Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1215, 128. löggjafarþing 489. mál: umferðarlög (EES-reglur).
Lög nr. 26 20. mars 2003.

Lög um breyting á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987 (meðferð bótakrafna vegna tjóna erlendis).


1. gr.

     Í stað 1. mgr. 91. gr. laganna, sbr. lög nr. 116 20. desember 1993, koma þrjár nýjar málsgreinar er orðast svo:
     Greiðsla á bótakröfu vegna tjóns, sem hlýst af notkun skráningarskylds vélknúins ökutækis, skal vera tryggð með ábyrgðartryggingu hjá:
  1. vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi til að taka að sér ábyrgðartryggingu vélknúinna ökutækja,
  2. erlendu vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) eða Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og sem Fjármálaeftirlitinu hefur verið tilkynnt á lögformlegan hátt að taki að sér ábyrgðartryggingu vélknúinna ökutækja hér á landi.

     Öll vátryggingafélög sem taka að sér ábyrgðartryggingu skráningarskyldra vélknúinna ökutækja hér á landi skulu taka þátt í starfsemi tjónsuppgjörsmiðstöðvar skv. 94. gr. a og upplýsingamiðstöðvar skv. 94. gr. b. Dómsmálaráðherra getur kveðið nánar á um slíka þátttöku í reglugerð.
     Öll vátryggingafélög sem hyggjast taka að sér ábyrgðartryggingu skráningarskyldra vélknúinna ökutækja hér á landi skulu auk þessa tilkynna það Umferðarstofu.

2. gr.

     Í stað „3. mgr.“ í 4. mgr. 92. gr. laganna, sbr. lög nr. 32 8. apríl 1998, kemur: 5. mgr.

3. gr.

     Við 93. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
     Nú er ökutæki ekki vátryggt skv. 2. og 3. mgr. og ber þá ríkissjóður ábyrgð með sama hætti og vátryggingafélag sem tekið hefur að sér vátryggingu skv. 91. og 92. gr.
     Dómsmálaráðherra getur sett reglur um greiðslu bóta vegna tjóna er ökutæki, sem undanþegin eru vátryggingarskyldu skv. 2. og 3. mgr., valda erlendis.

4. gr.

     1. mgr. 94. gr. laganna orðast svo:
     Dómsmálaráðherra setur reglur um framkvæmd vátryggingarskyldunnar, þar á meðal um skyldu vátryggingafélaga til að taka þátt í gagnkvæmu ábyrgðarkerfi vegna tjóna af völdum óvátryggðra og óþekktra ökutækja.

5. gr.

     Á eftir 94. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 94. gr. a og 94. gr. b, er orðast svo:
     
     a. (94. gr. a.)
Tjónsuppgjörsmiðstöð.
     Dómsmálaráðherra skal viðurkenna tjónsuppgjörsmiðstöð sem greitt getur bætur vegna tjóns af völdum vélknúins ökutækis, ef
  1. tjónþoli er búsettur hér á landi,
  2. ökutækið er vátryggt og að öllu jöfnu staðsett í öðru EES- eða EFTA-ríki, eða ef ökutækið er óþekkt, eða ef ekki er unnt að hafa upp á vátryggingafélagi því sem vátryggði ökutækið, og
  3. tjónið varð í öðru EES- eða EFTA-ríki eða í öðru ríki sem er aðili að tilhöguninni um græna kortið.

     Tjónsuppgjörsmiðstöð á enn fremur að geta greitt bætur vegna tjóns af völdum vélknúinna ökutækja sem vátryggð eru hér á landi, ef
  1. tjónþoli er búsettur í öðru EES- eða EFTA-ríki,
  2. ökutækið er að jafnaði staðsett í öðru EES- eða EFTA-ríki en því þar sem tjónþoli er búsettur, og
  3. tjónið varð í öðru EES- eða EFTA-ríki en því þar sem tjónþoli er búsettur, eða öðru ríki sem er aðili að tilhöguninni um græna kortið.

     Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um greiðslu bóta frá tjónsuppgjörsmiðstöð og um starfsemi hennar. Hann getur enn fremur sett nánari reglur um meðferð bótakrafna hjá vátryggingafélögum og tjónsuppgjörsfulltrúum vátryggingafélaga skv. 11. tölul. 2. mgr. 21. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994.
     
     b. (94. gr. b.)
Upplýsingamiðstöð.
     Dómsmálaráðherra skal viðurkenna upplýsingamiðstöð til að aðstoða við öflun upplýsinga um vélknúið ökutæki sem valdið hefur tjóni og vátryggingu þess ef tjónþoli er búsettur hérlendis, ökutækið er vátryggt eða að öllu jöfnu staðsett hér, eða tjónið varð hér á landi. Þetta gildir þó því aðeins að
  1. tjónþoli sé búsettur í EES- eða EFTA-ríki,
  2. ökutækið sé vátryggt og að öllu jöfnu staðsett í EES- eða EFTA-ríki,
  3. tjónið hafi orðið í öðru EES- eða EFTA-ríki en því þar sem tjónþoli er búsettur, eða í öðru ríki sem er aðili að tilhöguninni um græna kortið.

     Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um starfsemi upplýsingamiðstöðvarinnar og um skyldu vátryggingafélaga og tjónsuppgjörsfulltrúa skv. 3. mgr. 94. gr. a til að láta upplýsingamiðstöð skv. 1. mgr. og upplýsingaskrifstofum í öðrum EES- eða EFTA-ríkjum í té upplýsingar.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 10. mars 2003.