Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 735. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1091  —  735. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um fullgildingu samnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Chiles.

(Lögð fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og lýðveldisins Chiles sem undirritaður var í Kristiansand í Noregi 26. júní 2003.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á samningi milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og lýðveldisins Chiles, sem undirritaður var í Kristiansand í Noregi 26. júní 2003. Meginmál samningsins í íslenskri þýðingu og frumtextinn á ensku er prentaður sem fylgiskjal með þingsályktunartillögu þessari. Viðaukar og bókanir sem fylgja samningnum munu liggja frammi á lestrarsal Alþingis.
    EFTA-ríkin hafa nú gert fríverslunarsamninga við 20 ríki að Chilesamningnum meðtöldum (Búlgaríu, Eistland, Frelsissamtök Palestínu, Ísrael, Jórdaníu, Króatíu, Lettland, Litháen, Makedóníu, Marokkó, Mexíkó, Pólland, Rúmeníu, Slóvakíu, Slóveníu, Tékkland, Tyrkland og Ungverjaland) með samtals yfir 320 milljónir íbúa, til viðbótar samningum þeirra við Evrópusambandið.
    Nýlega var áritaður samningstexti við Líbanon og yfir standa samningaviðræður við Kanada, Suður-Afríku, Egyptaland og Túnis sem ráðgert er að ljúka á næsta ári.
    Samningurinn við Chile veitir fríverslun með allar sjávarafurðir frá gildistöku samningsins og jafnframt fríverslun með langflestar iðnaðarvörur frá sama tíma. Samningurinn tekur einnig til þjónustuviðskipta, verndunar hugverkaréttar, opinberra innkaupa og samkeppni. Enn fremur inniheldur hann ákvæði um stofnsetningarrétt. Samningurinn hefur einnig að geyma ákvæði um skilvirka lausn deilumála sem upp kunna að koma. Ekki er hins vegar fjallað heildstætt um fjárfestingar og var því samhliða gerður sérstakur tvíhliða samningur milli Íslands og Chiles um vernd fjárfestinga.
    Varðandi viðskipti með landbúnaðarafurðir semur hvert EFTA-ríki tvíhliða við Chile og hefur Ísland gert um þau sérstakan samning. Skv. 8. gr. samningsins öðlast tvíhliða samningurinn um landbúnað gildi sama dag og fríverslunarsamningurinn milli EFTA-ríkjanna og Chiles.
Fylgiskjal.


FRÍVERSLUNARSAMNINGUR
MILLI
EFTA-RÍKJANNA
OG
LÝÐVELDISINS CHILES


FORMÁLSORÐ

    Lýðveldið Ísland, Furstadæmið Liechtenstein, Konungsríkið Noregur og Ríkjasambandið Sviss (hér á eftir nefnd „EFTA-ríkin“)

    og
    Lýðveldið Chile (hér á eftir nefnt „Chile“),

    sem nefnast hér á eftir einu nafni „samningsaðilar“, eru ákveðin í:
    AÐ STYRKJA hin sérstöku vináttubönd og samstarf milli þjóðanna,
    AÐ STUÐLA AÐ samstilltri þróun og auknum alþjóðaviðskiptum með því að fjarlægja viðskiptahindranir og hvetja til víðtækari alþjóðasamvinnu,

    AÐ SETJA reglur um viðskipti sín, sem eru skýrar og koma þeim öllum til góða,
    AÐ SKAPA aukinn og öruggan markað fyrir vörur og þjónustu á yfirráðasvæðum sínum,
    AÐ SJÁ TIL ÞESS að umhverfi viðskiptaáætlana og fjárfestinga sé stöðugt og áreiðanlegt,
    AÐ ÝTA UNDIR skapandi starf og nýsköpun með því að vernda hugverkaréttindi,
    AÐ BYGGJA Á réttindum sínum og skyldum samkvæmt Marakess-samningnum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og öðrum marghliða og tvíhliða gerningum um samstarf,
    AÐ TRYGGJA að ávinningur af auknu frelsi í viðskiptum glatist ekki með því að einkaaðildar komi á samkeppnishindrunum,
    AÐ AUKA samkeppnishæfni fyrirtækja sinna á heimsmörkuðum,
    AÐ SKAPA ný atvinnutækifæri og bæta vinnuskilyrði og lífskjör á yfirráðasvæðum sínum,

    AÐ STUÐLA AÐ verndun og varðveislu umhverfisins og sjálfbærri þróun,
    AÐ ÁRÉTTA stuðning sinn við lýðræði, lög og rétt, mannréttindi og grundvallarréttindi í samræmi við skyldur sínar samkvæmt þjóðarétti, þ.m.t. meginreglur og markmið sem eru sett fram í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og almennu mannréttindayfirlýsingunni, og
    ERU SANNFÆRÐ UM að þessi samningur muni skapa ákjósanlegar aðstæður fyrir tengsl þeirra á sviði efnahagsmála, viðskipta og fjárfestinga,
    HAFA ÁKVEÐIÐ, í samræmi við markmið þessi, að gera með sér svohljóðandi samning (sem nefnist hér á eftir „þessi samningur“):

I. KAFLI
UPPHAFSÁKVÆÐI

1. gr.
Stofnun fríverslunarsvæðis

    EFTA-ríkin og Chile stofna hér með fríverslunarsvæði með þessum samningi og viðbótarsamningum um viðskipti með landbúnaðarafurðir, sem nú hafa verið gerðir milli Chiles og hvers EFTA-ríkis um sig.

2. gr.
Markmið

1.     Markmið þessa samnings, sem eru útfærð nánar í meginreglum og reglum, eru:

a)    að auka gagnkvæmt og í áföngum frelsi í vöruviðskiptum í samræmi við XXIV. gr. Hins almenna samnings um tolla og viðskipti (sem nefnist hér á eftir „GATT-samningurinn frá 1994“),

b)    að auka frelsi í þjónustuviðskiptum í samræmi við V. gr. Hins almenna samnings um þjónustuviðskipti (sem nefnist hér á eftir „samningurinn um þjónustuviðskipti“),
c)    að opna markaði fyrir opinber innkaup samningsaðila,
d)    að stuðla að sanngjörnum samkeppnisskilyrðum á fríverslunarsvæðinu,
e)    að fjölga svo um munar möguleikum til fjárfestinga á fríverslunarsvæðinu,
f)    að veita fullnægjandi og áhrifaríka vernd hugverkaréttinda og fullnusta þau, og
g)    að skapa ramma um frekara tvíhliða samstarf og fjölþjóðasamvinnu til að hafa meiri og betri ávinning af þessum samningi.

3. gr.
Svæðisbundið gildissvið

1.     Þessi samningur gildir, með fyrirvara um I. viðauka, um yfirráðasvæði hvers samningsaðila, svo og um svæði utan þess landsvæðis þar sem þeir beita fullveldisréttindum og eiga lögsögu í samræmi við þjóðarétt.
2.     Ákvæði II. viðauka gilda um Noreg.

4. gr.
Skyldleiki við aðra alþjóðasamninga

    Samningsaðilar staðfesta réttindi sín og skyldur samkvæmt Marakess-samningnum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og öðrum samningum á grundvelli hans (sem hér á eftir nefnist „samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar“) og samkvæmt öðrum alþjóðasamningum sem þeir eiga aðild að.


5. gr.
Viðskipta- og efnahagstengsl sem
falla undir þennan samning

1.     Ákvæði þessa samnings gilda um viðskipta- og efnahagstengsl milli einstakra EFTA-ríkja annars vegar og Chiles hins vegar en ekki viðskiptatengsl milli einstakra EFTA-ríkja, nema kveðið sé á um annað í þessum samningi.

2.     Af tollabandalaginu, sem stofnað var með samningi frá 29. mars 1923 milli Sviss og Furstadæmisins Liechtensteins, leiðir að Sviss er fulltrúi Furstadæmisins Liechtensteins í málefnum sem falla undir þann samning.

6. gr.
Svæðis- og staðbundin stjórnvöld

    Hver samningsaðili ber fulla ábyrgð á því að uppfylla skyldur og skuldbindingar samkvæmt þessum samningi og skal sjá til þess að hlutaðeigandi svæðis- og staðbundin stjórnvöld og yfirvöld og óopinberar stofnanir, sem starfa í umboði ríkisstjórna eftir tilnefningu ríkisstjórna eða svæðis- og staðbundinna stjórnvalda og yfirvalda á yfirráðasvæði hans, geri það einnig.

II. KAFLI
VÖRUVIÐSKIPTI

7. gr.
Gildissvið

    Þessi kafli gildir um viðskipti milli samningsaðila með:
a)    framleiðsluvörur sem heyra undir 25.–97. kafla í samræmdu vörulýsingar- og vöruheitaskránni, hér á eftir nefnd „samræmda tollskráin“ (ST), að frátöldum framleiðsluvörum í III. viðauka,
b)    framleiðsluvörur sem tilgreindar eru í IV. viðauka, að teknu tilhlýðilegu tilliti til fyrirkomulags þess sem kveðið er á um í þeim viðauka, og
c)    fisk og aðrar sjávarafurðir eins og kveðið er á um í V. viðauka.

8. gr.
Upprunareglur og samvinna stjórnvalda

1.     Í I. viðauka er að finna ákvæði um upprunareglur og samvinnu stjórnvalda sem eiga við í 1. mgr. 9. gr. og 19. gr.
2.     Að því er varðar 2. mgr. 9. gr., 1. mgr. 13. gr. og 18. gr. er með hugtakinu „vörur samningsaðila“ átt við innlendar framleiðsluvörur í skilningi GATT- samningsins frá 1994 eða þær vörur sem samningsaðilar kunna að koma sér saman um og skulu þær taka til upprunavara þess aðila.

9. gr.
Afnám tolla

1.     Á gildistökudegi þessa samnings skulu samningsaðilar afnema alla innflutningstolla á framleiðsluvörum sem upprunnar eru í EFTA-ríki eða í Chile, nema eins og kveðið er á um í VI. viðauka.
2.     Á gildistökudegi þessa samnings skulu samningsaðilar afnema alla útflutningstolla á vörum samningsaðila í viðskiptum sín á milli.

3.     Óheimilt er að leggja á nýja tolla eða hækka álagða tolla í viðskiptum milli EFTA-ríkjanna og Chiles.

10. gr.
Tollar

    Til tollgjalda teljast hvers konar tollar eða gjöld sem eru lögð á í tengslum við innflutning eða útflutning framleiðsluvöru, einnig hvers konar aukaskattar eða aukagjöld í tengslum við slíkan innflutning eða útflutning, en þó ekki:
a)    gjald sem jafngildir innlendum sköttum sem eru lagðir á skv. 15. gr.,
b)    undirboðs- eða jöfnunartollar sem eru lagðir á skv. 18. gr., eða
c)    þóknun eða annað gjald sem er lagt á skv. 11. gr.


11. gr.
Þóknun og önnur gjöld

    Þóknun og önnur gjöld, sem um getur í c-lið 10. gr., skulu takmarkast af því að fjárhæð þeirra sé sem næst því að vera fyrir kostnaði við þá þjónustu sem er innt af hendi og ekki fela í sér óbeina vernd innlendra framleiðsluvara eða vera fjáröflunarskattur á innflutning eða útflutning.

12. gr.
Grunntollar

1.     Grunntollur á hverja framleiðsluvöru, sem á að fara stiglækkandi skv. VI. viðauka, skal samsvara bestukjaratollinum sem í gildi var 1. janúar 2003.

2.     Komi almennar tollalækkanir til framkvæmda fyrir, við eða eftir gildistöku þessa samnings, m.a. lækkanir í samræmi við skuldbindingar sem leiðir af marghliða samningaviðræðum á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (hér á eftir nefnd Alþjóðaviðskiptastofnunin), skulu lækkuðu tollarnir koma í stað grunntolla, sem um getur í 1. mgr., frá þeim tíma sem lækkanirnar koma til framkvæmda eða frá og með gildistöku þessa samnings, verði hún síðar.

3.     Reikna skal lækkuðu tollana í samræmi við VI. viðauka með einum aukastaf eða, þegar um er að ræða sérstaka tolla, með tveimur aukastöfum.


13. gr.
Takmarkanir á innflutningi og útflutningi

1.     Á gildistökudegi þessa samnings skal afnema hvers konar bann eða takmarkanir á innflutningi eða útflutningi í viðskiptum með vörur samningsaðila milli EFTA-ríkjanna og Chiles, annað en tolla og skatta, hvort sem um er að ræða kvóta, innflutnings- eða útflutningsleyfi eða aðrar ráðstafanir, nema kveðið sé á um annað í VII. viðauka.
2.     Óheimilt er að gera nýjar ráðstafanir eins og um getur í 1. mgr.

14. gr.
Flokkun vara og tollverðsákvörðun

1.     Flokkun vara í viðskiptum milli EFTA-ríkjanna og Chiles skal ákvarða í samræmi við viðkomandi tollnafnaskrá hvers samningsaðila í samræmi við samræmdu tollskrána.
2.     Ákvæði samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um framkvæmd VII. gr. GATT-samningsins frá 1994 eiga við um tollverðsákvörðunarreglur sem gilda um viðskipti milli EFTA-ríkjanna og Chiles.

15. gr.
Innlend meðferð

    Samningsaðilar skulu beita innlendri meðferð í samræmi við III. gr. GATT-samningsins frá 1994, þar á meðal athugasemdum um túlkun sem eru hér með felldar inn í þennan samning og eru hluti hans.

16. gr.
Ráðstafanir um hollustuhætti og
heilbrigði dýra og plantna

1.     Ákvæði samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna eiga við um réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar ráðstafanir um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna (sem nefnist hér á eftir „samningurinn um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna“).
2.     Samningsaðilar skulu auka samvinnu á sviði ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna með það fyrir augum að auka gagnkvæman skilning á kerfum hvers um sig og auðvelda aðgang að mörkuðum sínum.
3.     Að beiðni samningsaðila skal kveðja saman sérfræðinga til samráðs telji samningsaðili annan samningsaðila hafa gert ráðstafanir sem eru líklegar til að hafa eða hafa haft áhrif á aðgang að markaði hans. Sérfræðingar, sem eru fulltrúar hlutaðeigandi samningsaðila í sérstökum málefnum á sviði hollustuhátta og heilbrigðis dýra og plantna, skulu stefna að því að finna viðeigandi lausn í samræmi við samninginn um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna.
4.     Samningsaðilar skulu skiptast á nöfnum og heimilisföngum „tengiliða“ með sérþekkingu á hollustuháttum og heilbrigði dýra og plantna í því skyni að auðvelda samskipti og skipti á upplýsingum.
5.     Til að skilvirk notkun auðlinda sé möguleg skulu samningsaðilar, að því marki sem unnt er, freista þess að nota nútímatækni samskiptamiðla á borð við rafræn samskipti, mynd- eða símafundi eða láta fundina, sem um getur í 3. mgr., fara fram samhliða fundum sameiginlegu nefndarinnar eða fundum um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna innan ramma Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Niðurstöðu samráðs með sérfræðingum, sem efnt er til í samræmi við 3. mgr., ber að tilkynna til sameiginlegu nefndarinnar.
6.     Chile og sérhverju EFTA-ríkjanna er heimilt að koma á tvíhliða fyrirkomulagi, að meðtöldum samningum milli viðkomandi eftirlitsstofnana sinna, til að stuðla að betri framkvæmd þessarar greinar.

17. gr.
Tæknilegar reglur

1.     Farið skal með réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar tæknilegar reglur, staðla og samræmismat í samræmi við samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um tæknilegar viðskiptahindranir (sem nefnist hér á eftir „samningurinn um tæknilegar viðskiptahindranir“).
2.     Samningsaðilar skulu auka samvinnu á sviði tæknilegra reglna, staðla og samræmismats með það fyrir augum að auka gagnkvæman skilning á kerfum hvers þeirra um sig og auðvelda aðgang að mörkuðum þeirra.
3.     Samningsaðilar samþykkja, með fyrirvara um 1. mgr., að hafa samráð innan sameiginlegu nefndarinnar til að finna viðeigandi lausn í samræmi við samninginn um tæknilegar viðskiptahindranir telji samningsaðili að annar samningsaðili hafi gert ráðstafanir sem gætu skapað eða hafi skapað hindrun í viðskiptum.

18. gr.
Ráðstafanir gegn undirboðum
og jöfnunarráðstafanir

1.     Samningsaðili skal ekki beita ráðstöfunum um undirboð, eins og kveðið er á um í samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um framkvæmd VI. gr. GATT-samningsins frá 1994, með tilliti til vara samningsaðila.
2.     Samningsaðilar viðurkenna að með skilvirkri framkvæmd samkeppnisreglna sé unnt að bregðast við efnahagslegum orsökum undirboða.
3.     Ákvæði samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um styrki og jöfnunarráðstafanir eiga við um réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar jöfnunarráðstafanir.

19. gr.
Neyðaraðgerð vegna innflutnings
tiltekinna framleiðsluvara

1.     Ef innflutningur framleiðsluvöru, sem er upprunnin hjá samningsaðila, inn á yfirráðasvæði annars samningsaðila eykst svo mjög, á grundvelli þess að tollar hafa verið lækkaðir eða afnumdir samkvæmt þessum samningi, og á sér stað við slík skilyrði að það veldur eða gæti valdið alvarlegum skaða fyrir innlenda framleiðendur sambærilegra vara eða samkeppnisvara á yfirráðasvæði samningsaðilans, sem flytur inn, er honum heimilt að grípa til neyðarráðstafana, í eins litlum mæli og unnt er að komast af með, til að ráða bót á skaðanum eða koma í veg fyrir hann.
2.     Slíkar ráðstafanir geta falist í:
a)    frestun frekari lækkunar á hvaða tolli sem er af framleiðsluvörunni og kveðið er á um í þessum samningi, eða
b)    hækkuðum tollum af framleiðsluvörunni og skal miða við þann toll sem lægri er:
    i)    tolla sem fást í bestukjarameðferð og eru í gildi á þeim degi sem aðgerðin á sér stað,
    ii)    tolla sem fást í bestukjarameðferð og eru í gildi daginn fyrir gildistöku þessa samnings.


3.     Neyðarráðstafanir skulu ekki vara lengur en í eitt ár. Við mjög óvenjulegar aðstæður og að lokinni athugun sameiginlegu nefndarinnar er heimilt að gera ráðstafanir til þriggja ára að hámarki. Í því tilviki skal samningsaðili, sem gerir slíkar ráðstafanir, leggja fram áætlun um afnám þeirra í áföngum. Óheimilt er að beita ráðstöfunum vegna innflutnings framleiðsluvöru sem ráðstöfun hefur áður verið beitt gegn a.m.k. næstu fimm árin eftir að ráðstöfunin fellur úr gildi.
4.     Því aðeins má gera neyðarráðstafanir að óyggjandi sönnun sé fyrir því að aukinn innflutningur hafi valdið alvarlegum skaða eða að hætta sé á því samkvæmt rannsókn sem er gerð í samræmi við þá málsmeðferð sem mælt er fyrir um í samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um verndarráðstafanir.
5.     Samningsaðili, sem hyggst grípa til neyðarráðstafana samkvæmt þessari grein, skal þegar í stað senda hinum samningsaðilunum tilkynningu þar sem fram koma allar upplýsingar þar að lútandi, þar á meðal um sönnunargögn um alvarlegan skaða af völdum aukins innflutnings, nákvæm lýsing á framleiðsluvörunni sem um ræðir, upplýsingar um fyrirhugaða ráðstöfun og frá hvaða degi og hversu lengi ráðstafanirnar skuli gilda. Á sama tíma skal bjóða samningsaðila, sem slíkar ráðstafanir gætu haft áhrif á, bætur í formi aukins frelsis í viðskiptum í tengslum við innflutning frá honum sem skulu í megindráttum vera jafngildar.
6.     Sameiginlega nefndin skal, innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningar til samningsaðilanna, koma saman til að fara yfir þær upplýsingar sem eru veittar skv. 5. mgr. í þeim tilgangi að greiða fyrir lausn málsins með þeim hætti að báðir aðilar geti við unað. Ef engin lausn finnst er samningsaðilanum, sem flytur inn, heimilt að samþykkja viðeigandi ráðstafanir skv. 2. mgr. til að ráða bót á vandanum og samningsaðilanum, sem ráðstöfunin beinist gegn, er heimilt að grípa til mótvægisaðgerða ef ekki næst (gagnkvæmt) samkomulag um jöfnunargreiðslur. Tilkynna skal sameiginlegu nefndinni þegar í stað um neyðarráðstöfun og jöfnunar- eða mótvægisaðgerð. Mótvægisaðgerð skal fela í sér niðurfellingu ívilnana sem hafa í megindráttum jafngild áhrif á viðskipti eða ívilnanir sem í megindráttum jafngilda þeim viðbótartolli sem búist er við að muni leiða af neyðarráðstöfuninni. Val á neyðarráðstöfun og mótvægisaðgerð skal miðast við að trufla framkvæmd þessa samnings sem minnst.
7.     Ef útlitið er tvísýnt og tafir gætu valdið skaða, sem erfitt yrði að bæta, er aðila heimilt til bráðabirgða að grípa til neyðarráðstafana, sem vara ekki lengur en 120 daga, ef ákvarðað hefur verið að óyggjandi sönnun sé fyrir því að aukinn innflutningur hafi eða geti valdið alvarlegum skaða. Samningsaðili sem hyggst grípa til slíkra ráðstafana skal þegar í stað tilkynna hinum samningsaðilunum um það og hefja viðeigandi málsmeðferð, sbr. 5. og 6. mgr., innan 30 daga frá dagsetningu slíkrar tilkynningar, þ.m.t. jöfnunar- og mótvægisaðgerðir. Allar jöfnunaraðgerðir skulu miðast við heildargildistíma bráðabirgðaráðstöfunarinnar. Gildistími slíkrar bráðabirgðaráðstöfunar skal teljast vera hluti af því tímabili sem endanlega ráðstöfunin varir, ásamt hvers konar framlengingu hennar.

20. gr.
Víðtækar verndarráðstafanir

    Samningsaðilar staðfesta réttindi sín og skyldur skv. XIX. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um verndarráðstafanir.

21. gr.
Almennar undantekningar

    Með fyrirvara um kröfu þess efnis að slíkum ráðstöfunum verði ekki beitt með þeim hætti að það hefði í för með sér geðþóttabundna eða óréttlætanlega mismunun samningsaðila, þar sem aðstæður eru hinar sömu, eða duldar takmarkanir í alþjóðaviðskiptum skal ekkert í þessum samningi túlkað þannig að það komi í veg fyrir að aðilar samþykki eða beiti ráðstöfunum sem:
a)    eru nauðsynlegar til að vernda almennt siðgæði,
b)    eru nauðsynlegar til að vernda líf og heilsu manna, dýra eða plantna,
c)    varða innflutning eða útflutning gulls og silfurs,

d)    eru nauðsynlegar til að tryggja að farið verði að ákvæðum laga eða reglna sem eru ekki ósamrýmanlegar ákvæðum þessa samnings, að meðtöldum ákvæðum sem tengjast tollaframkvæmd, vernd hugverkaréttinda og því að koma í veg fyrir sviksamlega starfshætti,
e)    varða vörur, framleiddar af föngum,
f)    gerðar eru í því skyni að vernda þjóðarverðmæti sem hafa listrænt, sögulegt eða fornleifafræðilegt gildi,
g)    varða verndun óendurnýjanlegra auðlinda ef slíkar ráðstafanir eru framkvæmdar með því að takmarka innlenda framleiðslu eða neyslu,

h)    eru gerðar samkvæmt skuldbindingum í hverjum þeim alþjóðasamningi um vörur sem er í samræmi við viðmiðanir sem eru lagðar fyrir Alþjóðaviðskiptastofnunina og sem stofnunin hefur ekki hafnað eða samningurinn hafi sjálfur á þann hátt verið lagður fyrir og ekki verið hafnað,
i)    fela í sér takmarkanir á útflutningi innlendra efna sem eru nauðsynlegar til að tryggja nægt magn slíkra efna fyrir innlendan vinnsluiðnað á tímum þegar verðinu á slíkum efnum á innlenda markaðinum er haldið fyrir neðan heimsmarkaðsverð sem lið í opinberum stöðugleikaáætlunum; þetta er þó háð því að slíkum takmörkunum sé ekki beitt þannig að útflutningur aukist eða vernd innlenda iðnaðarins sé aukin og að ekki sé vikið frá ákvæðum þessa samnings gegn mismunun,

j)    eru nauðsynlegar vegna almennrar öflunar og dreifingar á framleiðsluvörum eða vegna staðbundins skorts á birgðum; slíkar ráðstafanir teljast samrýmanlegar þeirri reglu að öllum aðilum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar beri jafn hlutur í alheimsframboði á slíkum framleiðsluvörum en láta skuli af öllum þeim ráðstöfunum sem brjóta í bága við önnur ákvæði þessa samnings um leið og aðstæðurnar, sem ollu þeim, eru ekki lengur fyrir hendi.

III. KAFLI
ÞJÓNUSTUVIÐSKIPTI OG
STOFNSETNING

I. ÞÁTTUR – ÞJÓNUSTUVIÐSKIPTI
22. gr.
Gildissvið

1.     Þessi þáttur á við um ráðstafanir sem hafa áhrif á þjónustuviðskipti og ríkisstjórnir, svæðis- eða staðbundin stjórnvöld og yfirvöld eða óopinberir aðilar í umboði ríkisstjórna eða svæðis- eða staðbundinna stjórnvalda og yfirvalda gera.
2.     Þessi þáttur á við um ráðstafanir sem hafa áhrif á viðskipti á öllum sviðum þjónustu, þó ekki flugþjónustu, þ.m.t. flutningar í lofti innanlands og á milli landa, jafnt áætlunarflug sem annað flug, og skyld þjónusta til stuðnings flugþjónustu, önnur en:

a)    viðgerðir loftfara og viðhaldsþjónusta,
b)    sala og markaðssetning flugþjónustu,

c)    þjónusta gegnum tölvufarskráningarkerfi. 1
3.     Ekkert í þessum þætti skal túlkað á þann hátt að feli í sér skuldbindingar að því er varðar opinber innkaup, sem er umfjöllunarefni V. kafla.

23. gr.
Skilgreiningar

    Í þessum þætti er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „þjónustuviðskipti“: veiting þjónustu:

    i)    af yfirráðasvæði eins samningsaðila yfir á yfirráðasvæði annars samningsaðila (þjónustumáti 1),
    ii)    á yfirráðasvæði eins samningsaðila til þjónustuneytanda annars samningsaðila (þjónustumáti 2),
    iii)    af hálfu þjónustuveitanda eins samningsaðila, með viðskiptanærveru á yfirráðasvæði annars samningsaðila (þjónustumáti 3),
    iv)    af hálfu þjónustuveitanda eins samningsaðila, með nærveru einstaklinga frá aðila á yfirráðasvæði annars samningsaðila (þjónustumáti 4),





1     Hugtökin „viðgerðir loftfara og viðhaldsþjónusta“, „sala og markaðssetning flugþjónustu“ og „þjónusta gegnum tölvufarskráningarkerfi“ eru skilgreind með sama hætti og í 6. mgr. viðaukans um flugþjónustu í samningnum um þjónustuviðskipti.
b)    „ráðstöfun“: sérhver ráðstöfun samningsaðila, hvort sem um er að ræða lög, reglugerð, reglu, málsmeðferð, ákvörðun, stjórnsýsluaðgerð eða annað sambærilegt,
c)    „veiting þjónustu“: framleiðsla, dreifing, markaðssetning, sala og afhending þjónustu,

d)    „ráðstafanir samningsaðila sem hafa áhrif á þjónustuviðskipti“: einnig ráðstafanir er varða:
    i)    kaup á, greiðslu fyrir eða afnot af þjónustu,
    ii)    aðgang að eða afnot af þjónustu, í sambandi við veitingu þjónustu sem sá samningsaðili krefst að standi almenningi alla jafna til boða,

    iii)    nærveru, þar á meðal viðskiptanærveru, einstaklinga frá öðrum samningsaðila vegna veitingar þjónustu á yfirráðasvæði þess samningsaðila,
e)    „viðskiptanærvera“: hvers konar viðskipta- eða atvinnustarfsemi, þar á meðal:

    i)    stofnun, kaup á eða áframhaldandi rekstur lögaðila, eða
    ii)    stofnun eða áframhaldandi rekstur útibús eða umboðsskrifstofu, á yfirráðasvæði samningsaðila í því skyni að veita þjónustu,

f)    „þjónustuveitandi“: hver sá einstaklingur sem óskar eftir að veita eða veitir þjónustu, 2
g)    „einstaklingur frá samningsaðila“: samkvæmt löggjöf þessa samningsaðila, ríkisborgari eða með fasta búsetu hjá þessum samningsaðila og fær í aðalatriðum sömu meðferð og ríkisborgarar að því er varðar ráðstafanir sem hafa áhrif á þjónustuviðskipti,
h)    „lögaðili“: lögaðili sem er stofnaður eða skipulagður samkvæmt gildandi lögum, í hagnaðarskyni eða í öðrum tilgangi, hvort sem er í einkaeign eða í eigu hins opinbera, þar á meðal hlutafélög, sjóðir, sameignarfélög, sameiginleg fyrirtæki, einkafyrirtæki eða samtök,





2     Ef þjónustan er ekki veitt af lögaðila heldur með annars konar viðskiptanærveru, eins og útibúi eða umboðsskrifstofu, skal þjónustuveitandinn (þ.e. lögaðilinn) þó fá sömu kjör og þjónustuveitendur fá samkvæmt þessum samningi. Slík kjör skulu ná til viðskiptanærverunnar sem veitir þjónustuna en þau þurfa ekki að ná til annarrar starfsemi þjónustuveitandans utan yfirráðasvæðisins þar sem þjónustan er veitt.

i)    „þjónusta“: þjónusta á öllum sviðum nema þjónusta sem opinber yfirvöld veita,

j)    „lögaðili samningsaðila“: lögaðili sem er annaðhvort:
    i)    stofnaður eða skipulagður samkvæmt lögum í Chile eða í EFTA-ríki og stundar umtalsverð viðskipti í Chile eða í hlutaðeigandi EFTA-ríki, eða
    ii)    ef um er að ræða þjónustu sem er veitt á grundvelli viðskiptanærveru, í eigu eða undir stjórn:
         A)    einstaklinga frá þeim samningsaðila, eða
         B)    lögaðili skv. i-lið j-liðar, og

k)    „þjónusta sem opinber yfirvöld veita“: þjónusta sem hvorki er veitt á viðskiptalegum grundvelli né í samkeppni við einn eða fleiri þjónustuveitendur.

24. gr.
Bestukjarameðferð

1.     Ákvæði samningsins um þjónustuviðskipti eiga við um réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar bestukjarameðferð.
2.     Ef samningsaðili gengur til samninga við þriðja aðila, sem tilkynnt er um skv. V. gr. samningsins um þjónustuviðskipti, skal hann, að beiðni annars samningsaðila, veita hinum samningsaðilunum nægilegt tækifæri til að semja um þann ávinning sem í þeim samningi felst.

25. gr.
Markaðsaðgangur

1.     Að því er varðar markaðsaðgang á þann hátt sem tilgreint er í 23. gr. skal hver samningsaðili ekki veita ýmiss konar þjónustu og þjónustuveitendum annars samningsaðila óhagstæðari meðferð en þá sem kveðið er á um í skilmálum, takmörkunum og skilyrðum sem hafa verið samþykkt og tilgreind eru í skrá hans sem um getur í 27. gr.
2.     Á sviðum, þar sem gengist hefur verið undir skuldbindingar um markaðsaðgang, eru ráðstafanir, sem samningsaðili skal ekki viðhalda eða samþykkja, hvort heldur er á tilteknum svæðum eða öllu yfirráðasvæði sínu, nema annað sé tilgreint í skrá hans, skilgreindar sem:
a)    takmarkanir á fjölda þjónustuveitenda, hvort sem um er að ræða tölulega kvóta, einkasölu, þjónustuveitendur með einkarétt eða kröfur um könnun á efnahagsþörfum,
b)    takmarkanir á heildarverðmæti þjónustuviðskipta eða eigna í formi tölulegra kvóta eða kröfu um könnun á efnahagsþörfum,
c)    takmarkanir á samanlögðum fjölda tilvika veittrar þjónustu eða á heildarmagni veittrar þjónustu, táknað með úthlutuðum tölueiningum, í formi kvóta eða kröfu um könnun á efnahagsþörfum, 3
d)    takmarkanir á heildarfjölda einstaklinga sem heimilt er að ráða á sérstöku þjónustusviði eða sem þjónustuveitanda er heimilt að ráða og sem eru nauðsynlegir og beinlínis tengdir veitingu sérstakrar þjónustu í formi tölulegra kvóta eða kröfu um könnun á efnahagsþörfum,

e)    ráðstafanir sem takmarka eða útheimta að þjónustuveitandinn hafi sérstaka tegund lögaðila eða sameiginlegs fyrirtækis sem veitir þjónustuna fyrir hann, og
f)    takmarkanir á hlutdeild erlends fjármagns, settar fram sem hámarkshundraðshluti sem má vera í eigu erlendra hluthafa eða heildarverðmæti einstakra eða samanlagðra, erlendra fjárfestinga.

26. gr.
Innlend meðferð

1.     Hver samningsaðili skal, á þeim sviðum sem eru tilgreind í skrá hans, sem um getur í 27. gr., og samkvæmt þeim skilyrðum og hæfniskröfum sem eru settar fram þar, ekki veita ýmiss konar þjónustu og þjónustuveitendum annarra samningsaðila óhagstæðari meðferð, að því er varðar allar ráðstafanir sem hafa áhrif á veitingu þjónustunnar, en hann veitir þegar um er að ræða samsvarandi þjónustu og þjónustuveitendur hans sjálfs. 4
2.     Samningsaðili getur uppfyllt kröfur skv. 1. mgr. með því að veita ýmiss konar þjónustu og þjónustuveitendum annars samningsaðila meðferð sem er að formi til sams konar eða ólík þeirri sem hann veitir þegar um er að ræða samsvarandi þjónustu og þjónustuveitendur hans sjálfs.
3.     Meðferð, sem er að formi til sams konar eða ólík, skal talin óhagstæðari ef hún breytir samkeppnisskilyrðum til hagsbóta fyrir þjónustu eða þjónustuveitendur samningsaðilans miðað við samsvarandi þjónustu eða þjónustuveitendur annars samningsaðila.





3     Ákvæði c-liðar taka ekki til ráðstafana samningsaðila sem takmarka vörur sem eru notaðar við að veita þjónustu.
4     Sérstakar skuldbindingar, sem gengið er út frá í þessari grein, skulu ekki túlkaðar þannig að krafist verði af samningsaðilunum að þeir greiði bætur vegna verri samkeppnisstöðu sem stafar af því að um erlenda þjónustu eða þjónustuveitendur er að ræða.

27. gr.
Aukið frelsi í viðskiptum

1.     Skrár yfir sérstakar skuldbindingar, sem hver samningsaðili tekur á sig skv. 25. og 26. gr. auk 3. mgr. þessarar greinar, eru settar fram í VIII. viðauka. Að því er varðar þau svið sem skuldbindingarnar taka til er eftirfarandi tilgreint í hverri skrá:
a)    skilmálar, takmarkanir og skilyrði fyrir markaðsaðgangi,
b)    skilyrði og forsendur fyrir innlendri meðferð,

c)    samþykkt varðandi viðbótarskuldbindingar, sem um getur í 3. mgr., og
d)    tímamörk á framkvæmd slíkra skuldbindinga og gildistökudagur slíkra skuldbindinga ef við á.

2.     Ráðstafanir, sem eru ósamrýmanlegar bæði 25. og 26. gr., skulu skráðar í dálkinn sem á við 25. gr. Þá merkir skráningin einnig skilyrði eða forsendu sem á við 26. gr.
3.     Ef samningsaðili tekur á sig sérstaka skuldbindingu um ráðstafanir sem hafa áhrif á þjónustuviðskipti og falla ekki undir skráningu skv. 25. og 26. gr., þar á meðal þær ráðstafanir sem varða hæfi, staðla eða leyfisveitingar, eru slíkar skuldbindingar færðar í skrá samningsaðila sem viðbótarskuldbindingar.
4.     Samningsaðilar skuldbinda sig til að endurskoða skrár sínar yfir sérstakar skuldbindingar a.m.k. þriðja hvert ár eða oftar á gagnkvæmum hagkvæmnisgrundvelli og í þeim tilgangi að gera ráðstafanir til að minnka eða afnema í aðalatriðum alla mismunun sem er enn til staðar milli samningsaðila, að því er varðar þjónustuviðskipti sem falla undir þennan þátt, og tryggja heildarjafnvægi réttinda og skyldna.

28. gr.
Innlendar reglur

1.     Á sviðum, þar sem gengist er undir sérstakar skuldbindingar, skal hver samningsaðili sjá til þess að ráðstöfunum, sem hafa almennt gildi og hafa áhrif á þjónustuviðskipti, sé beitt á eðlilegan, hlutlægan og óhlutdrægan hátt.
2.     Hver samningsaðili skal, að beiðni þjónustuveitanda sem málið varðar, hafa eða koma á fót, eins fljótt og unnt er, dómstólum, gerðardómi, stjórnsýsludómstólum eða sérstakri málsmeðferð þar sem stjórnsýsluákvarðanir, sem hafa áhrif á þjónustuviðskipti, verða tafarlaust endurskoðaðar að beiðni þjónustuveitanda sem málið varðar og gripið til viðeigandi úrræða ef slíkt telst réttmætt. Ef slík málsmeðferð er ekki óháð stofnuninni sem tekur viðkomandi stjórnsýsluákvörðun skal samningsaðilinn sjá til þess að málsmeðferðin feli í raun í sér hlutlæga og óhlutdræga endurskoðun.
3.     Ef krafist er leyfis fyrir veitingu þjónustu skulu lögbær yfirvöld samningsaðila tilkynna umsækjandanum um leið og umsókn, sem telst uppfylla innlend lög og reglur hefur verið lögð fram, hvaða ákvörðun hefur verið tekin um umsóknina. Lögbær yfirvöld samningsaðilans skulu, að beiðni umsækjandans, veita upplýsingar um stöðu umsóknarinnar án óþarfra tafa.

4.     Samningsaðilar endurskoða í sameiningu niðurstöður viðræðna um verklagsreglur vegna ráðstafana sem varða hæfniskröfur og aðferðir til að ákvarða hæfni, tæknilega staðla og leyfissamninga skv. 4. mgr. VI. gr. í samningnum um þjónustuviðskipti, með því markmiði að tryggja að slík ráðstöfun hafi ekki í för með sér óþarfar hindranir í þjónustuviðskiptum, í þeim tilgangi að fella þær undir þennan samning. Samningsaðilar gera sér ljóst að með slíkum verklagsreglum er m.a. stefnt að því að tryggja að slíkar kröfur:
a)    séu byggðar á hlutlægum og gagnsæjum viðmiðunum, svo sem hæfni og getu til að veita þjónustu,
b)    séu ekki íþyngjandi umfram það sem nauðsynlegt er til að tryggja gæði þjónustunnar,
c)    takmarki ekki í sjálfu sér veitingu þjónustunnar þegar málsmeðferð við leyfisveitingu er annars vegar.
5.     Á sviðum, þar sem samningsaðili hefur gengist undir sérstakar skuldbindingar, þangað til verklagsreglurnar skv. 4. mgr. taka gildi á þeim sviðum skal hann ekki beita kröfum um leyfisveitingar, hæfniskröfur og tæknilega staðla með þeim hætti:
a)    sem samrýmist ekki viðmiðununum sem settar eru fram í a-, b- eða c-lið 4. mgr. og
b)    sem ekki hefði verið eðlilegt að vænta af hálfu samningsaðilans á þeim tíma þegar gerð þessa samnings stendur yfir.
6.     Þegar innlendar reglur eru samdar, þær samþykktar eða þeim beitt í samræmi við alþjóðlega staðla sem báðir samningsaðilar nota skal vera fyrir hendi möguleiki til andmæla því að þær séu í samræmi við ákvæði þessarar greinar.
7.     Hver samningsaðili skal kveða á um fullnægjandi málsmeðferð til að sannprófa hæfni fagmanna annarra samningsaðila.

29. gr.
Viðurkenning

1.     Samningsaðilar hvetja viðeigandi stofnanir á yfirráðasvæðum sínum til að leggja fram tillögur um gagnkvæma viðurkenningu með það að markmiði að þjónustuveitendur uppfylli, að öllu leyti eða að hluta, skilyrði sem samningsaðili setur fyrir heimildum, leyfum, faggildingu, starfsemi og vottun þjónustuveitenda, einkum fagaðila á sviði þjónustuveitingar.

2.     Sameiginlega nefndin skal, innan sanngjarnra tímatakmarkana og með hliðsjón af samsvörun viðkomandi reglna, skera úr um það hvort tilmælin, sem um getur í 1. mgr., samræmast þessum þætti. Ef sú er raunin skal hrinda slíkum tilmælum í framkvæmd með samningi um gagnkvæmar kröfur, hæfni, leyfi og aðrar reglur sem lögbær yfirvöld koma sér saman um.

3.     Allir slíkir samningar skulu vera í samræmi við viðeigandi ákvæði samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og þá einkum VII. gr. samningsins um þjónustuviðskipti.
4.     Ef samningsaðilar eru því samþykkir skal hver þeirra hvetja viðkomandi stofnanir til að undirbúa málsmeðferð fyrir tímabundna leyfisveitingu fagaðila á sviði þjónustuveitingar hjá öðrum samningsaðila.
5.     Sameiginlega nefndin skal reglubundið og a.m.k. þriðja hvert ár endurskoða framkvæmd þessarar greinar.
6.     Ef samningsaðili viðurkennir, með samningi eða fyrirkomulagi, menntun eða fengna reynslu, uppfylltar kröfur eða leyfi eða vottorð, sem eru veitt á yfirráðasvæði aðila sem á ekki hlut að samningnum eða fyrirkomulaginu, skal sá samningsaðili veita öðrum samningsaðila, sé þess óskað, fullnægjandi tækifæri til að semja um aðild að slíkum samningi eða fyrirkomulagi eða leita sambærilegra samninga eða fyrirkomulags. Ef samningsaðili veitir viðurkenningu einhliða skal hann veita öðrum samningsaðila næg tækifæri til að sýna fram á að viðurkenna beri einnig menntun eða fengna reynslu, uppfylltar kröfur eða leyfi eða vottorð sem eru veitt á yfirráðasvæði hins samningsaðilans.

30. gr.
För einstaklinga

1.     Þessi þáttur gildir um ráðstafanir sem hafa áhrif á einstaklinga sem eru þjónustuveitendur hjá samningsaðila og einstaklinga hjá samningsaðila sem þjónustuveitandi samningsaðila ræður til að veita þjónustu. Einstaklingum, sem falla undir sérstakar skuldbindingar samningsaðila, er heimilt að veita þjónustu í samræmi við skilmála þessara skuldbindinga.
2.     Þessi þáttur gildir hvorki um ráðstafanir sem hafa áhrif á einstaklinga sem leita eftir aðgangi að vinnumarkaði hjá samningsaðila né ráðstafanir varðandi ríkisfang, búsetu eða fasta atvinnu.

3.     Þessi þáttur skal ekki koma í veg fyrir að samningsaðili geti beitt ráðstöfunum til að hafa stjórn á för einstaklinga inn á yfirráðasvæði sitt eða tímabundinni dvöl þeirra þar, þar á meðal ráðstöfunum sem eru nauðsynlegar til að vernda landamæri hans og tryggja reglufestu á för einstaklinga yfir þau, að því tilskildu að slíkum ráðstöfunum sé ekki beitt með þeim hætti að þær geri að engu eða skerði þann ávinning sem samningsaðili hefur samkvæmt skilmálum sérstakrar skuldbindingar. 5

31. gr.
Fjarskiptaþjónusta

    Sérákvæði um fjarskiptaþjónustu eru sett fram í IX. viðauka.

II. ÞÁTTUR – STOFNSETNING
32. gr.
Gildissvið
    

    Þessi þáttur á við um stofnsetningu á öllum sviðum nema þjónustusviðum.


33. gr.
Skilgreiningar

    Í þessum þætti er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „lögaðili“: lögaðili sem er stofnaður eða skipulagður samkvæmt gildandi lögum í hagnaðarskyni eða í öðrum tilgangi, hvort sem er í einkaeign eða í eigu hins opinbera, þar á meðal hlutafélög, sjóðir, sameignarfélög, sameiginleg fyrirtæki, einkafyrirtæki eða samtök,

b)    „lögaðili samningsaðila“: lögaðili sem er stofnaður eða skipulagður samkvæmt lögum EFTA- ríkis eða Chiles og stundar umtalsverð viðskipti í Chile eða viðkomandi EFTA-ríki,

c)    „einstaklingur“: ríkisborgari EFTA-ríkis eða Chiles samkvæmt löggjöf viðkomandi ríkis,

d)    með „stofnsetningu“ er átt við:
    i)    stofnun, kaup á eða áframhaldandi rekstur lögaðila, eða
    ii)    stofnun eða áframhaldandi rekstur útibús eða umboðsskrifstofu,
    á yfirráðasvæði samningsaðila í því skyni að stunda atvinnustarfsemi.
    Að því er varðar einstaklinga nær þetta ekki til atvinnuleitar eða atvinnuþátttöku á vinnumarkaði eða veitir rétt til aðgangs að vinnumarkaði annars samningsaðila.


5     Þótt vegabréfsáritunar sé krafist skal ekki litið svo á að verið sé að gera að engu eða skerða ávinning sem fæst samkvæmt sérstakri skuldbindingu.

34. gr.
Innlend meðferð

    Að því er tekur til stofnunar skal hver samningsaðili ekki veita lögaðilum og einstaklingum annars samningsaðila óhagstæðari kjör en hann veitir sínum eigin lögaðilum og einstaklingum sem stunda samsvarandi atvinnustarfsemi, sbr. þó fyrirvara í X. viðauka.

35. gr.
Fyrirvarar

1.     Innlend meðferð, sem kveðið er á um í 34. gr., gildir ekki um:
a)    fyrirvara sem samningsaðili hefur sett fram í X. viðauka,
b)    breytingu á fyrirvara sem fellur undir a-lið, að því marki sem breytingin gerir það ekki að verkum að fyrirvarinn samræmist síður 34. gr.,

c)    nýjan fyrirvara, sem samningsaðili samþykkir og fellir undir X. viðauka, sem hefur ekki áhrif á heildarumfang skuldbindinga þess samningsaðila samkvæmt þessum samningi,
að því marki sem slíkir fyrirvarar samræmast ekki 34. gr.
2.     Sem lið í þeirri endurskoðun sem kveðið er á um í 37. gr. skuldbinda samningsaðilar sig til að endurskoða stöðu þeirra fyrirvara, sem settir eru fram í X. viðauka, á a.m.k. þriggja ára fresti með það fyrir augum að fækka slíkum fyrirvörum eða fella þá niður.
3.     Samningsaðila er hvenær sem er heimilt, annaðhvort að fenginni beiðni annars samningsaðila eða einhliða, að fella niður fyrirvara sem settir eru fram í X. viðauka, í heild eða að hluta, með skriflegri tilkynningu til hinna samningsaðilanna.
4.     Samningsaðila er hvenær sem er heimilt að bæta inn nýjum fyrirvara í X. viðauka í samræmi við c-lið 1. mgr. þessarar greinar með skriflegri tilkynningu til hinna samningsaðilanna. Þegar hinum samningsaðilunum berst þessi skriflega tilkynning er þeim heimilt að fara fram á samráð um fyrirvarann. Þegar samningsaðilanum, sem bætir inn nýjum fyrirvara, berst beiðni um samráð skal hann hefja samráð við hina samningsaðilana.

36. gr.
Réttur til reglusetningar

    Með fyrirvara um ákvæði 34. gr. er hverjum samningsaðila heimilt að setja nýjar reglur um stofnun lögaðila og einstaklinga.

37. gr.
Lokaákvæði

    Með það að markmiði að auka smám saman frelsi í fjárfestingum staðfesta samningsaðilar þá skuldbindingu sína að endurskoða, eigi síðar en þremur árum eftir gildistöku þessa samnings, lagaramma um fjárfestingar, umhverfi fjárfestinga og streymi fjárfestinga sín á milli, í samræmi við skuldbindingar sínar í alþjóðlegum samningum um fjárfestingar.

III. ÞÁTTUR – GREIÐSLUR OG FJÁRMAGNSFLUTNINGAR
38. gr.
Markmið og gildissvið

1.     Samningsaðilar skulu stefna að auknu frelsi í greiðslum vegna viðskipta og fjármagnsflutningum sín á milli í samræmi við skuldbindingar sem gengist hefur verið undir innan ramma alþjóðlegra fjármálastofnana og með tilhlýðilegu tilliti til stöðugleika gjaldmiðils hvers samningsaðila.
2.     Þessi þáttur á við um allar greiðslur vegna viðskipta og fjármagnsflutninga milli samningsaðilanna. Sérákvæði um greiðslur vegna viðskipta og fjármagnsflutninga eru sett fram í XI. viðauka.

39. gr.
Viðskiptajöfnuður

    Samningsaðilar skulu heimila allar greiðslur og millifærslur vegna viðskipta sín á milli, í frjálsum gjaldmiðli og í samræmi við ákvæði samningsins um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.


40. gr.
Fjármagnsjöfnuður

    Samningsaðilar skulu leyfa frjálsa fjármagnsflutninga í tengslum við beinar fjárfestingar sem eru gerðar í samræmi við lög heimalandsins og fjárfestingar sem eru gerðar í samræmi við ákvæðin um þjónustuviðskipti og stofnsetningu í þessum kafla og sölu þessara fjárfestinga eða yfirfærslu til upprunalands fjármagnsins, svo og frjálsa flutninga hvers kyns hagnaðar sem af þessum fjárfestingum leiðir.

41. gr.
Undantekningar og verndarráðstafanir

1.     Ef svo ber til við sérstakar aðstæður að greiðslur og fjármagnsflutningar milli samningsaðilanna valda eða kunna að valda alvarlegum erfiðleikum við að framfylgja peningamála- eða gengisstefnu einhvers samningsaðila getur hlutaðeigandi samningsaðili gert verndarráðstafanir vegna fjármagnsflutninga sem eru bráðnauðsynlegir, þó ekki lengur en í eitt ár. Heimilt er að framlengja beitingu verndarráðstafana með því að endurinnleiða þær formlega.
2.     Samningsaðili, sem samþykkir verndarráðstafanirnar, skal þegar í stað tilkynna hinum samningsaðilanum um það og leggja fram eins skjótt og unnt er tímaáætlun um afnám þeirra.

42. gr.
Lokaákvæði

    Samningsaðilum ber að hafa samráð um að auðvelda fjármagnsflutninga sín á milli til að stuðla að því að markmiðum þessa samnings verði náð.

IV. ÞÁTTUR – SAMEIGINLEG ÁKVÆÐI
43. gr.
Skyldleiki við aðra alþjóðasamninga

    Í málefnum, sem falla undir þennan kafla, staðfesta samningsaðilar réttindi sín og skyldur samkvæmt þeim tvíhliða eða marghliða samningum sem þeir eru aðilar að.

44. gr.
Almennar undantekningar

    Ákvæði XIV. gr. og o-liðar XXVIII. gr. samningsins um þjónustuviðskipti eru hér með tekin upp í þennan samning og eru hluti hans.

45. gr.
Fjármálaþjónusta

1.     Af hálfu samningsaðila ríkir sá skilningur að ekki hafi verið gengist undir neinar skuldbindingar í fjármálaþjónustu. Til glöggvunar er fjármálaþjónusta skilgreind í 5. mgr. viðaukans um fjármálaþjónustu í samningnum um þjónustuviðskipti.
2.     Þrátt fyrir 1. mgr. munu samningsaðilar, tveimur árum eftir gildistöku þessa samnings, íhuga að bæta fjármálaþjónustunni við þennan kafla á gagnkvæmum grundvelli og tryggja heildarjafnvægi réttinda og skyldna.

IV. KAFLI
HUGVERKAVERND


46. gr.
Hugverkaréttindi

1.     Samningsaðilar skulu gera ráðstafanir til að veita og tryggja fullnægjandi og áhrifaríka vernd hugverkaréttinda án mismununar, þ.m.t. ráðstafanir til að vernda þessi réttindi gegn brotum, einkum eftirlíkingu og ólöglegri nýtingu, í samræmi við ákvæði þessarar greinar, XII. viðauka við þennan samning og þá alþjóðasamninga sem um getur í honum.

2.     Samningsaðilar skulu ekki veita ríkisborgurum annarra samningsaðila óhagstæðari meðferð en þeir veita eigin ríkisborgurum. Undanþágur frá þessari skyldu skulu veittar í samræmi við efnisleg ákvæði 3. og 5. gr. samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hugverkarétt í viðskiptum (sem nefnist hér á eftir samningurinn um hugverkarétt í viðskiptum). 6

3.     Samningsaðilar skulu ekki veita ríkisborgurum annarra samningsaðila óhagstæðari meðferð en þeir veita eigin ríkisborgurum. Undanþágur frá þessari skuldbindingu skulu vera í samræmi við efnisleg ákvæði samningsins um hugverkarétt í viðskiptum, einkum 4. og 5. gr. 6
4.     Samningsaðilar eru sammála um að endurskoða, að beiðni einhvers samningsaðilanna til sameiginlegu nefndarinnar þar að lútandi og með fyrirvara um samþykki hennar, ákvæðin í þessari grein og í XII. viðauka um vernd hugverkaréttinda með það í huga að auka þessa vernd enn frekar og koma í veg fyrir eða ráða bót á röskun í viðskiptum sem stafar af því hvernig verndun hugverkaréttinda er nú háttað.

V. KAFLI
OPINBER INNKAUP

47. gr.
Markmið

    Í samræmi við ákvæði þessa kafla skulu samningsaðilar tryggja árangursríka og gagnkvæma opnun markaða sinna fyrir opinber innkaup.


48. gr.
Gildissvið

1.     Þessi kafli gildir um öll lög, reglugerðir, reglur um málsmeðferð og starfshætti við hvers kyns opinber innkaup af hálfu stofnana samningsaðila á vörum 7 og þjónustu, þ.m.t. verk, með fyrirvara um þau skilyrði sem hver samningsaðili skilgreinir í XIII. og XIV. viðauka.
2.     Þessi kafli gildir ekki um:
a)    samninga sem boðnir eru út samkvæmt:
    i)    alþjóðlegum samningi og ætlaðir eru til sameiginlegar framkvæmdar eða nýtingar verkefnis af hálfu samningsaðilanna,
    ii)    alþjóðlegum samningi sem varðar setu herliðs, og
    iii)    tiltekinni verklagsreglu alþjóðastofnunar,






6     Litið er svo á að vísun í 2. og 3. mgr. 3. til 5. gr. samningsins um hugverkarétt í viðskiptum hafi þann tilgang að sýna fram á gildissvið þeirra að því er varðar ákvæðin um hugverk í þessum samningi.
7     Með hugtakinu „vörur“ er í þessum kafla átt við vörur sem flokkast í 1. til 97. kafla í samræmdu tollskránni.
b)    samkomulag án samnings og hvers konar aðstoð frá hinu opinbera og kaup sem eru gerð innan ramma áætlana um aðstoð eða samstarfsáætlana,

c)    samninga um:
    (i)    kaup eða leigu á landi, byggingum sem til eru fyrir eða öðrum fasteignum eða réttindum yfir slíku,
    ii)    kaup, þróun, framleiðslu eða samframleiðslu á dagskrárefni af hálfu útvarpsrekenda og samninga um útsendingartíma,

    iii)    gerðardóms- og sáttagerðarþjónustu,
    iv)    ráðningarsamninga, og
    v)    rannsóknir og þróun, að frátöldum samningum þar sem stofnanirnar bera allan kostnað við þá þjónustu sem um er að ræða og hafa einkarétt til að njóta góðs af árangrinum í starfsemi sinni,
d)    fjármálaþjónustu.
3.     Sérleyfissamningar um opinberar framkvæmdir, sem eru skilgreindir í 49. gr., skulu einnig falla undir þennan kafla eins og tilgreint er í XIII. og XIV. viðauka.
4.     Samningsaðila er óheimilt að undirbúa, leggja drög að eða gera innkaupasamning í því skyni að komast hjá þeim skuldbindingum sem felast í þessum kafla.

49. gr.
Skilgreiningar

    Í þessum kafla er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „stofnun“: stofnun sem fellur undir XIII. viðauka,
b)    „opinber innkaup“: ferli þegar hið opinbera fær til afnota eða kaupir vörur eða þjónustu eða sambland af hvoru tveggja til handa ríkinu sem hvorki er ætlað til sölu eða endursölu í hagnaðarskyni né heldur til nota við framleiðslu á vörum eða veitingu þjónustu í hagnaðarskyni eða til endursölu,
c)    „aukið frelsi“: ferli sem leiðir til þess að stofnun nýtur ekki einkaréttar eða sérstakra réttinda og sér eingöngu um að útvega vörur eða veita þjónustu á mörkuðum þar sem samkeppni er virk,

d)    „uppbætur“: skilyrði sem stofnun setur eða hefur tekið mið af áður en ferli vegna opinberra innkaupa hefst eða á meðan á því stendur, sem eru notuð til þess að stuðla að byggðaþróun eða bæta viðskiptajöfnuð þess samningsaðila með kröfum um að innihald skuli upprunnið á staðnum, um leyfi fyrir tækni, um fjárfestingar, um gagnkvæm kaup eða svipuðum kröfum,
e)    „einkavæðing“: ferli sem leiðir til þess að stofnun heyrir ekki lengur undir hið opinbera, hvort sem um er að ræða opinbert útboð á hlutabréfum stofnunarinnar eða annað, eins og ráð er fyrir gert í gildandi löggjöf samningsaðila,

f)    „opinber verksamningur“: samningur sömu tegundar og opinberir innkaupasamningar, að því undanskildu að þóknun fyrir verk, sem á að vinna, felst annaðhvort eingöngu í réttinum til að hagnýta bygginguna eða í þeim rétti ásamt greiðslu,
g)    „birgir“: einstaklingur eða lögaðili sem lætur eða getur látið stofnun í té vörur eða þjónustu,

h)    „tækniforskriftir“: forskrift þar sem lýst er eiginleikum vörunnar eða þjónustunnar sem boðin verður út, svo sem gæðum, skilum, öryggi og stærðum, táknum, hugtakanotkun, pökkun, merkingum og merkimiðum, eða vinnsluferlum og framleiðsluaðferðum, og kröfum um verklagsreglur við samræmismat sem innkaupastofnanir gera kröfur um, og

i)    „bjóðandi“: birgir sem hefur gert tilboð.


50. gr.
Innlend meðferð og bann við mismunun

1.     Hver samningsaðili skal, með tilliti til laga, reglugerða, reglna um málsmeðferð og venju að því er varðar opinber innkaup sem falla undir þennan kafla, ekki veita vörum, ýmiss konar þjónustu og birgjum annars samningsaðila óhagstæðari meðferð en hann veitir innlendum vörum, þjónustu og birgjum.
2.     Hver samningsaðili skal, með tilliti til laga, reglugerða, reglna um málsmeðferð og venju að því er varðar opinber innkaup sem falla undir þennan kafla, sjá til þess:
a)    að stofnanir hans veiti ekki birgjum með staðfestu í landinu óhagstæðari meðferð en öðrum staðbundnum birgjum á grundvelli umfangs erlendra eignatengsla við einstakling hjá öðrum samningsaðila eða eignarhald hans, og
b)    að stofnanir hans mismuni ekki birgjum á grundvelli þess að vörur eða þjónusta frá viðkomandi birgi fyrir tiltekin opinber innkaup séu vörur eða þjónusta frá öðrum samningsaðila.

3.     Ákvæði þessarar greinar gilda ekki um ráðstafanir varðandi tolla og hvers konar gjöld sem lögð eru á innflutning eða í tengslum við innflutning, um aðferðir til álagningar slíkra tolla og gjalda, um aðrar innflutningsreglur, þ.m.t. takmarkanir og formsatriði, eða um ráðstafanir sem hafa áhrif á þjónustuviðskipti, aðrar en ráðstafanir sem varða opinber innkaup og heyra undir þennan kafla.

51. gr.
Bann við uppbótum

    Samningsaðili skal sjá til þess að stofnanir hans sækist hvorki eftir, beiti né taki mið af uppbótum við mat á hæfi birgja eða mat á gæðum vöru og þjónustu og val á þeim eða við mat á tilboðum og gerð samninga.

52. gr.
Matsreglur

1.     Stofnanir skulu hvorki rifta opinberum innkaupum né beita öðrum aðferðum við mat á samningi í því skyni að komast hjá beitingu þessa kafla, þegar ákvarðað er hvort samningur fellur undir verklagsreglur hans, með fyrirvara um þau skilyrði sem sett eru í XIII. og XIV. viðauka.
2.     Við útreikning á verðmæti samnings skal stofnun taka mið af öllu endurgjaldi, þ.m.t. bónusgreiðslur, þóknanir, umboðslaun og vaxtatekjur, auk leyfilegrar hámarksfjárhæðar, þ.m.t. valfrjáls ákvæði sem kveðið er á um í samningnum.
3.     Ef ekki er unnt að reikna út nákvæmt verðmæti samningsins fyrir fram, sökum þess hvers eðlis hann er, skulu stofnanir meta verðmætið á grundvelli hlutlægrar viðmiðunar.

53. gr.
Gagnsæi

1.     Hver samningsaðili skal þegar í stað birta lög, reglugerðir, dómsúrskurði, stjórnsýsluákvarðanir, sem hafa almennt gildi, og allar reglur um málsmeðferð, þ.m.t. stöðluð samningsákvæði, við opinber innkaup, sem falla undir þennan kafla, í viðeigandi riti sem um getur í 2. viðbæti XIV. viðauka, þ.m.t. opinberlega tilnefndir rafrænir miðlar.
2.     Hver samningsaðili skal þegar í stað birta með sama hætti allar breytingar á slíkum ráðstöfunum.

54. gr.
Útboðsaðferðir

1.     Við útboð og gerð samninga skulu stofnanir hafa almennt útboð eða útboð með forvali, allt eftir innlendum reglum, í samræmi við ákvæði þessa kafla og án mismununar.
2.     Í þessum kafla er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „almenn útboð“: útboð þar sem öllum birgjum sem áhuga hafa er heimilt að gera tilboð,

b)    „útboð með forvali“: útboð þar sem birgjum, sem boðið er að gera tilboð í samræmi við 55. gr. og önnur viðeigandi ákvæði þessa kafla, er því aðeins heimilt að gera tilboð að þeir fullnægi hæfniskröfum viðkomandi stofnana.

3.     Í sérstökum tilvikum og einungis með skilyrðum, sem eru sett í 56. gr., er stofnunum þó heimilt að nota aðra aðferð en almennt útboð eða útboð með forvali, sem um getur í 1. mgr., og geta þær þá valið að auglýsa ekki fyrirhuguð opinber innkaup heldur geta þær sett sig í samband við birgja að eigin vali og samið við einn þeirra eða fleiri um skilmálana.

4.     Stofnanir skulu fara með tilboð sem trúnaðarmál. Einkum og sér í lagi skulu þær ekki veita upplýsingar sem ætlaðar eru til þess að aðstoða tiltekna þátttakendur við að lagfæra tilboð sín þannig að þau verði jafngóð tilboðum annarra þátttakenda.

55. gr.
Útboð með forvali

1.     Við útboð með forvali er stofnunum heimilt að takmarka fjölda hæfra birgja sem gera tilboð, í samræmi við skilvirka framkvæmd útboðsins, að því tilskildu að þær velji sem flesta innlenda birgja og birgja annarra samningsaðila, með sanngjörnum hætti og án mismununar, á grundvelli viðmiðana sem eru tilgreindar í tilkynningu um fyrirhuguð opinber innkaup eða í útboðsgögnum.

2.     Stofnanir, sem halda varanlegar skrár um hæfi birgja, mega velja birgja úr hópi þeirra sem eru skráðir til að gera tilboð, með þeim skilyrðum sem gert er ráð fyrir í 7. mgr. 57. gr. Við allt val skal gert ráð fyrir sanngjörnum tækifærum allra birgja í skránum.

56. gr.
Aðrar aðferðir

1.     Að því tilskildu að útboðsaðferð sé ekki notuð í þeim tilgangi að koma í veg fyrir hámarkssamkeppni eða til að vernda innlenda birgja mega stofnanir bjóða út samninga með öðrum aðferðum en almennu útboði eða útboði með forvali við eftirfarandi aðstæður og með eftirfarandi skilyrðum eftir því sem við á:
a)    þegar engin viðeigandi tilboð eða umsóknir um þátttöku berast í kjölfar undangenginna opinberra innkaupa, enda sé kröfum upphaflegra innkaupa ekki breytt efnislega,

b)    þegar einungis tiltekinn birgir getur uppfyllt samning af tæknilegum eða listrænum ástæðum eða þegar um vernd einkaréttar er að ræða og ekki gefst neinn annar raunhæfur valkostur,

c)    þegar um er að ræða knýjandi aðstæður sem leiðir af atburðum sem stofnunin gat ekki séð fyrir og ekki var hægt að fá vöruna eða þjónustuna tímanlega með opnu útboði eða útboði með forvali,
d)    þegar um er að ræða viðbótarafgreiðslu á vöru eða þjónustu frá upphaflegum birgi þar sem skipti á birgi hefðu í för með sér að stofnunin yrði að kaupa búnað eða þjónustu sem uppfyllir ekki kröfur um skiptihæfi við tækjabúnað, hugbúnað eða þjónustu sem fyrir er,
e)    þegar stofnun kaupir frumgerð eða fyrstu vöru eða þjónustu sem þróuð er að beiðni viðkomandi stofnunar í tengslum við tiltekinn samning um rannsókn, tilraun, athugun eða frumþróun,

f)    þegar viðbótarþjónusta, sem ekki fólst í upphaflega samningnum en var eitt af markmiðunum í upphaflegu útboðsgögnunum, hefur af ófyrirsjáanlegum ástæðum orðið nauðsynleg til þess að ljúka þjónustunni sem þar er lýst. Hins vegar má heildarverðmæti samninga, sem gerðir eru vegna viðbótarbyggingarþjónustunnar, ekki fara yfir 50% af andvirði meginsamningsins,

g)    þegar um er að ræða nýja þjónustu sem felst í endurtekningu á annarri svipaðri þjónustu þar sem aðilinn gaf til kynna í auglýsingunni um upphaflegu þjónustuna að takmarkað útboð kynni að vera notað við gerð samninga um slíka nýja þjónustu,
h)    þegar um er að ræða samninga sem gerðir eru við sigurvegara í hönnunarsamkeppni, enda hafi hönnunarsamkeppnin verið með skipulagi sem samrýmist grundvallarreglum þessa kafla. Hafi nokkrum þátttakendum í samkeppninni orðið vel ágengt skal þeim öllum boðið að taka þátt í samningaviðræðunum, og
i)    þegar um er að ræða skráða vöru, sem keypt er á hrávörumarkaði, og innkaup, sem gerð eru við sérlega hagstæðar aðstæður sem einungis koma upp til mjög skamms tíma þegar um er að ræða óvenjulegar ráðstafanir, en ekki að því er varðar venjubundin kaup af reglulegum birgjum.
2.     Samningsaðilar skulu sjá til þess að, hvenær sem stofnanir þurfa að beita annarri aðferð en almennu útboði eða útboði með forvali á grundvelli aðstæðna sem settar eru fram í 1. mgr., haldi stofnanirnar skrá eða semji skriflega skýrslu með sérstökum rökum um samning sem er boðinn út samkvæmt þeirri málsgrein.

57. gr.
Hæfi birgja

1.     Hvers kyns skilyrði fyrir þátttöku í útboðum skulu takmarkast við skilyrði sem eru óhjákvæmileg til þess að tryggja getu birgis til þess að uppfylla kröfur um opinber innkaup og viðkomandi samning.

2.     Þegar stofnanir ákvarða hæfi birgja skulu þær ekki gera greinarmun á birgjum í eigin landi og birgjum hjá öðrum samningsaðilum.
3.     Samningsaðila er óheimilt að setja það skilyrði fyrir þátttöku birgis í opinberum innkaupum að við birginn hafi áður verið gerður einn eða fleiri samningar af hálfu stofnunar þess samningsaðila eða að birgirinn hafi starfsreynslu á yfirráðasvæði þess samningsaðila.
4.     Stofnanir skulu viðurkenna sem hæfa birgja þá sem uppfylla þátttökuskilyrði í tilteknum, fyrirhuguðum innkaupum. Stofnanir skulu eingöngu grundvalla ákvarðanir sínar um hæfi á þeim þátttökuskilyrðum sem eru skilgreind fyrir fram í tilkynningum eða útboðsgögnum.
5.     Ekkert í þessum kafla kemur í veg fyrir að birgir verði útilokaður af ástæðum á borð við gjaldþrot, rangar yfirlýsingar eða dóm fyrir alvarleg lagabrot á borð við þátttöku í ólögmætum samtökum.
6.     Stofnanir skulu þegar í stað tilkynna birgjum, sem sótt hafa um mat á hæfi, um ákvörðun sína þar að lútandi.
Varanlegar skrár yfir hæfa birgja
7.     Stofnunum er heimilt að halda varanlegar skrár yfir hæfa birgja, að því tilskildu að eftirfarandi reglum sé hlítt:
a)    Stofnanir, sem halda varanlegar skrár, skulu tryggja að birgjar geti sótt um að teljast hæfir hvenær sem er,
b)    birgir, sem sótt hefur um að teljast hæfur birgir, skal upplýstur um ákvarðanir þar að lútandi af viðkomandi stofnun,
c)    birgjar, sem óska eftir að taka þátt í tilteknu, fyrirhuguðu útboði en eru ekki í varanlegu skránni yfir hæfa birgja, skulu einnig eiga þess kost að taka þátt í opinberum innkaupum með því að leggja fram jafngild vottorð og aðrar sannanir sem krafist er af birgjum sem eru í skránni,

d)    þegar stofnun í veitugeiranum notar tilkynningu um varanlega skrá sem tilkynningu um fyrirhuguð, opinber innkaup, eins og kveðið er á um í 6. mgr. 5. viðbætis við XIV. viðauka, skulu birgjar, sem óska eftir að taka þátt í útboði en eru ekki tilgreindir í varanlegu skránni yfir hæfa birgja, einnig koma til álita í fyrirhuguðum innkaupum, enda gefist nægur tími til þess að ljúka hæfisferlinu. Í því tilviki skal stofnunin þegar í stað hefja hæfisferlið og ferlið og tímann, sem þarf til að viðurkenna hæfi, skal ekki nota í þeim tilgangi að halda birgjum annarra aðila utan birgjaskráa.


58. gr.
Birting tilkynninga

Almenn ákvæði
1.     Hver samningsaðili skal tryggja að stofnanir hans sjái til þess að upplýsingum um útboð og þá möguleika, sem skapast í viðkomandi opinberu innkaupaferli, sé miðlað á skilvirkan hátt og að birgjar hjá öðrum samningsaðila fái allar upplýsingar sem eru nauðsynlegar fyrir þátttöku í slíkum innkaupum.
2.     Að því er varðar hvern samning sem fellur undir þennan kafla, sbr. þó 3. mgr. 54. gr. og 56. gr., skulu stofnanir birta tilkynningu fyrir fram þar sem áhugasömum birgjum er boðið að gera tilboð, eða ef við á, leggja fram umsókn um þátttöku í viðkomandi samningi.
3.     Í hverri tilkynningu um fyrirhuguð innkaup skulu vera a.m.k. eftirfarandi upplýsingar:
a)    heiti, heimilisfang, bréfsímanúmer, tölvupóstfang stofnunar og, ef við á, heimilisfang þar sem hægt er að nálgast öll skjöl varðandi innkaupin,

b)    útboðsaðferð sem valin er og form samningsins,

c)    lýsing á fyrirhuguðum innkaupum ásamt þeim kröfum í samningnum sem nauðsynlegt er að standast,
d)    öll skilyrði sem birgjar verða að uppfylla fyrir þátttöku í innkaupunum,
e)    skilafrestur tilboða og annar frestur ef við á,

f)    helstu viðmiðanir sem stuðst verður við þegar ákvörðun er tekin um gerð samnings, og
g)    greiðsluskilmálar og aðrir skilmálar ef unnt er.

Sameiginleg ákvæði

4.     Allan þann tíma, sem útboð vegna viðkomandi innkaupa stendur yfir, skal vera hægt að nálgast hverja þá tilkynningu sem um getur í þessari grein og 5. viðbæti við XIV. viðauka.
5.     Stofnanir skulu birta tilkynningar tímanlega með því að nota úrræði sem veita áhugasömum birgjum hjá samningsaðilunum sem víðtækastan aðgang án mismununar. Aðgangur að úrræðum þessum skal vera ókeypis á einum þjónustustað sem er tilgreindur í 2. viðbæti við XIV. viðauka.

59. gr.
Útboðsgögn

1.     Í útboðsgögnum, sem birgjum eru afhent, skulu vera allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til þess að gera þeim kleift að gera tilboð.
2.     Ef samningsstofnanir bjóða ekki ókeypis beinan, rafrænan aðgang að öllum útboðsgögnum og öllum viðbótargögnum skulu stofnanir þegar í stað hafa útboðsgögnin tiltæk, að beiðni hvaða birgis hjá samningsaðilunum sem er.
3.     Stofnanir skulu þegar í stað svara öllum sanngjörnum óskum um viðeigandi upplýsingar sem varða fyrirhuguð innkaup, enda veiti slíkar upplýsingar viðkomandi birgi ekki forskot gagnvart samkeppnisaðilum hans í útboðsferlinu.

60. gr.
Tækniforskriftir

1.     Setja skal tækniforskriftir fram í tilkynningum, útboðsgögnum eða viðbótargögnum.
2.     Hver samningsaðili skal sjá til þess að stofnanir hans taki ekki saman, samþykki eða noti neinar tækniforskriftir í þeim tilgangi eða með þeim afleiðingum að þær valdi óþörfum hindrunum í viðskiptum milli samningsaðilanna.
3.     Tækniforskriftir, sem innkaupsaðilar gera kröfur um, skulu:
a)    varða skil og virkni fremur en hönnun eða lýsandi eiginleika, og

b)    byggjast á alþjóðastöðlum, ef til eru, eða annars á innlendum, tæknilegum reglugerðum, 8 viðurkenndum landsstöðlum 9 eða byggingarreglugerðum.
4.     Ákvæði 3. mgr. gilda ekki þegar stofnunin getur sýnt fram á það á hlutlægan hátt að tækniforskriftir, sem um getur í þeirri málsgrein, séu ófullnægjandi eða óheppileg tæki til að ná þeim lögmætu markmiðum sem stefnt er að.




8     Með hugtakinu „tæknileg reglugerð“ er í þessum kafla átt við skjal þar sem lýst er eiginleikum vöru, þjónustu eða vinnsluferlum og framleiðsluaðferðum sem tengjast þeim, þ.m.t. gildandi stjórnsýsluákvæði, sem skylt er að fylgja. Hún getur enn fremur náð yfir eða fjallað eingöngu um hugtakanotkun, tákn, pökkun, merkingar eða merkimiða sem skylt er að nota í tengslum við vöru, þjónustu, vinnsluferli eða framleiðsluaðferð.

9     Með hugtakinu „staðall“ er í þessum kafla átt við skjal sem viðurkenndur aðili hefur samþykkt, þar sem kveðið er á um, til sameiginlegrar og endurtekinnar beitingar, reglur, viðmiðunarreglur eða eiginleika að því er varðar vöru, þjónustu eða vinnsluferli og framleiðsluaðferðir sem tengjast þeim, sem skylt er að fylgja. Hann getur enn fremur náð yfir eða fjallað eingöngu um hugtakanotkun, tákn, pökkun, merkingar eða merkimiða sem skylt er að nota í tengslum við vöru, þjónustu, vinnsluferli eða framleiðsluaðferð.

5.     Í öllum tilvikum skulu stofnanir taka til greina tilboð sem samræmast ekki tækniforskriftum en standast grundvallarkröfur og skila tilætluðum árangri. Í útboðsgögnum verður vísun í tækniforskriftir að innihalda orð í líkingu við „eða sambærilegt“.
6.     Ekki skulu vera kröfur um eða tilvísanir í tiltekin vörumerki eða viðskiptaheiti, einkaleyfi, hönnun eða tegund, tiltekinn uppruna, framleiðanda eða birgi, nema ekki sé fyrir hendi nægilega nákvæm eða skiljanleg leið til þess að lýsa útboðsskilmálum, enda sé jafnframt tekið fram „eða sambærilegt“ í útboðsgögnum.
7.     Á bjóðanda hvílir sönnunarbyrði þess efnis að sýna fram á að tilboð hans standist grundvallarkröfur.

61. gr.
Frestur

1.     Skilafrestur tilboða og umsókna um þátttöku til stofnana skal vera nægur til þess að birgjar hjá öðrum samningsaðila, sem og birgjar í heimalandi, geti undirbúið og skilað inn tilboðum og, eftir því sem við á, umsóknum um þátttöku eða um að teljast hæfir. Þegar frestur er ákveðinn skulu stofnanir, að teknu tilliti til eigin þarfa eins og sanngjarnt er, taka mið af atriðum á borð við það hversu flókið útboð er og eðlilegum sendingartíma tilboða bæði frá útlöndum og innanlands.

2.     Hver samningsaðili skal tryggja að stofnanir hans taki tillit til tafa sem verða á birtingu þegar ákveðinn er lokafrestur til að skila tilboðum eða umsóknum um þátttöku eða um að teljast hæfir til að verða teknir upp í birgjaskrána.
3.     Lágmarksskilafrestur tilboða er tilgreindur í 3. viðbæti við XIV. viðauka.

62. gr.
Viðræður

1.     Samningsaðili getur kveðið á um að aðilar geti átt í viðræðum:
a)    í tengslum við innkaup þar sem greint hefur verið frá því að slíkt sé ætlunin í auglýsingunni um fyrirhugað útboð, eða
b)    þegar mat leiðir í ljós að ekkert eitt tilboð er augljóslega hagstæðast í ljósi þeirra matsviðmiðana sem settar voru fram í auglýsingunum eða útboðsgögnunum.
2.     Viðræðum er umfram allt ætlað að leiða í ljós styrk og veikleika tilboða.
3.     Stofnanir skulu ekki mismuna birgjum í viðræðunum. Einkum og sér í lagi skulu þær tryggja:

a)    að öll útilokun þátttakenda verði í samræmi við viðmiðanir í auglýsingum og útboðsgögnum,

b)    að allar breytingar á viðmiðunum og tæknikröfum séu sendar skriflega til allra annarra þátttakenda í viðræðunum,
c)    að á grundvelli endurskoðunar, sem gerð hefur verið á kröfum og/eða að viðræðum loknum, sé öllum öðrum þátttakendum gefið tækifæri til þess að skila inn nýjum eða breyttum tilboðum innan tiltekins frests.

63. gr.
Innsending, móttaka og opnun tilboða

1.     Tilboð og umsóknir um þátttöku skulu vera skrifleg.
2.     Stofnanir skulu taka við og opna tilboð frá bjóðendum samkvæmt málsmeðferð og skilyrðum sem tryggja að meginreglunum um gagnsæi og bann við mismunun sé hlítt.

64. gr.
Val tilboða

1.     Til að koma til greina við val á tilboði verður tilboð, á opnunartíma tilboða, að samrýmast grundvallarkröfum í útboðsauglýsingum eða útboðsgögnum og vera frá birgi sem uppfyllir skilyrði fyrir þátttöku.
2.     Stofnanir skulu semja við þann bjóðanda sem á annaðhvort lægsta tilboð eða það tilboð sem telst hagstæðast í ljósi þeirra tilteknu matsviðmiðana sem settar voru fram í auglýsingunum eða útboðsgögnunum.


65. gr.
Upplýsingar um samningsgerð

1.     Hver samningsaðili skal sjá til þess að stofnanir hans láti fara fram skilvirka dreifingu niðurstaðna úr opinberu innkaupaferli.
2.     Stofnanir skulu þegar í stað tilkynna bjóðendum um ákvarðanir er varða samningsgerð og um eiginleika og kosti tilboðsins, sem var tekið, í samanburði við önnur tilboð. Samkvæmt beiðni skulu stofnanir veita bjóðanda, sem ekki var valinn, viðeigandi upplýsingar um ástæður þess að tilboði hans var ekki tekið.
3.     Stofnunum er heimilt að ákveða að synja um tilteknar upplýsingar um val tilboða ef birting slíkra upplýsinga gæti hindrað framkvæmd laga eða væri á annan hátt andstæð almannahagsmunum eða gæti skaðað lögmæta viðskiptahagsmuni birgja eða réttmæta samkeppni milli þeirra.


66. gr.
Útboð vefengt

1.     Ef birgjar kæra meint brot á ákvæðum þessa kafla í tengslum við innkaup skulu stofnanir bregðast við kvörtunum þeirra tímanlega og á hlutlausan hátt.

2.     Hver samningsaðili skal kveða á um málsmeðferð sem felur ekki í sér mismunun, er skjótvirk, gagnsæ og skilvirk og gerir birgjum kleift að kæra meint brot á ákvæðum þessa kafla í tengslum við innkaup þar sem þeir eiga eða hafa átt hagsmuna að gæta.
3.     Kærumál skulu flutt fyrir dómstóli eða fyrir óvilhöllum og óháðum úrskurðaraðila. Úrskurðaraðili, sem ekki er dómstóll, skal annaðhvort háður endurskoðun dómstóla eða starfa samkvæmt svipuðum málsmeðferðarreglum.
4.     Í málsmeðferðarreglum um kærumál skal kveða á um:
a)    skjótvirkar bráðabirgðaráðstafanir til að leiðrétta brot á ákvæðum þessa kafla og vernda viðskiptatækifæri. Slíkar aðgerðir geta leitt til frestunar á innkaupaferlinu. Hins vegar má kveða á um það í málsmeðferðarreglum að taka megi tillit til neikvæðra afleiðinga sem vega þyngra að því er varðar þá hagsmuni sem um er að ræða, þ.m.t. almannahagsmuni, þegar ákvörðun er tekin um hvort slíkum ráðstöfunum er beitt, og
b)    ef við á, leiðréttingu á broti á ákvæðum þessa kafla eða, ef ekki er um slíka leiðréttingu að ræða, bætur fyrir tap eða tjón, sem af hefur hlotist, sem getur takmarkast við kostnað af undirbúningi tilboðs og kæru.

67. gr.
Upplýsingatækni og samstarf

1.     Samningsaðilar skulu, eftir því sem unnt er, leitast við að nota rafrænar aðferðir við skilvirka miðlun upplýsinga um opinber innkaup, einkum um tækifæri sem stofnanir veita til að gera tilboð, en virða um leið meginreglurnar um gagnsæi og bann við mismunun.

2.     Samningsaðilar skulu leitast við að veita hver öðrum tæknilega aðstoð, einkum að því er varðar lítil og meðalstór fyrirtæki, með það í huga að auka skilning á því fyrirkomulagi sem er haft við opinber innkaup og á tölfræðilegum upplýsingum um opinber innkaup, auk betri aðgangs að mörkuðum hvers og eins.

68. gr.
Breytingar á gildissviði

1.     Samningsaðila er heimilt að breyta gildissviði sínu samkvæmt þessum kafla svo fremi hann:
a)    tilkynni hinum samningsaðilunum um breytinguna, og
b)    veiti hinum samningsaðilunum, innan 30 daga eftir að þetta er tilkynnt, viðeigandi bætur á því gildissviði til þess að viðhalda gildissviði sambærilegu því sem var fyrir breytinguna.

2.     Þrátt fyrir b-lið 1. mgr. skal samningsaðili ekki veita hinum samningsaðilunum bætur ef breyting hans á gildissviði sínu samkvæmt þessum kafla varðar:
a)    leiðréttingar sem eru einungis formlegs eðlis eða minni háttar breytingar á XIII. og XIV. viðauka,
b)    eina eða fleiri stofnanir þar sem ríkisumsjá eða ríkisáhrifum hefur í raun verið aflétt í kjölfar einkavæðingar eða aukins frelsis.

3.     Ef samningsaðilar eru sammála um breytinguna skal sameiginlega nefndin koma henni í framkvæmd með því að breyta viðkomandi viðauka.

69. gr.
Frekari viðræður

    Ef samningsaðili býður þriðja aðila síðar meir aukinn ávinning varðandi aðgang að markaði fyrir opinber innkaup með tilliti til þess gildissviðs sem samþykkt er með þessum kafla skal hann, að beiðni annars samningsaðila, samþykkja að hefja frekari samningaviðræður um gagnkvæma víkkun gildissviðs samkvæmt þessum kafla.

70. gr.
Undantekningar

    Að því tilskildu að ráðstöfunum sé ekki beitt eins og um væri að ræða geðþóttabundna eða óréttlætanlega mismunun samningsaðila eða duldar takmarkanir á viðskipti milli þeirra skal ekkert í þessum kafla túlkað svo að það komi í veg fyrir að samningsaðili samþykki eða haldi í gildi ráðstöfunum sem eru nauðsynlegar til þess að vernda:
a)    almennt siðgæði, allsherjarreglu eða öryggi,
b)    líf, heilsu eða öryggi manna,
c)    líf eða heilbrigði dýra eða plantna,
d)    hugverk, eða
e)    í tengslum við vöru eða þjónustu fatlaðra eða góðgerðarstofnana eða afrakstur af fangelsisvinnu.

71. gr.
Endurskoðun og framkvæmd

1.     Sameiginlega nefndin skal endurskoða framkvæmd á ákvæðum þessa kafla á tveggja ára fresti, nema samningsaðilar ákveði annað; hún skal fjalla um öll málefni sem upp koma í kjölfar framkvæmdarinnar og grípa til viðeigandi aðgerða þegar hún gegnir störfum sínum.
2.     Að beiðni eins samningsaðila skulu samningsaðilar kveðja saman tvíhliða starfshóp til að fjalla um framkvæmd á ákvæðum þessa kafla. Þar er m.a. fjallað um:
a)    tvíhliða samstarf í tengslum við þróun og notkun rafrænna fjarskipta í opinberum innkaupum,

b)    skipti á tölfræðilegum upplýsingum og öðrum nauðsynlegum upplýsingum, sem gera kleift að fylgjast með opinberum innkaupum samningsaðila og árangri af beitingu ákvæða þessa kafla, og
c)    könnun á mögulegum áhuga á frekari samningaviðræðum til að víkka enn frekar gildissvið skuldbindinga um markaðsaðgang samkvæmt þessum kafla.

VI. KAFLI
STEFNA Í SAMKEPPNISMÁLUM

72. gr.
Markmið

1.     Samningsaðilar viðurkenna að samkeppnishamlandi starfshættir fyrirtækis kunna að hindra ávinning af þessum samningi.
2.     Samningsaðilar skuldbinda sig til beita samkeppnislögum sínum á þann hátt sem samræmist þessum kafla þannig að ekki sé dregið úr ávinningi sem fylgir auknu frelsi í viðskiptum með vörur og þjónustu, sem kveðið er á um í þessum samningi, eða hann gerður að engu með samkeppnishamlandi starfsháttum fyrirtækja. 10 Til að auðvelda þetta samþykkja samningsaðilar að starfa saman með samræmdum hætti samkvæmt ákvæðum þessa kafla. Samstarf þetta tekur til tilkynninga, samráðs og upplýsingaskipta.
3.     Hugtakið „samkeppnishamlandi starfshættir fyrirtækis“ í þessum samningi felur í sér en takmarkast þó ekki við samkeppnishamlandi samninga, samstilltar aðgerðir eða framkvæmd samkeppnisaðila, misnotkun eins fyrirtækis á yfirburðastöðu á markaði eða misnotkun á sameiginlegri yfirburðastöðu fyrirtækja á markaði og samruna sem hefur umtalsverð samkeppnishamlandi áhrif. Þessar aðgerðir eiga við um vörur og þjónustu og til þeirra kunna einkafyrirtæki og opinber fyrirtæki að grípa.






10     Með hugtakinu „vörur“ er í þessum kafla átt við vörur sem flokkast í 1. til 97. kafla í samræmdu tollskránni.

4.     Samningsaðilar viðurkenna mikilvægi meginreglna í samkeppni, sem eru viðurkenndar á marghliða vettvangi þar sem samningsaðilar eru annaðhvort þátttakendur eða áheyrnarfulltrúar, þ.m.t. er meginreglan um bann við mismunun, meginreglan um tilhlýðilega málsmeðferð og meginreglan um gagnsæi.

73. gr.
Tilkynningar

1.     Hver samningsaðili skal, fyrir milligöngu yfirvalds sem hann tilnefnir, tilkynna hinum samningsaðilunum um aðgerð til að framfylgja samkeppnislögum varðandi samkeppnishamlandi starfshætti fyrirtækis í tengslum við vörur og þjónustu ef líkur eru á að hún hafi umtalsverð áhrif á mikilvæga hagsmuni annars samningsaðila eða líkur eru á að þessir samkeppnishamlandi starfshættir hafi bein og umtalsverð áhrif á yfirráðasvæði þess sama samningsaðila eða þeir eiga sér einkum stað á yfirráðasvæði þess sama samningsaðila.
2.     Að því tilskildu að það stríði ekki gegn samkeppnislögum samningsaðilanna eða hafi áhrif á yfirstandandi rannsóknir skal send út tilkynning snemma á málsmeðferðarferlinu.
3.     Tilkynningarnar, sem kveðið er á um í 1. mgr., skulu vera nógu nákvæmar til að fram geti farið mat með tilliti til hagsmuna hinna samningsaðilanna.

74. gr.
Samræming á aðgerðum til að
framfylgja samkeppnislögum

    Hver samningsaðili getur, fyrir milligöngu yfirvalds sem hann tilnefnir, tilkynnt öðrum samningsaðila að hann sé þess fús að samræma aðgerðir til að framfylgja samkeppnislögum í sérstöku tilviki. Þessi samræming kemur ekki í veg fyrir að samningsaðilar geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir.

75. gr.
Samráð

1.     Hver samningsaðili skal, í samræmi við lög sín, taka tillit til mikilvægra hagsmuna hinna samningsaðilanna þegar hann grípur til aðgerða gegn samkeppnishamlandi starfsháttum fyrirtækis í tengslum við vörur og þjónustu. Ef samningsaðili telur að rannsókn eða málsmeðferð, sem annar samningsaðili stendur fyrir, kunni að skaða mikilvæga hagsmuni þess samningsaðila er honum heimilt að koma áliti sínu á málinu á framfæri við hann fyrir milligöngu yfirvalds sem hann tilnefnir. Með fyrirvara um rétt hans til löglegra aðgerða samkvæmt eigin samkeppnislögum og fullt frelsi til að taka endanlega ákvörðun skal samningsaðilinn, sem málinu er beint til, fjalla ítarlega og af velvilja um álitið sem látið var í ljós.
2.     Ef samningsaðili telur að samkeppnishamlandi starfshættir fyrirtækis, sem eiga sér stað á yfirráðasvæði annars samningsaðila, kunni að skaða hagsmuni hans er fyrrnefnda samningsaðilanum heimilt, fyrir milligöngu yfirvalds sem hann tilnefnir, að fara fram á að hinn samningsaðilinn hefji viðeigandi aðgerðir til að framfylgja samkeppnislögum. Beiðnin skal vera eins nákvæm og unnt er og varða eðli hinna samkeppnishamlandi starfshátta fyrirtækisins og áhrif þeirra á hagsmuni þess samningsaðila sem leggur beiðnina fram og skulu henni fylgja boð um nánari upplýsingar og aðra aðstoð sem samningsaðilinn, sem leggur beiðnina fram, er fær um að veita. Samningsaðili, sem beiðni er beint til, skal íhuga vandlega hvort rétt sé að hefja aðgerðir til að framfylgja samkeppnislögum eða víkka út yfirstandandi aðgerðir með tilliti til þeirra samkeppnishamlandi starfshátta fyrirtækis sem lýst er í beiðninni.
3.     Að því er varðar málefni sem fjallað er um í 1. og 2. mgr. skuldbindur hver samningsaðili sig til að miðla upplýsingum um þau viðurlög og úrræði sem beitt er og til að færa rök fyrir beitingu þeirra, fari annar samningsaðili fram á slíkt.
4.     Samningsaðili getur farið fram á að efnt verði til samráðs innan sameiginlegu nefndarinnar um málefni, sem fjallað er um í 1. og 2. mgr., auk annarra málefna sem falla undir þennan kafla. Í slíkri beiðni skulu raktar ástæður fyrir beiðninni og tilgreint hvort nauðsynlegt sé að hraða samráðinu vegna tímatakmarkana við málsmeðferð eða annarra takmarkana.

76. gr.
Skipti á upplýsingum og trúnaðarkvöð

1.     Samningsaðilar eru hvattir til að skiptast á upplýsingum til að greiða fyrir skilvirkri beitingu samkeppnislaga sinna í þeim tilgangi að gera að engu neikvæð áhrif samkeppnishamlandi viðskiptahátta fyrirtækis í tengslum við vörur og þjónustu.
2.     Öll skipti á upplýsingum skulu lúta reglum og stöðlum um trúnaðarkvöð sem gilda á yfirráðasvæði hvers samningsaðila. Enginn samningsaðili er skuldbundinn til að veita upplýsingar ef það gengur þvert á lög hans sjálfs um afhendingu upplýsinga. Hver samningsaðili skal uppfylla trúnaðarkvöð þeirra upplýsinga sem honum eru veittar með þeim takmörkunum sem samningsaðilinn, sem leggur fram upplýsingarnar, krefst vegna notkunar þeirra. Heimilt er að veita viðkomandi dómstólum trúnaðarupplýsingar ef lög samningsaðila kveða á um það.

77. gr.
Opinber fyrirtæki og fyrirtæki
sem fá sér- eða einkaréttindi,
einnig einkasölu

1.     Að því er varðar opinber fyrirtæki og fyrirtæki sem hafa fengið sér- eða einkaréttindi skulu samningsaðilar sjá til þess að engin ráðstöfun sé samþykkt eða haldið í gildi ef hún raskar viðskiptum með vörur eða þjónustu milli samningsaðilanna að því leyti sem stríðir gegn hagsmunum samningsaðilanna og að slík fyrirtæki lúti samkeppnisreglum að því marki sem beiting slíkra reglna hindrar ekki, að lögum eða í reynd, framkvæmd opinberra verkefna sem þeim eru fengin.
2.     Samningsaðilar staðfesta réttindi sín og skyldur skv. XVII. gr. GATT-samningsins frá 1994 og VIII. gr. samningsins um þjónustuviðskipti að því er varðar fyrirtæki sem um getur í 1. mgr.

78. gr.
Lausn deilumála

    Enginn samningsaðili getur beitt málsmeðferð við lausn deilumála samkvæmt þessum samningi í málum er varða þennan kafla.

79. gr.
Tilnefnd yfirvöld

    Að því er varðar beitingu 73., 74. og 75. gr. skal hver samningsaðili tilnefna samkeppnisyfirvöld eða einhverja aðra opinbera stofnun og tilkynna hinum samningsaðilunum um ákvörðun sína á fyrsta fundi sameiginlegu nefndarinnar, þó eigi síðar en 60 dögum eftir gildistöku samningsins.

80. gr.
Skilgreiningar

    Í þessum kafla er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „samkeppnislög“:
    i)    að því er varðar Chile: Decreto Ley nr. 211 frá 1973 og Ley nr. 19.610 frá 1999 og framkvæmdarreglugerðir eða -breytingar auk annarra laga þar sem fjallað er um samkeppnismál,
    ii)    að því er varðar Lýðveldið Ísland: samkeppnislög nr. 8/1993, eins og þeim var breytt með lögum nr. 24/1994, 83/1997, 82/1998 og 107/2000, auk annarra laga þar sem fjallað er um samkeppnismál,
    iii)    að því er varðar Furstadæmið Liechtenstein: hverjar þær samkeppnisreglur sem Liechtenstein viðurkennir eða skuldbindur sig til að beita á yfirráðasvæði sínu, einnig þær sem kveðið er á um í öðrum alþjóðasamningum, svo sem samningnum um Evrópska efnahagssvæðið,
    iv)    að því er varðar Konungsríkið Noreg: lög nr. 65 frá 11. júní 1993 um samkeppni í viðskiptastarfsemi auk annarra laga þar sem fjallað er um samkeppnismál,
    v)    að því er varðar Ríkjasambandið Sviss: lög ríkjasambandsins um einokunarhringi og aðrar samkeppnishömlur frá 6. október 1995 og fyrirmæli um eftirlit með samþjöppun fyrirtækja frá 17. júní 1996, svo og aðrar reglur sem kveðið er á um í þessum lögum og önnur lög þar sem fjallað er um samkeppnismál,
    og allar breytingar sem kunna að verða á framangreindri löggjöf eftir að þessi samningur er gerður,
b)    „aðgerð til að framfylgja samkeppnislögum“: á við um alla beitingu samkeppnislaga með rannsókn eða dómsmeðferð sem samningsaðili stendur fyrir og kann að leiða til beitingar viðurlaga eða úrræða.

VII. KAFLI
STYRKIR

81. gr.
Styrkir/ríkisaðstoð

1.     Farið skal með réttindi og skyldur samningsaðila, að því er varðar styrki í tengslum við vörur, í samræmi við XVI. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um styrki og jöfnunarráðstafanir.
2.     Ákvæði samningsins um þjónustuviðskipti eiga við um réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar styrki í tengslum við þjónustu.
3.     Hver samningsaðili getur óskað eftir upplýsingum um einstök tilvik ríkisaðstoðar sem talið er að geti haft áhrif á viðskipti milli samningsaðilanna. Samningsaðili, sem beiðni er beint til, leggur sig fram um að veita slíkar upplýsingar.

VIII. KAFLI
GAGNSÆI

82. gr.
Birting

1.     Samningsaðilar skulu birta eða veita almenningi aðgang með öðrum hætti að lögum sínum, reglugerðum, reglum um málsmeðferð og stjórnsýsluákvörðunum sem hafa almennt gildi, svo og alþjóðasamningum sem geta haft áhrif á framkvæmd þessa samnings.
2.     Samningsaðilar skulu, sé þess óskað, veita upplýsingar um þau málefni sem um getur í 1. mgr.

83. gr.
Tengiliðir og skipti á upplýsingum

1.     Til að greiða fyrir samskiptum milli samningsaðilanna varðandi málefni tengd viðskiptum sem samningur þessi tekur til skal hver samningsaðili tilnefna tengilið. Að beiðni samningsaðila skal tengiliður hinna samningsaðilanna gefa upp heiti skrifstofu eða nafn á opinberum starfsmanni sem ber ábyrgð á málinu og veita þann stuðning sem þarf til að greiða fyrir samskiptum við samningsaðilann sem leggur fram beiðni.
2.     Að beiðni samningsaðila skal hver samningsaðili veita upplýsingar og svara öllum spurningum hins samningsaðilans um ráðstöfun sem gerð hefur verið og kann að hafa áhrif á framkvæmd þessa samnings. Samningsaðilar skulu sjá til þess að unnt sé að nálgast upplýsingar um fyrirhugaðar ráðstafanir að því marki sem unnt er samkvæmt innlendum lögum þeirra og reglum.
3.     Litið er svo á að upplýsingarnar, sem um getur samkvæmt þessari grein, hafi verið veittar þegar Alþjóðaviðskiptastofnunin hefur fengið tilkynningu um að hægt sé að nálgast þær eða þegar þær hafa verið birtar á opinberri vefsíðu hlutaðeigandi samningsaðila sem er öllum opin án endurgjalds.

84. gr.
Samstarf um aukið gagnsæi

    Samningsaðilarnir eru einhuga um að starfa saman á tvíhliða og marghliða vettvangi um leiðir til að auka gagnsæi í málefnum er varða viðskipti.

IX. KAFLI
STJÓRNUN SAMNINGSINS

85. gr.
Sameiginlega nefndin

1.     Samningsaðilar koma hér með á fót sameiginlegri nefnd EFTA-ríkjanna og Chiles og skal hún skipuð ráðherrum hvers samningsaðila eða háttsettum embættismönnum sem þeir tilnefna í þessum tilgangi.
2.     Sameiginlega nefndin skal:
a)    hafa yfirumsjón með framkvæmd þessa samnings og leggja mat á þann árangur sem næst með beitingu hans,
b)    hafa umsjón með frekari þróun þessa samnings,

c)    leitast við að leysa deilumál sem upp kunna að koma í tengslum við túlkun eða beitingu þessa samnings,
d)    hafa yfirumsjón með starfi þeirra undirnefnda og vinnuhópa sem komið er á fót eða verða til samkvæmt þessum samningi, og
e)    vinna þau störf sem henni eru falin samkvæmt þessum samningi.
3.     Sameiginlega nefndin getur ákveðið að skipa undirnefndir og vinnuhópa sem hún telur þörf á sér til aðstoðar við störfin. Sameiginlega nefndin getur leitað ráða hjá óopinberum aðilum og hópum.

4.     Sameiginlega nefndin setur sér starfsreglur. Hún getur tekið ákvarðanir eins og kveðið er á um í þessum samningi. Í öðrum málum er sameiginlegu nefndinni heimilt að gera tillögur. Ákvarðanir og tilmæli sameiginlegu nefndarinnar skulu samþykkt með almennu samkomulagi.
5.     Með fyrirvara um ákvæði XV. viðauka getur sameiginlega nefndin breytt viðaukunum og viðbætunum við þennan samning.
6.     Sameiginlega nefndin heldur fundi þegar nauðsyn krefur og alla jafna annað hvert ár. Reglubundnir fundir sameiginlegu nefndarinnar skulu vera til skiptis í Chile og í EFTA-ríki.
7.     Samningsaðili getur hvenær sem er farið fram á sérstakan fund í sameiginlegu nefndinni með skriflegri tilkynningu til hinna samningsaðilanna. Boða skal til fundar innan 30 daga frá því að beiðni berst, nema samningsaðilar komi sér saman um annað.

86. gr.
Skrifstofa

1.     Samningsaðilar stofna hér með skrifstofu þessa samnings en undir hana heyra lögbærar stofnanir sem um getur í XVI. viðauka.
2.     Öll boðskipti til eða frá samningsaðila skulu send fyrir milligöngu viðkomandi lögbærra stofnana, nema kveðið sé á um annað í þessum samningi.

X. KAFLI
LAUSN DEILUMÁLA

87. gr.
Gildissvið

1.     Ákvæði þessa kafla miða að því að koma í veg fyrir eða leysa öll deilumál sem upp koma á grundvelli þessa samnings milli eins eða fleiri EFTA-ríkja og Chiles.
2.     Samningsaðilar skulu ætíð leitast við að ná samkomulagi um túlkun og beitingu þessa samnings og gera sitt ítrasta með samvinnu og samráði til að finna lausn sem allir aðilar geta sætt sig við um hvert það málefni sem getur haft áhrif á framkvæmd hans.

3.     Þessi kafli gildir ekki um 14. gr. (2. mgr.), 16. gr. (1. mgr.), 17. gr. (1. mgr.), 18. gr. (3. mgr.), 20. gr., 24. gr. (1. mgr.) og 81. gr. (1. og 2. mgr.).

88. gr.
Vettvangur valinn

1.     Heimilt er að leysa deilur vegna máls, er varðar bæði þennan samning og samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eða aðra samninga sem eru gerðir á grundvelli hans og samningsaðilarnir eru aðilar að, á vettvangi annars hvors þeirra að vali kæranda. Sá vettvangur, sem þannig er valinn, skal notaður eingöngu.
2.     Þegar málsmeðferð við lausn deilumáls er hafin samkvæmt þessum samningi skv. 91. gr. eða þegar málsmeðferð við lausn deilumáls er hafin samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar skal sá vettvangur, sem er valinn, notaður eingöngu.
3.     Að því er þessa grein varðar telst málsmeðferð við lausn deilumáls samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hafin þegar samningsaðili fer fram á stofnun gerðardóms skv. 6. gr. samkomulagsins um reglur og málsmeðferð við lausn deilumála.
4.     Áður en samningsaðili hefur málsmeðferð við lausn deilumáls samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar gegn einum samningsaðila eða fleiri skal hann tilkynna hinum samningsaðilunum um fyrirætlan sína.

89. gr.
Sáttaumleitanir

1.     Samningsaðilum er frjálst að nýta sér málsmeðferð sem felst í sáttaumleitunum ef þeir koma sér saman um það. Þær má hefja og þeim má ljúka hvenær sem er.
2.     Málsmeðferð, sem felst í sáttaumleitunum, skal vera trúnaðarmál og hefur ekki áhrif á rétt aðila við frekari málsmeðferð.


90. gr.
Samráð

1.     Samningsaðila er heimilt að fara skriflega fram á samráð við annan samningsaðila ef hann telur að ráðstöfun, sem sá samningsaðili gerir, sé í ósamræmi við þennan samning eða að ávinningur sem hann hefur beint eða óbeint af þessum samningi skerðist vegna slíkrar ráðstöfunar. Samningsaðili, sem fer fram á samráð, skal jafnframt tilkynna hinum samningsaðilunum skriflega um það. Samráð skal fara fram á vegum sameiginlegu nefndarinnar, nema samningsaðili eða samningsaðilar, sem leggja fram beiðni eða beiðni um samráð er beint til, séu ósammála.
2.     Samráð skal haft innan 30 daga frá því að beiðni berst um samráð. Samráð um brýn málefni, þ.m.t. um landbúnaðarafurðir sem eru viðkvæmar fyrir skemmdum, skal hefjast innan 15 daga frá því að beiðni berst.

3.     Samningsaðilar, sem taka þátt í samráði, skulu veita nægilegar upplýsingar til að unnt sé að rannsaka á hvern hátt ráðstöfun er í ósamræmi við þennan samning eða gæti skert ávinning sem þeir hafa samkvæmt honum og fara með upplýsingar um trúnaðarmál eða einkamál, sem miðlað er meðan á samráði stendur, á sama hátt og samningsaðilinn sem veitir upplýsingarnar.
4.     Samráð skal bundið trúnaði og vera með fyrirvara um rétt samningsaðilanna til frekari málsmeðferðar.
5.     Samningsaðilar, sem taka þátt í samráði, skulu tilkynna hinum samningsaðilunum um gagnkvæmt samkomulag um lausn málsins.

91. gr.
Stofnun gerðardóms

1.     Finnist ekki lausn á málinu innan 60 daga, eða 30 daga ef málið er brýnt, eftir að beiðni um samráð berst er einum eða fleiri hlutaðeigandi samningsaðilum heimilt að vísa málinu til gerðardóms með skriflegri tilkynningu til þess eða þeirra samningsaðila sem kærunni er beint gegn. Afrit af tilkynningunni skal einnig sent til allra samningsaðila þannig að hver um sig geti ákveðið hvort hann vilji eiga hlut að deilunni.
2.     Ef fleiri en einn samningsaðili fer fram á stofnun gerðardóms vegna sama máls skal einn gerðardómur stofnaður til að fjalla um kæruna þegar það er gerlegt.

3.     Í beiðni um stofnun gerðardóms skal tilgreina ástæðu fyrir kærunni og ráðstöfunina sem um ræðir og benda á þann lagagrundvöll er kæran byggist á.

4.     Aðli að þessum samningi, sem á ekki hlut að málinu, skal, þegar hann fær í hendur skriflega tilkynningu frá deiluaðilum, eiga rétt á að leggja skriflegar greinargerðir fyrir gerðardóm, taka við skriflegum greinargerðum frá deiluaðilum, vera viðstaddur alla vitnaleiðslur og flytja munnlegar greinargerðir.

92. gr.
Gerðardómur

1.     Þrír menn skulu skipa gerðardóminn.

2.     Í skriflegri tilkynningu skv. 91. gr. skal sá samningsaðili eða þeir samningsaðilar, sem vísa deilumálinu til kæru, tilnefna einn mann í gerðardóm.

3.     Samningsaðili eða samningsaðilar, sem tilkynningu er beint til, skulu, innan 15 daga frá því að tilkynningin berst, sem um getur í 2. mgr., samþykkja tilnefningu eins manns í gerðardóm.
4.     Deiluaðilar skulu, innan 15 daga frá tilnefningu annars gerðardómsmannsins, samþykkja tilnefningu hins þriðja. Sá sem þannig er skipaður skal gegna formennsku í gerðardóminum.
5.     Hafi ekki verið tilnefndir eða skipaðir þrír gerðardómsmenn innan 30 daga frá því að tilkynningin berst, sem um getur í 2. mgr., skal framkvæmdastjóri Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar annast nauðsynlegar tilnefningar innan 30 daga til viðbótar að beiðni deiluaðila.
6.     Formaður gerðardóms skal ekki vera ríkisborgari samningsaðila eða vera að jafnaði búsettur á landsvæði samningsaðila, vera starfsmaður hans eða hafa komið að málinu með öðrum hætti.


7.     Ef gerðardómsmaður andast, hættir störfum eða er gert að hætta störfum skal velja staðgengil hans innan 15 daga í samræmi við þær aðferðir sem notaðar voru við val á honum. Þegar svo ber undir skal sá frestur, sem gildir við málsmeðferð gerðardóms, lengdur frá þeim degi að gerðardómsmaður andast, hættir störfum eða er gert að hætta störfum þar til eftirmaður hans hefur verið valinn.
8.     Stofndagur gerðardómsins telst vera sami dagur og formaðurinn er skipaður.

93. gr.
Störf gerðardóms

1.     Málsmeðferð gerðardóms skal fara fram í samræmi við staðlaðar starfsreglur í XVII. viðauka, nema deiluaðilar komi sér saman um annað.

2.     Hlutverk gerðardóms er sem hér segir, nema deiluaðilar komi sér saman um annað innan 10 daga frá dagsetningu beiðni um stofnun gerðardóms:

    „Að rannsaka, í ljósi viðeigandi ákvæða þessa samnings, það mál sem um getur í beiðninni um stofnun gerðardóms skv. 91. gr. og komast að rökstuddri niðurstöðu um lausn deilunnar á grundvelli laga eða staðreynda.“

3.     Gerðardómi er heimilt, að beiðni deiluaðila eða að eigin frumkvæði, að leita til sérfræðings um vísindalegar upplýsingar og tæknilega ráðgjöf eftir því sem þörf er á. Leggja skal allar upplýsingar, sem þannig eru fengnar, fyrir samningsaðilana til umsagnar.
4.     Gerðardómur skal úrskurða á grundvelli ákvæða þessa samnings, einkum með tilliti til markmiðanna í 2. gr., sem eru túlkuð og þeim beitt í samræmi við viðeigandi reglur um túlkun þjóðaréttar.

5.     Ákvarðanir gerðardóms skulu samþykktar með meiri hluta gerðardómsmanna. Gerðardómurum er heimilt að gefa sérálit um málefni sem ekki njóta samhljóða samþykkis. Gerðardómi er óheimilt að gefa það upp hverjir gerðardómsmanna eiga hlut að meirihluta- eða minnihlutaáliti gerðardóms.
6.     Deiluaðilar skulu skipta jafnt með sér kostnaði af gerðardómi, þ.m.t. þóknanir til gerðardómsmanna.

94. gr.
Úrskurður

1.     Gerðardómur skal afhenda deiluaðilum úrskurð sinn innan 90 daga frá stofnun hans.

2.     Gerðardómur skal leggja til grundvallar úrskurði sínum greinargerðir og röksemdir deiluaðila og vísindalegar upplýsingar og tæknilega ráðgjöf skv. 3. mgr. 93. gr.
3.     Úrskurðurinn skal birtur 15 dögum eftir að hann er kynntur deiluaðilum, nema þeir komi sér saman um annað.

95. gr.
Málsmeðferð í gerðardómi hætt

    Kæranda er hvenær sem er heimilt að draga kæru sína til baka áður en úrskurður er gefinn út. Slíkt hefur þó ekki áhrif á rétt hans til að leggja síðar fram nýja kæru vegna sama efnis.


96. gr.
Framkvæmd á úrskurði gerðardóms

1.     Úrskurðurinn er endanlegur og bindandi fyrir deilduaðila. Öllum deiluaðilum er skylt að gera ráðstafanir til að fylgja eftir úrskurðinum sem um getur í 94. gr.
2.     Deiluaðilar skulu leitast við að ná samkomulagi um sérstakar ráðstafanir sem nauðsynlegar teljast til fylgja úrskurðinum eftir.
3.     Samningsaðili, sem kærunni er beint gegn, skal tilkynna hinum samningsaðilanum innan 30 daga frá því að úrskurðurinn var sendur deiluaðilunum:
a)    um sérstakar ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að fylgja úrskurðinum eftir,
b)    um sanngjarnan frest til þess, og
c)    um raunhæfa tillögu um bótagreiðslur til bráðabirgða uns gerðar hafa verið sérstakar ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að fylgja úrskurðinum eftir.
4.     Ef deiluaðilar eru ekki sammála um inntak þessarar tilkynningar er deiluaðila heimilt að fara fram á það við upphaflega gerðardóminn að hann skeri úr um hvort fyrirhugaðar ráðstafanir, sem um getur í a- lið 3. mgr., eru í samræmi við úrskurðinn, um lengd frestsins og um hvort augljóst misræmi er í tillögunum um bætur. Úrskurður gerðardóms skal liggja fyrir innan 45 daga frá því að beiðnin er lögð fram.

5.     Hlutaðeigandi samningsaðili eða samningsaðilar skulu tilkynna hinum deiluaðilanum eða deiluaðilunum og sameiginlegu nefndinni um þær ráðstafanir, sem samþykktar hafa verið til framkvæmdar úrskurðinum, innan hæfilegs frests sem er ákveðinn í samræmi við 4. mgr. Þegar tilkynningin berst er deiluaðila heimilt að fara fram á það við upphaflega gerðardóminn að hann skeri úr um hvort þessar ráðstafanir eru í samræmi við úrskurðinn. Úrskurður gerðardóms skal liggja fyrir innan 45 daga frá því að beiðnin er lögð fram.
6.     Ef hlutaðeigandi samningsaðili eða samningsaðilar tilkynna ekki um framkvæmdarráðstafanir áður en fresturinn, sem er ákvarðaður í samræmi við 4. mgr., rennur út eða felli gerðardómur úrskurð um að framkvæmdarráðstafanir, sem hlutaðeigandi samningsaðili eða samningsaðilar hafa tilkynnt um, séu ekki í samræmi við úrskurðinn skal samningsaðilinn eða samningsaðilarnir hefja samráðsmeðferð, fari kærandi fram á það, með það fyrir augum að ná samkomulagi um viðunandi bætur. Náist samkomulag ekki innan 20 daga frá því að beiðnin var lögð fram er kæranda heimilt að fresta einungis þeim ávinningi, sem fæst með þessum samningi, er jafngildir þeim ávinningi sem leiðir af ráðstöfuninni sem ekki er talin samrýmast þessum samningi eða talin er skerða ávinning samkvæmt honum.
7.     Þegar skoðað er hvaða ávinningi rétt er að fresta skal kærandi fyrst leitast við að fresta ávinningi í sama geira 11 og ráðstöfunin, sem gerðardómur hefur ákvarðað að samræmist ekki þessum samningi eða skerði ávinning samkvæmt honum, fellur undir. Kærandi, sem telur það hvorki gerlegt né vænlegt til árangurs að fresta ávinningi í sama geira, getur frestað ávinningi í öðrum geira.

8.     Kærandi skal tilkynna hinum samningsaðilanum eða samningsaðilunum um þann ávinning sem fyrirhugað er að fresta eigi síðar en 60 dögum fyrir þann dag sem frestunin á að koma til framkvæmda. Deiluaðila er heimilt að fara fram á það við upphaflega gerðardóminn, innan 15 daga frá tilkynningunni, að hann skeri úr um hvort ávinningur, sem kærandi hyggst fresta, sé jafngildur þeim ávinningi sem hlýst af ráðstöfun sem ekki er talin samrýmast þessum samningi eða talin er skerða ávinning samkvæmt honum og hvort fyrirhuguð frestun sé í samræmi við 6. og 7. mgr. Ekki skal fresta ávinningi fyrr en gerðardómur hefur fellt úrskurð sinn.










11     Með hugtakinu „geiri“ er í þessari grein, að því er varðar vörur, átt við vörur sem flokkast í 1. til 97. kafla í samræmdu tollskránni.

9.     Frestun ávinnings skal vera tímabundin ráðstöfun sem kærandi beitir einungis þar til ráðstöfunin, sem ekki er talin samrýmast þessum samningi eða talin er skerða ávinning samkvæmt honum, hefur verið dregin til baka eða henni breytt þannig að hún samrýmist þessum samningi eða deiluaðilar hafa komist að samkomulagi um lausn deilunnar.

10.     Upphaflegi gerðardómurinn skal, að beiðni deiluaðila, skera úr um hvort framkvæmdarráðstafanir, sem eru samþykktar eftir að ávinningi er frestað, séu í samræmi við úrskurðinn og hvort rétt sé að fella niður eða breyta frestun ávinnings á grundvelli úrskurðarins. Gerðardómur skal fella úrskurð innan 30 daga frá dagsetningu beiðninnar.

11.     Úrskurðir, sem kveðið er á um í þessari grein, eru bindandi.

97. gr.
Önnur ákvæði

1.     Frest, sem getið er í þessum kafla, er heimilt að framlengja með gagnkvæmu samkomulagi hlutaðeigandi samningsaðila.
2.     Vitnaleiðslur gerðardóms eru lokaðar almenningi, nema samningsaðilar ákveði annað.

XI. KAFLI
ALMENNAR UNDANÞÁGUR

98. gr.
Erfiðleikar vegna greiðslujafnaðar

1.     Eigi samningsaðili í verulegum erfiðleikum vegna greiðslujafnaðar og ytri fjárhagsskilyrða eða ef hætta er á að slíkir erfiðleikar skapist er honum heimilt að gera eða viðhalda ráðstöfunum til að takmarka greiðslur og fjármagnsflutninga í tengslum við vöru- og þjónustuviðskipti, þ.m.t. varðandi beinar fjárfestingar.
2.     Samningsaðilar skulu reyna að forðast að gera þær takmarkandi ráðstafanir sem um getur í 1. mgr.

3.     Allar takmarkandi ráðstafanir, sem eru teknar upp eða viðhaldið samkvæmt þessari grein, skulu vera án mismununar, vara í takmarkaðan tíma og ekki vera meiri en þörf er á til að leysa erfiðleika vegna greiðslujafnaðar og ytri fjárhagsskilyrða. Slík ráðstöfun skal vera í samræmi við þá skilmála sem settir eru í samningunum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og vera í samræmi við ákvæði samningsins um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, eftir því sem við á.
4.     Samningsaðili, sem tekur upp eða viðheldur takmarkandi ráðstöfunum eða breytingum á þeim, skal þegar í stað tilkynna hinum samningsaðilunum um þær og leggja fram tímaáætlun, eins skjótt og auðið er, um afléttingu þeirra.
5.     Samningsaðili, sem beitir takmarkandi ráðstöfun, skal þegar í stað hafa samráð við sameiginlegu nefndina. Í slíkum viðræðum skal staða greiðslujafnaðar viðkomandi samningsaðila metin, svo og takmarkanir sem eru teknar upp eða haldið samkvæmt þessari grein, m.a. að teknu tilliti til þátta á borð við eftirfarandi:
a)    eðli og umfang erfiðleika vegna greiðslujafnaðar og erfiðra ytri fjárhagsskilyrða,
b)    ytra efnahags- og viðskiptaumhverfi aðilans sem kallaður er til viðræðna,
c)    aðrar ráðstafanir sem kunna að vera tiltækar og til bóta.
    Í viðræðunum skal fjalla um það hvort takmarkandi ráðstafanir séu í samræmi við 3. og 4. mgr. Öll tölfræðileg gögn og aðrar staðreyndir, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur fram um gjaldeyrisviðskipti, gjaldeyrissjóði og greiðslujöfnuð, skulu samþykkt og skulu niðurstöður byggðar á mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á greiðslujöfnuði og ytri fjárhagsskilyrðum samningsaðilans sem kallaður er til viðræðna.

99. gr.
Innlent öryggisákvæði

1.     Ekkert í þessum samningi ber að túlka á þann hátt:
a)    að krafist sé af samningsaðila að hann láti í té upplýsingar sem hann telur andstætt grundvallaröryggishagsmunum sínum að birta,
b)    að komið sé í veg fyrir að samningsaðili geri ráðstafanir sem hann telur nauðsynlegar til að vernda grundvallaröryggishagsmuni sína:
    i)    varðandi kjarnakleyf efni eða efni sem þau eru unnin úr,

    ii)    að því er snertir viðskipti með vopn, skotfæri og stríðsbúnað og þau viðskipti með aðrar vörur og efni eða veitingu þjónustu sem beinlínis eða óbeinlínis eru ætluð til hernaðar,


    iii)    sem tengjast opinberum innkaupum á vopnum, skotfærum eða herbúnaði, eða innkaupum sem eru óhjákvæmileg vegna þjóðaröryggis eða landvarna, eða
    iv)    á stríðstímum eða þegar neyðarástand ríkir í alþjóðasamskiptum, eða
c)    að komið sé í veg fyrir að samningsaðili grípi til ráðstafana, í samræmi við skyldur sínar samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna, til að friður og öryggi haldist á alþjóðavettvangi.
2.     Sameiginlega nefndin skal fá eins ítarlegar upplýsingar og unnt er um ráðstafanir skv. b- og c-lið 1. mgr. og hvenær þær falla úr gildi.

100. gr.
Skattlagning

1.     Ekkert í þessum samningi gildir um skattaráðstafanir nema:
a)    ákvæði 15. gr. og þau ákvæði önnur í þessum samningi sem eru nauðsynleg til að ákvæðum þeirrar greinar sé komið til framkvæmda í jafn miklum mæli og ákvæðum III. gr. GATT-samningsins frá 1994, og
b)    að því er varðar viðeigandi skattaráðstafanir í I. þætti III. kafla, þar sem XIV. gr. samningsins um þjónustuviðskipti gildir.
2.     Ekkert í þessum samningi hefur áhrif á réttindi og skyldur samningsaðila sem leiðir af samningum um skattamál. Ef þessi samningur stangast á við samning um skattamál ganga ákvæði hins síðarnefnda framar að því marki sem misræmið nær.

XII. KAFLI
LOKAÁKVÆÐI

101. gr.
Skilgreiningar

    Í samningi þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir, nema annað sé tekið fram:
    „dagar“: almanaksdagar,
    „ráðstöfun“: m.a. lög, reglur, málsmeðferð, krafa eða starfshættir, og
    „samningsaðili“: ríki þar sem þessi samningur hefur öðlast gildi.

102. gr.
Viðaukar og viðbætar

    Viðaukar og viðbætar við samning þennan eru óaðskiljanlegur hluti hans.

103. gr.
Breytingar

1.     Samningsaðilum er heimilt að koma sér saman um breytingar á samningi þessum. Breytingarnar skulu öðlast gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að síðasta skjali um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki hefur verið komið í vörslu, nema samningsaðilar ákveði annað.
2.     Þrátt fyrir 1. mgr., að því er varðar ákvarðanir sameiginlegu nefndarinnar um breytingu á viðaukum og viðbætum við þennan samning, gildir 5. mgr. 85. gr. Þær ákvarðanir öðlast gildi á þeim degi þegar síðasti samningsaðilinn tilkynnir að innlend skilyrði hans hafi verið uppfyllt, nema síðari dagsetning sé tilgreind í ákvörðuninni sjálfri. Sameiginlega nefndin getur ákveðið að ákvörðunin skuli öðlast gildi að því er varðar þá samningsaðila sem uppfyllt hafa innlend skilyrði sín, að því tilskildu að Chile sé einn þessara samningsaðila. EFTA-ríki er heimilt að beita ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar til bráðabirgða þar til ákvörðunin öðlast gildi, sbr. þó stjórnskipuleg skilyrði þess.
3.     Breytingatexta skal komið í vörslu hjá vörsluaðila.

104. gr.
Nýir samningsaðilar

    Þriðja ríki getur orðið aðili að samningi þessum að fengnu boði frá sameiginlegu nefndinni. Skilmálar og skilyrði fyrir aðild nýrra samningsaðila skal setja í samning milli samningsaðilanna og ríkisins sem boðin er aðild.

105. gr.
Uppsögn og slit samningsins

1.     Samningsaðili getur sagt upp samningi þessum með því að tilkynna vörsluaðila það skriflega. Uppsögnin tekur gildi á fyrsta degi sjötta mánaðar eftir að tilkynningin berst vörsluaðila.

2.     Ef eitthvert EFTA-ríki segir upp samningi þessum skulu aðrir samningsaðilar kallaðir til fundar til að ræða framhald þessa samnings.


106. gr.
Gildistaka

1.     Samningur þessi er með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki. Skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki skulu afhent vörsluaðila.
2.     Samningur þessi öðlast gildi 1. febrúar 2004 gagnvart þeim undirritunarríkjum, sem þá hafa fullgilt samninginn, að því tilskildu að þeir hafi afhent vörsluaðila skjöl sín um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki a.m.k. 30 dögum fyrir gildistökuna og að því tilskildu að Chile sé eitt þeirra ríkja sem hefur afhent skjöl sín um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu.

3.     Ef samningur þessi öðlast ekki gildi 1. febrúar 2004 skal hann öðlast gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að Chile og að minnsta kosti eitt EFTA- ríki hefur afhent skjöl sín um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu.
4.     Þegar um er að ræða EFTA-ríki sem undirritar samning þennan og afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu eftir að samningur þessi öðlast gildi skal þessi samningur öðlast gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að skjalið hefur verið afhent til vörslu.
5.     EFTA-ríki getur, ef stjórnskipuleg skilyrði þess leyfa það, beitt samningi þessum til bráðabirgða. Vörsluaðila skal tilkynnt um bráðabirgðabeitingu þessa samnings samkvæmt þessari grein.

107. gr.
Tengsl við viðbótarsamninga

1.     Viðbótarsamningurinn um viðskipti með landbúnaðarafurðir milli EFTA-ríkis og Chiles, sem um getur í 1. gr., öðlast gildi í því EFTA-ríki og í Chile sama dag og samningur þessi öðlast gildi. Viðbótarsamningurinn gildir á meðan samningsaðilarnir eru aðilar að þessum samningi.

2.     Ef EFTA-ríki eða Chile segir upp viðbótarsamningnum fellur samningur þessi úr gildi milli þess EFTA-ríkis og Chiles sama dag og uppsögn viðbótarsamningsins tekur gildi.


108. gr.
Vörsluaðili

    Ríkisstjórn Noregs skal vera vörsluaðili.


ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

Gjört í Kristiansand 26. júní 2003 í einu fullgiltu eintaki á ensku og skal það afhent til vörslu hjá ríkisstjórn Noregs. Ríkisstjórn Noregs skal senda öllum ríkjum, sem undirritað hafa samninginn, staðfest endurrit.


Fyrir hönd Lýðveldisins Íslands



Fyrir hönd Lýðveldisins Chiles



Fyrir hönd Furstadæmisins Liechtensteins



Fyrir hönd Konungsríkisins Noregs



Fyrir hönd Ríkjasambandsins Sviss




FREE TRADE AGREEMENT
BETWEEN
THE EFTA STATES
AND
THE REPUBLIC OF CHILE

PREAMBLE

    The Republic of Iceland, the Principality of Liechtenstein, the Kingdom of Norway and the Swiss Confederation (hereinafter referred to as “the EFTA States”),
    and
    The Republic of Chile (hereinafter referred to as “Chile”),
    hereinafter collectively referred to as “the Parties”, resolved to:
    STRENGTHEN the special bonds of friendship and co-operation between their nations;
    CONTRIBUTE to the harmonious development and expansion of world trade by removing obstacles to trade and provide a catalyst to broader international cooperation;
    ESTABLISH clear and mutually advantageous rules governing their trade;
    CREATE an expanded and secure market for goods and services in their territories;
    ENSURE a stable and predictable environment for business planning and investment;
    FOSTER creativity and innovation by protecting intellectual property rights;
    BUILD on their respective rights and obligations under the Marrakech Agreement establishing the World Trade Organization and other multilateral and bilateral instruments of co-operation;
    ENSURE that the gains from trade liberalisation are not offset by the erection of private, anti-competitive barriers;
    ENHANCE the competitiveness of their firms in global markets;
    CREATE new employment opportunities and improve working conditions and living standards in their respective territories;
    PROMOTE environmental protection and conservation, and sustainable development;
    REAFFIRMING their commitment to democracy, the rule of law, human rights and fundamental freedoms in accordance with their obligations under international law, including principles and objectives set out in the United Nations Charter and the Universal Declaration of Human Rights; and
    CONVINCED that this Agreement will create conditions encouraging economic, trade and investment relations between them;
    HAVE AGREED, in pursuit of the above, to conclude the following Agreement (hereinafter referred to as “this Agreement”):

CHAPTER I
INITIAL PROVISIONS

ARTICLE 1
Establishment of a free trade area

    The EFTA States and Chile hereby establish a free trade area by means of this Agreement and the complementary agreements on trade in agricultural goods, concurrently concluded between Chile and each individual EFTA State.

ARTICLE 2
Objectives

1.     The objectives of this Agreement, as elaborated more specifically through its principles and rules, are to:
(a)    achieve the progressive and reciprocal liberalisation of trade in goods, in conformity with Article XXIV of the General Agreement on Tariffs and Trade (hereinafter referred to as “the GATT 1994”);
(b)    achieve the liberalisation of trade in services, in conformity with Article V of the General Agreement on Trade in Services (hereinafter referred to as “the GATS”);
(c)    open the government procurement markets of the Parties;
(d)    promote conditions of fair competition in the free trade area;
(e)    substantially increase investment opportunities in the free trade area;
(f)    provide adequate and effective protection and enforcement of intellectual property rights; and
(g)    establish a framework for further bilateral and multilateral cooperation to expand and enhance the benefits of this Agreement.

ARTICLE 3
Territorial application

1.     Without prejudice to Annex I, this Agreement shall apply to the territory of each Party, as well as to areas beyond the territory in which each Party may exercise sovereign rights or jurisdiction in accordance with international law.
2.     Annex II shall apply with respect to Norway.

ARTICLE 4
Relation to other international agreements

    The Parties confirm their rights and obligations under the Marrakech Agreement establishing the World Trade Organization and the other agreements negotiated thereunder (hereinafter referred to as “the WTO Agreement”) to which they are party, and under any other international agreement to which they are a party.

ARTICLE 5
Trade and economic relations
governed by this Agreement

1.     The provisions of this Agreement apply to the trade and economic relations between, on the one side, the individual EFTA States and, on the other side, Chile, but not to the trade relations between individual EFTA States, unless otherwise provided for in this Agreement.
2.     As a result of the customs union established by the Treaty of 29 March 1923 between Switzerland and the Principality of Liechtenstein, Switzerland shall represent the Principality of Liechtenstein in matters covered thereby.

ARTICLE 6
Regional and local governments

    Each Party is fully responsible for the observance of all obligations and commitments under this Agreement and shall ensure their observance by its respective regional and local governments and authorities and by non-governmental bodies in the exercise of governmental powers delegated by central, regional and local governments or authorities within its territory.

CHAPTER II
TRADE IN GOODS

ARTICLE 7
Coverage

    This Chapter applies to trade between the Parties relating to:
(a)    products falling within chapters 25 through 97 of the Harmonized Commodity Description and Coding System (hereinafter referred to as “the HS”), excluding the products listed in Annex III;
(b)    products specified in Annex IV, with due regard to the arrangements provided for in that Annex; and
(c)    fish and other marine products as provided for in Annex V.

ARTICLE 8
Rules of origin and administrative co-operation

1.     The provisions on rules of origin and administrative co-operation applicable to Article 9(1) and Article 19 are set out in Annex I
2.     For the purpose of Article 9(2), Article 13(1) and Article 18, the term “goods of a Party” shall mean domestic goods as understood within the meaning of GATT 1994 or such goods as the Parties may agree, and shall include originating products of that Party.


ARTICLE 9
Elimination of customs duties

1.     The Parties shall, on the date of entry into force of this Agreement, abolish all customs duties on imports of products originating in an EFTA State or in Chile, except as provided for in Annex VI.
2.     The Parties shall, on the date of entry into force of this Agreement, abolish all customs duties on exports of goods of a Party in trade between the Parties.
3.     No new customs duty shall be introduced nor shall those already applied be increased in trade between the EFTA States and Chile.

ARTICLE 10
Customs duty

    A customs duty includes any duty or charge of any kind imposed in connection with the importation or exportation of a product, including any form of surtax or surcharge in connection with such importation or exportation, but does not include any:
(a)    charge equivalent to an internal tax imposed consistently with Article 15;
(b)    anti-dumping or countervailing duty applied consistently with Article 18; or
(c)    fee or other charge imposed consistently with Article 11.

ARTICLE 11
Fees and other charges

    Fees and other charges referred to in Article 10(c) shall be limited in amount to the approximate cost of services rendered and shall not represent an indirect protection for domestic products or a taxation of imports or exports for fiscal purposes.


ARTICLE 12
Basic duties

1.     For each product the basic duty, to which the successive reductions set out in Annex VI are to be applied, shall be the most-favoured nation rate of duty applied on 1 January 2003.
2.     If, before, by or after entry into force of this Agreement, any tariff reduction is applied on an erga omnes basis, in particular reductions in accordance with commitments resulting from multilateral negotiations under the World Trade Organization (hereinafter referred to as “the WTO”), such reduced duties shall replace the basic duties referred to in paragraph 1 as from the date when such reductions are applied, or from the entry into force of this Agreement if this is later.
3.     The reduced duties calculated in accordance with Annex VI shall be applied rounded to the first decimal place or, in case of specific duties, to the second decimal place.

ARTICLE 13
Import and export restrictions

1.     On the date of entry into force of this Agreement, all import or export prohibitions or restrictions on trade in goods of a Party between the EFTA States and Chile, other than customs duties and taxes, whether made effective through quotas, import or export licenses or other measures, shall be eliminated, except as provided for in Annex VII.
2.     No new measures as referred to in paragraph 1 shall be introduced.

ARTICLE 14
Classification of goods and customs valuation

1.     The classification of goods in trade between the EFTA States and Chile shall be determined in accordance with each Party's respective tariff nomenclature in conformity with the HS.
2.     The WTO Agreement on Implementation of Article VII of the GATT 1994 shall govern customs valuation rules applied to trade between the EFTA States and Chile.

ARTICLE 15
National treatment

    The Parties shall apply national treatment in accordance with Article III of the GATT 1994, including its interpretative notes, which is hereby incorporated into and made part of this Agreement.

ARTICLE 16
Sanitary and phytosanitary
measures

1.     The rights and obligations of the Parties in respect of sanitary and phytosanitary measures shall be governed by the WTO Agreement on the Application of Sanitary and Phytosanitary Measures (hereinafter referred to as “the SPS Agreement”).


2.     The Parties shall strengthen their co-operation in the field of sanitary and phytosanitary measures, with a view to increasing the mutual understanding of their respective systems and facilitating access to their respective markets.
3.     At the request of a Party, expert consultations shall be convened if any Party considers that another Party has taken measures which are likely to affect, or have affected, access to its market. Such experts, representing the Parties concerned on specific issues in the field of sanitary and phytosanitary matters, shall aim at finding an appropriate solution in conformity with the SPS Agreement.

4.     The Parties shall exchange names and addresses of “contact points” with sanitary and phytosanitary expertise in order to facilitate communication and the exchange of information.
5.     In order to permit the efficient use of resources, the Parties shall, to the extent possible, endeavour to use modern technological means of communication, such as electronic communication, video or telephone conference, or arrange for meetings referred to in paragraph 3 to take place back-to-back with Joint Committee meetings or with sanitary and phytosanitary meetings in the framework of the WTO. The results of expert consultations convened in accordance with paragraph 3 shall be reported to the Joint Committee.
6.     Chile and any of the EFTA States may, for better implementation of this Article, develop bilateral arrangements including agreements between their respective regulatory agencies.

ARTICLE 17
Technical regulations

1.     The rights and obligations of the Parties in respect of technical regulations, standards and conformity assessment shall be governed by the WTO Agreement on Technical Barriers to Trade (hereinafter referred to as “the TBT Agreement”).

2.     The Parties shall strengthen their co-operation in the field of technical regulations, standards and conformity assessment, with a view to increasing the mutual understanding of their respective systems and facilitating access to their respective markets.
3.     Without prejudice to paragraph 1, the Parties agree to hold consultations in the framework of the Joint Committee where a Party considers that another Party has taken measures which are likely to create, or have created, an obstacle to trade, in order to find an appropriate solution in conformity with the TBT Agreement.

ARTICLE 18
Anti-dumping and countervailing
measures

1.     A Party shall not apply anti-dumping measures as provided for under the WTO Agreement on Implementation of Article VI of the GATT 1994 in relation to goods of a Party.

2.     The Parties recognise that the effective implementation of competition rules may address economic causes leading to dumping.
3.     The rights and obligations of the Parties related to countervailing measures shall be governed by the WTO Agreement on Subsidies and Countervailing Measures.

ARTICLE 19
Emergency action on imports
of particular products

1.     Where any product originating in a Party, as a result of the reduction or elimination of a customs duty under this Agreement, is being imported into the territory of another Party in such increased quantities and under such conditions as to constitute a substantial cause of serious injury or threat thereof to the domestic industry of like or directly competitive products in the territory of the importing Party, the importing Party may take emergency measures to the minimum extent necessary to remedy or prevent the injury.

2.     Such measures may consist in:
(a)    suspending the further reduction of any rate of duty provided for under this Agreement on the product; or
(b)    increasing the rate of duty on the product to a level not to exceed the lesser of:
    (i)    the most-favoured nation rate of duty in effect at the time the action is taken;
    (ii)    the most-favoured nation rate of duty in effect on the day immediately preceding the date of the entry into force of this Agreement.
3.     Emergency measures shall be taken for a period not exceeding one year. In very exceptional circumstances, after review by the Joint Committee, measures may be taken up to a total maximum period of three years. In this case, the Party taking such measures shall present a schedule leading to their progressive elimination. No measures shall be applied to the import of a product which has previously been subject to such a measure for a period of, at least, five years since the expiry of the measure.
4.     Emergency measures shall only be taken upon clear evidence that increased imports have caused or are threatening to cause serious injury pursuant to an investigation in accordance with the procedures laid down in the WTO Agreement on Safeguards.

5.     The Party intending to take emergency measures under this Article shall promptly make a notification to the other Parties, containing all pertinent information which shall include evidence of serious injury caused by increased imports, precise description of the product involved, the proposed measure, the proposed date of introduction and expected duration of the measures. Any Party that may be affected shall simultaneously be offered compensation in the form of substantially equivalent trade liberalisation in relation to the imports from any such Party.


6.     The Joint Committee shall, within 30 days from the date of notification to the Parties, meet to examine the information provided under paragraph 5 in order to facilitate a mutually acceptable solution of the matter. In the absence of such solution, the importing Party may adopt a measure pursuant to paragraph 2 to remedy the problem, and, in the absence of mutually agreed compensation, the Party against whose product the measure is taken may take retaliatory action. The emergency measure and any compensatory or retaliatory action shall be immediately notified to the Joint Committee. The retaliatory action shall consist of the suspension of concessions having substantially equivalent trade effects or concessions substantially equivalent to the value of the additional duties expected to result from the emergency action. In the selection of the emergency measure and the retaliatory action, priority must be given to the action which least disturbs the functioning of this Agreement.
7.     In critical circumstances where delay would cause damage which would be difficult to repair, a Party may take a provisional emergency measure not exceeding 120 days pursuant to a preliminary determination that there is clear evidence that increased imports have caused or are threatening to cause serious injury. The Party intending to take such a measure shall immediately notify the other Parties thereof and, within 30 days of the date of such notification, the pertinent procedures set out in paragraphs 5 and 6, including for compensatory and retaliatory action, shall be initiated. Any compensation shall be based on the total period of application of the provisional measure. The period of application of any such provisional measure shall be counted as part of the duration of the definitive measure and any extension thereof.

ARTICLE 20
Global safeguard

    The Parties confirm their rights and obligations under Article XIX of GATT 1994 and the WTO Agreement on Safeguards.

ARTICLE 21
General exceptions

    Subject to the requirement that such measures are not applied in a manner which would constitute a means of arbitrary or unjustifiable discrimination between Parties where the same conditions prevail, or a disguised restriction on international trade, nothing in this Agreement shall be construed to prevent the adoption or enforcement by any Party of measures:

(a)    necessary to protect public morals;
(b)    necessary to protect human, animal or plant life or health;
(c)    relating to the importations or exportations of gold and silver;
(d)    necessary to secure compliance with laws or regulations which are not inconsistent with the provisions of this Agreement, including those relating to customs enforcement, the protection of intellectual property rights, and the prevention of deceptive practices;
(e)    relating to the products of prison labour;
(f)    imposed for the protections of national treasures of artistic, historic or archaeological value;

(g)    relating to the conservation of exhaustible natural resources if such measures are made effective in conjunction with restrictions on domestic production or consumption;
(h)    undertaken in pursuance of obligations under any intergovernmental commodity agreement which conforms to criteria submitted to the WTO and not disapproved by it or which is itself so submitted and not so disapproved;

(i)    involving restrictions on exports of domestic materials necessary to ensure essential quantities of such materials to a domestic processing industry during periods when the domestic price of such materials is held below the world price as part of a governmental stabilization plan; provided that such restrictions shall not operate to increase the exports of or the protection afforded to such domestic industry, and shall not depart from the provisions of this Agreement relating to non-discrimination;
(j)    essential to the acquisition or distribution of products in general or local short supply; provided that any such measures shall be consistent with the principle that all WTO members are entitled to an equitable share of the international supply of such products, and that any such measures, which are inconsistent with the other provisions of this Agreement shall be discontinued as soon as the conditions giving rise to them have ceased to exist.

CHAPTER III
TRADE IN SERVICES AND ESTABLISHMENT

SECTION I – TRADE IN SERVICES
ARTICLE 22
Coverage

1.     This Section applies to measures affecting trade in services taken by central, regional or local governments and authorities as well as by non-governmental bodies in the exercise of powers delegated by central, regional or local governments or authorities.
2.     This Section applies to measures affecting trade in all services sectors with the exception of air services, including domestic and international air transportation services, whether scheduled or non-scheduled, and related services in support of air services, other than:
(a)    aircraft repair and maintenance services;
(b)    the selling and marketing of air transport services;
(c)    computer reservation system (CRS) services. 1
3.     Nothing in this Section shall be construed to impose any obligation with respect to government procurement, which is subject to the Chapter V.

ARTICLE 23
Definitions

    For the purposes of this Section:

(a)    “trade in services” is defined as the supply of a service:
    (i)    from the territory of a Party into the territory of another Party (mode 1);

    (ii)    in the territory of a Party to the service consumer of another Party (mode 2);

    (iii)    by a service supplier of a Party, through commercial presence in the territory of another Party (mode 3);
    (iv)    by a service supplier of a Party, through presence of natural persons in the territory of another Party (mode 4);





1     The terms “aircraft repair and maintenance services”, “selling and marketing of air transport services” and “computer reservation system (CRS) services” are as defined in paragraph 6 of the Annex on Air Transport Services to the GATS.
(b)    “measure” means any measure by a Party, whether in the form of a law, regulation, rule, procedure, decision, administrative action or any other form;
(c)    “supply of a service” includes the production, distribution, marketing, sale and delivery of a service;
(d)    “measures by a Party affecting trade in services” include measures in respect of:
    (i)    the purchase, payment or use of a service;
    (ii)    the access to and use of, in connection with the supply of a service, services which are required by that Party to be offered to the public generally;
    (iii)    the presence, including commercial presence, of persons of another Party for the supply of a service in the territory of that Party;
(e)    “commercial presence” means any type of business or professional establishment, including through:
    (i)    the constitution, acquisition or maintenance of a juridical person; or
    (ii)    the creation or maintenance of a branch or a representative office; within the territory of a Party for the purpose of supplying a service;
(f)    “service supplier” means any person that seeks to supply or supplies a service; 2
(g)    “natural person of a Party” is, in accordance with its legislation, a national or a permanent resident of that Party if he or she is accorded substantially the same treatment as nationals in respect of measures affecting trade in services;

(h)    “juridical person” means any legal entity duly constituted or otherwise organised under applicable law, whether for profit or otherwise, and whether privately-owned or governmentally- owned, including any corporation, trust, partnership, joint venture, sole proprietorship or association;




2     Where the service is not supplied directly by a juridical person but through other forms of commercial presence such as a branch or a representative office, the service supplier (i.e. the juridical person) shall, nonetheless, through such presence be accorded the treatment provided for service suppliers under this Agreement. Such treatment shall be extended to the presence through which the service is supplied and need not be extended to any other parts of the supplier located outside the territory where the service is supplied.

(i)    “services” includes any service in any sector except services supplied in the exercise of governmental authority;
(j)    “juridical person of a Party” means a juridical person which is either:
    (i)    constituted or otherwise organised under the law of Chile or an EFTA State, and that is engaged in substantive business operations in Chile or in the EFTA State concerned; or
    (ii)    in the case of the supply of a service through commercial presence, owned or controlled by:
         (A)    natural persons of that Party; or
         (B)    juridical persons identified under paragraph (j)(i); and
(k)    “a service supplied in the exercise of governmental authority” means any service which is supplied neither on a commercial basis nor in competition with one or more service suppliers.

ARTICLE 24
Most-favoured nation treatment

1.     The rights and obligations of the Parties with respect to most-favoured nation treatment shall be governed by the GATS.
2.     If a Party enters into an agreement with a non- Party which has been notified under Article V of the GATS, it shall, upon request from another Party, afford adequate opportunity to the other Parties to negotiate, on a mutually advantageous basis, the benefits granted therein.

ARTICLE 25
Market access

1.     With respect to market access through the modes of supply identified in Article 23, each Party shall accord services and service suppliers of another Party treatment no less favourable than that provided for under the terms, limitations and conditions agreed and specified in its Schedule referred to in Article 27.
2.     In sectors where market-access commitments are undertaken, the measures which a Party shall not maintain or adopt either on the basis of a regional subdivision or on the basis of its entire territory, unless otherwise specified in its Schedule, are defined as:
(a)    limitations on the number of service suppliers whether in the form of numerical quotas, monopolies, exclusive service suppliers or the requirements of an economic needs test;
(b)    limitations on the total value of service transactions or assets in the form of numerical quotas or the requirement of an economic needs test;
(c)    limitations on the total number of service operations or on the total quantity of service output expressed in the terms of designated numerical units in the form of quotas or the requirement of an economic needs test; 3
(d)    limitations on the total number of natural persons that may be employed in a particular service sector or that a service supplier may employ and who are necessary for, and directly related to, the supply of a specific service in the form of numerical quotas or a requirement of an economic needs test;
(e)    measures which restrict or require specific types of legal entities or joint ventures through which a service supplier of another Party may supply a service; and
(f)    limitations on the participation of foreign capital in terms of maximum percentage limit on foreign shareholding or the total value of individual or aggregate foreign investment.

ARTICLE 26
National treatment

1.     In the sectors inscribed in its Schedule referred to in Article 27 and subject to the conditions and qualifications set out therein, each Party shall grant to services and services suppliers of another Party, in respect of all measures affecting the supply of services, treatment no less favourable than that it accords to its own like services and services suppliers. 4


2.     A Party may meet the requirement of paragraph 1 by according to services and service suppliers of another Party, either formally identical treatment or formally different treatment to that it accords to its own like services and service suppliers.

3.     Formally identical or formally different treatment shall be considered to be less favourable if it modifies the conditions of competition in favour of services or service suppliers of the Party compared to like services or service suppliers of another Party.






3     Subparagraph (c) does not cover measures of a Party which limit inputs for the supply of services.

4     Specific commitments assumed under this Article shall not be construed to require the Parties to compensate for any inherent competitive disadvantage which result from the foreign character of the relevant services and service suppliers.

ARTICLE 27
Trade liberalisation

1.     The Schedule of specific commitments that each Party undertakes under Articles 25 and 26 as well as paragraph 3 of this Article is set out at Annex VIII. With respect to sectors where such commitments are undertaken, each Schedule specifies:
(a)    terms, limitations and conditions on market access;
(b)    conditions and qualifications on national treatment;
(c)    undertakings relating to additional commitments referred to in paragraph 3; and
(d)    where appropriate, the time-frame for implementation of such commitments and the date of entry into force of such commitments.
2.     Measures inconsistent with both Articles 25 and 26 are inscribed in the column relating to Article 25. In this case, the inscription is considered to provide a condition or qualification to Article 26 as well.
3.     Where a Party undertakes a specific commitment on measures affecting trade in services not subject to scheduling under Articles 25 and 26, including those regarding qualifications, standards or licensing matters, such commitments are inscribed in its Schedule as additional commitments.

4.     The Parties undertake to review their Schedules of specific commitments at least every three years, or more frequently, with a view to provide for a reduction or elimination of substantially all remaining discrimination between the Parties with regard to trade in services covered in this Section on a mutually advantageous basis and ensuring an overall balance of rights and obligations.

ARTICLE 28
Domestic regulation

1.     In sectors where specific commitments are undertaken, each Party shall ensure that all measures of general application affecting trade in services are administered in a reasonable, objective and impartial manner.
2.     Each Party shall maintain or institute as soon as practicable judicial, arbitral or administrative tribunals or procedures which provide, at the request of an affected service supplier of another Party, for the prompt review of, and where justified, appropriate remedies for, administrative decisions affecting trade in services. Where such procedures are not independent of the agency entrusted with the administrative decision concerned, the Party shall ensure that the procedures in fact provide for an objective and impartial review.

3.     Where authorisation is required for the supply of a service, the competent authorities of a Party shall promptly, after the submission of an application is considered complete under domestic laws and regulations, inform the applicant of the decision concerning the application. At the request of the applicant, the competent authorities of the Party shall provide, without undue delay, information concerning the status of the application.
4.     The Parties shall jointly review the results of the negotiations on disciplines for measures relating to qualification requirements and procedures, technical standards and licensing requirements pursuant to Article VI.4 of the GATS aiming to ensure that such measure do not constitute unnecessary barriers to trade in services, with a view to their incorporation into this Agreement. The Parties note that such disciplines aim to ensure that such requirements are, inter alia:

(a)    based on objective and transparent criteria, such as competence and the ability to supply the service;
(b)    not more burdensome than necessary to ensure the quality of the service;
(c)    in the case of licensing procedures, not in themselves a restriction on the supply of the service.

5.     In sectors in which a Party has undertaken specific commitments, until the incorporation of disciplines developed pursuant to paragraph 4, a Party shall not apply licensing and qualification requirements and technical standards in a manner which:
(a)    does not comply with the criteria outlined in paragraphs 4 (a), (b) or (c); and
(b)    could not reasonably have been expected of that Party at the time of the conclusion of the negotiation of the present agreement.
6.     Whenever a domestic regulation is prepared, adopted and applied in accordance with international standards applied by both Parties, it shall be rebuttably presumed to comply with the provisions of this Article.
7.     Each Party shall provide for adequate procedures to verify the competence of professionals of another Party.

ARTICLE 29
Recognition

1.     The Parties shall encourage the relevant bodies in their respective territories to provide recommendations on mutual recognition, for the purpose of the fulfilment, in whole or in part, by service suppliers of the criteria applied by each Party for the authorisation, licensing, accreditation, operation and certification of service suppliers and, in particular, professional services.
2.     The Joint Committee, within a reasonable period of time and considering the level of correspondence of the respective regulations, shall decide whether a recommendation referred to in paragraph 1 is consistent with this Section. If that is the case, such a recommendation shall be implemented through an agreement on mutual requirements, qualifications, licences and other regulations to be negotiated by the competent authorities.
3.     Any such agreement shall be in conformity with the relevant provisions of the WTO Agreement and, in particular, Article VII of the GATS.

4.     Where the Parties agree, each Party shall encourage its relevant bodies to develop procedures for the temporary licensing of professional services suppliers of another Party.

5.     The Joint Committee shall periodically, and at least once every three years, review the implementation of this Article.
6.     Where a Party recognises, by agreement or arrangement, the education or experience obtained, requirements met or licenses or certifications granted in the territory of a non-Party, that Party shall accord another Party, upon request, adequate opportunity to negotiate its accession to such an agreement or arrangement or to negotiate comparable ones with it. Where a Party accords recognition autonomously, it shall afford adequate opportunity for another Party to demonstrate that the education or experience obtained, requirements met or licenses or certifications granted in the territory of that other Party should also be recognised.


ARTICLE 30
Movement of natural persons

1.     This Section applies to measures affecting natural persons who are service suppliers of a Party, and natural persons of a Party who are employed by a service supplier of a Party, in respect of the supply of a service. Natural persons covered by a Party's specific commitments shall be allowed to supply the service in accordance with the terms of those commitments.
2.     This Section shall not apply to measures affecting natural persons seeking access to the employment market of a Party, nor shall it apply to measures regarding nationality, residence or employment on a permanent basis.
3.     This Section shall not prevent a Party from applying measures to regulate the entry of natural persons of another Party into, or their temporary stay in, its territory, including those measures necessary to protect the integrity of, and to ensure the orderly movement of natural persons across its borders, provided that such measures are not applied in a manner so as to nullify or impair the benefits accruing to a Party under the terms of a specific commitment. 5


ARTICLE 31
Telecommunications services

    Specific provisions on telecommunications services are set out in Annex IX.

SECTION II – ESTABLISHMENT
ARTICLE 32
Coverage

    This Section shall apply to establishment in all sectors, with the exception of establishment in services sectors.

ARTICLE 33
Definitions

    For the purposes of this Section,

(a)    “juridical person” means any legal entity duly constituted or otherwise organised under applicable law, whether for profit or otherwise, and whether privately-owned or governmentally- owned, including any corporation, trust, partnership, joint venture, sole proprietorship or association;
(b)    “juridical person of a Party” means a juridical person constituted or otherwise organised under the law of an EFTA State or of Chile and that is engaged in substantive business operations in Chile or in the EFTA State concerned;
(c)    “natural person” means a national of an EFTA State or of Chile according to their respective legislation;
(d)    “establishment” means:
    (i)    the constitution, acquisition or maintenance of a juridical person; or
    (ii)    the creation or maintenance of a branch or a representative office;
    within the territory of a Party for the purpose of performing an economic activity.
    As regards natural persons, this shall not extend to seeking or taking employment in the labour market or confer a right of access to the labour market of a Party.


5     The sole fact of requiring a visa shall not be regarded as nullifying or impairing benefits under a specific commitment.

ARTICLE 34
National treatment

    With respect to establishment, and subject to the reservations set out in Annex X, each Party shall grant to juridical and natural persons of the other Party treatment no less favourable than that it accords to its own juridical and natural persons performing a like economic activity.

ARTICLE 35
Reservations

1.     National treatment as provided for under Article 34 shall not apply to:
(a)    any reservation that is listed by a Party in Annex X;
(b)    an amendment to a reservation covered by paragraph (a) to the extent that the amendment does not decrease the conformity of the reservation with Article 34;
(c)    any new reservation adopted by a Party, and incorporated into Annex X which does not affect the overall level of commitments of that Party under this Agreement;
to the extent that such reservations are inconsistent with Article 34.
2.     As part of the reviews provided for in Article 37 the Parties undertake to review at least every three years the status of the reservations set out in Annex X with a view to reducing or removing such reservations.

3.     A Party may, at any time, either upon the request of another Party or unilaterally, remove in whole or in part reservations set out in Annex X by written notification to the other Parties.

4.     A Party may, at any time, incorporate a new reservation into Annex X in accordance with paragraph 1(c) of this Article by written notification to the other Parties. On receiving such written notification, the other Parties may request consultations regarding the reservation. On receiving the request for consultations, the Party incorporating the new reservation shall enter into consultations with the other Parties.

ARTICLE 36
Right to regulate

    Subject to the provisions of Article 34, each Party may regulate the establishment of juridical and natural persons.

ARTICLE 37
Final provisions

    With the objective of progressive liberalisation of investment conditions, the Parties affirm their commitment to review the investment legal framework, the investment environment and the flow of investment between them consistent with their commitments in international investment agreements, no later than three years after the entry into force of this Agreement.

SECTION III – PAYMENTS AND
CAPITAL MOVEMENTS
ARTICLE 38
Objective and scope

1.     The Parties shall aim at the liberalisation of current payments and capital movements between them, in conformity with the commitments undertaken in the framework of the international financial institutions and with due consideration to each Party's currency stability.
2.     This Section applies to all current payments and capital movements between the Parties. Specific provisions on current payments and capital movements are set out in Annex XI.

ARTICLE 39
Current Account

    The Parties shall allow, in freely convertible currency and in accordance with the Articles of Agreement of the International Monetary Fund, any payments and transfers of the Current Account between the Parties.

ARTICLE 40
Capital Account

    The Parties shall allow the free movements of capital relating to direct investments made in accordance with the laws of the host country and investments made in accordance with the provisions of Sections Trade in Services and Establishment of this Chapter, and the liquidation or repatriation of these capitals and of any profit stemming therefrom.


ARTICLE 41
Exceptions and safeguard measures

1.     Where, in exceptional circumstances, payments and capital movements between the Parties cause or threaten to cause serious difficulties for the operation of monetary policy or exchange rate policy in any Party, the Party concerned may take safeguard measures with regard to capital movements that are strictly necessary for a period not exceeding one year. The application of safeguard measures may be extended through their formal reintroduction.
2.     The Party adopting the safeguard measures shall inform the other Party forthwith and present, as soon as possible, a time schedule for their removal.


ARTICLE 42
Final provisions

    The Parties shall consult each other with a view to facilitating the movement of capital between them in order to promote the objectives of this Agreement.

SECTION IV – COMMON PROVISIONS
ARTICLE 43
Relation to other international agreements

    With respect to matters related to this Chapter, the Parties confirm the rights and obligations existing under any bilateral or multilateral agreements to which they are a party.

ARTICLE 44
General exceptions

    Article XIV and Article XXVIII paragraph (o) of the GATS are hereby incorporated into and made part of this Chapter.

ARTICLE 45
Financial services

1.     The Parties understand that no commitments have been made in financial services. For greater clarity, financial services are defined as in paragraph 5 of the Annex on Financial Services of the GATS.

2.     Notwithstanding paragraph 1, two years after the entry into force of this Agreement, the Parties will consider the inclusion of financial services in this Chapter on a mutually advantageous basis and securing an overall balance of rights and obligations.

CHAPTER IV
PROTECTION OF INTELLECTUAL PROPERTY

ARTICLE 46
Intellectual property rights

1.     The Parties shall grant and ensure adequate, effective and non-discriminatory protection of intellectual property rights, and provide for measures for the enforcement of such rights against infringement thereof, counterfeiting and piracy, in accordance with the provisions of this Article, Annex XII to this Agreement and the international agreements referred to therein.
2.     The Parties shall accord to each other's nationals treatment no less favourable than that they accord to their own nationals. Exemptions from this obligation must be in accordance with the substantive provisions of Articles 3 and 5 of the WTO Agreement on Trade-Related Aspects of Intellectual Property Rights (hereinafter referred to as “the TRIPS Agreement”). 6
3.     The Parties shall grant to each other's nationals treatment no less favourable than that accorded to nationals of any other State. Exemptions from this obligation must be in accordance with the substantive provisions of the TRIPS Agreement, in particular Articles 4 and 5 thereof. 6
4.     The Parties agree, upon request of any Party to the Joint Committee and subject to its consensus, to review the provisions on the protection of intellectual property rights contained in the present Article and in Annex XII, with a view to further improving the levels of protection and to avoid or remedy trade distortions caused by actual levels of protection of intellectual property rights.

CHAPTER V
GOVERNMENT PROCUREMENT

ARTICLE 47
Objective

    In accordance with the provisions of this Chapter, the Parties shall ensure the effective and reciprocal opening of their government procurement markets.

ARTICLE 48
Scope and coverage

1.     This Chapter applies to any law, regulation, procedure or practice regarding any procurement, by the entities of the Parties, of goods 7 and services including works, subject to the conditions specified by each Party in Annexes XIII and XIV.

2.     This Chapter shall not be applicable to:
(a)    contracts awarded pursuant to:
    (i)    an international agreement and intended for the joint implementation or exploitation of a project by the contracting Parties;
    (ii)    an international agreement relating to the stationing of troops; and
    (iii)    the particular procedure of an international organisation;





6     It is understood that the reference of paragraphs 2 and 3 to Articles 3 to 5 of the TRIPS Agreement is made for the purpose of outlining their applicability to the provisions on Intellectual Property of this Agreement.
7     For the purpose of this Chapter, “goods” shall mean goods classified in chapters 1 to 97 of the HS.

(b)    non-contractual agreements or any form of government assistance and procurement made in the framework of assistance or co-operation programmes;
(c)    contracts for:
    (i)    the acquisition or rental of land, existing buildings, or other immovable property or concerning rights thereon;
    (ii)    the acquisition, development, production or co-production of programme material by broadcasters and contracts for broadcasting time;
    (iii)    arbitration and conciliation services;
    (iv)    employment contracts; and
    (v)    research and development services other than those where the benefits accrue exclusively to the entity for its use in the conduct of its own affairs, on condition that the service is wholly remunerated by the entity;
(d)    financial services.
3.     Public works concessions, as defined in Article 49, shall also be subject to this Chapter, as specified in Annexes XIII and XIV.

4.     No Party may prepare, design or otherwise structure any procurement contract in order to avoid the obligations under this Chapter.


ARTICLE 49
Definitions

    For the purpose of this Chapter, the following definitions shall apply:
(a)    “entity” means an entity covered in Annex XIII;

(b)    “government procurement” means the process by which a government obtains the use of or acquires goods or services, or any combination thereof, for governmental purposes and not with a view to commercial sale or resale, or use in the production or supply of goods or services for commercial sale or resale;
(c)    “liberalisation” means a process as a result of which an entity enjoys no exclusive or special rights and is exclusively engaged in the provision of goods or services on markets that are subject to effective competition;
(d)    “offsets” means those conditions imposed or considered by an entity prior to, or in the course of its procurement process, that encourage local development or improve its Party's balance of payments accounts by means of requirements of local content, licensing of technology, investment, counter-trade or similar requirements;

(e)    “privatisation” means a process by means of which a public entity is no longer subject to government control, whether by public tender of the shares of that entity or otherwise, as contemplated in the respective Party's legislation in force;
(f)    “public works concessions” means a contract of the same type as the public works procurement contracts, except for the fact that the remuneration for the works to be carried out consists either solely in the right to exploit the construction or in this right together with a payment;
(g)    “supplier” means a natural or legal person that provides or could provide goods or services to an entity;
(h)    “technical specifications” means a specification, which lays down the characteristics of the products or services to be procured, such as quality, performance, safety and dimensions, symbols, terminology, packaging, marking and labelling, or the processes and methods for their production and requirements relating to conformity assessment procedures prescribed by procuring entities; and
(i)    “tenderer” means a supplier who has submitted a tender.

ARTICLE 50
National treatment and non-discrimination

1.     With respect to any laws, regulations, procedures and practices regarding government procurement covered by this Chapter, each Party shall grant the goods, services and suppliers of another Party a treatment no less favourable than that accorded by it to domestic goods, services and suppliers.

2.     With respect to any laws, regulations, procedures and practices regarding government procurement covered by this Chapter, each Party shall ensure:

(a)    that its entities do not treat a locally-established supplier less favourably than another locally-established supplier on the basis of the degree of foreign affiliation to or ownership by, a person of another Party; and
(b)    that its entities do not discriminate against a locally-established supplier on the basis that the goods or services offered by that supplier for a particular procurement are goods or services of another Party.
3.     This Article shall not apply to measures concerning customs duties or other charges of any kind imposed on, or in connection with importation, the method of levying such duties and charges, other import regulations, including restrictions and formalities, nor to measures affecting trade in services other than measures specifically governing procurement covered by this Chapter.

ARTICLE 51
Prohibition of offsets

    Each Party shall ensure that its entities do not, in the qualification and selection of suppliers, goods or services, in the evaluation of bids or in the award of contracts, consider, seek or impose offsets.


ARTICLE 52
Valuation rules

1.     Entities shall not split up a procurement, nor use any other method of contract valuation with the intention of evading the application of this Chapter when determining whether a contract is covered by the disciplines thereof, subject to the conditions set out in Annexes XIII and XIV.
2.     In calculating the value of a contract, an entity shall take into account all forms of remuneration, such as premiums, fees, commissions and interests, as well as the maximum permitted total amount, including option clauses, provided for by the contract.
3.     When, due to the nature of the contract, it is not possible to calculate in advance its precise value, entities shall estimate this value on the basis of objective criteria.

ARTICLE 53
Transparency

1.     Each Party shall promptly publish any law, regulation, judicial decision and administrative ruling of general application and procedure, including standard contract clauses, regarding procurement covered by this Chapter in the appropriate publications referred to in Appendix 2 of Annex XIV, including officially designated electronic media.
2.     Each Party shall promptly publish in the same manner all modifications to such measures.

ARTICLE 54
Tendering procedures

1.     Entities shall award their public contracts by open or selective tendering procedures according to their national procedures, in compliance with this Chapter and in a non-discriminatory manner.
2.     For the purposes of this Chapter:

(a)    open tendering procedures are those procedures whereby any interested supplier may submit a tender;
(b)    selective tendering procedures are those procedures whereby, consistent with Article 55 and other relevant provisions of this Chapter, only suppliers satisfying qualification requirements established by the entities are invited to submit a tender.
3.     However, in the specific cases and only under the conditions laid down in Article 56, entities may use a procedure other than the open or selective tendering procedures referred to in paragraph 1, in which case the entities may choose not to publish a notice of intended procurement, and may consult the suppliers of their choice and negotiate the terms of contract with one or more of these.
4.     Entities shall treat tenders in confidence. In particular, they shall not provide information intended to assist particular participants to bring their tenders up to the level of other participants.


ARTICLE 55
Selective tendering

1.     In selective tendering, entities may limit the number of qualified suppliers they will invite to tender, consistent with the efficient operation of the procurement process, provided that they select the maximum number of domestic suppliers and suppliers of another Party, and that they make the selection in a fair and non-discriminatory manner and on the basis of the criteria indicated in the notice of intended procurement or in tender documents.
2.     Entities maintaining permanent lists of qualified suppliers may select suppliers to be invited to tender from among those listed, under the conditions foreseen in Article 57(7). Any selection shall allow for equitable opportunities for suppliers on the lists.


ARTICLE 56
Other procedures

1.     Provided that the tendering procedure is not used to avoid maximum possible competition or to protect domestic suppliers, entities shall be allowed to award contracts by means other than an open or selective tendering procedure in the following circumstances and subject to the following conditions, where applicable:
(a)    when no suitable tenders or request to participate have been submitted in response to a prior procurement, on condition that the requirements of the initial procurement are not substantially modified;
(b)    when, for technical or artistic reasons, or for reasons connected with protection of exclusive rights, the contract may be performed only by a particular supplier and no reasonable alternative or substitute exists;
(c)    for reasons of extreme urgency brought about by events unforeseeable by the entity, the products or services could not be obtained in time by means of open or selective tendering procedures;

(d)    for additional deliveries of goods or services by the original supplier where a change of supplier would compel the entity to procure equipment or services not meeting requirements of interchangeability with already existing equipment, software or services;
(e)    when an entity procures prototypes or a first product or service which are developed at its request in the course of, and for, a particular contract for research, experiment, study or original development;
(f)    when additional services which were not included in the initial contract but which were within the objectives of the original tender documentation have, through unforeseeable circumstances, become necessary to complete the services described therein. However, the total value of contracts awarded for the additional construction services may not exceed 50 percent of the amount of the main contract;
(g)    for new services consisting of the repetition of similar services and for which the entity has indicated in the notice concerning the initial service, that tendering procedures other than open or selective might be used in awarding contracts for such new services;
(h)    in the case of contracts awarded to the winner of a design contest, provided that the contest has been organised in a manner which is consistent with the principles of this Chapter; in case of several successful candidates, all successful candidates shall be invited to participate in the negotiations; and
(i)    for quoted goods purchased on a commodity market and for purchases of goods made under exceptionally advantageous conditions which only arise in the very short term in the case of unusual disposals and not for routine purchases from regular suppliers.
2.     The Parties shall ensure that, whenever it is necessary for entities to resort to a procedure other than the open or selective tendering procedures based on the circumstances set forth in paragraph 1, the entities shall maintain a record or prepare a written report providing specific justification for the contract awarded under that paragraph.

ARTICLE 57
Qualification of suppliers

1.     Any conditions for participation in procurement shall be limited to those that are essential to ensure that the potential supplier has the capability to fulfil the requirements of the procurement and the ability to execute the contract in question.
2.     In the process of qualifying suppliers, entities shall not discriminate between domestic suppliers and suppliers of another Party.
3.     A Party shall not impose the condition that, in order for a supplier to participate in a procurement, the supplier has previously been awarded one or more contracts by an entity of that Party or that the supplier has prior work experience in the territory of that Party.
4.     Entities shall recognise as qualified suppliers all suppliers who meet the conditions for participation in a particular intended procurement. Entities shall base their qualification decisions solely on the conditions for participation that have been specified in advance in notices or tender documentation.
5.     Nothing in this Chapter shall preclude the exclusion of any supplier on grounds such as bankruptcy or false declarations or conviction for a serious crime such as participation in criminal organisations.
6.     Entities shall promptly communicate to suppliers that have applied for qualification their decision on whether or not they qualify.
Permanent lists of qualified suppliers
7.     Entities may establish permanent lists of qualified suppliers provided that the following rules are respected:
(a)    entities establishing permanent lists shall ensure that suppliers may apply for qualification at any time;
(b)    any supplier having requested to become a qualified supplier shall be notified by the entities concerned of the decision in this regard;
(c)    suppliers requesting to participate in a given intended procurement who are not on the permanent list of qualified suppliers shall be given the possibility to participate in the procurement by presenting the equivalent certifications and other means of proof requested from suppliers who are on the list;
(d)    when an entity operating in the utilities sector uses a notice on the existence of a permanent list as a notice of intended procurement, as provided in Annex XIV, Appendix 5, paragraph 6, suppliers requesting to participate who are not on the permanent list of qualified suppliers shall also be considered for the procurement, provided there is sufficient time to complete the qualification procedure; in this event, the procuring entity shall promptly start procedures for qualification and the process of, and the time required for, qualifying suppliers shall not be used in order to keep suppliers of other Parties off the suppliers' list.

ARTICLE 58
Publication of notices

General provisions
1.     Each Party shall ensure that its entities provide for effective dissemination of the tendering opportunities generated by the relevant government procurement processes, providing suppliers of another Party with all the information required to take part in such procurement.
2.     For each contract covered by this Chapter, except as set out in Articles 54(3) and 56, entities shall publish in advance a notice inviting interested suppliers to submit tenders, or where appropriate, requests for participation for that contract.

3.     The information in each notice of intended procurement shall include at least the following:
(a)    name, address, telefax number, electronic address of the entity and, if different, the address where all documents relating to the procurement may be obtained;
(b)    the tendering procedure chosen and the form of the contract;
(c)    a description of the intended procurement, as well as essential contract requirements to be fulfilled;
(d)    any conditions that suppliers must fulfil to participate in the procurement;
(e)    time-limits for submission of tenders and, where appropriate, other time limits;
(f)    main criteria to be used for award of the contract; and
(g)    if possible, terms of payment and any other terms.
Common provisions
4.     Each notice referred to in this Article and Appendix 5 of Annex XIV, shall be accessible during the entire time period established for tendering for the relevant procurement.
5.     Entities shall publish the notices in a timely manner through means which offer the widest possible and non-discriminatory access to the interested suppliers of the Parties. These means shall be accessible free of charge through a single point of access specified in Appendix 2 to Annex XIV.

ARTICLE 59
Tender documentation

1.     Tender documentation provided to suppliers shall contain all information necessary to permit them to submit responsive tenders.
2.     Where contracting entities do not offer free direct access to the entire tender documents and any supporting documents by electronic means, entities shall make promptly available the tender documentation at the request of any supplier of the Parties.
3.     Entities shall promptly reply to any reasonable request for relevant information relating to the intended procurement, on condition that such information does not give that supplier an advantage over its competitors.

ARTICLE 60
Technical specifications

1.     Technical specifications shall be set out in the notices, tender documents or additional documents.
2.     Each Party shall ensure that its entities do not prepare, adopt or apply any technical specifications with a view to, or with the effect of, creating unnecessary obstacles to trade between the Parties.

3.     Technical specifications prescribed by entities shall be:
(a)    in terms of performance and functional requirements rather than design or descriptive characteristics; and
(b)    based on international standards, where these exist or, in their absence, on national technical regulations, 8 recognised national standards, 9 or building codes.
4.     The provisions of paragraph 3 do not apply when the entity can objectively demonstrate that the use of technical specifications referred to in that paragraph would be ineffective or inappropriate for the fulfilment of the legitimate objectives pursued.




8     For the purpose of this Chapter, a technical regulation is a document which lays down characteristics of a product or a service or their related processes and production methods, including the applicable administrative provisions, with which compliance is mandatory. It may also include or deal exclusively with terminology, symbols, packaging, marking or labeling requirements as they apply to a product, service, process or production method.
9     For the purpose of this Chapter, a standard is a document approved by a recognised body, that provides, for common and repeated use, rules, guidelines or characteristics for products or services or related processes and production methods, with which compliance is not mandatory. It may also include or deal exclusively with terminology, symbols, packaging, marking or labeling requirements as they apply to a product, service, process or production method.

5.     In all cases, entities shall consider bids which do not comply with the technical specifications but meet the essential requirements thereof and are fit for the purpose intended. The reference to technical specifications in the tender documents must include words such as “or equivalent”.
6.     There shall be no requirement or reference to a particular trademark or trade name, patent, design or type, specific origin, producer or supplier, unless there is no sufficiently precise or intelligible way of describing the procurement requirements and provided that words, such as “or equivalent”, are included in the tender documentation.
7.     The tenderer shall have the burden of proof to demonstrate that his bid meets the essential requirements.

ARTICLE 61
Time limits

1.     All time limits established by the entities for the receipt of tenders and requests to participate shall be adequate to allow suppliers of another Party, as well as domestic suppliers, to prepare and to submit tenders, and where appropriate, requests for participation or applications for qualifying. In determining any such time limit, entities shall, consistent with their own reasonable needs, take into account such factors as the complexity of the intended procurement and the normal time for transmitting tenders from foreign as well as domestic points.
2.     Each Party shall ensure that its entities shall take due account of publication delays when setting the final date for receipt of tenders or of requests for participation or for qualifying for the suppliers' list.

3.     The minimum time limits for the receipt of tenders are specified in Appendix 3 to Annex XIV.

ARTICLE 62
Negotiations

1.     A Party may provide for its entities to conduct negotiations:
(a)    in the context of procurements in which they have indicated such intent in the notice of intended procurement; or
(b)    when it appears from evaluation that no one tender is obviously the most advantageous in terms of the specific evaluation criteria set forth in the notices or tender documentation.
2.     Negotiations shall primarily be used to identify the strengths and weaknesses in tenders.
3.     Entities shall not, in the course of negotiations, discriminate between tenderers. In particular, they shall ensure that:
(a)    any elimination of participants is carried out in accordance with the criteria set forth in the notices and tender documentation;
(b)    all modifications to the criteria and to the technical requirements are transmitted in writing to all remaining participants in the negotiations;
(c)    on the basis of the revised requirements and/or when negotiations are concluded, all remaining participants are afforded an opportunity to submit new or amended tenders in accordance with a common deadline.

ARTICLE 63
Submission, receipt and opening of tenders

1.     Tenders and requests to participate in procedures shall be submitted in writing.
2.     Entities shall receive and open bids from tenderers under procedures and conditions guaranteeing the respect of the principles of transparency and non-discrimination.

ARTICLE 64
Awarding of contracts

1.     To be considered for award, a tender must, at the time of opening, conform to the essential requirements of the notices or tender documentation and be submitted by a supplier which complies with the conditions for participation.
2.     Entities shall make the award to the tenderer whose tender is either the lowest tender or the tender which, in terms of the specific objective evaluation criteria previously set forth in the notices or tender documentation, is determined to be the most advantageous.

ARTICLE 65
Information on contract award

1.     Each Party shall ensure that its entities provide for effective dissemination of the results of government procurement processes.
2.     Entities shall promptly inform tenderers of decisions regarding the award of the contract and of the characteristics and relative advantages of the selected tender. Upon request, entities shall inform any eliminated tenderer of the reasons for the rejection of its tender.

3.     Entities may decide to withhold certain information on the contract award where release of such information would prevent law enforcement or otherwise be contrary to the public interest, would prejudice the legitimate commercial interests of suppliers, or might prejudice fair competition between them.

ARTICLE 66
Bid challenges

1.     Entities shall accord impartial and timely consideration to any complaints from suppliers regarding an alleged breach of this Chapter in the context of a procurement procedure.
2.     Each Party shall provide non-discriminatory, timely, transparent and effective procedures enabling suppliers to challenge alleged breaches of this Chapter arising in the context of procurements in which they have, or have had, an interest.

3.     Challenges shall be heard by an impartial and independent reviewing authority. A reviewing authority which is not a court shall either be subject to judicial review or shall have procedural guarantees similar to those of a court.
4.     Challenge procedures shall provide for:

(a)    rapid interim measures to correct breaches of this Chapter and to preserve commercial opportunities. Such action may result in suspension of the procurement process. However, procedures may provide that overriding adverse consequences for the interests concerned, including the public interest, may be taken into account in deciding whether such measures should be applied; and

(b)    if appropriate, correction of the breach of this Chapter or, in the absence of such correction, compensation for the loss or damages suffered, which may be limited to costs for tender preparation and protest.

ARTICLE 67
Information technology and co-operation

1.     The Parties shall, to the extent possible, endeavour to use electronic means of communication to permit efficient dissemination of information on government procurement, particularly as regards tender opportunities offered by entities, while respecting the principles of transparency and non-discrimination.
2.     The Parties shall endeavour to provide each other with technical co-operation, particularly aimed at small and medium size enterprises, with a view to achieve a better understanding of their respective government procurement systems and statistics, as well as a better access to their respective markets.


ARTICLE 68
Modifications to coverage

1.     A Party may modify its coverage under this Chapter, provided that it:
(a)    notifies the other Parties of the modification; and

(b)    provides the other Parties, within 30 days following the date of such notification, appropriate compensatory adjustments to its coverage in order to maintain a level of coverage comparable to that existing prior to the modification.
2.     Notwithstanding paragraph 1(b), no compensatory adjustments shall be provided to the other Parties where the modification by a Party of its coverage under this Chapter concerns:
(a)    rectifications of a purely formal nature and minor amendments to Annexes XIII and XIV;
(b)    one or more covered entities on which government control or influence has been effectively eliminated as a result of privatisation or liberalisation.
3.     Where the Parties agree on the modification, the Joint Committee shall give effect to the agreement by amending the relevant Annex.

ARTICLE 69
Further negotiations

    In the case that a Party offers, in the future, a third party additional advantages with regard to its respective government procurement market access coverage agreed under this Chapter, it shall agree, upon request of another Party, to enter into negotiations with a view to extending coverage under this Chapter on a reciprocal basis.

ARTICLE 70
Exceptions

    Provided that such measures are not applied in a manner that would constitute a means of arbitrary or unjustifiable discrimination between the Parties or a disguised restriction on trade between them, nothing in this Chapter shall be construed to prevent any Party from adopting or maintaining measures necessary to protect:
(a)    public morals, order or safety;
(b)    human life, health or security;
(c)    animal or plant life or health;
(d)    intellectual property; or
(e)    relating to goods or services of handicapped persons, of philanthropic institutions or of prison labour.

ARTICLE 71
Review and implementation

1.     The Joint Committee shall review the implementation of this Chapter every two years, unless otherwise agreed by the Parties; it shall consider any issue arising from it, and take appropriate action in the exercise of its functions.

2.     At the request of a Party, the Parties shall convene a bilateral Working Group to address issues related to the implementation of this Chapter. Such issues may include:
(a)    bilateral cooperation relating to the development and use of electronic communications in government procurement systems;
(b)    the exchange of statistics and other information needed for monitoring procurement conducted by the Parties and the results of the application of this Chapter; and

(c)    exploration of potential interest in further negotiations aimed at further broadening of the scope of market access commitments under this Chapter.

CHAPTER VI
COMPETITION POLICY

ARTICLE 72
Objectives

1.     The Parties recognise that anti-competitive business conduct may frustrate the benefits arising from this Agreement.
2.     The Parties undertake to apply their competition laws in a manner consistent with this Chapter so as to avoid that the benefits of the liberalisation process in goods and services as provided by this Agreement may be diminished or cancelled out by anti-competitive business conduct. 10 To facilitate this, the Parties agree to co-operate and co-ordinate under the provisions of this Chapter. This co-operation includes notification, consultation, and exchange of information.

3.     For the purposes of this Agreement, “anti-competitive business conduct” includes, but is not limited to, anti-competitive agreements, concerted practices or arrangements by competitors, the abuse of single or joint dominant positions in a market and mergers with substantial anti-competitive effects. These practices refer to goods and services and may be carried out by private and public enterprises.








10     For the purpose of this Chapter, “goods” shall mean goods classified in chapters 1 to 97 of the HS.

4.     The Parties recognise the importance of principles of competition that are accepted in relevant multilateral fora of which the Parties are members or observers, including non-discrimination, due process, and transparency.



ARTICLE 73
Notifications

1.     Each Party, through its designated authority, shall notify the other Parties of an enforcement activity regarding anti-competitive business conduct relating to goods and services if it is liable to substantially affect another Party's important interests, or if the anti-competitive business conduct is liable to have a direct and substantial effect in the territory of that other Party or is taking place principally in the territory of that other Party.


2.     Provided that this is not contrary to the Parties' competition laws and does not affect any investigation being carried out, notification shall take place at an early stage of the procedure.
3.     The notifications provided for in paragraph 1 should be detailed enough to permit an evaluation in the light of the interests of the other Parties.

ARTICLE 74
Co-ordination of enforcement
activities

    A Party, through its designated authority, may notify another Party of its willingness to co-ordinate enforcement activities with respect to a specific case. This co-ordination shall not prevent the Parties from taking autonomous decisions.


ARTICLE 75
Consultations

1.     Each Party shall, in accordance with its laws, take into consideration the important interests of the other Parties in the course of its enforcement activities on anti-competitive business conduct relating to goods and services. If a Party considers that an investigation or proceeding being conducted by another Party may adversely affect such Party's important interests it may transmit its views on the matter to that other Party through its designated authority. Without prejudice to the continuation of any action under its competition laws and to its full freedom of ultimate decision, the Party so addressed should give full and sympathetic consideration to the views expressed by the requesting Party.
2.     If a Party considers that an anti-competitive business conduct carried out within the territory of another Party may have an adverse effect on its interests, the first Party may, through its designated authority, request that that other Party initiates appropriate enforcement activities. The request shall be as specific as possible about the nature of the anti-competitive business conduct and its effect on the interest of the requesting Party, and shall include an offer of such further information and other assistance as the requesting Party is able to provide. The requested Party shall carefully consider whether to initiate enforcement activities, or to expand ongoing enforcement activities, with respect to the anti-competitive business conduct identified in the request.



3.     Regarding the issues addressed in paragraphs 1 and 2 each Party undertakes to exchange information regarding sanctions and remedies applied and to provide the grounds on which those actions were taken, when requested by another Party.
4.     A Party may request consultations within the Joint Committee regarding the issues addressed in paragraphs 1 and 2 as well as any other matter covered by this Chapter. Such a request shall indicate the reasons for the request and whether any procedural time limit or other constraints require that consultations be expedited.

ARTICLE 76
Exchange of information and confidentiality

1.     With a view to facilitating the effective application of their competition laws in order to eliminate the negative effects of anti-competitive business conduct relating to goods and services, the Parties are encouraged to exchange information.
2.     All exchange of information shall be subject to the rules and standards of confidentiality applicable in the territory of each Party. No Party shall be required to provide information when this is contrary to its laws regarding disclosure of information. Each Party shall maintain the confidentiality of any information provided to it according to the limitations that the submitting Party requests for the use of such information. Where the laws of a Party so provide, confidential information may be provided to their respective courts of justice.

ARTICLE 77
Public enterprises and enterprises entrusted
with special or exclusive rights, including designated monopolies

1.     With regard to public enterprises and enterprises to which special or exclusive rights have been granted, the Parties shall ensure that no measure is adopted or maintained that distorts trade in goods or services between the Parties to an extent contrary to the Parties' interests and that such enterprises shall be subject to the rules of competition insofar as the application of such rules does not obstruct the performance, in law or in fact, of the particular tasks assigned to them.
2.     The Parties confirm their rights and obligations under Article XVII of the GATT 1994 and Article VIII of the GATS with regard to enterprises referred to in paragraph 1.

ARTICLE 78
Dispute settlement

    No Party may have recourse to dispute settlement under this Agreement for any matter arising under this Chapter.

ARTICLE 79
Designated authorities

    For the purpose of applying Articles 73, 74 and 75, each Party shall designate its competition authority or any other public entity and communicate its decision to the other Parties at the first meeting of the Joint Committee but in no case later than 60 days after the entry into force of the Agreement.

ARTICLE 80
Definitions

    For the purpose of this Chapter:

(a)    “competition laws” means:
    (i)    for Chile, Decreto Ley N° 211 of 1973 and Ley N° 19.610 of 1999 and their implementing regulations or amendments as well as other laws dealing with competition matters;

    (ii)    for the Republic of Iceland, Competition Law No. 8/1993 as amended by Law No. 24/1994, 83/1997, 82/1998 and 107/2000 as well as other laws dealing with competition matters;
    (iii)    for the Principality of Liechtenstein, any competition rules that Liechtenstein recognises or undertakes to apply within its territory, including those provided for in other international agreements, such as the Agreement on the European Economic Area;

    (iv)    for the Kingdom of Norway, Act No. 65 of 11 June 1993 relating to Competition in Commercial Activity as well as other laws dealing with competition matters;
    (v)    for the Swiss Confederation, the Federal Act on Cartels and Other Restraints of Competition of 6 October 1995 and the Order on the Control of Business Concentration of 17 June 1996, and any regulation provided for by these acts as well as other laws dealing with competition matters;

    and any changes that the above mentioned legislation may undergo after the conclusion of this Agreement;
(b)    “enforcement activity” includes any application of competition laws by way of investigation or proceeding conducted by a Party, which may result in the imposition of penalties or remedies.


CHAPTER VII
SUBSIDIES

ARTICLE 81
Subsidies/State aid

1.     The rights and obligations of the Parties in respect of subsidies related to goods shall be governed by Article XVI of the GATT 1994 and the WTO Agreement on Subsidies and Countervailing Measures.
2.     The rights and obligations of the Parties in respect of subsidies related to services shall be governed by the GATS.
3.     Each Party may request information on individual cases of state aid believed to affect trade between the Parties. The requested Party will make its best efforts to provide such information.


CHAPTER VIII
TRANSPARENCY

ARTICLE 82
Publication

1.     The Parties shall publish, or otherwise make publicly available, their laws, regulations, procedures and administrative rulings of general application as well as the international agreements, that may affect the operation of this Agreement.

2.     The Parties shall provide, upon request, information on matters referred to in paragraph 1.

ARTICLE 83
Contact points and exchange of information

1.     In order to facilitate communication between the Parties on any trade matter covered by this Agreement, each Party shall designate a contact point. On the request of any Party, the contact point of the other Parties shall indicate the office or official responsible for the matter and provide the required support to facilitate communication with the requesting Party.

2.     On the request of a Party, each Party shall provide information and reply to any question from the other Parties relating to an actual measure that may affect the operation of this Agreement. The Parties shall make information on proposed measures available to the extent possible under their domestic laws and regulations.

3.     The information referred to under this Article shall be considered to have been provided when the information has been made available by appropriate notification to the WTO or when the information has been made available on the official, publicly and fee-free accessible website of the Party concerned.

ARTICLE 84
Cooperation on increased transparency

    The Parties agree to cooperate in bilateral and multilateral fora on ways to increase transparency in trade matters.

CHAPTER IX
ADMINISTRATION OF THE AGREEMENT

ARTICLE 85
The Joint Committee

1.     The Parties hereby establish the EFTA-Chile Joint Committee, comprising Ministers of each Party, or senior officials delegated by them for this purpose.

2.     The Joint Committee shall:
(a)    supervise the implementation of this Agreement and evaluate the results obtained in its application;
(b)    oversee the further elaboration of this Agreement;
(c)    endeavour to resolve disputes that may arise regarding the interpretation or application of this Agreement;
(d)    supervise the work of the sub-committees and working groups established or created under this Agreement; and
(e)    carry out any other function assigned to it under this Agreement.
3.     The Joint Committee may decide to set up such sub-committees and working groups as it considers necessary to assist it in accomplishing its tasks. The Joint Committee may seek the advice of non-governmental persons and groups.
4.     The Joint Committee shall establish its rules of procedure. It may take decisions as provided for in this Agreement. On other matters the Joint Committee may make recommendations. The Joint Committee shall take decisions and make recommendations by consensus.
5.     Subject to the provisions set out in Annex XV, the Joint Committee may amend the Annexes and the Appendices to this Agreement.
6.     The Joint Committee shall meet whenever necessary but normally every two years. The regular meetings of the Joint Committee shall alternate between Chile and an EFTA State.
7.     Each Party may request at any time, through a notice in writing to the other Parties, that a special meeting of the Joint Committee be held. Such a meeting shall take place within 30 days of receipt of the request, unless the Parties agree otherwise.

ARTICLE 86
The Secretariat

1.     The Parties hereby establish a Secretariat of this Agreement, comprising the competent organs referred to in Annex XVI.
2.     All communications to or by a Party shall be sent through the respective competent organs unless otherwise provided for in this Agreement.

CHAPTER X
DISPUTE SETTLEMENT

ARTICLE 87
Scope

1.     This Chapter shall apply with respect to the avoidance or the settlement of all disputes arising from this Agreement between one or several EFTA States and Chile.
2.     The Parties shall at all times endeavour to agree on the interpretation and application of this Agreement, and shall make every attempt through co- operation and consultations to arrive at a mutually satisfactory resolution of any matter that might affect its operation.
3.     This Chapter shall not apply to Articles 14(2), 16(1), 17(1), 18(3), 20, 24(1) and 81(1) and (2).


ARTICLE 88
Choice of forum

1.     Disputes on the same matter arising under both this Agreement and the WTO Agreement, or any agreement negotiated thereunder, to which the Parties are party, may be settled in either forum at the discretion of the complaining Party. The forum thus selected shall be used to the exclusion of the other.

2.     Once dispute settlement procedures have been initiated under this Agreement pursuant to Article 91 or dispute settlement proceedings have been initiated under the WTO Agreement, the forum selected shall be used to the exclusion of the other.
3.     For the purposes of this Article, dispute settlement proceedings under the WTO Agreement are deemed to be initiated by a Party's request for the establishment of a panel pursuant to Article 6 of the Understanding on Rules and Procedures Governing the Settlement of Disputes.
4.     Before a Party initiates dispute settlement proceedings under the WTO Agreement against another Party or Parties, that Party shall notify all other Parties of its intention.


ARTICLE 89
Good offices, conciliation or mediation

1.     Good offices, conciliation and mediation are procedures that are undertaken voluntarily if the Parties involved so agree. They may begin at any time and be terminated at any time.
2.     Proceedings involving good offices, conciliation and mediation shall be confidential and without prejudice to the rights of the Parties in any other proceedings.

ARTICLE 90
Consultations

1.     A Party may request in writing consultations with another Party whenever it considers that a measure applied by that Party is inconsistent with this Agreement or that any benefit accruing to it directly or indirectly under this Agreement is impaired by such measure. The Party requesting consultations shall at the same time notify the other Parties in writing thereof. Consultations shall take place before the Joint Committee unless the Party or Parties making or receiving the request for consultations disagree.


2.     Consultations shall be held within 30 days from the date of receipt of the request for consultations. Consultations on urgent matters, including those on perishable agricultural goods, shall commence within 15 days from the receipt of the request for consultations.
3.     The Parties involved in the consultations shall provide sufficient information to enable a full examination of how the measure is inconsistent with, or may impair the benefit accruing to them under this Agreement and treat any confidential or proprietary information exchanged in the course of consultations in the same manner as the Party providing the information.
4.     The consultations shall be confidential and without prejudice to the rights of the Parties involved in any further proceedings.
5.     The Parties involved in the consultations shall inform the other Parties of any mutually agreed resolution of the matter.

ARTICLE 91
Establishment of arbitration panel

1.     If the matter has not been resolved within 60 days, or 30 days in relation to a matter of urgency, after the date of receipt of the request for consultations, it may be referred to arbitration by one or more of the Parties involved by means of a written notification addressed to the Party or Parties complained against. A copy of this notification shall also be communicated to all Parties so that each Party may determine whether to participate in the dispute.
2.     Where more than one Party requests the establishment of an arbitration panel relating to the same matter, a single arbitration panel should be established to examine these complaints whenever feasible.
3.     A request for arbitration shall give the reason for the complaint including the identification of the measure at issue and an indication of the legal basis of the complaint.
4.     A Party to this Agreement which is not a Party to the dispute, on delivery of a written notice to the disputing Parties, shall be entitled to make written submissions to the arbitration panel, receive written submissions of the disputing Parties, attend all hearings and make oral submissions.


ARTICLE 92
Arbitration panel

1.     The arbitration panel shall comprise three members.
2.     In the written notification pursuant to Article 91, the Party or the Parties referring the dispute to arbitration shall designate one member of the arbitration panel.
3.     Within 15 days of the receipt of the notification referred to in paragraph 2, the Party or Parties to which it was addressed to shall designate one member of the arbitration panel.
4.     The Parties to the dispute shall agree on the appointment of the third arbitrator within 15 days of the appointment of the second arbitrator. The member thus appointed shall chair the arbitration panel.
5.     If all 3 members have not been designated or appointed within 30 days from the date of receipt of the notification referred to in paragraph 2, the necessary designations shall be made at the request of any Party to the dispute by the Director-General of the WTO within a further 30 days.
6.     The Chair of the arbitration panel shall not be a national of any of the Parties, nor have his or her usual place of residence in the territory of any of the Parties, nor be employed or previously have been employed by any of the Parties, nor have dealt with the case in any capacity.
7.     If an arbitrator dies, withdraws or is removed, a replacement shall be selected within 15 days in accordance with the selection procedure followed to select him or her. In such a case, any time period applicable to the arbitration panel proceedings shall be suspended for a period beginning on the date the arbitrator dies, withdraws or is removed and ending on the date the replacement is selected.
8.     The date of establishment of the arbitration panel shall be the date on which the Chair is appointed.

ARTICLE 93
Procedures of the arbitration panel

1.     Unless the Parties to the dispute agree otherwise, the arbitration panel proceedings shall be conducted in accordance with the Model Rules of Procedure set out at Annex XVII.
2.     Unless the Parties to the dispute otherwise agree within 10 days from the date of delivery of the request for the establishment of the arbitration panel, the terms of reference shall be:
    “To examine, in the light of the relevant provisions of the Agreement, the matter referred to in the request for the establishment of an arbitration panel pursuant to Article 91 and to make findings of law and fact together with the reasons therefore for the resolution of the dispute.”
3.     At the request of a Party to the dispute or on its own initiative, the arbitration panel may seek scientific information and technical advice from experts as it deems appropriate. Any information so obtained shall be submitted to the Parties for comments.

4.     The arbitration panel shall make its ruling based on the provisions of this Agreement, in particular in the light of its objectives as set out in Article 2, applied and interpreted in accordance with the rules of interpretation of public international law.
5.     Decisions of the arbitration panel shall be taken by a majority of its members. Arbitrators may furnish separate opinions on matters not unanimously agreed. No arbitration panel may disclose which arbitrators are associated with majority or minority opinions.
6.     The expenses of the arbitration panel, including the remuneration of its members, shall be borne by the Parties to the dispute in equal shares.

ARTICLE 94
Ruling

1.     The arbitration panel shall within 90 days from the date of the establishment of the arbitration panel present to the Parties to the dispute its ruling.
2.     The arbitration panel shall base its ruling on the submissions and arguments of the Parties to the dispute and on any scientific information and technical advice pursuant to Article 93(3).
3.     Unless the Parties to the dispute decide otherwise, the ruling shall be published 15 days after it is presented to them.

ARTICLE 95
Termination of arbitration panel proceedings

    A complaining Party may withdraw its complaint at any time before the ruling has been issued. Such withdrawal is without prejudice to its right to introduce a new complaint regarding the same issue at a later point in time.

ARTICLE 96
Implementation of arbitration panel rulings

1.     The ruling shall be final and binding on the Parties to the dispute. Each Party to the dispute shall be bound to take the measures necessary to comply with the ruling referred to in Article 94.
2.     The Parties to the dispute shall endeavour to agree on the specific measures that are required for complying with the ruling.
3.     The Party complained against shall notify the other Party within 30 days after the ruling has been transmitted to the Parties to the dispute:
(a)    the specific measures required for complying with the ruling;
(b)    the reasonable period of time to do so; and
(c)    a concrete proposal of a temporary compensation until the full implementation of the specific measures required for compliance with the ruling.
4.     In case of disagreement between the Parties to the dispute on the content of such notification, the complaining Party may request the original arbitration panel to rule on whether the proposed measures referred to under paragraph 3(a) are in compliance with the ruling, on the duration of the period of time and on whether the compensation proposal is manifestly disproportionate. The ruling shall be given within 45 days after that request.
5.     The Party or Parties concerned shall notify to the other Party or Parties to the dispute and the Joint Committee the measures adopted in order to implement the ruling before the expiry of the reasonable period of time determined in accordance with paragraph 4. Upon that notification, any Party to the dispute may request the original arbitration panel to rule on the conformity of those measures with the ruling. The ruling of the arbitration panel shall be given within 45 days from that request.

6.     If the Party or Parties concerned fails to notify the implementing measures before the expiry of the reasonable period of time determined in accordance with paragraph 4, or if the arbitration panel rules that the implementing measures notified by the Party or Parties concerned are not in compliance with the ruling, such Party or Parties shall, if so requested by the complaining Party or Parties, enter into consultations with a view to agree on a mutually acceptable compensation. If no such agreement has been reached within 20 days from the request, the complaining Party or Parties shall be entitled to suspend only the application of benefits granted under this Agreement equivalent to those affected by the measure found to be inconsistent with, or to impair benefits under, this Agreement.
7.     In considering what benefits to suspend, the complaining Party or Parties should first seek to suspend benefits in the same sector 11 or sectors as that affected by the measure that the arbitration panel has found to be inconsistent with, or to impair benefits under, this Agreement. The complaining Party or Parties that consider it is not practicable or effective to suspend benefits in the same sector or sectors may suspend benefits in other sectors.
8.     The complaining Party or Parties shall notify the other Party or Parties of the benefits which it intends to suspend no later than 60 days before the date on which the suspension is due to take effect. Within 15 days from that notification, any of the Parties to the dispute may request the original arbitration panel to rule on whether the benefits which the complaining Party or Parties intend to suspend are equivalent to those affected by the measure found to be inconsistent with, or to impair benefits under, this Agreement, and whether the proposed suspension is in accordance with paragraphs 6 and 7. The ruling of the arbitration panel shall be given within 45 days from that request. Benefits shall not be suspended until the arbitration panel has issued its ruling.








11     For the purpose of this Article, with respect to goods 'sector' shall mean goods classified in Chapters 1 to 97 of the HS.

9.     The suspension of benefits shall be temporary and shall only be applied by the complaining Party or Parties until the measure found to be inconsistent with, or to impair benefits under, this Agreement has been withdrawn or amended so as to bring it into conformity with this Agreement, or the Parties to the dispute have reached agreement on a resolution of the dispute.
10.     At the request of any of the Parties to the dispute, the original arbitration panel shall decide on the conformity with the ruling of any implementing measures adopted after the suspension of benefits and, in light of such ruling, whether the suspension of benefits should be terminated or modified. The ruling of the arbitration panel shall be given within 30 days from the date of that request.
11.     The rulings provided for in this Article shall be binding.

ARTICLE 97
Other provisions

1.     Any time period mentioned in this Chapter may be extended by mutual agreement of the Parties involved.
2.     Hearings of the arbitration panels shall be closed to the public, unless the Parties decide otherwise.

CHAPTER XI
GENERAL EXCEPTIONS

ARTICLE 98
Balance of payments difficulties

1.     Where a Party is in serious balance of payments and external financial difficulties, or under threat thereof, it may adopt or maintain restrictive measures with regard to trade in goods and in services and with regard to payments and capital movements, including those related to direct investment.

2.     The Parties shall endeavour to avoid the application of the restrictive measures referred to in paragraph 1.
3.     Any restrictive measure adopted or maintained under this Article shall be non-discriminatory and of limited duration and shall not go beyond what is necessary to remedy the balance of payments and external financial situation. Such a measure shall be in accordance with the conditions established in the WTO Agreements and consistent with the Articles of Agreement of the International Monetary Fund, as applicable.

4.     The Party maintaining or having adopted restrictive measures, or any changes thereto, shall promptly notify them to the other Parties and present, as soon as possible, a time schedule for their removal.

5.     The Party applying restrictive measures shall consult promptly within the Joint Committee. Such consultations shall assess the balance of payments situation of the Party concerned and the restrictions adopted or maintained under this Article, taking into account, inter alia, such factors as:

(a)    the nature and extent of the balance of payments and the external financial difficulties;
(b)    the external economic and trading environment of the consulting Party;
(c)    alternative corrective measures which may be available.
    The consultations shall address the compliance of any restrictive measures with paragraphs 3 and 4. All findings of statistical and other facts presented by the International Monetary Fund relating to foreign exchange, monetary reserves and balance of payments shall be accepted and conclusions shall be based on the assessment by the International Monetary Fund of the balance of payments and the external financial situation of the consulting Party.

ARTICLE 99
National security clause

1.     Nothing in this Agreement shall be construed:

(a)    to require a Party to furnish any information the disclosure of which it considers contrary to its essential security interests;
(b)    to prevent a Party from taking any action which it considers necessary for the protection of its essential security interests:
    (i)    relating to fissionable and fusionable materials or the materials from which they are derived;
    (ii)    relating to the traffic in arms, ammunition and implements of war and to such traffic in other goods and materials or relating to the supply of services, as carried on directly or indirectly for the purpose of supplying or provisioning a military establishment;
    (iii)    relating to the government procurement of arms, ammunition or war materials or procurement indispensable for national security or for national defense purposes; or
    (iv)    taken in time of war or other emergency in international relations; or
(c)    to prevent a Party from taking any action in pursuance of its obligations under the United Nations Charter for the maintenance of international peace and security.
2.     The Joint Committee shall be informed to the fullest extent possible of measures taken under paragraphs 1(b) and (c) and of their termination.

ARTICLE 100
Taxation

1.     Nothing in this Agreement shall apply to taxation measures except:
(a)    Article 15, and such other provisions of this Agreement as are necessary to give effect to that Article to the same extent as does Article III of the GATT 1994; and

(b)    with regard to taxation measures applicable in Section I of Chapter III, where Article XIV of the GATS applies.
2.     Nothing in this Agreement shall affect the rights and obligations of any Party under any tax convention. In the event of any inconsistency between this Agreement and any such convention, that convention shall prevail to the extent of the inconsistency.

CHAPTER XII
FINAL PROVISIONS

ARTICLE 101
Definitions

    For the purposes of this Agreement, unless otherwise specified:
    “days” means calendar days;
    “measure” includes inter alia any law, regulation, procedure, requirement or practice; and
    “Party” means any State regarding which this Agreement has entered into force.

ARTICLE 102
Annexes and Appendices

    The Annexes and Appendices to this Agreement constitute an integral part thereof.

ARTICLE 103
Amendments

1.     The Parties may agree on any amendment to this Agreement. Unless the Parties decide otherwise, the amendments shall enter into force on the first day of the third month following the deposit of the last instrument of ratification, acceptance or approval.

2.     Notwithstanding paragraph 1, with respect to decisions of the Joint Committee amending the Annexes and Appendices to this Agreement, Article 85(5) shall apply. Such decisions shall enter into force on the date that the last Party notifies that its internal requirements have been fulfilled, unless the decision itself specifies a later date. The Joint Committee may decide that any decision shall enter into force for those Parties that have fulfilled their internal requirements, provided that Chile is one of those Parties. An EFTA State may apply a decision of the Joint Committee provisionally until such decision enters into force, subject to its constitutional requirements.
3.     The text of the amendments shall be deposited with the Depositary.

ARTICLE 104
Additional Parties

    Any third State may, upon invitation by the Joint Committee, become a Party to this Agreement. The terms and conditions of the accession of the additional Party shall be the subject of an agreement between the Parties and the invited State.

ARTICLE 105
Withdrawal and termination

1.     Any Party to this Agreement may withdraw therefrom by means of a written notification to the Depositary. The withdrawal shall take effect on the first day of the sixth month after the date on which the notification was received by the Depositary.
2.     If one of the EFTA States withdraws from this Agreement, a meeting of the remaining Parties shall be convened to discuss the issue of the continued existence of this Agreement.

ARTICLE 106
Entry into force

1.     This Agreement is subject to ratification, acceptance or approval. The instruments of ratification, acceptance or approval shall be deposited with the Depositary.
2.     This Agreement shall enter into force on 1 February 2004 in relation to those Signatory States which by then have ratified the Agreement, provided they have deposited their instruments of ratification, acceptance or approval with the Depositary at least 30 days before the date of entry into force, and provided that Chile is among the States that have deposited their instruments of ratification, acceptance or approval.
3.     In case this Agreement does not enter into force on 1 February 2004, it shall enter into force on the first day of the third month following the latter deposit of the instruments of ratification, acceptance or approval by Chile and at least one EFTA State.
4.     In relation to an EFTA State depositing its instrument of ratification, acceptance or approval after this Agreement has entered into force, this Agreement shall enter into force on the first day of the third month following the deposit of its instrument.

5.     If its constitutional requirements permit, any EFTA State may apply this Agreement provisionally. Provisional application of this Agreement under this paragraph shall be notified to the Depositary.

ARTICLE 107
Relation to the complementary agreements

1.     The complementary agreement on trade in agricultural goods between an EFTA State and Chile referred to in Article 1 shall enter into force on the same date for that EFTA State and Chile as this Agreement enters into force. The complementary agreement shall remain in force as long as the Parties to it remain Parties to this Agreement.
2.     If an EFTA State or Chile withdraws from the complementary agreement, this Agreement shall terminate between that EFTA State and Chile on the same date as the withdrawal from the complementary agreement becomes effective.

ARTICLE 108
Depositary

    The Government of Norway shall act as Depositary.

IN WITNESS WHEREOF the undersigned, being duly authorised thereto, have signed this Agreement.

Done at Kristiansand, this 26 th day of June 2003, in a single authentic copy in the English language which shall be deposited with the Government of Norway. The Government of Norway shall transmit certified copies to all Signatory States to this Agreement.

For the Republic of Iceland



For the Republic of Chile



For the Principality of Liechtenstein



For the Kingdom of Norway



For the Swiss Confederation