Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1445, 128. löggjafarþing 421. mál: Lýðheilsustöð.
Lög nr. 18 26. mars 2003.

Lög um Lýðheilsustöð.


1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að efla lýðheilsu. Með eflingu lýðheilsu er átt við aðgerðir sem ætlað er að viðhalda og bæta heilbrigði þjóðarinnar eða tilgreindra hópa í þjóðfélaginu með skipulegum og viðurkenndum aðferðum.

2. gr.

Yfirstjórn.
     Starfrækja skal Lýðheilsustöð til að vinna að markmiðum laga þessara. Hún skal vera undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Ráðherra skipar forstjóra Lýðheilsustöðvar til fimm ára í senn. Forstjóri ber ábyrgð á rekstri og fjárreiðum stöðvarinnar og ræður aðra starfsmenn hennar.

3. gr.

Hlutverk.
     Hlutverk stöðvarinnar er að efla lýðheilsustarf og samræma það, annast fræðslu til almennings um heilbrigði og heilsueflingu í samstarfi og samvinnu við landlækni og aðra eftir því sem við á og styðja starfsemi stofnana og frjálsra félagasamtaka til eflingar lýðheilsu. Lýðheilsustöð skal vera stjórnvöldum til ráðgjafar um stefnumótun á sviði lýðheilsu. Forgangsröðun verkefna skal vera í samræmi við heilbrigðisáætlun. Stöðin fylgist með árangri af lýðheilsustarfi og stuðlar að rannsóknum á sviði lýðheilsu í samvinnu við landlækni og mennta- og rannsóknastofnanir.
     Helstu verkefni Lýðheilsustöðvar eru:
  1. að efla lýðheilsustarf í samvinnu við aðra sem að þeim málum starfa,
  2. að annast áfengis- og vímuvarnir, manneldi, slysavarnir, tóbaksvarnir og önnur forvarna- og heilsueflingarverkefni á vegum ríkisins,
  3. að fylgjast með og koma á framfæri nýrri þekkingu og reynslu sem að gagni mætti koma í lýðheilsustarfi,
  4. að meta reglulega árangur af lýðheilsustarfi og bera hann saman við sett markmið,
  5. að efla þekkingu og færni þeirra sem starfa að eflingu lýðheilsu,
  6. að miðla upplýsingum og fræðslu til landsmanna og einstakra hópa í samfélaginu, eftir því sem við á, í samvinnu við landlækni og aðra,
  7. að stuðla að eflingu kennslu og rannsókna á sviði lýðheilsu og samstarfi við háskóla og aðrar menntastofnanir,
  8. að beina tillögum til stjórnvalda um aðgerðir til að efla lýðheilsu og forgangsröðun verkefna.

     Ráðherra er heimilt að skilgreina verkefni stöðvarinnar á sviði lýðheilsu nánar með reglugerð.
     Lýðheilsustöð er heimilt, í samráði við ráðherra, að semja við aðra um að sinna starfsemi sem stöðinni er falið að annast samkvæmt lögum eða reglugerðum.

4. gr.

Landsnefnd um lýðheilsu.
     Landsnefnd um lýðheilsu er ráðgjafarnefnd Lýðheilsustöðvar um fagleg málefni. Nefndin er skipuð af ráðherra til fjögurra ára í senn. Formenn sérfræðiráða skv. 5. gr. og landlæknir eða fulltrúi tilnefndur af honum skulu eiga sæti í nefndinni. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipar formann án tilnefningar. Ráðherra skal kveða nánar á um skipan og hlutverk nefndarinnar í reglugerð, m.a. um tilnefningu félaga og stofnana sem vinna að lýðheilsu.

5. gr.

Sérfræðiráð.
     Áfengis- og vímuvarnaráð, manneldisráð, slysavarnaráð og tóbaksvarnaráð skulu starfa innan Lýðheilsustöðvar og gegna hlutverki sérfræðiráða Lýðheilsustöðvar. Heimilt er, með reglugerð, að fela þeim víðtækari verkefni en kveðið er á um í 6.–9. gr.
     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skal setja reglugerð um skipan og hlutverk annarra sérfræðiráða. Þau skulu skipuð sérfræðingum og fulltrúum stofnana og félaga sem starfa á viðkomandi sviði. Landlæknir skal tilnefna einn fulltrúa í hvert sérfræðiráð.
     Sérfræðiráð skv. 1. og 2. mgr. skulu vera Lýðheilsustöð og öðrum sem starfa að forvörnum til ráðgjafar hvert á sínu sviði.

6. gr.

Áfengis- og vímuvarnaráð.
     Hlutverk áfengis- og vímuvarnaráðs er að efla og styrkja áfengis- og vímuvarnir, sérstaklega meðal barna og ungmenna, og hafa eftirlit með að ákvæðum laga og reglugerða um áfengis- og vímuvarnir sé framfylgt.
     Ráðið skal stuðla að samvinnu og samræmingu milli þeirra sem starfa að áfengis- og vímuvörnum, svo sem heilsugæslu og annarra heilbrigðisstofnana, sveitarstjórna, löggæslu, menntakerfis, refsivörslukerfis og félagasamtaka.
     Lýðheilsustöð skal ráðstafa fé úr Forvarnasjóði skv. 7. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, til verkefna á sviði áfengis- og vímuvarna í samráði við ráðherra að fengnum tillögum áfengis- og vímuvarnaráðs.
     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skal setja reglugerð þar sem kveðið er á um skipan ráðsins og starfsemi þess, m.a. ráðstöfun fjár úr Forvarnasjóði.

7. gr.

Manneldisráð.
     Hlutverk manneldisráðs er að stuðla að heilsusamlegu mataræði þjóðarinnar í samræmi við manneldismarkmið. Ráðið skal vinna að samræmingu rannsókna og fræðslu á sviði manneldisfræði í samráði við skóla, heilsugæslu og stofnanir á sviði matvælaeftirlits.
     Ráðherra skal setja reglugerð þar sem kveðið er á um skipan ráðsins og starfsemi þess.

8. gr.

Slysavarnaráð.
     Hlutverk slysavarnaráðs er að stuðla að fækkun slysa.
     Ráðið skal sjá til þess að slys séu skráð með samræmdum hætti. Jafnframt skal ráðið hlutast til um úrvinnslu skráðra upplýsinga og birtingu þeirra. Ráðið mótar reglur um framkvæmd skráningar og aðgang að upplýsingum úr skránni.
     Samræmd slysaskrá skal varðveitt hjá landlækni.
     Ráðherra skal setja reglugerð þar sem kveðið er á um skipan ráðsins og starfsemi þess.

9. gr.

Tóbaksvarnaráð.
     Hlutverk tóbaksvarnaráðs er að stuðla að tóbaksvörnum.
     Fjármálaráðuneytið skal hafa samráð við tóbaksvarnaráð um stefnumörkun varðandi innflutning og verðlagningu tóbaks.
     Leita skal álits ráðsins á öllum reglugerðum sem snerta tóbaksvarnir og tóbakssölu.
     Lýðheilsustöð skal fá 0,9% af brúttósölu tóbaks til ráðstöfunar til tóbaksvarnastarfs og skal fénu ráðstafað í samráði við ráðherra að fengnum tillögum tóbaksvarnaráðs.
     Ráðherra skal setja nánari ákvæði um skipan og hlutverk tóbaksvarnaráðs í reglugerð.

10. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2003.
     Við gildistöku laga þessara falla eftirtalin lög og lagaákvæði úr gildi: Lög um slysavarnaráð, nr. 33/1994, lög um manneldisráð, nr. 45/1978, lög um áfengis- og vímuvarnaráð, nr. 76/1998, og 5. gr. laga um tóbaksvarnir, nr. 6/2002.

Samþykkt á Alþingi 15. mars 2003.