Ferill 623. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 976  —  623. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 159/2001, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 159/2001 frá 11. desember 2001, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun ráðsins 2001/23/EB frá 12. mars 2001, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 159/2001 frá 11. desember 2001, um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun ráðsins 2001/23/EB frá 12. mars 2001, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES-samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.
    
3. Tilskipun ráðsins 2001/23/EB frá 12. mars 2001, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar.
    Tilskipunin er efnislega samhljóða tilskipun nr. 77/187/EBE um sama efni, eins og henni var breytt með tilskipun nr. 98/50/EB en eingöngu er verið að fella breytingarnar saman í eina tilskipun til einföldunar. Tilskipunin fellir jafnframt úr gildi tilskipun nr. 77/187/EBE og tilskipun nr. 98/50/EB. Tilskipun nr. 77/187/EBE var innleidd í íslenskan rétt með lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 77/1993.
    Markmið tilskipunar nr. 2001/23/EB er m.a. að vernda réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum eða hluta fyrirtækja. Í formála hennar kemur fram að nauðsynlegt hafi þótt að setja ákvæði um verndun launamanna þegar nýir vinnuveitendur taki við, einkum til að tryggja að staðinn sé vörður um réttindi þeirra. Enn fremur er markmiðið að tryggja starfsmönnum aðgang að nauðsynlegum upplýsingum um ástæður aðilaskipta og áhrif þeirra á réttarstöðu starfsmanna.
    Meðal þeirra breytinga sem tilskipun nr. 98/50/EB hafði á efni tilskipunar nr. 77/187/EBE var að hugtakið aðilaskipti í skilningi tilskipunarinnar var skýrt nánar með tilliti til túlkunar Evrópudómstólsins á 1. mgr. 1. gr. tilskipunar nr. 77/187/EBE. Í formála tilskipunar nr. 2001/23/EB er tekið fram að sú skýring sem þar kemur fram hafi ekki breytt gildissviði tilskipunar nr. 77/187/EBE eins og það er túlkað af dómstólnum. Skilgreiningin er svohljóðandi í íslenskri þýðingu: „Með fyrirvara um a-lið og eftirfarandi ákvæði þessarar greinar merkja aðilaskipti, í skilningi þessarar tilskipunar, aðilaskipti á efnahagslegri einingu sem heldur einkennum sínum, þ.e.a.s. skipulagðri heild verðmæta sem notuð verður í efnahagslegum tilgangi, hvort sem um er að ræða meginstarfsemi eða stoðstarfsemi.“ Þótti með tilliti til réttaröryggis og gagnsæis nauðsynlegt að skýra hugtakið frekar í ljósi fordæma Evrópudómstólsins.
    Til frekari afmörkunar á gildissviði tilskipunar nr. 77/187/EBE kvað tilskipun nr. 98/50/EB á um þá breytingu að tilskipunin tæki bæði til einkafyrirtækja og opinberra fyrirtækja án tillits til þess hvort þau eru starfrækt með það að markmiði að afla eigendum þeirra hagnaðar. Að því er varðar opinbera aðila var síðan kveðið á um þá takmörkun að breytingar á skipulagi og starfsháttum stjórnvalds eða tilfærsla á verkefnum milli stjórnvalda ( e. administrative functions) falla ekki undir hugtakið aðilaskipti í skilningi tilskipunarinnar. Tilskipunin gildir enn fremur ekki um hafskip.
    Sú meginregla er sett fram í tilskipuninni að réttindi og skyldur framseljanda samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi sem fyrir hendi eru á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað færast yfir til framsalshafa, sbr. 3. gr. tilskipunarinnar. Þá er áréttað að framsalshafi skuli virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningum með sömu skilyrðum og giltu fyrir framseljanda. Skal sú regla gilda þangað til gildistími kjarasamnings er liðinn eða honum hefur verið sagt upp með löglegum hætti. Enn fremur er kveðið á um vernd starfsmanna gegn uppsögnum en aðilaskiptin ein sér geta ekki verið ástæða uppsagnar. Samkvæmt 4. gr. tilskipunarinnar er því einungis heimilt að segja upp starfsfólki við aðilaskipti þegar efnahagslegar, tæknilegar eða skipulagslegar ástæður eru fyrir hendi sem hafa í för með sér breytingar á skipulagi starfsmannamála fyrirtækis.
    Þá hefur tilskipun nr. 2001/23/EB, sbr. tilskipun nr. 98/50/EB, að geyma nánari reglur um upplýsingar og samráð vinnuveitanda gagnvart starfsmönnum en hér er fyrst og fremst um viðbót að ræða við þau ákvæði sem var upphaflega að finna í tilskipun nr. 77/187/EBE. Í 1. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar er kveðið á um skyldu aðila til að tilkynna trúnaðarmanni starfsmanna, eða starfsmönnum sjálfum sé trúnaðarmaður ekki fyrir hendi, um fyrirhuguð aðilaskipti og um skyldu aðila til að gefa upplýsingar um dagsetningu aðilaskiptanna eða fyrirhugaða dagsetningu þeirra, ástæður aðilaskiptanna, lagalegar, efnahagslegar og félagslegar afleiðingar aðilaskiptanna fyrir starfsmenn og um fyrirhugaðar ráðstafanir vegna starfsmanna. Enn fremur er að finna nánari ákvæði í 7. gr. tilskipunarinnar um upplýsingaskyldu framseljanda og framsalshafa gagnvart starfsmönnum eða trúnaðarmönnum þeirra. Í 2. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar er jafnframt kveðið á um skyldu til samráðs ef aðilar hyggjast gera einhverjar ráðstafanir vegna starfsmanna sinna.
    Lagafrumvarp sem innleiðir ákvæði tilskipunarinnar hefur verið unnið í félagsmálaráðuneyti og verður lagt fram á yfirstandandi þingi.
    Samkvæmt tilskipuninni er gert ráð fyrir að efni hennar komi til framkvæmda á Evrópska efnahagssvæðinu eigi síðar en 12. júní 2002.


Fylgiskjal I.



ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 159/2001

frá 11. desember 2001

um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir samningurinn, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         XVIII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar nr. 120/2001 frá 28. september 2001( 1 ).

2)         Tilskipun ráðsins 2001/23/EB frá 12. mars 2001 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar( 2 ) skal felld inn í samninginn.

3)         Tilskipun ráðsins 2001/23/EB fellir úr gildi tilskipun ráðsins 77/187/EBE frá 14. febrúar 1977 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launþega við eigendaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta( 3 ) sem er hluti af samningnum og ber því að fella brott úr honum.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi liður komi aftan við lið 32c (tilskipun ráðsins 2000/79/EBE) í XVIII. viðauka við samninginn:

„32d.          32001 L 0023: Tilskipun ráðsins 2001/23/EB frá 12. mars 2001 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar (Stjtíð. EB L 82, 22.3.2001, bls. 16).“

2. gr.

Texti 23. liðar (tilskipun ráðsins 77/187/EBE) í XVIII. viðauka falli brott.

3. gr.

Texti tilskipunar 2001/23/EB Evrópuþingsins og ráðsins, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna, telst fullgiltur.

4. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 12. desember 2001, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni( * ).

5. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild og EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna.

Gjört í Brussel 11. desember 2001.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    B. Grydeland


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    P. K. Mannes     M. Brinkmann





Fylgiskjal II.


TILSKIPUN RÁÐSINS 2001/23/EB

frá 12. mars 2001

um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar


RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 94. gr.,

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,

með hliðsjón af áliti Evrópuþingsins ( 2 ),

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 3 ),

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Tilskipun ráðsins 77/187/EBE frá 14. febrúar 1977 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launþega við eigendaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta atvinnurekstrar ( 4 ) hefur verið breytt verulega ( 5 ). Til glöggvunar og hagræðingar ber því að kerfisbinda hana.

     2)      Efnahagsþróun hefur haft í för með sér breytingar á uppbyggingu fyrirtækja, bæði á innlendum vettvangi og á vettvangi bandalagsins, m.a. með aðilaskiptum (eigendaskiptum) að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar í kjölfar aðilaskipta eða samruna.

     3)      Nauðsynlegt er að setja ákvæði um verndun launamanna þegar nýir vinnuveitendur taka við, einkum til að tryggja að staðinn sé vörður um réttindi þeirra.

     4)      Enn er munur frá einu aðildarríki til annars á því hversu víðtæk vernd launamanna er í þessu sambandi og ber að draga úr þeim mun.
     5)      Í stofnskrá bandalagsins um félagsleg grundvallarréttindi launþega, sem samþykkt var 9. desember 1989 („Félagsmálasáttmálanum“), nánar tiltekið í 7., 17. og 18. lið, er eftirfarandi lýst yfir: „Stofnsetning innri markaðarins verður að leiða til bættra starfsskilyrða og bættra lífskjara launamanna í Evrópubandalaginu. Umbæturnar verða, eftir því sem þörf krefur, að taka til þróunar ákveðinna þátta í löggjöf vinnumarkaðarins, svo sem reglna um hópuppsagnir og gjaldþrot. Auka skal upplýsingar, samráð og áhrif launamanna með viðeigandi hætti þar sem tekið verði tillit til þeirrar venju sem fyrir er í hinum ýmsu aðildarríkjum. Þessar upplýsingar, samráð og áhrif launamanna skulu koma til framkvæmda tímanlega, einkum í tengslum við endurskipulagningu í fyrirtækjum eða í tilvikum þar sem samruni hefur áhrif á atvinnu launamanna“.

     6)      Árið 1977 samþykkti ráðið tilskipun 77/187/EBE sem stuðlar að samræmingu viðeigandi innlendra lagaákvæða sem tryggja að staðinn sé vörður um réttindi launþega og þar sem gerð er sú krafa til afsalsgjafa og afsalshafa að þeir veiti fulltrúum launamanna upplýsingar og ráðfæri sig við þá með góðum fyrirvara.

     7)      Þeirri tilskipun var síðar breytt í ljósi áhrifa hins innri markaðar, tilhneiginga aðildarríkjanna í lagasetningu að því er varðar aðstoð við fyrirtæki í fjárhagserfiðleikum, fordæmisréttar dómstóls Evrópubandalaganna, tilskipunar ráðsins 75/129/EBE frá 17. febrúar 1975 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um hópuppsagnir ( 6 ) og gildandi löggjafar í flestum aðildarríkjum.

     8)      Með tilliti til réttaröryggis og gagnsæis þurfti að skýra lagalega hugtakið „aðilaskipti“ í ljósi fordæmisréttar dómstólsins. Slík skýring hefur ekki breytt gildissviði tilskipunar 77/187/EBE eins og það er túlkað af dómstólnum.

     9)      Í félagsmálasáttmálanum er viðurkennt mikilvægi þess að berjast gegn hvers konar mismunun, einkum þeirri sem byggist á kynferði, litarhætti, kynþætti, skoðunum og trúarbrögðum.

     10)      Þessi tilskipun skal ekki hafa áhrif á frest aðildarríkjanna, sem um getur í B-hluta I. viðauka, til að hlíta tilskipun 77/187/EBE og gerðinni sem henni er breytt með.

SAMÞYKKT ÞESSA TILSKIPUN:

I. KAFLI

Gildissvið og skilgreiningar

1. gr.

         1. a) Tilskipun þessi gildir um hvers konar aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar á grundvelli aðilaskipta eða samruna.
b)      Með fyrirvara um a-lið og eftirfarandi ákvæði þessarar greinar merkja aðilaskipti, í skilningi þessarar tilskipunar, aðilaskipti á efnahagslegri einingu sem heldur einkennum sínum, þ.e.a.s. skipulagðri heild verðmæta sem notuð verður í efnahagslegum tilgangi, hvort sem um er að ræða meginstarfsemi eða stoðstarfsemi.

c)      Tilskipun þessi gildir um einkafyrirtæki og opinber fyrirtæki, sem stunda atvinnustarfsemi, hvort sem er í hagnaðarskyni eða ekki. Endurskipulagning stjórnsýslu hjá opinberu stjórnvaldi eða flutningur stjórnsýsluskyldna milli opinberra stjórnvaldseininga falla ekki undir aðilaskipti í skilningi þessarar tilskipunar.

2.     Tilskipun þessi gildir þegar fyrirtæki, atvinnurekstur eða hluti fyrirtækis eða atvinnurekstrar, sem skipta á um eigendur að, eru staðsett innan þess yfirráðasvæðis þar sem sáttmálinn gildir.

3.     Tilskipun þessi gildir ekki um hafskip.

2. gr.

1.     Í tilskipun þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a)      „framseljandi“: einstaklingur eða lögpersóna sem við aðilaskipti í skilningi 1. mgr. 1. gr. hættir að vera vinnuveitandi í fyrirtæki, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækis eða atvinnurekstrar;

b)      „framsalshafi“: einstaklingur eða lögpersóna sem við aðilaskipti í skilningi 1. mgr. 1. gr. verður vinnuveitandi í fyrirtæki, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækis eða atvinnurekstrar;

c)      „fulltrúar launamanna“: og skyld orðasambönd: fulltrúar þeirra launamanna sem gert er ráð fyrir í lögum eða í viðteknum venjum í aðildarríkjunum;

d)      „launamaður“: hver sá einstaklingur sem nýtur verndar sem launamaður í hlutaðeigandi aðildarríki samkvæmt innlendri vinnulöggjöf.

2.     Tilskipun þessi gildir með fyrirvara um innlend lög að því er varðar skilgreiningu á ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi.

Þó skulu aðildarríki ekki undanskilja ráðningarsamninga eða ráðningarsambönd gildissviði þessarar tilskipunar einungis vegna:

a)      fjölda unninna eða óunninna vinnustunda,

b)      þess að um er að ræða ráðningasamband samkvæmt ráðningarsamningi til ákveðins tíma, í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunar ráðsins 91/383/EBE frá 25. júní 1991 til viðbótar ráðstöfunum til að bæta öryggi og hollustuhætti starfsmanna í afleysingarstarfi eða tímabundnu starfi ( 1 ), eða

c)      þess að um er að ræða tímabundið ráðningarsamband, í skilningi 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 91/383/EBE og fyrirtækið, atvinnureksturinn eða hluti fyrirtækisins eða atvinnurekstrarins, sem skipti um eigendur, er atvinnumiðlun eða hluti atvinnumiðlunar fyrir afleysingafólk sem gegnir hlutverki vinnuveitanda.

II. KAFLI

Vernd réttinda launamanna

3. gr.

1.     Við aðilaskiptin færast réttindi og skyldur framseljanda, er tengjast ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi og sem eru fyrir hendi þann dag sem aðilaskiptin fara fram, yfir til framsalshafa.

Aðildarríkin geta kveðið á um að framseljandi og framsalshafi beri, eftir þann dag er aðilaskipti fara fram, sameiginlega og óskipta ábyrgð að því er varðar skuldbindingar sem stofnað var til fyrir þann dag er aðilaskipti urðu og tengjast ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi sem eru í gildi á þeim degi er aðilaskipti verða.

2.     Aðildarríkjunum er heimilt að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að framseljandi tilkynni framsalshafa um öll þau réttindi og skyldur sem færast yfir til framsalshafa samkvæmt þessari grein, að svo miklu leyti sem framseljanda var eða ætti að hafa verið kunnugt um þessi réttindi og skyldur þegar aðilaskiptin fóru fram. Tilkynni framseljandi framsalshafa ekki um slík réttindi eða skyldur hefur það ekki áhrif á afsal þeirra réttinda eða skyldna né á réttindi hvaða launamanna sem er gagnvart framsalshafanum og/eða framseljandanum að því er varðar þau réttindi eða skyldur.

3.     Að aðilaskiptum loknum skal framsalshafi virða þau launakjör og starfsskilyrði, sem samþykkt hafa verið í almennum kjarasamningi, með sömu skilmálum og giltu fyrir framseljanda, þar til samningi verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda.

Aðildarríkjunum er heimilt að stytta tímabilið sem launakjörum og starfsskilyrðum er haldið óbreyttum enda vari þetta tímabil eigi skemur en eitt ár.

         4. a) Ákvæði 1. og 3. mgr. gilda ekki um rétt launamanna til bóta vegna elli, örorku eða til eftirlifenda þegar um er að ræða viðbótarlífeyrissjóði fyrir eina eða fleiri starfsstéttir sem eru utan lögskipaðra almannatryggingakerfa í aðildarríkjunum, nema aðildarríkin kveði á um annað.

b)      Jafnvel þegar aðildarríki kveða ekki á um, samkvæmt a-lið, að 1. og 3. mgr. gildi að því er varðar slík réttindi skulu aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda hagsmuni launamanna og hagsmuni þeirra sem starfa ekki lengur við atvinnurekstur framseljanda á þeim tíma sem gengið er frá aðilaskiptum, varðandi áunninn eða væntanlegan rétt þeirra til bóta vegna elli, að meðtöldum bótum til eftirlifenda, í viðbótarlífeyrissjóðum þeim sem um getur í a-lið.

4. gr.

1.     Aðilaskipti að fyrirtæki, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækis eða atvinnurekstrar geta ein sér ekki verið ástæða fyrir uppsögn af hálfu framseljanda eða framsalshafa. Ákvæði þetta skal ekki koma í veg fyrir uppsagnir af efnahagslegum eða tæknilegum ástæðum, eða sem rekja má til skipulagsbreytinga er hafa í för með sér breytingar á starfsmannahaldi.

Aðildarríkin geta kveðið á um að fyrsta undirgrein hér að framan gildi ekki um tiltekna afmarkaða hópa launamanna sem falla ekki undir lög aðildarríkjanna eða viðteknar venjur um vernd gegn uppsögnum.

2.     Sé ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi rift vegna þess að aðilaskiptin hafi í för með sér verulegar breytingar á vinnuskilyrðum launamanni í óhag skal litið svo á að vinnuveitandinn beri ábyrgð á riftun ráðningarsamningsins eða ráðningarsambandsins.

5. gr.

1.     Kveði aðildarríkin ekki á um annað gilda 3. og 4. gr. ekki um aðilaskipti að fyrirtæki, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækis eða atvinnurekstrar ef bú framseljanda hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta eða hliðstæðrar gjaldþrotameðferðar vegna ógjaldfærni sem hafin var með skiptameðferð á eignum framseljanda fyrir augum og sem er í umsjón lögbærra stjórnvalda (sem getur verið skiptastjóri sem viðurkenndur er af lögbærum stjórnvöldum).

2.     Þegar 3. og 4. gr. gilda um aðilaskipti meðan á gjaldþrotameðferð stendur, sem var hafin vegna framseljanda (hvort sem meðferðin hefur verið hafin með skiptameðferð á eignum framseljanda fyrir augum eða ekki) og að því tilskildu að slík meðferð sé undir stjórn lögbærra stjórnvalda (sem getur verið skiptastjóri sem er ákveðinn samkvæmt landslögum) er aðildarríki heimilt að kveða á um að:

a)      þrátt fyrir 1. mgr. 3. gr. skuli skuldir framseljanda vegna hvers konar ráðningarsamninga eða ráðningarsambanda, sem koma til greiðslu fyrir aðilaskiptin eða áður en gjaldþrotameðferð hefst ekki færast yfir á framsalshafa, að því tilskildu að slík meðferð leiði, samkvæmt lögum aðildarríkisins, til verndar sem er að minnsta kosti jafngild þeirri sem kveðið er á um varðandi aðstæður sem falla undir tilskipun ráðsins 80/987/EBE frá 20. október 1980 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota ( 1 ), og, eða að öðrum kosti, að,

b)      framsalshafa, framseljanda eða einstaklingi eða einstaklingum sem gegna hlutverki framseljanda annars vegar og fulltrúum launamanna hins vegar sé heimilt, samræmist það gildandi lögum og viðteknum venjum, að samþykkja breytingar á launakjörum og starfsskilyrðum launamanna, sem er ætlað að standa vörð um atvinnutækifæri með því að tryggja að fyrirtæki, atvinnurekstur eða hluti fyrirtækis eða atvinnurekstrar haldi velli.

3.     Aðildarríki er heimilt að beita b-lið 20. mgr. við aðilaskipti ef framseljandi á í alvarlegum fjárhagsörðugleikum, eins og þeir eru skilgreindir í landslögum, að því tilskildu að lögbær stjórnvöld lýsi yfir slíku ástandi og að dómstólar geti haft eftirlit með því, og með því skilyrði að slík ákvæði hafi þegar verið til staðar í innlendum lögum fyrir 17. júlí 1998.

Framkvæmdastjórnin skal leggja fram skýrslu um áhrif þessa ákvæðis fyrir 17. júlí 2003 og leggja viðeigandi tillögur fyrir ráðið.

4.     Aðildarríki skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að gjaldþrotameðferð sé ekki misnotuð í þeim tilgangi að svifta launamenn þeim réttindum sem kveðið er á um í þessari tilskipun.

6. gr.

1.     Að svo miklu leyti sem fyrirtæki, atvinnurekstur eða hluti fyrirtækis eða atvinnurekstrar heldur sjálfstæði sínu skulu fulltrúar eða fulltrúanefnd þeirra launamanna, sem aðilaskiptin snerta, halda réttarstöðu sinni og starfi, með sömu launakjörum og starfsskilyrðum og áður en aðilaskiptin áttu sér stað, samkvæmt lögum, stjórnsýslufyrirmælum eða samningi, að því tilskildu að nauðsynlegum skilyrðum fyrir skipan fulltrúanefndar launamanna sé fullnægt.

Ákvæði fyrstu undirgreinar gilda ekki ef nauðsynlegum skilyrðum fyrir nýrri útnefningu fulltrúa launamanna eða nýrri skipan fulltrúanefndar launamanna er fullnægt samkvæmt lögum og stjórnsýsluákvæðum aðildarríkjanna eða viðteknum venjum þar eða með samningi við fulltrúa launamanna.

Ef bú framseljanda er tekið til gjaldþrotaskipta eða hliðstæðrar gjaldþrotameðferðar vegna ógjaldfærni, sem hafin var með skiptameðferð á eignum framseljanda fyrir augum og sem er í umsjón lögbærra stjórnvalda (sem getur verið skiptastjóri sem viðurkenndur er af lögbærum stjórnvöldum), er aðildarríkjum heimilt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að tilhlýðilegt fyrirsvar sé haft fyrir launamönnum, sem fylgt hafa við aðilaskipti, fram að nýjum kosningum eða nýrri skipan fulltrúa launamanna.

Haldi fyrirtæki, atvinnurekstur eða hluti fyrirtækis eða atvinnurekstrar ekki sjálfstæði sínu skulu aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að haft sé áfram tilhlýðilegt fyrirsvar fyrir launamönnum, sem fylgt hafa við aðilaskipti og haft var fyrirsvar fyrir áður en aðilaskiptin áttu sér stað, í þann tíma sem nauðsynlegur er til að ný útnefning eða ný skipan fulltrúanefndar launamanna megi fara fram í samræmi við landslög og viðteknar venjur.

2.     Missi fulltrúar þeirra launamanna, sem aðilaskipti snerta, umboð sitt vegna aðilaskiptanna skulu fulltrúarnir áfram njóta verndar þeirrar sem kveðið er á um í lögum og stjórnsýslufyrirmælum eða samkvæmt viðteknum venjum í aðildarríkjunum.

III. KAFLI

Upplýsingar og samráð

7. gr.

1.     Þess skal krafist af framseljanda og framsalshafa að þeir upplýsi fulltrúa launamanna, sem aðilaskipti snerta, um eftirfarandi:

–        dagsetningu eða fyrirhugaða dagsetningu aðilaskiptanna,

–        ástæðuna fyrir aðilaskiptunum,

–        lagalegar, efnahags- og félagslegar afleiðingar aðilaskiptanna fyrir launamennina,

–        fyrirhugaðar ráðstafanir vegna launamanna.

Framseljandi skal veita fulltrúum launamanna sinna slíkar upplýsingar með góðum fyrirvara áður en af aðilaskiptum verður.

Framseljandi skal veita fulltrúum launamanna sinna slíkar upplýsingar með góðum fyrirvara og hvernig sem á stendur áður en aðilaskipti fara að hafa bein áhrif á starfs- og ráðningarskilyrði launþega.

2.     Hafi framseljandi eða framsalshafi í huga að gera ráðstafanir vegna launamanna sinna skal hann ráðfæra sig við fulltrúa launamanna með góðum fyrirvara í því skyni að ná samkomulagi um þær.

3.     Þau aðildarríki, þar sem kveðið er á um í lögum og stjórnsýslufyrirmælum að fulltrúum launamanna sé heimilt að snúa sér til gerðardóms til að fá skorið úr um þær ráðstafanir sem gerðar eru vegna launamanna, geta takmarkað þær skuldbindingar, sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr., við aðilaskipti er leiða til breytinga á rekstrinum og líklegt er að verði til verulegs óhagræðis fyrir talsverðan hluta launamannanna.

Upplýsingarnar og samráðið skal að minnsta kosti taka til þeirra ráðstafana sem fyrirhugaðar eru varðandi launamennina.

Skylt er að veita upplýsingar og hefja samráð með góðum fyrirvara áður en þær breytingar á rekstrinum, sem um getur í fyrstu undirgrein, koma til framkvæmda.

4.     Skuldbindingarnar sem mælt er fyrir um í þessari grein skulu gilda hvort sem ákvörðunin, sem leiddi til aðilaskiptanna, var tekin af vinnuveitanda eða af fyrirtæki sem vinnuveitandi heyrir undir.

Að því er varðar meint brot á kröfum um upplýsingar og samráð, sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun, eru ekki tekin gild þau rök að slíkt brot hafi átt sér stað vegna þess að fyrirtækið, sem vinnuveitandinn heyrir undir, hafi ekki látið upplýsingar í té.

5.     Aðildarríkjum er heimilt að takmarka þær skuldbindingar sem mælt er fyrir um í 1., 2. og 3. mgr. við fyrirtæki eða atvinnurekstur sem uppfylla skilyrði fyrir kosningu eða útnefningu sameiginlegrar nefndar, sem kemur fram fyrir hönd launamanna, að því er varðar starfsmannafjölda.

6.     Aðildarríki skulu kveða á um að í fyrirtækjum eða atvinnurekstri þar sem launamenn eiga enga fulltrúa, án þess að eiga sjálfir neina sök þar á, skuli hlutaðeigandi launamönnum tilkynnt fyrirfram um:

–        dagsetningu eða fyrirhugaða dagsetningu aðilaskiptanna,

–        ástæðuna fyrir aðilaskiptunum,

–        lagalegar, efnahags- og félagslegar afleiðingar aðilaskiptanna fyrir launamennina,

–        fyrirhugaðar ráðstafanir vegna launamanna.

IV. KAFLI

Lokaákvæði

8. gr.

Tilskipun þessi hefur ekki áhrif á rétt aðildarríkjanna til að beita eða koma á lögum eða stjórnsýslufyrirmælum sem eru launamönnum hagstæðari eða að stuðla að eða heimila kjarasamninga eða samninga milli aðila vinnumarkaðarins sem eru launamönnum hagstæðari.

9. gr.

Aðildarríki skulu fella inn í réttarkerfi sín nauðsynlegar ráðstafanir til að allir launamenn og fulltrúar launamanna, sem telja að gengið hafi verið á þeirra hlut með því að skuldbindingum er leiða af þessari tilskipun hafi ekki verið fullnægt, geti leitað fullnustu krafna sinna með málarekstri eftir að málinu kann að hafa verið skotið til annarra lögbærra yfirvalda.

10. gr.

Framkvæmdastjórnin skal leggja fyrir ráðið greiningu á áhrifum ákvæða þessarar tilskipunar fyrir 17. júlí 2006. Hún skal leggja til hvers konar breytingar sem kunna að virðast nauðsynlegar.

11. gr.

Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni þau ákvæði úr lögum og stjórnsýslufyrirmælum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

12. gr.

Tilskipun 77/187/EBE, eins og henni var breytt með tilskipuninni, sem um getur í A-hluta I. viðauka, samanber þó skyldur aðildarríkjanna varðandi frest til framkvæmda sem gefinn er í B-hluta I. viðauka, falli úr gildi.

Líta ber á tilvísanir í niðurfelldu tilskipunina sem tilvísanir í þessa tilskipun og skulu þær lesnar með hliðsjón af samanburðartöflunni í II. viðauka

13. gr.

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

14. gr.

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 12. mars 2001.

Fyrir hönd ráðsins,

B. RINGHOLM

forseti.


I. VIÐAUKI

A-HLUTI

Niðurfelld tilskipun og breytingartilskipun hennar

(sem um getur í 12. gr.)


Tilskipun ráðsins 77/187/EBE (Stjtíð. EB L 61, 5.3.1977, bls. 26)

Tilskipun ráðsins 98/50/EB (Stjtíð. EB L 201, 17.7.1998, bls. 88)


B-HLUTI

Frestur til að setja innlend lög

(sem um getur í 12. gr.)


Tilskipun Frestur til að setja innlend lög
77/187/EBE
98/50/EB
16. febrúar 1979
17. júlí 2001



II. VIÐAUKI

SAMANBURÐARTAFLA


Tilskipun 77/187/EBE Þessi tilskipun
1. gr.
2. gr.
3. gr.
4. gr.
4. gr. a
5. gr.
6. gr.
7. gr.
7. gr. a
7. gr b
8. gr.




1. gr.
2. gr.
3. gr.
4. gr.
5. gr.
6. gr.
7. gr.
8. gr.
9. gr.
10. gr.
11. gr.
12. gr.
13. gr.
14. gr.
I. VIÐAUKI
II. VIÐAUKI

( 1) Stjtíð. EB L 322, 6.12.2001, bls. 36.
( 2) Stjtíð. EB L 82, 22.3.2001, bls. 16.
( 3) Stjtíð. EB L 61, 5.3.1977, bls. 26.
( *) Engin stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna. Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
( 2)    Áliti var skilað 25. október 2000 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB).
( 3)    Stjtíð. EB C 367, 20.12.2000, bls. 21.
( 4)    Stjtíð. EB L 61, 5.3.1977, bls. 26.
( 5)    Sjá A-hluta I. viðauka.
( 6)    Stjtíð. EB L 48, 22.2.1975, bls. 29. Í stað tilskipunarinnar kom tilskipun 98/59/EB (Stjtíð. EB L 225, 12.8.1998, bls. 16).
( 1)    Stjtíð. EB L 206, 29.7.1991, bls. 19.
( 1)    Stjtíð. EB L 283, 20.10.1980, bls. 23. Tilskipuninni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 1994.