Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 618. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 989  —  618. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 168/2002, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 168/2002 frá 6. desember 2002, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/39/EB frá 10. júní 2002, um breytingu á tilskipun 97/67/EB með tilliti til þess að opna póstþjónustu bandalagsins enn frekar fyrir samkeppni.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 168/2002 frá 6. desember 2002, um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/39/EB frá 10. júní 2002, um breytingu á tilskipun 97/67/EB með tilliti til þess að opna póstþjónustu bandalagsins enn frekar fyrir samkeppni.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES- nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES- samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/39/EB frá 10. júní 2002, um breytingu á tilskipun 97/67/EB með tilliti til þess að opna póstþjónustu bandalagsins enn frekar fyrir samkeppni.
    Tilskipunin breytir eldri tilskipun, nr. 97/67/EB og opnar póstmarkaðinn í Evrópu enn frekar fyrir samkeppni. Helsta breytingin lýtur að mörkum einkaréttar. Þar segir að aðildarríkin geti veitt rekstrarleyfishöfum með alþjónustuskyldur áfram einkarétt til þess að tryggja þá þjónustu að því marki sem talið er nauðsynlegt. Þjónusta innan einkaréttar skal takmörkuð við móttöku eða söfnun, flokkun, flutning og skil á póstsendingum innan lands og póstsendingum sem berast til landsins, hvort sem um er að ræða hraðsendingar eða ekki, innan eftirfarandi þyngdar- og verðtakmarkana:
    Þyngdarmörkin skulu vera 100 g frá og með 1. janúar 2003 og 50 g frá og með 1. janúar 2006. Þessi þyngdarmörk gilda ekki ef póstsendingar bera burðargjald sem er frá 1. janúar 2003 jafnt og eða hærra en þrisvar sinnum burðargjald bréfasendinga í fyrsta (lægsta) þyngdarflokki og frá 1. janúar 2006 ef burðargjaldið er jafnt og eða hærra en 2,5 sinnum þetta gjald.
    Jafnframt er í þessari nýju tilskipun skerpt á nokkrum atriðum til bóta fyrir viðskiptavini póstsins. Tekin eru inn skýrari ákvæði um sérstakar gjaldskrár rekstrarleyfishafa vegna þjónustu þeirra við þá sem afhenda mikið magn póstsendinga í einu og taka slíkar gjaldskrár fyrst og fremst mið af þörfum atvinnufyrirtækja og annarra stórnotenda eða fyrirtækja sem safna saman póstsendingum mismunandi viðskiptavina og afhenda rekstrarleyfishafa. Enn fremur eru í tilskipuninni ákvæði sem banna rekstrarleyfishöfum að greiða niður þjónustugjöld í alþjónustu utan einkaréttar með tekjum af einkaréttarþjónustu, nema sýnt sé fram á nauðsyn þess til að hægt sé að verða við sérstökum alþjónustukvöðum sem á eru lagðar á samkeppnissviði. Að lokum eru í tilskipuninni ákvæði um að rekstrarleyfishafar gefi út skýrar reglur um meðferð kvartana frá notendum póstsins og skulu eftirlitsstofnanir tryggja það.
    Um áhrif þessarar tilskipunar hér á landi er það að segja að samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti hf. eru 94% póstlagðra bréfa 100 g eða léttari og 86% bréfa eru 50 g eða léttari.
    Þar sem ákvæði tilskipunarinnar kváðu á um breytingar frá 1. janúar 2003 hefur samgönguráðherra þegar lagt fram frumvarp til innleiðingar á ákvæðum þessarar tilskipunar á þessu löggjafarþingi og varð frumvarpið að lögum í desember sl.


Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 168/2002

frá 6. desember 2002

um breytingu á XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir samningurinn, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XI. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 104/2002 frá 12. júlí 2002 ( 1 ).

2)         Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/39/EB frá 10. júní 2002 um breytingu á tilskipun 97/67/EB með tilliti til þess að opna póstþjónustu bandalagsins enn frekar fyrir samkeppni ( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi bætist við í lið 5d (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/67/EB) í XI. viðauka við samninginn:

„ eins og henni var breytt með:

-          32002 L 0039: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/39/EB frá 10. júní 2002 (Stjtíð. EB L 176, 5.7.2002, bls. 21).“

2. gr.

Texti tilskipunar 2002/39/EB á íslensku og norsku, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 7. desember 2002, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild og EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna.

Gjört í Brussel 6. desember 2002.


     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    Kjartan Jóhannsson


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    P.K. Mannes     M. Brinkmann

Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2002/39/EB

frá 10. júní 2002

um breytingu á tilskipun 97/67/EB með tilliti til þess að opna póstþjónustu bandalagsins enn frekar fyrir samkeppni


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 47. gr., 55. gr. og 95. gr.,

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),

með hliðsjón af áliti svæðanefndarinnar ( 3 ),

í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 4 ),

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Í ályktun sinni frá 7. febrúar 1994 um þróun póstþjónustu bandalagsins ( 5 ) benti ráðið á að samræming þess að auka frelsi á póstmarkaðnum, undir eftirliti, og að ábyrgjast varanlega framboð alþjónustu væri eitt af meginmarkmiðunum í stefnu bandalagsins í póstmálum.

     2)      Í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/67/EB frá 15. desember 1997 um sameiginlegar reglur varðandi þróun innri markaðar bandalagsins á sviði póstþjónustu og umbætur á þeirri þjónustu ( 6 ) er settur lagarammi fyrir póstgeirann innan bandalagsins, þ.m.t. ráðstafanir til að tryggja alþjónustu og setja hámarksmörk fyrir þá póstþjónustu, sem aðildarríkin geta veitt einkarétt á, til þess eða þeirra aðila sem veita alþjónustuna, með það fyrir augum að viðhalda henni, og tímaáætlun fyrir þær ákvarðanir sem þarf að taka til að opna markaðinn enn frekar fyrir samkeppni með það fyrir augum að mynda einn markað fyrir póstþjónustu.

     3)      Í 16. gr. sáttmálans er lögð áhersla á þá þýðingu sem þjónusta, sem hefur almennt efnahagslegt gildi, hefur að því er varðar sameiginleg gildi Evrópusambandsins, svo og hlutverk hennar með tilliti til þess að stuðla að félagslegri og svæðisbundinni samheldni. Þar er einnig tekið fram að gæta þurfi þess að slík þjónusta sé starfrækt á grundvelli meginreglna og skilyrða sem gera þeim kleift að vinna ætlunarverk sitt.

     4)      Í ályktunum Evrópuþingsins frá 14. janúar 1999 ( 7 ) og 18. febrúar 2000 ( 8 ) um evrópska póstþjónustu er lögð áhersla á félagslegt og efnahagslegt mikilvægi póstþjónustu og þörfina á að viðhalda miklum gæðum í alþjónustu.

     5)      Ráðstafanir á þessu sviði skulu vera sniðnar að því að markmið bandalagsins varðandi félagsleg málefni, skv. 2. gr. sáttmálans, náist einnig, þ.e. mikið atvinnuframboð og mikil félagsleg vernd.

     6)      Póstkerfið í dreifbýli, m.a. í fjalllendi og á eyjum, gegnir mikilvægu hlutverki með tilliti til þess að fyrirtæki geti orðið hluti af innlendu eða alþjóðlegu efnahagslífi og til að viðhalda samheldni í félags- og atvinnulegu tilliti í dreifbýli í fjalllendi og á eyjum. Enn fremur geta pósthús í fjalllendi og á eyjum myndað mikilvæg net grunnvirkja fyrir almennan aðgang að nýrri fjarskiptatækni.

     7)      Leiðtogaráðið, sem kom saman í Lissabon 23. og 24. mars 2000, setti fram sem niðurstöður fundarins tvær ákvarðanir varðandi póstþjónustu þar sem aðgerða var krafist af framkvæmdastjórninni, ráðinu og aðildarríkjunum í samræmi við valdsvið hvers um sig. Umbeðnar aðgerðir eru: í fyrsta lagi að gera áætlun fyrir lok ársins 2000 um að afnema hömlur á póstþjónustu og í öðru lagi að auka frelsi hið fyrsta á sviðum eins og póstþjónustu með það að markmiði að markaður fyrir slíka þjónustu verði að fullu starfræktur.

     8)      Á fundi sínum í Lissabon taldi leiðtogaráðið það einnig nauðsynlegt að á innri markaðnum, og í hagkerfi sem grundvallast á þekkingu, væri fullt tillit tekið til ákvæða sáttmálans varðandi þjónustu sem hefur almennt efnahagslegt gildi og til fyrirtækja sem væri falið að veita slíka þjónustu.

     9)      Framkvæmdastjórnin hefur gert nákvæma athugun á póstgeiranum innan bandalagsins, þ.m.t. skoðun á efnahagslegri, félagslegri og tæknilegri þróun innan greinarinnar, og hefur haft víðtækt samráð við þá aðila sem eiga hagsmuna að gæta.

     10)      Þörf er á nútímalegri rammaákvæðum fyrir póstgeirann innan bandalagsins sem miða einkum að því að efla innri markaðinn fyrir póstþjónustu. Aukin samkeppni ætti að verða til þess að samþætta póstþjónustuna við aðrar aðferðir í samskiptum og hafa í för með sér aukin gæði þjónustunnar sem er veitt notendum sem gera sífellt meiri kröfur.

     11)      Hægt er að ná því meginmarkmiði að tryggja varanlegt framboð alþjónustu í öllu bandalaginu sem uppfyllir gæðastaðalinn sem aðildarríkin skilgreindu í samræmi við 3. gr. tilskipunar 97/67/EB ef þeim möguleika er viðhaldið á þessu svæði að veita einkarétt og jafnframt tryggt að skilyrði séu fyrir mikilli skilvirkni með því að frelsi til að veita þjónustu sé nægjanlegt.

     12)      Aukin eftirspurn á sviði póstþjónustunnar í heild, sem vænst er til meðallangs tíma, gæti vegið upp á móti því tapi á markaðshlutdeild sem veitendur alþjónustu geta orðið fyrir í kjölfar frekari opnunar markaðarins og myndi á þann hátt tryggja alþjónustuna.

     13)      Á meðal þeirra breytingaþátta, sem hafa áhrif á atvinnuástand í póstgeiranum, eru tækniþróun og krafa markaðarins um aukna skilvirkni mikilvægastir; aðrir þættir, t.d. opnun markaðarins, skipta minna máli. Markaðsopnun mun stuðla að því að auka heildarstærð póstþjónustumarkaðarins og líklegt er að sú fækkun, sem kann að verða á starfsmönnum í alþjónustu vegna slíkra ráðstafana (eða vegna þess að ráðstafana er vænst), verði bætt upp með fjölgun starfa hjá einkareknum fyrirtækjum og nýjum rekstraraðilum á markaðnum.

     14)      Rétt er að gera tímaáætlun á vettvangi bandalagsins um að opna fyrir samkeppni, í áföngum og undir eftirliti, markað fyrir bréfasendingar sem veitir öllum veitendum alþjónustu nægan tíma til að gera frekari ráðstafanir til nauðsynlegrar nútímavæðingar og endurskipulagningar til að tryggja lífvænleika þeirra til langs tíma við nýjar markaðsaðstæður. Aðildarríkin þurfa einnig hæfilegan tíma til að laga eftirlitskerfi sín að opnara umhverfi. Þess vegna er rétt að opnun markaðarins verði skipt í áfanga með milliáföngum þar sem verður umtalsverð opnun markaðarins, undir eftirliti, og því verði fylgt eftir með endurskoðun og tillögugerð þar sem staðfest er, ef við á, að árið 2009 skuli verða búið að opna innri markaðinn fyrir póstþjónustu að fullu eða ákveða annan, viðeigandi áfanga að því marki í ljósi niðurstaðna endurskoðunarinnar.

     15)      Tryggja þarf að næstu áfangar í opnun markaðarins verði í eðli sínu umfangsmiklir og þannig háttað að aðildarríkin geti náð þeim í reynd og jafnframt sé tryggð áframhaldandi alþjónusta.

     16)      Almennar lækkanir þyngdarmarka í 100 g árið 2003 og 50 g árið 2006 vegna þjónustu, sem veitendur alþjónustu hafa einkarétt á, ásamt því að búið verði að opna markað fyrir útfarandi millilandapóst að fullu fyrir samkeppni, hugsanlega með undantekningum að því marki sem nauðsynlegt er til að tryggja að alþjónusta sé veitt, eru enn frekari áfangar, tiltölulega einfaldir og undir eftirliti, en engu að síður mikilvægir.

     17)      Í bandalaginu standa venjulegar bréfasendingar, sem vega 50 til 350 g, að meðaltali undir um það bil 16% af heildarpósttekjum veitenda alþjónustu og þar af eru 9% vegna venjulegra bréfasendinga sem vega 100 til 350 g en útfarandi millilandapóstur undir 50 g þyngdarmörkum stendur að meðaltali undir um það bil 3% til viðbótar af heildarpósttekjum þeirra sem veita alþjónustu.

     18)      Hæfileg verðmörk að því er varðar þjónustu, sem veita má einkarétt á í tengslum við 100 og 150 g þyngdarmörk, eru á árinu 2003 þrefalt verð í almennri gjaldskrá fyrir bréfasendingu í lægsta þyngdarflokki með skjótasta útburði og á árinu 2006 tvisvar og hálfu sinni almennt gjaldskrárverð.

     19)      Markpóstur er nú þegar í flestum aðildarríkjum öflugur og vaxandi markaður með verulega vaxtarmöguleika í augsýn en í öðrum aðildarríkjum eru talsverðir möguleikar á vexti. Samkeppni ríkir nú þegar að mestu leyti í markpósti í sex aðildarríkjum. Aukinn sveigjanleiki þjónustu og í verðlagningu, sem leiddi af samkeppni, myndi bæta stöðu markpósts gagnvart öðrum samskiptamiðlum sem aftur er líklegt að leiði til nýrra tegunda póstsendinga og bæti stöðu póstþjónustunnar í heild. Engu að síður skal gera ráð fyrir því að viðhalda megi einkarétti á markpósti innan framangreindra þyngdar- og verðmarka að því marki sem það er nauðsynlegt til að tryggja framboð alþjónustu.

     20)      Útfarandi millilandapóstur stendur að meðaltali undir 3% af heildarpósttekjum. Opnun þessa hluta markaðarins í öllum aðildarríkjum, með nauðsynlegum undantekningum til að tryggja veitingu alþjónustu, myndi gera mismunandi póstrekendum kleift að safna, flokka og flytja allan útfarandi millilandapóst.

     21)      Opnun innkomandi millilandapósts fyrir samkeppni myndi valda því að unnt væri að fara í kringum 100 g mörkin árið 2003 og 50 g mörkin árið 2006 með því að afhenda hluta innlends magnpósts á öðrum stað en það myndi hafa ófyrirsjáanleg áhrif. Greining á uppruna bréfasendinga gæti valdið enn frekari erfiðleikum við eftirlit. Þyngdarmörkin 100 og 50 g fyrir venjuleg innkomandi bréf og markpóst, og einnig venjulegan innanlandspóst, eru hentug þar eð þau bjóða ekki heim hættunni á að farið sé í kringum reglur annaðhvort á þennan hátt eða með tilbúinni þyngdaraukningu einstakra póstsendinga.

     22)      Mikilvægt er að gera nú þegar tímaáætlun um frekari skref til fullrar framkvæmdar innri markaðarins fyrir póstþjónustu bæði vegna lífvænleika alþjónustu til langs tíma og áframhaldandi þróunar nútímalegrar og skilvirkrar póstþjónustu.

     23)      Rétt er að aðildarríkin hafi áfram þann möguleika að úthluta veitendum alþjónustu einkarétti á tiltekinni póstþjónustu. Þetta gerir veitendum alþjónustu kleift að ljúka því ferli að laga starfsemi sína og mannafla að aukinni samkeppni án þess að það raski fjárhagslegu jafnvægi þeirra og stefni þar með vernd alþjónustu í hættu.

     24)      Rétt er að ákveða bæði ný þyngdar- og verðmörk og hvaða þjónustu þau eiga að gilda um og kveða á um frekari endurskoðun og ákvörðun um að staðfesta, ef við á, tímasetninguna 2009 fyrir fulla opnun inni markaðar fyrir póstþjónustu eða ákveða að tekið verði annað, viðeigandi skref að því marki í ljósi niðurstaðna endurskoðunarinnar.

     25)      Ráðstafanir, sem aðildarríkin samþykkja, þ.m.t. stofnun jöfnunarsjóðs eða hvers konar breytingar á honum eða greiðslur úr honum, geta falið í sér aðstoð aðildarríkis í einhverju formi í skilningi 1. mgr. 87. gr. sáttmálans sem, samkvæmt 3. mgr. 88. gr. sáttmálans, skal tilkynna um fyrir fram til framkvæmdastjórnarinnar.

     26)      Hægt er að binda leyfi samkeppnisaðila á sviði alþjónustu þeirri kröfu að leyfishafar bjóði fram alþjónustu.

     27)      Í tilskipun 97/67/EB var ákveðið að aðildarríki skyldu tilnefna eitt eða fleiri innlend eftirlitsyfirvöld fyrir póstþjónustusviðið sem skyldu vera lagalega aðskilin og rekstrarlega óháð póstrekendum. Í ljósi þess hve virkir evrópskir póstmarkaðir eru þarf að viðurkenna og styrkja hið mikilvæga hlutverk innlendra eftirlitsyfirvalda, einkum að því er varðar það verkefni að tryggja að einkaréttur á þjónustu sé virtur nema í aðildarríkjum þar sem engin einkaréttarþjónusta er. Í 9. gr. tilskipunar 97/67/EB er aðildarríkjunum veitt heimild til að ganga lengra en gert er ráð fyrir í markmiðum þeirrar tilskipunar.

     28)      Það kann að vera viðeigandi að innlend eftirlitsyfirvöld tengi upphaf leyfisveitinga þeirri kröfu að notendur þjónustu leyfishafa hafi aðgang að gagnsærri, einfaldri og ódýrri málsmeðferð þar sem tekið er á kvörtunum án tillits til þess hvort þær eru vegna þjónustu veitanda alþjónustunnar eða þjónustu annarra póstrekenda, þ.m.t. þjónustu rekstrarleyfishafa. Einnig getur verið heppilegt að sú málsmeðferð sé tiltæk notendum allrar póstþjónustu, hvort sem um er að ræða alþjónustu eða ekki. Í þeirri málsmeðferð skal felast málsmeðferð til að ákvarða um ábyrgð þegar um það er að ræða að póstsendingar tapist eða skemmist.

     29)      Viðskiptamenn í atvinnulífinu, fyrirtæki, sem safna pósti frá ólíkum viðskiptamönnum, og aðilar, sem afhenda mikið póstmagn, fá að jafnaði þjónustu hjá þeim er veita alþjónustu sem veitir þeim möguleika á að komast inn í póstkeðjuna á ólíkum stöðum og við ólík skilyrði, borið saman við venjulegar bréfasendingar. Veitendur alþjónustunnar skulu, er þeir veita þessa þjónustu, fara að meginreglunum um gagnsæi og bann við mismunun, bæði milli ólíkra þriðju aðila og milli þriðju aðila og þeirra sem veita sambærilega, alþjónustu. Þegar hafðar eru í huga reglurnar um bann við mismunun er einnig nauðsynlegt að slík þjónusta sé tiltæk fyrir einkaviðskiptavini sem senda póst við svipuð skilyrði.

     30)      Framkvæmdastjórninni ber að skila skýrslu reglulega til Evrópuþingsins og ráðsins um beitingu þessarar tilskipunar svo að þessar stofnanir hafi jafnan upplýsingar um þróun innri markaðarins fyrir póstþjónustu.

     31)      Rétt er að fresta því til 31. desember 2008 að tilskipun 97/67/EB falli úr gildi. Þessi dagsetning hefur ekki áhrif á málsmeðferð um leyfisveitingu sem var ákveðin í aðildarríkjunum í samræmi við tilskipun 97/67/EB.

     32)      Breyta ber tilskipun 97/67/EB í samræmi við þetta.

     33)      Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á beitingu reglna sáttmálans um samkeppni og frelsi til að veita þjónustu sem sérstaklega er fjallað um í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar um beitingu samkeppnisreglna á sviði póstþjónustu og um mat á ráðstöfunum tiltekinna ríkja varðandi póstþjónustu ( 1 ).

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Tilskipun 97/67/EB er breytt sem hér segir:

1.    Í stað 7. gr. komi eftirfarandi:

    „ 7. gr.

    1.     Aðildarríkin geta haldið áfram að úthluta veitendum alþjónustu einkarétti að því marki sem nauðsynlegt er til að tryggja að alþjónusta haldist. Þjónustan skal takmarkast við söfnun, flokkun, flutning og afhendingu bréfa innanlands og innkomandi millilandabréfa, með eða án hraðsendinga, innan eftirfarandi þyngdar- og verðmarka.

    Þyngdarmörkin skulu vera 100 g frá 1. janúar 2003 og 50 g frá 1. janúar 2006. Þessi þyngdarmörk skulu ekki gilda frá 1. janúar 2003 ef verðið er jafnt og eða hærra en þrefalt, almennt gjaldskrárverð fyrir bréfasendingu í lægsta þyngdarþrepi flokksins með skjótasta útburð og skulu ekki gilda frá 1. janúar 2006 ef verðið er jafnt og eða tvisvar og hálfu sinni hærra en það gjaldskrárverð.

    Þegar um er að ræða ókeypis póstþjónustu fyrir blinda og sjónskerta er heimilt að veita undanþágur frá þyngdar- og verðtakmörkununum.

    Að því marki sem slíkt er nauðsynlegt til að tryggja framboð alþjónustu má viðhalda einkarétti á markpósti innan framangreindra þyngdar- og verðmarka.

    Að því marki sem slíkt er nauðsynlegt til að tryggja framboð alþjónustu, t.d. þegar frelsi hefur þegar verið aukið á tilteknum sviðum póstþjónustu eða vegna sérstakra eiginleika póstþjónustunnar í tilteknu aðildarríki, er heimilt að viðhalda einkarétti á útfarandi millilandapósti innan framangreindra þyngdar- og verðmarka.

    2.     Ekki er heimilt að binda skjalaskipti einkarétti.

    3.     Framkvæmdastjórnin skal ljúka könnun á framtíðarhorfum þar sem mat er lagt á það fyrir hvert aðildarríki hvaða áhrif það hefur á alþjónustu ef búið verður að opna innri póstmarkaðinn að fullu árið 2009. Framkvæmdastjórnin skal leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið, eigi síðar en 31. desember 2006, sem byggist á niðurstöðum könnunarinnar, ásamt tillögu um að staðfesta, ef við á, tímasetninguna 2009 fyrir fulla opnun inni markaðarins fyrir póstþjónustu eða til að ákveða önnur skref að því marki í ljósi niðurstaðna endurskoðunarinnar.“

2.    Við 12. gr. bætist eftirfarandi undirgreinar:

    „—        Þegar veitendur alþjónustu nota sérstakar gjaldskrár, t.d. fyrir þjónustu við fyrirtæki, þá sem afhenda mikið póstmagn í einu eða þá sem safna saman pósti frá ólíkum viðskiptamönnum, skulu þeir beita meginreglunum um gagnsæi og bann við mismunun bæði að því er varðar gjaldskrár og skilyrði sem tengjast þeim. Í gjaldskránum skal taka tillit til þess kostnaðar sem sparast, borið saman við staðalþjónustu, sem nær yfir allar þjónustuaðgerðir sem eru í boði, söfnun, flutning, flokkun og afhendingu einstakra póstsendinga, og skulu þær gilda jafnt, ásamt viðkomandi skilyrðum, bæði milli mismunandi þriðju aðila og milli þriðju aðila og veitenda alþjónustu sem veita sambærilega þjónustu. Allar slíkar gjaldskrár skulu einnig vera í boði fyrir almenna viðskiptamenn sem senda póst við svipuð skilyrði,

    „—        víxlniðurgreiðslur í þjónustu utan einkaréttarsviðsins með tekjum fyrir þjónustu á einkaréttarsviðinu skulu bannaðar nema sýna megi fram á að þær séu algerlega nauðsynlegar til að uppfylla sérstakar alþjónustuskyldur sem á eru lagðar á samkeppnissviðinu; í aðildarríkjum þar sem engin alþjónusta er skulu innlend eftirlitsyfirvöld samþykkja reglur í þessu skyni og skulu þau tilkynna framkvæmdastjórninni um slíkar ráðstafanir.“

3.    Í stað fyrstu og annarrar undirgreinar 19. gr. komi eftirfarandi:

    „Aðildarríkin skulu sjá til þess að komið sé á gagnsærri, einfaldri og ódýrri málsmeðferð til að fjalla um kvartanir notenda, einkum þegar um er að ræða tap, þjófnað, skemmdir eða það að stöðlum um gæði þjónustu er ekki fylgt (þ.m.t. málsmeðferð til að ákveða hver ber ábyrgðina þar sem fleiri en einn póstrekandi á hlut að máli).

    Aðildarríkin geta kveðið á um að þessi meginregla gildi einnig um þá sem njóta þjónustunnar sem eru:

    —    utan sviðs alþjónustu eins og skilgreint er í 3. gr., og

    —    innan sviðs alþjónustu eins og skilgreint er í 3. gr. en þjónustan er ekki í boði af hálfu veitanda alþjónustunnar.

    Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir til að tryggja að málsmeðferðin, sem um getur í fyrstu undirgrein, geri það kleift að leysa deilumál á sanngjarnan og skjótvirkan hátt þannig að gert sé ráð fyrir endurgreiðslu- og/eða bótakerfi þar sem slíkt er heimilað.“

4.    Í stað þriðju undirgreinar 22. gr. komi eftirfarandi:

    „Innlend eftirlitsyfirvöld skulu hafa það sérstaka verkefni að tryggja að þær skuldbindingar, sem þessi tilskipun hefur í för með sér, séu uppfylltar og skulu, ef við á, koma á fót eftirliti og sérstakri málsmeðferð til að tryggja að einkaréttur á þjónustu sé virtur. Einnig er heimilt að fela þeim að tryggja að farið sé að samkeppnisreglum á sviði póstþjónustu.“

5.    Í stað 23. gr. komi eftirfarandi:

     „23. gr.

    Með fyrirvara um 7. gr. skal framkvæmdastjórnin, annað hvert ár, í fyrsta skipti eigi síðar en 31. desember 2004, leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið um beitingu þessarar tilskipunar ásamt viðeigandi upplýsingum um þróun á þessu sviði, einkum að því er varðar efnahagslega, félagslega, atvinnulega og tæknilega þætti, svo og um þjónustugæði. Ef við á, skulu fylgja skýrslunni tillögur til Evrópuþingsins og ráðsins.“

6.    Í stað 27. gr. komi eftirfarandi:

     „27. gr.

    Ákvæði þessarar tilskipunar, þó ekki ákvæði 26. gr., falla úr gildi 31. desember 2008 nema annað sé ákveðið í samræmi við 3. mgr. 7. gr. Þessi dagsetning hefur ekki áhrif á málsmeðferð um veitingu heimilda, sem lýst er í 9. gr.“

2. gr.

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 31. desember 2002. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

3. gr.

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

4. gr.

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Lúxemborg 10. júní 2002.

Fyrir hönd Evrópuþingsins,

P. COX

forseti.     
Fyrir hönd ráðsins,

J. PIQUÉ I CAMPS

forseti.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. EB L 298, 31.10.2002, bls. 21 og EES-viðbætir við Stjtíð. EB nr. 54, 31.10.2002, bls. 16.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB L 176, 5.7.2002, bls. 21.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. EB C 337 E, 28.11.2000, bls. 220 og Stjtíð. EB C 180 E, 26.6.2001, bls. 291.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. EB C 116, 20.4.2001, bls. 99.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Stjtíð. EB C 144, 16.5.2001, bls. 20.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Álit Evrópuþingsins frá 14. desember 2000 (Stjtíð. EB C 232, 17.8.2001, bls. 287), sameiginleg afstaða ráðsins frá 6. desember 2001 (Stjtíð. EB C 110 E, 7.5.2002, bls. 37) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 13. mars 2002 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB). Ákvörðun ráðsins frá 7. maí 2002.
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. EB C 48, 16.2.1994, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 9
(6)    Stjtíð. EB L 15, 21.1.1998, bls. 14.
Neðanmálsgrein: 10
(7)    Stjtíð. EB C 104, 14.4.1999, bls. 134.
Neðanmálsgrein: 11
(8)    Stjtíð. EB C 339, 29.11.2000, bls. 297.
Neðanmálsgrein: 12
(1)    Stjtíð. EB C 39, 6.2.1998, bls. 2.