Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1175, 139. löggjafarþing 190. mál: landlæknir og lýðheilsa (sameining stofnana).
Lög nr. 28 6. apríl 2011.

Lög um breytingu á lögum nr. 41/2007, um landlækni, með síðari breytingum, og um brottfall laga nr. 18/2003, um Lýðheilsustöð.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 41/2007, um landlækni, með síðari breytingum.

1. gr.

     1. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
Markmið.
     Markmið laga þessara er að stuðla að heilbrigði landsmanna, m.a. með því að efla lýðheilsustarf og tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og stuðla að því að lýðheilsustarf og heilbrigðisþjónusta byggist á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma.

2. gr.

     2. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
Embætti landlæknis.
     Starfrækja skal embætti landlæknis undir yfirstjórn velferðarráðherra. Ráðherra skipar landlækni til fimm ára í senn að fengnu mati nefndar skv. 9. gr. laga um heilbrigðisþjónustu. Hann skal hafa sérfræðimenntun í læknisfræði, þekkingu á sviði lýðheilsu og víðtæka reynslu eða menntun á sviði stjórnunar.
     Landlæknir ber ábyrgð á að embættið sem hann stýrir starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf. Landlæknir ræður starfsfólk embættisins.

3. gr.

     Við 3. gr. laganna bætist nýr töluliður, 1. tölul., sem orðast svo: Lýðheilsustarf: Felur í sér að viðhalda og bæta heilbrigði, líðan og aðstæður þjóðarinnar og þjóðfélagshópa með heilsueflingu, forvörnum og heilbrigðisþjónustu.

4. gr.

     4. gr. laganna ásamt fyrirsögn flyst í I. kafla laganna og orðast svo:
Meginhlutverk landlæknis.
     Hlutverk landlæknis er m.a. eftirfarandi:
  1. að veita ráðherra og öðrum stjórnvöldum, fagfólki og almenningi ráðgjöf og fræðslu um málefni á verksviði embættisins,
  2. að annast forvarna- og heilsueflingarverkefni,
  3. að efla lýðheilsustarf í samvinnu við aðra sem að þeim málum starfa og styðja við menntun á sviði lýðheilsu,
  4. að vinna að gæðaþróun,
  5. að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum,
  6. að hafa eftirlit með lyfjaávísunum og fylgjast með og stuðla að skynsamlegri lyfjanotkun landsmanna,
  7. að veita starfsleyfi til einstaklinga sem uppfylla skilyrði laga og reglugerða til notkunar starfsheita löggiltra heilbrigðisstétta,
  8. að stuðla að því að menntun heilbrigðisstarfsmanna sé í samræmi við kröfur heilbrigðisþjónustunnar á hverjum tíma,
  9. að sinna kvörtunum almennings vegna heilbrigðisþjónustu,
  10. að bera ábyrgð á framkvæmd sóttvarna, sbr. sóttvarnalög,
  11. að safna og vinna upplýsingar um heilsufar og heilbrigðisþjónustu,
  12. að meta reglulega árangur af lýðheilsustarfi og bera hann saman við sett markmið,
  13. að stuðla að rannsóknum á starfssviðum embættisins,
  14. að sinna öðrum verkefnum sem honum er falið að sinna samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.

     Ráðherra er heimilt að skilgreina verkefni landlæknis nánar með reglugerð.
     Landlækni er enn fremur heimilt að gera samninga við háskólastofnanir og aðrar stofnanir um samstarf á sviði rannsókna, kennslu og þjónustu er tengjast verksviði embættisins.

5. gr.

     Fyrirsögn I. kafla laganna verður: Markmið, skipun landlæknis, skilgreiningar og hlutverk.

6. gr.

     Á eftir I. kafla laganna kemur nýr kafli, I. kafli A, Fagráð og lýðheilsusjóður, með tveimur nýjum greinum sem orðast svo ásamt fyrirsögnum:
     
     a. (4. gr. a.)
Fagráð.
     Landlæknir skal setja á fót fagráð á helstu verksviðum embættisins, þ.m.t. á sviði áfengis- og vímuvarna og tóbaksvarna, sem í eiga sæti sérfróðir aðilar og fulltrúar stofnana og félagasamtaka á viðkomandi sviði. Fagráð skulu vera landlækni til ráðgjafar.
     Landlæknir setur reglur um skipan fagráða sem ráðherra staðfestir.
     
     b. (4. gr. b.)
Lýðheilsusjóður.
     Starfrækja skal lýðheilsusjóð sem hefur það hlutverk að styrkja lýðheilsustarf sem samræmist markmiðum laga þessara, sbr. 1. gr., bæði innan og utan embættisins.
     Stjórn lýðheilsusjóðs ráðstafar fé úr sjóðnum í samræmi við ákvæði reglugerðar sem ráðherra setur skv. 4. mgr. Stjórn sjóðsins skipa sjö fulltrúar, fjórir tilnefndir af fagráðum, tveir fulltrúar landlæknis og formaður sem skipaður er af ráðherra. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
     Til lýðheilsusjóðs rennur hlutfall af innheimtu áfengisgjaldi í samræmi við ákvæði laga um gjald af áfengi og tóbaki, hlutfall af brúttósölu tóbaks í samræmi við ákvæði laga um tóbaksvarnir og framlag úr ríkissjóði samkvæmt ákvæðum fjárlaga hverju sinni.
     Ráðherra skal með reglugerð mæla nánar fyrir um ráðstöfun fjár úr lýðheilsusjóði. Í reglugerð skulu sett ákveðin viðmið við úthlutun styrkja til mismunandi málaflokka, svo sem forvarna- og lýðheilsustarfs. Jafnframt skulu sett viðmið vegna ráðstöfunar fjármagns úr sjóðnum til verkefna og reksturs viðkomandi málaflokka innan embættisins.

7. gr.

     2. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
     Landlæknir getur gefið út faglegar leiðbeiningar til heilbrigðisstarfsmanna, heilbrigðisstofnana og þeirra sem sinna lýðheilsustarfi, þar á meðal leiðbeiningar sem miða að nálgun og lausn vandamála í samræmi við bestu þekkingu á hverjum tíma. Leiðbeiningarnar skulu kynntar heilbrigðisstarfsmönnum og þeim sem sinna lýðheilsustarfi og vera aðgengilegar almenningi.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
  1. Við 2. mgr. bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
    1. Skrá um sykursýki.
    2. Dánarmeinaskrá.
  2. Við 2. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Landlækni er heimilt að taka til varðveislu gagnasöfn um sjúkdóma sem stofnað var til fyrir setningu tölvulaga. Meðferð upplýsinga úr slíkum gagnasöfnum verði með heimild Persónuverndar og vísindasiðanefndar.
  3. Í stað orðanna „sjúkratryggingastofnunin og Lýðheilsustöð“ í 4. málsl. 5. mgr. kemur: og sjúkratryggingastofnunin.


9. gr.

     Fyrirsögn II. kafla laganna verður: Eftirlit með heilbrigðisþjónustu.

10. gr.

     Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     
     a. (I.)
     Öll störf hjá Lýðheilsustöð eru lögð niður frá 1. maí 2011. Starfsmönnum Lýðheilsustöðvar skal boðið starf hjá landlæknisembættinu frá og með sama tíma. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996 gilda ekki við ráðstöfun starfa samkvæmt þessu ákvæði.
     
     b. (II.)
     Embætti landlæknis tekur frá 1. maí 2011 við eignum Lýðheilsustöðvar sem og réttindum og skyldum hennar að því er varðar framkvæmd þeirra laga sem falla undir málefnasvið hennar á þeim tíma.

11. gr.

     Heiti laganna verður: Lög um landlækni og lýðheilsu.

II. KAFLI
Brottfall laga nr. 18/2003, um Lýðheilsustöð.

12. gr.

      Lög nr. 18/2003, um Lýðheilsustöð, falla úr gildi.

III. KAFLI
Gildistaka.

13. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. maí 2011.
     Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal fella meginmál I. kafla þeirra inn í lög um landlækni, nr. 41 27. mars 2007, með síðari breytingum, og gefa þau út svo breytt með samfelldri greinatölu og kaflanúmerum.

IV. KAFLI
Breytingar á öðrum lögum.

14. gr.

Breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.
     7. gr. laganna orðast svo:
     Af innheimtu áfengisgjaldi þeirra sem eru gjaldskyldir skv. 1. mgr. 2. gr. skal 1% renna í lýðheilsusjóð, sbr. lög um landlækni og lýðheilsu.

15. gr.

Breyting á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, með síðari breytingum.
  1. Orðin „að höfðu samráði við tóbaksvarnanefnd og“ í 10. mgr. 8. gr. laganna falla brott.
  2. Í stað orðsins „tóbaksvarnanefnd“ í 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: landlækni.
  3. 15. gr. laganna orðast svo:
  4.      A.m.k. 0,9% af brúttósölu tóbaks skal renna í lýðheilsusjóð, sbr. lög um landlækni og lýðheilsu.

16. gr.

Breyting á lögum nr. 61/1998, um dánarvottorð, krufningar o.fl.
  1. 5. og 6. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
  2.      Sýslumaður sendir dánarvottorð svo fljótt sem kostur er til Þjóðskrár Íslands. Jafnskjótt og andlát hefur verið skráð í þjóðskrá, ásamt nauðsynlegum upplýsingum, sendir Þjóðskrá Íslands dánarvottorðið til landlæknis.
         Hagstofa Íslands semur skýrslur um dánarorsakir og andvana fædd börn hér á landi. Landlæknir skal afhenda Hagstofunni þau gögn sem hún óskar eftir og nauðsynleg eru í þeim tilgangi.
  3. 11. gr. laganna orðast svo:
  4.      Fæðist barn andvana skal ekki ritað dánarvottorð, en um það skal tilkynnt til Þjóðskrár Íslands og landlæknis.
  5. 4. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna orðast svo: Hvernig Þjóðskrá Íslands og landlækni verði tilkynnt um andvana fædd börn.

17. gr.

Breyting á lögum nr. 16/2001, um lækningatæki.
  1. Í stað orðsins „landlæknir“ í 4. mgr. 1. tölul. 3. gr., 2. mgr. 5. gr., 8. gr., 2. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 10. gr. laganna og orðsins „landlækni“ í 1. mgr. 10. gr. og 11. gr. kemur: Lyfjastofnun.
  2. Í stað orðsins „landlæknis“ í 1. mgr. 9. gr. og 12. gr. laganna og orðsins „hann“ í 1. mgr. 9. gr. kemur: Lyfjastofnunar, og: stofnunin.

Samþykkt á Alþingi 30. mars 2011.