Ferill 230. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 256  —  230. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)1. gr.


    5. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Gjaldskyldir aðilar, álagningarstofn og álagt gjald.

    Eftirtaldir eftirlitsskyldir aðilar skulu greiða eftirlitsgjald af álagningarstofni í þeim hlutföllum og stærðum sem hér segir:
     1.      Viðskiptabankar, sparisjóðir og lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir skulu greiða 0,0101% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 400.000 kr.
     2.      Vátryggingafélög skulu greiða 0,24420% af bókfærðum frumtryggingaiðgjöldum og 0,04873% af bókfærðum fengnum endurtryggingaiðgjöldum, þó eigi lægri fjárhæð en 400.000 kr. Vegna söfnunarlíftrygginga greiðist þó eftirlitsgjald sem nemur 0,00615% af nettómismun iðgjaldaskuldar að frádregnum hluta endurtryggjenda í iðgjaldaskuldinni.
     3.      Félög eða einstaklingar sem stunda vátryggingamiðlun skulu greiða 0,04581% af því iðgjaldamagni sem miðlað er á næstliðnu ári, þó eigi lægri fjárhæð en 200.000 kr.
     4.      Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skulu greiða 0,0792% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 250.000 kr. Verðbréfasjóðir skulu greiða 0,01039% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 250.000 kr. Rekstrarfélög verðbréfasjóða skulu greiða 0,08031% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 150.000 kr.
     5.      Kauphallir og aðrir skipulegir tilboðsmarkaðir skulu greiða 0,76297% af rekstrartekjum, þó aldrei lægri fjárhæð en 250.000 kr.
     6.      Lífeyrissjóðir skulu samtals greiða 0,00596% af hreinni eign til greiðslu lífeyris. Greiða skal eftirlitsgjaldið sem 150.000 kr. fastagjald vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris undir einum milljarði króna, 300.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá einum til tíu milljarða króna og 600.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris þar yfir. Það sem þá er ógreitt af eftirlitsgjaldi skv. 1. málsl. greiðist í hlutfalli við fjölda virkra sjóðfélaga.
     7.      Verðbréfamiðstöðvar skulu greiða 0,76297% af rekstrartekjum, þó eigi lægri fjárhæð en 250.000 kr.
     8.      Innlánsdeildir samvinnufélaga skulu greiða fastagjald sem nemur 250.000 kr. Póstgíróstofa Íslandspósts hf. skal greiða fastagjald sem nemur 150.000 kr.
     9.      Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins skal greiða 0,0101% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 400.000 kr. Húsbréfadeild Íbúðalánasjóðs skal greiða 0,0004% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 400.000 kr.
     10.      Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta og öryggissjóðir samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta skulu greiða fastagjald sem nemur 150.000 kr.
    Útibú erlendra eftirlitsskyldra aðila sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi skulu greiða eftirlitsgjald samkvæmt viðeigandi tölulið 1. mgr.
    Þrátt fyrir 1. mgr. skal eftirlitsskyldur aðili, sem er að minnsta kosti að 9/10 hlutum í eigu annars eftirlitsskylds aðila, greiða 2/3 hluta eftirlitsgjalds, samkvæmt viðeigandi tölul. 1. mgr., enda hafi móðurfélagið heimild til sömu starfsemi og dótturfélagið. Ákvæði þetta á þó ekki við um lágmarksgjald skv. 1. mgr.
    Eftirlitsgjald skal reiknast í heilum þúsundum króna. Við álagningu skal jafnframt færa álagningarstofna í þúsundir króna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2002.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, segir:
    ,,Fyrir 15. september ár hvert skal Fjármálaeftirlitið gefa viðskiptaráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Í skýrslunni skal jafnframt lagt mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila skv. 5. gr.
    Skýrslu Fjármálaeftirlitsins skal fylgja álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi næsta árs ásamt afgreiðslu stjórnar stofnunarinnar á því áliti. Til að samráðsnefndin geti gefið álit sitt skal Fjármálaeftirlitið eigi síðar en 15. ágúst ár hvert senda henni upplýsingar um áætlað rekstrarumfang ásamt skýringum á helstu rekstrarliðum.
    Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds skal viðskiptaráðherra leggja frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi.“
    Meðfylgjandi er skýrsla Fjármálaeftirlitsins skv. 1. mgr. 2. gr. laganna ásamt áliti samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila. Niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds og er því, í samræmi við 3. mgr., lagt fram frumvarp um breytingu á álagningarhlutföllum 5. gr. laganna.
    Breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu eru eftirfarandi:
     1.      Álagningarhlutfall lánastofnana, vátryggingafélaga, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og húsbréfadeildar Íbúðalánasjóðs er lækkað lítillega en lágmarksgjald hækkað. Hlutfallslegt vægi flokka eftirlitsskyldra aðila er í meginatriðum óbreytt.
     2.      Lágmarksgjald vegna innlánsdeilda samvinnufélaga er hækkað úr 150 þús. kr. í 250 þús. kr. Kemur þetta til vegna nýlegra laga um samvinnufélög sem styrkja eftirlit Fjármálaeftirlitsins með innlánsdeildunum.
     3.      Engin álagning er á Kvótaþing enda var það lagt niður á þessu ári.
     4.      Bætt er við fastagjaldi á öryggissjóði samkvæmt lögum nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Einn öryggissjóður er starfandi í dag, Tryggingarsjóður sparisjóða.
     5.      Eftirlitsskyldir aðilar sem eru dótturfyrirtæki annarra eftirlitsskyldra aðila að minnsta kosti9/ 10 hlutum skulu greiða 2/ 3 hluta eftirlitsgjalds samkvæmt viðeigandi tölul. 1. mgr. hafi móðurfélagið heimild til sömu starfsemi og dótturfélagið. Með þessu er komið til móts við sjónarmið sem fram koma í áliti samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila að um ,,tvísköttun“ geti verið að ræða þegar eftirlitsgjald er innheimt af dótturfélögum, einkum þegar dótturfélagið er að mestu fjármagnað af móðurfélaginu.
    Að gefnum þessum breytingum er áætlað að álagt eftirlitsgjald hækki úr 198,8 m.kr. árið 2001 í 215,0 m.kr. árið 2002. Um rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins er fjallað í fylgiskjali I.Fylgiskjal I.


Skýrsla til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins
árið 2002, skv. 2. gr. l. nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert
eftirlit með fjármálastarfsemi.

    Í 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, er kveðið á um málsmeðferð að því er varðar áætlun á rekstrarumfangi Fjármálaeftirlitsins og álagningu eftirlitsgjalds næsta árs:
    Fyrir 15. september ár hvert skal Fjármálaeftirlitið gefa viðskiptaráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Í skýrslunni skal jafnframt lagt mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila.
    Skýrslu Fjármálaeftirlitsins skal fylgja álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi næsta árs ásamt afgreiðslu stjórnar stofnunarinnar á því áliti. Til að samráðsnefndin geti gefið álit sitt skal Fjármálaeftirlitið eigi síðar en 15. ágúst ár hvert senda henni upplýsingar um áætlað rekstrarumfang ásamt skýringum á helstu rekstrarliðum.
    Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds skal viðskiptaráðherra leggja frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi.
    Í samræmi við framangreint er viðskiptaráðherra hér með send skýrsla um áætlaðan rekstrarkostnað ársins 2002. Skýrslunni fylgir rekstraráætlun brotin niður á einstaka kostnaðarliði (tafla 1) og yfirlit yfir áætlaða álagningu eftirlitsgjalds fyrir árið 2002, miðað við álagningarþörf samkvæmt rekstraráætlun (tafla 2). Þá fylgir hjálagður ársreikningur Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2000.
    Í samræmi við 2. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999 hefur Fjármálaeftirlitið leitað álits samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi stofnunarinnar á árinu 2002. Átti Fjármálaeftirlitið fund með nefndinni þann 15. ágúst sl. þar sem kynnt voru drög að rekstraráætlun fyrir stofnunina ásamt skýringum og drög að skiptingu eftirlitsgjaldsins við álagningu á árinu 2002. Samráðsnefndin skilaði óformlegum ábendingum til Fjármálaeftirlitsins hinn 24. ágúst sl. og var fjallað um þær á fundi með nefndinni þann 7. september sl. Stjórn Fjármálaeftirlitsins fjallaði um ábendingar nefndarinnar á stjórnarfundi 7. september og í kjölfarið var samráðsnefndinni gefið tækifæri á að koma endanlegu áliti sínu á framfæri. Fylgir það hjálagt (sjá fylgiskjal II.). Í skýrslu þessari felast sjónarmið stjórnar Fjármálaeftirlitsins varðandi álit samráðsnefndarinnar (sjá enn fremur fylgiskjal III).

1.    Rekstur Fjármálaeftirlitsins á árinu 2000, álagning vegna ársins 2001.
Rekstur á árinu 2000.
    Uppsafnaður tekjuafgangur af rekstri Fjármálaeftirlitsins í árslok 2000 nam samtals 52,4 m.kr. Tekjuafgangurinn á árinu 2000 reyndist meiri en endurskoðuð áætlun á miðju ári 2000 gerði ráð fyrir, en í endurskoðaðri áætlun var gert ráð fyrir að uppsafnaður tekjuafgangur í árslok næmi 32,6 m.kr. Ein meginástæða þessa var að fjölgun starfsmanna gekk ekki eftir, vegna starfsmannaveltu.
    Um rekstur FME á árinu 2000 er að öðru leyti vísað til ársreiknings og skýringa með honum.

Álagning vegna ársins 2001.
    Álagning eftirlitsgjalds á árinu 2001 var byggð á álagningarhlutföllum, skv. 5. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Við ákvörðun þeirra álagningarhlutfalla var gert ráð fyrir að innheimtar yrðu 197,7 m.kr. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að álagningin nemi 199,8 m.kr. eða um 1% hærri fjárhæð en áætluð var.

2.     Endurskoðuð rekstraráætlun vegna ársins 2001.
    Við gerð rekstraráætlunar fyrir árið 2002 hefur FME endurskoðað rekstraráætlun þessa árs. Samkvæmt þeirri áætlun er gert ráð fyrir að rekstur stofnunarinnar verði innan áætlunar og að heildarrekstrarkostnaður stofnunarinnar muni nema 211,4 m.kr. eða 18,9 m.kr. lægri en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir.
    Helstu frávik frá upphaflegri áætlun eru að launakostnaður er áætlaður lægri en upphaflega var gert ráð fyrir, eða sem nemur 16,5 m.kr. af hinum áætlaða rekstrarafgangi. Ástæða þess er að í upphaflegri áætlun fyrir árið 2001 var gert ráð fyrir fleiri stöðugildum allt árið en samkvæmt áætlun nú, að meðtalinni fjölgun starfsmanna til áramóta. Auk þess var gert ráð fyrir kjarasamningshækkunum á laun allra starfsmanna frá ársbyrjun, en sú varð ekki raunin nema að hluta. Þá hefur kostnaður vegna unninnar yfirvinnu verið lægri á fyrri hluta þessa árs en á sama tíma í fyrra, sem þó skýrist að hluta af því að fleiri starfsmenn eru nú á fastlaunasamningum. Enn fremur hafa mannabreytingar og nýráðningar valdið því að meðaltal launakostnaðar á starfsmann er nokkru lægra en áætlað var.
    Þá eru óvissuútgjöld lækkuð um 2,5 m.kr. við endurskoðun áætlunar, en ekki er gert ráð fyrir að grípa þurfi til þessarar fjárhæðar, miðað við reynslu af öðrum liðum áætlunarinnar.
Tölvukostnaður er nokkru hærri en gert var ráð fyrir í upphaflegri áætlun, eða sem nemur 1,7 m.kr. Ástæðan er sú að kostnaður vegna uppfærslu á Windows 2000 var vanáætlaður, auk þess sem ekki var gert ráð fyrir aðkeyptri þjónustu, sem verið hefur talsverð vegna bilana í tölvukerfum.
    Þá eru þátttökugjöld vegna funda erlends samstarfs áætluð 1.800 þús. kr. í endurskoðaðri áætlun í stað 2.150 þús. kr. í upphaflegri áætlun. Ástæða þessa er að ákveðið var að bíða með að sækja um aðild að alþjóðasamstarfi verðbréfaeftirlita (IOSCO). Þá hefur ekki enn fallið á eftirlitið kostnaður vegna Samstarfs evrópskra verðbréfaeftirlita (FESCO).
    Í endurskoðaðri rekstraráætlun fyrir árið 2001 er í fyrsta skipti tilgreindur liðurinn vaxtatekjur og er hann áætlaður 5,0 m.kr. á árinu. Hér er um að ræða áætlaðar vaxtatekjur af innstæðu á reikningi FME í Seðlabanka Íslands sem reiknast frá ársbyrjun 2001 í samræmi við nýleg fyrirmæli um það efni frá fjármálaráðuneytinu.
    Gert er ráð fyrir að uppsafnaður rekstrarafgangur í árslok 2001, sem kemur til frádráttar álagningu næsta árs, nemi 45,2 m.kr.

3.     Rekstraráætlun fyrir árið 2002.
    
Í töflu 1 er birt rekstraráætlun fyrir árið 2002 í samanburði við upphaflega rekstraráætlun og endurskoðaða áætlun fyrir þetta ár. Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu forsendum hennar.

Launakostnaður.
    Í byrjun júlí störfuðu 27 starfsmenn í tæplega 26 stöðugildum, að forstjóra meðtöldum. Þá hafa 4 starfsmenn að auki verið ráðnir yfir sumartímann.
    Í þessum drögum að áætlun fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að í upphafi ársins verði stöðugildi tæplega 30 en í árslok 33. Á árinu 2002 verði stöðugildi að meðaltali tæplega 34 samanborið við rúmlega 30 á árinu 2001. Meðfylgjandi er greinargerð FME um mat á starfsmannaþörf næstu missiri.
    Launabreytingar hafa fylgt kjarasamningum, en starfsmenn FME þiggja laun samkvæmt kjarasamningum bankamanna og kjarasamningum opinberra starfsmanna. Samkvæmt þessum kjarasamningum er gert ráð fyrir 3% launahækkun frá 1. janúar 2002, auk þess sem kjarasamningar bankamanna gera ráð fyrir launahækkun um einn flokk á tímabilinu. Einnig er gert ráð fyrir öðrum samningsbundnum og starfsaldurstengdum breytingum á launum.
    Að teknu tilliti til framangreindra forsendna er gert ráð fyrir að laun og launatengd gjöld á árinu 2002 nemi um 180,0 m.kr.
    Laun stjórnarmanna eru ákveðin af ráðherra. Í áætluninni hefur verið tekið tillit til nýlegrar hækkunar á stjórnarlaunum. Um er að ræða stjórnarlaun til þriggja stjórnarmanna og þriggja varamanna, sem hefur verið talið nauðsynlegt að sitji stjórnarfundi. Strangar reglur gilda um hæfi stjórnarmanna vegna umfjöllunar um einstök mál og hefur því verið talið nauðsynlegt að varamenn væru á hverjum tíma eins vel upplýstir um störf stjórnarinnar og kostur er.

Kostnaður við endurmenntun, námskeið, starfsmannafélag o.fl.
    Staðfest hefur verið símenntunarstefna fyrir FME. Samkvæmt henni er stefnt að því að kostnaður vegna símenntunar geti numið 3% af heildarlaunum eða 5,4 m.kr. á árinu 2002. Áætlað er að þessi fjárhæð skiptist þannig að um 75% verði varið til að standa straum af kostnaði við þátttöku í námskeiðum, 20% fari til kaupa á bókum og tímaritum og 5% til að standa straum af þátttöku í fræðafundum. Ekki er í drögum að áætlun gert ráð fyrir sérgreindum lið vegna þessa heldur fellur þessi kostnaður undir lið 3, 5, 10 og 14.
    Gististyrkir og íþróttastyrkir hafa verið hækkaðir á árinu, en sæta nú staðgreiðslu skatta. Hvor styrkur um sig nemur að hámarki 36 þús. kr. fyrir hvern starfsmann og fæst greiddur gegn framvísun reiknings. Gert er ráð fyrir 80% nýtingu þessara styrkja. Að því er gististyrk varðar er rétt að árétta að starfsmenn hafa ekki aðgang að sumarhúsum á vegum starfsmannafélags og nokkur hluti þeirra hefur ekki aðgang að sumarhúsum á vegum stéttarfélags.

Rekstur á húsnæði.
    FME hefur samið um leigu á 5. hæð að Suðurlandsbraut 32 til 10 ára, sem nú er í byggingu. Samningurinn felur í sér að mánaðargreiðslur vegna þessarar viðbótarleigu nemi um 525 þús. kr. á mánuði, eða 1.265 kr. pr. fermetra.
    Hið nýja húsnæði er alls 415 m 2 að flatarmáli. Fyrir leigir stofnunin alls 900 m2 í sama húsi, skv. leigusamningi sem rennur út á sama tíma og hinn nýi samningur. Fyrir eldra húsnæði greiðir stofnunin 841 kr. pr. fermetra á gildandi verðlagi en heildarleiguverð að meðtöldu nýja húsnæðinu verður 975 kr. á fermetra. Leiga húsnæðis er bundin við vísitölu neysluverðs og er reiknað með 4,8% hækkun milli ára samkvæmt spá Seðlabanka Íslands. Ástæða þess að ákvörðun var tekin um leiguna er tvíþætt. Annars vegar telur FME brýnt að fjölga starfsfólki í eftirlitinu og er vísað um það til meðfylgjandi greinargerðar um mat á starfsmannaþörf. Hins vegar telur FME mikilvægt að skapa aðstöðu til aukinnar kynningarstarfsemi gagnvart fjármálafyrirtækjum og starfsmönnum þess. Með bættri fundaraðstöðu stefnir FME að því að auka samskipti við starfsmenn fjármálafyrirtækja með kynningum og fundum um málefni fjármálamarkaðar.
    Áætlun vegna rafmagns, hita og húsfélags er byggð á reynslu vegna núverandi húsnæðis og áætlun miðað við fyrirhugaða stækkun.

Rekstur tölvubúnaðar.
    Gert er ráð fyrir auknum kostnaði á næsta ári vegna reksturs tölvubúnaðar. Áætlunin er byggð á reynslu síðustu ára auk þess sem byggt er á fyrrgreindum forsendum um fjölgun starfsmanna og stækkun húsnæðis. Þá er nauðsynlegt að skipta út tölvubúnaði í áföngum, en hann er að stofni til frá fyrri hluta árs 1999. FME hefur tekið nær allan tölvubúnað á leigu í stað þess að kaupa hann. Reglulegur rekstrarkostnaður er því nokkuð hár, en stofnkostnaður að sama skapi minni.

Ferðakostnaður og kostnaður vegna funda.

    Gert er ráð fyrir töluverðri hækkun ferðakostnaðar milli ára en á móti kemur lækkun kostnaðar vegna funda hér á landi, enda hefur FME verið gestgjafi margra funda á þessu ári. Í staðinn hefur ekki stofnast ferðakostnaður af þeim fundum. Þannig er gert ráð fyrir 65 ferðum á næsta ári í stað 55 á þessu ári. Þessir liðir samanlagt hækka þó um 11,7% milli ára. Hækkunin stafar af því að gengi á SDR hefur hækkað verulega og farseðlar sömuleiðis hækkað.
    Vænta má að Fjármálaeftirlitið muni verða fyrir auknum kostnaði vegna þátttökugjalda í erlendu samstarfi. Stafar þetta af áformum um breytingar á starfsemi Samtaka evrópskra verðbréfaeftirlita (FESCO) og kostnaðarþátttöku vegna þess. Á móti er ekki gert ráð fyrir að sótt verði um aðild að IOSCO, eins og ráðgert var.
    FME hefur áður bent á nauðsyn erlends samstarfs í því skyni að nýta hér á landi reynslu annarra þjóða og stuðla að samkeppnishæfni íslensks fjármálamarkaðar. Fjallað er nánar um þetta í greinargerð FME um mat á starfsmannaþörf.

Annar kostnaður.
    Aðrir kostnaðarliðir eru byggðir á reynslu fyrri ára að teknu tilliti til fjölgunar starfsmanna og stækkunar húsnæðis. Ekki er gert ráð fyrir sérstökum lið fyrir óvissuútgjöld, þar sem reynslan sýnir að ekki hefur verið þörf á honum.

Aðrar tekjur.
    Fyrst og fremst er um að ræða áætlaðar vaxtatekjur, sbr. umfjöllun í kafla 2 hér á undan. Lægri áætlaðar vaxtatekjur stafa af lægri áætlaðri meðalstöðu innstæðu á árinu á reikningi í Seðlabanka Íslands.

4.     Álagning eftirlitsgjalds fyrir árið 2002.
    Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999 skal FME leggja mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila.
    Við undirbúning fyrri áætlana hafa verið lagðar til lítils háttar breytingar á skiptingu eftirlitsgjaldsins. Þannig var álagning á verðbréfasjóði lækkuð hlutfallslega við álagningu vegna ársins 2000. Við undirbúning áætlunar fyrir árið 2001 var óskað eftir afstöðu samráðsnefndar til þess hvort hækka ætti lágmarksgjöld og á grundvelli þess samráðs var tekin ákvörðun um hækkun þeirra.
    Við undirbúning áætlunar nú var að venju kannað hvort ástæða væri til að gera breytingar á skiptingu eftirlitsgjaldsins. Þannig var kannað hvernig vinnutími starfsmanna hefði fallið á einstaka flokka eftirlitsskyldra aðila. Sú athugun leiddi í ljós svipaða niðurstöðu og fyrri ár. Rétt er að taka fram að lítilsháttar breytingar eru milli ára, en stór verkefni á einu sviði hafa nokkur áhrif á skiptingu vinnutíma til skemmri tíma. Þar sem breytingar eru litlar milli ára og ekki hægt að lesa tiltekna þróun út úr þeim til lengri tíma, leggur Fjármálaeftirlitið til að breytingar á hlutfallslegu vægi flokka eftirlitsskyldra aðila verði í meginatriðum haldið óbreyttu að þessu sinni.
    Fjármálaeftirlitið vill þó taka fram að enn sem fyrr er ekki fullt samræmi milli þess tíma sem fer í eftirlit með smærri eftirlitsskyldum aðilum og hlutfallslegrar álagningar á þá aðila. Rökstyðja má að lágmarksgjöld samkvæmt lögum nr. 99/1999 leiðrétti ekki að fullu hugsanlegt misvægi í álagningu milli smærri og stærri aðila, enda er ekki gert ráð fyrir að það sé mögulegt. Fjármálaeftirlitið óskaði sjónarmiða samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila um hvort hækka bæri lágmarksgjöld vegna þessa. Taldi samráðsnefndin að æskilegt væri að frekara jafnræði verði tryggt með hækkun lágmarksgjalds í einstökum flokkum. Þó megi ekki ákveða lágmarksgjaldið svo hátt að það íþyngi minni aðilum úr hófi eða komi í veg fyrir að nýir aðilar geti haslað sér völl í einstökum greinum fjármálaþjónustu.
    Fjármálaeftirlitið gerir ekki tillögu um almenna hækkun lágmarksgjalda að þessu sinni. Þó leggur Fjármálaeftirlitið til að lágmarksgjald vegna innlánsdeilda samvinnufélaga verði hækkað úr 150 þús. kr. á ári í 250 þús. kr. Sú tillaga byggir á nýlegum lagabreytingum sem styrkja eftirlit Fjármálaeftirlitsins með þeim. Enn fremur leggur Fjármálaeftirlitið til að lágmarksgjald á lánastofnanir og vátryggingafélög verði hækkað úr 350 þús. kr. í 400 þús. kr.
    Samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila hefur sett fram það sjónarmið að ákveðið óréttlæti skapist samkvæmt gildandi lögum við álagningu eftirlitsgjalds á fjármálastofnanir sem eru hluti af samstæðu fjármálafyrirtækja og teljast dótturfélög sem slík. Telur nefndin ekki réttlætanlegt að innheimta fullt eftirlitsgjald í slíkum tilvikum og það skaði samkeppnisstöðu þessara fyrirtækja sé svo gert. Færa má rök bæði með og á móti þessu sjónarmiði en tekið skal fram að breyting hvað þetta varðar hefur mjög óveruleg áhrif á heildarfyrirkomulag álagningar eftirlitsgjaldsins. Fjármálaeftirlitið hefur ekki undirbúið tillögu til að koma til móts við þetta sjónarmið en er tilbúið til viðræðna við ráðuneytið um slíkar breytingar.
Tafla 1.

Rekstraráætlun FME                    

Áætlun vegna 2001 Áætlun
Upphafleg Endursk.

vegna

Mism.

Í þús. kr. áætlun áætlun

2002

2 og 3

Rekstrarkostnaður:

1

2 3

1 Laun og launatengd gjöld 164.539 148.001 180.060 32.059
2 Stjórnarlaun 4.820 5.305 6.120 815
3 Starfsmannaþj., kaffi, fundir, námskeið 2.500 2.087 2.400 313
4 Íþrótta- og gististyrkur 1.400 1.616 2.000 384
5 Endurm.kostnaður og skólakostnaður 900 957 1.500 543
6 Húsaleiga 8.962 8.831 17.350 8.519
7 Rafmagn, hiti, húsfélag 1.670 1.253 1.600 347
8 Símakostnaður 1.510 1.449 1.680 231
9 Útgáfa, auglýsingar, prentun o.fl. 1.500 1.922 1.500 -422
10 Bækur og ritföng 2.100 2.264 2.460 196
11 Póstkostnaður 750 650 720 70
12 Rekstur tölvub. og sérfr.þj. v. tölvumála 10.250 11.979 13.876 1.897
13 Sérfræðikostnaður 3.000 3.000 3.000 0
14 Ferðakostnaður erlendis 8.250 8.250 11.375 3.125
15 Ferðakostnaður innanlands 1.620 1.364 1.500 136
16 Þátttökugj. vegna funda erl. og erl. samstarfs 2.150 1.800 4.000 2.200
17 Kostnaður vegna funda innanlands 3.150 2.246 350 -1.896
18 Eignakaup 2.000 2.000 5.500 3.500
19 Öryggisgæsla 300 300 400 100
20 Ræsting, ræstingarvörur 1.900 1.900 2.700 800
21 Ýmis gjöld og þjónusta 4.100 3.763 3.900 137
22 Óvissuútgjöld 3.000 500 0 -500
23 Gjöld alls 230371 211.437 263991 52554
24 Yfirfært frá fyrra ári, áætlað 32.630 52.374 45.212
25 Álagt eftirlitsgjald 197.741 198.800 214.979
26 Aðrar tekjur 0 5.475 3.800
27 Tekjur alls 230.371 256.649 263.991
28 Tekjur mínus gjöld 0 45.212 0
29 Launakostnaður vegna úrskurðarnefndar 3.200 3.700 4.350
30 Tekjur úrskurðarnefndar 3.200 3.700 4.350
Sundurliðun útreiknings á launum og launatengdum gjöldum
vegna ársins 2002.
Áætlun

2002

Launagjöld 148.001
Fjölgun starfsfólks á árinu 2001, 3,8 stöðugildi 14.819
3% launahækkun 1. jan. 2002 5.056
3% launahækkun þeirra sem fá greitt skv. bankasamningum 720
Aðrar samningsbundnar greiðslur 1.660
Nýráðningar 9.804
180060


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Fylgiskjal II.


Álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila
á rekstraráætlun FME fyrir árið 2002.

    Hér á eftir fer álit samráðsnefndar um áætlað rekstrarumfang Fjármálaeftirlitsins (FME) á árinu 2002, en um álitsgerð þessa er mælt fyrir í 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, og 4. gr. reglugerðar nr. 562/2001, um samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila. Áður en lengra er haldið er samráðsnefndinni rétt að þakka veittar upplýsingar um rekstraráætlun stofnunarinnar og skýringar við einstaka rekstrarliði, þ.m.t. greinargerð um mat á starfsmannaþörf í Fjármálaeftirlitinu á næstu missirum. Samráðsnefndin lýsir þó vonbrigðum sínum yfir því, að FME hefur lítið sem ekkert tekið tillit til ítarlegra ábendinga samráðsnefndar á fyrri stigum máls varðandi einstaka rekstrarliði áætlunarinnar.

Rekstur ársins 2001.
     1.      Svo virðist sem starfsemi stofnunarinnar á árinu 2001 virðist ætla að verða innan áætlunar. Stefnir í að tekjur umfram gjöld verði ríflega kr. 45 milljónir, sem er um 18% af heildartekjum stofnunarinnar. Í fyrra lét samráðsnefndin í ljós þá skoðun, að kostnaðaráætlanir fyrir starfsemi FME á þessu ári væru of háar. Hafa þau sjónarmið samráðsnefndar bersýnilega átt við rök að styðjast.
     2.      Samráðsnefndin hefur ítrekað bent á, að í hæsta máta sé óeðlilegt að FME skuli ekki njóta vaxtatekna af innheimtu eftirlitsgjalds á hverjum tíma, enda geti þar verið um verulega fjármuni að ræða. Samráðsnefndin fagnar því sérstaklega, að á þessu ári, þ.e. árið 2001, skuli í fyrsta skipti gert ráð fyrir vaxtatekjum af innstæðu á reikningi FME í Seðlabanka Íslands. Mun þar vera um að ræða tekjur að fjárhæð um eða yfir kr. 5 milljónir.

Áætlaður rekstur 2002.
     1.      Í rekstraráætlun FME er gert ráð fyrir því, að gjöld milli áranna 2001 og 2002 hækki um kr. 52,5 milljónir, eða um hvorki meira né minna er 25%. Í fyrri rekstraráætlunardrögum, sem kynnt voru fyrir samráðsnefndinni, var gert ráð fyrir um 56 milljón króna hækkun milli ára, þannig að dregið hefur verið úr fyrri kostnaðaráformum, þótt í litlu sé. Samráðsnefndin bendir á, að fjármálaráðherra og raunar ríkisstjórnin öll hafi beint því til stjórnenda allra opinberra stofnana að gæta sérstaks aðhalds og leita leiða til sparnaðar. Hljóta stjórnendur FME að horfa til slíkra tilmæla eins og aðrir opinberir aðilar. Samráðsnefndin gerir sér fulla grein fyrir því, að raunhæf skoðun á eðli og nauðsyn einstakra verkefna og kostnaðarliða sé jafnaðarlega árangursríkari leið til að ná niður kostnaði en fyrirmæli um „flatan“ niðurskurð. Er samráðsnefndin þeirrar skoðunar, að einstaka kostnaðarliði í áætlun FME hefði mátt skoða betur frá slíkum sjónarhóli.
     2.      Starfsmannahald FME hlýtur að ráðast af raunverulegri þörf miðað við verkefni, sem stofnuninni er ætlað að hafa með höndum á hverjum tíma, og er þá jafnframt miðað við hámarksafkastagetu starfsmanna og kröfu um vönduð vinnubrögð. Í júlí 2001 voru starfsmenn 27 í 26 stöðugildum, en í áætlunardrögum FME fyrir 2002 er miðað við, að stöðugildin verði að meðaltali 34. Hér er um að ræða tæplega þriðjungs fjölgun starfsmanna. Í sérstakri greinargerð, sem samráðsnefndinni var afhent um mat á starfsmannaþörf í Fjármálaeftirlitinu, eru tilteknir og skýrðir nokkrir þættir, sem hafa áhrif á starfsmannafjölda FME. Mikill og vaxandi þáttur í starfsemi FME er vinna við mótun og samningu laga og reglna á sviði fjármálamarkaðar. Þess verður að gæta, að FME fari ekki að taka að sér verkefni, sem í samræmi við íslenska stjórnskipun og stjórnsýslu eiga að vinnast af yfirstjórn ríkisins, í þessu tilviki aðallega viðskiptaráðuneyti, en einnig fjármálaráðuneyti að því er lífeyrissjóðina varðar. Samráðsnefndin telur brýnt, að stjórnendur FME hugi að þessu atriði, og haldi sig fyrst og fremst við lögmælt starfssvið sitt, þ.e. að hafa eftirlit með starfsemi aðila á íslenskum fjármagnsmarkaði. Standi vilji ráðuneytis og FME til þess, að höfuðvinnan við mótun laga og reglna verði í höndum FME, hlýtur lágmarkskrafan að vera sú, að hlutaðeigandi ráðuneyti standi straum af kostnaði við það starf, en ekki eftirlitsskyldir aðilar.
     3.      Í stjórn FME sitja lögum samkvæmt þrír menn, og jafnframt eru skipaðir jafnmargir til vara. Laun stjórnar eru ákveðin af ráðherra. Samráðsnefndin hefur áður bent á, að laun stjórnar FME séu há, og hærri en almennt tíðkast hjá öðrum opinberum stofnunum og þeim aðilum, sem falla undir eftirlit FME. Í áætlun fyrir þetta ár, þ.e. árið 2001, voru laun stjórnar áætluð kr. 4,8 milljónir, en nú stefnir í að þau verði kr. 5,3 milljónir á árinu. Í áætlun fyrir árið 2002 er enn gert ráð fyrir verulegri hækkun milli ára, og að laun stjórnarmanna nemi kr. 6,1 milljón. Samráðsnefnd er þeirrar skoðunar, að þennan kostnaðarlið beri að endurskoða og lækka. Fullnægjandi skýringar á ástæðum þess, að laun stjórnarmanna í þessari opinberu stofnun eru talin þurfa að vera svo há sem raun ber vitni, hafa að mati samráðsnefndar enn ekki komið fram. Fram kemur í skýrslu FME til ráðherra, að strangar reglur gildi um hæfi stjórnarmanna vegna umfjöllunar um einstök mál. M.a. þess vegna sé talið nauðsynlegt, að varamenn sitji alla stjórnarfundi ásamt aðalmönnum. Laun varamanna munu vera 2/ 3 af launum stjórnarmanna. Samráðsnefndin telur þessa tilhögun óeðlilega og ekki í samræmi við lög. Varamenn á fyrst og fremst að kalla til í forföllum aðalmanna og í einstökum tilvikum, er ætla má, að aðalmaður sé vanhæfur við afgreiðslu máls.
     4.      Athygli vekur liður í áætlunardrögunum, sem tekur til gisti- og íþróttastyrkja til starfsmanna. Verður hann um kr. 1,6 milljón á þessu ári, og er gert ráð fyrir að hann hækki enn og verði kr. 2,0 milljónir á árinu 2002. Hér er vel í lagt, en miðað er við að styrkir þessir nemi kr. 72 þúsund á hvern starfsmann. Full ástæða er til að stjórnendur FME fari hér fram með gát, því almennt er ekki til þess vitað að aðrir launþegar hér á landi, sem falla undir kjarasamninga opinberra starfsmanna eða bankamanna, njóti slíkra styrkja í þessum mæli.
     5.      Samkvæmt áætlunardrögum FME hækkar húsaleiga úr kr. 8,8 milljónum á árinu 2001 í kr. 17,3 milljónir á árinu 2002, eða um 95%. Er ástæðan sú, að FME hefur tekið á leigu eina hæð, 5. hæð að Suðurlandsbraut 32, til viðbótar því húsnæði, sem stofnunin hefur haft til afnota. Er hér um að ræða 415 m². Er þessi ákvörðun rökstudd með því, að fjölgun starfsfólks kalli á frekara húsnæði. Mun þá átt við fjölgun um stöðugildin 8 nú á haustmánuðum til ársloka 2002, og frekari fjölgun á næstu árum eins og drepið er á í greinargerð FME um mat á starfsmannaþörf stofnunarinnar. Þá er ákvörðunin um viðbótarhúsnæðið einnig rökstudd með því, að þannig skapist aukin og bætt aðstaða til kynningarstarfsemi gagnvart fjármálafyrirtækjum og starfsmönnum þeirra. Stöðugildi í bankaeftirliti Seðlabankans og Vátryggingaeftirlitinu munu samtals flest hafa orðið um 26. Þegar FME tók til starfa í ársbyrjun 1999 voru stöðugildin 22. Sem áður greinir er áætlað, að stöðugildin verði 34 um mitt næsta ár, og uppi eru nú þegar áform um enn frekari fjölgun starfa á árunum þar á eftir. Bersýnilegt er, að vonir manna um að hagræðing gæti fylgt nýrri sameinaðri stofnun, sem aftur gæti jafnvel leitt til þess að starfsmönnum fækkaði, eða í versta falli fjölgaði lítt eða ekki, hafa ekki gengið eftir.
                  Að mati samstarfsnefndarinnar er orðið afar brýnt, að stjórnendur FME setjist niður og reyni að móta áætlanir um það, hvernig koma megi í veg fyrir enn frekari þenslu stofnunarinnar og jafnvel að draga saman seglin, í stað framtíðaráforma um stöðugt meiri umsvif. Eftirlitsskyldir aðilar skilja nauðsyn fjármálaeftirlits, og styðja skilvirkt eftirlitsstarf með fjármálamarkaðinum. Leita verður þó allra tiltækra ráða til að koma í veg fyrir að umfang slíks eftirlits og kostnaður við það keyri úr hófi. Samráðsnefndin hvetur stjórnendur FME til að kanna rækilega, hvort ekki sé hagfelldara að afmörkuðum verkefnum verði sinnt með tímabundnum ráðningum starfsfólks eða aðkeyptri þjónustu sérfræðinga, í stað stöðugrar fjölgunar fastráðinna starfsmanna. Samráðsnefndin hefur bent á þetta áður, og er þeirrar skoðunar að slík tilhögun sé til þess fallin að draga úr kostnaði við eftirlitsstarfið. Samráðsnefndin styður áform FME um aukið kynningarstarf gagnvart starfsfólki hinna eftirlitsskyldu aðila. Spurning er þó, hvort sú starfsemi ein og sér réttlæti leigu á stóru viðbótarhúsnæði fyrir FME, og hvort ekki sé hagfelldara að taka í hverju tilviki á leigu fundarsali vegna slíks kynningarstarfs.
     6.      Samráðsnefndin hefur á því skilning, að FME hlýtur að eiga í allnokkrum erlendum samskiptum, og að kostnaður fylgi slíkri samvinnu. Ferðakostnaður erlendis er talinn verða kr. 8,2 milljónir á þessu ári og kostnaður vegna erlends samstarfs og funda erlendis verður kr. 1,8 milljónir á árinu. Í áætlunardrögum FME er gert ráð fyrir því, að ferðakostnaður erlendis hækki um 34% og verði kr. 11,4 milljónir á árinu 2002 og kostnaður vegna erlends samstarfs og funda erlendis hækki um rúmlega 120% og verði kr. 4 milljónir. Það er því ljóst, að í hækkun kostnaðar stefnir á næsta ári vegna þessara erlendu samskipta. Var þessi kostnaður þó ærinn fyrir, og fullt tilefni til að reyna að lækka hann fremur en auka að mati samráðsnefndar. Þannig mun ferðafjöldi starfsmanna FME til útlanda áætlaður 65 á árinu 2002, en er talinn verða 55 á þessu ári. Að vísu skýrir m.a. FME fjölgun ferða á árinu 2002 með því, að FME hafi verið gestgjafi margra fjölþjóðlegra funda á þessu ári, þannig að af þeim sökum séu ferðir til útlanda færri á árinu 2001 en ella. Jafnframt dragi úr kostnaði við slík fundahöld hérlendis á næsta ári. Samráðsnefndin hvetur stjórnendur FME til að gæta hér ýtrasta aðhalds, og kanna, hvort ekki sé tilefni til að lækka þessa kostnaðarliði. Svo virðist sem í einhverjum tilvikum séu starfsmenn FME að sækja fundi erlendis, er eðlilegra væri að starfsmenn ráðuneyta sæktu, og þá auðvitað á kostnað viðkomandi ráðuneytis. Lágmarkskrafa er, að fari starfsmenn FME í slíkar ferðir, þá hljóti ráðuneytin að bera kostnaðinn af því.
     7.      Í greinargerð FME til samráðsnefndar vegna áætlunar fyrir 2002 kemur fram, að FME hafi kannað hvort ástæða sé til að gera breytingu á skiptingu eftirlitsgjaldsins. Þannig hafi verið kannað, hvernig vinnutími starfsmanna hafi fallið á einstaka flokka eftirlitsskyldra aðila. Hafi sú athugun leitt í ljós, að enn sem komið er sé ekki ástæða til að gera breytingar á vægi flokka eftirlitsskyldra aðila. Því leggi FME til, að hlutfallslegt vægi flokkanna verði í meginatriðum óbreytt. Í 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, er svo fyrir mælt, að FME skuli árlega leggja mat á þróun starfseminnar á undangengnum árum með hliðsjón af þeim tíma, sem ætla megi að hafi farið í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila. Á svo álagning eftirlitsgjalds næsta árs að taka mið af þeirri skiptingu. Samráðsnefndin gerir ekki athugasemdir við það mat FME, að skipting eftirlitsgjaldsins milli einstakra fjármálaþjónustugreina sé í samræmi við það eftirlitsstarf, sem FME hefur innt af hendi með hlutaðeigandi grein. Hefur enda samráðsnefndin ekki forsendur til að tjá sig frekar um þetta mat FME. Á hinn bóginn bendir FME enn á, að sem fyrr hafi miklum tíma eftirlitsins verið varið í smærri eftirlitsskylda aðila. Sé ljóst, að álagt eftirlitsgjald sé ekki í samræmi við þann kostnað, sem fylgi eftirliti með hinum smærri aðilum. Hefur FME því borið undir samráðsnefndina, hvort hún telji ástæðu til þess að hækka lágmark eftirlitsgjalds vegna þessa. Samráðsnefndin er þeirrar skoðunar, að álagt eftirlitsgjald skuli sem framast er kostur vera í samræmi við þann tíma og kostnað sem ætla má að fari í eftirlitið, jafnt með hlutaðeigandi flokki eftirlitsskyldra aðila og einstaka aðila innan hvers flokks. Í 7. gr. laga nr. 99/1999 segir efnislega, að telji FME að eftirlit með einstökum eftirlitsskyldum aðila sé umtalsvert kostnaðarsamara og krefjist meiri mannafla en áætlun um reglubundið eftirlit geri ráð fyrir, geti stjórn FME ákveðið, að viðkomandi aðila verði gert að greiða fyrir frekara eftirlit skv. reikningi. Sé það álit stjórnenda FME, að þetta ákvæði laga geti ekki nýst til að ná fram sanngjarnri skiptingu eftirlitsgjalds milli stærri og smærri aðila innan hvers flokks eftirlitsskyldra aðila, telur samráðsnefndin æskilegt að frekara jafnræði verði tryggt með hækkun lágmarksgjalds í einstökum flokkum. Lágmarksgjaldið má þó almennt ekki ákveða svo hátt, að það íþyngi minni aðilum úr hófi eða komi í veg fyrir að nýir aðilar geti haslað sér völl í einstökum greinum fjármálaþjónustu. Samkvæmt áætlun FME á lágmarksgjaldið að vera að mestu óbreytt milli áranna 2001 og 2002, þrátt fyrir það mat FME, að lágmarksgjaldið standi bersýnilega ekki undir eftirliti þeirra, sem það greiða.
                  Eftirlitsgjald til FME hefur lögum samkvæmt verið innheimt af hverjum sjálfstæðum lögaðila, og þá m.a. án tillits til þess, að eftirlitsskyldur aðili kunni að vera dótturfélag, sem er hluti af samstæðu annars eftirlitsskylds aðila og því að verulegu leyti í eigu hans. Í þeim tilvikum, sem eftirlitsgjald er innheimt af slíkum dótturfélögum, getur verið um eins konar „tvísköttun“ að ræða, einkum þegar dótturfélagið er að mestu fjármagnað af móðurfélaginu. Að mati samráðsnefndar er nauðsynlegt að huga að þessum vanda sérstaklega, og breyta lögum nr. 99/1999, með síðari breytingum, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, þannig að komið verði í veg fyrir ósanngjarna gjaldtöku í félagasamstæðum. Núgildandi tilhögun er til þess fallin að draga úr hagkvæmni þess að aðskilja einstakar rekstrareiningar formlega. Erlendis mun algengt, að fjármálafyrirtæki kjósi að gera slíkt, m.a. til að skýra línur og skerpa ábyrgð á starfseminni. Brýnt er, að íslensk fjármálafyrirtæki sitji ekki við lakara borð í þessu efni heldur en erlendir keppinautar. Bæði sanngirnis- og samkeppnisrök mæla því með um lagabreytingu af þessu tagi.
    Í áliti samráðsnefndar í fyrra vegna rekstraráætlunar FME á árinu 2001 var á það bent, að semja þyrfti reglugerð um samráðsnefndina og starfssvið hennar, og skjóta þar með styrkari stoðum undir skipan nefndarinnar og hlutverk. Hefur ráðherra tekið þessar ábendingar til greina, og hlutast til um setningu reglugerðar í þessa veru, þ.e. reglugerðar nr. 562/2001, um samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila.
    Í 4. gr. reglugerðar nr. 562/2001 segir efnislega, að álit samráðsnefndar skuli fylgja fjárhagsáætlun FME til viðskiptaráðherra. Sé ástæða til að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds, skuli álit samráðsnefndar og áætlun FME fylgja lagafrumvarpi þar að lútandi sem viðaukar. Samráðsnefndin er hvenær sem er og á öllum stigum máls reiðubúin að skýra sjónarmið sín frekar varðandi rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins, þyki efni standa til þess.

Fylgiskjal III.


Bréf Fjármálaeftirlitsins til viðskiptaráðherra 15. september 2001.

    Með vísan til 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sendist yður hér með skýrsla Fjármálaeftirlitsins um áætlaðan rekstrarkostnað stofnunarinnar árið 2002. Skýrslunni fylgir rekstraráætlun brotin niður á einstaka kostnaðarliði og tillaga að álagningarhlutföllum vegna eftirlitsgjalds miðað við álagningarþörf samkvæmt rekstraráætluninni. Þá fylgir með skýrslunni sérstök greinargerð stofnunarinnar um mat á starfsmannaþörf næstu missiri og álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi ársins 2002, dags. 14. september 2001.
    Eins og fram kemur í inngangi skýrslunnar hefur stjórn Fjármálaeftirlitsins fjallað um rekstraráætlun stofnunarinnar og ábendingar samráðsnefndar vegna hennar. Koma sjónarmið stjórnar fram í skýrslunni. Fjármálaeftirlitið vill þó taka fram eftirfarandi:
          Í meðfylgjandi skýrslu Fjármálaeftirlitsins um áætlaðan rekstrarkostnað á árinu 2002 svo og sérstakri greinargerð um mat á starfsmannaþörf næstu missiri er gerð ítarleg grein fyrir ástæðum áætlaðrar aukningar í rekstrarumfangi stofnunarinnar. Þessi aukning tengist bæði væntanlegum breytingum á umfangi verkefna stofnunarinnar og faglegri styrkingu í starfsmannahaldi vegna fyrirliggjandi lögbundinna verkefna. Fjármálaeftirlitið telur að við þessa áætlanagerð hafi eins og kostur er verið tekið mið af yfirlýstum vilja stjórnvalda um kostnaðaraðhald.
          Vegna athugasemdar samráðsnefndar um þátttöku Fjármálaeftirlitsins í mótun laga og reglna og áminningar nefndarinnar um að Fjármálaeftirlitið haldi sig við lögmælt hlutverk sitt hvað þetta varðar, er nauðsynlegt að það komi skýrt fram að þau gögn sem hér hefur verið vitnað í gefa alls ekki tilefni til þessarar athugasemdar. Skýrt er þar tekið fram að þátttaka Fjármálaeftirlitsins í slíku starfi felist í þátttöku í nefndavinnu og sé í eðlilegu samhengi við hlutverk stofnunarinnar samkvæmt lögum. Að auki hefur verið farið sérstaklega yfir þennan þátt í starfsemi stofnunarinnar á fundum með fulltrúum samráðsnefndar þar sem sömu skýringar hafa komið fram.
          Vegna athugasemdar um að varamenn stjórnar sitji alla stjórnarfundi er rétt að taka fram að Fjármálaeftirlitið telur það mikilvægt að varastjórnarmenn séu virkir þátttakendur í öllum störfum stjórnar og fylgist vel með starfsemi stofnunarinnar. Vegna strangra hæfisreglna sem stjórnin hefur sett sér, er nauðsynlegt að varastjórnarmenn geti fyrirvaralítið tekið þátt í ákvörðunum hennar. Sömu sjónarmið komu fram í bréfi stofnunarinnar til viðskiptaráðherra með rekstraráætlun árins 2001.
          Í athugasemdum samráðsnefndar kemur fram að Fjármálaeftirlitið geri ekki tillögur um hækkun lágmarksgjalda eftirlitsgjalds þrátt fyrir það mat stofnunarinnar að lágmarksgjaldið standi ekki undir eftirliti þeirra sem það greiða. Rétt er að taka fram að um misskilning er að ræða. Fjármálaeftirlitið gerir þvert á móti að tillögu sinni að þessi lágmarksgjöld verði hækkuð nokkuð sem varðar meginþorra eftirlitsskyldra aðila.
    Fjármálaeftirlitið er reiðubúið til að veita frekari upplýsingar um framangreint, sé þess óskað.
Fylgiskjal IV.


Mat á starfsmannaþörf í Fjármálaeftirlitinu.
(Greinargerð frá ágúst 2001.)


    Frá 1. janúar 1999 til 1. júlí 2001 hefur fjölgað um 4 stöðugildi hjá Fjármálaeftirlitinu (FME). Sú fjölgun hefur hvorki haldið í við þróun fjármálamarkaðar né þróun verkefna FME að öðru leyti. Í því skyni að styrkja stefnumótun FME og auka nákvæmni í áætlanagerð þess er hér sett fram mat á starfsmannaþörf næstu missiri. Matið er miðað við 1. júlí 2001.
    Við gerð matsins var byggt á viðurkenndum aðferðum við mat á starfsmannaþörf og naut Fjármálaeftirlitið þar aðstoðar ráðgjafafyrirtækisins IMG.

1.        Ytri þættir sem hafa áhrif á mat á starfsmannafjölda.
1.1    Þróun fjármálamarkaðar.

    Eins og kunnugt er hafa orðið gífurlegar breytingar á starfsemi fjármálafyrirtækja á síðustu missirum og árum. Margar þessar breytingar eru þess eðlis að Fjármálaeftirlitið verður að fylgja þeim eftir og vera reiðubúið að grípa inn í eða leiðbeina um túlkun laga og reglna, þegar ástæða er til. Þó hægt hafi á efnahagslífinu eru ekki merki um að hægjast muni á þróun fjármálamarkaðar. Rétt er að nefna í þessu sambandi nokkur atriði sem hafa haft og munu hafa mikil áhrif á störf Fjármálaeftirlitsins.

1.1.1    Lánamarkaður.
    Á starfstíma Fjármálaeftirlitsins hefur lánamarkaður tekið miklum breytingum. Ríkisviðskiptabankarnir höfðu nýlega verið hlutafélagavæddir, fjárfestingarlánasjóðir í eigu ríkisins sameinaðir og á starfstímanum hefur verið unnið að sölu á eignarhlut ríkissjóðs í þessum fyrirtækjum. Þessum breytingum og hagstæðu efnahagsástandi hafa fylgt ýmsar breytingar. Nefna má eftirfarandi:
          Mikil útlánaaukning.
          Aukin verðbréfaeign lánastofnana.
          Fjölbreyttari starfsemi á verðbréfamarkaði.
          Auknar erlendar lántökur lánastofnana.
          Lækkun eiginfjárhlutfalla.
          Samruni lánastofnana.
          Aukin starfsemi erlendis, með stofnun eða kaupum á sjóðum og fjármálafyrirtækjum innan og utan Evrópska efnahagssvæðisins.
          Flóknara eignarhald með lánastofnunum.
    Ekki sér fyrir endann á þessari þróun. Nefna má eftirfarandi:
          Fylgja þarf eftir útlánaaukningu síðustu ára með ítarlegu eftirliti með þróun útlána og mati á afskriftum og afskriftaþörf.
          Margþættari áhættur lánastofnana gera kröfu til víðtækari áhættustýringar. Þróun áhættustýringar hefur ekki fylgt að öllu leyti eftir nýjungum í starfsemi lánastofnana og því brýn þörf á að fylgja þeirri þróun eftir.
          Eiginfjárreglur lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu munu verða mjög í brennidepli á næstunni í tengslum við breytingar á eiginfjárreglum Baselnefndar um bankaeftirlit.
          Nýleg dæmi benda til þess að íslenskar lánastofnanir munu áfram huga að aukinni starfsemi á erlendri grundu.
          Nýlegar lagabreytingar sem gera sparisjóðum kleift að breyta sér í hlutafélög opna nýja möguleika til samruna og hagræðingar á fjármálamarkaði. Sparisjóðir og aðrar lánastofnanir hafa runnið saman á síðustu mánuðum og vísbendingar eru um að fleiri samrunar séu væntanlegir.
          Yfirlýsing stjórnvalda um sölu á Landsbanka Íslands hf., hugsanlega til erlends aðila, bendir einnig til aukinna verkefna.
          Nýlegar breytingar á ákvæðum laga um eftirlit með virkum eigendum fjármálafyrirtækja kalla á aukið aðhald af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Þessar breytingar taka einnig til verðbréfafyrirtækja og vátryggingafélaga.
    FME hefur lýst áhyggjum sínum af þróun lánamarkaðar og stöðu lánastofnana. Í ársskýrslu FME sem gefin var út í lok síðasta árs var fjallað um útlánaaukningu lánastofnana, lækkandi eiginfjárhlutföll og fjölþætta áhættu í starfsemi þeirra. Ítrekuð var sú skoðun að eiginfjárhlutföll þyrftu að hækka og sett fram viðmiðunarmörk í því sambandi. Tilvitnuð umfjöllun lýsir vel áherslum FME í eftirliti á þessu sviði.

1.1.2    Verðbréfamarkaður.
    Verðbréfamarkaður hefur þróast hratt á undanförnum árum. Nefna má eftirfarandi:
          Almenningur hefur í auknum mæli tekið þátt í viðskiptum á verðbréfamarkaði og verðbréfaviðskipti orðin eðlilegur þáttur í ávöxtun sparifjár einstaklinga og heimila.
          Fyrirtækjum sem skráð eru á markaði hefur fjölgað mikið á síðustu árum og verðbréfamarkaður þroskast mjög. Fjármálafyrirtæki eru í auknum mæli skráð á markaði.
          Verðbréfaeign, verðbréfaviðskipti og ráðgjöf til einstaklinga og fyrirtækja á þessu sviði eru, samfara þessari þróun, aukinn þáttur í starfsemi fjármálafyrirtækja, sem kallar bæði á ríkt eftirlit með starfsháttum fjármálafyrirtækja og markaðsáhættu í rekstri fyrirtækjanna. Starfshættir og áhættustýring fjármálafyrirtækja hefur ekki þróast í takt við þróun verðbréfamarkaðar að öðru leyti.
          Verðbréfaþing Íslands hf. er aðili að samstarfi norrænna kauphalla, en það kallar á aukið samstarf í eftirliti með verðbréfamarkaði.
          Alþjóðasamstarf hefur reynst Fjármálaeftirlitinu og verðbréfamarkaðnum mjög mikilvægt. Fjármálaeftirlitið hefur verið aðili að samstarfi verðbréfaeftirlita í Evrópu, FESCO.
          Þrátt fyrir þessa þróun er markaður hér enn mjög grunnur. Það hefur áhrif á trúverðugleika hans og skapar hættu á misnotkun.
          Utan hins skráða markaðar myndaðist „grár markaður“ sem kallaði á endurskoðun löggjafar og styrkingu eftirlits.
    Þó hægst hafi á verðbréfamarkaði síðustu mánuði er ljóst að nauðsyn er á að styrkja enn frekar eftirlitið og auka aðhald á verðbréfamarkaði, svo sem löggjafinn hefur raunar að hluta til kveðið á um. FME hefur lýst því yfir að það hyggist á næstu missirum byggja upp styrkara eftirlit með starfsháttum á verðbréfamarkaði. Í samræmi við það er yfirstandandi uppbygging á markaðsvakt innan eftirlitsins, sem bætir yfirsýn FME yfir verðbréfamarkaðinn og gefur því færi á að grípa fyrr inn í mál sem upp koma.
    Auk þessa má nefna nokkur atriði sem benda til aukinna verkefna að hálfu FME.
          FME hefur undanfarna mánuði unnið að því að stuðla að styrkingu á innviðum fjármálafyrirtækja að því er varðar starfshætti á verðbréfamarkaði. Leiðbeiningar um efni reglna um viðskipti starfsmanna fjármálafyrirtækja, eigin viðskipti fjármálafyrirtækja og aðskilnað starfssviða (Kínamúra), fela í sér auknar kröfur á fjármálafyrirtæki sem fylgja þarf eftir í eftirlitinu sjálfu.
          FME er ætlað aukið hlutverk í fyrirbyggjandi eftirliti með innherjaviðskiptum. Söfnun lista yfir innherja útgefenda skráðra verðbréfa, birting fruminnherjalista og staðfesting FME á reglum útgefenda um meðferð trúnaðarupplýsinga og viðskipti innherja eru mikilvægir verkþættir sem kveðið var á um í nýlegum breytingum á lögum um verðbréfaviðskipti.
          FME hafa einnig verið fengin aukin verkefni vegna almennra útboða, en samkvæmt nýlegum breytingum á lögum um verðbréfaviðskipti mun FME hafa umsjón með útboðslýsingum þegar ekki er um skráningu í kauphöll að ræða. Einnig hafa möguleikar FME til þess að fylgjast með og grípa til aðgerða vegna almennra útboða verið styrktir.

1.1.3     Vátryggingamarkaður.
    Nokkur uppstokkun hefur átt sér stað í rekstri innlendra vátryggingafélaga á síðustu árum. Á starfstíma FME hefur stóru vátryggingafélögunum fækkað úr fjórum í þrjú með samruna Tryggingar hf. við TM hf. Samábyrgðinni hefur verið breytt í hlutafélag og seld bátaábyrgðarfélögunum. Eitt bátaábyrgðarfélaga hætti vátryggingastarfsemi á síðasta ári. Flest bendir til að á næstu vikum eða mánuðum verði frekari breytingar á starfsemi þessara félaga.
    Fækkun á hinum smærri og veikari vátryggingafélögum skapar svigrúm til að sinna öðrum verkefnum. Er þess vænst að slíkt svigrúm nýtist til að styrkja fjárhagslegt eftirlit með félögunum.
    Þrjú stærstu vátryggingafélögin eru skráð á Verðbréfaþingi Íslands hf. eða áforma skráningu. Við það dregur ekki úr þörf eftirlits, en þó má ætla að þetta hafi áhrif til aukins sýnileika í rekstri félaganna. Aukinn sýnileiki vinnur með eftirlitinu.
    Mikilvægt er að auka vægi eftirlits með áhættustýringu vátryggingafélaga og eftirliti á staðnum.
    Athuganir á hækkunum á iðgjöldum í ökutækjatryggingum hafa tekið mikinn tíma eftirlitsins. Erfitt er að spá um þróun þessa. Engu að síður er brýnt að gott eftirlit sé haft með þróun vátryggingaskuldar og iðgjalda.
    Á sama tíma og innlendum vátryggingafélögum hefur fækkað hefur starfsemi vátryggingamiðlara vaxið fiskur um hrygg. Um 16 miðlanir eru nú starfandi með fjölda sölumanna og verktaka á sínum snærum. FME hefur sýnt þessari þróun mikla athygli og leitast við að tryggja að þjónusta þessara aðila sé með fullnægjandi hætti. Þessi starfsemi hefur þó verið því marki brennd að um nýja og ört vaxandi atvinnustarfsemi er að ræða, en við þær aðstæður er hætt við að ýmislegt geti fari úrskeiðis. Þátttaka vátryggingamiðlara á innlendum vátryggingamarkaði opnar jafnframt fyrir ný og mikilvæg tækifæri í tryggingum, þar sem þeir bjóða vörur erlendra tryggingafélaga. Fyrirsjáanlegt er að leggja þurfi talsverða vinnu í eftirlit með þessari starfsemi á næstu árum.

1.1.4    Lífeyrissjóðir.
    Á fyrstu starfsárum FME fór gríðarlegur tími í umsagnir um veitingu starfsleyfa fyrir lífeyrissjóði. Aðlögun þeirra að nýlegum lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er þó hvergi nærri lokið. Sú staðreynd að lífeyrissjóðirnir eru nýlega komnir undir eftirlit gerir öll samskipti við þá tímafrekari en ella. Kemur þetta m.a. fram í því að gögnum og gagnaskilum af hálfu lífeyrissjóða er oft mjög ábótavant. Jafnframt er enn verið að móta eftirlitið sjálft og mun það eflaust taka nokkurn tíma.
    Engar vísbendingar eru um að lífeyrissjóðum muni fækka stórlega á næstunni og vegur fjöldi þeirra (54) þungt í eftirliti á grundvelli reglubundinna gagna. Vegna skylduaðildar, banns á flutningi réttinda til samtryggingar og takmarkana á möguleikum sjóðfélaga til að hafa bein áhrif á stjórnun síns lífeyrissjóðs er aukin þörf á eftirliti með starfsemi lífeyrissjóða.
    Einn veigamesti þátturinn í aðlögun lífeyrissjóðanna að nýrri löggjöf varðar ákvæði laga og reglna um fjárfestingar þeirra. Eftirlit með þessu er í mótun og þarf að bæta enn frekar. Annar mikilvægur þáttur er krafan um jöfnuð skuldbindinga og eigna. Vegna þess hve útreikningar á skuldbindingum lífeyrissjóða er flókinn er sýnileiki afar mikilvægur (líkt og hjá vátryggingafélögunum).
    Samtímis framangreindri þróun hafa lífeyrissjóðir sýnt vilja til fjölbreyttari starfsemi á fjármálamarkaði en áður. Þannig hafa lífeyrissjóðir t.d. stofnað fyrirtæki í verðbréfaþjónustu í sinni eigu.
    Móttaka viðbótarlífeyrissparnaðar lýtur eftirliti FME, en lífeyrissjóðir, líftryggingafélög, lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki hafa heimild til móttöku þessa sparnaðar. Þetta er nýr þáttur fjármálaþjónustu sem mikil samkeppni hefur skapast um. Brýnt er að huga að þessari þjónustu á næstu missirum.

1.2        Lagabreytingar á fjármálamarkaði.
1.2.1    Breytingar sem gerðar hafa verið.

    Talsverðar breytingar hafa orðið á lögum og reglum á fjármálamarkaði á starfstíma FME. Í viðauka 1 er gerð grein fyrir þessum breytingum.
    Þær breytingar sem mest áhrif hafa haft á starfsemi FME eru þessar:
          Breytingar á lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, en með þeim lögum voru starfsheimildir FME styrktar. Sterkari og fjölbreyttari starfsheimildum fylgja að sjálfsögðu aukin verkefni í byrjun þegar verið er að móta beitingu þeirra. Raunar hefur FME ekki unnist tími til að móta nægilega allar heimildir sínar.
          Breytingar á lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti (breytingalög nr. 99/2000), voru einkum gerðar vegna atvika sem upp höfðu komið á fjármálamarkaði og umræðu í kjölfar þeirra. Sett voru skýrari fyrirmæli um eigin reglur fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og lánastofnana er vörðuðu aðskilnað hagsmuna (Kínamúra), eigin viðskipti fyrirtækjanna, viðskipti starfsmanna þeirra, stjórnenda og eigenda, og atvinnuþátttöku stjórnenda og starfsmanna. Breytingarnar voru lagðar til í samráði við FME og tilgangurinn að styrkja trúverðugleik fjármálamarkaðarins og eftirlit FME. FME hefur lagt mikla vinnu í þessi mál á síðustu mánuðum. Í lok júlí sl. birti FME leiðbeinandi tilmæli um efni þessara reglna og mun í framhaldinu staðfesta reglur fjármálafyrirtækja, sem uppfylla skilyrðin.
          Breytingar á lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti (breytingalög nr. 163/2000), fela í sér ítarleg ákvæði um innherjaviðskipti og eftirlit með þeim. Rannsóknarskylda er lögð á fruminnherja áður en hann á viðskipti, gerð er krafa til þess að upplýsingar um innherja séu sendar FME og gert ráð fyrir að FME birti lista yfir fruminnherja hjá útgefendum, auk þess sem FME skal kalla eftir og staðfesta reglur útgefenda um meðferð trúnaðarupplýsinga og viðskipti innherja. FME hefur birt leiðbeinandi tilmæli um efni framangreindra reglna og gefið út form til útfyllingar á innherjalistum og leiðbeiningar um útfyllingu á þeim. Mikil vinna er fram undan vegna þessa.
          Í sömu breytingalögum er einnig kveðið með skýrari hætti en áður á um almennt útboð verðbréfa. Skýrari ákvæði styrkja eftirlit FME auk þess sem FME er falið það hlutverk að hafa umsjón með athugun á almennum útboðslýsingum, öðrum en þeim sem fela í sér skráningu í kauphöll. Þessum verkefnum fylgja aukin verkefni. Nánar er kveðið á um þetta í reglugerð nr. 477/2001, um almennt útboð verðbréfa.
          Með lögum nr. 69/2001, um breytingu á lagaákvæðum um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum var eftirlit FME með virkum eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum styrkt verulega. Líkur benda til að aðlögun að lögunum krefjist aukinnar vinnu, einkum vegna aukinnar upplýsingaskyldu aðila.
    Framangreind dæmi sýna að löggjafinn hefur falið FME aukin verkefni á síðustu missirum. Á sama tíma hefur ekkert verið dregið úr verkefnum FME í löggjöf, ef frá er talin niðurfelling á Kvótaþingi, sem FME hafði eftirlit með.
    Enn fremur má nefna að í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 163/2000, um breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti (sjá lýsingu hér að framan), er gerð grein fyrir því að breytingarnar muni hafa í för með sér aukin verkefni FME. Er það metið svo að hin auknu verkefni svari til eins og hálfs stöðugildis.

1.2.2    Líkleg þróun löggjafar.
    FME kemur að mótun laga og reglugerða á fjármálamarkaði með þátttöku í margvíslegu nefndarstarfi sem er undanfari slíkra breytinga. Mikilvægt er að stofnunin eigi þess kost að vinna að og taka þátt í þessari mótun og nýta þannig reynslu af beitingu gildandi laga og reglna á hverjum tíma. FME er einnig falið hlutverk í lögum varðandi setningu reglna og tilmæla. Þessi þáttur í starfsemi FME er í samræmi við hlutverk flestra erlendra systurstofnana og hafa raunar komið fram ábendingar um að styrkja þurfi þetta hlutverk FME, sbr. umfjöllun í kafla 1.4.
    Gildandi lög og reglur á hverjum tíma skapa umgjörð um hlutverk og skyldur FME. Við mat á starfsmannaþörf er því nauðsynlegt að taka til athugunar hvaða áhrif fyrirsjáanlegar breytingar á lögum og reglum hafa á starfsemi FME.
    Eins og fram kemur í umfjöllun hér á eftir má gera ráð fyrir talsverðri endurskoðun laga og reglna á næstu missirum.
    Stór þáttur í mótun laga og reglna tengist aðlögun að EES-gerðum. Í viðauka 2 er að finna yfirlit viðskiptaráðuneytisins yfir samþykktar og væntanlegar tilskipanir á sviði fjármálaþjónustu. Drög að tveimur veigamiklum tilskipunum til viðbótar hafa verið kynnt af hálfu framkvæmdastjórnar ESB. Annars vegar eru drög að tilskipun um misnotkun markaðar (market abuse) og hins vegar drög að tilskipun um útboðslýsingar (prospectuses). Nefna má að samkvæmt síðari drögunum er gert ráð fyrir að fjármálaeftirlit fái það verkefni að annast athugun á öllum útboðslýsingum, einnig skráningarlýsingum.
    Talsverð vinna fer nú fram á vegum viðskiptaráðuneytis sem varðar breytingar á lögum á fjármálamarkaði, sem að hluta til tengist aðlögun að EES-gerðum. Nefna má eftirtalin verkefni sem viðskiptaráðuneytið leiðir nú:
          Bankalaganefnd hefur verið falið að semja ný lög um fjármálafyrirtæki, sem tekur til starfsemi viðskiptabanka, sparisjóða, annarra lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu, auk rafeyrisfyrirtækja. Þá er til athugunar að lögin taki einnig til vátryggingastarfsemi. Þáttur í þessari vinnu er endurskoðun á öllum ákvæðum núgildandi laga. Þá mun nefndin einnig fjalla um athugasemdir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í nýlegri athugun sem reifuð er nánar hér á eftir.
          Önnur nefnd vinnur nú að samningu frumvarps til nýrra laga um verðbréfaviðskipti, en þessi vinna er tengd vinnu bankalaganefndar, þar sem ætlunin er að kveða á um starfsemi fyrirtækja í verðbréfaþjónustu í fyrrgreindum lögum um fjármálafyrirtæki.
          Á vegum vinnuhóps er nú unnið að nýjum lögum um verðbréfasjóði, sem taka mun yfir starfsemi sjóða um sameiginlega fjárfestingu. Sú vinna byggir á nýrri tilskipun sem fella verður inn í íslenskan rétt. Með þeirri breytingu falla fleiri sjóðir undir eftirlit FME en nú er, en hingað til hafa einungis verðbréfasjóðir samkvæmt núgildandi lögum fallið þar undir. Löngu tímabært er að hlutabréfasjóðir lúti opinberu eftirliti. Það mun fela í sér aukin verkefni.
          Sérstök nefnd hefur unnið að endurskoðun vátryggingasamningalaga og er frumvarp þess efnis í undirbúningi. Gera má ráð fyrir að hin nýju lög muni auka skyldur bæði vátryggingafélaga og vátryggingamiðlara og fela í sér aukin verkefni fyrir FME, a.m.k. fyrstu ár aðlögunar að lögunum.
          Gera má ráð fyrir að hin nýju lög muni auka skyldur bæði vátryggingafélaga og vátryggingamiðlara og fela í sér aukin verkefni fyrir FME, a.m.k. fyrstu ár aðlögunar að lögunum.
          Þá má nefna að viðskiptaráðherra fól nefnd, sem stýrt er af aðstoðarforstjóra FME, að endurskoða reglugerð um ársreikninga vátryggingafélaga annarra en líftryggingafélaga. Einnig er í undirbúningi reglugerð um „insurance groups“.
    Samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, ber fjármálaráðuneytinu að gefa Alþingi skýrslu um lögin og hvort huga þurfi að breytingum á þeim. Ómögulegt er að spá fyrir um niðurstöðu umræðu sem fram mun fara á grundvelli þessarar vinnu. Frekari breytingar á lífeyrissjóðalögunum munu einnig ráðast af framvindu mála við staðfestingu og mótun tilskipunar ESB um lífeyrissjóði.
    Hjá FME er unnið að samningu eða endurskoðun nokkurra reglna, svo sem reglum um vátryggingaskuld og reglum um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða.
    Þessu til viðbótar er FME með í undirbúningi nokkur leiðbeinandi tilmæli, en með lögum nr. 11/2000, um breytingu á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, var kveðið sérstaklega á um að FME væri heimilt að gefa út almenn leiðbeinandi tilmæli um starfsemi eftirlitsskyldra aðila. Þó mótun tilmæla sé tímafrek má vænta þess að til lengri tíma litið muni þau auðvelda starf FME.

1.2.3    Tillögur Basel-nefndar um bankaeftirlit að nýjum eiginfjárreglum.
    Fjármálaeftirlitið hefur fylgst náið með mótun nýrra eiginfjárreglna fyrir lánastofnanir, sem nú er unnið að af hálfu Basel-nefndar um bankaeftirlit. Stefnt er að því að nýjar reglur verði samþykktar í lok árs 2002 og taki gildi 2005.
    Tillögurnar fela í sér róttækar breytingar. Nefna verður tvennt í þessu sambandi. Í fyrsta lagi munu reglurnar fela í sér hvata fyrir banka að nýta svokallað innra matskerfi (Internal Ratings Based Approach) til að mæla eiginfjárstöðuna. Ætli innlendar lánastofnanir að nýta sér þetta þarf að byggja upp ítarlegan gagnagrunn og sterka áhættustýringu, sem metin verður og vottuð af hinum opinbera eftirlitsaðila. Íslenskir bankar hafa þegar lýst yfir áhuga á því að nýta sér þessa aðferð. Líklegt er þó að einungis stærstu lánastofnanirnar munu geta nýtt sér þetta.
    Í öðru lagi er í tillögunum gert ráð fyrir að fjármálaeftirlitum í öllum ríkjum verði heimilt að ákveða hærri eiginfjárhlutföll sem einstökum lánastofnunum beri að hlíta. Raunar telur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins brýnt að FME fái slíka heimild nú þegar, en nánar er vikið að því í kafla 1.4. hér á eftir.
    Verulegar líkur eru á því að breytingar á eiginfjárreglunum nái fram að ganga, þó ekki sé fullvíst um einstakar niðurstöður. Verði raunin sú þarf FME að styrkja starfsemi sína verulega til að mæta þessu verkefni. FME er kunnugt um að áætlanir eftirlitsstofnana í nágrannalöndunum geri ráð fyrir verulegri fjölgun sérfræðinga vegna þessa. Hins vegar er erfitt að meta langtímaáhrif þessa fyrir FME, þar sem ekki liggur ljóst fyrir hvort innlendar lánastofnanir muni geta nýtt sér fyrrgreinda innri matsaðferð (IRB). Engu að síður er ljóst að FME þarf hið fyrsta að styrkja utanumhald gagna, gagnagreiningu og eftirlit með áhættustýringu, ef það á að geta sinnt hlutverki sínu á þessu sviði á næstu árum.

1.3    Alþjóðlegt samstarf.
    
Fjármálaeftirlitið tekur þátt í víðtæku erlendu samstarfi. Tilgangur þátttöku FME í samstarfinu er í meginatriðum tvíþættur. Annars vegar leitast FME við að flytja heim á íslenskan fjármálamarkað reynslu og þekkingu sem fengist hefur í eftirliti með stærri og eftir atvikum þróaðri mörkuðum. Hins vegar hefur FME talið það hlutverk sitt að styrkja samkeppnishæfni íslensks fjármálamarkaðar. Þátttaka FME í erlendu samstarfi er veigamikill þáttur í þeirri viðleitni, en með nánu samstarfi og samhæfingu við erlendar systurstofnanir skapast ákveðin líkindi fyrir því að hér á landi sé byggt á svipuðum viðhorfum um styrk og trúverðugleika íslensks markaðar og eftirlit með honum. Telja verður að samstarf FME á erlendum vettvangi sé mikilvægt fyrir fjármálamarkaðinn vegna þessa.
    Samstarfið er í meginatriðum þríþætt; samstarf á sviði bankaeftirlits, verðbréfaeftirlits og vátryggingaeftirlits. Fjármálaeftirlit á Norðurlöndum hafa með sér náið samstarf. Þá tekur Fjármálaeftirlitið þátt í samstarfi Evrópuþjóða sem tengist aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Einnig er Fjármálaeftirlitið beinn aðili að alþjóðasamtökum vátryggingaeftirlita IAIS.
    Fjármálaeftirlitið sækir nær einvörðungu kjarnafundi í viðkomandi samstarfi, en sækir almennt ekki vinnufundi eða fundi sérfræðinganefnda, nema talin sé brýn nauðsyn á því með hliðsjón af þeim verkefnum sé unnið er að hér á landi. Fjármálaeftirlitið tekur því ekki þátt í nema hluta þess samstarfs sem erlendar systurstofnanir þess taka þátt í.
    Öll þróun þessa samstarfs bendir til þess að það muni aukast fremur en minnka. Kemur þar tvennt til. Annars vegar eru fjármálamarkaðir landa að tengjast sífellt nánari böndum með myndun fjármálasamsteypa yfir landamæri, öðrum fjárfestingum yfir landamæri og ýmiss konar öðru samstarfi. Starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja erlendis er dæmi um þetta.
    Hins vegar er ófullnægjandi samhæfing í túlkun laga og reglna og eftirlitsaðgerðum fjármálaeftirlita innan Evrópska efnahagssvæðisins álitin ein af þeim hindrunum sem ryðja verður úr vegi til að koma á raunverulegum innri markaði í fjármálaþjónustu. Því er mikill þrýstingur á evrópsk fjármálaeftirlit að styrkja enn samstarf sitt. Mikilvæg vísbending um þetta eru tillögur svokallaðrar Wise Men Group (Lamfalussy Report) þar sem lagðar eru til breytingar á ákvörðunarferli og samstarfi á verðbréfasviði innan ESB. Framkvæmdastjórn ESB er þegar að hrinda þessum tillögum í framkvæmd. Eitt meginatriði breytinganna er aukin samvinna eftirlitsstofnana, bæði við ráðgjöf við undirbúning og ákvörðun um nýjar gerðir og við túlkun og framkvæmd sameiginlegra reglna og eftirlit að öðru leyti. Gert er ráð fyrir að það samstarf sem hingað til hefur farið fram innan hinna sjálfstæðu samtaka FESCO (Forum of European Securities Commissions) verði framvegis hluti af stofnanaferli ESB og EES.

1.4    Mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins – Financial Sector Stability Assessment.
    Í nýrri skýrslu sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur gefið út er að finna mat sjóðsins á íslensku fjármálakerfi (Financial Sector Stability Assessment). Telur sjóðurinn að þó undirstöður fjármálakerfisins séu traustar sé þar að finna veikleika er geti stefnt stöðugleika þess í hættu. Fjármálaeftirlitið telur ábendingar sem koma fram í skýrslunni gagnlegar og samræmast þær flestar mati Fjármálaeftirlitsins, stefnu þess og verkáætlunum. Skýrsluna er að finna heimasíðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, www.imf.org.
    Athugunin er liður í sérstöku átaki sem miðar að því að efla yfirsýn yfir veikleika í fjármálakerfum einstakra landa og stuðla að stöðugleika. Ísland er annað ríkið innan Evrópska efnahagssvæðisins til þess að taka þátt í þessu átaki. Athugunin hófst í nóvember á síðasta ári og var skýrsla um hana rædd í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í maí sl. ásamt skýrslum sem samdar voru eftir reglubundna árlega heimsókn sérfræðinga sjóðsins til landsins í janúar sl.
    Í athugun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var m.a. farið yfir lög og reglur um starfsemi á fjármálamarkaði og fyrirkomulag eftirlits, með hliðsjón af grunnreglum sem settar hafa verið í alþjóðasamstarfi bankaeftirlita, verðbréfaeftirlita og vátryggingaeftirlita. Í grunnreglunum er fjallað um þá þætti sem þurfa að vera til staðar í löggjöf og opinberu eftirliti sem talist gæti til fyrirmyndar. Einnig var fjallað um löggjöf og eftirlit með lífeyrissjóðum.
    Það er mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að fjármálaeftirlit hér á landi sé í góðri stöðu til að takast á við verkefni sitt. Hins vegar er það einnig mat sjóðsins að í íslensku fjármálakerfi séu veikleikar sem stefnt gætu stöðugleika þess í hættu. Sjóðurinn gerir athugasemdir og bendir á ýmislegt sem betur mætti fara og stuðla myndi að frekara öryggi, bæði að því er varðar löggjöf og opinbert eftirlit. Í viðauka 3 með þessari greinargerð er að finna yfirlit yfir helstu atriði sem sjóðurinn telur að betur mættu fara.
    Rétt er að draga fram helstu niðurstöður sem mestu varða um stærð FME:
          Alþjóðagjaldeyrissjóðurin telur að styrkja þurfi eftirlit á staðnum, einkum með lánastofnunum og vátryggingafélögum.
          Alþjóðagjaldeyrissjóðurin telur að efla þurfi verulega upplýsingaöflun FME, greiningu upplýsinga og eftirlit á grundvelli þeirra.
          Lögð er rík áhersla á að styrkja þurfi heimildir FME til að kveða á um hærri eiginfjárhlutföll einstakra lánastofnana.
          Settar eru fram athugasemdir er lúta að sjálfstæði FME. Þar varðar mestu að Alþjóðagjaldeyrissjóðurin telur brýnt að FME fái það hlutverk að veita og afturkalla starfsleyfi á fjármálamarkaði í stað ráðuneytisins, en FME er nú umsagnaraðili um veitingu starfsleyfa og gerir tillögu um afturköllun starfsleyfa. Ekki er víst að þessi breyting myndi hafa í för með sér aukin verkefni.
          Alþjóðagjaldeyrissjóðurin telur að styrkja þurfi reglusetningarhlutverk FME á fjármálamarkaði.
          Gerðar eru athugasemdir við gildandi lög og reglur. Nefna má sem dæmi reglur um afskriftir og áhættuflokkun útlána.
          Lagt er til að FME auki hlutverk sitt í eftirliti með greiðslumiðlun og að verkaskipting milli Seðlabanka og FME verði skýrð.
    Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins koma fram afar sterk tilmæli um að fjölga þurfi starfsmönnum FME, til þess að það geti sinnt hlutverki sínu að fullu. Í heimsókn þeirra var lýst áformum um að fjölga starfsmönnum úr 24 í 28 á næstu mánuðum og hefur sú fjölgun gengið eftir. Í skýrslunni er sérstaklega lýst efasemdum um að hin kynntu áform um fjölgun séu fullnægjandi. Í skýrslunni segir orðrétt:
    „Deficiencies in implementation derive from a mix of reasons, mostly linked to the role of the FME and its size, which is too small to allow it to fully carry out all the necessary aspects of supervision. This is the case notwithstanding that certain economies and synergies have been derived from the fact that supervision of all types of financial institutions has been concentrated in a single, unified supervisory agency. The FME recognizes the need for additional resources and is in the process of adding a few more staff. But the scale of the planned expansion may be inadequate.
    There is a tendency among market participants to judge appropriateness of the relative size of the FME by other Nordic experiences. This would not appear to be a correct approach because special circumstances work against this comparison. First, regardless of the size of any given country, including Iceland, supervisory functions need to reach a critical size or mass to function effectively. Second, the FME is coping with a large learning and organizational problem given the newness of many of the tasks at hand, as well as the newness of the FME itself. This is taking place in a legislative and organizational framework less supportive than it could be, as noted previously. Finally, the special risks surrounding the Icelandic economy at this time underscore the need to implement consolidated supervision, as well as to strengthen off-site monitoring and the development of early warning indicators through more comprehensive and systematic data collection and analysis efforts, as a matter of priority.“

1.5    Gegnsæi í starfsemi fjármálafyrirtækja – breytt vinnubrögð.
    Sú þróun sem fjallað hefur verið um hér að framan gefur til kynna að verkefni Fjármálaeftirlitsins muni áfram aukast. Aukin umsvif fjármálaeftirlita er þó ekki eina úrræðið til að tryggja traustleika fjármálafyrirtækja og stöðugleika á fjármálamarkaði. Aukið gegnsæi (transparency) í starfsemi fjármálafyrirtækja skapar aðhald viðskiptamanna, eigenda og almennings.
    Í allri umræðu um þróun fjármálamarkaðar er lögð áhersla á þetta. Nefna má sem dæmi vinnu við endurskoðun á reikningsskilum á Evrópska efnahagssvæðinu og 3. stoð tillagna að nýjum reglum um eigið fé lánastofnana, sem Basel-nefnd um bankaeftirlit vinnur nú að.
    FME leggur áherslu á það í allri starfsemi sinni að stuðla að auknu gegnsæi í starfsemi fjármálafyrirtækja. Með því skapast aðhald frá fleirum en FME, sem á hinn bóginn dregur úr þörf á stækkun stofnunarinnar.

1.6     Þróun samskipta FME við fjármálafyrirtæki og viðskiptamenn þeirra.
1.6.1     Sýnileiki í starfsemi FME hefur áhrif.
    Fjármálaeftirlitið lítur á sig sem þátttakanda á íslenskum fjármálamarkaði. Í stefnu þess er lögð áhersla á uppbyggilegt aðhald með fjármálastarfsemi. Ljóst er að aukinn sýnileiki í starfsemi FME hefur áhrif á fjölda verkefna.
    Í þessu skyni hefur FME lagt áherslu á meira gegnsæi í störfum sínum, án þess að ganga á þann trúnað sem ríkja verður um málefni einstakra fyrirtækja og kveðið er á um í lögum. Þetta hefur FME gert með því að kynna starfsemi sína, með útgáfu ársskýrslu, ársfundi, þátttöku í ýmsum opinberum fundum og með því að senda fréttatilkynningar um almenn málefni er varða fjármálamarkað og starfsemi FME.
    Þá hefur FME byggt upp heimasíðu þar sem miðlað er upplýsingum. Þar birtir FME umræðuskjöl sem geyma drög að reglum og tilmælum sem FME er að vinna að og gefur öllum tækifæri á að koma að sjónarmiðum. Þá eru birt þar leiðbeinandi tilmæli, upplýsingar úr opinberum uppgjörum fjármálafyrirtækja og margt fleira.
    Með þessu reynir FME að gera grein fyrir störfum sínum og stuðla að því að almenningur, fjármálafyrirtæki og önnur stjórnvöld geri sér sem besta grein fyrir starfi FME og stöðu fjármálamarkaðar hverju sinni.
    Þessu til viðbótar hefur þróunin orðið sú að umfjöllun fjölmiðla um málefni fjármálamarkaðar hefur aukist gífurlega og haldist í hendur við aukna þátttöku almennings á verðbréfamarkaði.
    Þessi sýnileiki FME hefur haft þau áhrif að eftirspurn eftir liðsinni þess hefur aukist eins og eftirfarandi mynd gefur til kynna:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    


1.6.2     Samskipti við viðskiptamenn fjármálafyrirtækja.
    Neytendaþjónusta á fjármálamarkaði er af skornum skammti annars staðar og því hefur FME talið það hlutverk sitt að reyna að sinna málum af þessu tagi. Mikilvægur þáttur í því er að FME vistar tvær úrskurðarnefndir á fjármálamarkaði, úrskurðarnefnd í vátryggingamálum og úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki, en þangað er hægt að vísa málum er varða lánastofnanir og fyrirtæki í verðbréfaþjónustu. Engin slík nefnd er starfandi á sviði lífeyrismála.
    FME telur það ekki hlutverk sitt að greiða úr réttarágreiningi viðskiptamanna við fjármálafyrirtæki. Stofnunin hefur hins vegar tekið til athugunar innkomin mál sem fela í sér almenna eftirlitshagsmuni, þ.e. vísbendingu um að lögum og reglum eða sjónarmiðum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti sé ekki fylgt.
    Þá fer töluverður tími sérfræðinga, einkum lögfræðinga eftirlitsins, í að svara símtölum og fyrirspurnum viðskiptamanna og almennings. Erfitt er að meta hvert vægi þessarar vinnu er, en ljóst er að aukin kynning á FME hefur aukið verulega samskipti viðskiptamanna og almennings við FME.

1.6.3     Þróun eftirlitsins sjálfs.
    Í kafla 1.1 var fjallað um þróun fjármálamarkaðar almennt. Ljóst er að flóknari og fjölþættari starfsemi á fjármálamarkaði kallar á aukin samskipti fjármálafyrirtækja við FME. Mikil þróun í starfsemi fjármálafyrirtækja reynir mjög á gildandi lög og reglur og túlkun þeirra. Þar hefur FME mikilvægu hlutverki að gegna.
    Þá er ljóst að FME hefur á liðnum missirum styrkt sig verulega í eftirliti og efnistökum. Áhrif þess eru að fleiri athugunarverð mál koma fram í dagsljósið að frumkvæði FME. Þannig hefur uppbygging markaðsvaktar þau áhrif að FME hefur betri yfirsýn yfir markaðinn og verður vart við fleiri meinbugi í starfsemi á fjármálamarkaði.
    Styrking FME hefur enn fremur þau áhrif að fjármálafyrirtæki leita í auknum mæli til stofnunarinnar til að bera undir hana áform um nýjar leiðir í fjármálaþjónustu. Þannig er þróunin sú að fyrirtækin óska eftir sjónarmiðum FME fyrir fram fremur en að fá athugasemdir þegar þjónustan hefur þegar verið boðin. Þessi þróun er jákvæð að flestu leyti, en má þó ekki ganga svo langt að FME stýri fjármálamarkaðnum í raun.
    Í eftirliti FME hefur það valdið talsverðum erfiðleikum að reglubundin gagnaskil fjármálafyrirtækja hafa í heild ekki verið í nægilega góðu horfi. FME hefur því þurft að verja miklum tíma í að innheimta skýrslur, sem meðal annars hefur leitt af sér að ekki hefur reynst unnt að skipuleggja nægilega vel vinnu við skráningu og greiningu gagna, eða útgáfu á samandregnu efni. FME hefur nú fengið sterkari heimildir til að beita dagsektum og hefur reglugerð þar að lútandi verið gefin út nýlega. Brýnt er að koma þessum málum í fullnægjandi horf.

2.        Innri þættir sem hafa áhrif á mat á starfsmannafjölda.
2.1     Þróun starfsmannafjölda hingað til.

    Í upphafi ársins 1999, þegar FME tók til starfa, voru starfsmenn 23 í tæplega 22 stöðugildum. Þegar mest var störfuðu í bankaeftirliti Seðlabanka Íslands og Vátryggingaeftirlitinu 27 starfsmenn í tæplega 26 stöðugildum.
    Á miðju ári 2000 hafði starfsmönnum fjölgað í 25 starfsmenn í 23 stöðugildum og á miðju þessu ári hefur starfsmönnum fjölgað í 27 starfsmenn í tæplega 26 stöðugildum. Frá fyrsta júlí 2001 hafa 3 starfsmenn verið ráðnir til starfa og einn starfsmaður látið af störfum.
    Hér að framan eru ekki taldir tveir starfsmenn, annar ráðinn í sérstakt verkefni og hinn sem unnið hefur afgreiðslu- og ritarastörf með skóla. Þá hefur FME í litlum mæli fengið til liðs við sig utanaðkomandi sérfræðinga til að vinna sérstök verkefni á þess vegum. Einnig hefur FME ráðið til sín sumarstarfsmenn sem unnið hafa í afleysingum eða að sérstökum verkefnum.
    Af þeim 27 starfsmönnum sem starfandi voru í lok júní hafa 19 starfsmenn starfað við Fjármálaeftirlitið frá stofnun þess. Því hafa 8 starfsmenn komið nýir til starfa á starfstíma stofnunarinnar, 2 árið 1999, 4 árið 2000 (þar af 2 í lok ársins) og 2 fyrir mitt þetta ár. Starfsmenn sem hætt hafa voru 5 talsins á sama tímamarki. Þrír þeirra sem komu til starfa við stofnun Fjármálaeftirlitsins hafa horfið til annarra starfa, auk tveggja starfsmanna til viðbótar, sem ráðnir voru á starfstíma eftirlitsins.
2.2     Starfsmannavelta.
    Nokkur starfsmannavelta hefur orðið í Fjármálaeftirlitinu undanfarin missiri. Á árinu 1999 var engin starfsmannavelta, 14,3% á árinu 2000 (þ.m.t. 2 starfsmenn sem hófu störf á sama ári) og 3,4 % á fyrri hluta árs 2001.
    Til samanburðar má nefna að samkvæmt tölum frá IMG var starfsmannavelta í sérfræðistörfum í íslenskum fyrirtækjum um 9,5% á árinu 2000 en 17,6% í skrifstofustörfum. Starfsmannaveltan í FME á því ári var því sambærileg við hina almennu þróun.
    Erfitt er að spá fyrir um hve margir starfsmenn hverfa á braut, í hlutfalli af starfsmannafjölda, í lítilli stofnun þar sem hlutfallslegt vægi hvers starfsmanns er mikið. Ef veltan mun fylgja almennri þróun á markaðnum má ætla að nokkuð dragi úr henni. Þó þykir varlegt að áætla að veltan nemi á bilinu 10–15%.

2.3     Skipulag og úrlausn verkefna.
    Rétt er í þessu sambandi að gera stutta grein fyrir skipulagi Fjármálaeftirlitsins og vinnulagi við úrlausn verkefna.
    Skipulag Fjármálaeftirlitsins byggist á því að unnt sé að nýta þekkingu og reynslu starfsmanna í þeim verkefnum þar sem þeirra er þörf hverju sinni. Ekki er um deildaskiptingu að ræða, heldur er leitast við að byggja upp þekkingu og reynslu á öllum sérfræðisviðum eftirlitsins jafnframt því sem yfirsýn yfir einstök svið fjármálamarkaðar er tryggð. Flestir sérfræðingar starfa aðallega að eftirliti á tilteknu sviði fjármálamarkaðar þar sem þekking og reynsla viðkomandi nýtist best. Hins vegar er reynt að tryggja að unnt sé að nýta þekkingu viðkomandi í öðrum verkefnum. Með því verða vinnubrögð stofnunarinnar sjálfrar samræmdari, auk þess sem með þessu tekst oft að draga æskilega reynslu og vinnubrögð á milli sviða fjármálamarkaðarins.
    Verkefni eru unnin í sérstöku málaskráningarkerfi, sem jafnframt er nýtt til verkstjórnar. Sérhvert viðfangsefni er skráð á málsnúmer og fær einn ábyrgðarmann, sem alla jafna er sá sérfræðingur sem fyrir fram má ætla að vinni meginhluta verksins. Þá eru aðrir starfsmenn skráðir á málið, sem vinna að málinu undir yfirumsjón ábyrgðarmanns. Þeir starfsmenn hafa einnig möguleika á að hafa yfirsýn yfir framvindu verkefnisins.

2.4     Starfsfólk FME – blöndun þekkingar og reynslu.
    Á miðju þessu ári störfuðu hjá FME 27 starfsmenn eins og áður sagði. Menntun þeirra er sem hér segir:
    11    starfsmenn með viðskiptafræðilega menntun, þar af 7 viðskiptafræðingar, 1 endurskoðandi, 1 hagfræðingur og 2 samvinnuskólagengnir.
     7     lögfræðingar, að forstjóra meðtöldum. Þegar hefur verið ráðið í tvö stöðugildi til viðbótar.
     1     tölfræðingur.
     2     kerfisfræðingar.
     8    með aðra menntun.
    Á sama tímamarki voru 8 af 27 starfsmönnum með minni en tveggja ára starfsreynslu í FME. Áætla má að í lok ársins 2002 verði tæplega helmingur starfsmanna með minni en tveggja ára starfsreynslu úr Fjármálaeftirlitinu.
    Mikilvægt er í því starfi sem FME vinnur að þar sé mikil starfsreynsla innanbúðar. Á hinn bóginn er stór hluti þeirra starfsmanna sem ráðnir hafa verið í tíð FME með framhaldsmenntun eða starfsreynslu annars staðar frá sem eftirsóknarverð er fyrir FME. Þannig hefur FME viðað að sér reynslu úr öðrum eftirlitsstofnunum, fjármálafyrirtækjum, dómskerfinu, lögmennsku og víðar. Verði áframhald á því og starfsmannavelta helst eðlileg verður að ætla að um jákvæða þróun sé að ræða.
    Starfsmenn má greina á fleiri en einn hátt. Ein leið er að skilgreina hópa eftir eðli verkefnanna sem unnin eru. Þetta má m.a. gera með eftirfarandi hætti:
          Lögfræðihópur, sem annast mótun og túlkun laga og reglna, veigamikinn hluta samskipta við viðskiptamenn fjármálafyrirtækja og eftirlitsverkefni af lagalegum toga. Lögfræðingar eru nú 7 eins og áður sagði.
          Eftirlit á staðnum (on-site) er veigamikill þáttur í eftirlitinu. Er þá farið á vettvang og gerðar ítarlegar athuganir á einstökum þáttum fjármálastarfsemi. Segja má að 2–3 sérfræðingar sinni þessu nú. Brýnt er að styrkja frekar þetta starf.
          Eftirlit á grundvelli reglubundinna gagna (off-site) lýtur að söfnun upplýsinga, skráningu þeirra og útgáfu, auk greiningar. Greining gagnanna fellur þó eðli máls samkvæmt einnig undir vinnu þeirra sem fara á vettvang. Ætla má að 4 starfsmenn sinni þessu nú.
          Eftirlit með áhættustýringu og innra eftirliti er mikilvægur þáttur eftirlitsins, þar sem lögð er áhersla á að ganga úr skugga um að stjórnendur séu í stakk búnir að stýra áhættutöku og bregðast við mismunandi aðstæðum. Um 2–3 starfsmenn sinna þessu nú.
          FME er að byggja upp sérstaka markaðsvakt sem lýtur að því að hafa yfirsýn yfir verðbréfamarkaðinn í víðtækum skilningi. Þessi starfsemi snertir öll svið fjármálamarkaðar. Þannig styrkir hún eftirlit með afkomu lánastofnana, fjárfestingum lífeyrissjóða, starfsháttum fyrirtækja og verðbréfasjóða o.fl. Um 2–3 starfsmenn sinna þessu nú.
          Um 5–6 starfsmenn sinna skrifstofuhaldi, málaskráningu, fjárhagslegum rekstri, umsjón tölvukerfa, þjónustu við úrskurðarnefndir, auk þess sem þeir koma að eftirlitsverkefnum.
    FME hefur ekki sett sér sérstaka stefnu um jafnan rétt kvenna og karla, en leggur áherslu á að ráða til sín hæfasta starfsfólk sem völ er á, óháð kynferði. Um mitt þetta ár voru starfandi við eftirlitið 12 konur og 15 karlmenn.

2.5     Nýting starfsfólks.
    Á fyrstu starfsárum FME hefur verið leitast við að ná fram hagræðingu innan stofnunarinnar með því að nýta eins og kostur er þá þekkingu sem fyrir er. Eins og fram kemur í kafla 2.1 fjölgaði starfsmönnum lítið fram á þetta ár þrátt fyrir öra þróun fjármálamarkaðar og aukin verkefni. Gerðar hafa verið breytingar á verkaskiptingu milli starfsmanna og ráðningar hafa miðað við það að fylla sem best upp í þau skörð sem myndast hafa. Nú er það mat FME að ekki verði lengra gengið í innri skipulagningu og nýtingu starfsfólks án þess að stækka hópinn.

2.6    Skipting vinnu á eftirlitsskylda aðila og skipting kostnaðar af eftirlitinu á eftirlitsskylda aðila.
    Eftirlitsskyldir aðilar standa straum af kostnaði við rekstur FME í samræmi við ákvæði laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Í 5. gr. þeirra laga er ákveðinn álagningarstofn og álagningarhlutfall á einstaka flokka eftirlitsskyldra aðila. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna skal FME leggja árlega mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila skv. 5. gr.
    Skipting kostnaðarins milli flokka fjármálafyrirtækja gefur því nokkuð góða mynd af því hvernig störf FME skiptast milli mismunandi fyrirtækja. Gera verður þó þann fyrirvara að erfitt er að skilja á milli einstakra flokka. Nefna má sem dæmi að viðskiptabankar hafa ekki einungis með höndum hefðbundna bankastarfsemi, heldur annast líka verðbréfaþjónustu.
    Skipting kostnaðar af rekstri eftirlitsins árið 2000 var eftirfarandi:
Lánastofnanir 49,0%
Vátryggingafélög og vátryggingamiðlarar 24,0%
Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu, verðbréfasjóðir og rekstrarfélög þeirra 9,0%
Kauphallir 0,5%
Lífeyrissjóðir 15,5%
Aðrir 2,0%
    Svipuð kostnaðarskipting hefur haldist þau þrjú ár sem eftirlitsgjald hefur verið lagt á. Það hefur verið mat FME hingað til að þessi skipting sé í samræmi við skiptingu verkefna innan stofnunarinnar.

2.7     Hversu auðvelt er að ráða nýtt starfsfólk?
    Fjármálaeftirlitið hefur lagt á það ríka áherslu að vanda val nýrra starfsmanna. FME hefur keypt þjónustu ráðningarstofu í þessu skyni og um leið leitast við að markaðssetja sig sem eftirsóknarverðan vinnustað. Áhersla hefur verið lögð á að skapa gott vinnuumhverfi þar sem m.a. er lögð áhersla á fjölbreytni í starfi og símenntun.
    Viðbrögð við auglýsingum FME þar sem störf eru boðin benda til þess að FME hafi nokkuð sterka stöðu á vinnumarkaði að þessu leyti. Þannig hefur FME reynst í meginatriðum auðvelt að ráða til sín hæft starfsfólk.
    Eins og fram er komið hefur nokkur velta verið í starfsliði FME á síðustu mánuðum. Eðlileg velta samfara fjölgun starfsfólks reynir mjög á innviði lítillar stofnunar eins og FME. Í mörgum tilvikum er um að ræða sérfræðistörf þar sem reynsla er mikilsverð. Nýr starfsmaður þarf svigrúm og aðstoð til að ná tökum á starfi sínu og ekki er óeðlilegt að þetta taki hann nokkra mánuði. Reynsla af skyldum störfum eða framhaldsnám getur þó augljóslega flýtt slíkri aðlögun.
    Með þetta í huga verður að telja að takmörk séu fyrir því hversu ört sé hægt að taka við nýju starfsfólki í eftirlitinu. Setja má fram viðmiðun um að hámarksfjölgun liggi í kringum 1 starfsmann á eins til eins og hálfs mánaðar fresti á 1–2 ára tímabili.

3.        Mat á starfsmannaþörf.
3.1    Er þörf á fjölgun starfsmanna?

    Það er erfiðleikum bundið að meta hvaða áhrif þróun á fjármálamarkaði, þróun löggjafar og þróun eftirlitsins sjálfs hefur á starfsmannaþörf FME. Þau atriði sem rakin eru í kafla 1 hér að framan benda flest til þess að verkefni FME muni halda áfram að aukast á næstu missirum, hvort sem litið er til lengri tíma eða skemmri tíma.
    Þegar horft er til skemmri tíma virðist þörf á fjölgun starfsmanna augljós. Nefna má nokkur atriði í því sambandi:
          Fyrir liggur að starfsmönnum hefur ekki fjölgað í takt við vöxt fjármálafyrirtækja, breytingar á fjármálastarfsemi og fjölgun verkefna sem því fylgja.
          Löggjafinn hefur fengið FME aukin verkefni með nýlegum lagabreytingum.
          Eftirspurn fjármálafyrirtækja og viðskiptamanna þeirra eftir liðsinni FME hefur aukist í takt við aukna kynningu á FME og aukin verkefni.
          Úrbætur á ýmsum þáttum í lögum og reglum og starfsemi eftirlitsins sjálfs eru brýnar, eins og tilvitnuð skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sýnir vel.
    Þegar horft er til lengri tíma má nefna fleiri atriði:
          Fyrirsjáanleg þróun fjármálamarkaðar bendir eindregið til þess að til lengri tíma muni verkefni FME og kröfur til þess aukast. Nægir að nefna útrás fjármálafyrirtækja og sífellda þróun í átt til flóknari og margþættari starfsemi þar sem reynir á mörk laga og reglna.
          Fyrirhugaðar og þegar ákveðnar breytingar á lögum og reglum, sem reifaðar eru hér að framan, benda einnig í þessa átt. Nefna má sem dæmi að breytingar á eiginfjárreglum lánastofnana munu á næstu árum hafa í för með sér veigamiklar breytingar á eftirliti og auknar kröfur til fjármálaeftirlita.
          Aukinn sýnileiki Fjármálaeftirlitsins eykur eftirspurn fjármálafyrirtækja og viðskiptamanna þeirra. Einnig bendir allt til að styrking eftirlitsins leiði af sér aukna eftirspurn fjármálafyrirtækja eftir liðsinni á undirbúningsstigi, t.d. þegar ný þjónusta er boðin.
    Eins og fram hefur komið er brýnt að nota allar leiðir til að nýta þekkingu og reynslu starfsfólks sem best. Telja verður að tæpast verði með góðu móti gengið lengra í þeim efnum með óbreyttum fjölda starfsfólks. Bætt gagnaskil fjármálafyrirtækja gætu þó skapað svigrúm fyrir aukna nýtingu, en slök gagnaskil eru kostnaðarsöm fyrir eftirlitið. FME telur enn fremur að aukið gegnsæi í starfsemi fjármálafyrirtækja geti dregið úr þörf á fjölgun starfsmanna til lengri tíma ef vel er á málum haldið. Hefur FME skilgreint aukið gegnsæi sem áhersluatriði næstu missira, sbr. ársskýrslu sem gefin var út á síðasta ári.

3.2     Mat til skamms tíma.
    Með hliðsjón af framangreindum forsendum hefur FME metið þörf á fjölgun starfsfólks til loka ársins 2002.
    Frá 1. júlí 2001 til loka árs 2002 áætlar FME að starfsmönnum fjölgi úr 27 starfsmönnum (tæplega 26 stöðugildi) í 33 starfsmenn (tæplega 32 stöðugildi), eða um 6 starfsmenn. Í áætluninni er gert ráð fyrir um 10% starfsmannaveltu á tímabilinu. Samkvæmt áætluninni er því gert ráð fyrir að ráðnir verði 10 starfsmenn á tímabilinu.
    Þegar hefur einn lögfræðingur látið af störfum á tímabilinu. Enn fremur hafa þrír lögfræðingar verið ráðnir til starfa. Einn þeirra mun einkum styrkja markaðsvakt og eftirlit á verðbréfasviði, annar er ráðinn tímabundið til að sinna verkefnum er varða aðlögun fjármálafyrirtækja að nýlegum tilmælum eftirlitsins um eigin reglur fjármálafyrirtækja. Þriðji lögfræðingurinn styrkir eftirlit með vátryggingastarfsemi og kemur í stað þess sem hvarf af vettvangi.
    Til loka þessa árs er áætlað að ráða tvo nýja sérfræðinga með viðskiptafræðilega menntun sem nýtist annars vegar í eftirlit á staðnum og hins vegar í utanumhald og greiningu gagna. Á næsta ári er gert ráð fyrir að tveir sérfræðingar til viðbótar verði ráðnir með viðskiptafræðilega menntun til sömu verkefna og hér voru talin. Með þessu hyggst FME styrkja verulega eftirlit á staðnum og eftirlit á grundvelli reglubundinna gagnaskila.
    Eins og áður sagði er enn fremur eðlilegt að gera ráð fyrir nokkurri starfsmannaveltu. Þannig má gera ráð fyrir því að ráða verði í stað þriggja starfsmanna sem kynnu að láta af störfum til viðbótar við þann sem þegar hefur ákveðið að láta af störfum á tímabilinu.
    FME telur að brýnt væri að fjölga starfsmönnum meira á þessu tímabili en hér er áætlað. Ekki þykir hins vegar raunhæft að ætla að meiri fjölgun sé framkvæmanleg á svo stuttum tíma, eða fjölgun um einn sérfræðing á 7 vikna fresti, að meðaltali.

3.3     Mat til lengri tíma.
    Framangreind áætlun til loka ársins 2002 er að mati FME ófullnægjandi til lengri tíma. Ljóst er að hinar nýju eiginfjárreglur Basel-nefndar um bankaeftirlit munu einar og sér þýða nokkra fjölgun fyrir árið 2005, með áherslu á greiningu og áhættustýringu. Þetta ræðst þó af því hvort og í hve miklum mæli íslenskar lánastofnanir velja sér flóknari matskerfi.
    Þá gefur fyrirsjáanleg þróun, eins og henni er lýst hér að framan, til kynna að styrkja þurfi enn frekar markaðsvakt, auk þess sem fyrirhuguð fjölgun í eftirliti á grundvelli reglubundinna gagnaskila (off-site) er ekki fullnægjandi til lengri tíma litið.
    Með hliðsjón af framangreindum forsendum má áætla að þörf sé á nokkurri fjölgun starfsmanna á næstu árum eftir 2002.
    Rétt er að ítreka að langtímamat á starfsmannaþörf er mikilli óvissu háð. Þannig kynnu ytri aðstæður, svo sem breytt skipulag eftirlits innan Evrópska efnahagssvæðisins, að hafa veruleg áhrif á áætlanir af þessu tagi.


Viðauki 1.

(Fjármálaeftirlitið 8. ágúst. Minnisblað.)

Breytingar á lögum og reglum á starfstíma Fjármálaeftirlitsins.

    Íslenskur fjármálamarkaður hefur stækkað ört á síðustu árum og samfara því hefur löggjafinn sett fjölda nýrra laga og reglna sem gilda um fjármálamarkaðinn. Samfara setningu nýrra laga og reglna á fjármálamarkaði hefur eftirlitsstarfsemi Fjármálaeftirlitsins aukist á öllum sviðum fjármálamarkaðar. Hér á eftir verður farið yfir nýjustu lagabreytingar þar sem veitt verður stutt yfirlit yfir þær lagagreinar sem hafa aukið við skyldur Fjármálaeftirlitsins og starfsfólk þess hvað varðar eftirlit með eftirlitsskyldum aðilum.

1. Almennt.
    Lög nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Breytingar:
    Lög nr. 11/2000: Tilgangur laganna var að tryggja Fjármálaeftirlitinu betri aðgang en áður að gögnum og upplýsingum frá eftirlitsskyldum aðilum. Jafnframt voru lagðar til auknar heimildir til eftirlits með fjármálastarfsemi á vegum viðskiptabanka og sparisjóða sem stunduð er utan viðkomandi fyrirtækis og fellur ekki undir starfsleyfisskylda starfsemi.
    Reglugerð nr. 507/2000, um kærunefnd samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Reglugerð sett á grundvelli laga nr. 87/1998.
    Lög nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Tilgangur laganna er að mæla fyrir því að eftirlitsskyldir aðilar samkvæmt lögunum skuli standa straum af rekstri Fjármálaeftirlitsins. Eftirlitsgjaldið er innheimt af Fjármálaeftirlitinu.
    Lög nr. 69/2001 um breytingu á lagaákvæðum um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum: Með lagafrumvarpinu hefur eftirlit Fjármálaeftirlitsins með eigendum virkra eignarhluta í lánastofnunum, fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu og vátryggingafélögum verið aukið. Fjármálaeftirlitinu er samkvæmt lögunum falið að kanna ítarlega hæfi allra þeirra einstaklinga og lögaðila sem hafa í hyggju að eignast virka eignarhluti í viðskiptabönkum, sparisjóðum, öðrum lánastofnunum en viðskiptabönkum og sparisjóðum, fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu og vátryggingafélögum.

2. Lánamarkaður.
    Lög nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði.
    Breytingar:
    Lög nr. 11/2000: Starfsheimildir Fjármálaeftirlitsins styrktar, sbr. umfjöllun hér að framan.
    Lög nr. 48/2000: 1. gr. (sbr. núverandi 44. gr.) er viðskiptabönkum og sparisjóðum heimilað að taka að sér póstþjónustu fyrir hönd aðila sem leyfi hefur til að veita slíka þjónustu. Til slíkrar starfsemi samkvæmt lögunum þarf samþykki Fjármálaeftirlitsins.
    Lög nr. 69/2001 um breytingu á lagaákvæðum um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum: Varðar eftirlit Fjármálaeftirlitsins með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum sbr umfjöllun að ofan.
    Lög nr. 71/2001: 3. gr. (sbr. núverandi 37. gr.) Samkvæmt greininni getur fundur stofnfjárfesta með vissum meiri hluta samþykkt að breyta sparisjóð í hlutafélag að fengnu samþykki ráðherra og umsögn Fjármálaeftirlitsins.
    Lög nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.
    Breytingar:
    Lög nr. 11/2000: Starfsheimildir Fjármálaeftirlitsins styrktar, sbr. umfjöllun hér að framan.
    Lög nr. 69/2001 um breytingu á lagaákvæðum um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum: Varðar eftirlit Fjármálaeftirlitsins með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum sbr umfjöllun að ofan.
    Reglur um mat á áhættugrunni við útreikning á eiginfjárhlutfalli lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu nr. 348/1996.
     Breytingar:
    Reglur nr. 275/1999: Breyting á ákvæði um tíðni skýrsluskila verðbréfamiðlana til Fjármálaeftirlitsins.

3. Verðbréfamarkaður.
    Lög nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti
     Breytingar:
    Lög nr. 11/2000: Starfsheimildir Fjármálaeftirlitsins styrktar, sbr. umfjöllun hér að framan.
    Lög nr. 99/2000: Helstu breytingar er varða starfsemi fjármálaeftirlitsins:
    5. gr. (sbr. núverandi 11. gr. vvl.) Þar er kveðið svo á að starfsmenn fyrirtækis í verðbréfaþjónustu, sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti með verðbréf skv. 8. og 9. gr., hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum.
    Í tengslum við veitingu starfsleyfis og jafnskjótt og breytingar verða ber fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um starfsmenn skv. 1. mgr. 11. gr. vvl. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.
    6. gr. (sbr. núverandi 15. gr. vvl.) Þar eru auknar ýmsar kröfur á fyrirtæki í verðbréfaþjónustu um að þau komi í veg fyrir hagsmunaárekstra með skýrum aðskilnaði einstakra starfssviða þeirra. Fjármálaeftirlitið skal staðfesta reglur fyrirtækjanna sem miða að þessu.
    8. gr. (sbr. núverandi 20. gr. vvl.) Þar eru lagðar á breytingar varðandi skyldur að fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skuli vegna eigin viðskipta með verðbréf og vegna viðskipta eigenda virkra eignarhluta skv. 12. gr., stjórnenda, starfsmanna og maka framangreindra aðila meðal annars gæta þess að:
     1.      að fyllsta trúverðugleika fyrirtækisins sé gætt,
     2.      að ýtrustu hagsmuna ótengdra viðskiptavina sé gætt,
     3.      að fullur trúnaður ríki gagnvart ótengdum viðskiptavinum,
     4.      að tryggt sé að viðskiptin stangist ekki á við IV. kafla þessara laga.
    Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skulu setja sér reglur um viðskipti skv. 1. mgr. 20. gr. og skulu þær staðfestar af Fjármálaeftirlitinu. Fyrirtæki ber að gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir frávikum frá ákvæðum reglnanna.
    Lög nr. 163/2000: Helstu breytingar er varða starfsemi Fjármálaeftirlitsins varðar eftirfarandi lagagreinar:
    D-liður 6. gr. (sbr. núverandi 28. gr.) Skv. d-lið 6. gr. skulu almenn útboð verðbréfa fara fram fyrir milligöngu verðbréfafyrirtækja skv. 8. gr. vvl. og skal Fjármálaeftirlitið hafa umsjón með athugun á útboðslýsingum.          F-liður 7. gr. (sbr. núverandi 35. gr.) Skv. f-lið 7. gr. skal Fjármálaeftirlitið halda skrá yfir innherja skv. a-lið og 1. mgr. b-liðar 5. tölul. 2. gr. í félögum sem skráð eru eða hafa óskað skráningar í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði. Félögin skulu senda Fjármálaeftirlitinu ýmsar upplýsingar skv. 35. gr. vvl. í því formi sem það kveður á um.
    Fjármálaeftirlitinu er falin heimild til að kveða nánar á um upplýsingar sem veittar skulu skv. 1. mgr. 35. gr. vvl. Endurskoðaðan lista yfir innherja skal senda Fjármálaeftirlitinu eigi sjaldnar en á sex mánaða fresti. Upplýsingar um fruminnherja í innherjaskrá Fjármálaeftirlitsins skulu gerðar opinberar með þeim hætti sem Fjármálaeftirlitið ákveður.
    H-liður 7. gr.   (sbr. núverandi 37. gr.) Skv. h-lið 7. gr. skal stjórn félags sem skráð er í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði, eða félags sem óskað hefur eftir skráningu í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði, setja reglur um meðferð trúnaðarupplýsinga, viðskipti innherja og senda reglurnar Fjármálaeftirlitinu til staðfestingar.
    Reglugerð um útboð verðbréfa nr. 477/2001. Kveðið nánar á um almennt útboð.
    Lög nr. 69/2001 um breytingu á lagaákvæðum um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum: Varðar eftirlit Fjármálaeftirlitsins með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum, sbr. umfjöllun að ofan.
    Lög nr. 10/1993, um verðbréfasjóði.
     Breytingar:
     Lög nr. 17/1999: Helstu breytingar er varða starfsemi fjármálaeftirlitsins:
    4. gr. (sbr. núverandi 27. gr. laganna.) Skv. 4. gr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að setja reglur þar sem kveðið er á um heimild verðbréfasjóðs skv. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 10/1993, eða einstakra deilda hans, til að gera eða eiga viðskipti með fjármálalega framvirka samninga og valréttarsamninga sem ekki eru skráðir á skipulegum verðbréfamarkaði.
    Lög nr. 34/1998, um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.
     Breytingar:
    Lög nr. 11/2000: Starfsheimildir Fjármálaeftirlitsins styrktar, sbr. umfjöllun hér að framan.
    Reglur um mat á áhættugrunni við útreikning á eiginfjárhlutfalli lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu nr. 348/1996. Reglur nr. 275/1999: Breyting á ákvæði um tíðni skýrsluskila verðbréfamiðlana til Fjármálaeftirlitsins.
    Reglugerð nr. 506/2000, um próf í verðbréfaviðskiptum. Reglugerð sett á grundvelli laga nr. 13/1996. Felldi úr gildi reglugerð nr. 301/1999.
    Reglugerð nr. 508/2000, um ábyrgðartryggingu verðbréfamiðlana. Reglugerð sett á grundvelli laga nr. 13/1996. Felldi úr gildi reglugerð nr. 361/1993.
    Reglugerð nr. 432/1999, um yfirtökutilboð. Reglugerð sem sett er á grundvelli laga nr. 34/1998.
    Reglugerð nr. 433/1999, um upplýsingaskyldu útgefanda, kauphallaraðila og eigenda verðbréfa sem skráð eru í kauphöll. Reglugerð sem sett er á grundvelli laga nr. 34/1998.

4. Lífeyrissjóðir.
    Lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
     Breytingar:
    Lög nr. 11/2000: Starfsheimildir Fjármálaeftirlitsins styrktar, sbr. umfjöllun hér að framan.
    Lög nr. 56/2000: Helstu breytingar er varða starfsemi fjármálaeftirlitsins:
    1. gr. (sbr. 1. málsl. 28. gr. núverandi laga) Skv. 1. gr. er lögfest að fjármálaráðherra sé ekki heimilt að staðfesta breytingar á samþykktum einstakra lífeyrissjóða fyrr en að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins um breytingarnar.
    7. gr. (sbr. 38. gr. núverandi laga) Skv. 7. gr. er lögð aukin tilkynningarskylda á lífeyrissjóði vegna sölu eigna sem þeir hafa yfirtekið til að tryggja fullnustu kröfu. Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að slíkar eignir séu seldar eftir tiltekinn frest.
    Reglugerð nr. 698/1998, um ráðstöfun iðgjalds lífeyrissparnaðar og viðbótartryggingarverndar.
     Breytingar:
    Reglugerð nr. 9/1999: Samningur um lífeyrissparnað sem gerður er við viðskiptabanka eða sparisjóð skal kveða á um innlegg á bundinn innlánsreikning.
    Reglur nr. 55/2000, um ársreikninga lífeyrissjóða. Nýjar reglur í stað reglna um ársreikninga nr. 614/1997. Reglur samræmdar lögum nr. 129/1997.

5. Vátryggingamarkaður.
    Lög nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi.
     Breytingar:
    Lög nr. 11/2000: Starfsheimildir Fjármálaeftirlitsins styrktar, sbr. umfjöllun hér að framan.
    Lög nr. 97/2000: Lögfest tilskipun 1998/78 um viðbótareftirlit með vátryggingafélögum í fyrirtækjahópi á vátryggingasviði.
    5. gr. (sbr. 54. gr. núverandi laga).  Skv. 5. gr.  skal Fjármálaeftirlitið a.m.k. árlega kanna gjaldþol og greiðsluþol vátryggingafélaga á grundvelli ársreiknings fyrir næstliðið reikningsár og annarra nauðsynlegra gagna og upplýsinga um starfsemina.
    Fjármálaeftirlitið fylgist með viðskiptum vátryggingafélags við dóttur- og hlutdeildarfélög þess, félög sem hafa yfirráð yfir eða eiga hlutdeild í vátryggingafélaginu og við önnur dóttur- og hlutdeildarfélög þeirra félaga. Einnig skal Fjármálaeftirlitið fylgjast með viðskiptum vátryggingafélags við einstaklinga sem eiga 20% hlut eða stærri í framangreindum félögum. Sérstaklega skal fylgjast með lánum, ábyrgðum og liðum utan efnahagsreiknings, efnahagsliðum sem myndað geta hluta af gjaldþoli, fjárfestingum, endurtryggingaviðskiptum og samningum um kostnaðarskiptingu. Árlega skulu vátryggingafélög skila Fjármálaeftirlitinu skýrslu um slík viðskipti eftir nánari ákvörðun þess.
    Lög nr. 69/2001 um breytingu á lagaákvæðum um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum: Varðar eftirlit Fjármálaeftirlitsins með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum, sbr. umfjöllun að ofan.
    Reglugerð nr. 853/1999, um miðlun vátrygginga. Felldi úr gildi reglugerð nr. 351/1997. Kveðið á um miðlun vátrygginga, starfsskilyrði og starfshætti.
    Reglugerð nr. 350/1997, um prófnefnd vátryggingamiðlara, námskeið og próf til þess að mega stunda miðlun vátrygginga.
    Breytingar:
    Reglugerð nr. 643/2000: Breytingar er m.a. lutu að námsgreinum.
    Reglur nr. 85/1999, um hámark útjöfnunarskuldar vátryggingafélaga annarra en líftryggingafélaga og um útreikning þess.
    Aðlögun reglna að gildandi reglugerð um ársreikninga vátryggingafélaga. Felldu úr gildi reglur nr. 154/1997.

Viðauki 2.

(Viðskiptaráðuneytið 11. maí 2001.)


     Listi yfir samþykktar og væntanlegar tilskipanir
á sviði fjármálaþjónustu (viðauki IX í EES-samningi).

Þegar samþykktar tilskipanir sem eftir er að innleiða:
     1.      Rafeyrir (electronic money) – tvær tilskipanir.
     2.      Slit vátryggingafélaga (winding up of insurance undertakings).
     3.      Slit lánastofnana (winding up of credit institutions).
     4.      Ökutækjatryggingar (visiting motorists).

Tillögur framkvæmdastjórnar í þinglegri meðferð í ráðinu og þinginu sem gert er ráð fyrir að verði samþykktar sem tilskipanir á árinu 2001:
     1.      Peningaþvætti (money laundering) – breyting á tilskipun.
     2.      Fjarsala á sviði fjármálaþjónustu (distance marketing of financial services) – ný tilskipun.
     3.      Verðbréfasjóðir (UCITS) – tvær breytingatilskipanir.
     4.      Líftryggingatilskipun, heildarútgáfa (life assurance – codification) .
     5.      Verðbréfaviðskipti, heildarútgáfa (securities directive – codification).
     6.      Yfirtökutilboð (take-overbid) .
     7.      Mat á verðmæti skuldabréfa (accounting valuation rules).

Tillögur framkvæmdastjórnar í þinglegri meðferð í ráðinu og þinginu sem gert er ráð fyrir að verði samþykktar sem tilskipanir á árinu 2002:
     1.      Lífeyrissjóðir (occupational retirement provisions).
     2.      Gjaldþol líftryggingafélaga (solvency margin for life assurances).
     3.      Gjaldþol skaðatryggingafélaga (solvency margin for non-life assurances).
     4.      Vátryggingamiðlun (insurance mediation).

Nýjar tillögur að tilskipunum eða stærri skýrslur sem framkvæmdastjórnin hefur kynnt eða sem gert er ráð fyrir að hún kynni á árinu 2001:
     1.      Eiginfjárreglur lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu (capital requirements).
     2.      Eftirlit með fjármálasamsteypum (financial conglomerates).
     3.      Hugmyndir um breytingar á fjárfestingarþjónustutilskipun (investment services).
     4.      Stefnumörkun um rafræn viðskipti í fjármálaþjónustu (e-commerce in fin. services).
     5.      Markaðsmisnotkun (market abuse).
     6.      Samningsverð á milli landa (cross-border use of collateral).
     7.      Útboðslýsingar (prospectuses).
     8.      Upplýsingagjöf til kauphalla (regular reporting).
     9.      Stofnun verðbréfaviðskiptanefndar (securities committee).


Viðauki 3.
(Fjármálaeftirlitið júní 2001. Minnisblað.)

Yfirlit yfir ábendingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í FSAP-athugun.

    Stór þáttur í athugun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hófst í nóvember á síðasta ári var að kanna hvort regluverk á fjármálamarkaði og Fjármálaeftirlitið sjálft uppfyllti grunnreglur um árangursríkt bankaeftirlit, vátryggingaeftirlit og verðbréfaeftirlit sem alþjóðasamtök fjármálaeftirlita (Basel-Committee on Banking Supervision, IAIS og IOSCO) hafa sett fram. Samhliða grunnreglunum hafa samtökin mótað ítarlegri túlkunarreglur eða aðferðafræði (methodology).
    Meginvinna FME við athugunina fólst í undirbúningi hennar. Viðamiklum spurningalistum var svarað, auk þess sem starfsmenn FME unnu svokallað sjálfsmat (self-assessment), sem lá til grundvallar allri vinnu FSAP-hópsins. Mat FSAP-hópsins fór fram á grundvelli gagna um sjálfsmat FME.
    FSAP-hópurinn beindi sjónum sínum sérstaklega að lánakerfinu. Mat þeirra er að eiginfjárhlutföll séu of lág, auk þess sem eiginfjárhlutföllin sem sýnd eru séu ótraust vegna veikleika í regluverki, ekki síst að því er varðar afskriftir. Því þurfi að styrkja eftirlit með lánamarkaðinum, bæði eftirlit á staðnum og eftirlit á grundvelli reglulegrar gagnaöflunar. Jafnframt þurfi að fylgjast með útlánaáhættu í lánakerfi og í lífeyrissjóðum.
    Eftirfylgni við grunnreglur er sem hér segir að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins:

Basel-grunnreglur: 5 reglur uppfylltar, 15–16 að verulegu leyti, 2–3 reglur uppfylltar að litlu leyti og 2 ekki uppfylltar.
IAIS-grunnreglur: 7 reglur uppfylltar, sex uppfylltar að verulegu leyti, 3 uppfylltar að litlu leyti og 1 ekki.
IOSCO-grunnreglur: 15 reglur uppfylltar og 15 uppfylltar að hluta eða að verulegu leyti.

    Hér á eftir verður gerð stutt grein fyrir ábendingum og athugasemdum og í hvaða farvegi þær eru. Mörg atriðin eru atriði sem FME hafði þegar hugað að. Upptalning hér á eftir er ekki tæmandi.
Athugasemdir og ábendingar Forræði/
verksvið
Aðgerðir
Almennar athugasemdir og athugasemdir sem varða öll svið fjármálamarkaðar:
FME er of lítið til að sinna öllum verkefnum sem nauðsynlegt er. FME/fjárhags-ramminn Þegar fjölgað um þrjá. Áætlun um mannaflaþörf í undirbúningi.
Sjálfstæði* Löggjöf Verkaskipting ráðuneyta og FME í þróun. Huga má að ákvörðunarvaldi FME í viðbúnaðaráætlun.
Veiting/afturköllun starfsleyfa ekki á sömu hendi. Löggjöf Bankalaganefnd umræðuvettvangur.
Heimildir skortir fyrir FME til að gefa út reglur um fjármálamarkaðinn. Löggjöf Lagahefðir setja skorður. Almenn leiðbeinandi tilmæli til staðar.
Reglur um viðskipti starfsmanna skortir. FME/IVR Í frágangi.
Starfsmenn eru ekki verndaðir gegn mál-sóknum (einkum grunnregla í banka-eftirliti). Löggjöf
Aukin upplýsingaöflun og greining upplýsinga er nauðsynleg. FME Verkáætlun. Huga þarf að þessu í áætlun um mannaflaþörf.
Skýra þarf hlutverk í eftirliti með greiðslu-miðlun. FME/SÍ Er til umræðu.


Lánamarkaður:

Styrkja þarf reglur um afskriftir og áhættuflokkun útlána. FME/Reikn.-skilaráð Fylgst með vinnu GdC. Mótast í tengslum við útlánaathuganir.
Ekki heimild til að krefjast hærra eiginfjárhlutfalls. Löggjöf Bankalaganefnd umræðuvettvangur.
Efla þarf eftirlit á staðnum. FME Vægi on-site að aukast. Mismunandi hefðir.
Skilgreina þarf í lögum lán til venslaðra aðila. Löggjöf Bankalaganefnd umræðuvettvangur.
Skerpa þarf reglur og leiðbeiningar um eftirlit með hæfi stjórnenda og hluthafa. FME/löggjöf Verkáætlun.
Leiðbeiningar um innra eftirlit eða áhættustýringu hafa ekki verið settar. FME Verkáætlun.
Ekki þarf samþykki FME fyrir kaupum banka á eignarhlutum í lánastofnunum og ekki þarf að tilkynna fyrir fram um önnur kaup. Löggjöf Bankalaganefnd umræðuvettvangur.
Skerpa þarf reglur um eftirlit FME með starfsemi lánastofnana erlendis. Getur t.d. ekki hindrað að starfsemi hefjist erlendis. Löggjöf/
FME
Bankalaganefnd umræðuvettvangur.
FME getur ekki komið í veg fyrir arðgreiðslur eða látið skipta um stjórnendur eða virka eigendur. Löggjöf Bankalaganefnd umræðuvettvangur.
Getur ekki fellt úr gildi kosningu endurskoðanda. Löggjöf Bankalaganefnd umræðuvettvangur?
Skýrleika vantar í reglusetningu og eftirlit með Íbúðalánasjóði. Löggjöf/
FME
Skortir varúðarreglur.

Vátryggingamarkaður:
Móta þarf og styrkja eftirlit með innra eftirliti. FME Verkáætlun.
Skerpa þarf reglur og eftirlit með áhættustýringu, þ.á m. að því er varðar endurtryggingar og afskriftir. FME Verkáætlun.
Efla þarf eftirlit á staðnum. FME Verkáætlun.
Setja fram leiðbeiningar um mat á hæfi stjórnenda og virkra eigenda. FME Verkáætlun.
Huga þarf að innbyrðis tengslum í eignarhaldi á vátryggingafélögum. FME
Hætta er á skörun í eftirlitsskyldum FME, sem annars vegar á að fylgjast með traustleika vátryggingafélags og hins vegar að iðgjöld séu ósanngjörn í garð vátryggingataka. Löggjöf


Verðbréfamarkaður:

Ekki reglur eða eftirlit með öllum tegundum sjóða um sameiginlega fjárfestingu. Löggjöf Í vinnslu hjá IVR.
Skortur á reglum um viðvarandi skyldur óskráðra félaga sem farið hafa í útboð. IVR Reglugerð IVR.
FME skortir heimildir til að veita kauphöllum upplýsingar sem nauðsynlegar eru í eftirliti þeirra. Löggjöf


Lífeyrissjóðir:

Hámörk á fjárfestingar v. sjóðfélagalána. Löggjöf
Nánari ákvæði um heimildir til viðskipta með afleiður (spákaupmennsku). Löggjöf
Fjármálaeftirlitið veiti leyfi fyrir sameiningu lífeyrissjóða og afturkalli leyfi í tengslum við sameiningu (ekki formlegt leyfi nú). Löggjöf
Styrkja eftirlit með innri áhættustýringu, m.a. með auknu eftirliti á staðnum. Einnig aukið eftirlit með stjórnun. FME Verkáætlun.

*    Leyfisveiting og eftirlit ekki á sömu hendi.
    Samráðsnefnd dregur úr sjálfstæði FME að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
    Aðild ráðuneytis og Seðlabanka getur dregið úr sjálfstæði.

Fylgiskjal V.


Skýrsla Fjármálaeftirlitsins til viðskiptaráðherra um starfsemi eftirlitsins, sbr. 16. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
(Október 2001.)


1.    Yfirlit yfir starfsemina 1. júlí 2000 til 30. júní 2001.
    Eftirlit Fjármálaeftirlitsins felst einkum í reglulegri upplýsingasöfnun um fjárhagsleg atriði og í sértækum eftirlitsaðgerðum á starfsstöðvum fjármálafyrirtækja. Þá er úrvinnsla skriflegra fyrirspurna og erinda fjármálafyrirtækja og viðskiptamanna þeirra vaxandi þáttur í starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Leiðbeinandi tilmæli á grundvelli laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi eru nýr þáttur í starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Í þessum kafla er leitast við að upplýsa um starfsemi Fjármálaeftirlitsins á tímabilinu, án þess að fjalla sérstaklega um einstök mál. Fjallað er um verkefni á einstökum sviðum fjármálamarkaðar auk þess sem vikið er sérstaklega að áhættustýringu og innra eftirliti, athugun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) á íslenskum fjármálamarkaði, rekstri Fjármálaeftirlitsins og fleiru.

1.1        Eftirlit á einstökum sviðum fjármálamarkaðar.
1.1.1    Lánamarkaður.
    Undanfarin missiri hefur Fjármálaeftirlitið fylgst grannt með þróun eiginfjárhlutfalla og markmiðasetningu lánastofnana um eigið fé og útlán. Viðvarandi útlánaaukning fram á þetta ár og tilsvarandi lækkun eiginfjárhlutfalla hefur verið Fjármálaeftirlitinu áhyggjuefni og hefur það leitast við að sporna við þeirri þróun. Meðal annars hefur Fjármálaeftirlitið óskað eftir að lánastofnanir kynni því reglulega markmið sín um þróun eiginfjárhlutfalla og útlána, arðsemi og arðgreiðslur, og horfur varðandi afskriftaframlög. Fjármálaeftirlitið hefur fylgt þessu eftir með reglulegum fundum með stærri lánastofnunum í tengslum við birtingu á uppgjörum þeirra.
    Það er mat Fjármálaeftirlitsins að stærstu lánastofnanirnar hér á landi með virka áhættustýringu og innra eftirlit skuli stefna að því að eiginfjárhlutfall samkvæmt lögum sé á hverjum tíma að lágmarki 10%. Allmargar lánastofnanir hafa ekki þann styrk. Jafnframt hefur Fjármálaeftirlitið varað við því að víkjandi lán séu í ríkum mæli tekin til að uppfylla lágmarksskilyrði um eiginfjárhlutfall. Hefur Fjármálaeftirlitið lagt áherslu á að áhættustig einstakra lánastofnana kalli á að eiginfjárhlutfall þeirra sé verulega yfir lágmörkum.
    Fjármálaeftirlitið hefur kannað útlánaframkvæmd allmargra lánastofnana. Athuganir hafa beinst að eftirliti með útlánum, áhættudreifingu, tryggingatöku, vanskilum og tapshættu. Sérstaklega hefur verið hugað að mati á afskriftum. Í nokkrum tilfellum hafa útlánaathuganir Fjármálaeftirlitsins leitt til þess að afskriftaframlög hafa verið aukin.
    Síaukin starfsemi lánastofnana erlendis kallar á breyttar áherslur í eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið hefur aukið yfirsýn sína yfir þessa starfsemi með aukinni upplýsingagjöf frá viðkomandi lánastofnunum auk þess sem lögð hefur verið áhersla á aukin samskipti við erlenda eftirlitsaðila. Meðal annars hafa staðið yfir viðræður um samstarfssamning við eftirlitsaðila utan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Hluti af starfsemi Fjármálaeftirlitsins felst í mótun eiginfjárreglna en eftirlitið fylgist grannt með því starfi sem fram fer innan Basel-nefndar um bankaeftirlit. Fjármálaeftirlitið hefur komið á framfæri athugasemdum við tillögur nefndarinnar um nýjar eiginfjárreglur en þær eru birtar á heimasíðu eftirlitsins. Fjármálaeftirlitið leggur áherslu á að nýjar eiginfjárreglur þurfi að henta jafnt stórum fjármálafyrirtækjum sem smáum og styður hugmyndir Basel-nefndarinnar um að leyfa innri matsaðferðir við útreikning á áhættugrunni. Í því felst hvati fyrir fjármálafyrirtæki til að þróa og bæta áhættustýringu sína.
    Fjármálaeftirlitið hefur unnið að kerfisbundnu áhættumati á bönkum og sparisjóðum. Við matið styðst Fjármálaeftirlitið við einfalt áhættumatskerfi sem ætlunin er að þróa áfram þegar reynsla er fengin af gagnsemi þess. Þessi vinna mun nýtast vel við aðlögun að nýjum eiginfjárreglum.
    Fjármálaeftirlitið hefur unnið að mótun reglna og leiðbeinandi tilmæla vegna starfsemi á lánamarkaði. Í því sambandi kynnti Fjármálaeftirlitið drög að leiðbeinandi tilmælum um frádrátt á eigin fé vegna eignarhluta í veltubók í félögum sem stunda fjármálastarfsemi. Er þessum leiðbeinandi tilmælum ætlað að samræma túlkun um þetta efni. Þá hefur verið unnið að breytingum á reglum um afskriftir útlána og á reglum um eiginfjárhlutfall.

1.1.2    Verðbréfamarkaður.
    Fjármálaeftirlitið hefur á tímabilinu mótað eftirlit á verðbréfamarkaði með hliðsjón af viðamiklum breytingum sem gerðar voru á lögum um verðbréfaviðskipti um síðustu áramót.
    Breytingarnar fela í sér ítarleg ákvæði um innherjaviðskipti og eftirlit með þeim. Rannsóknaskylda er lögð á fruminnherja áður en hann á viðskipti, gerð er krafa til þess að upplýsingar um innherja séu sendar Fjármálaeftirlitinu og gert ráð fyrir að það birti lista yfir fruminnherja hjá útgefendum. Auk þess ber Fjármálaeftirlitinu að kalla eftir og staðfesta reglur útgefenda um meðferð trúnaðarupplýsinga og viðskipti innherja. Fjármálaeftirlitið hefur birt leiðbeinandi tilmæli um efni reglnanna og gefið út form til útfyllingar á innherjalistum og leiðbeiningar um útfyllingu á þeim.
    Í sömu lögum er nú kveðið með skýrari hætti en áður á um almennt útboð verðbréfa. Kveðið er nánar á um þetta í nýrri reglugerð um útboð verðbréfa, nr. 477/2001. Skýrari ákvæði styrkja eftirlit Fjármálaeftirlitsins auk þess sem því er falið það hlutverk að hafa umsjón með athugun á almennum útboðslýsingum, öðrum en þeim sem fela í sér skráningu í kauphöll. Einnig hafa möguleikar Fjármálaeftirlitsins til þess að fylgjast með og grípa til aðgerða vegna almennra útboða verið styrktir. Fjármálaeftirlitið fékk eina útboðslýsingu til yfirferðar á tímabilinu. Nokkur mál er varða útboð verðbréfa hafa einnig verið til athugunar.
    Eftirlit með skipulagi og starfsháttum fyrirtækja í verðbréfaþjónustu hefur verið og mun verða á meðal meginverkefna Fjármálaeftirlitsins á verðbréfamarkaði. Fjármálaeftirlitið lagði mikla vinnu í leiðbeinandi tilmæli um efni reglna fjármálafyrirtækja sem m.a. varða aðskilnað hagsmuna (kínamúra), eigin viðskipti fyrirtækjanna, viðskipti starfsmanna og atvinnuþátttöku stjórnenda og starfsmanna. Tilmælin voru sett í júlí 2001 og mun Fjármálaeftirlitið á næstunni staðfesta reglur fjármálafyrirtækja sem uppfylla skilyrðin. Tilmælin stuðla að betri starfsháttum á verðbréfamarkaði og fela í sér auknar kröfur sem fylgja þarf eftir í eftirlitinu sjálfu.
    Fjármálaeftirlitið hafði til athugunar nokkur mál þar sem vísbendingar voru um brot á ákvæðum um innherjaviðskipti. Einu máli var vísað til ríkislögreglustjóra. Einnig voru til skoðunar vísbendingar um markaðsmisnotkun auk þess sem fyrirspurnum viðskiptamanna og kvörtunum sem tengjast ráðgjöf og þjónustu á verðbréfamarkaði hefur jafnt og þétt fjölgað.
    Fjármálaeftirlitið hefur styrkt verulega eftirlit með starfsháttum á verðbréfamarkaði með ráðningu nýs starfsfólks og mótun skipulagðrar markaðsvaktar innan eftirlitsins. Markaðsvaktin bætir yfirsýn Fjármálaeftirlitsins yfir verðbréfamarkaðinn og gefur því færi á að grípa fyrr inn í mál sem upp koma.

1.1.3    Vátryggingamarkaður.
    Talsverðar breytingar hafa orðið á vátryggingamarkaði á tímabilinu og verkefni Fjármálaeftirlitsins markast af því.
    Haustið 2000 hætti erlendur vátryggjandi að bjóða ökutækjatryggingar á Íslandi. Fjármálaeftirlitið tók málið til sérstakrar athugunar í því skyni að tryggja réttarstöðu aðila, en vátryggingunum var miðlað af innlendum vátryggingamiðlara. Heimild viðkomandi vátryggjanda til að bjóða ökutækjatryggingar var felld niður og athugasemdum komið á framfæri.
    Málefni nokkurra bátaábyrgðarfélaga hafa verið til umfjöllunar hjá Fjármálaeftirlitinu. Það heimilaði flutning á vátryggingastofni eins félags á síðasta ári og í október á þessu ári heimilaði Fjármálaeftirlitið flutning á vátryggingastofni tveggja bátaábyrgðarfélaga til viðbótar. Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hefur tekið við vátryggingastofni allra félaganna. Jafnframt hafa málefni Samábyrgðarinnar hf. verið til umfjöllunar hjá Fjármálaeftirlitinu, en félaginu var breytt í hlutafélag á miðju ári 2000 og eignarhlutur ríkissjóðs seldur. Í framhaldi af því keypti Sjóvá-Almennar tryggingar hf. félagið og liggur fyrir Fjármálaeftirlitinu beiðni um flutning á vátryggingastofni Samábyrgðarinnar hf. til Sjóvár-Almennra trygginga hf. og beiðni um samruna félaganna.
    Iðgjöld í lögboðnum ökutækjatryggingum hafa enn sem fyrr verið til umfjöllunar á opinberum vettvangi. Í júlí 2000 birti Fjármálaeftirlitið niðurstöður athugunar á iðgjaldahækkunum ökutækjatrygginga þá um vorið. Vátryggingafélögin höfðu sýnt fram á aukinn tjónakostnað og óstöðugleika í greininni. Við þær aðstæður hafði Fjármálaeftirlitið ekki forsendur til þess að grípa til aðgerða. Fjármálaeftirlitið taldi hins vegar brýnt að hvert vátryggingafélag tæki forsendur iðgjaldaákvarðana sinna til endurskoðunar um leið og frekari reynsla væri fengin. Fjármálaeftirlitið hefur lagt áherslu á markaðsaðhald og hefur leitast við að tryggja meira gegnsæi í því skyni. Nefnd sem skipuð var á árinu 2000 og falið var að endurskoða reglugerð um ársreikninga vátryggingafélaga annarra en líftryggingafélaga mun ljúka störfum á næstunni.
    Á tímabilinu gerði Fjármálaeftirlitið úttekt á starfsemi þriggja líftryggingafélaga. Athugunin beindist að verklagi, áhættustýringu og innra eftirliti félaganna. Hliðstæðar athuganir voru einnig gerðar á starfsemi nokkurra vátryggingamiðlara. Að mati Fjármálaeftirlitsins var í mörgum tilvikum ástæða til að bæta upplýsingagjöf og almenn vinnubrögð þessara aðila. Hefur Fjármálaeftirlitið komið á framfæri athugasemdum og ábendingum sem miða að þessu, t.d. með dreifibréfi til vátryggingamiðlara.
    Í tveimur tilvikum gerði Fjármálaeftirlitið ríkislögreglustjóra grein fyrir málum, annars vegar í tengslum við vátryggingafélag en hins vegar vátryggingamiðlun. Í nokkrum tilfellum hafa vátryggingamiðlanir skilað inn starfsleyfi sínu í framhaldi af athugunum Fjármálaeftirlitsins. Starfsleyfi eins vátryggingamiðlara var afturkallað.
    Fjármálaeftirlitið hefur beint því til vátryggingafélaga að þau setji sér verklagsreglur um verðbréfaviðskipti félagsins sjálfs, starfsmanna þess og stjórnenda, en samkvæmt nýlegum breytingum á lögum um vátryggingastarfsemi er þeim skylt að setja sér slíkar reglur. Gert er ráð fyrir að þessari vinnu ljúki síðar á árinu.
    Fjármálaeftirlitið hefur unnið að mótun tvennra leiðbeinandi tilmæla á vátryggingasviði. Í vor birti Fjármálaeftirlitið á heimasíðu sinni drög að leiðbeinandi tilmælum um bónusreglur vátryggjenda í lögboðnum ökutækjatryggingum. Þá hefur verið unnið að leiðbeinandi tilmælum um gerð fyrirvara við bótauppgjör vátryggjenda.

1.1.4    Lífeyrismarkaður.
    Viðamikill hluti eftirlits með lífeyrissjóðum fram á síðari hluta ársins 2000 tengdist veitingu starfsleyfa. Með lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem tóku gildi þann 1. júlí 1998, var öllum lífeyrissjóðum gert að sækja um starfsleyfi til fjármálaráðuneytis eða fá staðfestingu samþykkta vegna lífeyrissjóða sem starfa samkvæmt sérlögum. Fjármálaeftirlitið veitti umsagnir vegna þessa. Aðlögun lífeyrissjóðanna að lögunum reyndist tímafrek og lauk þessari vinnu því ekki að fullu fyrr en á þessu ári.
    Á tímabilinu hafa rúmlega 20 lífeyrissjóðir, eða ríflega þriðjungur, breytt samþykktum sínum og gefur Fjármálaeftirlitið umsagnir um slíkar breytingar. Ástæður breytinga á samþykktum geta verið margvíslegar og krefjast mismikillar vinnu af hálfu Fjármálaeftirlitsins.
    Stærsta verkefnið sem ráðist var í á tímabilinu var yfirgripsmikil athugun á fjárfestingum lífeyrissjóða, en óskað var eftir ítarlegum gögnum frá um 30 sjóðum. Markmiðið með þessari athugun var að fara yfir fjárfestingar einstakra lífeyrissjóða með hliðsjón af ákvæðum VII. kafla laganna sem fjallar um fjárfestingaheimildir lífeyrissjóða. Jafnframt voru gerðar sérstakar athuganir á ársreikningum sjóðanna auk þess sem aflað var gagna um innra eftirlit og farið yfir gagnaskil.
    Allmargir sjóðir reyndust vera yfir þeim mörkum sem kveðið er á um í lögum. Fyrst og fremst hefur reynt á heimildir til fjárfestinga í óskráðum verðbréfum. Ef lífeyrissjóðir voru yfir fjárfestingatakmörkunum við gildistöku laganna er þeim ekki skylt að selja eignir til að uppfylla skilyrði laganna. Nokkrir lífeyrissjóðir hafa verið krafðir um úrbætur til að koma fjárfestingum í rétt horf.
    Starfsemi sem lýtur að viðbótartryggingavernd og séreignarsparnaði verður sífellt umfangsmeiri og fjölbreyttari. Vörsluaðilum viðbótarlífeyrissparnaðar, þ.e. bönkum, sparisjóðum, verðbréfafyrirtækjum, líftryggingafélögum og lífeyrissjóðum ber að leita staðfestingar fjármálaráðuneytis á reglum sem um tryggingaverndina gilda og einnig á breytingum sem gerðar eru á reglunum. Fjármálaeftirlitið veitir umsagnir til ráðuneytisins vegna þessara staðfestinga. Vörsluaðilar leita einnig umsagnar Fjármálaeftirlitsins á samningseyðublöðum vegna viðbótarlífeyrissparnaðar og staðfestingar á því að samningar þessir séu í samræmi við lög og reglur sem um þá gilda. Vegna fjölda þeirra sem býður þennan sparnað hefur vinna við þetta verið tímafrek og hafa ýmsar athugasemdir verið gerðar. Þá hefur Fjármálaeftirlitið sinnt mörgum fyrirspurnum sem varða viðbótartryggingavernd.
    Samkvæmt nýlegum breytingum á lögum um lífeyrissjóði er þeim nú skylt að setja sér verklagsreglur um verðbréfaviðskipti lífeyrissjóðsins, stjórnar hans og starfsmanna sem staðfestar skulu af Fjármálaeftirlitinu. Fjármálaeftirlitið hefur átt í samskiptum við lífeyrissjóði og samtök þeirra um setningu reglnanna og standa vonir til að þær verði staðfestar á næstunni.
    Í eftirliti sínu hefur Fjármálaeftirlitið lagt áherslu á hlutverk og ábyrgð stjórna lífeyrissjóða. Í því skyni hefur það átt fundi með stjórnum nokkurra sjóða og gert athugasemdir við innra eftirlit, gagnaskil og fleira. Hlutverk stjórnar er þeim mun mikilvægara þegar litið er til þess að starfsemi lífeyrissjóða byggir á skylduaðild, flutningur réttinda til samtryggingar er bannaður og möguleikar sjóðfélaga til að hafa bein áhrif á stjórnun síns lífeyrissjóðs eru takmarkaðir.

1.2    Athugun á innra eftirliti, áhættustýringu og upplýsingatækni.
    Undanfarin missiri hafa miklar verðsveiflur á fjármálamörkuðum og útlánavöxtur reynt á áhættustýringu og innra eftirlit fjármálafyrirtækja. Á tímabilinu hélt Fjármálaeftirlitið áfram athugunum á ástandi innra eftirlits og áhættustýringar hjá eftirlitsskyldum aðilum. Fjármálaeftirlitið leggur ríka áherslu á ábyrgð þeirra sjálfra á eigin starfsemi og eftirliti með henni.
    Athuganir Fjármálaeftirlitsins hafa einkum beinst að stjórnskipulagi fyrirtækja, markmiðasetningu í starfseminni, tilvist og eftirfylgni áhættustýringarreglna, innra eftirliti og virkni innri endurskoðunar. Til dæmis hefur verið hugað að innra eftirliti með útlánum lánastofnana, eftirliti með markaðsáhættu í starfsemi fjármálafyrirtækja og áhættustýringu á þessum þáttum. Fjármálaeftirlitið hefur brýnt fyrir stjórnum fyrirtækja að vera vakandi fyrir ábyrgð sinni og undir það búnar að axla hana.
    Fjármálaeftirlitið hefur áður lýst því mati sínu að áhættustýring og innra eftirlit með rótgrónum þáttum í starfsemi fjármálafyrirtækja hafi yfirleitt verið í betra horfi en þegar ný eða ört vaxandi fjármálaþjónusta á í hlut. Betri áhættustýring margra fyrirtækja hefði þannig ótvírætt dregið úr áhrifum óhagstæðrar þróunar á verðbréfa- og gjaldeyrismörkuðum.
    Mótun áhættustýringar og innra eftirlits er mismunandi langt á veg komin á einstökum sviðum fjármálamarkaðar. Fjármálaeftirlitið hefur unnið að mótun leiðbeinandi tilmæla um innra eftirlit og áhættustýringu hjá fjármálafyrirtækjum, í því skyni að styrkja sjónarmið um þetta á öllum sviðum. Tilmælin verða byggð á grunnreglum Basel-nefndar um bankaeftirlit en er ætlað að gilda um öll fjármálafyrirtæki.
    Fjármálaeftirlitið vinnur um þessar mundir að stefnumótun í eftirliti með upplýsingatækni hjá eftirlitsskyldum aðilum. Megináherslur munu liggja á sviði rekstraröryggis tölvukerfa og gagnaleyndar. Mikilvægt er að tryggja öryggi í slíkri starfsemi og að gagnaleyndar sé gætt sem kostur er. Tryggja þarf ábyrgð og eftirlit stjórnenda fjármálafyrirtækja sem hlut eiga að máli.
    Í undirbúningi er útgáfa á leiðbeinandi tilmælum í tengslum við hýsingu tölvuþjónustu og tölvubúnaðar ásamt þjónustu sem veitt er á Internetinu. Í samstarfi fjármálaeftirlita á Norðurlöndum hafa enn fremur verið þróaðar viðmiðanir varðandi lágmarkseftirlit sem verða grunnur að eftirliti með netbönkum á svæðinu. Fjármálaeftirlitið mun byggja eftirlit á þessum grunni.

1.3    Athugun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) á íslenska fjármálakerfinu.
    Í lok árs 2000 framkvæmdi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn athugun á íslenska fjármálakerfinu sem kallast „Financial Sector Stability Assessment“. Athugunin var liður í sérstöku átaki sjóðsins sem miðar að því að efla yfirsýn yfir veikleika í fjármálakerfum einstakra landa og stuðla að stöðugleika. Farið var m.a. yfir lög og reglur um starfsemi á fjármálamarkaði og fyrirkomulag eftirlits með hliðsjón af grunnreglum sem settar hafa verið í alþjóðasamstarfi bankaeftirlita, verðbréfaeftirlita og vátryggingaeftirlita. Einnig var fjallað um löggjöf og eftirlit með lífeyrissjóðum.
    Meginniðurstöður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins voru þær að fjármálaeftirlit hér á landi sé í góðri stöðu til að takast á við verkefni sitt. Hins vegar var það einnig mat sjóðsins að í íslensku fjármálakerfi væru veikleikar sem stefnt gætu stöðugleika þess í hættu. Sjóðurinn gerði athugasemdir og benti á ýmislegt sem betur mætti fara og stuðla myndi að frekara öryggi, bæði að því er varðar löggjöf og opinbert eftirlit.
    Veigamestu ábendingar sjóðsins lutu að því að eiginfjárhlutföll íslenskra lánastofnana væru almennt of lág þegar horft er til aðstæðna hér á landi. Sjóðurinn lagði áherslu á að efla þyrfti heimildir Fjármálaeftirlitsins til þess að knýja á um hækkun eiginfjárhlutfalla og krefjast hærri eiginfjárhlutfalla hjá einstökum lánastofnunum þegar sérstök áhætta væri í rekstri þeirra. Mat sjóðsins var jafnframt að eiginfjárhlutföll sem upp eru gefin kynnu að vera ótraust vegna veikleika í lögum og reglum, ekki síst að því er varðar reglur um afskriftir og áhættuflokkun útlána. Sérstök áhersla var lögð á það af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að reglur um afskriftir lánastofnana og áhættuflokkun útlána væru ekki í samræmi við það sem best gerist.
    Að því er varðar veikleika í reglum um afskriftir og áhættuflokkun útlána er Fjármálaeftirlitið sammála því að styrkja þurfi núgildandi reglur. Efla þarf áhættuflokkun útlána og tengsl þeirrar flokkunar við mat á almennri afskriftaþörf auk þess sem að skilgreina þarf nánar vanskil og hvenær leggja þarf til hliðar vegna þeirra. Íslenskar reglur um þetta eru í meginatriðum í samræmi við reglur annars staðar á Norðurlöndum. Fjármálaeftirlitið hefur undirbúið breytingu á reglum vegna þessa sem stefnt er að að taki gildi síðar á þessu ári.
    Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn taldi enn fremur að fjölga þyrfti sérfræðingum verulega hjá Fjármálaeftirlitinu og efla þannig enn frekar opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Fjármálaeftirlitið hefur nú birt á heimasíðu sinni mat á starfsmannaþörf næstu missiri.
    Fjármálaeftirlitið telur þær ábendingar sem fram komu af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gagnlegar. Eru þær í flestum atriðum í samræmi við mat Fjármálaeftirlitsins þótt áherslur séu í ýmsum tilvikum aðrar. Bregðast verður við mörgum ábendinganna með breytingum á löggjöf, en margar þeirra eru nú til umfjöllunar í nefnd á vegum viðskiptaráðuneytisins sem vinnur að mótun nýrrar löggjafar um fjármálafyrirtæki. Nokkrar ábendingar sjóðsins varða beint innri starfsemi Fjármálaeftirlitsins, en þær eru nær allar í samræmi við fyrri stefnu þess og verkáætlanir.
    Skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að finna á heimasíðu sjóðsins (http://www.imf.org).

1.4    Erlent samstarf.
    Á tímabilinu hefur Fjármálaeftirlitið verið gestgjafi á nokkrum fundum sem tengjast erlendu samstarfi. Á norrænum vettvangi hélt Fjármálaeftirlitið árlegan fund forstjóra fjármálaeftirlita á Norðurlöndunum í ágúst síðastliðnum. Þá hélt Fjármálaeftirlitið tvo samstarfsfundi sérfræðinga í bankaeftirliti, einn fund sérfræðinga í verðbréfaeftirliti og tvo fundi er varða vátryggingaeftirlit. Enn fremur hélt Fjármálaeftirlitið árlegan samstarfsfund um rekstrarmálefni fjármálaeftirlita á Norðurlöndum. Þá var Fjármálaeftirlitið gestgjafi á samstarfsfundi evrópskra bankaeftirlita, Groupe de Contact, sem starfar í tengslum við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Einnig var Fjármálaeftirlitið einn af gestgjöfum á ráðstefnu evrópskra vátryggingaeftirlita sem haldin var í Ósló.
    Fjármálaeftirlitið tekur þátt í víðtæku erlendu samstarfi og sækir fundi vegna þess. Tilgangur þátttöku í samstarfinu er í meginatriðum tvíþættur. Annars vegar leitast Fjármálaeftirlitið við að flytja heim á íslenskan fjármálamarkað reynslu og þekkingu sem fengist hefur í eftirliti með stærri og eftir atvikum þróaðri mörkuðum. Hins vegar hefur Fjármálaeftirlitið talið það hlutverk sitt að styrkja samkeppnishæfni íslensks fjármálamarkaðar. Þátttaka þess í erlendu samstarfi er veigamikill þáttur í þeirri viðleitni, en með nánu samstarfi og samhæfingu við erlendar systurstofnanir skapast ákveðin líkindi fyrir því að hér á landi sé byggt á svipuðum viðhorfum um styrk og trúverðugleika íslensks markaðar og eftirlit með honum.
    Auk samstarfs fjármálaeftirlita á Norðurlöndum er Fjármálaeftirlitið aðili að ráðstefnu evrópskra vátryggingaeftirlita, samstarfi evrópskra bankaeftirlita (Groupe de Contact) og nefnd evrópskra verðbréfaeftirlita (CESR, áður FESCO), en sú nefnd var stofnuð í september 2001. Einnig er Fjármálaeftirlitið beinn aðili að alþjóðasamtökum vátryggingaeftirlita IAIS.

1.5    Rekstur Fjármálaeftirlitsins.
Rekstrarumfang og eftirlitsgjald.
    Fjármálaeftirlitið hefur tekjur sínar af álögðu eftirlitsgjaldi á eftirlitsskylda aðila. Um álagningu og innheimtu eftirlitsgjaldsins fer eftir lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum. Eftirlitsgjaldið reiknast í flestum tilvikum sem ákveðinn hundraðshluti af heildareignum, tekjum eða iðgjöldum viðkomandi aðila allt eftir eðli starfseminnar. Í öllum tilvikum er þó um að ræða ákveðna lágmarksfjárhæð.
    Tekjur Fjármálaeftirlitsins á árinu 2000 námu alls 197 m.kr., en þar af voru tekjur af eftirlitsgjaldi 192,5 m.kr. Gjöld námu samtals 183,2 m.kr. Tekjuafgangur á árinu nam 16,8 m.kr. Meginástæða þess var að áætlun um fjölgun starfsmanna gekk ekki eftir. Tekjuafgangur af starfsemi Fjármálaeftirlitsins kemur til frádráttar við álagningu eftirlitsgjalds næsta árs.
    Áætluð álagning eftirlitsgjalds nemur 198,8 m.kr. Samkvæmt endurskoðaðri rekstraráætlun stofnunarinnar fyrir árið 2001 er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður á árinu verði alls 211,4 m.kr. Áætlað er að uppsafnaður tekjuafgangur nemi 45,2 m.kr. í árslok 2001.
    Álagning eftirlitsgjalds fyrir árið 2002 er nú í undirbúningi. Samkvæmt rekstraráætlun sem Fjármálaeftirlitið hefur unnið er gert ráð fyrir að álagt eftirlitsgjald árið 2002 nemi um 215 m.kr. Áætlaður rekstrarkostnaður á árinu 2002 er hins vegar um 264 m.kr. en gert er ráð fyrir að tekjuafgangur fyrri ára og aðrar tekjur stofnunarinnar á árinu geri það að verkum að heildartekjur og -gjöld standist á í árslok 2002. Aukið rekstrarumfang Fjármálaeftirlitsins á árinu 2002 skýrist fyrst og fremst af áætlunum um fjölgun starfsfólks og leigu viðbótarhúsnæðis.

Starfsmannafjöldi.
    Á miðju ári 2001 störfuðu 27 starfsmenn hjá Fjármálaeftirlitinu í tæplega 26 stöðugildum. Meiri hluti starfsmanna er sérfræðimenntaður, einkum á sviði lögfræði, viðskipta- eða tölvufræða. Frá miðju ári 2000 til miðs árs 2001 hófu alls 6 starfsmenn störf hjá stofnuninni en 5 starfsmenn hurfu til annarra starfa. Starfsmannavelta var svipuð og í íslenskum fyrirtækjum almennt á þessu tímabili. Frá því að Fjármálaeftirlitið tók til starfa í byrjun ársins 1999 hefur verið stefnt að fjölgun starfsmanna við stofnunina en stöðugildin voru 22 í upphafi. Sú fjölgun hefur hins vegar ekki gengið eftir eins og nauðsynlegt er til að halda í við þróun fjármálamarkaðar og aukin verkefni Fjármálaeftirlitsins.
    Fjármálaeftirlitið hefur birt á heimasíðu sinni greinargerð um mat á starfsmannaþörf þess næstu missiri. Hún gerir ráð fyrir að frá 1. júlí 2001 til loka árs 2002 fjölgi stöðugildum við stofnunina úr 26 í 32.

Innri reglur og símenntun.
    Haldið hefur verið áfram að byggja upp innri umgjörð starfa í Fjármálaeftirlitinu. Þannig hafa verið settar reglur um viðskipti starfsmanna, forstjóra og stjórnar við eftirlitsskylda aðila, reglna um meðferð trúnaðarupplýsinga og verðbréfaviðskipti starfsmanna og stjórnenda o.fl.
    Enn fremur hefur Fjármálaeftirlitið sett sér sérstaka símenntunarstefnu þar sem gert er ráð fyrir að tilteknu hlutfalli af launakostnaði verði árlega varið til þessara mála og leiðir skilgreindar.

Ýmsar tölulegar upplýsingar á tímabilinu 1. júlí 2000 til 30. júní 2001.
    Fjármálaeftirlitið hefur sent frá sér ríflega 2.000 bréf á tímabilinu og móttekið 2.100 bréf. Eftirlitsskyldir aðilar hafa sent um 1.200 skýrslur vegna reglubundinnar gagna- og upplýsingaöflunar.
    Sérstakar athuganir af ýmsum toga voru alls um 100 á tímabilinu. Eðli þessara athugana er mjög mismunandi og misjafnt hve víðtækar þær eru.
    Fjármálaeftirlitið hefur jafnframt afgreitt um 160 mál vegna erinda frá eftirlitsskyldum aðilum, tæp 120 mál vegna erinda frá viðskiptavinum eftirlitsskyldra aðila og um 160 mál vegna erinda frá öðrum aðilum, innlendum og erlendum. Á því tólf mánaða tímabili sem hér er fjallað um hefur Fjármálaeftirlitið í 90 tilvikum talið ástæðu til að gera formlegar athugasemdir eða krefjast úrbóta af einhverjum toga hjá eftirlitsskyldum aðilum. Þá skal nefnt að Fjármálaeftirlitið gaf 20 umsagnir um starfsleyfi til eftirlitsskyldra aðila á umræddu tímabili.
    Til viðbótar framangreindu má nefna að aukin umfjöllun fjölmiðla síðustu missiri um málefni fjármálamarkaða samhliða auknum sýnileika Fjármálaeftirlitsins hefur leitt til vaxandi eftirspurnar almennings og fjármálafyrirtækja eftir liðsinni hjá Fjármálaeftirlitinu. Á tímabilinu 1. júlí 2000 til 30. júní 2001 voru afgreidd 60 kvörtunar- og neytendamál af ýmsum toga og 105 fyrirspurnir. Á tólf mánaða tímabili þar á undan voru kvörtunar- og neytendamál 44 og fyrirspurnir 34.
    Framangreindar upplýsingar eru settar fram til fróðleiks og eru ekki einhlítur mælikvarði á starfsemi Fjármálaeftirlitsins.

2.        Fjármálamarkaðurinn – þróun og horfur.
2.1    Lána- og verðbréfamarkaður.

Versnandi afkoma.
    Undanfarin missiri hefur rekstrarumhverfi lánastofnana um margt verið erfitt. Þannig nam samanlagður hagnaður viðskiptabanka og sparisjóða 1 árið 2000 4,4 ma.kr. samanborið við 6,7 ma.kr. hagnað árið 1999. Arðsemi eigin fjár lækkaði úr 18% í tæplega 10% milli ára, sbr. mynd 1. Minni hagnaður milli áranna 1999 og 2000 skýrist aðallega af gengistapi af fjármálastarfsemi, þ.e. hluta- og skuldabréfum. Afkoman á árinu 2000 hefði orðið enn verri ef ekki hefði komið til innlausnar á söluhagnaði eða uppfærslu til markaðsverðs á eignarhlutum margra sparisjóða í Kaupþingi hf.
    Á fyrri árshelmingi 2001 nam samanlagður hagnaður viðskiptabanka og sparisjóða 2,7 ma.kr. sem samsvarar um 11% arðsemi eigin fjár. Rekstur lánastofnana á fyrri árshelmingi 2001 einkenndist af áframhaldandi gengistapi af fjármálastarfsemi, einkum hlutabréfum og gjaldeyrisviðskiptum. Þar á móti kom aukning á hreinum vaxtatekjum vegna hærri verðbólgu og aukning á ýmsum tekjum vegna innlausnar á söluhagnaði af hlutabréfum sparisjóða í Kaupþingi hf. Líklegt er að arðsemi eigin fjár verði fremur lág á næstu missirum þar sem fyrirsjáanleg er aukning á afskriftaframlögum jafnframt því sem ástand verðbréfamarkaða skapar óvissu um tekjur af markaðsviðskiptum og markaðsverðbréfum.

Kostnaðarhlutföll áfram há.

    Kostnaðarhlutfall, þ.e. rekstrargjöld í hlutfalli af hreinum rekstrartekjum, var lítið eitt lægra á fyrri hluta ársins 2001, eða 64,4%, en á árinu 2000 þegar það var 65,6%, sbr. mynd 1. Á árunum 1995–1998 var hlutfallið 66–68% en lækkaði niður í 62% árið 1999 m.a. vegna óvenju mikils gengishagnaðar það ár. Samkvæmt framansögðu hefur lækkun á þessu hlutfalli verið fremur hæg síðustu 5–6 árin.
    Framangreindar tölur um arðsemi eigin fjár og kostnaðarhlutföll eru mjög mismunandi milli einstakra lánastofnana. Þannig var arðsemi eigin fjár þriggja stærstu bankanna frá 1% til 20% á fyrri hluta ársins 2001 og kostnaðarhlutföll frá 53–78% á sama tímabili.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
     Mynd 2 sýnir helstu rekstrarliði í hlutfalli af heildareignum hjá bönkum og sparisjóðum. Sé litið aftur til ársins 1998 hafa rekstrargjöld sem hlutfall af heildareignum stöðugt farið lækkandi, eða úr 3,7% árið 1998 í 3,0% á fyrri hluta ársins 2001. Þá lækkuðu hreinar vaxtatekjur úr 3,3% árið 1998 í 3,0% árið 2000 en hækkuðu á fyrri hluta árs 2001 í 3,4%. Aðrar rekstrartekjur í hlutfalli af heildareignum náðu hámarki árið 1999, eða 2,4%, en hafa síðan þá lækkað nokkuð og námu 1,2% á fyrri hluta ársins 2001. Afskriftaframlög voru 0,70% árið 1998, 0,64% árið 1999, 0,56% árið 2000 en hækkuðu í 0,74% á fyrri hluta ársins 2001.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

Mikill vöxtur heildareigna fjármagnaður með erlendum lántökum.
    Á framangreindu tímabili hafa heildareignir vaxið verulega, úr tæplega 500 ma.kr. í árslok 1998 í tæplega 900 ma.kr. í lok júní 2001, eða um 80%. Þessi vöxtur hefur að miklu leyti verið fjármagnaður með erlendum lántökum en í minna mæli með innlánum eða innlendri verðbréfaútgáfu. Á mynd 3 er sýnd þróun í nettó skuldum helstu lánastofnana við erlenda aðila á síðustu missirum. Mótvægi við þessi erlendu lán eru í meginatriðum gengisbundin lán til innlendra lánþega sem í mismunandi miklum mæli hafa tekjur í samsvarandi gjaldmiðlum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

Aukin markaðs- og útlánaáhætta.
    Vöxtur heildareigna felst fyrst og fremst í útlánavexti og aukinni markaðsverðbréfaeign. Hluti eigna lánastofnana er bundinn í markaðsverðbréfum sem háð eru sveiflum á gengi á markaði, sbr. mynd 4. Þannig námu markaðsverðbréf banka og sparisjóða rúmlega 22 ma.kr. í árslok 1995, 105 ma.kr. í lok júní 2000 og 112 ma.kr. í lok júní 2001. Athyglisverð er aukin hlutabréfaeign lánastofnana milli fyrri árshelminga 2000 og 2001. Á tímabilinu töpuðu flestar lánastofnanir á hlutabréfaeign sinni en úrvalsvísitala VÞÍ lækkaði um 30% á tímabilinu og velta dróst saman.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.             Útlánavöxtur síðustu ára hélst fram á árið 2001. Í júní 2001 nam tólf mánaða nafnaukning útlána banka og sparisjóða 26%. Sé tekið tillit til gengislækkunar krónunnar og uppfærslu verðtryggðra útlána nam tólf mánaða aukning útlána banka og sparisjóða um 12,5%. Tölur um útlánaþróun á þriðja ársfjórðungi 2001 benda til þess að raunaukning útlána hafi stöðvast.

Vanskil aukast og afskriftir einnig.
    Undanfarið missiri hafa vanskil lánþega viðskiptabanka og sparisjóða aukist. Sú þróun gefur til kynna að gæði eigna þessara fjármálafyrirtækja sé að rýrna. Eins og sést á mynd 5 námu heildarvanskil 2 einstaklinga og fyrirtækja 16,8 ma.kr. í lok júní 2001, eða 2,5% af útlánum, samanborið við 12,3 ma.kr. eða 2,0% í árslok 2000. Hlutfallslega voru vanskil einstaklinga hærri en vanskil fyrirtækja. Vanskil einstaklinga námu 7,1 ma.kr., eða 4,3% af útlánum til einstaklinga í lok júní 2001 samanborið við 5,3 ma.kr. eða 3,3%, í árslok 2000. Vanskil fyrirtækja námu 9,7 ma.kr., eða 1,9% af útlánum til fyrirtækja, í lok júní 2001 samanborið við 7,0 ma.kr. eða 1,6% í árslok 2000. Staða afskriftareiknings nam 13,0 ma.kr. í árslok 2000 og 15,3 ma.kr. í lok júní 2001.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

    Samanlagt framlag í afskriftareikning hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum nam 4,0 ma.kr. á árinu 2000, samanborið við 3,6 ma.kr. árið 1999. Hækkunin nam 0,4 ma.kr. eða 11%. Á fyrri árshelmingi 2001 nam samanlagt framlag í afskriftareikning hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum 3,1 ma.kr. eða nálægt 80% af heildarframlagi á árinu 2000.
    Framlag í afskriftareikning hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum í hlutfalli af útlánum nam 0,9% á árinu 2000 samanborið við 1,1% á árunum 1997–1999. Á árinu 2001 er áætlað að þetta hlutfall verði 1,3%. Þetta hlutfall var hæst 4,1% árið 1992 en fór síðan stöðugt lækkandi fram til ársins 2000 eins og fyrr segir. Áætluð staða afskriftareiknings í lok árs 2001 í hlutfalli af útlánum er 2,5%. Mynd 6 sýnir að í kjölfar mikillar og hraðrar aukningar útlána kemur aukning á afskriftaframlögum vegna þeirra. Líklegt er að árið 2000 hafi framlög í afskriftareikning í hlutfalli af útlánum náð lágmarki og að næstu missiri muni afskriftaþörf vaxa sem mun hafa neikvæð áhrif á afkomu og arðsemi eigin fjár.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Eigið fé eykst með töku víkjandi lána.
    Samanlagt eigið fé 3 hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum nam 49,1 ma.kr. í árslok 2000 samanborið við 43,9 ma.kr. í árslok 1999. Hækkunin nam 5,2 ma.kr. eða 12%. Í lok júní sl. nam samanlagt eigið fé hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum 53 ma.kr.
    Í lok árs 1999 höfðu viðskiptabankar og sparisjóðir gefið út víkjandi skuldabréf sem teljast til eiginfjárþátta B og C við útreikning á eiginfjárhlutfalli að fjárhæð samtals 11,5 ma.kr. Í lok árs 2000 nam fjárhæð víkjandi skuldabréfa B og C 18,2 ma.kr. Hækkunin nam því 6,7 ma.kr. eða 58%. Í lok júní sl. námu víkjandi skuldabréf sem flokkast í eiginfjárþátt B og C hjá viðskiptabönkum og stærstu sparisjóðum samtals 19,6 ma.kr.
    Í lok árs 2000 heimilaði Fjármálaeftirlitið lánastofnunum útgáfu víkjandi skuldabréfa sem teljast til eiginfjárþáttar A við útreikning á eiginfjárhlutfalli, en þetta var gert á grundvelli nýrrar reglugerðar viðskiptaráðuneytisins. Í árslok 2000 hafði einn viðskiptabanki nýtt sér heimildina og gefið út víkjandi skuldabréf A fyrir 0,9 ma.kr. Í lok júní sl. höfðu þrír viðskiptabankar og einn sparisjóður gefið út skuldabréf sem teljast til eiginfjárþáttar A við útreikning á eiginfjárhlutfalli fyrir samtals 5,5 ma.kr.
    Samanlagður áhættugrunnur viðskiptabanka og sparisjóða nam 605 ma.kr. í lok árs 2000 samanborið við 476 ma.kr. í lok árs 1999. Hækkunin nam 129 ma.kr. eða 27%. Í lok júní sl. nam samanlagður áhættugrunnur viðskiptabanka og sparisjóða 693 ma.kr. sem er 14,5% hækkun á hálfu ári.

Eiginfjárhlutföll hækka með víkjandi lánum og sölu eigna.
    Eftir stöðugt lækkandi eiginfjárhlutföll viðskiptabanka og sparisjóða fram til miðs árs 2000 hafa þau farið hækkandi fram til miðs árs 2001, sbr. mynd 7. Meginástæða hækkunar eiginfjárhlutfalla bankanna var aukning á víkjandi lántökum, sem heimilt er að reikna sem eigin fé í eiginfjárútreikningi. Það á bæði við um töku hefðbundinna víkjandi lána samkvæmt eiginfjárþáttum B og C og töku víkjandi lána samkvæmt eiginfjárþætti A sem heimiluð var seint á árinu 2000. Ein helsta ástæða hærri eiginfjárhlutfalla sparisjóðanna í árslok 2000 miðað við lok árs 1999 var sala á eignarhlutum margra sparisjóða í Kaupþingi hf.

Takmarkaðir möguleikar á töku víkjandi lána.
    Samkvæmt þeim reglum sem gilda um víkjandi lántökur eru ýmsar takmarkanir á því að hve miklu leyti þær mega reiknast með í eiginfjárútreikningi í hlutfalli við hefðbundið eigið fé. Í lok júní 2001 höfðu margar lánastofnanir nær fullnýtt þær heimildir. Eiginfjárstaða flestra lánastofnana verður því ekki styrkt nema með auknum hagnaði eða útgáfu nýs hlutafjár/ stofnfjár.
    Undanfarin missiri hefur Fjármálaeftirlitið varað við afleiðingum lækkandi eiginfjárhlutfalla. Þó svo að eiginfjárhlutföll lánastofnana hafi hækkað lítillega að undanförnu telur Fjármálaeftirlitið að flestar lánastofnanir þurfi enn frekar að styrkja eiginfjárstöðu sína til að mæta hugsanlegum áföllum í nánustu framtíð.

Velta á verðbréfamarkaði – þörf aukins aðhalds.
    Mjög hefur hægst á verðbréfamarkaði á undanförnum mánuðum, ekki síst á hlutabréfamarkaði. Eftir nokkuð stöðugan vöxt í viðskiptum með hlutabréf frá árinu 1998 til loka fyrsta ársfjórðungs 2000, þegar velta hlutabréfa á VÞÍ náði hámarki (75 ma.kr.), hefur velta hlutabréfa dregist saman og hlutabréfavísitölur lækkað, sbr. mynd 8. Hafa verður þó í huga að veltan á 3. ársfjórðungi 2001 og úrvalsvísitala hlutabréfa í lok þess tímabils sýna svipaðar tölur og voru á 2. ársfjórðungi ársins 1999. Samsetning veltu eftir tegund verðbréfa hefur breyst á þessu ári miðað við fyrri ár, þar sem viðskipti með skuldabréf hafa aukist en viðskipti með hlutabréf dregist saman.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
    Einkenni verðbréfamarkaðarins hér á landi eru hve grunnur hann er, verðmyndun veik og hann borinn uppi af fáum þingaðilum. Sé hlutabréfamarkaðurinn skoðaður nánar kemur í ljós að viðskipti með hlutabréf í 10 veltumestu félögunum frá ársbyrjun til loka ágúst 2001 námu 65% af heildarviðskiptum. Þar af voru 4 stærstu þingaðilarnir með að meðaltali um 95% af viðskiptum þessara 10 veltumestu félaga. Í athugun Fjármálaeftirlitsins kom í ljós að tæplega 40% af ofangreindum viðskiptum voru fyrir eigin bók þingaðilanna eða sjóða á þeirra vegum.
    Við þessar aðstæður er ekki síður nauðsyn á ströngu aðhaldi til að koma í veg fyrir markaðsmisnotkun og byggja upp traustan og skilvirkan markað. Aðgerðir Fjármálaeftirlitsins hafa miðað að þessu. Sett hafa verið leiðbeinandi tilmæli um eigin reglur fjármálafyrirtækja og útgefendur skráðra verðbréfa. Jafnframt er Fjármálaeftirlitið að byggja upp styrkara eftirlit með starfsháttum á verðbréfamarkaði og bæta yfirsýn yfir hann.

2.2    Lífeyrismarkaður.
Hægari vöxtur eigna og neikvæð raunávöxtun á árinu 2000.
    Hrein eign lífeyrissjóða til greiðslu lífeyris í árslok 2000 nam 566 ma.kr. Raunaukning hreinnar eignar á árinu 2000 var um 5% sem er mun minni aukning en árið áður en þá var hún 20%. Hrein raunávöxtun 4 lífeyrissjóða á árinu 2000 var neikvæð um 0,7%. Á mynd 9 má sjá hreina raunávöxtun á árunum 1991–2000 og sker hrein raunávöxtun ársins 2000 sig úr. Síðustu tíu árin hefur meðaltal hreinnar raunávöxtunar verið 6,7%. Lífeyrissjóðir hafa verið að breyta eignasamsetningu sinni á undanförnum árum og eru hlutabréf og hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða mun stærri þáttur í eignasafni lífeyrissjóða en áður. Samkvæmt ársreikningareglum eru skráð hlutabréf og hlutdeildarskírteini metin á markaðsvirði. Má því í framtíðinni gera ráð fyrir meiri sveiflum í ávöxtun lífeyrissjóðanna milli ára samfara breyttri eignasamsetningu þeirra.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
    Í samanburði við aðrar hagstærðir voru eignir lífeyrissjóðanna rúmlega 84% af vergri landsframleiðslu (VLF) í lok árs 2000 og höfðu vaxið úr 39% árið 1990. Eignir lífeyrissjóða sem hlutfall af skuldum lánakerfisins jukust úr 26% á árinu 1991 í 35% á árinu 2000, sbr. mynd 10.
                    Mynd 10

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða.
    Í lífeyrissjóðalögunum eru ákvæði um fjárfestingar lífeyrissjóða sem miða að dreifingu eigna á ýmsa flokka verðbréfa auk þess sem kveðið er á um að tillit skuli tekið til áhættu jafnt og ávöxtunar í fjárfestingarákvörðunum.
    Í árslok 2000 hóf Fjármálaeftirlitið athugun á fjárfestingum lífeyrissjóða og flokkun þeirra. Í þeim athugunum sem þegar hafa verið gerðar hefur komið í ljós að fjárfestingar hafa í nokkrum tilvikum ekki verið í samræmi við ákvæði lífeyrissjóðslaganna og annmarkar hafa verið á flokkun fjárfestinga. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 129/1997 var lífeyrissjóðum ekki skylt að selja eignir í því skyni að fullnægja fjárfestingatakmörkum ef þeir voru yfir mörkunum við gildistöku laganna í júlí 1998. Þeim er hins vegar óheimilt að kaupa verðbréf á meðan þeir eru yfir lögbundnu hámarki og hafi þeir verið undir lögbundnu hámarki við gildistöku laganna ber þeim að virða mörkin.
    Fyrst og fremst hefur reynt á heimildir til fjárfestinga í óskráðum verðbréfum, en leyfilegt hámark er 10% af hreinni eign til greiðslu lífeyris samkvæmt síðasta endurskoðaða ársuppgjöri. Nokkrir lífeyrissjóðir hafa aukið hlut sinn í óskráðum verðbréfum frá gildistöku laganna þrátt fyrir að hafa þá verið yfir heimildum. Einnig hefur komið í ljós að óskráð verðbréf eru í mörgum tilfellum ranglega flokkuð sem skráð, t.d. ef stefnt er að skráningu í framtíðinni.

Hlutfall óskráðra verðbréfa.
    Í árslok 2000 voru óskráð verðbréf 10% af hreinni eign lífeyrissjóða og hafði hlutfall þeirra lækkað úr því að vera 16% í árslok 1999. Hlutfall óskráðrar verðbréfaeignar lífeyrissjóða með ábyrgð annarra lækkaði úr 22% í árslok 1999 í 5% í árslok 2000. Ástæður þessarar miklu lækkunar má að hluta til rekja til lagabreytinga í maí 2000 sem heimiluðu lífeyrissjóðum sem keyptu óskráð bréf tengd húsnæðislánum Byggingarsjóðs verkamanna og Byggingarsjóðs ríkisins á árunum 1972–1994 að flokka þau bréf sem skráð. Hlutfall óskráðrar verðbréfaeignar lífeyrissjóða án ábyrgðar annarra fór úr 15% í árslok 1999 í 11% í árslok 2000, sjá mynd 11. Í árslok 2000 voru 25 lífeyrissjóðir af 56 með yfir 10% í óskráðum verðbréfum. Þann 30. júní sl. hafði þeim fjölgað í 28.

     Mynd 11

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Hlutfall hlutabréfa.

    Hlutabréfaeign lífeyrissjóðanna í heild í árslok 2000, bein eign og eign í gegnum verðbréfasjóði, var 182 ma.kr. eða 32% af hreinni eign til greiðslu lífeyris og hafði hækkað úr 142 m.kr. eða 27% af eignum í árslok 1999, sjá mynd 12. Í árslok 2000 var einn lífeyrissjóður af 56 yfir leyfilegu hámarki eða 53% af hreinni eign til greiðslu lífeyris en hæsta leyfilega hlutfall er 50%. Tíu lífeyrissjóðir af 56 voru með hærra hlutfall hlutabréfa en 30% af eignum í árslok 2000.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Hlutfall gengisbundinna eigna.
    Gengisbundnar eignir lífeyrissjóða fóru úr 20% í árslok 1999 í 23% í árslok 2000. Samkvæmt heimildum í lífeyrissjóðalögunum er leyfilegt að vera með allt að 50% af eignum í erlendum gjaldmiðlum. Átta lífeyrissjóðir voru með yfir 30% eigna sinna í erlendum myntum og var hæsta hlutfallið 45%. Þann 30. júní sl. var hlutfall gengisbundinna eigna lífeyrissjóða komið í 26%. Eins og sjá má á mynd 13 eru það lífeyrissjóðir með ábyrgð annarra sem hafa hvað mest verið að auka hlut sinn í gengisbundnum eignum á tímabilinu. Þann 30. júní sl. var hlutfallið 24% af eignum en í árslok 1999 var það 13%. Hjá lífeyrissjóðum án ábyrgðar var hlutfallið 26% þann 30. júní sl. en í árslok 1999 var það 22%.

              Mynd 13

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fjárhagsstaða lífeyrissjóða.
    Eitt af megineinkennum íslenska lífeyrissjóðakerfisins er full sjóðssöfnun, þ.e. að lífeyrissjóðir skuli reknir í jafnvægi. Samkvæmt lögum telst sjóður vera í jafnvægi sé mismunur á hreinni eign til greiðslu lífeyris ásamt núvirtum framtíðariðgjöldum og heildarlífeyrisskuldbindingum ekki meiri en 10%, eða 5% fimm ár í röð. Öllum lífeyrissjóðum ber að láta framkvæma tryggingafræðilega athugun á fjárhagsstöðu árlega. Leiði athugunin í ljós að lífeyrissjóður sé ekki í jafnvægi ber að breyta samþykktum hans þannig að jafnvægi náist.
    Lífeyrissjóðir án bakábyrgðar eru allir reknir í jafnvægi með tilliti til skilyrða laganna samkvæmt tryggingafræðilegum úttektum fyrir árið 2000. Sé tekið mið af heildarskuldbindingum eru sjóðirnir að meðaltali reknir með 1,6% afgangi eða allt á bilinu 7,1% halla til 16,9% afgangs. Þrír sjóðir eru reknir með meira en 10% afgangi og þurfa því að huga að aukningu réttinda.
    Lífeyrissjóðir sem hafa bakábyrgð ríkis, sveitarfélaga eða banka á skuldbindingum eru undanskildir ákvæðum laga um fulla sjóðssöfnun. Þessir sjóðir taka ekki við nýjum sjóðfélögum utan þriggja sem hafa nýtt sér heimild í lögum til að stofna nýjar deildir sem byggja á fullri sjóðssöfnun. Fjárhagsstaða lífeyrissjóða með bakábyrgð er í flestum tilfellum slæm, en lokun þeirra hefur í för með sér að hraðar gengur á eignir þó dregið sé úr aukningu heildarskuldbindinga til lengri tíma litið. Um er að ræða 14 sjóði sem reka samtals 18 samtryggingardeildir og eru 12 þeirra reknar með halla á bilinu 62–93,5%, hinar 6 eru reknar í jafnvægi. Mikilvægt er að huga sérstaklega að stöðu þeirra deilda sem verst eru settar og eiga aðeins fyrir litlum hluta skuldbindinga sinna. Eignir þeirra munu verða uppurnar innan nokkurra ára herði launagreiðendur ekki á greiðslum sínum til sjóðanna.
    Lífeyrisbyrði lífeyrissjóða er mælikvarði sem nota má til að álykta um stöðu og framtíðarhorfur lífeyrissjóða en lífeyrisbyrði er lífeyrisgreiðslur sem hlutfall af iðgjöldum. Lífeyrisbyrði hækkar almennt eftir því sem sjóðirnir eldast og há lífeyrisbyrði gefur til kynna að hraðar gengur á eignir sjóðsins. Þannig er lífeyrisbyrði lífeyrissjóða án bakábyrgðar 35,3%. Hins vegar er lífeyrisbyrði lífeyrissjóða með bakábyrgð 56% ef Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) er ekki meðtalinn, en lífeyrisgreiðslur og iðgjöld hans eru margfaldar greiðslur hinna sjóðanna til samans. Lífeyrisbyrði lífeyrissjóða í heild er 36,7%.

Lífeyrissparnaður og viðbótartryggingavernd.
    Vörsluaðilar lífeyrissparnaðar eru nú um 50 talsins og þar af eru 24 lífeyrissjóðir. Vörsluaðilar, aðrir en lífeyrissjóðir, eru bankar, sparisjóðir, verðbréfafyrirtæki og líftryggingafélög.
    Samkvæmt upplýsingum sem Fjármálaeftirlitið hefur kallað eftir frá vörsluaðilum lífeyrissparnaðar öðrum en lífeyrissjóðum hefur sparnaður í vörslu þessara aðila aukist úr um 600 m.kr. í 2 milljarða frá árslokum 1999 til ársloka 2000. Eignir séreignardeilda lífeyrissjóða, að undanskildum þeim 7 sjóðum sem störfuðu sem hreinir séreignarsjóðir fyrir gildistöku laga nr. 129/1997, hafa vaxið úr um 970 milljónum í 1,9 milljarða á sama tímabili.
    Viðbótartryggingavernd og séreignarsparnaður geta sprottið af tveimur rótum, þ.e. iðgjaldi umfram lögbundið 10% lágmarksiðgjald og einnig af hinu lögbundna 10% iðgjaldi. Nokkrir lífeyrissjóðir nýta sér heimild í lögum til að skilgreina lágmarkstryggingarvernd lægri en 10% og bjóða jafnframt upp á hluta lágmarkstryggingaverndar í formi skilyrtrar séreignar. Sá hluti iðgjaldsins sem er umfram lágmarkstryggingarverndina er frjáls séreign eða viðbótartryggingavernd. Sjóðfélaga er heimilt samkvæmt lögum að ráðstafa iðgjaldi til viðbótartryggingaverndar og annarri séreign til annars vörsluaðila en þess sem móttekur skyldubundið iðgjald hans honum að kostnaðarlausu.
    Ofangreindar tölur sýna fram á mikinn vöxt viðbótarlífeyrissparnaðar landsmanna. Um 40% þjóðarinnar notfæra sér þennan sparnaðarmöguleika og því er enn stór hópur sem gerir það ekki.

Fjöldi lífeyrissjóða og uppbygging.
    Þann 1. júlí 2001 voru starfandi lífeyrissjóðir alls 54, en lífeyrissjóðir voru 60 í árslok 1999. Af framangreindum 54 lífeyrissjóðum taka 11 þeirra ekki lengur við iðgjöldum og fullstarfandi sjóðir voru því 43. Af 54 (43) lífeyrissjóðum teljast 40 (30) vera lífeyrissjóðir án ábyrgðar annarra, 14 (13) lífeyrissjóðir með ábyrgð annarra.
    Þrátt fyrir að sameiningar lífeyrissjóða frá árinu 1999 fram á mitt ár 2001 hafi helst verið hjá minni lífeyrissjóðum eru enn starfandi á annan tug smárra lífeyrissjóða. Eitt af starfsleyfisskilyrðum laga er að lágmarksfjöldi sjóðfélaga skal vera 800 nema sjóðurinn tryggi áhættudreifingu vegna skuldbindinga sinna með öðrum hætti. Fjórtán lífeyrissjóðir eru undir þessum mörkum en uppfylla skilyrðið með tryggingu, samstarfi við aðra lífeyrissjóði eða njóta bakábyrgðar sveitarfélags.
    Töluvert margir lífeyrissjóðir starfa í fleiri en einni sameignardeild vegna mismunandi réttindakerfa og 24 lífeyrissjóðir eru með séreignadeild auk sameignardeildar.
    Skipting heildareigna lífeyrissjóða í lok árs 2000 eftir lífeyriskerfum er þannig að stigakerfi eru með 71% eignanna, hlutfallskerfi 18%, aldurstengt kerfi 5% og séreignarsparnaður 6%, sbr. mynd 14. Stigakerfi felur í sér að iðgjöld eru umreiknuð í stig og er lífeyrisréttur tengdur uppsöfnuðum stigum. Aldurstengt kerfi er einnig stigakerfi en þar skiptir máli hvenær ævinnar iðgjöldin eru greidd til lífeyrissjóðsins og fá iðgjöld meira vægi eftir því sem sjóðfélaginn er yngri. Í hlutfallskerfi ávinnur sjóðfélaginn sér með greiðslu iðgjalds ákveðið hlutfall af launum eftirmanns eða af annarri launaviðmiðun á hverju ári. Skipting heildareigna lífeyrissjóða milli kerfa er nánast óbreytt frá árslokum 1999 en eina breytingin sem átt hefur sér stað er hækkun eigna í aldursháðu kerfi um 3% á kostnað eigna í hefðbundnu stigakerfi.

     Mynd 14             Hlutfallsleg skipting heildareigna eftir lífeyriskerfum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
2.3    Vátryggingamarkaður.

Vátryggingafélögum fækkar.
    Nú eru 14 íslensk vátryggingafélög með starfsleyfi. Þau bera nær eingöngu vátryggingaráhættu á Íslandi og eru öll í eigu íslenskra aðila, nema e.t.v. óverulegir eignarhlutir. Fyrirsjáanlegt er að á árinu 2002 muni einungis 8 þessara félaga bera vátryggingaráhættu.
    Þrjú hlutafélög bera höfuð og herðar yfir önnur íslensk vátryggingafélög og annast allar greinar skaðatrygginga. Tvö þeirra eru skráð á hlutabréfamarkað og hið þriðja stefnir að skráningu. Einnig fékk bátaábyrgðarfélag fyrir nokkrum árum starfsleyfi í öllum greinum skaðatrygginga. Þrjú líftryggingafélög eru öll í meirihlutaeigu annarra fjármálafyrirtækja. Tvö vátryggingafélög sem eru í eigu annarra vátryggingafélaga starfa nú eingöngu að því að ljúka eldri samningum um endurtryggingar.
    Sérstök lög um bátaábyrgðarfélög voru felld úr gildi á miðju ári 2000. Stofn þeirra þriggja hreinu bátaábyrgðarfélaga sem enn störfuðu hefur verið fluttur eða verður fluttur á þessu ári til Sjóvár-Almennra trygginga hf. Einnig er stefnt að því að sameina Samábyrgðina hf. því félagi í árslok, en hún var stofnuð upp úr Samábyrgð Íslands á fiskiskipum.
    Viðlagatrygging Íslands starfar samkvæmt sérlögum, hefur afmarkað hlutverk og er því sleppt í umfjöllun um rekstur vátryggingafélaga hér á eftir. Iðgjöld Viðlagatryggingar voru 750 milljónir króna á árinu 2000, en tjón námu 2,6 ma.kr., einkum vegna jarðskjálftanna á Suðurlandi í júní 2000. Eigið fé hennar var 5,15 ma.kr.
    Iðgjöld vegna vátryggingasamninga sem komust á fyrir milligöngu íslenskra vátryggingamiðlara voru á árinu 2000 samtals 1,3 ma.kr., einkum við vátryggingafélög í öðrum aðildaríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Auk þess geta vátryggingatakar átt bein viðskipti við vátryggjendur í öðrum aðildarríkjum, en umfang þeirra viðskipta er óþekkt.
    Hér á eftir er gerð nánari grein fyrir starfsemi íslenskra vátryggingafélaga eins og hún birtist í ársreikningum fyrir reikningsárið 2000. Allar fjárhæðir eru færðar til verðlags ársins 2000. Breytingar fjárhæða milli ára verða því breytingar umfram verðlagsbreytingar.

Aukin velta í skaðatryggingum.
    Skaðatryggingar árið 2000 einkenndust af vexti í öllum meginþáttum; iðgjöldum, tjónum og ávöxtun fjármuna. Iðgjaldatekjur ársins hækkuðu um 10% umfram verðlagsbreytingar frá fyrra ári eða um 1,5 ma.kr. og námu 17,1 ma.kr. Hækkun iðgjalda kom nær eingöngu úr ökutækjatryggingum. Tjón ársins 2000 voru 21% hærri en 1999 og námu 18,7 ma.kr. Mest hækkun tjóna var í eignatryggingum, en ökutækjatjón hækkuðu einnig mikið. Þróun bæði iðgjalda og tjóna var því æði misjöfn eftir greinaflokkum eins og nánar greinir síðar. Þegar hlutur endurtryggjenda í iðgjöldum og tjónum hefur verið dreginn frá standa eftir eigin iðgjöld ársins að fjárhæð 13,6 ma.kr. og eigin tjón að fjárhæð 14,6 ma.kr.
     Mynd 15 sýnir þróun í iðgjöldum og tjónum í skaðatryggingum síðustu ár, annars vegar þróun heildarfjárhæða og hins vegar iðgjöld og tjón í eigin hlut.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Auk iðgjalda og tjóna hafa rekstrarkostnaður, fjárfestingartekjur og breyting á útjöfnunarskuld mikil áhrif á afkomu vátryggingastarfseminnar. Rekstrarkostnaður var 3,2 ma.kr. og hefur hækkað jafnt og þétt síðustu ár. Gengið var á útjöfnunarskuld í öllum greinaflokkum, mest í lögboðnum ökutækjatryggingum og innlendum endurtryggingum. Nam lækkun útjöfnunarskuldarinnar um 200 m.kr. í hvorum greinaflokki.

Einstakir greinaflokkar skaðatrygginga.
     Mynd 16 sýnir hvernig iðgjöld ársins hafa þróast í helstu greinaflokkum skaðatrygginga. Jafnframt sést innbyrðis vægi einstakra greinaflokka í iðgjaldatekjum.
    Frumtryggingaiðgjöld ársins 2000 voru samtals 16,1 ma.kr., en samsvarandi tjón 17,9 ma.kr. Í endurtryggingum sem íslensk vátryggingafélög tóku að sér voru iðgjöld rúmlega 1 ma.kr., en tjón 0,8 ma.kr.
    Lögboðnar ökutækjatryggingar eru umfangsmesti greinaflokkur frumtrygginga. Þar hækkuðu iðgjaldatekjur um 1,4 ma.kr. frá fyrra ári, eða um 32%, en miklar iðgjaldahækkanir á árunum 1999 og 2000 fóru saman við fjölgun bíla. Hlutur lögboðinna ökutækjatrygginga var 37% af heildariðgjöldum frumtrygginga, en hafði verið 29% á árinu 1999. Hlutur ökutækjatrygginga í heild var rúmur helmingur af samanlögðum frumtryggingaiðgjöldum á árinu 2000, en var 43% árið 1999.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.     Mynd 17 sýnir hvernig tjón ársins skiptast eftir greinaflokkum. Tjón í eignatryggingum námu 4 ma.kr. og hækkuðu um 1,4 ma.kr. eða 54% frá fyrra ári. Hækkunin var m.a. vegna stórra tjóna sem eru að drjúgum hluta bætt af endurtryggjendum, þannig að þeirra gætir ekki nema óverulega í afkomu greinarinnar á árinu. Mikil hækkun tjóna varð einnig í sjó-, flug- og farmtryggingum (36%) og í slysa- og sjúkratryggingum (24%).


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í lögboðnum ökutækjatryggingum hækkuðu tjón ársins um 16% frá fyrra ári og námu 8,3 ma.kr. Þau skiptast þannig að tjónaskuld hækkaði um 2,7 ma.kr. en bókfærð tjón námu 5,6 ma.kr. Af tjónagreiðslunum voru 62% vegna tjóna sem urðu á fyrri reikningsárum, en 38% vegna nýrra tjóna. Tjón sem urðu á reikningsárinu í lögboðnum ökutækjatryggingum voru metin á 9,6 ma.kr. í árslok 2000. Af þeirri fjárhæð var 2,1 ma.kr. þegar greiddur.
    Í lögboðnum ökutækjatryggingum og í eignatryggingum voru tjón verulega hærri en iðgjöld. Tjónahlutfall í lögboðnum ökutækjatryggingum lækkaði þó frá fyrra ári, enda hækkuðu iðgjöld mikið eins og fyrr segir. Frekari hækkun iðgjaldatekna er fyrirsjáanleg í þeim greinaflokki, þar sem iðgjaldahækkanir á árinu 2000 komu ekki að fullu fram á því ári. Tjónahlutfallið ætti því að lækka áfram á yfirstandandi ári, nema tjónaþróun snúist mjög til hins verra. Mikill hluti af hækkun tjóna í eignatryggingum kemur í hlut endurtryggjenda, og voru eigin tjón 96% af eigin iðgjöldum.

Aukin umsvif í líftryggingum.
    Bókfærð iðgjöld líftrygginga voru 1,4 ma.kr., sem er 0,4 ma.kr. meira en á árinu 1998. Vöxtur í líftryggingum með fjárfestingaráhættu líftryggingataka hélt áfram. Við árslok 2000 nam líftryggingaskuld vegna þeirra 0,7 ma.kr. Umfang líftryggingastarfseminnar er þó aðeins brot af umfangi skaðatrygginga.

Aukinn hagnaður.
    Samanlagður hagnaður vátryggingafélaganna 5 var 1,5 ma.kr. á árinu 2000. Mynd 18 sýnir hvernig hagnaður hefur þróast síðustu ár.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í rekstrarreikningi er fjárfestingartekjum skipt eftir fastri reglu á vátryggingarekstur og fjármálastarfsemi og síðan reiknaður hagnaður af hvorum hluta starfseminnar um sig. Þessi skipting hefur hvorki áhrif á fjárfestingartekjur í heild né niðurstöðutölu rekstrarreikningsins, hagnaðinn.
     Mynd 19 sýnir að hagnaður af vátryggingarekstri hefur minnkað ár frá ári en hagnaður af fjármálarekstri aukist á móti. Þess má geta að í árshlutauppgjörum stóru vátryggingafélaganna þriggja á miðju ári 2001 höfðu orðið mikil umskipti þar sem reiknaður hagnaður af vátryggingastarfsemi hafði aukist, en tap orðið af fjármálarekstri eftir að fjárfestingatekjur höfðu verið fluttar yfir á vátryggingarekstur.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Efnahagur vátryggingafélaga.
    Samanlagðar eignir vátryggingafélaga voru 63,3 ma.kr. við lok ársins 2000 og höfðu þá hækkað frá fyrra ári um 6,6 ma.kr. Í samræmi við eðli vátryggingastarfsemi voru fjárfestingar stærsti eignaliður félaganna, 44,7 ma.kr. í árslok 2000. Skuldamegin er vátryggingaskuldin stærst, 43,8 ma.kr. Í grófum dráttum má segja að fjárfestingar og vátryggingaskuld séu nálægt 70% af efnahag vátryggingafélaga.
     Mynd 20 sýnir þróun helstu fjárfestingaliða. Vöxtur í fjárfestingum var einkum í verðbréfum með breytilegum tekjum, en hlutur verðbréfa með föstum tekjum minnkaði. Bílalán, sem eru meiri hluti veðlána, voru í árslok 2000 svipuð og árið áður, en veðlán í heild drógust heldur saman.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Mynd 21 sýnir eigið fé og vátryggingaskuld í heild. Báðir liðir hafa vaxið jafnt og þétt. Hluti eigin fjár er þó tvítalinn vegna eignarhluta sem vátryggingafélög eiga í öðrum vátryggingafélögum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    
    Tjónaskuldin í heild var 32,7 ma.kr., eða þrír fjórðu hlutar vátryggingaskuldarinnar. Hún er rúmur helmingur af efnahag vátryggingafélaga. Tjónaskuld í lögboðnum ökutækjatryggingum var 20,1 ma.kr., þar af voru 12,6 ma.kr. vegna óuppgerðra tjóna frá fyrri árum. Tjónaskuld vegna lögboðinna ökutækjatrygginga er því tæpur þriðjungur af efnahag vátryggingafélaga.
    Hlutur endurtryggjenda í vátryggingaskuld er færður sem eignaliður í ársreikningum, en hann nam 5,5 ma.kr. í árslok 2000. Eigin vátryggingaskuld var því samtals 38,3 ma.kr. Mynd 22 sýnir þróun helstu liða eigin vátryggingaskuldar

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Iðgjaldaskuld hækkar í samræmi við aukin umsvif og hærri iðgjöld í ökutækjatryggingum og tjónaskuld hækkar í samræmi við tjón. Eigin tjónaskuld í lögboðnum ökutækjatryggingum hækkaði um 2,5 ma.kr. á árinu 2000. Hækkunar tjóna í eignatryggingum gætir ekki í þessari mynd þar sem hækkunin lendir að mestu á endurtryggjendum, eins og áður segir.

3.    Áherslur í starfi Fjármálaeftirlitsins næstu missiri.
    Áherslur Fjármálaeftirlitsins nú eru greindar í fjóra meginþætti: Áhættustýringu og innra eftirlit, starfshætti á fjármálamarkaði, markaðsaðhald og samkeppnishæfni fjármálamarkaðar. Þessar áherslur hafa flestar verið lagðar til grundvallar í starfseminni síðustu missiri. Áherslurnar hæfa öllum sviðum fjármálamarkaðar.

3.1    Áhættustýring og innra eftirlit.
    Frá upphafi hefur Fjármálaeftirlitið talið það meginhlutverk sitt að stuðla að því að í hverju fjármálafyrirtæki 6 séu stjórnendur sem til þess eru bærir að búa fyrirtækinu sterkt skipulag, skýra stefnu, skilvirkar innri reglur og verkferla, viðeigandi upplýsingakerfi og innri endurskoðun. Með því er stjórnendunum sjálfum og öðrum starfsmönnum kleift að meta með réttu þá áhættu sem í starfseminni felst og stýra henni í samræmi við styrkleika fyrirtækisins.

Samræming milli sviða fjármálamarkaðar.
    Í starfi Fjármálaeftirlitsins hefur glögglega komið í ljós að mótun áhættustýringar og innra eftirlits er mislangt á veg komin á einstökum sviðum fjármálamarkaðar. Jafnframt er ljóst að miðla má betur reynslu og þekkingu á áhættustýringu og innra eftirliti af einu sviði fjármálamarkaðar til annars. Að þessu er Fjármálaeftirlitið að stuðla í starfi sínu.
    Fjármálaeftirlitið er nú að kynna drög að tilmælum um innra eftirlit og áhættustýringu hjá fjármálafyrirtækjum. Að fenginni reynslu telur Fjármálaeftirlitið einnig ástæðu til að samræma löggjöf sem þetta varðar. Þannig þarf t.d. að taka afstöðu til þess hvort áskilja eigi í löggjöf um vátryggingafélög og fyrirtæki í verðbréfaþjónustu að til staðar sé innri endurskoðun sem heyri beint undir stjórn viðkomandi fyrirtækis.

Hæfi stjórna.
    Fjármálaeftirlitið hefur hugað að hæfi stjórna og daglegra stjórnenda fjármálafyrirtækja. Mat á því er nú fastur liður í umsögn um starfsleyfi. Einnig hefur Fjármálaeftirlitið átt fundi með stjórnum starfandi fyrirtækja til þess að leggja áherslu á hlutverk þeirra og ábyrgð. Fjármálaeftirlitið mun halda áfram á þessari braut.

Fylgjast þarf með vanskilum og afskriftum.
    Í samræmi við fyrri aðvaranir Fjármálaeftirlitsins vegna útlánsvaxtar og eiginfjárstöðu lánastofnana hefur verið lögð áhersla á að fylgjast með þróun vanskila og afskriftum lánastofnana síðustu missiri. Svo mun verða áfram. Enn fremur er brýnt að fylgjast með markaðsáhættu allra fjármálafyrirtækja.

Nauðsyn árvekni.
    Þegar áhættustýring og innra eftirlit bregst gera erfiðleikar sjaldnast boð á undan sér. Nauðsynlegt er að brýna fyrir stjórnum, framkvæmdastjórum og endurskoðendum fjármálafyrirtækja að gera Fjármálaeftirlitinu þegar í stað viðvart ef alvarlegir erfiðleikar koma í ljós.

3.2    Starfshættir á fjármálamarkaði.
    Fjármálaeftirlitinu er ætlað að fylgjast með því að starfsemi á fjármálamarkaði sé í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Í samræmi við þetta leggur Fjármálaeftirlitið aukna áherslu á að fylgjast með starfsháttum á fjármálamarkaði.

Starfshættir á verðbréfamarkaði.
    Á síðasta ári lagði Fjármálaeftirlitið áherslu á að koma á virkara eftirliti með starfsháttum á verðbréfamarkaði. Jafnframt var fylgt eftir nýlegum breytingum á lögum um verðbréfaviðskipti sem styrkt hafa umgjörð verðbréfaviðskipta og skapað bættar forsendur fyrir skilvirku eftirliti. Markmiðið er að bæta yfirsýn yfir hvernig eftirlitsskyldir aðilar starfa á verðbréfamarkaði og leggja til úrbætur þegar ástæða er til.
    Eftirlit og yfirsýn á verðbréfamarkaði tengist enn fremur eftirliti á öðrum sviðum, svo sem eftirliti með fjárhagsstöðu lánastofnana og vátryggingafélaga og eftirliti með fjárfestingum lífeyrissjóða. Fjármálaeftirlitið hyggst halda áfram á þessari braut.

Starfshættir á öðrum sviðum fjármálamarkaðar.
    Þörf er á því að huga að starfsháttum á öðrum sviðum fjármálamarkaðar. Þannig hefur Fjármálaeftirlitið ástæðu til að ætla að úrbóta sé þörf í miðlun og sölu líftrygginga, en framboð og sala á söfnunarlíftryggingum hefur aukist mjög á síðustu árum. Fjármálaeftirlitið hefur hugað sérstaklega að upplýsingaskyldu vátryggingafélaga og vátryggingamiðlara gagnvart vátryggingataka. Til athugunar er hvort setja þurfi leiðbeinandi tilmæli sem útfæri nánar skyldur þessara aðila, umfram það sem kveðið er á um í lögum og reglum.

Viðskiptamenn fjármálafyrirtækja á varðbergi.
    Viðskiptamenn snúa sér í vaxandi mæli til Fjármálaeftirlitsins með kvartanir vegna viðskipta við tiltekin fjármálafyrirtæki. Slík mál geta gefið tilefni til að bæta starfshætti á viðkomandi sviði, en Fjármálaeftirlitið hefur ekki úrskurðarvald vegna réttarágreinings viðskiptamanns og fjármálafyrirtækis. Starfandi eru tvær úrskurðarnefndir, úrskurðarnefnd í vátryggingamálum og úrskurðarnefnd í viðskiptum við fjármálafyrirtæki, sem taka slík mál til afgreiðslu, en nefndirnar eru vistaðar hjá Fjármálaeftirlitinu.

3.3    Markaðsaðhald.
    Fjármálaeftirlitið leggur áherslu á að stuðla að auknu gegnsæi í starfsemi fjármálafyrirtækja. Með því skapast aukið aðhald af hálfu markaðarins, samhliða aðhaldi innra eftirlits og opinbers eftirlits með fjármálastarfsemi.

Samræming og aðlögun í reikningsskilum.
    Endurskoðun og samræming reikningsskila fellur undir þetta. Fjármálaeftirlitið hefur lýst áformum um að endurskoða ákvæði um matsákvæði verðbréfa í reglum sem það setur um ársreikninga fjármálafyrirtækja. Einnig þarf að stuðla að aukinni samræmingu í framkvæmd reikningsskila á markaði, m.a. í tengslum við nýjungar í fjármálaþjónustu. Nefna má að Fjármálaeftirlitið hefur sent til umsagnar og birt á heimasíðu sinni drög að tilmælum um birtingu upplýsinga um fjármálaskjöl í ársreikningum.

Gegnsæi í tryggingafræðilegu mati.
    Fjármálaeftirlitið hefur áður lýst því að auka þurfi gegnsæi í rekstri vátryggingafélaga. Nefnd vinnur við endurskoðun reglugerðar um ársreikninga vátryggingafélaga annarra en líftryggingafélaga. Fjallar hún m.a. um hvort bæta megi upplýsingagjöf í skýringum ársreiknings, einkum að því er varðar vátryggingaskuld og þróun hennar. Enn fremur hefur Fjármálaeftirlitið áður kynnt að hugað sé að sérstökum reglum um vátryggingaskuld með sömu markmið að leiðarljósi. Tjónaskuld í lögboðnum ökutækjatryggingum er rúmur þriðjungur af efnahag vátryggingafélaganna. Því skiptir mat hennar og þróun miklu máli.
    Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegt að auka gegnsæi í tryggingafræðilegum úttektum á lífeyrissjóðum. Unnið er að málinu á vettvangi tryggingastærðfræðinga og mun Fjármálaeftirlitið fylgjast með þeirri vinnu.

3.4    Samkeppnishæfni fjármálamarkaðar.
    Í allri stefnumótun og starfsemi Fjármálaeftirlitsins er gengið út frá því að stofnunin hafi hlutverki að gegna við að skapa hér samkeppnishæfan fjármálamarkað. Jafnframt ber Fjármálaeftirlitinu að taka þátt í mótun fjármálamarkaðar og fylgja eftir sjónarmiðum um hagsmuni viðskiptamanna og öryggi í fjármálaþjónustu.

Grunnreglur um árangursríkt fjármálaeftirlit.
    Eitt af grunnskilyrðum þess að fjármálamarkaður sé metinn samkeppnishæfur er að til staðar séu lög og reglur sem geri hliðstæðar kröfur til starfseminnar og í samkeppnislöndum. Ekki er síst horft til þess hvort opinberu eftirliti með fjármálamarkaði sé skapað sterkt umhverfi og að eftirlitið sjálft uppfylli grunnreglur um árangursríkt fjármálaeftirlit sem alþjóðasamtök eftirlita á öllum sviðum hafa sett.
    Eins og greint er frá í kafla 1.3 gerði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn athugun á íslenska fjármálakerfinu í lok síðasta árs, en skýrsla þess efnis var birt í maí sl. Athugunin beindist m.a. að því hvort grunnreglur um árangursríkt eftirlit væru uppfylltar hér á landi. Þó það væri mat sjóðsins að Fjármálaeftirlitið væri í góðri stöðu til að takast á við verkefni sín komu fram ýmsar athugasemdir og ábendingar um það sem betur mætti fara og stuðla myndi að frekara öryggi. Úrbætur í samræmi við þetta munu styrkja eftirlitið og stuðla að aukinni samkeppnishæfni fjármálamarkaðar.

Erlent samstarf og upplýsingamiðlun.
    Fjármálaeftirlitið tekur þátt í erlendu samstarfi í því skyni að nýta sér þekkingu og reynslu erlendra fjármálamarkaða. Sama markmið liggur hér til grundvallar, þ.e. samkeppnishæfni og öryggi íslensks fjármálamarkaðar.
    Einnig leitast Fjármálaeftirlitið við að miðla upplýsingum um fjármálamarkaðinn í heild. Ársskýrslan miðar að þessu auk þess sem Fjármálaeftirlitið veitir víðtækar upplýsingar á heimasíðu sinni.
Fylgiskjal VI.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1999,
um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

    Með frumvarpinu er greint frá áætlun um umfang og kostnað af opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi og lagðar til gjaldaheimildir til að standa undir kostnaðnum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að kostnaður af starfsemi Fjármálaeftirlitsins verði 264 m.kr. árið 2002, sem greiðist með 215 m.kr. álögðu gjaldi á fjármálafyrirtæki, 4 m.kr. sértekjum og 45 m.kr. með uppsöfnuðum afgangi frá fyrra ári.


     1 Þar sem fjallað er um viðskiptabanka og sparisjóði í þessum kafla um lána- og verðbréfamarkaðinn er tekið mið af þremur viðskiptabönkum og sex stærstu sparisjóðum til að fá sambærilegar talnaraðir fyrir fyrri hluta árs 2001 og fyrri ár. Afkoma og efnahagur Kaupþings hf. og Sparisjóðabanka Íslands hf. endurspeglast að verulegu leyti í tölum fyrir sex stærstu sparisjóðina. Afkomutölur frá fyrri hluta ársins 2001 hafa verið umreiknaðar yfir á heilt ár í útreikningi á hlutfallstölum til samanburðar við heilsárstölur.
     2 Vanskil samkvæmt úrtaki sem nær yfir 97% af heildarútlánum viðskiptabanka og sparisjóða. Með vanskilum er hér átt við vanskil sem staðið hafa lengur en einn mánuð.
     3 Hér er átt við eigið fé samkvæmt eiginfjárákvæðum laga.
     4 Hrein raunávöxtun lífeyrissjóða er ávöxtun eigna miðað við vísitölu neysluverðs þegar kostnaður hefur verið dreginn frá fjárfestingartekjum.
     5 Þessar tölur eru samanlagðar tölur allra vátryggingafélaganna. Ekki er tekið tillit til þess að vátryggingafélög eiga eignarhluti í öðrum vátryggingafélögum, sem verður til þess að hagnaður er tvítalinn að hluta.
     6 Með fjármálafyrirtæki er hér átt við fyrirtæki á öllum sviðum fjármálamarkaðar, þ.e. lánastofnanir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu, vátryggingafélög, vátryggingamiðlanir og lífeyrissjóði.