Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 705. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 1510  —  705. mál.
Flutningsmenn.
Breytingartillagavið till. til þál. um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010 [í skýrslu á þskj. 1501].

Frá Pétri H. Blöndal og Sigmundi Erni Rúnarssyni.    Eftirfarandi breytingar verði á tillögugreininni:
     a.      1. mgr. orðist svo:
                  Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé vitnisburður um þá þróun íslensks efnahagslífs og samfélags undangenginna ára sem leiddi til hruns bankanna haustið 2008 og telur mikilvægt að skýrslan verði höfð að leiðarljósi í framtíðinni við brýnar úrbætur.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Það verði gert m.a. með því að þingmenn og þingnefndir semji þau frumvörp sem lögð eru fram á Alþingi eða ritstýri þeim.
     c.      Á eftir 2. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Alþingi ályktar að það skuli starfa samkvæmt eigin fjárlögum og að þingmenn verði á launaskrá hjá Alþingi.
     d.      5. mgr. orðist svo:
                  Alþingi ályktar að erlend matsfyrirtæki, lánveitendur bankanna, stjórnendur og helstu eigendur fjármálafyrirtækja á Íslandi beri mesta ábyrgð á bankahruninu, sem og veila í hlutabréfaforminu.
     e.      Eftirfarandi breytingar verði á 8. mgr.:
                  1.      Inngangur orðist svo: Alþingi ályktar að fela forsætisnefnd, viðkomandi nefndum Alþingis og stjórnlaganefnd, sbr. lög um stjórnlagaþing, nr. 90/2010, að ráðast í eftirfarandi.
                  2.      5. tölul. I. liðar orðist svo: Löggjöf um starfsemi á fjármálamarkaði og lög um hlutafélög og einkahlutafélög.
                  3.      2. tölul. II. liðar orðist svo: Sjálfstæð og óháð rannsókn á aðdraganda og orsökum falls sparisjóða á Íslandi og vátryggingafélags frá 2000. Í kjölfar þess fari fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi sparisjóðanna og lögum um vátryggingafélög.

Greinargerð.


     Um a-lið.
    Nauðsynlegt er að gera þess málsgrein meira lýsandi þannig að hún hafi einnig gildi eftir 20 ár. Ekki er um efnisbreytingu að ræða.
     Um b-lið.
    Hér er lögð til mjög mikil breyting á samskiptum Alþingis og ríkisstjórnarinnar, löggjafarvalds og framkvæmdarvalds í samræmi við hina viðamiklu skýrslu rannsóknarnefndarinnar og skýrslu þingmannanefndarinnar sem benda á nauðsyn þess að aðgreina þessa valdsþætti. Hefð hefur verið fyrir því að frumvörp eru samin í ráðuneytum eða jafnvel stofnunum ráðuneyta vegna þess að þekking á framkvæmd laganna og sérfræðiþekking á málefninu er þar. Þetta leiðir hins vegar til þess að það eru sérfræðingar og þeir sem framkvæma lögin sem hafa mest um það að segja hvernig lagasetningin verður. Þeir sem koma seinna að samþykkt laganna, eftir atvikum ráðuneyti, ráðherra, ríkisstjórnin, ríkisstjórnarflokkar og þingnefnd, þurfa allir að rökstyðja breytingar, sem höfundurinn þarf ekki. Auk þess er mjög vafasamt og getur verið hættulegt að þeir sem framkvæma lögin geti sett inn ákvæði sem létta þeim hugsanlega framkvæmdina á kostnað borgaranna. Það er miklu eðlilegra að þingmenn, sem eru kosnir af borgurunum, semji frumvörp eða ritstýri þeim og leiti í því starfi til sérfræðinga eftir því sem þarf.
          Ferlið gæti þá litið þannig út að þeir sem telja að breyta þurfi lögum eða semja ný lög snúa sér til viðkomandi þingnefndar með beiðni um að hún semji breytingartillögur eða heilu lagabálkana. Nefndin tekur ákvörðun um hvort ástæða sé til að smíða frumvarp og ef sú er niðurstaðan felur hún einstökum nefndarmönnum að ritstýra og eftir atvikum að semja frumvarp með aðstoð nefndasviðs. Nefndasvið þarf að styrkja verulega og ráða jafnvel til sviðsins þá starfsmenn ráðuneyta sem starfa núna við lagasmíð. Alþingi ákveður jú sjálft fjárveitingar til þessara starfa núna.
          Ráðherra, þingmaður, félagasamtök, stofnanir, fyrirtæki eða einstaklingar gætu óskað eftir því að nefnd semji frumvarp og færðu fyrir því rök að vissum atriðum laga þurfi að breyta eða smíða þurfi nýjan lagabálk.
          Þegar nefnd hefur lokið smíði frumvarps færi fram fyrsta umræða og síðan yrði frumvarpið sent til hefðbundinna umsagnaraðila en að auki þess ráðuneytis sem mun framkvæma lögin. Alþingi bæri eftir þessa breytingu skilyrðislausa ábyrgð á lagasetningunni, sem það gerir ekki í dag þar sem alltaf er hægt að kenna þeim sem samdi lögin um galla sem koma fram. Vald Alþingis mundi aukast því að þingmenn ættu raunverulega þátt í því að móta lagaumgjörð þjóðfélagsins. Núna stunda nefndir þingsins undarlega endurskoðun á því hvernig gengur að framkvæma frumvörp framkvæmdarvaldsins.
          Eftir slíka breytingu fengju ráðuneytin og ráðherrarnir meira næði og orku til að standa vel að framkvæmd gildandi laga og framkvæmdin yrði væntanlega markvissari og betri. Ef þau telja að eitthvað sé að geta þau falið þingnefndum það verkefni að breyta því sem þarf. Þannig mundu báðir aðilar, löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið, græða á slíkri breytingu og skilin yrðu miklu skarpari á milli þessara valdseininga.
          En jafnframt þyrfti Alþingi að hætta að ákveða einstakar framkvæmdir í fjárlögum. Þær framkvæmdir getur Alþingi sem eftirlitsaðili eðlilega ekki gagnrýnt því að ráðherra getur varla borið ábyrgð á þeim og því hefur enginn eftirlit með þeim.
     Um c-lið. Hér er lagt til að Alþingi hafi sjálfstæði í fjármálum. Við það vex ábyrgð þingsins því að það yrði að réttlæta útgjöld sín og getur ekki skotið sér á bak við fjármálaráðherra. Það er ekki heldur í samræmi við niðurstöðu þingmannanefndarinnar að þingmenn þiggi laun sín og séu á launaskrá hjá fjármálaráðuneytinu, framkvæmdarvaldinu.
     Um d-lið. Hér er lagt til að horft sé til erlendra matsfyrirtækja þegar skoðað er hverjir beri mesta ábyrgð á hruninu. Matsfyrirtæki gáfu litlum bönkum á Íslandi matið AAA sem er með því besta sem gefið er. Þessi matsgjöf gerði það að verkum að stórir bankar um allan heim og aðrir lánveitendur lánuðu íslensku bönkunum óhemju mikið fé, 160 millj. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Ætla má að þessi lán hafi farið strax aftur til fjárfestinga um alla Evrópu – í London, Kaupmannahöfn, Helsinki og víðar. Jafnvel til Makaó í Kína. Ekki er heldur hægt að horfa fram hjá ábyrgð þessara lánveitenda. Þessum ábyrgðaraðilum er bætt við og þeir settir framar stjórnendum bankanna og stærstu eigendum bankanna. Loks er bent á áhrif kross- og raðeignarhalds sem er veila eða galli í hlutabréfaforminu alþjóðlega og blæs út ímyndað eigið fé og hagnað og hefur eflaust villt þessum matsfyrirtækjum og lánveitendum sýn.
     Um e-lið.
     1.      Tekin eru út orðin „og forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar“ í samræmi við skýrslur rannsóknarnefndarinnar og þingmannanefndarinnar sem benda á nauðsyn þess að greina betur að störf Alþingis og ríkisstjórnarinnar. Allt sem fram kemur í I.–III. lið 8. mgr. eru verkefni sem snúa eingöngu að Alþingi.
     2.      Í 5. tölul. I. liðar er bætt við að skoða skuli jafnframt lög um hlutafélög og einkahlutafélög vegna þeirrar veilu í hlutafélagaforminu sem bent hefur verið á.
     3.      Í 2. tölul. II. liðar er lagt til að rannsókn á aðdraganda og orsökum falls sparisjóða á Íslandi nái aftur til ársins 2000 en Meiður ehf. sem seinna varð Exista hf. var stofnaður 2001 um hlutafjáreign sparisjóðanna í Kaupþingi hf. Enn fremur er lagt til að starfsemi vátryggingafélaga verði rannsökuð frá sama tíma.