Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 171. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 172  —  171. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um framkvæmdaáætlun um aðgengi fyrir alla.


Flm.: Margrét Frímannsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson, Magnús Stefánsson, Ólafur Örn Haraldsson,

Guðjón A. Kristjánsson, Katrín Fjeldsted, Drífa Hjartardóttir.



    Alþingi ályktar að skipaður verði starfshópur með fulltrúum ráðuneytis félagsmála, menntamála, umhverfismála, heilbrigðis- og tryggingamála, dómsmála, samgöngumála og fjármála og fulltrúum frá hagsmunasamtökum fatlaðra til að semja framkvæmdaáætlun sem hefur að markmiði að tryggja aðgengi fyrir alla með hliðsjón af meginreglum Sameinuðu þjóðanna um þátttöku fatlaðra til jafns við aðra. Jafnframt geri starfshópurinn kostnaðaráætlun um verkefnið. Fulltrúi félagsmálaráðuneytisins verði formaður starfshópsins.
    Starfshópurinn leggi fram tillögur sínar fyrir 1. október 2003.

Greinargerð.


    Lögð er fram sú tillaga að unnin verði framkvæmdaáætlun um aðgengi fyrir alla þar sem meginreglur Sameinuðu þjóðanna um þátttöku fatlaðra til jafns við aðra eru lagðar til grundvallar. Til að hægt sé að vinna að úrbótum í aðgengismálum þarf að meta stöðu þeirra nú, hvaða lög og reglugerðir fjalla um aðgengi og hversu vel þau tryggi aðgengi fyrir alla og að lokum vinna framkvæmdaáætlun um hvernig skuli staðið að úrbótum í aðgengismálum. Setja verður þeim framkvæmdum tímamörk og skilgreina kostnað og hver beri ábyrgð á þeim kostnaði. Markmiðið er að haustið 2003 liggi fyrir tillaga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, sem og öðrum lögum sem aðgengismál falla undir, og framkvæmdaáætlun um úrbætur í aðgengismálum.
    Það kjörorð sem meginreglur Sameinuðu þjóðanna byggjast á er „samfélag fyrir alla“. Með það að leiðarljósi hafa öll Norðurlöndin að Íslandi frátöldu unnið verkefna- og framkvæmdaáætlun um aðgengismál þar sem meginreglur Sameinuðu þjóðanna um þátttöku fatlaðra til jafns við aðra eru lagðar til grundvallar. Þar að auki hafa ríkisstjórnirnar í Danmörku, Svíþjóð og Noregi lagt fram frumvörp um úrbætur í aðgengismálum. Aðgengi fyrir alla felur í sér samfélag sem mætir þörfum allra þegna sinna og endurspeglar þátttöku allra.
    Grunntónninn í meginreglum Sameinuðu þjóðanna er réttur fatlaðra á við aðra þegna landsins. Lögð er skylda á aðildarríki Sameinuðu þjóðanna að vekja athygli samfélagsins á málefnum fatlaðra og eru reglurnar ætlaðar aðildarríkjunum til leiðbeiningar um hvernig skuli staðið að aðgengismálum. Meginreglur Sameinuðu þjóðanna leggja ekki lagaskyldur á herðar ríkisstjórnum aðildarríkja þeirra en þær skuldbinda engu síður ríkin bæði siðferðislega og pólitískt.
    Þegar unnið er að aðgengismálum er í langflestum tilvikum aðeins hugsað fyrir ytra aðgengi, þ.e. aðgengi fyrir hreyfihamlaða. En í aðgengi felst meira en það. Til að tryggja aðgengi fyrir alla þarf að huga að aðgengismálum sjónskertra og blindra, heyrnarlausra og heyrnarskertra og einstaklinga með þroskafrávik. Hafa ber þó í huga að með bættu aðgengi er ekki aðeins verið að mæta þörfum fatlaðra heldur allra þegna því öll eigum við það sameiginlegt að eldast sem felur í sér lakari sjón, heyrn og hreyfigetu.

Gildandi réttur.

    Þau lög sem taka aðallega á aðgengismálum hér á landi eru skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997. Lög um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, eru mjög almenns eðlis og kveða ekki nema að litlu leyti á um aðgengismál. Lögin hafa þó þau markmið að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til að lifa eðlilegu lífi. Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum fer umhverfisráðherra með yfirstjórn málaflokksins og setur hann, í samráði við Skipulagsstofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga, byggingarreglugerð er nær til alls landsins. Í byggingarreglugerð er mælt fyrir um kröfur sem gerðar eru til hönnunar mannvirkja, m.a. varðandi aðgengi fatlaðra. Þær kröfur snúa þó einungis að ytra aðgengi. Ekkert er fjallað um innra aðgengi, svo sem litaval og lýsingu, með tilliti til þarfa blindra og sjónskertra og aðgengi að upplýsingum, menntun o.fl. Skipulagsstofnun sinnir einnig aðgengismálum og er eitt af hlutverkum stofnunarinnar að veita upplýsingar um ferlimál fatlaðra.
    Mikill galli er á lögum um skipulags- og byggingarmál er snýr að aðgengi og vantar t.d. öll ákvæði um aðgengi fyrir blinda, sjónskerta, heyrnarlausa og heyrnarskerta og einstaklinga með þroskafrávik. Dæmi um hversu lítið lögin taka á þessu atriði er endurbygging Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsinu. Þar töldu menn sig vera að hanna byggingu aðgengilega öllum en svo er ekki. Aðeins er tekið á þörfum hreyfihamlaðra en ekki annarra hópa svo sem blindra og heyrnarskertra. Fleiri dæmi mætti nefna um endurbyggingar þar sem aðgengismálum hefur ekki verið sinnt sem skyldi. Þá er það sameiginlegt öllum lögum sem fjalla um réttarstöðu fatlaðra að ekki eru nein ákvæði um viðurlög ef lögunum er ekki framfylgt.

Skýrsla starfshóps um menningar- og tómstundastörf fatlaðra.
    Árið 1999 kom út skýrsla starfshóps um menningar- og tómstundastörf fatlaðra. Skýrslan var unnin af starfshópi á vegum félagsmálaráðuneytisins sem var skipaður samkvæmt þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 1996. Ályktunin var svohljóðandi:
    „Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að láta kanna á hvern hátt fatlaðir geti notið sumarleyfa, tómstunda, lista og menningarlífs á sama hátt og aðrir í þjóðfélaginu og gera tillögur um úrbætur. Tryggt verði að fulltrúar frá samtökum sveitarfélaga, svæðisskrifstofum um málefni fatlaðra, Öryrkjabandalaginu og Þroskahjálp komi að málinu.“
    Meðal annars hafði starfshópurinn til hliðsjónar meginreglur Sameinuðu þjóðanna í umfjöllun um afmörkun og skilgreiningu á verkefninu, þ.e. 5., 10., 11. og 12. reglu, en þær reglur fjalla um tómstundir, menningu og aðgengi.
    Í skýrslunni er leitað eftir upplýsingum um þátttöku barna og unglinga í skipulögðu tómstundastarfi, möguleika fatlaðra til ferðalaga og sumardvalar og aðgengi að menningarstarfsemi. Var þar sérstaklega litið á möguleika fatlaðra til að njóta leiklistar, sækja söfn og listsýningar, nýta sér þjónustu bókasafna og taka þátt í starfsemi á vegum þjóðkirkjunnar. Einnig leggur starfshópurinn fram tillögur og ábendingar um úrbætur til þeirra ráðuneyta og sveitarfélaga sem eiga hlut að málinu.
    Í skýrslunni eru dregnir fram fjölmargir þættir sem betur mega fara í aðgengismálum. Sem dæmi má nefna að af 116 kirkjum sem svöruðu erindi starfshópsins var staðan sú í 73% tilvika að fólk í hjólastól komst ekki inn hjálparlaust og sums staðar alls ekki. Tónmöskvar fyrir heyrnarskerta voru aðeins í 17% kirknanna.
    Aðgengi fatlaðra barna að skipulögðu tómstundastarfi sveitarfélaganna er einnig mjög ábótavant. Af 124 sveitarfélögum sem fengu fyrirspurn svöruðu 99 (svarhlutfall tæp 80%). 36 af þessum sveitarfélögum hafa skipulagt tómstundastarf í boði og eru flest þeirra stærri sveitarfélögin. Athygli vekur að þegar spurt er hverjar séu helstu hindranir varðandi þátttöku fatlaðra í almennu tómstundastarfi er lélegt aðgengi oftast nefnt. Aðeins 21 sveitarfélag af 99 taldi aðgengi sæmilegt eða viðunandi, önnur sveitarfélög töldu aðgengi slæmt eða svöruðu ekki.
    Hvað varðar aðgengi fatlaðra að sumardvöl og ferðalögum eru möguleikar þeirra mjög misjafnir. Aðgengi í orlofshúsum er mismunandi auk þess sem fatlaðir, sem þurfa að hafa með sér fylgdarmenn, þurfa yfirleitt að greiða þann kostnað sjálfir og getur það verið þeim ofviða.
    Aðgengi að bókasöfnum var einnig kannað og sendi starfshópurinn fyrirspurn til 50 héraðs- og amtsbókasafna auk bókasafna stærri bæja og þéttbýlisstaða. Svarhlutfallið var 58%. Aðeins 11 af 50 bókasöfnum töldu aðgengi fyrir fólk í hjólastól vera viðunandi.
    Þegar aðgengi að söfnum, kvikmyndahúsum og leikhúsum var kannað af starfshópnum var m.a. leitað eftir upplýsingum hjá fulltrúum ferlinefnda sveitarfélaganna. Aðgengi að söfnum er víða mjög ábótavant, það sama má segja um Þjóðleikhúsið og Þjóðminjasafn Íslands. Starfshópurinn bendir m.a. á að nauðsynlegt sé að gerð verði úttekt á hvernig búið sé að fötluðu fólki varðandi listsköpun og gerð verði áætlun til úrbóta sem byggist á þeim upplýsingum.
    Starfshópurinn tekur einnig á möguleikum fatlaðra til þess að nýta sér almenn tilboð um sumardvöl, ferðalög og ferðaþjónustu. Atriði sem voru könnuð voru m.a. kostnaður vegna aðstoðarfólks, aðgengileg farartæki og gisti- og veitingastaðir.
    Þeir sem ekki geta vegna fötlunar sinnar ferðast einir verða að kaupa sér aðstoð sem þýðir að þeir verða að greiða allt að tvöfaldan kostnað vegna ferða og uppihalds fylgdarmanns. Hér er um mikið réttlætismál að ræða sem úr þarf að bæta því óhætt er að fullyrða að margir fatlaðir ráða ekki við þann kostnað sem fylgir því að hafa aðstoðarmann á ferðalögum. Kemur einnig fram að aðstaða fatlaðra er mismunandi hvað þetta varðar. Þannig virðast þeir sem búa á sambýlum og stofnunum hafa betri möguleika til að ferðast þar sem starfsfólkið fylgir þeim á ferðalögum en þeir sem eru á eigin vegum.
    Starfshópurinn mælir með að tryggð verði með lögum fjárhagsaðstoð við fatlaða til að standa straum af kostnaði vegna aðstoðarmanns.
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um aðgengi að gisti- og veitingahúsum eða ferðamannastöðum.
    Starfshópurinn beinir þeim tilmælum til samgönguráðuneytisins að það beiti sér fyrir því að gerð verði ítarleg úttekt á hótelum og gististöðum í landinu með tilliti til aðgengis og þjónustu við fatlaða.
    Félagsmálaráðuneytið sendi öllum ráðuneytum skýrslu starfshópsins 20. febrúar 2000 þar sem vakin var athygli ráðuneytanna á einstökum köflum skýrslunnar sem sneru að hverju ráðuneyti fyrir sig.

Verkefnaáætlun menntamálaráðuneytisins — Menntun og menning fyrir alla.
    Árið 1999 var gefin út af menntamálaráðuneytinu verkefnáætlunin „Menntun og menning fyrir alla“. Markmiðið með áætluninni var skýrt: Menntun og menning fyrir alla. Fram kom að til að raunverulegur árangur náist muni menntamálaráðuneytið fylgja þeirri áætlun af mikilli festu. Meðal annars muni ráðuneytið fylgja eftir hinu víðtæka menningarátaki ársins 2000. Menningarstarf verði eflt um land allt og íslensk menning nýtt til að efla styrk þjóðarinnar og stöðu hennar í samfélagi þjóðanna. Í áætluninni segir einnig að markmið ríkisstjórnarinnar sé að standa vörð um íslenska tungu og þjóðmenningu og stuðla að öflugu lista- og menningarlífi sem sé aðgengilegt öllum landsmönnum.
    Til að ná þessum markmiðum þyrfti samhliða að gera framkvæmdaáætlun þannig að fatlaðir mættu njóta öflugs menningarstarfs. Slík framkvæmdaáætlun liggur ekki fyrir.

Aðgengi að upplýsingum.
    Í framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið er aðalmarkmiðið að Íslendingar verði í fararbroddi þjóða heims við nýtingu upplýsingatækni í þágu bætts mannlífs og aukinnar hagsældar. Eitt af meginmarkmiðunum er að landsmenn hafi greiðan aðgang að upplýsingum. Kostir upplýsingasamfélagsins verði nýttir til þess að efla lýðræðið og auka lífsgæði til hagsbóta fyrir almenning og íslenskt atvinnulíf. Upplýsingatækni verði beitt á öllum sviðum, hvort sem er við nýsköpun, heilbrigðismál, vísindi, listir og menningu eða á öðrum sviðum daglegs lífs.
    Forsætisráðuneytið fer með framkvæmd stefnunnar og hefur verið unnið mjög vel að aðgengi fatlaðra að netinu. Er raduneyti.is dæmi um mjög aðgengilega vefsíðu.
    Til að tryggja aðgengi að upplýsingum verður einnig að hafa í huga þarfir heyrnarlausra og heyrnarskertra og einstaklinga með þroskafrávik. Textun og táknmálstúlkun á sjónvarpsefni, sem og upplýsingar á táknmáli, svo sem um stjórnsýsluna, eru afar mikilvægar. Tryggja verður einstaklingum með þroskafrávik aðgengi að upplýsingum með útgáfu á auðlesnu efni.
    Árið 1999 var lögð fram þingsályktunartillaga um textun á íslensku sjónvarpsefni. Í greinargerð með tillögunni segir að á Íslandi séu um 25.000 manns heyrnarskertir sem mundu nýta sér textun á íslensku sjónvarpsefni. Þessi tillaga hefur ekki náð fram að ganga og þegar lög um Ríkisútvarpið voru endurskoðuð var ákvæði um textun ekki sett inn í lögin. Það sem af er þessu ári (2001) hefur aðeins einn íslenskur þáttur verið textaður hjá Ríkissjónvarpinu.
    Einnig er rétt að benda á dóm Hæstaréttar frá maí 1999 þar sem synjun Ríkisútvarpsins um að túlka framboðsumræður í sjónvarpssal daginn fyrir alþingiskosningar var dæmd ólögmæt. Segir í dómi Hæstaréttar að Ríkisútvarpinu beri að gæta jafnræðis milli þeirra sem útsendingum er beint til og beri eftir megni að haga gerð og útsendingu framboðsumræðna þannig að aðgengilegt sé heyrnarlausum.
    Forsenda þess að heyrnarlausir geti tekið þátt í samfélaginu er að þeir fái upplýsingar á táknmáli. Til þess að svo megi verða þarf að stórefla túlkun á umræðu- og fréttaþáttum sem og textun á íslensku sjónvarpsefni.

Staðan annars staðar á Norðurlöndum.
    Í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hefur verið unnin framkvæmdaáætlun um „samfélag fyrir alla“ þar sem meginreglur Sameinuðu þjóðanna eru lagðar til grundvallar. Í öllum þessum löndum hefur verið unnið að framkvæmdaáætlun um aðgengi og hvernig skuli unnið að úrbótum og lagt fram fjármagn til að ná settum markmiðum. Eru hér aðeins nefnd nokkur dæmi um slíka vinnu.

Danmörk.
     .      Framkvæmdaáætlun gefin út af menningarmálaráðherra um aðgengi fatlaðra að menningu og menningarviðburðum.
     .      Samvinna menningarmálaráðuneytisins og By- og Boligministeriet (verkefnasvið sem fellur á Íslandi undir félagsmála- og umhverfismálaráðuneyti) um breytingu á lögum sem hefur að markmiði að koma í veg fyrir að reistar séu byggingar sem ekki eru aðgengilegar.
     .      Menningarmálaráðuneytið hefur haft frumkvæði að því að fara fram á textun á dönsku sjónvarpsefni. Árið 1998 var þriðjungur af dönsku sjónvarpsefni textaður.

Finnland.
     .      Félags- og heilbrigðismálaráðuneytið gaf út framkvæmdaáætlun 1996 um „samfélag fyrir alla“ þar sem meginreglur Sameinuðu þjóðanna voru hafðar að leiðarljósi. Í áætluninni var m.a. lögð áhersla á aukna textun og túlkun á sjónvarpsefni.
     .      Í stjórnarskránni er frá árinu 1995 kveðið á um rétt heyrnarlausra til túlkaþjónustu.
     .      Árið 2000 skipaði menningarmálaráðherra vinnuhóp til að vinna að úrbótum í aðgengi fatlaðra að menningu og menningarviðburðum.

Noregur.
     .      Árið1998 lagði ríkisstjórnin fram framkvæmdaáætlun um þátttöku og jafnræði fatlaðra í samfélaginu. Meginreglur Sameinuðu þjóðanna eru hafðar að leiðarljósi. Meðal verkefna er að auka styrki til leiksýninga sem fluttar eru á táknmáli, herða kröfur um aðgengi að íþróttamiðstöðvum og vinna að þróunarverkefninu „Menning og heilsa“.

Svíþjóð.
     .      Aðgengi fatlaðra að menningu, skýrsla sem gefin var út árið 1998.
     .      Frá því að skýrslan kom út hefur ríkisstjórnin árlega lagt fram 2 milljónir sænskra króna til að vinna að úrbótum í aðgengi fatlaðra að menningu. Hefur m.a. verið unnið að þróunarverkefninu „Söfn fyrir alla“.
     .      Árið 2000 lagði sænska ríkisstjórnin fram stjórnarfrumvarpið „Från patient til medborgare“ (frá sjúklingi til samfélagsþegns), framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðra þar sem leggja á áherslu á bætt aðgengi, þjónustu og viðmót við fatlaða. Lögð verður áhersla á að áætlunin snerti öll svið samfélagsins.
     .      Um 27% sænsks sjónvarpsefnis eru textuð og hafa verið sett markmið um að helmingur af efninu verði textaður árið 2005.
     .      Agenda 22, verkefni styrkt af Evrópubandalaginu. Verkefnið hefur að leiðarljósi að kynna meginreglur Sameinuðu þjóðanna fyrir sveitarfélögunum.

Niðurlag.
    Ýmislegt hefur áunnist hér á landi í réttindamálum fatlaðra á undanförnum árum og áratugum en af samanburði við stöðuna annars staðar á Norðurlöndum má sjá að enn er mikið verk óunnið, ekki síst hvað varðar aðgengismál í víðum skilningi. Flutningsmenn vilja með tillögu þessari hvetja til þess að unnið verði markvisst að úrbótum í aðgengismálum í samræmi við meginreglur Sameinuðu þjóðanna um þátttöku fatlaðra til jafns við aðra.