Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 403  —  1. mál.
Viðbót.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.


Inngangur.
    Frá því að fjármálaráðherra lagði fram frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012 hefur fjárlaganefnd unnið við það, haldið 24 fundi og átt viðtöl við fjölmarga aðila, m.a. fulltrúa ráðuneyta og stofnana, einstaklinga, fulltrúa sveitarfélaga, einstakra félaga og hagsmunasamtaka.
    Annar minni hluti mun í álitinu leggja fram tillögur sem byggjast á hófsamri og ábyrgri miðjustefnu sem og á efnahags- og atvinnumálatillögum Framsóknarflokksins frá því í haust. Útfærðar eru leiðir til að auka tekjur ríkissjóðs, örva hagvöxt og koma hjólum atvinnulífsins af stað. Þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og byggjast á hugmyndafræði vinstri flokka hafa því miður leitt af sér minni hagvöxt, rýrari tekjur og kólnun hagkerfisins enn eitt árið.
    Hvað útgjaldahliðina varðar vill 2. minni hluti leitast við að vernda velferðarkerfið. Í fjárlögum fyrir árið 2011 var gengið nærri heilbrigðiskerfi landsmanna og lagt af stað í grundvallarbreytingar á því án þess að fyrir lægi stefna og áætlun um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustunnar. Ekki var heldur gerð gangskör að því að gera úttekt á byggðarlegum áhrifum niðurskurðarins þrátt fyrir loforð í þá veruna. 2. minni hluti telur að útilokað sé að ganga lengra í boðuðum niðurskurði gagnvart heilbrigðisþjónustu landsmanna án þess að skaða kerfið varanlega. 2. minni hluti hafnar því þeim sífelldu tillögum sem ríkisstjórnin leggur fram um gjörbyltingu á heilbrigðiskerfinu með auknum niðurskurði þess og leggur jafnframt til að hluti niðurskurðarins á síðasta ári verði bættur. Þá verður í tillögum 2. minni hluta komið til móts við þá tekjulægstu í þjóðfélaginu, atvinnulausa, öryrkja og ellilífeyrisþega, þannig að þeir fái umsamdar hækkanir í samræmi við kjarasamninga. Þá verður lagt til að komið verði sérstaklega til móts við barnafólk með hækkun barnabóta.

Almennt um forsendur frumvarpsins.
    Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012 sem lagt var fram í byrjun haustþingsins byggðist á forsendum sem almennt var ljóst að ekki mundu standast. Gert var ráð fyrir 3,1% hagvexti á árinu 2012 í þjóðhagsspá Hagstofunnar frá því í júní eins og sjá má á eftirfarandi töflu.

Forsendur fjárlagafrumvarps 2012.

Breyting milli ára
2011 2012 2013 2014 2015
Hagvöxtur 2,5 3,1 2,8 2,8 2,7
Verðbólga 3,9 3,7 2,6 2,5 2,5
Atvinnuleysi 7,2 6 5,4 5,2 4,8
Kaupmáttur ráðstöfunartekna 3,3 3,2 2,7 2,8 2,5
Viðskiptajöfnuður -7,4 -6 -7,1 -5,9 -6
Stofnkostnaður 14,1 12,1 12,3 12,7 12,9
Vaxtagjöld í milljörðum kr. 67,3 78,4 82 86,3 92,9

    Í endurskoðaðri spá frá því nú í nóvember er gert ráð fyrir 2,4% hagvexti. Ljóst er að forsendur spárinnar um kröftuga einkaneyslu og aukna atvinnuvegafjárfestingu eru háðar mikilli óvissu og gætu hæglega breyst til hins verra. Að mati 2. minni hluta einkennast forsendur um að atvinnuvegafjárfesting aukist um 19% á næsta ári af bjartsýni. Má í því sambandi minna á áform stjórnvalda um kolefnisskatt sem gæti sett áform um kísilverksmiðju í Helguvík í uppnám en þau eru stór áhrifavaldur í hagspánni. Í spánni er gert ráð fyrir framkvæmdum við fyrsta áfanga álvers í Helguvík á árinu 2013 en á þessari stundu er fullkomlega óljóst hvort sú tímasetning gengur eftir. Í hagspá Seðlabankans er til að mynda ekki reiknað með framkvæmdum við Helguvík fyrr en 2014 og hvorki Alþýðusamband Íslands né greiningardeild Arion banka gera ráð fyrir því verkefni í hagspám sínum.
    Fjárfesting er lítil um þessar mundir en hún er forsenda varanlegs hagvaxtar á næstu árum. Vöxtur einkaneyslu er jafnframt mikilvæg driffjöður hagvaxtar. Í spá Hagstofunnar er gert ráð fyrir að einkaneysla aukist að meðaltali um 3% á ári fram til ársins 2014 og standi því ríflega undir helmingi hagvaxtarins næstu þrjú árin. Við fyrstu sýn eru það því jákvæðar fréttir að töluverð aukning hafi orðið í einkaneyslu að undanförnu en því miður virðist a.m.k. að hluta til mega skýra hana með tímabundnum úrræðum. Má þar nefna eingreiðslur til launþega vegna kjarasamninga, vaxtaendurgreiðslur Landsbankans, úttektir á séreignarsparnaði og jafnvel því að lántakendur greiði ekki af lánum og kunni að nota þann greiðslufrest til einkaneyslu. Það er því óljóst hvort varanlegur kraftur sé kominn í einkaneyslu. Veruleg hætta er á því að þegar áhrifa þessara tímabundnu aðgerða hættir að gæta muni draga úr innlendri eftirspurn í hagkerfinu. Gangi það eftir er torséð hvaða kraftar koma til með að knýja hagvöxtinn áfram á komandi árum.
    Annar minni hluti bendir á að einstaklingum á vanskilaskrá hefur fjölgað mjög það sem af er árinu sem bendir til mikils greiðsluvanda. Ekki er vitað hvort aðlögun skulda heimilanna leiðir til meiri eða minni einkaneyslu eftir að greiðslufrestunum lýkur. Minnt er á að ríkisstjórnin ber ábyrgð á því að skapa landsmönnum umgjörð og aðstæður sem nauðsynlegar eru til að tryggja hagsæld á komandi árum. Því miður hefur það ekki tekist og engin raunhæf úrræði er að finna í fjárlagafrumvarpinu eða breytingartillögum við það sem vekja vonir um að endurreisn sé á næsta leiti.
    Verðbólguhorfur hafa versnað. Nú er reiknað með að meðaltalsverðlag hækki um 4,1% 2011, 4,2% árið 2012 en nálgist eftir það verðbólgumarkmið Seðlabankans. Þá er gert ráð fyrir að fjárfesting hins opinbera dragist saman um 20% árið 2011 að raungildi og um 6% árið 2012. Ekki er hægt að túlka niðurstöður hagspárinnar á annan veg en sem ákall til ríkisstjórnarinnar um að fara að standa sig.
    Annar minni hluti varar við hækkandi skuldum ríkissjóðs og þeirri áhættu sem felst í vaxtagjöldum sem kunna að aukast hækki vextir. Vaxtagjöld í frumvarpinu nema 78,4 milljörðum kr. en lækkun þeirra frá framlagningu frumvarpsins fram að 2. umræðu sýnir þá vaxtaáhættu sem við stöndum frammi fyrir snúist allt á verri veg.

Markmið ríkisstjórnarinnar.
    Á grundvelli meginmarkmiða sem fram koma í skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013 kemur fram að ríkisstjórnin hefur gert áætlanir um jöfnuð í ríkisfjármálum, sem mörkuðu stefnu hennar á næstu árum í tekjuöflun fyrir ríkissjóð og var ætlað að setja útgjöldum hans skorður. Til að ná þessum meginmarkmiðum var gert ráð fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs yrði um 1,8% af vergri landsframleiðslu á árinu 2011.
    Í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins sem markmiðin voru byggð á var gert ráð fyrir að smám saman færi að rofa til árið 2010 og að hagvöxtur yrði nokkur árin 2011–2013. Hagkerfið mundi þróast í átt að meira jafnvægis með lágri verðbólgu, minnkandi viðskiptahalla og batnandi atvinnuástands eins og sjá má á eftirfarandi töflu.

Þjóðhagsspá 2009–2013.


2009 2010 2011 2012 2013
Einkaneysla -24,7 -2,6 4,1 3,8 4,0
Fjármunamyndun -36,3 11,6 17,8 5,3 -5,6
Verg landsframleiðsla -10,6 0,2 4,4 3,1 2,2
Viðskiptajöfnuður, % af VLF -2,3 0,4 -0,3 -0,9 0,4
Vísitala neysluverðs 10,2 1,5 1,7 2,1 2,1
Atvinnuleysi, % af vinnuafli 9,0 9,6 8,0 6,1 4,7

    Í skýrslu um áætlun í ríkisfjármálum sem fjallar um ríkisbúskapinn 2012–2015 kemur fram að endurskoðuð ríkisfjármálaáætlun felur í sér að nú er gert ráð fyrir að aðlögun ríkisfjármálanna þurfi ekki að verða jafn skörp og hröð og lagt var upp með árið 2009. Markmið um jákvæðan heildarjöfnuð er nú sett á árin 2013–2014 auk þess sem nokkuð minni afgangur í byrjun er talinn nægjanlegur. Ástæður þessa endurmats á aðlögunaráætluninni eru nokkrar. Í fyrsta lagi hefur aðlögunarþörfin reynst vera minni en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Nú er miðað við að viðsnúningur í frumjöfnuði verði um 10–11% af VLF í stað 16% í upphaflegri áætlun. Í öðru lagi má nefna að þrátt fyrir mildari aðlögunarferil nú var hallinn á ríkissjóði í ár, heildarjöfnuður, áætlaður um 1% minni en samkvæmt upphaflegri áætlun Íslands og AGS. Gert er ráð fyrir að hallinn verði neikvæður um u.þ.b. 2,5% af VLF sem veitir ríkissjóði aukið svigrúm. Í þriðja lagi var það mat stjórnvalda og AGS að þungvæg efnahagsleg rök hnigju að því að of mikil og hröð aðlögun í ríkisfjármálum til viðbótar við það sem þegar hafði átt sér stað gæti haft verulega neikvæð áhrif fyrir efnahagslífið í heild, þ.e. að vexti hagkerfisins yrði stefnt í hættu. Endurskoðaðri áætlun er því ætlað að styðja betur við efnahagsbatann. Í fjórða lagi lauk kjarasamningum á vinnumarkaði með umtalsverðum hækkunum launa og bóta.
                   


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Breytingar á heildarjöfnuði.

Frumvarp 2012 Tillögur
ríkisstjórnar
við 2. umræðu
Tillögur
meiri hluta
fjárlaganefndar
Nokkrir vantaldir liðir Samtals
Frumtekjur 500,3 0,4 500,7
Frumgjöld 460,8 4,7 0,6 32,7 498,8
Frumjöfnuður 39,5 -4,3 -0,6 -32,7 1,9
Vaxtatekjur 21,1 0,0 21,1
Vaxtagjöld 78,4 -0,6 77,8
Vaxtajöfnuður -57,3 0,6 0,0 0,0 -56,7
Heildartekjur 521,4 0,4 0 0,0 521,8
Heildargjöld 539,2 4,1 0,6 32,7 576,6
Heildarjöfnuður -17,8 -3,7 -0,6 -32,7 -54,8
Hluti vantalinna liða:
Sparisjóður Keflavíkur 30,0
Sjúkratryggingar 1,3
Ófjármögnuð vaxtaniðurfærsla 1,4
Samtals 32,7
    
    Annar minni hluti bendir á að tillögur ríkisstjórnar við 2. umræðu fjárlaga sem og breytingartillögur meiri hlutans eru vísbending um til að forsendur þessar hafi ekki reynst eins traustar og ríkisstjórnin taldi og að hún hafi í ekki náð þeim markmiðum sem hún sjálf setti sér í fyrrgreindri skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013. Auk þess hefur ríkisstjórnin ekki viðurkennt ýmsa útgjaldaliði í fjárlögum sem við blasa á næstunni. Má þar nefna málefni SpKef sem gæti kostað allt að 30 milljarða kr., Vaðlaheiðargöng að fjárhæð a.m.k. 8,8 milljarðar kr. sem ætlunin virðist að halda utan ríkisreiknings, innbyggður óleystur vandi sjúkratrygginga og ýmislegt fleira. Því er vafa undirorpið hvort ríkisstjórninni hafi tekist að mynda það svigrúm sem áður var lýst.
    Þá gagnrýnir 2. minni hluti harðlega breytta framsetningu ríkisstjórnarinnar á ríkisfjármálunum á þann hátt að leggja áherslu á frumjöfnuð í stað heildarjafnaðar. 2. minni hluti bendir á að Ríkisendurskoðun hefur gagnrýnt þessa framsetningu eins og fram kemur með skýrum hætti í umsögn Ríkisendurskoðunar frá 7. nóvember sl. um frumvarp til fjárlaga 2012, fjáraukalaga 2011 og lokafjárlaga 2010 í kafla sem ber heitið „Framsetning tekjuhalla“. Þar segir:
    „Í 1. gr. fjárlaga, rekstraryfirlit ríkissjóðs, eru notuð hugtökin heildarjöfnuður og frumjöfnuður. Þetta er hliðstætt því sem gert var í frumvarpi til fjárlaga og í fjárlögum 2011 (nema þar var talað um heildartekjujöfnuð). Þessi framsetning hafði hins vegar ekki tíðkast fram til þess tíma. Með frumjöfnuði er átt við afkomu ríkissjóðs án vaxtagjalda. Samkvæmt 22. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, skal í frumvarpi til fjárlaga sýna áætlaðan rekstrarreikning fyrir ríkisaðila í A-hluta. Samkvæmt því á ekki að sýna millistærð rekstrarreiknings ríkissjóðs sem lokaútkomu reikningsins, þ.e. að sýna áætlaða jákvæða afkomu að fjárhæð 16,9 ma.kr. í stað áætlaðs tekjuhalla að fjárhæð 36,4 ma.kr. Ætla verður að fyrir stjórnvöldum vaki með þessari nýju framsetningu að leggja sérstaka áherslu á frumjöfnuðinn. Að mati Ríkisendurskoðunar ætti fremur að sýna frumjöfnuð sem millistærð á undan vaxtagjöldum í rekstraryfirlitinu.“

Agaleysi við fjárlagagerðina, framkvæmd fjárlaga.
    Annar minni hluti hefur á undanförnum árum gagnrýnt þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð við gerð fjárlaga í gegnum tíðina. Er þar tekið undir með Ríkisendurskoðun sem hefur bent á lausatök í ríkisfjármálum síðustu tvo áratugi. Reyndar má hér ekki undanskilja hlut fjárlaganefndar en nefndin hefur ekki sinnt eftirlitsskyldu sinni nægilega vel á þessu ári. Almennt má segja að framkvæmd fjárlaga hafi verið gagnrýnisverð í gegnum árin. Hefur ítrekað verið bent á að almennt agaleysi hafi verið í rekstri fjölmargra stofnana sem og að bindandi fyrirmæli fjárlaga hafi ekki verið virt. Hefur stofnunin því hvatt til þess að ábyrgð ráðuneyta á fjárreiðum ríkisstofnana verði gerð afdráttarlaus í gildandi lögum og reglum.
    Annar minni hluti tekur undir með Ríkisendurskoðun um að gera verði skýlausa kröfu til ráðuneyta um að stofnanir sem undir þau heyra séu reknar innan fjárheimilda. Taka þurfi á uppsöfnuðum halla stofnana með afgerandi hætti, annaðhvort með kröfu um samdrátt í rekstri þeirra eða þannig að þær fái nægar fjárheimildir. 2. minni hluti harmar að ekki hefur verið tekið tillit til ábendinga Ríkisendurskoðunar um aukið eftirlit með þeim fjármunum sem Alþingi úthlutar og að eftirfylgni með fjárreiðum ríkisins og áætlanagerð hafi ekki tekið miklum breytingum síðastliðin tvö ár. Engin lög hafa verið sett til að styrkja eftirlitið utan heimilda sem Ríkisendurskoðun fékk til að afla skýrslna fyrir fjárlaganefnd með lögum nr. 56/2009 og með þingsályktunartillögu frá 11. júní sama ár þar sem Ríkisendurskoðun er heimilt að veita fjárlaganefnd Alþingis aðgang að þeim gögnum sem hún aflar eða leggja fram skýrslu. 2. minni hluti bendir því á að langur vegur er frá því að Alþingi geti rækt eftirlitshlutverk sitt með skýrum hætti og þann þátt stjórnkerfisins verður að styrkja.
    Annar minni hluti bendir einnig á mikilvægi skýrslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum frá því í mars 2009. Þar kemur fram brýn nauðsyn þess að trúverðugleiki fjárlagarammans til millilangs tíma verði styrktur til að koma á fjárhagslegum aga og rökstyðja framsetningu og samþykkt fjárlaga. Lögð er áhersla á að styrkja framkvæmd fjárlaga og takmarka verulega heimildir til að flytja fjárheimildir á milli ára. Þá er lagt til að tekjur og gjöld verði færð eftir því sem þau verða til en ekki þegar þau eru greidd. Efla þurfi framkvæmd fjárlaga, draga úr vægi fjáraukalaga og draga úr framúrkeyrslu fjárlaga. Bendir AGS sérstaklega á mikilvægi hinar svokölluðu „top down“ aðferðar í fjárlagagerðinni en með því er átt við að valdið við gerð fjárlaga liggi hjá þeim sem fari með fjárlagavaldið, þ.e. hjá Alþingi.
    Annar minni hluti bendir einnig sérstaklega á að heilbrigðisráðuneytinu var fullljóst við fjárlagagerðina að áætlaður sparnaður næðist ekki fram í rekstri nema sérfræðilæknar féllust á að lækka gjaldskrá sína mjög mikið eða til kæmu verulegar kerfisbreytingar. Krafa um að Sjúkratryggingar Íslands næðu fram mikilli lækkun lækniskostnaðar án slíkra breytinga, skýrrar stefnumótunar og leiðsagnar ráðuneytisins var því algerlega óraunhæf. Engu að síður er haldið áfram á sömu braut.

Safnliðir.
    Á fundi nefndarinnar 4. nóvember lét fulltrúi 2. minni hluta bóka eftirfarandi: „Lýst er áhyggjum af meðferð svokallaðra safnliða á fjárlögum. Fyrir þó nokkru síðan var kallað eftir nánari upplýsingum um framkvæmd þeirra í fjárlaganefnd en þær hafa ekki verið lagðar fram. Óskað er eftir að þeirri vinnu verði flýtt þar sem margar fyrirspurnir hafa borist frá sveitarfélögum um framkvæmdina á fundum nefndarinnar.“ Á fundi fjárlaganefndar 22. nóvember sl. lét fulltrúi 2. minni hluta bóka að hann óskaði eftir sundurliðunum sem skýrði millifærslur og breytingar vegna færslu úthlutana af safnliðum til ráðuneytanna og ýmissa sjóða. Þá lét hann bóka að hann ítrekaði gagnrýni sína á breytt verklag og framsetningu fjárheimilda vegna úthlutunar- og styrkjaliða í fjárlögum eða hinna svokölluðu safnliða. Jafnframt hafi verið ítrekað kallað eftir upplýsingum um útfærslu á hinu breytta verklagi án þess að það hafi verið lagt fram. Bent var á að ein vika væri þangað til 2. umræða um frumvarp til fjárlaga færi fram.
    Annar minni hluti hefur verið mótfallin því að ákvarðanir um úthlutun fjármagns af safnliðum verði fluttar til ráðuneyta og annarra aðila og haft frammi efasemdir um að þær leiði til faglegri vinnubragða og gagnsæi við framkvæmd – gætu jafnvel haft þveröfug áhrif. Jafnframt hefur hann gagnrýnt framkvæmdina og undrast hve óljós hún hefur verið og seint framkomin. Þá kom fram á fundi nefndarinnar með fjármálastjórum ráðuneytanna fyrr í vikunni að enn sé eftir að hnýta margra lausa enda. 2. minni hluti óttast að fjölmörg verkefni hafi verið sett í uppnám vegna þess hve hægt og óljóst þessari vinnu hefur miðað. Þá gagnrýnir 2. minni hluti að embættismönnum hafi verið falið fjárveitingavald sem Alþingis eitt hefur. Telur 2. minni hluti að það gangi þvert gegn tilmælum í rannsóknarskýrslu Alþingis sem kveður skýrt á um að styrkja þurfi Alþingi gagnvart stjórnsýslunni og ábendingum AGS um að ákvörðunarvald um þá fjármuni sem ríkið hefur til ráðstöfunar skuli koma frá Alþingi. Jafnframt er bent á að menningarsamningar hafa verið skertir hlutfallslega meira á landsbyggðinni hjá núverandi ríkisstjórn. 2. minni hluti bendir á bókun stjórnar Sambands sveitarfélaga á Austurlandi frá 22. nóvember sl. vegna menningarsamninga en þar koma m.a. fram athugasemdir við að byggt verði á sömu breytum og hafa verið til hliðsjónar vegna vaxtarsamninga enda telur stjórnin að um verulega óskyld mál sé að ræða. Þar var samþykkt samhljóða að fela undirrituðum að tilkynna öðrum landshlutasamtökum og hlutaðeigandi starfsmönnum menningarmálaráðuneytisins að SSA geti ekki orðið aðili að hugsanlegu samkomulagi.

Breytingar frá frumvarpi til 2. umræðu í stórum dráttum.

Tekjur og gjöld.
    Samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar sem hafa verið til umfjöllunar í fjárlaganefnd fyrir 2. umræðu um fjárlagafrumvarpið og að teknu tilliti til þeirra tillagna sem meiri hlutinn gerir eru tekjur ríkissjóðs áætlaðar 521,9 milljarðar kr., sem er 0,4 milljarða kr. hækkun frá frumvarpinu. Breytingartillögur til umfjöllunar við 2. umræðu nema 4.564,6 millj. kr. til hækkunar á sundurliðun 2, þ.e. fjármálum ríkisaðila í A-hluta. Athygli vekur að í breytingartillögunum er fjöldi mála sem eðlilegt hefði verið að ganga frá í fjárlagafrumvarpinu þar sem ekki verður annað séð en allar upplýsingar sem máli skipta hafi legið fyrir við vinnslu þess. Ekki liggur enn fyrir hvort bygging nýs fangelsis verður unnin í einhvers konar einkaframkvæmd eða framkvæmd beint af ríkissjóði eða hvort af henni verði yfir höfuð þar sem stjórnarliðar í meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar lýsa miklum efasemdum um framkvæmdina í áliti sínu til fjárlaganefndar. Þar segir: „Miklar efasemdir komu fram í nefndinni um þá fyrirætlun að byggt verði annað öryggisfangelsi á Hólmsheiði, nokkra tugi kílómetra frá Litla-Hrauni á Eyrarbakka, og komu fram efasemdir um hagkvæmni þess.“ Þá er ekki tekið á vanda sjúkratrygginga sem nemur um 1,2 milljörðum kr. og ekki er áætlað fyrir kostnaði af yfirtöku á Sparisjóði Keflavíkur, sem gæti kostað allt að 30 milljarða kr. Minni hlutinn telur að of stórir kostnaðarliðir standi enn út af borðinu til að frumvarpið gefi eðlilega mynd af væntanlegri afkomu ríkissjóðs á næsta ári. Komi þessi kostnaður fram á næsta ári verður ekki séð að ríkisstjórnin nái þeim jöfnuði í rekstri ríkisins sem að er stefnt.

Tekjuhlið.
    Hin laka útkoma í þjóðhagsspá Hagstofunnar byggist fyrst og fremst á þeirri staðreynd, sem fyrr, að ríkisstjórninni hefur ekki tekist að koma hjólum atvinnulífsins af stað, t.d. með því að hefja orkufrekar framkvæmdir í þeim mæli sem þarf. Er það einungis til marks um að stöðnun hefur einkennt íslenskt atvinnulíf sem bætist ofan á þrúgandi óvissu íslenskra heimila. Að mati 2. minni hluta er ástæðu of lítils hagvaxtar að leita í verkfælni og úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar. Þrátt fyrir ábendingar bestu manna um hvað gera þurfi og blákaldar staðreyndir um stöðu þjóðarbúsins kemur ríkisstjórnin nánast engu í verk, en framtakssamt fólk væri fyrir löngu búið að leysa úr þeim vandamálum sem ríkisstjórninni reynast óleysanleg.
    Við síðustu fjárlagagerð lagði 2. meiri hluti fram tillögur þess efnis að ekki yrði gengið jafnlangt í skattahækkunum og ríkisstjórnin lagði til og að sóttar yrðu tekjur af séreignarsparnaði upp á 35 milljarða kr. 2. minni hluti bendir á að ef farin hefði verið sú leið hefðu tekjur ríkissjóðs af sköttum að öllum líkindum orðið meiri og uppsafnaður halli fyrir árið 2011 hefði því orðið minni. Þannig hefði verið hægt að verja velferðarkerfið fyrir þeim áföllum sem hafa dunið yfir með tillögum meiri hlutans á þessu og næsta fjárlagaári.
    Annar minni hluti gagnrýndi jafnframt við síðustu fjárlagagerð breytingar á skattkerfinu og lagði áherslu á að skattastefnan væri einföld. Flókið skattkerfi felur í sér mikla óhagkvæmni og myndar hvata til undanskota. Einnig hefur fjöldi erlendra fyrirtækja á síðustu mánuðum lýst yfir áhuga að fjárfesta hér á landi, en helsta hindrunin er pólitísk óvissa (skortur á áreiðanleika) og flókin og óljós skattastefna. 2. minni hluti leggur áherslu á að farið verði rækilega í saumana á því hvernig nýta megi skattaívilnanir til þess að örva atvinnulífið með tilliti til samkeppni, m.a. vegna gagnavera og kvikmyndagerðar.
    Það er mat 2. minni hluta að ríkisstjórnin sé enn á ný að draga úr getu hagkerfisins með skattatillögum sínum sem seinka munu nauðsynlegum bata og auka atvinnuleysi. 2. minni hluti telur mun vænlegra til árangurs að fara í aðgerðir sem stuðla að auknum tekjum ríkissjóðs, m.a. með því að skattleggja séreignarsparnað að hluta til fyrir fram, auka fiskveiðiheimildir, nýta innlenda orku til atvinnusköpunar og nýta framleiðslugetu hagkerfisins.

Breytingartillögur, áherslur og ábendingar.
    Í haust lagði Framsóknarflokkurinn fram raunhæfar tillögur í efnahags- og atvinnumálum. Áður höfðu komið fram tillögur í atvinnumálum þjóðarinnar. Í þeim kemur skýrt fram að íslenska hagkerfið þarf að vera stöðugt, gagnsætt og traust, og fyrirtækjum og einstaklingum búið starfsumhverfi þar sem frumkvæði, dugnaður og samfélagslegt réttlæti séu í hávegum höfð. Þar er skýrt kveðið á um að atvinna sé forsenda hagvaxtar við núverandi aðstæður. Tækifærin séu til staðar og þau þurfi að nýta bæði hvað varðar opinberar framkvæmdir sem reynast hagkvæmar sem og frumkvæði einstaklinga. Rétta þurfi við efnahag landsins og byggja upp velferðarsamfélagið á ný.
    Í tillögunum kemur einnig eftirfarandi fram:
    „Til þess að skapa störf verður hagkerfið að vaxa. Vinnuafl er til staðar og tækifærin eru til staðar. Þau þarf að nýta. Til viðbótar við ábyrg ríkisfjármál mun það leiða til nauðsynlegs vaxtar hagkerfisins. Framsóknarflokkurinn telur að nú þegar þurfi að hefja sérstakt átak í opinberum framkvæmdum og framkvæmdum þar sem opinberir aðilar hafa forustu eða greiða fyrir þótt einkaaðilar framkvæmi. Mikilvægt er að við val á slíkum framkvæmdum sé horft til vinnuaflsfrekra verkefna og arðsemi þeirra. Slíkt skapar atvinnu og eykur hagvöxt. Um leið er mikilvægt að nýta þetta tækifæri sem nú er til nauðsynlegra og arðsamra framkvæmda til framtíðar, meðan raunverulegur þjóðhagslegur framkvæmdakostnaður er í algeru lágmarki.
    Stjórnvöld þurfa að tryggja öryggi atvinnuveganna og rekstrarskilyrði. Mikilvægt er að ríkisvaldið liðki tafarlaust fyrir framkvæmdum og innleiði skattastefnu sem ýtir undir fjárfestingu og umsvif í atvinnulífinu fremur en að draga úr þeim. Mikilvægasta verkefni stjórnmálanna á sviði sjávarútvegs er að skapa stöðugleika og eyða óvissu fyrir greinina svo hún geti dafnað og fjárfest í nýsköpun, aukið arðsemi og hagvöxt.
    Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á langtímaáætlun í ríkis- og opinberum fjármálum yfirleitt og að tryggja sjálfbærni í rekstri. Mikilvægt er að áætlanir í ríkisfjármálum séu gerðar lengra fram í tímann en nú tíðkast og er lagt til að gerðar verði áætlanir um fjármál ríkisins til annars vegar fimm ára og hins vegar tíu ára. Halli í opinberum rekstri er ætíð varasamur og oft beinlínis hættulegur. Aðeins í undantekningartilfellum þar sem tilteknum skilyrðum er fullnægt á að vera heimilt að reka ríkissjóð og sveitarfélög með halla. Frumvarpi með útgjöldum skal ávallt fylgja frumvarp um tekjuöflun á móti.
    Mikilvægt er að hefja vinnu við endurskipulagningu á ríkiskerfinu með það að markmiði að auka skilvirkni og spara kostnað. Í þessu felst m.a. að fara yfir alla helstu útgjaldaliði með það í huga að kanna hvort þeir skili samfélaginu nægilegum ávinningi, lækka raunkostnað við skynsamlegan opinberan rekstur m.a. með aðhaldi og betra hvatningarkerfi fyrir starfsfólk og stjórnendur. Við sparnað og endurbætur í ríkisrekstri er lykilatriði að forgangsraða. Staðinn verði vörður um grunnþætti heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfis, enda er þar um fjárfestingu til framtíðar að ræða.
    Markmið skattlagningar er tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Því miður hafa önnur sjónarmið ríkt síðustu árin. Mikilvægt er að ríkisvaldið liðki tafarlaust fyrir mannaflsfrekum verkefnum með innleiðingu skattastefnu sem ýtir undir fjárfestingu og umsvif í atvinnulífinu fremur en að draga úr þeim. Framsóknarflokkurinn telur að nú þegar hafi allt of langt verið gengið í hækkun skatta á launafólk og heimili. Flest bendir til að þær skattahækkanir sem núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir hafi leitt til vaxandi undanskota frá skatti og dregið úr hvata fólks til öflunar tekna og aukinnar verðmætasköpunar í þjóðfélaginu.“
    Breytingartillögur 2. minni hluta eru byggðar á fyrrgreindum tillögum úr efnahagsstefnu Framsóknarflokksins með það í hyggju að ýta undir fjárfestingu, draga úr atvinnuleysi og verja heilbrigðis- og velferðarkerfi þjóðarinnar.

Um tillögu um tekjur af séreignarsparnaði.
    Annar minni hluti en enn sömu skoðunar og við afgreiðslu fjárlaga 2011 um skattlagningu á séreignarsparnað. 2. minni hluti leggur til að gerðar verði breytingar á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins með skattlagningu á séreignarsparnaði. 2. minni hluti telur þó að skattleggja eigi helming af óskattlögðum séreignarsparnaði landsmanna og þar með aukist tekjur ríkissjóðs um allt að 40 milljarða kr.

Tillaga um aflaaukningu.
    Þingflokkur framsóknarmanna hefur ítrekað lagt til að aflaheimildir yrðu auknar. Ákvörðun yrði tekin að höfðu samráði hagsmunaaðila og vísindasamfélagsins. Miðað við hugmyndir sem lágu til grundvallar tillögugerð flokksins var gert ráð fyrir að áætlað útflutningsverðmæti sjávarafurða gæti aukist um 20–30 milljarða kr. þó svo að staðan á mörkuðum nú sé verri og skili því líklega ekki sama verðmæti og þá. Ætla má að útflutningsverðmætið við aukningu aflaheimilda á árinu 2012 geti skilað á milli 15–20 milljörðum kr. Við mat á áhrifum aflaaukningarinnar á landsframleiðslu má þrefalda útflutningsverðmætið sem gæti samkvæmt þessu aukið landsframleiðslu um allt að 45–60 milljarða kr. Veltuáhrif eru því veruleg. Að auki mundu skatttekjur ríkissjóðs af auðlindagjaldi hækka í samræmi við þá aukningu veiðiheimilda sem ákveðin yrði.

Orkufrek verkefni.
    Orkan á Íslandi er vafalítið sú auðlind sem mestu máli mun skipta um afkomu landsmanna um langa framtíð. Leggja verður áherslu á að á grundvelli framboðs og eftirspurnar verði litlum og millistórum fyrirtækjum sem nota hreina orku, vegna sívaxandi áherslu á umhverfisvernd, gert mögulegt að vaxa og dafna hér á landi. Tryggja þarf fjölbreytni, arðbærni og hraða atvinnuuppbyggingu og að orka bjóðist fyrirtækjum af þessu tagi. 2. minni hluti telur að stjórnvöld eigi án tafar að ráðast í orkufrekar framkvæmdir í Helguvík og á Bakka við Húsavík. Allt of lengi hefur dregist að koma framkvæmdum á þessum stöðum af stað.

Almenn sparnaðarkrafa til aðalskrifstofa ráðuneyta.
    Annar minni hluti leggur til að almenn 3% sparnaðarkrafa verði gerð til aðalskrifstofa ráðuneytanna umfram áform frumvarpsins.

Aukin matvælaframleiðsla.
    Annar minni hluti bendir á þá miklu möguleika sem eru fyrir hendi til að auka matvælaframleiðslu í landinu, m.a. með fullvinnslu afla hér heima. Ónýtt sóknarfæri eru fyrir hendi bæði í landbúnaði og sjávarútvegi.

Hagræðing í rekstri í A-hluta ríkissjóðs.
Heilbrigðismál.
    Í skýrslu OECD frá 28. febrúar 2008 kemur fram að í alþjóðlegum samanburði er heilbrigðiskerfi Íslendinga lofsvert þrátt fyrir að vera óvenju kostnaðarsamt. Nauðsynlegt sé því að auka hagkvæmni og nýtingu fjármuna sem lagðir eru í heilbrigðiskerfið. Ljóst er að Ísland hefur tekið þessar athugasemdir til sín og brugðist við þeim þar sem í skýrslu frá OECD, sem út kom í nóvember 2010, kemur fram að Ísland sé í hópi þeirra ríkja sem hvað best komu út í samanburði á skilvirkni og stefnumörkun í heilbrigðisþjónustu og nýtingu þess fjármagns sem lagt er í þjónustuna. Þykir því ljóst að sú stefna sem Íslendingar hafa markað sér og nýting þeirra fjármuna sem lagðir eru í heilbrigðiskerfið, hafa verið til fyrirmyndar að mati stofnunarinnar þrátt fyrir mikinn kostnað sem því óneitanlega fylgir.
    Í frumvarpinu fyrir fjárlögin fyrir árið 2011 kom fram að sparnaðaráform kalla á umtalsverðar hagræðingaraðgerðir og forgangsröðun verkefna. Er þar um að ræða einu skýru ummerki þess að ríkisstjórnin ætli að breyta heilbrigðiskerfi landsmanna í gegnum fjárlögin. 2. minni hluti hefur gagnrýnt þau áform harkalega og bendir á að meiri hluti velferðarnefndar Alþingis sé á sömu skoðun undir álit nefndarinnar skrifa stjórnarþingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar. Er um að ræða forkastanleg vinnubrögð eins og fjallað verður nánar um hér á eftir.
    Í september sl. skipaði velferðarráðherra ráðgjafarhóp til að skoða hvort þörf væri á grundvallarbreytingum á heilbrigðiskerfinu og í hverju slíkar breytingar gætu falist þannig að unnt væri að uppfylla markmið um öryggi og jöfnuð á sama tíma og aðhaldskröfum fjárlaga væri mætt. Ráðgjafarhópurinn skilaði í október sl. tillögum um skipulag heilbrigðisþjónustu og ráðstöfun fjármuna. Þær fólu m.a. í sér að tekin yrði upp þjónustustýring, endurskoðað yrði greiðslufyrirkomulag fyrir heilbrigðisþjónustu, sameiningu heilbrigðisstofnana yrði lokið og heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu yrði endurskipulögð. Ljóst er að þessar tillögur geta leitt til hagræðis og útgjaldalækkunar fyrir ríkissjóðs og því gagnrýnivert að þessi vinna skyldi ekki fara fram fyrr á þessu ári svo unnt hefði verið að byggja á þeim við vinnu að fjárlagafrumvarpi. Í áliti meiri hluta velferðarnefndar um fjárlagafrumvarpið kemur fram að hann telji jákvætt að vinna ráðgjafarhópsins liggi fyrir en „jafnframt mjög miður að tillögur hópsins hafi ekki verið lagðar til grundvallar við fjárlagavinnuna.“ 2. minni hluti tekur undir þessi orð meiri hluta velferðarnefndar og áréttar mikilvægi þess að þegar kemur að jafn mikilvægum og lífsnauðsynlegum málaflokki og heilbrigðismálum séu ákvarðanir um hagræðingu teknar á grundvelli skýrrar stefnumörkunar og nægra upplýsinga. Í áliti meiri hluta velferðarnefndar er mikilvægi þessa áréttað en þar segir „Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að hagræðing í ríkisrekstri sé grundvölluð á góðum upplýsingum og skýrri stefnumörkun. Ná þarf fram hagkvæmni og réttlátri stýringu almannafjár án þess að þjónusta við sjúklinga eða öryggi þeirra sé skert.“
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011 var gert ráð fyrir miklum niðurskurði í fjárveitingum til einstakra heilbrigðisstofnana. Í kjölfar mikilla mótmæla og athugasemda um fyrirhugaðan niðurskurð kom heilbrigðisráðherra á fót faghópi sem fundaði með stjórnendum og fagfólki á heilbrigðisstofnunum til að leggja mat á möguleika heilbrigðisstofnana til að mæta hagræðingarkröfunum. Þessi vinna varð til þess að 3/ 12 hlutum hagræðingarkröfu á heilbrigðisstofnanir fyrir árið 2011 var frestað fram á næsta ár, þ.e. 348,9 millj. kr.
    Ekki liggja enn fyrir upplýsingar um það hvernig heilbrigðisstofnanir ætla sér að ná fram þeirri hagræðingarkröfu sem á þær eru lagðar. Í áliti meiri hluta velferðarnefndar kemur fram að heilbrigðisstofnanir hafa frest til 2. desember nk. til að skila inn til velferðarráðuneytis tillögum sínum að því hvernig þær hyggjast mæta hagræðingarkröfum. Meiri hlutinn bendir réttilega á að þar sem þriðja umræða fjárlaga á samkvæmt starfsáætlun að fara fram 6. desember hafi hann ekki tækifæri til að fara yfir þær tillögur. Þá áréttar meiri hlutinn „nauðsyn þess að fyrir liggi stefna og áætlun til langs tíma um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustunnar og innan hvaða fjárhagsramma hún á að starfa. Þar þarf t.d. að skoða staðsetningu, samvinnu, sameiningar stofnana eða eininga og skilgreina starfsemina á hverjum stað með það að markmiði að hún sé fagleg, góð og hagkvæm. Þannig ættu allir aðilar að vita til hvers er ætlast af þeim faglega og fjárhagslega og geta lagað starfsemi sína að þeim römmum sem settir eru. Meiri hlutinn telur að í breytingaferli þurfi að setja eðlileg tímamörk svo öllum gefist tóm til aðlögunar.“ 2. minni hluti tekur undir þetta og bendir á að eins og sakir standa er ekki byggt á þeirri stefnumótunarvinnu sem gerð hefur verið, greiningarvinna liggur ekki fyrir, tillögur um það hvernig mæta eigi fyrirhuguðum niðurskurði í hverri stofnun fyrir sig hafa ekki verið kynntar. Það er því ekki tryggt að heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni sé gert mögulegt að bjóða þjónustu í samræmi við þarfir íbúa í hverju heilsugæsluumdæmi eða þjónustusvæði enda er í áliti meiri hluti velferðarnefndar réttilega bent á að ekki liggi fyrir hvaða áhrif niðurskurðurinn mun hafa á einstökum stofnunum, stöðum og landsvæðum.
    Samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er lögð til 1,6% hagræðingarkrafa á heilbrigðisstofnanir. Ofan á hana bætist svo sú hagræðingarkrafa sem frestað var fyrir yfirstandandi ár. Samanlögð lækkun á fjárveitingum til málaflokksins er samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 1.588,5 millj. kr. að frátöldum launa- og verðlagsbreytingum. Það er mismunandi hversu há hagræðingarkrafan er fyrir hverja heilbrigðisstofnun. Þá liggur fyrir að niðurskurðurinn hefur komið mjög misjafnlega niður á þessum stofnunum. Í skýrslunni Samanburður fjárveitinga til heilbrigðisstofnana sem Capacent vann fyrir fjögur sveitarfélög í Þingeyjarsýslum, Norðurþing, Tjörneshrepp, Skútustaðahrepp og Þingeyjarsveit, og sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar (Capacent, 2011) er staðfest með tölulegum gögnum að niðurskurður hefur komið mjög misjafnlega við einstakar stofnanir og við einstaka þætti í heilbrigðisþjónustunni. Þegar skoðað er hvernig niðurskurður hefur verið eftir stofnunum kemur fram að hann hefur verið frá 17,4% á Landspítalanum yfir í 34,8% hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Næstmestur niðurskurður hefur verið hjá Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki, þ.e. 34,1% og Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 32,8%. Í áliti 1. minni hluta velferðarnefndar kemur fram að afleiðing af þessu „er að íbúar á þessum svæðum búa við umtalsvert breytta og skerta þjónustu.“ Tekið er undir með 2. minni hluta velferðarnefndar þar sem hann mótmælir því harðlega „að niðurskurður til heilbrigðisþjónustu komi á þennan máta harðar niður á íbúum einstakra landsvæða, þá sérstaklega í dreifðari byggðum landsins.“ Jafnframt má vera ljóst af þessum niðurskurðartölum að ekki verður gengið mikið lengra í niðurskurði án þess að skerða mjög þjónustu og öryggi sjúklinga. Meiri hluti velferðarnefndar virðist á sama máli enda lýsir hann „yfir áhyggjum af því að ekki verði gengið lengra í hagræðingu án þess að skerða þjónustu og fækka störfum“.
    Í skýrslu ráðgjafarhóps velferðarráðuneytisins um skipulag heilbrigðisþjónustu og ráðstöfun fjármuna kemur fram að útgjöld ríkisins til heilbrigðisþjónustu hafa aukist frá árinu 2008 á meðan að á sama tíma hefur dregið úr fjárveitingum til opinberra heilbrigðisstofnana. M.a. hafa útgjöld ríkisins til sérfræðilækna aukist um 7% á þessum tíma og í fjáraukalögum í ár er gert ráð fyrir 1.159 millj. kr. framlagi til að mæta hækkun á útgjöldum vegna sérfræðilækna á yfirstandandi ári. 2. minni hluti áréttar mikilvægi þess að niðurskurður til heilbrigðisstofnana verði ekki til þess að auka útgjöld ríkisins í dýrari þjónustu. Nauðsynlegt er að skipuleggja heilbrigðisþjónustuna þannig að öryggi sjúklinga og þjónusta við þá sé tryggð ásamt því að fjármagn nýtist sem best. Tekið er undir með 1. minni hluta velferðarnefndar að innleiða þurfi þjónustustýringu í samræmi við tillögur ráðgjafarhóps velferðarráðherra.
    Nauðsynlegt er að standa vörð um heilbrigðiskerfið. Meiri hluti velferðarnefndar áréttar í áliti sínu mikilvægi þess að „vörður sé staðinn um velferðarþjónustu um allt land, að velferðarkerfið sé sem skilvirkast og að í útgjaldasamdrætti séu þeir varðir sem minnst hafa og eru í mestri þörf fyrir velferðarþjónustu og að tryggt sé að hagkvæmasta leiðin sé alltaf valin þegar hægt er.“ 2. minni hluti tekur undir þessi orð og telur þá hagræðingarkröfu sem gerð er til heilbrigðisstofnana ganga gegn þessu. Þannig er ekki tryggt að staðinn sé vörður um heilbrigðisþjónustuna um allt land enda gengið mjög nærri sumum heilbrigðisstofnunum og niðurskurður kemur því mismunandi niður á íbúum landsins. Mikilvægt er að tryggja að heilbrigðiskerfið sé sem skilvirkast. Þrátt fyrir að fyrir liggi tillögur sem miða í þá átt að gera heilbrigðiskerfið skilvirkara er ekki byggt á þeim við gerð fjárlagafrumvarpsins eða við ákvörðun um niðurskurð fjárveitinga til heilbrigðisstofnana. 2. minni hluti telur ekki unnt fyrir heilbrigðisstofnanir að mæta þeirri hagræðingarkröfu sem lögð er til í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi án þess að þjónusta og öryggi sjúklinga verði skert. Þá sé ekki ljóst hvort niðurskurður til heilbrigðisstofnana muni auka annan kostnað til heilbrigðisþjónustu í samræmi við þróun síðustu ára.
    Við vinnu að fjárlögum yfirstandandi árs lagði 2. minni hluti til að niðurskurður á heilbrigðisstofnanir yrði 4,7% í samræmi við almennar aðhaldsráðstafanir heilbrigðisráðuneytis í stað þeirra 5–39,4% hagræðingarkröfu sem gerð var. 2. minni hluti leggur til að hagræðingarkrafa ársins verði 1,5% en horft verði til þeirrar hagræðingar sem heilbrigðisstofnanir hafa náð fram á yfirstandandi ári. Hafi hagræðing numið meiru en 4,7% komi það sem umfram er til frádráttar 1,5% hagræðingarkröfu fyrir árið 2012. Hafi niðurskurður heilbrigðisstofnunar verið meiri en samanlögð hagræðingarkrafa áranna, þ.e. ríflega 6,2% er lagt til að stofnunin fái það bætt. Auk þess er lagt til að tekið verði tillit til hinnar sérhæfðu þjónustu sem Landspítalinn og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri veita og því verði enn minni hagræðingarkrafa gerð til þeirra.
    Annar minni hluti leggur enn á ný til að farið verði gaumgæfilega ofan í breytingartillögur ríkisstjórnarinnar og kannað til hlítar hvaða áhrif þær koma til með að hafa á íbúa landsbyggðarinnar. Þá verði einnig gerð nákvæm kostnaðargreining á heilbrigðisþjónustunni og kannað hvar drepa megi niður fæti í heilbrigðiskerfi landsins, en stjórnvöld hafa hundsað þá beiðni ítrekað. 2. minni hluti lýsir sig andvígan þeirri stefnu sem boðuð var í fjárlagafrumvarpi 2011 og ekki hefur verið horfið frá í nýjum tillögum ríkisstjórnarinnar. Bent er á að þrátt fyrir að niðurskurðurinn sé minni en áður var boðað er skerðingin gagnvart einstökum heilbrigðisstofnunum úti á landi, eins og Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar gríðarleg. Meiri hlutinn hvikar hvergi frá boðaðri byltingu á heilbrigðiskerfi landsmanna og blasir við að útfærslunni eigi að ná fram á lengri tíma en áður enda hefur ríkisstjórnin viðurkennt að of harkalega hafi verið gengið í niðurskurði undanfarinna ára.
    Annar minni hluti leggur því til að sömu hagræðingarkröfu verði skipt jafnt á heilbrigðiskerfið.

Tillögur til útgjalda.
    Annar minni hluti lagði til í tekjukafla álitsins að sóttir yrðu um 40 milljarðar kr. í fyrirframskattlagningu á séreignarsparnað. 2. minni hluti leggur áherslu á það að stærsti hluti þess fjármagns verði nýttur sem hluti af gjaldeyrisvaraforða og til að sporna við frekari lántökum ríkissjóðs. Jafnframt telur 2. minni hluti að aukning aflaheimilda og atvinnuuppbygging í orkufrekum iðnaði muni leiða til aukins hagvaxtar sem síðar muni skila sér í auknum tekjum ríkissjóðs. 2. minni hluti telur að í ljósi fyrrgreinds, og þess að hann hefði hlíft heimilum landsins og barnafólki við skattahækkunum, að þannig hefði myndast svigrúm til að gæta að velferðarkerfinu, efla samgöngur með smærri samgönguverkefnum og tryggja að allir landsmenn megi búa áfram við öryggi með því að efla löggæsluna. Þá telur 2. minni hluti að hækka þurfi fjárframlög til Lánasjóðs íslenskra námsmanna til að hann geti hækkað framfærsluhluta námslána. 2. minni hluti mun leggja fram breytingartillögur um þessi mál fyrir 3. umræðu um fjárlagafrumvarpið.

Almannatryggingar.
    Annar minni hluti leggur til að bætur til atvinnulausra og lífeyrisþega hækki í takt við hækkun lægstu launa. Er um að ræða umsamda hækkun í tengslum við gerð kjarasamninga 5. maí 2011. Samkvæmt kjarasamningunum eiga lægstu laun og þar með bætur að hækka um 11.000 kr. 1. febrúar 2012. Í frumvarpinu til fjárlaga kemur fram að ríkisstjórnin hyggist brjóta samninginn. Atvinnuleysisbæturnar muni aðeins hækka um 5.500 krónur en ekki 11.000 kr. 2. minni hluti leggur til að bæturnar hækki í takt við hækkun lægstu launa.

Minni samgönguverkefni.
    Annar minni hluti leggur til að útgjöld til Vegagerðarinnar verði aukin. Gríðarlegur niðurskurður hefur orðið í samgöngumálum á landsvísu og mun hann fyrst og fremst bitna á smærri samgönguverkefnum í sveitum landsins. Má þar nefna einbreiðar brýr, olíuburð vega og almennt viðhald vega sem telja má nánast ófæra víða um land. Þessi útgjöld munu skapa vinnu víða um land hjá smærri verktökum en þeir hafa orðið illa úti í efnahagshruninu. Einnig er lagt til að niðurgreiðslur á flugi innan lands verði auknar.

Löggæsla.
    Við efnahagshrunið jókst álag á lögreglu víðs vegar um landið. Er nú svo komið að erfitt hefur reynst að manna vaktir og halda uppi lágmarksþjónustu til að tryggja öryggi borgaranna. 2. minni hluti telur brýnt að staðinn verði vörður um þessa grunnþjónustu.

LÍN.
    Annar minni hluti telur mikilvægt að settir verði fjármunir í LÍN til að styrkja framfærslugrunn námsmanna.

Sóknargjöld.
    Annar minni hluti vekur athygli á því að sóknargjöld hafi lækkað um 20% frá árinu 2008 að teknu tilliti til úrsagna úr þjóðkirkjunni. Á sama tíma hafa greiðslur til stofnana innanríkisráðuneytisins hækkað vegna verðbóta um 5%. Nú er svo komið að ekki er hægt að halda úti grunnstarfi í mörgum sóknum víðsvegar um landið auk þess sem viðhaldi á kirkjum hefur ekki verið við komið. Telur 2. minni hluti mikilvægt að setja fjármuni í þennan málaflokk.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands.
    Íþróttahreyfingin hefur mætt erfiðleikum síðustu ára af ábyrgð og sýnt aðstæðum skilning. Niðurskurður íþróttatengdra verkefna í þágu fjárhagslegrar hagræðingar er engan veginn ásættanlegur til lengri tíma. Til að íþróttahreyfingin geti sinnt hlutverki sínu og forvarnagildi verða breytingar að eiga sér stað. 2. minni hluti leggur til að tekið verði tillit til þeirra þátta með auknu fjárframlagi.

Alþingi og Ríkisendurskoðun.
    Annar minni hluti bendir á að Alþingi Íslendinga hefur þurft að mæta harðari niðurskurðarkröfu en ráðuneyti og stofnanir ríkisins. Er það þvert á fyrirmæli í Rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem skýrt er kveðið á um að efla þurfi Alþingi í samanburði við stjórnsýsluna. Þrátt fyrir það hefur Alþingi þurft að taka á sig mun hærri skerðingu en aðalskrifstofur ráðuneytanna. Ríkisendurskoðun hefur jafnframt bent á að hún hafi tekið á sig meiri skerðingu en aðalskrifstofur ráðuneytanna. 2. minni hluti telur að í ljósi þessa sem og að flestar eftirlitsstofnanir landsins hafi verið styrktar þurfi slíkt hið sama að gilda um Ríkisendurskoðun. Er það einnig í samræmi við ítrekaða gagnrýni 2. minni hluta á framkvæmd fjárlaga en Ríkisendurskoðun gegnir þar veigamiklu hlutverki.

Framhaldsskólarnir.
    Lagt er til að framhaldsskólar landsins fái auknar fjárheimildir til rekstrar vegna aukins fjölda nemenda. Þá er lagt til að auknir fjármunir verði lagðir í dreifnám á framhaldsskólastigi.

Fæðingarorlofssjóður.
    Áætlað er að útgjöld sjóðsins lækki um 146,5 millj. kr. vegna aðhaldsaðgerða sem gripið var til árin 2009 og 2010 auk þess sem útgjöld sjóðsins hafi lækkað umtalsvert í kjölfar breytinga sem gerðar voru á hámarksgreiðslum úr sjóðnum á þessum árum. 2. minni hluti leggur til að sjóðurinn verði styrktur á ný þannig að hann þjóni sínum tilgangi.
    
Barnabætur.
    Lagt er til í frumvarpinu að barnabætur nemi 8,3 milljörðum kr. á næsta ári. Er það um 10,2% skerðingu að ræða frá fjárlögum yfirstandandi árs. 2. minni hluti bendir á mikilvægi bótanna til ungs barnafólks en það tilheyrir þeim hópi sem hvað verst hefur farið út úr hruninu og leggur til að þær verði hækkaðar.

Samantekt.
    Annar minni hluti ítrekar að engin úttekt hefur verið gerð á byggðaáhrifum fjárlagafrumvarpsins. Haldið sé áfram með sömu stefnu og lagt var upp með í skerðingu til heilbrigðisstofnana landsins á síðasta ári. Bent er á að meiri hluti velferðarnefndar gagnrýnir þá stefnu harkalega þannig að skiptar skoðanir eru um stefnuna innan stjórnarflokkanna. 2. minni hluti leggur til að snúið verði af þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur lagt upp með í heilbrigðismálum. Er um að ræða röskun á búsetuskilyrðum og búsetuöryggi þjóðarinnar sem getur haft mikil áhrif til langs tíma. Nauðsynlegt er því að hætta við boðaðan niðurskurð og bæta þann skaða sem unninn var í fyrra og taka til umræðu framtíð heilbrigðiskerfis Íslendinga.
    Annar minni hluti bendir á að óvissa og stefnuleysi sem meiri hlutinn veldur með ístöðuleysi sínu og skorti á skýrri stefnumótun kann ekki góðri lukku að stýra við fjármálastjórn næsta árs. 2. minni hluti hvetur ríkisstjórnina til að söðla um og gefa skýr fyrirmæli og setja skýr markmið öllum ríkisrekstrinum til hagsbóta því að afleiðingin af núverandi ástandi er hringlandi og óvissa. Ástæðan virðist sú að ekki sé til staðar nægjanlegur vilji til að taka á vandanum og tilhneiging til að skjóta erfiðum ákvörðunum á frest. Niðurstaðan er því miður sú að ekki virðist fyrir hendi nægilega mikil fagleg verkstjórn þrátt fyrir fyrirheit um annað. Hvetur 2. minni hluti því eindregið til breyttra vinnubragða við fjárlaga- og áætlunargerð ríkisins þar sem horft verði til lengri tíma í senn og að markmið og stefnumótun liggi fyrir.
    Annar minni hluti gagnrýnir harðlega að efnahags- og viðskiptanefnd skuli ekki hafa veitt fjárlaganefnd álit á tekjukafla fjárlaga eins og venja hefur verið undanfarin ár. Einnig gagnrýnir 2. minni hluti að meiri hluti nefndarinnar skuli ekki hafa kynnt það álit sem lagt var fram og rúmaðist á ríflega einni blaðsíðu. 2. minni hluti telur að þrátt fyrir breytingar á þingsköpum verði sá meiri hluti sem ræður ríkjum á Alþingi að sjá til þess að tekjuhlutinn, sem er helmingur fjárlaganna, sé unninn á vandaðan hátt.

Alþingi, 29. nóvember 2011.



Höskuldur Þórhallsson.