Ferill 636. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1008  —  636. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 162/2001, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 162/2001 frá 11. desember 2001, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/53/EB frá 18. september 2000, um úr sér gengin ökutæki.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 162/2001 frá 11. desember 2001, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/53/EB frá 18. september 2000, um úr sér gengin ökutæki.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES-samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/53/EB frá 18. september 2000, um úr sér gengin ökutæki.
    Tilskipunin er heildarrammi um meðhöndlun allra farartækja sem eigendur vilja losa sig við. Setja þarf upp kerfi sem tryggir móttöku allra bílflaka og, að því marki sem unnt er, einnig annars úrgangs og hluta sem fjarlægðir eru þegar gert er við fólksbíla. Sérsmíðuð farartæki ætluð til öryggisgæslu og björgunarstarfa, svo og faratæki á þremur hjólum eru þó undanþegin ákvæðum tilskipunarinnar um endurnotkun og endurnýtingu. Ákvæði tilskipunarinnar hafa það í för með sér að koma þarf upp umfangsmiklu kerfi endurvinnslu. Öll bílflök skal færa til endurvinnslu í endurvinnslustöð sem hefur starfsleyfi sem slík. Tryggja þarf að afhending bílflaks til endurvinnslu hafi ekki kostnað í för með sér fyrir síðasta eiganda bílsins þótt bíllinn sé verðlaus eða hafi jafnvel neikvætt markaðsverð. Sérstakt gildistökuákvæði er varðandi þann þátt sem tekur gildi 1. júlí 2002 að því er varðar farartæki sem sett eru á markað eftir það og 1. janúar 2007 að því er varðar bifreiðar settar á markað fyrir 1. júlí 2002.
    Framleiðendur bifreiða skulu bera meginhluta þess kostnaðar sem af þessu kerfi hlýst. Jafnframt eru ákvæði um endurvinnsluhlutfall, hvaða efni í farartækjum skal meðhöndla sérstaklega o.s.frv. Í viðauka I með tilskipuninni er listi yfir skilyrði sem taka þarf upp í starfsleyfum endurvinnslufyrirtækja, skilyrði sem geymslustaðir og endurvinnslustöðvar fyrir bílflök þurfa að uppfylla og úrvinnsluaðferðir. Þá eru ákvæði um að bílar sem settir eru á markað eftir 1. júlí 2003 megi ekki innihalda blý, kvikasilfur, kadmíum eða tiltekin krómsambönd nema þau sem tilgreind eru í viðauka II.
    Hinn 21. apríl 2002 á að vera búið að lögleiða tilskipunina innan Evrópusambandsins. Markmiðum tilskipunarinnar verður ekki náð nema með lagabreytingu sem heimilar að lagt verði úrvinnslugjald á bifreiðar og að þeir fjármunir sem þannig eru innheimtir verði notaðir til að greiða fyrir söfnun og endurnýtingu ökutækjanna. Frumvarpi til laga um úrvinnslugjald sem lagt var fram á 126. löggjafarþingi var m.a. ætlað að skapa þau hagrænu skilyrði sem tilskipunin krefst eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið. Frumvarpið náði ekki fram að ganga. Er því ljóst að tímamörk varðandi lögleiðingu munu ekki nást hvað þetta varðar. Umhverfisráðuneytið hefur nú í samráði við fjármálaráðuneytið ákveðið að skipa nefnd sem mun fá það hlutverk að vinna tvö frumvörp: annars vegar um úrvinnslugjald, spilliefnagjald og skilagjald, sem lagt yrði fram af hálfu fjármálaráðherra, og hins vegar um skipulag og framkvæmd þessara þátta, sem lagt yrði fram af hálfu umhverfisráðherra samhliða, í upphafi næsta löggjafarþings. Jafnframt er nauðsynlegt að gera breytingar á reglugerðum til þess að innleiða gerðina í íslenskan rétt. Banna þarf urðun bifreiða, bifreiðahluta o.s.frv. Um förgun úrgangs gilda í dag lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Unnið er að frumvarpi til laga um meðhöndlun úrgangs í umhverfisráðuneytinu. Við undirbúining þess frumvarps er höfð hliðsjón af tilskipun þessari. Gerir frumvarpið sérstaklega ráð fyrir því að unnt sé með reglugerð að banna urðun einstakra tegunda úrgangs eða úrgangsflokka. Reglugerðarákvæði um takmörkun á innihaldi fyrrgreindra efna í bifreiðum verða sett á grundvelli laga um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988.
    Sérstakt eyðingar- eða endurvinnsluskírteini skal vera skilyrði fyrir afskráningu bifreiðarinnar samkvæmt tilskipuninni. Því þarf að breyta reglum um skráningu og afskráningu ökutækja. Ljóst er að gerðin snertir starfssvið dómsmálaráðuneytisins að því er varðar afskráningu bifreiða og veðsetningar. Athygli dómsmálaráðuneytisins hefur verið vakin á því.
    Samkvæmt tilskipuninni er gert ráð fyrir að efni hennar komi til framkvæmda á Evrópska efnahagssvæðinu eigi síðar en 12. júní 2002.




Fylgiskjal I.


Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 162/2001

frá 11. desember 2001

um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn



SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir samningurinn, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         XX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 139/2001 frá 9. nóvember 2001( 1 ).

2)         Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/53/EB frá 18. september 2000 um úr sér gengin ökutæki( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi liður komi aftan við lið 32da (tilskipun 2000/76/EB) í XX. viðauka við samninginn:

„33.          32000 L 0053: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/53/EB frá 18. september 2000 um úr sér gengin ökutæki (Stjtíð. EB L 269, 21.10.2000, bls. 34).“

2. gr.

Texti tilskipunar 2000/53/EB á íslensku og norsku, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 12. desember 2001, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild og EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna.

Gjört í Brussel 11. desember 2001.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    B. Grydeland


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    P. K. Mannes     M. Brinkmann





Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2000/53/EB

frá 18. september 2000

um úr sér gengin ökutæki


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 175. gr.,

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),

að höfðu samráði við svæðanefndina,

í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 251. gr. í sáttmálanum, á grundvelli sameiginlegs texta sáttanefndarinnar frá 23. maí 2000 ( 3 ),

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Samræma ber ólíkar innlendar ráðstafanir varðandi úr sér gengin ökutæki í fyrsta lagi til þess að halda í lágmarki áhrifum úr sér genginna ökutækja á umhverfið og stuðla þannig að því að vernda, varðveita og bæta gæði umhverfisins og spara orku, og í öðru lagi til þess að tryggja eðlilega starfsemi innri markaðarins og komast hjá röskun á samkeppni innan bandalagsins.

     2)      Nauðsynlegt er að setja ramma, sem nær til gervalls bandalagsins, til að tryggja samræmi milli innlendra aðferða við að ná framangreindum markmiðum, einkum að því er varðar hönnun ökutækja með tilliti til endurvinnslu og endurnýtingar, kröfur sem eru gerðar til söfnunar- og meðhöndlunarstöðva og við að ná markmiðum um endurnotkun, endurvinnslu og endurnýtingu með tilliti til dreifræðisreglunnar og mengunarbótareglunnar.

     3)      Á hverju ári falla til innan bandalagsins 8 til 9 milljón tonn úrgangs vegna úr sér genginna ökutækja sem verður að meðhöndla á réttan hátt.

     4)      Til þess að varúðarreglan og reglan um fyrirbyggjandi aðgerðir komist til framkvæmda og í samræmi við áætlun bandalagsins varðandi meðhöndlun úrgangs skal draga úr myndun úrgangs eins og frekast er unnt.

     5)      Enn fremur er það grundvallarregla að úrgangur skuli endurnotaður eða endurnýttur og að endurnotkun eða endurvinnsla hafi forgang.

     6)      Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir til að tryggja að aðilar í atvinnurekstri komi á fót kerfi til söfnunar, meðhöndlunar og endurnýtingar á úr sér gengnum ökutækjum.

     7)      Aðildarríkin skulu tryggja að sá sem hefur úr sér gengna ökutækið síðast í vörslu sinni og/eða eigandinn geti farið með það til viðurkenndrar meðhöndlunarstöðvar sér að kostnaðarlausu þar sem markaðsvirði ökutækisins er ekkert eða neikvætt. Aðildarríkin skulu tryggja að framleiðendur greiði verulegan hluta eða allan kostnað sem hlýst af því að hrinda þessum ráðstöfunum í framkvæmd. Þetta skal ekki valda hindrun á eðlilegri virkni markaðsaflanna.

     8)      Tilskipun þessi skal ná til ökutækja og úr sér genginna ökutækja þar með talið íhluta og smíðaefnis þeirra, einnig varahluta, með fyrirvara um öryggisstaðla, losun út í andrúmsloftið og hávaðaeftirlit.

     9)      Í tilskipun þessari eru notuð sömu hugtök og í nokkrum gildandi tilskipunum, nánar tiltekið í tilskipun ráðsins 67/548/EBE frá 27. júní 1967 um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum um flokkun, pökkun og merkingu hættulegra efna ( 1 ), tilskipun ráðsins 70/156/EBE frá 6. febrúar 1970 um samræmingu laga aðildarríkjanna um gerðarviðurkenningu á vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra ( 2 ), og tilskipun ráðsins 75/442/EBE frá 15. júlí 1975 um úrgang ( 3 ).

     10)      Fornökutæki, það er söguleg ökutæki eða ökutæki sem hafa gildi fyrir safnara eða sem eru ætluð sem safngripir og geymd eru á réttan og umhverfisvænan hátt, annaðhvort tilbúin til notkunar eða í hlutum, falla ekki undir þá skilgreiningu á úrgangi sem mælt er fyrir um í tilskipun 75/442/EBE og falla ekki undir gildissvið þessarar tilskipunar.

     11)      Mikilvægt er að forvarnarráðstöfunum sé beitt allt frá því að ökutæki er á hönnunarstigi og að þær beinist einkum að því að draga úr og takmarka hættuleg efni í ökutækjum í því skyni að koma í veg fyrir að þau berist út í umhverfið, til að auðvelda endurvinnslu og forðast förgun hættulegs úrgangs. Einkum skal banna notkun á blýi, kvikasilfri, kadmíum og sexgildu krómi. Einungis skal nota þessa þungmálma í tilteknum hlutum samkvæmt skrá sem verður endurskoðuð reglulega. Þetta mun stuðla að því að tryggja að viss efni og íhlutir verði ekki að tætaraleifum og verði ekki brennd eða þeim fargað á urðunarstað.

     12)      Stöðugt skal bæta endurvinnslu allra plastefna frá úr sér gengnum ökutækjum. Eins og sakir standa rannsakar framkvæmdastjórnin umhverfisáhrif pólý-vínýlklóríðs. Framkvæmdastjórnin mun á grundvelli þessarar vinnu gera tillögur, eftir því sem við á, um notkun pólývínýlklóríðs sem taka einnig tillit til ökutækja.

     13)      Fella skal kröfurnar sem gilda um að taka í sundur, endurnota og endurvinna úr sér gengin ökutæki og íhluti þeirra inn í hönnun og framleiðslu nýrra ökutækja.

     14)      Stuðla skal að þróun markaða fyrir endurunnin efni.

     15)      Í því skyni að tryggja að úr sér gengnum ökutækjum sé hent án þess að stofna umhverfinu í hættu skal koma á viðeigandi söfnunarkerfi.

     16)      Taka skal upp eyðingarvottorð sem nota skal sem skilyrði fyrir afskráningu úr sér genginna ökutækja. Aðildarríki, sem ekki eiga sér afskráningarkerfi, skulu taka upp slíkt kerfi en samkvæmt því skal tilkynna viðeigandi lögbæru yfirvaldi um það þegar úr sér gengið ökutæki er flutt til meðhöndlunarstöðvar.

     17)      Tilskipun þessi kemur ekki í veg fyrir að aðildarríki leyfi, eftir því sem við á, tímabundna afskráningu ökutækja.

     18)      Rekstraraðilum, sem sjá um söfnun og meðhöndlun, skal einungis vera heimilt að starfa að fengnu leyfi eða, þar sem skráning kemur í stað leyfis, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

     19)      Stuðla skal að endurvinnslu og endurnýtingu ökutækja.

     20)      Mikilvægt er að mæla fyrir um kröfur vegna tilhögunar við geymslu og meðhöndlun í því skyni að koma í veg fyrir neikvæð áhrif á umhverfið og til að forðast röskun á viðskiptum og samkeppni.

     21)      Í því skyni að ná árangri í nánustu framtíð og til að veita rekstraraðilum, neytendum og opinberum yfirvöldum nauðsynlega heildarsýn, til lengri tíma litið, skal setja magnbundin markmið varðandi endurnotkun, endurvinnslu og endurnýtingu sem rekstraraðilar skulu ná fram.

     22)      Framleiðendur skulu tryggja að ökutæki séu hönnuð og framleidd á þann hátt að þessi endurnotkunar-, endurvinnslu- og endurnýtingarmarkmið náist. Í þessu skyni mun framkvæmdastjórnin stuðla að undirbúningi evrópskra staðla og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að breyta viðeigandi evrópskri löggjöf um gerðarviðurkenningu ökutækja.

     23)      Þegar ákvæði þessarar tilskipunar koma til framkvæmda skulu aðildarríkin tryggja að samkeppni haldist, einkum hvað varðar aðgengi lítilla og meðalstórra fyrirtækja að þeim markaði er snýr að söfnun, sundurhlutun, meðhöndlun og endurvinnslu.

     24)      Í því skyni að auðvelda sundurhlutun og endurnýtingu, einkum endurvinnslu, úr sér genginna ökutækja skulu framleiðendur ökutækja sjá viðurkenndum meðhöndlunarstöðvum fyrir öllum nauðsynlegum upplýsingum varðandi sundurhlutun, einkum að því er varðar hættuleg efni.

     25)      Stuðla skal að undirbúningi evrópustaðla þar sem við á. Framleiðendur ökutækja og framleiðendur smíðaefna skulu nota kóðunarstaðla fyrir íhluti og smíðaefni sem framkvæmdastjórnin ákvarðar með aðstoð viðeigandi nefndar. Við undirbúning þessara staðla skal framkvæmdastjórnin, eftir því sem við á, taka mið af því starfi sem fram fer í viðeigandi alþjóðlegu samhengi á þessu sviði.

     26)      Gögn um úr sér gengin ökutæki, í öllu bandalaginu, eru nauðsynleg til þess að hafa eftirlit með því að markmið þessarar tilskipunar komi til framkvæmda.

     27)      Upplýsa verður neytendur á fullnægjandi hátt til þess að þeir geti breytt hegðun sinni og viðhorfi. Í þessu skyni skulu viðeigandi rekstraraðilar koma upplýsingum á framfæri.

     28)      Aðildarríkin geta kosið að láta tiltekin ákvæði koma til framkvæmda með samningum við þann atvinnuveg sem um er að ræða, að því tilskildu að viss skilyrði séu uppfyllt.

     29)      Framkvæmdastjórninni ber, við málsmeðferð í nefnd, að tryggja að kröfur, sem eru gerðar til meðhöndlunarstöðva og notkunar hættulegra efna, séu lagaðar að framförum í vísindum og tækni og lágmarksstaðlar fyrir eyðingarvottorð og snið gagnagrunns samþykkt ásamt framkvæmdaráðstöfunum sem nauðsynlegar eru til að hafa eftirlit með því að magntakmarkanirnar séu virtar.

     30)      Samþykkja ber þær ráðstafanir sem gera þarf þegar tilskipun þessi kemur til framkvæmda í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 1 ).

     31)      Aðildarríkjunum er heimilt að beita ákvæðum þessarar tilskipunar fyrir þá dagsetningu sem um getur hér, að því tilskildu að slíkar ráðstafanir samrýmist sáttmálanum.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Markmið

Í tilskipun þessari er mælt fyrir um ráðstafanir sem hafa það fyrst og fremst að markmiði að koma í veg fyrir tilurð úrgangs en markmiðið er einnig endurnotkun, endurvinnsla og annars konar endurnýting úr sér genginna ökutækja og íhluta þeirra til þess að draga úr förgun úrgangs og að bæta umhverfisáhrif allra rekstraraðila sem koma að lífsferli ökutækja, einkum þeirra aðila sem á beinan hátt koma að meðhöndlun úr sér genginna ökutækja.

2. gr.

Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

     1.      „ökutæki“: öll ökutæki í flokki M1 eða N1, samanber skilgreiningu í II. viðauka A við tilskipun 70/156/EBE, og vélknúin ökutæki á þremur hjólum, eins og það er skilgreint í tilskipun 92/61/EBE, að undanskildum bifhjólum með þremur hjólum;

     2.      „úr sér gengið ökutæki“: ökutæki sem er úrgangur í skilningi a-liðar 1. gr. tilskipunar 75/442/EBE;

     3.      „framleiðandi“: framleiðandi ökutækis eða sá sem í atvinnuskyni flytur inn ökutæki til aðildarríkis;

     4.      „forvarnir“: ráðstafanir sem miða að því að draga úr magni og skaðsemi úr sér genginna ökutækja, smíðaefnis og efnum þeirra fyrir umhverfið;

     5.      „meðhöndlun“: öll starfsemi sem fer fram eftir að komið hefur verið með ökutæki til stöðvar til afmengunar, sundurhlutunar, sundurskurðar, tætingar, endurnýtingar eða undirbúnings til förgunar á tætaraúrgangi og hvers kyns aðgerða sem eru framkvæmdar til endurnýtingar og/eða förgunar úr sér genginna ökutækja og íhluta þeirra;

     6.      „endurnotkun“: hvers kyns notkun þar sem íhlutir úr sér genginna ökutækja eru notaðir í sama tilgangi og þeir voru ætlaðir;

     7.      „endurvinnsla“: endurvinnsla innan framleiðsluferlis úrgangsefnanna í upprunalegum eða öðrum tilgangi, að undanskildri endurnýtingu orku. Endurnýting orku er að nota brennanlegan úrgang til að framleiða orku með því að brenna hann beint, einan sér eða með öðrum úrgangi þar sem hitinn er nýttur;

     8.      „endurnýting“: allar viðeigandi aðgerðir sem kveðið er á um í II. viðauka B við tilskipun 75/442/EBE;

     9.      „förgun“: allar viðeigandi aðgerðir sem kveðið er á um í II. viðauka A við tilskipun 75/442/EBE;

     10.      „rekstraraðilar“: framleiðendur, dreifingaraðilar, söfnunarstöðvar, ökutækjatryggingarfyrirtæki, aðilar sem sjá um sundurhlutun, tætingu, endurnýtingu, endurvinnslu og aðrir meðhöndlunaraðilar úr sér genginna ökutækja, að meðtöldum íhlutum þeirra og smíðaefnum;

     11.      „hættulegt efni“: hvers kyns efni sem telst hættulegt samkvæmt tilskipun 67/548/EBE;

     12.      „tætari“: hvers kyns búnaður sem er notaður til að tæta úr sér gengin ökutæki í stykki eða brot, þar með talið í þeim tilgangi að fá brotamálm beint til endurnotkunar;

     13.      „upplýsingar um sundurhlutun“: allar nauðsynlegar upplýsingar varðandi rétta og vistvæna meðhöndlun úr sér genginna ökutækja. Framleiðendur ökutækja og íhluta skulu koma þeim á framfæri til viðurkenndra meðhöndlunarstöðva með handbókum eða rafrænum miðlum (t.d. lesgeisladiskum eða beinlínuþjónustu).

3. gr.

Gildissvið

1.     Tilskipun þessi skal taka til ökutækja og úr sér genginna ökutækja, þar með talið íhluta þeirra og smíðaefni. Með fyrirvara um þriðju undirgrein 4. mgr. 5. gr. gildir þetta án tillits til þess með hvaða hætti viðhald og viðgerðir hafa farið fram á ökutækinu meðan það var í notkun og án tillits til þess hvort það sé búið íhlutum frá framleiðanda eða öðrum íhlutum sem hafa verið settir í sem varahlutir samkvæmt viðeigandi ákvæðum bandalagsins eða innlendum ákvæðum.

2.     Tilskipun þessi gildir með fyrirvara um gildandi löggjöf bandalagsins og viðeigandi innlenda löggjöf, einkum að því er varðar öryggisstaðla, losun í andrúmsloftið og eftirlit með hávaða og jarðvegs- og vatnsvernd.

3.     Ef framleiðandi framleiðir einungis eða flytur inn ökutæki sem eru undanþegin tilskipun 70/156/EBE, með skírskotun til a-liðar 2. mgr. 8. gr tilskipunarinnar, er aðildarríkjunum heimilt að veita framleiðandanum og ökutækjum hans undanþágu frá 4. mgr. 7. gr., 8. og 9. gr. þessarar tilskipunar.

4.     Ökutæki til sérstakra nota samkvæmt skilgreiningu annars undirliðar a-liðar 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 70/156/EBE skulu undanþegin ákvæðum 7. gr. þessarar tilskipunar.

5.     Einungis 1. mgr. 5. gr., 2. mgr. 5. gr. og 6. gr. þessarar tilskipunar skulu gilda um vélknúin ökutæki á þremur hjólum.

4. gr.

Forvarnir

1.     Í því skyni að koma í veg fyrir úrgang skulu aðildarríkin einkum ýta undir:

a)      að framleiðendur ökutækja, í tengslum við framleiðendur smíðaefna og búnaðar, takmarki notkun hættulegra efna í ökutækjum og að þeir dragi úr þeim, eins mikið og unnt er, allt frá því að ökutækið er á hönnunarstigi, einkum í því skyni að koma í veg fyrir losun þeirra út í umhverfið, auðvelda endurvinnslu og komast hjá því að farga þurfi hættulegum úrgangi;

b)      að við hönnun og framleiðslu nýrra ökutækja sé tekið fullt tillit til sundurhlutunar, endurnotkunar, endurnýtingar og einkum endurvinnslu úr sér genginna ökutækja, íhluta þeirra og smíðaefna og hún auðvelduð;

c)      að framleiðendur ökutækja, í tengslum við framleiðendur smíðaefna og búnaðar, noti sífellt meira magn endurunnins efnis í ökutæki og aðrar vörur í því skyni að þróa markaðinn fyrir endurunnið efni.

         2. a) Aðildarríkin skulu tryggja að smíðaefni og íhlutir ökutækja, sem eru sett á markað eftir 1. júlí 2003, innihaldi ekki blý, kvikasilfur, kadmíum eða sexgilt króm nema í tilvikum sem skráð eru í II. viðauka með þeim skilyrðum sem eru tilgreind þar.

b)      Í samræmi við málsmeðferðina, sem mælt er fyrir um í 11. gr., skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við framfarir í tækni og vísindum, breyta II. viðauka reglubundið í því skyni að:

       i)          ákvarða, eftir því sem þörf krefur, ásættanlegan hámarksstyrk þeirra efna, sem um getur í a-lið, í tilteknum smíðaefnum og íhlutum ökutækja;

       ii)      veita ákveðnum smíðaefnum og íhlutum ökutækja undanþágu frá ákvæðum a-liðar ef notkun þessara efna er óhjákvæmileg;

       iii)      fella smíðaefni og íhluti ökutækja brott úr II. viðauka ef notkun þessara efna er óhjákvæmileg;

       iv)      tiltaka samkvæmt i- og ii-lið þau smíðaefni og íhluti ökutækja sem hægt er að fjarlægja áður en frekari meðhöndlun fer fram; þau skulu merkt eða auðkennd á annan viðeigandi hátt.

c)      Framkvæmdastjórnin skal breyta II. viðauka í fyrsta sinn eigi síðar en 21. október 2001. Engin þeirra undanþágna, sem þar er skráð, skal felld brott úr viðaukanum fyrir 1. janúar 2003.

5. gr.

Söfnun

1.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja:

–    að rekstraraðilar setji upp kerfi til söfnunar á öllum úr sér gengnum ökutækjum og, eftir því sem er tæknilega mögulegt, á notuðum hlutum sem falla til sem úrgangur þegar gert er við fólksbifreiðar,

–    framboð á söfnunarstöðvum innan yfirráðasvæðis þeirra sé fullnægjandi.

2.     Aðildarríkin skulu einnig gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að öll úr sér gengin ökutæki séu flutt til viðurkenndra meðhöndlunarstöðva.

3.     Aðildarríkin skulu koma á fót kerfi þar sem framvísun eyðingarvottorðs er skilyrði fyrir afskráningu úr sér gengna ökutækisins. Þetta vottorð skal gefið út til þess sem hefur ökutækið í vörslu sinni og/eða eiganda þess þegar það er flutt til meðhöndlunarstöðvar. Meðhöndlunarstöðvum, sem hafa fengið leyfi samkvæmt 6. gr., skal heimilt að gefa út eyðingarvottorð. Aðildarríkjunum er heimilt að leyfa framleiðendum, seljendum og söfnunarstöðvum að gefa út eyðingarvottorð fyrir hönd viðurkenndra meðhöndlunarstöðva, að því tilskildu að þeir tryggi að úr sér gengna ökutækið sé flutt til viðurkenndrar meðhöndlunarstöðvar og að þeir séu skráðir hjá opinberum yfirvöldum.

Útgáfa á eyðingarvottorðum veitir meðhöndlunarstöðvum, eða seljendum eða söfnunarstöðvum, fyrir hönd viðurkenndra meðhöndlunarstöðva, ekki rétt til að krefjast endurgjalds, nema í þeim tilvikum þar sem aðildarríkin hafa beinlínis samið um slíkt.

Aðildarríki, sem ekki eiga sér afskráningarkerfi þegar tilskipun þessi öðlast gildi, skulu koma á fót kerfi þar sem tilkynnt er um eyðingarvottorð til viðkomandi lögbærs yfirvalds þegar úr sér gengið ökutæki er flutt til meðhöndlunarstöðvar og skulu að öðru leyti hlíta skilmálum þessarar málsgreinar. Aðildarríki, sem notfæra sér þessa undirgrein, skulu tilkynna framkvæmdastjórninni ástæður þess.

4.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að ökutæki sé afhent viðurkenndri meðhöndlunarstöð í samræmi við 3. gr. þeim sem hafði það síðast í vörslu sinni og/eða eigandanum að kostnaðarlausu þar sem markaðsvirði ökutækisins er ekkert eða neikvætt.

Aðildarríki skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að framleiðendur standi straum af öllum eða verulegum hluta kostnaðar sem hlýst af því að hrinda þessari ráðstöfun í framkvæmd og/eða taki aftur við úr sér gengnum ökutækjum með sömu skilyrðum og um getur í fyrstu undirgrein.

Aðildarríkjunum er heimilt að kveða á um að afhending úr sér genginna ökutækja sé ekki að öllu án endurgjalds ef úr sér gengna ökutækið inniheldur ekki nauðsynlega íhluti ökutækis, einkum hreyfilinn og yfirbygginguna, eða inniheldur úrgang sem bætt hefur verið við úr sér gengna ökutækið.

Framkvæmdastjórnin skal stunda reglubundið eftirlit með framkvæmd fyrstu undirgreinar til að tryggja að hún leiði ekki til markaðsröskunar og skal, ef nauðsyn ber til, gera tillögur um breytingar á henni til Evrópuþingsins og ráðsins.

5.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að lögbær yfirvöld viðurkenni og samþykki gagnkvæm eyðingarvottorð, sem eru gefin út í öðrum aðildarríkjum, í samræmi við 3. mgr. Í þessu skyni skal framkvæmdastjórnin, eigi síðar en 21. október 2001, setja lágmarkskröfur vegna eyðingarvottorðsins.

6. gr.

Meðhöndlun

1.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að öll úr sér gengin ökutæki séu geymd (jafnvel til bráðabirgða) og meðhöndluð í samræmi við almennar kröfur, sem mælt er fyrir um í 4. gr. tilskipunar 75/442/EBE, og í samræmi við lágmarkstæknikröfur, sem settar eru fram í I. viðauka við þessa tilskipun, með fyrirvara um innlendar heilbrigðis- og umhverfisreglur.

2.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að allar starfsstöðvar eða fyrirtæki, sem annast meðhöndlun, fái leyfi eða verði skráð af lögbærum yfirvöldum í samræmi við 9., 10. og 11. gr. tilskipunar 75/442/EBE.

Undanþágan frá þessari kröfu um leyfi, sem um getur í b-lið 1. mgr. 11. gr. tilskipunar 75/442/EBE, getur átt við um endurnýtingaraðgerðir varðandi úrgang frá úr sér gengnum ökutækjum eftir að þau hafa verið meðhöndluð samkvæmt 3. lið 1. viðauka við þessa tilskipun ef lögbært yfirvald hefur framkvæmt skoðun áður en skráning fer fram. Skoðun þessi skal staðfesta:

a)      gerð og magn úrgangs sem meðhöndla skal,

b)      almennar tæknikröfur sem verður að uppfylla,

c)      öryggisráðstafanir sem gera skal,

í því skyni að ná fram þeim markmiðum sem um getur í 4. gr. tilskipunar 75/442/EBE. Skoðun þessa skal framkvæma einu sinni á hverju ári. Aðildarríki, sem nýta sér undanþáguna, skulu senda niðurstöðurnar til framkvæmdastjórnarinnar.

3.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að allar starfsstöðvar eða fyrirtæki, sem annast meðhöndlun, uppfylli að minnsta kosti eftirfarandi skuldbindingar í samræmi við I. viðauka:

a)      allt lauslegt skal fjarlægt af úr sér gengna ökutækinu áður en frekari meðhöndlun fer fram eða sambærilegar ráðstafanir gerðar í því skyni að draga úr skaðlegum áhrifum á umhverfið. Íhlutir eða smíðaefni, sem eru merkt eða auðkennd á annan hátt í samræmi við 2. mgr. 4. gr., skulu fjarlægð áður en frekari meðhöndlun fer fram;

b)      fjarlægja skal hættuleg smíðaefni og íhluti og aðgreina á sértækan hátt til þess að menga ekki tætaraúrgang sem fellur til frá úr sér gengnum ökutækjum;

c)      lausir hlutar skulu fjarlægðir og geymdir með þeim hætti að tryggt sé að íhlutir ökutækisins henti til endurnotkunar og endurnýtingar, einkum til endurvinnslu.

Meðhöndlun vegna afmengunar úr sér genginna ökutækja, eins og um getur í 3. lið I. viðauka, skal framkvæma eins fljótt og mögulegt er.

4.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að leyfið eða skráningin, sem um getur í 2. mgr., feli í sér öll nauðsynleg skilyrði þannig að kröfurnar í 1., 2. og 3. mgr. séu uppfylltar.

5.     Aðildarríkin skulu hvetja til þess að starfsstöðvar eða fyrirtæki, sem annast meðhöndlun, taki upp viðurkennd umhverfisstjórnunarkerfi.

7. gr.

Endurnotkun og endurnýting

1.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að hvetja til endurnotkunar íhluta sem henta til endurnotkunar, endurnýtingu íhluta sem ekki er hægt að endurnota og að endurvinnsla hafi forgang, þegar hún er umhverfislega hagkvæm, með fyrirvara um kröfur varðandi öryggi í ökutækjum og umhverfiskröfur svo sem losun út í andrúmsloftið og hávaðaeftirlit.

2.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að rekstraraðilar nái eftirfarandi markmiðum:

a)      Eigi síðar en 1. janúar 2006 skal endurnotkun og endurnýting allra úr sér genginna ökutækja að lágmarki aukast í 85% af meðalþyngd ökutækis á ári. Innan sömu tímamarka skal endurnotkun og endurvinnsla úr sér genginna ökutækja að lágmarki aukast í 80% af meðalþyngd ökutækis á ári.

    Að því er varðar ökutæki, sem eru framleidd fyrir 1. janúar 1980, er aðildarríkjunum heimilt að mæla fyrir um lægri mörk, þó ekki lægri en 75% fyrir endurnotkun og endurnýtingu og ekki lægri en 70% fyrir endurnotkun og endurvinnslu. Aðildarríki, sem notfæra sér þessa undirgrein skulu tilkynna framkvæmdastjórninni ástæður þess.

b)      Eigi síðar en 1. janúar 2015 skal endurnotkun og endurnýting allra úr sér genginna ökutækja að lágmarki aukast í 95% af meðalþyngd ökutækis á ári. Innan sömu tímamarka skal endurnotkun og endurnýting úr sér genginna ökutækja að lágmarki aukast í 85% af meðalþyngd ökutækis á ári.

Eigi síðar en 31. desember 2005 skulu Evrópuþingið og ráðið endurskoða markmiðin, sem um getur í b-lið, á grundvelli skýrslu framkvæmdastjórnarinnar sem tillaga fylgir. Í skýrslu sinni skal framkvæmdastjórnin taka tillit til þróunar á samsetningu smíðaefnis ökutækja og allra annarra viðeigandi umhverfisþátta sem varða ökutæki.

Framkvæmdastjórnin skal, í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 11. gr., setja nákvæmar reglur sem eru nauðsynlegar til eftirlits með því hvort aðildarríkin nái þeim mörkum sem sett eru í þeirri málsgrein. Þegar framkvæmdastjórnin setur reglurnar skal hún taka tillit til allra þátta sem máli skipta, meðal annars framboðs á gögnum og inn- og útflutnings úr sér genginna ökutækja. Framkvæmdastjórnin skal beita þessari ráðstöfun eigi síðar en 21. október 2002.

3.     Á grundvelli tillögu framkvæmdastjórnarinnar skulu Evrópuþingið og ráðið setja mörk varðandi endurnotkun og endurnýtingu og varðandi endurnotkun og endurvinnslu eftir árið 2015.

4.     Í því skyni að undirbúa breytingu á tilskipun 70/156/EBE skal framkvæmdastjórnin stuðla að undirbúningi evrópustaðla varðandi eiginleika ökutækja með tilliti til sundurhlutunar, endurnýtingar og endurvinnslu. Þegar staðlarnir hafa verið samþykktir, eða eigi síðar en í lok ársins 2001, skulu Evrópuþingið og ráðið á grundvelli tillögu framkvæmdastjórnarinnar breyta tilskipun 70/156/EBE þannig að ökutæki, sem hljóta gerðarviðurkenningu í samræmi við þá tilskipun og eru sett á markað þremur árum eftir að tilskipun 70/156/EBE er breytt, séu að lágmarki 85% endurnotanleg og/eða endurvinnanleg miðað við þyngd ökutækis og séu að lágmarki 95% endurnotanleg og/eða endurnýtanleg miðað við þyngd ökutækis.

5.     Þegar framkvæmdastjórnin gerir tillögu um breytingu á tilskipun 70/156/EBE er varðar eiginleika ökutækja með tilliti til sundurhlutunar, endurnýtingar og endurvinnslu skal hún taka tillit til, eftir því sem við á, nauðsyn þess að tryggja að endurnotkun á íhlutum skapi hvorki öryggis- né umhverfishættu.

8. gr.

Kóðunarstaðlar/upplýsingar um sundurhlutun

1.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að framleiðendur, í samvinnu við framleiðendur smíðaefnis og búnaðar, noti kóðunarstaðla fyrir íhluti og smíðaefni, einkum til að auðvelda að kennsl verði borin á þá íhluti og smíðaefni sem henta til endurnotkunar og endurnýtingar.

2.     Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 21. október 2001, í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 11. gr. ákveða staðlana sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar. Þegar hún gerir það skal framkvæmdastjórnin taka mið af því starfi sem fram fer í viðeigandi alþjóðlegu samhengi á þessu sviði og leggja sitt af mörkum til þessa starfs eftir því sem við á.

3.     Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að framleiðendur leggi fram upplýsingar um hvernig taka skuli í sundur hverja nýja gerð ökutækis sem er sett á markað innan sex mánaða frá því að ökutækið er sett á markað. Í þessum upplýsingum skal auðkenna, eftir því sem það er nauðsynlegt fyrir meðhöndlunarstöðvar til þess að fara að ákvæðum þessarar tilskipunar, mismunandi íhluti ökutækisins og smíðaefni, staðsetningu allra hættulegra efna í ökutækinu, einkum með hliðsjón af því að ná þeim markmiðum sem mælt er fyrir um í 7. gr.

4.     Með fyrirvara um viðskipta- og atvinnuleynd skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að framleiðendur íhluta, sem notaðir eru í ökutækjum, komi á framfæri við viðurkenndar meðhöndlunarstöðvar, eftir því sem þessar stöðvar óska þess, viðeigandi upplýsingum um sundurhlutun, geymslu og prófanir á íhlutum sem hægt er að endurnota.

9. gr.

Skýrslugjöf og upplýsingar

1.     Á þriggja ári fresti skulu aðildarríkin senda skýrslu til framkvæmdastjórnarinnar varðandi framkvæmd þessarar tilskipunar. Skýrslan skal samin á grundvelli spurningalista eða draga, sem framkvæmdastjórnin semur í samræmi við málsmeðferðina, sem mælt er fyrir um í 6. gr. tilskipunar 91/692/EBE ( 1 ), með það að markmiði að koma á fót gagnagrunni um úr sér gengin ökutæki og meðhöndlun þeirra. Í skýrslunni skulu vera viðeigandi upplýsingar vegna hugsanlegra breytinga á tilhögun í viðskiptum með vélknúin ökutæki og þeim iðnaði, er snýr að söfnun, sundurhlutun, tætingu, endurnýtingu og endurvinnslu, sem leiða til röskunar á samkeppni milli eða innan aðildarríkja. Spurningalistann eða uppkastið skal senda til aðildarríkjanna sex mánuðum áður en tímabilið, sem skýrslan fjallar um, hefst. Framkvæmdastjórnin skal fá skýrsluna innan níu mánaða frá lokum þriggja ára tímabilsins sem hún fjallar um.

Fyrsta skýrslan skal ná yfir þriggja ára tímabil frá og með 21. apríl 2002.

Á grundvelli framangreindra upplýsinga skal framkvæmdastjórnin gefa út skýrslu um framkvæmd þessarar tilskipunar innan níu mánaða frá því að hún fær skýrslurnar frá aðildarríkjunum.

2.     Aðildarríkin skulu skylda, í hverju tilviki fyrir sig, viðkomandi rekstraraðila til að birta upplýsingar varðandi:

–    hönnun ökutækja og íhluta þeirra með tilliti til eiginleika þeirra til endurnýtingar og endurvinnslu,

–    vistvæna meðhöndlun úr sér genginna ökutækja, einkum við að fjarlægja alla vökva og sundurhlutun,

–    þróun og bestun leiða til endurnotkunar, endurvinnslu og endurnýtingar úr sér genginna ökutækja og íhluta þeirra,

–    framfarir sem verða, með tilliti til endurnýtingar og endurvinnslu, í því að draga úr úrgangi sem er fargað og í að auka endurnýtingu og endurvinnslu.

Framleiðandinn skal gera þessar upplýsingar aðgengilegar væntanlegum kaupendum ökutækja. Þær skulu koma fram í kynningarritum sem eru notuð við markaðssetningu nýrra ökutækja.

10. gr.

Framkvæmd

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari fyrir 21. apríl 2002. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

3.     Að því tilskildu að markmiðin sem sett eru fram í þessari tilskipun náist er aðildarríkjunum heimilt að taka upp ákvæðin sem mælt er fyrir um í 4. gr. (1. mgr.), 5. gr. (1. mgr.), 7. gr. (1. mgr.), 8. gr. (1. og 3. mgr.) og 9. gr. (2. mgr.) og tilgreina nákvæmar reglur um framkvæmd 4. mgr. 5. gr. með samningum milli lögbærra yfirvalda og þeirra atvinnuvega sem um ræðir. Slíkir samningar skulu uppfylla eftirfarandi kröfur:

a)      samningar skulu vera aðfararhæfir;

b)      í samningum verður að tilgreina markmið ásamt viðeigandi tímamörkum;

c)      samningar skulu birtir í innlendum stjórnartíðindum eða opinberu skjali, sem almenningur hefur jafnt aðgengi að, og komið á framfæri við framkvæmdastjórnina;

d)      reglulegt eftirlit skal vera með þeim niðurstöðum sem nást með samningi, gefa skal skýrslu um þær til lögbærra yfirvalda og til framkvæmdastjórnarinnar og koma þeim á framfæri við almenning samkvæmt þeim skilyrðum sem sett eru í samningnum;

e)      lögbær yfirvöld skulu setja ákvæði um að framfarir, sem nást samkvæmt samningi, skuli kannaðar;

f)      ef ekki er staðið við samning skulu aðildarríkin beita viðeigandi ákvæðum þessarar tilskipunar með laga-, reglu- eða stjórnsýsluákvæðum.

11. gr.

Nefndarmeðferð

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndarinnar sem sett var á stofn með 18. gr. tilskipunar 75/442/EBE, sem nefnist hér á eftir „nefndin“.

2.     Þegar vísað er í þessa grein skulu ákvæði 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB gilda með hliðsjón af 8. gr. hennar.

Tímabilið, sem mælt er fyrir um í 6. mgr. 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.

3.     Nefndin setur sér reglur um málsmeðferð.

4.     Framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í þessari grein, skal samþykkja:

a)      lágmarkskröfurnar, sem um getur í 5. mgr. 5. gr., vegna eyðingarvottorðsins;

b)      þær nákvæmu reglur sem um getur í 2. mgr. 7. gr., þriðju undirgrein;

c)      snið fyrir gagnagrunnskerfið sem um getur í 9. gr.;

d)      nauðsynlegar breytingar til að laga viðaukana við þessa tilskipun að framförum í tækni og vísindum.

12. gr.

Gildistaka

1.     Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

2.     Ákvæði 4. mgr. 5. gr. skulu gilda:

–    frá og með 1. júlí 2002 að því er varðar ökutæki sem eru sett á markað frá og með þeirri dagsetningu,

–    frá og með 1. janúar að því er varðar ökutæki sem eru sett á markað fyrir þá dagsetningu sem um getur í fyrsta undirlið.

3.     Aðildarríkjunum er heimilt að beita 4. mgr. 5. gr. fyrir þá dagsetningu sem mælt er fyrir um í 2. mgr.

13. gr.

Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 18. september 2000.

     Fyrir hönd Evrópuþingsins,     Fyrir hönd ráðsins,
    N. FONTAINE     H. VÉDRINE
     forseti.     forseti.



I. VIÐAUKI

Tæknilegar lágmarkskröfur um meðhöndlun í samræmi við 1. og 3. mgr. 6. gr.

     1.      Geymslustaður (einnig tímabundin geymsla) úr sér genginna ökutækja áður en þau eru meðhöndluð:
        –        hentug svæði með ógagndræpu yfirborði þar sem söfnunaraðstaða, afhellingarbúnaður og hreinsun-fituhreinsun er fyrir hendi,
        –        tækjabúnaður til að meðhöndla vatn, þar með talið rigningarvatn, í samræmi við heilbrigðis- og umhverfisreglugerðir.
     2.      Meðhöndlunarstaðir:
        –        hentug svæði með ógagndræpu yfirborði þar sem söfnunaraðstaða, afhellingarbúnaður og hreinsun-fituhreinsun er fyrir hendi,
        –        hentug geymsla fyrir varahluti sem hafa verið fjarlægðir af ökutækinu, þar með talin ógagndræp geymsla fyrir varahluti sem eru olíumengaðir,
        –        hentug ílát til geymslu á rafgeymum (þar sem raflausn er gerð hlutlaus á staðnum eða annars staðar), síum og þéttum sem innihalda PCB/PCT-efni,
        –        hentugir geymar til aðgreindrar geymslu á vökvum frá úr sér gengnum ökutækjum: eldsneyti, smurolíu, gírkassaolíu, gír- og drifolíu, vökvakerfisolíu, kælivökva, ísvara, hemlavökva, rafgeymasýrum, vökva úr loftjöfnunarkerfum og öllum öðrum vökvum sem fyrirfinnast í úr sér gengnum ökutækjum,
        –        tækjabúnaður til að meðhöndla vatn, þar með talið rigningarvatn, í samræmi við heilbrigðis- og umhverfisreglugerðir,
        –        hentug geymsla fyrir notaða hjólbarða, þar með taldar forvarnir gegn eldhættu og því að þeim sé hlaðið í of stórar hrúgur.
     3.      Meðhöndlun við afmengun úr sér genginna ökutækja:
        –        rafgeymar og geymar fyrir fljótandi gas fjarlægðir,
        –        íhlutir, sem hugsanlega eru sprengifimir (t.d öryggispúðar), fjarlægðir eða gerðir óvirkir,
        –        eldsneyti, smurolía, gír- og drifolía, gírkassaolía, vökvakerfisolía, kælivökvi, ísvari, hemlavökvi, vökvi úr loftjöfnunarkerfum og allir aðrir vökvar, sem fyrirfinnast í úr sér gengnum ökutækjum, eru fjarlægðir og safnað sérstaklega saman og geymdir nema þeir séu nauðsynlegir vegna endurnotkunar viðkomandi hluta,
        –        allir íhlutir, sem vitað er að innihalda kvikasilfur, eru fjarlægðir eftir því sem unnt er.
     4.      Meðhöndlun sem stuðlar að endurvinnslu:
        –        hvatar eru fjarlægðir,
        –        íhlutir úr málmi, sem inniheldur kopar, ál og magnesíum, eru fjarlægðir ef þessar málmar eru ekki aðgreindir í tætaraferlinu,
        –        hjólbarðar og stórir íhlutir úr plasti (stuðarar, mælaborð, vökvageymar o.s.frv.) eru fjarlægðir ef þessi smíðaefni eru ekki aðgreind í tætaraferlinu þannig að hægt sé að endurvinna þau á skilvirkan hátt sem smíðaefni,
        –        gler er fjarlægt.
     5.      Aðgerðir vegna geymslu skulu fara þannig fram að komist sé hjá því að íhlutir sem innihalda vökva, endurnýtanlegir íhlutir eða varahlutir skemmist.


II. VIÐAUKI

Smíðaefni og íhlutir sem eru undanþegin a-lið 2. mgr. 4. gr.


Smíðaefni og íhlutir Skulu merkt eða auðkennd í sam-
ræmi við iv-lið b-liðar 2. mgr. 4. gr.
Blý sem hluti málmblendis
1.    Stál (þar með talið tinhúðað stál) sem inniheldur allt að 0,35% af blýi miðað við þyngd
2.    Ál sem inniheldur allt að 0,4% af blýi miðað við þyngd
3.    Ál (í felgum, hlutum hreyfils og búnaði til að skrúfa rúður upp og niður) sem inniheldur allt að 4 % af blýi miðað við þyngd X
4.    Koparblendi sem inniheldur allt að 4% af blýi miðað við þyngd
5.    Blý/brons í legubökkum og -fóðringum
Blý og blýsambönd í íhlutum
6.    Rafgeymar X
7.    Húð innan í bensíngeymum X
8.    Titringsdeyfar X
9.    Súlfunarefni fyrir háþrýsti- og eldsneytisslöngur
10.    Stöðgari í hlífðarmálningu
11.    Lóðmálmur í rafeindarásaplötum og öðrum búnaði
Sexgilt króm
12.    Tæringarvarnarefni til yfirborðsmeðferðar á fjölda lykilíhluta ökutækja (að hámarki 2 g á ökutæki)
Kvikasilfur
13.    Perur og álestrarbúnaður í mælaborði X

Það skal hafa forgang að framkvæmdastjórnin meti eftirfarandi búnað í þeirri málsmeðferð, sem um getur í b-lið 2. mgr. 4. gr:

–    blý sem málmblendi í áli í felgum, hlutum hreyfils og í búnaði til að skrúfa rúður upp og niður
–    blý í rafgeymum
–    blý í jafnvægisstillingarlóðum
–    rafmagnsíhluti sem innihalda blý í uppistöðuefnasamböndum glers eða keramíks
–    kadmíum í rafgeymum rafmagnsökutækja

í því skyni að komast að raun um hvort breyta beri II. viðauka í samræmi við hana. Að því er varðar kadmíum í rafgeymum rafmagnsökutækja skal framkvæmdastjórnin, við málsmeðferðina, sem um getur í b-lið 2. mgr. 4. gr., og innan ramma heildarumhverfismats, taka tillit til framboðs á staðgönguefnum og einnig nauðsynjar þess að viðhalda framboði á rafmagnsökutækjum.

( 1) Hefur ekki enn verið birt.
( 2) Stjtíð. EB L 269, 21.10.2000, bls. 34.
( *) Engin stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna. Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
( 1)    Stjtíð. EB C 337, 7.11.1997, bls. 3 og Stjtíð. EB C 156, 3.6.1999, bls. 5.
( 2)    Stjtíð. EB C 129, 27.4.1998, bls. 44.
( 3)    Álit Evrópuþingsins frá 11. febrúar 1999 (Stjtíð. EB C 150, 28.5.1999, bls. 420), sameiginleg afstaða ráðsins frá 29. júlí 1999 (Stjtíð. EB C 317, 4.11.1999, bls. 19) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 3. febrúar 2000 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB). Ákvörðun ráðsins frá 20. júlí 2000 og ákvörðun Evrópuþingsins frá 7. september 2000.
( 1)    Stjtíð. EB L 196, 16.8.1967, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 98/98/EB (Stjtíð. EB L 355, 30.12.1998, bls. 1).
( 2)    Stjtíð. EB L 42, 23.2.1970, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/91/EB (Stjtíð. EB L 11, 16.1.1999, bls. 25).
( 3)    Stjtíð. EB L 194, 25.7.1975, bls. 39. Tilskipuninni var síðast breytt með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 96/350/EB (Stjtíð. EB L 135, 6.6.1996, bls. 32).
( 1)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
( 1)    Stjtíð. EB L 377, 31.12.1991, bls. 48.