Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 21. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 790  —  21. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillöguum tillögu til þingsályktunar um reglubundnar árlegar heimsóknir
til eldri borgara í forvarnaskyni.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Þorvaldsdóttur, Svein Magnússon og Vilborgu Ingólfsdóttur frá velferðarráðuneyti og Gyðu Hjartardóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Fóru þau yfir sjónarmið sín varðandi málið og svöruðu spurningum nefndarmanna.
    Umsagnir bárust frá Akraneskaupstað, félagsmálaráði Akureyrarbæjar, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Hafnarfjarðarbæ, félagsvísindasviði Háskóla Íslands, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Landspítala, öldrunarlækningadeild Landspítala, Landssambandi eldri borgara, Læknafélagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, fjölskyldusviði Mosfellsbæjar, Norðurþingi, félagsþjónustu Reykjanesbæjar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, velferðarráðuneyti, velferðarþjónustu Árnesþings, fjölskyldu- og fræðslusviði Vestmannaeyjabæjar og Öldrunarráði Íslands. Nefndin kynnti sér innsend erindi og fjallaði um þau við meðferð málsins.
    Með tillögu þessari felur Alþingi velferðarráðherra í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga að koma á reglulegum árlegum heimsóknum í forvarnaskyni til handa öllum þeim sem náð hafa 75 ára aldri í því skyni að veita upplýsingar um þá þjónustu sem í boði er svo að fólk á þessum aldri geti búið sem lengst heima. Í slíkri heimsókn væri farið yfir alla þætti sem varða heilsu og aðstæður hins aldraða og metið hvort viðkomandi þurfi á einhverri aðstoð að halda eða ekki.
    Fyrirmyndin er sótt til Danmerkur en þar hafa stjórnvöld tekið skref í þá átt að grípa snemma inn í. Nefndin bendir á að það er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að fólk eigi að geta búið heima eins lengi og kostur er með því að samþætta heimaþjónustu og heimahjúkrun.
    Nefndinni hafa borist nítján umsagnir um málið auk þess sem gestir mættu á fund nefndarinnar og fjölluðu um málið. Umsagnaraðilar eru almennt jákvæðir gagnvart tillögunni en lögð er áhersla á mikilvægi þess að vandað sé til verka við framkvæmdina. Í umsögnum hefur einnig komið fram að heimsóknir af þessu tagi hafa verið fastur hluti af þjónustu við aldrað fólk á þjónustusvæði Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri um nokkurt árabil með góðum árangri. Nefndin tekur undir með umsagnaraðilum um mikilvægi þess að verkefnið sé strax í upphafi þarfa- og kostnaðargreint og umfang þjónustunnar skýrt afmarkað, t.d. varðandi aldur þeirra einstaklinga sem þjónustunnar njóta, tíðni heimsókna og kostnað. Auk þess er nauðsynlegt að strax í upphafi sé skýrt afmarkað hvernig verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga verði háttað.
    Um þessar mundir er unnið að yfirfærslu á málefnum aldraðra frá ríki til sveitarfélaganna þar sem farið er heildstætt yfir málaflokkinn. Það er mat nefndarinnar að sú vinna eigi ekki að koma í veg fyrir að brýn hagsmunamál aldraðra, eins og það sem felst í umræddri tillögu, nái fram að ganga. Nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að við útfærslu verkefnisins verði sjálfsákvörðunarréttur aldraðra virtur og tekið tillit til sjónarmiða þeirra sem hlut eiga að máli. Nefndin ítrekar mikilvægi þess að verkefni þetta sé unnið með hagsmuni aldraðra að leiðarljósi og komið sé til móts við ólíkar þarfir notenda þjónustunnar. Loks gerir nefndin breytingartillögu þess efnis að orðunum „heilbrigðisráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra“ í tillögugreininni verði breytt í „velferðarráðherra“.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:    Í stað orðanna „heilbrigðisráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra“ í tillögugreininni komi: velferðarráðherra.

    Valgerður Bjarnadóttir og Guðmundur Steingrímsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 1. febrúar 2012.Álfheiður Ingadóttir,


formaður.


Eygló Harðardóttir,


framsögumaður.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.Lúðvík Geirsson.


Kristján L. Möller.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.Unnur Brá Konráðsdóttir.