Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 665, 131. löggjafarþing 330. mál: Lánasjóður íslenskra námsmanna (endurgreiðslur, málsmeðferð o.fl.).
Lög nr. 140 21. desember 2004.

Lög um breytingu á lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. a laganna:
  1. Í stað orðanna „er endanlegur“ í 2. mgr. kemur: verður honum ekki skotið til annarra stjórnvalda.
  2. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
  3.      Að kröfu stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir hönd sjóðsins getur nefndin frestað réttaráhrifum úrskurðar síns telji hún að hann muni hafa í för með sér veruleg fjárhagsleg áhrif á sjóðinn. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en 10 dögum frá birtingu úrskurðar. Skal frestun á réttaráhrifum úrskurðar að auki vera bundin því skilyrði að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna beri málið undir dómstóla innan 30 daga frá frestun og óski þá eftir að það hljóti flýtimeðferð. Frestun réttaráhrifa úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki höfðað innan 30 daga frestsins. Þegar mál er höfðað vegna úrskurðar málskotsnefndar er henni heimilt að fresta afgreiðslu sambærilegra mála, sem til meðferðar eru hjá nefndinni, þar til dómur gengur.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
  1. 3. mgr. orðast svo:
  2.      Viðbótargreiðslan miðast við ákveðinn hundraðshluta af tekjustofni ársins á undan endurgreiðsluári, sbr. 10. gr. Hundraðshluti þessi er 3,75% við afborganir af skuldabréfinu. Frá viðbótargreiðslunni samkvæmt þessari málsgrein dregst fastagreiðslan skv. 2. mgr.
  3. 7. mgr. orðast svo:
  4.      Skuldari, sem sækir um undanþágu skv. 6. mgr., skal leggja sjóðstjórn til þær upplýsingar er stjórnin telur skipta máli. Umsóknin skal berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar.


3. gr.

     10. gr. laganna orðast svo:
     Þegar tekjur eru skattskyldar á Íslandi er með tekjustofni í lögum þessum átt við útsvarsstofn lánþega að viðbættum tekjum skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Falli lánþegi undir skilyrði 62. gr. sömu laga skal við ákvörðun tekjugrundvallar tekna skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 miða við 50 hundraðshluta samanlagðra tekna lánþega og sambúðaraðila. Ekki skiptir máli hvort tekjurnar eru af séreign samkvæmt kaupmála eða hjúskapareign.
     Verði á endurgreiðslutíma námslána breyting á skattalögum þannig að veruleg breyting verði á því sem nú telst tekjustofn í lögum þessum skal árleg viðbótargreiðsla skv. 8. gr. reiknuð af stofni sem nefnd þriggja manna ákveður. Skal nefndin þannig skipuð að menntamálaráðherra tilnefni einn mann, fjármálaráðherra annan en ríkisskattstjóri verði formaður nefndarinnar. Skal nefndin setja reglur um útreikning endurgreiðslustofns svo að árleg viðbótargreiðsla hvers lánþega verði sem næst því sem orðið hefði að óbreyttum skattalögum.
     Sé lánþega áætlaður skattstofn skal miða við hann. Sé lánþegi á endurgreiðslutímanum ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum skal honum gefinn kostur á að senda sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og skal árleg viðbótargreiðsla ákveðin í samræmi við það. Geri hann það ekki eða telja verður upplýsingar hans ósennilegar og ekki unnt að sannreyna tekjustofn samkvæmt því skal stjórn sjóðsins áætla honum tekjustofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu.

4. gr.

     Við 11. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er verða 1. og 2. mgr. og orðast svo:
     Lánþegi á rétt á endurútreikningi árlegrar viðbótargreiðslu sé hún byggð á áætluðum tekjum. Hann skal þá sækja um endurútreikninginn eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar og leggja fyrir stjórn sjóðsins bestu fáanlegar upplýsingar um tekjurnar.
     Endurútreikningur skv. 1. mgr. á árlegri viðbótargreiðslu skal gerður þegar sjóðnum hafa borist staðfestar upplýsingar um tekjurnar. Komi þá í ljós að tekjustofn hafi verið of hátt áætlaður eða oftalinn og lánþegi því innt af hendi of háa greiðslu skal honum endurgreidd hin ofgreidda fjárhæð með almennum vöxtum óverðtryggðra bankalána.

5. gr.

     3. mgr. 12. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

     18. gr. laganna orðast svo:
     Ef lánþegi samkvæmt lögum þessum er jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt eldri lögum um sjóðinn skal miða við að hann endurgreiði þau fyrst. Á næsta almanaksári eftir að endurgreiðslu samkvæmt eldri lögum lýkur eða á að vera lokið skal lánþegi hefja endurgreiðslu samkvæmt þessum lögum. Greiðslur samkvæmt þessum lögum frestast því þar til lán samkvæmt eldri lögum eiga að vera að fullu greidd.
     Ef lánþegi skuldar námslán sem var úthlutað á árunum 1992–2004, svokallað R-lán, og jafnframt námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skal hann fyrst endurgreiða að fullu R-lánið. Greiðslur af eldri námsskuldum frestast þá þar til R-lánið er að fullu greitt.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þeir sem sótt hafa um námslán samkvæmt lögunum fyrir gildistöku laga þessara eiga til loka skólaársins 2004–2005 rétt á námslánum samkvæmt þeim lögum.
     Þeir sem skulda eða hafa sótt um námslán samkvæmt lögunum eiga rétt á að breyta því láni í námslán samkvæmt lögum þessum. Skilyrði slíkrar skuldbreytingar er að umsókn um hana hafi borist sjóðnum fyrir 1. nóvember 2005, að umsækjandinn sé ekki í vanskilum við sjóðinn og að lánið sé tryggt með sambærilegum hætti og áður.

Samþykkt á Alþingi 10. desember 2004.