Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1527, 132. löggjafarþing 708. mál: stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.
Lög nr. 102 13. júní 2006.

Lög um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.


1. gr.

Heimild til að stofna hlutafélag.
     Ríkisstjórninni er heimilt að stofna hlutafélag um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands og tengda starfsemi. Í því skyni er ríkisstjórninni heimilt að leggja til félagsins eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar eftir því sem nánar greinir í lögum þessum.
     Við stofnun félagsins skal allt hlutafé þess vera í eigu íslenska ríkisins og skal sala þess og ráðstöfun óheimil.

2. gr.

Forræði á hlutafé ríkisins.
     Samgönguráðherra skal fyrir hönd ríkisstjórnarinnar fara með hlut ríkisins í félaginu og framkvæmd laga þessara.

3. gr.

Stofnhlutafé.
     Samgönguráðherra er heimilt að leggja til félagsins eignir sem notaðar eru í þágu Alþjóðaflugþjónustunnar, skrifstofuhúsnæði og nauðsynlegan búnað flugvalla, annan en fasteignir á flugvöllum og flugbrautir. Jafnframt er ráðherra heimilt að ákveða að félagið yfirtaki réttindi, skuldir og skuldbindingar vegna flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstrar við stofnun þess.
     Samgönguráðherra skal láta meta eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar skv. 1. mgr. og láta leggja mat á hvert stofnhlutafé hlutafélagsins skuli vera miðað við stofndag. Ríkisendurskoðandi skal staðfesta mat á hlutafé félagsins og ákvarða hvert skuli vera nafnverð stofnhlutafjár í félaginu. Skal slík staðfesting liggja fyrir við stofnun félagsins, sbr. 8. gr.

4. gr.

Innborgun hlutafjár.
     Hlutafé félagsins, eins og það er ákveðið skv. 3. gr., telst að fullu innborgað með yfirtöku félagsins á umræddum eignum, réttindum, skuldum og skuldbindingum, sbr. 9. gr.

5. gr.

Tilgangur félagsins.
     Tilgangur félagsins skal vera að annast rekstur og uppbyggingu flugleiðsöguþjónustu, þ.m.t. flugumferðarþjónustu, fjarskipta- og leiðsögukerfa, að annast rekstur og uppbyggingu flugvalla, svo og aðra skylda starfsemi. Félaginu skal vera heimilt að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum. Félaginu skal vera heimilt að gera hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt. Tilgangi félagsins skal nánar lýst í samþykktum þess.

6. gr.

Frávik frá lögum um hlutafélög.
     Ákvæði 2. mgr. 3. gr., 1. mgr. 20. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 107. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, gilda ekki um tölu stofnenda og fjölda hluthafa í félaginu og ekki skal heldur ákvæði 2. mgr. 14. gr. hlutafélagalaga gilda um félagið. Um mat á stofnfé félagsins fer skv. 2. mgr. 3. gr. laga þessara. Að öðru leyti og ef annað leiðir ekki af lögum þessum taka ákvæði hlutafélagalaga til félagsins.

7. gr.

Réttindi starfsmanna.
     Við niðurlagningu starfsemi flugleiðsöguþjónustu og flugvallareksturs Flugmálastjórnar Íslands, sbr. 9. gr., fer um réttindi og skyldur starfsmanna eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum, og lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 72/2002, eftir því sem við á.

8. gr.

Stofnfundur og stofnyfirlýsing.
     Á stofnfundi skal leggja fram til afgreiðslu drög að stofnyfirlýsingu og samþykktum fyrir félagið. Á stofnfundi skal kjósa félaginu stjórn samkvæmt samþykktum þess til fyrsta aðalfundar. Stjórn félagsins skal við stofnun þess vera skipuð fimm mönnum og þremur til vara.
     Í stofnyfirlýsingu skv. 1. mgr. skal mælt fyrir um þau atriði sem áskilið er að fram komi í stofnsamningi samkvæmt hlutafélagalögum að öðru leyti en getið er um í lögum þessum.

9. gr.

Yfirtaka á hluta starfsemi Flugmálastjórnar Íslands.
     Félagið skal yfirtaka flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands ásamt tilheyrandi réttindum og skyldum 1. janúar 2007 og hættir Flugmálastjórn Íslands samhliða slíkri starfsemi, sbr. nánar lög um Flugmálastjórn Íslands. Yfirtakan veitir samningsaðilum, sem breytingin varðar, ekki heimild til uppsagnar fyrirliggjandi samningssambanda.

10. gr.

Samningar ríkisins við félagið.
     Heimilt er samgönguráðherra að gera samninga við félagið um uppbyggingu og rekstur flugvalla og flugleiðsöguþjónustu til að tryggja að uppbygging, rekstur og þjónusta á þessum sviðum sé í samræmi við markmið stjórnvalda og stefnumótun í samgöngumálum á hverjum tíma.
     Nú óska stjórnvöld eftir því að félagið veiti þjónustu, leggi í framkvæmdir eða rekstur, svo sem vegna þjónustu á tilteknu landsvæði, til almannaheilla, í öryggisskyni eða vegna annarra ástæðna, sem ljóst er að ekki skilar arði, og skal þá gera um það samning milli samgönguráðherra og félagsins. Heimilt er ráðherra að fela Flugmálastjórn Íslands að annast gerð slíkra samninga fyrir sína hönd.

11. gr.

Skuldbindingar ríkisins samkvæmt alþjóðasamþykktum o.fl.
     Heimilt er samgönguráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og Flugmálastjórn Íslands að fela félaginu að fara með réttindi og annast skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt alþjóðasamþykktum, alþjóðasamningum eða samningum við önnur ríki, þ.m.t. vegna Alþjóðaflugþjónustunnar, enda samrýmist slíkt tilgangi félagsins.
     Er félaginu skylt að fara að fyrirmælum framangreindra stjórnvalda hér að lútandi sem og öðrum fyrirmælum þeirra er varða framkvæmd og efndir slíkra samninga og annarra þjóðréttarlegra skuldbindinga.

12. gr.

Gjaldskrá.
     Stjórn félagsins skal setja þjónustugjaldskrá fyrir félagið. Heimilt er m.a. að taka tillit til stofnkostnaðar, viðhalds og reksturs.

13. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 14. gr. öðlast þó gildi 1. janúar 2007.

14. gr.

Breytingar á lögum um loftferðir og lögum um rannsókn flugslysa.
  1. Eftirfarandi breytingar verða á lögum nr. 60/1998, um loftferðir, ásamt síðari breytingum:
    1. 1. málsl. 1. mgr. 57. gr. c, sbr. 7. gr. laga nr. 75/2005, orðast svo: Flugmálayfirvöld geta tekið til athugunar skipulag afgreiðslugetu flugvallar og krafist úrbóta, ef kostur er, í samræmi við reglur sem samgönguráðherra setur.
    2. 58. gr. orðast svo:
    3.      Ef nauðsynlegt er í tengslum við rekstur flugvallar eða flugleiðsögubúnaðar að afla lands, lóðar eða annarrar eignar og samningum um kaup verður ekki við komið má ráðherra heimila, að fenginni umsögn Flugmálastjórnar, að eign eða hluti hennar sé tekin eignarnámi gegn endurgjaldi sem meta skal samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Samþykki ráðherra fyrir eignarnámi skal m.a. háð því að eignarnemi setji tryggingu fyrir greiðslu áætlaðra eignarnámsbóta og kostnaðar við matið. Nú fást eignarnámsbætur ekki greiddar hjá eignarnema og skal ríkissjóður þá ábyrgjast greiðslu þeirra.
    4. 1.–3. mgr. 71. gr., sbr. 11. gr. laga nr. 21/2002, orðast svo:
    5.      Heimta má gjöld til að standa undir kostnaði við rekstur flugvalla eða flugleiðsögutækja í þágu loftferða. Þá er heimilt að heimta gjöld fyrir þá aðstöðu sem starfsemi tengd flugsamgöngum nýtur á flugvöllum.
           Enn fremur er heimilt að heimta gjöld til greiðslu á kostnaði við rekstur flugumferðarstjórnar í þágu loftferða.
           Heimilt er með samningi að fela stjórnvöldum annarra ríkja eða öðrum viðurkenndum aðilum innheimtu á þessum gjöldum.
    6. Eftirfarandi breytingar verða á 71. gr. a, sbr. 1. gr. laga nr. 88/2004:
      1. 2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Lendingargjöld skulu renna til þess aðila sem starfrækir viðkomandi flugvöll.
      2. Orðin „sem ráðherra setur“ í 2. málsl. 3. mgr. falla brott.
      3. Í stað orðanna „Flugmálastjórn er heimilt“ í 6. mgr. kemur: Heimilt er.
    7. Eftirfarandi breytingar verða á 75. gr., sbr. 14. gr. laga nr. 21/2002:
      1. Í stað orðanna: „Flugmálastjórn skal heimilt“ í 2. mgr. kemur: Heimilt er þeim sem annast flugleiðsöguþjónustu.
      2. Við 4. mgr. bætist nýr málsliður sem verður 1. málsl., svohljóðandi: Flugmálastjórn skal heimill aðgangur að gögnum þessum við framkvæmd eftirlits með eftirlitsskyldum aðilum.
    8. Í stað orðsins „Samgönguráðherra“ í 1. mgr. 76. gr. kemur: Flugmálastjórn.
    9. Á eftir orðinu „Flugmálastjórn“ í 1. mgr. 77. gr. kemur: og þeim sem annast flugleiðsöguþjónustu.
    10. Á eftir 1. málsl. 2. mgr. 132. gr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Flugmálastjórn getur með samningi falið félagasamtökum eða fyrirtækjum að hafa umsjón með framkvæmd leitarstarfa að hluta til eða öllu leyti.
    11. Á eftir orðunum „Flugmálastjórn Íslands“ í 1. mgr. 136. gr., sbr. 18. gr. laga nr. 21/2002, kemur: og þeim sem starfrækir flugvöll eða flugleiðsöguþjónustu.
    12. 2. mgr. 138. gr. fellur brott.
    13. 139. gr. fellur brott.
    14. 2. málsl. 140. gr. orðast svo: Skulu allir handhafar flugrekstrarleyfa og flugkennsluleyfa, útgefinna af Flugmálastjórn, svo og þeir sem starfrækja flugvelli og flugleiðsöguþjónustu hér á landi vera áskrifendur að útgáfum þessum.
  2. Eftirfarandi breytingar verða á lögum nr. 35/2004, um rannsókn flugslysa:
    1. 3. mgr. 8. gr. orðast svo:
    2.      Flugmálastjórn Íslands og lögreglu, svo og þeim sem starfrækja flugleiðsöguþjónustu og flugvelli, er skylt að veita nefndinni nauðsynlegar upplýsingar og aðstoð vegna rannsóknar flugslyss.
    3. Á eftir orðunum „Flugmálastjórn Íslands“ í 2. málsl. 1. mgr. 11. gr. kemur: þeir sem starfrækja flugleiðsöguþjónustu og flugvelli.

Samþykkt á Alþingi 3. júní 2006.