Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 481. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 750  —  481. mál.
Tillaga til þingsályktunarum staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2003, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2003 frá 26. september 2003, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/92/EB frá 9. desember 2002 um miðlun vátrygginga.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2003 frá 26. september 2003, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/92/EB frá 9. desember 2002 um miðlun vátrygginga.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES-samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES- samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES- nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/92/EB frá 9. desember 2002 um miðlun vátrygginga.
    Tilskipun nr. 2002/92/EB mælir fyrir um rétt vátrygginga- og endurtryggingamiðlara til að starfa á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli skráningar í heimaríki. Eitt helsta markmið tilskipunarinnar er að afnema hindranir í vegi þess að vátryggingamiðlarar geti stundað starfsemi sína óhindrað á Evrópska efnahagssvæðinu. Enn fremur er í tilskipuninni stefnt að aukinni neytendavernd, m.a. með því að setja strangari kröfur um starfsemi vátryggingamiðlara og mæla fyrir aukinni upplýsingagjöf til neytenda. Tilskipunin skilgreinir vátryggingamiðlun sem þá „starfsemi að kynna, bjóða fram eða inna af hendi annað undirbúningsstarf fyrir gerð vátryggingasamninga, gerð slíkra samninga eða aðstoð við stjórnun og framkvæmd slíkra samninga, einnig þegar krafa um vátryggingabætur er sett fram.“ Hins vegar er ekki litið á starfsemi vátryggingafélaga og tilfallandi upplýsingagjöf innan ramma annarrar atvinnustarfsemi sem vátryggingamiðlun.
    Samkvæmt tilskipuninni skulu vátrygginga- og endurtryggingamiðlarar vera skráðir hjá lögbæru yfirvaldi í heimaríki sínu. Til að hljóta slíka skráningu verða vátrygginga- og endurtryggingamiðlarar að búa yfir fullnægjandi þekkingu og hæfni samkvæmt því sem heimaríki miðlarans ákvarðar. Þá skal vátrygginga- og endurtryggingamiðlari hafa óflekkað mannorð og hafa forræði yfir búi sínu. Þá mælir tilskipunin fyrir um að vátryggingamiðlarar skuli hafa starfsábyrgðartryggingu til að mæta bótakröfum sem leiðir af vanrækslu í starfi og mælir tilskipunin fyrir um hækkun á lágmarksfjárhæðum slíkra trygginga.
    Vátrygginga- og endurtryggingamiðlara, sem skráður er hjá lögbæru yfirvaldi í heimaríki sínu, skal vera heimilt samkvæmt tilskipuninni að starfa hvar sem er á Evrópska efnahagssvæðinu. Hafi vátryggingamiðlari í hyggju að stunda starfsemi sína utan heimaríkis síns skal hann tilkynna það lögbæru yfirvaldi þar sem hann er skráður og ber því að áframsenda slíkar tilkynningar til þeirra aðildarríkja sem þess óska.
    Tilskipunin hefur að geyma ítarleg ákvæði um skyldu vátryggingamiðlara til að láta viðskiptavinum sínum í té upplýsingar, m.a. um hugsanleg tengsl við starfandi vátryggingafélög. Þessi ákvæði miða að því að auka vernd neytenda. Enn fremur mælir tilskipunin fyrir um að aðildarríki skuli koma á málsmeðferð sem geri viðskiptavinum og samtökum neytenda kleift að leggja fram kvartanir gegn vátrygginga- og endurtryggingamiðlara.
    Lokið skal við að innleiða tilskipunina fyrir 15. janúar 2003 og fellur þá úr gildi tilskipun nr. 77/92/EBE frá 13. desember 1976 um ráðstafanir til að greiða fyrir því að umboðsmenn í vátryggingum og vátryggingamiðlarar (úr ISIC-flokki 630) geti nýtt sér staðfesturétt og rétt til að stunda þjónustustarfsemi á því sviði, svo og sérstakar bráðabirgðaráðstafanir varðandi þá starfsemi. Í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytunum er nú unnið að gerð frumvarps um innleiðingu þessarar tilskipunar.Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 115/2003

frá 26. september 2003

um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir samningurinn, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)            IX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 47/2003 frá 16. maí 2003 ( 1 ).

2)         Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/92/EB frá 9. desember 2002 um miðlun vátrygginga ( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 13a (tilskipun 2001/17/EB) í IX. viðauka við samninginn:

„13b.          32002 L 0092: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/92/EB frá 9. desember 2002 um miðlun vátrygginga (Stjtíð. ESB L 9, 15.1.2003, bls. 3).“

2. gr.

Texti tilskipunar 2002/92/EB á íslensku og norsku, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 27. september 2003 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 26. september 2003.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    Prins Nikulás af Liechtenstein


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    P.K. Mannes     M. Brinkmann

Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2002/92/EB
frá 9. desember 2002
um miðlun vátrygginga


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 47. gr. og 55. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
     1)      Vátrygginga- og endurtryggingamiðlarar gegna mikilvægu hlutverki við miðlun vátrygginga og endurtrygginga í bandalaginu.
     2)      Með tilskipun ráðsins 77/92/EBE frá 13. desember 1976 um ráðstafanir til að greiða fyrir því að umboðsmenn í vátryggingum og vátryggingamiðlarar (úr ISIC-flokki 630) geti nýtt sér staðfesturétt og rétt til að stunda þjónustustarfsemi á því sviði, svo og sérstakar bráðabirgðaráðstafanir varðandi þá starfsemi ( 4 ), var stigið fyrsta skrefið í þá átt að greiða fyrir því að umboðsmenn í vátryggingum og vátryggingamiðlarar gætu nýtt sér staðfesturétt og rétt til að veita þjónustu.
     3)      Tilskipun 77/92/EBE átti að gilda uns ákvæði um samræmingu reglna aðildarríkjanna um að hefja og reka starfsemi sem umboðsmenn í vátryggingum og vátryggingamiðlarar tækju gildi.
     4)      Aðildarríkin hafa, í stórum dráttum, fylgt tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 92/48/EBE frá 18. desember 1991 um vátryggingamiðlara ( 5 ) sem hafa stuðlað að samhæfingu ákvæða aðildarríkjanna um fagkröfur og skráningu vátryggingamiðlara.
     5)      Þó er enn verulegur munur á ákvæðum aðildarríkjanna, sem skapar hindranir í stofnun og rekstri á starfsemi vátrygginga- og endurtryggingamiðlara á hinum innri markaði. Því er við hæfi að ný tilskipun komi í stað tilskipunar 77/92/EBE.
     6)      Vátrygginga- og endurtryggingamiðlarar ættu að geta nýtt sér staðfesturétt þann og rétt til að veita þjónustu sem sáttmálinn felur í sér.
     7)      Það, að vátryggingamiðlarar geta ekki starfað óhindrað um gervallt bandalagið, stendur í vegi fyrir eðlilegri starfsemi innri vátryggingamarkaðarins.
     8)      Samræming ákvæða aðildarríkjanna um fagkröfur og skráningu einstaklinga, sem hefja og stunda vátryggingamiðlun, getur því bæði stuðlað að því að einn óskiptur fjármálaþjónustumarkaður verði að veruleika og að bættri vernd viðskiptavina á þessu sviði.
     9)      Ýmsum aðilum og stofnunum er heimilt að miðla vátryggingum, svo sem umboðsmönnum, miðlurum og aðilum sem bjóða saman banka- og vátryggingaþjónustu („bancassurance“). Til að tryggja jafna meðferð rekstraraðila og vernd viðskiptavina þarf tilskipun þessi að taka til allra þessara aðila og stofnana.
     10)      Í tilskipun þessari er að finna skilgreiningu á „bundnum vátryggingamiðlara“ en hún tekur tillit til séreinkenna markaða í tilteknum aðildarríkjum og hefur að markmiði að setja skilyrði um skráningu slíkra miðlara. Slíkri skilgreiningu er ekki ætlað að standa í vegi fyrir því að aðildarríkin noti svipuð hugtök um vátryggingamiðlara sem starfa hjá og fyrir hönd vátryggingafélags og á fulla ábyrgð þess félags og hafa heimild til að innheimta iðgjöld eða fjárhæðir til handa viðskiptavinum sínum í samræmi við þær fjárhagslegu tryggingar sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.
     11)      Tilskipun þessi skal gilda um aðila er hafa það að starfi að veita þriðju aðilum vátryggingamiðlunarþjónustu gegn þóknun, sem getur verið í formi peninga eða annars umsamins fjárhagslegs ávinnings, sem tengist frammistöðu.
     12)      Þessi tilskipun skal hvorki gilda um aðila sem stunda aðra atvinnu, svo sem skattasérfræðinga eða endurskoðendur, og veita tilfallandi ráðgjöf um vátryggingavernd í starfi sínu né skal hún gilda þegar látnar eru í té almennar upplýsingar um vátryggingar, að því tilskildu að tilgangurinn sé ekki að aðstoða viðskiptavininn við að gera eða efna vátrygginga- eða endurtryggingasamning, meðferð krafna fyrir vátrygginga- eða endurtryggingafélag eða tjónauppgjör og sérfræðilegt mat á tjónakröfum.
     13)      Tilskipun þessi skal ekki gilda um aðila sem stunda vátryggingamiðlun sem viðbótarstarfsemi samkvæmt tilteknum, ströngum skilyrðum.
     14)      Vátrygginga- og endurtryggingamiðlarar skulu skráðir hjá lögbæru yfirvaldi aðildarríkisins þar sem þeir hafa búsetu eða aðalskrifstofu, að því tilskildu að þeir uppfylli strangar fagkröfur um hæfni, óflekkað mannorð, starfsábyrgðartryggingu og nægilegt fjármagn.
     15)      Slík skráning skal heimila vátrygginga- og endurtryggingamiðlurum að starfa í öðrum aðildarríkjum í samræmi við meginreglur um staðfesturétt og rétt til að veita þjónustu, að því tilskildu að lögbær yfirvöld hafi fylgt viðeigandi málsmeðferð um tilkynningar.
     16)      Þörf er á hæfilegum viðurlögum gegn aðilum sem stunda vátrygginga- eða endurtryggingamiðlun án þess að vera skráðir, gegn vátrygginga- eða endurtryggingafélögum, sem notfæra sér þjónustu óskráðra miðlara, og gegn miðlurum sem uppfylla ekki innlend ákvæði sem samþykkt eru samkvæmt þessari tilskipun.
     17)      Mikilvægt er að lögbær yfirvöld hafi með sér samstarf og skiptist á upplýsingum til að vernda viðskiptavini og tryggja trausta vátrygginga- og endurtryggingastarfsemi á innri markaðnum.
     18)      Brýnt er að viðskiptavinur viti hvort miðlari, sem hann skiptir við, veitir honum ráðgjöf um vátryggingar frá mörgum mismunandi vátryggingafélögum eða um vátryggingar frá tilteknum fjölda vátryggingafélaga.
     19)      Í tilskipun þessari skal skilgreind upplýsingaskylda vátryggingamiðlara til viðskiptavina sinna. Aðildarríki er heimilt að viðhalda eða samþykkja strangari ákvæði sem gera má vátryggingamiðlurum, sem stunda miðlunarstarfsemi á yfirráðasvæði þess, að hlíta, án tillits til þess hvar þeir hafa búsetu og að því tilskildu að slík ákvæði séu í samræmi við lög bandalagsins, þ.m.t. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/31/EB frá 8. júní 2000 um tiltekna, lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðnum (tilskipun um rafræn viðskipti)( 6 ).
     20)      Haldi miðlari því fram að hann veiti ráðgjöf um vátryggingar frá mörgum mismunandi vátryggingafélögum, ber honum að gera sanngjarna og nægilega víðtæka greiningu á þeim vátryggingum sem í boði eru á markaðnum. Auk þess skulu allir miðlarar skýra frá þeim ástæðum sem liggja að baki ráðleggingum þeirra.
     21)      Það er minni þörf á að krefjast slíkra upplýsinga ef viðskiptavinurinn er fyrirtæki sem óskar eftir endurtryggingu eða vátryggingu gegn áhættu í viðskiptum og iðnaði.
     22)      Þörf er á viðeigandi og skilvirkri málsmeðferð við að fjalla um kvartanir og leita lausna í deilumálum, sem upp koma milli vátryggingamiðlara og viðskiptavina þeirra í aðildarríkjunum, þar sem stuðst er við þau úrræði sem fyrir eru ef unnt er.
     23)      Með fyrirvara um rétt viðskiptavina til að höfða mál fyrir dómstólum skulu aðildarríkin hvetja opinberar stofnanir og einkafyrirtæki, sem stofnuð eru til að annast lausn deilumála utan réttar, til samvinnu við að leysa deilur yfir landamæri. Slík samvinna gæti t.d. beinst að því að gera viðskiptavinum kleift að hafa samband við aðila í búseturíki sínu, sem annast lausn deilumála utan réttar, með kvartanir varðandi tryggingamiðlara með staðfestu í öðrum aðildarríkjum. Með tilkomu kvörtunarnets gegn fjármálaþjónustuaðilum (FIN-NET) býðst neytendum aukin aðstoð þegar þeir nýta sér þjónustu yfir landamæri. Í ákvæðum, sem lúta að málsmeðferð, skal taka tillit til tilmæla framkvæmdastjórnarinnar 98/257/EB frá 30. mars 1998 um þær meginreglur sem gilda um aðila sem annast lausn deilumála á sviði neytendamála utan dómstóla ( 7 ).
     24)      Til samræmis við þetta falli tilskipun 77/92/ EBE úr gildi.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I. KAFLI
GILDISSVIÐ OG SKILGREININGAR
1. gr.
Gildissvið

1.     Í tilskipun þessari eru settar reglur um stofnun og rekstur vátrygginga- og endurtryggingamiðlunar af hálfu einstaklinga og lögaðila með staðfestu í aðildarríki eða sem óska eftir staðfestu þar.
2.     Tilskipunin gildir ekki um aðila sem veita miðlunarþjónustu með vátryggingasamninga ef öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
a)      vátryggingasamningurinn krefst eingöngu þekkingar á þeirri vátryggingavernd sem hann veitir,
b)      vátryggingasamningurinn er ekki líftryggingarsamningur,
c)      vátryggingasamningurinn tekur ekki til skaðabótaábyrgðar,
d)      aðalatvinna aðilans er önnur en vátryggingamiðlun,
e)      vátryggingin kemur til viðbótar tryggingu eða þjónustu sem látin er í té af hvaða aðila sem er ef vátryggingin nær yfir:
       i)      hættu á að vörur, sem sá aðili lætur í té, bili, glatist eða skemmist, eða
       ii)      farangur, sem skemmist eða glatast, og aðra áhættu sem tengist ferð, sem bókuð er hjá þeim aðila, jafnvel þótt vátryggingin feli í sér líftryggingu eða skaðabótaábyrgð, að því tilskildu að vátryggingaverndin sé til viðbótar við aðalverndina gegn áhættu tengdri þeirri ferð,
f)      árlegt iðgjald er ekki hærra en 500 evrur og heildargildistími vátryggingarsamningsins, að öllum endurnýjunum meðtöldum, er ekki lengri en fimm ár.
3.     Tilskipun þessi gildir ekki um vátrygginga- og endurtryggingamiðlun í tengslum við áhættu og skuldbindingar utan bandalagsins.
Tilskipun þessi hefur ekki áhrif á lög aðildarríkisins varðandi vátryggingamiðlunarstarfsemi vátrygginga- og endurtryggingamiðlara með staðfestu í þriðja landi sem starfa á yfirráðasvæði þess samkvæmt meginreglunni um rétt til að veita þjónustu, að því tilskildu að öllum aðilum, sem stunda eða hafa heimild til að stunda vátryggingamiðlun á þeim markaði, sé tryggð jöfn meðferð.
Tilskipun þessi gildir ekki um vátryggingamiðlun, sem fram fer í þriðju löndum, eða um starfsemi vátrygginga- eða endurtryggingafélaga innan bandalagsins, eins og hún er skilgreind í fyrstu tilskipun ráðsins 73/239/EBE frá 24. júlí 1973 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum til að hefja og reka starfsemi á sviði frumtrygginga, annarra en líftrygginga ( 8 ), og í fyrstu tilskipun ráðsins 79/267/EBE frá 5. mars 1979 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um stofnun og rekstur líftryggingastarfsemi í frumtryggingu ( 9 ), sem fram fer fyrir milligöngu vátryggingamiðlara í þriðju löndum.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking hugtaka sem hér segir:
     1.      „vátryggingafélag“: félag sem fengið hefur starfsleyfi yfirvalda í samræmi við 6. gr. tilskipunar 73/239/EBE eða 6. gr. tilskipunar 79/267/EBE,
     2.      „endurtryggingafélag“: félag, annað en vátryggingafélag, innan eða utan bandalagsins, sem hefur það að meginmarkmiði að taka á sig áhættu sem vátryggingafélag, innan eða utan bandalagsins, eða önnur endurtryggingafélög hafa látið frá sér,
     3.      „vátryggingamiðlun“: sú starfsemi að kynna, bjóða fram eða inna af hendi annað undirbúningsstarf fyrir gerð vátryggingasamninga, gerð slíkra samninga eða aðstoð við stjórnun og framkvæmd slíkra samninga, einnig þegar krafa um vátryggingabætur er sett fram.
             Ekki skal litið á þessa starfsemi sem vátryggingamiðlun ef hún er í höndum vátryggingafélags eða starfsmanns vátryggingafélags sem starfar í umboði þess.
             Tilfallandi upplýsingagjöf innan ramma annarrar atvinnustarfsemi, að því tilskildu að markmið þeirrar starfsemi sé ekki að aðstoða viðskiptavininn við gerð eða framkvæmd vátryggingasamnings, meðferð krafna fyrir vátryggingafélag í atvinnuskyni og tjónauppgjör og sérfræðimat á tjónakröfum skal heldur ekki teljast til vátryggingamiðlunar,
     4.      „endurtryggingamiðlun“: sú starfsemi að kynna, bjóða fram eða inna af hendi annað undirbúningsstarf fyrir gerð endurtryggingasamninga, gerð slíkra samninga eða aðstoð við stjórnun og framkvæmd slíkra samninga, einnig þegar krafa um vátryggingabætur er sett fram.
             Ekki skal litið á þessa starfsemi sem endurtryggingamiðlun ef hún er í höndum endurtryggingafélags eða starfsmanns endurtryggingafélags sem starfar í umboði þess.
             Tilfallandi upplýsingagjöf innan ramma annarrar atvinnustarfsemi, að því tilskildu að markmið þeirrar starfsemi sé ekki að aðstoða viðskiptavininn við gerð eða framkvæmd endurtryggingasamnings, meðferð krafna fyrir endurtryggingafélag í atvinnuskyni og tjónauppgjör og sérfræðimat á tjónakröfum skal heldur ekki teljast til endurtryggingamiðlunar,
     5.      „vátryggingamiðlari“: einstaklingur eða lögaðili sem hefur eða stundar vátryggingamiðlun gegn þóknun,
     6.      „endurtryggingamiðlari“: einstaklingur eða lögaðili sem hefur eða stundar endurtryggingamiðlun gegn þóknun,
     7.      „bundinn vátryggingamiðlari“: hver sá sem stundar vátryggingamiðlun hjá og fyrir hönd eins eða fleiri vátryggingafélaga, þegar um er að ræða vátryggingar sem eiga ekki í samkeppni, en innheimtir ekki iðgjöld eða fjárhæðir til handa viðskiptavininum og sem starfar alfarið á ábyrgð hvers vátryggingafélags um sig að því er varðar vátryggingar þess.
             Hver sá sem stundar vátryggingamiðlun til viðbótar við aðalatvinnustarfsemi sína telst einnig vera bundinn vátryggingamiðlari, sem starfar á ábyrgð eins eða fleiri vátryggingafélaga, að því er varðar vátryggingar hvers þeirra ef vátryggingin kemur til viðbótar tryggingu eða þjónustu sem látin er í té innan ramma aðalatvinnustarfseminnar og viðkomandi innheimtir ekki iðgjöld eða fjárhæðir til handa viðskiptavininum,
     8.      „stóráhætta“ er eins og skilgreint er í d-lið 5. gr. tilskipunar 73/239/EBE,
     9.      „heimaaðildarríki“:
         a)      ef miðlari er einstaklingur, aðildarríkið þar sem hann hefur búsetu og stundar starfsemi sína,
         b)      ef miðlari er lögaðili, aðildarríkið þar sem hann hefur skráða skrifstofu eða, ef hann hefur ekki skráða skrifstofu samkvæmt landslögum þess, aðildarríkið þar sem aðalskrifstofa hans er,
     10.      „gistiaðildarríki“: aðildarríki þar sem vátrygginga- eða endurtryggingamiðlari hefur útibú eða veitir þjónustu,
     11.      „lögbær yfirvöld“: yfirvöldin sem hvert aðildarríki tilnefnir skv. 7. gr.,
     12.      „varanlegur miðill“: sérhvert tæki sem gerir viðskiptavini kleift að geyma upplýsingar, sem beint er til hans persónulega, á þann hátt að hægt sé að nálgast þær til samanburðar síðar og eins lengi og við á, eftir því hver tilgangurinn er með upplýsingunum, og sem gerir kleift að afrita upplýsingarnar, sem geymdar eru, óbreyttar.
             Varanlegur miðill getur m.a. verið disklingar, geisladiskar, stafrænir mynddiskar (DVD) og harðir diskar í einkatölvum þar sem tölvupóstur er vistaður en tekur ekki til vefsetra nema slík setur uppfylli viðmiðanirnar sem tilgreindar eru í fyrstu málsgrein.

II. KAFLI
KRÖFUR VEGNA SKRÁNINGAR
3. gr.
Skráning

1.     Vátrygginga- og endurtryggingamiðlarar skulu skráðir hjá lögbæru yfirvaldi, eins og það er skilgreint í 2. mgr. 7. gr., í heimaaðildarríki sínu.
Með fyrirvara um fyrstu undirgrein er aðildarríkjunum heimilt að mæla fyrir um að vátrygginga- og endurtryggingafélög og aðrir aðilar geti starfað með lögbærum yfirvöldum að skráningu vátrygginga- og endurtryggingamiðlara og við að framfylgja kröfum skv. 4. gr. gagnvart slíkum miðlurum. Einkum geta bundnir vátryggingamiðlarar verið skráðir hjá vátryggingafélagi eða samtökum vátryggingafélaga undir eftirliti lögbærs yfirvalds.
Aðildarríkjum ber ekki skylda til að framfylgja kröfunni, sem um getur í fyrstu og annarri undirgrein, gagnvart öllum einstaklingum sem starfa hjá fyrirtæki við vátrygginga- eða endurtryggingamiðlun.
Þegar um er að ræða lögaðila skulu aðildarríkin skrá þá og tilgreina einnig í skránni nöfn einstaklinga í stjórn sem bera ábyrgð á miðlunarstarfseminni.
2.     Aðildarríkjunum er frjálst að koma á fót fleiri en einni skrá yfir vátrygginga- og endurtryggingamiðlara, að því tilskildu að þau mæli fyrir um viðmiðanir um skráningu miðlaranna.
Aðildarríkin skulu sjá til þess að komið verði á fót einni upplýsingamiðstöð þar sem nálgast má upplýsingar úr öllum þessum skrám fljótt og auðveldlega og skal upplýsingum miðlað þangað rafrænt og skulu þær uppfærðar stöðugt. Í þessari upplýsingamiðstöð skulu einnig tilgreind þau lögbæru yfirvöld í hverju aðildarríki sem um getur í fyrstu undirgrein 1. mgr. Í skránni skal einnig koma fram í hvaða landi eða löndum miðlarinn stundar starfsemi samkvæmt reglum um staðfesturétt eða rétt til að veita þjónustu.
3.     Aðildarríki skulu tryggja að vátryggingamiðlarar, einnig bundnir, og endurtryggingamiðlarar séu því aðeins skráðir að þeir uppfylli hæfnikröfurnar sem mælt er fyrir um í 4. gr.
Aðildarríkin skulu einnig tryggja að vátryggingamiðlarar, einnig bundnir, og endurtryggingamiðlarar, sem ekki uppfylla lengur þessar kröfur, séu felldir brott úr skránni. Lögbært yfirvald skal endurskoða reglulega hvort skilyrðin fyrir skráningu séu ennþá uppfyllt. Heimaaðildarríki skal tilkynna gistiaðildarríki um brottfellingu úr skránni með viðeigandi hætti ef nauðsyn ber til.
4.     Lögbær yfirvöld geta látið vátrygginga- og endurtryggingamiðlurum í té skjal sem gerir sérhverjum hagsmunaaðila kleift að sannprófa að þeir séu réttilega skráðir með því að kanna skrána eða skrárnar sem um getur í 2. mgr.
Í skjalinu skulu a.m.k. vera þær upplýsingar sem tilgreindar eru í a- og b-lið 1. mgr. 12. gr. og, þegar um er að ræða lögaðila, nafn eða nöfn einstaklinganna sem um getur í fjórðu undirgrein 1. mgr. þessarar greinar.
Aðildarríkið skal krefjast þess að skjalinu sé skilað til lögbæra yfirvaldsins sem gaf það út ef viðkomandi vátrygginga- eða endurtryggingamiðlari fellur af skrá.
5.     Skráðum vátrygginga- og endurtryggingamiðlurum er heimilt að hefja og stunda vátrygginga- og endurtryggingamiðlun í bandalaginu bæði vegna staðfesturéttarins og réttarins til að veita þjónustu.
6.     Aðildarríkin skulu tryggja að vátryggingafélög noti eingöngu þjónustu skráðra vátrygginga- og endurtryggingamiðlara og aðila, sem um getur í 2. mgr. 1. gr., við vátrygginga- og endurtryggingamiðlun.

4. gr.
Fagkröfur

1.     Vátrygginga- og endurtryggingamiðlarar skulu búa yfir viðeigandi þekkingu og hæfni samkvæmt því sem heimaaðildarríki miðlarans ákvarðar.
Heimaaðildarríkjum er heimilt að aðlaga tilskilin skilyrði um þekkingu og hæfni, í samræmi við vátrygginga- eða endurtryggingamiðlunarstarfsemina og vátryggingarnar, sem miðlað er, einkum ef aðalatvinnugrein miðlara er önnur en vátryggingamiðlun. Í slíkum tilvikum er þeim miðlara eingöngu heimilt að stunda vátryggingamiðlun ef vátryggingamiðlari, sem uppfyllir skilyrði þessarar greinar, eða vátryggingafélag tekur fulla ábyrgð á gerðum hans.
Aðildarríkjum er heimilt að kveða á um að í þeim tilvikum, sem um getur í annarri undirgrein 1. mgr. 3. gr., skuli vátryggingafélagið ganga úr skugga um að þekking og hæfni miðlaranna sé í samræmi við kvaðir fyrstu undirgreinar þessarar málsgreinar og, ef nauðsynlegt er, sjá til þess að slíkir miðlarar hljóti þjálfun sem samsvarar þeim kröfum sem gerðar eru vegna vátrygginganna sem miðlararnir selja.
Aðildarríkjum ber ekki skylda til að framfylgja kröfunni, sem um getur í fyrstu undirgrein þessarar málsgreinar, gagnvart öllum einstaklingum sem starfa hjá fyrirtæki við vátrygginga- eða endurtryggingamiðlun. Aðildarríkin skulu tryggja að verulegur hluti þeirra einstaklinga, sem eru í stjórnunarstöðum í slíkum fyrirtækjum og bera ábyrgð á miðlun vátrygginga, og allra annarra einstaklinga sem tengjast beint vátrygginga- og endurtryggingamiðlun, sýni fram á nauðsynlega þekkingu og hæfni til að inna störf sín af hendi.
2.     Vátrygginga- og endurtryggingamiðlarar skulu hafa óflekkað mannorð. Þeir skulu a.m.k. hafa hreint sakavottorð eða samsvarandi vottorð í viðkomandi landi að því er varðar alvarleg, refsiverð auðgunarbrot eða önnur brot sem tengjast fjármálum og skulu ekki hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota nema þeir hafi fengið aftur forræði á búi sínu í samræmi við landslög.
Aðildarríkin geta, í samræmi við ákvæði annarrar undirgreinar 1. mgr. 3. gr., heimilað vátryggingarfélögum að kanna hvort vátryggingamiðlarar hafi óflekkað mannorð.
Aðildarríkjum ber ekki skylda til að framfylgja kröfunni, sem um getur í fyrstu undirgrein þessarar málsgreinar, gagnvart öllum einstaklingum sem starfa hjá fyrirtæki við vátrygginga- eða endurtryggingamiðlun. Aðildarríkin skulu tryggja að þeir sem gegna stjórnunarstöðum í slíkum fyrirtækjum og allt starfsfólk, sem tengist beint vátrygginga- eða endurtryggingamiðlun, uppfylli kröfuna.
3.     Vátrygginga- og endurtryggingamiðlarar skulu hafa starfsábyrgðartryggingu, sem tekur til alls yfirráðasvæðis bandalagsins, eða sambærilega tryggingu til að mæta bótakröfum sem leiðir af vanrækslu í starfi, og skal hún nema a.m.k. 1 000 000 evra fyrir hverja kröfu og samtals 1 500 000 evrum á ári fyrir allar kröfur hafi vátryggingafélag, endurtryggingafélag eða annað félag, sem vátrygginga- eða endurtryggingamiðlarinn starfar fyrir eða hefur umboð til að starfa fyrir, ekki þegar tryggt hann á þennan hátt eða með sambærilegri tryggingu eða tekið fulla ábyrgð á gjörðum hans.
4.     Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda viðskiptavini gegn því að vátryggingamiðlari standi ekki skil á iðgjöldum til vátryggingafélagsins eða á bótafjárhæð eða endurgreiddum iðgjöldum til vátryggingartaka.
Slíkar ráðstafanir skulu felast í einu eða fleiri eftirfarandi atriða:
a)      laga- eða samningsákvæðum sem kveða á um að fé, sem viðskiptavinur greiðir miðlara, teljist greitt til félagsins en að fé, sem félag greiðir miðlara, teljist ekki greitt til viðskiptavinar fyrr en hann fær það í hendur,
b)      kröfu um að vátryggingamiðlarar hafi að staðaldri yfir að ráða fjármagni sem nemur 4% af samanlögðum, árlegum iðgjöldum, sem móttekin eru, þó ekki lægra en 15 000 evrur.
c)      kröfu um að fé viðskiptavina fari tafarlaust inn á stranglega aðskilda viðskiptamannareikninga og að fé af þessum reikningum sé ekki notað til að endurgreiða öðrum lánadrottnum ef til gjaldþrots kemur,
d)      kröfu um að komið sé á fót ábyrgðarsjóði.
5.     Til að mega stunda vátrygginga- og endurtryggingamiðlun er þess krafist að fagkröfurnar, sem gerðar eru í þessari grein, séu uppfylltar að staðaldri.
6.     Aðildarríkjunum er heimilt að setja strangari kröfur en settar eru í þessari grein eða bæta við kröfum vegna vátrygginga- og endurtryggingamiðlara sem skráðir eru innan lögsögu þeirra.
7.     Endurskoða skal reglulega fjárhæðirnar, sem um getur í 3. og 4. mgr., með tilliti til breytinga á evrópskri vísitölu neysluverðs sem Hagstofa Evrópubandalaganna birtir. Fyrsta endurskoðunin skal eiga sér stað fimm árum eftir gildistöku þessarar tilskipunar og síðari endurskoðanir á fimm ára fresti frá fyrri endurskoðunardegi.
Fjárhæðirnar skal aðlaga sjálfkrafa með því að auka grunnfjárhæðina í evrum, sem nemur prósentubreytingum á framangreindri vísitölu á tímabilinu frá gildistöku þessarar tilskipunar til dagsetningar fyrstu endurskoðunar eða milli síðustu endurskoðunar og nýs endurskoðunardags, og hækka hana upp í næstu evru.

5. gr.
Réttindum haldið

Aðildarríkjunum er heimilt að kveða á um að þeir sem stunduðu miðlunarstarfsemi fyrir 1. september 2000, voru á skrá og höfðu hlotið svipaða þjálfun og reynslu og krafist er í þessari tilskipun séu sjálfkrafa færðir inn í skrána, sem komið verður á, ef þeir uppfylla kröfurnar í 3. og 4. mgr. 4. gr.

6. gr.
Tilkynning um staðfestu og þjónustustarfsemi í öðrum aðildarríkjum

1.     Vátrygginga- eða endurtryggingamiðlari, sem hyggst hefja starfsemi í fyrsta sinn í einu eða fleiri aðildarríkjum, samkvæmt réttinum til veita þjónustu eða staðfesturétti, skal tilkynna það lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkisins.
Innan eins mánaðar frá slíkri tilkynningu skulu lögbæru yfirvöldin tilkynna lögbærum yfirvöldum allra gistiaðildarríkja, sem þess óska, um þennan ásetning vátrygginga- eða endurtryggingamiðlarans og skulu þau tilkynna viðkomandi miðlara það um leið.
Vátrygginga- eða endurtryggingamiðlaranum er heimilt að hefja starfsemi einum mánuði eftir þann dag sem lögbær yfirvöld heimaaðildarríkisins tilkynntu honum um tilkynninguna sem um getur í annarri undirgrein. Þó er miðlaranum heimilt að hefja starfsemi þegar í stað ef gistiaðildarríkið óskar ekki eftir tilkynningu um það.
2.     Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni hvort þau óska eftir að fá tilkynningar í samræmi við 1. mgr. Framkvæmdastjórnin skal tilkynna það öllum aðildarríkjunum.
3.     Lögbærum yfirvöldum gistiaðildarríkis er heimilt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að skilyrði, sem gilda skulu um viðkomandi starfsemi á yfirráðasvæði þeirra svo almennra hagsmuna sé gætt, séu birt á viðeigandi hátt.

7. gr.
Lögbær yfirvöld

1.     Aðildarríkin skulu tilnefna lögbær yfirvöld sem hafa umboð til að tryggja að þessi tilskipun komi til framkvæmda. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni og greina frá því ef um einhverja verkaskiptingu er að ræða.
2.     Yfirvöldin, sem um getur í 1. mgr., skulu annaðhvort vera opinber yfirvöld eða aðilar sem viðurkenndir eru samkvæmt landslögum eða af opinberum yfirvöldum sem til þess hafa sérstakar heimildir í landslögum. Þau skulu ekki vera vátrygginga- eða endurtryggingafélög.
3.     Lögbær yfirvöld skulu hafa nauðsynlegar heimildir til að rækja störf sín. Þar sem lögbær yfirvöld eru fleiri en eitt á yfirráðasvæði aðildarríkis skal aðildarríkið tryggja að þau starfi náið saman svo að þau geti, hvert um sig, gegnt skyldum sínum á skilvirkan hátt.

8. gr.
Viðurlög

1.     Aðildarríkin skulu mæla fyrir um hæfileg viðurlög við því að aðili, sem stundar vátrygginga- eða endurtryggingamiðlun, sé ekki skráður í aðildarríki og hans sé ekki getið í 2. mgr. 1. gr.
2.     Aðildarríkin skulu mæla fyrir um hæfileg viðurlög við því að vátrygginga- eða endurtryggingafélög noti þjónustu aðila, sem ekki eru skráðir í aðildarríki og er ekki getið í 2. mgr. 1. gr., við vátrygginga- eða endurtryggingamiðlun.
3.     Aðildarríkin skulu kveða á um hæfileg viðurlög við því að vátrygginga- eða endurtryggingamiðlari uppfylli ekki innlend ákvæði sem samþykkt eru samkvæmt þessari tilskipun.
4.     Tilskipun þessi hefur ekki áhrif á vald gistiaðildarríkja til að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða refsa fyrir brot gegn laga- eða reglugerðarákvæðum, sem þau hafa sett í almannaþágu, á yfirráðasvæðum sínum. Þetta skal fela í sér möguleika á því að koma í veg fyrir að vátrygginga- eða endurtryggingamiðlarar, sem hafa gerst brotlegir, hefji frekari starfsemi á yfirráðasvæðum þeirra.
5.     Allar ráðstafanir, sem gripið er til og fela í sér viðurlög eða takmarkanir á starfsemi vátrygginga- eða endurtryggingamiðlara, verða að vera rökstuddar og þær ber að tilkynna hlutaðeigandi miðlara. Öllum slíkum ráðstöfunum má skjóta til dómstóla í aðildarríkinu sem samþykkti þær.

9. gr.
Upplýsingaskipti milli aðildarríkja

1.     Lögbær yfirvöld hinna ýmsu aðildarríkja skulu starfa saman til þess að tryggja að ákvæðum þessarar tilskipunar sé rétt beitt.
2.     Lögbær yfirvöld skulu skiptast á upplýsingum um vátrygginga- og endurtryggingamiðlara sem hafa þurft að hlíta viðurlögunum, sem um getur í 3. mgr. 8. gr., eða ráðstöfun, sem um getur í 4. mgr. 8. gr., ef búast má við því að slíkar upplýsingar geti leitt til þess að viðkomandi miðlarar séu felldir brott úr skránni. Lögbærum yfirvöldum er einnig heimilt að skiptast á öðrum viðeigandi upplýsingum að beiðni yfirvalds.
3.     Allir þeir sem krafist er að taki við eða miðli upplýsingum í tengslum við þessa tilskipun skulu bundnir þagnarskyldu á sama hátt og mælt er fyrir um í 16. gr. tilskipunar ráðsins 92/49/EBE frá 18. júní 1992 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum varðandi frumtryggingar, aðrar en líftryggingar, og um breytingu á tilskipunum 73/239/EBE og 88/357/EBE (þriðja tilskipun um skaðatryggingar) ( 10 ) og 15. gr. tilskipunar ráðsins 92/96/EBE frá 10. nóvember 1992 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum varðandi frumtryggingar á sviði líftrygginga og um breytingu á tilskipunum 79/267/EBE og 90/619/EBE (þriðja tilskipun um líftryggingar) ( 11 ).

10. gr.
Kvartanir

Aðildarríkin skulu tryggja að komið sé á málsmeðferð sem gerir viðskiptavinum og öðrum hagsmunaaðilum, einkum neytendasamtökum, kleift að leggja fram kvartanir gegn vátrygginga- og endurtryggingamiðlurum. Öllum kvörtunum skal svarað.

11. gr.
Lausn deilumála utan réttar

1.     Aðildarríkin skulu hvetja til þess að komið verði á viðeigandi og skilvirkri málsmeðferð við að fjalla um kvartanir og leita lausna í deilumálum milli vátryggingamiðlara og viðskiptavina þeirra utan réttar með aðstoð aðila sem fyrir eru þar sem við á.
2.     Aðildarríki skulu hvetja þessa aðila til að starfa saman að lausn deilumála yfir landamæri.

III. KAFLI
UPPLÝSINGAKRÖFUR TIL MIÐLARA
12. gr.
Upplýsingar sem vátryggingamiðlari skal láta í té

1.     Áður en nýr vátryggingasamningur er gerður, sem og við breytingu eða endurnýjun hans ef nauðsyn ber til, skal vátryggingamiðlari láta viðskiptavini í té a.m.k. upplýsingar um eftirfarandi:
a)      nafn og heimilisfang,
b)      í hvaða skrá hann er skráður og hvernig ganga megi úr skugga um að hann sé skráður,
c)      hvort hann á eignarhlutdeild, beina eða óbeina, sem stendur fyrir meira en 10% atkvæðaréttar eða hlutafjár tiltekins vátryggingafélags,
d)      hvort tiltekið vátryggingafélag eða móðurfyrirtæki tiltekins vátryggingafélags á eignarhlutdeild, beina eða óbeina, sem stendur fyrir meira en 10% atkvæðaréttar eða hlutafjár vátryggingamiðlarans,
e)      málsmeðferðina, sem um getur í 10. gr., sem gerir viðskiptavinum og öðrum hagsmunaaðilum kleift að leggja fram kvartanir vegna vátrygginga- og endurtryggingamiðlara og, ef við á, málsmeðferðina við að fjalla um kvartanir og leita lausna í deilumálum utan réttar sem um getur í 11. gr.
    Auk þess skal vátryggingamiðlari tilkynna viðskiptavininum um eftirfarandi, varðandi samninginn sem í boði er:
       i)      hvort ráðgjöf hans samræmist skyldunni skv. 2. mgr. um hlutlausa greiningu, eða
       ii)      hvort hann sé bundinn samningsskyldu um að stunda vátryggingamiðlun með einu eða fleiri vátryggingafélögum eingöngu. Í því tilviki skal hann gefa upp nöfn þessara vátryggingafélaga, að beiðni viðskiptavinarins, eða
       iii)      að hann sé ekki bundinn samningsskyldu um að stunda vátryggingamiðlun eingöngu með einu eða fleiri vátryggingafélögum en að ráðgjöf hans samræmist ekki skyldunni skv. 2. mgr. um hlutlausa greiningu. Í því tilviki skal hann gefa upp, að beiðni viðskiptavinarins, nöfn þeirra vátryggingafélaga sem honum er heimilt að eiga viðskipti við og sem hann á viðskipti við í reynd.
Í tilvikum, þar sem aðeins ber að veita upplýsingar að beiðni viðskiptavinarins, skal viðskiptavininum tilkynnt um að hann eigi rétt á að biðja um slíkar upplýsingar.
2.     Tilkynni vátryggingamiðlari viðskiptavini að ráðgjöf hans byggist á hlutlausri greiningu ber honum skylda til að veita ráðgjöf sína á grundvelli greiningar á nægilega mörgum vátryggingasamningum, sem í boði eru á markaðnum, til að hann geti komið með tillögu, í samræmi við faglegar viðmiðanir, um hvaða vátryggingasamningur samrýmist þörfum viðskiptavinarins.
3.     Áður en tiltekinn samningur er gerður skal vátryggingamiðlarinn a.m.k. skilgreina, einkum á grundvelli upplýsinga frá viðskiptavininum, kröfur og þarfir viðskiptavinarins og skýra frá þeim ástæðum sem liggja að baki ráðleggingum hans til viðskiptavinarins um tilteknar vátryggingar. Smáatriðin skulu miðast við hversu flókinn vátryggingasamningurinn er sem mælt er með.
4.     Vátryggingamiðlurum, sem stunda vátryggingamiðlun á sviði stóráhættu, ber ekki skylda til að veita upplýsingarnar, sem um getur í 1., 2. og 3. mgr., og hið sama á við um miðlun endurtryggingamiðlara.
5.     Aðildarríkjunum er heimilt að viðhalda eða samþykkja strangari ákvæði varðandi upplýsingakröfurnar sem um getur í 1. mgr., að því tilskildu að slík ákvæði séu í samræmi við lög bandalagsins.
Aðildarríkin skulu greina framkvæmdastjórninni frá innlendum ákvæðum í samræmi við fyrri málsgrein.
Til að skapa sem mest gagnsæi með öllum tiltækum ráðum skal framkvæmdastjórnin tryggja að upplýsingarnar, sem henni berast um innlend ákvæði, séu einnig aðgengilegar neytendum og vátryggingamiðlurum.

13. gr.
Skilyrði varðandi upplýsingar

1.     Allar upplýsingar, sem ber að veita viðskiptavinum skv. 12. gr., skal veita:
a)      á pappír eða öðrum varanlegum miðli sem fyrir hendi er og aðgengilegur viðskiptavininum,
b)      á skýran og nákvæman hátt sem viðskiptavininum er skiljanlegur,
c)      á opinberu tungumáli aðildarríkisins, þar sem gengist er undir skuldbindinguna, eða á öðru tungumáli sem báðir aðilar samþykkja.
2.     Þrátt fyrir a-lið 1. mgr. er heimilt að veita upplýsingarnar, sem um getur í 12. gr., munnlega ef viðskiptavinur fer fram á það eða ef vátryggingarverndar er þörf þegar í stað. Í þeim tilvikum skulu upplýsingarnar veittar viðskiptavini í samræmi við 1. mgr. þegar í stað eftir gerð vátryggingasamnings.
3.     Þegar um er að ræða símasölu skulu upplýsingar, sem veittar eru viðskiptavini fyrirfram, vera í samræmi við bandalagsreglur um fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur. Enn fremur skulu upplýsingarnar veittar viðskiptavini í samræmi við 1. mgr. þegar í stað eftir gerð vátryggingasamnings.

IV. KAFLI
LOKAÁKVÆÐI
14. gr.
Réttur til að áfrýja til dómstóla

Aðildarríkjum ber að tryggja að hægt sé að áfrýja til dómstóla öllum ákvörðunum, sem teknar eru varðandi vátryggingamiðlara, endurtryggingamiðlara eða vátryggingafélög, samkvæmt lögum og stjórnsýslufyrirmælum sem sett eru samkvæmt tilskipun þessari.

15. gr.
Niðurfelling

Tilskipun 77/92/EBE falli hér með úr gildi frá og með þeim degi sem um getur í 1. mgr. 16. gr.

16. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli fyrir 15. janúar 2005 til að fara að tilskipun þessari. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Í þessum ráðstöfunum skal vera tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni lög og stjórnsýslufyrirmæli sem samþykkt verða um málefni sem tilskipun þessi nær til. Þar með skal fylgja tafla þar sem tilgreind eru innlend ákvæði sem svara til þessarar tilskipunar.

17. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi daginn sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

18. gr.
Viðtakendur

Ákvörðun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 9. desember 2002.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
P. COX H. C. SCHMIDT
forseti. forseti.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 193, 31.7.2003, bls. 18 og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 39, 31.7.2003, bls. 12.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB L 9, 15.1.2003, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. EB C 29 E, 30.1.2001, bls. 245.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. EB C 221, 7.8.2001, bls. 121.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 14. nóvember 2001 (Stjtíð. EB C 140 E, 13.6.2002, bls. 167), sameiginleg afstaða ráðsins frá 18. mars 2002 (Stjtíð. EB C 145 E, 18.6.2002, bls. 1) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 13. júní 2002 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB). Ákvörðun ráðsins frá 28. júní 2002.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Stjtíð. EB L 26, 31.1.1977, bls. 14. Tilskipuninni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 1994.
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. EB L 19, 28.1.1992, bls. 32.
Neðanmálsgrein: 9
(6)    Stjtíð. EB L 178, 17.7.2000, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 10
(7)    Stjtíð. EB L 115, 17.4.1998, bls. 31.
Neðanmálsgrein: 11
(8)    Stjtíð. EB L 228, 16.8.1973, bls. 3. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/13/EB (Stjtíð. EB L 77, 20.3.2002, bls. 17).
Neðanmálsgrein: 12
(9)    Stjtíð. EB L 63, 13.3.1979, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/12/EB (Stjtíð. EB L 77, 20.3.2002, bls. 11).
Neðanmálsgrein: 13
(10)    Stjtíð. EB L 228, 11.8.1992, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2000/64/EB Evrópuþingsins og ráðsins (Stjtíð. EB L 290, 17.11.2000, bls. 27).
Neðanmálsgrein: 14
(11)    Stjtíð. EB L 360, 9.12.1992, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2000/64/EB Evrópuþingsins og ráðsins.