Ferill 319. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 404  —  319. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á tollalögum nr. 55/1987, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


1. gr.


    Á eftir 6. gr. A laganna kemur ný grein, 6. gr. B, sem orðast svo:
    Fjármálaráðherra úthlutar tollkvótum vegna innflutnings samkvæmt milliríkja- og alþjóðasamningum, að því leyti sem vörur falla ekki undir viðauka IIIA, IIIB, IVA eða IVB við lög þessi.
    Fjármálaráðherra er heimilt að fela nefnd skv. 75. gr. laga nr. 99/1993 að gera tillögu um úthlutun tollkvóta skv. 1. mgr.
    Úthlutun tollkvóta skal, eftir því sem við getur átt, vera í samræmi við samninginn um málsmeðferð við veitingu innflutningsleyfa sem birtur er í 1. viðauka A við samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
    Heimilt er að skipta tollkvótum upp í einingar. Tollkvótum skal úthlutað til ákveðins tíma, allt að einu ári í senn. Berist umsóknir um meiri innflutning en nemur tollkvóta vörunnar skal heimilt að láta hlutkesti ráða úthlutun eða leita tilboða í heimildir til innflutnings samkvæmt tollkvótum og skal andvirðið þá renna í ríkissjóð. Endurúthluta má tollkvótum sem ekki eru nýttir innan þess frests sem tilgreindur er við úthlutun kvótans. Heimilt er í stað úthlutunar tollkvóta að veita almenna heimild til innflutnings á þeim tollum sem um tollkvótana gilda.
    Um viðurlög við misnotkun á tollkvóta í því skyni að fá ívilnun í tolli eða sköttum við innflutning á vörum sem ekki falla undir tollkvótann skal fara skv. XIV. kafla laganna. Heimilt er að synja þeim um úthlutun tollkvóta sem gerst hefur sekur um misnotkun.
    Fjármálaráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um úthlutun tollkvóta samkvæmt þessari grein þar sem m.a. komi fram úthlutunarkvóti, innflutningstímabil, tollataxtar og aðrir skilmálar sem um innflutninginn skulu gilda.

2. gr.

    A-tollur allra tollskrárnúmera í 24. kafla í viðauka I við lögin verður 0%.

3. gr.

    1. gr. laganna öðlast þegar gildi en 2. gr. laganna öðlast gildi 1. janúar 2002. Ákvæði 2. gr. tekur til allra vara sem eru ótollafgreiddar við gildistöku laganna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að fjármálaráðherra fái heimild til þess að úthluta tollkvótum vegna innflutnings samkvæmt milliríkja- og alþjóðasamningum, að því leyti sem innfluttar vörur falla ekki undir viðauka tollalaga um landbúnaðarvörur. Tilefni þessarar breytingar er samningur Íslands og Noregs, sem gerður var í mars árið 2000, um gagnkvæma tollfrjálsa tollkvóta á íslenskum hestum annars vegar og á norskum kartöfluflögum og ostum hins vegar.
    Í 6. gr. A í tollalögum, nr. 50/1987, er að finna reglur um hvernig skuli standa að úthlutun tollkvóta fyrir landbúnaðarvörur sem veittir eru samkvæmt samningnum um viðskipti með landbúnaðarvörur hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni (oft nefndur WTO-samningurinn/GATT-samningurinn) og er viðauki við samninginn um Alþjóðaviðskiptastofnunina. Í lögum hefur eingöngu verið kveðið á um hvernig skuli standa að úthlutun tollkvóta að því er varðar vörur sem flokkast undir viðauka tollalaga um landbúnaðarvörur. Í þeim tilvikum skal tollkvótum úthlutað samkvæmt ákvæðum laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, og er úthlutun á forræði landbúnaðarráðherra. Þar sem ostar falla undir áðurnefndan samning um landbúnaðarvörur heyrir úthlutun tollkvóta fyrir norsku ostana undir landbúnaðarráðherra. Lagareglur hefur hins vegar skort varðandi úthlutun tollkvóta í öðrum tilvikum, svo sem þegar slíkir kvótar eru ákveðnir í einstökum fríverslunarsamningum. Lagaheimild hefur því ekki verið fyrir hendi fyrir úthlutun tollkvóta fyrir norskar kartöfluflögur en slíkar reglur eru forsenda þess að Íslendingar geti staðið við áðurnefnt samkomulag við Norðmenn. Gert er ráð fyrir að úthlutun tollkvóta skv. 1. gr. frumvarpsins heyri undir fjármálaráðherra.
    

Um 2. gr.

    Lagt er til að tollar af tóbaki verði felldir niður þar sem Ísland hefur með breytingum á bókun 3 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, skuldbundið sig til að fella niður tolla af tóbaki sem flutt er til landsins frá Evrópska efnahagssvæðinu, frá 1. janúar 2002. Ekki er gert ráð fyrir að gjaldtaka ríkisins af tóbaki lækki í kjölfarið þar sem samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi. Þar er lagt til að greiða skuli til ríkissjóðs sérstakt gjald, tóbaksgjald, af tóbaki sem flutt er hingað til lands eða framleitt hér á landi. Með þessu móti er komið í veg fyrir að opinber gjaldtaka verði mismunandi af tóbaki frá Evrópu annars vegar og löndum utan Evrópu hins vegar.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

     Frumvarp til laga um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvenns konar breytingar á tollalögum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að tollar af tóbaki verði felldir niður. Sú breyting tengist öðru lagafrumvarpi um að greitt verði sérstakt tóbaksgjald í ríkissjóð og vísast til umsagnar með því frumvarpi um áhrif á afkomu ríkissjóðs. Í öðru lagi er í frumvarpinu lagt til að fjármálaráðherra fái heimild til að úthluta tollfrjálsum kvótum vegna innflutnings á vörum sem falla ekki undir viðauka tollalaga um landbúnaðarvörur. Tilefni þeirrar breytingar er samningur Íslands og Noregs, sem gerður var í mars árið 2000, um gagnkvæma tollfrjálsa kvóta á íslenskum hestum og norskum kartöfluflögum og ostum. Með hliðsjón af samkomulaginu er gert ráð fyrir að heimilaður verði tollfrjáls innflutningur á 15 tonnum af norskum kartöfluflögum á móti tollfrjálsum útflutningi til Noregs á 200 íslenskum hrossum. Lauslega áætlað má reikna með að ríkissjóður verði af 2–3 m.kr. tekjum af tollum verði frumvarpið óbreytt að lögum.