Ferill 682. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1098  —  682. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um fullgildingu Stokkhólmssamnings um þrávirk lífræn efni.

(Lögð fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd Stokkhólmssamning um þrávirk lífræn efni sem gerður var 22. maí 2001.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda Stokkhólmssamning um þrávirk lífræn efni sem gerður var 22. maí 2001. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari.
    Samningurinn tekur til takmörkunar á framleiðslu og notkun svonefndra þrávirkra lífrænna efna. Um er að ræða flokk efna sem brotna hægt niður í náttúrunni og geta borist langar leiðir með fartegundum, loft- eða hafstraumum og safnast fyrir í vistkerfum fjarri uppruna sínum. Þessi efni voru flest hver tekin í notkun um eða eftir síðari heimsstyrjöld. Þótt þessi efni hafi lítið verið notuð hér á landi eru þau vel mælanleg í íslensku umhverfi.
    Efnin skiptast í fjóra flokka:
     1.      Plöntuvarnarefni (t.d. aldrín, díeldrín, endrín, klórdan, heptaklór, HCB, mírex og toxafen) sem hætta skal notkun og framleiðslu á, nema í sérstökum undantekningartilvikum.
     2.      Sæfiefni (t.d. DDT) sem gegna m.a. hlutverki í baráttu gegn malaríu.
     3.      Efni notuð í iðnaði (t.d. HCB, PCB og heptaklór).
     4.      Þrávirk lífræn efni sem verða til án ásetnings, t.d. við iðnaðarframleiðslu eða ófullkomna sorpbrennslu (díoxín, fúrön og HCB).
    Samningurinn hefur að markmiði að vernda heilsu manna og umhverfið gegn þrávirkum lífrænum efnum og tekur hann í upphafi til þeirra tólf efna sem almennt er talið mikilvægast að takast á við. Þessi samningur er mikilvægur áfangi í umhverfismálum sökum þess að hér er ráðist að rót vandans og kveðið á um aðgerðir til þess að koma í veg fyrir framleiðslu eða myndun efna sem hættuleg eru umhverfinu og heilsu manna.
    Ísland hefur á alþjóðavettvangi lagt mikla áherslu á aðgerðir til þess að koma í veg fyrir losun þrávirkra lífrænna efna út í umhverfið vegna hættunnar á því að þessi efni safnist upp fjarri uppruna sínum, m.a. á norðlægum slóðum. Ísland átti mikinn þátt í því að farið var út í gerð þessa samnings og lagði fyrst ríkja fram tillögu um það á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó de Janeiró árið 1992. Íslensk stjórnvöld vöktu einnig athygli á málinu við undirbúning alþjóðlegrar aðgerðaáætlunar um varnir gegn mengun hafsins vegna mengunar frá landi sem samþykkt var í Washington 1995 og á síðasta undirbúningsfundi áætlunarinnar, sem ríkisstjórn Íslands bauð til í Reykjavík í mars 1995, komst skriður á málið.
    Samningurinn var samþykktur á ráðstefnu sem haldin var í Stokkhólmi 22. og 23. maí 2001. Hann liggur frammi til undirritunar í eitt ár, frá 23. maí 2001 til 22. maí 2002. Hinn 20. mars 2002 höfðu 119 ríki undirritað samninginn. Flest ríki, þar á meðal Ísland, undirrituðu samninginn á fyrsta degi. Hinn 20. mars höfðu eftirtalin fimm ríki fullgilt samninginn: Fídjieyjar, Holland, Kanada, Lesótó og Samóa. Samningurinn öðlast gildi á nítugasta degi eftir afhendingu fimmtugasta fullgildingarskjalsins, sbr. 26. gr. hans.
    Samningurinn skiptist í formála, 30 greinar og 6 viðauka. Efnin sem samningurinn nær til eru talin upp í viðeigandi viðaukum þannig að unnt er að bæta við efnum án þess að breyta samningnum sjálfum.
    Í 3. gr. er kveðið á um ráðstafanir til að draga úr eða stöðva losun þrávirkra lífrænna efna vegna framleiðslu og notkunar sem eru af ásetningi. Í greininni felst að ríki skuli banna eða stöðva framleiðslu og notkun á þeim níu efnum sem talin eru upp í viðauka A og takmarka framleiðslu og notkun á DDT. Einungis er heimilt að framleiða og nota efnin ef fyrir liggur sérstök undanþága, sem skrá þarf skv. 4. gr., eða viðurkenndur tilgangur eins og gildir um DDT.
    Í 5. gr. er kveðið á um ráðstafanir til þess að draga úr eða stöðva losun efna vegna framleiðslu sem er ekki af ásetningi. Hér er átt við efni sem myndast í iðnaðarframleiðslu eða við ófullkomna sorpbrennslu (díoxín, fúrön og HCB) og eru þessi efni tilgreind í viðauka C. Skulu aðilar semja aðgerðaáætlun sem framkvæma skal sem hluta af framkvæmdaáætlun sem fjallað er um í 7. gr.
    Einnig er kveðið á um ráðstafanir til þess að draga úr eða stöðva losun frá birgðum og úrgangi, sbr. 6. gr., og skal tryggja að birgðir og úrgangur sem innihalda efni í viðaukum A og B séu meðhöndluð með þeim hætti að heilsu manna og umhverfi stafi ekki hætta af.
    Mikilvægur hluti samningsins er 8. gr. sem kveður á um hvernig skuli bæta nýjum efnum við samninginn. Þessi grein gerir það að verkum að samningurinn verður „lifandi“, þ.e. unnt er að bæta við nýjum efnum ef þurfa þykir og skal beita varúðarnálgun við þær ákvarðanir.
    Samningurinn tekur einnig til upplýsingaskipta milli aðildarríkja sem fara um skrifstofu samningsins, sbr. 9. gr., og skyldu aðildarríkja til að upplýsa og fræða almenning, sbr. 10. gr. Þá fjallar hann um rannsóknir, þróun og eftirlit, sbr. 11. gr., og mat á skilvirkni samningsins sem fara skal fram fjórum árum eftir að hann öðlast gildi, sbr. 16. gr.
    Iðnríki skulu veita þróunarríkjunum tæknilega og fjárhagslega aðstoð skv. 12. og 13. gr. samningsins. Er sú aðstoð forsenda þess að árangur náist í því að takast á við þetta vandamál vegna þess að núverandi uppsprettur þessara efna eru að umtalsverðum hluta í þróunarríkjunum. Samkvæmt 14. gr. er Alþjóðlega umhverfissjóðnum falið að hafa milligöngu um fjárhagsaðstoðina.
    Umhverfisráðuneytið hefur staðfest að fullgilding samningsins kalli ekki á lagabreytingar hér á landi. Í eftirfarandi töflu eru taldar upp reglugerðir sem settar hafa verið á grundvelli laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, og taka til þeirra efna sem falla undir samninginn.
    Ákvæði í reglugerðum nr. 857/1999, um bann við notkun tiltekinna eiturefna og hættulegra efna, og nr. 323/1998, um innflutning, notkun og förgun PCB, PCT og umhverfisskaðlegra staðgengilsefna þeirra, taka til þeirra efna sem eru skráð í viðaukum A og B við samninginn. Þessar reglugerðir taka að mestu leyti á ákvæðum 3. gr. samningsins um losun vegna notkunar þeirra efna sem talin eru upp í viðaukum A og B. Samkvæmt viðauka A mætti nota heptaklór og hexaklórbensen, HCB, í atvinnuskyni samkvæmt sérstökum undanþágum að því tilskildu að undanþágan sé skráð skv. 4. gr. Slík notkun er ekki bönnuð sérstaklega hér á landi, en þessi efni eru ekki framleidd hérlendis og ekki er ekki vitað til þess að þau séu flutt inn til landsins eða notuð hér.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




    Erfiðara er að fást við losun þeirra efna sem verða til án þess að um ásetning sé að ræða en markmið 5. gr. er að draga úr eða stöðva losun slíkra efna sem talin eru upp í viðauka C. Í reglugerðum nr. 805/1999, um úrgang, nr. 807/1999, um brennslu spilliefna, og nr. 808/1999, um sorpbrennslustöðvar, er að finna ákvæði sem taka til meðhöndlunar úrgangs og efnanna sem skráð eru í viðauka C við samninginn. Framangreindar reglugerðir taka til 5. gr. samningsins og einnig til 6. gr. hans varðandi meðhöndlun úrgangs. Enn sem komið er er ákvæðum þessara reglugerða um meðhöndlun úrgangs ekki að fullu framfylgt, en hér á landi er að finna bæði opna brennslu og lághitabrennslu úrgangs þótt verulega hafi dregið úr því á síðustu árum. Í 5. gr. samningsins kemur fram að krefjast skuli bestu fáanlegu tækni varðandi þær uppsprettur sem taldar eru upp í öðrum hluta viðauka C og að stuðla skuli að bestu umhverfisvenjum. Slíkt er gert með ákvæðum í starfsleyfum atvinnureksturs sem hefur í för með sér mengun samkvæmt reglugerð nr. 785/1999 ásamt síðari breytingum.
    Samkvæmt 5. gr. þarf enn fremur að semja aðgerðaáætlun vegna efna sem verða til án ásetnings. Hún skal m.a. innihalda:
     a.      Mat á núverandi losun og spá um framtíðarlosun efnanna.
     b.      Mat á skilvirkni laga og stefnumiða við að takmarka losun slíkra efna.
     c.      Hugleiðingar um hvernig skuli draga úr eða uppræta losun efnanna.
     d.      Upplýsingar um hvernig stuðlað skuli að fræðslu og þjálfun.
    Í framkvæmdaáætlun um varnir gegn mengun sjávar frá landi, sem samþykkt var í ríkisstjórn í nóvember 2001, er talið mest aðkallandi að takast á við vandann sem stafar af þrávirkum lífrænum efnum. Þar er að finna lista yfir verkefni sem brýnt er að vinna að ásamt mati á umfangi þeirra og ábyrgðaraðila. Að verulegu leyti er því búið að vinna þá vinnu sem nauðsynleg er skv. 5. og 7. gr. samningsins varðandi aðgerða- og framkvæmdaáætlun þó að útfæra þurfi einstök atriði nánar.
    Til að uppfylla ákvæði samningsins um rannsóknir, þróun og eftirlit er nokkurt verk framundan til þess að öðlast yfirsýn yfir losun og magn díoxína og fúrana í umhverfinu hér á landi. Samhliða gagnaöflun verður að hefja vinnu að því að draga úr losun frá þekktum uppsprettum með markvissari hætti en áður, eins og gert er ráð fyrir í framkvæmdaáætlun um varnir gegn mengun sjávar frá landi.



Fylgiskjal.


STOKKHÓLMSSAMNINGUR
UM ÞRÁVIRK LÍFRÆN EFNI


AÐILAR AÐ SAMNINGI ÞESSUM

VIÐURKENNA að þrávirk lífræn efni eru eitrandi, niðurbrotsþolin, safnast fyrir í lífríkinu og berast með loftstraumum, vatni og fartegundum landa á milli og falla út langt frá upptökum sínum, þar sem þau safnast fyrir í vistkerfum láðs og lagar,


VITA AF áhyggjum af heilsufari, einkum í þróunarlöndum, sem stafa af váhrifum þrávirkra lífrænna efna, einkum á konur og þar af leiðandi á komandi kynslóðir,

HAFA Í HUGA að vistkerfum Norðurslóða og samfélögum frumbyggja þar stafar sérstök hætta af lífmögnun þrávirkra lífrænna efna og að aðskotaefni í hefðbundinni fæðu þeirra er almennt heilbrigðisvandamál,

ERU MEÐVITAÐIR UM þörfina fyrir aðgerðir á heimsvísu gegn þrávirkum lífrænum efnum,

ERU MINNUGIR ákvörðunar stjórnar Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna nr. 19/13 C frá 7. febrúar 1997 um að hefja alþjóðlegar aðgerðir til þess að vernda heilbrigði manna og umhverfið með ráðstöfunum til að draga úr og/eða stöðva útstreymi og losun þrávirkra lífrænna efna,

MINNAST ákvæða um þessi mál í viðeigandi alþjóðasamningum um umhverfismál, einkum ákvæða Rotterdam-samningsins um starfsreglur um fyrirfram upplýst samþykki í tengslum við tiltekin hættuleg efni og varnarefni í alþjóðaviðskiptum og Basel-samningsins um eftirlit með flutningi spilliefna milli landa og förgun þeirra, meðal annars ákvæða svæðisbundinna samninga sem hafa verið þróaðir á grundvelli 11. gr. hans,

MINNAST EINNIG ákvæða um þessi efni í Ríó-yfirlýsingunni um umhverfi og þróun og í Dagskrá 21,

HAFA Í HUGA að varúðarsjónarmið liggja til grundvallar áhyggjum allra aðila og eru felld inn í samning þennan,

VIÐURKENNA að samningur þessi styður aðra alþjóðasamninga á sviði viðskipta og umhverfismála og öfugt,

ÁRÉTTA að samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna og meginreglum þjóðaréttar hafa einstök ríki óskoraðan rétt til þess að nýta eigin auðlindir samkvæmt eigin stefnu í umhverfis- og þróunarmálum en bera jafnframt ábyrgð á því að tryggja að starfsemi, sem fer fram innan lögsögu þeirra eða sem lýtur yfirráðum þeirra, skaði ekki umhverfi annarra ríkja eða svæða handan lögsögumarka,


TAKA MIÐ AF aðstæðum og sérþörfum þróunarlanda, einkum þeirra sem skemmst eru á veg komin og landa sem eru að taka upp nýja búskaparhætti í efnahagslegu tilliti, einkum nauðsyn þess að auka getu þeirra til að hafa stjórn á notkun efna, meðal annars með því að miðla tækniþekkingu, með fjárhagslegri og tæknilegri aðstoð og með því að stuðla að samvinnu milli aðila,


TAKA AÐ FULLU TILLIT TIL aðgerðaáætlunarinnar um sjálfbæra þróun smárra eyríkja sem teljast til þróunarlanda sem var samþykkt 6. maí 1994 á Barbados,

VEITA ATHYGLI getu iðnríkja og þróunarlanda hverra um sig sem og sameiginlegum en aðgreindum skyldum ríkja, eins og þær eru settar fram í 7. meginreglu Ríó-yfirlýsingarinnar um umhverfi og þróun,

VIÐURKENNA mikilvægt framlag sem einkageirinn og frjáls félagasamtök eru fær um til þess að minnka og/eða að stöðva útstreymi og losun þrávirkra lífrænna efna,


LEGGJA ÁHERSLU Á mikilvægi þess að framleiðendur þrávirkra lífrænna efna axli ábyrgð og dragi úr neikvæðum áhrifum framleiðsluvara sinna og láti notendum, stjórnvöldum og almenningi í té upplýsingar um hættulega eiginleika þessara efna,


ERU MEÐVITAÐIR UM þörf þess að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif þrávirkra lífrænna efna á öllum stigum líftíma þeirra,

ÁRÉTTA 16. meginreglu Ríó-yfirlýsingarinnar um umhverfi og þróun, þar sem segir að yfirvöld í einstökum ríkjum skuli leitast við að stuðla að því að tillit sé tekið til umhverfiskostnaðar og að efnahagslegum stjórntækjum sé beitt, að teknu tilliti til þeirrar meginreglu að sá sem mengar skuli bera kostnað af menguninni og með tilhlýðilegu tilliti til almenningshagsmuna og án þess að raska alþjóðlegum viðskiptum og fjárfestingum,

HVETJA aðila, sem ekki hafa komið á fyrirkomulagi til að meta og setja reglur um varnarefni og efni til notkunar í iðnaði, til þess að þróa slíkt fyrirkomulag,

VIÐURKENNA mikilvægi þess að þróa og nota vistvæna valkosti með tilliti til vinnsluaðferða og efna,

ERU STAÐRÁÐNIR Í að vernda heilsu manna og umhverfið fyrir skaðlegum áhrifum þrávirkra lífrænna efna

OG HAFA ORÐIÐ ÁSÁTTIR um eftirfarandi:

1. gr.
Markmið.

    Markmiðið með samningi þessum, með hliðsjón af varúðarnálguninni, eins og hún er sett fram í 15. meginreglu Ríó-yfirlýsingarinnar um umhverfi og þróun, er að vernda heilsu manna og umhverfið gegn þrávirkum lífrænum efnum.

2. gr.
Skilgreiningar.

    Í samningi þessum gilda eftirfarandi skilgreiningar:
a)    „Aðili“ merkir ríki eða svæðisstofnun um efnahagssamvinnu sem hafa samþykkt að vera bundin af samningi þessum og sem samningurinn gildir um;
b)    „Svæðisstofnun um efnahagssamvinnu“ merkir samtök sem fullvalda ríki á tilteknu svæði standa að og fengið hafa framselt vald frá aðildarríkjum sínum að því er varðar þau málefni sem samningur þessi gildir um og sem fengið hafa fullt umboð samkvæmt eigin verklagsreglum til að undirrita, fullgilda, staðfesta, samþykkja eða gerast aðili að samningi þessum;
c)    „aðilar sem eru viðstaddir og greiða atkvæði“ merkir aðila sem eru viðstaddir og greiða atkvæði með eða á móti.

3. gr.
Ráðstafanir til þess að draga úr eða stöðva losun vegna framleiðslu og notkunar sem eru
af ásetningi.

    1. Sérhver aðili skal:
a)    banna og/eða grípa til þeirra réttar- eða stjórnvaldsaðgerða sem þörf er á til þess að stöðva:
    i)        framleiðslu og notkun sína á þeim efnum sem skráð eru í viðauka A, með fyrirvara um ákvæði þess viðauka, og
    ii)    innflutning og útflutning þeirra efna sem skráð eru í viðauka A, samanber ákvæði 2. mgr.; og
b)    takmarka framleiðslu og notkun sína á þeim efnum sem skráð eru í viðauka B, samanber ákvæði þess viðauka.
    2. Sérhver aðili skal gera ráðstafanir til þess að tryggja:
a)    að efni sem skráð er í viðauka A eða B sé aðeins flutt inn:
    i)        í þeim tilgangi að farga því á vistvænan hátt, sbr. d-lið 1. mgr. 6. gr., eða

    ii)    til notkunar eða í tilgangi sem viðkomandi aðila er heimill samkvæmt viðauka A eða B;
b)    að efni, sem skráð er í viðauka A og fellur undir einhverja undanþágu sem gildir um tiltekna framleiðslu eða notkun eða efni sem skráð er í viðauka B og fellur undir einhverja undanþágu sem gildir um tiltekna framleiðslu eða notkun eða viðurkenndan tilgang, skuli, að teknu tilliti til hvers konar ákvæða sem kunna að eiga við í gildandi alþjóðasamningum um fyrirfram upplýst samþykki, einungis flutt út:
    i)        í þeim tilgangi að farga því á vistvænan hátt, sbr. d-lið 1. mgr. 6. gr.,

    ii)    til aðila sem er heimilt að nota viðkomandi efni samkvæmt viðauka A eða viðauka B, eða
    iii)    til ríkis sem ekki er aðili að samningi þessum en hefur veitt útflutningsaðilanum árlega vottun. Í vottorðinu skal tilgreina fyrirhugaða notkun efnisins og setja inn yfirlýsingu þess efnis að innflutningsaðilinn skuldbindi sig til þess, að því er varðar viðkomandi efni:

              a.    að vernda heilsu manna og umhverfið með því að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að lágmarka eða koma í veg fyrir losun,
              b.    að hlíta ákvæðum 1. mgr. 6. gr., og

              c.    að hlíta ákvæðum 2. mgr. II. hluta viðauka B þar sem við á.

             Vottorðinu skulu einnig fylgja hvers kyns viðeigandi fylgiskjöl, til dæmis lög, reglugerðir, stjórnsýsluleiðbeiningar eða stefnumarkandi leiðbeiningar. Útflutningsaðilinn skal framsenda vottorðið til skrifstofunnar innan 60 daga frá móttöku;
c)    að efni, sem skráð er í viðauka A og ekki fellur lengur, að því er varðar neinn aðila, undir undanþágu vegna tiltekinnar framleiðslu eða notkunar, sé ekki flutt þaðan út nema í þeim tilgangi að farga því á vistvænan hátt, sbr. d-lið 1. mgr. 6. gr.;
d)    að því er varðar þessa málsgrein nær hugtakið „ríki sem ekki er aðili að samningi þessum“, með tilliti til tiltekins efnis, yfir ríki eða svæðisstofnun um efnahagssamvinnu sem ekki hefur samþykkt að vera bundin af samningnum að því er varðar viðkomandi efni.
    3. Sérhver aðili, sem hefur komið á fyrirkomulagi af einu eða öðru tagi til þess að meta og setja reglur um ný varnarefni eða ný efni til notkunar í iðnaði, skal gera ráðstafanir til þess að koma á stýringu í því skyni að koma í veg fyrir framleiðslu og notkun nýrra varnarefna eða nýrra efna til notkunar í iðnaði sem, með hliðsjón af viðmiðunum í 1. mgr. viðauka D, sýna einkenni þrávirkra lífrænna efna.
    4. Sérhver aðili, sem hefur komið á fyrirkomulagi af einu eða öðru tagi til þess að meta og setja reglur um ný varnarefni eða ný efni til notkunar í iðnaði, skal, þar sem við á, taka, innan þess fyrirkomulags, tillit til viðmiðananna í 1. mgr. viðauka D þegar varnarefni eða efni til notkunar í iðnaði, sem eru í notkun, eru metin.
    5. Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda ekki um efni í því magni sem er ætlað til notkunar við rannsóknir á rannsóknastofum eða sem viðmiðunarstaðall, nema kveðið sé á um annað í samningi þessum.
    6. Aðili, sem nýtur sérstakrar undanþágu samkvæmt viðauka A eða nýtur sérstakrar undanþágu eða getur borið fyrir sig viðurkenndan tilgang samkvæmt viðauka B, skal gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að hvers konar framleiðsla eða notkun, samkvæmt slíkri undanþágu eða í slíkum tilgangi, sé með þeim hætti að komið sé í veg fyrir eða lágmörkuð séu váhrif á menn og losun út í umhverfið. Við notkun samkvæmt undanþágu eða í viðurkenndum tilgangi, sem felur í sér ásetningslosun út í umhverfið við eðlileg notkunarskilyrði, skal losun haldið í nauðsynlegu lágmarki, að teknu tilliti til hvers kyns viðeigandi staðla og viðmiðunarreglna.

4. gr.
Skrá yfir sérstakar undanþágur.

    1. Hér með er komið á skrá yfir aðila sem njóta sérstakra undanþága samkvæmt viðauka A eða B. Í henni skal ekki getið aðila sem færa sér í nyt ákvæðin í viðauka A eða B sem allir aðilar mega beita. Skrifstofan heldur skrána og skal hún aðgengileg almenningi.

    2. Skráin skal hafa að geyma:
a)    upptalningu tegunda sérstakra undanþága sem er tekin úr viðaukum A og B;
b)    upptalningu aðila sem njóta sérstakrar undanþágu samkvæmt viðauka A eða B; og
c)    upptalningu dagsetninga þegar gildistími hverrar undanþágu er út runninn.
    3. Öllum ríkjum er heimilt, þegar þau gerast aðilar, að skrá sig, með skriflegri tilkynningu til skrifstofunnar, fyrir sérstökum undanþágum af einum eða öðrum toga samkvæmt viðauka A eða B.
    4. Sé hvorki fyrri dagsetning tiltekin í skránni af hálfu aðila né framlenging veitt skv. 7. gr. falla allar skráningar á sérstökum undanþágum úr gildi fimm árum eftir að samningur þessi öðlast gildi með tilliti til tiltekins efnis.

    5. Á fyrsta fundi sínum skal þing aðila ákveða með hvaða hætti ber að endurmeta færslur í skránni.

    6. Áður en færsla í skránni er endurmetin skal viðkomandi aðili skila skýrslu til skrifstofunnar þar sem rök eru færð fyrir áframhaldandi þörf hans fyrir skráningu undanþágunnar. Skrifstofan skal dreifa skýrslunni til allra aðila. Endurmat skráningar skal fara fram á grundvelli allra tiltækra upplýsinga. Að því loknu getur þing aðila sent viðkomandi aðila þau tilmæli sem því þykir við hæfi.

    7. Þingi aðila er heimilt, að fenginni beiðni frá viðkomandi aðila, að ákveða að framlengja gildistíma sérstakrar undanþágu í allt að fimm ár. Þegar ákvörðun er tekin skal þing aðila taka tilhlýðilegt tillit til sérstöðu þróunarlanda og landa sem eru að taka upp nýja búskaparhætti í efnahagslegu tilliti.

    8. Aðila er hvenær sem er heimilt, með skriflegri tilkynningu til skrifstofunnar, að afturkalla færslu í skránni um sérstaka undanþágu. Afturköllunin öðlast gildi þann dag sem er tilgreindur í tilkynningunni.

    9. Þegar enginn aðili er lengur skráður fyrir sérstakri undanþágu af tilteknum toga er óheimilt að setja inn nýjar færslur að því er hana varðar.

5. gr.
Ráðstafanir til þess að draga úr eða stöðva losun vegna framleiðslu sem er ekki af ásetningi.

    Sérhver aðili skal að minnsta kosti gera eftirfarandi ráðstafanir til þess að draga úr heildarlosun af manna völdum á sérhverju því efni, sem tilgreint er í viðauka C, í því skyni að lágmarka áfram losun og stöðva hana endanlega þar sem því verður komið við:
a)    semja eigin aðgerðaáætlun eða, þar sem það á við, aðgerðaáætlun fyrir svæði eða svæðishluta innan tveggja ára frá því að samningur þessi öðlast gildi að því er hann varðar og framkvæma hana síðan sem hluta af framkvæmdaáætlun sinni, sbr. 7. gr., í því skyni að finna, greina og fást við losun efnanna sem eru skráð í viðauka C og að greiða fyrir framkvæmd ákvæða b- til e-liða. Í aðgerðaáætluninni skulu meðal annars vera eftirfarandi atriði:
    i)        mat á núverandi og áætlaðri losun, meðal annars gerð og viðhald skrár um uppsprettur og áætlaða losun frá þeim, með hliðsjón af uppsprettuflokkunum sem tilgreindir eru í viðauka C,
    ii)    mat á skilvirkni laga og stefnumiða viðkomandi aðila sem fjalla um stjórnun slíkrar losunar,
    iii)    áætlanir um að efna þær skuldbindingar sem kveðið er á um í þessari málsgrein, að teknu tilliti til matsins í i- og ii-lið,
    iv)    aðgerðir til þess að stuðla að fræðslu og þjálfun í tengslum við þessar áætlanir og efla vitund almennings um þær,
    v)    endurskoðun, á fimm ára fresti, á áætlunum þessum og árangri af þeim með tilliti til þess að efna skuldbindingarnar, sem um getur í þessari málsgrein, en fjalla ber um þessa endurskoðun í skýrslum sem skilað er skv. 15. gr.,
    vi)    tímasett áætlun um framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar, meðal annars um þær áætlanir og ráðstafanir sem þar eru tilgreindar;
b)    stuðla að því að gerðar verði tiltækar, hagkvæmar og raunhæfar ráðstafanir sem leiða til þess að unnt er með skjótum hætti að ná raunverulegum og markverðum árangri við að draga úr losun eða eyða uppsprettum;
c)    stuðla að þróun og, þar sem viðeigandi þykir, krefjast notkunar staðgengilsefna eða breyttra efna, framleiðsluvara og vinnsluaðferða til þess að koma í veg fyrir myndun og losun efnanna, sem skráð eru í viðauka C, að teknu tilliti til almennra leiðbeininga um forvarnir og ráðstafana til þess að minnka losun sem er að finna í viðauka C og viðmiðunarreglna sem verða samþykktar með ákvörðun sem þing aðila tekur;
d)    stuðla að og, í samræmi við tímaáætlun um framkvæmd aðgerðaáætlunar sinnar, krefjast notkunar á bestu fáanlegu tækni fyrir nýjar uppsprettur innan uppsprettuflokka, sem aðili hefur tilgreint að gefi tilefni til slíkra aðgerða í aðgerðaáætlun sinni, með sérstakri áherslu í upphafi á uppsprettuflokka sem tilgreindir eru í II. hluta viðauka C. Í öllu falli skal krafan um að nota bestu fáanlegu tækni fyrir nýjar uppsprettur í flokkunum, sem taldir eru upp í II. hluta þess viðauka, innleidd í áföngum svo fljótt sem auðið er, en eigi síðar en fjórum árum eftir að samningur þessi öðlast gildi að því er þann aðila varðar. Aðilar skulu stuðla að bestu umhverfisvenjum með tilliti til þeirra flokka sem hafa verið tilgreindir. Þegar viðhafðar eru besta fáanlega tækni og bestu umhverfisvenjur skulu aðilar taka mið af almennum leiðbeiningum um ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir og minnka losun sem settar eru fram í þeim viðauka, auk viðmiðunarreglna um bestu fáanlegu tækni og bestu umhverfisvenjur sem verða samþykktar með ákvörðun sem þing aðila tekur;
e)    stuðla, í samræmi við aðgerðaáætlun sína, að því að viðhafðar séu besta fáanlega tækni og bestu umhverfisvenjur:
    i)        að því er varðar uppsprettur sem þegar eru fyrir hendi, innan þeirra uppsprettuflokka sem eru taldir upp í II. hluta viðauka C og innan uppsprettuflokka á borð við þá sem getið er um í III. hluta þess viðauka, og
    ii)    að því er varðar nýjar uppsprettur, innan uppsprettuflokka á borð við þá sem eru taldir upp í III. hluta viðauka C og aðili hefur ekki fengist við skv. d-lið.
    Þegar viðhafðar eru besta fáanlega tækni og bestu umhverfisvenjur skulu aðilar taka tillit til hinna almennu leiðbeininga í viðauka C um forvarnir og ráðstafanir til þess að minnka losun, auk viðmiðunarreglna um bestu fáanlegu tækni og bestu umhverfisvenjur sem verða samþykktar með ákvörðun sem þing aðila tekur;
f)    Að því er varðar þessa málsgrein og viðauka C gilda eftirfarandi skilgreiningar:
    i)        „besta fáanlega tækni“ merkir skilvirkasta og fullkomnasta stig þróunar starfsemi og aðferða við framkvæmd hennar sem gefur til kynna hve hentug tiltekin tækni er til þess að skapa, í grundvallaratriðum, forsendur fyrir losunartakmörkunum sem eru hugsaðar til þess að koma í veg fyrir og, ef það er óframkvæmanlegt, almennt minnka losun efna, sem eru talin upp í I. hluta viðauka C, og áhrif þeirra á umhverfið í heild. Í þessu sambandi gildir eftirfarandi:
    ii)    „tækni“ felur bæði í sér þá tækni sem er notuð og hvernig viðkomandi mannvirki er hannað, byggt, því haldið við, það starfrækt og tekið úr notkun,
    iii)    fáanleg „tækni“ merkir þær starfsaðferðir sem rekstraraðila eru tiltækar og eru þróaðar að því marki að hægt er að beita þeim í viðkomandi atvinnugrein við skilyrði sem eru hagstæð í efnahagslegu og tæknilegu tilliti, að teknu tilliti til kostnaðar og ávinnings, og

    iv)    „besta“ merkir skilvirkast til að ná fram háu almennu verndarstigi fyrir umhverfið í heild sinni,
    v)    „bestu umhverfisvenjur“ merkir að beitt sé þeirri heppilegustu samsetningu ráðstafana og áætlana á sviði umhverfisstjórnunar sem völ er á,
    vi)    „ný uppspretta“ merkir hvers konar uppsprettur, hafi bygging þeirra eða umtalsverðar breytingar á þeim hafist að minnsta kosti einu ári eftir dagsetningu:
              a.    gildistöku samnings þessa að því er viðkomandi aðila varðar, eða
              b.    gildistöku breytingar á viðauka C að því er viðkomandi aðila varðar þegar viðkomandi uppspretta fellur undir gildissvið ákvæða samnings þessa einungis vegna breytingarinnar;
g)    aðila er heimilt að nota viðmiðunarmörk fyrir losun eða frammistöðustaðla til þess að efna skuldbindingar sínar varðandi bestu fáanlegu tækni samkvæmt þessari málsgrein.

6. gr.
Ráðstafanir til þess að draga úr eða stöðva losun frá birgðum og úrgangi.

    1. Í því skyni að tryggja að birgðir, sem samanstanda af eða innihalda efni sem annaðhvort eru talin upp í viðauka A eða viðauka B, og úrgangur, meðal annars framleiðsluvörur og hlutir þegar þau verða að úrgangi, sem samanstendur af, inniheldur eða er mengaður af efni sem eru talin upp í viðauka A, B eða C, séu meðhöndluð með þeim hætti að heilsu manna eða umhverfinu stafi ekki hætta af skal sérhver aðili:
a)    þróa viðeigandi áætlanir í því skyni að bera kennsl á:
    i)        birgðir sem samanstanda af eða innihalda efni sem eru annaðhvort talin upp í viðauka A eða viðauka B, og
    ii)     framleiðsluvörur og hluti í notkun og úrgang sem samanstanda af, innihalda eða eru menguð af efni sem er talið upp í viðauka A, B eða C;
b)     bera, að því marki sem unnt er, kennsl á birgðir sem samanstanda af eða innihalda efni sem eru annaðhvort talin upp í viðauka A eða viðauka B á grundvelli þeirra áætlana sem getið er um í a-lið;
c)    meðhöndla birgðir, eftir því sem við á, á öruggan, skilvirkan og vistvænan hátt. Birgðir efna, sem eru annaðhvort talin upp í viðauka A eða viðauka B, eftir að ekki er lengur heimilt að nota þau samkvæmt sérstakri undanþágu samkvæmt viðauka A eða samkvæmt sérstakri undanþágu eða í viðurkenndum tilgangi samkvæmt viðauka B, að undanskildum birgðum sem heimilt er að flytja út skv. 2. mgr. 3 gr., teljast úrgangur og skulu meðhöndlaðar skv. d-lið;

d)    gera viðeigandi ráðstafanir sem miða að því að slíkur úrgangur, meðal annars framleiðsluvörur og hlutir þegar þau verða að úrgangi:
    i)        hljóti meðferð, honum sé safnað saman, hann fluttur og geymdur á vistvænan hátt,
    ii)     slíkum úrgangi, meðal annars framleiðsluvörum og hlutum sem verða að úrgangi, sé fargað með þeim hætti að þrávirkum lífrænum efnum, sem hann inniheldur, sé eytt eða þau ummynduð á óafturtækan hátt, þannig að þau hafi ekki lengur einkenni þrávirkra lífrænna efna, eða þeim sé fargað á annan vistvænan hátt þegar eyðing þeirra eða óafturtæk ummyndun er ekki vistvænsti kosturinn eða þegar innihald þrávirka lífræna efnisins í úrganginum er lítið, með hliðsjón af alþjóðlegum reglum, stöðlum, og viðmiðunum, meðal annars þeim sem kunna að verða þróuð skv. 2. mgr., og viðeigandi hnattrænum og svæðisbundnum stjórntækjum sem tengjast meðhöndlun spilliefna,
    iii)    slíkum úrgangi, meðal annars framleiðsluvörum og hlutum sem verða að úrgangi, sé ekki fargað með aðferðum sem geta leitt til endurheimtar, endurvinnslu, endurnýtingar, beinnar endurnotkunar eða annars konar notkunar þrávirkra lífrænna efna, og
    iv)    slíkur úrgangur, meðal annars framleiðsluvörur og hlutir sem verða að úrgangi, sé ekki fluttur landa á milli án þess að hliðsjón sé höfð af gildandi alþjóðareglum, stöðlum og viðmiðunarreglum;
e)    kappkosta að þróa viðeigandi áætlanir til þess að bera kennsl á staði sem eru mengaðir af efnum sem eru talin upp í viðaukum A, B eða C; verði ráðist í úrbætur á slíkum stöðum skal það gert á vistvænan hátt.
    2. Þing aðila skal vinna náið með þar til bærum stofnunum Basel-samningsins um eftirlit með flutningi spilliefna milli landa og förgun þeirra, í því skyni meðal annars:

a)    að ákvarða það stig eyðingar og óafturtækrar ummyndunar sem er nauðsynlegt til þess að tryggja að eiginleikar þrávirkra lífrænna efna, sbr. 1. mgr. viðauka D, komi ekki í ljós;

b)    finna hvaða aðferðir við förgun, sem getið er um hér að framan, teljast vistvænar; og

c)    vinna að því að ákvarða, eftir því sem við á, styrk efnanna, sem skráð eru í viðaukum A, B og C, til þess að skilgreina lágt innihald þrávirkra lífrænna efna sem getið er um í ii-lið d-liðar 1. mgr.

7. gr.
Framkvæmdaáætlanir.

    1. Sérhver aðili skal:
a)    semja og leitast við að hrinda í framkvæmd áætlun um efndir skuldbindinga sinna samkvæmt samningi þessum;
b)    senda framkvæmdaáætlun sína til þings aðila innan tveggja ára frá þeim degi er samningur þessi öðlast gildi að því er hann varðar; og

c)    endurskoða og uppfæra, eftir því sem við á, framkvæmdaáætlun sína reglulega með þeim hætti sem tilgreint verður með ákvörðun sem þing aðila tekur.
    2. Aðilar skulu, þar sem við á, starfa saman með beinum hætti eða á vettvangi hnattrænna eða svæðisbundinna stofnana eða stofnana sem starfa á tilteknum svæðishlutum og hafa samráð við innlenda hagsmunaaðila, meðal annars samtök kvenna og hópa sem láta sig varða heilsu barna, í þeim tilgangi að greiða fyrir þróun, framkvæmd og uppfærslu framkvæmdaáætlana sinna.
    3. Aðilar skulu kappkosta að nýta og, þar sem þess er þörf, finna leiðir til þess að fella innlendar framkvæmdaáætlanir um þrávirk lífræn efni inn í áætlanir sínar um sjálfbæra þróun þar sem það á við.


8. gr.
Skráning efna í viðauka A, B og C.

    1. Aðila er heimilt að leggja fram tillögu til skrifstofunnar um skráningu efnis í viðauka A, B og/eða C. Tillagan skal hafa að geyma þær upplýsingar sem tilgreindar eru í viðauka D. Aðila er heimilt að fá aðstoð við gerð tillögu sinnar frá öðrum aðilum og/eða skrifstofunni.
    2. Skrifstofan skal sannprófa hvort tillagan hafi að geyma þær upplýsingar sem tilgreindar eru í viðauka D. Þegar skrifstofan hefur gengið úr skugga um að tillagan hafi að geyma þær upplýsingar, sem þannig eru tilgreindar, skal hún senda tillöguna áfram til endurmatsnefndar um þrávirk lífræn efni.
    3. Nefndin fer yfir tillöguna og beitir þeim flokkunarviðmiðunum, sem tilgreindar eru í viðauka D, á sveigjanlegan og gagnsæjan hátt og skal hún taka tillit til allra upplýsinga, sem eru veittar, á heildstæðan og hlutlægan hátt.
    4. Ákveði nefndin:
a)    að flokkunarviðmiðunum hafi, að hennar mati, verið fullnægt skal hún, fyrir milligöngu skrifstofunnar, gera tillöguna og mat nefndarinnar aðgengileg öllum aðilum og áheyrnarfulltrúum og bjóða þeim að leggja fram þær upplýsingar sem tilgreindar eru í viðauka E; eða
b)    að flokkunarviðmiðunum hafi ekki, að hennar mati, verið fullnægt skal hún, fyrir milligöngu skrifstofunnar, tilkynna það öllum aðilum og áheyrnarfulltrúum og gera tillöguna og mat nefndarinnar aðgengileg öllum aðilum og skal tillögunni þá vísað frá.
    5. Sérhverjum aðila er heimilt að leggja tillögu, sem nefndin hefur vísað frá skv. 4. mgr., fyrir nefndina að nýju. Heimilt er, við endurflutning tillögu, að geta um hvers konar áhyggjuefni aðila og jafnframt láta fylgja rökstuðning fyrir frekari umfjöllun nefndarinnar. Ef nefndin vísar tillögunni frá að nýju að lokinni þessari málsmeðferð er viðkomandi aðila heimilt að véfengja ákvörðun nefndarinnar og fjallar þá þing aðila um málið á næsta fundi þingsins. Þingi aðila er heimilt, á grundvelli flokkunarviðmiðana í viðauka D og að teknu tilliti til mats nefndarinnar og hvers kyns frekari upplýsinga sem aðili eða áheyrnarfulltrúi veitir, að ákveða að taka tillöguna til áframhaldandi meðferðar.
    6. Ef nefndin hefur ákveðið að flokkunarviðmiðunum hafi verið fullnægt eða ef þing aðila hefur ákveðið að taka skuli tillöguna til áframhaldandi meðferðar skal nefndin fara yfir tillöguna að nýju og taka tillit til hvers kyns frekari viðeigandi upplýsinga, sem kunna að hafa borist, og taka saman drög að áhættulýsingu í samræmi við viðauka E. Fyrir milligöngu skrifstofunnar skal nefndin gera drögin aðgengileg öllum aðilum og áheyrnarfulltrúum, safna saman tæknilegum athugasemdum frá þeim og ganga endanlega frá áhættulýsingunni með hliðsjón af athugasemdunum.
    7. Ef nefndin ákveður, á grundvelli áhættulýsingar sem gerð er samkvæmt viðauka E:
a)    að efnið sé líklegt, vegna flutnings þess um langan veg, til að leiða til verulegra neikvæðra áhrifa á heilsu manna og/eða á umhverfið, sem réttlætir að gripið verði til alþjóðlegra aðgerða, skal tillagan tekin til áframhaldandi málsmeðferðar. Jafnvel þótt vísindaleg fullvissa liggi ekki fyrir skal það ekki koma í veg fyrir að tillagan sé tekin til áframhaldandi málsmeðferðar. Fyrir milligöngu skrifstofunnar skal nefndin bjóða öllum aðilum og áheyrnarfulltrúum að leggja fram upplýsingar sem varða álitamálin sem tilgreind eru í viðauka F. Síðan skal hún taka saman áhættustjórnunarmat sem hefur meðal annars að geyma greiningu á hugsanlegum aðgerðum til að takmarka losun efnisins í samræmi við viðaukann; eða
b)    að tillagan skuli ekki tekin til áframhaldandi málsmeðferðar skal nefndin, fyrir milligöngu skrifstofunnar, gera áhættulýsinguna aðgengilega öllum aðilum og áheyrnarfulltrúum og vísa tillögunni frá.
    8. Að því er varðar tillögu, sem vísað er frá skv. b-lið 7. mgr., er aðila heimilt að fara fram á það við þing aðila að tekið verði til athugunar að fela nefndinni að leita eftir frekari upplýsingum frá þeim aðila, sem tillöguna gerði, sem og öðrum aðilum, en frestur til þess skal ekki vera lengri en eitt ár. Að þeim fresti liðnum og á grundvelli hvers kyns upplýsinga, sem hafa borist, skal nefndin endurmeta tillöguna skv. 6. mgr. og er forgangur þá ákveðinn af þingi aðila. Ef nefndin vísar tillögunni frá að nýju að lokinni þessari málsmeðferð er aðilanum heimilt að véfengja ákvörðun nefndarinnar og fjallar þá þing aðila um málið á næsta fundi þingsins. Þingi aðila er heimilt, á grundvelli áhættulýsingarinnar sem tekin var saman í samræmi við viðauka E og með hliðsjón af mati nefndarinnar og hvers kyns frekari upplýsingum sem hafa borist frá aðila eða áheyrnarfulltrúa, að ákveða að tillagan skuli tekin til áframhaldandi málsmeðferðar. Ákveði þing aðila að tillagan skuli tekin til áframhaldandi málsmeðferðar skal nefndin undirbúa áhættustjórnunarmatið.
    9. Á grundvelli áhættulýsingarinnar, sem getið er um í 6. mgr., og áhættustjórnunarmatsins, sem getið er um í a-lið 7. mgr. eða 8. mgr., skal nefndin gera tillögu um hvort þing aðila skuli fjalla um efnið með það fyrir augum að skrá það í viðauka A, B og/eða C. Að teknu viðeigandi tilliti til tillagna nefndarinnar, meðal annars hvers kyns efasemda af vísindalegum toga, ákveður þing aðila, með allri varúð, hvort efnið skuli skráð í viðauka A, B og/eða C og viðeigandi aðgerðir tilgreindar til að takmarka losun þess.


9. gr.
Upplýsingaskipti.

    1. Sérhver aðili skal greiða fyrir upplýsingaskiptum eða takast á hendur upplýsingaskipti varðandi:
a)    minnkun eða stöðvun framleiðslu, notkunar og losunar þrávirkra lífrænna efna; og

b)    aðra valkosti í stað þrávirkra lífrænna efna, meðal annars upplýsingar um áhættu þeim samfara og efnahagslegar og félagslegar afleiðingar af notkun þeirra.
    2. Aðilar skulu skiptast á upplýsingunum, sem getið er um í 1. mgr., annaðhvort með beinum hætti eða fyrir milligöngu skrifstofunnar.
    3. Sérhver aðili skal tilgreina landsmiðstöð sem annast slík upplýsingaskipti.
    4. Skrifstofan gegnir hlutverki dreifingarmiðstöðvar fyrir upplýsingar um þrávirk lífræn efni, meðal annars upplýsingar sem aðilar að samningi þessum veita, fjölþjóðlegar stofnanir og frjáls félagasamtök.
    5. Í skilningi samnings þessa skoðast upplýsingar um heilsu og öryggi manna og um umhverfið ekki sem trúnaðarmál. Aðilar sem skiptast á öðrum upplýsingum samkvæmt samningi þessum skulu vernda hvers kyns trúnaðarupplýsingar samkvæmt gagnkvæmu samkomulagi.

10. gr.
Upplýsingar til almennings, vitund almennings
og fræðsla.

    1. Sérhver aðili skal, eftir mætti, stuðla að og greiða fyrir:
a)    vitund um þrávirk lífræn efni meðal þeirra sem koma að stefnumörkun og ákvörðunartöku;
b)    aðgengi almennings að öllum tiltækum upplýsingum um þrávirk lífræn efni, að teknu tilliti til ákvæða 5. mgr. 9. gr.;
c)    gerð og framkvæmd áætlana um fræðslu og aukna vitund almennings um þrávirk lífræn efni, áhrif þeirra á heilsu og umhverfið og valkosti í stað þeirra og skal áætlunum þessum ekki síst beint að konum, börnum og þeim sem minnsta menntun hafa;
d)    þátttöku almennings í þeirri viðleitni að fást við þrávirk lífræn efni og áhrif þeirra á heilsu og umhverfið og að skipuleggja viðeigandi viðbrögð, meðal annars tækifæri almennings til þess að hafa áhrif innanlands á framkvæmd samnings þessa;
e)    þjálfun verkafólks, vísindamanna, leiðbeinenda, tæknimanna og stjórnenda;
f)    gerð fræðsluefnis og skiptum á því og efnis sem er ætlað að efla vitund almennings innan lands og á alþjóðavísu; og
g)    skipulagningu og framkvæmd fræðslu- og þjálfunaráætlana á lands- og alþjóðavísu.

    2. Sérhver aðili skal, eftir mætti, tryggja að almenningur hafi aðgang að þeim almennu upplýsingum sem getið er um í 1. mgr. og að upplýsingarnar séu uppfærðar reglulega.
    3. Sérhver aðili skal, eftir mætti, hvetja notendur þrávirkra lífrænna efna í iðnaði og í atvinnuskyni til þess að stuðla að og greiða fyrir því að látnar séu í té þær upplýsingar, sem getið er um í 1. mgr., í löndum þeirra og, þar sem við á, innan svæða eða svæðishluta og á heimsvísu.
    4. Aðilar geta, þegar þeir láta í té upplýsingar um þrávirk lífræn efni og valkosti í stað þeirra, notað öryggisupplýsingablöð, skýrslur, fjölmiðla og aðrar miðlunarleiðir og geta einnig komið á fót upplýsingamiðstöðvum á lands- eða svæðisvísu.
    5. Sérhver aðili skal taka til jákvæðrar athugunar að þróa úrræði, til dæmis skrár yfir losun og flutning mengunarefna, í því skyni að safna og miðla upplýsingum um áætlað árlegt magn þeirra efna, sem eru talin upp í viðaukum A, B eða C, sem er losað eða fargað.

11. gr.
Rannsóknir, þróun og eftirlit.

    1. Sérhver aðili skal, eftir mætti, á landsvísu og alþjóðavísu, hvetja til og/eða ráðast í rannsóknir, þróunarvinnu, eftirlit og samvinnu varðandi þrávirk lífræn efni og, þar sem það á við, aðra valkosti í stað þeirra og efni sem kunna að vera þrávirk lífræn efni, meðal annars að því er varðar:

a)    uppsprettur þeirra og losun út í umhverfið;
b)    tilvist þeirra, magn og þróun í líkama manna og í umhverfinu;
c)    flutning þeirra í umhverfinu, afdrif og ummyndun;
d)    áhrif þeirra á heilsu manna og umhverfið;
e)    félagsleg, efnahagsleg og menningarleg áhrif þeirra;
f)    minnkun á losun þeirra og/eða eyðingu þeirra; og
g)    samræmda aðferðarfræði við að taka saman skrár um uppsprettur þar sem þrávirk lífræn efni verða til og greiningartækni til nota við mælingu losunar.
    2. Þegar gripið er til aðgerða skv. 1. mgr. skulu aðilar, eftir mætti:
a)    styðja og þróa frekar, eftir því sem við á, alþjóðlegar áætlanir, samstarfsnet og stofnanir sem miða að því að skilgreina, stjórna, meta og fjármagna rannsóknir, gagnasöfnun og eftirlit, að teknu tilliti til nauðsynjar þess að halda tvíverknaði í lágmarki;
b)    styðja innlenda og alþjóðlega viðleitni til þess að auka vísindalega og tæknilega rannsóknargetu í einstökum löndum, einkum hjá þróunarlöndum og löndum sem eru að taka upp nýja búskaparhætti í efnahagslegu tilliti, og stuðla að aðgengi að og skiptum á gögnum og greiningu;
c)    taka tillit til málefna og þarfa, einkum sem lúta að fjárhagslegum og tæknilegum úrræðum, sem varða þróunarlönd og lönd sem eru að taka upp nýja búskaparhætti í efnahagslegu tilliti og vinna saman að því að bæta getu þeirra til þess að taka þátt í aðgerðunum sem getið er um í a- og b-lið;
d)    ráðast í rannsóknarvinnu sem miðar að því að draga úr áhrifum þrávirkra lífrænna efna á æxlunarheilsu;
e)    gera niðurstöður rannsókna, þróunarstarfs og eftirlits, sem getið er um í þessari málsgrein, aðgengilegar almenningi í tíma og með reglubundnum hætti; og
f)    hvetja til og/eða ráðast í samstarf um varðveislu og viðhald upplýsinga sem verða til við rannsóknir, þróun og eftirlit.


12. gr.
Tæknileg aðstoð.

    1. Aðilar gera sér ljóst að viðeigandi tæknileg aðstoð, sem veitt er tímanlega þegar beiðni berst frá aðilum sem eru þróunarríki eða sem eru að taka upp nýja búskaparhætti í efnahagslegu tilliti, er nauðsynleg ef framkvæmd samnings þessa á að skila árangri.
    2. Aðilar skulu vinna saman að því að veita tímanlega og viðeigandi tæknilega aðstoð til aðila, sem eru þróunarríki og aðila sem eru að taka upp nýja búskaparhætti í efnahagslegu tilliti, í því skyni að hjálpa þeim, með hliðsjón af þörfum hvers og eins, við að þróa og styrkja getu sína til þess að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum.
    3. Í þessu sambandi skal tæknileg aðstoð, sem aðilar, sem eru iðnríki, og aðrir aðilar munu veita eftir mætti, fela í sér, eftir því sem við á og gagnkvæmt samkomulag næst um, tæknilega aðstoð sem stuðlar að aukinni færni til að efna skuldbindingar samkvæmt samningi þessum. Þing aðila skal veita frekari leiðsögn um þessi atriði.

    4. Aðilar skulu, eftir því sem við á, gera ráðstafanir til þess að veita tæknilega aðstoð og stuðla að miðlun tækniþekkingar til aðila sem eru þróunarlönd og aðila, sem eru að taka upp nýja búskaparhætti í efnahagslegu tilliti, varðandi framkvæmd samnings þessa. Slíkar ráðstafanir skulu meðal annars felast í svæðisbundnum miðstöðvum og miðstöðvum, sem eru bundnar við svæðishluta, sem er ætlað að auka færni og miðla þekkingu í því skyni að aðstoða aðila sem eru þróunarlönd og aðila, sem eru að taka upp nýja búskaparhætti í efnahagslegu tilliti, til þess að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum. Þing aðila skal veita frekari leiðsögn um þessi atriði.
    5. Aðilar skulu, með skírskotun til þessa ákvæðis og í aðgerðum sínum með tilliti til tæknilegrar aðstoðar, taka fullt tillit til sérþarfa hinna minnst þróuðu landa og vanþróaðra smárra eyríkja.


13. gr.
Fjármagn og skipulag.

    1. Sérhver aðili skuldbindur sig, eftir mætti, til að veita fjárhagslegan stuðning og ívilnanir með tilliti til þeirrar starfsemi innan lands, sem er ætlað að stuðla að því að markmiðum samnings þessa verði náð, í samræmi við fyrirætlanir innan lands, forgangsröðun og áætlanir.
    2. Aðilar, sem eru iðnríki, skulu leggja fram nýtt og aukið fjármagn til að gera aðilum sem eru þróunarlönd og aðilum, sem eru að taka upp nýja búskaparhætti í efnahagslegu tilliti, kleift að rísa undir öllum samningsbundnum viðbótarkostnaði af aðgerðum, sem ráðist er í til þess að efna skuldbindingar samkvæmt samningi þessum, eftir samkomulagi milli viðtökuaðila og aðila að því kerfi sem er lýst í 6. mgr. Aðrir aðilar geta einnig lagt fram slíkt fjármagn að eigin frumkvæði og eftir mætti. Hvetja ber einnig til framlaga frá öðrum gjöfurum. Þegar skuldbindingar þessar eru efndar skal taka mið af nauðsyn þess að fjármagn sé nægilegt og greiðslur fyrirsjáanlegar og tímanlegar, svo og af mikilvægi þess að aðilar sem fjármagnið veita skipti með sér byrðinni.

    3. Aðilum, sem eru iðnríki, sem og öðrum aðilum er einnig heimilt, eftir mætti og í samræmi við fyrirætlanir, forgangsröðun og áætlanir innan lands, að veita, og aðilum sem eru þróunarlönd og aðilum, sem eru að taka upp nýja búskaparhætti í efnahagslegu tilliti, er heimilt að færa sér í nyt, fjármagn til þess að stuðla að því að hrinda samningi þessum í framkvæmd, eftir öðrum tvíhliða, svæðisbundnum og fjölþjóðlegum leiðum.
    4. Árangur aðila, sem eru þróunarlönd, af því að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum er undir því kominn að aðilar, sem eru iðnríki, efni skuldbindingar sínar með skilvirkum hætti samkvæmt samningi þessum að því er varðar fjármagn, tæknilega aðstoð og miðlun tækni. Fullt tillit verður tekið til þess að sjálfbær efnahagsleg og félagsleg þróun og útrýming fátæktar eru fyrstu og brýnustu forgangsverkefni þeirra aðila að samningi þessum sem eru þróunarlönd, um leið og eðlilegt tillit er tekið til nauðsynjar þess að vernda heilsu manna og umhverfið.
    5. Aðilar skulu taka fullt tillit til sérþarfa og sérstöðu hinna minnst þróuðu landa og vanþróaðra smárra eyríkja í fjármögnunaraðgerðum sínum.

    6. Hér með er komið á kerfi sem er ætlað að útvega nægjanlegt fjármagn til aðila sem eru þróunarlönd og aðila, sem eru að taka upp nýja búskaparhætti í efnahagslegu tilliti, í formi styrkja eða ívilnana í því skyni að aðstoða þá við framkvæmd samnings þessa. Rekstur kerfisins skal lúta stjórn og leiðsögn þings aðila, eftir því sem við á, og er endanleg ábyrgð á honum þess að því er varðar samning þennan. Rekstur kerfisins skal falinn einni eða fleiri stofnunum, meðal annars starfandi alþjóðlegum stofnunum, eftir ákvörðun þings aðila. Innan kerfis þessa geta og starfað aðrar stofnanir sem veita fjárhags- og tækniaðstoð sem er fjölþjóðleg, svæðisbundin og tvíhliða. Framlög til kerfisins skulu koma til viðbótar öðru fjármagni til aðila sem eru þróunarlönd og aðila, sem eru að taka upp nýja búskaparhætti í efnahagslegu tilliti, eins og kemur fram í og er í samræmi við 2. mgr.
    7. Í samræmi við markmið samnings þessa og 6. mgr. skal þing aðila samþykkja, á fyrsta fundi sínum, viðeigandi leiðsögn sem skal láta kerfinu í té og komast að samkomulagi við þá stofnun eða þær stofnanir, sem þátt taka í fjármögnunarkerfinu, um aðferðir til þess að hrinda því í framkvæmd. Aðstoð í formi leiðsagnar skal meðal annars ná til:
a)    mótunar stefnu, langtímaáætlunar og forgangsröðunar, sem og nákvæmra og gagnsærra viðmiðana og leiðbeininga um skilyrði fyrir aðgangi að fjármagni og nýtingu þess, meðal annars eftirlits með slíkri nýtingu og reglulegs mats á henni;

b)    reglulegrar skýrslugjafar af hálfu stofnunarinnar eða stofnananna til þings aðila um það hvort fjármögnun starfsemi, sem varðar framkvæmd samnings þessa, sé fullnægjandi og sjálfbær;

c)    stuðnings við aðferðir, kerfi og fyrirkomulag á sviði fjörmögnunar þar sem um marga gjafara er að ræða;
d)    þess hvernig skuli ákvarða, með fyrirsjáanlegum og skýrum hætti, upphæð þess fjármagns sem er nauðsynlegt og tiltækt verður til að hrinda samningi þessum í framkvæmd, með hliðsjón af því að áform um að hætta notkun þrávirkra lífrænna efna í áföngum kunna að kalla á fjárstuðning til langs tíma, og skilyrði fyrir reglulegri endurskoðun þessarar upphæðar; og
e)    þess hvernig skuli aðstoða aðila, sem eiga hagsmuna að gæta, varðandi þarfamat, upplýsingar um tiltækt fjármagn og fjárveitingarmynstur, til þess að auðvelda samræmingu þeirra á milli.

    8. Þing aðila skal, eigi síðar en á öðrum fundi sínum og reglulega eftir það, endurmeta skilvirkni kerfisins, sem var komið á fót samkvæmt þessari grein, getu þess til að sinna breytilegum þörfum aðila sem eru þróunarlönd og aðila, sem eru að taka upp nýja búskaparhætti í efnahagslegu tilliti, viðmiðanirnar og leiðbeiningarnar sem getið er um í 7. mgr., fjármögnunarstig og hve skilvirk frammistaða þeirra stofnana er sem var falið að starfrækja fjármögnunarkerfið. Þingið skal, á grundvelli slíkrar endurskoðunar, gera viðeigandi ráðstafanir til þess að auka skilvirkni kerfisins, ef þurfa þykir, til dæmis með tilmælum og leiðbeiningum um ráðstafanir til þess að tryggja viðunandi og sjálfbæra fjármögnun til að unnt sé að mæta þörfum aðila.

14. gr.
Fjárhagsráðstafanir til bráðabrigða.

    Stofnanagerð Alþjóðlega umhverfissjóðsins, sem er starfræktur í samræmi við gerning um stofnun hins endurskipulagða Alþjóðlega umhverfissjóðs, skal til bráðabirgða vera sá aðili sem að meginhluta er falin starfræksla fjármögnunarkerfisins, sem getið er um í 13. gr., frá gildistöku samnings þessa til fyrsta fundar þings aðila eða til þess tíma þegar þing aðila ákveður hvaða stofnanagerð skuli gilda skv. 13. gr. Stofnanagerð Alþjóðlega umhverfissjóðsins ætti að gegna þessu hlutverki með rekstrarfyrirkomulagi sem tengist þrávirkum lífrænum efnum sérstaklega, að teknu tilliti til þess að nauðsynlegt kann að vera að gera nýjar ráðstafanir varðandi þennan málaflokk.




15. gr.
Skýrslugjöf.

    1. Sérhver aðili skal skila skýrslu til þings aðila um ráðstafanir sem hann hefur gert til þess að uppfylla ákvæði samnings þessa og um skilvirkni slíkra ráðstafana í þeirri viðleitni að markmið hans nái fram að ganga.
    2. Sérhver aðili skal láta skrifstofunni í té:
a)    tölfræðilegar upplýsingar um heildarframleiðslu sína, innflutning og útflutning á hverju því efni, sem er talið upp í viðaukum A og B, eða réttmætt mat slíkra gagna; og
b)    að því marki sem raunhæft getur talist, skrá yfir þau ríki sem hann hefur flutt hvert slíkt efni inn frá og skrá yfir þau ríki sem hann hefur flutt hvert slíkt efni út til.
    3. Þessum skýrslum skal skilað reglulega og á því formi sem þing aðila ákveður á fyrsta fundi sínum.


16. gr.
Mat á skilvirkni.

    1. Fjórum árum eftir gildistöku samningsins, og reglulega þar á eftir samkvæmt nánari ákvörðun þings aðila, skal þingið leggja mat á skilvirkni samnings þessa.

    2. Í því augnamiði að auðvelda slíkt mat skal þing aðila, á fyrsta fundi sínum, hefjast handa um að ákveða aðferðir til þess að afla sér samanburðarhæfra gagna um eftirlit með tilvist efnanna, sem eru skráð í viðaukum A, B og C, svo og um flutning þeirra í umhverfi innan svæða og á heimsvísu. Um þær aðferðir, sem eru valdar, gildir eftirfarandi:
a)    aðilar skulu beita þeim innan svæða, þegar við á, í samræmi við tæknilega og fjárhagslega getu sína, styðjast við gildandi áætlanir um og aðferðir við eftirlit að því leyti sem unnt er og stuðla að samræmingu aðferða;

b)    heimilt er að auka við þær ef nauðsyn krefur, að teknu tilliti til mismunandi aðstæðna milli svæða og getu þeirra til þess að framkvæma eftirlit; og

c)    í þeim skal felast skýrslugerð til þings aðila um niðurstöður eftirlits innan svæða og á heimsvísu sem skal framkvæmd eins oft og þing aðila tilgreinir.
    3. Matið, sem er lýst í 1. mgr., skal framkvæmt á grundvelli tiltækra vísinda-, umhverfis-, tækni- og fjárhagslegra upplýsinga, meðal annars:

a)    skýrslna og annarra eftirlitsupplýsinga sem eru látnar í té skv. 2. mgr.;
b)    innlendra skýrslna sem er skilað skv 15. gr.; og

c)    upplýsinga um vanefndir sem berast samkvæmt þeirri málsmeðferð sem er komið á skv. 17. gr.

17. gr.
Vanefndir.

    Þing aðila skal, svo fljótt sem auðið er, móta og samþykkja starfsreglur og verklagsreglur stofnana til þess að ákvarða hvað skuli teljast til vanefnda á ákvæðum samnings þessa og hvaða meðferð aðilar, sem uppvísir verða að vanefndum, skuli hljóta.


18. gr.
Lausn deilumála.

    1. Aðilar að samningi þessum skulu leysa öll deilumál, sem kunna að rísa milli þeirra um túlkun eða beitingu samningsins, með samningaviðræðum eða öðrum friðsamlegum hætti að eigin vali.
    2. Aðili að samningi þessum, sem ekki er svæðisstofnun um efnahagssamvinnu, getur, þegar hann fullgildir, staðfestir eða samþykkir samninginn eða gerist aðili að honum, eða hvenær sem er síðar, sent vörsluaðila skriflega yfirlýsingu um að rísi deila vegna túlkunar eða beitingar samningsins skuldbindi sá aðili sig til að hlíta annarri eða báðum eftirfarandi leiða til lausnar deilunni, svo fremi að annar deiluaðili geri það einnig:

a)    deilunni verði vísað til gerðardóms samkvæmt starfsreglum sem þing aðila setur í viðauka svo fljótt sem auðið er;
b)    deilunni verði vísað til Alþjóðadómstólsins.

    3. Aðili að samningi þessum, sem er svæðisstofnun um efnahagssamvinnu, getur gefið yfirlýsingu, sem hefur svipuð áhrif að því er varðar gerðardómsmeðferð, í samræmi við það fyrirkomulag sem getið er um í a-lið 2. mgr.
    4. Yfirlýsing, sem er gefin skv. 2. eða 3. mgr., gildir þar til hún rennur út samkvæmt eigin ákvæðum eða þar til þrír mánuðir eru liðnir frá því að skrifleg yfirlýsing um afturköllun hennar berst vörsluaðila.
    5. Gildislok yfirlýsingar, tilkynning um afturköllun eða ný yfirlýsing hefur engin áhrif á mál sem bíða úrlausnar fyrir gerðardómi eða Alþjóðadómstólnum, nema deiluaðilar séu sammála um annað.

    6. Hafi deiluaðilar ekki fallist á sömu leið eða hafi þeir fallist á hvoruga þá leið, sem getið er um í 2. mgr., og hafi þeir ekki getað leyst deilu sína innan 12 mánaða frá því að einn aðili tilkynnti öðrum að deila væri risin milli þeirra, skal deilan, að ósk hvaða deiluaðila sem er, lögð fyrir sáttanefnd. Sáttanefnd skal skila skýrslu með tilmælum. Frekari starfsreglur um sáttanefndina skal setja í viðauka sem verður samþykktur á þingi aðila eigi síðar en á öðrum fundi þess.



19. gr.
Þing aðila.

    1. Þing aðila er hér með stofnað.

    2. Framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna boðar til fyrsta fundar þings aðila eigi síðar en einu ári eftir gildistöku samnings þessa. Eftir það skulu almennir fundir þings aðila haldnir með reglubundnum hætti eftir ákvörðun þingsins.


    3. Aukafundir þings aðila skulu haldnir eftir því sem þingið kann að telja nauðsynlegt eða að fenginni skriflegri beiðni frá einhverjum aðila, enda hljóti beiðnin stuðning að minnsta kosti eins þriðja hluta aðila.
    4. Þing aðila skal, með almennu samkomulagi á fyrsta fundi sínum, ákveða og samþykkja starfsreglur fyrir þingið og hverja þá undirstofnun sem þingið kann að koma á fót, svo og fjárhagsleg ákvæði varðandi rekstur skrifstofunnar.
    5. Þing aðila skal kanna og endurmeta reglulega framkvæmd samnings þessa. Þingið skal inna af hendi þau störf sem því eru falin samkvæmt samningi þessum og skal í þeim tilgangi:

a)    koma á fót, til viðbótar við það sem er krafist skv. 6. mgr., þeim undirstofnunum sem þingið telur nauðsynlegar til að hrinda samningnum í framkvæmd;
b)    starfa, þar sem það á við, með þar til bærum alþjóðastofnunum, milliríkjastofnunum og frjálsum félagasamtökum;
c)    endurmeta reglulega allar upplýsingar, sem aðilum eru tiltækar skv. 15. gr., meðal annars umfjöllun um skilvirkni iii-liðar b-liðar 2. mgr. 3. gr.; og
d)    fjalla um og grípa til hverra þeirra viðbótaraðgerða sem kunna að vera nauðsynlegar til að ná markmiðum samnings þessa.
    6. Á fyrsta fundi sínum skal þing aðila koma á fót undirstofnun, sem ber heitið „Endurmatsnefnd um þrávirk lífræn efni“, í þeim tilgangi að vinna þau störf sem nefndinni eru falin með samningi þessum. Í þessu sambandi gildir eftirfarandi:
a)    þing aðila skal tilnefna nefndarmenn í Endurmatsnefnd um þrávirk lífræn efni. Nefndarmenn skulu tilnefndir af stjórnvöldum og vera sérfræðingar á sviði mats efna eða umsjónar með efnum. Nefndarmenn skulu skipaðir á grundvelli sanngjarnrar landafræðilegrar dreifingar;


b)    þing aðila tekur ákvörðun um verksvið, skipulag og starfsemi nefndarinnar; og

c)    nefndin skal leita allra leiða til þess að ná almennu samkomulagi um tilmæli sín. Hafi allar tilraunir til að ná almennu samkomulagi reynst árangurslausar og samkomulag ekki tekist skulu slík tilmæli, sem síðasta úrræði, samþykkt með atkvæðum tveggja þriðju hluta þeirra nefndarmanna sem eru viðstaddir og greiða atkvæði.
    7. Á þriðja fundi sínum skal þing aðila meta hvort áfram er þörf þeirrar málsmeðferðar sem er lýst í b-lið 2. mgr 3. gr. og fjalla meðal annars um skilvirkni hennar.
    8. Sameinuðu þjóðunum, sérstofnunum þeirra og Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni, sem og hverju því ríki sem ekki er aðili að samningi þessum, er heimilt að eiga áheyrnarfulltrúa á þingi aðila. Sérhverri annarri nefnd eða stofnun, hvort sem hún er innlend eða alþjóðleg, á vegum ríkis eða frjálsra félagasamtaka, sem er fullhæf á þeim sviðum sem samningur þessi fjallar um og hefur tilkynnt skrifstofunni um þá ósk sína að eiga áheyrnarfulltrúa á fundi þings aðila, er heimilt að veita aðgang, nema að minnsta kosti einn þriðji hluti viðstaddra aðila sé því mótfallinn. Aðgangur og þátttaka áheyrnarfulltrúa skal vera samkvæmt þeim starfsreglum sem þing aðila hefur samþykkt.

20. gr.
Skrifstofa.

    1. Skrifstofa er hér með sett á stofn.
    2. Hlutverk skrifstofunnar skal vera:
a)    að undirbúa fundi þings aðila og undirstofnana þess og veita þeim þjónustu eftir þörfum;

b)    að auðvelda aðstoð við aðila, einkum þróunarlönd og aðila, sem eru að taka upp nýja búskaparhætti í efnahagslegu tilliti, við að hrinda samningi þessum í framkvæmd, þegar þess er óskað;
c)    að tryggja nauðsynlegt samræmi við starfsemi skrifstofa annarra hlutaðeigandi alþjóðastofnana;
d)    að semja og gera aðilum aðgengilegar reglulegar skýrslur sem eru byggðar á upplýsingum sem hafa borist skv. 15. gr. og öðrum tiltækum upplýsingum;
e)    að gera, undir almennri leiðsögn þings aðila, stjórnunarlegar og samningsbundnar ráðstafanir sem eru nauðsynlegar vegna starfsemi skrifstofunnar; og
f)    að annast önnur skrifstofustörf, sem eru tilgreind í samningi þessum, og önnur þau störf sem þing aðila kann að ákveða.

    3. Framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna skal sinna störfum skrifstofunnar, nema þing aðila ákveði með atkvæðum þriggja fjórðu hluta þeirra aðila sem eru viðstaddir og greiða atkvæði, að fela einni eða fleiri alþjóðastofnunum störf skrifstofunnar.


21. gr.
Breytingar á samningnum.

    1. Sérhverjum aðila að samningi þessum er heimilt að leggja til breytingar á honum.
    2. Breytingar á samningi þessum skulu samþykktar á fundi þings aðila. Skrifstofan skal senda aðilum texta sérhverrar breytingartillögu að minnsta kosti sex mánuðum fyrir fundinn þar sem tillagan er tekin til umfjöllunar. Skrifstofan skal einnig senda breytingartillögur öllum þeim sem undirritað hafa samning þennan og einnig vörsluaðila til upplýsingar.

    3. Aðilar að samningi þessum skulu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að ná samkomulagi um breytingartillögur við samning þennan. Hafi allar tilraunir til að ná almennu samkomulagi reynst árangurslausar og hafi samkomulag ekki náðst skal tillagan, sem síðasta úrræði, samþykkt með atkvæðum þriggja fjórðu hluta þeirra aðila sem eru viðstaddir og greiða atkvæði.
    4. Vörsluaðili skal senda breytinguna öllum aðilum að samningnum til fullgildingar, staðfestingar eða samþykkis.
    5. Vörsluaðila skal tilkynnt skriflega um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki breytingar. Breyting, sem hefur verið samþykkt í samræmi við 3. mgr., öðlast gildi, að því er varðar þá aðila að samningi þessum sem hafa staðfest hana, á nítugasta degi eftir að vörsluaðila hafa borist skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki frá að minnsta kosti þremur fjórðu hlutum aðila að samningnum. Eftir það skal breytingin öðlast gildi, að því er hvern annan aðila að samningnum varðar, á nítugasta degi frá þeim degi er sá aðili afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki breytingarinnar.

22. gr.
Samþykki viðauka og breyting á þeim.

    1. Viðaukar við samning þennan eru óaðskiljanlegur hluti hans og ef ekki er beinlínis kveðið á um annað telst tilvísun í samning þennan jafnframt tilvísun í viðauka við hann.
    2. Viðbótarviðaukar hvers konar skulu takmarkast við málsmeðferð og vísindaleg, tæknileg eða stjórnsýsluleg málefni.
    3. Eftirfarandi málsmeðferð gildir um tillögu um, samþykki og gildistöku viðbótarviðauka við samning þennan:
a)    viðbótarviðaukar við samning þennan skulu bornir upp og samþykktir samkvæmt þeirri málsmeðferð sem kveðið er á um í 1., 2. og 3. mgr. 21. gr.;
b)    hver sá aðili sem ekki getur samþykkt viðbótarviðauka við samning þennan skal tilkynna vörsluaðila það skriflega innan eins árs frá tilkynningu vörsluaðila um samþykki viðbótarviðaukans. Vörsluaðili skal tafarlaust tilkynna öllum aðilum um hverja slíka tilkynningu sem berst. Aðila er heimilt, hvenær sem er, að afturkalla fyrri yfirlýsingu um andmæli við viðbótarviðauka og öðlast viðaukinn þá gildi að því er þann aðila varðar, samanber þó ákvæði c-liðar; og
c)    að einu ári liðnu frá tilkynningu vörsluaðila um samþykki viðbótarviðauka skal viðaukinn öðlast gildi að því er varðar alla aðila að samningi þessum sem ekki hafa lagt fram tilkynningu í samræmi við ákvæði b-liðar.

    4. Tillaga um breytingar og samþykki og gildistaka breytinga á viðauka A, B eða C skulu háð sömu málsmeðferð og tillaga um viðbótarviðauka við samninginn og samþykki og gildistaka slíks viðauka, að því undanskildu að breyting á viðauka A, B eða C öðlast ekki gildi að því er varðar aðila sem gefið hefur út yfirlýsingu um breytingar á þeim viðaukum skv. 4. mgr. 25. gr., en í slíku tilviki skal breytingin öðlast gildi að því er varðar viðkomandi aðila á nítugasta degi eftir að hann hefur afhent vörsluaðila skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki viðkomandi breytingar.


    5. Eftirfarandi málsmeðferð gildir um tillögu um breytingu á viðauka D, E eða F og samþykki og gildistöku slíkrar breytingar:
a)    tillögur um breytingar skulu gerðar samkvæmt þeirri tilhögun sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. 21. gr.;
b)    aðilar að samningi þessum skulu taka ákvarðanir um breytingar á viðauka D, E eða F með almennu samkomulagi; og
c)    vörsluaðili skal þegar í stað tilkynna aðilum ákvarðanir um breytingar á viðauka D, E eða F. Breytingar öðlast gildi að því er varðar alla aðila að samningi þessum á þeim degi sem er tilgreindur í ákvörðuninni.
    6. Ef viðbótarviðauki eða breyting á viðauka tengist breytingu á samningi þessum öðlast viðbótarviðaukinn eða breytingin ekki gildi fyrr en breytingin á samningnum öðlast gildi.


23. gr.
Atkvæðisréttur.

    1. Sérhver aðili að samningi þessum hefur eitt atkvæði með þeim undantekningum sem kveðið er á um í 2. mgr.
    2. Svæðisstofnun um efnahagssamvinnu skal, í málum er falla undir valdsvið hennar, neyta atkvæðisréttar síns með þeim fjölda atkvæða sem nemur fjölda þeirra aðildarríkja stofnunarinnar sem eru aðilar að samningi þessum. Slík stofnun skal ekki neyta atkvæðisréttar síns ef eitthvert aðildarríkja hennar gerir það og öfugt.

24. gr.
Undirritun.

    Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar í Stokkhólmi af hálfu allra ríkja og svæðisstofnana um efnahagssamvinnu hinn 23. maí 2001 og í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York frá 24. maí 2001 til 22. maí 2002.

25. gr.
Fullgilding, staðfesting, samþykki eða aðild.

    1. Samningur þessi er háður fullgildingu, staðfestingu eða samþykki ríkja og svæðisstofnana um efnahagssamvinnu. Aðild að honum af hálfu ríkja og svæðisstofnanna um efnahagssamvinnu skal vera opin frá og með deginum eftir að fresti til undirritunar lýkur. Skjöl um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild skal afhenda vörsluaðila til vörslu.
    2. Hver sú svæðisstofnun um efnahagssamvinnu, sem gerist aðili að samningi þessum án þess að nokkurt aðildarríkja hennar sé aðili, skal vera bundin af öllum skuldbindingum samkvæmt samningnum. Þegar um er að ræða slíka stofnun, þar sem eitt eða fleiri aðildarríki eru aðilar að samningi þessum, taka stofnunin og aðildarríki hennar ákvörðun um hvernig hvert og eitt þeirra efnir skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum. Í slíkum tilvikum geta stofnunin og aðildarríkin ekki neytt réttar síns samkvæmt samningnum samtímis.

    3. Stofnanir um efnahagssamvinnu skulu í skjölum sínum um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild lýsa yfir hvert valdsvið þeirra sé í þeim málum sem samningurinn nær til. Enn fremur skulu þær þegar í stað tilkynna vörsluaðila, sem síðan tilkynnir það öðrum aðilum að samningnum, ef veruleg breyting verður á valdsviði þeirra.

    4. Í skjölum sínum um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild er aðilum að samningnum heimilt að lýsa því yfir að hvað þá varðar muni hvers kyns breytingar á viðauka A, B eða C fyrst öðlast gildi þegar skjal um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild að breytingunni er afhent til vörslu.

26. gr.
Gildistaka.

    1. Samningur þessi öðlast gildi á nítugasta degi eftir afhendingu fimmtugasta skjalsins um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild.

    2. Að því er varðar hvert það ríki eða svæðisstofnun um efnahagssamvinnu, sem fullgildir, staðfestir, samþykkir eða gerist aðili að samningi þessum eftir afhendingu fimmtugasta skjalsins um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild, skal samningurinn öðlast gildi á nítugasta degi eftir afhendingu skjals viðkomandi ríkis eða svæðisstofnunar um efnahagssamvinnu um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild.
    3. Að því er varðar 1. og 2. mgr. skal ekki litið svo á að skjal, sem svæðisstofnun um efnahagssamvinnu afhendir til vörslu, komi til viðbótar þeim skjölum sem aðildarríki viðkomandi stofnunar hafa afhent til vörslu.

27. gr.
Fyrirvarar.

    Enga fyrirvara má gera við samning þennan.

28. gr.
Uppsögn.

    1. Aðili getur sagt upp aðild sinni að samningi þessum, með skriflegri tilkynningu til vörsluaðila, hvenær sem er eftir að þrjú ár eru liðin frá því að samningurinn öðlast gildi að því er hann varðar.
    2. Hver slík uppsögn skal öðlast gildi þegar eitt ár er liðið frá því að vörsluaðili tekur við tilkynningu um uppsögnina eða á þeim degi síðar sem kann að vera tilgreindur í tilkynningunni um uppsögn.


29. gr.
Vörsluaðili.

    Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal vera vörsluaðili samnings þessa.

30. gr.
Gildir textar.

    Frumrit samnings þessa, en textar þess á arabísku, ensku, frönsku, kínversku, rússnesku og spænsku eru jafngildir, skal falið aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.

ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirrituð, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.


Gjört í Stokkhólmi hinn 22. maí 2001.

STOCKHOLM CONVENTION ON PERSISTENT ORGANIC POLLUTANTS


The Parties to this Convention,

Recognizing that persistent organic pollutants possess toxic properties, resist degradation, bioaccumulate and are transported, through air, water and migratory species, across international boundaries and deposited far from their place of release, where they accumulate in terrestrial and aquatic ecosystems,

Aware of the health concerns, especially in developing countries, resulting from local exposure to persistent organic pollutants, in particular impacts upon women and, through them, upon future generations,

Acknowledging that the Arctic ecosystems and indigenous communities are particularly at risk because of the biomagnification of persistent organic pollutants and that contamination of their traditional foods is a public health issue,

Conscious of the need for global action on persistent organic pollutants,

Mindful of decision 19/13 C of 7 February 1997 of the Governing Council of the United Nations Environment Programme to initiate international action to protect human health and the environment through measures which will reduce and/or eliminate emissions and discharges of persistent organic pollutants,

Recalling the pertinent provisions of the relevant international environmental conventions, especially the Rotterdam Convention on the Prior Informed Consent Procedure for Certain Hazardous Chemicals and Pesticides in International Trade, and the Basel Convention on the Control of Transboundary Movements of Hazardous Wastes and their Disposal including the regional agreements developed within the framework of its Article 11,

Recalling also the pertinent provisions of the Rio Declaration on Environment and Development and Agenda 21,

Acknowledging that precaution underlies the concerns of all the Parties and is embedded within this Convention,

Recognizing that this Convention and other international agreements in the field of trade and the environment are mutually supportive,

Reaffirming that States have, in accordance with the Charter of the United Nations and the principles of international law, the sovereign right to exploit their own resources pursuant to their own environmental and developmental policies, and the responsibility to ensure that activities within their jurisdiction or control do not cause damage to the environment of other States or of areas beyond the limits of national jurisdiction,

Taking into account the circumstances and particular requirements of developing countries, in particular the least developed among them, and countries with economies in transition, especially the need to strengthen their national capabilities for the management of chemicals, including through the transfer of technology, the provision of financial and technical assistance and the promotion of cooperation among the Parties,

Taking full account of the Programme of Action for the Sustainable Development of Small Island Developing States, adopted in Barbados on 6 May 1994,


Noting the respective capabilities of developed and developing countries, as well as the common but differentiated responsibilities of States as set forth in Principle 7 of the Rio Declaration on Environment and Development,

Recognizing the important contribution that the private sector and non-governmental organizations can make to achieving the reduction and/or elimination of emissions and discharges of persistent organic pollutants,

Underlining the importance of manufacturers of persistent organic pollutants taking responsibility for reducing adverse effects caused by their products and for providing information to users, Governments and the public on the hazardous properties of those chemicals,

Conscious of the need to take measures to prevent adverse effects caused by persistent organic pollutants at all stages of their life cycle,

Reaffirming Principle 16 of the Rio Declaration on Environment and Development which states that national authorities should endeavour to promote the internalization of environmental costs and the use of economic instruments, taking into account the approach that the polluter should, in principle, bear the cost of pollution, with due regard to the public interest and without distorting international trade and investment,

Encouraging Parties not having regulatory and assessment schemes for pesticides and industrial chemicals to develop such schemes,

Recognizing the importance of developing and using environmentally sound alternative processes and chemicals,

Determined to protect human health and the environment from the harmful impacts of persistent organic pollutants,

Have agreed as follows:

Article 1
Objective

    Mindful of the precautionary approach as set forth in Principle 15 of the Rio Declaration on Environment and Development, the objective of this Convention is to protect human health and the environment from persistent organic pollutants.

Article 2
Definitions

    For the purposes of this Convention:

(a)    “Party” means a State or regional economic integration organization that has consented to be bound by this Convention and for which the Convention is in force;
(b)    “Regional economic integration organization” means an organization constituted by sovereign States of a given region to which its member States have transferred competence in respect of matters governed by this Convention and which has been duly authorized, in accordance with its internal procedures, to sign, ratify, accept, approve or accede to this Convention;
(c)    “Parties present and voting” means Parties present and casting an affirmative or negative vote.


Article 3
Measures to reduce or eliminate releases from intentional production and use

    1. Each Party shall:
(a)    Prohibit and/or take the legal and administrative measures necessary to eliminate:
    (i)    Its production and use of the chemicals listed in Annex A subject to the provisions of that Annex; and
    (ii)    Its import and export of the chemicals listed in Annex A in accordance with the provisions of paragraph 2; and
(b)    Restrict its production and use of the chemicals listed in Annex B in accordance with the provisions of that Annex.
    2. Each Party shall take measures to ensure:

(a)    That a chemical listed in Annex A or Annex B is imported only:
    (i)    For the purpose of environmentally sound disposal as set forth in paragraph 1 (d) of Article 6; or
    (ii)    For a use or purpose which is permitted for that Party under Annex A or Annex B;
(b)    That a chemical listed in Annex A for which any production or use specific exemption is in effect or a chemical listed in Annex B for which any production or use specific exemption or acceptable purpose is in effect, taking into account any relevant provisions in existing international prior informed consent instruments, is exported only:


    (i)    For the purpose of environmentally sound disposal as set forth in paragraph 1 (d) of Article 6;
    (ii)    To a Party which is permitted to use that chemical under Annex A or Annex B; or

    (iii)    To a State not Party to this Convention which has provided an annual certification to the exporting Party. Such certification shall specify the intended use of the chemical and include a statement that, with respect to that chemical, the importing State is committed to:
              a.    Protect human health and the environment by taking the necessary measures to minimize or prevent releases;

              b.    Comply with the provisions of paragraph 1 of Article 6; and
              c.    Comply, where appropriate, with the provisions of paragraph 2 of Part II of Annex B.
             The certification shall also include any appropriate supporting documentation, such as legislation, regulatory instruments, or administrative or policy guidelines. The exporting Party shall transmit the certification to the Secretariat within sixty days of receipt;
(c)    That a chemical listed in Annex A, for which production and use specific exemptions are no longer in effect for any Party, is not exported from it except for the purpose of environmentally sound disposal as set forth in paragraph 1 (d) of Article 6;
(d)    For the purposes of this paragraph, the term “State not Party to this Convention” shall include, with respect to a particular chemical, a State or regional economic integration organization that has not agreed to be bound by the Convention with respect to that chemical.
    3. Each Party that has one or more regulatory and assessment schemes for new pesticides or new industrial chemicals shall take measures to regulate with the aim of preventing the production and use of new pesticides or new industrial chemicals which, taking into consideration the criteria in paragraph 1 of Annex D, exhibit the characteristics of persistent organic pollutants.
    4. Each Party that has one or more regulatory and assessment schemes for pesticides or industrial chemicals shall, where appropriate, take into consideration within these schemes the criteria in paragraph 1 of Annex D when conducting assessments of pesticides or industrial chemicals currently in use.

    5. Except as otherwise provided in this Convention, paragraphs 1 and 2 shall not apply to quantities of a chemical to be used for laboratory-scale research or as a reference standard.
    6. Any Party that has a specific exemption in accordance with Annex A or a specific exemption or an acceptable purpose in accordance with Annex B shall take appropriate measures to ensure that any production or use under such exemption or purpose is carried out in a manner that prevents or minimizes human exposure and release into the environment. For exempted uses or acceptable purposes that involve intentional release into the environment under conditions of normal use, such release shall be to the minimum extent necessary, taking into account any applicable standards and guidelines.


Article 4
Register of specific exemptions

    1. A Register is hereby established for the purpose of identifying the Parties that have specific exemptions listed in Annex A or Annex B. It shall not identify Parties that make use of the provisions in Annex A or Annex B that may be exercised by all Parties. The Register shall be maintained by the Secretariat and shall be available to the public.
    2. The Register shall include:
(a)    A list of the types of specific exemptions reproduced from Annex A and Annex B;
(b)    A list of the Parties that have a specific exemption listed under Annex A or Annex B; and
(c)    A list of the expiry dates for each registered specific exemption.
    3. Any State may, on becoming a Party, by means of a notification in writing to the Secretariat, register for one or more types of specific exemptions listed in Annex A or Annex B.
    4. Unless an earlier date is indicated in the Register by a Party, or an extension is granted pursuant to paragraph 7, all registrations of specific exemptions shall expire five years after the date of entry into force of this Convention with respect to a particular chemical.
    5. At its first meeting, the Conference of the Parties shall decide upon its review process for the entries in the Register.
    6. Prior to a review of an entry in the Register, the Party concerned shall submit a report to the Secretariat justifying its continuing need for registration of that exemption. The report shall be circulated by the Secretariat to all Parties. The review of a registration shall be carried out on the basis of all available information. Thereupon, the Conference of the Parties may make such recommendations to the Party concerned as it deems appropriate.
    7. The Conference of the Parties may, upon request from the Party concerned, decide to extend the expiry date of a specific exemption for a period of up to five years. In making its decision, the Conference of the Parties shall take due account of the special circumstances of the developing country Parties and Parties with economies in transition.
    8. A Party may, at any time, withdraw an entry from the Register for a specific exemption upon written notification to the Secretariat. The withdrawal shall take effect on the date specified in the notification.
    9. When there are no longer any Parties registered for a particular type of specific exemption, no new registrations may be made with respect to it.

Article 5
Measures to reduce or eliminate releases from unintentional production

    Each Party shall at a minimum take the following measures to reduce the total releases derived from anthropogenic sources of each of the chemicals listed in Annex C, with the goal of their continuing minimization and, where feasible, ultimate elimination:
(a)    Develop an action plan or, where appropriate, a regional or subregional action plan within two years of the date of entry into force of this Convention for it, and subsequently implement it as part of its implementation plan specified in Article 7, designed to identify, characterize and address the release of the chemicals listed in Annex C and to facilitate implementation of subparagraphs (b) to (e). The action plan shall include the following elements:
    (i)    An evaluation of current and projected releases, including the development and maintenance of source inventories and release estimates, taking into consideration the source categories identified in Annex C;
    (ii)    An evaluation of the efficacy of the laws and policies of the Party relating to the management of such releases;
    (iii)    Strategies to meet the obligations of this paragraph, taking into account the evaluations in (i) and (ii);
    (iv)    Steps to promote education and training with regard to, and awareness of, those strategies;

    (v)    A review every five years of those strategies and of their success in meeting the obligations of this paragraph; such reviews shall be included in reports submitted pursuant to Article 15;

    (vi)    A schedule for implementation of the action plan, including for the strategies and measures identified therein;
(b)    Promote the application of available, feasible and practical measures that can expeditiously achieve a realistic and meaningful level of release reduction or source elimination;

(c)    Promote the development and, where it deems appropriate, require the use of substitute or modified materials, products and processes to prevent the formation and release of the chemicals listed in Annex C, taking into consideration the general guidance on prevention and release reduction measures in Annex C and guidelines to be adopted by decision of the Conference of the Parties;
(d)    Promote and, in accordance with the implementation schedule of its action plan, require the use of best available techniques for new sources within source categories which a Party has identified as warranting such action in its action plan, with a particular initial focus on source categories identified in Part II of Annex C. In any case, the requirement to use best available techniques for new sources in the categories listed in Part II of that Annex shall be phased in as soon as practicable but no later than four years after the entry into force of the Convention for that Party. For the identified categories, Parties shall promote the use of best environmental practices. When applying best available techniques and best environmental practices, Parties should take into consideration the general guidance on prevention and release reduction measures in that Annex and guidelines on best available techniques and best environmental practices to be adopted by decision of the Conference of the Parties;

(e)    Promote, in accordance with its action plan, the use of best available techniques and best environmental practices:
    (i)    For existing sources, within the source categories listed in Part II of Annex C and within source categories such as those in Part III of that Annex; and

    (ii)    For new sources, within source categories such as those listed in Part III of Annex C which a Party has not addressed under subparagraph (d).
    When applying best available techniques and best environmental practices, Parties should take into consideration the general guidance on prevention and release reduction measures in Annex C and guidelines on best available techniques and best environmental practices to be adopted by decision of the Conference of the Parties;
(f)    For the purposes of this paragraph and Annex C:

    (i)    “Best available techniques” means the most effective and advanced stage in the development of activities and their methods of operation which indicate the practical suitability of particular techniques for providing in principle the basis for release limitations designed to prevent and, where that is not practicable, generally to reduce releases of chemicals listed in Part I of Annex C and their impact on the environment as a whole. In this regard:
    (ii)    “Techniques” includes both the technology used and the way in which the installation is designed, built, maintained, operated and decommissioned;
    (iii)    “Available” techniques means those techniques that are accessible to the operator and that are developed on a scale that allows implementation in the relevant industrial sector, under economically and technically viable conditions, taking into consideration the costs and advantages; and
    (iv)    “Best” means most effective in achieving a high general level of protection of the environment as a whole;
    (v)    “Best environmental practices” means the application of the most appropriate combination of environmental control measures and strategies;
    (vi)    “New source” means any source of which the construction or substantial modification is commenced at least one year after the date of:
              a.    Entry into force of this Convention for the Party concerned; or
              b.    Entry into force for the Party concerned of an amendment to Annex C where the source becomes subject to the provisions of this Convention only by virtue of that amendment.
(g)    Release limit values or performance standards may be used by a Party to fulfill its commitments for best available techniques under this paragraph.

Article 6
Measures to reduce or eliminate releases from stockpiles and wastes

    1. In order to ensure that stockpiles consisting of or containing chemicals listed either in Annex A or Annex B and wastes, including products and articles upon becoming wastes, consisting of, containing or contaminated with a chemical listed in Annex A, B or C, are managed in a manner protective of human health and the environment, each Party shall:


(a)    Develop appropriate strategies for identifying:

    (i)    Stockpiles consisting of or containing chemicals listed either in Annex A or Annex B; and
    (ii)    Products and articles in use and wastes consisting of, containing or contaminated with a chemical listed in Annex A, B or C;

(b)    Identify, to the extent practicable, stockpiles consisting of or containing chemicals listed either in Annex A or Annex B on the basis of the strategies referred to in subparagraph (a);

(c)    Manage stockpiles, as appropriate, in a safe, efficient and environmentally sound manner. Stockpiles of chemicals listed either in Annex A or Annex B, after they are no longer allowed to be used according to any specific exemption specified in Annex A or any specific exemption or acceptable purpose specified in Annex B, except stockpiles which are allowed to be exported according to paragraph 2 of Article 3, shall be deemed to be waste and shall be managed in accordance with subparagraph (d);
(d)    Take appropriate measures so that such wastes, including products and articles upon becoming wastes, are:
    (i)    Handled, collected, transported and stored in an environmentally sound manner;
    (ii)    Disposed of in such a way that the persistent organic pollutant content is destroyed or irreversibly transformed so that they do not exhibit the characteristics of persistent organic pollutants or otherwise disposed of in an environmentally sound manner when destruction or irreversible transformation does not represent the environmentally preferable option or the persistent organic pollutant content is low, taking into account international rules, standards, and guidelines, including those that may be developed pursuant to paragraph 2, and relevant global and regional regimes governing the management of hazardous wastes;

    (iii)    Not permitted to be subjected to disposal operations that may lead to recovery, recycling, reclamation, direct reuse or alternative uses of persistent organic pollutants; and


    (iv)    Not transported across international boundaries without taking into account relevant international rules, standards and guidelines;


(e)    Endeavour to develop appropriate strategies for identifying sites contaminated by chemicals listed in Annex A, B or C; if remediation of those sites is undertaken it shall be performed in an environmentally sound manner.
    2. The Conference of the Parties shall cooperate closely with the appropriate bodies of the Basel Convention on the Control of Transboundary Movements of Hazardous Wastes and their Disposal to, inter alia:
(a)    Establish levels of destruction and irreversible transformation necessary to ensure that the characteristics of persistent organic pollutants as specified in paragraph 1 of Annex D are not exhibited;
(b)    Determine what they consider to be the methods that constitute environmentally sound disposal referred to above; and
(c)    Work to establish, as appropriate, the concentration levels of the chemicals listed in Annexes A, B and C in order to define the low persistent organic pollutant content referred to in paragraph 1 (d)(ii).

Article 7
Implementation plans

    1. Each Party shall:
(a)    Develop and endeavour to implement a plan for the implementation of its obligations under this Convention;
(b)    Transmit its implementation plan to the Conference of the Parties within two years of the date on which this Convention enters into force for it; and
(c)    Review and update, as appropriate, its implementation plan on a periodic basis and in a manner to be specified by a decision of the Conference of the Parties.
    2. The Parties shall, where appropriate, cooperate directly or through global, regional and subregional organizations, and consult their national stakeholders, including women's groups and groups involved in the health of children, in order to facilitate the development, implementation and updating of their implementation plans.

    3. The Parties shall endeavour to utilize and, where necessary, establish the means to integrate national implementation plans for persistent organic pollutants in their sustainable development strategies where appropriate.

Article 8
Listing of chemicals in Annexes A, B and C

    1. A Party may submit a proposal to the Secretariat for listing a chemical in Annexes A, B and/or C. The proposal shall contain the information specified in Annex D. In developing a proposal, a Party may be assisted by other Parties and/or by the Secretariat.

    2. The Secretariat shall verify whether the proposal contains the information specified in Annex D. If the Secretariat is satisfied that the proposal contains the information so specified, it shall forward the proposal to the Persistent Organic Pollutants Review Committee.
    3. The Committee shall examine the proposal and apply the screening criteria specified in Annex D in a flexible and transparent way, taking all information provided into account in an integrative and balanced manner.
    4. If the Committee decides that:
(a)    It is satisfied that the screening criteria have been fulfilled, it shall, through the Secretariat, make the proposal and the evaluation of the Committee available to all Parties and observers and invite them to submit the information specified in Annex E; or
(b)    It is not satisfied that the screening criteria have been fulfilled, it shall, through the Secretariat, inform all Parties and observers and make the proposal and the evaluation of the Committee available to all Parties and the proposal shall be set aside.
    5. Any Party may resubmit a proposal to the Committee that has been set aside by the Committee pursuant to paragraph 4. The resubmission may include any concerns of the Party as well as a justification for additional consideration by the Committee. If, following this procedure, the Committee again sets the proposal aside, the Party may challenge the decision of the Committee and the Conference of the Parties shall consider the matter at its next session. The Conference of the Parties may decide, based on the screening criteria in Annex D and taking into account the evaluation of the Committee and any additional information provided by any Party or observer, that the proposal should proceed.
    6. Where the Committee has decided that the screening criteria have been fulfilled, or the Conference of the Parties has decided that the proposal should proceed, the Committee shall further review the proposal, taking into account any relevant additional information received, and shall prepare a draft risk profile in accordance with Annex E. It shall, through the Secretariat, make that draft available to all Parties and observers, collect technical comments from them and, taking those comments into account, complete the risk profile.

    7. If, on the basis of the risk profile conducted in accordance with Annex E, the Committee decides:
(a)    That the chemical is likely as a result of its long-range environmental transport to lead to significant adverse human health and/or environmental effects such that global action is warranted, the proposal shall proceed. Lack of full scientific certainty shall not prevent the proposal from proceeding. The Committee shall, through the Secretariat, invite information from all Parties and observers relating to the considerations specified in Annex F. It shall then prepare a risk management evaluation that includes an analysis of possible control measures for the chemical in accordance with that Annex; or



(b)    That the proposal should not proceed, it shall, through the Secretariat, make the risk profile available to all Parties and observers and set the proposal aside.

    8. For any proposal set aside pursuant to paragraph 7 (b), a Party may request the Conference of the Parties to consider instructing the Committee to invite additional information from the proposing Party and other Parties during a period not to exceed one year. After that period and on the basis of any information received, the Committee shall reconsider the proposal pursuant to paragraph 6 with a priority to be decided by the Conference of the Parties. If, following this procedure, the Committee again sets the proposal aside, the Party may challenge the decision of the Committee and the Conference of the Parties shall consider the matter at its next session. The Conference of the Parties may decide, based on the risk profile prepared in accordance with Annex E and taking into account the evaluation of the Committee and any additional information provided by any Party or observer, that the proposal should proceed. If the Conference of the Parties decides that the proposal shall proceed, the Committee shall then prepare the risk management evaluation.
    9. The Committee shall, based on the risk profile referred to in paragraph 6 and the risk management evaluation referred to in paragraph 7 (a) or paragraph 8, recommend whether the chemical should be considered by the Conference of the Parties for listing in Annexes A, B and/or C. The Conference of the Parties, taking due account of the recommendations of the Committee, including any scientific uncertainty, shall decide, in a precautionary manner, whether to list the chemical, and specify its related control measures, in Annexes A, B and/or C.

Article 9
Information exchange

    1. Each Party shall facilitate or undertake the exchange of information relevant to:
(a)    The reduction or elimination of the production, use and release of persistent organic pollutants; and
(b)    Alternatives to persistent organic pollutants, including information relating to their risks as well as to their economic and social costs.

    2. The Parties shall exchange the information referred to in paragraph 1 directly or through the Secretariat.
    3. Each Party shall designate a national focal point for the exchange of such information.
    4. The Secretariat shall serve as a clearing-house mechanism for information on persistent organic pollutants, including information provided by Parties, intergovernmental organizations and non-governmental organizations.
    5. For the purposes of this Convention, information on health and safety of humans and the environment shall not be regarded as confidential. Parties that exchange other information pursuant to this Convention shall protect any confidential information as mutually agreed.

Article 10
Public information, awareness and education

    1. Each Party shall, within its capabilities, promote and facilitate:
(a)    Awareness among its policy and decision makers with regard to persistent organic pollutants;
(b)    Provision to the public of all available information on persistent organic pollutants, taking into account paragraph 5 of Article 9;
(c)    Development and implementation, especially for women, children and the least educated, of educational and public awareness programmes on persistent organic pollutants, as well as on their health and environmental effects and on their alternatives;
(d)    Public participation in addressing persistent organic pollutants and their health and environmental effects and in developing adequate responses, including opportunities for providing input at the national level regarding implementation of this Convention;
(e)    Training of workers, scientists, educators and technical and managerial personnel;
(f)    Development and exchange of educational and public awareness materials at the national and international levels; and
(g)    Development and implementation of education and training programmes at the national and international levels.
    2. Each Party shall, within its capabilities, ensure that the public has access to the public information referred to in paragraph 1 and that the information is kept up-to-date.
    3. Each Party shall, within its capabilities, encourage industry and professional users to promote and facilitate the provision of the information referred to in paragraph 1 at the national level and, as appropriate, subregional, regional and global levels.

    4. In providing information on persistent organic pollutants and their alternatives, Parties may use safety data sheets, reports, mass media and other means of communication, and may establish information centres at national and regional levels.
    5. Each Party shall give sympathetic consideration to developing mechanisms, such as pollutant release and transfer registers, for the collection and dissemination of information on estimates of the annual quantities of the chemicals listed in Annex A, B or C that are released or disposed of.

Article 11
Research, development and monitoring

    1. The Parties shall, within their capabilities, at the national and international levels, encourage and/or undertake appropriate research, development, monitoring and cooperation pertaining to persistent organic pollutants and, where relevant, to their alternatives and to candidate persistent organic pollutants, including on their:
(a)    Sources and releases into the environment;
(b)    Presence, levels and trends in humans and the environment;
(c)    Environmental transport, fate and transformation;

(d)    Effects on human health and the environment;
(e)    Socio-economic and cultural impacts;

(f)    Release reduction and/or elimination; and
(g)    Harmonized methodologies for making inventories of generating sources and analytical techniques for the measurement of releases.

    2. In undertaking action under paragraph 1, the Parties shall, within their capabilities:
(a)    Support and further develop, as appropriate, international programmes, networks and organizations aimed at defining, conducting, assessing and financing research, data collection and monitoring, taking into account the need to minimize duplication of effort;
(b)    Support national and international efforts to strengthen national scientific and technical research capabilities, particularly in developing countries and countries with economies in transition, and to promote access to, and the exchange of, data and analyses;
(c)    Take into account the concerns and needs, particularly in the field of financial and technical resources, of developing countries and countries with economies in transition and cooperate in improving their capability to participate in the efforts referred to in subparagraphs (a) and (b);
(d)    Undertake research work geared towards alleviating the effects of persistent organic pollutants on reproductive health;
(e)    Make the results of their research, development and monitoring activities referred to in this paragraph accessible to the public on a timely and regular basis; and
(f)    Encourage and/or undertake cooperation with regard to storage and maintenance of information generated from research, development and monitoring.

Article 12
Technical assistance

    1. The Parties recognize that rendering of timely and appropriate technical assistance in response to requests from developing country Parties and Parties with economies in transition is essential to the successful implementation of this Convention.
    2. The Parties shall cooperate to provide timely and appropriate technical assistance to developing country Parties and Parties with economies in transition, to assist them, taking into account their particular needs, to develop and strengthen their capacity to implement their obligations under this Convention.

    3. In this regard, technical assistance to be provided by developed country Parties, and other Parties in accordance with their capabilities, shall include, as appropriate and as mutually agreed, technical assistance for capacity-building relating to implementation of the obligations under this Convention. Further guidance in this regard shall be provided by the Conference of the Parties.
    4. The Parties shall establish, as appropriate, arrangements for the purpose of providing technical assistance and promoting the transfer of technology to developing country Parties and Parties with economies in transition relating to the implementation of this Convention. These arrangements shall include regional and subregional centres for capacity-building and transfer of technology to assist developing country Parties and Parties with economies in transition to fulfil their obligations under this Convention. Further guidance in this regard shall be provided by the Conference of the Parties.


    5. The Parties shall, in the context of this Article, take full account of the specific needs and special situation of least developed countries and small island developing states in their actions with regard to technical assistance.

Article 13
Financial resources and mechanisms

    1. Each Party undertakes to provide, within its capabilities, financial support and incentives in respect of those national activities that are intended to achieve the objective of this Convention in accordance with its national plans, priorities and programmes.
    2. The developed country Parties shall provide new and additional financial resources to enable developing country Parties and Parties with economies in transition to meet the agreed full incremental costs of implementing measures which fulfill their obligations under this Convention as agreed between a recipient Party and an entity participating in the mechanism described in paragraph 6. Other Parties may also on a voluntary basis and in accordance with their capabilities provide such financial resources. Contributions from other sources should also be encouraged. The implementation of these commitments shall take into account the need for adequacy, predictability, the timely flow of funds and the importance of burden sharing among the contributing Parties.
    3. Developed country Parties, and other Parties in accordance with their capabilities and in accordance with their national plans, priorities and programmes, may also provide and developing country Parties and Parties with economies in transition avail themselves of financial resources to assist in their implementation of this Convention through other bilateral, regional and multilateral sources or channels.

    4. The extent to which the developing country Parties will effectively implement their commitments under this Convention will depend on the effective implementation by developed country Parties of their commitments under this Convention relating to financial resources, technical assistance and technology transfer. The fact that sustainable economic and social development and eradication of poverty are the first and overriding priorities of the developing country Parties will be taken fully into account, giving due consideration to the need for the protection of human health and the environment.
    5. The Parties shall take full account of the specific needs and special situation of the least developed countries and the small island developing states in their actions with regard to funding.
    6. A mechanism for the provision of adequate and sustainable financial resources to developing country Parties and Parties with economies in transition on a grant or concessional basis to assist in their implementation of the Convention is hereby defined. The mechanism shall function under the authority, as appropriate, and guidance of, and be accountable to the Conference of the Parties for the purposes of this Convention. Its operation shall be entrusted to one or more entities, including existing international entities, as may be decided upon by the Conference of the Parties. The mechanism may also include other entities providing multilateral, regional and bilateral financial and technical assistance. Contributions to the mechanism shall be additional to other financial transfers to developing country Parties and Parties with economies in transition as reflected in, and in accordance with, paragraph 2.
    7. Pursuant to the objectives of this Convention and paragraph 6, the Conference of the Parties shall at its first meeting adopt appropriate guidance to be provided to the mechanism and shall agree with the entity or entities participating in the financial mechanism upon arrangements to give effect thereto. The guidance shall address, inter alia:
(a)    The determination of the policy, strategy and programme priorities, as well as clear and detailed criteria and guidelines regarding eligibility for access to and utilization of financial resources including monitoring and evaluation on a regular basis of such utilization;
(b)    The provision by the entity or entities of regular reports to the Conference of the Parties on adequacy and sustainability of funding for activities relevant to the implementation of this Convention;
(c)    The promotion of multiple-source funding approaches, mechanisms and arrangements;

(d)    The modalities for the determination in a predictable and identifiable manner of the amount of funding necessary and available for the implementation of this Convention, keeping in mind that the phasing out of persistent organic pollutants might require sustained funding, and the conditions under which that amount shall be periodically reviewed; and
(e)    The modalities for the provision to interested Parties of assistance with needs assessment, information on available sources of funds and on funding patterns in order to facilitate coordination among them.
    8. The Conference of the Parties shall review, not later than its second meeting and thereafter on a regular basis, the effectiveness of the mechanism established under this Article, its ability to address the changing needs of the developing country Parties and Parties with economies in transition, the criteria and guidance referred to in paragraph 7, the level of funding as well as the effectiveness of the performance of the institutional entities entrusted to operate the financial mechanism. It shall, based on such review, take appropriate action, if necessary, to improve the effectiveness of the mechanism, including by means of recommendations and guidance on measures to ensure adequate and sustainable funding to meet the needs of the Parties.

Article 14
Interim financial arrangements

    The institutional structure of the Global Environment Facility, operated in accordance with the Instrument for the Establishment of the Restructured Global Environment Facility, shall, on an interim basis, be the principal entity entrusted with the operations of the financial mechanism referred to in Article 13, for the period between the date of entry into force of this Convention and the first meeting of the Conference of the Parties, or until such time as the Conference of the Parties decides which institutional structure will be designated in accordance with Article 13. The institutional structure of the Global Environment Facility should fulfill this function through operational measures related specifically to persistent organic pollutants taking into account that new arrangements for this area may be needed.

Article 15
Reporting

    1. Each Party shall report to the Conference of the Parties on the measures it has taken to implement the provisions of this Convention and on the effectiveness of such measures in meeting the objectives of the Convention.
    2. Each Party shall provide to the Secretariat:
(a)    Statistical data on its total quantities of production, import and export of each of the chemicals listed in Annex A and Annex B or a reasonable estimate of such data; and
(b)    To the extent practicable, a list of the States from which it has imported each such substance and the States to which it has exported each such substance.
    3. Such reporting shall be at periodic intervals and in a format to be decided by the Conference of the Parties at its first meeting.

Article 16
Effectiveness evaluation.

    1. Commencing four years after the date of entry into force of this Convention, and periodically thereafter at intervals to be decided by the Conference of the Parties, the Conference shall evaluate the effectiveness of this Convention.
    2. In order to facilitate such evaluation, the Conference of the Parties shall, at its first meeting, initiate the establishment of arrangements to provide itself with comparable monitoring data on the presence of the chemicals listed in Annexes A, B and C as well as their regional and global environmental transport. These arrangements:
(a)    Should be implemented by the Parties on a regional basis when appropriate, in accordance with their technical and financial capabilities, using existing monitoring programmes and mechanisms to the extent possible and promoting harmonization of approaches;
(b)    May be supplemented where necessary, taking into account the differences between regions and their capabilities to implement monitoring activities; and
(c)    Shall include reports to the Conference of the Parties on the results of the monitoring activities on a regional and global basis at intervals to be specified by the Conference of the Parties.
    3. The evaluation described in paragraph 1 shall be conducted on the basis of available scientific, environmental, technical and economic information, including:
(a)    Reports and other monitoring information provided pursuant to paragraph 2;
(b)    National reports submitted pursuant to Article 15; and
(c)    Non-compliance information provided pursuant to the procedures established under Article 17.

Article 17
Non-compliance

    The Conference of the Parties shall, as soon as practicable, develop and approve procedures and institutional mechanisms for determining non-compliance with the provisions of this Convention and for the treatment of Parties found to be in non-compliance.

Article 18
Settlement of disputes

    1. Parties shall settle any dispute between them concerning the interpretation or application of this Convention through negotiation or other peaceful means of their own choice.
    2. When ratifying, accepting, approving or acceding to the Convention, or at any time thereafter, a Party that is not a regional economic integration organization may declare in a written instrument submitted to the depositary that, with respect to any dispute concerning the interpretation or application of the Convention, it recognizes one or both of the following means of dispute settlement as compulsory in relation to any Party accepting the same obligation:
(a)    Arbitration in accordance with procedures to be adopted by the Conference of the Parties in an annex as soon as practicable;
(b)    Submission of the dispute to the International Court of Justice.
    3. A Party that is a regional economic integration organization may make a declaration with like effect in relation to arbitration in accordance with the procedure referred to in paragraph 2 (a).

    4. A declaration made pursuant to paragraph 2 or paragraph 3 shall remain in force until it expires in accordance with its terms or until three months after written notice of its revocation has been deposited with the depositary.
    5. The expiry of a declaration, a notice of revocation or a new declaration shall not in any way affect proceedings pending before an arbitral tribunal or the International Court of Justice unless the parties to the dispute otherwise agree.
    6. If the parties to a dispute have not accepted the same or any procedure pursuant to paragraph 2, and if they have not been able to settle their dispute within twelve months following notification by one party to another that a dispute exists between them, the dispute shall be submitted to a conciliation commission at the request of any party to the dispute. The conciliation commission shall render a report with recommendations. Additional procedures relating to the conciliation commission shall be included in an annex to be adopted by the Conference of the Parties no later than at its second meeting.

Article 19
Conference of the Parties

    1. A Conference of the Parties is hereby established.
    2. The first meeting of the Conference of the Parties shall be convened by the Executive Director of the United Nations Environment Programme no later than one year after the entry into force of this Convention. Thereafter, ordinary meetings of the Conference of the Parties shall be held at regular intervals to be decided by the Conference.
    3. Extraordinary meetings of the Conference of the Parties shall be held at such other times as may be deemed necessary by the Conference, or at the written request of any Party provided that it is supported by at least one third of the Parties.
    4. The Conference of the Parties shall by consensus agree upon and adopt at its first meeting rules of procedure and financial rules for itself and any subsidiary bodies, as well as financial provisions governing the functioning of the Secretariat.
    5. The Conference of the Parties shall keep under continuous review and evaluation the implementation of this Convention. It shall perform the functions assigned to it by the Convention and, to this end, shall:
(a)    Establish, further to the requirements of paragraph 6, such subsidiary bodies as it considers necessary for the implementation of the Convention;
(b)    Cooperate, where appropriate, with competent international organizations and intergovernmental and non-governmental bodies;
(c)    Regularly review all information made available to the Parties pursuant to Article 15, including consideration of the effectiveness of paragraph 2 (b) (iii) of Article 3; and
(d)    Consider and undertake any additional action that may be required for the achievement of the objectives of the Convention.
    6. The Conference of the Parties shall, at its first meeting, establish a subsidiary body to be called the Persistent Organic Pollutants Review Committee for the purposes of performing the functions assigned to that Committee by this Convention. In this regard:
(a)    The members of the Persistent Organic Pollutants Review Committee shall be appointed by the Conference of the Parties. Membership of the Committee shall consist of government-designated experts in chemical assessment or management. The members of the Committee shall be appointed on the basis of equitable geographical distribution;
(b)    The Conference of the Parties shall decide on the terms of reference, organization and operation of the Committee; and
(c)    The Committee shall make every effort to adopt its recommendations by consensus. If all efforts at consensus have been exhausted, and no consensus reached, such recommendation shall as a last resort be adopted by a two-thirds majority vote of the members present and voting.

    7. The Conference of the Parties shall, at its third meeting, evaluate the continued need for the procedure contained in paragraph 2 (b) of Article 3, including consideration of its effectiveness.
    8. The United Nations, its specialized agencies and the International Atomic Energy Agency, as well as any State not Party to this Convention, may be represented at meetings of the Conference of the Parties as observers. Any body or agency, whether national or international, governmental or non-governmental, qualified in matters covered by the Convention, and which has informed the Secretariat of its wish to be represented at a meeting of the Conference of the Parties as an observer may be admitted unless at least one third of the Parties present object. The admission and participation of observers shall be subject to the rules of procedure adopted by the Conference of the Parties.

Article 20
Secretariat

    1. A Secretariat is hereby established.
    2. The functions of the Secretariat shall be:
(a)    To make arrangements for meetings of the Conference of the Parties and its subsidiary bodies and to provide them with services as required;
(b)    To facilitate assistance to the Parties, particularly developing country Parties and Parties with economies in transition, on request, in the implementation of this Convention;
(c)    To ensure the necessary coordination with the secretariats of other relevant international bodies;
(d)    To prepare and make available to the Parties periodic reports based on information received pursuant to Article 15 and other available information;
(e)    To enter, under the overall guidance of the Conference of the Parties, into such administrative and contractual arrangements as may be required for the effective discharge of its functions; and
(f)    To perform the other secretariat functions specified in this Convention and such other functions as may be determined by the Conference of the Parties.
    3. The secretariat functions for this Convention shall be performed by the Executive Director of the United Nations Environment Programme, unless the Conference of the Parties decides, by a three-fourths majority of the Parties present and voting, to entrust the secretariat functions to one or more other international organizations.

Article 21
Amendments to the Convention

    1. Amendments to this Convention may be proposed by any Party.
    2. Amendments to this Convention shall be adopted at a meeting of the Conference of the Parties. The text of any proposed amendment shall be communicated to the Parties by the Secretariat at least six months before the meeting at which it is proposed for adoption. The Secretariat shall also communicate proposed amendments to the signatories to this Convention and, for information, to the depositary.
    3. The Parties shall make every effort to reach agreement on any proposed amendment to this Convention by consensus. If all efforts at consensus have been exhausted, and no agreement reached, the amendment shall as a last resort be adopted by a three-fourths majority vote of the Parties present and voting.

    4. The amendment shall be communicated by the depositary to all Parties for ratification, acceptance or approval.
    5. Ratification, acceptance or approval of an amendment shall be notified to the depositary in writing. An amendment adopted in accordance with paragraph 3 shall enter into force for the Parties having accepted it on the ninetieth day after the date of deposit of instruments of ratification, acceptance or approval by at least three-fourths of the Parties. Thereafter, the amendment shall enter into force for any other Party on the ninetieth day after the date on which that Party deposits its instrument of ratification, acceptance or approval of the amendment.


Article 22
Adoption and amendment of annexes

    1. Annexes to this Convention shall form an integral part thereof and, unless expressly provided otherwise, a reference to this Convention constitutes at the same time a reference to any annexes thereto.
    2. Any additional annexes shall be restricted to procedural, scientific, technical or administrative matters.
    3. The following procedure shall apply to the proposal, adoption and entry into force of additional annexes to this Convention:
(a)    Additional annexes shall be proposed and adopted according to the procedure laid down in paragraphs 1, 2 and 3 of Article 21;

(b)    Any Party that is unable to accept an additional annex shall so notify the depositary, in writing, within one year from the date of communication by the depositary of the adoption of the additional annex. The depositary shall without delay notify all Parties of any such notification received. A Party may at any time withdraw a previous notification of non-acceptance in respect of any additional annex, and the annex shall thereupon enter into force for that Party subject to subparagraph (c); and
(c)    On the expiry of one year from the date of the communication by the depositary of the adoption of an additional annex, the annex shall enter into force for all Parties that have not submitted a notification in accordance with the provisions of subparagraph (b).
    4. The proposal, adoption and entry into force of amendments to Annex A, B or C shall be subject to the same procedures as for the proposal, adoption and entry into force of additional annexes to this Convention, except that an amendment to Annex A, B or C shall not enter into force with respect to any Party that has made a declaration with respect to amendment to those Annexes in accordance with paragraph 4 of Article 25, in which case any such amendment shall enter into force for such a Party on the ninetieth day after the date of deposit with the depositary of its instrument of ratification, acceptance, approval or accession with respect to such amendment.
    5. The following procedure shall apply to the proposal, adoption and entry into force of an amendment to Annex D, E or F:
(a)    Amendments shall be proposed according to the procedure in paragraphs 1 and 2 of Article 21;

(b)    The Parties shall take decisions on an amendment to Annex D, E or F by consensus; and

(c)    A decision to amend Annex D, E or F shall forthwith be communicated to the Parties by the depositary. The amendment shall enter into force for all Parties on a date to be specified in the decision.
    6. If an additional annex or an amendment to an annex is related to an amendment to this Convention, the additional annex or amendment shall not enter into force until such time as the amendment to the Convention enters into force.

Article 23
Right to vote

    1. Each Party to this Convention shall have one vote, except as provided for in paragraph 2.

    2. A regional economic integration organization, on matters within its competence, shall exercise its right to vote with a number of votes equal to the number of its member States that are Parties to this Convention. Such an organization shall not exercise its right to vote if any of its member States exercises its right to vote, and vice versa.

Article 24
Signature

    This Convention shall be open for signature at Stockholm by all States and regional economic integration organizations on 23 May 2001, and at the United Nations Headquarters in New York from 24 May 2001 to 22 May 2002.

Article 25
Ratification, acceptance, approval or accession

    1. This Convention shall be subject to ratification, acceptance or approval by States and by regional economic integration organizations. It shall be open for accession by States and by regional economic integration organizations from the day after the date on which the Convention is closed for signature. Instruments of ratification, acceptance, approval or accession shall be deposited with the depositary.
    2. Any regional economic integration organization that becomes a Party to this Convention without any of its member States being a Party shall be bound by all the obligations under the Convention. In the case of such organizations, one or more of whose member States is a Party to this Convention, the organization and its member States shall decide on their respective responsibilities for the performance of their obligations under the Convention. In such cases, the organization and the member States shall not be entitled to exercise rights under the Convention concurrently.
    3. In its instrument of ratification, acceptance, approval or accession, a regional economic integration organization shall declare the extent of its competence in respect of the matters governed by this Convention. Any such organization shall also inform the depositary, who shall in turn inform the Parties, of any relevant modification in the extent of its competence.
    4. In its instrument of ratification, acceptance, approval or accession, any Party may declare that, with respect to it, any amendment to Annex A, B or C shall enter into force only upon the deposit of its instrument of ratification, acceptance, approval or accession with respect thereto.

Article 26
Entry into force

    1. This Convention shall enter into force on the ninetieth day after the date of deposit of the fiftieth instrument of ratification, acceptance, approval or accession.
    2. For each State or regional economic integration organization that ratifies, accepts or approves this Convention or accedes thereto after the deposit of the fiftieth instrument of ratification, acceptance, approval or accession, the Convention shall enter into force on the ninetieth day after the date of deposit by such State or regional economic integration organization of its instrument of ratification, acceptance, approval or accession.
    3. For the purpose of paragraphs 1 and 2, any instrument deposited by a regional economic integration organization shall not be counted as additional to those deposited by member States of that organization.

Article 27
Reservations

    No reservations may be made to this Convention.

Article 28
Withdrawal

    1. At any time after three years from the date on which this Convention has entered into force for a Party, that Party may withdraw from the Convention by giving written notification to the depositary.
    2. Any such withdrawal shall take effect upon the expiry of one year from the date of receipt by the depositary of the notification of withdrawal, or on such later date as may be specified in the notification of withdrawal.

Article 29
Depositary

    The Secretary-General of the United Nations shall be the depositary of this Convention.

Article 30
Authentic texts

    The original of this Convention, of which the Arabic, Chinese, English, French, Russian and Spanish texts are equally authentic, shall be deposited with the Secretary-General of the United Nations.

IN WITNESS WHEREOF the undersigned, being duly authorized to that effect, have signed this Convention.

Done at Stockholm on this twenty-second day of May, two thousand and one.

Viðauki A.
EYÐING
I. hluti.


Efni Starfsemi Sérstök undanþága
Aldrín*
CAS-nr.:
309-00-2
Framleiðsla Engin
Notkun Staðbundið útsníklaeitur
Skordýraeitur
Klórdan*
CAS-nr.:
57-74-9
Framleiðsla Skv. heimild aðila í skránni
Notkun Staðbundið útsníklaeitur
Skordýraeitur
Hvítmauraeitur
Hvítmauraeitur í byggingum og stíflum
Hvítmauraeitur í vegum
Aukefni í krossviðarlími
Díeldrín*
CAS-nr.:
60-57-1
Framleiðsla Engin
Notkun Í landbúnaði
Endrín*
CAS-nr.:
72-20-8
Framleiðsla Engin
Notkun Engin
Heptaklór*
CAS-nr.:
76-44-8
Framleiðsla Engin
Notkun Hvítmauraeitur
Hvítmauraeitur í burðarvirkjum húsa
Hvítmauraeitur (neðanjarðar)
Viðarvörn
Í notkun í kapalstokkum neðanjarðar
Hexaklór-
bensen
CAS-nr.:
118-74-1
Framleiðsla Skv. heimild aðila í skránni
Notkun Milliefni
Leysiefni í plöntuvarnarefnum
Milliefni notuð staðbundið í lokuðu kerfi
Mírex*
CAS-nr.:
2385-85-5
Framleiðsla Skv. heimild til aðila í skránni
Notkun Hvítmauraeitur
Efni Starfsemi Sérstök undanþága
Toxafen*
CAS-nr.:
8001-35-2
Framleiðsla Engin
Notkun Engin
Fjölklóruð
bífenýl
(PCB)*
Framleiðsla Engin
Notkun Hlutir í notkun skv. ákvæðum II. hluta þessa viðauka.

Athugasemdir:

i)    Ef annað er ekki tilgreint í samningi þessum skal litið svo á að ekki beri að skrá efni, sem koma fyrir sem óáformuð snefilaðskotaefni í framleiðsluvörum og hlutum, í viðauka þennan.
ii)    Athugasemd þessi telst ekki sérstök undanþága sem gildir um tiltekna framleiðslu og notkun í skilningi 2. mgr. 3. gr. Líta skal svo á að ekki beri að skrá í viðauka þennan efni, sem koma fyrir sem innihaldsefni í hlutum sem eru framleiddir eða eru þegar í notkun fyrir þann dag eða á þeim degi sem viðkomandi skuldbinding öðlast gildi, að því er varðar það efni, enda hafi aðili tilkynnt skrifstofunni að tiltekin tegund hlutar sé áfram í notkun á landsvæði hans. Skrifstofan skal sjá til þess að slíkar tilkynningar séu aðgengilegar almenningi.
iii)    Þessi athugasemd, sem gildir ekki um efni sem eru stjörnumerkt í efnadálknum í I. hluta þessa viðauka, telst ekki sérstök undanþága sem gildir um tiltekna framleiðslu og notkun í skilningi 2. mgr. 3. gr. Að því gefnu að ekki sé gert ráð fyrir að umtalsvert magn efnisins nái til manna og umhverfisins meðan á framleiðslu og notkun milliefnis stendur, sem er staðbundið í lokuðu kerfi, getur aðili, eftir að hafa tilkynnt skrifstofunni um það, heimilað framleiðslu og notkun efnis sem er skráð í þennan viðauka sem milliefni og notað staðbundið í lokuðu kerfi og er efnafræðilega ummyndað við framleiðslu á öðrum efnum sem, miðað við forsendur í 1. mgr. í viðauka D, sýna ekki eiginleika þrávirkra lífrænna efna. Tilkynningin skal hafa að geyma upplýsingar eða raunhæfa áætlun um heildarframleiðslu og notkun slíks efnis, svo og upplýsingar um eðli ferlisins innan staðbundna lokaða kerfisins, meðal annars um magn hvers kyns óummyndaðrar og óáformaðrar snefilmengunar upphafsefnis þrávirka lífræna efnisins í hinni endanlegu vöru. Þessi verklagsregla gildir nema annað sé tekið fram í þessum viðauka. Skrifstofan skal sjá til þess að slíkar tilkynningar séu aðgengilegar þingi aðila og almenningi. Slík framleiðsla eða notkun telst ekki framleiðsla eða notkun samkvæmt undanþágu sem gildir um tiltekna framleiðslu og notkun. Slíkri framleiðslu og notkun skal hætt að loknu 10 ára tímabili, nema aðilinn, sem um ræðir, skili inn nýrri tilkynningu til skrifstofunnar, en þá framlengist tímabilið um 10 ár til viðbótar, nema þing aðila ákveði annað að undangenginni athugun á framleiðslunni og notkuninni. Tilkynningarferlið má endurtaka.




iv)    Aðilum er heimilt að beita öllum sérstökum undanþágum í viðauka þessum að því tilskildu að þeir hafi skráð undanþágur að því er þær varðar í samræmi við 4. gr., með þeirri undantekningu að notkun fjölklóraðra bífenýla (PCB) í hlutum, sem eru í notkun í samræmi við ákvæði II. hluta þessa viðauka, er öllum aðilum heimil.

II. hluti.
Fjölklóruð bífenýl.

    Sérhver aðili skal:
a)    í því augnamiði að stöðva notkun fjölklóraðra bífenýla í búnaði (t.d. spennubreytum, þéttum eða öðrum geymum er innihalda efnin í fljótandi formi) fyrir árið 2025, með fyrirvara um endurmat af hálfu þings aðila, grípa til aðgerða í samræmi við eftirfarandi forgangsröðun:
    i)        beita ákveðnum aðgerðum til að leita uppi, merkja og taka úr notkun búnað sem inniheldur meira en 10% fjölklóraðra bífenýla og meira en fimm lítra af þeim,
    ii)    beita ákveðnum aðgerðum til að leita uppi, merkja og taka úr notkun búnað sem inniheldur meira en 0,05% fjölklóraðra bífenýla og meira en fimm lítra af þeim,
    iii)    leitast við að leita uppi og taka úr notkun búnað sem inniheldur meira en 0,005% fjölklóraðra bífenýla og meira en 0,05 lítra af þeim;
b)    stuðla að eftirfarandi ráðstöfunum til þess að draga úr váhrifum og áhættu í þeim tilgangi að hafa stjórn á notkun fjölklóraðra bífenýla í samræmi við forgangsröðina í a-lið:
    i)        nota efnin einungis í heilum og ólekum búnaði og aðeins á svæðum þar sem áhættu vegna losunar út í umhverfið má halda í lágmarki og bæta úr með skjótum hætti,
    ii)    nota þau ekki í búnaði á svæðum sem tengjast framleiðslu og vinnslu matvæla eða dýrafóðurs,
    iii)    við notkun í byggð, meðal annars í skólum og sjúkrahúsum, gera allar raunhæfar ráðstafanir til þess að verjast rafmagnsbilunum sem leitt gætu til eldsvoða og gera reglulegar lekaprófanir á búnaðinum;
c)    þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 3. gr., tryggja að búnaður, sem inniheldur fjölklóruð bífenýl, sbr. a-lið, sé ekki fluttur út eða inn nema til förgunar með vistvænum hætti;


d)    ekki leyfa endurheimt vökva sem innihalda meira magn fjölklóraðra bífenýla en 0,005% til endurnotkunar í öðrum búnaði, nema þegar um er að ræða viðhald og þjónustu;
e)    grípa til markvissra aðgerða í þeim tilgangi að stuðla að vistvænni meðhöndlun vökva sem innihalda fjölklóruð bífenýl og búnaðar sem er mengaður fjölklóruðum bífenýlum þar sem innihald fjölklóraðra bífenýla er yfir 0,005%, í samræmi við 1. mgr. 6 gr. og eins fljótt og auðið er en þó eigi síðar en árið 2028, með fyrirvara um endurmat af hálfu þings aðila;

f)    í stað þess sem segir í athugasemd ii) í I. hluta þessa viðauka, kappkosta að leita uppi aðra hluti sem innihalda meira en 0,005% fjölklóraðra bífenýla (t.d. kapalslíður, verkað þéttiefni og málaða hluti) og meðhöndla þá í samræmi við 1. mgr. 6. gr.;
g)    skila skýrslu um framvindu eyðingar fjölklóraðra bífenýla á fimm ára fresti og leggja hana fyrir þing aðila í samræmi við 15. gr.;

h)    skýrslurnar, sem er lýst í g-lið, skulu, eftir því sem við á, teknar til umfjöllunar á þingi aðila þegar endurmat þess á fjölklóruðu bífenýli fer fram. Þing aðila skal endurmeta framvindu eyðingar fjölklóraðra bífenýla á fimm ára fresti, eða með öðrum fresti, eftir því sem við á, að teknu tilliti til fyrrnefndra skýrslna.

Annex A
ELIMINATION
Part I

Chemical Activity Specific exemption
Aldrin*
CAS No:
309-00-2
Production None
Use Local ectoparasiticide
Insecticide
Chlordane*
CAS No:
57-74-9
Production As allowed for the Parties listed in the
Register
Use Local ectoparasiticide
Insecticide
Termiticide
Termiticide in buildings and dams
Termiticide in roads
Additive in plywood adhesives

Dieldrin*
CAS No:
60-57-1
Production None
Use In agricultural operations
Endrin*
CAS No:
72-20-8
Production None
Use None
Heptachlor*
CAS No:
76-44-8
Production None
Use Termiticide
Termiticide in structures of houses
Termiticide (subterranean)
Wood treatment
In use in underground cable boxes
Hexachloro-
benzene
CAS No:
118-74-1
Production As allowed for the Parties listed in the
Register
Use Intermediate
Solvent in pesticide
Closed system site limited intermediate
Mirex*
CAS No:
2385-85-5
Production As allowed for the Parties listed in the
Register
Use Termiticide
Chemical Activity Specific exemption
Toxaphene*
CAS No:
8001-35-2
Production None
Use None
Poly-
chlorinated
Biphenyls
(PCB)*
Production None
Use Articles in use in accordance with the
provisions of Part II of this Annex

Notes:

(i)    Except as otherwise specified in this Convention, quantities of a chemical occurring as unintentional trace contaminants in products and articles shall not be considered to be listed in this Annex;
(ii)    This note shall not be considered as a production and use specific exemption for purposes of paragraph 2 of Article 3. Quantities of a chemical occurring as constituents of articles manufactured or already in use before or on the date of entry into force of the relevant obligation with respect to that chemical, shall not be considered as listed in this Annex, provided that a Party has notified the Secretariat that a particular type of article remains in use within that Party. The Secretariat shall make such notifications publicly available;

(iii)    This note, which does not apply to a chemical that has an asterisk following its name in the Chemical column in Part I of this Annex, shall not be considered as a production and use specific exemption for purposes of paragraph 2 of Article 3. Given that no significant quantities of the chemical are expected to reach humans and the environment during the production and use of a closed-system site-limited intermediate, a Party, upon notification to the Secretariat, may allow the production and use of quantities of a chemical listed in this Annex as a closed-system site-limited intermediate that is chemically transformed in the manufacture of other chemicals that, taking into consideration the criteria in paragraph 1 of Annex D, do not exhibit the characteristics of persistent organic pollutants. This notification shall include information on total production and use of such chemical or a reasonable estimate of such information and information regarding the nature of the closed-system site-limited process including the amount of any non-transformed and unintentional trace contamination of the persistent organic pollutant-starting material in the final product. This procedure applies except as otherwise specified in this Annex. The Secretariat shall make such notifications available to the Conference of the Parties and to the public. Such production or use shall not be considered a production or use specific exemption. Such production and use shall cease after a ten-year period, unless the Party concerned submits a new notification to the Secretariat, in which case the period will be extended for an additional ten years unless the Conference of the Parties, after a review of the production and use decides otherwise. The notification procedure can be repeated;
(iv)    All the specific exemptions in this Annex may be exercised by Parties that have registered exemptions in respect of them in accordance with Article 4 with the exception of the use of polychlorinated biphenyls in articles in use in accordance with the provisions of Part II of this Annex, which may be exercised by all Parties.

Part II
Polychlorinated biphenyls

    Each Party shall:
(a)    With regard to the elimination of the use of polychlorinated biphenyls in equipment (e.g. transformers, capacitors or other receptacles containing liquid stocks) by 2025, subject to review by the Conference of the Parties, take action in accordance with the following priorities:
    (i)    Make determined efforts to identify, label and remove from use equipment containing greater than 10 per cent polychlorinated biphenyls and volumes greater than 5 litres;
    (ii)    Make determined efforts to identify, label and remove from use equipment containing greater than 0.05 per cent polychlorinated biphenyls and volumes greater than 5 litres;
    (iii)    Endeavour to identify and remove from use equipment containing greater than 0.005 percent polychlorinated biphenyls and volumes greater than 0.05 litres;
(b)    Consistent with the priorities in subparagraph (a), promote the following measures to reduce exposures and risk to control the use of polychlorinated biphenyls:
    (i)    Use only in intact and non-leaking equipment and only in areas where the risk from environmental release can be minimised and quickly remedied;
    (ii)    Not use in equipment in areas associated with the production or processing of food or feed;
    (iii)    When used in populated areas, including schools and hospitals, all reasonable measures to protect from electrical failure which could result in a fire, and regular inspection of equipment for leaks;
(c)    Notwithstanding paragraph 2 of Article 3, ensure that equipment containing polychlorinated biphenyls, as described in subparagraph (a), shall not be exported or imported except for the purpose of environmentally sound waste management;
(d)    Except for maintenance and servicing operations, not allow recovery for the purpose of reuse in other equipment of liquids with polychlorinated biphenyls content above 0.005 per cent;
(e)    Make determined efforts designed to lead to environmentally sound waste management of liquids containing polychlorinated biphenyls and equipment contaminated with polychlorinated biphenyls having a polychlorinated biphenyls content above 0.005 per cent, in accordance with paragraph 1 of Article 6, as soon as possible but no later than 2028, subject to review by the Conference of the Parties;
(f)    In lieu of note (ii) in Part I of this Annex, endeavour to identify other articles containing more than 0.005 per cent polychlorinated biphenyls (e.g. cable-sheaths, cured caulk and painted objects) and manage them in accordance with paragraph 1 of Article 6;
(g)    Provide a report every five years on progress in eliminating polychlorinated biphenyls and submit it to the Conference of the Parties pursuant to Article 15;
(h)    The reports described in subparagraph (g) shall, as appropriate, be considered by the Conference of the Parties in its reviews relating to polychlorinated biphenyls. The Conference of the Parties shall review progress towards elimination of polychlorinated biphenyls at five year intervals or other period, as appropriate, taking into account such reports.

Viðauki B.
TAKMÖRKUN
I. hluti.


Efni Starfsemi Viðurkenndur tilgangur eða sérstök undanþága
DDT
(1,1,1-tríklóró-2,2-bis(4-klórófenýl)etan)
CAS-nr.:
50-29-3
Framleiðsla Viðurkenndur tilgangur:
Notkun við smitvarnir í samræmi við II. hluta þessa viðauka.
Sérstök undanþága:
Milliefni í framleiðslu díkófóls
Milliefni
Notkun Viðurkenndur tilgangur:
Smitvarnir í samræmi við II. hluta þessa viðauka.
Sérstök undanþága:
Framleiðsla díkófóls
Milliefni

Athugasemdir:

i)    Ef annað er ekki tilgreint í samningi þessum skal litið svo á að ekki beri að skrá í viðauka þennan það magn efnis sem fyrir kemur sem óáformað snefilaðskotaefni í framleiðsluvörum og hlutum.

ii)    Athugasemd þessi telst ekki sérstök undanþága sem gildir um tiltekna framleiðslu og notkun í skilningi 2. mgr. 3. gr. Líta skal svo á að ekki beri að skrá í viðauka þennan efni, sem fyrir koma sem innihaldsefni í hlutum sem eru framleiddir eða eru þegar í notkun fyrir þann dag eða á þeim degi sem viðkomandi skuldbinding öðlast gildi, að því er varðar það efni, enda hafi aðili tilkynnt skrifstofunni að tiltekin tegund hluta sé enn í notkun á landsvæði hans. Skrifstofan skal sjá til þess að slíkar tilkynningar séu aðgengilegar almenningi.
iii)    Athugasemd þessi telst ekki sérstök undanþága sem gildir um tiltekna framleiðslu og notkun í skilningi 2. mgr. 3. gr. Að því gefnu að ekki sé gert ráð fyrir að umtalsvert magn efnisins nái til manna og umhverfisins meðan á framleiðslu og notkun milliefnis stendur, sem er staðbundið í lokuðu kerfi, getur aðili, eftir að hafa tilkynnt skrifstofunni um það, heimilað framleiðslu og notkun efnis sem er skráð í þennan viðauka sem milliefni og notað staðbundið í lokuðu kerfi og er efnafræðilega ummyndað við framleiðslu á öðrum efnum sem, miðað við forsendur í 1. mgr. í viðauka D, sýna ekki eiginleika þrávirkra lífrænna efna. Tilkynningin skal hafa að geyma upplýsingar eða raunhæfa áætlun um heildarframleiðslu og notkun slíks efnis, svo og upplýsingar um eðli ferlisins innan staðbundna lokaða kerfisins, meðal annars um magn hvers kyns óummyndaðrar og óáformaðrar snefilmengunar upphafsefnis þrávirka lífræna efnisins í hinni endanlegu vöru. Þessi verklagsregla gildir nema annað sé tekið fram í þessum viðauka. Skrifstofan skal sjá til þess að slíkar tilkynningar séu aðgengilegar þingi aðila og almenningi. Slík framleiðsla eða notkun telst ekki framleiðsla eða notkun samkvæmt undanþágu sem gildir um tiltekna framleiðslu og notkun. Slíkri framleiðslu og notkun skal hætt að loknu 10 ára tímabili, nema aðilinn, sem um ræðir, skili inn nýrri tilkynningu til skrifstofunnar, en þá framlengist tímabilið um 10 ár til viðbótar, nema þing aðila ákveði annað að undangenginni athugun á framleiðslunni og notkuninni. Tilkynningarferlið má endurtaka.

iv)    Öllum sérstökum undanþágum í viðauka þessum er þeim aðilum heimilt að beita sem hafa skráð sig fyrir þeim í samræmi við 4. gr.

II. hluti.
DDT (1,1,1-tríklóró-2,2-bis(4-klórófenýl)etan).


    1. Framleiðsla og notkun DDT skal stöðvuð nema hjá þeim aðilum sem tilkynnt hafa skrifstofunni um þá ætlun sína að framleiða og/eða nota það. DDT-skrá er hér með stofnuð og skal hún aðgengileg almenningi. Skrifstofan heldur DDT-skrána.

    2. Hver sá aðili, sem framleiðir og/eða notar DDT, skal takmarka slíka framleiðslu og/eða notkun við smitvarnir í samræmi við tilmæli og leiðbeiningar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um notkun DDT og aðeins þegar önnur efni sem eru örugg fyrir viðkomandi stað, skilvirk og á viðráðanlegu verði eru ekki tiltæk viðkomandi aðila.
    3. Ákveði aðili, sem ekki er talinn upp í DDT-skránni, að hann þurfi DDT til smitvarna skal hann tilkynna skrifstofunni um það, svo fljótt sem auðið er, í því skyni að fá nafni sínu bætt í DDT-skrána þegar í stað. Hann skal jafnframt senda tilkynningu til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
    4. Sérhver aðili, sem notar DDT, skal á þriggja ára fresti láta skrifstofunni og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni í té upplýsingar um það magn sem notað hefur verið, skilyrði fyrir notkuninni og gildi hennar fyrir sjúkdómavarnir sínar, með þeim hætti sem þing aðila ákveður í samráði við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina.
    5. Með það að markmiði að minnka, og að endingu stöðva, notkun DDT skal þing aðila hvetja til þess:
a)    að hver sá aðili, sem notar DDT, semji og hrindi í framkvæmd aðgerðaáætlun sem hluta af framkvæmdaáætluninni sem er lýst í 7. gr. Slík aðgerðaáætlun skal m.a. fela í sér:
    i)        þróun eftirlitskerfa og annarra úrræða til þess að tryggja að notkun DDT takmarkist við smitvarnir,
    ii)    að taka í notkun viðeigandi framleiðsluvörur og framkvæma aðferðir og áætlanir sem komið geta í staðinn fyrir notkun DDT, meðal annars áætlanir til að koma í veg fyrir ónæmi, til að tryggja áframhaldandi virkni slíkra valkosta,
    iii)    ráðstafanir til þess að efla heilsugæslu og draga úr nýgengi sjúkdómsins;
b)    að aðilar stuðli eftir mætti að rannsóknum og þróun á öðrum öruggum kemískum og ókemískum framleiðsluvörum, aðferðum og áætlunum fyrir aðila sem nota DDT, þar sem tekið er mið af aðstæðum í viðkomandi löndum og þar sem markmiðið er að draga úr mannlegum og efnahagslegum byrðum vegna sjúkdóma. Meðal atriða sem leggja ber áherslu á þegar íhugaðir eru aðrir kostir, eða samsetningar kosta, eru áhættan fyrir heilsu manna og afleiðingarnar fyrir umhverfið. Raunhæfir valkostir í stað DDT skulu hafa í för með sér minni áhættu fyrir heilsu manna og umhverfið, hæfa sjúkdómavörnum við þær aðstæður sem ríkja hjá viðkomandi aðilum og vera studdir eftirlitsgögnum.
    6. Þegar á fyrsta fundi sínum, og að minnsta kosti á þriggja ára fresti þar á eftir, skal þing aðila, í samráði við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, leggja mat á áframhaldandi þörf á DDT til smitvarna á grundvelli tiltækra vísindalegra, tæknilegra, umhverfislegra og efnahagslegra upplýsinga, meðal annars:
a)    um framleiðslu og notkun DDT og skilyrðin sem sett eru fram í 2. mgr.;
b)    um tilvist, nothæfi og framkvæmd valkosta í stað DDT; og
c)    um framvindu þess að efla getu landa til þess að skipta með öruggum hætti yfir í slíka valkosti og reiða sig þá.
    7. Aðila er hvenær sem er heimilt, með skriflegri tilkynningu til skrifstofunnar, að láta strika nafn sitt út úr DDT-skránni. Afturköllunin öðlast gildi þann dag sem er tilgreindur í tilkynningunni.

Annex B
RESTRICTION
Part I


Chemical Activity Acceptable
purpose or specific
exemption
DDT
(1,1,1-trichloro-2,2-bis(4-chlorophenyl)
ethane)
CAS No:
50-29-3
Production Acceptable purpose:
Disease vector control use in accordance with Part II of this Annex
Specific exemption:
Intermediate in production of dicofol
Intermediate
Use Acceptable purpose:
Disease vector control in accordance
with Part II of this Annex
Specific exemption:
Production of dicofol
Intermediate

Notes:

(i)    Except as otherwise specified in this Convention, quantities of a chemical occurring as unintentional trace contaminants in products and articles shall not be considered to be listed in this Annex;
(ii)    This note shall not be considered as a production and use acceptable purpose or specific exemption for purposes of paragraph 2 of Article 3. Quantities of a chemical occurring as constituents of articles manufactured or already in use before or on the date of entry into force of the relevant obligation with respect to that chemical, shall not be considered as listed in this Annex, provided that a Party has notified the Secretariat that a particular type of article remains in use within that Party. The Secretariat shall make such notifications publicly available;
(iii)    This note shall not be considered as a production and use specific exemption for purposes of paragraph 2 of Article 3. Given that no significant quantities of the chemical are expected to reach humans and the environment during the production and use of a closed-system site-limited intermediate, a Party, upon notification to the Secretariat, may allow the production and use of quantities of a chemical listed in this Annex as a closed-system site-limited intermediate that is chemically transformed in the manufacture of other chemicals that, taking into consideration the criteria in paragraph 1 of Annex D, do not exhibit the characteristics of persistent organic pollutants. This notification shall include information on total production and use of such chemical or a reasonable estimate of such information and information regarding the nature of the closed-system site-limited process including the amount of any non-transformed and unintentional trace contamination of the persistent organic pollutant-starting material in the final product. This procedure applies except as otherwise specified in this Annex. The Secretariat shall make such notifications available to the Conference of the Parties and to the public. Such production or use shall not be considered a production or use specific exemption. Such production and use shall cease after a ten-year period, unless the Party concerned submits a new notification to the Secretariat, in which case the period will be extended for an additional ten years unless the Conference of the Parties, after a review of the production and use decides otherwise. The notification procedure can be repeated;
(iv)    All the specific exemptions in this Annex may be exercised by Parties that have registered in respect of them in accordance with Article 4.

Part II
DDT (1,1,1-trichloro-2,2-bis(4-chlorophenyl)ethane)

    1. The production and use of DDT shall be eliminated except for Parties that have notified the Secretariat of their intention to produce and/or use it. A DDT Register is hereby established and shall be available to the public. The Secretariat shall maintain the DDT Register.
    2. Each Party that produces and/or uses DDT shall restrict such production and/or use for disease vector control in accordance with the World Health Organization recommendations and guidelines on the use of DDT and when locally safe, effective and affordable alternatives are not available to the Party in question.
    3. In the event that a Party not listed in the DDT Register determines that it requires DDT for disease vector control, it shall notify the Secretariat as soon as possible in order to have its name added forthwith to the DDT Register. It shall at the same time notify the World Health Organization.
    4. Every three years, each Party that uses DDT shall provide to the Secretariat and the World Health Organization information on the amount used, the conditions of such use and its relevance to that Party's disease management strategy, in a format to be decided by the Conference of the Parties in consultation with the World Health Organization.
    5. With the goal of reducing and ultimately eliminating the use of DDT, the Conference of the Parties shall encourage:
(a)    Each Party using DDT to develop and implement an action plan as part of the implementation plan specified in Article 7. That action plan shall include:
    (i)    Development of regulatory and other mechanisms to ensure that DDT use is restricted to disease vector control;
    (ii)    Implementation of suitable alternative products, methods and strategies, including resistance management strategies to ensure the continuing effectiveness of these alternatives;

    (iii)    Measures to strengthen health care and to reduce the incidence of the disease.
(b)    The Parties, within their capabilities, to promote research and development of safe alternative chemical and non-chemical products, methods and strategies for Parties using DDT, relevant to the conditions of those countries and with the goal of decreasing the human and economic burden of disease. Factors to be promoted when considering alternatives or combinations of alternatives shall include the human health risks and environmental implications of such alternatives. Viable alternatives to DDT shall pose less risk to human health and the environment, be suitable for disease control based on conditions in the Parties in question and be supported with monitoring data.
    6. Commencing at its first meeting, and at least every three years thereafter, the Conference of the Parties shall, in consultation with the World Health Organization, evaluate the continued need for DDT for disease vector control on the basis of available scientific, technical, environmental and economic information, including:
(a)    The production and use of DDT and the conditions set out in paragraph 2;
(b)    The availability, suitability and implementation of the alternatives to DDT; and
(c)    Progress in strengthening the capacity of countries to transfer safely to reliance on such alternatives.
    7. A Party may, at any time, withdraw its name from the DDT Registry upon written notification to the Secretariat. The withdrawal shall take effect on the date specified in the notification.

Viðauki C.
EFNI VEGNA FRAMLEIÐSLU SEM
ER EKKI AF ÁSETNINGI
I. hluti.
Þrávirk lífræn efni sem
falla undir kröfur 5. gr.

    Viðauki þessi gildir um eftirfarandi þrávirk lífræn efni þegar þau verða til og eru losuð af manna völdum án þess að um ásetning sé að ræða.

Efni
Fjölklóruð díbensó-p-díoxín og díbensófúrön (PCDD/PCDF)
Hexaklórbensen (HCB) (CAS-nr.: 118-74-1)
Fjölklóruð bífenýl (PCB)

II. hluti.
Uppsprettuflokkar.

    Fjölklóruð díbensó-p-díoxín og díbensófúrön, hexaklórbensen og fjölklóruð bífenýl eru efni sem myndast án þess að ætlunin sé að mynda þau og losna í varmaferlum þar sem lífræn efni og klór koma við sögu, sem afleiðing af ófullkomnum bruna eða efnahvörfum. Eftirfarandi uppsprettuflokkar í iðnaði geta valdið tiltölulega mikilli myndun þessara efna og losun þeirra út í umhverfið:

a)    sorpbrennsluofnar, meðal annars sambrennsluofnar til brennslu úrgangs frá sveitarfélögum eða heilbrigðisstofnunum, brennslu spilliefna eða seyru;
b)    sementsofnar sem brenna spilliefni;
c)    framleiðsla pappírskvoðu með notkun klórs eða klórmyndandi efna til bleikingar;

d)    eftirfarandi varmaferli í málmvinnsluiðnaði:

    i)        endurvinnsla kopars,
    ii)    sindurverksmiðjur í járn- og stáliðnaði,
    iii)    endurvinnsla áls,
    iv)    endurvinnsla sínks.

III. hluti.
Uppsprettuflokkar.

    Fjölklóruð díbensó-p-díoxín og díbensófúrön, hexaklórbensen og fjölklóruð bífenýl kunna einnig að myndast án þess að um ásetning sé að ræða og losna út í umhverfið frá eftirfarandi uppsprettuflokkum, sem eru meðal annars:
a)    opin brennsla úrgangs, þ.m.t. brennsla á urðunarstöðum;
b)    varmaferli í málmvinnsluiðnaði sem ekki er getið um í II. hluta;
c)    brennsla á heimilum;
d)    brennsla jarðefnaeldsneytis í kötlum veitustofnana og iðnfyrirtækja;
e)    brennslubúnaður fyrir timbur og annað eldsneyti úr lífmassa;
f)    sérstök efnaframleiðsluferli þar sem þrávirk lífræn efni, sem verða til án þess að um ásetning sé að ræða, losna, einkum framleiðsla klórfenóls og klóraníls;
g)    líkbrennslur;
h)    vélknúin ökutæki, einkum þau sem brenna bensíni sem inniheldur blý;
i)    förgun dýraskrokka;
j)    textíl- og leðurlitun (með klóraníli) og fullvinnsla (með basaútdrætti);
k)    brotajárnsverksmiðjur sem vinna úr sér gengin ökutæki;
l)    glóðarbruni koparkapla;
m)    hreinsunarstöðvar fyrir úrgangsolíu.

IV. hluti.
Skilgreiningar.

    1. Í viðauka þessum gilda eftirfarandi skilgreiningar:
a)    „fjölklóruð bífenýl“ merkir arómatísk efnasambönd sem myndast þannig að í stað vetnisfrumeindanna á bífenýlsameindinni (tveir bensenhringir tengdir saman með einföldu kolefnis-kolefnis efnatengi) geta komið allt að 10 klórsameindir; og
b)    „fjölklóruð díbensó-p-díoxín“ og „fjölklóruð díbensófúrön“ merkja þríhringja arómatísk efnasambönd sem eru mynduð af tveimur bensenhringjum sem tengdir eru með tveimur súrefnisfrumeindum í fjölklóruðum díbensó-p-díoxínum og með einni súrefnisfrumeind og einu kolefnis-kolefnis efnatengi í fjölklóruðum díbensófúrönum og sem eru þannig að í stað vetnisfrumeindanna geta komið allt að átta klórfrumeindir.
    2. Í viðauka þessum eru eituráhrif fjölklóraðra díbensó-p-díoxína og díbensófúrana tilgreind með því að nota hugtakið „eiturjafngildi“ (toxic equivalency -TEQ) sem er mælieining fyrir hlutfall díoxín-líkrar eiturvirkni mismunandi afbrigða fjölklóraðra díbensó-p-díoxína og díbensófúrana og fjölklóraðra bífenýla í samanburði við 2,3,7,8-tetraklórdíbensó-p-díoxín. Eiturjafngildisstuðlar, sem eru notaðir í skilningi samnings þessa, skulu vera í samræmi við viðurkennda alþjóðlega staðla, einkum eiturjafngildisstuðla Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar vegna spendýra frá 1998 fyrir fjölklóruð díbensó-p-díoxín og díbensófúrön og fjölklóruð bífenýl í sama slétta fleti (coplanar). Styrkur er tilgreindur í eiturjafngildum.

V. hluti.
Almennar leiðbeiningar um bestu fáanlegu tækni og bestu umhverfisvenjur.

    Þessi hluti veitir almennar leiðbeiningar til aðila um hvernig skuli koma í veg fyrir eða draga úr losun þeirra efna sem talin eru upp I. hluta.

A.    Almennar forvarnir sem varða bæði bestu fáanlegu tækni og bestu umhverfisvenjur.

    Umfjöllun um leiðir til þess að koma í veg fyrir myndun og losun efnanna, sem eru talin upp í I. hluta, ætti að hafa forgang. Meðal gagnlegra aðgerða gæti verið eftirfarandi:
a)    að nota tækni sem leiðir til lítillar myndunar úrgangs;
b)    að nota hættuminni efni;
c)    að stuðla að endurheimt og endurvinnslu úrgangs og efna sem myndast og eru notuð í vinnsluferli;

d)    að skipta út hráefnum sem eru þrávirk lífræn efni eða þar sem bein tengsl eru á milli hráefnanna og losunar þrávirkra lífrænna efna frá uppsprettunum;
e)    að beita góðum starfsháttum og viðhaldsáætlunum til forvarna;
f)    að endurbæta meðhöndlun úrgangs með það að markmiði að hætta opinni brennslu og annarri óstýrðri brennslu úrgangs, meðal annars brennslu á urðunarstöðum. Við umfjöllun um tillögur um að reisa nýjar sorpeyðingarstöðvar skulu aðrar lausnir teknar til athugunar, til dæmis aðgerðir til þess að lágmarka myndun úrgangs frá sveitarfélögum og heilbrigðisstofnunum, meðal annars með endurheimt hráefna, endurnotkun, endurvinnslu, flokkun úrgangs og aukinni notkun framleiðsluvara sem valda minni úrgangsmyndun. Samfara þessari leið ætti að huga vandlega að almennum heilbrigðissjónarmiðum;
g)    að lágmarka magn þessara efna sem aðskotaefni í framleiðsluvörum;
h)    að forðast notkun klórs eða klórmyndandi efna til bleikingar.

B.    Besta fáanlega tækni.
    Hugtakinu „besta fáanlega tækni“ er ekki ætlað að vera forskrift að einhverri einni tiltekinni aðferð eða tækniaðferð heldur felst í því að tekið sé tillit til tæknilegra eiginleika tiltekins búnaðar, staðsetningar hans og aðstæðna í umhverfi hans. Viðeigandi tækni til að draga úr losun efnanna, sem getið er um í I. hluta, er almennt sú sama. Við ákvörðun bestu fáanlegu tækni ber að íhuga sérstaklega eftirfarandi þætti, bæði almennt og í einstökum tilfellum, með hliðsjón af líklegum kostnaði og ávinningi af ráðstöfunum og reglum um varúð og varnir:

a)    almenn umhugsunaratriði:
    i)        eðli, áhrif og massi þeirrar losunar sem um ræðir: tækni kann að vera breytileg eftir umfangi uppspretta,
    ii)    heimildardagsetningar nýs búnaðar eða búnaðar sem þegar er í notkun,
    iii)    tíminn sem þarf til að taka í notkun bestu fáanlegu tækni,
    iv)    magn og eðli hráefna sem notuð eru í vinnsluferlinu og hagkvæmni orkunýtingar þess,
    v)    þörfin á því að koma í veg fyrir eða lágmarka heildaráhrif losunar á umhverfið og áhættuna fyrir það,
    vi)    þörfin á að því koma í veg fyrir slys og lágmarka áhrif þeirra á umhverfið,

    vii)    nauðsyn þess að tryggja hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum,
    viii)    sambærileg vinnsluferli, aðstaða eða starfsaðferðir sem hafa verið reyndar með góðum árangri í iðnaði,
    ix)    tæknilegar framfarir og breytingar á vísindalegri þekkingu og skilningi;
b)    almennar aðgerðir til þess að draga úr losun: Þegar fjallað er um tillögur um að byggja nýja aðstöðu eða gera verulegar breytingar á aðstöðu sem fyrir er og notuð eru vinnsluferli sem losa efni, sem talin eru upp í þessum viðauka, skal lögð aðaláhersla á að kanna aðra valkosti með tilliti til vinnsluferla, tækni eða venja sem koma að svipuðu gagni en forðast myndun og losun slíkra efna. Í þeim tilvikum, þar sem ný aðstaða er byggð eða aðstöðu sem fyrir er er verulega breytt, mætti einnig, til viðbótar þeim forvarnaraðgerðum sem er lýst í kafla A í V. hluta, taka til umfjöllunar eftirfarandi aðgerðir þegar teknar eru ákvarðanir um bestu fáanlegu tækni:
    i)        notkun bættra aðferða til að hreinsa útblástur, til dæmis með hita- eða hvataoxun, rykútfellingu eða aðsogi,
    ii)    meðhöndlun leifa, fráveituvatns, úrgangs og seyru, til dæmis með hitameðferð eða með því að gera þau óvirk eða beita efnahvörfum sem afeitra þau,
    iii)    breytingar á vinnsluferlum sem leiða til minnkunar eða stöðvunar á losun, svo sem að skipta yfir í lokuð kerfi,
    iv)    breytingar á vinnsluferlum til þess að bæta bruna og koma í veg fyrir myndun þeirra efna sem eru talin upp í viðauka þessum, með því að hafa stjórn á breytum svo sem brennsluhita eða dvalartíma.

C.    Bestu umhverfisvenjur.
    Þingi aðila er heimilt að taka saman leiðbeiningar um bestu umhverfisvenjur.

Annex C
UNINTENTIONAL PRODUCTION

Part I
Persistent organic pollutants subject to the requirements of Article 5

    This Annex applies to the following persistent organic pollutants when formed and released unintentionally from anthropogenic sources:

Chemical
Polychlorinated dibenzo-p-dioxins and dibenzofurans (PCDD/PCDF)
Hexachlorobenzene (HCB) (CAS No: 118-74-1)
Polychlorinated biphenyls (PCB)

Part II
Source categories

    Polychlorinated dibenzo-p-dioxins and dibenzofurans, hexachlorobenzene and polychlorinated biphenyls are unintentionally formed and released from thermal processes involving organic matter and chlorine as a result of incomplete combustion or chemical reactions. The following industrial source categories have the potential for comparatively high formation and release of these chemicals to the environment:
(a)    Waste incinerators, including co-incinerators of municipal, hazardous or medical waste or of sewage sludge;

(b)    Cement kilns firing hazardous waste;
(c)    Production of pulp using elemental chlorine or chemicals generating elemental chlorine for bleaching;
(d)    The following thermal processes in the metallurgical industry:
    (i)    Secondary copper production;
    (ii)    Sinter plants in the iron and steel industry;
    (iii)    Secondary aluminium production;
    (iv)    Secondary zinc production.

Part III
Source categories

    Polychlorinated dibenzo-p-dioxins and dibenzofurans, hexachlorobenzene and polychlorinated biphenyls may also be unintentionally formed and released from the following source categories, including:
(a)    Open burning of waste, including burning of landfill sites;
(b)    Thermal processes in the metallurgical industry not mentioned in Part II;
(c)    Residential combustion sources;
(d)    Fossil fuel-fired utility and industrial boilers;

(e)    Firing installations for wood and other biomass fuels;
(f)    Specific chemical production processes releasing unintentionally formed persistent organic pollutants, especially production of chlorophenols and chloranil;
(g)    Crematoria;
(h)    Motor vehicles, particularly those burning leaded gasoline;
(i)    Destruction of animal carcasses;
(j)    Textile and leather dyeing (with chloranil) and finishing (with alkaline extraction);
(k)    Shredder plants for the treatment of end of life vehicles;
(l)    Smouldering of copper cables;
(m)    Waste oil refineries.

Part IV
Definitions

    1. For the purposes of this Annex:

(a)    “Polychlorinated biphenyls” means aromatic compounds formed in such a manner that the hydrogen atoms on the biphenyl molecule (two benzene rings bonded together by a single carbon-carbon bond) may be replaced by up to ten chlorine atoms; and
(b)    “Polychlorinated dibenzo-p-dioxins” and “polychlorinated dibenzofurans” are tricyclic, aromatic compounds formed by two benzene rings connected by two oxygen atoms in polychlorinated dibenzo-p-dioxins and by one oxygen atom and one carbon-carbon bond in polychlorinated dibenzofurans and the hydrogen atoms of which may be replaced by up to eight chlorine atoms.

    2. In this Annex, the toxicity of polychlorinated dibenzo-p-dioxins and dibenzofurans is expressed using the concept of toxic equivalency which measures the relative dioxin-like toxic activity of different congeners of polychlorinated dibenzo-p-dioxins and dibenzofurans and coplanar polychlorinated biphenyls in comparison to 2,3,7,8-tetrachlorodibenzo-p-dioxin. The toxic equivalent factor values to be used for the purposes of this Convention shall be consistent with accepted international standards, commencing with the World Health Organization 1998 mammalian toxic equivalent factor values for polychlorinated dibenzo-p-dioxins and dibenzofurans and coplanar polychlorinated biphenyls. Concentrations are expressed in toxic equivalents.

Part V
General guidance on best available techniques and best environmental practices

    This Part provides general guidance to Parties on preventing or reducing releases of the chemicals listed in Part I.

A.    General prevention measures relating to both best available techniques and best environmental practices
    Priority should be given to the consideration of approaches to prevent the formation and release of the chemicals listed in Part I. Useful measures could include:
(a)    The use of low-waste technology;

(b)    The use of less hazardous substances;
(c)    The promotion of the recovery and recycling of waste and of substances generated and used in a process;
(d)    Replacement of feed materials which are persistent organic pollutants or where there is a direct link between the materials and releases of persistent organic pollutants from the source;
(e)    Good housekeeping and preventive maintenance programmes;
(f)    Improvements in waste management with the aim of the cessation of open and other uncontrolled burning of wastes, including the burning of landfill sites. When considering proposals to construct new waste disposal facilities, consideration should be given to alternatives such as activities to minimize the generation of municipal and medical waste, including resource recovery, reuse, recycling, waste separation and promoting products that generate less waste. Under this approach, public health concerns should be carefully considered;

(g)    Minimization of these chemicals as contaminants in products;
(h)    Avoiding elemental chlorine or chemicals generating elemental chlorine for bleaching.

B.    Best available techniques
    The concept of best available techniques is not aimed at the prescription of any specific technique or technology, but at taking into account the technical characteristics of the installation concerned, its geographical location and the local environmental conditions. Appropriate control techniques to reduce releases of the chemicals listed in Part I are in general the same. In determining best available techniques, special consideration should be given, generally or in specific cases, to the following factors, bearing in mind the likely costs and benefits of a measure and consideration of precaution and prevention:
(a)    General considerations:
    (i)    The nature, effects and mass of the releases concerned: techniques may vary depending on source size;
    (ii)    The commissioning dates for new or existing installations;
    (iii)    The time needed to introduce the best available technique;
    (iv)    The consumption and nature of raw materials used in the process and its energy efficiency;
    (v)    The need to prevent or reduce to a minimum the overall impact of the releases to the environment and the risks to it;
    (vi)    The need to prevent accidents and to minimize their consequences for the environment;
    (vii)    The need to ensure occupational health and safety at workplaces;
    (viii)    Comparable processes, facilities or methods of operation which have been tried with success on an industrial scale;
    (ix)    Technological advances and changes in scientific knowledge and understanding.
(b)    General release reduction measures: When considering proposals to construct new facilities or significantly modify existing facilities using processes that release chemicals listed in this Annex, priority consideration should be given to alternative processes, techniques or practices that have similar usefulness but which avoid the formation and release of such chemicals. In cases where such facilities will be constructed or significantly modified, in addition to the prevention measures outlined in section A of Part V the following reduction measures could also be considered in determining best available techniques:

    (i)    Use of improved methods for flue-gas cleaning such as thermal or catalytic oxidation, dust precipitation, or adsorption;
    (ii)    Treatment of residuals, wastewater, wastes and sewage sludge by, for example, thermal treatment or rendering them inert or chemical processes that detoxify them;
    (iii)    Process changes that lead to the reduction or elimination of releases, such as moving to closed systems;
    (iv)    Modification of process designs to improve combustion and prevent formation of the chemicals listed in this Annex, through the control of parameters such as incineration temperature or residence time.

C.    Best environmental practices
    The Conference of the Parties may develop guidance with regard to best environmental practices.


Viðauki D.
UPPLÝSINGAKRÖFUR OG FLOKKUNARVIÐMIÐANIR

    1. Aðili, sem leggur fram tillögu um að skrá efni í viðauka A, B og/eða C, skal tilgreina efnið með þeim hætti sem er lýst í a-lið og veita þær upplýsingar um efnið og ummyndunarefni þess, þar sem við á, sem tengjast flokkunarviðmiðununum í b- til e-lið:


a)     efnakenni:
    i)        heiti, meðal annars viðskiptaheiti, verslunarheiti og samheiti, CAS-nr. (skráningarnúmer samkvæmt Chemical Abstracts Service), efnaheiti samkvæmt Alþjóðasamtökum um hreina og hagnýta efnafræði (IUPAC), og
    ii)    bygging, meðal annars með því að tilgreina ísómera, þar sem við á, og byggingu efnaflokksins;
b)     þrávirkni:
    i)        gögn sem sýna fram á að helmingunartími efnisins í vatni sé lengri en tveir mánuðir, eða að helmingunartími þess í jarðvegi sé lengri en sex mánuðir, eða að helmingunartími þess í seti sé meira en sex mánuðir, eða
    ii)    gögn sem sýna að efnið sé að öðru leyti nægilega þrávirkt til þess að réttlæta umfjöllun um það samkvæmt samningi þessum;
c)     uppsöfnun í lífríkinu:
    i)        gögn sem sýna að lífþéttnigildi eða uppsöfnunargildi í lagartegundum fyrir efnið sé meira en 5 000 eða, ef slík gögn liggja ekki fyrir, að log Kow sé umfram 5,

    ii)    gögn sem sýna að efnið gefi annað tilefni til þess að hafa af því áhyggjur, til dæmis mikla uppsöfnun í öðrum tegundum, mikla eiturvirkni eða visteiturhrif, eða
    iii)    eftirlitsgögn úr lífríki sem benda til þess að uppsöfnunargeta efnisins sé nægjanleg til þess að réttlæta umfjöllun um það samkvæmt samningi þessum;
d)     hætta á flutningi um langan veg í umhverfinu:

    i)        mælt magn efnisins á stöðum sem eru langt frá uppsprettum losunar þess og er hugsanlegt áhyggjuefni,
    ii)    eftirlitsgögn sem sýna að flutningur efnisins um langan veg og hugsanleg tilfærsla þess yfir í annað umhverfi, kunni að hafa átt sér stað í lofti, vatni eða með fartegundum, eða

    iii)    eiginleikar sem lúta að afdrifum efnisins í umhverfinu og/eða niðurstöður sem eru raktar til líkana sem sýna fram á að efnið geti hugsanlega borist um langan veg í lofti, vatni eða með fartegundum, með hugsanlegri færslu yfir í móttökuumhverfi sem er langt frá uppsprettu losunar þess. Fyrir efni sem flyst að verulegu marki í lofti, skal helmingunartími vera lengri en tveir dagar; og

e)     neikvæð áhrif:
    i)        ummerki um neikvæð áhrif á heilsu manna eða umhverfið sem réttlæta að efnið hljóti umfjöllun samkvæmt samningi þessum, eða

    ii)    gögn um eiturvirkni- eða visteiturhrif sem benda til hugsanlegra skaðlegra áhrifa á heilsu manna eða umhverfið.
    2.      Aðilinn, sem gerir tillögu, skal leggja fram yfirlýsingu um ástæðurnar fyrir áhyggjum sínum, sem hefur meðal annars að geyma, ef því verður komið við, samanburð milli gagna um eiturvirkni eða visteiturhrif og mælds eða áætlaðs magns efnis, sem er tilkomið vegna flutnings þess um langan veg, ásamt stuttri yfirlýsingu um þörfina fyrir alþjóðlegt eftirlit.
    3. Aðilinn, sem gerir tillögu, skal, að því marki sem unnt er og eftir mætti, veita frekari upplýsingar til stuðnings endurmati á tillögunni sem getið er um í 6. mgr. 8. gr. Við gerð slíkrar tillögu er aðilum heimilt að sækja tæknilega sérfræðiþekkingu hvert sem er.

Annex D
INFORMATION REQUIREMENTS
AND SCREENING CRITERIA

    1. A Party submitting a proposal to list a chemical in Annexes A, B and/or C shall identify the chemical in the manner described in subparagraph (a) and provide the information on the chemical, and its transformation products where relevant, relating to the screening criteria set out in subparagraphs (b) to (e):
(a)     Chemical identity:
    (i)    Names, including trade name or names, commercial name or names and synonyms, Chemical Abstracts Service (CAS) Registry number, International Union of Pure and Applied Chemistry (IUPAC) name; and
    (ii)    Structure, including specification of isomers, where applicable, and the structure of the chemical class;
(b)     Persistence:
    (i)    Evidence that the half-life of the chemical in water is greater than two months, or that its half-life in soil is greater than six months, or that its half-life in sediment is greater than six months; or
    (ii)    Evidence that the chemical is otherwise sufficiently persistent to justify its consideration within the scope of this Convention;
(c)     Bio-accumulation:
    (i)    Evidence that the bio-concentration factor or bio-accumulation factor in aquatic species for the chemical is greater than 5,000 or, in the absence of such data, that the log Kow is greater than 5;
    (ii)    Evidence that a chemical presents other reasons for concern, such as high bio-accumulation in other species, high toxicity or ecotoxicity; or
    (iii)    Monitoring data in biota indicating that the bio-accumulation potential of the chemical is sufficient to justify its consideration within the scope of this Convention;
(d)     Potential for long-range environmental transport:
    (i)    Measured levels of the chemical in locations distant from the sources of its release that are of potential concern;
    (ii)    Monitoring data showing that long-range environmental transport of the chemical, with the potential for transfer to a receiving environment, may have occurred via air, water or migratory species; or
    (iii)    Environmental fate properties and/or model results that demonstrate that the chemical has a potential for long-range environmental transport through air, water or migratory species, with the potential for transfer to a receiving environment in locations distant from the sources of its release. For a chemical that migrates significantly through the air, its half-life in air should be greater than two days; and
(e)     Adverse effects:
    (i)    Evidence of adverse effects to human health or to the environment that justifies consideration of the chemical within the scope of this Convention; or
    (ii)    Toxicity or ecotoxicity data that indicate the potential for damage to human health or to the environment.
    2. The proposing Party shall provide a statement of the reasons for concern including, where possible, a comparison of toxicity or ecotoxicity data with detected or predicted levels of a chemical resulting or anticipated from its long-range environmental transport, and a short statement indicating the need for global control.

    3. The proposing Party shall, to the extent possible and taking into account its capabilities, provide additional information to support the review of the proposal referred to in paragraph 6 of Article 8. In developing such a proposal, a Party may draw on technical expertise from any source.


Viðauki E.
UPPLÝSINGAKRÖFUR VARÐANDI ÁHÆTTULÝSINGU

    Tilgangur endurmatsins er að meta hvort efni sé líklegt, vegna flutnings um langan veg, til að leiða til verulega neikvæðra áhrifa á fólk og/eða umhverfið, þannig að alþjóðlegra aðgerða sé þörf. Í þessu skyni skal tekin saman áhættulýsing þar sem nánar eru skýrðar, og metnar, þær upplýsingar sem getið er um í viðauka D og þar sem meðal annars er að finna, að því marki sem unnt er, eftirfarandi upplýsingar:

a)    uppsprettur, meðal annars eftir því sem við á:
    i)        gögn um framleiðslu, m.a. framleiðslumagn og framleiðslustað,
    ii)    notkun, og
    iii)    losun, til dæmis tæming, tap og útstreymi;

b)    áhættumat fyrir endastað eða endastaði sem eru áhyggjuefni, meðal annars umfjöllun um eiturefnafræðilagar milliverkanir þar sem fleiri en eitt efni eiga í hlut;
c)    afdrif í umhverfinu, meðal annars gögn og upplýsingar um efna- og eðlisfræðilega eiginleika efnisins og þrávirkni þess og hvernig þessir eiginleikar tengjast flutningi í umhverfinu, tilfærslu innan og á milli umhverfishólfa, niðurbroti og ummyndun í önnur efni. Ákvörðun lífþéttni- eða lífssöfnunarstuðla miðað við mæld gildi skal liggja fyrir, nema þegar eftirlitsgögn eru talin uppfylla þessa þörf;

d)    eftirlitsgögn;
e)    váhrif á afmörkuðum svæðum, sérstaklega í ljósi flutnings um langan veg í umhverfinu, auk upplýsinga um líffræðilegt aðgengi;
f)    innlendar og alþjóðlegar áhættumatsgerðir, úttektir eða lýsingar og upplýsingar til nota við merkingar og áhættuflokkun, eftir því sem slíkt er tiltækt; og
g)    staða efnisins samkvæmt alþjóðlegum samningum.

Annex E
INFORMATION REQUIREMENTS FOR
THE RISK PROFILE

    The purpose of the review is to evaluate whether the chemical is likely, as a result of its long-range environmental transport, to lead to significant adverse human health and/or environmental effects, such that global action is warranted. For this purpose, a risk profile shall be developed that further elaborates on, and evaluates, the information referred to in Annex D and includes, as far as possible, the following types of information:
(a)    Sources, including as appropriate:
    (i)    Production data, including quantity and location;
    (ii)    Uses; and
    (iii)    Releases, such as discharges, losses and emissions;
(b)    Hazard assessment for the endpoint or endpoints of concern, including a consideration of toxicological interactions involving multiple chemicals;

(c)    Environmental fate, including data and information on the chemical and physical properties of a chemical as well as its persistence and how they are linked to its environmental transport, transfer within and between environmental compartments, degradation and transformation to other chemicals. A determination of the bio-concentration factor or bio-accumulation factor, based on measured values, shall be available, except when monitoring data are judged to meet this need;
(d)    Monitoring data;
(e)    Exposure in local areas and, in particular, as a result of long-range environmental transport, and including information regarding bio-availability;
(f)    National and international risk evaluations, assessments or profiles and labelling information and hazard classifications, as available; and

(g)    Status of the chemical under international conventions.

Viðauki F.
UPPLÝSINGAR UM FÉLAGSLEG OG EFNAHAGSLEG MÁLEFNI

    Ráðast skal í mat á hugsanlegum takmörkunarráðstöfunum vegna efna sem til greina kemur að taka upp í samning þennan, þar sem farið er yfir alla valkosti, meðal annars stjórnun og eyðingu. Í þessu skyni skulu látnar í té viðeigandi upplýsingar varðandi félagsleg og efnahagsleg atriði sem hafa ber í huga og tengjast hugsanlegum takmörkunarráðstöfunum til þess að gera þingi aðila kleift að taka ákvörðun. Slíkar upplýsingar skulu taka tilhlýðilegt mið af mismunandi getu og aðstæðum aðila og í þeim ætti að felast umfjöllun um atriðin í eftirfarandi leiðbeinandi upptalningu:

a)    áhrif og skilvirkni hugsanlegra takmörkunarráðstafana við að ná því markmiði að minnka áhættu:
    i)        tæknileg hagkvæmni, og
    ii)    kostnaður, meðal annars umhverfis- og heilbrigðiskostnaður;
b)    aðra valkosti (framleiðsluvörur og vinnsluferli):
    i)        tæknileg hagkvæmni,
    ii)    kostnaður, meðal annars umhverfis- og heilbrigðiskostnaður,
    iii)    áhrif,
    iv)    áhætta,
    v)    fáanleiki, og
    vi)    aðgengi;
c)    jákvæð og/eða neikvæð áhrif á samfélagið af því að koma á hugsanlegum takmörkunarráðstöfunum:
    i)        heilsufar, meðal annars almannaheilbrigði, umhverfisheilbrigði og hollustuhættir á vinnustöðum,
    ii)    landbúnaður, meðal annars fiskeldi og skógrækt,
    iii)    lífríki (líffræðileg fjölbreytni),
    iv)    efnahagslegir þættir,
    v)    framfarir í átt til sjálfbærrar þróunar, og

    vi)    félagslegur kostnaður;
d)    úrgangs- og förgunarmál (einkum, úreltar birgðir af varnarefnum og hreinsun mengaðra svæða):

    i)        tæknileg hagkvæmni, og
    ii)    kostnaður;
e)    aðgang að upplýsingum og uppfræðslu almennings;
f)    stöðu mála að því er varðar getu til stjórnunar og eftirlits; og
g)    hvers kyns innlendar eða svæðisbundnar stjórnaðgerðir sem gripið hefur verið til, meðal annars upplýsingar um aðra valkosti, auk annarra viðeigandi upplýsinga um áhættustjórnun.

Annex F
INFORMATION ON SOCIO-ECONOMIC CONSIDERATIONS

    An evaluation should be undertaken regarding possible control measures for chemicals under consideration for inclusion in this Convention, encompassing the full range of options, including management and elimination. For this purpose, relevant information should be provided relating to socio-economic considerations associated with possible control measures to enable a decision to be taken by the Conference of the Parties. Such information should reflect due regard for the differing capabilities and conditions among the Parties and should include consideration of the following indicative list of items:
(a)    Efficacy and efficiency of possible control measures in meeting risk reduction goals:

    (i)    Technical feasibility; and
    (ii)    Costs, including environmental and health costs;
(b)    Alternatives (products and processes):
    (i)    Technical feasibility;
    (ii)    Costs, including environmental and health costs;
    (iii)    Efficacy;
    (iv)    Risk;
    (v)    Availability; and
    (vi)    Accessibility;
(c)    Positive and/or negative impacts on society of implementing possible control measures:

    (i)    Health, including public, environmental and occupational health;

    (ii)    Agriculture, including aquaculture and forestry;
    (iii)    Biota (biodiversity);
    (iv)    Economic aspects;
    (v)    Movement towards sustainable development; and
    (vi)    Social costs;
(d)    Waste and disposal implications (in particular, obsolete stocks of pesticides and clean-up of contaminated sites):
    (i)    Technical feasibility; and
    (ii)    Cost;
(e)    Access to information and public education;

(f)    Status of control and monitoring capacity; and

(g)    Any national or regional control actions taken, including information on alternatives, and other relevant risk management information.