Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1209, 128. löggjafarþing 392. mál: vaktstöð siglinga (heildarlög, EES-reglur).
Lög nr. 41 20. mars 2003.

Lög um vaktstöð siglinga.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

Yfirstjórn.
     Samgönguráðherra fer með yfirstjórn mála er varða vaktstöð siglinga, en Siglingastofnun Íslands fer með framkvæmd þeirra svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.

2. gr.

Markmið og hlutverk.
     Markmið þessara laga er að tryggja öruggar siglingar í íslenskri efnahagslögsögu, öryggi skipa, farþega og áhafna og efla varnir gegn mengun sjávar frá skipum. Til að ná þessu markmiði skal Siglingastofnun Íslands setja á fót vaktstöð siglinga sem veitir skipum sem sigla um íslenska efnahagslögsögu m.a. eftirfarandi öryggisþjónustu:
  1. vöktun og eftirlit sjálfvirks tilkynningarkerfis skipa (STK), þ.m.t. sjálfvirks alþjóðlegs auðkenningarkerfis skipa (AIS),
  2. móttöku og miðlun tilkynninga frá skipum sem flytja hættulegan og/eða mengandi varning,
  3. móttöku og miðlun neyðarkalla til viðeigandi aðila auk tilkynninga um óhöpp eða slys á sjó,
  4. móttöku og miðlun tilkynninga frá farþegaskipum vegna talningar og skráningar farþega,
  5. vöktun alþjóðlegs neyðar- og öryggisfjarskiptakerfis skipa (GMDSS) og ritstjórn fyrir þjónustu alþjóðlegs viðvörunarkerfis skipa (NAVTEX),
  6. skráningu skipa sem falla undir hafnarríkiseftirlit,
  7. móttöku tilkynninga og miðlun upplýsinga um bilanir í vitakerfinu og farartálma á sjó,
  8. samskipti við hafnir sem Siglingastofnun Íslands hefur útnefnt sem neyðarhafnir,
  9. önnur verkefni í þágu þriðja aðila sem Siglingastofnun Íslands heimilar,
  10. önnur verkefni sem samgönguráðherra telur í þágu almannaheilla.

     Ef tilkynning berst ekki frá skipi á reglulegum tíma eða ef vaktstöð siglinga berast upplýsingar sem gefa tilefni til að ætla að ástæða sé til eftirgrennslunar, leitar eða björgunar skips í íslenskri efnahagslögsögu skal hún þegar gera nauðsynlegar ráðstafanir og hafa um þær samráð við alla þá er aðstoð geta veitt við eftirgrennslan, leit eða björgun.
     Siglingastofnun Íslands er heimilt að bjóða út rekstur vaktstöðvar siglinga. Heimilt er að skipta útboðinu í einstaka þætti.

3. gr.

Skilgreiningar.
     Í lögum þessum merkir:
  1. Skip: Hvert það far sem er sex metrar á lengd eða lengra, mælt milli stafna, og notað á sjó.
  2. Leiðsögumaður: Hver sá sem fengið hefur skírteini til leiðsögu skipa um tiltekið svæði eða við tilteknar aðstæður.
  3. Leiðsöguskylda: Skylda til að hafa um borð leiðsögumann við siglingu skipa um tiltekið svæði eða við tilteknar aðstæður.
  4. Hafnsögumaður: Leiðsögumaður sem fengið hefur skírteini til leiðsögu skipa um tiltekið hafnarsvæði.
  5. Hafnsöguskylda: Skylda til að hafa um borð hafnsögumann við siglingu skipa um tiltekið hafnarsvæði eða við tilteknar aðstæður.
  6. Hafnarsvæði: Svæði við höfn sem nánar er tilgreint í reglugerð um viðkomandi höfn.
  7. Farmsendandi: Hver sá sem gerir samning við farmflytjanda um flutning á vörum á sjó eða samningurinn er gerður í hans nafni eða fyrir hans hönd.
  8. Umboðsmaður: Sá sem annast milligöngu útgerðar eða leigutaka skips og stjórnvalda.
  9. Hættulegur varningur: Hver sá varningur sem flokkaður er í IMDG-kóðanum, í 17. kafla IBC-kóðans eða í 19. kafla IGC-kóðans, þ.m.t. geislavirk efni sem vísað er til í INF-kóðanum.
  10. Mengandi varningur: Olíur samkvæmt skilgreiningu í I. viðauka við MARPOL, fljótandi eiturefni samkvæmt skilgreiningu II. viðauka við MARPOL og skaðleg efni samkvæmt skilgreiningu III. viðauka við MARPOL.


II. KAFLI
Tilkynningar skipa.

4. gr.

     Tilkynningar sem skipum er skylt að senda samkvæmt ákvæðum þessara laga skulu sendar vaktstöð siglinga eða öðrum aðila eftir því sem nánar verður ákveðið í reglugerð.

A. Tilkynningar um staðsetningu skipa.

5. gr.

     Tilgangur með sjálfvirku tilkynningarkerfi skipa er að tryggja að vitað sé hvaða skip eru á sjó og hver sé staðsetning þeirra og að tryggja skjót viðbrögð við eftirgrennslan, leit og björgun ef skip lendir í sjávarháska.
     Heimilt er að nota upplýsingar vaktstöðvarinnar í öðrum tilgangi, t.d. við fiskveiðieftirlit, skipaeftirlit og eftirlit með mengun sjávar. Siglingastofnun Íslands getur ákveðið og samið um að gjald komi fyrir aðgang að upplýsingum og/eða aðra þjónustu sem vaktstöðin veitir þriðja aðila.
     Fyrir þjónustu í sjálfvirka tilkynningarkerfinu skal eigandi hvers skips greiða árgjald sem rennur til að mæta kostnaði af rekstri sjálfvirka tilkynningarkerfisins.

6. gr.

     Öll íslensk skip skulu tilkynna staðsetningu sína gegnum sjálfvirkt tilkynningarkerfi með tilteknu millibili eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð. Undanþegin ákvæðinu eru varðskip og skip sem ekki eru notuð í atvinnuskyni. Jafnframt er samgönguráðherra heimilt að ákveða með reglugerð að skip sem stunda veiðar nálægt landi verði undanþegin ákvæðinu.
     Erlend skip, sem sigla inn í íslenska efnahagslögsögu, skulu tilkynna um það. Í tilkynningunni skal koma fram nafn skips, heimahöfn, þjóðerni, eigandi skips og útgerðaraðili sé hann ekki eigandi, skipstjóri og umboðsmaður útgerðar hér á landi.

B. Tilkynningar um komu.

7. gr.

Tilkynning áður en haldið er til hafnar.
     Skip, 300 brúttótonn að stærð og stærri, nema varðskip og fiskiskip styttri en 45 metrar, sem eru á leið til hafnar skulu tilkynna komu sína til vaktstöðvar siglinga með tilteknum fyrirvara sem ákveðinn er í reglugerð.

C. Tilkynningar vegna hættulegs varnings.

8. gr.

Tilkynning áður en haldið er til hafnar.
     Öll skip, sem sigla inn í íslenska efnahagslögsögu með hættulegan eða mengandi varning í meira magni en tiltekið er í reglugerð, skulu með tilteknum fyrirvara sem ákveðinn skal í reglugerð tilkynna um komu sína og gefa upplýsingar m.a. um auðkenni skips, ákvörðunarhöfn, brottfarartíma skips, áætlaðan komutíma og rétt tækniheiti hættulegs eða mengandi varnings.

9. gr.

Skyldur farmsendanda.
     Ekki má bjóða hættulegan eða mengandi varning til flutnings með skipum eða taka hann um borð í íslenskri höfn nema skipstjóri eða rekstraraðili hafi í höndum yfirlýsingu með réttum tækniheitum varningsins, númerum Sameinuðu þjóðanna ef þau eru fyrir hendi, hættuflokki og magni slíks varnings og auðkennum hans ef hann er í flutningseiningum öðrum en tönkum.
     Farmsendandi ber ábyrgð á að afhenda skipstjóra eða útgerð yfirlýsingu um að farmurinn sem boðinn er til flutnings sé raunverulega sá sem lýst er yfir skv. 1. mgr.

10. gr.

Undanþágur.
     Siglingastofnun Íslands má veita útgerðum í áætlunarsiglingum milli hafna innan lands undanþágu frá kröfum um tilkynningu skv. 8. gr. ef eftirtalin skilyrði eru uppfyllt:
  1. að útgerðin haldi og uppfæri skrá yfir skip sem stunda þessa flutninga og afhendi hana vaktstöð siglinga eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð og
  2. að upplýsingar um farm séu ætíð til reiðu.

     Ef tvö eða fleiri aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins hafa samráð um alþjóðlegar áætlunarsiglingar sem eitt félag stundar geta þau í samráði veitt hlutaðeigandi félagi undanþágu í samræmi við kröfur sem kveðið er á um í þessari grein.

D. Tilkynningar um óhapp og slys á sjó.

11. gr.

Tilkynning um óhöpp og slys á sjó.
     Skipstjóri skips sem siglir um landhelgi eða efnahagslögsögu Íslands skal eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð tilkynna tafarlaust um sérhvert óhapp eða slys sem hefur áhrif á öryggi áhafnar, farþega og skips, ógnar öryggi í siglingum og kann að valda mengun sjávar eða stranda Íslands.

III. KAFLI
Hafnsaga og leiðsaga.

12. gr.

Hafnsaga skipa.
     Öll skip sem flytja hættulegan eða mengandi varning í farmrými eða á þilfari í meira magni en tiltekið er í reglugerð skulu hafa um borð hafnsögumann við siglingu um hafnarsvæði. Hafnarstjórn er heimilt að veita staðkunnugum skipstjórum undanþágu frá hafnsöguskyldu.
     Hafnarstjórnir ráða hafnsögumenn við hafnsöguskyldar hafnir.

13. gr.

Leiðsaga skipa.
     Til að tryggja öryggi siglinga og varnir gegn mengun sjávar er samgönguráðherra heimilt að ákveða með reglugerð að skip skuli hafa um borð leiðsögumann við siglingar um tiltekið svæði eða við tilteknar aðstæður. Ráðherra getur jafnframt með reglugerð falið vaktstöð siglinga að fara með leiðarstjórnun skipa um tiltekin svæði eða við tilteknar aðstæður.
     Siglingastofnun Íslands gefur út skírteini fyrir leiðsögu- og hafnsögumenn. Skírteinið gildir fyrir tiltekið svæði til allt að fimm ára í senn, þó aldrei lengur en til 70 ára aldurs skírteinishafa. Um skírteinin skal nánar kveðið á í reglugerð.
     Sá sem fullnægir eftirtöldum skilyrðum getur öðlast skírteini til að vera hafnsögu- og leiðsögumaður skipa:
  1. Er 25–69 ára að aldri.
  2. Hefur fullnægjandi heilbrigðisvottorð.
  3. Hefur lokið 2. stigs skipstjórnarnámi eða samsvarandi námi og hefur siglt sem skipstjóri eða stýrimaður á skipi um svæði sem tilgreint er á skírteininu og þekkir til hlítar siglingaleiðir á svæðinu.
  4. Hefur lokið námskeiði til að vera hafnsögu- og leiðsögumaður eftir því sem nánar segir í reglugerð.

     Skilyrðum skv. 3. mgr. verður einnig að vera fullnægt eftir að skírteinið hefur verið gefið út.
     Siglingastofnun Íslands er heimilt að veita tímabundna undanþágu frá skilyrðum skv. 3. mgr. þegar sérstaklega stendur á.

14. gr.

Skyldur leiðsögumanns.
     Leiðsögumanni ber skylda til að aðstoða yfirvöld, svo sem löggæslu-, tolla-, heilbrigðis-, siglinga- og hafnaryfirvöld, við störf þeirra. Þá ber honum að aðstoða á allan hátt stjórnendur skipa sem hann leiðbeinir og ráðleggja um siglingu skipsins þannig að á sem hagkvæmastan og öruggastan hátt sé komist á milli áfangastaða. Þá skal leiðsögumaður aðstoða við að koma skipi í festar þegar ekki er um að ræða aðstoð hafnsögumanns viðkomandi hafnar.
     Sérstök varúð skal viðhöfð til að hindra mengun stranda og sjávar af völdum hættulegra efna og mengunarslys skal tilkynna þegar í stað. Leiðsögumaður er ábyrgur fyrir að tilkynningin berist réttum aðilum og skal reyna með öllum tiltækum ráðum að halda útbreiðslu mengunarinnar í lágmarki.
     Leiðsögumaður ber ekki ábyrgð á siglingu skips sem hann leiðbeinir heldur aðeins á leiðbeiningunum.

15. gr.

Umboðsmaður skips.
     Skylt er útgerð skips, sem siglir um íslenska efnahagslögsögu með hættulegan eða mengandi varning í farmrými eða á þilfari í meira magni en tiltekið er í reglugerð og áformar að hafa hér viðkomu, að hafa umboðsmann hér á landi. Sé skipið gert út af íslensku útgerðarfélagi telst útgerðin umboðsmaður. Umboðsmaður sér um að útvega leiðsögumenn til að fylgja skipinu.
     Ef ástæða þykir til er heimilt að krefjast trygginga vegna hugsanlegs tjóns sem skipið kann að valda hér við land. Skal umboðsmaður skipsins hafa milligöngu um að leggja fram slíka tryggingu.

16. gr.

Undanþágur.
     Undanskilin ákvæðum laga þessara um hafnsögu, leiðsögu og umboðsmann eru skip sem leita hafnar vegna bráðrar hættu eða til að setja á land alvarlega sjúka menn eða slasaða.

IV. KAFLI
Önnur ákvæði.

17. gr.

Reglugerð.
     Samgönguráðherra skal setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um hafnsögu- og leiðsöguskyldu skipa, umboðsmann skipa og tilkynningar skipa, þ.m.t. um staðsetningu, flutning hættulegs eða mengandi varnings og óhöpp og slys.
     Greiða skal fyrir útgáfu skírteina samkvæmt lögum þessum og skulu þau gjöld standa undir kostnaði Siglingastofnunar Íslands við afgreiðslu þeirra. Gjöld skulu ákveðin í gjaldskrá stofnunarinnar.

18. gr.

Viðurlög.
     Brot gegn lögum þessum eða reglum sem settar eru samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Beita skal ákvæðum almennra hegningarlaga um tilraun og hlutdeild.
     Leiði brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim til skipstrands, áreksturs skipa eða annarra sjóslysa skal viðkomandi sæta refsingu og eftir atvikum réttindasviptingu til skipstjórnar eða vélstjórnar skv. 238. gr. siglingalaga, nr. 34/1985, með síðari breytingum.
     Svipta skal skírteinishafa samkvæmt lögum þessum rétti til starfa þess sem skírteinið veitir ef hann gerist sekur um vítavert brot gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim, eða ef telja verður með hliðsjón af eðli brotsins eða annars framferðis hans sem skírteinishafa að varhugavert sé að hann neyti réttinda samkvæmt skírteininu.
     Svipting starfsréttinda skal vera um ákveðinn tíma, eigi skemur en þrjá mánuði og ævilangt ef sakir eru miklar eða brot ítrekað.

19. gr.

     Siglingastofnun Íslands er heimilt að afturkalla skírteini samkvæmt lögum þessum ef lögmætur handhafi þess fullnægir ekki lengur skilyrðum laganna til að öðlast slíkt skírteini eða vera skírteinishafi.
     Nú telur Siglingastofnun Íslands að skilyrði skv. 3. mgr. 18. gr. séu fyrir hendi til sviptingar starfsréttinda og er stofnuninni þá heimilt að svipta viðkomandi aðila starfsréttindum til bráðabirgða. Skal slík svipting vera tímabundin eða ákvörðuð til þess tíma þegar endanleg ákvörðun dómstóls um sviptinguna liggur fyrir. Bráðabirgðasvipting samkvæmt ákvæði þessu skal dragast frá endanlegum sviptingartíma samkvæmt dómi.

20. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Jafnframt falla úr gildi lög um tilkynningarskyldu íslenskra skipa, nr. 40/1977, með síðari breytingum, og lög um leiðsögu skipa, nr. 34/1993, með síðari breytingum.

Samþykkt á Alþingi 10. mars 2003.