Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 13. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 13  —  13. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um neysluvatn.

Flm.: Katrín Fjeldsted.



    Alþingi samþykkir að beina því til ríkisstjórnarinnar að
     a.      neysluvatn verði skilgreint sem auðlind í lögum,
     b.      málefni þess verði vistuð á einum stað í stjórnsýslunni og
     c.      stuðlað verði að útflutningi á fersku neysluvatni í samstarfi við vatnsútflutningsfyrirtæki og sveitarfélög.
    Gert er ráð fyrir að eftirlit með gæðum vatns verði áfram á vegum Hollustuverndar ríkisins (Umhverfisstofnunar frá 1. janúar 2003) og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga.

Greinargerð.


    Sú merka auðlind sem felst í fersku lindarvatni er ekki öllum ljós. Þó er vitað að við Íslendingar eigum yfir að ráða mun meira vatni en við þurfum sjálf á að halda þótt vatnsskorts geti gætt á einstaka stað á landinu. Samt er það svo að auðlindin er munaðarlaus og hvergi vistuð í stjórnsýslunni þar sem engin ein stofnun fer með markvissa ráðgjöf eða heldur utan um málefni hennar. Mikilvægt er að umgangast þessa auðlind þannig að komandi kynslóðir eigi aðgang að fersku neysluvatni í framtíðinni því þrátt fyrir gnægð þess núna er ferskt vatn á Íslandi ekki ótakmörkuð auðlind. Núverandi heildarnotkun og vinnsla á neysluvatni er hvergi skráð og í stjórnsýslunni er hvergi haldið utan um þekkingu á auðlindinni á einum stað. Eðlilegt væri að fela Orkustofnun það verkefni.
    Mestu skipta eftirtalin þrjú atriði:
     1.      Að auðlindin verði skilgreind sem slík og stjórn á meðferð hennar vistuð á einum stað í stjórnsýslunni.
     2.      Að eftirlit með gæðum neysluvatns og vernd vatnsbóla í heimabyggð sé í góðum höndum svo sem verið hefur hjá heilbrigðisnefndum sveitarfélaga og Hollustuvernd ríkisins.
     3.      Að möguleikar eru á arðbærri nýtingu á neysluvatni umfram það sem þjóðin neytir sjálf.

Hver á vatnslindir?
    Um 70% af yfirborði jarðar eru vatn en af heildarvatnsforðanum á jörðinni eru 97,4% saltvatn. Ferskvatn nemur aðeins 2,5% af öllu vatni og neysluhæft vatn er eingöngu 0,27%. Vatn er því takmörkuð auðlind, sérstaklega þegar þess er gætt að aðgangur að neysluhæfu vatni er mjög misjafn eftir landsvæðum á jörðinni.
    Neysluvatn hefur verið skilgreint sem matvæli og vatnsveitur sem matvælafyrirtæki samkvæmt lögum um matvæli, nr. 93/1995, en þar segir í 4. gr.: „Matvæli eru hvers konar vörur sem ætlaðar eru mönnum til neyslu, þar með talið neysluvatn, sbr. þó einnig 2. mgr. 2. gr.“
Þar með þarf vatn að lúta ströngum gæðakröfum eins og önnur matvæli. Í lögunum er umhverfisráðherra falin yfirstjórn mála (5. gr.) að svo miklu leyti sem hún er ekki falin öðrum ráðherrum. Hollustuvernd ríkisins er ráðherra til ráðgjafar, en lög um matvæli heyra undir landbúnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra. Þá starfar samstarfsráð skv. 8. gr. Um vatn gilda einnig vatnalög, orkulög og lög nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, en í þeim segir í 14. gr.: „Þrátt fyrir ákvæði 6. og 7. gr. er landeiganda heimilt án leyfis að hagnýta grunnvatn í eignarlandi sínu til heimilis- og búsþarfa, þar með talið til fiskeldis, iðnaðar og iðju, allt að 70 ltr./sek. Landeiganda ber þó að tilkynna Orkustofnun um fyrirhugaðar jarðboranir og aðrar meiri háttar framkvæmdir vegna þessa. Orkustofnun er heimilt að fengnu samþykki ráðherra að setja landeiganda þau skilyrði sem nauðsynleg eru talin vegna öryggis eða af tæknilegum ástæðum eða ef ætla má að boranir geti spillt nýtingu sem fram fer á svæðinu eða möguleikum til nýtingar síðar.“ Í 15. gr. segir: „Sveitarfélag skal hafa forgangsrétt til nýtingarleyfa vegna grunnvatns innan marka sveitarfélagsins vegna þarfa vatnsveitu sem rekin er þar.“
    Landeigendum er þannig samkvæmt lögum nr. 57/1998 heimil vatnstaka án leyfis iðnaðarráðherra allt að 70 l/sek. þótt 10 l/sek. séu taldir nægja fyllilega fyrir venjulegan búrekstur. 70 l/sek. eru 1.000 tonn á dag en það er sambærilegt við þarfir sveitarfélags með 500–1.000 íbúa. Nokkrar vatnsveitur á landinu nota meira en 70 l/sek., þ.e. í Reykjavík, á Akureyri, Suðurnesjum, Hafnarfirði, Akranesi og Selfossi. Víða á landinu er vatnsnotkun óeðlilega mikil vegna leka í dreifikerfi en í Reykjavík hefur markvisst verið leitað að leka á kaldavatnslögnum með þeim árangri að vatnið nýtist betur en áður og dregið hefur úr notkun, þrátt fyrir fólksfjölgun á þjónustusvæði Orkuveitunnar.
    Hér á landi heyra vatnsveitulög undir félagsmálaráðuneyti, hitaveitur og rafveitur undir iðnaðarráðuneyti og Hollustuvernd ríkisins undir umhverfisráðuneyti. Í vatnalögum, nr. 15/1923, er í 151. gr. kveðið á um að atvinnumálaráðherra hafi yfirstjórn vatnamála á hendi. Gert er ráð fyrir að væntanleg matvælastofnun heyri undir sjávarútvegsráðuneyti.
    Auðlindanefnd, sem skilaði skýrslu í september 2000, fjallaði um auðlindir sem eru eða kunna að verða þjóðareign, þ.e. nytjastofna á Íslandsmiðum, auðlindir á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og náttúruauðlindir í þjóðlendum. Í skýrslunni kemur fram að eignarhald á náttúruauðlindum sé skilgreint í ýmsum lögum og eru sumar náttúruauðlindir á landi háðar einkaeignarrétti en aðrar eignarrétti ríkisins sem sérstaklega er kveðið á um í lögum. Skv. 3. gr. laga nr. 57/1998 er eignarréttur að auðlindum í eignarlöndum, þ.m.t. innan netlaga í stöðuvötnum og sjó, í höndum landeigenda. Hins vegar er lýst yfir eignarrétti ríkisins á auðlindum í jörðu utan eignarlanda og nær sá réttur m.a. til jarðefna, jarðhita og grunnvatns. Í 2. gr. vatnalaga segir að landareign hverri fylgi réttur til umráða og hagnýtingar á því vatni, straumvatni og stöðuvatni sem á henni er. Þessi réttur eiganda nær til nýtingar á vatnsorku, sbr. 49. gr. laganna. Í skýrslunni er þó fyrst og fremst fjallað um vatn út frá nýtingu þess sem vatnsorku þótt minnst sé á hreint vatn sem dæmi um umhverfisgæði. Í séráliti Geirs Oddssonar umhverfisfræðings segir að í raun megi skilgreina alla náttúruna (jarðveg, plöntur, dýr, andrúmsloft, sól og vatn) sem mögulega náttúruauðlind. Almennt megi þó segja að hlutar náttúrunnar verði ekki að náttúruauðlind fyrr en þeir gegni einhverju skilgreindu hlutverki í efnahagsstarfsemi mannlegs samfélags eða í neyslu einstaklinga. Þannig geti náttúruauðlindir orðið til við nýja notkun á náttúrunni. Snjór sé t.d. náttúruauðlind í augum þeirra sem reka skíðasvæði. Náttúruauðlindir geti á sama hátt horfið, eins og gúanó á eyjum undan strönd Suður-Ameríku. Í flokkun Geirs Oddssonar á náttúruauðlindum koma fram nokkur atriði sem einkenna ferskvatn, þ.e. villtir fiskar, ómengað vatn, vatnsból, vatnsföll, útivist og örverur. Einnig kemur fram í séráliti hans að margar auðlindir sem eru á landi og í ferskvatni séu í einkaeign og því hafi þær ekki verið til umfjöllunar hjá auðlindanefnd.

Kostir vatns hér á landi.
    Íslenskt vatn á gjöfulum linda- og grunnvatnssvæðum er hreint, gerla- og efnasnautt. Sýrustig vatns hér á landi er víða pH 8,5–9 (t.d. í Reykjavík), en allvíða er það lægra, þar sem vatnið kemur grynnra úr jörðu, eða allt niður fyrir pH 7, sem þó er afar sjaldgæft. Nokkuð víða er sýrustigið pH 7,5–8,5. Leyfileg mörk sýrustigs hér á landi samkvæmt reglugerð nr. 536/2001 eru pH 6,5–9,5. Svolítið er misjafnt með hverju er mælt sem „æskilegu“ en neðri mörk eru oftast pH 7–7,5 og efri mörk pH 8–8,5 . E.t.v. væri rétt hér á landi að miða við pH 7–8,5. Þá er litið til þess hvað vatnið er „þunnt“ sem veldur því að vatnið er síður óæskilegt þrátt fyrir sýrustig á bilinu pH 8–8,5 eins og víða erlendis. Unnt er að lækka sýrustig vatns með því að bæta í það kolsýru. Slíkt er vænlegur kostur hér á landi, einkum þar sem við höfum yfir að ráða nýtanlegri náttúrlegri kolsýru.
    Vatnið kemur úr kísilríkum og tiltölulega kalksnauðum jarðvegi sem veldur því að harka þess er mjög lítil og bragðið ekki eins rammt og víða er. Þessi litla harka veldur því m.a. að bragð ýmissa blandefna í vatni, svo sem kaffis, tes, ávaxtadrykkja o.fl., helst miklu betur en í hörðu og kalkríku vatni. Íslenskt vatn hefur jafnframt komið vel út í bragðprófunum eitt og sér.
    Þá er ekki nítrat í íslensku grunnvatni, einkum vegna gróðurleysis á hálendinu. Magn nítrats er 0,1–0,3 mg/l en Evrópustaðallinn er 25–40 mg/l. Í ýmsum iðnaðarlöndum kringum Norðursjó, svo sem í Danmörku, Þýskalandi, Bretlandi, Frakklandi og Niðurlöndum, er nítrat í vatni farið að nálgast hættumörk. Víða hefur miklu verið spillt, t.d. með áburði og skordýraeitri. Danir hafa gert vatnsverndaráætlun (Handlingsplan for rent vand, Ökologisk råd, ecocouncil.dk) og taka vatn sitt neðanjarðar. Í Bandaríkjunum hefur EPA viljað lækka viss viðmiðunarmörk en ekki fengið því framgengt þar sem margar vatnsveitur gætu þá ekki séð fólki fyrir vatni.
    Víða um lönd er almennt vatn aðgreint frá drykkjarvatni og gerðar mismunandi kröfur um efnainnihald og gæði. Í mörgum löndum er klórbragð af vatni enda er það klórblandað, sums staðar eru eiturefni en það er víðast hvar gerlafrítt. Arsenik er náttúrulegt efni í jarðvegi víða.

Vatnsmagn á Íslandi.
    Í bæklingi frá Worldwatch Institute Norden frá 1998 kemur fram að Ísland er ferskvatnsauðugasta land veraldar, með 666.667 m 3 á mann á ári, Kongó hefur helming af því, Kanada 108.900 m 3, Noregur 97.268 m 3, Brasilía 46.631 m 3, Bandaríkin 9.913 m 3, Japan 4.428 m 3, Mexíkó 4.226 m 3 og Frakkland 3.262 m 3. Af þeim vatnssnauðustu hefur Jórdanía 327 m 3, Sádi-Arabía 306 m 3, Singapúr 221 m 3, Malta 85 m 3, Kúveit 75 m 3 og lestina rekur Djíbútí með 23 m 3 af fersku vatni á íbúa á ári. Ljóst er að vatnsskortur er orðinn verulegur í ýmsum stórborgum heims og má nefna Mexíkóborg og Ríó de Janeiro sem dæmi.
    Samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun koma 400.000 l/sek af grunnvatni upp í byggð á vatnsgæfum lindarsvæðum. Talið er að vatnsöflun í iðnaðarlöndunum sé um tífalt dýrari en hér og í grein eftir Freystein Sigurðsson jarðfræðing í AVS 1994 kemur fram að 1 m 3 af hreinu grunnvatni kosti um 20 kr. á Íslandi en 1 m 3 af vatni úr krana í Kaupmannahöfn kosti um 250 kr. (skattar meðtaldir). Vatn er selt út úr búð í útlöndum á 10–50 kr./l. Sé miðað við 25 kr./l eru 400.000 l á sekúndu um 10 millj. kr. virði. Augljóslega er það ekki nýtanlegt nema að hluta. Áætla má að verð á 1 m 3 hérlendis hafi hækkað frá árinu 1994 og sé nú nær því að vera 40 kr. Verðmæti 400 m 3/sek af vatni er því meira en 500 milljarðar kr. á ári.
    Taka þarf vatn við uppkomustað ef vel á að vera, t.d. undan hrauni nálægt sjó. Í almannaveitur og fiskeldi er nú nýtt um 1% af vatnsmagninu eða 4–5 m 3/sek. Væri það vatn allt selt sem neysluvatn á 25 kr./l mundi það skila 3 billj. kr. brúttó.
    Það að taka t.d. 1% í viðbót mundi ekki hafa teljandi áhrif á lífríkið, en færi þó eftir því hvaðan vatnið væri tekið. Hugsa mætti sér að tekin yrðu 100 millj. tonna á ári eða jafnvel 150 millj. tonna. Til samanburðar má nefna að innflutt eldsneyti er um 1 millj. tonna á ári og nokkur hundruð þúsund tonn af fiski eru flutt út árlega.
    Okkar möguleikar liggja helst í drykkjarvatni. Ef teknir væru 5.000 l/sek. á dag væru það 500 millj. lítra á dag. Hver maður neytir um tveggja lítra á dag og með þessu væri t.d. hægt að fullnægja þörfum allra íbúa Evrópusambandsins fyrir drykkjarvatn.
    Samkeppni er gríðarleg í vatnssölu í veröldinni. Víða nota menn vatn sem fæst í heimabyggð og því er hver eining ekki dýr. Hár flutningskostnaður háir okkur mest við að koma vatni á markaði erlendis. Vatn hefur þó verið flutt út frá Íslandi. Frumkvöðull í því var Davíð Scheving Thorsteinsson, en síðastliðinn áratug hefur fyrirtækið Þórsbrunnur, þar sem Orkuveita Reykjavíkur er meðal hluthafa, selt vatn úr landi, einkum á Bandaríkjamarkað og hefur vatnssalan lengst af verið í jafnvægi þótt tap hafi orðið á henni undanfarna mánuði. Ekki hefur verið kannað til hlítar hvort t.d. megi flytja og selja vatn með tankskipum til fjarlægari heimshluta eða hvort vatnsútflutningur gæti orðið liður í þróunaraðstoð Íslendinga.

Vatnsnotkun Íslendinga.

    Í handbók um vistvernd í verki kemur fram að langflestir landsmenn (um 61%) eru tengdir vatnsveitum sem vinna vatn úr borholum, 32% nýta sér vatn úr uppsprettum og lindum, 3% úr brunnum og önnur 3% yfirborðsvatn. Eftir því sem vatnið er unnið úr efri jarðlögum er meiri hætta á mengun. Árið 1909 tók Vatnsveita Reykjavíkur til starfa og var hún mesta mannvirki sem Íslendingar höfðu ráðist í frá landnámi. Helstu vatnsból Reykvíkinga eru í Heiðmörk og sér vatnsveitan Reykvíkingum fyrir köldu vatni, svo og íbúum Kópavogs, Seltjarnarness og Mosfellsbæjar, eða alls um 140 þús. manns í árslok 1998. Áætlað er að hver einstaklingur noti um 160 l af köldu vatni á sólarhring. Gera má ráð fyrir að vatnsnotkun heimila á sólarhring í þessum sveitarfélögum sé um 22 millj. lítra. Að auki fara um 19 millj. lítra til nota í iðnaði, 12 millj. lítra til viðskiptalífsins og um 10 millj. lítra til ríkis og borgar. Heildarnotkun á veitusvæðinu er því nálægt 63 millj. lítra á sólarhring. Meðalrennsli á veitusvæði Reykjavíkur var 491 l/sek. árið 1998 og er áætlað svipað nú.
    Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur í mars 2002 notar hver íbúi í Reykjavík nú um 150–160 l af köldu vatni á sólarhring og til viðbótar um 50 l á sólarhring af heitu vatni eða alls rúmlega 200 l. Til samanburðar má nefna að hver íbúi í Danmörku notar um 105–110 l af vatni á sólarhring.
    Hérlendis er vatnsskattur innheimtur sem lóðarskattur á eignir. Miðað er við rúmmál húss en ekki er borgað fyrir magn. Enginn hvati er því til þess að spara vatn. Við úttekt sem OECD gerði á umhverfismálum Íslendinga vorið 2001 var það talinn galli að notendur skuli ekki borga fyrir samkvæmt magni. Orkuveita Reykjavíkur bendir á að það mundi auka kostnað neytenda að setja upp mæla í hvert hús og reka þá, enda nægt vatn fyrir hendi og vatnskostnaður á íbúa einungis um 10–15 þús. kr. á ári.

Alþjóðalög og samningar.
    Til er tilskipun 98/83/EB um gæði neysluvatns og rammatilskipun 2000/60/EB um vatn gerir ráð fyrir að komið skuli á heildarvatnsstjórn fyrir allt landið.
    Þá hafa Sameinuðu þjóðirnar beint tilmælum um mikilvægi drykkjarvatns til stjórnvalda í einstökum ríkjum. Vatn er hluti af því sem ríki heims fjölluðu um í Staðardagskrá 21. Það eru talin mannréttindi að eiga aðgang að vatni.

Vatnsskortur fyrirsjáanlegur í heiminum.
    Árið 2050 munu 4,2 milljarðar manna búa í löndum sem ekki geta séð fyrir því sem Sameinuðu þjóðirnar mæla með af vatni, en það eru a.m.k. 50 l af vatni á dag til matseldar, þvotta og drykkjar að því er fram kom í frétt í breska blaðinu The Daily Telegraph 8. nóvember 2001.
    Talið er að lönd með innan við 1.000 m 3 af endurnýjanlegu vatni árlega á hvern íbúa skorti vatn, en lönd þar sem vatnsmagnið er 1.000–1.700 m 3 eru talin sýna álagseinkenni. Í skýrslu frá The Worldwatch Institute um ástand heimsins árið 2002 (State of the World 2002) segir að 505 milljónir manna búi í löndum þar sem vatnsskorts gæti og er búist við að árið 2025 verði svo ástatt hjá helmingi heimsbyggðarinnar (2,4–3,4 milljarða manna), einkum í Mið- Austurlöndum, norður-, suður- og vesturhluta Afríku og suður- og vesturhluta Asíu. Vatnsskortur og lélegt vatn eru talin valda dauða 4 milljóna manna ár hvert, einkum barna. Talið er nauðsynlegt, eftir því sem fólki fjölgar í heiminum, að draga úr vatnsnotkun á mann og einnig að fara verði betur með vatn.
    Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) telur að heiminn muni skorta ferskt vatn árið 2050 vegna fólksfjölgunar. Auðlindir veraldar séu nýttar meira nú en nokkru sinni fyrr í sögunni.
    Þingsályktunartillaga þessi var flutt á síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu.

Í greinargerð þessari er m.a. vitnað til eftirfarandi heimilda:
Freysteinn Sigurðsson: Vatnið í lindunum. Eyjar í eldhafi. Gott mál hf., Reykjavík 1996.
Freysteinn Sigurðsson: Nytjavatnsauðlindin. Hvers virði er vatnið? AVS, 1. tölublað 1994.
Upplýsingar frá Orkustofnun og Orkuveitu Reykjavíkur.
State of the World 2002, Worldwatch Institute 2002.
EU focus on clean water, bæklingur frá Evrópuráðinu.
Ráðstefna um áhrif EES-samningsins á íslensk sveitarfélög 8. febrúar 2002.
Upplýsingar um Bonn Freshwater Meeting í desember 2001.
Vann: Den Globale Krisen. Worldwatch Institute Norden 1998.
Vistvernd í verki (Global Action Plan, GAP), Landvernd 2001.
Auðlindanefnd: Álitsgerð með fylgiskjölum. September 2000.
Gestur Ólafsson: Íslenskt vatn. Vanmetin auðlind. AVS, 1. tölublað 1994.
Davíð Sch. Thorsteinsson: Úflutningur á íslensku vatni.
Environmental Performance Reviews, ICELAND OECD 2001.
Handlingsplan for rent vand, Ökologisk råd, ecocouncil.dk.
Tilskipun Evrópusambandsins nr. 98/83/EB um gæði neysluvatns.
Tilskipun Evrópusambandsins nr. 2000/60/EB um vatn.
Þingsályktunartillaga Jóns Helgasonar um skipan nefndar um vatnsútflutning á 117. og 118. löggjafarþingi.