Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 616, 132. löggjafarþing 236. mál: aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum (EES-reglur, læknar í starfsnámi).
Lög nr. 138 20. desember 2005.

Lög um breytingu á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 52. gr. a laganna:
  1. Í stað orðanna „reglugerð dómsmálaráðuneytisins“ í 1. tölul. kemur: lög og reglugerðir sem fjalla.
  2. 2. tölul. fellur brott.


2. gr.

     Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
  1. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 55. gr. laganna skal hámarksvinnutími lækna í starfsnámi á viku að yfirvinnu meðtalinni ekki vera umfram 58 klukkustundir að meðaltali á hverju fjögurra mánaða tímabili fram til 31. júlí 2007. Á tímabilinu 1. ágúst 2007 til 31. júlí 2009 skal hámarksvinnutími lækna í starfsnámi skv. 1. málsl. ekki vera umfram 56 klukkustundir að meðaltali á hverju fjögurra mánaða tímabili. Vinnuveitandi skal hafa samráð við fulltrúa starfsmanna með góðum fyrirvara með það í huga að ná samkomulagi, þar sem því verður við komið, um tilhögun vinnutíma á aðlögunartímabilinu. Hlutaðeigandi samtökum aðila vinnumarkaðarins er jafnframt heimilt að gera með sér samkomulag um tilhögun vinnutíma lækna í starfsnámi á aðlögunartímabilinu. Að öðru leyti gildir 55. gr. laganna um lækna í starfsnámi.
  2. Reglur þær sem stjórn Vinnueftirlits ríkisins setti fyrir gildistöku laga nr. 68/2003, um breytingu á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, skulu halda gildi sínu þar til nýjar reglur eru settar af félagsmálaráðherra að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins.


3. gr.

     Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun nr. 2003/88/EB, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma, sem vísað er til í 32. lið h XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 45/2004, sbr. einnig tilskipun nr. 2000/34/EB, um breytingu á tilskipun ráðsins nr. 93/104/EB, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma þannig að hún taki til þeirra geira og þeirrar starfsemi sem fellur utan gildissviðs þeirrar tilskipunar.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 9. desember 2005.