Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög í janúar 2002. Útgáfa 127a. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um eiturefni og hættuleg efni
1988 nr. 52 18. maí
I. kafli. Upphafsákvæði.
Eiturefni og hættuleg efni.
1. gr. Eiturefni eru samkvæmt lögum þessum efni sem skráð eru á lista yfir eiturefni, sbr. 2. gr., svo og sérhver efnasamsetning og varningur er hefur að geyma slík efni í því formi og magni að venjuleg notkun þeirra felur í sér hættu á eitrunum í mönnum og dýrum samkvæmt mati ráðherra að fenginni umsögn [eiturefnaeftirlits Hollustuverndar ríkisins]. 1)
Hættuleg efni eru samkvæmt lögum þessum efni sem skráð eru á lista yfir hættuleg efni, sbr. 2. gr., svo og sérhver efnasamsetning og varningur er hefur að geyma slík efni í því formi og magni að venjuleg notkun þeirra felur í sér hættu fyrir heilsu manna og dýra samkvæmt mati ráðherra að fenginni umsögn [eiturefnaeftirlits Hollustuverndar ríkisins]. 1)
[Fegrunar- og snyrtiefni eru efni eða efnablöndur sem ætlaðar eru til notkunar á mannslíkamann, svo sem hörund, hár, neglur, varir, tennur eða slímhúð í munni. Fegrunar- og snyrtiefnum er einkum ætlað að hreinsa, breyta útliti, veita ilm, bæta líkamsþef eða vernda og halda líkamshlutum í góðu ástandi.] 2)
[Markmið þessara laga er að eiturefni, hættuleg efni og fegrunar- og snyrtiefni séu notuð með gát og varúð þannig að hvorki hljótist af tjón á mönnum eða dýrum né matvæli eða umhverfi mengist af efnunum.] 2)
1)L. 1/1992, 26. gr. 2)L. 42/2001, 1. gr.
[Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins.]1)
1)L. 1/1992, 26. gr.
2. gr. [Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins skal vera ráðherra til ráðuneytis um framkvæmd laga þessara.
Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins gerir tillögur um röðun efna á lista yfir eiturefni og hættuleg efni í samræmi við skaðleg áhrif og notkunarsvið þeirra. Ráðherra staðfestir tillögur eiturefnaeftirlitsins með reglugerð. 1)
Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins skal veita stjórnvöldum, einstaklingum eða fyrirtækjum upplýsingar um meðferð eiturefna og hættulegra efna svo sem eftir er leitað og kostur er á. Eftirlitið skal enn fremur gera tillögur um viðbrögð við slysum af völdum eiturefna og hættulegra efna eða við vá af þeirra völdum vegna hernaðar eða náttúruhamfara.] 2)
1)Rg. 236/1990, sbr. 348/1990, 664/1997, 766/1997, 459/1998, 460/1998, 500/1998, 639/1998, 77/1999, 150/1999, 548/1999, 754/1999, 613/2000, 921/2000 og 380/2001. 2)L. 1/1992, 26. gr.
3. gr. Ákvæði laga þessara taka ekki til eiturefna og hættulegra efna ef þau eru notuð samkvæmt ákvæðum:
1. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46 28. maí 1980,
2. lyfjalaga, nr. 108 14. nóvember 1984 (lyf og dýralyf). 1)
1)Nú l. 93/1994.
II. kafli. Ákvæði varðandi eiturefni.
Framleiðsla eiturefna.
4. gr. Eiturefni mega þeir einir framleiða er til þess hafa fengið leyfi ráðherra, enda mæli Vinnueftirlit ríkisins og [eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins] 1) með veitingu slíkra leyfa.
Blöndun og þynning eiturefna og pökkun í söluhæf ílát og umbúðir, þar með talið umpökkun og umhelling svo og íburður í klæði, skoðast framleiðsla nema öðruvísi sé ákveðið, sbr. 2. mgr. 5. gr.
1)L. 1/1992, 26. gr.
Viðtaka eiturefna.
5. gr. Þeir einir, er hér greinir, mega veita viðtöku eiturefnum og kaupa eiturefni:
1. Framleiðendur eiturefna, sbr. 4. gr.
2. Forstöðumenn efnagerða, efnaverksmiðja eða annarra fyrirtækja er tilkynnt hafa Vinnueftirliti ríkisins að við rekstur eða framleiðslu fyrirtækjanna sé þörf tiltekinna eiturefna, enda hafi þeir eða tilteknir starfsmenn þeirra leyfi til þess að nota eiturefnin.
3. Lyfjaverslun ríkisins, aðrar lyfjagerðir og lyfjaheildverslanir svo og lyfjabúðir.
4. Verslanir er fengið hafa leyfi ráðherra til þess að selja tiltekin eiturefni önnur en talin eru í næsta tölulið.
5. Verslanir sem fengið hafa leyfi ráðherra til þess að selja eiturefni og hættuleg efni til nota í landbúnaði og garðyrkju og til útrýmingar meindýra.
6. Sjúkrahús og viðurkenndar rannsóknastofur.
7. Kennarar í raungreinum við framhaldsskóla vegna nota við kennslu.
8. Einstaklingar 18 ára eða eldri er framvísa réttum aðilum sérstökum eiturbeiðnum, sbr. ákvæði 6. gr., eða öðrum gildum leyfum til kaupa á eiturefnum, sbr. 7. gr.
Fyrirtækjum, sem greind eru í 4. og 5. tölul. að framan og versla með eiturefni, er þó heimilt að fengnu samþykki Vinnueftirlits ríkisins að vega þau sundur, blanda eða þykkja og umpakka eða umhella í ný söluhæf ílát.
Sala og innflutningur eiturefna.
6. gr. Þeir einir mega selja og flytja inn eiturefni er greinir í 1.–5. tölul. 1. mgr. 5. gr. Um fyrirtæki, sem talin eru í 1. og 2. tölul. 1. mgr. 5. gr., gildir þó að þau mega einungis selja eiturefni svo fremi að þau séu hluti af venjulegri framleiðslu þeirra.
Þau fyrirtæki, sem talin eru í 1. og 2. tölul. 1. mgr. 5. gr., mega selja önnur eiturefni en þau sem fyrirtækin framleiða ef þau hafa fengið til þess leyfi, sbr. 4. eða 5. tölul. 1. mgr. 5. gr.
Setja skal í reglugerð ákvæði um veitingu leyfa handa verslunum þeim er ræðir í 4. og 5. tölul. 1. mgr. 5. gr.
Kaup einstaklinga á eiturefnum.
7. gr. Einstaklingar, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 5. gr., mega kaupa eiturefni til eigin nota ef þeir framvísa seljendum eiturefna, sbr. 6. gr., sérstökum eiturbeiðnum eða öðrum gildum leyfum til kaupa á tilteknum eiturefnum.
Heilbrigðisfulltrúar sveitarfélaga gefa út eiturbeiðnir að fenginni umsögn [eiturefnaeftirlits Hollustuverndar ríkisins]. 1) Aðeins má láta úti einu sinni gegn sömu eiturbeiðni. Eiturbeiðnir gilda lengst í hálft ár frá útgáfudegi.
Nú nota iðnaðarmenn eða aðrir einstaklingar tiltekin eiturefni að staðaldri við störf sín eða í þágu þeirra fyrirtækja er þeir starfa við, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. Má þá veita leyfi til kaupa á umræddum efnum er gilda til eins til þriggja ára í senn.
Ráðherra setur að fengnum tillögum [eiturefnaeftirlits Hollustuverndar ríkisins] 1) reglugerð 2) um útgáfu eiturbeiðna og annarra tilsvarandi leyfa, afgreiðslu þeirra og varðveislu, um kaup á eiturefnum til nota í landbúnaði og garðyrkju og til útrýmingar meindýra, til sótthreinsunar og til varnar fúa.
1)L. 1/1992, 26. gr. 2)Rg. 39/1984.
Útlát eiturefna.
8. gr. Eiturefni má aðeins selja eða afhenda þeim sem eru 18 ára eða eldri. Eigi má afhenda eiturefni ef ástæða er til þess að ætla að viðkomandi kynnu að fara sjálfum sér að voða eða gætu unnið öðrum tjón með efnunum sökum geðveiki, neyslu vímugjafa, vanþroska, vanstillingar, fákunnáttu o.s.frv.
Heimilt er að selja á frjálsum markaði tiltekinn varning er inniheldur eiturefni. Fellur þá niður kvöð um útgáfu eiturbeiðna eða hliðstæðra leyfa, sbr. 7. gr., enda skal þá jafnframt gæta þeirra fyrirmæla um sölu og afhendingu varningsins er sett verða í reglugerð.
9. gr. Eiturefni skal láta úti í sterkum og velluktum ílátum. Ílátin skulu vera þannig útlits eða svo greinilega auðkennd að ekki verði villst á þeim og ílátum sem notuð eru undir lyf, matvæli og fóðurvörur, fegrunar- eða snyrtiefni eða önnur óskaðleg efni. Á ílátunum skal geta innihalds og á ílátum og ystu umbúðum um eiturefni skulu vera eiturmerki svo og nauðsynleg varnaðarorð. Skulu eiturmerki þessi vera hliðstæð eiturmerkjum er tíðkast í nálægum löndum, svo sem kostur er, sbr. 21. gr. 1)
Eiturmerki má ekki nota á ílát og umbúðir um önnur efni en eiturefni, sbr. 1. mgr. 1. gr., nema það sé sérstaklega heimilað í reglugerðum sem settar eru með stoð í þessum lögum.
1)Svo í Stjtíð., en virðist eiga að vera 20. gr.
Varðveisla eiturefna.
10. gr. Fyrirtæki og einstaklingar, sbr. 5. og 6. gr., skulu hlíta ákvæðum laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum varðandi varðveislu eiturefna og ákvæðum laga um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum eftir því sem við á. Um Lyfjaverslun ríkisins, aðrar lyfjagerðir og lyfjaheildverslanir svo og lyfjabúðir gilda enn fremur ákvæði laga um lyfjadreifingu.
Í verslunum, er leyfi hafa til þess að selja tiltekin eiturefni eða eiturefni til nota í landbúnaði og garðyrkju og til útrýmingar meindýra, skal hlíta fyrirmælum að þessu lútandi er sett verða í reglugerð.
Á sjúkrahúsum og viðurkenndum rannsóknastofum skal varðveita eiturefni í umbúðum seljenda eða í öðrum umbúðum jafntryggum. Ef lyfjabúr er á sjúkrahúsi skal forstöðumaður þess hafa eftirlit með varðveislu eiturefna í umsjá Lyfjaeftirlits ríkisins. Einstaklingar og kennarar skulu varðveita eiturefni í umbúðum framleiðenda (seljenda).
Eiturefni skal jafnan varðveita tryggilega og þannig að þau séu aðskilin frá matvælum og dýrafóðri, einnig frá lyfjum, fegrunar- og snyrtiefnum og þannig að óviðkomandi nái ekki til þeirra.
III. kafli. Ákvæði varðandi hættuleg efni.
Útlát hættulegra efna.
11. gr. Hættuleg efni skal láta úti og selja í sterkum og velluktum ílátum. Ílátin skulu vera þannig útlits eða svo greinilega auðkennd að ekki verði villst á þeim og ílátum sem notuð eru undir lyf, matvæli og aðrar neysluvörur, fóðurvörur, fegrunar- eða snyrtiefni eða önnur efni. Ílátin skulu vera greinilega merkt og getið innihalds. Á ílátunum skulu enn fremur vera varnaðarorð á íslensku, sbr. 20. gr., og skulu þau vera í samræmi við hliðstæð varnaðarorð sem tíðkast í nálægum löndum, svo sem kostur er.
Takmarka má að fengnum tillögum [eiturefnaeftirlits Hollustuverndar ríkisins] 1) sölu og útlát tiltekinna hættulegra efna við lyfjabúðir, lyfjaheildsölur eða aðra sölustaði ef sérstakar aðstæður gilda um notkun efnanna.
[Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins] 1) getur sett reglur 2) um stærð söluíláta eða magn tiltekinna hættulegra efna sem selja má í smásölu í matvöruverslunum eða öðrum almennum verslunum.
1)L. 1/1992, 26. gr. 2)Rg. 389/1994.
Varðveisla hættulegra efna.
12. gr. Hættuleg efni skal varðveita í umbúðum seljenda eða öðrum umbúðum jafntryggum.
[Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins setur, að fengnu áliti samtaka hlutaðeigandi seljenda, reglur um varðveislu hættulegra efna í matvöruverslunum. Sams konar reglur má og setja um varðveislu hættulegra efna í öðrum almennum verslunum.] 1)
Hollustuvernd ríkisins setur að höfðu samráði við [eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins] 1) og að fengnu áliti samtaka hlutaðeigandi seljenda reglur um varðveislu hættulegra efna í matvöruverslunum. Sams konar reglur má og setja um varðveislu hættulegra efna í öðrum almennum verslunum.
1)L. 1/1992, 26. gr.
Lífræn leysiefni.
13. gr. Heimilt er að fengnum tillögum [eiturefnaeftirlits Hollustuverndar ríkisins] 1) að kveða á um mat á eiturhrifum og notagildi varnings er hefur tiltekin lífræn leysiefni að geyma og talin eru á lista, sbr. 2. mgr. 1. gr. Skal þá hlíta nánari ákvæðum um sölu og notkun varningsins eða banni við notkun hans er sett verða í reglugerð, sbr. 18. gr.
1)L. 1/1992, 26. gr.
Hættulegar lofttegundir.
14. gr. Heimilt er að fengnum tillögum [eiturefnaeftirlits Hollustuverndar ríkisins] 1) að setja nánari ákvæði um sölu og notkun hættulegra lofttegunda er hafa ekki lækningalegt gildi. 2) Sama á við um sölu og notkun lofttegunda er hafa lækningalegt gildi ef þær eru ætlaðar til annars en lækninga.
1)L. 1/1992, 26. gr. 2)Rg. 64/1989, sbr. 318/1990.
Hættuleg efni ætluð til nota í landbúnaði og garðyrkju og til útrýmingar meindýra, til þess að varna fúa eða til sótthreinsunar.
15. gr. Hlíta skal um sölu hættulegra efna, sem skráð eru til þessara nota, útlát þeirra og notkun, fyrirmælum er sett verða í reglugerð, sbr. 16. gr.
IV. kafli. Sameiginleg ákvæði.
Ákvæði um skráningu eiturefna og hættulegra efna til sérstakra nota.
16. gr. Eiturefni og hættuleg efni, hrein og blönduð, má því einungis selja eða flytja til landsins og nota sem plöntulyf, örgresisefni, stýriefni eða útrýmingarefni, þar með talin aflífunarefni, fúavarnarefni, sótthreinsiefni, að þau hafi verið skráð sem slík, annaðhvort með samheiti eða með sérheiti framleiðanda. Ákvæði þessi taka einnig til örvera eða hluta lífvera („biological products“) ef þau eru notuð í sama skyni. Ráðherra setur nánari ákvæði um framangreind atriði í reglugerð 1) að fengnum tillögum [eiturefnaeftirlits Hollustuverndar ríkisins]. 2) Skal þar m.a. kveða nánar á um skráningu efnanna, notkun þeirra og bann við notkun þeirra.
1)Rg. 50/1984, sbr. 213/1984, 235/1986 og 461/2001, sbr. einnig rg. 238/1994, og 236/1986. Rg. 137/1987, sbr. 610/1987, 412/1997, 176/1998, 776/1998, 857/1999 og 784/2001. Rg. 176/1998, sbr. 618/2000. 2)L. 1/1992, 26. gr.
Ákvæði um matvæli1) og aðrar neysluvörur og nauðsynjavörur, fóðurvörur og sáðvörur.
1)Ákvæði 17. gr. voru felld úr gildi að því er tekur til matvæla, með l. 93/1995, 32. gr.
17. gr. Eiturefni og hættuleg efni má ekki setja í eða blanda saman við matvæli og aðrar neysluvörur eða fóðurvörur nema það sé sérstaklega heimilað í reglugerð 1) samkvæmt lögum þessum, lögum um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum eða öðrum lögum. Eiturefni og hættuleg efni má ekki setja á sáðvöru nema efnið eða efnasamsetningin hafi verið skráð til slíkrar notkunar, sbr. 16. gr. Ef sáðkorn hefur verið meðhöndlað með slíkum efnum skal það auðkennt með litun.
Nú er talin hætta á að matvæli, aðrar neysluvörur og nauðsynjavörur eða fóðurvörur mengist við framleiðslu eða á annan hátt af tilteknum eiturefnum eða hættulegum efnum og þannig að mönnum og dýrum geti orðið að tjóni. Ráðherra getur þá í reglugerð að fengnum tillögum [eiturefnaeftirlits Hollustuverndar ríkisins] 2) kveðið nánar á um hið mesta magn slíkra efna er vera megi í hverri þyngdar- eða lagareiningu.
1)Rg. 527/1993 (um leirhluti sem er ætlað að snerta matvæli). Rg. 837/2000 (um aðskotaefni í matvælum). 2)L. 1/1992, 26. gr.
[17. gr. A. Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um framleiðslu, innflutning, dreifingu, sölu, notkun, innihald, eftirlit og merkingu fegrunar- og snyrtiefna, hvort sem efnin flokkast sem eiturefni eða hættuleg efni eða ekki.] 1)
1)L. 42/2001, 2. gr.
Nánari reglur um notkun og bann við notkun eiturefna og hættulegra efna.
18. gr. Ráðherra setur að fengnum tillögum [eiturefnaeftirlits Hollustuverndar ríkisins] 1) nánari reglur 2) um notkun og bann við notkun eiturefna og hættulegra efna hvort sem efnin eru notuð hrein, í blöndum eða á annan hátt í samsetningum.
Heimilt er enn fremur að binda sölu og notkun varnings, er hefur tiltekin lífræn leysiefni að geyma, mati á eiturhrifum og notagildi varningsins, sbr. 13. gr.
1)L. 1/1992, 26. gr. 2)Rg. 137/1987, sbr. 610/1987, 412/1997, 176/1998, 776/1998, 857/1999 og 784/2001 (notkun og bann við notkun tiltekinna eiturefna o.fl.). Rg. 196/1987 (takmörkun sölu á kveikjaragasi). Rg. 64/1989, sbr. 318/1990 og augl. 520/1991 (ósoneyðandi efni, bann við innflutningi og sölu úðabrúsa). Rg. 521/1994. Rg. 447/1996 (kadmíum). Rg. 609/1996 (um meðferð umbúða og umbúðaúrgangs), sbr. 682/1999. Rg. 176/1998 (um notkun og bann við notkun tiltekinna efna í málningu og viðarvörn), sbr. 618/2000. Rg. 323/1998 (PCB, PCT o.fl. efni). Rg. 776/1998 (snyrtivörur), sbr. 463/2001. Rg. 815/1998 (tilkynningarskylda varðandi ný efni), sbr. 333/2001. Rg. 857/1999 (um bann við notkun tiltekinna eiturefna og hættulegra efna), sbr. 623/2000. Rg. 946/1999 (um rafhlöður og rafgeyma með tilteknum hættulegum efnum). Rg. 419/2000 (um notkun og bann við notkun tiltekinna efna við meðhöndlun á textílvörum). Rg. 619/2000 (um bann við notkun gróðurhindrandi efna sem í eru kvikasilfurssambönd, arsensambönd og lífræn tinsambönd). Rg. 870/2000 (um takmarkanir á innflutningi, notkun og meðhöndlun asbests). Rg. 464/2001 (um takmörkun á nikkeli í tilteknum vörum). Rg. 784/2001 (um fljótandi eldsneyti).
Nánari reglur um notkun og bann við notkun krabbameinsvaldandi efna og efnasamsetninga.
19. gr. [Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins] 1) skal fylgjast með öllum nýjungum er lúta að rannsóknum á eiturefnum og hættulegum efnum sem ætlað er að gætu valdið krabbameini eða öðrum illkynja breytingum í frumum manna eða dýra. Skal [eftirlitið] 1) að jafnaði gera tillögur um bann við notkun slíkra efna og efnasamsetninga, en að öðrum kosti gera tillögur að reglum um notkun þeirra til þess að koma í veg fyrir mengun fæðu og fóðurs eða umhverfis af völdum þeirra.
[Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins] 1) gerir tillögur að sérstökum lista yfir efni sem talin eru geta valdið krabbameini eða öðrum illkynja frumubreytingum í mönnum og að fyrirmælum um notkun og bann við notkun efnanna er ráðherra staðfestir og gefur út.
Óheimilt er að flytja til landsins eða selja eiturefni eða hættuleg efni sem eru krabbameinsvaldandi í mönnum eða dýrum eða varning sem hefur slík efni að geyma, nema samkvæmt heimild í þessum lögum.
1)L. 1/1992, 26. gr.
Nánari fyrirmæli um ílát o.fl.
20. gr. [Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins] 1) gerir tillögur um gerð íláta og umbúða, merkingu, eiturmerki og varnaðarorð eða varnaðarmerki varðandi flutning, varðveislu, útlát og sölu eiturefna og hættulegra efna. Skulu merkingar þessar, merki og varnaðarorð vera í samræmi við hliðstæðar merkingar, merki og varnaðarorð er tíðkast í nálægum löndum, svo sem kostur er. Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli þessu að lútandi. 2)
Ef óhjákvæmilegt er að leyfa notkun efna eða efnasamsetninga sem eru krabbameinsvaldandi í mönnum eða dýrum eða liggja undir grun um að vera það skal taka sérstakt tillit til þess við gerð varnaðarorða eða varnaðarmerkja og gerð íláta, svo sem kostur er.
1)L. 1/1992, 26. gr. 2)Rg. 236/1990, sbr. 348/1990, 664/1997, 766/1997, 459/1998, 460/1998, 500/1998, 639/1998, 77/1999, 150/1999, 548/1999, 754/1999, 613/2000, 921/2000 og 380/2001; rg. 602/1999, rg. 155/2000.
Flutningur.
21. gr. [Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins] 1) gerir tillögur um búnað og merkingar farartækja á landi, sem flytja eiturefni og hættuleg efni, til viðkomandi ráðuneyta.
Um flutning eiturefna og hættulegra efna með skipum, loftförum, svo og í pósti, fer samkvæmt lögum þeim og reglugerðum er við eiga og í gildi eru hverju sinni.
1)L. 1/1992, 26. gr.
Förgun eiturefna og hættulegra efna. Notuð ílát.
22. gr. Eiturefnum og hættulegum efnum, tómum flöskum og öðrum umbúðum, sem hafa haft slík efni að geyma, skal farga eða hreinsa þannig að mönnum og dýrum stafi ekki hætta af. Að öðrum kosti skal endursenda seljanda eða umboðsmanni hans viðkomandi efni, ílát og umbúðir, luktar og merktar á viðeigandi hátt.
Ráðherra setur að fengnum tillögum [eiturefnaeftirlits Hollustuverndar ríkisins] 1) og [Náttúruverndar ríkisins] 2) reglugerð um förgun eiturefna og hættulegra efna.
1)L. 1/1992, 26. gr. 2)L. 44/1999, 79. gr.
Framkvæmd og eftirlit.
23. gr. [Yfirstjórn mála er varða eiturefni, hættuleg efni og fegrunar- og snyrtiefni er í höndum umhverfisráðherra.] 1)
[Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins] 2) gerir tillögur um framkvæmd laga þessara og hversu eftirliti með eiturefnum og hættulegum efnum skuli nánar háttað, sbr. 2. gr. og næstu málsgrein.
Eftirlit með framkvæmd ákvæða laga þessara annast eftirtaldir aðilar:
a. [Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins.] 2)
b. Vinnueftirlit ríkisins.
c. Lyfjaeftirlit ríkisins.
d. Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga.
e. Lögreglustjórar og embættislæknar, hver á sínum stað.
f. Aðrir er tilnefndir kunna að verða.
Um valdsvið og þvingunarúrræði eftirlitsaðila fer samkvæmt þeim lögum sem þeir starfa eftir.
Kostnað við framkvæmd og eftirlit skal greiða úr ríkissjóði, nema önnur lög mæli öðruvísi.
[Hollustuvernd ríkisins er heimilt að taka gjald fyrir vinnu við og útgáfu starfsleyfa til handa þeim sem starfa við garðaúðun í atvinnuskyni, starfsleyfa til handa meindýraeyðum og leyfisskírteina fyrir notendur varnarefna og eiturefna, viðurkenningu sótthreinsiefna og áritun innflutningsskjala.
Hollustuvernd ríkisins er heimilt að taka gjald fyrir vinnu stofnunarinnar við skráningu, breytingu á skráningu, undanþágu frá skráningu, samhliðaskráningu og endurnýjun á skráningu varnarefna. Í skráningu varnarefna felst m.a. úttekt sérfræðinga á þörf fyrir notkun viðkomandi efna og á áhættu við notkun þeirra.
Þá er Hollustuvernd ríkisins heimilt að krefja umsækjanda, sbr. 6. og 7. mgr., um endurgreiðslu alls kostnaðar sem fellur til vegna sérstakra rannsókna eða úttekta utanaðkomandi sérfræðinga, enda hafi verið haft samráð við umsækjanda um fyrirhugaðar rannsóknir eða úttektir og umsækjanda gefinn kostur á að draga umsókn sína til baka áður en til slíks kostnaðar er stofnað.
Ráðherra getur, að fengnum tillögum Hollustuverndar ríkisins, sett gjaldskrá vegna þeirrar starfsemi sem talin er upp í 6., 7. og 8. mgr. Upphæð gjalds skal taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna. Gjöld má innheimta með fjárnámi.] 1)
Fulltrúar framangreindra stofnana … 2) og embættismanna, svo og aðrir er tilnefndir kunna að verða, eiga rétt á að skoða verslanir, verksmiðjur og vinnustaði þar sem seld eru eða umpökkuð, framleidd, varðveitt eða notuð eiturefni og hættuleg efni eða framleiddur varningur sem hefur að geyma slík efni í því formi og magni að mönnum og dýrum getur stafað hætta af. Þeim er einnig heimilt að rjúfa umbúðir og taka úr þeim sýnishorn til nánari athugunar og rannsóknar. Eigandi sýnishornsins getur krafist kvittunar úr hendi þess er sýnishorn tekur. Á kvittun skal greina magn og tegund sýnishornsins. Handhafi kvittunarinnar á síðar gegn framvísun hennar rétt á endurgreiðslu úr hendi innflytjanda eða framleiðanda.
Aðilar þeir, er um ræðir í 3. mgr., geta krafist þess að framleiðandi eða innflytjandi gefi yfirlýsingu samkvæmt bestu vitund um innihald eiturefna og hættulegra efna í tilteknum varningi svo sem fegrunar- og snyrtiefnum, matvælum og fóðurvöru. Innflytjandi eða framleiðandi getur krafist þess að með hana sé farið sem trúnaðarmál.
1)L. 42/2001, 3. gr. 2)L. 1/1992, 26. gr.
Undanþágur og röðun á lista til bráðabirgða.
24. gr. Ráðherra getur að fenginni umsögn [eiturefnaeftirlits Hollustuverndar ríkisins] 1) heimilað að undanþiggja megi eiturefni og hættuleg efni eða varning, sem hefur slík efni að geyma, að nokkru eða öllu leyti ákvæðum þessara laga. Undanþágur má þó einungis veita svo fremi að fullnægt sé skilyrðum sem sett kunna að verða hverju sinni eða greind eru í reglugerðum sem settar eru samkvæmt heimild í öðrum lögum.
[Eiturefnaeftirliti Hollustuverndar ríkisins er heimilt, ef skjótra aðgerða er þörf, að setja á lista tiltekin efni og efnasamsetningar og kveða á um notkun eða bann við notkun þeirra í allt að því eitt ár.] 1) Skal ráðherra staðfesta ákvörðun þessa með reglugerð innan árs. Að öðrum kosti fellur ákvörðun [eiturefnaeftirlits Hollustuverndar ríkisins] 1) úr gildi.
1)L. 1/1992, 26. gr.
Refsingar.
25. gr. Um mál er kunna að rísa út af brotum á lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim fer að hætti opinberra mála.
26. gr. Fyrir brot gegn lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim skal refsa með sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Nú er brot ítrekað eða stórfellt og getur refsing þá orðið … 1) fangelsi allt að tveimur árum. Tilraun eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum eru refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.
Eiturefni og hættuleg efni, sem inn eru flutt ólöglega eða seld eða framleidd eru ólöglega innan lands, má gera upptæk með dómi og einnig ágóða af slíkri ólöglegri starfsemi. Andvirði hins upptæka rennur í ríkissjóð.
1)L. 82/1998, 192. gr.
V. kafli. Önnur ákvæði.
Samstarfsnefnd.
27. gr. [Ráðherra skipar samstarfsnefnd þeirra aðila sem tilgreindir eru í a–c-liðum 3. mgr. 23. gr.] 1) Aðilar tilnefna hver einn fulltrúa í nefndina. Ráðherra skipar fimmta manninn í nefndina án tilnefningar. Er hann jafnframt formaður nefndarinnar.
Verkefni nefndarinnar er að fjalla um verkaskiptingu milli eftirlitsaðila í takmarkatilfellum og samræmingu aðgerða. Formaður kallar saman fund í nefndinni þegar tilefni er til. Fulltrúar geta krafist að fundir verði haldnir í nefndinni ef tilefni er til að þeirra dómi.
Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um starfssvið og starfsemi nefndarinnar.
1)L. 1/1992, 26. gr.
Ráðgjöf [eiturefnaeftirlits Hollustuverndar ríkisins].1)
1)L. 1/1992, 26. gr.
28. gr. [Eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins] 1) skal eftir nánara samkomulagi veita lyfjanefnd eiturefnafræðilega ráðgjöf ef þörf gerist.
… 1)
1)L. 1/1992, 26. gr.
VI. kafli. Niðurlagsákvæði.
29. gr. Nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara má setja í reglugerð 1) er ráðherra setur að fengnum tillögum [eiturefnaeftirlits Hollustuverndar ríkisins]. 2)
[Þrátt fyrir ákvæði 23. gr. laga þessara er umhverfisráðherra heimilt, að fenginni umsögn eiturefnaeftirlits Hollustuverndar ríkisins og í samráði við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, að setja reglugerð 3) um innflutning, sölu, notkun, örugga meðhöndlun og förgun eiturefna og hættulegra efna sem geta haft skaðleg áhrif á umhverfið.] 4)
1)Rg. 242/1974 (varnir gegn mengun matvæla af völdum blýs o.fl.). Rg. 238/1986 (eftirlit með framkvæmd laganna). Rg. 149/1989 (um meindýraeyða). Rg. 236/1990, sbr. 348/1990, 664/1997, 459/1998, 460/1998, 639/1998, 77/1999, 150/1999, 548/1999, 754/1999, 613/2000, 921/2000 og 380/2001 (um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda sem innihalda slík efni). Rg. 579/1993 (um aukaefni í matvælum), sbr. 767/1997 og 773/1998. Rg. 289/1994 (um leysiefni til notkunar í matvælaiðnaði), sbr. 144/1995, 562/1995 og 493/1998. Rg. 609/1996. Rg. 656/1997 (um varnir gegn mengun af völdum ósoneyðandi efna). Rg. 230/1998 (um efni sem stuðla að gróðurhúsaáhrifum). Rg. 187/1999, sbr. 412/2001 (um halónslökkvikerfi). Rg. 785/1999 (um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun), sbr. 849/2000. Rg. 786/1999 (um mengunarvarnaeftirlit), sbr. 850/2000. Rg. 857/1999 (um bann við notkun tiltekinna eiturefna og hættulegra efna), sbr. 623/2000. Rg. 196/2000 (um takmörkun á framleiðslu, innflutningi og dreifingu leikfanga og hluta sem í eru þalöt). Rg. 784/2001 (um fljótandi eldsneyti). 2)L. 1/1992, 26. gr. 3)Rg. 533/1993, sbr. 384/1997. Rg. 615/1999 (um takmörkun á markaðssetningu lampaolíu, skrautmuna, leikfanga og spaug- eða gabbvarnings með tilteknum efnum). Rg. 946/1999 (um rafhlöður og rafgeyma með tilteknum hættulegum efnum). Rg. 870/2000 (um takmarkanir á innflutningi, notkun og meðhöndlun asbests). Augl. 940/2000 (um gildistöku EES-reglugerða um inn- og útflutning tiltekinna hættulegra efna). 4)L. 51/1993, 1. gr.
Gildistaka.
30. gr. Með lögum þessum, sem taka gildi 1. júlí 1988, falla úr gildi lög …
…
Ákvæði til bráðabirgða. Ákvæði 17. gr. skulu haldast uns sett hafa verið í lög fyllri ákvæði um notkun eiturefna og hættulegra efna í matvæli og mengun matvæla af völdum slíkra efna.
…