Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1439, 132. löggjafarþing 555. mál: landshlutaverkefni í skógrækt (samræming laga, endurgreiðsla framlaga o.fl.).
Lög nr. 95 13. júní 2006.

Lög um landshlutaverkefni í skógrækt.


1. gr.

Tilgangur og markmið.
     Í því skyni að skapa skógarauðlind á Íslandi, rækta fjölnytjaskóga og skjólbelti, treysta byggð og efla atvinnulíf, skal eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum hverju sinni veita fé til verkefna í skógrækt sem bundin eru við sérstaka landshluta. Í hverju landshlutaverkefni skal stefnt að ræktun skóga á að minnsta kosti 5% af flatarmáli láglendis neðan 400 m yfir sjávarmáli.

2. gr.

Skilgreiningar.
     Í lögum þessum, reglugerðum og reglum, settum á grundvelli þeirra, er merking hugtaka sem hér segir:
  1. Fjölnytjaskógrækt. Ræktun skógar að teknu tilliti til fjölþætts efnahagslegs, félagslegs og náttúrufarslegs hlutverks skógarins.
  2.      Meginmarkmið fjölnytjaskógræktar er tvenns konar, nytjaskógrækt og landbótaskógrækt.
  3. Nytjaskógrækt. Ræktun skógar með það að meginmarkmiði að framleiða viðarafurðir til iðnaðarnota.
  4. Landbótaskógrækt. Ræktun skógar á illa förnu eða eyddu landi með það að meginmarkmiði að auka gróðurþekju, bæta jarðveg og vatnsbúskap og auka þannig gildi landsins til margvíslegra nytja.
  5. Skjólbelti. Raðir eða þyrping trjáa og runna sem ræktuð eru í því skyni að auka hvers kyns uppskeru og skýla búfénaði og mannvirkjum tengdum landbúnaði eða sem undanfari skógræktar á bersvæði.


3. gr.

Landshlutaverkefni í skógrækt.
     Landbúnaðarráðherra er heimilt eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum hverju sinni að starfrækja sérstök landshlutaverkefni í skógrækt. Landshlutaverkefnin eru: Suðurlandsskógar, Norðurlandsskógar, Skjólskógar á Vestfjörðum, Vesturlandsskógar og Héraðs- og Austurlandsskógar.
     Verkefnin heyra undir landbúnaðarráðuneytið og skulu þau veita framlög til fjölnytjaskógræktar og skjólbeltaræktar á lögbýlum.
     Landbúnaðarráðherra getur, í samráði við Skógrækt ríkisins, falið stjórn landshlutaverkefnanna umsjón annarra tengdra verkefna í skógrækt og landbótum.

4. gr.

Landshlutaáætlanir.
     Fyrir hvert landshlutaverkefni skal gera sérstaka landshlutaáætlun. Áætlunin skal ná yfir 40 ár og taka mið af bæði skógræktarlegum og hagrænum forsendum. Áætlunina, eða einstaka þætti hennar, skal endurskoða á 10 ára fresti, eða oftar ef ljóst er að forsendur áætlunar bresta, og leiðrétta ef afgerandi frávik verða.
     Landshlutaáætlun skal taka mið af þeim fjárveitingum sem Alþingi hefur ætlað landshlutaverkefnunum í sérstakri þingsályktun þar um sem landbúnaðarráðherra leggur fram og ná skal til 10 ára í senn.

5. gr.

Stjórn og rekstur.
     Landbúnaðarráðherra skipar þriggja manna stjórn fyrir hvert landshlutaverkefni til fjögurra ára í senn. Skal einn stjórnarmanna tilnefndur af félagi skógarbænda á viðkomandi svæði, annar af Skógrækt ríkisins og sá þriðji skipaður án tilnefningar.
     Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn verkefnisins og samþykkir starfs- og fjárhagsáætlanir þess. Hún ræður framkvæmdastjóra sem annast daglegan rekstur.
     Skógrækt ríkisins veitir aðstoð og faglegar leiðbeiningar við verkefnin. Landbúnaðarráðherra setur stjórnum landshlutaverkefnanna starfsreglur.

6. gr.

Samningar.
     Landshlutaverkefni á hverju svæði skal gera samning um þátttöku í skógræktarverkefni við hvern skógarbónda sem fær framlag samkvæmt ákvæðum þessara laga. Samningur skal taka mið af gildandi landshlutaáætlun hverju sinni, sbr. 4. gr., og skal þar tekið fram hvers konar fjölnytjaskógrækt og/eða skjólbeltarækt stefnt er að.
     Samningurinn skal hið minnsta vera til 40 ára og vera á formi sem landbúnaðarráðherra hefur staðfest, að fengnu áliti Skógræktar ríkisins og Landssamtaka skógareigenda.
     Ef annar en landeigandi, eða eftir atvikum annar en rétthafi, undirritar samning um skógræktarverkefni skal landeigandi samþykkja hann með áritun sinni. Samningnum skal þinglýst á þá fasteign sem hann tekur til.

7. gr.

Uppsögn samnings og endurgreiðsla framlaga.
     Óski skógarbóndi eða landeigandi eftir því að losa land sitt undan kvöðum samkvæmt samningi um þátttöku í skógræktarverkefni áður en samningstíma er lokið skal hann endurgreiða framlög ásamt verðbótum samkvæmt vísitölu neysluverðs. Endurgreiðslufjárhæðin lækkar hlutfallslega út samningstímann og fyrnist um 2,5% á almanaksári, hafi samningur verið virkur í a.m.k. 10 ár, og fellur skuldin niður eftir 40 ár. Framlög sem veitt eru síðustu 10 ár fyrir uppsögn fyrnast þó ekki.
     Óski verkefnisstjórn eftir því að losna undan skuldbindingum samnings um þátttöku í skógræktarverkefni skal skógarbónda og landeiganda tilkynnt um það með sannanlegum hætti. Uppsögn samkvæmt þessari málsgrein skal tilkynnt fyrir 1. október og tekur gildi frá og með næstu áramótum. Ekki skal endurgreiða samningsbundin framlög vegna uppsagnar samkvæmt þessari málsgrein. Eftir að samningur um þátttöku fellur niður gilda ákvæði skógræktarlaga um skóginn að öðru leyti.

8. gr.

Um samningsbrot.
     Skýri þátttakandi rangt frá staðreyndum sem máli skipta við skógræktarverkefni á samningslandi eða vanefni að öðru leyti skyldur sínar ítrekað eða í veigamiklum atriðum er verkefnisstjórn heimilt að rifta samningi og endurheimta framlög.
     Áður en verkefnisstjórn tekur ákvörðun skv. 1. mgr. skal skógarbónda, og landeiganda, sé hann annar, með sannanlegum hætti gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum skriflega á framfæri. Ákvörðun verkefnisstjórnar skal rökstudd og má skjóta henni til landbúnaðarráðherra innan 30 daga frá því að hún var kynnt hlutaðeigandi. Kæra frestar því að ákvörðun verði virk.

9. gr.

Þátttaka í kostnaði.
     Þátttaka ríkissjóðs í kostnaði hvers landshlutaverkefnis greiðist með sérstakri fjárveitingu sem færð er undir landbúnaðarráðuneytið.
     Landshlutaverkefnin greiða undirbúnings- og rekstrarkostnað og laun stjórnar og fastra starfsmanna. Enn fremur greiða þau allt að 97% af samþykktum kostnaði við skógrækt.

10. gr.

Ársskýrslur og ársreikningar.
     Ársskýrslur og ársreikningar landshlutaverkefna skulu samþykktir af viðkomandi stjórn. Þar skal koma fram staða framkvæmda og verkefnisins í heild á hverjum tíma og yfirlit yfir ráðstöfun fjármuna. Landshlutaverkefnin skulu skila ársskýrslu sinni til Skógræktar ríkisins.

11. gr.

Reglugerð og almenn lagaákvæði.
     Að öðru leyti en greinir í lögum þessum fer um ræktun og meðferð skóga sem ræktaðir eru fyrir tilstuðlan landshlutaverkefna í skógrækt samkvæmt ákvæðum laga um skógrækt, nr. 3/1955, með síðari breytingum.
     Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.

12. gr.

Gildistaka og brottfall eldri laga.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Við gildistöku þeirra falla úr gildi lög um Héraðsskóga, nr. 32/1991, lög um Suðurlandsskóga, nr. 93/1997, og lög um landshlutabundin skógræktarverkefni, nr. 56/1999. Skógræktarsamningar sem gerðir voru með stoð í þeim lögum halda gildi sínu. Ákvæði laga þessara gilda um eldri skógræktarsamninga eftir gildistöku þeirra, eftir því sem við á.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Stjórnir núverandi skógræktarverkefna halda umboði sínu þar til ný stjórn hefur verið skipuð samkvæmt ákvæðum laga þessara. Skógræktarverkefni samkvæmt lögum þessum taka við réttindum og skyldum eldri skógræktarverkefna.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 2006.