Ferill 684. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1100  —  684. mál.
Tillaga til þingsályktunarum aðild að Kýótó-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

(Lögð fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


    Alþingi ályktar að heimila að Ísland gerist aðili að Kýótó-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem gerð var 10. desember 1997.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til þess að Ísland gerist aðili að Kýótó-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem gerð var 10. desember 1997. Bókunin er prentuð sem fylgiskjal I með tillögu þessari.
    Meðalhiti við yfirborð jarðar er nú um 15°C. Þetta er um 33 gráðum hærra en ef náttúrulegra gróðurhúsaáhrifa nyti ekki við. Án þeirra væri jörðin með öllu óbyggileg og meðalhiti -18°C. Gróðurhúsaáhrifin sjálf eru því ekki bölvaldur, heldur eru þau þvert á móti nauðsynleg til að skapa lífvænleg skilyrði á jörðinni. Styrkur þeirra lofttegunda sem valda gróðurhúsaáhrifum hefur hins vegar aukist verulega í andrúmsloftinu. Þessi aukning á að miklu leyti rætur að rekja til mannlegra athafna, einkum til bruna á jarðefnaeldsneyti og til skógareyðingar. Meðalhiti á jörðinni hefur hækkað um 0,6°C á síðustu hundrað árum og er hluti þeirrar hækkunar rekjanlegur til aukinna gróðurhúsaáhrifa af manna völdum.
    Mest hefur aukningin orðið í útstreymi koltvíoxíðs, en einnig annarra lofttegunda svo sem metans, níturoxíðs, ósóns, vetnisflúorkolefna, flúorkolefna og brennisteinsflúors. Nokkur efni sem valda eyðingu ósonlagsins hafa einnig gróðurhúsaáhrif en dregið hefur verið úr útstreymi þessara lofttegunda, t.d. klórflúorkolefna og halóna. Styrkur koltvíoxíðs í andrúmsloftinu hefur aukist um tæpan þriðjung frá upphafi iðnbyltingarinnar.
    Komið hefur verið á formlegum vettvangi fyrir vísindaráðgjöf og úttekt á þeim rannsóknum sem fram fara á veðurfarsbreytingum, orsökum þeirra, afleiðingum og leiðum til úrbóta. Þetta starf fer fram í milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC). Það er alþjóðleg nefnd sem öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eiga aðild að og tengist Alþjóðaveðurfræðistofnuninni (WMO) og Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP). IPCC stundar ekki rannsóknir en dregur saman það sem best er vitað hverju sinni á vísindasviðinu um loftslagsmálin. Skýrslur nefndarinnar eru sendar aðildarríkjum til umsagnar meðan þær eru í vinnslu og samantekt á niðurstöðum er samþykkt á fundum aðildarríkja.
    IPCC hefur lagt mat á hugsanlega þróun í útstreymi gróðurhúsalofttegunda til næstu aldamóta og hefur í því sambandi skilgreint mismunandi sviðsmyndir sem eru byggðar á forsendum um fólksfjölgun, efnahagsþróun, tækniþróun og aðgerðir til þess að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Hagstæðasta sviðsmyndin gerir ráð fyrir því að styrkur koltvíoxíðs verði 540 ppm um næstu aldamót en fari allt á versta veg getur þessi styrkur orðið 970 ppm. Til viðmiðunar var styrkurinn 280 ppm við upphaf iðnbyltingarinnar og 368 ppm árið 2000. Aukin gróðurhúsaáhrif leiða til röskunar veðurfars á jörðinni. Sterkar líkur eru á því að áfram muni hlýna á jörðinni. Hve mikil sú hlýnun verður ræðst af því hver þróunin verður í útstreymi gróðurhúsalofttegunda og verður hún á bilinu 1,4 – 5,2°C næstu hundrað árin að mati IPCC. Slíkar breytingar hefðu í för með sér þurrka, hærra yfirborð sjávar og aðrar afleiðingar fyrir lífsskilyrði.
    Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var gerður í New York 9. maí 1992. Ísland gerðist aðili að samningnum 16. júní 1993 og öðlaðist hann gildi 21. mars 1994. Aðildarríki samningsins voru 186 talsins 12. mars 2002. Rammasamningurinn er stefnumarkandi alþjóðasamningur um viðbrögð við loftslagsbreytingum. Hann hefur ekki að geyma lagalega bindandi ákvæði um markmið eða einstakar aðgerðir. Með aðild að honum gengust aðildarríki, hvert um sig og sameiginlega, undir þá skuldbindingu að stemma stigu við auknum gróðurhúsaáhrifum með því að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum og vega upp á móti útstreymi þessara lofttegunda með því að vernda og auka lífmassa, skóga og höf og önnur vistkerfi á landi, á ströndum og í hafi, þannig að útstreymið yrði ekki meira um aldamótin en það var árið 1990.
    Á fyrsta aðildarríkjaþingi rammasamningsins í Berlín 1995 var samþykkt að skuldbindingar samningsins væru ekki fullnægjandi til að ná markmiðum hans og því væri nauðsynlegt að hrinda af stað nýju samningaferli til að auka skuldbindingar iðnríkja um samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Afraksturinn af samningaferlinu, sem hófst í kjölfar aðildarríkjaþingsins í Berlín, var Kýótó-bókunin. Hún var samþykkt samhljóða á þriðja aðildarríkjaþingi rammasamningsins sem haldið var í Kýótó 1.–10. desember 1997.
    Markmið Kýótó-bókunarinnar er að minnka útstreymi gróðurhúsalofttegunda sem hefur aukist undanfarin 150 ár, fyrst og fremst í iðnríkjunum. Bókunin kveður á um að aðildarríki skuli draga úr útstreymi tiltekinna gróðurhúsalofttegunda, miðað við útstreymi eins og það var árið 1990, á skilgreindum tímabilum. Fyrsta skuldbindingartímabil bókunarinnar er fimm ár, 2008–2012. Aðildarríki bókunarinnar skulu semja um ný skuldbindingartímabil í kjölfar þess fyrsta, sbr. 9. mgr. 3. gr. bókunarinnar. Eins og rammasamningurinn tekur bókunin ekki til gróðurhúsalofttegunda á skrá Montreal-bókunarinnar um efni sem valda rýrnun ósónlagsins. Montreal-bókunin er bókun við Vínarsamninginn um vernd ósónlagsins.
    Mikilvægasti þáttur Kýótó-bókunarinnar eru ákvæði um lagalega bindandi mörk fyrir útstreymi gróðurhúsalofttegunda á fyrsta skuldbindingartímabili bókunarinnar að því er varðar þau ríki sem getið er í I. viðauka við rammasamninginn. Þessi ríki eru aðildarríki Efnahagssamvinnu og þróunarstofnunarinnar (OECD), ríki Austur-Evrópu og nokkur ríki sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum.
    Meginákvæði bókunarinnar er að finna í 3. gr. hennar. Þar er framangreindum ríkjum gert að takmarka sameiginlega og hverju um sig útstreymi þeirra gróðurhúsalofttegunda sem skráðar eru í viðauka A við bókunina, þannig að samanlagt árlegt útstreymi þeirra á fyrsta skuldbindingartímabilinu 2008–2012 verði að meðaltali 5,2% minna en viðmiðunarárið 1990. Þessu markmiði skulu þau ná með því að takmarka útstreymi gróðurhúsalofttegunda og með því að binda kolefni með ræktun. Hvert ríki skal sýna árið 2005 merkjanlegan árangur við að takmarka útstreymi.
    Þær gróðurhúsalofttegundir sem um ræðir og taldar eru upp í viðauka A við bókunina eru: koltvíoxíð, metan, níturoxíð, vetnisflúorkolefni, flúorkolefni og brennisteinsflúor. Jafnframt því sameiginlega markmiði að minnka útstreymi þessara lofttegunda um 5,2% er hverju framangreindra ríkja, sem skráð eru í I. viðauka við rammasamninginn, veitt útstreymisheimild sem er hlutdeild í heildarmarkmiðinu. Þessar heimildir eru skráðar í viðauka B við bókunina. Ríki Evrópusambandsins, Mið- og Austur-Evrópu og Sviss skulu draga úr útstreymi um 8%, Bandaríkin um 7% og Kanada, Ungverjaland, Japan og Pólland um 6%. Rússlandi, Nýja- Sjálandi og Úkraínu ber að halda útstreymi innan við útstreymismagnið árið 1990 en Noregi er heimilt að auka útstreymi um allt að 1% og Ástralíu um allt að 8%. Útstreymisheimild Íslands er 10% aukning miðað við útstreymi árið 1990.
    Jafnframt er þeim aðildarríkjum bókunarinnar sem skráð eru í I. viðauka við rammasamninginn gert að færa bókhald um útstreymi gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis, sbr. 5. gr., og greina frá aðgerðum til framkvæmdar bókunarinnar og útstreymisbókhaldi í árlegum skýrslum til skrifstofu samningsins, sbr. 7. gr. Þá eru í bókuninni ákvæði um samvinnu um stefnumörkun og þróun stjórntækja, sbr. 2. gr., samvinnu á sviði vísinda og miðlun tækni og upplýsinga, sbr. 10. gr., og um fjárhagsaðstoð til handa þróunarríkjunum, sbr. 11. gr.
    Við samþykkt Kýótó-bókunarinnar var ljóst að samþykkja yrði ítarlegri ákvarðanir um framkvæmd einstakra atriða bókunarinnar áður en iðnríkin gætu fullgilt hana. Á fjórða aðildarríkjaþingi rammasamningsins í Buenos Aires árið 1998 var samþykkt sérstök framkvæmdaáætlun um undirbúning þessara ákvarðana. Var hún upphafið að því samningaferli sem leitt var til lykta á sjöunda aðildarríkjaþingi rammasamningsins í Marakess í nóvember 2001.
    Meginákvarðanir sjöunda aðildarríkjaþingsins varða hin svokölluðu sveigjanleikaákvæði, bindingu kolefnis, framfylgd bókunarinnar og aðstoð við þróunarríkin. Í stuttu máli fela ákvarðanirnar í sér eftirfarandi:
     Sveigjanleikaákvæðin. Hér er um að ræða ferns konar markaðstæki sem ríkjum, sem hafa útstreymisheimild samkvæmt viðauka B við Kýótó-bókunina, er heimilt að beita til að fullnægja skuldbindingum sínum. Þau byggjast á 4., 6., 12. og 17. gr. bókunarinnar. Í fyrsta lagi er hér um að ræða viðskipti með útstreymisheimildir, sbr. 17. gr. Ríkjum er heimilað að kaupa slíkar heimildir frá öðrum ríkjum sem ekki nýta útstreymisheimildir sínar til fulls. Í öðru lagi er ríkjum í viðauka B heimilað að takast sameiginlega á hendur verkefni sem leiða til samdráttar í útstreymi gróðurhúsalofttegunda og skipta með sér þeim samdrætti sem um er að ræða, sbr. 6. gr. Í þriðja lagi er ríkjum í viðauka B heimilað að ráðast í verkefni í þróunarríkjunum sem leiða til samdráttar í útstreymi og telja sér til tekna þann samdrátt heima fyrir, sbr. 12. gr. Loks geta ríki í fjórða lagi bundist formlegu samkomulagi um sameiginlega útstreymisheimild og skiptingu hennar sín á milli, sbr. 4. gr. Evrópusambandið hefur ákveðið að nýta sér þennan kost. Gert er ráð fyrir að framangreindum sveigjanleikaákvæðum sé beitt til viðbótar við aðgerðir sem ríki grípa til heima fyrir til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda eða auka bindingu.Viðskipti með útstreymisheimildir geta hafist árið 2008, en sameiginlegar framkvæmdir á meðal ríkja í viðauka B geta hafist fyrr þó að samdráttur í útstreymi sem af því leiðir komi viðkomandi ríki ekki til góða fyrr en á fyrsta skuldbindingartímabilinu. Sameiginlegar framkvæmdir með þróunarríkjunum geta hafist nú þegar. Tvö prósent eininga frá þessum verkefnum munu renna í sérstakan sjóð sem notaður verður til að aðstoða þróunarríki við aðlögun að loftslagsbreytingum. Sérstök framkvæmdastjórn mun hafa eftirlit með framkvæmd verkefna í þróunarríkjunum og mælingum á útstreymissamdrætti eða bindingu vegna þeirra.
     Binding kolefnis með ræktun. Ákvæði bókunarinnar um bindingu kolefnis, sbr. 3. og 4. mgr. 3. gr., voru útfærð nánar í ákvörðunum sjöunda aðildarríkjaþingsins. Ríkjum í viðauka B verður heimilt að telja sér til tekna bindingu kolefnis eftir 1990 sem leiðir af beinum aðgerðum í landgræðslu og nýrækt skóga að frádreginni skógareyðingu. Einnig er ríkjum heimilt að taka inn í útstreymisbókhald sitt kolefnisbúskap allra skóglenda, akurlenda og beitilanda. Hvað kolefnisbúskap skóglenda varðar, þ.e. skóga sem voru til 1990, var sett hámark á það magn sem ríki mættu telja sér til tekna í þessu sambandi með ákvörðun aðildarríkjaþingsins í Marakess.
     Framfylgd. Samkvæmt 18. gr. bókunarinnar ber aðildarríkjum að samþykkja reglur um framfylgd á fyrsta aðildarríkjafundi bókunarinnar. Hér er átt við hver viðurlög skuli vera við því ef ríki fara fram úr útstreymisheimildum eða standa ekki við aðrar skuldbindingar bókunarinnar. Samþykkt var að ríki sem fara fram úr útstreymisheimild á fyrsta skuldbindingartímabili (2008–2012) skuli bæta það upp á því næsta, sem væntanlega hefst árið 2013, með 30% álagi. Ríki sem sýna ekki fullnægjandi framfylgd skulu greina frá ástæðum þess og leggja fram tímasetta áætlun um úrbætur. Þau missa einnig heimild til þess að nýta sér sveigjanleikaákvæði bókunarinnar. Ekki var ákveðið hvort framangreind viðurlög yrðu lagalega bindandi og var ákvörðun þar að lútandi frestað fram á fyrsta aðildarríkjafund bókunarinnar. Ef niðurstaðan verður sú að viðurlögin verði lagalega bindandi verður gengið frá því með sérstökum samningi sem verður háður fullgildingu hvers aðildarríkis.
     Aðstoð við þróunarríkin. Við útfærslu á ákvæðum Kýótó-bókunarinnar um tæknilega og fjárhagslega aðstoð við þróunarríkin til að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga var byggt á yfirlýsingu aðildarríkja ESB, Íslands, Noregs, Nýja-Sjálands, Sviss og Kanada, sem gefin var í Bonn í júlí 2002, þess efnis að þau væru tilbúin að leggja fram sameiginlega 410 milljónir bandaríkjadala eigi síðar en árið 2005 til aðstoðar þróunarríkjunum. Þetta framlag kemur til viðbótar þeim fjármunum sem þróunarríkin hafa aðgang að í gegnum Alþjóðlega umhverfissjóðinn (GEF) og úr sérstökum sjóði sem fjármagnaður verður með 2% útstreymiseininga sem verða til vegna sameiginlegra framkvæmda með þróunarríkjunum.
    Kýótó-bókunin lá frammi til undirritunar í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York frá 16. mars 1998 til 15. mars 1999. Bókunin var undirrituð af 84 ríkjum. Hinn 12. mars 2002 höfðu 49 ríki fullgilt bókunina, þar af aðeins tvö ríki, Rúmenía og Tékkland, af þeim sem skráð eru í I. viðauka og veitt hefur verið útstreymisheimild. Bókunin öðlast gildi á 90. degi eftir að minnst 55 aðildarríki að rammasamningnum, þar á meðal aðildarríki sem tilgreind eru í I. viðauka og voru ábyrg fyrir a.m.k. 55% af heildarútstreymi þeirra aðildarríkja sem tilgreind eru í I. viðauka á koltvíoxíði árið 1990, hafa afhent skjöl sín um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild, sbr. 25. gr. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum um þau aðildarríki sem tilgreind eru í I. viðauka stefna ríki Evrópusambandsins og Noregur að því að fullgilda bókunina fyrir leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem haldinn verður í Jóhannesarborg 26. ágúst til 4. september 2002.
    Bókunin var ekki undirrituð fyrir hönd Íslands. Því var lýst yfir af hálfu ríkisstjórnar Íslands að ekki bæri að undirrita bókunina þar sem ekki væri sýnt að Ísland gæti fullnægt skuldbindingum hennar. Jafnframt var því lýst yfir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar 28. maí 1999 að Ísland mundi gerast aðili að Kýótó-bókuninni þegar fyrir lægi ásættanleg niðurstaða í sérmálum þess.

Sérstaða Íslands.
    Við samþykkt Kýótó-bókunarinnar var því lýst yfir af hálfu stjórnvalda að Ísland gæti ekki staðið við þau útstreymismörk sem tilgreind eru í viðauka B við bókunina, vegna smæðar efnahagskerfisins og sérstöðu hvað varðar samsetningu á útstreymi. Það sem veldur vanda í tilviki Íslands eru hlutfallsleg áhrif einstakra verkefna á heildarútstreymi. Hér á landi vega einstök stóriðjuverkefni svo þungt hlutfallslega að áhrif stærstu verkefnanna hvers um sig eru meiri en þreföld samdráttarmarkmið Kýótó-bókunarinnar sem eru 5,2% eins og áður hefur komið fram. Ljóst var að ekki yrði mögulegt að meðhöndla slík verkefni með sama hætti og önnur smærri. Íslensk stjórnvöld óskuðu eftir því á aðildarríkjaþinginu í Kýótó 1997 að aðildarríkjaþing samningsins tæki þetta vandamál sérstaklega fyrir. Var það samþykkt og málsgrein sem vísar til þessa vanda var hluti af ákvörðun aðildarríkjaþingsins, þess efnis að leitað yrði lausnar á þessu máli. Var hún kölluð „íslenska ákvæðið“. Umfjöllun um málið hófst á fundi undirnefndar samningsins um vísindalega og tæknilega ráðgjöf í júní 1998 og lauk á þinginu í Marakess með samþykkt ákvörðunar um útfærslu íslenska ákvæðisins.
    Ákvörðunin er prentuð sem fylgiskjal II með þingsályktunartillögu þessari. Hún heimilar að koltvíoxíðútstreymi frá nýrri stóriðju eða stækkun stóriðjuvers, sem hefur starfsemi eftir 1990 og leiðir til meira en 5% aukningar í útstreymi á fyrsta skuldbindingartímabili bókunarinnar (2008–2012), verði haldið utan við útstreymisheimild bókunarinnar eftir að útstreymisheimildir viðkomandi ríkis hafa verið fullnýttar. Ákvörðunin nær aðeins til þeirra ríkja þar sem útstreymi var minna en 0,05% af heildarkoltvíoxíðútstreymi iðnríkjanna árið 1990. Sett eru eftirtalin viðbótarskilyrði: Gerð er krafa um notkun endurnýjanlegrar orku, að notkun hennar leiði til samdráttar í útstreymi, að besta fáanlega tækni sé notuð og að bestu umhverfisverndaraðgerða sé gætt við framleiðsluna. Ríkjum sem uppfylla þessi skilyrði og ætla sér að nýta sér þessa heimild ber að tilkynna um það fyrir 8. aðildarríkjaþing samningsins sem haldið verður í Nýju-Delí 23. október til 1. nóvember 2002.
    Meiri kröfur eru gerðar til upplýsinga til skrifstofu rammasamningsins um útstreymi frá fyrirtækjum sem falla undir ákvörðunina en almennt gerist. Þannig er mælst til þess að aðildarríki með verkefni, sem uppfylla skilyrðin sem tilgreind voru hér að framan, veiti í árlegum skýrslum upplýsingar um útstreymi iðnaðarferla á hverja framleiðslueiningu, heildarútstreymi frá iðnaðarferlum þessara verkefna og mat á þeim samdrætti í útstreymi sem leiðir af notkun endurnýjanlegrar orku í þessum verkefnum. Einnig er mælst til þess að skrifstofa samningsins taki saman þessar upplýsingar og leggi fram samanburð við upplýsingar um útstreymi iðnaðarferla á hverja framleiðslueiningu frá öðrum aðildarríkjum og gefi skýrslu um þessar upplýsingar til þings aðildarríkja eftir að Kýótó-bókunin hefur öðlast gildi.
    Ákvörðunin nær einungis til koltvíoxíðsútstreymis að ákveðnu hámarki sem er 1,6 milljónir tonna. Ákvörðunin kemur í veg fyrir að Ísland geti selt útstreymisheimildir til annarra ríkja. Engar takmarkanir eru hins vegar á því að Ísland afli sér viðbótarútstreymisheimilda með viðskiptum eða sameiginlegri framkvæmd.
    Með framangreindri ákvörðun er með fullnægjandi hætti tekið á sérstöðu Íslands og leystur sá vandi sem skilgreindur var á aðildarríkjaþinginu í Kýótó.

Stefnumörkun hér á landi.
    Umhverfisráðuneytið hefur staðfest að ákvæði Kýótó-bókunarinnar stangist ekki á við gildandi lög hér á landi og kallar aðild Íslands að bókuninni því ekki á breytingar á lögum.
    Skuldbindingar samkvæmt bókuninni eru þess eðlis að þær kalla á víðtæka stefnumörkun og útfærslu. Ríkisstjórnin hefur samþykkt nýja stefnumörkun um ráðstafanir til að standa við skuldbindingar loftslagssamningsins og Kýótó-bókunarinnar. Er hún prentuð sem fylgiskjal III með þingsályktunartillögu þessari.
    Stefnumörkunin felur í sér tillögur um eftirfarandi ráðstafanir á næstu árum sem leiða muni til lækkunar á útstreymi gróðurhúsalofttegunda eða aukinnar bindingar kolefnis:
     *      Dregið verði úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum með almennum aðgerðum og með breyttri skattlagningu á dísilbílum sem leiði til meiri innflutnings slíkra bíla til einkanota.
     *      Tryggt verði að fyrirtæki í áliðnaði geri fullnægjandi ráðstafanir til þess að halda útstreymi flúorkolefna frá framleiðslunni í lágmarki.
     *      Leitað verði leiða til að draga úr orkunotkun í fiskiskipaflotanum.
     *      Dregið verði úr urðun úrgangs og útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá urðunarstöðum.
     *      Aukin verði binding kolefnis með skógrækt og landgræðslu.
     *      Áhersla verði lögð á rannsóknir á þeim þáttum sem áhrif hafa á útstreymi gróðurhúsalofttegunda og þróun lausna og úrræða til að mæta því.
     *      Efld verði fræðsla og upplýsingagjöf til almennings um leiðir til þess að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda.Fylgiskjal I.


KÝÓTÓ-BÓKUN VIÐ
RAMMASAMNING SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA UM LOFTSLAGSBREYTINGAR


Aðilar að bókun þessari,

sem eiga aðild að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, í bókun þessari nefndur „samningurinn“,

stefna að lokamarkmiði samningsins eins og það er sett fram í 2. gr. hans,

minnast ákvæða samningsins,

hafa að leiðarljósi ákvæði 3. gr. samningsins,

í samræmi við Berlínarumboðið sem var samþykkt með ákvörðun nr. 1/CP.1 á fyrsta fundi þings aðila að samningnum,

hafa orðið ásáttir um eftirfarandi:

1. gr.


    Í bókun þessari gilda skilgreiningar þær sem fram koma í 1. gr. samningsins. Enn fremur gilda eftirfarandi skilgreiningar:
1.    „Þing aðila“ merkir þing aðila að samningi þessum.
2.    „Samningur“ merkir rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem var samþykktur í New York 9. maí 1992.
3.    „Milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar“ merkir milliríkjanefndina um loftslagsbreytingar sem Alþjóðaveðurfræðistofnunin og Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna settu sameiginlega á stofn árið 1988.
4.    „Montreal-bókunin“ merkir Montreal-bókunina um efni, sem valda rýrnun ósónlagsins, samþykkt í Montreal 16. september 1987, með síðari lagfæringum og breytingum.
5.    „Aðilar sem viðstaddir eru og atkvæði greiða“ aðila sem viðstaddir eru og greiða með- eða mótatkvæði.
6.    „Aðili“ merkir aðila að bókun þessari nema ráða megi annað af samhengi textans.
7.    „Aðili sem getið er um í I. viðauka“ merkir aðila sem getið er um í I. viðauka við samninginn, eins og honum kann að verða breytt, eða aðila sem lagt hefur fram tilkynningu skv. g-lið 2. mgr. 4. gr. samningsins.

2. gr.


    1. Hver aðili, sem getið er um í I. viðauka, skal, þegar hann efnir skuldbindingar sínar um magnbundna takmörkun og minnkun útstreymis skv. 3. gr., í því skyni að stuðla að sjálfbærri þróun:
a)    hrinda í framkvæmd og/eða útfæra nánar stefnumið og aðgerðir í samræmi við aðstæður í sínu eigin landi, til dæmis:
    i)        auka orkunýtingu í viðeigandi geirum þjóðarbúskapar,
    ii)    vernda og auka viðtaka og forða gróðurhúsalofttegunda sem Montreal-bókunin gildir ekki um, að teknu tilliti til skuldbindinga hans samkvæmt viðeigandi alþjóðlegum umhverfissamningum; stuðla að sjálfbærri skógvörslu, skógrækt og endurræktun skóga,

    iii)    stuðla að sjálfbærum háttum í landbúnaði í ljósi atriða sem hafa ber í huga og lúta að loftslagsbreytingum,
    iv)    rannsaka, stuðla að, þróa og auka notkun nýrrar og endurnýjanlegrar orku, tækni til að binda koltvíoxíð og þróaðrar, nýstárlegrar og umhverfisvænnar tækni,


    v)    draga úr eða útiloka í áföngum markaðsgalla, efnahagshvata, skatta- og tollaundanþágur og niðurgreiðslur, sem eru andstæð markmiðum samningsins og torvelda að unnt sé að hafa not af markaðstækjum, innan þeirra geira þar sem útstreymi gróðurhúsalofttegunda á sér stað,
    vi)    hvetja til viðeigandi endurbóta innan viðkomandi geira í því skyni að vinna að framgangi stefnumiða og aðgerða sem lúta að því að takmarka eða minnka útstreymi gróðurhúsalofttegunda sem Montreal-bókunin gildir ekki um,
    vii)    vinna að því að takmarka og/eða minnka útstreymi gróðurhúsalofttegunda, sem Montreal-bókunin gildir ekki um, innan flutningageirans,
    viii)    takmarka og/eða minnka metanútstreymi með endurheimt og notkun samfara meðhöndlun úrgangs og við framleiðslu, flutning og dreifingu orku,

b)    eiga samstarf við aðra slíka aðila í því skyni að auka skilvirkni stefnumiða og aðgerða, sem eru samþykkt samkvæmt þessari grein í samræmi við i-lið e-liðar 2. mgr. 4. gr. samningsins, hverra og einna og samofinna. Aðilar þessir skulu gera ráðstafanir í þessu skyni til þess að miðla hver öðrum af reynslu sinni og skiptast á upplýsingum um fyrrnefnd stefnumið og aðgerðir, meðal annars finna leiðir til þess að auka samanburðarhæfni þeirra, gagnsæi og skilvirkni. Þing aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal á fyrsta fundi sínum, eða eins fljótt og auðið er eftir það, kanna leiðir til að greiða fyrir slíku samstarfi, að teknu tilliti til allra upplýsinga sem máli skipta.
    2. Aðilar, sem getið er um í I. viðauka, skulu leggja kapp á að takmarka eða minnka útstreymi gróðurhúsalofttegunda, sem Montreal-bókunin gildir ekki um og kemur frá eldsneyti úr geymum loftfara og skipa, og vinna að því á vettvangi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar og Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, eftir því sem við á.
    3. Aðilar, sem getið er um í I. viðauka, skulu leggja áherslu á að hrinda í framkvæmd stefnumiðum og aðgerðum, sem um getur í þessari grein, á þann veg að draga úr skaðlegum áhrifum, meðal annars skaðlegum áhrifum af völdum loftslagsbreytinga, áhrifum á alþjóðaviðskipti og félags-, umhverfis- og efnahagslegum áhrifum á aðra aðila, einkum þróunarlönd sem eru aðilar og sérstaklega þau sem um getur í 8. og 9. mgr. 4. gr. samningsins, að teknu tilliti til 3. gr. samningsins. Þing aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, getur gripið til frekari aðgerða, eftir því sem við á, til að stuðla að framkvæmd ákvæða þessarar málsgreinar.
    4. Þing aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal, ákveði það að til hagsbóta væri að samræma einhver þau stefnumið og aðgerðir sem um getur í a-lið 1. mgr. hér að framan, að teknu tilliti til ólíkra innlendra aðstæðna og hugsanlegra áhrifa, kanna leiðir og aðferðir til þess að útfæra samræmingu fyrrnefndra stefnumiða og aðgerða.

3. gr.


    1. Aðilar, sem getið er um í I. viðauka, skulu, hver um sig eða sameiginlega, tryggja að heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda frá þeim af manna völdum, sem taldar eru upp í viðauka A, mælt í koltvíoxíðsígildum, fari ekki yfir úthlutað magn þeirra, sem er reiknað út á grundvelli skuldbindinga þeirra um magnbundna takmörkun og minnkun útstreymis sem eru settar fram í viðauka B og í samræmi við ákvæði þessarar greinar, með það fyrir augum að minnka heildarútstreymi slíkra lofttegunda frá sér um að minnsta kosti fimm af hundraði niður fyrir útstreymismagn ársins 1990 á skuldbindingartímabilinu 2008 til 2012.
    2. Hver aðili, sem getið er um í I. viðauka, skal, eigi síðar en 2005, hafa náð sýnilegum árangri í þeirri viðleitni að efna skuldbindingar sínar samkvæmt bókun þessari.
    3. Hreinar breytingar á útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá uppsprettum og fjarlægingu með viðtökum, sem eru afleiðing beinnar breytingar á landnotkun af manna völdum og starfsemi á sviði skógarnytja, sem takmarkast við skógrækt, endurræktun og skógeyðingu frá 1990, mældar sem sannanlegar breytingar á kolefnismagni á hverju skuldbindingartímabili, skal nota til þess að efna skuldbindingar hvers aðila, sem getið er um í I. viðauka, samkvæmt þessari grein. Gera skal grein fyrir útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá uppsprettum og fjarlægingu með viðtökum, sem tengjast þessari starfsemi, á gagnsæjan og sannanlegan hátt og yfirfara í samræmi við ákvæði 7. og 8. gr.
    4. Áður en fyrsti fundur þings aðila er haldinn, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal hver aðili, sem getið er um í I. viðauka, leggja fram gögn, sem undirnefnd fyrir vísinda- og tækniráðgjöf tekur til umfjöllunar, er staðfesti kolefnismagn hans árið 1990 og geri kleift að meta breytingar á kolefnismagni viðkomandi aðila á eftirfarandi árum. Þing aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal, á fyrsta fundi sínum eða eins fljótt og auðið er eftir það, ákveða aðferðir, reglur og viðmiðunarreglur um það hvernig og hvaða viðbótarstarfsemi manna, sem tengist breytingum á útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá uppsprettum og fjarlægingu með viðtökum í flokkunum nytjajarðvegur og breytingar á landnotkun og skógarnytjar, skuli koma til viðbótar við eða til frádráttar frá úthlutuðu magni aðila, sem getið er um í I. viðauka, að teknu tilliti til óvissuþátta, gagnsæis skýrslugerðar, sannprófunarhæfni, vinnu milliríkjanefndarinnar um loftslagsbreytingar á sviði aðferðafræði, ráðgjafar sem undirnefnd fyrir vísinda- og tækniráðgjöf veitir í samræmi við 5. gr. og ákvarðana þings aðila. Slík ákvörðun skal gilda á öðru skuldbindingartímabili og þeim sem á eftir fara. Aðila er heimilt að beita slíkri ákvörðun á fyrsta skuldbindingartímabili sínu með tilliti til þessarar viðbótarstarfsemi manna, svo fremi umrædd starfsemi hafi átt sér stað eftir árið 1990.


    5. Aðilar, sem getið er um í I. viðauka og eru að skipta yfir í markaðsbúskap og sem viðmiðunarár eða -tímabil var ákveðið fyrir samkvæmt ákvörðun annars fundar þings aðila nr. 9/CP.2, skulu nota það viðmiðunarár eða -tímabil þegar þeir framkvæma skuldbindingar sínar samkvæmt þessari grein. Hverjum öðrum aðila, sem getið er um í I. viðauka og er að skipta yfir í markaðsbúskap og sem hefur ekki enn lagt fram fyrstu landsskýrslu sína skv. 12. gr. samningsins, er einnig heimilt að tilkynna þingi aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, að hann hyggist nota liðið viðmiðunarár eða -tímabil, annað en 1990, þegar hann framkvæmir skuldbindingar sínar samkvæmt þessari grein. Þing aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal ákveða hvort samþykkja skuli slíka tilkynningu.

    6. Að teknu tilliti til 6. mgr. 4. gr. samningsins skal þing aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, heimila þeim aðilum, sem getið er um í I. viðauka og eru að skipta yfir í markaðsbúskap, vissan sveigjanleika við framkvæmd skuldbindinga sinna samkvæmt bókun þessari, annarra en þeirra sem falla undir þessa grein.

    7. Á fyrsta skuldbindingartímabili fyrir magnbundnar takmarkanir og minnkun útstreymis, frá 2008 til 2012, skal úthlutað magn hvers aðila, sem getið er um í I. viðauka, jafngilda þeim hundraðshluta, sem er settur fram fyrir hann í viðauka B og sýnir heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda árið 1990 af manna völdum, mælt í koltvíoxíðsígildum, sem eru taldar upp í viðauka A, eða á viðmiðunarári eða viðmiðunartímabili, sem er ákveðið í samræmi við ákvæði 5. mgr. hér að framan, margfaldað með fimm. Aðilar, sem getið er um í I. viðauka, þar sem breyting á landnotkun og skógarnytjar voru hrein uppspretta útstreymis gróðurhúsalofttegunda árið 1990, skulu telja með, fyrir viðmiðunarárið eða -tímabilið 1990 fyrir útstreymi, heildarútstreymi af manna völdum, mælt í koltvíoxíðsígildum, frá uppsprettum, að frádreginni fjarlægingu með viðtökum árið 1990, sem má rekja til breytinga á landnotkun, í því skyni að reikna út úthlutað magn þeirra.
    8. Hverjum aðila, sem getið er um í I. viðauka, er heimilt að nota árið 1995 sem viðmiðunarár fyrir vetnisflúorkolefni, perflúorkolefni og brennisteinshexaflúoríð í útreikningi þeim sem um getur í 7. mgr. hér að framan.
    9. Skuldbindingar aðila, sem getið er um í I. viðauka, á eftirfarandi tímabilum skulu ákveðnar með breytingum á viðauka B við bókun þessa sem skal samþykkja í samræmi við ákvæði 7. mgr. 21. gr. Þing aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal eiga frumkvæði að því að fjalla um þessar skuldbindingar eigi síðar en sjö árum fyrir lok fyrsta skuldbindingartímabilsins sem um getur í 1. mgr. hér að framan.
    10. Bæta skal öllum einingum fyrir minnkun útstreymis eða hlutum úthlutaðs magns, sem aðili útvegar sér frá öðrum aðila í samræmi við ákvæði 6. gr. eða 17. gr., við úthlutað magn þess aðila sem öðlast einingarnar eða hlutana.
    11. Draga skal allar einingar fyrir minnkum útstreymis eða hluta úthlutaðs magns, sem aðili framselur öðrum aðila í samræmi við ákvæði 6. gr. eða 17. gr., frá úthlutuðu magni þess aðila sem framselur einingarnar eða hlutana.
    12. Bæta skal staðfestri minnkun útstreymis, sem aðili útvegar sér frá öðrum aðila í samræmi við ákvæði 12. gr., við úthlutað magn þess aðila sem öðlast minnkun útstreymis.
    13. Sé útstreymi aðila, sem getið er um í I. viðauka, minna á skuldbindingartímabili en úthlutað magn hans samkvæmt þessari grein skal bæta mismuninum, að hans eigin ósk, við úthlutað magn hans á þeim skuldbindingartímabilum sem eftir fara.

    14. Hver aðili, sem getið er um í I. viðauka, skal leggja kapp á að framkvæma þær skuldbindingar sem um getur í 1. mgr. á þann veg að dragi úr skaðlegum félags-, umhverfis- og efnahagslegum áhrifum á aðila sem eru þróunarlönd, einkum þá sem eru tilgreindir í 8. og 9. mgr. 4. gr. samningsins. Á fyrsta fundi þings aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal taka til umfjöllunar, í samræmi við viðeigandi ákvarðanir þings aðila um framkvæmd þessara málsgreina, hvaða aðgerða er þörf til þess að draga úr skaðlegum áhrifum loftlagsbreytinga og/eða áhrifum viðbragðsaðgerða á þá aðila sem um getur í fyrrnefndum málsgreinum. Fjármögnun, tryggingar og miðlun tækni skulu vera meðal umfjöllunarefna.


4. gr.


    1. Aðilar, sem getið er um í I. viðauka og hafa gert samning um að efna skuldbindingar sínar skv. 3. gr. í sameiningu, skulu teljast hafa staðið við fyrrnefndar skuldbindingar að því tilskildu að sameiginlegt heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda, sem eru taldar upp í viðauka A, frá þeim, af manna völdum, mælt í koltvíoxíðsígildum, fari ekki upp fyrir úthlutað magn þeirra, reiknað út á grundvelli skuldbindinga þeirra um magnbundna takmörkun og minnkun útstreymis sem eru settar fram í viðauka B og í samræmi við ákvæði 3. gr. Í fyrrnefndum samningi skal tilgreina viðeigandi útstreymismagn sem er úthlutað hverjum samningsaðila.
    2. Aðilar að öllum slíkum samningum skulu tilkynna skrifstofu samningsins um skilmála samningsins sama dag og þeir afhenda til vörslu skjöl sín um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki bókunar þessarar eða um aðild að henni. Skrifstofan skal síðan tilkynna aðilum og undirritunaraðilum samningsins um skilmála slíks samnings.
    3. Allir slíkir samningar skulu gilda út skuldbindingartímabilið sem er tilgreint í 7. mgr. 3. gr.

    4. Ef aðilar, sem starfa saman, gera það innan ramma svæðisstofnunar um efnahagssamvinnu og með henni skal engin breyting á samsetningu stofnunarinnar, eftir að bókun þessi er samþykkt, hafa áhrif á gildandi skuldbindingar samkvæmt bókuninni. Breytingar á samsetningu stofnunarinnar skulu einungis eiga við að því er varðar skuldbindingar skv. 3. gr. sem eru samþykktar eftir slíkar breytingar.

    5. Takist aðilum að slíkum samningi ekki að ná sameiginlegri heildarminnkun sinni á útstreymi skal hver aðili að þeim samningi vera ábyrgur fyrir eigin útstreymismagni sem er sett fram í samningnum.

    6. Ef aðilar, sem starfa saman, gera það innan ramma svæðisstofnunar um efnahagssamvinnu, sem sjálf er aðili að bókun þessari, og með henni skal hvert aðildarríki slíkrar svæðisstofnunar um efnahagssamvinnu, eitt og sér og ásamt svæðisstofnuninni um efnahagssamvinnu sem starfar í samræmi við ákvæði 24. gr., vera ábyrgt fyrir eigin útstreymismagni, eins og það er tilkynnt í samræmi við ákvæði þessarar greinar, takist ekki að ná sameiginlegri heildarminnkun á útstreymi.

5. gr.


    1. Hver aðili, sem getið er um í I. viðauka, skal hafa komið á laggirnar landskerfi, eigi síðar en einu ári áður en fyrsta skuldbindingartímabilið hefst, í því skyni að meta útstreymi allra gróðurhúsalofttegunda af manna völdum, sem Montreal-bókunin gildir ekki um, frá uppsprettum og fjarlægingu með viðtökum. Á fyrsta fundi þings aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal setja viðmiðunarreglur um slík landskerfi sem skulu gilda um þá aðferðafræði sem er tilgreind í 2. mgr. hér að aftan.

    2. Aðferðafræðin, sem er notuð til þess að meta útstreymi allra gróðurhúsalofttegunda af manna völdum, sem Montreal-bókunin gildir ekki um, frá uppsprettum og fjarlægingu með viðtökum, skal vera sú aðferðafræði sem milliríkjanefndin um loftslagsbreytingar hefur staðfest og samþykkt var á þriðja fundi þings aðila. Í tilvikum, þar sem slík aðferðafræði er ekki notuð, skal grípa til viðeigandi lagfæringa samkvæmt þeirri aðferðafræði sem samþykkt er á fyrsta fundi þings aðila sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari. Þing aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal endurskoða reglulega og yfirfara, eftir því sem við á, fyrrnefnda aðferðafræði og lagfæringar með hliðsjón, meðal annars, af starfi milliríkjanefndarinnar um loftslagsbreytingar og ráðgjöf undirnefndar fyrir vísinda- og tækniráðgjöf, að teknu fullu tilliti til allra viðeigandi ákvarðana þings aðila. Eini tilgangurinn með endurskoðun aðferðafræði eða lagfæringa skal vera að ganga úr skugga um að skuldbindingar, sem um getur í 3. gr., séu efndar með tilliti til skuldbindingartímabila sem eru samþykkt í kjölfar slíkrar endurskoðunar.
    3. Máttur hitahækkunar, sem er notaður til þess að reikna út útstreymi gróðurhúsalofttegunda af manna völdum, sem eru taldar upp í viðauka A, mælt í koltvíoxíðsígildum, frá uppsprettum og fjarlægingu með viðtökum, skal vera sá sem milliríkjanefndin um loftslagsbreytingar hefur staðfest og samþykktur var á þriðja fundi þings aðila. Þing aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal endurskoða reglulega og yfirfara, eftir því sem við á, mátt hitahækkunar fyrir hverja slíka gróðurhúsalofttegund með hliðsjón, meðal annars, af starfi milliríkjanefndarinnar um loftslagsbreytingar og ráðgjöf undirnefndar fyrir vísinda- og tækniráðgjöf, að teknu fullu tilliti til allra viðeigandi ákvarðana þings aðila. Endurskoðun máttar hitahækkunar gildir einungis um skuldbindingar skv. 3. gr. með tilliti til skuldbindingartímabila sem eru samþykkt í kjölfar slíkrar endurskoðunar.


6. gr.


    1. Hverjum aðila, sem getið er um í I. viðauka, er heimilt, í því skyni að efna skuldbindingar sínar skv. 3. gr., að framselja eða útvega sér frá öðrum slíkum aðila einingar fyrir minnkun útstreymis sem rekja má til verkefna sem miða að því að minnka útstreymi gróðurhúsalofttegunda af manna völdum frá uppsprettum eða auka fjarlægingu af manna völdum með viðtökum í hvaða geira þjóðarbúskapar sem er, að því tilskildu að:
a)    hlutaðeigandi aðilar samþykki hvert slíkt verkefni,
b)     hvert slíkt verkefni leiði til minna útstreymis frá uppsprettum eða aukinnar fjarlægingar með viðtökum sem telst viðbót við það sem að öðrum kosti hefði orðið,
c)     hann útvegi sér ekki neinar einingar fyrir minnkun útstreymis efni hann ekki skuldbindingar sínar skv. 5. og 7. gr., og
d)     útvegun eininga fyrir minnkun útstreymis sé viðbót við aðgerðir innanlands sem þjóna þeim tilgangi að efna skuldbindingar skv. 3. gr.
    2. Þingi aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, er heimilt, á fyrsta fundi sínum, eða eins fljótt og auðið er eftir það, að útfæra nánar viðmiðunarreglur um framkvæmd þessarar greinar, meðal annars um sannprófun og skýrslugerð.

    3. Aðila, sem getið er um í I. viðauka, er heimilt að veita lögaðilum umboð til þess að taka þátt í aðgerðum, á sína ábyrgð, sem leiða til tilurðar, framsals eða útvegunar eininga fyrir minnkun útstreymis samkvæmt þessari grein.
    4. Þó vafi leiki á, í samræmi við viðeigandi ákvæði 8. gr., að aðili, sem getið er um í I. viðauka, komi til móts við þær kröfur, sem um getur í þessari grein, getur framsal og útvegun eininga fyrir minnkun útstreymis farið fram, eftir að slíkur vafi er staðfestur, þó þannig að aðili getur ekki notað slíkar einingar, í því skyni að efna skuldbindingar sínar skv. 3. gr., fyrr en álitamál um efndir hafa verið leyst.


7. gr.


    1. Hver aðili, sem getið er um í I. viðauka, skal fella inn í árlega skrá sína um útstreymi gróðurhúsalofttegunda af manna völdum, sem Montreal-bókunin gildir ekki um, frá uppsprettum og fjarlægingu með viðtökum, sem er lögð fram í samræmi við viðeigandi ákvarðanir þings aðila, nauðsynlegar viðbótarupplýsingar, sem ber að ákveða í samræmi við ákvæði 4. mgr. hér að aftan, í því skyni að tryggt sé að ákvæðum 3. gr. sé framfylgt.
    2. Hver aðili, sem getið er um í I. viðauka, skal fella inn í landsskýrslu sína, sem er lögð fram skv. 12. gr. samningsins, nauðsynlegar viðbótarupplýsingar, sem ber að ákveða í samræmi við ákvæði 4. mgr. hér að aftan, í því skyni að sýna fram á efndir skuldbindinga sinna samkvæmt bókun þessari.
    3. Hver aðili, sem getið er um í I. viðauka, skal árlega leggja fram þær upplýsingar, sem er krafist skv. 1. mgr. hér að framan; í upphafi fyrstu skrána sem leggja ber fram samkvæmt samningnum fyrir fyrsta ár skuldbindingartímabilsins eftir gildistöku bókunar þessarar að því er viðkomandi aðila varðar. Hver slíkur aðili skal leggja fram þær upplýsingar, sem er krafist skv. 2. mgr. hér að framan, sem hluta fyrstu landsskýrslunnar sem leggja ber fram samkvæmt samningnum eftir að bókun þessi hefur öðlast gildi að því er hann varðar og eftir að viðmiðunarreglur hafa verið samþykktar, eins og kveðið er á um í 4. mgr. hér að aftan. Þing aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, tekur ákvörðun um hversu oft skal síðan leggja fram þær upplýsingar sem er krafist samkvæmt þessari málsgrein, að teknu tilliti til tímaáætlana sem þing aðila ákveður fyrir afhendingu landsskýrslna.
    4. Á fyrsta fundi þings aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal samþykkja, og endurskoða reglulega eftir það, viðmiðunarreglur um samantekt upplýsinga sem er krafist samkvæmt þessari grein, að teknu tilliti til viðmiðunarreglna um undirbúning landsskýrslna af hálfu aðila, sem getið er um í I. viðauka, sem þing aðila hefur samþykkt. Þing aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal einnig, áður en fyrsta skuldbindingartímabilið hefst, ákveða reikningsskilaaðferðir með tilliti til úthlutaðs magns.


8. gr.


    1. Upplýsingarnar, sem hver aðili, sem getið er um í I. viðauka, leggur fram skv. 7. gr., skulu endurskoðaðar af hópum endurskoðenda með sérþekkingu á viðkomandi sviði í samræmi við viðeigandi ákvarðanir þings aðila og í samræmi við viðmiðunarreglur sem þing aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, hefur samþykkt í þessu skyni skv. 4. mgr. hér að aftan. Upplýsingarnar, sem hver aðili, sem getið er um í I. viðauka, leggur fram skv. 1. mgr. 7. gr., skal endurskoða sem hluta af árlegri samantekt og útreikningum á skrám um útstreymi og á úthlutuðu magni. Auk þess skal fara fram endurskoðun þeirra upplýsinga sem hver aðili, sem getið er um í I. viðauka, leggur fram skv. 2. mgr. 7. gr., sem hluti endurskoðunar skýrslna.
    2. Skrifstofa samningsins skal samræma störf hópa endurskoðenda sem sérfræðingar mynda, valdir eru úr hópi þeirra sem aðilar að samningnum tilnefna og, eftir því sem við á, milliríkjasamtök, í samræmi við leiðbeiningar sem þing aðila veitir í þessu skyni.

    3. Í endurskoðuninni skal felast ítarlegt og alhliða tæknilegt mat á öllum þáttum sem lúta að framkvæmd ákvæða bókunar þessarar af hálfu aðila. Hópar endurskoðenda með sérþekkingu á viðkomandi sviði skulu semja skýrslu til þings aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, þar sem lagt er mat á framkvæmd skuldbindinga viðkomandi aðila og gerð er grein fyrir hugsanlegum vandkvæðum samfara efndum á skuldbindingum og þáttum sem hafa áhrif á efndir. Skrifstofa samningsins skal dreifa slíkum skýrslum til allra aðila að samningnum. Skrifstofan skráir þær athugasemdir við framkvæmd, sem eru gerðar í fyrrnefndum skýrslum, til frekari umfjöllunar á þingi aðila sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari.
    4. Á fyrsta fundi þings aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal samþykkja, og endurskoða reglulega eftir það, viðmiðunarreglur um endurskoðun hópa endurskoðenda með sérþekkingu á viðkomandi sviði á framkvæmd bókunar þessarar, að teknu tilliti til viðeigandi ákvarðana þings aðila.
    5. Þing aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal, með aðstoð undirnefndar fyrir framkvæmd samningsins og, eftir því sem við á, undirnefndar fyrir vísinda- og tækniráðgjöf, fjalla um:
a)    upplýsingarnar sem aðilar leggja fram skv. 7. gr. og skýrslur um endurskoðun sérfræðinga á þeim sem fer fram samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, og
b)    þær athugasemdir við framkvæmd sem skrifstofa samningsins skráir skv. 3. mgr. hér að framan og athugasemdir frá aðilum.
    6. Þing aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal, í samræmi við umfjöllun sína um upplýsingarnar sem um getur í 5. mgr. hér að framan, taka ákvörðun um hvert það mál sem er aðkallandi fyrir framkvæmd bókunar þessarar.

9. gr.


    1. Þing aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal endurskoða bókun þessa reglulega með hliðsjón af bestu tiltækum vísindalegum upplýsingum og mati á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra, svo og viðeigandi tæknilegum, félagslegum og efnahagslegum upplýsingum.Tryggja ber samræmi milli slíkrar endurskoðunar og viðeigandi endurskoðunar samkvæmt samningnum, einkum endurskoðunar sem krafa er gerð um skv. d-lið 2. mgr. 4. gr. og a-lið 2. mgr. 7. gr. samningsins. Þing aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal grípa til viðeigandi aðgerða á grundvelli þessarar endurskoðunar.
    2. Fyrsta endurskoðun skal fara fram á öðrum fundi þings aðila sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari. Endurskoðun skal síðan fara fram reglulega og tímanlega.


10. gr.


    Allir aðilar skulu, að teknu tilliti til sameiginlegrar en innbyrðis ólíkrar ábyrgðar og sérstæðs forgangs með tilliti til lands- og svæðisbundinnar þróunar, markmiða og aðstæðna, án þess að leggja nýjar skuldbindingar á aðila sem ekki er getið um í I. viðauka, en jafnframt því að staðfesta gildandi skuldbindingar skv. 1. mgr. 4. gr. samningsins og halda áfram að vinna að framkvæmd þessara skuldbindinga í því skyni að koma á sjálfbærri þróun, og að teknu tilliti til 3., 5. og 7. mgr. 4. gr. samningsins:

a)    setja fram, þar sem það á við og að því marki sem er unnt, kostnaðarhagkvæmar landsáætlanir, og þar sem það á við, svæðisbundnar áætlanir í því skyni að betrumbæta staðbundna útstreymisþætti, upplýsingar um aðgerðir og/eða líkön, sem endurspegla félags- og efnahagslegar aðstæður hvers aðila, vegna undirbúnings og reglulegrar uppfærslu innlendra skráa um útstreymi gróðurhúsalofttegunda af manna völdum, sem Montreal-bókunin gildir ekki um, frá uppsprettum og fjarlægingu með viðtökum og nota til þess samanburðarhæfar aðferðir sem þing aðila skal samþykkja og eru í samræmi við viðmiðunarreglur um samningu landsskýrslna sem þing aðila hefur samþykkt,
b)    setja fram, framkvæma, birta og uppfæra reglulega landsáætlanir, og þar sem það á við, svæðisbundnar áætlanir sem fela í sér ráðstafanir til að draga úr loftslagsbreytingum og ráðstafanir til að auðvelda nægilega aðlögun að loftslagsbreytingum:
    i)        slíkar áætlanir myndu meðal annars varða orku-, flutnings- og iðnaðargeirana, svo og landbúnað, skógarnytjar og meðhöndlun úrgangs. Enn fremur myndi aðlögunartækni og aðferðir til að bæta landnotkunarskipulag auðvelda aðlögun að loftslagsbreytingum, og
    ii)    aðilar, sem getið er um í I. viðauka, skulu leggja fram upplýsingar um aðgerðir samkvæmt bókun þessari, meðal annars landsáætlanir, í samræmi við ákvæði 7. gr. og aðrir aðilar skulu leitast við að fella inn í landsskýrslur sínar, eftir því sem við á, upplýsingar um áætlanir sem fela í sér ráðstafanir sem viðkomandi aðili telur akk í í baráttunni við loftslagsbreytingar og skaðleg áhrif þeirra, og lúta meðal annars að því að draga úr auknu útstreymi gróðurhúsalofttegunda og auka viðtaka og fjarlægingu með viðtökum, auka getu og gera ráðstafanir á sviði aðlögunar,
c)    efna til samstarfs um að vinna að framgangi skilvirkra aðferða við þróun, nýtingu og dreifingu á, og gera allar raunhæfar ráðstafanir til að stuðla að, auðvelda og fjármagna, eftir því sem við á, miðlun eða aðgengi að vistvænni tækniþekkingu, verkkunnáttu, aðferðum og starfsháttum sem varða loftslagsbreytingar, einkum í þróunarlöndum, þar með talin mótun stefnu og áætlana um skilvirka miðlun vistvænnar tækniþekkingar, sem er almenningseign eða lýtur yfirráðum hins opinbera, og sköpun hvetjandi aðstæðna fyrir einkageirann til að stuðla að og auka miðlun vistvænnar tækniþekkingar og aðgengi að henni,


d)    efna til samstarfs um vísindalegar og tæknilegar rannsóknir og stuðla að viðhaldi og þróun kerfisbundins fyrirkomulags eftirlits og þróun gagnasafna til að draga úr óvissu um loftslagskerfið, skaðleg áhrif loftslagsbreytinga og efnahagslegar og félagslegar afleiðingar ólíkra viðbragðsáætlana og stuðla að þróun og aukningu eigin getu og hæfni til að taka þátt í alþjóðlegu starfi og milliríkjastarfi, áætlunum og tengslanetum á sviði rannsókna og kerfisbundins eftirlits, að teknu tilliti til 5. gr. samningsins,


e)    efna til samstarfs um og stuðla að því á alþjóðavettvangi, og, þar sem það á við, nota til þess stofnanir sem fyrir eru, að þróa og framkvæma menntunar- og þjálfunaráætlanir, þar með talið að auka getu þjóða, sérstaklega mannlega getu og hæfni stofnana, og starfsmannaskipti og tímabundinn flutning milli starfa í því skyni að þjálfa sérfræðinga á þessu sviði, einkum fyrir þróunarlönd, og auka vitund almennings á landsvísu um upplýsingar um loftslagsbreytingar og aðgengi að þeim. Þróa skal viðeigandi aðferðir til að hrinda þessum aðgerðum í framkvæmd á vettvangi viðkomandi stofnana samningsins, að teknu tilliti til ákvæða 6.gr. hans,

f)    fella inn í landsskýrslur sínar upplýsingar um áætlanir og aðgerðir sem koma til framkvæmda samkvæmt þessari grein og í samræmi við viðeigandi ákvarðanir þings aðila, og

g)    taka fullt tillit til ákvæða 8. mgr. 4. gr. samningsins við framkvæmd skuldbindinga samkvæmt þessari grein.

11. gr.


    1. Við framkvæmd 10. gr. skulu aðilar taka tillit til ákvæða 4., 5., 7., 8. og 9. mgr. 4. gr. samningsins.

    2. Aðilar, sem eru iðnríki og aðrir iðnvæddir aðilar, sem getið er um í II. viðauka við samninginn, skulu, í tengslum við framkvæmd 1. mgr. 4. gr. samningsins, í samræmi við ákvæði 3. mgr. 4. gr. og 11. gr. samningsins og fyrir atbeina þeirrar stofnunar eða stofnana sem annast fjármálakerfi samningsins:


a)    útvega nýtt fjármagn og viðbótarfjármagn til þess að standa að fullu undir samþykktum kostnaði sem aðilar, sem eru þróunarlönd, verða fyrir í tengslum við að hrinda í framkvæmd gildandi skuldbindingum skv. a-lið 1. mgr. 4. gr. samningsins sem er fjallað um í a-lið 10. gr., og
b)    útvega einnig þeim aðilum, sem eru þróunarlönd, nauðsynlegt fjármagn, meðal annars til að miðla tækni, til að standa undir fullum samþykktum viðbótarkostnaði sem tengist því að hrinda í framkvæmd gildandi skuldbindingum skv. 1. mgr. 4. gr. samningsins sem fjallað er um í 10. gr. og samið hefur verið um milli aðila sem er þróunarland og alþjóðastofnunar eða -stofnana sem um getur í 11. gr. samningsins, í samræmi við ákvæði þeirrar greinar.
Við framkvæmd þessara gildandi skuldbindinga skal taka tillit til þeirrar nauðsynjar að fjármagnsflæði sé nægilegt og fyrirsjáanlegt og mikilvægis þess að aðilar, sem eru iðnríki, skipti fjármagnsbyrðum á milli sín með viðeigandi hætti. Leiðbeiningar til stofnunar eða stofnana sem er falið að annast fjármálakerfi samningsins, sem er að finna í viðeigandi ákvörðunum þings aðila, meðal annars þeim sem voru samþykktar áður en bókun þessi var samþykkt, skulu gilda að breyttu breytanda um ákvæði þessarar málsgreinar.
    3. Aðilum sem eru iðnríki og öðrum aðilum, sem eru iðnríki og getið er um í II. viðauka við samninginn, er einnig heimilt að útvega sér, og aðilum sem eru þróunarlönd að hagnýta sér, fjármagn til að hrinda ákvæðum 10. gr. í framkvæmd samkvæmt tvíhliða, svæðisbundnu eða annars konar marghliða fyrirkomulagi.

12. gr.


    1. Hér með er komið á kerfi um hreina þróun.

    2. Markmiðið með kerfi um hreina þróun skal vera að aðstoða aðila, sem ekki er getið um í I. viðauka, við að koma á sjálfbærri þróun og við að leggja sitt af mörkum til þess að ná fram lokamarkmiði samningsins og að aðstoða aðila, sem getið er um í I. viðauka, við að uppfylla skuldbindingar sínar um magnbundna takmörkun og minnkun útstreymis skv. 3. gr.
    3. Kerfi um hreina þróun:
a)    gerir aðilum, sem ekki er getið um í I. viðauka, kleift að njóta góðs af aðgerðum í tengslum við verkefni sem leiða til staðfestrar minnkunar útstreymis, og
b)    heimilar aðilum, sem getið er um í I. viðauka, að nota staðfesta minnkun útstreymis, sem leiðir af slíkum verkefnatengdum aðgerðum, til að standa við hluta af skuldbindingum sínum um magnbundna takmörkun og minnkun útstreymis skv. 3. gr., samanber ákvörðun þings aðila sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari.
    4. Kerfi um hreina þróun skal lúta stjórn og leiðsögn þings aðila sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari og vera undir eftirliti framkvæmdastjórnar kerfis um hreina þróun.

    5. Rekstraraðilar, sem þing aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, tilnefnir, skulu staðfesta minnkun útstreymis, sem leiðir af hverri verkefnatengdri aðgerð, á grundvelli:

a)    frjálsrar þátttöku sem hver hlutaðeigandi aðili samþykkir,
b)    ávinnings sem er raunverulegur, mælanlegur og til langs tíma og tengist aðgerðum til að draga úr loftslagsbreytingum, og
c)    minnkunar útstreymis sem er umfram þá sem myndi eiga sér stað án þeirrar staðfestu verkefnatengdu aðgerðar sem um ræðir.
    6. Nota ber umrætt kerfi um hreina þróun, eftir því sem þörf krefur, til að aðstoða við fjármögnun staðfestra verkefnatengdra aðgerða.
    7. Á fyrsta fundi þings aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal útfæra aðferðir og starfshætti í því skyni að tryggja gagnsæi, skilvirkni og ábyrgð með óháðri endurskoðun og sannprófun verkefnatengdra aðgerða.

    8. Þing aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal tryggja að hluti ágóða af staðfestum verkefnatengdum aðgerðum sé notaður til að greiða stjórnunarkostnað og aðstoða aðila, sem eru þróunarlönd og eru sérstaklega viðkvæmir fyrir skaðlegum áhrifum loftslagsbreytinga, við að bera kostnað vegna aðlögunar þeirra.
    9. Þátttaka samkvæmt kerfi um hreina þróun, meðal annars í aðgerðum sem um getur í a-lið 3. mgr. hér að framan og í útvegun staðfestra eininga fyrir minnkun útstreymis, er frjáls einkaaðilum og/eða opinberum stofnunum og skal háð hverri þeirri leiðsögn sem framkvæmdastjórn kerfis um hreina þróun kann að veita.
    10. Heimilt er að nota staðfesta minnkun útstreymis, sem næst frá árinu 2000 til upphafs fyrsta skuldbindingartímabils, í því skyni að hjálpa til við að uppfylla skuldbindingar á fyrsta skuldbindingartímabilinu.

13. gr.


    1. Þing aðila, sem er æðsta stofnun samningsins, skal gegna hlutverki fundar aðila að bókun þessari.

    2. Aðilar að samningnum, sem eru ekki aðilar að bókun þessari, geta tekið þátt í störfum allra funda þings aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, sem áheyrnarfulltrúar. Þegar þing aðila gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari skulu aðeins þeir, sem eru aðilar að bókun þessari, taka ákvarðanir samkvæmt henni.

    3. Þegar þing aðila gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari skal í stað hvers meðlims stjórnarnefndar þings aðila, sem er fulltrúi aðila að samningnum en, á þeim tíma, ekki aðila að bókun þessari, koma aukameðlimur sem skal kjörinn af og úr hópi aðila að bókun þessari.

    4. Þing aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal endurskoða reglulega framkvæmd bókunar þessarar og taka, samkvæmt umboði sínu, nauðsynlegar ákvarðanir til að stuðla að skilvirkri framkvæmd hennar. Þingið skal rækja þau störf sem því eru falin samkvæmt bókun þessari og skal:
a)    leggja mat, á grundvelli allra upplýsinga sem því eru tiltækar í samræmi við ákvæði bókunar þessarar, á framkvæmd aðila á ákvæðum bókunarinnar, heildaráhrif ráðstafana sem eru gerðar samkvæmt henni, einkum umhverfis-, efnahags- og félagsleg áhrif og samanlögð áhrif þeirra, og hversu vel miðar að ná markmiði samningsins,


b)    kanna reglulega skyldur aðila samkvæmt bókun þessari og taka í því sambandi eðlilegt tillit til hverrar endurskoðunar, sem er krafist skv. d-lið 2. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 7. gr. samningsins, í ljósi markmiðs samningsins, fenginnar reynslu við framkvæmd hans og þróunar vísinda- og tækniþekkingar og fjalla um og samþykkja, í þessu tilliti, reglubundnar skýrslur um framkvæmd bókunar þessarar,

c)    stuðla að og auðvelda upplýsingaskipti um ráðstafanir sem aðilar samþykkja í því skyni að fást við loftslagsbreytingar og áhrif þeirra, að teknu tilliti til ólíkra aðstæðna, ábyrgðar og hæfni aðila og skuldbindinga hvers og eins samkvæmt bókun þessari,
d)    auðvelda, að ósk tveggja eða fleiri aðila, samræmingu ráðstafana sem þeir samþykkja í því skyni að fást við loftslagsbreytingar og áhrif þeirra, að teknu tilliti til ólíkra aðstæðna, ábyrgðar og hæfni aðila og skuldbindinga hvers og eins samkvæmt bókun þessari,
e)    stuðla að og veita leiðbeiningar, í samræmi við markmið samningsins og ákvæði bókunar þessarar og að teknu fullu tilliti til viðeigandi ákvarðana þings aðila, varðandi þróun og reglulegar betrumbætur á sambærilegum aðferðum við skilvirka framkvæmd bókunar þessarar sem þing aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal ná samkomulagi um,

f)    gefa tilmæli um allt það sem er nauðsynlegt vegna framkvæmdar bókunar þessarar,
g)    leitast við að útvega viðbótarfjármagn í samræmi við 2. mgr. 11. gr.,
h)    koma á fót undirnefndum eftir því sem nauðsynlegt er talið vegna framkvæmdar bókunar þessarar,
i)    leita eftir og hagnýta, þar sem við á, þjónustu og samstarf við þar til bærar alþjóðastofnanir, milliríkjastofnanir og óháða aðila og einnig upplýsingar sem slíkir aðilar veita, og
j)    vinna önnur þau störf sem kann að verða krafist vegna framkvæmdar bókunar þessarar og fjalla um fyrirsett verkefni sem leiðir af ákvörðun þings aðila.
    5. Beita ber starfsreglum þings aðila og málsmeðferð á sviði fjármála, sem er viðhöfð samkvæmt samningnum, að breyttu breytanda samkvæmt bókun þessari, nema annað sé ákveðið með almennu samkomulagi af þingi aðila sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari.
    6. Skrifstofa samningsins skal kalla saman fyrsta fund þings aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, í tengslum við fyrsta fund þings aðila sem er ráðgerður eftir þann dag sem bókun þessi öðlast gildi. Reglulega fundi þings aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal síðan halda ár hvert og í tengslum við reglulega fundi þings aðila, nema þing aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, ákveði annað.    7. Aukafundi þings aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal halda hvenær sem þing aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, telur nauðsynlegt eða samkvæmt skriflegri beiðni aðila, svo fremi hún hafi hlotið stuðning minnst þriðjungs aðila innan sex mánaða frá því að skrifstofa samningsins tilkynnir aðilum um hana.

    8. Sameinuðu þjóðirnar, sérstofnanir þeirra og Alþjóðakjarnorkumálastofnunin, svo og hvert aðildarríki þeirra eða áheyrnarfulltrúar að þeim sem eru ekki aðilar að samningnum, geta átt áheyrnarfulltrúa á fundum þings aðila sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari. Hver stofnun, hvort heldur á landsvísu eða alþjóðleg, opinber eða óháð, sem er hæf til þess að vinna að málum sem bókun þessi fjallar um og hefur tilkynnt skrifstofu samningsins að hún óski eftir því að eiga áheyrnarfulltrúa á fundi þings aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, getur fengið heimild þar að lútandi, nema minnst þriðjungur aðila, sem eiga fulltrúa á fundinum, hreyfi andmælum. Aðgengi og þátttaka áheyrnarfulltrúa eru háð starfsreglum sem um getur í 5. mgr. hér að framan.


14. gr.


    1. Skrifstofan, sem var stofnsett skv. 8. gr. samningsins, skal gegna hlutverki skrifstofu bókunar þessarar.
    2. Ákvæði 2. mgr. 8. gr. samningsins, sem fjalla um störf skrifstofu samningsins, og 3. mgr. 8. gr. samningsins, sem fjalla um tilhögun starfsemi skrifstofunnar, skulu gilda um bókun þessa að breyttu breytanda. Auk þess skal skrifstofan vinna þau störf sem henni eru falin samkvæmt bókun þessari.


15. gr.


    1. Undirnefnd fyrir vísinda- og tækniráðgjöf og undirnefnd fyrir framkvæmd samningsins, sem var komið á fót skv. 9. og 10. gr. samningsins, skulu, hvor um sig, gegna hlutverki undirnefndar fyrir vísinda- og tækniráðgjöf vegna bókunar þessarar og undirnefndar fyrir framkvæmd hennar. Ákvæði samningsins um störf þessara tveggja nefnda skulu gilda um bókun þessa að breyttu breytanda. Halda ber fundi undirnefndar fyrir vísinda- og tækniráðgjöf vegna bókunar þessarar og undirnefndar fyrir framkvæmd hennar í tengslum við fundi, hvorrar um sig, undirnefndar fyrir vísinda- og tækniráðgjöf og undirnefndar fyrir framkvæmd samningsins.    2. Aðilar að samningnum, sem eru ekki aðilar að bókun þessari, geta tekið þátt í störfum allra funda undirnefndanna sem áheyrnarfulltrúar. Þegar undirnefndirnar gegna hlutverki undirnefnda vegna bókunar þessarar skulu aðeins þeir, sem eru aðilar að bókun þessari, taka ákvarðanir samkvæmt henni.

    3. Þegar undirnefndirnar, sem komið var á fót skv. 9. og 10. gr. samningsins, vinna störf sín með tilliti til mála sem varða bókun þessa, skal í stað hvers meðlims stjórnarnefnda fyrrnefndra undirnefnda, sem er fulltrúi aðila að samningnum en, á þeim tíma, ekki aðila að bókun þessari, koma aukameðlimur sem skal kjörinn af og úr hópi aðila að bókun þessari.

16. gr.


    Þing aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal, eins fljótt og auðið er, fjalla um framkvæmd hins fjölhliða ráðgjafarferlis, sem um getur í 13. gr. samningsins, með tilliti til bókunar þessarar og breyta því, eftir því sem við á, í ljósi viðeigandi ákvarðana sem þing aðila kann að taka. Hvert það fjölhliða ráðgjafarferli, sem kann að koma til framkvæmda gagnvart bókun þessari, skal verka með fyrirvara um þá málsmeðferð og það fyrirkomulag sem komið hefur verið á í samræmi við ákvæði 18. gr.

17. gr.


    Þing aðila skal skilgreina viðeigandi meginreglur, aðferðir, reglur og viðmiðunarreglur, einkum að því er varðar sannprófun, skýrslugerð og ábyrgð að því er varðar viðskipti með útstreymisheimildir. Aðilar, sem getið er um í viðauka B, geta verið þátttakendur í viðskiptum með útstreymisheimildir í því skyni að efna skuldbindingar sínar skv. 3. gr. Öll slík viðskipti skulu koma til viðbótar aðgerðum innanlands sem miða að því að efna skuldbindingar um magnbundna takmörkun og minnkun útstreymis samkvæmt þeirri grein.

18. gr.


    Á fyrsta fundi þings aðila, sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari, skal samþykkja viðeigandi og skilvirka málsmeðferð og fyrirkomulag við að skilgreina og fást við tilvik þar sem ákvæði bókunar þessarar eru ekki efnd, meðal annars með því að semja leiðbeinandi skrá um afleiðingar þess, að teknu tilliti til orsaka, eðlis, umfangs og tíðni tilvika þar sem um vanefndir er að ræða. Samþykkja ber málsmeðferð og fyrirkomulag, sem um getur í þessari grein og fela í sér bindandi afleiðingar, með breytingu á bókun þessari.

19. gr.


    Ákvæði 14. gr. samningsins um lausn deilumála skulu gilda um bókun þessa að breyttu breytanda.


20. gr.


    1. Hverjum aðila er heimilt að leggja fram breytingartillögur við bókun þessa.
    2. Samþykkja ber breytingar á bókun þessari á reglulegum fundi þings aðila sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari. Skrifstofa samningsins skal senda aðilum texta allra breytingartillagna við bókun þessa eigi síðar en sex mánuðum fyrir fundinn þar sem leggja á fram tillögu um að breytingar verði samþykktar. Skrifstofan skal einnig senda aðilum og undirritunaraðilum samningsins og, til upplýsingar, vörsluaðila texta allra breytingartillagna.
    3. Aðilar skulu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að ná almennu samkomulagi um breytingartillögur við bókun þessa. Reynist allar tilraunir til að ná almennu samkomulagi árangurslausar skal breytingin, sem síðasta úrræði, teljast samþykkt ef hún hlýtur stuðning þriggja fjórðu hluta aðila sem eru viðstaddir og greiða atkvæði á fundinum. Skrifstofan skal senda vörsluaðila breytinguna, sem hefur verið samþykkt, og skal hann dreifa henni til allra aðila til staðfestingar.
    4. Skjöl um staðfestingu breytingar skulu afhent vörsluaðila til vörslu. Breyting, sem er samþykkt í samræmi við 3. mgr. hér að framan, skal öðlast gildi að því er varðar þá aðila, sem hafa staðfest hana, á nítugasta degi eftir að vörsluaðili hefur tekið við staðfestingarskjali frá að minnsta kosti þremur fjórðu hlutum aðila að bókun þessari.

    5. Breytingin skal öðlast gildi, að því er varðar hvern annan aðila, á nítugasta degi eftir að hann hefur afhent vörsluaðila skjal sitt um staðfestingu umræddrar breytingar.

21. gr.


    1. Viðaukar við bókun þessa skulu vera óaðskiljanlegur hluti hennar og skal tilvísun til bókunar þessarar fela í sér tilvísun til allra viðauka við hana, nema kveðið sé sérstaklega á um annað. Allir viðaukar, sem eru samþykktir eftir að bókun þessi öðlast gildi, skulu takmarkast við skrár, eyðublöð og hvers kyns annað efni til útskýringar sem er vísinda-, tækni-, málsmeðferðar- eða stjórnsýslulegs eðlis.

    2. Hverjum aðila er heimilt að leggja fram tillögur um viðauka við bókun þessa og getur lagt fram breytingartillögur við viðauka við bókun þessa.
    3. Samþykkja ber viðauka við bókun þessa og breytingar á viðaukum við bókun þessa á reglulegum fundi þings aðila sem gegnir hlutverki fundar aðila að bókun þessari. Skrifstofa samningsins skal senda aðilum texta allra tillagna um viðauka eða breytingar á viðauka eigi síðar en sex mánuðum fyrir fundinn þar sem leggja á þær fram til samþykktar. Skrifstofan skal einnig senda aðilum og undirritunaraðilum samningsins og, til upplýsingar, vörsluaðila texta allra tillagna um viðauka eða breytingar á viðauka.


    4. Aðilar skulu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að ná almennu samkomulagi um tillögu um viðauka eða breytingu á viðauka. Reynist allar tilraunir til að ná almennu samkomulagi árangurslausar skal viðaukinn eða breyting á viðauka, sem síðasta úrræði, teljast samþykkt ef hún hlýtur stuðning þriggja fjórðu hluta aðila sem eru viðstaddir og greiða atkvæði á fundinum. Skrifstofan skal senda vörsluaðila viðaukann eða breytingu á viðauka sem hefur verið samþykkt og skal hann dreifa henni til allra aðila til staðfestingar.
    5. Viðauki eða breyting á viðauka, öðrum en viðauka A eða B, sem hefur verið samþykkt í samræmi við 3. og 4. mgr. hér að framan, skal öðlast gildi, að því er varðar alla aðila að bókun þessari, sex mánuðum eftir að vörsluaðili sendir þeim tilkynningu um samþykkt viðaukans eða breytingarinnar á viðaukanum, nema að því er varðar þá aðila sem hafa, áður en sá frestur er útrunninn, tilkynnt vörsluaðila skriflega að þeir staðfesti ekki viðaukann eða breytinguna á viðaukanum. Viðaukinn eða breyting á viðauka skal öðlast gildi að því er varðar aðila, sem afturkalla tilkynningu sína um að þeir staðfesti ekki viðaukann eða breytinguna á viðaukanum, á nítugasta degi eftir að vörsluaðila berst afturköllun slíkrar tilkynningar í hendur.
    6. Feli samþykkt viðauka eða breytingar á viðauka í sér breytingu á bókun þessari skal viðaukinn eða breytingin á viðauka ekki öðlast gildi fyrr en breytingin á bókun þessari öðlast gildi.

    7. Samþykkja ber breytingar á viðaukum A og B við bókun þessa, og skulu þær öðlast gildi, í samræmi við málsmeðferðina sem er sett fram í 20. gr., að því tilskildu að aðeins skal samþykkja breytingar á viðauka B að fengnu skriflegu samþykki hlutaðeigandi aðila.

22. gr.


    1. Hver aðili skal hafa eitt atkvæði með þeirri undantekningu sem kveðið er á um í 2. mgr. hér að aftan.
    2. Svæðisstofnanir um efnahagssamvinnu skulu, í málum sem eru á valdsviði þeirra, neyta atkvæðisréttar síns með sama fjölda atkvæða og fjöldi aðildarríkja þeirra, sem eru aðilar að bókun þessari, segir til um. Slík stofnun skal ekki neyta atkvæðisréttar síns ef eitthvert aðildarríki hennar neytir hans og öfugt.

23. gr.


    Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal vera vörsluaðili bókunar þessarar.

24. gr.


    1. Bókun þessi skal liggja frammi til undirritunar og er háð fullgildingu, staðfestingu eða samþykki ríkja og svæðisstofnana um efnahagssamvinnu sem eru aðilar að samningnum. Hún skal liggja frammi til undirritunar í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York frá 16. mars 1998 til 15. mars 1999. Bókun þessi skal liggja frammi til aðildar frá deginum eftir daginn sem henni er lokað fyrir undirritun. Skjöl um fullgildingu-, staðfestingu, samþykki eða aðild skulu afhent vörsluaðila til vörslu.
    2. Svæðisstofnun um efnahagssamvinnu, sem verður aðili að bókun þessari án þess að nokkurt aðildarríkja hennar sé aðili að henni, skal vera bundin af öllum skuldbindingum samkvæmt bókun þessari. Séu eitt eða fleiri aðildarríki að slíkri stofnun aðilar að bókun þessari skulu stofnunin og aðildarríki hennar taka ákvörðun um ábyrgð hvers og eins með tilliti til þess að framkvæma skuldbindingar sínar samkvæmt bókun þessari. Í slíkum tilvikum geta stofnunin og aðildarríki hennar ekki notið réttinda samkvæmt bókun þessari samtímis.

    3. Svæðisstofnanir um efnahagssamvinnu skulu í skjölum sínum um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild lýsa því yfir hvert valdsvið þeirra er í málum sem bókun þessi nær til. Stofnanir þessar skulu enn fremur tilkynna vörsluaðila, sem síðan tilkynnir það aðilum, ef verulegar breytingar verða á valdsviði þeirra.


25. gr.


    1. Bókun þessi öðlast gildi á nítugasta degi eftir að minnst 55 aðilar að samningnum, þar með taldir aðilar sem getið er um í I. viðauka og samtals voru ábyrgir fyrir að minnsta kosti 55 hundraðshlutum af heildarútstreymi koltvíoxíðs árið 1990 frá þeim aðilum sem getið er um í I. viðauka, hafa afhent skjöl sín um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild.
    2. Í þessari grein merkir „heildarútstreymi koltvíoxíðs árið 1990 frá þeim aðilum sem getið er um í I. viðauka“ það magn sem þeir aðilar, sem getið er um í I. viðauka, höfðu tilkynnt um, þann dag eða fyrir þann dag sem bókun þessi er samþykkt, í fyrstu landsskýrslu sinni sem lögð er fram í samræmi við ákvæði 12. gr. samningsins.
    3. Að því er varðar hvert ríki eða svæðisstofnun um efnahagssamvinnu, sem fullgildir, staðfestir eða samþykkir bókun þessa eða gerist aðili að henni að uppfylltum þeim skilyrðum fyrir gildistöku sem eru tilgreind í 1. mgr. hér að framan, skal bókun þessi öðlast gildi á nítugasta degi eftir að viðkomandi ríki eða svæðisstofnun um efnahagssamvinnu afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild til vörslu.
    4. Að því er varðar þessa grein skal ekki líta svo á að skjal, sem svæðisstofnun um efnahagssamvinnu afhendir til vörslu, komi til viðbótar þeim skjölum sem aðildarríki stofnunarinnar afhenda til vörslu.


26. gr.


    Enga fyrirvara má gera við bókun þessa.

27. gr.


    1. Aðili getur sagt upp aðild sinni að bókun þessari, með skriflegri tilkynningu til vörsluaðila, hvenær sem er eftir að þrjú ár eru liðin frá því að hún öðlast gildi að því er hann varðar.
    2. Hver slík uppsögn skal öðlast gildi þegar eitt ár er liðið frá því að vörsluaðili tekur við tilkynningu um uppsögn eða á þeim degi síðar sem kann að vera tilgreindur í tilkynningunni um uppsögn.

    3. Hver sá aðili, sem segir upp aðild að samningnum, skal einnig talinn hafa sagt upp aðild að bókun þessari.

28. gr.


    Frumrit bókunar þessarar, en textar þess á arabísku, ensku, frönsku, kínversku, rússnesku og spænsku eru jafngildir, skal falið aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.

     GJÖRT í Kýótó hinn 11. desember 1997.


     ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirrituð, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað bókun þessa á þeim degi sem tilgreindur er.Viðauki A.


Gróðurhúsalofttegundir

Koltvíoxíð ( CO2)
Metan ( CH4)
Nituroxíð ( N2O)
Vetnisflúorkolefni (HFC)
Perflúorkolefni (PFC)
Brennisteinshexaflúoríð ( SF6)

Flokkar eftir geirum og uppsprettum

Orka
    Eldsneytisbrennsla
         Orkuiðnaður
         Framleiðslu- og byggingariðnaður
         Flutningastarfsemi
         Aðrir geirar
         Annað
    Dreift útstreymi frá eldsneyti
         Eldsneyti í föstu formi
         Olía og jarðgas
         Annað

Iðnaðarvinnsla
    Jarðefni
    Efnaiðnaður
    Málmframleiðsla
    Önnur framleiðsla
    Framleiðsla halógenkolefna og brennisteinshexaflúoríðs
    Notkun halógenkolefna og brennisteinshexaflúoríðs
    Annað

Notkun leysiefna og annarra efna

Landbúnaður
    Iðragerjun
    Meðhöndlun húsdýraáburðar
    Hrísgrjónarækt
    Nytjajarðvegur
    Fyrirskipuð brennsla gresja
    Brennsla landbúnaðarleifa á ökrum
    Annað

Úrgangur
    Förgun úrgangs í föstu formi á landi
    Meðhöndlun skólps
    Sorpbrennsla
    AnnaðViðauki B.


Aðili     Skuldbinding um
    magnbundna takmörkun
    eða minnkun útstreymis

    (hundraðshluti af
    viðmiðunarári eða -tímabili)

Austurríki     92
Ástralía     108
Bandaríki Norður-Ameríku     93
Belgía     92
Búlgaría *     92
Danmörk     92
Eistland *     92
Evrópubandalagið     92
Finnland     92
Frakkland     92
Grikkland     92
Holland     92
Írland     92
Ísland     110
Ítalía     92
Japan     94
Kanada     94
Króatía *     95
Lettland *     92
Lichtenstein     92
Litháen *     92
Lúxemborg     92
Mónakó     92
Noregur     101
Nýja-Sjáland     100
Portúgal     92
Pólland *     94
Rúmenía *     92
Rússneska sambandsríkið *     100
Slóvakía *     92
Slóvenía *     92
Spánn     92
Hið sameinaða konungsríki
Stóra-Bretlands og Norður-Írlands     92
Sviss     92
Svíþjóð     92
Tékkland *     92
Ungverjaland *     94
Úkraína *     100
Þýskaland     92
*    Lönd sem eru að skipta yfir í markaðsbúskap.

KYOTO PROTOCOL TO
THE UNITED NATIONS FRAMEWORK CONVENTION ON CLIMATE CHANGE


The Parties to this Protocol,

Being Parties to the United Nations Framework Convention on Climate Change, hereinafter referred to as “the Convention”,

In pursuit of the ultimate objective of the Convention as stated in its Article 2,

Recalling the provisions of the Convention,

Being guided by Article 3 of the Convention,

Pursuant to the Berlin Mandate adopted by decision 1/CP.1 of the Conference of the Parties to the Convention at its first session,

Have agreed as follows:

Article 1


    For the purposes of this Protocol, the definitions contained in Article 1 of the Convention shall apply. In addition:
1.    “Conference of the Parties” means the Conference of the Parties to the Convention.
2.    “Convention” means the United Nations Framework Convention on Climate Change, adopted in New York on 9 May 1992.
3.    “Intergovernmental Panel on Climate Change” means the Intergovernmental Panel on Climate Change established in 1988 jointly by the World Meteorological Organization and the United Nations Environment Programme.
4.    “Montreal Protocol” means the Montreal Protocol on Substances that Deplete the Ozone Layer, adopted in Montreal on 16 September 1987 and as subsequently adjusted and amended.
5.    “Parties present and voting” means Parties present and casting an affirmative or negative vote.

6.    “Party” means, unless the context otherwise indicates, a Party to this Protocol.
7.    “Party included in Annex I” means a Party included in Annex I to the Convention, as may be amended, or a Party which has made a notification under Article 4, paragraph 2(g), of the Convention.

Article 2


    1. Each Party included in Annex I, in achieving its quantified emission limitation and reduction commitments under Article 3, in order to promote sustainable development, shall:
(a)    Implement and/or further elaborate policies and measures in accordance with its national circumstances, such as:
    (i)    Enhancement of energy efficiency in relevant sectors of the national economy;
    (ii)    Protection and enhancement of sinks and reservoirs of greenhouse gases not controlled by the Montreal Protocol, taking into account its commitments under relevant international environmental agreements; promotion of sustainable forest management practices, afforestation and reforestation;
    (iii)    Promotion of sustainable forms of agriculture in light of climate change considerations;
    (iv)    Research on, and promotion, development and increased use of, new and renewable forms of energy, of carbon dioxide sequestration technologies and of advanced and innovative environmentally sound technologies;
    (v)    Progressive reduction or phasing out of market imperfections, fiscal incentives, tax and duty exemptions and subsidies in all greenhouse gas emitting sectors that run counter to the objective of the Convention and application of market instruments;

    (vi)    Encouragement of appropriate reforms in relevant sectors aimed at promoting policies and measures which limit or reduce emissions of greenhouse gases not controlled by the Montreal Protocol;

    (vii)    Measures to limit and/or reduce emissions of greenhouse gases not controlled by the Montreal Protocol in the transport sector;

    (viii)    Limitation and/or reduction of methane emissions through recovery and use in waste management, as well as in the production, transport and distribution of energy;
(b)    Cooperate with other such Parties to enhance the individual and combined effectiveness of their policies and measures adopted under this Article, pursuant to Article 4, paragraph 2(e)(i), of the Convention. To this end, these Parties shall take steps to share their experience and exchange information on such policies and measures, including developing ways of improving their comparability, transparency and effectiveness. The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol shall, at its first session or as soon as practicable thereafter, consider ways to facilitate such cooperation, taking into account all relevant information.

    2. The Parties included in Annex I shall pursue limitation or reduction of emissions of greenhouse gases not controlled by the Montreal Protocol from aviation and marine bunker fuels, working through the International Civil Aviation Organization and the International Maritime Organization, respectively.

    3. The Parties included in Annex I shall strive to implement policies and measures under this Article in such a way as to minimize adverse effects, including the adverse effects of climate change, effects on international trade, and social, environmental and economic impacts on other Parties, especially developing country Parties and in particular those identified in Article 4, paragraphs 8 and 9, of the Convention, taking into account Article 3 of the Convention. The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol may take further action, as appropriate, to promote the implementation of the provisions of this paragraph.
    4. The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol, if it decides that it would be beneficial to coordinate any of the policies and measures in paragraph 1(a) above, taking into account different national circumstances and potential effects, shall consider ways and means to elaborate the coordination of such policies and measures.

Article 3


    1. The Parties included in Annex I shall, individually or jointly, ensure that their aggregate anthropogenic carbon dioxide equivalent emissions of the greenhouse gases listed in Annex A do not exceed their assigned amounts, calculated pursuant to their quantified emission limitation and reduction commitments inscribed in Annex B and in accordance with the provisions of this Article, with a view to reducing their overall emissions of such gases by at least 5 per cent below 1990 levels in the commitment period 2008 to 2012.


    2. Each Party included in Annex I shall, by 2005, have made demonstrable progress in achieving its commitments under this Protocol.

    3. The net changes in greenhouse gas emissions by sources and removals by sinks resulting from direct human-induced land-use change and forestry activities, limited to afforestation, reforestation and deforestation since 1990, measured as verifiable changes in carbon stocks in each commitment period, shall be used to meet the commitments under this Article of each Party included in Annex I. The greenhouse gas emissions by sources and removals by sinks associated with those activities shall be reported in a transparent and verifiable manner and reviewed in accordance with Articles 7 and 8.


    4. Prior to the first session of the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol, each Party included in Annex I shall provide, for consideration by the Subsidiary Body for Scientific and Technological Advice, data to establish its level of carbon stocks in 1990 and to enable an estimate to be made of its changes in carbon stocks in subsequent years. The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol shall, at its first session or as soon as practicable thereafter, decide upon modalities, rules and guidelines as to how, and which, additional human-induced activities related to changes in greenhouse gas emissions by sources and removals by sinks in the agricultural soils and the land-use change and forestry categories shall be added to, or subtracted from, the assigned amounts for Parties included in Annex I, taking into account uncertainties, transparency in reporting, verifiability, the methodological work of the Intergovernmental Panel on Climate Change, the advice provided by the Subsidiary Body for Scientific and Technological Advice in accordance with Article 5 and the decisions of the Conference of the Parties. Such a decision shall apply in the second and subsequent commitment periods. A Party may choose to apply such a decision on these additional human-induced activities for its first commitment period, provided that these activities have taken place since 1990.
    5. The Parties included in Annex I undergoing the process of transition to a market economy whose base year or period was established pursuant to decision 9/CP.2 of the Conference of the Parties at its second session shall use that base year or period for the implementation of their commitments under this Article. Any other Party included in Annex I undergoing the process of transition to a market economy which has not yet submitted its first national communication under Article 12 of the Convention may also notify the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol that it intends to use an historical base year or period other than 1990 for the implementation of its commitments under this Article. The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol shall decide on the acceptance of such notification.
    6. Taking into account Article 4, paragraph 6, of the Convention, in the implementation of their commitments under this Protocol other than those under this Article, a certain degree of flexibility shall be allowed by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol to the Parties included in Annex I undergoing the process of transition to a market economy.
    7. In the first quantified emission limitation and reduction commitment period, from 2008 to 2012, the assigned amount for each Party included in Annex I shall be equal to the percentage inscribed for it in Annex B of its aggregate anthropogenic carbon dioxide equivalent emissions of the greenhouse gases listed in Annex A in 1990, or the base year or period determined in accordance with paragraph 5 above, multiplied by five. Those Parties included in Annex I for whom land-use change and forestry constituted a net source of greenhouse gas emissions in 1990 shall include in their 1990 emissions base year or period the aggregate anthropogenic carbon dioxide equivalent emissions by sources minus removals by sinks in 1990 from land-use change for the purposes of calculating their assigned amount.    8. Any Party included in Annex I may use 1995 as its base year for hydrofluorocarbons, perfluorocarbons and sulphur hexafluoride, for the purposes of the calculation referred to in paragraph 7 above.

    9. Commitments for subsequent periods for Parties included in Annex I shall be established in amendments to Annex B to this Protocol, which shall be adopted in accordance with the provisions of Article 21, paragraph 7. The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol shall initiate the consideration of such commitments at least seven years before the end of the first commitment period referred to in paragraph 1 above.
    10. Any emission reduction units, or any part of an assigned amount, which a Party acquires from another Party in accordance with the provisions of Article 6 or of Article 17 shall be added to the assigned amount for the acquiring Party.
    11. Any emission reduction units, or any part of an assigned amount, which a Party transfers to another Party in accordance with the provisions of Article 6 or of Article 17 shall be subtracted from the assigned amount for the transferring Party.
    12. Any certified emission reductions which a Party acquires from another Party in accordance with the provisions of Article 12 shall be added to the assigned amount for the acquiring Party.
    13. If the emissions of a Party included in Annex I in a commitment period are less than its assigned amount under this Article, this difference shall, on request of that Party, be added to the assigned amount for that Party for subsequent commitment periods.
    14. Each Party included in Annex I shall strive to implement the commitments mentioned in paragraph 1 above in such a way as to minimize adverse social, environmental and economic impacts on developing country Parties, particularly those identified in Article 4, paragraphs 8 and 9, of the Convention. In line with relevant decisions of the Conference of the Parties on the implementation of those paragraphs, the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol shall, at its first session, consider what actions are necessary to minimize the adverse effects of climate change and/or the impacts of response measures on Parties referred to in those paragraphs. Among the issues to be considered shall be the establishment of funding, insurance and transfer of technology.

Article 4


    1. Any Parties included in Annex I that have reached an agreement to fulfil their commitments under Article 3 jointly, shall be deemed to have met those commitments provided that their total combined aggregate anthropogenic carbon dioxide equivalent emissions of the greenhouse gases listed in Annex A do not exceed their assigned amounts calculated pursuant to their quantified emission limitation and reduction commitments inscribed in Annex B and in accordance with the provisions of Article 3. The respective emission level allocated to each of the Parties to the agreement shall be set out in that agreement.
    2. The Parties to any such agreement shall notify the secretariat of the terms of the agreement on the date of deposit of their instruments of ratification, acceptance or approval of this Protocol, or accession thereto. The secretariat shall in turn inform the Parties and signatories to the Convention of the terms of the agreement.
    3. Any such agreement shall remain in operation for the duration of the commitment period specified in Article 3, paragraph 7.
    4. If Parties acting jointly do so in the framework of, and together with, a regional economic integration organization, any alteration in the composition of the organization after adoption of this Protocol shall not affect existing commitments under this Protocol. Any alteration in the composition of the organization shall only apply for the purposes of those commitments under Article 3 that are adopted subsequent to that alteration.
    5. In the event of failure by the Parties to such an agreement to achieve their total combined level of emission reductions, each Party to that agreement shall be responsible for its own level of emissions set out in the agreement.
    6. If Parties acting jointly do so in the framework of, and together with, a regional economic integration organization which is itself a Party to this Protocol, each member State of that regional economic integration organization individually, and together with the regional economic integration organization acting in accordance with Article 24, shall, in the event of failure to achieve the total combined level of emission reductions, be responsible for its level of emissions as notified in accordance with this Article.

Article 5


    1. Each Party included in Annex I shall have in place, no later than one year prior to the start of the first commitment period, a national system for the estimation of anthropogenic emissions by sources and removals by sinks of all greenhouse gases not controlled by the Montreal Protocol. Guidelines for such national systems, which shall incorporate the methodologies specified in paragraph 2 below, shall be decided upon by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol at its first session.
    2. Methodologies for estimating anthropogenic emissions by sources and removals by sinks of all greenhouse gases not controlled by the Montreal Protocol shall be those accepted by the Intergovernmental Panel on Climate Change and agreed upon by the Conference of the Parties at its third session. Where such methodologies are not used, appropriate adjustments shall be applied according to methodologies agreed upon by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol at its first session. Based on the work of, inter alia, the Intergovernmental Panel on Climate Change and advice provided by the Subsidiary Body for Scientific and Technological Advice, the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol shall regularly review and, as appropriate, revise such methodologies and adjustments, taking fully into account any relevant decisions by the Conference of the Parties. Any revision to methodologies or adjustments shall be used only for the purposes of ascertaining compliance with commitments under Article 3 in respect of any commitment period adopted subsequent to that revision.
    3. The global warming potentials used to calculate the carbon dioxide equivalence of anthropogenic emissions by sources and removals by sinks of greenhouse gases listed in Annex A shall be those accepted by the Intergovernmental Panel on Climate Change and agreed upon by the Conference of the Parties at its third session. Based on the work of, inter alia, the Intergovernmental Panel on Climate Change and advice provided by the Subsidiary Body for Scientific and Technological Advice, the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol shall regularly review and, as appropriate, revise the global warming potential of each such greenhouse gas, taking fully into account any relevant decisions by the Conference of the Parties. Any revision to a global warming potential shall apply only to commitments under Article 3 in respect of any commitment period adopted subsequent to that revision.

Article 6


    1. For the purpose of meeting its commitments under Article 3, any Party included in Annex I may transfer to, or acquire from, any other such Party emission reduction units resulting from projects aimed at reducing anthropogenic emissions by sources or enhancing anthropogenic removals by sinks of greenhouse gases in any sector of the economy, provided that:

(a)    Any such project has the approval of the Parties involved;
(b)    Any such project provides a reduction in emissions by sources, or an enhancement of removals by sinks, that is additional to any that would otherwise occur;
(c)    It does not acquire any emission reduction units if it is not in compliance with its obligations under Articles 5 and 7; and
(d)    The acquisition of emission reduction units shall be supplemental to domestic actions for the purposes of meeting commitments under Article 3.
    2. The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol may, at its first session or as soon as practicable thereafter, further elaborate guidelines for the implementation of this Article, including for verification and reporting.
    3. A Party included in Annex I may authorize legal entities to participate, under its responsibility, in actions leading to the generation, transfer or acquisition under this Article of emission reduction units.
    4. If a question of implementation by a Party included in Annex I of the requirements referred to in this Article is identified in accordance with the relevant provisions of Article 8, transfers and acquisitions of emission reduction units may continue to be made after the question has been identified, provided that any such units may not be used by a Party to meet its commitments under Article 3 until any issue of compliance is resolved.

Article 7


    1. Each Party included in Annex I shall incorporate in its annual inventory of anthropogenic emissions by sources and removals by sinks of greenhouse gases not controlled by the Montreal Protocol, submitted in accordance with the relevant decisions of the Conference of the Parties, the necessary supplementary information for the purposes of ensuring compliance with Article 3, to be determined in accordance with paragraph 4 below.
    2. Each Party included in Annex I shall incorporate in its national communication, submitted under Article 12 of the Convention, the supplementary information necessary to demonstrate compliance with its commitments under this Protocol, to be determined in accordance with paragraph 4 below.
    3. Each Party included in Annex I shall submit the information required under paragraph 1 above annually, beginning with the first inventory due under the Convention for the first year of the commitment period after this Protocol has entered into force for that Party. Each such Party shall submit the information required under paragraph 2 above as part of the first national communication due under the Convention after this Protocol has entered into force for it and after the adoption of guidelines as provided for in paragraph 4 below. The frequency of subsequent submission of information required under this Article shall be determined by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol, taking into account any timetable for the submission of national communications decided upon by the Conference of the Parties.

    4. The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol shall adopt at its first session, and review periodically thereafter, guidelines for the preparation of the information required under this Article, taking into account guidelines for the preparation of national communications by Parties included in Annex I adopted by the Conference of the Parties. The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol shall also, prior to the first commitment period, decide upon modalities for the accounting of assigned amounts.

Article 8


    1. The information submitted under Article 7 by each Party included in Annex I shall be reviewed by expert review teams pursuant to the relevant decisions of the Conference of the Parties and in accordance with guidelines adopted for this purpose by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol under paragraph 4 below. The information submitted under Article 7, paragraph 1, by each Party included in Annex I shall be reviewed as part of the annual compilation and accounting of emissions inventories and assigned amounts. Additionally, the information submitted under Article 7, paragraph 2, by each Party included in Annex I shall be reviewed as part of the review of communications.
    2. Expert review teams shall be coordinated by the secretariat and shall be composed of experts selected from those nominated by Parties to the Convention and, as appropriate, by intergovernmental organizations, in accordance with guidance provided for this purpose by the Conference of the Parties.
    3. The review process shall provide a thorough and comprehensive technical assessment of all aspects of the implementation by a Party of this Protocol. The expert review teams shall prepare a report to the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol, assessing the implementation of the commitments of the Party and identifying any potential problems in, and factors influencing, the fulfilment of commitments. Such reports shall be circulated by the secretariat to all Parties to the Convention. The secretariat shall list those questions of implementation indicated in such reports for further consideration by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol.
    4. The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol shall adopt at its first session, and review periodically thereafter, guidelines for the review of implementation of this Protocol by expert review teams taking into account the relevant decisions of the Conference of the Parties.
    5. The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol shall, with the assistance of the Subsidiary Body for Implementation and, as appropriate, the Subsidiary Body for Scientific and Technological Advice, consider:
(a)    The information submitted by Parties under Article 7 and the reports of the expert reviews thereon conducted under this Article; and

(b)    Those questions of implementation listed by the secretariat under paragraph 3 above, as well as any questions raised by Parties.
    6. Pursuant to its consideration of the information referred to in paragraph 5 above, the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol shall take decisions on any matter required for the implementation of this Protocol.

Article 9


    1. The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol shall periodically review this Protocol in the light of the best available scientific information and assessments on climate change and its impacts, as well as relevant technical, social and economic information. Such reviews shall be coordinated with pertinent reviews under the Convention, in particular those required by Article 4, paragraph 2(d), and Article 7, paragraph 2(a), of the Convention. Based on these reviews, the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol shall take appropriate action.
    2. The first review shall take place at the second session of the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol. Further reviews shall take place at regular intervals and in a timely manner.

Article 10


    All Parties, taking into account their common but differentiated responsibilities and their specific national and regional development priorities, objectives and circumstances, without introducing any new commitments for Parties not included in Annex I, but reaffirming existing commitments under Article 4, paragraph 1, of the Convention, and continuing to advance the implementation of these commitments in order to achieve sustainable development, taking into account Article 4, paragraphs 3, 5 and 7, of the Convention, shall:
(a)    Formulate, where relevant and to the extent possible, cost-effective national and, where appropriate, regional programmes to improve the quality of local emission factors, activity data and/or models which reflect the socio-economic conditions of each Party for the preparation and periodic updating of national inventories of anthropogenic emissions by sources and removals by sinks of all greenhouse gases not controlled by the Montreal Protocol, using comparable methodologies to be agreed upon by the Conference of the Parties, and consistent with the guidelines for the preparation of national communications adopted by the Conference of the Parties;

(b)    Formulate, implement, publish and regularly update national and, where appropriate, regional programmes containing measures to mitigate climate change and measures to facilitate adequate adaptation to climate change:

    (i)    Such programmes would, inter alia, concern the energy, transport and industry sectors as well as agriculture, forestry and waste management. Furthermore, adaptation technologies and methods for improving spatial planning would improve adaptation to climate change; and
    (ii)    Parties included in Annex I shall submit information on action under this Protocol, including national programmes, in accordance with Article 7; and other Parties shall seek to include in their national communications, as appropriate, information on programmes which contain measures that the Party believes contribute to addressing climate change and its adverse impacts, including the abatement of increases in greenhouse gas emissions, and enhancement of and removals by sinks, capacity building and adaptation measures;

(c)    Cooperate in the promotion of effective modalities for the development, application and diffusion of, and take all practicable steps to promote, facilitate and finance, as appropriate, the transfer of, or access to, environmentally sound technologies, know-how, practices and processes pertinent to climate change, in particular to developing countries, including the formulation of policies and programmes for the effective transfer of environmentally sound technologies that are publicly owned or in the public domain and the creation of an enabling environment for the private sector, to promote and enhance the transfer of, and access to, environmentally sound technologies;
(d)    Cooperate in scientific and technical research and promote the maintenance and the development of systematic observation systems and development of data archives to reduce uncertainties related to the climate system, the adverse impacts of climate change and the economic and social consequences of various response strategies, and promote the development and strengthening of endogenous capacities and capabilities to participate in international and intergovernmental efforts, programmes and networks on research and systematic observation, taking into account Article 5 of the Convention;
(e)    Cooperate in and promote at the international level, and, where appropriate, using existing bodies, the development and implementation of education and training programmes, including the strengthening of national capacity building, in particular human and institutional capacities and the exchange or secondment of personnel to train experts in this field, in particular for developing countries, and facilitate at the national level public awareness of, and public access to information on, climate change. Suitable modalities should be developed to implement these activities through the relevant bodies of the Convention, taking into account Article 6 of the Convention;
(f)    Include in their national communications information on programmes and activities undertaken pursuant to this Article in accordance with relevant decisions of the Conference of the Parties; and
(g)    Give full consideration, in implementing the commitments under this Article, to Article 4, paragraph 8, of the Convention.

Article 11


    1. In the implementation of Article 10, Parties shall take into account the provisions of Article 4, paragraphs 4, 5, 7, 8 and 9, of the Convention.
    2. In the context of the implementation of Article 4, paragraph 1, of the Convention, in accordance with the provisions of Article 4, paragraph 3, and Article 11 of the Convention, and through the entity or entities entrusted with the operation of the financial mechanism of the Convention, the developed country Parties and other developed Parties included in Annex II to the Convention shall:
(a)    Provide new and additional financial resources to meet the agreed full costs incurred by developing country Parties in advancing the implementation of existing commitments under Article 4, paragraph 1(a), of the Convention that are covered in Article 10, subparagraph (a); and
(b)    Also provide such financial resources, including for the transfer of technology, needed by the developing country Parties to meet the agreed full incremental costs of advancing the implementation of existing commitments under Article 4, paragraph 1, of the Convention that are covered by Article 10 and that are agreed between a developing country Party and the international entity or entities referred to in Article 11 of the Convention, in accordance with that Article.
The implementation of these existing commitments shall take into account the need for adequacy and predictability in the flow of funds and the importance of appropriate burden sharing among developed country Parties. The guidance to the entity or entities entrusted with the operation of the financial mechanism of the Convention in relevant decisions of the Conference of the Parties, including those agreed before the adoption of this Protocol, shall apply mutatis mutandis to the provisions of this paragraph.

    3. The developed country Parties and other developed Parties in Annex II to the Convention may also provide, and developing country Parties avail themselves of, financial resources for the implementation of Article 10, through bilateral, regional and other multilateral channels.


Article 12


    1. A clean development mechanism is hereby defined.
    2. The purpose of the clean development mechanism shall be to assist Parties not included in Annex I in achieving sustainable development and in contributing to the ultimate objective of the Convention, and to assist Parties included in Annex I in achieving compliance with their quantified emission limitation and reduction commitments under Article 3.
    3. Under the clean development mechanism:
(a)    Parties not included in Annex I will benefit from project activities resulting in certified emission reductions; and

(b)    Parties included in Annex I may use the certified emission reductions accruing from such project activities to contribute to compliance with part of their quantified emission limitation and reduction commitments under Article 3, as determined by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol.
    4. The clean development mechanism shall be subject to the authority and guidance of the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol and be supervised by an executive board of the clean development mechanism.
    5. Emission reductions resulting from each project activity shall be certified by operational entities to be designated by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol, on the basis of:
(a)    Voluntary participation approved by each Party involved;
(b)    Real, measurable, and long-term benefits related to the mitigation of climate change; and

(c)    Reductions in emissions that are additional to any that would occur in the absence of the certified project activity.
    6. The clean development mechanism shall assist in arranging funding of certified project activities as necessary.
    7. The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol shall, at its first session, elaborate modalities and procedures with the objective of ensuring transparency, efficiency and accountability through independent auditing and verification of project activities.
    8. The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol shall ensure that a share of the proceeds from certified project activities is used to cover administrative expenses as well as to assist developing country Parties that are particularly vulnerable to the adverse effects of climate change to meet the costs of adaptation.
    9. Participation under the clean development mechanism, including in activities mentioned in paragraph 3(a) above and in the acquisition of certified emission reductions, may involve private and/or public entities, and is to be subject to whatever guidance may be provided by the executive board of the clean development mechanism.
    10. Certified emission reductions obtained during the period from the year 2000 up to the beginning of the first commitment period can be used to assist in achieving compliance in the first commitment period.

Article 13


    1. The Conference of the Parties, the supreme body of the Convention, shall serve as the meeting of the Parties to this Protocol.
    2. Parties to the Convention that are not Parties to this Protocol may participate as observers in the proceedings of any session of the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol. When the Conference of the Parties serves as the meeting of the Parties to this Protocol, decisions under this Protocol shall be taken only by those that are Parties to this Protocol.
    3. When the Conference of the Parties serves as the meeting of the Parties to this Protocol, any member of the Bureau of the Conference of the Parties representing a Party to the Convention but, at that time, not a Party to this Protocol, shall be replaced by an additional member to be elected by and from amongst the Parties to this Protocol.
    4. The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol shall keep under regular review the implementation of this Protocol and shall make, within its mandate, the decisions necessary to promote its effective implementation. It shall perform the functions assigned to it by this Protocol and shall:
(a)    Assess, on the basis of all information made available to it in accordance with the provisions of this Protocol, the implementation of this Protocol by the Parties, the overall effects of the measures taken pursuant to this Protocol, in particular environmental, economic and social effects as well as their cumulative impacts and the extent to which progress towards the objective of the Convention is being achieved;
(b)    Periodically examine the obligations of the Parties under this Protocol, giving due consideration to any reviews required by Article 4, paragraph 2(d), and Article 7, paragraph 2, of the Convention, in the light of the objective of the Convention, the experience gained in its implementation and the evolution of scientific and technological knowledge, and in this respect consider and adopt regular reports on the implementation of this Protocol;
(c)    Promote and facilitate the exchange of information on measures adopted by the Parties to address climate change and its effects, taking into account the differing circumstances, responsibilities and capabilities of the Parties and their respective commitments under this Protocol;
(d)    Facilitate, at the request of two or more Parties, the coordination of measures adopted by them to address climate change and its effects, taking into account the differing circumstances, responsibilities and capabilities of the Parties and their respective commitments under this Protocol;
(e)    Promote and guide, in accordance with the objective of the Convention and the provisions of this Protocol, and taking fully into account the relevant decisions by the Conference of the Parties, the development and periodic refinement of comparable methodologies for the effective implementation of this Protocol, to be agreed on by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol;
(f)    Make recommendations on any matters necessary for the implementation of this Protocol;
(g)    Seek to mobilize additional financial resources in accordance with Article 11, paragraph 2;
(h)    Establish such subsidiary bodies as are deemed necessary for the implementation of this Protocol;
(i)    Seek and utilize, where appropriate, the services and cooperation of, and information provided by, competent international organizations and intergovernmental and non-governmental bodies; and
(j)    Exercise such other functions as may be required for the implementation of this Protocol, and consider any assignment resulting from a decision by the Conference of the Parties.
    5. The rules of procedure of the Conference of the Parties and financial procedures applied under the Convention shall be applied mutatis mutandis under this Protocol, except as may be otherwise decided by consensus by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol.
    6. The first session of the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol shall be convened by the secretariat in conjunction with the first session of the Conference of the Parties that is scheduled after the date of the entry into force of this Protocol. Subsequent ordinary sessions of the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol shall be held every year and in conjunction with ordinary sessions of the Conference of the Parties, unless otherwise decided by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol.
    7. Extraordinary sessions of the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol shall be held at such other times as may be deemed necessary by the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol, or at the written request of any Party, provided that, within six months of the request being communicated to the Parties by the secretariat, it is supported by at least one third of the Parties.
    8. The United Nations, its specialized agencies and the International Atomic Energy Agency, as well as any State member thereof or observers thereto not party to the Convention, may be represented at sessions of the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol as observers. Any body or agency, whether national or international, governmental or non-governmental, which is qualified in matters covered by this Protocol and which has informed the secretariat of its wish to be represented at a session of the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol as an observer, may be so admitted unless at least one third of the Parties present object. The admission and participation of observers shall be subject to the rules of procedure, as referred to in paragraph 5 above.

Article 14


    1. The secretariat established by Article 8 of the Convention shall serve as the secretariat of this Protocol.
    2. Article 8, paragraph 2, of the Convention on the functions of the secretariat, and Article 8, paragraph 3, of the Convention on arrangements made for the functioning of the secretariat, shall apply mutatis mutandis to this Protocol. The secretariat shall, in addition, exercise the functions assigned to it under this Protocol.

Article 15


    1. The Subsidiary Body for Scientific and Technological Advice and the Subsidiary Body for Implementation established by Articles 9 and 10 of the Convention shall serve as, respectively, the Subsidiary Body for Scientific and Technological Advice and the Subsidiary Body for Implementation of this Protocol. The provisions relating to the functioning of these two bodies under the Convention shall apply mutatis mutandis to this Protocol. Sessions of the meetings of the Subsidiary Body for Scientific and Technological Advice and the Subsidiary Body for Implementation of this Protocol shall be held in conjunction with the meetings of, respectively, the Subsidiary Body for Scientific and Technological Advice and the Subsidiary Body for Implementation of the Convention.
    2. Parties to the Convention that are not Parties to this Protocol may participate as observers in the proceedings of any session of the subsidiary bodies. When the subsidiary bodies serve as the subsidiary bodies of this Protocol, decisions under this Protocol shall be taken only by those that are Parties to this Protocol.
    3. When the subsidiary bodies established by Articles 9 and 10 of the Convention exercise their functions with regard to matters concerning this Protocol, any member of the Bureaux of those subsidiary bodies representing a Party to the Convention but, at that time, not a party to this Protocol, shall be replaced by an additional member to be elected by and from amongst the Parties to this Protocol.

Article 16


    The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol shall, as soon as practicable, consider the application to this Protocol of, and modify as appropriate, the multilateral consultative process referred to in Article 13 of the Convention, in the light of any relevant decisions that may be taken by the Conference of the Parties. Any multilateral consultative process that may be applied to this Protocol shall operate without prejudice to the procedures and mechanisms established in accordance with Article 18.

Article 17


    The Conference of the Parties shall define the relevant principles, modalities, rules and guidelines, in particular for verification, reporting and accountability for emissions trading. The Parties included in Annex B may participate in emissions trading for the purposes of fulfilling their commitments under Article 3. Any such trading shall be supplemental to domestic actions for the purpose of meeting quantified emission limitation and reduction commitments under that Article.


Article 18


    The Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol shall, at its first session, approve appropriate and effective procedures and mechanisms to determine and to address cases of non-compliance with the provisions of this Protocol, including through the development of an indicative list of consequences, taking into account the cause, type, degree and frequency of non-compliance. Any procedures and mechanisms under this Article entailing binding consequences shall be adopted by means of an amendment to this Protocol.

Article 19


    The provisions of Article 14 of the Convention on settlement of disputes shall apply mutatis mutandis to this Protocol.

Article 20


    1. Any Party may propose amendments to this Protocol.
    2. Amendments to this Protocol shall be adopted at an ordinary session of the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol. The text of any proposed amendment to this Protocol shall be communicated to the Parties by the secretariat at least six months before the meeting at which it is proposed for adoption. The secretariat shall also communicate the text of any proposed amendments to the Parties and signatories to the Convention and, for information, to the Depositary.
    3. The Parties shall make every effort to reach agreement on any proposed amendment to this Protocol by consensus. If all efforts at consensus have been exhausted, and no agreement reached, the amendment shall as a last resort be adopted by a three-fourths majority vote of the Parties present and voting at the meeting. The adopted amendment shall be communicated by the secretariat to the Depositary, who shall circulate it to all Parties for their acceptance.
    4. Instruments of acceptance in respect of an amendment shall be deposited with the Depositary. An amendment adopted in accordance with paragraph 3 above shall enter into force for those Parties having accepted it on the ninetieth day after the date of receipt by the Depositary of an instrument of acceptance by at least three fourths of the Parties to this Protocol.
    5. The amendment shall enter into force for any other Party on the ninetieth day after the date on which that Party deposits with the Depositary its instrument of acceptance of the said amendment.

Article 21


    1. Annexes to this Protocol shall form an integral part thereof and, unless otherwise expressly provided, a reference to this Protocol constitutes at the same time a reference to any annexes thereto. Any annexes adopted after the entry into force of this Protocol shall be restricted to lists, forms and any other material of a descriptive nature that is of a scientific, technical, procedural or administrative character.
    2. Any Party may make proposals for an annex to this Protocol and may propose amendments to annexes to this Protocol.
    3. Annexes to this Protocol and amendments to annexes to this Protocol shall be adopted at an ordinary session of the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to this Protocol. The text of any proposed annex or amendment to an annex shall be communicated to the Parties by the secretariat at least six months before the meeting at which it is proposed for adoption. The secretariat shall also communicate the text of any proposed annex or amendment to an annex to the Parties and signatories to the Convention and, for information, to the Depositary.
    4. The Parties shall make every effort to reach agreement on any proposed annex or amendment to an annex by consensus. If all efforts at consensus have been exhausted, and no agreement reached, the annex or amendment to an annex shall as a last resort be adopted by a three-fourths majority vote of the Parties present and voting at the meeting. The adopted annex or amendment to an annex shall be communicated by the secretariat to the Depositary, who shall circulate it to all Parties for their acceptance.
    5. An annex, or amendment to an annex other than Annex A or B, that has been adopted in accordance with paragraphs 3 and 4 above shall enter into force for all Parties to this Protocol six months after the date of the communication by the Depositary to such Parties of the adoption of the annex or adoption of the amendment to the annex, except for those Parties that have notified the Depositary, in writing, within that period of their non-acceptance of the annex or amendment to the annex. The annex or amendment to an annex shall enter into force for Parties which withdraw their notification of non-acceptance on the ninetieth day after the date on which withdrawal of such notification has been received by the Depositary.
    6. If the adoption of an annex or an amendment to an annex involves an amendment to this Protocol, that annex or amendment to an annex shall not enter into force until such time as the amendment to this Protocol enters into force.
    7. Amendments to Annexes A and B to this Protocol shall be adopted and enter into force in accordance with the procedure set out in Article 20, provided that any amendment to Annex B shall be adopted only with the written consent of the Party concerned.

Article 22


    1. Each Party shall have one vote, except as provided for in paragraph 2 below.

    2. Regional economic integration organizations, in matters within their competence, shall exercise their right to vote with a number of votes equal to the number of their member States that are Parties to this Protocol. Such an organization shall not exercise its right to vote if any of its member States exercises its right, and vice versa.

Article 23


    The Secretary-General of the United Nations shall be the Depositary of this Protocol.

Article 24


    1. This Protocol shall be open for signature and subject to ratification, acceptance or approval by States and regional economic integration organizations which are Parties to the Convention. It shall be open for signature at United Nations Headquarters in New York from 16 March 1998 to 15 March 1999. This Protocol shall be open for accession from the day after the date on which it is closed for signature. Instruments of ratification, acceptance, approval or accession shall be deposited with the Depositary.
    2. Any regional economic integration organization which becomes a Party to this Protocol without any of its member States being a Party shall be bound by all the obligations under this Protocol. In the case of such organizations, one or more of whose member States is a Party to this Protocol, the organization and its member States shall decide on their respective responsibilities for the performance of their obligations under this Protocol. In such cases, the organization and the member States shall not be entitled to exercise rights under this Protocol concurrently.
    3. In their instruments of ratification, acceptance, approval or accession, regional economic integration organizations shall declare the extent of their competence with respect to the matters governed by this Protocol. These organizations shall also inform the Depositary, who shall in turn inform the Parties, of any substantial modification in the extent of their competence.

Article 25


    1. This Protocol shall enter into force on the ninetieth day after the date on which not less than 55 Parties to the Convention, incorporating Parties included in Annex I which accounted in total for at least 55 per cent of the total carbon dioxide emissions for 1990 of the Parties included in Annex I, have deposited their instruments of ratification, acceptance, approval or accession.
    2. For the purposes of this Article, “the total carbon dioxide emissions for 1990 of the Parties included in Annex I” means the amount communicated on or before the date of adoption of this Protocol by the Parties included in Annex I in their first national communications submitted in accordance with Article 12 of the Convention.
    3. For each State or regional economic integration organization that ratifies, accepts or approves this Protocol or accedes thereto after the conditions set out in paragraph 1 above for entry into force have been fulfilled, this Protocol shall enter into force on the ninetieth day following the date of deposit of its instrument of ratification, acceptance, approval or accession.

    4. For the purposes of this Article, any instrument deposited by a regional economic integration organization shall not be counted as additional to those deposited by States members of the organization.

Article 26


    No reservations may be made to this Protocol.

Article 27


    1. At any time after three years from the date on which this Protocol has entered into force for a Party, that Party may withdraw from this Protocol by giving written notification to the Depositary.
    2. Any such withdrawal shall take effect upon expiry of one year from the date of receipt by the Depositary of the notification of withdrawal, or on such later date as may be specified in the notification of withdrawal.
    3. Any Party that withdraws from the Convention shall be considered as also having withdrawn from this Protocol.

Article 28


    The original of this Protocol, of which the Arabic, Chinese, English, French, Russian and Spanish texts are equally authentic, shall be deposited with the Secretary-General of the United Nations.

     DONE at Kyoto this eleventh day of December one thousand nine hundred and ninety-seven.

     IN WITNESS WHEREOF the undersigned, being duly authorized to that effect, have affixed their signatures to this Protocol on the dates indicated.

Annex A.


Greenhouse gases

Carbon dioxide ( CO2)
Methane ( CH4)
Nitrous oxide ( N2O)
Hydrofluorocarbons (HFCs)
Perfluorocarbons (PFCs)
Sulphur hexafluoride ( SF6)

Sectors/source categories

Energy
    Fuel combustion
         Energy industries
         Manufacturing industries and construction
         Transport
         Other sectors
         Other
    Fugitive emissions from fuels
         Solid fuels
         Oil and natural gas
         Other

Industrial processes
    Mineral products
    Chemical industry
    Metal production
    Other production
    Production of halocarbons and sulphur hexafluoride
    Consumption of halocarbons and sulphur hexafluoride
    Other

Solvent and other product use

Agriculture
    Enteric fermentation
    Manure management
    Rice cultivation
    Agricultural soils
    Prescribed burning of savannas
    Field burning of agricultural residues
    Other

Waste
    Solid waste disposal on land
    Wastewater handling
    Waste incineration
    OtherAnnex B.


Party     Quantified emission
    limitation or
    reduction commitment

    (percentage of base
    year or period)

Australia     108
Austria     92
Belgium     92
Bulgaria*     92
Canada     94
Croatia*     95
Czech Republic*     92
Denmark     92
Estonia*     92
European Community     92
Finland     92
France     92
Germany     92
Greece     92
Hungary*     94
Iceland     110
Ireland     92
Italy     92
Japan     94
Latvia*     92
Liechtenstein     92
Lithuania*     92
Luxembourg     92
Monaco     92
Netherlands     92
New Zealand     100
Norway     101
Poland*     94
Portugal     92
Romania*     92
Russian Federation*     100
Slovakia*     92
Slovenia*     92
Spain     92
Sweden     92
Switzerland     92
Ukraine*     100
United Kingdom of Great
Britain and Northern Ireland     92
United States of America     93
*    Countries that are undergoing the process of transition to a market economy.Fylgiskjal II.


Ákvörðun nr. 14/CP.7

Áhrif einstakra verkefna á útstreymi á skuldbindingartímabilinu.


     Þing aðila,
    sem minnist ákvæða d-liðar 5. mgr. ákvörðunar sinnar nr. 1/CP.3,
    sem minnist einnig ákvörðunar sinnar nr. 5/CP.6 sem inniheldur Bonn-samningana um framkvæmd Búenos Aíres-aðgerðaráætlunarinnar,
    sem taka tillit til niðurstaðna undirnefndar fyrir vísinda- og tækniráðgjöf á framhaldsfundi þrettánda fundar hennar, 1
    sem viðurkennir mikilvægi endurnýjanlegrar orku þegar stefnt er að markmiði samningsins,
    1. ákveður, að því er varðar ákvörðun þessa, að einstakt verkefni sé skilgreint sem starfsstöð til iðnaðarvinnslu á einum stað, sem hefur verið tekin í notkun eftir 1990, eða stækkun starfsstöðvar til iðnaðarvinnslu á einum stað sem var í notkun 1990,
    2. ákveður, að því er varðar fyrsta skuldbindingartímabilið, að tilkynna skuli sérstaklega um útstreymi koltvíoxíðs frá einstöku verkefni í iðnaðarvinnslu, sem eykur, á einhverju einu ári fyrrnefnds tímabils, meira en fimm hundraðshlutum við heildarútstreymi koltvíoxíðs á árinu 1990 frá aðila, sem er talinn upp í viðauka B við bókunina, og að ekki skuli telja það með í heildarútstreymi frá viðkomandi aðila, að svo miklu leyti sem það myndi leiða til þess að aðilinn færi yfir það magn sem honum er úthlutað, að því tilskildu að:
a)    heildarútstreymi koltvíoxíðs frá viðkomandi aðila hafi verið minna en 0,05 af hundraði af heildarútstreymi koltvíoxíðs frá aðilum, sem eru taldir upp í I. viðauka, árið 1990, reiknuðu út í samræmi við töfluna í viðaukanum við skjal FCCC/CP/1997/7/Add.1,
b)    notuð sé endurnýjanleg orka sem leiði til minnkunar útstreymis gróðurhúsalofttegunda fyrir hverja framleiðslueiningu,
c)    besta framkvæmd sé viðhöfð með tilliti til umhverfisins og að besta tækni, sem völ er á, sé notuð til þess að lágmarka útstreymi frá vinnslu,1 FCCC/SBSTA/2000/14.

    3. ákveður að heildarútstreymi koltvíoxíðs frá iðnaðarvinnslu, sem aðili tilkynnir sérstaklega um í samræmi við 2. mgr. hér að framan, skuli ekki fara yfir 1,6 milljónir tonna koltvíoxíðs að meðaltali á ári á fyrsta skuldbindingartímabilinu og að þeim aðila sé óheimilt að framselja það eða öðrum aðila að útvega sér það skv. 6. og 17. gr. Kýótó-bókunarinnar,

    4. fer þess á leit við hvern þann aðila, sem hyggst færa sér ákvæði ákvörðunar þessarar í nyt, að hann tilkynni þingi aðila, fyrir áttunda fund þess, um fyrirætlanir sínar,
    5. fer þess á leit við hvern þann aðila, sem tekst á við verkefni sem uppfylla kröfurnar sem eru tilgreindar hér að framan, að hann veiti í skrám sínum, sem sendar eru árlega, upplýsingar um útstreymisþætti, heildarútstreymi frá vinnslu í tengslum við þessi verkefni og mat á þeim samdrætti í útstreymi sem leiðir af notkun endurnýjanlegrar orku í þessum verkefnum,
    6. fer þess á leit við skrifstofu samningsins að hún taki saman upplýsingarnar, sem aðilar senda í samræmi við 5. mgr. hér að framan, láti í té samanburð við viðeigandi útstreymisþætti, sem aðrir aðilar veita upplýsingar um, og gefi skýrslu um þessar upplýsingar til þings aðila sem gegnir hlutverki fundar aðila að Kýótó-bókuninni.

Decision 14/CP.7

Impact of single projects on emissions in the commitment period


     The Conference of the Parties,
     Recalling its decision 1/CP.3, paragraph 5 (d),

     Recalling also, its decision 5/CP.6, containing the Bonn Agreements on the Implementation of the Buenos Aires Plan of Action,
     Having considered the conclusions of the Subsidiary Body for Scientific and Technological Advice at its resumed thirteenth session1,
     Recognizing the importance of renewable energy in meeting the objective of the Convention,
    1. Decides that, for the purpose of this decision, a single project is defined as an industrial process facility at a single site that has come into operation since 1990 or an expansion of an industrial process facility at a single site in operation in 1990;
    2. Decides that, for the first commitment period, industrial process carbon dioxide emissions from a single project which adds in any one year of that period more than 5 per cent to the total carbon dioxide emissions in 1990 of a Party listed in Annex B to the Protocol shall be reported separately and shall not be included in national totals to the extent that it would cause the Party to exceed its assigned amount, provided that:


(a)    The total carbon dioxide emissions of the Party were less than 0.05 per cent of the total carbon dioxide emissions of Annex I Parties in 1990 calculated in accordance with the table contained in the annex to document FCCC/CP/1997/7/Add.1;

(b)    Renewable energy is used, resulting in a reduction in greenhouse gas emissions per unit of production;
(c)    Best environmental practice is followed and best available technology is used to minimize process emissions;1 FCCC/SBSTA/2000/14.

    3. Decides that the total industrial process carbon dioxide emissions reported separately by a Party in accordance with paragraph 2 above shall not exceed 1.6 million tonnes carbon dioxide annually on the average during the first commitment period and cannot be transferred by that Party or acquired by another Party under Articles 6 and 17 of the Kyoto Protocol;
    4. Requests any Party that intends to avail itself of the provisions of this decision to notify the Conference of the Parties, prior to its eighth session, of its intention;
    5. Requests any Party with projects which meet the requirements specified above, to report emission factors, total process emissions from these projects, and an estimate of the emission savings resulting from the use of renewable energy in these projects in their annual inventory submissions;


    6. Requests the secretariat to compile the information submitted by Parties in accordance with paragraph 5 above, to provide comparisons with relevant emission factors reported by other Parties, and to report this information to the Conference of the Parties serving as the meeting of the Parties to the Kyoto Protocol.Fylgiskjal III.


Stefnumörkun ríkisstjórnar Íslands
um ráðstafanir til að standa við skuldbindingar
loftslagssamningsins og Kýótó-bókunarinnar.


    Kýótó-bókunin við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var samþykkt á fundi aðildarríkja samningsins í árslok 1997. Eins og kunnugt er dróst nokkuð að endanlega yrði gengið frá útfærslu ákvæða bókunarinnar, þ.m.t. hinu svonefnda íslenska ákvæði en frá því var gengið á 7. fundi aðildarríkjaþings samningsins í Marakess í nóvember 2001 (sjá nánar í skýrslu umhverfisráðherra til 127. löggjafarþings, þskj. 349). Nú liggur því fyrir hverjar skuldbindingar Íslands og annarra ríkja verða samkvæmt Kýótó-bókuninni. Heimildir Íslands til útstreymis gróðurhúsalofttegunda eru tvíþættar:

        Í fyrsta lagi skal almennt útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi ekki aukast meira en sem nemur 10% frá árinu 1990, þ.e. vera innan við 3.200 þús. tonn koltvíoxíðígilda árlega að meðaltali 2008–2012.

        Í öðru lagi skal koltvíoxíðútstreymi frá nýrri stóriðju eftir árið 1990 sem fellur undir íslenska ákvæðið ekki vera meiri en 1.600 þús. tonn árlega að meðaltali árin 2008–2012.

Ráðstafanir til að mæta skuldbindingum bókunarinnar.
    Umfangsmikið samráð hefur farið fram innan Stjórnarráðsins um stefnumörkun í loftslagsmálum. Sérstakur stýrihópur ráðuneytisstjóra fól starfshópi, skipuðum fulltrúum sömu ráðuneyta, að vinna drög að þessari stefnumörkun. Að þessu starfi hafa komið fulltrúar forsætis-, utanríkis-, fjármála-, sjávarútvegs-, iðnaðar-, samgöngu-, landbúnaðar- og umhverfisráðuneyta.
    Stefnumörkunin felur í sér tillögur um eftirfarandi ráðstafanir á næstu árum sem leiða til minna útstreymis gróðurhúsalofttegunda eða aukinnar bindingar kolefnis. Þessar ráðstafanir eru:
     *      Dregið verði úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum með almennum aðgerðum og með breyttri skattlagningu á dísilbílum sem leiði til meiri innflutnings slíkra bíla til einkanota.
     *      Tryggt verði að fyrirtæki í áliðnaði geri fullnægjandi ráðstafanir til þess að halda útstreymi flúorkolefna frá framleiðslunni í lágmarki.
     *      Leitað verði leiða til að draga úr orkunotkun í fiskiskipaflotanum.
     *      Dregið verði úr urðun úrgangs og útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá urðunarstöðum.
     *      Aukin verði binding kolefnis með skógrækt og landgræðslu.
     *      Áhersla verði lögð á rannsóknir á þeim þáttum sem áhrif hafa á útstreymi gróðurhúsalofttegunda og þróun lausna og úrræða til að mæta því.
     *      Efld verði fræðsla og upplýsingagjöf til almennings um leiðir til þess að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda.

Endurskoðuð útstreymisspá.
    Umhverfisráðuneytið skipaði starfshóp um útstreymisbókhald og útstreymisspár vegna gróðurhúsalofttegunda undir formennsku fulltrúa Hollustuverndar ríkisins með þátttöku fulltrúa Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Vegagerðar ríkisins, Orkustofnunar, Þjóðhagsstofnunar og Fiskifélags Íslands. Í samráði við þennan starfshóp hefur Hollustuvernd endurskoðað útstreymisspá fyrir þær gróðurhúsalofttegundir sem falla undir Kýótó-bókunina. Þessi endurskoðun byggist á nýrri eldsneytisspá orkuspárnefndar og útfærslu íslenska ákvæðisins. Þessi spá tekur mið af þeim ráðstöfunum sem taldar eru upp hér að framan að undanskildum bindingaraðgerðum og rannsóknum og fræðslu.
    Samkvæmt þessari spá verður meðalútstreymi koltvíoxíðígilda á skuldbindingartímabilinu 3.200 þús. tonn eða við útstreymismörk áður en tekið hefur verið tillit til bindingar kolefnis með landgræðslu og skógrækt, sjá 1. töflu. Sú binding hefur þegar verið aukin um 100 þús. tonn frá árinu 1990. Varlega áætlað má gera ráð fyrir því að ný svæði sem tekin verða til landgræðslu eða skógræktar fram að fyrsta skuldbindingartímabili bókunarinnar bæti öðrum 100 þús. tonnum við.


1. tafla. Spá um útstreymi frá Íslandi á fyrsta skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar (án koltvíoxíðlosunar frá nýrri stóriðju eftir árið 1990).
Spá um meðalútstreymi
2008–2012
(CO2-ígildi á ári, þús. t.)
Samgöngur 764
Iðnaður 928
Fiskiskip 731
Tæki og vinnuvélar 217
Jarðhiti 163
Heimili 18
Ýmis önnur starfsemi 379
Heildarútstreymi 3200
Binding kolefnis með landgræðslu og skógrækt -200
Heildarútstreymi að teknu tilliti til bindingar 3000
Útstreymisheimild Íslands 3200

    Eldsneytisnotkun ræður miklu um útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Útstreymisspáin byggist á spá orkuspárnefndar um eldsneytisnotkun. Orkuspárnefnd er samstarfsvettvangur nokkurra helstu fyrirtækja, stofnana og samtaka á sviði orkumála auk Hagstofu Íslands og Þjóðhagsstofnunar. Ný eldsneytisspá nefndarinnar kom út í júlí 2001. Til grundvallar spánni eru lagðar forsendur um þróun mannfjölda, landsframleiðslu, fiskveiða og flutninga á landi, í lofti og á legi, auk annarra þátta.
    Eldsneytisspá orkuspárnefndar gerir ráð fyrir jafnri aukningu í útstreymi frá samgöngum vegna fjölgunar bíla. Á móti kemur um 7% minni meðaleldsneytisnotkun á ekinn km og minni akstur á hvern bíl. Miðað er við að 10% af bensínnotkuninni færist yfir í gasolíu vegna breyttrar skattlagningar á dísilbíla. Samgönguráðuneytið og Vegagerðin hafa unnið umfangsmikla úttekt á útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum ásamt spá um losun til 2030. Sú spá er nokkru lægri en spá orkuspárnefndar og munar þar að meðaltali um 55 þús. tonnum á ári á skuldbindingartímabilinu. Ástæður þess eru einkum aðrar forsendur um þróun í bílaeign landsmanna, tækniframfarir í bílaiðnaði og þær aðgerðir sem stjórnvöld munu grípa til og áhrif þeirra. Spá samgönguráðuneytisins og Vegagerðarinnar gerir ráð fyrir því að útstreymi frá samgöngum hafi þegar náð hámarki en verði 686 þús. tonn 2012 eða 8% hærri en hún var árið 1990. Gangi sú spá eftir verður losun frá samgöngum því heldur lægri en gert er ráð fyrir í töflu 1.
    Undir útstreymi frá iðnaði fellur einnig allt útstreymi flúorkolefna frá álframleiðslu. Ljóst er að forsendur um útstreymi flúorkolefna hafa mikil áhrif á heildarútstreymið. Í spánni er gert ráð fyrir því að fyrirtækjum í áliðnaði takist að halda útstreymi flúorkolefna á hverja framleiðslueiningu innan við 0,14 tonn koltvíoxíðígilda á framleitt tonn af áli frá og með fjórða framleiðsluári eins og Reyðarál gefur upp í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum. Þetta er lægra en meðaltalið frá Íslandi sem hefur verið yfir 0,4 tonnum þótt það hafi farið mjög lækkandi frá árinu 1990. Munurinn á þessum tveimur stuðlum nemur yfir 300 þús. tonnum koltvíoxíðs miðað við áætlaða álframleiðslu á árinu 2012. Inni í útstreymisspá fyrir iðnað er einnig útstreymi frá fyrirhugaðri rafskautaverksmiðju Reyðaráls (49 þús. tonn).
    Varðandi íslenska ákvæðið eru þrjú verkefni sem þegar hafa náð 5% 1 viðmiðunarmörkum íslenska ákvæðisins. Þetta eru stækkun verksmiðju Ísals, stækkun verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins og ný verksmiðja Norðuráls.
    Tafla 2 sýnir áætlað útstreymi koltvíoxíðs frá nýrri stóriðju eftir árið 1990 sem fallið getur undir íslenska ákvæðið. Nákvæmar tímasetningar liggja ekki fyrir en í 2. töflu má sjá mat á áætluðu meðalútstreymi frá þessum verkefnum á skuldbindingartímabilinu, miðað við þær forsendur sem gefnar eru til skýringar neðanmáls. Standist þessar áætlanir verður útstreymi sem fellur undir íslenska ákvæðið að meðaltali 1.539 þús. tonn á tímabilinu og því nokkru lægri en losunarheimild samkvæmt ákvæðinu. Hámarkið miðast við meðaltal áranna fimm á skuldbindingartímabilinu, 2008–2012. Tímasetning verkefna innan tímabilsins skiptir því máli.

2. tafla. Áætlað útstreymi koltvíoxíðs frá nýrri stóriðju eftir árið 1990 sem fallið getur undir íslenska ákvæðið.
Verkefni Meðalframleiðsla á Meðalútsreymi á
skuldbindingartímabilinu skuldbindingartímabilinu
(þús. t. á ári) (CO2-ígildi á ári, þús. t.)
Ísal 2 408 483
Íslenska járnblendifélagið 3 115 174
Norðurál 4 276 417
Reyðarál 5 308 465
Samtals 1539
„Íslenska ákvæðið“ 1600
Mismunur 61

    Rétt er að benda á að miðað við fullnýtingu framleiðslugetu mun árlegt útstreymi frá þessum fjórum verkefnum, þ.e. Ísal (460 þús. tonna framleiðsla), Íslenska járnblendifélagið (115 þús. tonna framleiðsla), Norðurál (300 þús. tonna framleiðsla) og Reyðarál (420 þús. tonna framleiðsla), verða 1.823 þús. tonn CO2-ígildi á ári frá og með árinu 2012. Óvissa ríkir um sum þessara áforma og orkuöflun til þeirra.
    Gert er ráð fyrir að heildarafli fiskiskipaflotans aukist. Hins vegar er reiknað með því að olíunotkun vélbáta á aflaeiningu minnki um 10% til 2015 og togskipa um 15% á sama tímabili. Orkunotkun fiskiskipaflotans eykst því ekki í beinu hlutfalli við aukinn afla. Spáin gerir ráð fyrir því að útstreymið nemi 741 þús. tonnum koltvíoxíðs árið 2012 sem er 12% hækkun frá árinu 1990 en þá var útstreymið 662 þús. tonn. Útstreymi frá fiskiskipaflotanum náði hámarki árið 1996 og var þá 843 þús. tonn. Fiskifélag Íslands hefur unnið umfangsmikla greiningu á samsetningu útstreymis frá fiskiskipaflotanum og leiðum til þess að auka orkunýtingu. Markmið stjórnkerfis fiskveiða nú og í framtíðinni er m.a. að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna sjávar. Hagkvæm nýting fiskistofna felur m.a. í sér að veiðar fari fram á sem hagkvæmastan hátt og liður í því er að kostnaður við hverja aflaeiningu verði sem minnstur, en minni olíunotkun stuðlar að því.
    Spá Hollustuverndar gerir ráð fyrir jafnri aukningu eldsneytisnotkunar á tæki og vinnuvélar og að útstreymi verði 221 þús. tonn 2012. Fiskimjölsverksmiðjur eru stærsti olíunotandinn í iðnaði en notkun er mjög sveiflukennd vegna breytilegra loðnuveiða frá ári til árs. Gert er ráð fyrir því að fleiri verksmiðjur skipti yfir í rafskautakatla en á móti kemur að gert er ráð fyrir því að meðalolíunotkun verksmiðjanna aukist við það að fleiri verksmiðjur fari yfir í loftþurrkun sem gefur verðmætara mjöl.

Ábyrgðarskipting og endurskoðun.
    Umhverfisráðueytið hefur heildarumsjón með framkvæmd loftslagssamningsins og Kýótó-bókunarinnar hér á landi. Aðgerðir í samgöngum verða á ábyrgð samgönguráðuneytisins, breytt skattlagning á dísilbílum á ábyrgð fjármálaráðuneytisins, orkusparnaðaraðgerðir í fiskiskipaflotanum á ábyrgð sjávarútvegsráðuneytisins, ráðstöfun íslenska ákvæðisins og aðgerðir til þess að halda útstreymi flúorkolefna í lágmarki á ábyrgð iðnaðarráðuneytisins, takmörkun á urðun sorps og útstreymi frá urðunarstöðum á ábyrgð umhverfisráðuneytisins, binding kolefnis með ræktun á ábyrgð landbúnaðarráðuneytisins og rannsóknir, þróun og fræðsla sameiginlega á ábyrgð allra ráðuneytanna. Fulltrúar ráðuneytanna munu fylgjast með framkvæmd stefnunnar.
    Þessi stefna verður endurskoðuð 2005 eftir því sem tilefni reynist til. Á því ári ber aðildarríkjum Kýótó-bókunarinnar að sýna fram á merkjanlegan árangur í þeirri viðleitni að efna skuldbindingar sínar samkvæmt bókuninni.

Nánar um ráðstafanir.

Samgöngur.
     *      Núverandi kerfi þungaskatts verði a.m.k. að hluta til breytt yfir í olíugjaldskerfi. Með því mun skapast efnahagslegur hvati til eldsneytissparnaðar. Gjaldtöku verði stillt af þannig að hlutfallslega hagkvæmara verði að reka litla dísilbíla en nú er.
     *      Stuðlað verði enn frekar að auknum innflutningi á sparneytnari bílum með breytingum á vörugjaldi af bifreiðum.
     *      Umferðarstjórnun verði bætt með aukinni samhæfingu umferðarljósa.
     *      Aukin áhersla verði lögð á leiðir til að draga úr umferðarþörf og að stytta leiðir milli staða við skipulag byggðar.
     *      Almenningssamgöngur verði efldar, t.d. með afnámi þungaskatts.

Fiskiskipaflotinn.
     *      Fræðsla til skipstjórnar- og útgerðarmanna um orkusparnað verði aukin.
     *      Stuðlað verði að því að þau nýju og endurnýjuðu skip sem koma inn í flotann á næstu árum verði búin bestu fáanlegri tækni til að bæta orkunýtingu.
     *      Dregið verði sem kostur er úr notkun HFC-kælimiðla.

Flúorkolefni við álframleiðslu.
     *      Gert verði samkomulag við álfyrirtæki í landinu um aðgerðir til þess að halda útstreymi flúorkolefna við álframleiðslu innan við 0,14 tonn koltvíoxíðígilda á framleitt tonn af áli.
     *      Komið verði á formlegu samráði umhverfisráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins við fyrirtæki í áliðnaði um aðgerðir til þess að halda útstreymi gróðurhúsalofttegunda á hverja framleiðslueiningu í lágmarki.

Meðhöndlun úrgangs.
     *      Dregið verði úr urðun úrgangs, einkum lífræns úrgangs.
     *      Dregið verði úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá urðunarstöðum.

Binding kolefnis með landgræðslu og skógrækt.
     *      Binding kolefnis með skógrækt og landgræðslu verði aukin. Þær skógræktar- og landgræðsluaðgerðir sem ráðist verður í á næstu árum verði skipulagðar og framkvæmdar með þeim hætti að nettó binding kolefnis sem af þeim leiðir verði sem mest að teknu tilliti til annarra markmiða svo sem verndar líffræðilegs fjölbreytileika eða eflingar byggðar.

Rannsóknir og þróun.
     *      Áhersla verður lögð á rannsóknir og þróunarstarf sem stuðlar að auknum árangri af aðgerðum til þess að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda.
     *      Aukin áhersla verði lögð á að meta kolefnisbindinguna og að koma bindingarbókhaldi í fastar skorður.
     *      Rannsókna- og þróunarstarf sem hefur það að markmiði að auka nýtingu umhverfisvænna orkugjafa verður eflt.
     *      Rannsóknir á leiðum til þess að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum verða efldar.
     *      Gerðar verði tilraunir með orkugjafa sem komið geta í stað olíu, svo sem vetni. Jafnframt verði vel fylgst með þróun annarrar nýrrar tækni hvað þetta svið varðar.

Fræðsla og upplýsingagjöf til almennings.
     *      Sérstakt átak verður gert til þess að fræða almenning um færar leiðir til þess að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda samfara heimilishaldi, úrgangsmyndun og samgöngum.
     *      Upplýsingagjöf til almennings um eldsneytisnotkun bifreiða, útstreymi gróðurhúsalofttegunda og afleiðingar loftslagsbreytinga verður aukin.

Aðrar skuldbindingar innan bókunarinnar og rammasamningins.
    Þær aðgerðir sem tilgreindar hafa verið hér að ofan hafa það markmið að uppfylla skuldbindingar um magnbundna takmörkun og minnkun útstreymis gróðurhúsalofttegunda samkvæmt Kýótó-bókuninni. Bókunin felur einnig í sér skuldbindingar um:
     a.      almenn stefnumið og aðgerðir í loftslagsmálum,
     b.      um landskerfi til að meta útstreymi og kolefnisbindingu,
     c.      um upplýsingagjöf um útstreymi og bindingu og reikningsskil á úthlutuðu magni,
     d.      endurskoðun útstreymisbókhalds.
    Landskerfi til að meta útstreymi og kolefnisbindingu skal komið á eigi síðar en 2007 samkvæmt nánari fyrirmælum sem samþykkt verða á þingi aðila að bókuninni. Íslensk stjórnvöld þurfa að ákveða fyrir 2008 hvort tekin verða með í bindingarbókhaldið á fyrsta skuldbindingartímabilinu landsvæði sem nýtt eru til beitar, skógræktar frá því fyrir árið 1990 eða annars landbúnaðar. Þessi landsvæði þarf að taka inn í bókhald á næsta skuldbindingartímabili sem væntanlega hefst 2013.
    Kýótó-bókunin felur einnig í sér ákvæði um viðskipti milli landa með útstreymisheimildir. Útfærsla íslenska ákvæðisins takmarkar hins vegar þessi viðskipti þannig að Ísland getur ekki selt frá sér útstreymisheimildir. Ríkjum er í sjálfsvald sett hvort þau takmarki útstreymi innan lands með úthlutun útstreymisheimilda og viðskiptum með þær. Að athuguðu máli er ekki talin ástæða til þess að fara þá leið hér á landi. ESB hefur lagt fram drög að tilskipun um viðskipti með útstreymisheimildir á hinu Evrópska efnahagssvæði. Þær tillögur ná hins vegar aðeins til útstreymis koltvíoxíðs og takmarkast við tiltekna flokka iðnaðar og ná ekki til áliðnaðar svo að dæmi sé tekið. Sú tilskipun mun því aðeins snerta lítinn hluta útstreymis frá Íslandi.
    Rammasamningurinn felur í sér almennar skuldbindingar um fjárhagslega aðstoð til þróunarríkjanna. Alþjóðlega umhverfissjóðnum ( Global Environment Facility) hefur verið falið að hafa milligöngu um þessa aðstoð. Nú stendur yfir þriðja endurfjármögnun sjóðsins og er nauðsynlegt að Ísland taki afstöðu til þátttöku í henni. Þessu til viðbótar lýsti hópur ríkja (Ísland, ríki ESB, Kanada, Nýja-Sjáland, Noregur, og Sviss) því yfir á framhaldsfundi 6. þings aðila samningsins að þessi ríki væru tilbúin að leggja fram sameiginlega 410 millj. bandaríkjadala eigi síðar en 2005 til aðstoðar þróunarríkjunum. Ekki hefur verið gengið frá því hvernig þetta framlag skiptist milli þessara ríkja.

1     Þ.e. stærðarmörk sem einstök verkefni þurfa að ná til þess að falla undir íslenska ákvæðið sem miðast við það að koltvíoxíðsútstreymi frá nýju stóriðjuverkefni eða stækkun eftir 1990 auki útstreymi á einhverju ára skuldbindingartímabilsins um meira en 5% af koltvíoxíðsútstreymi frá Íslandi á árinu 1990.
2     Ársframleiðsla Ísal var 88 þúsund árið 1990. Hér er miðað við að hún verði komin í 330 þús. tonn við upphaf skuldbindingartímabilsins og fari í 460 þús. tonn 2010.
3     Ársframleiðsla Íslenska járnblendifélagsins var 68 þús. tonn árið 1990. Framleiðslugetan er nú 115 þús. tonn. Hér er ekki gert ráð fyrir frekari stækkun verksmiðjunnar fyrir lok skuldbindingartímabilsins.
4     Hér er gert ráð fyrir því að ársframleiðsla Norðuráls verði komin í 240 þús. tonn við upphaf skuldbindingartímabilsins og að hún fari í 300 þús. tonn árið 2010.
5     Hér er gert ráð fyrir því að ársframleiðsla Reyðaráls verði komin í 280 þús. tonn við upphaf skuldbindingartímabilsins og að hún fari í 420 þús. tonn árið 2012.