Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1495, 130. löggjafarþing 451. mál: rannsókn flugslysa.
Lög nr. 35 7. maí 2004.

Lög um rannsókn flugslysa.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

     Ákvæði laga þessara taka til flugslysa og flugatvika, þ.m.t. flugumferðaratvika, sem eru í lögum þessum nefnd flugslys. Samgönguráðherra skal í reglugerð tilgreina hvað fellur undir flugslys samkvæmt lögum þessum, í samræmi við skilgreiningar í alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.
     Með flugslysarannsóknum er átt við þá sérstöku málsmeðferð sem kveðið er á um í lögum þessum.

2. gr.

     Flugslysarannsókn samkvæmt lögum þessum skal aðeins miða að því að auka öryggi í flugi.
     Um rannsókn á meintri refsiverðri háttsemi í tengslum við flugslys fer samkvæmt lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, og er slík rannsókn óháð rannsókn flugslysa samkvæmt lögum þessum.

II. KAFLI
Skipulag flugslysarannsókna.

3. gr.

     Rannsóknarnefnd flugslysa fer með rannsóknir flugslysa hér á landi eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum. Slíkar rannsóknir skulu gerðar í samræmi við skuldbindingar í alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.
     Rannsóknarnefnd flugslysa skal starfa sjálfstætt og óháð stjórnvöldum.
     Í rannsóknarnefnd flugslysa eiga sæti þrír menn sem samgönguráðherra skipar til fimm ára í senn og skal einn skipaður formaður. Að öðru leyti skiptir nefndin með sér verkum. Samgönguráðherra skipar varamenn til sama tíma.
     Allur kostnaður við starfsemi nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

4. gr.

     Samgönguráðherra skipar nefndinni forstöðumann til fimm ára í senn. Forstöðumaður ber ábyrgð á og stjórnar daglegum rekstri nefndarinnar og gætir þess að hann sé í samræmi við gildandi lög og reglugerðir á hverjum tíma. Samgönguráðherra skal, að fengnum tillögum forstöðumanns, ráða til nefndarinnar aðstoðarforstöðumann.

5. gr.

     Þeir sem skipaðir eru í rannsóknarnefnd flugslysa skulu hafa menntun og starfsreynslu á þeim sviðum sem sérstaklega nýtast við flugslysarannsóknir.
     Um sérstakt hæfi nefndarmanna fer eftir II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

6. gr.

     Forstöðumaður rannsóknarnefndar flugslysa er jafnframt rannsóknarstjóri hennar og stýrir rannsóknarverkefnum á vegum nefndarinnar. Aðstoðarforstöðumaður skal vera staðgengill hans.
     Forstöðumaður og aðstoðarforstöðumaður skulu hafa sérmenntun og starfsreynslu á sviði flugmála og/eða flugslysarannsókna.
     Forstöðumenn eða aðrir starfsmenn nefndarinnar mega ekki vera stjórnarmenn eða starfsmenn félaga eða annarra sem starfa í flugrekstri eða öðrum rekstri sem lög þessi kunna að ná til og mega ekki vera í hagsmuna- eða fjárhagstengslum við slíka aðila. Um sérstakt hæfi þeirra að öðru leyti fer skv. 2. mgr. 5. gr.

7. gr.

     Lögsaga rannsóknarnefndar flugslysa tekur til íslensks yfirráðasvæðis, svo og þess flugstjórnarsvæðis sem Ísland veitir þjónustu á að því er varðar flugumferðaratvik.
     Nefndin skal m.a. rannsaka:
  1. flugslys þar sem borgaralega skráð loftför eiga hlut að máli og sem verða á eða yfir íslensku yfirráðasvæði,
  2. flugslys þar sem loftför skráð á Íslandi eiga hlut að máli og sem verða utan yfirráðasvæðis annarra ríkja eða á svæði þar sem viðkomandi ríki hefur ekki skuldbundið sig til að framkvæma rannsóknina,
  3. flugumferðaratvik sem verða á eða yfir íslensku yfirráðasvæði eða á flugstjórnar- eða flugupplýsingasvæði sem Ísland veitir þjónustu á,
  4. flugslys sem verða utan íslensks yfirráðasvæðis þar sem loftför skrásett á Íslandi eiga hlut að máli, nema því aðeins að viðkomandi ríki framkvæmi rannsóknina.

     Heimilt er, að fengnu samþykki samgönguráðherra, að fela öðru ríki að annast rannsókn flugslyss að hluta til eða öllu leyti.

8. gr.

     Rannsóknarnefnd flugslysa skal í rannsóknum sínum vera óháð öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum. Hún ákveður sjálf hvenær efni eru til rannsóknar flugslyss í samræmi við ákvæði laga þessara.
     Flugmálastjórn Íslands skal veita nefndinni aðgang að hvers konar gögnum sem nauðsynleg eru við rannsókn máls, svo sem gögnum sem útgáfa leyfisbréfa og skírteina er byggð á, þar á meðal læknisfræðilegum gögnum.
     Flugmálastjórn Íslands og lögreglu er skylt að veita nefndinni nauðsynlegar upplýsingar og aðstoð vegna rannsóknar flugslyss.
     Þegar það á við skal rannsóknarnefnd flugslysa láta rannsókn ná til fyrirkomulags tilkynninga um flugslys, til leitar, björgunaraðgerða og annarra tengdra aðgerða sem ætlað er að draga úr afleiðingum flugslysa.
     Samgönguráðherra er heimilt að fela rannsóknarnefnd flugslysa að rannsaka atriði sem varða almennt flugöryggi, án þess að þau tengist flugslysi.

9. gr.

     Rannsóknarnefnd flugslysa, starfslið hennar og aðrir sem starfa í þágu nefndarinnar skulu virða þagnarskyldu um þau atvik sem þeim verða kunn vegna starfa fyrir nefndina. Tekur þetta til hvers konar upplýsinga um einkahagi manna og annarra upplýsinga sem leynt eiga að fara vegna lögmætra einka- og almannahagsmuna. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
     Um aðgang að rannsóknargögnum fer samkvæmt ákvæðum IV. kafla.

10. gr.

     Rannsóknarnefnd flugslysa skal gera tillögur til Flugmálastjórnar Íslands og til annarra viðeigandi aðila um úrbætur í flugöryggismálum eftir því sem rannsókn á flugslysum gefur tilefni til. Tillögurnar skal birta opinberlega.
     Þeir sem tillögum er beint til skulu taka tilhlýðilegt tillit til þeirra tilmæla í öryggisátt sem fram koma og hrinda þeim í framkvæmd ef við á. Skulu þeir án tafar og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tilmælin bárust gera nefndinni grein fyrir því hvernig brugðist hafi verið við tilmælunum.
     Rannsóknarnefnd flugslysa skal í lok hvers starfsárs semja yfirlit um hvernig tillögum hennar hefur verið framfylgt og senda það samgönguráðherra.

III. KAFLI
Tilkynning um flugslys. Framkvæmd rannsóknar.

11. gr.

     Nú verður flugslys, sbr. 1. og 7. gr., og ber þá sérhverjum sem um það veit að tilkynna það rannsóknarnefnd flugslysa án ástæðulausrar tafar. Sérstaka skyldu í þessu efni hafa Flugmálastjórn Íslands, stjórnendur loftfara, handhafar flugrekstrarleyfis og vaktstöð samkvæmt lögum nr. 25/1995, um samræmda neyðarsímsvörun.
     Sama gildir um hvern þann sem finnur loftfar eða aðra hluti við aðstæður er benda til þess að flugslys hafi orðið.

12. gr.

     Yfirstjórn vettvangsrannsóknar er í höndum rannsóknarstjóra.
     Rannsóknarstjóri getur ef þörf krefur tilnefnt annan mann í sinn stað til að fara með yfirstjórn rannsóknar á vettvangi.
     Rannsóknarstjóri, rannsóknarnefnd flugslysa og aðrir starfsmenn nefndarinnar skulu hafa óhindraðan aðgang að vettvangi flugslyss, eins þótt um staði í einkaeign sé að ræða.
     Rannsóknarstjóri skal hafa rétt til að kveðja sér til aðstoðar lögreglu, svo og annað björgunar- og hjálparlið.
     Rannsóknarstjóri skal hafa rétt til skýrslutöku og gagnasöfnunar á vettvangi.
     Rannsóknarstjóri skal við vettvangsrannsókn hafa samráð við rannsóknarnefnd flugslysa eftir því sem unnt er.

13. gr.

     Þar sem flugslys hefur orðið má hvorki hreyfa né flytja á brott loftfarið, hluta þess, innihald þess né hrófla við ummerkjum slyssins uns rannsókn er lokið nema rannsóknarstjóri hafi heimilað það.
     Án slíks leyfis má þó hreyfa eða flytja á brott loftfarið, hluta þess eða innihald að svo miklu leyti sem nauðsynlegt reynist til að frelsa menn eða dýr, ná pósti úr loftfari, afstýra spjöllum af eldi eða öðrum orsökum eða koma í veg fyrir að loftfarið, hluti þess eða innihald valdi háska.
     Rannsóknarstjóra er heimilt að láta fjarlægja af vettvangi og taka til vörslu loftfar eða hluta þess og annað sem ætla má að geti haft þýðingu við rannsókn.

14. gr.

     Rannsóknarnefnd flugslysa er heimilt við rannsókn mála að krefjast þess að fá í sínar vörslur upptökur, skráningar, bækur og önnur gögn er varða loftför, áhafnir þeirra og umferð loftfara. Þá getur nefndin krafist framlagningar gagna eða upplýsinga sem nauðsynlegar þykja við rannsókn einstakra mála.
     Nefndinni er heimilt að taka skýrslur af eiganda, notanda eða umráðanda loftfars, áhöfn þess, starfsmönnum flugmálayfirvalda og hverjum öðrum sem ætla má að kunni að geta veitt vitneskju er stuðli að því að leiða í ljós orsök slyss. Heimild þessi nær til öflunar upplýsinga og gagna hjá læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki.
      Rannsóknarstjóra og rannsóknarnefnd flugslysa er heimilt að hljóðrita skýrslur aðila og vitna. Skýrslur aðila og vitna teljast réttar nema gerðar séu athugasemdir við þær.
     Nefndin getur leitað aðstoðar rannsóknastofnana, innlendra eða erlendra, eftir því sem nauðsynlegt er við rannsókn flugslyss. Innlendum aðilum er skylt að veita nefndinni þessa aðstoð.
     Rannsóknarnefnd flugslysa er heimilt að kalla til starfa með nefndinni sérfræðinga á tilteknum sviðum telji hún það nauðsynlegt.

15. gr.

     Rannsóknarnefnd flugslysa ákveður að teknu tilliti til rannsóknarhagsmuna sinna og lögreglu, sbr. 2. mgr. 2. gr., sem og annarra, hvenær hún lætur af hendi loftfar eða hluta þess, svo og önnur gögn sem hún hefur tekið í sína vörslu.
     Gögn úr flugritum og upptökur ber að varðveita varanlega á tryggilegan hátt.

16. gr.

      Við aflestur og afritun samskipta sem fram koma á upptökum skv. 1. mgr. 14. gr., svo og við gerð skýrslna skv. 2. mgr. sömu greinar, skal rannsóknarnefnd flugslysa gera sérstakar ráðstafanir til að tryggja fyllsta trúnað vegna upplýsinga sem þar koma fram.
     Nefndin afritar eingöngu það af upptöku sem hún telur máli skipta fyrir rannsókn máls. Ella skulu aðalatriði úr skýrslum aðila og vitna skráð.

IV. KAFLI
Skýrslur um rannsóknir flugslysa.

17. gr.

     Þegar rannsókn er lokið skal rannsóknarnefnd flugslysa svo fljótt sem verða má semja skýrslu um niðurstöðu rannsóknarinnar og birta hana. Í skýrslunni skal gerð grein fyrir orsök eða sennilegri orsök flugslyssins auk þess sem þar skulu gerðar tillögur um þær varúðarráðstafanir sem gera má til þess að afstýra frekari slysum af sömu eða líkum orsökum, sbr. 10. gr., eða draga úr afleiðingum þeirra.
     Þess markmiðs flugslysarannsókna samkvæmt lögum þessum að greina orsakaþætti flugslysa í því skyni einu að koma í veg fyrir frekari flugslys, sbr. 1. mgr. 2. gr., skal getið á forsíðu hverrar lokaskýrslu sem rannsóknarnefnd flugslysa sendir frá sér. Í skýrslum rannsóknarnefndar flugslysa skal ekki leitast við að skipta sök eða ábyrgð.
     Þegar sérstaklega stendur á er rannsóknarnefnd flugslysa heimilt að gefa út yfirlýsingu um lok rannsóknar eða ljúka rannsókn máls með bókun í stað þess að gefa út skýrslu.
     Skýrslu um rannsókn flugslyss skal að jafnaði gefa út innan árs frá því að flugslys varð. Ljúki rannsókn ekki innan þessara tímamarka skal þá og eftir það árlega gefa út yfirlýsingu um stöðu hennar.
     Rannsóknarskýrslu má gera á ensku, m.a. ef málsaðili er útlendur.

18. gr.

     Á hvaða stigi rannsóknar sem er skal rannsóknarnefnd flugslysa vekja athygli viðkomandi aðila á atriðum sem fram hafa komið við rannsókn og mikilvægt er talið að komið sé á framfæri án tafar til að tryggja öryggi í flugi.
     Eigandi eða flugrekandi viðkomandi loftfars, Flugmálastjórn Íslands, svo og aðrir aðilar, sem sérlega ríkra hagsmuna hafa að gæta að mati nefndarinnar, skulu eiga þess kost, með þeim hætti sem rannsóknarnefnd flugslysa ákveður hverju sinni, að tjá sig um drög að lokaskýrslu nefndarinnar innan tilskilins frests, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða þeirra og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft.
     Umsagnaraðilum er heimilt að koma fram með ábendingar um frekari rannsókn á einstökum atriðum sem varða flugslys.

19. gr.

     Óheimilt er rannsóknarnefnd flugslysa að veita aðgang að eftirfarandi gögnum sem nefndin aflar við rannsókn flugslyss eða upplýsingar um þau, sbr. þó 2.–4. mgr.:
  1. upptökum eða endurriti af framburði þeirra sem nefndin yfirheyrir við rannsókn máls,
  2. hvers konar skráðum fjarskiptum eða upptökum af fjarskiptum milli þeirra sem tengst hafa flugslysi,
  3. læknisfræðilegum og öðrum persónulegum gögnum sem varða þá sem tengst hafa flugslysi,
  4. upptökum af samskiptum eða skráðum samskiptum sem átt hafa sér stað í stjórnklefa loftfars, á vinnustað flugumferðarstjóra og annarra flugverja og flugliða, eða endurriti af slíkum samskiptum, og
  5. hvers konar álitsgerðum sem aflað hefur verið í tengslum við mat á fyrirliggjandi gögnum, þ.m.t. á flugritum loftfara.

     Eingöngu skal veita umsagnaraðilum skv. 18. gr. aðgang að gögnum skv. 1. mgr. að því marki sem rannsóknarnefnd flugslysa telur nauðsynlegt til að þeir geti veitt umsögn. Ef veittur er aðgangur að gögnum skv. a- og d-lið 1. mgr. skal aðgangur eingöngu ná til endurrits af upptökum, sbr. 16. gr.
     Umsagnaraðilar og þeir sem starfa í þeirra þágu skulu virða þagnarskyldu um hvaðeina það sem þeim verður kunnugt vegna aðgangs að gögnum samkvæmt ákvæði þessu. Er umsagnaraðilum óheimilt að veita öðrum en þeim sem starfa í þeirra þágu við að veita umsögn upplýsingar um eða aðgang að slíkum gögnum.
     Rannsóknarnefnd flugslysa skal fella út úr lokaskýrslu sinni beina tilvísun til gagna skv. 1. mgr. nema að því leyti sem nauðsynlegt er talið vegna greiningar á orsökum flugslyss.
     Þegar veittur er aðgangur að gögnum skv. 2. mgr. skal virða nafnleynd þeirra sem tengjast flugslysi. Sama á við um lokaskýrslu nefndarinnar.

20. gr.

     Skýrslum rannsóknarnefndar flugslysa skal ekki beitt sem sönnunargögnum í opinberum málum.
     Þegar flugslys verður tilefni rannsóknar að hætti laga um meðferð opinberra mála skal rannsóknarnefnd flugslysa veita lögreglu upplýsingar og gögn sem varða vettvang og úrlausn tæknilegra álitaefna. Ekki skal afhenda eða veita upplýsingar um gögn sem tiltekin eru í 1. mgr. 19. gr., sbr. þó 21. gr.

21. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 19. og 20. gr. er heimilt með dómsúrskurði að mæla fyrir um skyldu rannsóknarnefndar flugslysa til að veita aðgang að gögnum skv. b–e-lið 1. mgr. 19. gr. eða upplýsingar um þau ef gagnanna eða upplýsinga um þau verður ekki aflað með öðrum hætti, sérstaklega ríkir hagsmunir krefjast þess og ætla má að úrslit máls velti á gögnunum. Aðgangur að gögnum skv. d-lið 1. mgr. 19. gr. skal þó takmarkaður við endurrit af upptökum, sbr. 16. gr. Ekki skal afhenda gögn sem geyma framburð aðila og vitna fyrir nefndinni, sbr. a-lið 1. mgr. 19. gr.

22. gr.

     Rannsóknarnefnd flugslysa skal senda eiganda eða flugrekanda viðkomandi loftfars og Flugmálastjórn Íslands, svo og öðrum aðilum sem átt hafa hagsmuna að gæta við rannsókn máls, lokaskýrslu rannsóknar.
     Heimilt er að afhenda þeim sem þess óska eintak af lokaskýrslu. Skýrslur nefndarinnar má selja á kostnaðarverði.
     Nefndin skal gefa út heildarskýrslu um störf sín ár hvert.

V. KAFLI
Endurupptaka mála o.fl.

23. gr.

     Rannsóknarnefnd flugslysa getur endurupptekið mál þótt rannsókn sé lokið, sbr. 17. gr., ef fram koma ný og mikilvæg gögn að hennar mati.
     Þegar sérstaklega stendur á getur samgönguráðherra falið rannsóknarnefnd flugslysa að rannsaka nánar tiltekið flugslys eða sérstök atriði sem tengjast flugslysi ef ný gögn eða upplýsingar koma fram eftir að rannsókn er lokið.

VI. KAFLI
Reglugerðarheimild. Gildistaka.

24. gr.

     Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um skilgreiningu flugslysa skv. 1. gr., meðferð og vörslu málsgagna, persónuskilríki með upplýsingum um réttarstöðu nefndarmanna og annarra starfsmanna og heimildir þeirra í störfum, nauðsynlegan útbúnað, tæki og þjálfun nefndarinnar til vettvangsrannsókna, um fyrirkomulag á birtingu skýrslna nefndarinnar og aðra þætti málsmeðferðar hjá nefndinni.

25. gr.

     Lög þessi taka gildi 1. september 2004. Jafnframt falla úr gildi lög um rannsókn flugslysa, nr. 59/1996.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Skipunartíma rannsóknarnefndar flugslysa samkvæmt lögum nr. 59/1996 lýkur við gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 26. apríl 2004.