Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 633, 127. löggjafarþing 366. mál: sameignarfyrirtæki um Orkuveitu Reykjavíkur.
Lög nr. 139 21. desember 2001.

Lög um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur.


1. gr.

     Heimilt er Reykjavíkurborg, Akraneskaupstað, Hafnarfjarðarkaupstað, Borgarbyggð, Garðabæ og Borgarfjarðarsveit að stofna sameignarfyrirtæki um rekstur Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjunar og Hitaveitu Borgarness er nefnist Orkuveita Reykjavíkur. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík, en heimilt er að starfrækja útibú á öðrum stöðum. Fyrirtækið er sjálfstæður réttaraðili með sjálfstæðan fjárhag og reikningshald. Á Reykjavíkurborg 92,22% eignarhluta í fyrirtækinu, Akraneskaupstaður 5,45%, Hafnarfjarðarkaupstaður 0,94%, Borgarbyggð 0,75%, Garðabær 0,47% og Borgarfjarðarsveit 0,17%. Heimilt er að sameina Orkuveitu Reykjavíkur við sambærilega starfsemi annarra sveitarfélaga eða annarra opinberra aðila eða félaga í þeirra eigu.
     Hver eigandi um sig er í einfaldri hlutfallslegri ábyrgð fyrir öllum skuldbindingum fyrirtækisins. Hlutfallsleg einföld ábyrgð hvers eiganda um sig tekur mið af eignarhluta hans í fyrirtækinu. Orkuveitu Reykjavíkur er heimilt að taka lán til þarfa fyrirtækisins og að taka ábyrgð á greiðslum og öðrum skuldbindingum í sama skyni. Að því leyti sem nýjar skuldbindingar og ábyrgðir fara fram úr 5% af höfuðstól á ári hverju þarf Orkuveita Reykjavíkur að fá fyrir fram samþykki allra eignaraðila. Með höfuðstól er átt við bókfært eigið fé Orkuveitu Reykjavíkur í lok næstliðins árs.
     Eiganda er óheimilt að ganga úr fyrirtækinu án samþykkis sameigendanna.

2. gr.

     Tilgangur Orkuveitu Reykjavíkur er vinnsla og framleiðsla raforku, varma og vatns, dreifing og sala afurða fyrirtækisins ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað fyrirtækisins, sem og iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi, ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. Heimilt er Orkuveitu Reykjavíkur að reka dótturfélög og eiga hlut í öðrum félögum.

3. gr.

     Stjórn fyrirtækisins er skipuð sex mönnum, fimm kjörnum af borgarstjórn Reykjavíkur og einum kjörnum af bæjarstjórn Akraness. Borgarstjórn Reykjavíkur kýs formann og varaformann stjórnarinnar úr hópi fulltrúa Reykjavíkurborgar. Á stjórnarfundum vegur atkvæði formanns tvöfalt.
     Varamenn, jafnmargir, skulu kjörnir á sama hátt og aðalmenn. Kjörtímabil stjórnarinnar er eitt ár í senn, frá aðalfundi Orkuveitu Reykjavíkur á viðkomandi ári til aðalfundar á næsta ári.
     Aðalfund skal halda í júnímánuði ár hvert. Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:
  1. Skýrsla stjórnar um starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur síðastliðið starfsár.
  2. Ársreikningur Orkuveitu Reykjavíkur fyrir liðið reikningsár ásamt skýrslu endurskoðanda fyrirtækisins lagður fram til staðfestingar.
  3. Ákvörðun um arðgreiðslur til eigenda Orkuveitu Reykjavíkur og um aðra meðferð hagnaðar eða taps Orkuveitu Reykjavíkur á reikningsárinu.
  4. Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir liðið starfsár.
  5. Lýst kjöri stjórnar.
  6. Kosning löggilts endurskoðanda eða endurskoðunarfélags.
  7. Umræður um önnur mál.

     Rétt til setu á aðalfundi eiga borgar- og bæjarstjórar eignaraðila, stjórn og forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og löggiltur endurskoðandi fyrirtækisins. Borgar- og bæjarstjórar hlutaðeigandi sveitarfélaga fara með atkvæðisrétt eignaraðila á aðalfundi og skal atkvæðisréttur vera í samræmi við eignarhluta hvers þeirra. Heimilt er stjórn fyrirtækisins að bjóða öðrum að sitja aðalfund félagsins.

4. gr.

     Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur ræður forstjóra er veitir fyrirtækinu forstöðu. Forstjóri skal eiga sæti á stjórnarfundum.
     Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur fer með málefni fyrirtækisins og annast um að skipulag fyrirtækisins og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Stjórn og forstjóri fara með stjórn fyrirtækisins.
     Forstjóri hefur á hendi framkvæmd stefnu stjórnar fyrirtækisins. Skal hann vinna sjálfstætt að stefnumótun þess og áætlanagerð. Hann annast allan daglegan rekstur fyrirtækisins, allar framkvæmdir og undirbúning þeirra, sjóðvörslu og reikningshald og ráðningu starfsliðs. Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur forstjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana stjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi fyrirtækisins. Í slíkum tilvikum skal stjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina. Forstjóri kemur fram fyrir hönd fyrirtækisins í öllum málum sem varða venjulegan rekstur. Forstjóra ber að veita stjórn og endurskoðanda allar upplýsingar um rekstur fyrirtækisins sem þeir kunna að óska eða veita ber samkvæmt lögum. Stjórn skal setja forstjóra starfslýsingu.
     Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna fyrirtækisins. Forstjóri sér um að bókhald fyrirtækisins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna fyrirtækisins sé með tryggilegum hætti.
     Einungis stjórn Orkuveitu Reykjavíkur getur veitt prókúruumboð.

5. gr.

     Orkuveita Reykjavíkur tekur við einkarétti Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur, Akraneskaupstaðar, Akranesveitu, Borgarbyggðar, Borgarfjarðarsveitar og Hitaveitu Borgarness til starfrækslu hita-, vatns- og/eða rafveitu.
     Iðnaðarráðherra veitir Orkuveitu Reykjavíkur einkaleyfi til starfrækslu hita- og rafveitu á þeim svæðum sem Orkuveita Reykjavíkur og Akranesveita þjóna við stofnun fyrirtækisins.
     Orkuveita Reykjavíkur yfirtekur skyldu Reykjavíkurborgar og Akraneskaupstaðar til starfrækslu vatnsveitna í sveitarfélögunum og yfirtekur þá samninga sem sveitarfélögin hafa gert um vatnssölu til annarra sveitarfélaga.
     Heimilt er öðrum sveitarfélögum að framselja Orkuveitu Reykjavíkur leyfi og réttindi til reksturs veitna og dreifikerfa sinna ef samningar takast um það.
     Aðrir sem reka orkumannvirki á starfssvæði Orkuveitu Reykjavíkur við gildistöku laga þessara skulu halda þeim rétti sínum.

6. gr.

     Stjórn sameignarfyrirtækisins setur gjaldskrár um verð á seldri orku og vatni til notenda.
     Gjaldskrár fyrir sölu á rafmagni og heitu vatni öðlast eigi gildi fyrr en þær hafa verið staðfestar af iðnaðarráðherra og birtar í Stjórnartíðindum. Gjaldskrá vatnsveitu skal byggð á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991.
     Orkuveita Reykjavíkur hefur sjálfstætt reikningshald og tekur sjálf við greiðslu fyrir selda orku og öðrum tekjum. Skal tekjunum varið til að standa straum af öllum greiðsluskuldbindingum, svo sem afborgunum áhvílandi skulda, vöxtum og öðrum rekstrarkostnaði. Þá skal tekjunum varið til fullnægjandi viðhalds og endurnýjunar mannvirkja og tækja.
     Við það skal miðað að Orkuveita Reykjavíkur skili eðlilegum arði miðað við það fjármagn sem á hverjum tíma er bundið í fyrirtækinu. Ákvörðun um ráðstöfun arðsins skal tekin af aðalfundi.
     Rekstur deilda Orkuveitu Reykjavíkur skal aðgreindur reikningslega og fjárhagslega í samræmi við þarfir Orkuveitu Reykjavíkur og lagaáskilnað. Aðgreiningunni skal þannig háttað að unnt sé að sannreyna raunverulegan kostnað af orkuöflun, flutningi, dreifingu og sölu. Sameiginlegum kostnaði skal skipt á deildir fyrirtækisins samkvæmt áætlun sem staðfest skal af stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.
     Við rekstur Orkuveitu Reykjavíkur skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaréttarstarfsemi eða verndaðri starfsemi.

7. gr.

     Starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjunar og Hitaveitu Borgarness eiga rétt á störfum hjá hinu nýja fyrirtæki og skulu þeim boðin störf hjá því, sambærileg þeim er þeir áður gegndu. Umræddir starfsmenn skulu ekki njóta lakari réttinda og starfskjara en þeir nutu í störfum sínum hjá Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjun og Hitaveitu Borgarness.

8. gr.

     Stofna skal sameignarfyrirtækið Orkuveitu Reykjavíkur á stofnfundi sem haldinn skal í desembermánuði 2001.
     Allur kostnaður Orkuveitu Reykjavíkur af stofnun sameignarfyrirtækisins og yfirtöku þess á rekstri Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjunar og Hitaveitu Borgarness greiðist af fyrirtækinu.

9. gr.

     Orkuveita Reykjavíkur skal taka til starfa 1. janúar 2002 og yfirtaka allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjunar og Hitaveitu Borgarness. Borgarstofnunin Orkuveita Reykjavíkur, Akranesveita, Andakílsárvirkjun og Hitaveita Borgarness skulu lagðar niður frá og með þeim degi og fellur þá jafnframt niður umboð stjórna þeirra.

10. gr.

     Um skyldu Orkuveitu Reykjavíkur til greiðslu opinberra gjalda til ríkis og sveitarsjóða fer á sama hátt sem um skyldu fyrirtækja og stofnana sem sýslu- og sveitarfélög reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á og slíkan rekstur hafa með höndum. Orkuveita Reykjavíkur skal undanþegin stimpilgjöldum.

11. gr.

     Eigendur Orkuveitu Reykjavíkur skulu gera með sér sameignarsamning þar sem fram komi frekari ákvæði um fyrirtækið. Til breytinga á sameignarsamningnum þarf samþykki eigenda 3/ 4 eignarhluta fyrirtækisins. Setja skal nánari ákvæði um starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur með reglugerðum sem ráðherrar staðfesta. Í reglugerðum skal meðal annars kveða á um orkuöflun, orkuveitu, orkusölu og viðbrögð við misnotkun.

12. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Lög nr. 38/1940, um hitaveitu Reykjavíkur, með áorðnum breytingum, falla úr gildi þegar Orkuveita Reykjavíkur tekur til starfa, sbr. ákvæði 9. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður, Borgarbyggð og Borgarfjarðarsveit bera áfram, hvert um sig gagnvart kröfuhöfum, ótakmarkaða ábyrgð á þeim skuldbindingum sem stofnast hafa fyrir samruna fyrirtækjanna og áður en sameignarfyrirtæki er stofnað um reksturinn.

II.
     Á stofnfundi skal tilkynnt hverjir hafa verið kjörnir í stjórn og varastjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Hlutverk stjórnar til 1. janúar 2002 er að undirbúa yfirtöku á rekstri Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjunar og Hitaveitu Borgarness, en eftir það að stjórna fyrirtækinu í samræmi við ákvæði laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 14. desember 2001.