Ferill 180. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 502  —  180. mál.




Nefndarálit



um frv. til girðingarlaga.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Ólöfu Vilhjálmsdóttur frá landbúnaðarráðuneyti og Ólaf R. Dýrmundsson landnýtingarráðunaut, Bændasamtökum Íslands. Var málið áður flutt á 126. löggjafarþingi, sbr. þskj. 1013, 636. mál, og studdist nefndin við umsagnir sem þá bárust vegna málsins frá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar, Landgræðslu ríkisins, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Vegagerðinni, fjallskilanefnd Eyjafjarðarsveitar, Bændasamtökum Íslands, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Landssambandi sumarhúsaeigenda, Búnaðarsambandi Kjalarnesþings og Þjóðkirkjunni.
    Með frumvarpinu eru gildandi girðingarlög, nr. 10/1965, endurskoðuð og er meginmarkmið þess að fjalla um girðingar og hverjir fara með forræði yfir þeim svo og kostnaðarskiptingu við uppsetningu þeirra á landamerkjum. Helsta breyting frá gildandi lögum felst í því að fallið er frá þeirri reglu að hálfur girðingarkostnaður skiptist eftir helmingaskiptareglu en hinn helmingur eftir því hvert gagn hver um sig hafi af girðingunni. Að mati nefndarinnar er lengi hægt að deila um hvor aðili hafi meira gagn af girðingu þar sem mismunandi sjónarmið rekast á. Í þess stað er kveðið á um í frumvarpinu að meginreglan sé sú að skipting girðingarkostnaðar á landamerkjum verði til helminga en þó verði hægt að semja um aðra skiptingu kostnaðar. Sú regla að hægt verði að semja um aðra skiptingu kostnaðar nái aðilar um það samkomulagi er breyting frá frumvarpi því sem lagt var fram á 126. löggjafarþingi. Telur nefndin það til mikilla bóta og skapa nauðsynlegan sveigjanleika þannig að hægt sé að taka tillit til mismunandi aðstæðna. Náist hins vegar ekki samkomulag kemur til kasta úrskurðaraðila skv. 7. gr. frumvarpsins.
    Vekur nefndin athygli á að frumvarpinu er ætlað að vera rammalöggjöf þar sem fjallað verði með ítarlegri hætti um ýmis atriði í reglugerð, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Leggur nefndin áherslu á að fjallað verði á ítarlegan hátt um t.d. hlið og gerð, uppsetningu, viðhald og niðurtöku rafgirðinga. Þá vekur nefndin athygli á því að þrátt fyrir ákvæði þessa frumvarps halda gildi sínu sérákvæði um girðingar í öðrum lögum, t.d. vegalögum, nr. 45/1994, sem fjalla m.a. um girðingar meðfram vegum, og lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, þar sem m.a. er kveðið á um girðingar sem liggja yfir fornar þjóðleiðir eða skipulagða göngu-, hjólreiða- eða reiðstíga og skyldu til að hafa hlið á slíkum girðingum eða göngustiga.
    Í umfjöllun sinni um málið hefur nefndin tekið mið af athugasemdum sem fram koma í umsögnum um málið og leggur m.a. til nokkrar breytingar á frumvarpinu með hliðsjón af þeim. Helstu breytingar sem nefndin leggur til eru í fyrsta lagi að í markmiðslýsingu 1. gr. falli brott setning þar sem segir að lögin fjalli um hvaða skilyrði girðing þurfi að uppfylla til að teljast fullnægjandi varsla fyrir búfé. Ljóst er að lögunum er í reynd ekki ætlað að fjalla um það atriði heldur er gert ráð fyrir að um það verði fjallað í reglugerð, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Með hliðsjón af því að frumvarpinu er ætlað að vera rammalöggjöf um girðingar leggur nefndin til að ákvæði 2. gr. verði einfaldað til muna og í stað þess að fjalla á ítarlegan hátt um hvernig einstakar tegundir girðinga skuli settar upp verði látið nægja að tilgreina þær tegundir girðinga sem falla undir lögin. Með því verði meira svigrúm til að kveða á um það í reglugerð hvernig einstakar tegundir girðinga skuli úr garði gerðar með hliðsjón af aðstæðum þar sem lýst yrði t.d. þeim lágmarks- og hámarkskröfum sem gera þarf til girðinga. Hér vill nefndin vekja sérstaka athygli á nauðsyn þess að í reglugerð verði fjallað um skurði og girðingar á skurðbakka en samkvæmt breytingartillögunni fellur brott útlistun á skurði með gaddavírsstrengjum sem tegund girðingar. Þar sem krafa um girðingu getur falið í sér nokkurn kostnað fyrir þann sem krafa beinist að leggur nefndin til að skýrt sé kveðið á um það í lögunum að rétturinn til að krefja gagnaðila um endurgreiðslu á hluta kostnaðar, þegar girt er samkvæmt úrskurði, sbr. lokamálslið 7. gr., sé bundinn því að ekki hafi verið reist dýrari girðing en úrskurðaraðilar töldu nauðsynlega. Þá leggur nefndin til að 2. málsl 1. mgr. 6. gr. verði orðaður á skýrari hátt heldur en gert er í frumvarpinu. Þar er ætlunin að hægt sé að semja um aðra skiptingu en 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. gerir ráð fyrir en einnig geti forráðamenn sveitarfélaga ákveðið einhliða að reisa girðingu milli afrétta og heimalanda og greiði þá sveitarfélagið allan stofnkostnað girðingarinnar. Í 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að viðkomandi búnaðarsamband og sveitarfélag tilnefni hvort sinn úrskurðaraðilann ef aðilar verði ekki sáttir um hvers konar girðingu skuli reisa, kostnaðarskiptingu og aðra framkvæmd. Til að sjónarmið sem flestra komist að leggur nefndin til að auk framangreindra aðila skuli sýslumaður tilnefna einn úrskurðaraðila.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem tillaga er gerð um í sérstöku þingskjali.
    Við afgreiðslu málsins voru fjarverandi Kristinn H. Gunnarsson, Jónína Bjartmarz og Einar Oddur Kristjánsson.

Alþingi, 5. des. 2001.



Drífa Hjartardóttir,


form., frsm.


Sigríður Jóhannesdóttir.


Guðjón Guðmundsson.



Karl V. Matthíasson.


Þuríður Backman.


Sigríður Ingvarsdóttir.