Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 360. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 479  —  360. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 47/2003, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 47/2003 frá 16. maí 2003, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/65/EB frá 23. september 2002 varðandi fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur og um breytingu á tilskipun ráðsins 90/619/EBE og á tilskipunum 97/7/EB og 98/27/EB.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 47/2003 frá 16. maí 2003, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/65/EB frá 23. september 2002 varðandi fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur og um breytingu á tilskipun ráðsins 90/619/EBE og á tilskipunum 97/7/EB og 98/27/EB.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES-samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES- samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES- nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/65/EB frá 23. september 2002 varðandi fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur og um breytingu á tilskipun ráðsins 90/619/EBE og á tilskipunum 97/7/EB og 98/27/EB.
    Tilskipun nr. 2002/65/EB mælir fyrir um neytendavernd við fjarsölu á fjármálaþjónustu. Er tilskipuninni ætlað að styrkja réttarstöðu neytenda við fjarsölu á fjármálaþjónustu, m.a. með því að kveða á um rétt neytenda til að falla frá fjarsölusamningi um kaup á fjármálaþjónustu.
    Fjármálaþjónusta hentar mjög vel til fjarsölu. Af þeim sökum hefur það farið vaxandi, bæði hér á landi sem erlendis, að fjármálafyrirtæki selji almennum neytendum þjónustu sína með fjarsölu. Af þeim sökum er mikilvægt að leiða í lög ákvæði sem tryggja réttarstöðu neytenda við viðskipti af þessu tagi, m.a. til að auka tiltrú neytenda á fjarsölu á fjármálaþjónustu. Markmið tilskipunarinnar er að samræma löggjöf um fjarsölu á fjármálaþjónustu til neytenda.
    Tilskipun þessi gildir um gerð fjarsölusamninga á fjármálaþjónustu til neytenda. Með fjármálaþjónustu er átt jafnt við þjónusta á sviði bankaviðskipta, lána, vátrygginga, lífeyris, fjárfestinga eða greiðslna. Í tilskipuninni er „fjarsölusamningur“ skilgreindur sem „samningur um fjármálaþjónustu milli þjónustuveitanda og neytanda sem er gerður í gegnum skipulagt kerfi fyrir fjarsölu eða fjarþjónustu sem rekið er af þjónustuveitanda sem notar, að því er varðar samninginn, eingöngu einn eða fleiri fjarsamskiptamiðla allt fram að þeim tíma sem gengið er frá samningnum, og við gerð hans.“
    Í tilskipuninni er mælt fyrir um að við gerð fjarsölusamninga skuli upplýsa neytanda með góðum fyrirvara um helstu atriði er varða samninginn. Skal m.a. upplýsa neytandann um atriði sem varða sjálfan þjónustuveitandann, hvað felist í þeirri þjónustu sem neytandanum er boðin til sölu, um rétt hans til að falla frá fjarsölusamningi og um hvaða möguleikar séu að fá úrlausn mála utan réttar vegna hugsanlegra vanefnda á fjarsölusamningi. Þá mælir tilskipunin enn fremur fyrir um að þjónustuveitandi skuli senda neytanda alla samningsskilmála á pappír eða öðrum varanlegum miðli áður en neytandi er bundinn af fjarsölusamningi.
    Í 6. gr. tilskipunarinnar er mælt fyrir um að neytandi skuli hafa a.m.k. 14 daga frest til að falla frá samningi án þess að það hafi einhverjar afleiðingar í för með sér. Ef um er að ræða fjarsölusamninga um líftryggingu eða starfsemi séreignarsjóða skal fresturinn þó vera 30 dagar. Tilskipunin mælir þó fyrir um vissar undantekningar frá þessum rétti.
    Lokið skal við að innleiða tilskipunina eigi síðar en 9. október 2004. Viðskiptaráðuneytið vinnur nú að undirbúningi frumvarps um að leiða tilskipunina í lög hér á landi.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 47/2003

frá 16. maí 2003

um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir samningurinn, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        IX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 167/2002 frá 6. desember 2002 ( 1 ).

2)         XIX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 160/2001 frá 18. janúar 2002 ( 2 ).

3)         Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/65/EB frá 23. september 2002 varðandi fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur og um breytingu á tilskipun ráðsins 90/619/EBE og á tilskipunum 97/7/EB og 98/27/EB ( 3 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

1. IX. viðauki við samninginn breytist sem hér segir:

a)         Eftirfarandi bætist við á eftir lið 30c (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/9/EB):

„IV. Ákvæði sem varða allar tegundir fjármálaþjónustu


        30d.          32002 L 0065: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/65/EB frá 23. september 2002 varðandi fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur og breytingu á tilskipun ráðsins 90/619/EBE og á tilskipunum 97/7/EB og 98/27/EB (Stjtíð. EB L 271, 9.10.2002, bls. 16).“

b)         Eftirfarandi bætist við í fyrsta undirlið (tilskipun ráðsins 90/619/EBE) 11. liðar (fyrsta tilskipun ráðsins 79/267/EBE):

        „ , eins og henni var breytt með:

        -              32002 L 0065: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/65/EB frá 23. september 2002 (Stjtíð. EB L 271, 9.10.2002, bls. 16).“

2. XIX. viðauki við samninginn breytist sem hér segir:

a)         Eftirfarandi bætist við í lið 3a (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB):

        „ , eins og henni var breytt með:

        -              32002 L 0065: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/65/EB frá 23. september 2002 (Stjtíð. EB L 271, 9.10.2002, bls. 16).“

b)         Eftirfarandi undirliður bætist við í lið 7d (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/27/EB):

        „-          32002 L 0065: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/65/EB frá 23. september 2002 (Stjtíð. EB L 271, 9.10.2002, bls. 16).“

2. gr.

Texti tilskipunar 2002/65/EB á íslensku og norsku, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 17. maí 2003 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 16. maí 2003.

    Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar

     P. Westerlund
    formaður.

Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2002/65/EB
frá 23. september 2002
varðandi fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur og um breytingu á tilskipun ráðsins      90/619/EBE og á tilskipunum 97/7/EB og 98/27/EB


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 47. gr., 55. gr. og 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 2 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 3 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 4 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
     1)      Til þess að markmiðum innri markaðarins verði náð er brýnt að gera ráðstafanir til að treysta hann smám saman og þær ráðstafanir verða að stuðla að því að skapa öfluga neytendavernd, í samræmi við 95. og 153. gr. sáttmálans.
     2)      Bæði fyrir neytendur og þá sem veita fjármálaþjónustu verður fjarsala á fjármálaþjónustu einn helsti, efnislegi ávinningurinn af tilkomu innri markaðsins.
     3)      Innan ramma innri markaðarins er það í þágu neytenda að hafa aðgang, án mismununar, að eins fjölbreyttri fjármálaþjónustu og völ er á innan bandalagsins svo að þeir geti valið það sem best samræmist þörfum þeirra. Til að tryggja valfrelsi, sem er grundvallarréttur neytenda, er þörf á öflugri neytendavernd til að auka tiltrú neytenda á fjarsölu.
     4)      Til að innri markaðurinn geti starfað snurðulaust er nauðsynlegt að neytendur geti samið og gert samninga við þjónustuveitendur með staðfestu í öðrum aðildarríkjum, án tillits til þess hvort þjónustuveitandinn hefur einnig staðfestu í aðildarríkinu þar sem neytandi hefur fasta búsetu.
     5)      Sökum þess hver fjármálaþjónusta er óefnisleg í eðli sínu hentar hún vel til fjarsölu og setning lagaramma um fjarsölu á fjármálaþjónustu ætti að auka tiltrú neytenda á notkun nýrra aðferða við fjarsölu á fjármálaþjónustu, t.d. með rafrænum viðskiptum.
     6)      Tilskipun þessari skal beitt í samræmi við sáttmálann og afleidda löggjöf, þ.m.t. tilskipun 2000/31/EB ( 5 ) um rafræn viðskipti, en sú síðarnefnda gildir eingöngu um þau viðskipti sem hún tekur til.
     7)      Tilgangurinn með þessari tilskipun er að ná framangreindum markmiðum með fyrirvara um lög bandalagsins eða aðildarríkjanna um rétt til að veita þjónustu eða, þar sem við á, stjórnkerfi gistiaðildarríkisins og/eða leyfisveitinga- eða eftirlitskerfi í aðildarríkjunum ef þau samrýmast löggjöf bandalagsins.
     8)      Þessi tilskipun, einkum ákvæði varðandi upplýsingar um samningsákvæði um það hvaða lög skuli gilda um samninginn eða undir hvaða dómstól hann heyri, hefur ekki áhrif á gildi reglugerðar ráðsins (EB) nr. 44/2001 frá 22. desember 2000 um dómsvald og viðurkenningu á og fullnustu dóma í einkamálum ( 6 ) varðandi fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur, eða Rómarsamningsins frá 1980 um lög sem gilda um samningsskyldur.
     9)      Til að ná megi markmiðum aðgerðaáætlunarinnar um fjármálaþjónustu er þörf á öflugari neytendavernd á tilteknum sviðum. Þetta felur í sér aukna samleitni, einkum að því er varðar ósamræmda, sameiginlega fjárfestingarsjóði, siðareglur, sem gilda um fjárfestingarþjónustu, og neytendalán. Þar til framangreind samleitni næst skal viðhalda öflugri neytendavernd.
     10)      Í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB frá 20. maí 1997 um neytendavernd að því er varðar fjarsölusamninga ( 7 ) er mælt fyrir um helstu reglur sem gilda um fjarsölusamninga á vörum og þjónustu sem gerðir eru milli þjónustuveitanda og neytanda. Þó tekur sú tilskipun ekki til fjármálaþjónustu.
     11)      Í tengslum við greiningu sem framkvæmdastjórnin annaðist, með það fyrir augum að kanna þörfina á sértækum ráðstöfunum á sviði fjármálaþjónustu, bauð framkvæmdastjórnin öllum hagsmunaaðilum að senda inn athugasemdir, einkum í tengslum við undirbúning grænbókar sinnar „Fjármálaþjónusta – komið til móts við væntingar neytenda“. Viðræður um þetta sýndu að nauðsynlegt er að styrkja neytendavernd á þessu sviði. Framkvæmdastjórnin ákvað því að leggja fram sérstaka tillögu um fjarsölu á fjármálaþjónustu.
     12)      Ef aðildarríkin setja ósamrýmanlegar eða ólíkar reglur um neytendavernd, sem gilda um fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur, gæti það hindrað starfsemi innri markaðarins og samkeppni milli fyrirtækja á markaði. Því er nauðsynlegt að samþykkja sameiginlegar reglur á þessu sviði á vettvangi bandalagsins sem fela ekki í sér minni neytendavernd í aðildarríkjunum á heildina litið.
     13)      Tilskipun þessi skal tryggja öfluga neytendavernd með það fyrir augum að tryggja frjálsa fjármálaþjónustu. Aðildarríkin ættu ekki að geta samþykkt önnur ákvæði en þau sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun á þeim sviðum sem eru samræmd í henni, nema annað sé sérstaklega tekið fram í henni.
     14)      Tilskipun þessi tekur til allrar fjármálaþjónustu sem veita má sem fjarþjónustu. Þó fellur tiltekin fjármálaþjónusta undir sérstök lagaákvæði bandalagsins og gilda þau áfram um hana. Hins vegar skal mæla fyrir um meginreglur um fjarsölu á slíkri þjónustu.
     15)      Samningar, sem eru gerðir í fjarlægð, eru gerðir með aðstoð fjarsamskiptamiðla sem notaðir eru sem liður í kerfi fjarsölu eða fjarþjónustu þar sem þjónustuveitandinn og neytandinn eru ekki viðstaddir samtímis. Stöðug þróun þessara samskiptamiðla kallar á að settar séu meginreglur sem gilda, jafnvel fyrir þá tækni sem enn er ekki almennt notuð. Því eru fjarsölusamningar þeir samningar þar sem tilboð, samningaviðræður og samningsgerð fer fram í fjarlægð.
     16)      Sami samningur, sem felur í sér röð aðgerða sem koma hver á fætur annarri eða stakar aðgerðir af sama toga, sem ná yfir tiltekið tímabil, kann að fá mismunandi lagatúlkun í hinum ýmsu aðildarríkjum, en mikilvægt er að tilskipun þessari sé beitt á sama hátt í öllum aðildarríkjunum. Því er rétt að tilskipun þessi teljist gilda um þá fyrstu af röð aðgerða, sem koma hver á fætur annarri, eða þá fyrstu af röð stakra aðgerða af sama toga sem ná yfir tiltekið tímabil og líta má á sem heild, hvort sem um þá aðgerð eða röð aðgerða gildir einn samningur eða nokkrir samningar sem gerðir eru hver á fætur öðrum.
     17)      Það að opna bankareikning, fá greiðslukort eða gera samning um stjórnun verðbréfasamvals getur talist til „upphaflegs þjónustusamnings“ og það að leggja inn eða taka út fé af bankareikningi, greiða með greiðslukorti eða viðskipti innan ramma samnings um stjórnun verðbréfasamvals getur talist til „aðgerða“. Ef nýir þættir bætast við upphaflega þjónustusamninginn, svo sem sá möguleiki að nota rafrænt greiðsluform ásamt bankareikningi sem fyrir er, telst það ekki vera „aðgerð“ heldur viðbótarsamningur sem fellur undir þessa tilskipun. Áskrift að nýjum hlutdeildarskírteinum í sama sameiginlega fjárfestingarsjóðnum telst vera ein af „aðgerðum af sama toga sem koma hver á fætur annarri“.
     18)      Með því að ná yfir kerfi þjónustuveitingar, sem skipulagt er af veitanda fjármálaþjónustunnar, miðar þessi tilskipun að því að útiloka frá gildissviði sínu þjónustu sem er eingöngu er veitt stöku sinnum og utan þeirra viðskiptaaðferða sem viðhafðar eru við gerð fjarsölusamninga.
     19)      Þjónustuveitandi er sá sem veitir fjarþjónustu. Tilskipun þessi skal þó einnig gilda þegar milliliður kemur að einhverju stigi markaðssetningarinnar. Viðeigandi ákvæði þessarar tilskipunar gilda um slíkan millilið með tilliti til þess hvernig og hversu mikið hann kemur að málinu, óháð lagalegri stöðu hans.
     20)      Varanlegir miðlar geta einkum verið disklingar, geisladiskar, stafrænir mynddiskar (DVD) og harðir diskar í tölvu neytandans þar sem tölvupóstur er vistaður en taka ekki til vefsetra á Netinu nema þau uppfylli viðmiðanirnar sem er að finna í skilgreiningu á varanlegum miðli.
     21)      Notkun fjarsamskiptamiðla má ekki hafa í för með sér að upplýsingar til viðskiptavina séu takmarkaðar á ósanngjarnan hátt. Til að tryggja gagnsæi er í tilskipun þessari mælt fyrir um nauðsynlegar kröfur til að tryggja viðeigandi upplýsingastig til neytenda, bæði fyrir og eftir gerð samningsins. Áður en samningur er gerður á neytandi að fá þær upplýsingar, sem veita ber fyrir fram og þörf er á til að geta metið rétt þá fjármálaþjónustu sem honum er boðin, og taka þannig upplýsta ákvörðun um val. Þjónustuveitandi skal tilgreina hversu lengi tilboð hans gildir óbreytt.
     22)      Upplýsingaliðir, sem tilgreindir eru í þessari tilskipun, taka til almennra upplýsinga sem gilda um hvers konar fjármálaþjónustu. Aðrar kröfur um upplýsingar varðandi tiltekna fjármálaþjónustu, svo sem vátryggingavernd tiltekins vátryggingaskírteinis, eru ekki einungis tilgreindar í þessari tilskipun. Þess konar upplýsingar skulu veittar, þar sem við á, í samræmi við viðkomandi löggjöf bandalagsins eða innlenda löggjöf í samræmi við lög bandalagsins.
     23)      Með bestu mögulega neytendavernd í huga er mikilvægt að neytandinn fái viðeigandi upplýsingar um ákvæði þessarar tilskipunar og um það hvaða siðareglur eru til á þessu sviði, sem og um að hann eigi rétt á að falla frá samningi.
     24)      Þegar réttur til að falla frá samningi gildir ekki vegna þess að neytandi hefur eindregið farið fram á að samningur verði efndur skal þjónustuveitandi tilkynna neytanda um það.
     25)      Neytendur skulu verndaðir gegn óumbeðinni þjónustu. Neytendur skulu undanþegnir öllum skyldum varðandi óumbeðna þjónustu og ekki skal litið á það sem samþykki af þeirra hálfu ef þeir svara ekki. Þó skal þessi regla ekki hafa áhrif á endurnýjun með þegjandi samþykki á löglega gerðum samningum milli aðila ef lög aðildarríkjanna heimila slíka endurnýjun.
     26)      Aðildarríkjunum ber að gera viðeigandi ráðstafanir til að vernda vel þá neytendur sem vilja ekki að haft sé samband við þá með tilteknum samskiptamiðlum eða á tilteknum tímum. Tilskipun þessi hefur ekki áhrif á sérstakar ráðstafanir um verndun persónuupplýsinga og einkalífs sem neytandinn á völ á samkvæmt löggjöf bandalagsins.
     27)      Til þess að vernda neytendur er þörf á viðeigandi og skilvirkri kæru- og úrlausnarmeðferð til að leysa deilumál, sem upp kunna að koma milli þjónustuveitenda og neytenda í aðildarríkjunum, þar sem stuðst er við þau úrræði sem fyrir eru ef unnt er.
     28)      Aðildarríkin skulu hvetja opinberar stofnanir og einkaaðila, sem eiga að annast lausn deilumála utan dómstóla, til samvinnu við að leysa deilur yfir landamæri. Slík samvinna gæti til dæmis falist í því að gera neytendum kleift að leggja fram kærur gegn þjónustuveitendum í öðrum aðildarríkjum hjá aðilum í búseturíki sínu sem annast lausn deilumála utan réttar. Með tilkomu kvörtunarnets gegn aðilum í fjármálaþjónustu (FIN-NET) býðst neytendum aukin aðstoð þegar þeir nýta sér þjónustu yfir landamæri.
     29)      Tilskipun þessi hefur ekki áhrif á það ef aðildarríkin, í samræmi við lög bandalagsins, rýmka verndina sem þessi tilskipun veitir fyrirtækjum, sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni, og einstaklingum sem notfæra sér fjármálaþjónustu til að verða sjálfstæðir atvinnurekendur.
     30)      Tilskipun þessi skal einnig taka til tilvika þar sem í innlendri löggjöf er fjallað um það er neytendur gera bindandi samningsyfirlýsingu.
     31)      Ákvæði þessarar tilskipunar um val þjónustuveitanda á tungumáli skulu ekki hafa áhrif á ákvæði innlendrar löggjafar sem samþykkt er í samræmi við lög bandalagsins um val á tungumáli.
     32)      Bandalagið og aðildarríkin hafa tekið á sig skuldbindingar, í tengslum við hinn almenna samning um þjónustuviðskipti (GATS), varðandi þann möguleika neytenda að kaupa banka- og fjárfestingarþjónustu erlendis. GATS-samningurinn gerir aðildarríkjunum kleift að samþykkja ráðstafanir af varfærnisástæðum, þ.m.t. ráðstafanir til að vernda fjárfesta, sparifjáreigendur, vátryggingataka og einstaklinga sem eiga rétt á fjármálaþjónustu frá veitanda fjármálaþjónustu. Slíkar ráðstafanir skulu ekki fela í sér takmarkanir sem ganga lengra en nauðsynlegt er til að tryggja vernd neytenda.
     33)      Með tilliti til samþykktar þessarar tilskipunar skal breyta gildissviði tilskipunar 97/7/EB og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 98/27/EB frá 19. maí 1998 um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda ( 8 ), sem og uppsagnarfrestinum í tilskipun ráðsins 90/619/EBE frá 8. nóvember 1990 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum varðandi frumtryggingar á sviði líftrygginga, með ákvæðum um að greitt sé fyrir því að réttur til að veita þjónustu sé nýttur og um breytingu á tilskipun 79/267/EBE ( 9 ).
     34)      Þar sem aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiðum þessarar tilskipunar, þ.e. að koma á fót sameiginlegum reglum um fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur, og þeim verður betur náð á vettvangi bandalagsins, er bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og fram kemur í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, ganga ákvæði þessarar tilskipunar ekki framar en nauðsynlegt er til að þessu markmiði verði náð.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Markmið og gildissvið

1.     Markmiðið með þessari tilskipun er að samræma lög og stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkjanna um fjarsölu á fjármálaþjónustu til neytenda.
2.     Þegar um er að ræða samninga um fjármálaþjónustu sem fela í sér upphaflegan þjónustusamning og í kjölfarið aðgerðir sem koma hver á fætur annarri eða röð stakra aðgerða af sama toga sem ná yfir tiltekið tímabil, skulu ákvæði þessarar tilskipunar eingöngu gilda um upphaflega þjónustusamninginn.
Ef ekki er fyrir hendi neinn upphaflegur þjónustusamningur og aðgerðirnar, sem koma hver á fætur annarri, eða stakar aðgerðir af sama toga, sem ná yfir tiltekið tímabil, eru gerðar milli sömu samningsaðila gilda 3. og 4. gr. eingöngu þegar fyrsta aðgerðin er framkvæmd. Ef engin aðgerð, sama eðlis, er hins vegar framkvæmd í meira en eitt ár skal næsta aðgerð teljast sú fyrsta í nýrri röð aðgerða og þar af leiðandi gilda 3. og 4. gr.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)      „fjarsölusamningur“: samningur um fjármálaþjónustu milli þjónustuveitanda og neytanda sem er gerður í gegnum skipulagt kerfi fyrir fjarsölu eða fjarþjónustu sem rekið er af þjónustuveitanda sem notar, að því er varðar samninginn, eingöngu einn eða fleiri fjarsamskiptamiðla allt fram að þeim tíma sem gengið er frá samningnum, og við gerð hans,
b)      „fjármálaþjónusta“: þjónusta á sviði bankaviðskipta, lána, vátrygginga, lífeyris, fjárfestinga eða greiðslna,
c)      „þjónustuveitandi“: einstaklingur eða lögaðili, opinber eða einkaaðili, sem í hlutaðeigandi viðskiptum er samningsbundinn þjónustuveitandi samkvæmt fjarsölusamningi,
d)      „neytandi“: einstaklingur sem í fjarsölusamningum, sem þessi tilskipun nær til, á viðskipti í öðrum tilgangi en vegna starfs síns,
e)      „fjarsamskiptamiðill“: miðill sem nota má til fjarsölu á þjónustu milli þjónustuveitanda og neytanda án þess að þeir séu viðstaddir samtímis í eigin persónu,
f)      „varanlegur miðill“: sérhvert tæki sem gerir neytanda kleift að geyma upplýsingar, sem beint er til hans persónulega, á þann hátt að hægt sé að nálgast þær til að fletta upp í þeim síðar, í hæfilegan tíma eftir tilgangi upplýsinganna og sem gerir kleift að afrita upplýsingarnar, sem geymdar eru, óbreyttar,
g)      „sá sem rekur eða lætur í té fjarsamskiptamiðil“: opinber aðili eða einstaklingur eða lögaðili sem starfar við að veita þjónustuveitendum aðgang að einum eða fleiri fjarsamskiptamiðlum.

3. gr.
Upplýsingar, veittar neytanda fyrir gerð fjarsölusamnings

1.     Veita skal neytandanum upplýsingar um eftirfarandi með góðum fyrirvara áður en hann er bundinn af fjarsölusamningi eða tilboði:
1)         þjónustuveitandi
     a)      nafn og aðalatvinna þjónustuveitanda, heimilisfang þar sem hann hefur staðfestu og hvert það heimilisfang annað sem máli skiptir varðandi tengsl viðskiptavinarins við þjónustuveitandann,
     b)      nafn fulltrúa þjónustuveitanda með staðfestu í aðildaríkinu, þar sem neytandi hefur búsetu, og heimilisfang sem máli skiptir varðandi tengsl viðskiptavinarins við fulltrúann ef slíkur fulltrúi er til,
     c)      eigi neytandi viðskipti við einhvern annan fagmann en þjónustuveitanda, nafn þess fagmanns, í hvers umboði hann kemur fram gagnvart neytandanum og heimilisfang sem máli skiptir varðandi tengsl viðskiptavinarins við þann fagmann,
     d)      ef þjónustuveitandi er skráður í viðskiptaskrá eða aðra opinbera skrá, viðskiptaskrána sem hann er skráður í, skráningarnúmer hans eða samsvarandi auðkenni hans í þeirri skrá,
     e)      ef starfsemi þjónustuveitanda er háð leyfisveitingarfyrirkomulagi, upplýsingar um viðkomandi eftirlitsyfirvald,
2)         fjármálaþjónusta
     a)      lýsing á helstu einkennum fjármálaþjónustunnar,
     b)      heildarverð sem neytanda ber að greiða fyrir fjármálaþjónustuna, að meðtöldum öllum tengdum þóknunum, kostnaði og útgjöldum og öllum sköttum sem greiddir eru fyrir milligöngu þjónustuveitanda eða, þar sem ekki er unnt að gefa upp nákvæmt verð, grundvöll fyrir útreikningi verðsins svo að neytandi geti sannreynt það,
     c)      þar sem við á, tilkynning um að fjármálaþjónustunni tengist skjöl, sem fela í sér sérstaka áhættu vegna séreinkenna sinna eða þeirra aðgerða sem á að framkvæma, að verð þeirra sé háð sveiflum á fjármálamörkuðum, sem þjónustuveitandi hefur ekki stjórn á, og að fyrri árangur gefi ekki til kynna hvernig árangur verði í framtíðinni,
     d)      tilkynning um að það geti þurft að greiða aðra skatta og/eða kostnað, sem ekki eru greiddir fyrir milligöngu þjónustuveitanda eða lagðir á af honum,
     e)      allar takmarkanir á gildistíma upplýsinganna sem veittar eru,
     f)      fyrirkomulag greiðslu og samningsefnda,
     g)      allur sérstakur viðbótarkostnaður fyrir neytandann af notkun fjarsamskiptamiðils ef slíkur aukakostnaður er innheimtur,
3)         fjarsölusamningur
     a)      hvort réttur til að falla frá samningi, í samræmi við 6. gr., sé fyrir hendi eða ekki og, sé hann fyrir hendi, gildistími hans og skilyrði fyrir því að megi nýta hann, þ.m.t. upplýsingar um fjárhæð sem kann að vera krafist að neytandi greiði skv. 1. mgr. 7. gr., sem og afleiðingar þess ef þessi réttur er ekki nýttur,
     b)      lágmarksgildistími fjarsölusamnings þegar um er að ræða fjármálaþjónustu sem veita á til frambúnaðar eða ítrekað,
     c)      upplýsingar um rétt aðilanna til að segja upp samningnum, áður en hann rennur út eða einhliða, með skírskotun til skilmála fjarsölusamningsins, þ.m.t. um viðurlög sem kveðið er á um í samningnum að skuli beitt í slíkum tilvikum,
     d)      hagnýtar leiðbeiningar um hvernig nýta megi rétt til að falla frá samningi, þar sem m.a. kemur fram heimilisfangið þangað sem senda á tilkynningu um það,
     e)      lög hvaða aðildarríkis eða -ríkja þjónustuveitandi leggur til grundvallar tengslum sínum við neytanda áður en fjarsölusamningurinn er gerður,
     f)      samningsákvæði um hvaða lög gilda um fjarsölusamninginn og/eða þar til bæran dómstól,
     g)      á hvaða tungumáli eða -málum samningsskilmálarnir og -skilyrðin eru og upplýsingarnar, sem veita ber fyrir fram og getið er um í þessari grein, sem og á hvaða tungumáli eða -málum þjónustuveitandi, með samþykki neytanda, hefur samskipti meðan á gildistíma fjarsölusamningsins stendur,
4)         úrlausn
     a)      hvort fyrir hendi er kerfi fyrir kærur og úrlausn mála utan réttar fyrir neytendur sem eru aðilar að fjarsölusamningi og, ef svo er, hvernig aðgangur fæst að því,
     b)      hvort fyrir hendi eru ábyrgðarsjóðir eða annað bótafyrirkomulag, sem fellur ekki undir tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EB frá 30. maí 1994 um innlánatryggingakerfi ( 10 ) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/9/EB frá 3. mars 1997 um bótakerfi fyrir fjárfesta ( 11 ).
2.     Veita skal upplýsingarnar, sem um getur í 1. mgr., og gera skal ljóst að þær þjóna viðskiptatilgangi, á skýran og skiljanlegan hátt með hverjum þeim hætti sem hentar fjarsamskiptamiðlinum sem notaður er, einkum með sérstöku tilliti til meginreglna um heiðarleika í viðskiptum og meginreglna sem vernda þá sem samkvæmt löggjöf aðildarríkjanna geta ekki veitt samþykki sitt, svo sem ólögráða börn.
3.     Þegar um er að ræða talsímasamskipti
a)      í símtali frá þjónustuveitanda skal koma skýrt fram í upphafi samtals við neytanda hver þjónustuveitandi er og viðskiptatilgangur símtalsins,
b)      eingöngu skal veita eftirfarandi upplýsingar ef neytandinn hefur samþykkt það skýlaust:
    —    nafn þess sem hefur samband við neytandann og tengsl hans við þjónustuveitanda,
    —    lýsing á helstu einkennum fjármálaþjónustunnar,
    —    heildarverð sem neytanda ber að greiða þjónustuveitanda fyrir fjármálaþjónustuna, að meðtöldum öllum sköttum sem greiddir eru fyrir milligöngu þjónustuveitanda eða, þar sem ekki er unnt að gefa upp nákvæmt verð, grundvöll fyrir útreikningi verðsins svo að neytandi geti sannreynt það,
    —    tilkynning um að það geti þurft að greiða aðra skatta og/eða kostnað, sem ekki eru greiddir fyrir milligöngu þjónustuveitanda eða lagðir á af honum,
    —    hvort réttur til að falla frá samningi, í samræmi við 6. gr., sé fyrir hendi eða ekki og, sé hann fyrir hendi, gildistími hans og skilyrði fyrir því að megi nýta hann, þ.m.t. upplýsingar um fjárhæð sem neytandi gæti þurft að greiða skv. 1. mgr. 7. gr.
Þjónustuveitandi skal tilkynna neytanda að aðrar upplýsingar séu fyrirliggjandi, sé um þær beðið, og hvers eðlis þessar upplýsingar eru. Þjónustuveitandi skal þó ætíð veita allar upplýsingar þegar hann uppfyllir skuldbindingar sínar skv. 5. gr.
4.     Upplýsingar um samningsskyldu, sem ber að veita neytanda áður en samningur er gerður, skulu vera í samræmi við samningsskyldu þá, sem myndi leiða af lögum, sem ætla má að gildi um fjarsölusamninginn ef af gerð hans verður.

4. gr.
Viðbótarkröfur um upplýsingar

1.     Ef í ákvæðum í löggjöf bandalagsins um fjármálaþjónustu er að finna aðrar kröfur um upplýsingar, sem veita ber fyrir fram, en þær sem taldar eru upp í 1. mgr. 3. gr. skulu þær kröfur gilda áfram.
2.     Uns frekari samræming verður að veruleika geta aðildarríkin viðhaldið eða komið á strangari ákvæðum um kröfur um upplýsingar, sem veita ber fyrir fram, ef ákvæðin samrýmast lögum bandalagsins.
3.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni innlend ákvæði um kröfur um upplýsingar, sem veita ber fyrir fram, skv. 1. og 2. mgr. þessarar greinar, ef um er að ræða viðbótarkröfur við þær sem taldar eru upp í 1. mgr. 3. gr. Framkvæmdastjórnin skal taka tillit til innlendra ákvæða, sem henni eru send, við samningu skýrslunnar sem um getur í 2. mgr. 20. gr.
4.     Til að skapa sem mest gagnsæi með öllum tiltækum ráðum skal framkvæmdastjórnin tryggja að upplýsingarnar, sem henni berast um innlend ákvæði, séu einnig aðgengilegar neytendum og þjónustuveitendum.

5. gr.
Tilkynning um samningsskilmála og -skilyrði og um upplýsingar sem veita ber fyrir fram

1.     Þjónustuveitandi skal senda neytanda alla samningsskilmála og -skilyrði og upplýsingarnar, sem um getur í 1. mgr. 3. gr. og í 4. gr., á pappír eða öðrum varanlegum miðli sem fyrir hendi er og aðgengilegur neytandanum með góðum fyrirvara áður en hann er bundinn af fjarsölusamningi eða tilboði.
2.     Þjónustuveitandi skal uppfylla skuldbindingar sínar skv. 1. mgr. þegar í stað eftir gerð samningsins hafi samningurinn verið gerður að beiðni neytanda með aðstoð fjarsamskiptamiðils þar sem ekki er unnt að láta í té samningsskilmála og -skilyrði og upplýsingar í samræmi við 1. mgr.
3.     Hvenær sem er, á þeim tíma sem samningsbundin tengsl standa, á neytandi rétt, að eigin beiðni, á að fá samningsskilmálana og -skilyrðin á pappír. Auk þess á neytandi rétt á að breyta um fjarsamskiptamiðil sem notaður er, nema slíkt samræmist ekki samningnum, sem gerður var, eða eðli fjármálaþjónustunnar sem veitt er.

6. gr.
Réttur til að falla frá samningi

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að neytandi hafi að minnsta kosti fjórtán almanaksdaga frest til að falla frá samningi án viðurlaga og án þess að tilgreina nokkra ástæðu. Þó skal þetta tímabil lengt í 30 almanaksdaga þegar um er að ræða fjarsölusamninga um líftryggingu, sem falla undir tilskipun 90/619/EBE, og starfsemi séreignasjóða.
Frestur til að falla frá samningi skal hefjast:
—    annað hvort á þeim degi sem fjarsölusamningur er gerður, nema þegar um er að ræða framangreinda líftryggingu þar sem fresturinn hefst þegar neytanda er tilkynnt að fjarsölusamningur hafi verið gerður, eða
—    á þeim degi þegar neytanda berast samningsskilmálar og -skilyrði og upplýsingar í samræmi við 1. og 2. mgr. 5. gr., ef það er síðar en dagsetningin sem um getur í fyrsta undirlið.
Aðildarríkin geta, til viðbótar við réttinn til að falla frá samningi, kveðið á um að fullnustu samninga, sem tengjast fjárfestingaþjónustu, sé frestað um sama tímabil og kveðið er á um í þessari málsgrein.
2.     Rétturinn til að falla frá samningi gildir ekki um:
a)      fjármálaþjónustu ef verð hennar er háð sveiflum á fjármálamarkaði, sem þjónustuveitandi hefur ekki stjórn á og sem geta átt sér stað innan frestsins til að falla frá samningi, svo sem þjónustu tengda:
    —    erlendum gjaldeyri,
    —    peningamarkaðsskjölum,
    —    framseljanlegum verðbréfum,
    —    hlutdeildarskírteinum fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu,
    —    stöðluðum, framvirkum viðskiptasamningum, þ.m.t. sambærilegum skjölum sem greidd eru með reiðufé,
    —    framvirkum vaxtasamningum,
    —    vaxtaskipta-, gjaldmiðlaskipta- og hlutabréfaskiptasamningum,
    —    valrétti til að afla eða ráðstafa öllum skjölum sem um getur í þessum lið, þ.m.t. sambærilegum skjölum sem greidd eru með reiðufé. Þessi flokkur tekur einkum til valréttar varðandi gjaldeyri og vexti,
b)      ferða- og farangurstryggingarskírteini eða svipuð skammtímatryggingaskírteini til skemmri tíma en eins mánaðar,
c)      samninga, sem báðir aðilar hafa staðið við að fullu, að eindreginni beiðni neytanda, áður en neytandi beitir rétti sínum til að falla frá samningi.
3.     Aðildarríkjunum er heimilt að kveða á um að rétturinn til að falla frá samningi gildi ekki um:
a)      lán sem ætlað er fyrst og fremst til þess að afla eða viðhalda eignarrétti á landi eða byggingu sem reist hefur verið eða áformað er að reisa eða sem ætlað er til þess að endurnýja eða bæta byggingu,
b)      lán sem eru tryggð, annaðhvort með veði í fasteign eða réttindum sem tengjast fasteign, eða
c)      yfirlýsingar neytenda með þátttöku opinbers starfsmanns, að því tilskildu að hann staðfesti að neytanda séu tryggð réttindi skv. 1. mgr. 5. gr.
Þessi málsgrein skal ekki hafa áhrif á rétt til umhugsunartíma fyrir þá neytendur sem hafa búsetu í þeim aðildarríkjum þar sem slíkur réttur er fyrir hendi þegar tilskipun þessi er samþykkt.
4.     Aðildarríki, sem notfæra sér möguleikann í 3. mgr., skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um það.
5.     Framkvæmdastjórnin skal láta Evrópuþinginu og ráðinu í té upplýsingarnar frá aðildarríkjunum og tryggja að þær standi einnig til boða neytendum og birgjum sem fara fram á það.
6.     Ef neytandi beitir rétti sínum til að falla frá samningi skal hann, áður en frestur til þess rennur út og með aðferðum sem unnt er að sanna og samræmast innlendum lögum, tilkynna um það í samræmi við hagnýtu leiðbeiningarnar sem honum eru fengnar í samræmi við d lið 3. liðar 1. mgr. 3. gr. Fresturinn telst hafa verið virtur ef tilkynningin, ef hún er á pappír eða öðrum varanlegum miðli sem fyrir hendi er og aðgengilegur viðtakanda, er send áður en fresturinn rennur út.
7.     Þessi grein gildir ekki um lánssamninga sem falla úr gildi samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 6. gr. tilskipunar 97/7/EB eða 7. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 94/47/EB frá 26. október 1994 um verndun kaupenda vegna tiltekinna þátta í samningum um kaup á réttindum til að nýta fasteignir á skiptileigugrunni ( 12 ).
Ef fjarsölusamningi um tiltekna fjármálaþjónustu fylgir annar fjarsölusamningur um þjónustu sem þjónustuveitandi eða þriðji aðili lætur í té á grundvelli samnings milli þriðja aðila og þjónustuveitanda, skal þessi viðbótarfjarsölusamningur falla úr gildi, án þess að viðurlögum sé beitt, ef neytandinn nýtir rétt sinn til að falla frá samningi samkvæmt því sem kveðið er á um í 1. mgr. 6. gr.
8.     Ákvæði þessarar greinar hafa ekki áhrif á lög og reglugerðir aðildarríkjanna um afturköllun eða uppsögn fjarsölusamnings eða það þegar ekki er unnt að fullnusta fjarsölusamning eða á réttindi neytanda til að uppfylla samningsskyldur sínar fyrir þann tíma sem ákveðinn er í fjarsölusamningnum. Þetta gildir þrátt fyrir skilyrði fyrir samningsslitum og lagaleg áhrif þeirra.

7. gr.
Greiðsla þjónustu sem veitt er áður en fallið er frá samningi

1.     Þegar neytandi nýtir rétt sinn til að falla frá samningi skv. 1. mgr. 6. gr. er aðeins hægt að krefjast þess að hann greiði, án ónauðsynlegrar tafar, fyrir þá þjónustu sem þjónustuveitandi innir raunverulega af hendi í samræmi við samninginn. Efndir samningsins geta einungis hafist að fengnu samþykki neytanda. Upphæðin sem ber að greiða skal:
—    ekki vera hærri en sem nemur hlutfalli umfangs veittrar þjónustu í samanburði við heildarvernd samningsins,
—    ekki í neinu tilviki vera slík að líta megi á hana sem viðurlög.
2.     Aðildarríkjum er heimilt að kveða á um að ekki sé hægt að krefjast neinnar greiðslu af neytanda sem fellur frá vátryggingasamningi.
3.     Þjónustuveitandi getur ekki krafist þess að neytandi greiði neina upphæð á grundvelli 1. mgr., nema hann geti sannað að neytandanum hafi verið tilkynnt á réttan hátt um upphæðina, sem greiða bar, í samræmi við a-lið 3. liðar 1. mgr. 3. gr. Þó getur hann í engu tilviki farið fram á slíka greiðslu ef samningsefndir hafa hafist áður en fresturinn til að falla frá samningi, sem um getur í 1. mgr. 6. gr., er útrunninn án þess að fengist hafi beiðni neytanda þar að lútandi.
4.     Þjónustuveitandi skal, án ónauðsynlegrar tafar og eigi síðar en innan 30 almanaksdaga, endurgreiða neytanda allar þær upphæðir sem hann hefur fengið frá honum samkvæmt fjarsölusamningnum, að undanskilinni upphæðinni sem um getur í 1. mgr. Þessi frestur skal hefjast á þeim degi sem þjónustuveitandi fær tilkynningu um að fallið sé frá samningi.
5.     Neytandinn skal endurgreiða þjónustuveitanda allar þær upphæðir og/eða eignir sem hann hefur fengið frá honum án ónauðsynlegrar tafar og eigi síðar en innan 30 almanaksdaga. Þessi frestur skal hefjast á þeim degi sem neytandi sendir tilkynningu um að fallið sé frá samningi.

8. gr.
Greiðsla með korti

Aðildarríkin skulu sjá til þess að til séu viðeigandi ráðstafanir sem gera neytanda kleift:
—    að krefjast þess að greiðsla sé felld niður ef greiðslukort hans hefur verið notað á sviksamlegan hátt í tengslum við fjarsölusamninga,
—    að láta bakfæra þær upphæðir, sem hann hefur greitt, eða fá þær endurgreiddar ef um sviksamlega notkun er að ræða.

9. gr.
Óumbeðin þjónusta

Með fyrirvara um ákvæði aðildarríkjanna um endurnýjun fjarsölusamninga með þegjandi samþykki skulu aðildarríkin, ef slíkar reglur heimila endurnýjun með þegjandi samþykki, gera nauðsynlegar ráðstafanir til að:
—    banna að neytanda sé látin í té fjármálaþjónusta án þess að hann hafi beðið um hana fyrir fram ef krafa fylgir um tafarlausa greiðslu eða greiðslu síðar,
—    leysa neytandann undan hvers konar kvöð þegar um er að ræða óumbeðinn samning þar eð ekkert svar jafngildir ekki samþykki.

10. gr.
Óumbeðin samskipti

1.     Þjónustuveitanda er óheimilt að nota eftirfarandi fjarsamskiptamiðla nema neytandinn hafi áður samþykkt það:
a)      sjálfvirk upphringikerfi sem starfa án þess að fólk komi nærri (sjálfvirkt upphringitæki),
b)      bréfasíma.
2.     Heimili aðildarríkin að haft sé samband við einstaklinga skulu þau sjá til þess að aðrir fjarsamskiptamiðlar en þeir sem um getur í 1. mgr.:
a)      séu ekki leyfðir nema að fengnu samþykki viðkomandi neytenda, eða
b)      séu aðeins notaðir hafi neytandi ekki látið í ljós skýr andmæli gegn því.
3.     Ráðstafanirnar, sem um getur í 1. og 2. mgr., skulu ekki hafa í för með sér kostnað fyrir neytendur.

11. gr.
Viðurlög

Aðildarríki skulu kveða á um hæfileg viðurlög í þeim tilvikum þegar þjónustuveitandi uppfyllir ekki innlend ákvæði sem samþykkt eru samkvæmt þessari tilskipun.
Þeim er heimilt að setja ákvæði í þessu skyni, einkum um að neytanda sé frjálst að afturkalla samning hvenær sem er, endurgjaldslaust og án þess að þurfa að sæta viðurlögum.
Viðurlögin skulu vera áhrifarík, í réttu hlutfalli við brot og letjandi.

12. gr.
Ákvæði þessarar tilskipunar eru ófrávíkjanleg

1.     Neytendum er óheimilt að afsala sér réttindunum sem þeir öðlast með þessari tilskipun.
2.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að neytandinn sé ekki sviptur þeirri vernd, sem þessi tilskipun veitir honum, við það að lög lands utan bandalagsins eru valin sem gildandi lög fyrir samninginn ef samningurinn tengist náið yfirráðasvæði eins eða fleiri aðildarríkja.

13. gr.
Dóms- og stjórnsýsluúrlausn

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að til séu viðunandi og skilvirkar leiðir til að tryggja að farið sé að ákvæðum þessarar tilskipunar í þágu neytenda.
2.     Meðal leiðanna, sem um getur í 1. mgr., skulu vera ákvæði sem einn eða fleiri eftirtalinna aðila geta, eins og ákveðið er í landslögum, nýtt sér til að hefja mál fyrir dómstólum eða þar til bærum stjórnsýslustofnunum til að tryggja að beitt sé ákvæðum landslaga um framkvæmd þessarar tilskipunar:
a)      opinberir aðilar eða fulltrúar þeirra,
b)      neytendasamtök sem hafa lögmæta hagsmuni af því að vernda neytendur,
c)      fagfélög sem hafa lögmæta hagsmuni af því að grípa til aðgerða.
3.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þjónustuveitendur og þeir sem reka fjarsamskiptamiðla hætti að beita starfsháttum, sem lýst hefur verið yfir að brjóti í bága við þessa tilskipun, á grundvelli dómsniðurstöðu, stjórnsýsluákvörðunar eða ákvörðunar, sem gefin er út af eftirlitsstofnun sem þeim er kunnugt um, að því tilskildu að þjónustuveitendurnir eða þeir sem reka samskiptamiðla séu í aðstöðu til þess.

14. gr.
Úrlausn utan réttar

1.     Aðildarríki skulu hvetja til þess að komið verði á eða þróuð viðeigandi og skilvirk meðferð fyrir kærur og úrlausn mála utan réttar til að leysa deilumál á sviði neytendamála er varða fjármálaþjónustu sem veitt er sem fjarþjónusta.
2.     Aðildarríkin skulu einkum hvetja þá aðila, sem annast lausn deilumála utan dómstóla, til að starfa saman að lausn deilumála yfir landamæri á sviði fjármálaþjónustu sem veitt er sem fjarþjónusta.

15. gr.
Sönnunarbyrði

Með fyrirvara um 3. mgr. 7. gr. geta aðildarríkin mælt fyrir um að sönnunarbyrði varðandi tilkynningaskyldu þjónustuveitanda til neytanda, samþykki neytanda við gerð samnings og, þar sem við á, efndir hans sé lögð á þjónustuveitanda.
Sérhver skilmáli eða skilyrði í samningi, þar sem kveðið er á um að neytandi beri sönnunarbyrði varðandi allar skuldbindingar eða hluta þeirra skuldbindinga sem hvíla á þjónustuveitanda samkvæmt þessari tilskipun, skal teljast óréttmætur skilmáli í skilningi tilskipunar ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum ( 13 ).

16. gr.
Bráðabirgðaráðstafanir

Aðildarríkjunum er heimilt að setja innlendar reglur, sem samræmast þessari tilskipun, um þjónustuveitendur sem hafa staðfestu í aðildarríki sem hefur ekki enn tekið upp ákvæði þessarar tilskipunar í landslög og þar sem lög kveða ekki á um neinar skuldbindingar samsvarandi þeim sem kveðið er á um í þessari tilskipun.

17. gr.
Tilskipun 90/619/EBE

Í 1. mgr. 15. gr. tilskipunar 90/619/EBE komi eftirfarandi í stað fyrstu undirgreinar:
    „1.     Hvert aðildarríki skal mæla svo fyrir að tryggingartaki, sem gerir samning um einstaklingslíftryggingu, hafi 30 almanaksdaga frest til að falla frá samningnum frá því er honum er tilkynnt um gerð hans.“

18. gr.
Tilskipun 97/7/EB

Tilskipun 97/7/EB er breytt sem hér segir:
1.     Í stað 1. mgr. 3. gr. komi eftirfarandi:
    „—        sem tengjast hvers kyns fjármálaþjónustu sem fellur undir tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/65/EB frá 23. september 2002 varðandi fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur og um breytingu á      tilskipun ráðsins 90/619/EBE og á tilskipunum 97/7/EB og 98/27/EB ( *),
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)     Stjtíð. EB L 271, 9.10.2002, bls. 16.“
2.     Ákvæði II. viðauka falli niður.

19. gr.
Tilskipun 98/27/EB

Eftirfarandi liður bætist við viðauka tilskipunar 98/27/EB:
    „11.    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/65/EB frá 23. september varðandi fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur og um breytingu á tilskipun ráðsins 90/619/EBE og á tilskipunum 97/7/EB og 98/27/EB ( *).
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)     Stjtíð. EB L 271, 9.10.2002, bls. 16.“

20. gr.
Endurskoðun

1.     Í kjölfar framkvæmdar þessarar tilskipunar skal framkvæmdastjórnin kanna starfsemi innri markaðarins á sviði fjármálaþjónustu að því er varðar markaðssetningu á þessari þjónustu. Hún skal leitast við að greina og sundurliða vandamál sem bæði neytendur og birgjar þurfa eða gætu þurft að takast á við, einkum í tengslum við mismunandi, innlend ákvæði varðandi upplýsingar og rétt til að falla frá samningi.
2.     Eigi síðar en 9. apríl 2006 skal framkvæmdastjórnin leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið um þau vandamál, sem blasa við bæði neytendum og þjónustuveitendum við kaup og sölu fjármálaþjónustu, ásamt tillögum, ef við á, um hvernig breyta má og/eða samhæfa betur ákvæði varðandi upplýsingar og rétt til að falla frá samningi í löggjöf bandalagsins um fjármálaþjónustu og/eða þau ákvæði sem fjallað er um í 3. gr.

21. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli eigi síðar en 9. október 2004 til að fara að tilskipun þessari. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði í landslögum sem samþykkt verða um málefni sem tilskipun þessi nær til ásamt töflu sem sýnir hvernig ákvæði þessarar tilskipunar samsvara innlendu ákvæðunum.

22. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi daginn sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

23. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 23. september 2002.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
P. COX M. FISCHER BOEL
forseti. forseti.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 38, 13.2.2003, bls. 28 og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 9, 13.2.2003, bls. 20.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB L 65, 7.3.2002, bls. 40 og EES-viðbætir við Stjtíð. EB nr. 13, 7.3.2002, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. EB L 271, 9.10.2002, bls. 16.
Neðanmálsgrein: 4
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. EB C 385, 11.12.1998, bls. 10 og Stjtíð. EB C 177 E, 27.6.2000, bls. 21.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Stjtíð. EB C 169, 16.6.1999, bls. 43.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Álit Evrópuþingsins frá 5. maí 1999 (Stjtíð. EB C 279, 1.10.1999, bls. 207), sameiginleg afstaða ráðsins frá 19. desember 2001 (Stjtíð. EB C 58 E, 5.3.2002, bls. 32) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 14. maí 2002 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB). Ákvörðun ráðsins frá 26. júní 2002 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB).
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. EB L 178, 17.7.2000, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 9
(6)    Stjtíð. EB L 12, 16.1.2001, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 10
(7)    Stjtíð. EB L 144, 4.6.1997, bls. 19.
Neðanmálsgrein: 11
(8)    Stjtíð. EB L 166, 11.6.1998, bls. 51. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2000/31/EB (Stjtíð. EB L 178, 17.7.2001, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 12
(9)    Stjtíð. EB L 330, 29.11.1990, bls. 50. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 92/96/EBE (Stjtíð. EB L 360, 9.12.1992, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 13
(10)    Stjtíð. EB L 135, 31.5.1994, bls. 5.
Neðanmálsgrein: 14
(11)    Stjtíð. EB L 84, 26.3.1997, bls. 22.
Neðanmálsgrein: 15
(12)    Stjtíð. EB L 280, 29.10.1994, bls. 83.
Neðanmálsgrein: 16
(13)    Stjtíð. EB L 95, 21.4.1993, bls. 29.