Ferill 678. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1094  —  678. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940 (öryggi í siglingum, kjarnakleyf efni o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


1. gr.

    Við 6. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 44/2001, bætast þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
     13.      Fyrir háttsemi sem greinir í samningi um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi í siglingum á sjó frá 10. mars 1988.
     14.      Fyrir háttsemi sem greinir í bókun um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu frá 10. mars 1988.
     15.      Fyrir háttsemi sem greinir í samningi um vörslu kjarnakleyfra efna frá 26. október 1979.


2. gr.

    Við 2. mgr. 165. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 41/1973, bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir ef gripið er inn í stjórn skips eða botnfastra mannvirkja á landgrunninu.

3. gr.

    Við 1. mgr. 168. gr. laganna, sbr. 80. gr. laga nr. 82/1998, bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gildir ef raskað er öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu.

4. gr.

    Á eftir 169. gr. laganna kemur ný grein, 169. gr. a, svohljóðandi:
    Hver sá sem ólöglega tekur við, hefur í vörslum sínum, notar, flytur, breytir, losar eða dreifir kjarnakleyfum efnum og stofnar með því lífi manna, heilsu eða eignum í háska skal sæta fangelsi allt að 6 árum.
    Ef brot skv. 1. mgr. hefur í för með sér almannahættu varðar það fangelsi allt að 16 árum.
    

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu, sem er samið í dómsmálaráðuneytinu, er lagt til að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á almennum hegningarlögum til að unnt verði að fullnægja skuldbindingum samkvæmt þremur alþjóðasamningum, samningi um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi í siglingum á sjó frá 10. mars 1988 (hér á eftir nefndur samningurinn um öryggi í siglingum á sjó), bókun um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu frá 10. mars 1988 (hér á eftir nefnd bókun um öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu) og um vörslu kjarnakleyfra efna frá 3. mars 1980.
    Hryðjuverkaárásin á Bandaríkin 11. september 2001 hefur haft djúpstæð áhrif á ríki heims og hvatt þau til að efla varnir gegn hryðjuverkum. Í kjölfar árásarinnar var öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kallað saman og með ályktun þess nr. 1368 (2001) 12. september 2001 voru hryðjuverkin fordæmd og ríki heims hvött til að vinna saman að því að leita þá uppi sem stóðu þeim að baki og koma lögum yfir þá. Einnig voru ríki heims hvött til að fullgilda þá alþjóðasamninga gegn hryðjuverkum sem þegar höfðu verið gerðir og hrinda ákvæðum þeirra í framkvæmd.
    Íslensk stjórnvöld brugðust skjótt við ályktun öryggisráðsins og hófust þegar handa við að undirbúa fullgildingu þeirra alþjóðasamninga gegn hryðjuverkum sem ekki höfðu verið fullgiltir. Alls voru alþjóðasamningar sem hafa verið gerðir og varða hryðjuverk þrettán talsins, en Ísland hafði fullgilt sjö þeirra. Með þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi 8. mars 2002 var ríkisstjórninni veitt heimild til að fullgilda fyrir Íslands hönd tvo alþjóðasamninga, annars vegar um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar frá 15. desember 1997 og hins vegar um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi frá 9. desember 1999. Samhliða framlagningu þingsályktunartillögunnar lagði dómsmálaráðherra fram frumvarp sem kvað á um nauðsynlegar lagabreytingar vegna fullgildingar samninganna. Í þingsályktunartillögunni var þess getið að stefnt væri að því að fullgilda þá fjóra samninga sem eftir stæðu fyrir vorið 2002.
    Samhliða því að frumvarp þetta er lagt fram mun utanríkisráðherra leggja fram tillögu til þingsályktunar um aðild að þeim fjórum alþjóðasamningum sem eftir standa. Þrír þeirra samninga gáfu tilefni til breytinga á löggjöf og eru það þeir samningar sem frumvarp þetta lýtur að. Fjórði samningurinn um merkingu plastsprengiefna til að unnt sé að bera kennsl á þau frá 1. mars 1991 kallaði ekki á lagabreytingar.
    Samningurinn um öryggi í siglingum á sjó og bókun við hann um öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu, sem voru gerð í Róm, 10 mars 1988, öðluðust gildi 1. mars 1992, 90 dögum eftir að 15 ríki höfðu gerst aðilar að þeim. Hinn 28. febrúar 2002 voru aðilar að samningnum 67 og að bókuninni 60 talsins. Um er að ræða samning sem kveður á um að ákveðin háttsemi sem er til þess fallin að ógna öryggi skipa sé afbrot sem samningríki skuli gera refsivert í löggjöf sinni. Þeirri háttsemi er lýst í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins. Þá eru ákvæði í samningnum um hvernig refsilögsögu ríkja skuli háttað. Samningurinn tekur ekki til herskipa, skipa í ríkiseigu eða ríkisrekstri sem eru notuð sem hjálparskip flotans eða toll- eða löggæsluskip eða skipa sem ekki er lengur siglt eða hefur verið lagt upp.
    Bókunin við samninginn um öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu tekur til sömu atriða og samningurinn, en í bókuninni er miðað við að öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu sé ógnað í stað skipa. Í bókuninni merkir „botnfast mannvirki“ manngerða eyju eða uppsetningu eða byggingu sem er fest við sjávarbotn að staðaldri í því skyni að leita að auðlindum eða nýta þær eða í öðrum efnahagslegum tilgangi.
    Samningurinn um vörslu kjarnakleyfra efna sem gerður var í Vín 26. október 1979 öðlaðist gildi 8. febrúar 1987, þrjátíu dögum eftir að 21 ríki hafði gerst aðili að honum. Hinn 20. mars 2002 voru 75 ríki orðin aðilar að samningnum. Samningurinn hefur tvenns konar markmið. Annars vegar gerir hann tilteknar kröfur um hvernig gæslu kjarnakleyfra efna sem nota skal í friðsamlegum tilgangi skuli háttað á meðan slík efni eru flutt milli landa, og hins vegar mælir hann fyrir um til hvers konar ráðstafana aðildarríki skuli grípa vegna ólögmætra athafna varðandi slík efni á meðan þau eru flutt milli landa eða eru í notkun, geymslu eða flutningi innan lands.
    Ákvæði samningsins um hvernig gæslu kjarnkleyfra efna skuli háttað eiga eingöngu við um flutning efnanna milli landa, en önnur ákvæði samningsins ná einnig til notkunar, geymslu og flutnings slíkra efna innan lands. Aðildarríkjunum er skylt að taka upp í landslög sín ákvæði er lýsa refsiverða þá háttsemi sem getið er í 7. gr. samningsins, en þeirri háttsemi er nánar lýst í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins. Þá hefur samningurinn einnig að geyma ákvæði um refsilögsögu og framsal sakamanna.
    

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Ákvæði beggja samninga innihalda ákveðnar reglur um refsilögsögu. Þær breytingar sem lagðar eru til í þessu ákvæði eru gerðar til að fullnægja áskilnaði 6. gr. samningsins um öryggi í siglingum á sjó, 3. gr. bókunar við þann samning um öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu og 8. og 9. gr. samningsins um vörslu kjarnakleyfra efna. Hér er sami háttur hafður á og tíðkaður hefur verið við fullgildingu annarra alþjóðasamninga þar sem áskilnaður hefur verið um rýmkaða refsilögsögu.
    Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að hinir þrír töluliðir sem bætast við 6. gr. laganna fái númerin 13, 14 og 15. Rétt er að geta þess að fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum sem felur m.a. í sér breytingu á 6. gr. almennra hegningarlaga. Það frumvarp var lagt fyrir Alþingi til að fullnægja samningsskuldbindingum samkvæmt tveimur alþjóðasamningum sem varða hryðjuverk, en þeirra var getið í almennum athugasemdum að framan; samningur um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar frá 15. desember 1997 og samningur um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi frá 9. desember 1999. Þar er gert ráð fyrir að hinir tveir nýju töluliðir fái númerin 13 og 14. Verði það frumvarp fyrr að lögum en þetta frumvarp þarf að breyta númeri töluliða ákvæðisins í samræmi við það og einnig tilvísun ákvæðisins í síðustu breytingarlög.

Um 2. gr.

    Í þessari grein er lögð til breyting á 2. mgr. 165. gr. laganna.
    Í 3. gr. samningsins um öryggi í siglingum á sjó og 2. gr. bókunar um öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu er fjallað um þá háttsemi sem telst vera afbrot samkvæmt samningnum. Uppsetning nefndra ákvæða (hér á eftir nefnd „samningsákvæðin“) er sambærileg og sama háttsemi telst vera afbrot samkvæmt þeim, nema hvað samkvæmt samningnum beinist hún að skipum en samkvæmt bókuninni að botnföstum mannvirkjum landgrunnsins.
    Samkvæmt 1. mgr. samningsákvæðanna að breyttu breytanda telst maður hafa framið afbrot ef hann með ólöglegum hætti og af ásetningi: a) yfirtekur skip/botnfast mannvirki eða stjórn þess með valdi eða hótar því eða þvingar slíkt fram á einhvern annan hátt með hótunum; eða b) beitir mann ofbeldi um borð í skipi/botnföstu mannvirki og slík aðgerð er líkleg til þess að stofna öryggi skipsins/botnfasta mannvirkisins í hættu; eða c) eyðileggur skip/ botnfast mannvirki eða veldur tjóni á því eða skipsfarmi sem má telja líklegt að stofni öryggi skipsins/botnfasta mannvirkisins í hættu; eða d) kemur fyrir eða er valdur að því að komið er fyrir um borð í skipi/botnföstu mannvirki búnaði eða efni sem líklegt er að valdi eyðileggingu eða tjóni á skipinu/botnfasta mannvirkinu eða farmi þess sem stofnar, eða líklegt má telja að stofni, öryggi skipsins/botnfasta mannvirkinu í hættu; eða e) eyðileggur eða veldur alvarlegu tjóni á siglingatækjum eða truflar starfrækslu þeirra á alvarlegan hátt og slík aðgerð er líkleg til þess að stofna öruggri siglingu skipsins í hættu; eða f) kemur upplýsingum á framfæri sem hann veit að eru rangar og stofnar með því öruggri siglingu skipsins í hættu; eða g) særir mann eða banar manni samfara því að fremja eða gera tilraun til þess að fremja eitthvert þeirra afbrota sem er fjallað um í a–f-lið.
    Samkvæmt 2. mgr. samningsákvæðanna telst maður einnig hafa framið afbrot skv. 1. mgr. ef hann gerir tilraun til þess, hvetur til þess eða á hlutdeild í því, jafnframt ef hann hótar að fremja eitthvert þeirra afbrota sem fjallað er um í b-, c- og e-liðum að framan séu líkur á því að hótunin stofni öryggi skipsins/botnfasta mannvirkisins í hættu.
    Ákvæði 168. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, tekur að mestu leyti til þeirrar háttsemi sem um getur í nefndum samningsákvæðum að svo miklu leyti sem hún varðar skip. Sú háttsemi sem lýst er í samningsákvæðunum telst afbrot ef hún hefur á einhvern hátt raskað öryggi þess andlags er þar greinir, sbr. b–f-lið hér að framan. Þá taka ákvæðin í III. kafla almennu hegningarlaganna um tilraun og hlutdeild til þeirrar háttsemi sem lýst er í 2. mgr. samningsákvæðanna. Hótun sem þar er lýst og er til þess fallin að stofna öryggi skips í hættu fellur undir 168. gr. almennu hegningarlaganna. Þó eru nokkur atriði í samningsákvæðunum sem ákvæði hegningarlaga ná ekki til og er ákvæðum frumvarpsins ætlað að bæta úr því.
    Samkvæmt a-lið 1. mgr. 3. gr. samningsins og 2. gr. bókunarinnar, sem sameiginlega er getið hér að framan undir a-lið samningsákvæðanna, telst sá maður hafa framið afbrot sem yfirtekur skip/botnfast mannvirki eða stjórn þess með valdi eða hótar því eða þvingar slíkt fram á einhvern annan hátt með hótunum. Í 165. gr. almennra hegningarlaga er ákvæði sem tekur til slíkrar háttsemi ef hún er viðhöfð í loftfari. Því er hér lagt til að ákvæðinu verði breytt þannig að það sama gildi ef gripið er inn í stjórn skips eða botnfastra mannvirkja á landgrunninu.

Um 3. gr.

    Með þessari grein er lagt til að við 168. gr. laganna bætist nýr málsliður sem geri refsivert að raska öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu.
    Eins og getið er í athugasemdum með 2. gr. frumvarpsins tekur 168. gr. almennra hegningarlaga til þess þegar öryggi skipa er raskað. Þá tekur ákvæðið einnig til þess þegar öryggi járnbrautarvagna, loftfara, bifreiða eða annarra slíkra farar- eða flutningatækja eða umferðaröryggi á alfaraleiðum er raskað. Ákvæðið tekur hins vegar ekki til botnfastra mannvirkja á landgrunninu eins og bókunin um öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu gerir kröfu um. Með þeirri lagabreytingu sem hér er lögð til er ætlað að bæta úr því. Að öðru leyti er vísað til umfjöllunar í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Ákvæði þessu er ætlað að uppfylla samningsskuldbindingu samkvæmt samningnum um vörslu kjarnakleyfra efna. Í 7. gr. samningsins er fjallað um þá háttsemi sem telst vera refsiverð samkvæmt samningnum. Sú háttsemi er ítarlega talin upp í nokkrum stafliðum í 1. mgr. ákvæðisins. Í 2. mgr. er svo kveðið á að aðildarríki skuli gera brotin sem lýst er í 1. mgr. refsiverð með viðeigandi viðurlögum sem miðast við hve alvarleg þau eru.
    Ákvæði almennu hegningarlaganna taka að mestu leyti til þeirrar háttsemi sem getið er í 1. mgr. 7. gr. samningsins, en þó leikur vafi á hvort íslensk lög samræmist í öllu tilliti a-lið ákvæðisins. Þar segir að sá verknaður teljist refsiverður sem framinn er af ásetningi og feli í sér ólögmæta athöfn sem felist í móttöku, yfirráðum yfir, notkun, tilfærslu, breytingu, förgun eða dreifingu kjarnakleyfra efna og valdi eða sé líkleg til að valda dauða manna eða mönnum alvarlegum skaða eða verulegu eignatjóni.
    Með þeirri breytingu sem hér er lögð til á lögunum er vafalaust að samningsskuldbindingu skv. 7. gr. samningsins er fullnægt. Refsing er talin hæfileg fangelsi allt að sex árum ár skv. 1. mgr. ákvæðisins og allt að 16 árum skv. 2. mgr. ef almannahættu er valdið með því. Í því sambandi er höfð hliðsjón af öðrum ákvæðum í XVIII. kafla laganna og horft til þess hversu gríðarlega alvarlegt tjón getur hlotist af broti gegn ákvæðinu. Þess má geta að Norðmenn gerðu breytingu á sínum hegningarlögum þegar þeir fullgiltu samninginn og hefur hér verið höfð hliðsjón af þeirri lagabreytingu.
    „Kjarnakleyft efni“ er skilgreint í 1. gr. samningsins, en það telst vera „plúton, að því undanskildu sem hefur yfir 80% samsætustyrk í plútoni 238; úran 233; úran auðgað í samsætu 235 eða 233; úran sem inniheldur þá blöndu af samsætum, sem kemur fyrir í náttúrunni, aðra en í mynd málmgrýtis eða málmgrýtisleifar; öll efni sem innihalda eitt eða fleiri fyrrnefndra atriða“.
    Þá er þar einnig að finna skilgreiningu á „úrani auðguðu í samsætu 235 eða 233“ en það telst vera „úran sem inniheldur samsætu 235 eða 233 eða báðar í því magni að fjöldahlutfall milli summu þessara samsætna og samsætu 238 er hærra en hlutfallið milli samsætu 235 og samsætu 238 sem kemur fyrir í náttúrunni“.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum,
nr. 19 12. febrúar 1940 (öryggi í siglingum, kjarnakleyf efni o.fl.).

    Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á almennum hegningarlögum til að unnt verði að fullnægja skuldbindingum samkvæmt tveimur alþjóðasamningum, annars vegar um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi í siglingum á sjó, og bókunar við hann um öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu, og hins vegar um vörslu kjarnakleyfra efna.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi beinan kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð verði það að lögum.