sem honum voru þá kunnar eða máttu vera kunnar.

75. gr.

    Ef samningnum er rift og kaupandi hefur keypt aðra vöru með eðlilegum hætti og innan hæfilegs tíma eftir riftun í stað vöru sem samningurinn fjallar um eða ef seljandi hefur endurselt vöruna, getur sá aðili sem krefst skaðabóta fengið bættan þann mismun sem er milli samningsverðs og kaupverðs í þeim viðskiptum sem komu í stað upphaflega samningsins auk frekari skaðabóta skv. 74. gr.

76. gr.

    1. Sé samningnum rift og fyrir hendi er gangverð á vörunni getur sá aðili sem krefst skaðabóta, hafi hann ekki fest kaup á vöru eða endurselt hana skv. 75. gr., fengið bættan þann mismun sem er á milli þess verðs sem ákveðið er í samningnum og gangverðsins á þeim tíma er samningi var rift auk annarra skaðabóta skv. 74. gr. Hafi aðili hins vegar rift samningi eftir að hafa tekið við vörunni þá ber að miða við gangverð á þeim tíma þegar hann tók við vörunni í stað gangverðs á þeim tíma er samningi var rift.
    2. Í næstu málsgrein á undan telst gangverð vera það verð sem algengast er á þeim stað sem afhenda hefði átt vöruna eða, ef ekki er gangverð á þeim stað, á þeim stað öðrum sem hæfilegt væri að kæmi í hans stað með hliðsjón af mismun á kostnaði vegna flutnings vörunnar.


77. gr.

    Aðili sem byggir á vanefndum samnings verður að gera þær ráðstafanir sem hæfilegar eru miðað við aðstæður til að draga úr því tjóni, þar með talið hagnaðartjóni, sem leiðir af vanefndunum. Vanræki hann að gera slíkar ráðstafanir má sá aðili sem vanefnt hefur krefjast frádráttar skaðabóta að þeirri fjárhæð sem draga hefði átt úr tjóni.

III. ÞÁTTUR


Vextir.


78. gr.

    Bregðist það að aðili greiði kaupverð eða sérhverja aðra fjárhæð sem gjaldfallin er þá á gagnaðili rétt á að krefjast vaxta af greiðslunni án tillits til skaðabótakrafna skv. 74. gr.

IV. ÞÁTTUR


Undantekningar.


79. gr.

    1. Aðili ber ekki ábyrgð á vanefndum skuldbindinga sinna ef hann sannar að vanefndirnar stafi af hindrun sem ekki var á hans valdi og ekki væri sanngjarnt að ætlast til að hann hefði átt að gera ráð fyrir á þeim tíma er samningur var gerður eða hann hefði átt að hafa komist hjá eða yfir hana eða afleiðingum hennar.
    2. Ef vanefnd aðila stafar af vanefndum þriðja aðila sem hann hefur fengið til að efna allan samninginn eða hluta hans verður sá aðili undanþeginn ábyrgð aðeins ef:
     1.      hann er undanþeginn samkvæmt næstu málsgrein á undan; og
     2.      þriðji aðili sem hann hefur fengið til þess myndi vera undanþeginn ef ákvæðum sömu málsgreinar væri beitt um hann.
    3. Undantekningin sem heimiluð er í þessari grein gildir þann tíma sem hindrunin er til staðar.

    4. Aðili sem vanefnir verður að tilkynna gagnaðila um hindrunina og áhrif hennar á möguleika sína til að efna samninginn. Ef tilkynningin berst ekki gagnaðila innan hæfilegs tíma, eftir að sá aðili sem vanefnir vissi eða mátti hafa vitað um hindrunina, ber hann ábyrgð á þeirri bótaskyldu sem leiðir af því að slík tilkynning er ekki móttekin.
    5. Ekkert í þessari grein varnar aðilum samningsins að beita öðrum heimildum en þeim að krefjast skaðabóta samkvæmt sáttmála þessum.

80. gr.

    Aðili má ekki treysta á vanefnd gagnaðila að því marki sem slík vanefnd væri afleiðing aðgerða eða aðgerðaleysis fyrri aðilans.

V. ÞÁTTUR


Áhrif riftunar.


81. gr.

    1. Riftun samnings leysir báða aðila undan samningsskuldbindingum þeirra án tillits til þeirrar skaðabótaábyrgðar sem gæti stofnast. Riftun hefur ekki áhrif á nein ákvæði samningsins um lausn deilumála eða önnur ákvæði samningsins sem kveða á um þau réttindi og þær skyldur aðila sem leiða af riftun samningsins.
    2. Aðili sem hefur efnt samninginn annaðhvort að fullu eða að hluta getur krafist þess að gagnaðili skili aftur því sem fyrrnefndur aðili hefur þegar innt af hendi eða greitt samkvæmt samningnum. Ef báðir aðilar eiga að skila aftur því sem þeir hafa tekið við verða þeir að gera það samtímis.

82. gr.

    1. Kaupandi missir réttinn til að rifta samningnum eða krefja seljanda um nýja vöru ef honum er ómögulegt að skila aftur vörunni að öllu verulegu í sama ástandi og hann tók við henni.

    2. Ofangreind málsgrein á ekki við:
     1.      ef það að aðili getur ekki skilað aftur vöru eða skilað aftur vöru að öllu verulegu í því ástandi sem hún var í er kaupandi tók við henni stafar ekki af einhverri athöfn hans eða athafnaleysi;
     2.      ef varan eða hluti vörunnar hefur farist eða rýrnað sem afleiðing rannsóknar sem kveðið er á um í 38. gr.; eða
     3.      ef varan eða hluti vörunnar hefur verið seld í venjulegum verslunarviðskiptum eða hefur verið notuð eða umbreytt af kaupanda sem afleiðing venjulegrar notkunar áður en honum varð ljóst eða mátti hafa orðið ljóst að vöruna skorti samningshæfi.

83. gr.

    Kaupandi sem misst hefur réttinn til að rifta samningnum eða til að krefja seljandann um aðra vöru skv. 82. gr. heldur öðrum úrræðum samkvæmt samningnum og sáttmála þessum.


84. gr.

    1. Sé seljanda skylt að endurgreiða kaupverðið verður hann jafnframt að greiða vexti af því frá þeim degi er kaupverð var greitt.
    2. Kaupandi verður að standa seljanda skil á þeim hag sem hann hefur haft af vörunni eða hluta hennar:

     1.      ef hann verður að skila vörunni aftur eða hluta hennar; eða
     2.      ef honum er ómögulegt að skila aftur allri vörunni eða hluta hennar, eða allri vörunni eða hluta hennar að öllu verulegu, í sama ástandi og hann tók við henni, þótt hann hafi engu að síður rift samningnum eða krafið seljandann um aðra vöru í staðinn.

VI. ÞÁTTUR


Varðveisla vöru.


85. gr.

    Sé um viðtökudrátt að ræða af hálfu kaupanda eða þegar greiðsla kaupverðs og afhending vöru á að fara fram samtímis en seljandi er með vöruna í sinni vörslu eða hefur á annan hátt umráð vörunnar með höndum og kaupandi greiðir ekki kaupverðið verður seljandi að gera þær ráðstafanir sem réttar eru miðað við aðstæður til að geyma vöruna. Hann á rétt á að halda vörunni þangað til kaupandi hefur endurgreitt honum sanngjarnan kostnað vegna viðtökudráttarins.

86. gr.

    1. Ef kaupandi hefur tekið við vöru og hyggst beita heimildum sínum samkvæmt samningnum eða sáttmála þessum til að hafna henni verður hann að gera þær ráðstafanir sem réttar eru miðað við aðstæður til að geyma hana. Hann á rétt á að halda vörunni þangað til seljandi hefur endurgreitt honum sanngjarnan kostnað.
    2. Ef vara sem send hefur verið kaupanda er komin í hans umráð á ákvörðunarstað og hann beitir heimildum sínum til að hafna henni, verður hann að taka vöruna í sínar vörslur fyrir hönd seljanda, að því tilskildu að það verði gert án þess að greiða kaupverð og án óeðlilegra óþæginda eða ósanngjarns kostnaðar. Ákvæði þetta gildir ekki ef seljandi eða aðili sá er heimild hefur til þess að taka við vörslum vörunnar af hans hálfu er staddur á ákvörðunarstað. Taki kaupandi við vörslu vörunnar samkvæmt þessari málsgrein fer um réttindi hans og skyldur eftir ákvæðum næstu málsgreinar á undan.

87. gr.

    Aðila sem skylt er að gera ráðstafanir til þess að geyma vöruna er heimilt að afhenda hana til geymslu í vöruskemmu þriðja aðila á kostnað gagnaðila að því tilskildu að kostnaður sem af því leiðir sé ekki óhóflegur.

88. gr.

    1. Aðila sem skylt er að geyma vöru skv. 85. eða 86. gr. er heimilt að selja hana með viðeigandi hætti hafi orðið óhæfilegur dráttur af hálfu gagnaðila á að taka við vörslum vörunnar eða taka aftur við vörunni eða á því að greiða kaupverð hennar eða kostnað við geymslu hennar, að því tilskildu að rétt tilkynning um að ætlunin sé að selja vöruna hafi verið send gagnaðila.
    2. Ef varan er þess eðlis að hún skemmist fljótt eða varðveisla hennar myndi hafa í för með sér ósanngjarnan kostnað verður sá aðili sem ber að geyma vöruna í samræmi við 85. eða 86. gr. að gera réttar ráðstafanir til þess að selja hana. Að því marki sem mögulegt er verður hann að tilkynna gagnaðila þann ásetning sinn að selja vöruna.
    3. Aðili sem selur vöruna á rétt á að halda eftir af andvirði sölunnar sanngjörnum kostnaði vegna geymslu og sölu vörunnar. Verður hann að greina gagnaðila frá mismuninum.


IV. HLUTI


Lokaákvæði.


89. gr.

    Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna er hér með tilnefndur vörsluaðili sáttmála þessa.


90. gr.

    Sáttmáli þessi gengur eigi framar neinum alþjóðlegum samningi sem þegar hefur verið gerður eða verður ef til vill gerður og sem hefur að geyma ákvæði varðandi efni sem kveðið er á um í sáttmála þessum að því tilskildu að aðilarnir hafi starfsstofur sínar í ríkjum sem aðild eiga að slíkum samningi.

91. gr.

    1. Sáttmáli þessi liggur frammi til undirritunar á lokafundi ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um samninga um sölu vöru milli ríkja og mun liggja frammi til undirritunar af hálfu allra ríkja í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York til 30. september 1981.
    2. Sáttmáli þessi er háður fullgildingu, staðfestingu eða samþykki ríkjanna sem undirrita hann.
    3. Öllum ríkjum, sem ekki eru stofnríki, skal heimilt að gerast aðilar að samningi þessum eftir þann tíma er hann liggur frammi til undirritunar.
    4. Fullgildingar-, staðfestingar-, samþykktar- og aðildarskjöl skal varðveita hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

92. gr.

    1. Samningsríki getur lýst því yfir við undirritun, fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild að það sé ekki bundið af II. hluta sáttmála þessa eða að það sé ekki bundið af III. hluta sáttmála þessa.

    2. Samningsríki sem gefur út yfirlýsingu í samræmi við næstu málsgrein á undan vegna II. hluta eða III. hluta sáttmálans verður ekki talið samningsríki skv. 1. mgr. 1. gr. samningins að því er það efni varðar er sá hluti sáttmálans tekur til er yfirlýsingin fjallar um.


93. gr.

    1. Ef samningsríki skiptist í tvö eða fleiri landsvæði og stjórnarskrá þess kveður á um að mismunandi löggjöf skuli gilda að því er varðar efni það er sáttmáli fjallar um getur ríkið þegar það undirritar, fullgildir, staðfestir, samþykkir eða gerist aðili að samningnum lýst því yfir að sáttmálinn eigi að gilda á öllum landsvæðum ríkisins eða eingöngu á einu eða fleiri landsvæðum þess og má ríkið breyta yfirlýsingu sinni með því að leggja fram aðra yfirlýsingu hvenær sem er.
    2. Yfirlýsingar þessar skal tilkynna vörsluaðila og eiga þær að tilgreina með skýrum hætti landsvæði þau sem sáttmálinn gildir á.
    3. Ef fram kemur yfirlýsing samkvæmt þessari grein um að sáttmáli þessi gildi um eitt eða fleiri en ekki öll landsvæði samningsríkis og sé starfsstofa aðila staðsett í því ríki þá telst slík starfsstofa ekki vera í samningsríki að því er varðar sáttmála þennan nema hún sé á landsvæði sem sáttmálinn gildir á.


    4. Ef samningsríki gefur ekki út yfirlýsingu skv. 1. mgr. þessarar greinar gildir sáttmálinn á öllum landsvæðum þess ríkis.

94. gr.

    1. Tvö eða fleiri samningsríki sem hafa sömu eða nátengda löggjöf um efni það er sáttmáli þessi fjallar um geta hvenær sem er lýst því yfir að sáttmálinn eigi ekki að gilda um samninga um sölu eða gerð þeirra í þeim ríkjum þar sem aðilar hafa starfsstofu. Slíkar yfirlýsingar geta verið sameiginlegar eða samkvæmt gagnkvæmum einhliða yfirlýsingum.

    2. Samningsríki sem hefur sömu eða nátengda löggjöf um efni það er sáttmáli þessi fjallar um og ríki, eitt eða fleiri, sem ekki eru samningsríki, geta hvenær sem er lýst því yfir að sáttmálinn eigi ekki að gilda um samninga um sölu eða gerð þeirra þegar aðilar hafa starfsstofur sínar í þessum ríkjum.

    3. Ef ríki sem er aðili að yfirlýsingu samkvæmt næstu málsgrein á undan verður síðar samningsríki mun slík yfirlýsing sem það átti aðild að hafa sömu réttaráhrif varðandi það ríki og yfirlýsing skv. 1. mgr., frá þeim degi er sáttmálinn gengur í gildi varðandi hið nýja samningsríki að því tilskildu að hið nýja samningsríki eigi aðild að slíkri yfirlýsingu eða gefi út gagnkvæma einhliða yfirlýsingu.


95. gr.

    Sérhvert ríki getur lýst því yfir þegar það leggur fram fullgildingar-, staðfestingar-, samþykktar- eða aðildarskjal að það sé ekki bundið af ákvæðum b- liðar 1. mgr. 1. gr. sáttmála þessa.

96. gr.

    Ef lög samningsríkis kveða á um að samningar um sölu skuli gerðir í rituðu máli eða sannanlegir á ritaðan hátt, getur það ríki hvenær sem er lýst því yfir samkvæmt ákvæðum 12. gr., að ákvæði 11. gr., 29. gr. eða II. hluta sáttmála þessa, sem heimila að samningur um sölu eða breyting hans eða uppsögn samkvæmt samkomulagi eða að tilboð, samþykki eða önnur viljayfirlýsing, sé gerð öðruvísi en skriflega, eigi ekki við þar sem einhver aðila hefur starfsstofu í því ríki.

97. gr.

    1. Yfirlýsingar sem gefnar eru samkvæmt sáttmála þessum við undirritun verður að staðfesta þegar samningurinn er fullgiltur, staðfestur eða samþykktur.
    2. Yfirlýsingar og staðfestingar yfirlýsinga skulu vera skriflegar og ber að tilkynna þær vörsluaðila með formlegum hætti.
    3. Yfirlýsing tekur gildi samtímis því að sáttmálinn öðlast gildi að því er varðar viðkomandi ríki. Hins vegar tekur yfirlýsing sem vörsluaðila er tilkynnt formlega um eftir slíka gildistöku gildi fyrsta dag næsta mánaðar þegar liðnir eru sex mánuðir frá því vörsluaðili tók við yfirlýsingunni. Gagnkvæmar einhliða yfirlýsingar skv. 94. gr. taka gildi fyrsta dag næsta mánaðar þegar liðnir eru sex mánuðir frá því að vörsluaðili tók við síðustu yfirlýsingunni.


    4. Sérhvert ríki sem gefur út yfirlýsingu samkvæmt þessum sáttmála getur afturkallað hana hvenær sem er með formlegri skriflegri tilkynningu sem send er vörsluaðila. Slík afturköllun tekur gildi á fyrsta degi næsta mánaðar þegar liðnir eru sex mánuðir frá þeim degi er vörsluaðili tók við tilkynningunni.
    5. Afturköllun yfirlýsingar skv. 94. gr. veldur því að frá þeim degi er afturköllun tekur gildi verða gagnkvæmar yfirlýsingar annarra ríkja sem gerðar hafa verið samkvæmt sömu grein óvirkar.

98. gr.

    Enga fyrirvara má gera nema bein heimild sé til þess í sáttmála þessum.

99. gr.

    1. Sáttmáli þessi öðlast gildi, með hliðsjón af ákvæðum 6. mgr. þessarar greinar, fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru tólf mánuðir frá þeim degi er tíunda fullgildingar-, staðfestingar-, samþykktar- eða aðildarskjal, þar á meðal skjal sem hefur að geyma yfirlýsingu skv. 92. gr., hefur verið afhent til vörslu.
    2. Þegar ríki fullgildir, staðfestir, samþykkir eða gerist aðili að samningi þessum eftir að tíunda fullgildingar-, staðfestingar-, samþykktar- eða aðildarskjal hefur verið lagt fram, öðlast sáttmálinn gildi, með hliðsjón af ákvæðum 6. mgr. þessarar greinar, að því er varðar það ríki að undanteknum þeim þætti hans sem ríkið er ekki bundið af, fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru tólf mánuðir frá þeim degi er fullgildingar-, staðfestingar-, samþykktar- eða aðildarskjal þess ríkis var lagt fram til vörslu.
    3. Ríki sem fullgildir, staðfestir, samþykkir eða gerist aðili að sáttmála þessum og er aðili að „samningi um samræmingu lagaákvæða varðandi samningsgerð um sölu vöru milli þjóða“ sem gerður var í Haag 1. júlí 1964 (1964 Haag-samningur um samningsgerð) og „samningi varðandi samræmingu lagaákvæða um sölu vöru milli þjóða“ sem gerður var í Haag 1. júlí 1964 (1964 Haag-samningur um sölu), öðrum eða báðum, skal segja upp eftir því sem við á öðrum eða báðum samningunum, þ.e. Haag-samningnum um sölu frá 1964 og Haag-samningnum um samningsgerð frá 1964 með tilkynningu til ríkisstjórnar Hollands þar að lútandi.
    4. Ríki sem er aðili að Haag-samningnum um sölu frá 1964 og fullgildir, staðfestir, samþykkir eða gerist aðili að sáttmála þessum og lýsir því yfir eða hefur lýst því yfir skv. 52. gr., að það vilji vera óbundið af II. hluta sáttmála þessa, skal, þegar það fullgildir, staðfestir, samþykkir eða gerist aðili að sáttmála þessum, segja upp Haag-samningnum um sölu frá 1964 með tilkynningu til ríkisstjórnar Hollands þar að lútandi.
    5. Ríki sem er aðili að Haag-samningnum um samningsgerð frá 1964 og fullgildir, staðfestir, samþykkir eða gerist aðili að sáttmála þessum og lýsir því yfir eða hefur lýst því yfir skv. 92. gr., að það vilji vera óbundið af III. hluta samnings þessa, skal, þegar það fullgildir, staðfestir, samþykkir eða gerist aðili að þessum samningi, segja upp Haag-samningnum um samningsgerð frá 1964 með tilkynningu til ríkisstjórnar Hollands þar að lútandi.
    6. Með hliðsjón af þessari grein öðlast fullgilding, staðfesting, samþykki eða aðild að samningi þessum af hálfu ríkja, sem aðild eiga að Haag-samningnum um samningsgerð frá 1964 eða að Haag-samningnum um sölu frá 1964, ekki gildi fyrr en uppsagnir þær sem krafist er af hálfu ríkja vegna tveggja síðargreindu samninganna hafa tekið gildi. Vörsluaðili sáttmála þessa skal hafa samvinnu við ríkisstjórn Hollands, sem vörsluaðila samninganna frá 1964, til að tryggja nauðsynlega samvinnu í þessu tilliti.



100. gr.

    1. Sáttmáli þessi gildir aðeins um samningsgerð þegar tillaga að samningi er gerð þegar eða eftir að sáttmálinn öðlast gildi að því er varðar samningsríki sem vísað er til í a-lið 1. mgr. 1. gr. eða vegna samningsríkis sem nefnt er í b-lið 1. mgr. 1. gr.


    2. Sáttmáli þessi gildir einvörðungu um samninga, sem gerðir eru á þeim degi eða eftir þann dag er sáttmálinn tekur gildi vegna samningsríkja, sem vísað er til í a-lið 1. mgr., eða vegna samningsríkis sem nefnt er í b-lið 1. mgr. 1. gr.

101. gr.

    1. Samningsríki getur sagt upp sáttmála þessum, II. eða III. hluta sáttmálans, með formlegri skriflegri tilkynningu sem send er vörsluaðila.

    2. Uppsögnin öðlast gildi hinn fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru tólf mánuðir frá því að vörsluaðili tekur við tilkynningu þess efnis. Þegar lengri uppsagnarfrestur er tiltekinn í tilkynningunni tekur uppsögnin gildi þegar hinn lengri frestur er liðinn frá því vörsluaðili hefur tekið við tilkynningunni.



Gjört í Vínarborg, 11. apríl 1980, í einu frumriti, þar sem hinn arabíski, enski, franski, kínverski, rússneski og spænski texti eru jafngildir.



Þessu til staðfestingar hafa undirritaðir fulltrúar með fullt umboð, sem til þess hafa fulla heimild frá viðkomandi ríkisstjórnum, undirritað sáttmála þennan.

United Nations Convention On Contracts For The International Sale Of Goods (1980)


The States Parties to this Convention,

Bearing in mind the broad objectives in the resolutions adopted by the sixth special session of the General Assembly of the United Nations on the establishment of a New International Economic Order,

Considering that the development of international trade on the basis of equality and mutual benefit is an important element in promoting friendly relations among States,

Being of the opinion that the adoption of uniform rules which govern contracts for the international sale of goods and take into account the different social, economic and legal systems would contribute to the removal of legal barriers in international trade and promote the development of international trade,


Have decreed as follows:

PART I
Sphere of Application and General Provisions
Chapter I
Sphere of Application
Article 1

    (1) This Convention applies to contracts of sale of goods between parties whose places of business are in different States:
     (a)      when the States are Contracting States; or
     (b)      when the rules of private international law lead to the application of the law of a Contracting State.
    (2) The fact that the parties have their places of business in different States is to be disregarded whenever this fact does not appear either from the contract or from any dealings between, or from information disclosed by, the parties at any time before or at the conclusion of the contract.
    (3) Neither the nationality of the parties nor the civil or commercial character of the parties or of the contract is to be taken into consideration in determining the application of this Convention.

Article 2


    This Convention does not apply to sales:
     (a)      of goods bought for personal, family or household use, unless the seller, at any time before or at the conclusion of the contract, neither knew nor ought to have known that the goods were bought for any such use;
     (b)      by auction;
     (c)      on execution or otherwise by authority of law;

     (d)      of stocks, shares, investment securities, negotiable instruments or money;
     (e)      of ships, vessels, hovercraft or aircraft;

     (f)      of electricity.

Article 3


    (1) Contracts for the supply of goods to be manufactured or produced are to be considered sales unless the party who orders the goods undertakes to supply a substantial part of the materials necessary for such manufacture or production.
    (2) This Convention does not apply to contracts in which the preponderant part of the obligations of the party who furnishes the goods consists in the supply of labour or other services.

Article 4


    This Convention governs only the formation of the contract of sale and the rights and obligations of the seller and the buyer arising from such a contract. In particular, except as otherwise expressly provided in this Convention, it is not concerned with:
     (a)      the validity of the contract or of any of its provisions or of any usage;
     (b)      the effect which the contract may have on the property in the goods sold.

Article 5


    This Convention does not apply to the liability of the seller for death or personal injury caused by the goods to any person.

Article 6


    The parties may exclude the application of this Convention or, subject to article 12, derogate from or vary the effect of any of its provisions.

Chapter II


General Provisions


Article 7


    (1) In the interpretation of this Convention, regard is to be had to its international character and to the need to promote uniformity in its application and the observance of good faith in international trade.

    (2) Questions concerning matters governed by this Convention which are not expressly settled in it are to be settled in conformity with the general principles on which it is based or, in the absence of such principles, in conformity with the law applicable by virtue of the rules of private international law.

Article 8


    (1) For the purposes of this Convention statements made by and other conduct of a party are to be interpreted according to his intent where the other party knew or could not have been unaware what that intent was.
    (2) If the preceding paragraph is not applicable, statements made by and other conduct of a party are to be interpreted according to the understanding that a reasonable person of the same kind as the other party would have had in the same circumstances.
    (3) In determining the intent of a party or the understanding a reasonable person would have had, due consideration is to be given to all relevant circumstances of the case including the negotiations, any practices which the parties have established between themselves, usages and any subsequent conduct of the parties.

Article 9


    (1) The parties are bound by any usage to which they have agreed and by any practices which they have established between themselves.
    (2) The parties are considered, unless otherwise agreed, to have impliedly made applicable to their contract or its formation a usage of which the parties knew or ought to have known and which in international trade is widely known to, and regularly observed by, parties to contracts of the type involved in the particular trade concerned.

Article 10


    For the purposes of this Convention:
     (a)      if a party has more than one place of business, the place of business is that which has the closest relationship to the contract and its performance, having regard to the circumstances known to or contemplated by the parties at any time before or at the conclusion of the contract;
     (b)      if a party does not have a place of business, reference is to be made to his habitual residence.

Article 11


    A contract of sale need not be concluded in or evidenced by writing and is not subject to any other requirement as to form. It may be proved by any means, including witnesses.

Article 12


    Any provision of article 11, article 29 or Part II of this Convention that allows a contract of sale or its modification or termination by agreement or any offer, acceptance or other indication of intention to be made in any form other than in writing does not apply where any party has his place of business in a Contracting State which has made a declaration under article 96 of this Convention. The parties may not derogate from or vary the effect or this article.


Article 13


    For the purposes of this Convention “writing” includes telegram and telex.

PART II


Formation of the Contract


Article 14


    (1) A proposal for concluding a contract addressed to one or more specific persons constitutes an offer if it is sufficiently definite and indicates the intention of the offeror to be bound in case of acceptance. A proposal is sufficiently definite if it indicates the goods and expressly or implicitly fixes or makes provision for determining the quantity and the price.
    (2) A proposal other than one addressed to one or more specific persons is to be considered merely as an invitation to make offers, unless the contrary is clearly indicated by the person making the proposal.

Article 15


    (1) An offer becomes effective when it reaches the offeree.
    (2) An offer, even if it is irrevocable, may be withdrawn if the withdrawal reaches the offeree before or at the same time as the offer.

Article 16


    (1) Until a contract is concluded an offer may be revoked if the revocation reaches the offeree before he has dispatched an acceptance.
    (2) However, an offer cannot be revoked:
     (a)      if it indicates, whether by stating a fixed time for acceptance or otherwise, that it is irrevocable; or
     (b)      if it was reasonable for the offeree to rely on the offer as being irrevocable and the offeree has acted in reliance on the offer.


Article 17


    An offer, even if it is irrevocable, is terminated when a rejection reaches the offeror.

Article 18


    (1) A statement made by or other conduct of the offeree indicating assent to an offer is an acceptance. Silence or inactivity does not in itself amount to acceptance.
    (2) An acceptance of an offer becomes effective at the moment the indication of assent reaches the offeror. An acceptance is not effective if the indication of assent does not reach the offeror within the time he has fixed or, if no time is fixed, within a reasonable time, due account being taken of the circumstances of the transaction, including the rapidity of the means of communication employed by the offeror. An oral offer must be accepted immediately unless the circumstances indicate otherwise.
    (3) However, if, by virtue of the offer or as a result of practices which the parties have established between themselves or of usage, the offeree may indicate assent by performing an act, such as one relating to the dispatch of the goods or payment of the price, without notice to the offeror, the acceptance is effective at the moment the act is performed, provided that the act is performed within the period of time laid down in the preceding paragraph.


Article 19


    (1) A reply to an offer which purports to be an acceptance but contains additions, limitations or other modifications is a rejection of the offer and constitutes a counter-offer.
    (2) However, a reply to an offer which purports to be an acceptance but contains additional or different terms which do not materially alter the terms of the offer constitutes an acceptance, unless the offeror, without undue delay, objects orally to the discrepancy or dispatches a notice to that effect. If he does not so object, the terms of the contract are the terms of the offer with the modifications contained in the acceptance.
    (3) Additional or different terms relating, among other things, to the price, payment, quality and quantity of the goods, place and time of delivery, extent of one party's liability to the other or the settlement of disputes are considered to alter the terms of the offer materially.

Article 20


    (1) A period of time for acceptance fixed by the offeror in a telegram or a letter begins to run from the moment the telegram is handed in for dispatch or from the date shown on the letter or, if no such date is shown, from the date shown on the envelope. A period of time for acceptance fixed by the offeror by telephone, telex or other means of instantaneous communication, begins to run from the moment that the offer reaches the offeree.
    (2) Official holidays or non-business days occurring during the period for acceptance are included in calculating the period. However, if a notice of acceptance cannot be delivered at the address of the offeror on the last day of the period because that day falls on an official holiday or a non-business day at the place of business of the offeror, the period is extended until the first business day which follows.

Article 21


    (1) A late acceptance is nevertheless effective as an acceptance if without delay the offeror orally so informs the offeree or dispatches a notice to that effect.
    (2) If a letter or other writing containing a late acceptance shows that it has been sent in such circumstances that if its transmission had been normal it would have reached the offeror in due time, the late acceptance is effective as an acceptance unless, without delay, the offeror orally informs the offeree that he considers his offer as having lapsed or dispatches a notice to that effect.


Article 22


    An acceptance may be withdrawn if the withdrawal reaches the offeror before or at the same time as the acceptance would have become effective.

Article 23


    A contract is concluded at the moment when an acceptance of an offer becomes effective in accordance with the provisions of this Convention.

Article 24


    For the purposes of this Part of the Convention, an offer, declaration of acceptance or any other indication of intention “reaches” the addressee when it is made orally to him or delivered by any other means to him personally, to his place of business or mailing address or, if he does not have a place of business or mailing address, to his habitual residence.


PART III


Sale of Goods


Chapter I


General Provisions


Article 25


    A breach of contract committed by one of the parties is fundamental if it results in such detriment to the other party as substantially to deprive him of what he is entitled to expect under the contract, unless the party in breach did not foresee and a reasonable person of the same kind in the same circumstances would not have foreseen such a result.

Article 26


    A declaration of avoidance of the contract is effective only if made by notice to the other party.

Article 27


    Unless otherwise expressly provided in this Part of the Convention, if any notice, request or other communication is given or made by a party in accordance with this Part and by means appropriate in the circumstances, a delay or error in the transmission of the communication or its failure to arrive does not deprive that party of the right to rely on the communication.

Article 28


    If, in accordance with the provisions of this Convention, one party is entitled to require performance of any obligation by the other party, a court is not bound to enter a judgement for specific performance unless the court would do so under its own law in respect of similar contracts of sale not governed by this Convention.

Article 29


    (1) A contract may be modified or terminated by the mere agreement of the parties.
    (2) A contract in writing which contains a provision requiring any modification or termination by agreement to be in writing may not be otherwise modified or terminated by agreement. However, a party may be precluded by his conduct from asserting such a provision to the extent that the other party has relied on that conduct.

Chapter II


Obligations of the Seller


Article 30


    The seller must deliver the goods, hand over any documents relating to them and transfer the property in the goods, as required by the contract and this Convention.

Section I
Delivery of the goods and handing over of documents
Article 31

    If the seller is not bound to deliver the goods at any other particular place, his obligation to deliver consists:
     (a)      if the contract of sale involves carriage of the goods – in handing the goods over to the first carrier for transmission to the buyer;
     (b)      if, in cases not within the preceding subparagraph, the contract related to specific goods, or unidentified goods to be drawn from a specific stock or to be manufactured or produced, and at the time of the conclusion of the contract the parties knew that the goods were at, or were to be manufactured or produced at, a particular place in placing the goods at the buyer's disposal at that place;
     (c)      in other cases – in placing the goods at the buyer's disposal at the place where the seller had his place of business at the time of the conclusion of the contract.

Article 32


    (1) If the seller, in accordance with the contract or this Convention, hands the goods over to a carrier and if the goods are not clearly identified to the contract by markings on the goods, by shipping documents or otherwise, the seller must give the buyer notice of the consignment specifying the goods.

    (2) If the seller is bound to arrange for carriage of the goods, he must make such contracts as are necessary for carriage to the place fixed by means of transportation appropriate in the circumstances and according to the usual terms for such transportation.
    (3) If the seller is not bound to effect insurance in respect of the carriage of the goods, he must, at the buyer's request, provide him with all available information necessary to enable him to effect such insurance.

Article 33


    The seller must deliver the goods:
     (a)      if a date is fixed by or determinable from the contract, on that date;

     (b)      if a period of time is fixed by or determinable from the contract, at any time within that period unless circumstances indicate that the buyer is to choose a date; or

     (c)      in any other case, within a reasonable time after the conclusion of the contract.


Article 34


    If the seller is bound to hand over documents relating to the goods, he must hand them over at the time and place and in the form required by the contract. If the seller has handed over documents before that time, he may, up to that time, cure any lack of conformity in the documents, if the exercise of this right does not cause the buyer unreasonable inconvenience or unreasonable expense. However, the buyer retains any right to claim damages as provided for in this Convention.

Section II


Conformity of the goods and third party claims


Article 35


    (1) The seller must deliver goods which are of the quantity, quality and description required by the contract and which are contained or packaged in the manner required by the contract.
    (2) Except where the parties have agreed otherwise, the goods do not conform with the contract unless they:
     (a)      are fit for the purposes for which goods of the same description would ordinarily be used;
     (b)      are fit for any particular purpose expressly or impliedly made known to the seller at the time of the conclusion of the contract, except where the circumstances show that the buyer did not rely, or that it was unreasonable for him to rely, on the seller's skill and judgement;
     (c)      possess the qualities of goods which the seller has held out to the buyer as a sample or model;

     (d)      are contained or packaged in the manner usual for such goods or, where there is no such manner, in a manner adequate to preserve and protect the goods.
    (3) The seller is not liable under subparagraphs (a) to (d) of the preceding paragraph for any lack of conformity of the goods if at the time of the conclusion of the contract the buyer knew or could not have been unaware of such lack of conformity.

Article 36


    (1) The seller is liable in accordance with the contract and this Convention for any lack of conformity which exists at the time when the risk passes to the buyer, even though the lack of conformity becomes apparent only after that time.
    (2) The seller is also liable for any lack of conformity which occurs after the time indicated in the preceding paragraph and which is due to a breach of any of his obligations, including a breach of any guarantee that for a period of time the goods will remain fit for their ordinary purpose or for some particular purpose or will retain specified qualities or characteristics.

Article 37


    If the seller has delivered goods before the date for delivery, he may, up to that date, deliver any missing part or make up any deficiency in the quantity of the goods delivered, or deliver goods in replacement of any non-conforming goods delivered or remedy any lack of conformity in the goods delivered, provided that the exercise of this right does not cause the buyer unreasonable inconvenience or unreasonable expense. However, the buyer retains any right to claim damages as provided for in this Convention.

Article 38


    (1) The buyer must examine the goods, or cause them to be examined, within as short a period as is practicable in the circumstances.
    (2) If the contract involves carriage of the goods, examination may be deferred until after the goods have arrived at their destination.
    (3) If the goods are redirected in transit or redispatched by the buyer without a reasonable opportunity for examination by him and at the time of the conclusion of the contract the seller knew or ought to have known of the possibility of such redirection or redispatch, examination may be deferred until after the goods have arrived at the new destination.

Article 39


    (1) The buyer loses the right to rely on a lack of conformity of the goods if he does not give notice to the seller specifying the nature of the lack of conformity within a reasonable time after he has discovered it or ought to have discovered it.

    (2) In any event, the buyer loses the right to rely on a lack of conformity of the goods if he does not give the seller notice thereof at the latest within a period of two years from the date on which the goods were actually handed over to the buyer, unless this time-limit is inconsistent with a contractual period of guarantee.

Article 40


    The seller is not entitled to rely on the provisions of articles 38 and 39 if the lack of conformity relates to facts of which he knew or could not have been unaware and which he did not disclose to the buyer.

Article 41


    The seller must deliver goods which are free from any right or claim of a third party, unless the buyer agreed to take the goods subject to that right or claim. However, if such right or claim is based on industrial property or other intellectual property, the seller's obligation is governed by article 42.

Article 42


    (1) The seller must deliver goods which are free from any right or claim of a third party based on industrial property or other intellectual property, of which at the time of the conclusion of the contract the seller knew or could not have been unaware, provided that the right or claim is based on industrial property or other intellectual property:
     (a)      under the law of the State where the goods will be resold or otherwise used, if it was contemplated by the parties at the time of the conclusion of the contract that the goods would be resold or otherwise used in that State; or
     (b)      in any other case, under the law of the State where the buyer has his place of business.
    (2) The obligation of the seller under the preceding paragraph does not extend to cases where:
     (a)      at the time of the conclusion of the contract the buyer knew or could not have been unaware of the right or claim; or
     (b)      the right or claim results from the seller's compliance with technical drawings, designs, formulae or other such specifications furnished by the buyer.

Article 43


    (1) The buyer loses the right to rely on the provisions of article 41 or article 42 if he does not give notice to the seller specifying the nature of the right or claim of the third party within a reasonable time after he has become aware or ought to have become aware of the right or claim.
    (2) The seller is not entitled to rely on the provisions of the preceding paragraph if he knew of the right or claim of the third party and the nature of it.

Article 44


    Notwithstanding the provisions of paragraph (1) of article 39 and paragraph (1) of article 43, the buyer may reduce the price in accordance with article 50 or claim damages, except for loss of profit, if he has a reasonable excuse for his failure to give the required notice.

Section III


Remedies for breach of contract by the seller


Article 45


    (1) If the seller fails to perform any of his obligations under the contract or this Convention, the buyer may:
     (a)      exercise the rights provided in articles 46 to 52;
     (b)      claim damages as provided in articles 74 to 77.

    (2) The buyer is not deprived of any right he may have to claim damages by exercising his right to other remedies.
    (3) No period of grace may be granted to the seller by a court or arbitral tribunal when the buyer resorts to a remedy for breach of contract.

Article 46


    (1) The buyer may require performance by the seller of his obligations unless the buyer has resorted to a remedy which is inconsistent with this requirement.
    (2) If the goods do not conform with the contract, the buyer may require delivery of substitute goods only if the lack of conformity constitutes a fundamental breach of contract and a request for substitute goods is made either in conjunction with notice given under article 39 or within a reasonable time thereafter.
    (3) If the goods do not conform with the contract, the buyer may require the seller to remedy the lack of conformity by repair, unless this is unreasonable having regard to all the circumstances. A request for repair must be made either in conjunction with notice given under article 39 or within a reasonable time thereafter.

Article 47


    (1) The buyer may fix an additional period of time of reasonable length for performance by the seller of his obligations.
    (2) Unless the buyer has received notice from the seller that he will not perform within the period so fixed, the buyer may not, during that period, resort to any remedy for breach of contract. However, the buyer is not deprived thereby of any right he may have to claim damages for delay in performance.


Article 48


    (1) Subject to article 49, the seller may, even after the date for delivery, remedy at his own expense any failure to perform his obligations, if he can do so without unreasonable delay and without causing the buyer unreasonable inconvenience or uncertainty of reimbursement by the seller of expenses advanced by the buyer. However, the buyer retains any right to claim damages as provided for in this Convention.

    (2) If the seller requests the buyer to make known whether he will accept performance and the buyer does not comply with the request within a reasonable time, the seller may perform within the time indicated in his request. The buyer may not, during that period of time, resort to any remedy which is inconsistent with performance by the seller.

    (3) A notice by the seller that he will perform within a specified period of time is assumed to include a request, under the preceding paragraph, that the buyer make known his decision.
    (4) A request or notice by the seller under paragraph (2) or (3) of this article is not effective unless received by the buyer.

Article 49


    (1) The buyer may declare the contract avoided:
     (a)      if the failure by the seller to perform any of his obligations under the contract or this Convention amounts to a fundamental breach of contract; or
     (b)      in case of non-delivery, if the seller does not deliver the goods within the additional period of time fixed by the buyer in accordance with paragraph (1) of article 47 or declares that he will not deliver within the period so fixed.

    (2) However, in cases where the seller has delivered the goods, the buyer loses the right to declare the contract avoided unless he does so:
     (a)      in respect of late delivery, within a reasonable time after he has become aware that delivery has been made;
     (b)      in respect of any breach other than late delivery, within a reasonable time:
       (i)      after he knew or ought to have known of the breach;
       (ii)      after the expiration of any additional period of time fixed by the buyer in accordance with paragraph (1) of article 47, or after the seller has declared that he will not perform his obligations within such an additional period; or
       (iii)      after the expiration of any additional period of time indicated by the seller in accordance with paragraph (2) of article 48, or after the buyer has declared that he will not accept performance.

Article 50


    If the goods do not conform with the contract and whether or not the price has already been paid, the buyer may reduce the price in the same proportion as the value that the goods actually delivered had at the time of the delivery bears to the value that conforming goods would have had at that time. However, if the seller remedies any failure to perform his obligations in accordance with article 37 or article 48 or if the buyer refuses to accept performance by the seller in accordance with those articles, the buyer may not reduce the price.

Article 51


    (1) If the seller delivers only a part of the goods or if only a part of the goods delivered is in conformity with the contract, articles 46 to 50 apply in respect of the part which is missing or which does not conform.
    (2) The buyer may declare the contract avoided in its entirety only if the failure to make delivery completely or in conformity with the contract amounts to a fundamental breach of the contract.


Article 52


    (1) If the seller delivers the goods before the date fixed, the buyer may take delivery or refuse to take delivery.
    (2) If the seller delivers a quantity of goods greater than that provided for in the contract, the buyer may take delivery or refuse to take delivery of the excess quantity. If the buyer takes delivery of all or part of the excess quantity, he must pay for it at the contract rate.


Chapter III


Obligations of the Buyer


Article 53


    The buyer must pay the price for the goods and take delivery of them as required by the contract and this Convention.

Section I


Payment of the price


Article 54


    The buyer's obligation to pay the price includes taking such steps and complying with such formalities as may be required under the contract or any laws and regulations to enable payment to be made.


Article 55


    Where a contract has been validly concluded but does not expressly or implicitly fix or make provision for determining the price, the parties are considered, in the absence of any indication to the contrary, to have impliedly made reference to the price generally charged at the time of the conclusion of the contract for such goods sold under comparable circumstances in the trade concerned.

Article 56


    If the price is fixed according to the weight of the goods, in case of doubt it is to be determined by the net weight.

Article 57


    (1) If the buyer is not bound to pay the price at any other particular place, he must pay it to the seller:
     (a)      at the seller's place of business; or
     (b)      if the payment is to be made against the handing over of the goods or of documents, at the place where the handing over takes place.
    (2) The seller must bear any increases in the expenses incidental to payment which is caused by a change in his place of business subsequent to the conclusion of the contract.

Article 58


    (1) If the buyer is not bound to pay the price at any other specific time, he must pay it when the seller places either the goods or documents controlling their disposition at the buyer's disposal in accordance with the contract and this Convention. The seller may make such payment a condition for handing over the goods or documents.
    (2) If the contract involves carriage of the goods, the seller may dispatch the goods on terms whereby the goods, or documents controlling their disposition, will not be handed over to the buyer except against payment of the price.
    (3) The buyer is not bound to pay the price until he has had an opportunity to examine the goods, unless the procedures for delivery or payment agreed upon by the parties are inconsistent with his having such an opportunity.


Article 59


    The buyer must pay the price on the date fixed by or determinable from the contract and this Convention without the need for any request or compliance with any formality on the part of the seller.


Section II


Taking delivery


Article 60


    The buyer's obligation to take delivery consists:
     (a)      in doing all the acts which could reasonably be expected of him in order to enable the seller to make delivery; and
     (b)      in taking over the goods.

Section III


Remedies for breach of contract by the buyer


Article 61


    (1) If the buyer fails to perform any of his obligations under the contract or this Convention, the seller may:
     (a)      exercise the rights provided in articles 62 to 65;

     (b)      claim damages as provided in articles 74 to 77.

    (2) The seller is not deprived of any right he may have to claim damages by exercising his right to other remedies.
    (3) No period of grace may be granted to the buyer by a court or arbitral tribunal when the seller resorts to a remedy for breach of contract.

Article 62


    The seller may require the buyer to pay the price, take delivery or perform his other obligations, unless the seller has resorted to a remedy which is inconsistent with this requirement.

Article 63


    (1) The seller may fix an additional period of time of reasonable length for performance by the buyer of his obligations.
    (2) Unless the seller has received notice from the buyer that he will not perform within the period so fixed, the seller may not, during that period, resort to any remedy for breach of contract. However, the seller is not deprived thereby of any right he may have to claim damages for delay in performance.


Article 64


    (1) The seller may declare the contract avoided:
     (a)      if the failure by the buyer to perform any of his obligations under the contract or this Convention amounts to a fundamental breach of contract; or
     (b)      if the buyer does not, within the additional period of time fixed by the seller in accordance with paragraph (1) of article 63, perform his obligation to pay the price or take delivery of the goods, or if he declares that he will not do so within the period so fixed.
    (2) However, in cases where the buyer has paid the price, the seller loses the right to declare the contract avoided unless he does so:
     (a)      in respect of late performance by the buyer, before the seller has become aware that performance has been rendered; or
     (b)      in respect of any breach other than late performance by the buyer, within a reasonable time:
       (i)      after the seller knew or ought to have known of the breach; or
       (ii)      after the expiration of any additional period of time fixed by the seller in accordance with paragraph (1) or article 63, or after the buyer has declared that he will not perform his obligations within such an additional period.

Article 65


    (1) If under the contract the buyer is to specify the form, measurement or other features of the goods and he fails to make such specification either on the date agreed upon or within a reasonable time after receipt of a request from the seller, the seller may, without prejudice to any other rights he may have, make the specification himself in accordance with the requirements of the buyer that may be known to him.

    (2) If the seller makes the specification himself, he must inform the buyer of the details thereof and must fix a reasonable time within which the buyer may make a different specification. If, after receipt of such a communication, the buyer fails to do so within the time so fixed, the specification made by the seller is binding.



Chapter IV


Passing of Risk


Article 66


    Loss of or damage to the goods after the risk has passed to the buyer does not discharge him from his obligation to pay the price, unless the loss or damage is due to an act or omission of the seller.


Article 67


    (1) If the contract of sale involves carriage of the goods and the seller is not bound to hand them over at a particular place, the risk passes to the buyer when the goods are handed over to the first carrier for transmission to the buyer in accordance with the contract of sale. If the seller is bound to hand the goods over to a carrier at a particular place, the risk does not pass to the buyer until the goods are handed over to the carrier at that place. The fact that the seller is authorized to retain documents controlling the disposition of the goods does not affect the passage of the risk.
    (2) Nevertheless, the risk does not pass to the buyer until the goods are clearly identified to the contract, whether by markings on the goods, by shipping documents, by notice given to the buyer or otherwise.

Article 68


    The risk in respect of goods sold in transit passes to the buyer from the time of the conclusion of the contract. However, if the circumstances so indicate, the risk is assumed by the buyer from the time the goods were handed over to the carrier who issued the documents embodying the contract of carriage. Nevertheless, if at the time of the conclusion of the contract of sale the seller knew or ought to have known that the goods had been lost or damaged and did not disclose this to the buyer, the loss or damage is at the risk of the seller.

Article 69


    (1) In cases not within articles 67 and 68, the risk passes to the buyer when he takes over the goods or, if he does not do so in due time, from the time when the goods are placed at his disposal and he commits a breach of contract by failing to take delivery.

    (2) However, if the buyer is bound to take over the goods at a place other than a place of business of the seller, the risk passes when delivery is due and the buyer is aware of the fact that the goods are placed at his disposal at that place.
    (3) If the contract relates to goods not then identified, the goods are considered not to be placed at the disposal of the buyer until they are clearly identified to the contract.

Article 70


    If the seller has committed a fundamental breach of contract, articles 67, 68 and 69 do not impair the remedies available to the buyer on account of the breach.

Chapter V
Provisions Common to the Obligations of the Seller and of the Buyer
Section I
Anticipatory breach and
instalment contracts
Article 71

    (1) A party may suspend the performance of his obligations if, after the conclusion of the contract, it becomes apparent that the other party will not perform a substantial part of his obligations as a result of:
     (a)      a serious deficiency in his ability to perform or in his creditworthiness; or
     (b)      his conduct in preparing to perform or in performing the contract.
    (2) If the seller has already dispatched the goods before the grounds described in the preceding paragraph become evident, he may prevent the handing over of the goods to the buyer even though the buyer holds a document which entitles him to obtain them. The present paragraph relates only to the rights in the goods as between the buyer and the seller.
    (3) A party suspending performance, whether before or after dispatch of the goods, must immediately give notice of the suspension to the other party and must continue with performance if the other party provides adequate assurance of his performance.

Article 72


    (1) If prior to the date for performance of the contract it is clear that one of the parties will commit a fundamental breach of contract, the other party may declare the contract avoided.
    (2) If time allows, the party intending to declare the contract avoided must give reasonable notice to the other party in order to permit him to provide adequate assurance of his performance.
    (3) The requirements of the preceding paragraph do not apply if the other party has declared that he will not perform his obligations.

Article 73


    (1) In the case of a contract for delivery of goods by instalments, if the failure of one party to perform any of his obligations in respect of any instalment constitutes a fundamental breach of contract with respect to that instalment, the other party may declare the contract avoided with respect to that instalment.
    (2) If one party's failure to perform any of his obligations in respect of any instalment gives the other party good grounds to conclude that a fundamental breach of contract will occur with respect to future instalments, he may declare the contract avoided for the future, provided that he does so within a reasonable time.
    (3) A buyer who declares the contract avoided in respect of any delivery may, at the same time, declare it avoided in respect of deliveries already made or of future deliveries if, by reason of their interdependence, those deliveries could not be used for the purpose contemplated by the parties at the time of the conclusion of the contract.

Section II


Damages


Article 74


    Damages for breach of contract by one party consist of a sum equal to the loss, including loss of profit, suffered by the other party as a consequence of the breach. Such damages may not exceed the loss which the party in breach foresaw or ought to have foreseen at the time of the conclusion of the contract, in the light of the facts and matters of which he then knew or ought to have known, as a possible consequence of the breach of contract.


Article 75


    If the contract is avoided and if, in a reasonable manner and within a reasonable time after avoidance, the buyer has bought goods in replacement or the seller has resold the goods, the party claiming damages may recover the difference between the contract price and the price in the substitute transaction as well as any further damages recoverable under article 74.

Article 76


    (1) If the contract is avoided and there is a current price for the goods, the party claiming damages may, if he has not made a purchase or resale under article 75, recover the difference between the price fixed by the contract and the current price at the time of avoidance as well as any further damages recoverable under article 74. If, however, the party claiming damages has avoided the contract after taking over the goods, the current price at the time of such taking over shall be applied instead of the current price at the time of avoidance.
    (2) For the purposes of the preceding paragraph, the current price is the price prevailing at the place where delivery of the goods should have been made or, if there is no current price at that place, the price at such other place as serves as a reasonable substitute, making due allowance for differences in the cost of transporting the goods.

Article 77


    A party who relies on a breach of contract must take such measures as are reasonable in the circumstances to mitigate the loss, including loss of profit, resulting from the breach. If he fails to take such measures, the party in breach may claim a reduction in the damages in the amount by which the loss should have been mitigated.

Section III


Interest


Article 78


    If a party fails to pay the price or any other sum that is in arrears, the other party is entitled to interest on it, without prejudice to any claim for damages recoverable under article 74.

Section IV


Exemptions


Article 79


    (1) A party is not liable for a failure to perform any of his obligations if he proves that the failure was due to an impediment beyond his control and that he could not reasonably be expected to have taken the impediment into account at the time of the conclusion of the contract or to have avoided or overcome it or its consequences.
    (2) If the party's failure is due to the failure by a third person whom he has engaged to perform the whole or a part of the contract, that party is exempt from liability only if:
     (a)      he is exempt under the preceding paragraph; and

     (b)      the person whom he has so engaged would be so exempt if the provisions of that paragraph were applied to him.
    (3) The exemption provided by this article has effect for the period during which the impediment exists.
    (4) The party who fails to perform must give notice to the other party of the impediment and its effect on his ability to perform. If the notice is not received by the other party within a reasonable time after the party who fails to perform knew or ought to have known of the impediment, he is liable for damages resulting from such non-receipt.
    (5) Nothing in this article prevents either party from exercising any right other than to claim damages under this Convention.

Article 80


    A party may not rely on a failure of the other party to perform, to the extent that such failure was caused by the first party's act or omission.

Section V


Effects of avoidance


Article 81


    (1) Avoidance of the contract releases both parties from their obligations under it, subject to any damages which may be due. Avoidance does not affect any provision of the contract for the settlement of disputes or any other provision of the contract governing the rights and obligations of the parties consequent upon the avoidance of the contract.
    (2) A party who has performed the contract either wholly or in part may claim restitution from the other party of whatever the first party has supplied or paid under the contract. If both parties are bound to make restitution, they must do so concurrently.


Article 82


    (1) The buyer loses the right to declare the contract avoided or to require the seller to deliver substitute goods if it is impossible for him to make restitution of the goods substantially in the condition in which he received them.
    (2) The preceding paragraph does not apply:
     (a)      if the impossibility of making restitution of the goods or of making restitution of the goods substantially in the condition in which the buyer received them is not due to his act or omission;
     (b)      if the goods or part of the goods have perished or deteriorated as a result of the examination provided for in article 38; or
     (c)      if the goods or part of the goods have been sold in the normal course of business or have been consumed or transformed by the buyer in the course normal use before he discovered or ought to have discovered the lack of conformity.


Article 83


    A buyer who has lost the right to declare the contract avoided or to require the seller to deliver substitute goods in accordance with article 82 retains all other remedies under the contract and this Convention.

Article 84


    (1) If the seller is bound to refund the price, he must also pay interest on it, from the date on which the price was paid.
    (2) The buyer must account to the seller for all benefits which he has derived from the goods or part of them:
     (a)      if he must make restitution of the goods or part of them; or
     (b)      if it is impossible for him to make restitution of all or part of the goods or to make restitution of all or part of the goods substantially in the condition in which he received them, but he has nevertheless declared the contract avoided or required the seller to deliver substitute goods.

Section VI


Preservation of the goods


Article 85


    If the buyer is in delay in taking delivery of the goods or, where payment of the price and delivery of the goods are to be made concurrently, if he fails to pay the price, and the seller is either in possession of the goods or otherwise able to control their disposition, the seller must take such steps as are reasonable in the circumstances to preserve them. He is entitled to retain them until he has been reimbursed his reasonable expenses by the buyer.

Article 86


    (1) If the buyer has received the goods and intends to exercise any right under the contract or this Convention to reject them, he must take such steps to preserve them as are reasonable in the circumstances. He is entitled to retain them until he has been reimbursed his reasonable expenses by the seller.
    (2) If goods dispatched to the buyer have been placed at his disposal at their destination and he exercises the right to reject them, he must take possession of them on behalf of the seller, provided that this can be done without payment of the price and without unreasonable inconvenience or unreasonable expense. This provision does not apply if the seller or a person authorized to take charge of the goods on his behalf is present at the destination. If the buyer takes possession of the goods under this paragraph, his rights and obligations are governed by the preceding paragraph.

Article 87


    A party who is bound to take steps to preserve the goods may deposit them in a warehouse of a third person at the expense of the other party provided that the expense incurred is not unreasonable.


Article 88


    (1) A party who is bound to preserve the goods in accordance with article 85 or 86 may sell them by any appropriate means if there has been an unreasonable delay by the other party in taking possession of the goods or in taking them back or in paying the price or the cost of preservation, provided that reasonable notice of the intention to sell has been given to the other party.
    (2) If the goods are subject to rapid deterioration or their preservation would involve unreasonable expense, a party who is bound to preserve the goods in accordance with article 85 or 86 must take reasonable measures to sell them. To the extent possible he must give notice to the other party of his intention to sell.
    (3) A party selling the goods has the right to retain out of the proceeds of sale an amount equal to the reasonable expenses of preserving the goods and of selling them. He must account to the other party for the balance.

PART IV


Final Provisions


Article 89


    The Secretary-General of the United Nations is hereby designated as the depositary for this Convention.

Article 90


    This Convention does not prevail over any international agreement which has already been or may be entered into and which contains provisions concerning the matters governed by this Convention, provided that the parties have their places of business in States parties to such agreement.

Article 91


    (1) This Convention is open for signature at the concluding meeting of the United Nations Conference on Contracts for the International Sale of Goods and will remain open for signature by all States at the Headquarters of the United Nations, New York until 30 September 1981.
    (2) This Convention is subject to ratification, acceptance or approval by the signatory States.
    (3) This Convention is open for accession by all States which are not signatory States as from the date it is open for signature.
    (4) Instruments of ratification, acceptance, approval and accession are to be deposited with the Secretary-General of the United Nations.

Article 92


    (1) A Contracting State may declare at the time of signature, ratification, acceptance, approval or accession that it will not be bound by Part II of this Convention or that it will not be bound by Part III of this Convention.
    (2) A Contracting State which makes a declaration in accordance with the preceding paragraph in respect of Part II or Part III of this Convention is not to be considered a Contracting State within paragraph (1) of article 1 of this Convention in respect of matters governed by the Part to which the declaration applies.

Article 93


    (1) If a Contracting State has two or more territorial units in which, according to its constitution, different systems of law are applicable in relation to the matters dealt with in this Convention, it may, at the time of signature, ratification, acceptance, approval or accession, declare that this Convention is to extend to all its territorial units or only to one or more of them, and may amend its declaration by submitting another declaration at any time.

    (2) These declarations are to be notified to the depositary and are to state expressly the territorial units to which the Convention extends.
    (3) If, by virtue of a declaration under this article, this Convention extends to one or more but not all of the territorial units of a Contracting State, and if the place of business of a party is located in that State, this place of business, for the purposes of this Convention, is considered not to be in a Contracting State, unless it is in a territorial unit to which the Convention extends.
    (4) If a Contracting State makes no declaration under paragraph (1) of this article, the Convention is to extend to all territorial units of that State.

Article 94


    (1) Two or more Contracting States which have the same or closely related legal rules on matters governed by this Convention may at any time declare that the Convention is not to apply to contracts of sale or to their formation where the parties have their places of business in those States. Such declarations may be made jointly or by reciprocal unilateral declarations.
    (2) A Contracting State which has the same or closely related legal rules on matters governed by this Convention as one or more non-Contracting States may at any time declare that the Convention is not to apply to contracts of sale or to their formation where the parties have their places of business in those States.
    (3) If a State which is the object of a declaration under the preceding paragraph subsequently becomes a Contracting State, the declaration made will, as from the date on which the Convention enters into force in respect of the new Contracting State, have the effect of a declaration made under paragraph (1), provided that the new Contracting State joins in such declaration or makes a reciprocal unilateral declaration.

Article 95


    Any State may declare at the time of the deposit of its instrument of ratification, acceptance, approval or accession that it will not be bound by subparagraph (1)(b) of article 1 of this Convention.

Article 96


    A Contracting State whose legislation requires contracts of sale to be concluded in or evidenced by writing may at any time make a declaration in accordance with article 12 that any provision of article 11, article 29, or Part II of this Convention, that allows a contract of sale or its modification or termination by agreement or any offer, acceptance, or other indication of intention to be made in any form other than in writing, does not apply where any party has his place of business in that State.

Article 97


    (1) Declarations made under this Convention at the time of signature are subject to confirmation upon ratification, acceptance or approval.

    (2) Declarations and confirmations of declarations are to be in writing and be formally notified to the depositary.
    (3) A declaration takes effect simultaneously with the entry into force of this Convention in respect of the State concerned. However, a declaration of which the depositary receives formal notification after such entry into force takes effect on the first day of the month following the expiration of six months after the date of its receipt by the depositary. Reciprocal unilateral declarations under article 94 take effect on the first day of the month following the expiration of six months after the receipt of the latest declaration by the depositary.
    (4) Any State which makes a declaration under this Convention may withdraw it at any time by a formal notification in writing addressed to the depositary. Such withdrawal is to take effect on the first day of the month following the expiration of six months after the date of the receipt of the notification by the depositary.
    (5) A withdrawal of a declaration made under article 94 renders inoperative, as from the date on which the withdrawal takes effect, any reciprocal declaration made by another State under that article.

Article 98


    No reservations are permitted except those expressly authorized in this Convention.

Article 99


    (1) This Convention enters into force, subject to the provisions of paragraph (6) of this article, on the first day of the month following the expiration of twelve months after the date of deposit of the tenth instrument of ratification, acceptance, approval or accession, including an instrument which contains a declaration made under article 92.
    (2) When a State ratifies, accepts, approves or accedes to this Convention after the deposit of the tenth instrument of ratification, acceptance, approval or accession, this Convention, with the exception of the Part excluded, enters into force in respect of that State, subject to the provisions of paragraph (6) of this article, on the first day of the month following the expiration of twelve months after the date of the deposit of its instrument of ratification, acceptance, approval or accession.
    (3) A State which ratifies, accepts, approves or accedes to this Convention and is a party to either or both the Convention relating to a Uniform Law on the Formation of Contracts for the International Sale of Goods done at The Hague on 1 July 1964 (1964 Hague Formation Convention) and the Convention relating to a Uniform Law on the International Sale of Goods done at The Hague on 1 July 1964 (1964 Hague Sales Convention) shall at the same time denounce, as the case may be, either or both the 1964 Hague Sales Convention and the 1964 Hague Formation Convention by notifying the Government of the Netherlands to that effect.
    (4) A State party to the 1964 Hague Sales Convention which ratifies, accepts, approves or accedes to the present Convention and declares or has declared under article 52 that it will not be bound by Part II of this Convention shall at the time of ratification, acceptance, approval or accession denounce the 1964 Hague Sales Convention by notifying the Government of the Netherlands to that effect.

    (5) A State party to the 1964 Hague Formation Convention which ratifies, accepts, approves or accedes to the present Convention and declares or has declared under article 92 that it will not be bound by Part III of this Convention shall at the time of ratification, acceptance, approval or accession denounce the 1964 Hague Formation Convention by notifying the Government of the Netherlands to that effect.

    (6) For the purpose of this article, ratifications, acceptances, approvals and accessions in respect of this Convention by States parties to the 1964 Hague Formation Convention or to the 1964 Hague Sales Convention shall not be effective until such denunciations as may be required on the part of those States in respect of the latter two Conventions have themselves become effective. The depositary of this Convention shall consult with the Government of the Netherlands, as the depositary of the 1964 Conventions, so as to ensure necessary co-ordination in this respect.

Article 100


    (1) This Convention applies to the formation of a contract only when the proposal for concluding the contract is made on or after the date when the Convention enters into force in respect of the Contracting States referred to in subparagraph (1)(a) or the Contracting State referred to in subparagraph (1)(b) of article 1.
    (2) This Convention applies only to contracts concluded on or after the date when the Convention enters into force in respect of the Contracting States referred to in subparagraph (1)(a) or the Contracting State referred to in subparagraph (1)(b) of article 1.

Article 101


    (1) A Contracting State may denounce this Convention, or Part II or Part III of the Convention, by a formal notification in writing addressed to the depositary.
    (2) The denunciation takes effect on the first day of the month following the expiration of twelve months after the notification is received by the depositary. Where a longer period for the denunciation to take effect is specified in the notification, the denunciation takes effect upon the expiration of such longer period after the notification is received by the depositary.

DONE at Vienna, this day of eleventh day of April, one thousand nine hundred and eighty, in a single original, of which the Arabic, Chinese, English, French, Russian and Spanish texts are equally authentic.

IN WITNESS WHEREOF the undersigned plenipotentiaries, being duly authorized by their respective Governments, have signed this Convention.